Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 97. máls.

Þskj. 103  —  97. mál.


Frumvarp til laga

um breyting á almennum hegningarlögum,
nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum
(samningur Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu) .

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




1. gr.

    Við 6. gr. laganna bætist nýr töluliður er orðast svo: Fyrir háttsemi sem greinir í samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu frá 31. október 2003.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu í tilefni af fyrirhugaðri aðild að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu frá 31. október 2003. Frumvarpið var lagt fram á 138. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 31. október 2003 og öðlaðist gildi 14. desember 2005. Markmiðið með samningnum er þrenns konar, í fyrsta lagi að stuðla að og styrkja ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir og berjast gegn spillingu með skilvirkari og árangursríkari hætti, í öðru lagi að stuðla að, greiða fyrir og styðja við alþjóðlega samvinnu og tæknilega aðstoð í tengslum við þá viðleitni að koma í veg fyrir og berjast gegn spillingu, m.a. við að endurheimta fjármuni, og í þriðja lagi að stuðla að ráðvendni, áreiðanleika og góðri opinberri stjórnsýslu og umsýslu opinberra eigna.
    Samningurinn skiptist í átta efniskafla. Í fyrsta kafla (1.–4. gr.) er að finna almenn ákvæði, annar kafli (5.–14. gr.) fjallar um forvarnaráðstafanir, sá þriðji (15.–42. gr.) fjallar um þær athafnir sem refsiverðar eru samkvæmt samningnum og framkvæmd laga og í þeim fjórða (43.–50. gr.) er mælt fyrir um alþjóðlega samvinnu á þessu sviði. Þá er í fimmta kafla (51.–59. gr.) fjallað um endurheimt eigna, í sjötta kafla (60.–62. gr.) um tæknilega aðstoð og upplýsingaskipti og í sjöunda kafla (63.–64. gr.) um aðferðir við framkvæmd samningsins. Loks er í áttunda kafla (65.–71. gr.) að finna lokaákvæði samningsins, m.a. um lausn deilumála.
    Ákvæði samningsins sem mesta þýðingu hafa fyrir refsilöggjöfina er að finna í þriðja og fimmta kafla hans og verða þau helstu rakin hér á eftir.
    Í 15. gr. er fjallað um mútur til innlendra, opinberra embættismanna og refsinæmi þess annars vegar að bjóða opinberum embættismanni mútur (aktívar mútur) og hins vegar að þiggja mútur (passívar mútur) ef um er að ræða opinberan embættismann.
    Í 16. gr. er kveðið á um refsinæmi mútugreiðslna til erlendra, opinberra embættismanna og embættismanna alþjóðastofnana sem og þess ef slíkir aðilar þiggja mútur.
    Í 17. gr. er kveðið á um refsinæmi þess dragi opinber embættismaður sér fé eða nýti á óréttmætan hátt eða noti án heimildar með öðrum hætti eignir, fé úr opinberum sjóðum eða einkasjóðum eða verðbréf eða hvers kyns önnur verðmæti sem honum er treyst fyrir stöðu sinnar vegna, í eigin þágu eða í þágu annars manns eða aðila.
    Í 18. gr. er fjallað um svokölluð áhrifakaup. Um áhrifakaup er að ræða ef embættismaður eða annar maður, sem hefur raunveruleg eða ætluð áhrif á ákvarðanatöku í tilteknu máli, skiptir þeim áhrifum út fyrir óviðeigandi ávinning frá aðila sem vill hafa áhrif á ákvarðanatökuna. Ákvæði 18. gr. tekur bæði til háttsemi sem felst í því að lofa, bjóða eða veita manni óviðeigandi ávinning sem heldur því fram að hann geti haft óeðlileg áhrif á mann sem fer með ákvörðunarvald (aktív áhrifakaup) og háttsemi sem felst í því að maður, sem heldur slíku fram, fer fram á eða þiggur slíkan ávinning (passív áhrifakaup).
    Samkvæmt 19. gr. skulu samningsríkin taka til athugunar að setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir til þess að gera það að refsiverðu broti að opinber embættismaður misnoti starf sitt eða stöðu af ásettu ráði, þ.e. hafi uppi tiltekna háttsemi eða láti hjá líða að aðhafast eitthvað við störf sín og brjóti með því lög, í þeim tilgangi að fá óréttmætan ávinning sjálfum sér eða öðrum manni eða aðila til handa.
    Í 20. gr. er kveðið á um að samningsríkin skuli taka til athugunar að gera refsivert, þegar um ásetning er að ræða, að auðgast á ólögmætan hátt. Samkvæmt ákvæðinu felst í því þegar veruleg aukning verður á fjármunum opinbers embættismanns sem hann getur ekki með góðu móti útskýrt með tilliti til lögmætra tekna sinna.
    Í 21. gr. er fjallað um mútugreiðslur innan einkageirans og mælt fyrir um refsinæmi aktívra mútugreiðslna og passívra mútugreiðslna.
