Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 152. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 168  —  152. mál.
Frumvarp til lagaum breytingar á lögum nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga, lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og lögum nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.I. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „íslenskur ríkisborgari sem tímabundið er búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda“ í a-lið 4. mgr. kemur: tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hefur áður átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í a.m.k. þrjú ár samfleytt.
     b.      Í stað orðanna „íslenskur ríkisborgari sem tímabundið er búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda“ í b-lið 4. mgr. kemur: einungis tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi áður átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í a.m.k. þrjú ár samfleytt.

2. gr.

    Í stað orðanna „skulda vegna námslána“ í g-lið 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: krafna Lánasjóðs íslenskra námsmanna vegna námslána.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á e-lið 1. mgr. 6. gr. laganna:
     a.      Við fyrri málslið bætist: á síðustu þremur árum.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Jafnframt er heimilt að samþykkja umsókn hafi einstaklingur fengið nauðasamning til greiðsluaðlögunar fyrir gildistöku laga þessara.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Við bætist ný málsgrein er verður 3. mgr., svohljóðandi:
                  Hafi umboðsmaður skuldara samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun þegar skuldari hefur gildan nauðasamning til greiðsluaðlögunar, sbr. e-lið 1. mgr. 6. gr., fellur nauðasamningur sjálfkrafa úr gildi og skal umboðsmaður tilkynna kröfuhöfum og sýslumanni um ógildinguna.
     b.      Í stað orðsins „viku“ í 3. mgr. kemur: tveggja vikna.

5. gr.

    Við f-lið 1. mgr. 11. gr. laganna bætist: eða ráðast í hvers konar aðgerðir til innheimtu kröfu.

6. gr.

    Í stað orðsins „viku“ í 1. mgr. 15. gr., 2. mgr. 18. gr., 3. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 26. gr. laganna kemur: tveggja vikna.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn skuldara um greiðsluaðlögun skal hann þá þegar óska eftir því að athugasemd um samþykki á umsókn skuldara um greiðsluaðlögun verði skráð í þinglýsingabækur, eftir því sem við á. Slík skráning ber ekki þinglýsingagjöld.
     b.      Í stað orðanna „skrá athugasemd“ í 4. mgr. kemur: umboðsmaður óska eftir skráningu athugasemdar.

8. gr.

    29. gr. laganna orðast svo:
    Þegar greiðsluaðlögunartímabili er lokið eða hafi skuldari dregið umsókn sína til baka í samræmi við 5. mgr. 7. gr. skal umboðsmaður skuldara óska eftir aflýsingu athugasemdar skv. 1. mgr. 28. gr.

9. gr.

    34. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Reglugerð um greiðsluaðlögun einstaklinga.


    Félags- og tryggingamálaráðherra setur að fenginni umsögn umboðsmanns skuldara reglugerð um greiðsluaðlögun einstaklinga þar sem m.a. skal kveða á um starfsemi umsjónarmanna og samræmda framkvæmd greiðsluaðlögunar.

II. KAFLI

Breyting á lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., með síðari breytingum.

10. gr.

    Við 1. mgr. 63. gr. a. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Nauðasamningur til greiðsluaðlögunar tekur þó ekki til eftirfarandi krafna:
     a.      fésekta sem ákveðnar hafa verið með dómi eða af stjórnvaldi eða með sátt áður en umsókn um greiðsluaðlögun var tekin til greina, krafna um vangoldinn virðisaukaskatt, krafna um afdregna vangoldna staðgreiðslu opinberra gjalda og krafna um skaðabætur vegna tjóns sem samkvæmt dómi hefur verið valdið með refsiverðu athæfi,
     b.      krafna Lánasjóðs íslenskra námsmanna vegna námslána að öðru leyti en því að ákveða má við greiðsluaðlögun að afborganir af þeim og vextir falli niður á greiðsluaðlögunartíma,
     c.      uppsafnaðra skulda við opinbera aðila vegna meðlags og fer um uppsafnaða skuld samkvæmt ívilnunarúrræðum laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971.

III. KAFLI

Breyting á lögum nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila
og einstaklinga í atvinnurekstri.

11. gr.

    Við 1. mgr. 1. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Einstaklingar sem hætt hafa atvinnurekstri geta jafnframt sótt um frest til greiðsluuppgjörs ef vanskilin tengjast atvinnurekstri þeirra.

12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi

Greinargerð.


