Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 164. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 180  —  164. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Tryggvi Þór Herbertsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Ásbjörn Óttarsson, Ragnheiður E. Árnadóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson,
Kristján Þór Júlíusson, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Jón Gunnarsson,
Gunnar Bragi Sveinsson, Ásmundur Einar Daðason.


1. gr.

    Við 3. mgr. 42. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Þjónustu grenjaskytta við refa- og minkaveiðar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Eyðing refa og minka er kostnaðarsöm og hefur lagst með vaxandi þunga á fjárhag ýmissa sveitarfélaga. Þetta á einkum við hin landmeiri sveitarfélög, sem í ýmsum tilvikum eru einnig fámenn. Kostnaður við þetta verkefni hefur haft mjög íþyngjandi áhrif á fjárhag þeirra og kallað hefur verið eftir úrbótum.
    Þetta verkefni er í raun samfélagslegt. Refur og minkur eru vágestir í náttúrunni og hafa sums staðar haft mjög slæm áhrif á lífríkið. Fuglalíf hefur látið undan og dæmi eru um að bændur hafi orðið fyrir tjóni með því að þessi dýr hafi lagst á búpening. Það er því eðlilegt að ríkisvaldið komi að þessu verkefni með sveitarfélögunum, m.a. til þess að jafna þann kostnað sem ella leggst með ósanngjörnum hætti á fámenn og landmikil sveitarfélög.
    Þróunin hefur verið sú að heldur hefur dregið úr kostnaðarþátttöku ríkissjóðs við veiðar á ref og mink. Það er mat m.a. þeirra sem veiðarnar stunda að þetta hafi valdið því að gætt hafi meiri ágangs þessara dýra, með samsvarandi tjóni í náttúrunni og fyrir bændur. Þetta er því bersýnilega slæm þróun sem einhvern veginn þarf að snúa við.
    Fyrsti flutningsmaður þessa frumvarps lagði fram fyrirspurn til umhverfisráðherra um veiðar á ref og mink. Þar kemur glöggt fram að dregið hafi úr fjárveitingum til veiða á ref og mink á undanförnum árum. Svar ráðherrans nær yfir fimm ára tímabil, 2005–2009. Hæst var fjárveitingin árið 2005 eða 45 millj. kr. á verðlagi ársins 2009 en var 33 og 35 millj. kr. árin 2008 og 2009, á sama verðlagi. Nánar má sjá þessar upplýsingar í fylgiskjali.
    Ríkið innheimtir virðisaukaskatt af veiðum á ref og mink. Innheimtur virðisaukaskattur hefur verið á verðlagi ársins 2009 í kringum 11 millj. kr. á þessu tímabili, samkvæmt svari ráðherra. Athyglisvert er að virðisaukaskattur sem ríkið fær hefur hækkað sem hlutfall af fjárveitingum til málaflokksins á þessu tímabili. Þannig var virðisaukaskatturinn sem hlutfall af fjárveitingunni um 24% árið 2005 en 33% í fyrra. Nettókostnaður ríkisins af veiðum á ref og mink var þannig 34 millj. kr. á árinu 2005 en 23 millj. kr. í fyrra. Þetta gefur til kynna að hlutfallslegur kostnaður ýmissa sveitarfélaga hafi aukist þar sem sveitarfélögin hafa ekki dregið úr veiðum þó að greiðsluþátttaka ríkisins hafi minnkað.
    Til þess að bregðast við þessu og tryggja meiri sanngirni gagnvart landmiklum og oft fámennari sveitarfélögum er því lagt til að sveitarfélögin fái endurgreiddan virðisaukaskatt. Dæmi um slíkt eru í tilvikum þar sem um er að ræða samfélagsleg verkefni.
    Mjög hefur verið kallað eftir því að þessum málum verði komið í fastari skorður. Samþykktir sveitarfélaga og samtaka þeirra eru í þessa átt og nefna má einnig að Búnaðarþing árið 2010 hvatti og stjórnvöld til þess að endurgreiða sveitarfélögum að fullu virðisaukaskatt vegna þessara veiða.
    Í fyrrnefndu svari umhverfisráðherra við fyrirspurn fyrsta flutningsmanns eru ágætlega tíunduð rökin fyrir því að staðið sé fyrir veiðum á ref og mink. Þar koma glögglega fram hin samfélagslegu rök sem lúta að því að ríkið komi að verkefninu.
    „Markmið með veiðum á ref og mink eru ólík. Minkurinn er innflutt tegund sem sloppið hefur út í náttúruna og veldur oft verulegu tjóni og getur haft umtalsverð áhrif í náttúrunni. Hann hefur ekki, þrátt fyrir mikla útbreiðslu í áttatíu ár í íslenskri náttúru, verið viðurkenndur sem íslensk tegund. Undanfarin þrjú ár hefur verið í gangi tilraunaverkefni sem miðar að því að kanna hvort gerlegt sé að útrýma mink úr íslenskri náttúru eða hvort mögulegt sé að halda ákveðnum mikilvægum svæðum minklausum. Verkefninu lýkur á næsta ári og fást þá vísbendingar um möguleika þess að draga úr dreifingu minksins eða útrýma honum úr náttúrunni. Meðan verið er að ljúka tilraunaverkefninu er markmiðið með veiðum á mink utan tilraunasvæðanna að halda mink í skefjum.
    Markmið með veiðum á ref eru annars eðlis og miðast við að draga úr eða koma í veg fyrir tjón af völdum refa einkum á hlunnindum bænda. Refaveiðar eru á ábyrgð sveitarfélaganna en ríkinu er heimilt samkvæmt lögum að greiða allt að helmingi kostnaðar á móti þeim eftir því sem fjárlög veita svigrúm til. Þar sem refurinn er íslensk tegund er markmið með veiðunum fyrst og fremst að draga úr því tjóni sem hann veldur.“


