Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 136. máls.

Þskj. 149  —  136. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, með síðari breytingum
(samskiptaáætlun, stjórnun og úthlutun tíðna o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




I. KAFLI

Samskiptaáætlun.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      3.–5. mgr. orðast svo:
                  Ráðherra leggur á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um samskiptaáætlun þar sem mörkuð skal stefna fyrir næstu tólf árin. Í samskiptaáætlun skal gera grein fyrir ástandi og horfum hvað varðar fjarskipti í landinu, og meta og taka tillit til þarfa samfélagsins fyrir bætt fjarskipti. Skilgreina skal markmið stjórnvalda sem stefna ber að og þannig leggja grunn að framþróun íslensks samfélags. Markmiðin skulu stuðla að aðgengilegum og greiðum, hagkvæmum og skilvirkum, öruggum og umhverfisvænum fjarskiptum. Heimilt skal í samskiptaáætlun að skoða fjarskipti heildstætt í tengslum við aðra þætti samskipta, svo sem rafræn samskipti og samskipti sem byggjast á póstþjónustu.
                  Í samskiptaáætlun skal leggja áherslu á að:
                  1.      ná fram víðtæku samstarfi markaðarins, neytenda, opinberra stofnana og ráðuneyta um stefnumótun er varðar samskipti,
                  2.      styrkja samkeppni á fjarskiptamarkaði og auka samkeppnishæfni Íslands,
                  3.      tryggja öryggi almennra fjarskiptaneta innan lands og tengingar Íslands við umheiminn,
                  4.      ná fram hagkvæmri notkun fjármagns og hámarka jákvæð áhrif samskiptatækni á hagvöxt,
                  5.      ná fram samræmdri forgangsröðun og stefnumótun, og skal forgangsröðun byggjast á mati á þörf á úrbótum á landinu í heild og í einstökum landshlutum,
                  6.      stuðla að atvinnuuppbyggingu, eflingu lífsgæða og jákvæðri byggðaþróun.
                  Í samskiptaáætlun skal jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fjögurra ára, og leggur ráðherra fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um slíka áætlun. Aðgerðaáætlun skal endurskoðuð á tveggja ára fresti og má þá leggja nýja þingsályktunartillögu fyrir Alþingi, en það skal gert eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti. Í fjögurra ára áætlun skal gera grein fyrir fjáröflun og útgjöldum eftir einstökum verkefnum eins og við á. Samskiptaáætlun og fjögurra ára áætlun hennar taka gildi þegar Alþingi hefur samþykkt þær sem þingsályktanir.
     b.      Í stað orðsins „fjarskiptaáætlun“ í c-lið 6. mgr. kemur: samskiptaáætlun.

II. KAFLI


Stjórnun og úthlutun tíðna.


2. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Fjarskiptatíðnir innan íslensks yfirráðasvæðis og númer úr íslenska númeraskipulaginu eru auðlindir undir stjórn íslenska ríkisins. Úthlutun á tíðnum og númerum felur í sér tímabundna heimild til skilyrtra afnota sem hvorki leiðir til eignarréttar né varanlegs nýtingar- og ráðstöfunarréttar.
    Póst- og fjarskiptastofnun veitir réttindi til að nota tíðnir og númer. Samkvæmt ákvörðun stofnunarinnar eru tiltekin tíðnisvið opin til notkunar án sérstakrar úthlutunar. Sérstaka úthlutun tíðna skal viðhafa ef þörf er á til þess að koma í veg fyrir skaðlegar truflanir, tryggja tæknileg gæði þjónustu, tryggja skilvirka notkun tíðna eða til að uppfylla markmið varðandi aðra skilgreinda almannahagsmuni. Heimilt er að kveða á um nánari skilyrði almennrar heimildar í reglugerð.
    Þegar réttindi til notkunar ákveðinna tíðna og númera falla ekki undir almenna heimild úthlutar Póst- og fjarskiptastofnun slíkum réttindum, að fenginni umsókn, til fjarskiptafyrirtækja sem reka eða nota fjarskiptanet eða þjónustu. Einnig má úthluta réttindum fyrir notkun tíðna til útvarpsstöðva að lokinni opinni og gegnsærri málsmeðferð án mismununar, enda þjóni slík úthlutun markmiðum stjórnvalda. Að auki má úthluta réttindum fyrir notkun tíðna til aðila sem starfrækja þráðlausan fjarskiptabúnað til eigin nota.
    Réttindi samkvæmt þessari grein eru bundin við nafn og er framsal óheimilt nema annað sé sérstaklega tekið fram við úthlutun þeirra eða í reglugerð. Öll skilyrði sem sett eru við úthlutun réttinda gilda áfram ef réttindin eru framseld eða leigð nema Póst- og fjarskiptastofnun ákveði annað. Ávallt skal tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun um framsal eða leigu réttinda.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal tryggja að tíðnir séu notaðar með áhrifaríkum og skilvirkum hætti. Tryggja skal að samkeppni sé ekki hindruð með framsali og uppsöfnun tíðniréttinda og í þeim tilgangi er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að afturkalla og endurúthluta tíðnum eða mæla fyrir um sölu eða leigu réttinda.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal birta opinberlega upplýsingar um öll réttindi til notkunar á tíðnum og númerum og rétthafa þeirra. Tíðniheimildir sem veittar eru til eigin nota má undanskilja birtingu, svo og upplýsingar um tíðniheimildir sem sanngjarnt og eðlilegt er að leynt fari vegna mikilvægra öryggis-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuna rétthafa.

3. gr.

    Í stað 2. og 3. málsl. 9. gr. laganna kemur einn málsliður sem orðast svo: Við töku ákvarðana um að takmarka fjölda réttinda eða framlengja gildistíma réttinda á tíðnisviði þar sem fjöldi réttinda er takmarkaður skal leggja áherslu á hagsmuni notenda og að örva samkeppni, auk þess sem tillit skal tekið til hvata og áhættu við fjárfestingar, og skal öllum hagsmunaaðilum, þ.m.t. notendum, gefið tækifæri til þess að tjá sig um takmarkanir á réttindum áður en Póst- og fjarskiptastofnun tekur ákvörðun sína sem skal birt ásamt rökstuðningi.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      A-liður 1. mgr. orðast svo: að úthlutun tíðna taki aðeins til ákveðinnar þjónustu eða tækni ásamt útbreiðslu- og gæðakröfum þegar við á.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr stafliður sem orðast svo: sérstök skilyrði varðandi notkun tíðna í tilraunaskyni.
     c.      A-liður 2. mgr. orðast svo: að úthlutun réttinda til að nota númer gildi aðeins fyrir ákveðna þjónustu, þ.m.t. eru skilyrði um verðlagningu símtala í ákveðnum númeraröðum í þeim tilgangi að tryggja vernd neytenda.

5. gr.

    11. gr. laganna orðast svo:
    Póst- og fjarskiptastofnun skal taka ákvörðun um réttindi til þess að nota tíðnir og númer eins fljótt og unnt er eftir móttöku umsóknar. Ákvörðun skal liggja fyrir innan þriggja vikna ef um er að ræða númer sem ætluð eru til ákveðinnar notkunar samkvæmt númeraskipulaginu og innan sex vikna ef tíðnir eru ætlaðar til ákveðinnar notkunar í tíðniskipulaginu.
    Umsókn um réttindi til tíðninotkunar skal taka til afgreiðslu án tafar ef hún lýtur eingöngu að óverulegum hluta af skilgreindu tíðnisviði og úthlutun hefur þannig ekki teljandi áhrif á framboð þess eða neikvæð áhrif á samkeppni.
    Nú berst Póst- og fjarskiptastofnun umsókn um tíðnir til að veita almenna fjarskiptaþjónustu eða til útvarps, sem ekki fellur undir 2. mgr., og skal stofnunin þá með auglýsingu kanna hugsanlegan vilja annarra til að fá úthlutun á umræddu tíðnisviði. Komi í ljós áhugi um að fá úthlutun á viðkomandi tíðnisviði er heimilt að taka ákvörðun um að úthlutun fari fram með útboði eða uppboði skv. 6. eða 7. mgr. eftir því sem við á.
    Krefjast má þess af umsækjendum um réttindi að þeir leggi fram fullnægjandi upplýsingar um eignaraðild, fjárhagsstöðu og fyrirhugaða starfsemi, svo og aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar teljast til að leggja mat á umsóknir þeirra. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að setja sérstök skilyrði varðandi hæfi umsækjanda um fjarskipta- og útvarpstíðnir til að fá úthlutun, svo sem um fjárhagslega burði til uppbyggingar og reksturs fjarskiptanets sem ætlað er til að nota þær tíðnir sem sótt er um, tæknilega getu og reynslu umsækjanda til að reka almenna fjarskiptaþjónustu og að umsækjandi hafi ekki brotið alvarlega eða ítrekað gegn ákvæðum laga þessara eða vanefnt verulega skilmála fyrri úthlutana tíðniréttinda.
    Setja má skorður við úthlutun tíðna fyrir hljóðvarp og sjónvarp sem byggjast á menningarlegum sjónarmiðum, svo sem til þess að stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu. Einnig má setja skorður við úthlutun tíðna ef úthlutun getur orðið til þess að hindra virka samkeppni á fjölmiðlamarkaði.
    Viðhafa má útboð við úthlutun réttinda til að nota númer og tíðnir. Útboð skal að jafnaði vera opið en heimilt er að hafa útboð lokað að undangengnu opnu forvali. Póst- og fjarskiptastofnun annast framkvæmd útboða og ákveður skilmála í útboðslýsingu. Útboðslýsing skal innihalda allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að bjóðanda sé unnt að leggja fram tilboð í réttindi. Í útboðslýsingu fyrir útboð á tíðnum skulu m.a. koma fram upplýsingar um lágmarksþjónustusvæði, afmörkun þess tíðnisviðs sem boðið er út, hversu mörg réttindi eru í boði, gildistími réttinda, hvort réttindin verða bundin við tiltekna þjónustu eða tækni, hæfi bjóðenda, aðra skilmála varðandi útboðið sjálft og um notkun og nýtingu á því tíðnisviði sem boðið er út. Skýrar upplýsingar skulu koma fram um mat á tilboðum. Óheimilt er að leggja fram frávikstilboð nema það sé sérstaklega heimilað í útboðslýsingu. Heimilt er að takmarka fjölda tilboða frá hverjum bjóðanda eða tengdum aðilum og einnig er heimilt að takmarka þátttöku aðila sem þegar hafa réttindi á sambærilegu tíðnisviði.
    Ráðherra getur ákveðið að úthlutun fari fram að loknu uppboði. Í ákvörðun um uppboð skal koma fram hvort réttindi skuli bundin skilyrðum sem þjóna eiga samfélagslegum markmiðum, t.d. að ákveðin þjónusta verði boðin á tilteknu útbreiðslusvæði. Póst- og fjarskiptastofnun ákveður skilmála uppboðs að öðru leyti. Póst- og fjarskiptastofnun annast framkvæmd uppboða og úthlutun réttinda að loknu uppboði. Póst- og fjarskiptastofnun getur falið öðrum hæfum aðila að annast tiltekna þætti í framkvæmd uppboðs. Í uppboðsskilmálum skal tilgreina nákvæmlega þær tíðnir eða númer sem boðin eru upp, gildistíma réttinda, hvort réttindin verða bundin við tiltekna þjónustu eða tækni, greiðslufyrirkomulag, lágmarkskröfur sem gerðar eru til bjóðenda, aðra skilmála varðandi uppboðið sjálft og um notkun og nýtingu á því tíðnisviði eða númerum sem boðin eru upp. Í skilmálum er m.a. heimilt að mæla fyrir um þátttökugjald sem standa skal straum af kostnaði við undirbúning og framkvæmd uppboðs. Ákveða má lágmarksboð sem skal ekki vera hærra en sem svarar fimmtánföldu árgjaldi fyrir viðkomandi tíðnir eða númer eins og það er ákveðið í lögum um Póst- og fjarskiptastofnun. Ákveða má afslátt af lágmarksboði fyrir tíðniréttindi, til að mynda gegn kvöð um íþyngjandi skilyrði, svo sem um útbreiðslu og gæði þjónustu. Ákveða má brottvísun aðila frá uppboði og sektir ef ekki er staðið við tilboð eða brotið er gegn uppboðsskilmálum og geta þær numið allt að einföldu árgjaldi fyrir þau réttindi sem boðið er í, eða þeim mismun sem er á tilboði sem ekki er staðið við og þeirri greiðslu sem fæst fyrir réttindin í lok uppboðs. Áskilja má að trygging sé sett fyrir greiðslu tilboða og sekta. Heimilt er að takmarka fjölda tilboða frá hverjum bjóðanda eða tengdum aðilum og einnig er heimilt að takmarka þátttöku aðila sem þegar hafa réttindi á sambærilegu númera- eða tíðnisviði.
    Við úthlutun réttinda er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að ákveða fyrir fram fjárhæð og fyrirkomulag dagsekta sem leggjast á fjarskiptafyrirtæki sem ekki uppfyllir þær skuldbindingar sem réttindin kveða á um. Dagsektir samkvæmt þessu ákvæði geta numið allt að 500.000 kr. á dag.
    Ef ákveðið er að halda útboð eða uppboð við úthlutun númera er heimilt að framlengja málsmeðferðarfrest skv. 1. mgr. um þrjár vikur. Ef ákveðið er að halda útboð eða uppboð við úthlutun tíðna er einnig heimilt að framlengja málsmeðferðarfrest skv. 1. mgr., þó ekki lengur en um átta mánuði.
    Nánar skal kveðið á um málsmeðferð við veitingu réttinda til að nota tíðnir í reglugerð sem ráðherra setur. Í reglugerðinni skal m.a. kveða nánar á um framkvæmd og skilmála útboða og uppboða.

