Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 191. máls.

Þskj. 208  —  191. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um sjúkratryggingar,
nr. 112/2008, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




1. gr.

    Í stað orðanna „1. janúar 2011“ í 2. málsl. 2. mgr. 56. gr. laganna kemur: 1. janúar 2014.

2. gr.

    Í stað orðanna „1. janúar 2010“ í 1. málsl. ákvæðis til bráðabirgða IV í lögunum kemur: 1. janúar 2014.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt lögum um sjúkratryggingar skal sjúkratryggingastofnun, