Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 107. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 115  —  107. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um staðbundna fjölmiðla.

Flm.: Birkir Jón Jónsson, Björgvin G. Sigurðsson, Gunnar Bragi Sveinsson,


Guðmundur Steingrímsson, Eygló Harðardóttir, Þuríður Backman.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa nefnd er athugi stöðu staðbundinna fjölmiðla og rekstrarumhverfi þeirra og skili skýrslu eigi síðar en 1. mars 2011. Í skýrslunni verði gerð grein fyrir þróun markaðarins undanfarin ár og, ef þurfa þykir, komið með tillögur um beinar eða óbeinar aðgerðir sem ríkisstjórn og Alþingi gætu gripið til í því skyni að efla rekstrargrundvöll staðbundinna fjölmiðla.

Greinargerð.


    Markmið þessarar þingsályktunartillögu er að gerð verði úttekt á þeirri stöðu sem nú er á markaði svæðisbundinna fjölmiðla en slík úttekt getur lagt grundvöll að umræðum um aðgerðir til að efla þessa gerð fjölmiðlunar. Svæðisbundnir fjölmiðlar gegna nú þegar og munu í framtíðinni gegna vaxandi hlutverki fyrir lýðræðislega umræðu.
    Í skýrslu, sem nefnd menntamálaráðherra um eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi vann og gefin var út árið 2005, kom fram að sú skylda hvílir á íslenska ríkinu að stuðla að fjölbreytni í fjölmiðlun. Skýrslan fjallaði nær eingöngu um málefni þeirra fjölmiðla sem hafa útbreiðslu um land allt en að litlu leyti um staðbundna fjölmiðla. Þótt finna megi dæmi um öflugan fjölmiðlarekstur utan höfuðborgarsvæðisins hafa staðbundnir fjölmiðlar átt undir högg að sækja hér á landi. Nauðsynlegt er að gera sérstaka úttekt á stöðu þessara miðla svo ræða megi hvort sérstakra aðgerða er þörf til að efla stöðu þeirra.
    Í skýrslu fjölmiðlanefndar kemur fram að ríkisstyrkir séu ein þeirra leiða sem til greina komi til þess að standa vörð um fjölbreytni í fjölmiðlun í landinu. Er þar vísað til tilmæla Evrópuráðsins um að ríki hugi að því hvort ástæða sé til að veita prentmiðlum og útvarpsmiðlum sérstakan fjárstuðning, einkum svæðisbundnum miðlum. Að teknu tilliti til samkeppnissjónarmiða skuli miðað við að stuðningur af þessu tagi sé byggður á hlutlægum sjónarmiðum, á grundvelli gegnsærra reglna og málsmeðferðar, sem sæti ytra eftirliti. Ákvarðanir af þessum toga sæti jafnframt reglubundinni endurskoðun til að komast hjá því að þær ýti undir samþjöppun eða óeðlilegan ábata þeirra sem njóta opinbers stuðnings. Nefndin gerði þó ekki tillögu um að þessi leið yrði farin.
    Sameining sveitarfélaga leiðir til þess að þörf íbúanna eykst fyrir staðbundna fjölmiðlun sem í senn veitir upplýsingar um verkefni stjórnvalda og er vettvangur opinberrar umræðu um málefni hvers sveitarfélags.
    Í ljósi efnahagsaðstæðna og rekstrarumhverfis fjölmiðla á landsbyggðinni hefur aldrei verið eins mikilvægt og nú að standa vörð um rekstur þeirra. Minni þjónusta Ríkisútvarpsins við landsbyggðina gerir það enn mikilvægara að efla rekstrargrundvöll fjölmiðla á landsbyggðinni. Gert er ráð fyrir að nefndin skili skýrslu eigi síðar en 1. mars 2011.