6. gr.

    12. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

    Breytingar og afturköllun á réttindum.


    Þegar sérstaklega stendur á, svo sem vegna breytinga á löggjöf, er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að breyta skilyrðum í almennum heimildum og skilyrðum fyrir úthlutun réttinda.
    Réttindi til notkunar tíðna og númera má afturkalla í þágu almannahagsmuna ef mikilvægar forsendur fyrir réttindunum breytast eða bresta, t.d. vegna alþjóðlegra samþykkta sem Ísland er aðili að.
    Fyrirhugaðar breytingar og afturkallanir skulu kynntar hagsmunaaðilum, þ.m.t. notendum, með hæfilegum fyrirvara sem þó skal ekki vera styttri en mánuður.
    Ef réttindum til tíðninotkunar er úthlutað til 10 ára eða lengri tíma og ekki er heimilt að framselja eða leigja réttindin skal Póst- og fjarskiptastofnun fylgjast með því hvort þörf sé fyrir úthlutun sérstakra réttinda, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 7. gr., allan gildistíma réttindanna og ef sú þörf er ekki lengur til staðar er heimilt að breyta réttindunum í almenna heimild eða heimila framsal eða leigu þeirra með hæfilegum fyrirvara.
    Ef gildistími réttinda til notkunar á tíðnum eða númerum er framlengdur er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að gera breytingar á skilyrðum réttindanna eða bæta við skilyrðum.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Póst- og fjarskiptastofnun skal í samræmi við alþjóðlegar samþykktir þar að lútandi stuðla að sem hagkvæmastri nýtingu tíðnirófsins og að skaðlegar truflanir á viðtöku þráðlausra merkja verði sem minnstar. Stofnunin skal skipuleggja notkun mismunandi hluta tíðnirófsins, skrá skipulagið og birta það opinberlega, og veita upplýsingar um skipulagið eftir þörfum. Stofnunin getur ákveðið að ákvarðanir alþjóðastofnana, sem Ísland á aðild að, varðandi skipulag og nýtingu tíðnirófsins verði bindandi hér á landi og skal þá vísað til þeirra í tíðniskipulaginu sem stofnunin birtir.
     b.      Á eftir 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
                  Ekki skal binda notkun tíðna við ákveðna tækni nema það sé nauðsynlegt til þess að forðast skaðlegar truflanir, vernda almenning gegn áhrifum rafsegulgeislunar, tryggja tæknileg gæði, stuðla að samnýtingu tíðna, tryggja skilvirka notkun tíðna eða til að uppfylla markmið varðandi aðra skilgreinda almannahagsmuni.
                  Ekki skal binda notkun tíðna við ákveðna þjónustu nema þörf sé á því til að uppfylla almenn markmið stjórnvalda eða til að tryggja samræmi við alþjóðlegar samþykktir sem Ísland er aðili að.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Skipulag tíðnirófsins.

III. KAFLI

Önnur ákvæði.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 62. gr. laganna:
     a.      9. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Þrátt fyrir leyfisskyldu vegna þráðlauss sendibúnaðar skv. 1. mgr. er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að ákveða að þráðlaus sendibúnaður til tiltekinnar notkunar skuli eingöngu vera háður tilkynningarskyldu til stofnunarinnar. Heimild til notkunar slíks búnaðar er þá bundin því að Póst- og fjarskiptastofnun geri ekki athugasemd við staðsetningu búnaðarins eða eiginleika hans og virkni. Óheimilt er að nota tilkynningarskyldan sendibúnað sem ekki hefur verið tilkynntur. Póst- og fjarskiptastofnun getur sett reglur um tilkynningu þráðlauss sendibúnaðar, þ.m.t. um þær kröfur sem gerðar eru til tíðnirétthafa á þeim tíðnisviðum sem slíkur búnaður starfar á.

9. gr.

    Á eftir 62. gr. kemur ný grein, 62. gr. a, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

    Gagnagrunnur um þráðlausan sendibúnað.


    Póst- og fjarskiptastofnun skal halda rafrænan gagnagrunn um þráðlausan sendibúnað. Í gagnagrunninn skal skrá upplýsingar um staðsetningu og tæknilega eiginleika senda, m.a. um sendistyrk og sendistefnu, bandbreidd og tengingu búnaðarins við almenn fjarskiptanet. Skylt er að veita Póst- og fjarskiptastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til skráningar í gagnagrunninn á því formi sem stofnunin ákveður.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að hagnýta upplýsingar í gagnagrunninum í starfsemi sinni, m.a. vegna:
     a.      eftirlits með virkni, öryggi og heildstæði fjarskiptaneta,
     b.      aðgerða til að finna og koma í veg fyrir skaðlegar fjarskiptatruflanir,
     c.      gerðar korta um útbreiðslu fjarskiptasendinga.
    Heimilt er að nýta upplýsingar í gagnagrunninum í stefnumótun á sviði fjarskipta. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að veita öðrum viðeigandi stjórnvöldum aðgang að gagnagrunninum, að hluta eða öllu leyti, til þess að vinna að verkefnum og uppfylla skyldur sínar á sviði almannavarna, heilsuverndar, skipulagsmála og umhverfismála. Falli til kostnaður við að koma slíkum aðgangi á skal hann borinn af því stjórnvaldi sem hans óskar.
    Heimilt er að opna fyrir takmarkaðan aðgang fyrir almenning að gagnagrunninum. Þó skal opinber aðgangur að upplýsingum í gagnagrunninum vera háður takmörkunum sem Póst- og fjarskiptastofnun ákveður, svo sem vegna upplýsinga er varða mikilvæga viðskipta- og öryggishagsmuni. Póst- og fjarskiptastofnun setur reglur um skráningu og breytingar upplýsinga og um birtingu og aðgang að upplýsingum í gagnagrunninum.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal heimilt á grundvelli sérstaks þjónustusamnings að fela óháðum aðila að hýsa og reka gagnagrunninn, séu viðeigandi kröfur um öryggi upplýsinga uppfylltar.

10. gr.

    64. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Takmörkun fjarskipta vegna truflana eða sérstakra aðgerða.


    Póst- og fjarskiptastofnun getur látið innsigla fjarskiptavirki og rafföng eða hluta þeirra eða bannað notkun þeirra og eftir atvikum fyrirskipað að þau skuli afhent til geymslu undir innsigli ef fjarskiptavirkin eða rafföngin valda skaðlegum truflunum á fjarskiptum eða hætta er á að öryggi fjarskipta sé raskað.
    Nú liggur fyrir að rafföng, tæki, raflagnir, pípur, leiðslur eða því um líkt valda skaðlegri truflun á rekstri fjarskiptavirkis og er Póst- og fjarskiptastofnun þá heimilt að beina fyrirmælum til eiganda slíks hlutar um að hann grípi á eigin kostnað til viðeigandi úrbóta án tafar, taki t.d. niður, færi eða fjarlægi viðkomandi hlut sem veldur skaðlegri truflun.
    Vanræki eigandi að framkvæma fyrirmæli um úrbætur getur Póst- og fjarskiptastofnun látið vinna verkið á kostnað eiganda. Krafa um kostnað vegna þessa er aðfararhæf samkvæmt 5. tölul. 1. gr. laga nr. 90/1989, um aðför.
    Ef þörf krefur er lögreglu skylt að aðstoða Póst- og fjarskiptastofnun við þær aðgerðir er greinir í 1. og 2. mgr.
    Að fenginni beiðni frá Fangelsismálastofnun getur Póst- og fjarskiptastofnun veitt heimild fyrir truflun þráðlausra fjarskipta innan sérstaklega afmarkaðs svæðis vegna framkvæmdar á öryggis- og refsigæslu. Áður en slík heimild er veitt skal stofnunin leita álits fjarskiptafyrirtækja sem veita þráðlausa fjarskiptaþjónustu á viðkomandi svæði.

11. gr.

    4. mgr. 71. gr. laganna fellur brott.

IV. KAFLI

Gildistaka.

12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Við úthlutun eða endurúthlutun á tíðniréttindum á 890,1–914,9 / 935,1–959,9 MHz og 880–890 / 925–935 MHz tíðnisviðunum fram til 31. desember 2012 skal taka gjald sem nemur 1.500.000 kr. fyrir hvert úthlutað MHz af tíðnisviði. Innan sömu tímamarka skal fyrir úthlutun eða endurúthlutun tíðniréttinda á 1710,1–1784,9 / 1805,1–1879,9 MHz tíðnisviðinu taka gjald sem nemur 500.000 kr. fyrir hvert úthlutað MHz af tíðnisviði. Gjaldið miðast við að tíðniréttindin séu gefin út til 10 ára. Sé tíðniréttindum úthlutað til lengri eða skemmri tíma skal greiða hlutfallslega í samræmi við það. Gjaldið greiðist í ríkissjóð. Ákvæði þetta gildir ekki ef tíðniréttindum er úthlutað eða endurúthlutað með uppboði.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Frumvarp þetta til laga um breytingu á lögum nr. 81/2003, um fjarskipti, er samið í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Frumvarpið hefur verið unnið í samráði við Póst- og fjarskiptastofnun. Var jafnframt haft samráð við dómsmála- og mannréttindaráðuneyti og umhverfisráðuneyti varðandi einstakar greinar frumvarpsins. Við undirbúning frumvarpsins var aukinheldur leitað eftir umsögnum hagsmunaaðila og drögin kynnt sérstaklega fyrir aðilum fjarskiptaráðs, en fjarskiptaráð starfar á grundvelli 6. mgr. 2. gr. fjarskiptalaga og er samráðsvettvangur hagsmunaaðila um bætt fjarskipti og ber ráðinu að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um fjarskiptamál. Þá voru frumvarpsdrögin birt á vefsíðu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og auglýst eftir umsögnum um frumvarpið. Bárust nokkrar umsagnir frá hagsmunaaðilum og var tekið tillit til athugasemda eins og rétt þótti.
    Hröð tækniþróun og örar breytingar á markaðnum eru eitt helsta einkenni fjarskiptamarkaðarins, og fjarskiptatækni og upplýsingatækni hafa þróast ört á undanförnum árum. Svo að Ísland megi vera í fremstu röð tæknivæddra ríkja með aðgengilega, hagkvæma og örugga fjarskiptaþjónustu er nauðsynlegt að tryggja að lagaumhverfið fylgi þróuninni eftir.
    Tilgangur frumvarps þessa er þríþættur og eru helstu breytingar og nýmæli sem ráðgerð eru með frumvarpinu eftirfarandi:
    Fyrsti kafli frumvarpsins lýtur að breytingum á fjarskiptaáætlun, með það að markmiði að samræma áætlanagerð innan ráðuneytisins, sem og að samræma hana við aðra áætlanagerð hins opinbera, þ.m.t. við Sóknaráætlun 20/20.
    Annar kafli frumvarpsins hefur að geyma breytingar á reglum um stjórnun og úthlutun tíðna, sem ætlað er að auka hagkvæmni og skilvirkni stjórnunar þessara gæða. Yfirráðaréttur íslenska ríkisins yfir tíðnum og númerum er staðfestur og skýrt kveðið á um að heimildir til notkunar tíðna og númera feli aðeins í sér skilyrtan afnotarétt í tiltekinn tíma en ekki eignarrétt af nokkru tagi. Tíðnir og númer eru takmörkuð auðlind og eru umtalsverð verðmæti falin í réttindum til notkunar þeirra. Miklu máli skiptir að við úthlutun þessara gæða sé farið eftir hlutlægum og gagnsæjum sjónarmiðum á grundvelli fyrir fram ákveðinna reglna þannig að sem best verði tryggt að markmiðum um sanngirni og jafnræði sé náð. Að sama skapi þarf úthlutun tíðna að þjóna almannahagsmunum með tilliti til útbreiðslu og aðgengis að fjarskiptaþjónustu um landið allt. Skilvirk umsýsla með tíðnir ýtir undir tæknilega og efnahagslega framþróun í fjarskiptum og er því lagt til að dregið verði úr hömlum á tíðninotkun, m.a. er opnað fyrir möguleika á framsali eða leigu á tíðniréttindum. Um leið þarf að tryggja að stjórnun tíðna sé í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar en þær geta kveðið á um samræmda notkun tiltekinna tíðnisviða. Þá þarf að vera hægt að breyta tíðniréttindum eða jafnvel afturkalla þau í einstaka tilfellum og er því skilgreint hvenær slíkt getur komið til skoðunar.
    Þriðja kafla frumvarpsins er ætlað að einfalda stjórnsýslu og koma í veg fyrir réttaróvissu auk þess sem kveðið er á um nýmæli í þágu almannahagsmuna. Annars vegar er lagt til að settur verði á fót gagnagrunnur um þráðlausan sendibúnað. Slíkur gagnagrunnur mun koma að gagni við að kortleggja fjarskiptainnviði landsins og þar með nýtast við stefnumótun á sviði fjarskipta, auk þess sem hann auðveldar eftirlit, bæði almennt séð varðandi útbreiðslu og í einstökum tilfellum, til að mynda vegna truflana. Þá verður almenningi gert kleift með gagnagrunninum að kalla eftir upplýsingum um staðsetningu senda, m.t.t. umhverfissjónarmiða, en víða erlendis þekkist að almenningur hafi aðgang að slíkum gagnagrunni. Hins vegar er lagt til það nýmæli, að beiðni Fangelsismálastofnunar og dómsmála- og mannréttindaráðuneytis, að fangelsisyfirvöldum sé gert kleift að trufla fjarskipti innan sérstaklega afmarkaðra svæða vegna framkvæmdar á öryggis- og refsigæslu, en þótt hefur vandasamt að koma í veg fyrir fjarskipti innan veggja fangelsa með öðrum hætti.
    Nánar verður fjallað um einstaka þætti frumvarpsins hér á eftir.