    Frumvarp þetta hefur að markmiði að sníða ýmsa annmarka af lögum um greiðsluaðlögun, skýra ákvæði og tryggja virkni greiðsluaðlögunar og samræmda framkvæmd hennar. Lagðar eru til breytingar á lögum nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga, lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og lögum nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.
    Hinn 24. júní 2010 samþykkti Alþingi lög nr. 100/2010, um umboðsmann skuldara, lög nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga, lög nr. 102/2010, um breytingu á lögum nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, og lög nr. 103/2010, um tímabundin úrræði einstaklinga sem eiga tvær eignir til heimilisnota. Lögin tóku gildi 1. ágúst sl. og sama dag tók embætti umboðsmanns skuldara til starfa. Þegar framangreind lög er varða skuldavanda heimilanna og umboðsmann skuldara voru samþykkt var þá þegar ljóst að hugsanlega þyrfti að bregðast við og breyta þeim þegar komin væri reynsla af framkvæmd þeirra. Frumvarp það sem varð að lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga var unnið af félags- og tryggingamálanefnd á grundvelli frumvarps félags- og tryggingamálaráðherra og með aðkomu og aðstoð dómsmála- og mannréttindaráðuneytis, félags- og tryggingamálaráðuneytis og réttarfarsnefndar. Lögunum er ætlað að standa til langs tíma og gera einstaklingum í greiðsluvanda kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn óháð aðstæðum í samfélaginu. Mikilvægt er því að fylgjast vel með framkvæmd laganna og einsetti nefndin sér frá upphafi að fylgjast náið með störfum umboðsmanns skuldara og virkni þeirra laga sem hann vinnur eftir til að tryggja að um skilvirk úrræði sé að ræða sem taki á skuldavanda einstaklinga og heimila og bjóði virkar lausnir.
    Félags- og tryggingamálanefnd hefur átt nokkra fundi með umboðsmanni skuldara sem komið hefur á framfæri ábendingum um það sem betur megi fara í lögunum og er frumvarp þetta unnið á grundvelli þessara ábendinga. Þá sendi nefndin drög að frumvarpinu til forsætisráðuneytis, dómsmála- og mannréttindaráðuneytis, efnahags- og viðskiptaráðuneytis, félags- og tryggingamálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis og fékk frá þeim gagnlegar athugasemdir og ábendingar. Vert er að árétta að áfram verður fylgst náið með virkni laganna og starfsemi umboðsmanns skuldara og lagðar til frekari breytingar verði talin þörf á því til að skýra enn frekar ákvæði laganna og tryggja virkni þeirra.

Athugasemdir við einstakar greinar.


Um 1. gr.


    Í lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga er eitt af skilyrðum fyrir greiðsluaðlögun að viðkomandi einstaklingur sé íslenskur ríkisborgari. Sökum þessa skilyrðis geta umsækjendur með erlent ríkisfang, sem hafa þurft að leita atvinnu tímabundið utan Íslands í kjölfar efnahagshrunsins hér á landi og uppfylla að öðru leyti skilyrði laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, ekki nýtt sér sömu úrræði og íslenskir ríkisborgarar. Hefur jafnframt verið á það bent að þetta skilyrði geti verið brot á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Með ákvæðinu er lögð til sú breyting að í stað þess að í 2. gr. laganna sé gert að skilyrði fyrir greiðsluaðlögun einstaklinga að skuldari hafi íslenskan ríkisborgararétt verði skilyrt að hann hafi átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í a.m.k. þrjú ár samfleytt áður en hann flutti erlendis tímabundið vegna náms, starfa eða veikinda. Náist ekki samningur um greiðsluaðlögun og skuldari óskar eftir að fá heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar er eftir sem áður skilyrði fyrir nauðasamningi að einstaklingur hafi lögheimili á Íslandi, sbr. 4. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Ekki er unnt að víkja frá því skilyrði þar sem ekki eru í gildi samningar við erlend ríki um gagnkvæma viðurkenningu nauðasamninga til greiðsluaðlögunar. Því mundi nauðasamningur um greiðsluaðlögun ekki koma í veg fyrir að lánardrottnar gætu sótt kröfu sína fyrir dómstóli þar sem lögheimili skuldara er.

Um 2. gr.