    Í 22. gr. er fjallað um fjárdrátt á eignum í einkageiranum. Samkvæmt ákvæðinu ber samningsríkjum að taka það til skoðunar að gera þá háttsemi sem ákvæðið mælir fyrir um refsiverða.
    Í 23. gr. er fjallað um refsinæmi peningaþvættis.
    Samkvæmt 24. gr. skulu samningsríkin taka til athugunar að gera það refsivert, þegar um ásetning er að ræða, að leyna eða varðveita áfram eign ef viðkomandi maður veit að slík eign er tilkomin vegna brots, sem gert er refsivert samkvæmt samningnum, ef sú háttsemi er viðhöfð eftir að eitthvert þeirra brota gegn samningnum var framið, án þess að viðkomandi hafi átt hlutdeild í slíku broti.
    Í 25. gr. er sú skylda lögð á samningsríkin að kveða á um refsinæmi þess að hindra framgang réttvísinnar, með því t.d. að hindra embættismann réttarkerfisins eða opinberan starfsmann við skyldustörf sín eða með því að reyna að hafa áhrif á vitnisburð í máli með því að beita líkamlegu ofbeldi, hótunum eða ógnunum eða með því að lofa, bjóða eða veita óréttmætan ávinning.
    Í 26. gr. er fjallað um ábyrgð lögaðila.
    Í 27. gr. er fjallað um tilraun og hlutdeild í broti sem lýst er refsivert samkvæmt samningnum.
    Í 29. gr. er fjallað um fyrningu brota sem lýst eru refsiverð samkvæmt samningnum.
    Í 31. gr. er mælt fyrir um frystingu og haldlagningu muna sem og upptöku ávinnings af glæp eða eignir, búnað eða önnur tæki sem notuð eru eða ætluð til notkunar við að fremja afbrot.
    Í 41. gr. er kveðið á um að samningsríkjum sé heimilt að taka tillit til fyrri sakfellingar meints brotamanns í öðru ríki í því skyni að nota slíka vitneskju við meðferð brots sem gert er refsivert samkvæmt samningnum.
    Í 42. gr. er að finna lögsöguákvæði.
    Í 54. gr. er fjallað um aðferðir við endurheimt eigna með alþjóðlegri samvinnu um upptöku.
    Í 55. gr. er nánar fjallað um alþjóðlega samvinnu í upptökumálum, m.a. um hvernig skuli meðhöndla beðnir um upptöku og hvað skal koma fram í slíkri beiðni.
    Í 57. gr. er fjallað um skil og ráðstöfun fjármuna. Í ákvæðinu er til að mynda gert ráð fyrir því að heimilt sé að skila eignum, sem gerðar hafa verið upptækar, til samningsríkisins sem lagði fram beiðni um upptöku geti viðkomandi ríki sýnt fram á að eignir þær sem gerðar voru upptækar hafi áður verið í eigu þess.
    Þess má jafnframt geta að forsætisráðherra lagði fram frumvarp á 138. löggjafarþingi um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands og fleiri lögum sem ætlað er að skapa lagalega umgjörð um siðareglur fyrir ríkisstarfsmenn og ráðherra. Þar er kveðið á um ferli við innleiðingu siðareglna, eftirlit með reglunum af hálfu stjórnenda og umboðsmanns Alþingis og samhæfingu milli þeirra opinberu aðila sem bera ábyrgð á því að stjórnsýslan standist gæðakröfur. Mæta ákvæði laganna þeim áskilnaði sem gerður er í 6. og 8. gr. samningsins. Frumvarp forsætisráðherra var samþykkt 16. júní 2010, sbr. lög nr. 86/2010.
    Með þingsályktun á 138. löggjafarþingi veitti Alþingi heimild til þess að Ísland gerist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu og fylgdi samningurinn þingsályktunartillögunni.
    Í frumvarpinu er lögð til breyting á 6. gr. almennra hegningarlaga en þar er að finna heimildir til að sækja mann til saka eftir íslenskum hegningarlögum fyrir tiltekin brot enda þótt þau séu framin utan íslenska ríkisins og án tillits til þess hver er að þeim valdur. Í ákvæði 1. gr. frumvarpsins er lögð til viðbót við 6. gr. þannig að það ákvæði taki einnig til brota sem falla undir framangreindan samning Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu og er það gert til að fullnægja skilyrðum skv. 42. gr. samningsins.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum,
nr. 19/1940, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að við 6. gr. laganna bætist nýr töluliður sem heimili að maður verði sóttur til saka eftir íslenskum hegningarlögum fyrir brot sem falla undir samning Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu, enda þótt þau séu framin utan íslenska ríkisins og án tillits til þess hver er valdur að þeim. Lagt er til að ákvæði þetta verði sett inn í lögin vegna fyrirhugaðrar aðildar að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu frá 31. október 2003.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.