Athugasemdir við einstaka kafla og greinar frumvarpsins.


Um I. kafla – samskiptaáætlun.


    Með lögum nr. 78/2005, um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, var í fyrsta sinn mótuð heildstæð stefna í fjarskiptamálum fyrir Ísland þar sem kveðið var á um gerð fjarskiptaáætlunar. Ákvað samgönguráðherra gerð fjarskiptaáætlunar fyrir árin 2005–2010 og hafði hún að geyma mörg og metnaðarfull markmið og verkefnaáætlun sem hafa sett mikinn svip á þróun og þjónustu á sviði fjarskipta til allra landshluta. Sérstök áhersla var lögð á það í fjarskiptaáætlun að bæta fjarskipti á þeim stöðum á landinu þar sem úrbóta var mest þörf, þar á meðal var kveðið á um að öryggi vegfarenda yrði bætt með aukinni farsímaþjónustu á þjóðvegum landsins og helstu ferðamannastöðum og að allir landsmenn sem þess óskuðu gætu tengst háhraðaneti og notið hagkvæmrar og öruggrar fjarskiptaþjónustu. Þá ber Póst- og fjarskiptastofnun að stuðla að framgangi stefnu stjórnvalda sem birtist í fjarskiptaáætlun.
    Meginmarkmið með þeim breytingum sem hér eru lagðar til eru annars vegar að víkka út gildissvið fjarskiptaáætlunar en hins vegar að samræma áætlunargerðina og aðra áætlunargerð innan ráðuneytisins sem og samræma hana almennt áætlunargerð íslenskra stjórnvalda. Má þar helst nefna að forsætisráðherra lagði á síðasta þingi fram tillögu til þingsályktunar um sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt (þskj. 476, 332. mál), sem fól í sér að útbúin yrði samræmd áætlun til nýrrar sóknar í íslensku atvinnulífi og nokkrar áætlanir verði samþættar, þar á meðal samgönguáætlun, samskiptaáætlun, byggðaáætlun, áætlun í ferðamálum og áætlun um stækkun sveitarfélaga. Í sóknaráætlun felst m.a. samþætting áætlana sem varða m.a. atvinnuuppbyggingu, eflingu lífsgæða og jákvæða byggðaþróun.
    Í samræmi við framangreindar breytingar er hér gert ráð fyrir að í stað fjarskiptaáætlunar taki við svonefnd samskiptaáætlun, sem auk fjarskipta nái í ríkari mæli til rafrænna samskipta auk þess sem heimilt sé að líta til annarra samskiptaleiða, svo sem póstsamskipta. Efnistökum samskiptaáætlunar er þannig ætlað að vera víðtækari en fjarskiptaáætlunar þar sem samskiptaáætlun veiti heildstætt yfirlit yfir mismunandi samskiptaleiðir á Íslandi og samspil þeirra, auk þess sem samskiptaáætlun taki mið af markmiðum sóknaráætlunar.
    Til stendur að drög að samskiptaáætlun verði lögð fram nú á haustþingi.

Um 1. gr.


    Markmið breytinganna er að samræma áætlanagerð varðandi samskipti. Skal það gert með samskiptaáætlun til tólf ára skv. 1. efnismgr. og fjögurra ára áætlun, sbr. 3. efnismgr., sem er hluti af og innan ramma samskiptaáætlunar.
    1. efnismgr. kveður á um að ráðherra skuli á fjögurra ára fresti leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um samskiptaáætlun þar sem mörkuð skuli stefna til næstu tólf ára. Í samskiptaáætlun skal gera grein fyrir ástandi og horfum hvað varðar fjarskipti í landinu, og meta og taka tillit til þarfa samfélagsins fyrir bætt fjarskipti. Skilgreina skal markmið stjórnvalda sem stefna ber að og þannig leggja grunn að framþróun íslensks samfélags. Skulu markmið stefnunnar stuðla að aðgengilegum og greiðum, hagkvæmum og skilvirkum, öruggum og umhverfisvænum fjarskiptum. Þá er kveðið á um þá nýjung að heimilt skuli í samskiptaáætlun að skoða fjarskipti heildstætt í tengslum við aðra þætti samskipta, svo sem rafræn samskipti og samskipti sem byggjast á póstþjónustu og fá þannig heildstæða mynd af samskiptum í landinu.
    Miðað er við að efnistök samskiptaáætlunar taki mið af stöðu, horfum og framtíðarsýn er varða viðfangsefni áætlunarinnar. Skal í áætluninni skilgreina stefnumótun í samskiptamálum og helstu markmið sem vinna skal að. Þá skal skilgreina og kortleggja samskiptainnviði þjóðarinnar innan lands og til útlanda eins og við á, og aðgengi landsmanna að samskiptanetum. Í samskiptaáætlun skal jafnframt gera grein fyrir hlutverki opinberra aðila við eftirlit, uppbyggingu og rekstur samskiptaneta og þjónustu í samspili við markaðsaðila. Jafnframt skal samskiptaáætlun hafa að geyma yfirlit um útgjöld ríkisins til allra helstu þátta samskipta, skipt niður á þrjú fjögurra ára tímabil.
    2. efnismgr. kveður á um þau atriði sem leggja skal áherslu á við gerð samskiptaáætlunar. Þar á meðal er lögð sérstök áhersla á að ná fram víðtæku samstarfi markaðarins, neytenda, opinberra stofnana og ráðuneyta um stefnumótun er varðar samskipti, til þess að öðlast sem gleggsta mynd af því hvar skórinn kreppir og hvar þörf er á umbótum.
    Um fjögurra ára aðgerðaáætlun er fjallað í 3. efnismgr. Skal hún tekin til endurskoðunar eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti. Skal þó heimilt að endurskoða aðgerðaáætlunina á tveggja ára fresti ef þörf krefur. Í fjögurra ára áætlun skal gerð grein fyrir skýrt skilgreindum verkefnum sem best eru til þess fallin að stuðla að markmiðum tólf ára áætlunar. Þar með talin geta verið:
          framkvæmdaverkefni og forgangsröðun þeirra,
          rannsóknarverkefni innlend eða í samstarfi við aðra, svo sem í gegnum rammaáætlun Evrópusambandsins,
          úttektar-, umbóta- eða gæðaverkefni,
          stefnumótunarverkefni.
    Þá skal gera grein fyrir fjáröflun og útgjöldum í aðgerðaráætlun eftir einstökum verkefnum.

Um II. kafla – stjórnun og úthlutun tíðna.


    Í fjarskiptatíðnum felst takmörkuð auðlind, sem töluverð fjárhagsleg verðmæti eru bundin við, líkt og fram kemur í álitsgerð auðlindanefndar um stjórn auðlinda Íslands frá árinu 2000. Tíðnir eru notaðir af öllum og þær eru grundvallarforsenda ýmissar þjónustu. Án varfærinnar skipulagningar og stjórnunar geta skaðlegar truflanir haft afar slæm áhrif á tíðnir sem grundvöll samskiptamiðla og eru tíðnir af þeim sökum háðar tíðnileyfi frá Póst- og fjarskiptastofnun. Fjarskiptafyrirtæki sem nota tíðnir og númer vegna starfsemi sinnar geta sótt um réttindi til slíkrar notkunar og er það Póst- og fjarskiptastofnun sem úthlutar réttindum til einstakra fyrirtækja og setur skilyrði fyrir slíkri notkun. Það skiptir sköpum að við úthlutun þessara gæða sé farið eftir hlutlægum og gagnsæjum sjónarmiðum á grundvelli fyrir fram ákveðinna reglna þannig að sem best verði tryggt að markmiðum um sanngirni og jafnræði sé náð. Að sama skapi þarf úthlutun tíðna að þjóna almannahagsmunum með tilliti til útbreiðslu og aðgengis að fjarskiptaþjónustu um landið allt.
    Við setningu fjarskiptalaga, nr. 81/2003, var gert ráð fyrir heimild ráðherra til þess að útfæra reglur IV. kafla í reglugerð og kveða nánar á um skipulagningu og úthlutun tíðna, jafnt til fjarskiptafyrirtækja sem notenda, sbr. 2. mgr. 14. gr. laganna og þótti nánari útfærsla á reglum um skipulag og úthlutun tíðna til þess fallin að auka gæði stjórnsýslu á þessu sviði. Í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu hefur því verið unnið að gerð reglugerðar um skipulag og úthlutun tíðna. Af því tilefni hefur IV. kafli um úthlutun tíðna og númera jafnframt verið tekinn til skoðunar og eru nú uppfærð nokkur ákvæði kaflans.
    Fyrir liggur að þónokkrar breytingar hafa verið gerðar á fjarskiptaregluverki Evrópusambandsins sem hin íslensku fjarskiptalög byggjast að miklu leyti á. Þær breytingar sem lagðar eru til rúmast innan núgildandi regluverks og eru jafnframt í samræmi við breytingar þær sem fyrir liggja.
    Í fjarskiptatíðnum felst takmörkuð auðlind sem hefur mikilvægu hlutverki að gegna bæði gagnvart almenningi og markaðsaðilum. Það er talið þjóna hagsmunum almennings að umsýsla með tíðnir sé eins skilvirk og mögulegt er og því er lagt til að dregið verði úr hömlum á tíðninotkun.
    Æskilegt er að auka sveigjanleika með því að binda tíðniheimildir ekki við ákveðna þjónustu eða tækni umfram það sem nauðsynlegt er í samræmi við meginreglur um tækni- og þjónustuhlutleysi (e. Technology and Service Neutrality Principles). Æskilegra er að notendur tíðna ákveði sjálfir hver séu bestu notin fyrir þau tíðnisvið sem eru laus til afnota. Þó er talið að almannahagsmunir geti í ákveðnum tilfellum réttlætt að tíðniréttindi séu bundin við ákveðna tækni og þjónustu, en slíkar ákvarðanir beri að taka til endurskoðunar með reglulegu millibili.
    Til þess að auka skilvirkni og sveigjanleika þurfi fjarskiptaeftirlitstofnanir að hafa þann möguleika að heimila framsal eða leigu á tíðniréttindum. Gæta þarf samt að því að framsal skekki ekki samkeppnisstöðu, t.d. ef ráðandi markaðsaðilar kaupa tíðnir til þess eins að halda öðrum frá markaðnum. Hefur framsal á fjarskiptatíðnum lengi tíðkast meðal nágrannaríkja okkar og er það stefna Evrópusambandsins að meginreglan verði á endanum sú að framsal sé heimilt. Er því hér búið í haginn fyrir þær breytingar sem koma skulu svo undirbúningur geti hafist að því að opna fyrir framsal á fjarskiptatíðnum.
    Til þess að hindra ekki eðlilegan aðgang að tíðniheimildum þurfa réttindi sem ekki eru framseljanleg að vera tímabundin. Ef ákvæði eru í réttindum um mögulega framlengingu þeirra eða endurnýjun ættu eftirlitsstofnanir að efna til samráðs áður en ákvörðun er tekin um framlengingu. Einnig þarf að skoða reglulega gildandi tíðniheimildir og meta hvort þörf er á breytingum til þess að auka sveigjanleika og aðgengi að tíðnum. Enn fremur ættu eftirlitsstofnanir að geta gripið inn í ef tíðniheimildir eru ekki notaðar og komið í veg fyrir að fyrirtæki sitji á tíðnum til þess eins að hindra samkeppni.

