Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 74, 139. löggjafarþing 55. mál: greiðsluaðlögun einstaklinga (tímabundin frestun greiðslna).
Lög nr. 128 15. október 2010.

Lög um breytingu á lögum nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga.


1. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
     Frá gildistöku laga þessara til 1. júlí 2011 hefst tímabundin frestun greiðslna skv. 11. gr. laganna þegar umboðsmaður hefur móttekið umsókn um greiðsluaðlögun. Frestunin tekur einnig til umsókna sem umboðsmaður hefur móttekið fyrir gildistöku laga þessara.
     Móttaka umboðsmanns skuldara á umsókn leiðir þó ekki til tímabundinnar frestunar greiðslna ef umsókn umsækjanda um greiðsluaðlögun hefur verið hafnað á síðustu þremur mánuðum.
     Þegar umboðsmaður skuldara hefur móttekið umsókn skal stofnunin óska eftir því að athugasemd um að umsókn um greiðsluaðlögun hafi borist umboðsmanni verði skráð í þinglýsingabækur, eftir því sem við á, og skal sambærilegrar skráningar óskað vegna þeirra umsókna sem borist hafa fyrir gildistöku laga þessara. Umboðsmaður skal jafnframt birta skráningu um tímabundna frestun greiðslna í Lögbirtingablaði.
     Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 11. gr. laganna nær tímabundin frestun greiðslna samkvæmt ákvæði þessu ekki til krafna sem verða til eftir að frestun greiðslna hefst.
     Skyldur skuldara við greiðsluaðlögun, sbr. 12. gr. laganna, eiga við þegar umsókn hefur verið móttekin af umboðsmanni skuldara og greiðslum frestað tímabundið í samræmi við ákvæði þetta.
     Dragi skuldari umsókn sína til baka fellur tímabundin frestun greiðslna skv. 11. gr. laganna þá þegar niður. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til greiðsluaðlögunar fellur tímabundin frestun greiðslna niður þegar kærufrestur skv. 3. mgr. 7. gr. laganna er liðinn. Kæri skuldari synjun umboðsmanns skuldara framlengist tímabundin frestun greiðslna þar til niðurstaða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála liggur fyrir. Staðfesti kærunefnd greiðsluaðlögunarmála niðurstöðu umboðsmanns skuldara fellur tímabundin frestun greiðslna þá þegar niður. Skal umboðsmaður tilkynna sýslumanni án tafar um niðurfellingu tímabundinnar frestunar greiðslna og óska skráningar á henni í þinglýsingabók. Umboðsmaður skuldara skal jafnframt birta tilkynningu um niðurfellingu í Lögbirtingablaði.
     Ekki ber að greiða þinglýsingargjald af skráningum í þinglýsingabækur samkvæmt ákvæði þessu.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 14. október 2010.