    Samkvæmt g-lið 1. mgr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga falla skuldir vegna námslána ekki undir greiðsluaðlögun einstaklinga að öðru leyti en því að ákveða má við greiðsluaðlögun að afborganir af þeim og vextir falli niður á greiðsluaðlögunartíma. Gert er ráð fyrir að sú tilhögun verði almenn regla enda eykur það svigrúm til samningaumleitana við aðra kröfuhafa. Nokkurs misskilnings virðist hafa gætt um þetta ákvæði þannig að unnt ætti að vera að fella undir það ýmiss konar skuldir tengdar námslánum aðrar en námslánin sjálf. Í athugasemdum við ákvæðið segir að ástæða þess að undanskilja skuldir vegna námslána frá greiðsluaðlögun einstaklinga er að þau eru nátengd aflahæfi skuldara og ekki veitt á viðskiptalegum forsendum. Þar er þess einnig getið að endurgreiðsla námslána sé tengd launum skuldara. Ákvæðinu er því einungis ætlað að gilda um kröfur Lánasjóðs íslenskra námsmanna vegna námslána en ekki aðrar skuldir tengdar töku námslána, svo sem yfirdrátt í viðskiptabanka o.fl. Því er lögð til orðalagsbreyting til að gera ákvæðið skýrara og koma í veg fyrir nokkurn misskilning.

Um 3.–4. gr.


    Í e-lið 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari áður fengið samþykkta greiðsluaðlögun eða nauðasamning til greiðsluaðlögunar. Sú undanþága er þó veitt að séu sérstakar aðstæður fyrir hendi er umboðsmanni skuldara heimilt að samþykkja umsókn. Ljóst er að erfiðara verður að meta sérstakar aðstæður eftir því sem lengra líður frá upphaflegu samþykki. Er því lögð til sú breyting í 3. gr. frumvarpsins að unnt verði að sækja aftur um greiðsluaðlögun að liðnum þremur árum frá því að heimild til greiðsluaðlögunar eða nauðasamnings til greiðsluaðlögunar var veitt. Er þetta til samræmis við 38. gr. gjaldþrotaskiptalaga, nr. 21/1991, þar sem kveðið er á um að synja skuli heimild til að leita nauðasamnings hafi nauðasamningur áður verði staðfestur innan þriggja ára fyrir frestdag.
    Þá er lagt til að skýrt verði kveðið á um að hafi skuldari fengið samþykktan nauðasamning til greiðsluaðlögunar fyrir gildistöku laga nr. 101/2010 skuli ekki sjálfkrafa synja um heimild til greiðsluaðlögunar. Er þessi undanþága sett inn til að tryggja að þeir sem fengu nauðasamning til greiðsluaðlögunar samkvæmt gjaldþrotaskiptalögum fyrir gildistöku laga nr. 101/2010 geti fengið endurupptöku máls síns og njóti sömu réttinda og aðrir skuldarar auk þess sem mikilvægt er að tryggja að samræmi sé við framkvæmd greiðsluaðlögunar.
    Ljóst er að nauðasamningar um greiðsluaðlögun fengu mjög misjafna meðferð hjá umsjónarmönnum fyrir tíð laga nr. 101/2010. Einstaklingar hafa í einhverjum tilvikum ekki náð að standa við nauðasamning vegna þess að hann var óraunhæfur frá upphafi og að auki er mismunandi hvernig farið er með kröfur að loknu greiðsluaðlögunartímabili í nauðasamningi til greiðsluaðlögunar. Því gæti svo farið að í einhverjum tilfellum þurfi að endurmeta þá samninga sem gerðir hafa verið. Sé ljóst að samningur hafi frá upphafi verið óraunhæfur verður að telja að um sérstakar aðstæður sé að ræða.
    Í 4. gr. er lögð til breyting á 7. gr. laganna sem ætlað er að tryggja að þegar umboðsmaður skuldara heimilar greiðsluaðlögun hjá einstaklingi sem hefur fengið staðfestan nauðasamning til greiðsluaðlögunar sé ekki nauðsynlegt að ógilda slíkan samning fyrir dómi enda er slíkt ferli kostnaðarsamt og þungt í vöfum. Samþykki umboðsmaður greiðsluaðlögun í tilvikum sem þessum ógildir það sjálfkrafa nauðasamninginn til greiðsluaðlögunar en umboðsmanni ber þó að tilkynna lánardrottnum og sýslumanni um ógildinguna.

Um 5. gr.