Um 2. gr.


    Hér eru lagðar til breytingar á 7. gr. laganna.
    1. mgr. er nýtt ákvæði þar sem staðfestur er yfirráðaréttur íslenska ríkisins yfir tíðnum og númerum og skýrt kveðið á um að þeir sem fá heimild til að nota tíðnir og númer öðlast aðeins skilyrtan notkunarrétt í tiltekinn tíma en ekki eignarrétt af nokkru tagi. Tíðnir og númer eru takmörkuð auðlind og eru umtalsverð verðmæti falin í réttindum til notkunar þeirra. Því er mikilvægt að það sé skýrt að ráðstöfunarréttur þessara verðmæta liggur hjá ríkinu og að þeir sem hafa fengið heimild til notkunar öðlist ekki eignarréttindi yfir þessari auðlind né heldur geti þeir gert tilkall til varanlegs afnotaréttar. Um fjarskiptatíðnir var fjallað í skýrslu auðlindanefndar sem kosin var á Alþingi í kjölfar samþykktar á þingsályktun í júní árið 1998. Í niðurstöðum nefndarinnar varðandi fjarskiptatíðnir segir m.a.:
    „Nefndin telur ljóst að rafsegulbylgjur til fjarskipta eru takmörkuð auðlind á sama hátt og aðrar auðlindir sem nefndin hefur fjallað um. Þó að rafsegulbylgjur til fjarskipta og tíðnisvið þeirra hafi ekki með formlegum hætti verið lýst eign þjóðarinnar hefur ríkið, hér sem annars staðar, tekið að sér stjórn á aðgengi að tíðnisviðinu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Nefndin leggur til að greiðsla komi fyrir aðgang að rafsegulbylgjum til fjarskipta rétt eins og öðrum þeim auðlindum sem svipað háttar um.“
    Rétt þykir að það komi skýrt fram í lögunum, í samræmi við niðurstöðu nefndarinnar, að þessi auðlind tilheyri íslenska ríkinu, en ekki verði sett almennt ákvæði um gjaldtöku, heldur verði gjaldtaka áfram ákveðin með sérstökum ákvæðum eins og gert hefur verið hingað til, enda er mjög mismunandi eftir aðstæðum hversu mikil verðmæti liggja í tíðnum og númerum.
    Í 2. mgr. er tekið fram að vald til að veita réttindi til tíðni- og númeranotkunar liggur hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Stofnunin getur ýmist veitt almenna heimild til notkunar á ákveðnum tíðnisviðum, sem þá kallast opin tíðnisvið, eða úthlutað sérstökum réttindum til tiltekins aðila.
    Í 3. mgr. er fjallað um hverjum Póst- og fjarskiptastofnun getur úthlutað réttindum til tíðninotkunar. Efnislega er málsgreinin eins og núgildandi 7. gr. laganna, að undanskildum síðasta málslið núgildandi ákvæðis, þar sem lagt er bann við framsali, en lagt er til að um framsal verði nú fjallað í sérstakri málsgrein.
    Í 4. mgr. er lagt til að opnað verði fyrir möguleikann á framsali tíðniheimilda hér á landi, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Fjölmörg aðildarríki EES-samningsins leyfa þegar framsal á tíðniréttindum og raunar hvetja til þess. Þá er ljóst er að stefna Evrópusambandsins er að greiða fyrir opnari aðgangi að framsali tíðniheimilda.
    Í 5. mgr. er nýtt ákvæði sem kveður á um skyldu Póst- og fjarskiptastofnunar til þess að fylgjast með því að tíðnir séu notaðar með áhrifaríkum og skilvirkum hætti og að tryggja að samkeppni sé ekki hindruð með uppsöfnun tíðniréttinda. Póst- og fjarskiptastofnun verður heimilt að afturkalla og endurúthluta tíðnum eða mæla fyrir um sölu eða leigu réttinda ef hætta er á að uppsöfnun réttinda leiði til samkeppnishindrana. Í slíkum tilvikum væri oftast um að ræða að fyrirtæki hefði safnað að sér tíðniréttindum sem það hefði enga þörf fyrir, í þeim tilgangi einum að hindra að hugsanlegir keppinautar gætu notað tíðnirnar. Þar sem fyrirtæki hefði engin raunveruleg not af viðkomandi tíðnum væri yfirleitt ekki um tjón á lögvörðum hagsmunum að ræða þótt tíðnir væru teknar úr umráðum fyrirtækis. Póst- og fjarskiptastofnun hefði einnig þann kost að mæla fyrir um framsal eða leigu á réttindum og í þeim tilvikum fengi viðkomandi fyrirtæki endurgjald fyrir tíðniréttindin. Sú leið ætti einkum við ef umtalsvert gjald hefði verið greitt fyrir úthlutun réttindanna.
    Í 6. mgr. er mælt fyrir um birtingu upplýsinga um réttindi til notkunar á tíðnum og númerum. Rétt þykir að úthlutun slíkra réttinda sé gagnsæ og að fyrir liggi hverjir fá slík réttindi og með hvaða skilyrðum. Meðal upplýsinga sem ástæða getur verið til að birta er nafn tíðnirétthafa, tegund þjónustu, skilgreint tíðnisvið og bandbreidd, útgáfudagur tíðniheimildar og gildistíma hennar, landfræðileg afmörkun tíðniheimildar, auk annarra viðeigandi athugasemda. Póst- og fjarskiptastofnun birtir nú tíðniheimildir fyrir almenna fjarskiptaþjónustu í heild á heimasíðu sinni og gert er ráð fyrir að það verði gert áfram. Ástæða getur verið til að undanskilja tilteknar upplýsingar varðandi réttindi til tíðninotkunar ef þær varða mikilvæga fjárhagslega hagsmuni rétthafa sem gætu skaðast ef birting ætti sér stað, en þessari reglu yrði aðeins beitt í undantekningartilvikum. Tilraunaleyfi gætu í mörgum tilvikum verið undanþegin opinberri birtingu vegna viðskiptahagsmuna.

Um 3. gr.


    Breyting á 9. gr. laganna felur í sér að nú falla framlengingar á tíðniréttindum undir ákvæði 9. gr. ef um er að ræða tíðnisvið þar sem fjöldi réttinda er takmarkaður. Þetta hefur t.d. þýðingu ef til athugunar er að framlengja eða endurnýja gildandi tíðniréttindi farsímafyrirtækja. Samkvæmt þessu þarf að hafa samráð við hagsmunaaðila áður en ákveðið er að framlengja slík réttindi.

Um 4. gr.


    Breytingum á 10. gr. laganna er ætlað að skýra þær reglur sem gilda um skilyrði fyrir notkun tíðna og númera, m.a. í samræmi við gildandi framkvæmd.
    Breyting á a-lið 1. mgr. felur í sér að við bætast skilyrði um útbreiðslu og gæði, en skilyrði varðandi efni útvarpssendinga fellur ekki lengur undir þennan lið.
    Nýr stafliður, h-liður, bætist við og varðar hann skilyrði sem setja má um notkun tíðna í tilraunaskyni. Nokkuð algengt er að slík tilraunaleyfi séu veitt í stuttan tíma til þess að prófa nýja tækni. Slíkum leyfum hafa ávallt fylgt skilyrði sem taka mið af eðli þessarar notkunar. Með setningu þessa ákvæðis verður til staðar skýr heimild til þess að setja slík skilyrði. Meðal þeirra skilyrða sem almennt þykir eðlilegt að setja í tilraunaleyfum eru að ekki sé heimilt að veita þjónustu í hagnaðarskyni og að niðurstöður tilrauna séu kynntar fyrir Póst- og fjarskiptastofnun.
    Við a-lið 2. mgr. er bætt skilyrðum varðandi verðlagningu símtala í ákveðnum númeraröðum til þess að tryggja vernd neytenda. Með þessu er ekki átt við að yfirvöld hafi bein afskipti af verðlagningu í einstökum tilfellum heldur er aðallega stefnt að því að símtöl með yfirgjaldi séu örugglega aðeins veitt í þar til ætluðum númeraröðum svo að neytendum megi vera það ljóst þegar þeir hringja í viðkomandi númer.

Um 5. gr.


