Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 177. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 193  —  177. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um rannsókn á forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti og viðskiptaráðuneyti.

Flm.: Þór Saari, Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir.



    Alþingi ályktar að gerð verði sjálfstæð og óháð rannsókn á forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti og viðskiptaráðuneyti og starfsháttum þeirra frá ársbyrjun 2007 til loka september 2010. Forseti Alþingis skipi þriggja manna nefnd til að vinna rannsóknina og skila um hana skýrslu til Alþingis innan sex mánaða frá skipun nefndarinnar. Rannsóknin taki sérstaklega til samskipta við önnur ráðuneyti, Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið, ákvarðana sem voru teknar í viðkomandi ráðuneytum á tímabilinu og atburða sem tengjast falli bankanna.

Greinargerð.


    Í ljósi umfjöllunar um forsætis-, fjármála- og viðskiptaráðuneyti í skýrslu þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er lagt til að gerð verði rannsókn á ráðuneytunum þremur og þá sérstaklega horft til samskipta, ákvarðana og atburða sem tengjast falli bankanna.
    Ljóst þykir að í aðdraganda hrunsins hafi mikilvægar ákvarðanir verið teknar án umræðu í ríkisstjórn og eru dæmi um að viðkomandi fagráðherrar hafi ekki verið boðaðir á fundi um málefni sem heyrðu undir þeirra ábyrgðarsvið. Enn fremur var það ein af niðurstöðum þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að ábyrgð og eftirlit fagráðherra með sjálfstæðum stofnunum sem undir ráðuneyti þeirra heyrðu virtist verulega ábótavant. Í ljósi framangreinds er brýnt að gerð verði rannsókn á þeim ráðuneytum sem fjallað er um í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og lögð sérstök áhersla á að kanna samskipti ráðuneyta við önnur ráðuneyti, Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið, ákvarðanir sem teknar voru í viðkomandi ráðuneytum á tímabilinu og atburði sem tengjast falli bankanna.