Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 185. máls.

Þskj. 202  —  185. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. a laganna:
     a.      Í stað „12 kr./kg“ kemur: 15 kr./kg.
     b.      Í stað „5 kr./kg“ kemur: 12 kr./kg.

2. gr.

    Í stað „5,00 kr./kg“ í viðauka I við lögin kemur: 12,00 kr./kg.

3. gr.

    Í stað „13,00 kr./kg“ í viðauka IV við lögin kemur hvarvetna: 30,00 kr./kg.

4. gr.

    Í stað „7,00 kr./kg“ í viðauka V við lögin kemur hvarvetna: 15,00 kr./kg.

5. gr.

    Í stað „160,00 kr./kg“ í viðauka VI við lögin kemur hvarvetna: 220,00 kr./kg.

6. gr.     

    Í stað „2,50 kr./kg“ í viðauka VII við lögin kemur hvarvetna: 5,00 kr./kg.

7. gr.

    Í stað „30,00 kr./kg“ í viðauka VIII við lögin kemur hvarvetna: 35,00 kr./kg.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á viðauka XI við lögin:
     a.      Í stað „25,00 kr./kg“ kemur: 35,00 kr./kg.
     b.      Í stað „35,00 kr./kg“ kemur: 49,00 kr./kg.
     c.      Í stað „138,00 kr./stk.“ kemur: 193,00 kr./stk.
     d.      Í stað „414,00 kr./stk.“ kemur: 580,00 kr./stk.
     e.      Í stað „552,00 kr./stk.“ kemur: 773,00 kr./stk.
     f.      Í stað „828,00 kr./stk.“ kemur: 1.160,00 kr./stk.
     g.      Í stað „1.104,00 kr./stk.“ kemur: 1.546,00 kr./stk.
     h.      Í stað „2.207,00 kr./stk.“ kemur: 3.090,00 kr./stk.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á viðauka XII við lögin:
     a.      Í stað „72,00 kr./kg“ kemur: 84,00 kr./kg.
     b.      Í stað „120,00 kr./kg“ kemur: 140,00 kr./kg.
     c.      Í stað „240,00 kr./kg“ kemur: 280,00 kr./kg.
     d.      Í stað „288,00 kr./kg“ kemur: 336,00 kr./kg.
     e.      Í stað „384,00 kr./kg“ kemur: 448,00 kr./kg.
     f.      Í stað „576,00 kr./kg“ kemur: 672,00 kr./kg.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á viðauka XVI við lögin:
     a.      Í stað „15,00 kr./kg“ kemur hvarvetna: 40 kr./kg.
     b.      Í stað „1.500 kr./stk.“ kemur hvarvetna: 4.000 kr./stk.
     c.      Í stað „2.100 kr./stk.“ kemur hvarvetna: 5.600 kr./stk.
     d.      Í stað „12.000 kr./stk.“ kemur hvarvetna: 32.000 kr./stk.
     e.      Í stað „9.000 kr./stk.“ kemur hvarvetna: 24.000 kr./stk.
     f.      Í stað „375 kr./stk.“ kemur hvarvetna: 1.000 kr./stk.
     g.      Í stað „6.750 kr./stk.“ kemur hvarvetna: 18.000 kr./stk.
     h.      Í stað „3.000 kr./stk.“ kemur hvarvetna: 8.000 kr./stk.
     i.      Í stað „3.450 kr./stk.“ kemur hvarvetna: 9.200 kr./stk.
     j.      Í stað „7.875 kr./stk.“ kemur hvarvetna: 21.000 kr./stk.
     k.      Í stað „525 kr./stk.“ kemur hvarvetna: 1.400 kr./stk.
     l.      Í stað „675 kr./stk.“ kemur hvarvetna: 1.800 kr./stk.
     m.      Í stað „450 kr./stk.“ kemur hvarvetna: 1.200 kr./stk.
     n.      Í stað „900 kr./stk.“ kemur hvarvetna: 2.400 kr./stk.
     o.      Í stað „600 kr./stk.“ kemur hvarvetna: 1.600 kr./stk.
     p.      Í stað „1.125 kr./stk.“ kemur hvarvetna: 3.000 kr./stk.
     q.      Í stað „750 kr./stk.“ kemur hvarvetna: 2.000 kr./stk.
     r.      Í stað „13.500 kr./stk.“ kemur hvarvetna: 36.000 kr./stk.
     s.      Í stað „15.000 kr./stk.“ kemur hvarvetna: 40.000 kr./stk.
     t.      Í stað „10.500 kr./stk.“ kemur hvarvetna: 28.000 kr./stk.
     u.      Í stað „7,50 kr./kg“ kemur hvarvetna: 20 kr./kg.
     v.      Í stað „120 kr./stk.“ kemur hvarvetna: 320 kr./stk.
     w.      Í stað „180 kr./stk.“ kemur hvarvetna: 480 kr./stk.
     x.      Í stað „240 kr./stk.“ kemur hvarvetna: 640 kr./stk.
     y.      Í stað „30,00 kr./stk.“ kemur hvarvetna: 80,00 kr./stk.
     z.      Í stað „150 kr./stk.“ kemur hvarvetna: 400 kr./stk.

11. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2011.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar til hækkunar á fjárhæð úrvinnslugjalds á olíumálningu, blýsýrurafgeymum, pappa- og pappírsumbúðum, plastumbúðum og heyrúlluplasti, ísócyanötum, leysiefnum, halógeneruðum efnasamböndum, olíuvörum, framköllunarefnum og hjólbörðum. Endurskoðun þessi á gjöldum er til þess fallin til að draga úr sjóðshalla sem átt hefur sér stað í þessum flokkum. Frumvarpið byggist á tillögum stjórnar Úrvinnslusjóðs í samræmi við 2. mgr. 4. gr. laganna.
    Tekjur Úrvinnslusjóðs af úrvinnslugjaldi ráðast af innflutningi og innlendri framleiðslu af vörum sem falla undir lögin og upphæð úrvinnslugjalds (kr./kg) í hverjum vöruflokki. Vegna mikils samdráttar í verslun og viðskiptum er erfitt að áætla tekjur Úrvinnslusjóðs til langs tíma. Gert er ráð fyrir að álagt magn árið 2011 verði heldur meira en árið 2010.
    Kostnaður af rekstri Úrvinnslusjóðs, utan kostnaðar við skrifstofu, ræðst af magni úrgangs sem er safnað og ráðstafað (endurnýting, endurvinnsla eða förgun) af þjónustuaðilum annars vegar og upphæð þjónustugjalds (kr./kg) sem greitt er til þeirra þegar staðfesting á ráðstöfun liggur fyrir hins vegar. Greitt er fyrir flutning og ráðstöfun. Í áætlun Úrvinnslusjóðs er safnað magn áætlað út frá þróun í söfnuðu magni sl. ár. Við mat á ráðstöfuðu magni er auk þess stuðst við þróun skilahlutfalls (ráðstafað magn deilt með álögðu magni) síðustu ára. Meiri óvissa er í þessari spá en áður vegna mikilla sveiflna í innflutningi og framleiðslu vegna hinna sérstöku aðstæðna í þjóðfélaginu. Nokkur tími líður frá því að vara er sett á markað þar til úrgangur af hennar völdum fellur til. Þessi tími er frá einhverjum mánuðum upp í mörg ár, fer eftir vörum. Óvissa í mati á úrgangi af þessum völdum er meiri þegar hagsveiflur eru miklar. Stærsti kostnaðarliður Úrvinnslusjóðs er greiðsla til þjónustuaðila (skilagjald í tilfelli ökutækja) fyrir ráðstöfun (endurnýting/endurvinnsla/förgun). Almennt er miðað við að þessi kostnaður, þ.e. magntengd greiðsla til þjónustuaðila, hækki um allt að 5% milli 2010 og 2011. Í öllum vöruflokkum nema smurolíu og ökutækjum er hækkun á þessum greiðslum ákveðin hverju sinni af stjórn sjóðsins. Samningur er við olíufélögin um söfnun smurolíuúrgangs og eru greiðslur þar vísitölubundnar. Upphæð skilagjalds á ökutæki er bundin í lög.
    Tillögur um breytingar á úrvinnslugjaldi miða við að ná viðunandi sjóðsstöðu vöruflokka á næstu þremur til fimm árum. Miðað er við að sjóðir verði að jafnaði ekki lægri en um 30% af árskostnaði við vöruflokkinn. Um tillögur um gjaldabreytingar vöruflokka er vísað til athugasemda við einstakar greinar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

     Í greininni eru gerðar tillögur um breytingu á úrvinnslugjaldi á pappa- og pappírsumbúðir og plastumbúðir.
    Innflutningur og innlend framleiðsla hefur dregist saman síðustu tvo ár. Söfnun pappaumbúða til endurvinnslu virðist hlutfallslega vera að aukast á sama tíma. Á árinu 2009 var safnað og flutt til endurvinnslu eða endurnýtingu um 9.500 tonn af um 14.000 tonnum sem lagt var á úrvinnslugjald. Þetta gerir um 70% skilahlutfall en það var 45% árið 2007. Endurvinnsluhlutfall pappa- og pappírsumbúða árið 2009 var um 60%. Ákvæði í löggjöf um meðhöndlun úrgangs mæla fyrir um endurvinnsluhlutfall sem ná á fyrir árslok 2011 og byggt er á Evrópugerð sem innleidd hefur verið hér á landi. Áætlun Úrvinnslusjóðs gerir ráð fyrir að þau markmið náist. Í lok árs 2008 féll verð á endurvinnslumörkuðum erlendis verulega. Til að halda söfnun gangandi hækkaði Úrvinnslusjóður greiðslur til þjónustuaðila tímabundið. Fylgst er náið með þróun á verði fyrir úrgangspappa og pappír á endurvinnslumarkaði erlendis sem hefur verið að braggast auk þess sem íslenska krónan hefur verið tiltölulega stöðug gagnvart evru á árinu 2010. Þetta hefur gefið svigrúm til að lækka greiðslu til þjónustuaðila. Þó að ekki hefði komið til þessarar tímabundnu hækkunar á greiðslum til þjónustuaðila hefði þurft að hækka úrvinnslugjald m.a. vegna hækkandi skilahlutfalls. Gerð er tillaga í a-lið um hækkun úrvinnslugjalds úr 12 kr./kg í 15 kr./kg eða um 25%.
    Þá er gerð tillaga í b-lið um breytingu á úrvinnslugjaldi á plastumbúðir úr 5 kr./kg í 12 kr./kg, sjá að öðru leyti umfjöllun um 2. gr.

Um 2. gr.

    Í greininni er gerð tillaga um breytingu á úrvinnslugjaldi á heyrúlluplast.
    Í ársbyrjun 2008 var heyrúlluplast og plastumbúðir sameinaðar í einn vöruflokk með sama gjaldi. Við þetta lækkaði gjald á heyrúlluplast úr 25,00 kr./kg í 3,00 kr./kg. Árið áður var verð á öðrum plastumbúðum lækkað úr 10,00 kr./kg í 3,00 kr./kg vegna sjóðssöfnunar. Verð á plasti var hátt á endurvinnslumarkaði erlendis en féll verulega í lok árs 2008 samhliða því að markaðir lokuðust. Endurvinnslumarkaðir hafa síðan verið að taka við sér. Á árinu 2009 var safnað um 3.400 tonnum af um 11.800 tonnum sem lagt var á úrvinnslugjald og flutt til endurvinnslu eða endurnýtingar. Tilkostnaður við innsöfnun á plastumbúðaúrgangi er tiltölulega meiri en vegna pappaumbúða, sérstaklega innsöfnun á heyrúlluplasti þar sem mjög góður árangur hefur náðst. Gengið hefur mjög á sjóðinn og hann rekinn með talsverðum halla. Evrópureglur mæla fyrir um endurvinnsluhlutfall sem ná á fyrir árslok 2011. Áætlun Úrvinnslusjóðs gerir ráð fyrir að þau markmið náist. Lögð er til hækkun úrvinnslugjalds úr 5,00 kr./kg í 12,00 kr./kg eða 140% hækkun.