    Lagt er til að í 11. gr. laganna verði sett ítarlegri ákvæði um málsmeðferð við veitingu réttinda til að nota númer og tíðnir.
    Við úthlutun tíðna má fyrst og fremst notast við þrjár aðferðir. Í fyrsta lagi er hægt að úthluta tíðnum með almennri úthlutun sem kemur til greina þegar engin umframeftirspurn er eftir tíðnum á viðkomandi tíðnisviði. Í öðru lagi er hægt að úthluta tíðnum með útboði og í þriðja lagi má úthluta tíðnum með uppboði, samkvæmt ákvörðun ráðherra. Útboð og uppboð eru úthlutunaraðferðir sem koma til skoðunar fyrst og fremst þegar eftirspurn er meiri en framboð og eru við þær aðstæður nauðsynlegar svo gæta megi jafnræðis við úthlutun. Forsenda fyrir vali á úthlutunaraðferð er því að fyrir liggi hvort eftirspurn sé eftir viðkomandi tíðnisviði eða ekki. Núgildandi fjarskiptalög heimila framangreindar úthlutunarleiðir en hér er lagt til að auka gagnsæi málsmeðferðar.
    Tillögur frumvarpsins miða að því að gera málsmeðferð gagnsærri, m.a. með því að kanna eftirspurn eftir tíðnisviðum áður en þeim er úthlutað og setja ítarlegri reglur um framkvæmd útboða og uppboða.
    Ekki eru gerðar efnislegar breytingar á 1. mgr., en smávægilegar breytingar eru gerðar á orðalagi til þess að stuðla að samræmi við önnur ákvæði laganna. Ákvæðið þarfnast ekki sérstakra skýringa.
    Í 2. mgr. er nýtt ákvæði sem fjallar um skjóta afgreiðslu umsókna ef sótt er um óverulegan hluta tíðnisviðs og ekki er hætta á að úthlutun geti skert framboð á tíðnum á umræddu sviði eða hamlað samkeppni. Undir þetta ákvæði geta t.d. fallið umsóknir um einstakar tíðnir fyrir fastasambönd og talstöðvar og umsóknir um minniháttar úthlutanir á fjarskipta- og útvarpstíðnum.
    Í 3. mgr. er nýtt ákvæði sem kveður á um skyldu til þess að kanna áhuga á afnotum af tíðnisviðum fyrir almenna fjarskiptaþjónustu og útvarp ef umsókn fellur ekki undir 2. mgr. Ef mikill áhugi kemur í ljós skal viðkomandi tíðnisviði úthlutað með útboði eða uppboði, en ef áhugi reynist lítill er fyrirliggjandi umsókn að jafnaði tekin til afgreiðslu án frekari tafar og úthlutað samkvæmt henni ef öllum viðeigandi kröfum um hæfi umsækjanda og notkun tíðnisviðsins er fullnægt. Gert er ráð fyrir að nánari útfærsla á áhugakönnun og samráði við hagsmunaaðila verði ákveðin með reglugerð.
    Í 4. mgr. koma fram almennar kröfur sem gera má til umsækjenda um réttindi samkvæmt þessari grein. Annars vegar er fjallað um þær upplýsingar sem umsækjandi þarf að veita áður en umsókn hans er afgreidd og hins vegar er heimild til að setja almenn hæfisskilyrði sem stuðla eiga að því að notkun á réttindum verði skilvirk og í samræmi við ákvæði laganna.
    Í 5. mgr. er fjallað um takmarkanir sem hægt er að setja varðandi úthlutun útvarpstíðna vegna menningarlegra sjónarmiða, svo sem til þess að stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu. Til þess gæti komið að veita þyrfti íslenskri dagskrá forgang þegar úthlutað er tíðnum til útvarps- og hljóðvarpsútsendinga. Með tilkomu stafrænnar útsendingartækni verða sífellt minni líkur á að beita þurfi ákvæði sem þessu, þar sem mun minna tíðnisvið þarf nú fyrir útsendingu hverrar dagskrár en áður var. Stafrænar hljóðvarpssendingar eru þó ekki orðnar algengar hér á landi enn sem komið er. Því þykir ástæða til þess að slá þennan varnagla. Einnig er gert ráð fyrir að setja megi skorður við úthlutun tíðna ef úthlutun getur orðið til þess að hindra virka samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Hér er einkum átt við að komið verði í veg fyrir að tíðniheimildir fyrir útvarp safnist á fárra hendur. Við beitingu þessa ákvæðis er eðlilegt að hafa samráð við þá stofnun sem fer með eftirlit með fjölmiðlum.
    Í 6. mgr. er fjallað um framkvæmd útboða á tíðnum og númerum. Áherslan er meiri á úthlutun tíðna enda hefur ekki verið mikið til umræðu að úthluta númerum með útboði. Útboð eiga oftast að stuðla að því að sem best fjarskiptaþjónusta verði í boði fyrir sem flesta landsmenn og á það einkum við þegar boðnar eru út tíðnir fyrir þráðlausa fjarskiptaþjónustu. Póst- og fjarskiptastofnun hefur á síðastliðnum áratug haldið allmörg útboð á tíðniréttindum og er ákvæði þetta fremur ætlað til að renna styrkari stoðum undir þá framkvæmd heldur en að gera breytingar á henni. Í ákvæðinu er lýst meginatriðum sem koma eiga fram í útboðslýsingu og helstu takmarkanir sem hægt er að setja gagnvart hugsanlegum bjóðendum. Gert er ráð fyrir að nánari lýsing á útboðsferli verði sett fram í reglugerð.
    Í 7. mgr. er fjallað um uppboð á réttindum til að nota tíðnir og númer. Heimild er í núgildandi 7. gr. laganna til þess að samgönguráðherra ákveði að halda skuli uppboð. Núgildandi heimildarákvæði er mjög stutt og segir lítið til um hvernig haga skuli framkvæmd uppboða. Heimild til að halda uppboð hefur hingað til ekki verið beitt hér á landi en sú leið er töluvert notuð erlendis. Þau sjónarmið sem einkum mundu leiða til ákvörðunar um að halda uppboð gætu t.d. verið að ekki þætti þörf á að setja íþyngjandi kröfur um útbreiðslu eða að tíðnisvið þætti sérstaklega eftirsótt og þar af leiðandi verðmætt. Það getur einnig talist eðlilegt í þeim tilvikum þegar framsal réttinda verður heimilað að greitt sé markaðsverð fyrir réttindin strax í upphafi. Í ákvæðinu er fjallað um ýmis atriði er snúa að framkvæmd uppboðs og hvaða meginatriði skuli koma fram í uppboðsskilmálum. Gert er ráð fyrir að taka megi þátttökugjald af bjóðendum, hægt sé að krefja þá um greiðslutryggingu og sekta þá og/eða vísa þeim frá uppboði ef brotið er gegn uppboðsskilmálum eða ekki staðið við tilboð. Heimilt verður að setja ákvæði um lágmarksboð og er þar miðað við að lágmarkið verði ekki hærra en fimmtánfalt árgjald fyrir viðkomandi réttindi samkvæmt lögum um Póst- og fjarskiptastofnun. Hér er horft til þess að svigrúm sé til að stilla lágmarksboð af fyrir a.m.k. sambærilega gjaldtöku og sett er fram í ákvæði til bráðabirgða með þessu frumvarpi um leyfisgjöld fyrir notkun á tíðni fyrir farsímaþjónustu. Auk ákvæðis um lágmarksboð er einnig gert ráð fyrir að veita megi afslátt af lágmarksboði, til að mynda gegn kvöð um íþyngjandi skilyrði, svo sem um útbreiðslu eða gæði þjónustu. Má með því móti ná fram markmiðum í almannaþágu á borð við að hvetja til uppbyggingar í miklu dreifbýli. Gert er ráð fyrir að nánar verði fjallað um framkvæmd og skilmála uppboða í reglugerð og þar verði m.a. tekið á ýmsum útfærsluatriðum, svo sem tímafrestum og lágmarksmun milli tilboða samkvæmt nánari ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar.
    Í 8. mgr. er fjallað um að við úthlutun réttinda geti Póst- og fjarskiptastofnun ákveðið fyrir fram, þ.e. í skilmálum útboða og uppboða, fjárhæð og fyrirkomulag dagsekta sem leggjast á fjarskiptafyrirtæki sem ekki uppfyllir þær skuldbindingar sem gengist er undir með tilboði í réttindin. Þetta ákvæði er sérstaklega mikilvægt til þess að fylgja eftir kröfum um uppbyggingu og útbreiðslu fjarskiptaþjónustu sem gengist er undir í útboði eða uppboði. Algengt er að uppbygging fjarskiptaneta taki lengri tíma en lofað er í tilboði og það kemur fyrir að engin uppbygging á sér stað. Í slíkum tilvikum er þörf fyrir skýrt og fljótvirkt úrræði til þess að bregðast við vanefndum. Lagt er til að hámark dagsekta verði 500.000 kr. á dag, en það er sama hámark og er á dagsektum skv. 12. gr. laga nr. 69/2003, um Póst og fjarskiptastofnun.
    Ákvæði 9. mgr. er samhljóða núgildandi 4. mgr. og þarfnast ekki skýringar.
    Í 10. mgr. er heimild fyrir ráðherra til að setja nánari reglur um málsmeðferð samkvæmt þessari grein í reglugerð.

Um 6. gr.


    Lagt er til að breytingar verði gerðar á 12. gr. laganna sem fjallar um breytingar á réttindum. Nauðsynlegt er að hægt sé að breyta skilyrðum og inntaki réttinda fjarskiptafyrirtækja þegar sérstaklega stendur á. Það eru einkum breytingar á alþjóðlegum samningum sem skapað geta þörf fyrir slíkar breytingar. Þar getur t.d. verið um að ræða breytingar á tilskipunum ESB þar sem kveðið er á um hvaða skilyrði eiga að gilda um fjarskiptastarfsemi á EES-svæðinu. Einnig þarf að taka tillit til alþjóðlegra samþykkta um tíðninotkun. Núgildandi ákvæði hefur ekki verið mikið notað og mjög sjaldgæft er að grípa þurfi til íþyngjandi aðgerða á grundvelli þess. Hins vegar hafa komið upp mál þar sem þörf hefur verið á skýrum heimildum til þess að gera breytingar á réttindum fyrirtækja. Í einstaka tilvikum getur verið nauðsynlegt að afturkalla réttindi að öllu leyti eða að hluta til vegna breytinga á lögum eða alþjóðasamþykktum.
    Lítils háttar breyting er gerð á orðalagi 1. mgr. en efnislega er ekki um að ræða breytingu, enda er ennþá gert ráð fyrir að ákvæðinu sé aðeins beitt þegar knýjandi þörf er fyrir hendi, þ.m.t. vegna breytinga á alþjóðlegum skuldbindingum.
    Í 2. mgr. er lagt til að afturköllunarheimild verði sett inn í lög um fjarskipti að nýju. Slík heimild var í eldri fjarskiptalögum en var felld niður með setningu laga nr. 81/2003. Skortur á slíkri heimild hefur valdið erfiðleikum við innleiðingu nýrrar þjónustu sem byggist á alþjóðlegri samþykkt um samræmda tíðninotkun. Um það vísast til úrskurðar úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 6/2008, þar sem deilt var um hvort Póst- og fjarskiptastofnun væri heimilt að krefjast þess að fyrirtæki færði fastasambönd sín af tíðnisviði sem ætlað er til notkunar fyrir þriðju kynslóð farsíma. Nefndin taldi í úrskurði sínum að ákvæði 12. gr. laga um fjarskipti í núverandi mynd væri ekki nægileg heimild til þess að afturkalla áður útgefin tíðniréttindi. Nefndin segir m.a. í úrskurðinum: „Eins og áður er að vikið standa til þess nokkur nytsemisrök að íslensk fjarskiptalöggjöf geri ráð fyrir slíkri heimild, en slík rök ein og sér eru ekki tæk sem málefnalegur rökstuðningur stjórnvaldsákvörðunar. Ekki er m.ö.o. ólíklegt að PFS þurfi á slíkri heimild að halda til þess að sinna starfi sínu.“ Telja verður nauðsynlegt að endurvekja afturköllunarheimild til þess að tryggja að ekki verði staðið í vegi fyrir eðlilegri framþróun í notkun tíðna og númera. Er gert ráð fyrir að afturköllun komi einungis til greina í afar afmörkuðum tilvikum, enda um íþyngjandi úrræði að ræða. Því þurfa ríkir hagsmunir að standa fyrir slíkri ákvörðun, svo sem hún sé nauðsynleg í þágu almannahagsmuna. Slíkar aðstæður geta til dæmis komið upp þegar um er að ræða ótímabundnar tíðniheimildir sem gefnar voru út fyrir afnám einkaréttar ríkisins á fjarskiptastarfsemi.
    3. mgr. er hliðstæð 2. mgr. í núgildandi 12. gr. Lagt er til í að orðalagi verði breytt á þann hátt að ljóst sé að fyrirhuguð breyting skuli kynnt áður en endanleg ákvörðun er tekin um hana. Einnig er nú gert ráð fyrir að afturkallanir réttinda séu kynntar með sama hætti og breytingar á réttindum.
    Í 4. mgr. er nýtt ákvæði sem gerir ráð fyrir því að ef ástæður fyrir úthlutun sérstakra réttinda hætta að vera til staðar á gildistíma réttinda skuli stuðla að skilvirkari notkun tíðnisviðsins með því annaðhvort að opna það svo hver sem er geti nýtt það á grundvelli almennrar heimildar eða gera rétthafa kleift að framselja eða leigja réttindin. Tilvik sem þessi geta t.d. verið þegar tækniþróun leiðir til þess að samnýting tíðnisviðs verður möguleg. Það er ekki talið þjóna markmiðum fjarskiptalöggjafar um virka samkeppni og skilvirka notkun tíðnirófsins að einkaréttur sé á notkun tíðnisviðs þegar hans er ekki lengur þörf. Tveir möguleikar eru til þess að losa um einkaafnot í slíkum tilvikum, þ.e. annars vegar að opna tíðnisviðið alfarið og hins vegar að heimila framsal eða leigu. Við mat á því hvor leiðin er farin getur skipt máli hvort rétthafi greiddi gjald fyrir réttindin í upphafi.
    Í 5. mgr. er fjallað um þau tilvik þegar sérstök númera- eða tíðniréttindi er framlengd. Slíkt getur t.d. komið til ef rétthafi hefur áfram þörf fyrir tíðnir og hefur fjárfest mikið í fjarskiptaneti og ekki er knýjandi þörf fyrir að bjóða út tíðnirnar að nýju. Í einhverjum tilvikum hefur verið tekið fram í skilmálum tíðniréttinda að gert sé ráð fyrir framlengingu, en slík tilvik eru fá. Það er því í flestum tilvikum valkvætt hvort orðið er við óskum um framlengingu. Þegar framlenging á sér stað geta aðstæður og löggjöf hafa breyst verulega frá því að réttindin voru upphaflega gefin út og því getur verið nauðsynlegt að breyta skilyrðum sem um þau gilda. Rétt þykir að skýr heimild sé í lögum til þess að gera slíkar breytingar.

Um 7. gr.


