Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 106. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 114  —  106. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um óháðan og gagnsæjan uppboðsmarkað fyrir eignir banka og fjármálastofnana sem hafa verið yfirteknar.

Flm.: Birkir Jón Jónsson, Birgir Þórarinsson, Eygló Harðardóttir,
Guðmundur Steingrímsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þórhallsson,
Margrét Tryggvadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,
Siv Friðleifsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þór Saari.


    Alþingi ályktar að fela efnahags- og viðskiptaráðherra að hafa forgöngu um að stofnaður verði óháður og gagnsær uppboðsmarkaður fyrir eignir banka og fjármálastofnana, fyrir utan íbúðarhúsnæði, sem hafa verið yfirteknar á grundvelli 22. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Uppsetning og rekstur markaðarins verði í höndum hins opinbera. Markaðnum er ætlað að auka skilvirkni efnahagslífsins og trúverðugleika íslensks fjármálakerfis, efla traust almennings og stuðla að gagnsærra samfélagi.

Greinargerð.


    Ljóst er að mikil tortryggni ríkir í þjóðfélaginu um starfsemi fjármálastofnana og meðferð þeirra eigna sem stofnanirnar hafa tekið yfir. Nauðsynlegt er fyrir uppbyggingu samfélagsins að allt endursöluferli þessara eigna sé gert lýðræðislegt og gagnsætt, þar sem allir eigi jafna möguleika til þátttöku og við tilboðsgerð í þær eignir sem fjármálastofnanir ætla að selja á hverjum tíma. Með það að leiðarljósi ætti að auðvelda öllum fjármálastofnunum að innleiða upplýstara og augljósara ferli við sölu eigna þar sem allur vafi yrði tekinn af um að fullnægjandi vinnubrögð séu viðhöfð.
    Öllum bönkum og fjármálastofnunum yrði gert að auglýsa yfirteknar eignir sem ætlunin er að selja á þar til gerðum óháðum markaði. Framkvæmd markaðarins yrði á sambærilegu formi og önnur opinber uppboð og færi fram gegnum sérútbúna vefsíðu. Á vefsíðunni yrðu birtar allar nauðsynlegar upplýsingar um eignirnar, þar sem öllum gæfist kostur á að bjóða í hverja eign fyrir sig. Hið opinbera mundi stofna og starfrækja uppboðsmarkaðinn. Stofnun slíks markaðar mundi auka jafnræði í samfélaginu og þar með einnig traust og gagnsæi í þjóðfélaginu, auk þess sem uppboðsmarkaðurinn mundi minnka líkur á að óheilbrigðir viðskiptahættir yrðu viðhafðir.
    Lagt er til að fyrirkomulag við uppboðin verði eftirfarandi:
          Auglýsingatími eigna verði að lágmarki tvær vikur.
          Auglýsingar verði sambærilegar venjubundnum eignaauglýsingum, svo sem fasteignaauglýsingum, og birtar á almennum leitarsíðum.
          Ef hæstu boðum er hafnað ber fjármálastofnun að gera grein fyrir ákvörðun sinni til opinbers eftirlitsaðila, t.d. Fjármálaeftirlitsins eða Ríkiskaupa.
    Helstu kostir opinbers uppboðsmarkaðar af þessu tagi eru að draga úr tækifærum til misnotkunar, koma hreyfingu á fjármagn og viðskipti, stuðla að endurreisn trúverðugleika fjármálakerfisins og fjármálafyrirtækja ásamt því að tryggja jafnræði í sölumeðferð eigna.