Fylgiskjal.


Svar umhverfisráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar


um veiðar á ref og mink.

(Þskj. 396 í 205. máli 138. löggjafarþings.)


     1.      Hver hafa verið árleg fjárframlög ríkisins til veiða á ref og mink frá árinu 2005? Svar óskast sundurliðað eftir árum á núgildandi verðlagi.
    Fjárheimildir til veiða á ref og mink þróuðust þannig á árunum 2005–2009 á verðlagi ársins 2009:

Ár Fjárheimild
2005 45,0 m.kr.
2006 44,3 m.kr.
2007 44,0 m.kr.
2008 33,2 m.kr.
2009 34,8 m.kr.
Samtals 201,3 m.kr.
     2.      Hve mikið hefur verið innheimt af virðisaukaskatti á sama tíma vegna veiða á ref og mink? Svar óskast sundurliðað eftir árum á núgildandi verðlagi.
    Innheimtur virðisaukaskattur greinist þannig eftir árum á fyrrgreindu tímabil á verðlagi ársins 2009:

Ár Innheimtur vsk.
2005 10,9 m.kr.
2006 11,1 m.kr.
2007 11,2 m.kr.
2008 11,9 m.kr.
2009 11,5 m.kr.
Samtals 56,6 m.kr.

     3.      Hver eru markmiðin með kostnaðarþátttöku ríkisins við veiðar á ref og mink og hvernig verður unnið að þeim?
    Markmið með veiðum á ref og mink eru ólík. Minkurinn er innflutt tegund sem sloppið hefur út í náttúruna og veldur oft verulegu tjóni og getur haft umtalsverð áhrif í náttúrunni. Hann hefur ekki, þrátt fyrir mikla útbreiðslu í áttatíu ár í íslenskri náttúru, verið viðurkenndur sem íslensk tegund. Undanfarin þrjú ár hefur verið í gangi tilraunaverkefni sem miðar að því að kanna hvort gerlegt sé að útrýma mink úr íslenskri náttúru eða hvort mögulegt sé að halda ákveðnum mikilvægum svæðum minklausum. Verkefninu lýkur á næsta ári og fást þá vísbendingar um möguleika þess að draga úr dreifingu minksins eða útrýma honum úr náttúrunni. Meðan verið er að ljúka tilraunaverkefninu er markmiðið með veiðum á mink utan tilraunasvæðanna að halda mink í skefjum.
    Markmið með veiðum á ref eru annars eðlis og miðast við að draga úr eða koma í veg fyrir tjón af völdum refa einkum á hlunnindum bænda. Refaveiðar eru á ábyrgð sveitarfélaganna en ríkinu er heimilt samkvæmt lögum að greiða allt að helmingi kostnaðar á móti þeim eftir því sem fjárlög veita svigrúm til. Þar sem refurinn er íslensk tegund er markmið með veiðunum fyrst og fremst að draga úr því tjóni sem hann veldur.