    Þar sem 14. gr. laganna fjallar að mestu leyti um skipulag tíðnirófsins þykir eðlilegt að það komi fram í fyrirsögn greinarinnar.
    Lagt er til að á 1. mgr. verði gerðar þær breytingar að í stað orðsins „tíðniplan“ verði notað orðið „tíðniskipulag“ og kveðið verði á um að skipulagið skuli birt opinberlega. Birting á heimasíðu Póst- og fjarskiptastofnunar telst nægjanleg birting í því sambandi. Lagt er til að Póst- og fjarskiptastofnun geti ákveðið að alþjóðlegar samþykktir um skipulag tíðnirófsins og notkun verði hluti af íslenska tíðniskipulaginu og verði bindandi hér á landi þegar vísað hefur verið til þeirra í opinberu tíðniskipulagi stofnunarinnar. Hér er fyrst og fremst átt við ákvæði radíóreglugerðar Alþjóðafjarskiptasambandsins ITU og ákvarðanir og tilmæli evrópsku fjarskiptanefndarinnar ECC, eftir því sem við á. Einnig gæti komið til þess að heppilegt væri talið að taka ákvarðanir sem teknar eru á vettvangi EES inn í íslenska tíðniskipulagið. Ákvarðanir sem hér er átt við varða útfærsluatriði sem eru innan valdsviðs Póst- og fjarskiptastofnunar samkvæmt gildandi lögum og þykir ekki ástæða til þess að viðhafa sérstakar breytingar á lögum eða reglugerð í hvert sinn sem taka þarf slíkar ákvarðanir inn í tíðniskipulagið.
    Lagt er til að við greinina bætist tvær nýjar málsgreinar sem verða 2. og 3. mgr. Fyrri málsgreinin kveður á um að gætt skuli hlutleysis gagnvart mismunandi tæknilausnum við skipulagningu tíðnirófsins. Tæknilegt hlutleysi er ein af grundvallarreglunum í fjarskiptalöggjöf ESB. Það er samt sem áður nauðsynlegt í sumum tilvikum að setja skorður við því hvaða tækni má nota og þau atriði eru talin upp sem réttlætt geta slíkar takmarkanir. Síðari málsgreinin fjallar um að ekki skuli binda notkun tíðna við ákveðna þjónustutegund að óþörfu. Heimilt er að takmarka hvaða þjónustutegundir má starfrækja á ákveðnum tíðnisviðum ef gildar ástæður eru fyrir því. Það er annars vegar vegna alþjóðlegra samþykkta um tíðnimál, en þar er helst að nefna radíóreglugerð ITU, og hins vegar til að uppfylla almenn markmið stjórnvalda, sem eru ekki sérstaklega tiltekin í ákvæðinu.

Um III. kafla.


    Hér eru lagðar til breytingar á tæknikafla laganna. Markmið endurbótanna eru m.a. að einfalda stjórnsýsluna og koma í veg fyrir réttaróvissu, auk þess sem kveðið er á um nýmæli í þágu almannahagsmuna. Annars vegar er lagt til að settur verði á fót gagnagrunnur um þráðlausan sendibúnað. Mun slíkur gagnagrunnur koma að gagni við að kortleggja fjarskiptainnviði landsins og þar með nýtast við stefnumótun á sviði fjarskipta, auk þess sem hann auðveldar eftirlit, bæði almennt séð varðandi útbreiðslu og í einstökum tilfellum, til að mynda vegna truflana. Þá verður almenningi gert kleift með gagnagrunninum að kalla eftir upplýsingum um staðsetningu senda, m.t.t. umhverfissjónarmiða, en víða erlendis þekkist að almenningur hafi aðgang að slíkum gagnagrunni. Hins vegar er lagt til það nýmæli, að beiðni Fangelsismálastofnunar og dómsmála- og mannréttindaráðuneytis, að fangelsisyfirvöldum sé gert kleift að trufla fjarskipti innan sérstaklega afmarkaðra svæða vegna framkvæmdar á öryggis- og refsigæslu, en þótt hefur vandasamt að koma í veg fyrir fjarskipti innan veggja fangelsa með öðrum hætti.
    Í kaflanum eru lagðar til breytingar varðandi þráðlausan sendibúnað. Hingað til hefur þurft leyfi, útgefið af Póst- og fjarskiptastofnun, til starfrækslu slíks búnaðar. Í ákveðnum tilfellum væri til mikilla bóta að einfalda fyrirkomulagið og kveða á um tilkynningarskyldu. Sem dæmi má nefna talstöðvaleyfi til leigubílstjóra.
    Þá er lagt til að Póst- og fjarskiptastofnun taki við skyldum frá Brunamálastofnun varðandi skaðlegar truflanir frá rafföngum á fjarskiptavirki og stofnunin fái til þess viðhlítandi valdheimildir, en þær skortir nú, sbr. 4. mgr. 71. gr. fjarskiptalaga. Ríkt hefur nokkur réttaróvissa í tilfellum þar sem skaðlegar truflanir hafa stafað frá rafföngum, t.d. rafmagnsgirðingum, og verður ekki talið eðlilegt að sú skylda hvíli á fjarskiptafyrirtækjum að aðhafast vegna slíkra truflana.

Um 8. gr.


    Í 62. gr. laganna er fjallað um þráðlausan sendibúnað. Það hugtak hefur nokkuð þrengri merkingu en hugtakið fjarskiptavirki sem skilgreint er í 14. tölul. 3. gr. laganna. Þannig tekur það t.d. ekki til grunnnetsins, þ.e. fastlínukerfisins, eða móttöku fjarskiptasendinga. Um er að ræða hinn eiginlega sendibúnað, t.d. farsímasenda og talstöðvar, en ekki tækjahluta sem honum kunna að tengjast, svo sem leiðslur og möstur og þess háttar.
    Í a-lið er lagt til að sá málsliður í 1. mgr. 62. gr. sem fjallar um heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til að veita undanþágu frá leyfisskyldu verði felldur brott. Er það gert til samræmis við þá fyrirætlun að veita Póst- og fjarskiptastofnun heimild til þess að ákveða að tilteknar tegundir þráðlauss sendibúnaðar skuli eingöngu háðar tilkynningarskyldu, sbr. b-lið þessa ákvæðis.
    Í b-lið er lagt til að Póst- og fjarskiptastofnun hafi heimild til þess að ákveða að tilteknar tegundir þráðlauss sendibúnaðar skuli eingöngu háðar tilkynningarskyldu. Eðlilegt þykir að í þeim tilvikum þegar ekki er þörf fyrir að gefa út sérstök leyfi sé a.m.k. skylt að tilkynna stofnuninni um uppsetningu eða notkun slíks búnaðar. Þá er gert ráð fyrir því að stofnuninni gefist svigrúm til þess að grípa inn í ef þurfa þykir vegna skipulags tíðnirófsins eða hættu á skaðlegum fjarskiptatruflunum. Í slíkum tilvikum getur stofnunin beint fyrirmælum til viðkomandi aðila, t.d. um að breyta stillingu búnaðar eða jafnvel banna uppsetningu eða notkun hans. Rétt þykir að taka sérstaklega fram að óheimilt er að nota tilkynningarskyldan sendibúnað sem ekki hefur verið tilkynntur. Komi upp slíkt tilvik varðar það við 4. mgr. 74. gr. fjarskiptalaga sem kveður á um að heimilt sé að gera fjarskiptabúnað upptækan sem hefur verið starfræktur í heimildarleysi. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir því að Póst- og fjarskiptastofnun setji reglur um tilkynningu þráðlauss sendibúnaðar, sem hafi að geyma nánari fyrirmæli um það til hvaða búnaðar tilkynningarskyldan tekur, hvaða kröfur séu gerðar til efnis tilkynningarinnar o.s.frv. Slíkar reglur geta jafnframt lagt ákveðnar skyldur á tíðnirétthafa á þeim tíðnisviðum sem slíkur búnaður starfar á, t.d. um skráarhald og upplýsingagjöf til stofnunarinnar.

Um 9. gr.


    Lagt er til í nýrri grein, 62. gr. a, að komið verði á fót rafrænum gagnagrunni um þráðlausan sendibúnað. Í 1. málsl. 1. mgr. segir að Póst- og fjarskiptastofnun haldi gagnagrunninn, en í því felst að stofnunin telst vera ábyrgðaraðili hans. Ráðgert er að í gagnagrunninn verði skráðar allar helstu upplýsingar um sendibúnað þannig að fullægjandi yfirsýn fáist um þau þráðlausu fjarskiptanet sem sett hafa verið upp hér á landi. Í þessu sambandi er einkum horft til farsímasenda þó svo að ákvæðið útiloki ekki að upplýsingar um aðrar tegundir af sendibúnaði séu skráðar í gagnagrunninn. Til að gagnagrunnurinn geti þjónað tilgangi sínum þarf a.m.k. að skrá upplýsingar um sendistyrk og sendistefnu, bandbreidd og tengingu búnaðarins við almenn fjarskiptanet. Rétt er að taka fram að ekki er um að ræða tæmandi upptalningu á þeim upplýsingum um sendibúnað sem heimilt er að skrá í gagnagrunninn, enda fáist slík skráning samrýmst tilgangi gagnagrunnsins. Í flestum tilvikum ættu þessar upplýsingar að vera tiltækar í upplýsingakerfum eigenda búnaðarins. Samantekt á upplýsingum sem óskað er eftir getur þó falið í sér vinnu og einhver kostnaður kann að falla til. Hins vegar er litið svo á að um sé að ræða upplýsingar sem séu nauðsynlegar í þágu opinbers eftirlits og Póst- og fjarskiptastofnun ber að hafa aðgang að til að geta rækt lögbundið hlutverk sitt. Því er gert ráð fyrir að eigendum þráðlauss búnaðar sé skylt að afhenda stofnuninni umbeðnar upplýsingar án þess að fá slíkan kostnað bættan, eins og venjan er varðandi þær upplýsingar sem kallað er eftir í þágu opinbers eftirlits.
    Í 2. mgr. er fjallað um það hvernig Póst- og fjarskiptastofnun megi hagnýta upplýsingar í gagnagrunninum. Í stuttu máli er stofnuninni heimilt að nýta upplýsingarnar í eftirlitsstarfsemi sinni, sbr. þau verkefni sem talin eru upp í 3. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun. Í dæmaskyni eru nefnd nokkur verkefni þar sem upplýsingar um staðsetningu og eiginleika þráðlauss sendibúnaðar geta komið að notum, t.d. varðandi eftirlit með virkni, öryggi og heildstæði fjarskiptaneta, aðgerðir til að staðsetja skaðlegar fjarskiptatruflanir og vinnu við gerð korta um útbreiðslu fjarskiptasendinga. Rétt er að taka fram að heimild til notkunar á upplýsingunum er ekki bundin við þessi dæmi.
    Í 3. mgr. segir að heimilt sé að nýta upplýsingar í gagnagrunninum við stefnumótun á sviði fjarskipta. Gagnagrunnurinn getur til að mynda komið að gagni við stefnumótun á vegum ráðuneytisins, m.a. við gerð samskiptaáætlunar eða vegna starfsemi fjarskiptasjóðs. Þá nýtast upplýsingarnar Póst- og fjarskiptastofnun t.d. við kortlagningu mikilvægra innviða fjarskiptaneta. Í málsgreininni er jafnframt gert ráð fyrir því að önnur stjórnvöld geti fengið aðgang að upplýsingum í gagnagrunninum, að hluta eða öllu leyti, til þess að vinna að verkefnum og uppfylla skyldur sínar á sviði almannavarna, heilsuverndar, skipulagsmála og umhverfismála. Í ljósi markmiðs um að gagnagrunnurinn geti komið að sem mestum samfélagslegum notum þykir eðlilegt að orða þessa málsgrein með almennum hætti. Þannig er ekki talin ástæða til þess að tilgreina sérstaklega hvaða stjórnvöld geta átt í hlut heldur einungis gert að skilyrði að þau starfi á þeim málefnasviðum sem talin eru falla málefnalega að notkunargildi þeirra upplýsinga sem gagnagrunnurinn hefur að geyma. Hér geta t.d. komið til álita stjórnvöld á borð við embætti ríkislögreglustjóra (almannavarnadeild), Fasteignamat ríkisins, Geislavarnir ríkisins, Umhverfisstofnun, Landmælingar Íslands og Skipulagsstofnun, auk skipulagsyfirvalda innan sveitarfélaganna. Þar sem hér er um að ræða heimildarákvæði fyrir Póst- og fjarskiptastofnun til að veita aðgang að gagnagrunninum og ekki er tiltekið í ákvæðinu sjálfu hvaða stjórnvöld geta fengið aðgang að honum er það lagt í mat stofnunarinnar, sem ábyrgðaraðila gagnagrunnsins, að ákveða hvaða stjórnvald getur fengið aðgang. Við mat á því ber stofnuninni að leggja til grundvallar að aðgangur stjórnvalds að upplýsingum í gagnagrunninum geti nýst því til að uppfylla skyldur sínar og lögmæt markmið samkvæmt lögum sem falla undir þau málefnasvið sem getið er um í ákvæðinu. Við slíka ákvörðunartöku ber stofnuninni jafnframt að gæta að því að réttmætum viðskiptahagsmunum eigenda sendibúnaðar sé ekki ógnað með því að veita aðgang. Þá gerir ákvæðið ráð fyrir því að kostnaður geti fallið til við að veita aðgang að gagnagrunninum, t.d. við að setja upp verkferla og samhæfa upplýsingakerfi og þess háttar. Talið er sanngjarnt að það stjórnvald sem sækir um aðgang að gagnagrunninum beri slíkan kostnað.
    Í 4. mgr. er lagt til að almenningi verði veittur takmarkaður aðgangur að upplýsingum í gagnagrunninum án þess að endurgjald komi fyrir. Með fyrirspurn í gagnagrunninn skal vera mögulegt að kalla fram upplýsingar um staðsetningu allra þráðlausra senda á tilteknu svæði og um helstu tæknilegu eiginleika þeirra. Tilgangurinn með því er að gefa hinum almenna borgara kost á að verða sér út um upplýsingar um staðsetningu þráðlauss sendibúnaðar í nánasta umhverfi sínu, með tilliti til sjónarmiða um gagnsæi í skipulagsmálum.
    Í takmörkuðum aðgangi almennings felst að unnt verði að kalla fram upplýsingar um afmarkað svæði, svo sem fjölda senda við tiltekna götu eða í ákveðnu íbúðarhverfi. Getur Póst- og fjarskiptastofnun ákveðið hvaða takmörkunum slíkur aðgangur almennings skuli vera háður, til að mynda með hliðsjón af öryggisástæðum eða vegna upplýsinga er varða mikilvæga viðskiptahagsmuni tíðnirétthafa og eigenda þráðlauss sendibúnaðar. Vitað er að upplýsingar sem þessar má tengja saman við staðsetningarþjónustu og virðisaukandi þjónustu sem byggist á því að veita notanda farsíma ákveðnar upplýsingar á grundvelli upplýsinga um staðsetningu hans. Hagnýting upplýsinga um staðsetningu þráðlauss sendibúnaðar í slíkum viðskiptalegum tilgangi þykir eiga að vera á forræði eigenda búnaðarins. Að öðru leyti er gert ráð fyrir því að Póst- og fjarskiptastofnun setji nánari reglur um skráningu, birtingu og aðgang að upplýsingum í gagnagrunni um þráðlausan sendibúnað.
    Í 5. mgr. er gert ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun geti á grundvelli sérstaks þjónustusamnings samið við annan aðila um að hýsa og reka gagnagrunninn. Lagt er til að opnað verði fyrir þennan möguleika til að greiða fyrir hugsanlegri hagræðingu í rekstri gagnagrunnsins, en ljóst er að önnur stjórnvöld hafa það hlutverk að annast áþekkt skráarhald, jafnvel safna sambærilegum upplýsingum og gagnagrunnur samkvæmt þessu ákvæði hefur að geyma. Nefna má Fasteignaskrá Íslands og Landmælingar Íslands sem dæmi um slíkt, en höfð var hliðsjón af frumvarpi umhverfisráðuneytis til laga um grunngerð landupplýsinga er byggist á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2007/2/EB um notkun og miðlun landupplýsinga, er nefnd hefur verið INSPIRE (e. Infrastructure for Spatial Information in the European Community). Sé gengið til slíks samstarfs er eðlilegt að það sé gert á grundvelli sérstaks þjónustusamnings þar sem afmarkaðar eru annars vegar skyldur ábyrgðaraðila skrárinnar og hins vegar vinnsluaðila hennar. Ekki skal heimilt að gera samning við aðila sem stundar fjarskiptastarfsemi eða hefur tengsl við slíkan aðila. Samningur skal ekki gerður nema tryggt sé að viðkomandi aðili uppfylli að mati Póst- og fjarskiptastofnunar viðeigandi kröfur um öryggi upplýsinga samkvæmt viðurkenndum stöðlum. Þeir staðlar sem einkum er horft til í þessu sambandi eru ISO/IEC 27001 Stjórnkerfi upplýsingaöryggis og ISO/IEC 1799 Starfsvenjur fyrir stjórnun upplýsingaöryggis. Ábyrgðaraðila gagnagrunnsins er falið að leggja mat á það hvort öryggisskipulag viðkomandi aðila teljist vera fullnægjandi hvað þetta varðar.