Um 3. gr.

    Í greininni er gerð tillaga um breytingu á úrvinnslugjaldi á olíuvörur aðrar en brennsluolíu. Álagt gjald á olíuvörur hefur verið óbreytt frá því í mars 2007. Allur tilkostnaður við meðhöndlun úrgangsolíu hefur aukist verulega. Sjóðurinn er rekinn með halla og er því gerð tillaga um hækkun úrvinnslugjalds úr 13,00 kr./kg í 30,00 kr./kg eða um 130%.

Um 4. gr.

    Innflutningur á leysiefnum hefur verið sveiflukenndur á liðnum árum og heldur farið minnkandi. Skilahlutfall hefur verið hátt síðan 2006 vegna breyttrar notkunar á hluta af efnunum. Búið er að leggja úrvinnslugjald á flokk leysiefna. Þau skila sér nánast öll til endurnýtingar að notkun lokinni. Gjald á þessi leysiefni er óbreytt, 120 kr./kg. Sjóðsstaða er neikvæð vegna kostnaðar við endurnýtingu eða förgun leysiefna. Lögð er til hækkun úrvinnslugjalds úr 7,00 kr./kg í 15,00 kr./kg eða um 114%.

Um 5. gr.

    Vöruflokkurinn halógeneruð efni hefur verið rekinn með neikvæða sjóðsstöðu í nokkurn tíma. Erfitt hefur reynst að rétta sjóðinn af. Stórir farmar af uppsöfnuðum úrgangi hafa borist m.a. vegna fyrirtækja sem hafa hætt starfsemi. Reksturinn stefnir í að verða neikvæður á þessu ári. Lögð er til hækkun úrvinnslugjalds úr 160,00 kr./kg í 220,00 kr./kg eða um 37%.

Um 6. gr.

    Ísócyanöt er lítill vöruflokkur og því þarf lítið út af að bregða til að reksturinn verði neikvæður. Sjóðurinn er neikvæður eins og er. Lögð er til hækkun úr 2,50 kr./kg í 5,00 kr./kg eða 100% hækkun.

Um 7. gr.

    Rekstur vöruflokks olíumálningar hefur verið erfiður undanfarin ár. Samstarf hefur verið við framleiðendur, innflytjendur og þjónustuaðila um leiðir til að ná niður kostnaði við meðhöndlun og förgun á málningarúrgangi. Meðalkostnaður hefur lækkað nánast stöðugt frá árinu 2003 þegar hann var um 144 kr./kg en hann er nú um 136 kr./kg. Aðeins er lagt gjald á olíumálningu en ekki vatnsmálningu. Gerð er tillaga um hækkun úrvinnslugjalds úr 30,00 kr./kg í 35,00 kr./kg eða um 16%.

Um 8. gr.

    Álagt magn blýsýrurafgeyma hefur minnkað verulega síðustu tvö ár. Ekki hefur dregið úr söfnun rafgeymaúrgangs að sama skapi, þ.e. skilahlutfallið hefur hækkað á milli ára. Óljóst er hver þróunin verður á næstu árum, en innflutningur bíla hefur dregist verulega saman og stefnir í að svo verði áfram. Lögð er til 40% hækkun á úrvinnslugjaldi til að mæta auknum mismun á milli útgjalda sjóðsins og minnkandi tekna.

Um 9. gr.

    Undanfarin ár hefur taprekstur verið nokkur á rekstri sjóðs framköllunarefna. Erfitt hefur reynst að fá úrvinnslugjald til að bæði standa undir rekstri vöruflokksins og vinna á viðvarandi tapi. Skýringin er sú að notkun framköllunarefna fer stöðugt minnkandi vegna stafrænnar tækni við ljósmyndun hvers konar. Sjóðurinn hefur gert miklar ráðstafanir á undanförnum árum til að mæta þessari þróun. Framköllunarefni eru flutt inn í mismunandi styrkleika og með mismunandi úrvinnslugjaldi sem reiknað er út frá grunngjaldi framköllunarefna. Til að bæta upp sjóðstap er lögð til 17% hækkun á grunngjaldi.

