Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 187. máls.

Þskj. 204  —  187. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)
1. gr.

    2. mgr. 6. gr. laganna hljóðar svo:
    Aðilar skv. 1. mgr. skulu greiða í ríkissjóð ábyrgðargjald af þeim skuldbindingum þeirra sem ríkisábyrgð er á. Ábyrgðargjald skal svara að fullu til þeirrar ívilnunar sem viðkomandi aðili nýtur, á grunni ríkisábyrgðar, í formi hagstæðari lánskjara umfram þau kjör sem almennt bjóðast á markaði án ríkisábyrgðar. Ábyrgðargjald samkvæmt málsgrein þessari skal ákveðið á grundvelli mats óháðs aðila á lánskjörum með og án ríkisábyrgðar og skal gjaldið reiknað af höfuðstól gjaldskyldra skuldbindinga eins og hann er að meðaltali á hverju gjaldtímabili, sbr. 8. gr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2011.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til breytinga á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun, sbr. einnig frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur. Eru frumvörpin þrjú lögð fram í kjölfar ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), dags. 8. júlí 2009, í tengslum við rannsókn stofnunarinnar á fyrirkomulagi eigendaábyrgða Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur.
    Niðurstaða rannsóknar ESA var í stuttu máli sú að hin ótakmarkaða eigendaábyrgð sem Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur njóta, í gegnum eigendur fyrirtækjanna, sé ekki að fullu í samræmi við ákvæði EES-samningsins um ríkisaðstoð. Hins vegar lítur ESA svo á að heimilt sé að veita eigendaábyrgð vegna lána viðkomandi fyrirtækja, að því gefnu að greitt sé hæfilegt ábyrgðargjald fyrir. Í dag greiða fyrirtækin 0,25% ábyrgðargjald af þeim lánum sem eigendaábyrgð er á, í samræmi við lög um ríkisábyrgðir í tilfelli Landsvirkjunar en með hliðsjón af þeim lögum í tilfelli Orkuveitu Reykjavíkur.
    Um Orkuveitu Reykjavíkur gilda sérlög og greiðir fyrirtækið eigendum sínum ábyrgðargjald en ekki ríkinu. Ekki er því þar um „ríkisábyrgð“ að ræða í skilningi laga nr. 121/1997 og er því ekki kveðið á um ábyrgðargjald Orkuveitu Reykjavíkur í frumvarpi því sem hér er lagt fram. Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, er hins vegar kveðið á um slíkt hæfilegt ábyrgðargjald með sams konar hætti og hér er lagt til.
    Markmið frumvarps þessa er, til fyllingar við frumvarp til laga um breytingar á lögum um Landsvirkjun, að koma til móts við ákvörðun ESA og tryggja að fyrir þær skuldbindingar Landsvirkjunar sem ríkisábyrgð er á, sem og aðra þá aðila sem falla undir 1. mgr. 6. gr. laga um ríkisábyrgðir, sé greitt hæfilegt ríkisábyrgðargjald. Samkvæmt núgildandi 6. gr. laga um ríkisábyrgðir greiða eftirfarandi aðilar fast lágmarksríkisábyrgðargjald sem er 0,0625% á ársfjórðungi af höfuðstól gjaldskyldra skuldbindinga: Bankar, lánasjóðir, lánastofnanir, fyrirtæki og aðrir þeir aðilar sem lögum samkvæmt njóta, eða hafa notið, ábyrgðar ríkissjóðs, hvort sem hún er tilkomin vegna eignaraðildar ríkissjóðs eða annars. Sú breyting sem lögð er til í frumvarpi þessu nær því til allra þessara aðila og er með frumvarpinu lagt til að ríkisábyrgðargjald viðkomandi aðila verði metið í hverju tilviki fyrir sig í samræmi við virði hverrar ríkisábyrgðar.
    Í samræmi við ákvörðun ESA, dags. 8. júlí 2009, og ríkisaðstoðarreglur ESB um ríkisábyrgðir, skal hið hæfilega ríkisábyrgðargjald svara að fullu til þeirrar ívilnunar sem fyrirtækið nýtur, á grunni ríkisábyrgðar, í formi hagstæðari lánskjara umfram þau kjör sem almennt bjóðast á markaði án ríkisábyrgðar.