    Nokkurs misskilnings virðist hafa gætt um áhrif frestunar greiðslna skv. 11. gr. laganna hvað viðkemur ábyrgðarmönnum. Til að mynda hafi kröfuhafar hyggst leita fjárnáms í eigum ábyrgðarmanna til fullnustu krafna þegar frestun greiðslna er komin á. Slíkar aðgerðir brjóta klárlega gegn a-lið 1. mgr. 11. gr. þar sem kveðið er á um að lánardrottnum sé óheimilt sé að krefjast eða taka við greiðslu á kröfum sínum. Þá er í f-lið 1. mgr. kveðið á um að óheimilt sé að krefjast greiðslu hjá ábyrgðarmanni skuldarans. Til að taka af allan vafa um að hvers konar innheimtuaðgerðir sem óheimilt er að gera gagnvart skuldara séu jafnframt óheimilar gagnvart ábyrgðarmanni hans er lögð til breyting á ákvæðinu þess efnis. Þannig verði skýrt að réttaráhrif frestunar greiðslna vegna krafna á hendur skuldara séu hin sömu fyrir skuldara og ábyrgðarmann hans.

Um 6. gr.


    Almennur kærufrestur samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga er ein vika. Bent hefur verið á að þessi frestur sé stuttur og mikilvægt sé að gefa einstaklingum nægilegan umþóttunartíma ella aukist líkur á því að umsækjandi sem missir af kærufrestinum sæki um aftur í þeim tilgangi einum að geta nýtt kæruheimildina. Eykur það óþarflega flækjustig mála og álag á embætti umboðsmanns skuldara. Er því lagt til að kærufrestur verði tvær vikur.

Um 7.–8. gr.


    Með greinunum eru lagðar til breytingar á 28. og 29. gr. laganna. Í 28. gr. er kveðið á um að umsjónarmaður skuli óska eftir því að athugasemd um samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun skuli skráð í þinglýsingarbækur, eftir því sem við á. Mikilvægt er að athugasemdinni sé þinglýst um leið og umboðsmaður hefur samþykkt umsókn svo að kröfuhöfum sé sem fyrst ljóst að réttaráhrif 11. gr. laganna hafi tekið gildi. Er því lagt til að umboðsmaður óski eftir þinglýsingunni um leið og hann hefur samþykkt umsóknina. Til samræmis er lögð til sú breyting að umboðsmaður óski eftir skráningu í opinberar skrár.
    Samkvæmt 29. gr. laganna getur skuldari krafist aflýsingar athugasemdar um greiðsluaðlögun úr þinglýsingabókum. Til þess þarf hann að framvísa greiðsluaðlögunarsamningi og yfirlýsingu umboðsmanns skuldara um að greiðsluaðlögun sé lokið. Til að einfalda ferlið og gæta samræmis er lögð til sú breyting að umboðsmaður óski eftir aflýsingu athugasemdar um greiðsluaðlögun þegar greiðsluaðlögunartímabili er lokið. Þá óskar umboðsmaður skuldara jafnframt eftir aflýsingu hafi skuldari dregið umsókn sína til baka á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana.

Um 9. gr.


    Í 34. gr. laganna er kveðið á um að umboðsmaður skuldara setji verklagsreglur um framkvæmd greiðsluaðlögunar sem ráðherra staðfestir og birta skuli opinberlega. Verklagsreglur þessar eiga að varða starfsemi umsjónarmanna og tryggja samræmi í framkvæmd greiðsluaðlögunarumleitana. Til að markmið ákvæðisins um samræmi í meðferð greiðsluaðlögunarmála hjá umsjónarmönnum náist er talið nauðsynlegt að sett verði reglugerð um starfsemi umsjónarmanna. Er því lagt til að í stað verklagsreglna setji ráðherra reglugerð þar sem m.a. skuli kveða á um starfsemi umsjónarmanna og samræmda framkvæmd greiðsluaðlögunar.

Um 10. gr.


