Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 83. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 87  —  83. mál.
Tillaga til þingsályktunarum sérgreiningu landshluta sem vettvang rannsókna, kennslu og atvinnuþróunar.

Flm.: Ólína Þorvarðardóttir, Birgitta Jónsdóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir,


Jórunn Einarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir,
Ólafur Þór Gunnarsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að beita sér fyrir því að rannsókna-, mennta- og atvinnuþróunartækifæri einstakra landshluta verði skilgreind í ljósi sérstöðu og sérhæfingar á hverjum stað. Skilgreiningin verði höfð til hliðsjónar við ákvarðanir um fjárframlög og stuðning við fyrirtæki og stofnanir í viðkomandi landshlutum. Þetta verði gert í tengslum við þá heildarstefnumótun sem boðuð hefur verið af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytis í málefnum háskóla landsins og sem liður í því að:
     a.      marka hverjum landshluta sérstöðu í rannsóknum og kennslu, og
     b.      leggja grunn að uppbyggingu og verkaskiptingu á sviði rannsókna og háskólakennslu á landsvísu.


Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga þessi lýtur að stefnumörkun háskólastarfs í landinu annars vegar og markvissum stuðningi og stefnu fyrir atvinnulíf á landsbyggðinni hins vegar. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur boðað heildarendurskoðun á málefnum háskólanna. Slík endurskoðun kallar á skýrari stefnumótun en verið hefur þar sem umsvif háskólastarfsemi í landinu hafa aukist ört undanfarin ár. Við mótun mennta- og rannsóknastefnu háskólastigsins er mikilvægt að horfa til sérstöðu háskólasvæðanna og nýta sem best þá krafta og þær stofnanir sem fyrir eru í hverjum landshluta.
    Þegar taka þarf ákvarðanir í atvinnumálum er einnig mikilvægt að líta til nýsköpunar- og þróunarmöguleika í samstarfi atvinnufyrirtækja og háskólaumhverfisins.
    Víða um land hefur nú þegar þróast háskóla- og rannsóknaumhverfi með háskólasetrum, rannsókna- og fræðasetrum, fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum, útibúum rannsóknastofnana o.fl.
    Nú, þegar til umræðu er að skerpa stefnumótun íslenska háskólastigsins, liggur beinast við að byggja á þeim grunni sem fyrir er. Þannig væri t.d. eðlilegast að miða rannsókna- og fræðastarf á Vestfjörðum við málefni hafsins og strandsvæða almennt. Slík skilgreining mundi efla rannsóknastofnanir á Vestfjörðum og þau atvinnufyrirtæki sem nú þegar sinna rannsóknum og þróunarstarfi. Á sama hátt mætti hugsa sér að rannsókna- og fræðastarf á Norðurlandi miðaðist við möguleika í ferðaþjónustu, fiskeldi og búnaðarfræðum í tengslum við háskólana á Hólum og Akureyri, rannsóknastofnanir á svæðínu o.fl.
    Þingsályktunartillagan er í góðu samræmi við áður fram komna stefnumótun sveitarfélaga og atvinnulífs, sóknaráætlanir og byggðaáætlanir.
    Í nágrannalöndum okkar er að finna dæmi þess hvernig öflugar háskóla- og rannsóknastofnanir hafa orðið til á grundvelli skilgreiningar sérstöðu af því tagi sem hér er lögð til. Má til dæmis nefna háskólann í Tromsö, sem hefur skilgreint sig á alþjóðavísu sem miðstöð rannsókna og kennslu í málefnum haf- og strandsvæða á norðurslóð, m.a. varðandi lífríki sjávar, veiðar, vistkerfi, loftslag, vatna- og sjávarlíffræði, lífsskilyrði sjávardýra, fæðuval og fæðuframboð, auðlindastjórnun og umhverfishagfræði, svo nokkuð sé nefnt.