Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 179. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 196  —  179. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um sérstaka vernd Alþingis og atvikin í Alþingishúsinu 8. desember 2008.

Flm.: Mörður Árnason, Álfheiður Ingadóttir, Margrét Tryggvadóttir,
Björn Valur Gíslason, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Birgitta Jónsdóttir,
Lilja Mósesdóttir, Þráinn Bertelsson, Valgerður Bjarnadóttir.


    Alþingi telur varhugavert að túlka lagaákvæði um sérstaka vernd þingsins með þeim hætti að tjáningarfrelsi stafi hætta af og gengið sé á mikilsverðan rétt borgaranna til að safnast saman til mótmæla eða annars konar þátttöku í stjórnmálum. Um leið og lögð er áhersla á að slík mótmæli fari friðsamlega fram og ógni ekki fólki, eignum né menningarverðmætum lýsir Alþingi yfir að það telur ekki eðlilegt að líta þannig á atvikin í Alþingishúsinu 8. desember 2008 að þar hafi fólk ráðist á Alþingi svo að því eða sjálfræði þess hafi verið hætta búin svo sem áskilið er í 100. gr. almennra hegningarlaga.

Greinargerð.


    Atvikin í Alþingishúsinu 8. desember 2008 leiddu til þess að ríkissaksóknari ákvað að ákæra fyrir ýmsar sakir níu þátttakendur í mótmælaaðgerðunum sem þá stóðu. Þar á meðal er ákært fyrir brot á 100. gr. hegningarlaga þar sem kveðið er á um að hver „sem ræðst á Alþingi, svo að því eða sjálfræði þess er hætta búin, lætur boð út ganga, sem að því lýtur, eða hlýðir slíku boði, [skuli] sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár, og getur refsingin orðið ævilangt fangelsi, ef sakir eru mjög miklar“.
    Skrifstofustjóri Alþingis vísaði meðal annars til þessarar greinar í rannsóknarbeiðni sem hann sendi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins 19. desember 2008 vegna atvikanna. Þótt ákvörðun saksóknara sé sjálfstæð og leiði ekki af rannsóknarbeiðni eða kæru er ljóst að víða er litið svo á að vegna þessa bréfs, auk atriða í svörum forseta Alþingis um málið á vettvangi þingsins eða í almennri umræðu, hafi Alþingi sem slíkt haft af málinu afskipti sem jafngildi því að það telji að hér hafi verið um að ræða árás í skilningi 100. gr., sem beri að refsa fyrir með fangelsisvist, í eitt ár að minnsta kosti.
    Vegna undanfara saksóknarinnar og með tilliti til stjórnmálalífs á Íslandi í framtíðinni er eðlilegt að Alþingi álykti um beitingu 100. gr. almennra hegningarlaga og í ljósi hennar um þau atvik sem um ræðir.