Um 10. gr.


    Hér eru lagðar til breytingar á 64. gr. laganna.
    Í 1. mgr. er lagt til að heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til þess að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir skaðlegar fjarskiptatruflanir taki einnig til raffanga. Hugtakið skaðleg truflun er skilgreint í 28. tölulið 3. gr. fjarskiptalaga sem: „Truflun sem setur í hættu, rýrir alvarlega, hindrar eða truflar endurtekið þráðlausa fjarskiptaþjónustu.“ Um skilgreiningu á hugtakinu raffang er vísað til 3. gr. laga nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, en þar er hugtakið skilgreint svo: „Hvers konar hlutur sem kemur að gagni við nýtingu rafmagns.“ Þekkt er að rafföng geta truflað fjarskiptasendingar, en samkvæmt upplýsingum frá Póst- og fjarskiptastofnun er m.a. vitað til þess að ljósaperur, örbylgjuofnar og þvottavélar hafi valdið slíkum truflunum. Með þessari lagabreytingu er Póst- og fjarskiptastofnun gert kleift að grípa til viðeigandi ráðstafana vegna fjarskiptatruflana sem rafföng valda með sama hætti og hún hefur hingað til gert vegna skaðlegra truflana frá öðrum fjarskiptavirkjum.
    Í ljósi þess að gildissvið greinarinnar er víkkað út þannig að ákvæðið taki einnig til raffanga þykir rétt að færa 4. mgr. 71. gr. laganna, sem fjallar um truflanir frá öðrum hlutum en fjarskiptavirkjum, t.d. tækjum, raflögnum, pípum, leiðslum eða því um líku, sbr. orðalag ákvæðisins, undir 64. gr. Þrátt fyrir útvíkkun á gildissviði greinarinnar er talið rétt að fjalla sérstaklega um truflanir frá þess konar hlutum þar sem ekki er endilega hægt að koma í veg fyrir þær með því að innsigla hlutina eða banna notkun þeirra, auk þess sem þeir verða í sumum tilvikum trauðla afhentir Póst- og fjarskiptastofnunar til geymslu. Unnt er að nefna raflagnir og rafmagnsgirðingar sem dæmi. Í slíkum tilvikum getur verið nauðsynlegt að gera ákveðnar úrbætur á hlutnum, færa hann úr stað eða jafnvel fjarlægja hann með öllu. Tekið skal fram að þegar talað er um hlut í þessu samhengi getur í sumum tilvikum verið réttara að líta á hlutinn sem mannvirki. Orðalag málsgreinarinnar er að uppistöðu það sama og í núgildandi 4. mgr. 71. fjarskiptalaga. Hins vegar er lögð til sú breyting að það verði á valdi Póst- og fjarskiptastofnunar að mæla fyrir um úrbætur, og eftir atvikum að gera ráðstafanir til að þær verði gerðar, en það sé ekki í höndum fjarskiptafyrirtækjanna sjálfra eins og í núgildandi lögum. Í framkvæmd hefur það sýnt sig að það er ekki á færi einkaaðila að ráðast í svo íþyngjandi aðgerðir gagnvart öðrum einkaaðila þrátt fyrir að til þess sé stoð í lögum. Hafa fjarskiptafyrirtæki því veigrað sig við því að nýta sér rétt sinn samkvæmt ákvæðinu og truflanir af þessum sökum verið viðvarandi vandamál í sumum tilfellum. Þannig gerir tillaga frumvarpsins ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun verði falið að meta hvort hlutir valdi skaðlegum fjarskiptatruflunum og ákveða til hvaða viðeigandi úrbóta þurfi að grípa. Ákvæðið gerir ráð fyrir að eigandi hlutarins sem veldur hinni skaðlegu truflun beri kostnaðinn við nauðsynlegar úrbætur. Til að eigandi hlutar sem veldur skaðlegri truflun beri kostnað við nauðsynlegar úrbætur þarf fyrst að sanna, samkvæmt núgildandi lögum, að truflanirnar stafi af gáleysi hans. Telja verður slíkt fyrirkomulag of þungt í vöfum. Ljóst er samkvæmt gildandi lögum, og hefur verið um langan tíma, að fjarskiptavirki nýtur forgangs þegar kemur að því að notkun þess og annars tækis eða hlutar er ósamrýmanleg á sama stað á sömu stundu. Undir slíkum kringumstæðum og ef um skaðlega truflun er að ræða ber að gera viðeigandi ráðstafanir varðandi hinn hlutinn, þ.e. truflunarvaldinn, þannig að honum sé breytt, hann færður úr stað eða fjarlægður. Með tilliti til þessarar rótgrónu reglu þykir eðlilegt að fella hlutlæga ábyrgð á eiganda hlutarins til þess að bera kostnað við nauðsynlegar úrbætur til að koma í veg fyrir fjarskiptatruflunina. Í 3. mgr. er þannig lagt til að Póst- og fjarskiptastofnun sé heimilt að framkvæma nauðsynlegar úrbætur á kostnað eiganda hlutarins ef hann verður ekki við fyrirmælum um að gera slíkt sjálfur. Er þá mælt fyrir um að kröfur um endurgreiðslu kostnaðar sem þannig stofnast séu aðfararhæfar með beinni aðfarargerð.
    Í 4. mgr. er gert ráð fyrir því að lögreglu sé skylt að veita Póst- og fjarskiptastofnun aðstoð komi til þess að grípa þurfi til aðgerða til að koma í veg fyrir skaðlega fjarskiptatruflun í mótstöðu við eiganda þess hlutar sem veldur trufluninni. Ákvæði 3. og 4. mgr. eiga sér hliðstæðu í skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, sbr. 6. mgr. 56. gr. og 2. mgr. 57. gr. þeirra.
    Samkvæmt 5. mgr. er Póst- og fjarskiptastofnunar heimilt, að fenginni beiðni frá Fangelsismálastofnun, að veita heimild til truflunar á þráðlausum fjarskiptum innan sérstaklega afmarkaðs svæðis vegna framkvæmdar á öryggis- og refsigæslu. Með þráðlausum fjarskiptum í þessu samhengi er einkum horft til farsímaþjónustu og gagnaflutningsþjónustu. Eingöngu er heimilt að veita slíka heimild þjóni það lögmætum markmiðum um framkvæmd öryggis- og refsigæslu. Þannig mundi slík heimild ekki vera veitt fyrir svæði sem ekki eru á forræði fangelsismálayfirvalda. Auk þess yrði að gæta að því að truflun fjarskipta á þeim svæðum gengi ekki lengra en nauðsynlegt væri til að ná því markmiði sem að væri stefnt, sbr. meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Hvað varðar skilgreiningu á hugtökunum öryggis- og refsigæslu ber að leggja þann skilning í þau að þau geti jafnframt náð yfir gæsluvarðhaldsfangelsi og meðferðarstofnanir á vegum Fangelsismálastofnunar. Þar sem með slíkri aðgerð væri verið að skerða nýtingarmöguleika tíðnirétthafa, sem bjóða fjarskiptaþjónustu á umræddum stöðum, þykir rétt að leitað sé álits þeirra áður en heimild til truflunar er veitt. Setji tíðnirétthafar sig á móti því að slík heimild sé veitt kemur til úrskurðar Póst- og fjarskiptastofnunar.

Um 11. gr.


    Ákvæði 4. mgr. 71. gr. laganna fellur brott. Um ástæður fyrir þessari breytingu er vísað til athugasemda við 10. gr.

Um 12. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Þegar þær tíðniheimildir sem hér um ræðir voru fyrst gefnar út til að veita GSM-farsímaþjónustu, annars vegar til Pósts og síma hf., dags. 27. desember 1996 og hins vegar til Tals hf., dags. 23. júlí 1997, var tekið 15.000.000 kr. gjald fyrir hvora heimild fyrir sig. Runnu gjöldin til ríkissjóðs. Með lögum nr. 152/2000, um breytingu á lögum nr. 110/1999, um Póst- og fjarskiptastofnun, var sett inn ákvæði til bráðabirgða um gjaldtöku vegna útgáfu þriðju tíðniheimildarinnar til starfrækslu GSM-farsímanets, en sú heimild var gefin út til Íslandssíma ehf. 11. ágúst 1999. Samkvæmt frumvarpi að fyrrnefndum lögum skyldi fjárhæð gjaldsins miðast við gjaldið fyrir fyrstu tvær heimildirnar en uppfærð þannig að hún tæki mið af breytingu á vísitölu neysluverðs. Gjaldið var þannig ákveðið 16.600.000 kr. þegar frumvarpið var lagt fram 1. nóvember 2000. Þessar tíðniheimildir eru nú í höndum Símans hf. og Og fjarskipta ehf. (Vodafone) og rennur gildistími þeirra út í febrúar 2011. Eðlilegt þykir að komi til endurúthlutunar þessara réttinda til sömu eða annarra aðila, að hluta eða öllu leyti, verði tekið gjald fyrir tímabundin afnot af auðlindinni líkt og upphaflega var gert. Sömu sjónarmið eiga við komi til nýrrar úthlutunar tíðniréttinda þar sem tíðniréttindum er ennþá óráðstafað á GSM/UMTS 1800 MHz tíðnisviðinu. Lagt er til að gjöld fyrir tíðniréttindin verði fundin út með sama hætti og gert var þegar lög nr. 152/2000 voru sett. Þannig er lagt til grundvallar að fjárhæðin 16.600.000 kr., sem er síðasta gjald sem tekið var fyrir réttindin, verði uppfærð með tilliti til breytinga á vísitölu neysluverðs til dagsins í dag. Miðað við þær forsendur er uppfærð fjárhæð 30.000.000 kr. miðað við tíðniheimild sem er 2x10 MHz að stærð (1.500.000 kr. x 20 MHz). Hins vegar gerir gjaldtökuheimildin, samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu, ráð fyrir því að greitt sé hlutfallslega fyrir stærð tíðnisviðsins, þ.e. 1.500.000 kr. fyrir hvert úthlutað MHz á 900 MHz tíðnisviðinu og 500.000 kr. fyrir hvert úthlutað MHz á 1800 MHZ tíðnisviðinu.Þá þykir rétt að gjaldið skuli miðast við að tíðniréttindi séu gefin út til 10 ára. Sé tíðniréttindum úthlutað til lengri eða skemmri tíma skuli því greiða hlutfallslega í samræmi við það. Um útreikning á gjaldtöku fyrir tíðniheimildir og til nánari skýringa er vísað til viðauka við frumvarp þetta. Skynsamlegt þykir að tímabinda gjaldtökuheimildina þar sem hún á fyrst og fremst við um þá endurúthlutun sem mun fara fram þegar framangreindar tíðniheimildir renna út í febrúar 2011. Einnig þykir skynsamlegt að festa ekki verðgildi þessara réttinda í lög til lengri tíma en til ársloka 2012. Gert er ráð fyrir að gjöldin renni til ríkissjóðs. Í síðasta málslið ákvæðisins segir að ákvæðið gildi ekki um úthlutanir sem fara fram með uppboði. Ástæðan er að í 7. efnismgr. 7. gr. frumvarpsins er kveðið á um heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til að ákveða í uppboðsskilmálum lágmarksboð fyrir hverja úthlutun. Slík gjöld renna í ríkissjóð með sama hætti og gjaldtaka samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu. Ekki þykir vera ástæða til þess að binda hendur Póst- og fjarskiptastofnunar fyrir fram til að ákvarða lágmarksboð fyrir tíðniúthlutun á þeim réttindum sem hér um ræðir ef til uppboðs kemur. Þó verður að telja líklegt að stofnunin muni að einhverju leyti horfa til þeirrar gjaldtöku sem bráðabirgðaákvæðið mælir fyrir um.



Viðauki.

Gjald fyrir tíðniheimildir.
Stærð tíðnisviðs.
    Verðlagning á tíðni til að starfrækja farsímanet fyrir 900 MHz þjónustu er 30.000.000 kr. miðað við 10 MHz tíðnisvið. Af því leiðir að 1 MHz tíðnisvið er verðlagt á 3.000.000 kr. Framangreind verðlagning byggist á framreikningi á 16.600.000 kr. gjaldi frá árinu 2000 miðað við vísitölu neysluverðs til núverandi verðlags.
    Verðlagning á tíðni til að starfrækja farsímanet fyrir 1800 MHz þjónustu er 10.000.000 kr. miðað við 10 MHz tíðnisvið. 1 MHz tíðnisvið er verðlagt á 1.000.000 kr. Framangreind verðlagning fyrir 1.800 MHz tíðnisviðsins tekur mið af gjaldi fyrir 900 MHz þjónustu en er lækkað í samræmi við takmarkaðri nýtingarmöguleika, að því er varðar dreifingu og þéttleika fjarskiptamerkis.

Gildistími tíðniréttinda.
    Annar áhrifaþáttur á verðlagningu tíðniréttinda er til hversu langs tíma þau eru úthlutuð. Þannig verður að telja eðlilegt að tekið sé lægra gjald fyrir þau tíðniréttindi sem úthlutuð eru til skemmri tíma en 10 ára í réttu hlutfalli við þann gildistíma sem um ræðir. Sé tíðniréttindum á hinn bóginn úthlutað til lengri tíma en 10 ára þykir rétt að taka hlutfallslega hærra gjald. Eru gefin upp sýnidæmi í töflum hér að neðan.

Dæmi um útreikning á tíðnigjaldi.
Tafla 1. Gjald fyrir tíðniheimild á 900 MHz tíðnisviði.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Tafla 2. Gjald fyrir tíðniheimild á 1800 MHz tíðnisviði.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Gjald sem hlutfall af veltu.
    Þegar tíðniheimildir voru fyrst gefnar út í desember 1996 og síðar í júlí 1997 var gjald sem tekið var fyrir tíðniheimildir til að veita GSM farsímaþjónustu 15.000.000 kr. Við útgáfu þriðju tíðniheimildarinnar var ákveðið að gjaldið tæki mið af breytingu vísitölu neysluverðs miðað við gjald sem tekið var í upphafi. Gjald fyrir tíðniheimild framreiknað miðað við vísitölu neysluverðs frá nóvember 2000 til núverandi verðlags, þ.e. september 2010, er 30.000.000 kr. þegar búið er að taka tillit til nálgunar.
    Til samanburðar er hægt að skoða hversu mikil fjárhagsleg byrði lögð er á fjarskiptafyrirtæki út frá veltu félaga miðað við upphaflegt gjald og það borið saman við framreiknað gjald miðað við vísitölu neysluverðs á núverandi verðlagi, en vísitala neysluverðs hækkaði um 103,0% á tímabilinu nóvember 1996 til september 2010.

Tafla 3.
1996 1998 2000 2002 2004 2006 2008 2009
Heildarvelta Símans 10.400.000 11.830.898 16.253.079 17.251.107 19.806.111 22.038.130 21.693.555 21.060.331
Gjald fyrir tíðniheimild 15.000 15.462 16.974 18.788 19.980 22.349 27.539 30.454
Hlutfall af veltu 0,14% 0,13% 0,10% 0,11% 0,10% 0,10% 0,13% 0,14%
Fjárhæðir eru í þús. kr.
Skýring: Heildarvelta ársins 1996 er án póstþjónustu.

    Í töflu 3 er samanburður á gjaldi fyrir tíðniheimild framreiknað miðað við vísitölu neysluverðs í nóvember hvert ár sem hlutfall af veltu Símans, sem var fyrsta fyrirtækið til að fá afhenta tíðniheimild til að veita GSM farsímaþjónustu. Sá samanburður sem hér er sýndur er einungis til að sýna fram á fjárhagslega byrði Símans miðað við það gjald sem áður var innheimt. Samanburðurinn er ekki að öllu leyti réttmætur þar sem velta félagsins af farsímaþjónustu var mjög lág í upphafi en fer síðan ört vaxandi. Hins vegar gefur samanburðurinn ákveðna vísbendingu um þá fjárhagslegu byrði sem lögð er á fyrirtækið við að greiða slíkt gjald. Samkvæmt töflunni er framreiknað gjald fyrir tíðniheimild sem hlutfall af veltu það sama fyrir árið 2009 og þegar það var fyrst lagt á. Það er því hægt að álykta að 30.000.000 kr. verðlagning á tíðniheimild til þess að veita farsímaþjónustu nú sé hlutfallslega ekki meiri byrði fyrir Símann en það var í nóvember 1996.
    Ekki eru til eins samanburðarhæfar upplýsingar varðandi Og fjarskipti ehf. (Vodafone), en forverar fyrirtækisins voru annar og þriðji tíðnirétthafinn á tíðnisviðinu.

Tafla 4.
2006 2008 2009
Heildarvelta Og fjarskipta 9.429.000 12.054.000 13.515.000
Gjald fyrir tíðniheimild 22.349 27.539 30.454
Hlutfall af veltu 0,24% 0,23% 0,23%
Fjárhæðir eru í þús. kr.

    En samkvæmt töflu 4 er hægt að draga þá ályktun að ekki sé verið að setja óhóflega byrði á fyrirtækið með þeirri gjaldtöku sem frumvarpið gerir ráð fyrir.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, með síðari breytingum (samskiptaáætlun, stjórnun og úthlutun tíðna o.fl.).

    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem hafa það að markmiði að samræma áætlanagerð varðandi samskipti innan samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, sem og að samræma áætlunargerðina við aðra áætlanagerð hins opinbera þ.m.t. svonefndri Sóknaráætlun 2020. Auk þess eru lagðar til breytingar á reglum um stjórnun og úthlutum tíðna sem ætlað er að auka á hagkvæmni og skilvirkni í stjórnun þeirra gæða. Þá eru lagðar til breytingar sem ætlað er að einfalda stjórnsýslu og koma í veg fyrir réttaróvissu auk þess sem kveðið er á um nýmæli í þágu almannahagsmuna. Frumvarpið gerir jafnframt ráð fyrir því að eftirlitshlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar í fjarskiptamálum verði eflt.
    Þau efnisatriði í frumvarpinu sem áætlað er að muni hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs eru eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi er lagt til að settur verði á fót gagnagrunnur um þráðlausan sendibúnað. Slíkum gagnagrunni er ætlað að koma að gagni við að kortleggja fjarskiptainnviði landsins og þar með nýtast við stefnumótun á sviði fjarskipta, auk þess sem hann auðveldar eftirlit. Póst- og fjarskiptastofnun mun annast rekstur og uppsetningu á gagngrunninum. Áætlað er að stofnkostnaður við gagnagrunninn sé um 10 m.kr. en gert er ráð fyrir að varanlegur rekstrarkostnaður við gagnagrunninn verði um 1 m.kr.
    Í öðru lagi er lagt til bráðabirgðaákvæði um að tekið skuli gjald við úthlutun eða endurúthlutun á tíðniréttindum. Um er að ræða gjald á tíðnum fyrir GSM- farsímaþjónustu til 10 ára. Gjaldið nemur 1.500 þús. kr. eða 500 þús. kr. fyrir hvert úthlutað MHz af tíðnisviðum. Hvort um er að ræða hærra eða lægra gjaldið fer eftir því á hvaða bili tíðnisviðs úthlutunin fellur. Ákvæðið gildir til 31. desember 2012 og rennur gjaldið í ríkissjóð. Ákvæðið gildir þó ekki ef tíðniréttindum er úthlutað eða endurúthlutað með uppboði. Gert er ráð fyrir að stór hluti af núverandi leyfum verði endurnýjaður en áætlað er að tekjur vegna úthlutunar og endurnýjunar á tíðnum frá gildistöku laganna til loka árs 2012 verði um 102 m.kr. Þá er jafnframt áætlað að uppboð á tíðniréttindum geti aflað ríkissjóði tekna sem samsvarar allt að 30 m.kr. á sama tímabili. Því er áætlað að tekjur ríkissjóðs á tímabilinu muni aukast um samtals 132 m.kr.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er áætlað að útgjöld ríkissjóðs muni aukast um 11 m.kr. en þar af er 1 m.kr. varanleg útgjaldaaukning en 10 m.kr. falla til í eitt ár vegna stofnkostnaðar á gagnagrunni. Á móti er áætlað að tekjur ríkissjóðs muni tímabundið aukast um samtals 132 m.kr. frá gildistöku laganna til loka árs 2012. Ekki er gert ráð fyrir þessum auknu útgjöldum né tekjum í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011 en þar er settur bindandi útgjaldarammi á nafnvirði fyrir ríkið í heild á árinu 2011. Gera verður ráð fyrir að stofnunin finni verkefni af þessum toga stað innan síns fjárhagsramma í samræmi við hlutverk sitt.