Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 114. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Prentað upp.

Þskj. 123  —  114. mál.
Leiðrétting.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007.

Flm.: Birkir Jón Jónsson, Eygló Harðardóttir, Vigdís Hauksdóttir.1. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „97.978“ í 1. mgr. 4. gr. laganna kemur: 113.944.

2. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er að greiða umönnunargreiðslur, allt að 113.944 kr., maka elli- eða örorkulífeyrisþega, sem dvelst í heimahúsi, eða öðrum nákomnum lífeyrisþeganum sem annast lífeyrisþegann. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Lagt er til að núverandi hámark umönnunargreiðslna til framfærenda fatlaðra og langveikra barna, sem dveljast í heimahúsi eða á sjúkrahúsi, verði hækkað úr 96.978 kr. á mánuði í 113.944 kr. á mánuði. Eru þær breytingar í samræmi við hækkanir sem orðið hafa á grunnlífeyri og tekjutengingu almannatrygginga, en heimilt er samkvæmt núgildandi 5. gr. að greiða allt að 80% af þeirri upphæð til maka elli- eða örorkulífeyrisþega.
    Núverandi lagaákvæði í 5. gr. er jafnframt rýmkað nokkuð með frumvarpinu. Í fyrsta lagi verða heimilar umönnunargreiðslur til annarra en þeirra sem eiga sameiginlegt lögheimili með elli- eða örorkulífeyrisþeganum og er þá miðað við að sá sem umönnunargreiðslur fær sé nákominn lífeyrisþeganum, ættingi eða náinn vinur. Í öðru lagi eru lagðar niður núverandi makabætur og umönnunarbætur og þess í stað lagt til að teknar verði upp umönnunargreiðslur skv. 4. gr. laganna eins og hún mun breytast verði þetta frumvarp samþykkt. Við það hækka greiðslurnar úr því að vera allt að 80% af grunnlífeyri og tekjutryggingu almannatrygginga eða um 97.388 kr. í allt að 113.944 kr. á mánuði. Loks er í þriðja lagi fellt úr gildandi lögum skilyrði um að sérstakar aðstæður þurfi að vera fyrir hendi og þannig verður heimild laganna rýmri en áður.
    Breytingarnar í frumvarpinu munu sérstaklega gagnast aðstandendum alzheimer-sjúklinga og annarra þeirra sem þurfa stöðuga umönnun og athygli, þær eru auk þess í takt við sjálfsagðar kröfur sem nú eru uppi um að öldruðum verði gert kleift að búa sem lengst á eigin heimili og auka með þeim hætti lífsgæði þeirra.
    Þrátt fyrir nokkra hækkun á greiðslum verður kostnaður við umönnun á hverjum mánuði einungis sem svarar einnar viku kostnaði við hjúkrunarrými og því má leiða að því sterkar líkur að umrædd breyting leiði til sparnaðar fyrir ríkissjóð. Rýmkun á heimild laganna mun vafalaust fjölga þeim sem fá umönnunargreiðslur, enda til þess ætlast. Ekki er unnt að leggja mat á þann kostnað að svo stöddu né þann sparnað fyrir ríkissjóð sem hlýst af því að viðkomandi mun líklega dvelja lengur í heimahúsi en ella. Þykir því rétt að hafa lagaákvæðið í formi heimildar um sinn.