    Í 10. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 63. gr. a laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/ 1991, sem ætlað er að tryggja að meðferð krafna við nauðasamning um greiðsluaðlögun sé með sama hætti og við greiðsluaðlögun með samningi. Nauðsynlegt er að meðferð krafna sé með samræmdum hætti svo ekki sé til staðar óeðlilegur hvati fyrir kröfuhafa eða umsækjanda um greiðsluaðlögun til að þrýsta á að samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010 takist ekki í von um að fá betri rétt með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 21/1991.
    Með greininni er lagt til að f–h-liður 1. mgr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga verði teknir orðrétt upp í ákvæði um nauðasamning til greiðsluaðlögunar. Breytingin felst í því að undanskilja frá nauðasamningi til greiðsluaðlögunar fésektir sem ákveðnar hafa verið með dómi eða af stjórnvaldi eða með sátt áður en umsókn um greiðsluaðlögun var tekin til greina, kröfur um vangoldinn virðisaukaskatt, kröfur um vangoldna staðgreiðslu og kröfur um skaðabætur vegna tjóns sem samkvæmt dómi hefur verið valdið með refsiverðu athæfi. Þessar kröfur þurfi því að greiða að fullu.
    Þá er lagt til, í samræmi við g-lið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 101/2010 og 2. gr. frumvarps þessa, að kröfur Lánasjóðs íslenskra námsmanna vegna námslána falli ekki undir nauðasamning til greiðsluaðlögunar. Gert er þó ráð fyrir sambærilegri reglu og er í lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga þess efnis að afborganir námslána verði felldar niður á greiðsluaðlögunartíma og öðrum kröfuhöfum þannig skapað sanngjarnt svigrúm.
    Að síðustu er lagt til að áfallandi meðlag og lífeyrir sem skuldara ber að greiða samkvæmt hjúskapar- eða barnalögum falli ekki undir nauðasamning til greiðsluaðlögunar. Er þetta í samræmi við h-lið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 101/2010. Auk þess gildi hið sama um uppsafnaða skuld við opinbera aðila vegna meðlags og því fari um slíkar skuldir samkvæmt ívilnunarúrræðum laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971.

Um 11. gr.


    Í 11. gr. er lögð til breyting á lögum nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri. Samkvæmt gildandi 1. mgr. 1. gr. laganna geta lögaðilar og einstaklingar í atvinnurekstri sem eru í vanskilum með virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjald og þing- og sveitarsjóðsgjöld sem hafa gjaldfallið fyrir 1. janúar 2010 sótt um frest til greiðsluuppgjörs á þeim vanskilum til 1. júlí 2011. Greiðsluuppgjör felur í sér frest á greiðslum til 1. júlí 2011 og bera vanskilin ekki vexti á meðan. Þann 1. júlí 2011 getur tollstjóri svo samþykkt útgáfu skuldabréfs til greiðslu þeirra skatta og gjalda sem voru í fresti til greiðsluuppgjörs og skal skuldabréfið vera vaxtalaust. Einstaklingar sem hætt hafa atvinnurekstri en skulda framangreind gjöld vegna atvinnureksturs geta því ekki nýtt sér frestinn.
    Mikilvægt er að tryggja virkni greiðsluaðlögunar. Til að svo geti orðið þurfa þær reglur sem gilda um skuldir einstaklinga að vera með samræmdum hætti. Hafi einstaklingur hætt rekstri en skuldi ofangreind gjöld ber honum að greiða þau að fullu skv. f-lið 1. mgr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Sé samið um að greiða þau niður á lengri tíma nýtur sá einstaklingur ekki sömu skilmála og sá sem sótt hefur um greiðslufrest. Að auki geta kröfuhafar þess sem fengið hefur greiðsluuppgjör fengið meira í sinn hlut enda frestast greiðslur á vanskilum til 1. júlí 2011. Í þeim tilfellum getur því verið að þeir séu liðlegri í samningaviðræðum og auknar líkur á því að samningur um greiðsluaðlögun komist á.
    Áhersla er lögð á það í lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga að ljúka málum á samningsgrundvelli og því eigi kröfuhafi einungis í undantekningartilfellum að synja um samning enda hafi hann ástæðu til að ætla að skuldari geti greitt meira. Sé kröfuhafi ósáttur við samning um endurgreiðslu vangoldinna gjalda og telji að greiða eigi lægri mánaðarlega fjárhæð eða fresta þeim greiðslum til að hærri greiðslur komi til skiptanna til kröfuhafa gæti svo farið að hann setji sig upp á móti samningi.
    Til að tryggja virkni greiðsluaðlögunar, að samræmdar reglur gildi og að ekki sé til staðar hvati fyrir kröfuhafa að synja samningi í von um að fá betri rétt með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar er lögð til breyting á 1. mgr. 1. gr. laga nr. 24/2010 þess efnis að lögin gilda jafnframt fyrir þá einstaklinga sem hætt hafa rekstri séu vangoldin gjöld þeirra tilkomin vegna reksturs.

Um 12. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.