    Í kjölfar ákvörðunar ESA var óháður aðili fenginn til að meta hæfilegt ríkisábyrgðargjald vegna núgildandi lánaskuldbindinga Landsvirkjunar, en þær eru 58 talsins. Úttekt þess aðila leiddi í ljós að hæfilegt ríkisábyrgðargjald, með samanburði á lánskjörum með og án ríkisábyrgðar, vegna núverandi lánaskuldbindinga væri 0,45% á ári (í stað núgildandi 0,25%).
    Lagt er til að hið nýja ábyrgðargjald þeirra aðila sem tilgreindir eru í 1. mgr. 6. gr. laga um ríkisábyrgðir taki gildi frá og með 1. janúar 2011 sem er sami gildistökudagur og í áðurgreindum frumvörpum sem lögð eru samhliða fram.
    Við gerð og undirbúning frumvarpsins var haft samráð við Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur, Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og iðnaðarráðuneytið. Var farið yfir drög að frumvarpinu á sameiginlegum fundum og aðilum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og ábendingum.
    Frumvarpið hefur fyrst og fremst áhrif á Landsvirkjun og aðra þá aðila sem tilgreindir eru í 1. mgr. 6. gr. laga um ríkisábyrgðir, en einnig ríkissjóð. Fyrir núverandi lánaskuldbindingar Landsvirkjunar, sem og framtíðarlánaskuldbindingar, mun Landsvirkjun þurfa að greiða hærra ríkisábyrgðargjald en áður. Um áhrif frumvarpsins á ríkissjóðs vísast til meðfylgjandi kostnaðarumsagnar um frumvarpið.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að ábyrgðargjald sem greitt er til ríkissjóðs vegna skuldbindinga sem ríkisábyrgð er á skuli taka mið af þeim lánskjörum sem bjóðast með ríkisábyrgð og án hennar. Þannig verði núverandi 0,0625% ríkisábyrgðargjald á ársfjórðungi af höfuðstól gjaldskyldra skuldbindinga eins og hann er að meðaltali á hverju gjaldtímabili lagt niður. Nýtt ábyrgðargjald skal ákveðið á grundvelli mats óháðs aðila á lánskjörum með og án ríkisábyrgðar. Ábyrgðargjaldið skal svara að fullu til þeirrar ívilnunar sem felst í hagstæðari lánskjörum. Staða þess hluta ríkisábyrgða sem greitt er ríkisábyrgðargjald af er um 300 milljarðar kr. og er Landsvirkjun með um 260 milljarða kr. af þeirri fjárhæð. Aðrir sem greiða slíkt gjald eru Byggðastofnun, Rafmagnsveitur ríkisins og Ríkisútvarpið. Metið hefur verið að 0,0625% ársfjórðungs ríkisábyrgðargjald eða 0,25% gjald á ársgrundvelli þyrfti að hækka í 0,45% til að ná að vega upp að fullu þann mun sem er á kjörum þessara aðila með ríkisábyrgð og ætla mætti að þeir fengju ef hennar nyti ekki við.
    Þessar breytingar á gjaldi fyrir veitta ríkisábyrgð eru lagðar til í kjölfar ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um að ótakmarkaðar eigendaábyrgðir sé ekki að fullu í samræmi við EES-samninginn um ríkisaðstoð. Fram kemur í ákvörðun ESA að eigendaábyrgð vegna lána viðkomandi fyrirtækja sé heimil að því gefnu að hæfilegt ábyrgðargjald sé greitt fyrir. Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvörpum til breytinga á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun, og lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, vegna ákvörðunar ESA um ríkisábyrgðir.
    Frumvarpið hefur áhrif á þá aðila sem tilgreindir eru í 6. gr. laga um ríkisábyrgðir, þ.e. banka, lánasjóði, lánastofnanir, fyrirtæki og aðrir þá aðila sem lögum samkvæmt njóta, eða hafa notið, ábyrgðar ríkissjóðs, hvort sem hún er til komin vegna eignaraðildar ríkissjóðs eða annars. Gert er ráð fyrir því að tekjuauki ríkissjóðs vegna þessara breytinga geti orðið allt að 500 m.kr. á ári.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er hins vegar ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.