Um 10. gr.

    Í ársbyrjun árið 2003 þegar fyrst var ákveðið að leggja úrvinnslugjald á hjólbarða var gjaldið ákveðið 36 kr./kg. Þá höfðu að meðaltali verið flutt inn á milli 5.000 og 6.000 tonn á hjólbörðum fimm árin þar á undan. Hjólbarðar koma bæði stakir eða undir bílum og tækjum til landsins. Árið 2003 voru flutt inn um 5.000 tonn og tekið á móti um 1.615 tonnum til förgunar. Árið 2004 var innflutningur hjólbarða 6.300 tonn og móttekin til meðhöndlunar 4.000 tonn. Innflutningur á hjólbörðum jókst síðan stig af stigi og fór mest í um 9.000 tonn árið 2007 og móttekið magn til endurnýtingar, þar sem bann við urðun hjólbarða tók gildi 2006, var 6.500 tonn. Við þetta varð mikil sjóðsmyndun í vöruflokknum og var gjald á hjólbarða lækkað í 30 kr./kg í ársbyrjun 2005 og aftur í 20 kr./kg í ársbyrjun 2006 og enn á ný í mars 2007 í 15 kr./kg en við það gekk verulega á hjólbarðasjóðinn. Nú hefur innflutningur á hjólbörðum minnkað mikið eða í 2.600 tonn árið 2009 og móttekið magn til endurnýtingar var 4.600 tonn. Þetta hefur haft verulega neikvæð áhrif á afkomu sjóðsins er því er lögð til 167% hækkun á úrvinnslugjaldi.

Um 11. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um úrvinnslugjald,
nr. 162/2002, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru lagðar til hækkanir á fjárhæðum úrvinnslugjalds á pappírs-, pappa- og plastumbúðir, heyrúlluplast, olíuvörur aðrar en brennsluolíu, lífræn leysiefni, halógeneruð efnasambönd, ísósýanöt, olíumálningu, blýsýrurafgeyma, framköllunarefni og hjólbarða. Markmið með þessum hækkunum er að draga úr sjóðshalla í framangreindum uppgjörsflokkum en samkvæmt lögum um úrvinnslugjald skal tekjum hvers uppgjörsflokks eingöngu varið til að mæta gjöldum viðkomandi flokks og hver flokkur vera fjárhagslega sjálfstæður.
    Frumvarpið byggist á tillögum stjórnar Úrvinnslusjóðs sem miða við að ná viðunandi sjóðsstöðu í hverjum uppgjörsflokki á næstu þremur til fimm árum þannig að staðan verði að jafnaði ekki undir 30% af árskostnaði viðkomandi flokks. Áætlanir sjóðsins miðast við að á árinu 2011 verði úrvinnslugjald lagt á heldur meira magn en í ár og að magntengd greiðsla fyrir úrvinnslu aukist um allt að 5% milli áranna. Meiri óvissa er í þessari spá en áður vegna sérstakra aðstæðna í þjóðfélaginu um þessar mundir en gangi áætlunin um álagt magn eftir má gera ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins leiði til rúmlega 316 m.kr. aukinna tekna af úrvinnslugjaldi á ári. Tekjur af úrvinnslugjaldi renna óskiptar til úrvinnslu úrgangs á vegum Úrvinnslusjóðs að frádregnu 0,5% umsýslugjaldi sem rennur í ríkissjóð. Má því gera ráð fyrir að útgjöld ríkisins hækki álíka mikið þó nokkur munur geti verið á því hvernig tekjur og kostnaður falla til eftir tímabilum en til lengri tíma litið ætti afkoma ríkissjóðs að vera óbreytt eftir sem áður. Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2011. Gert er ráð fyrir þessum auknu tekjum af úrvinnslugjaldi í fyrirliggjandi frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011.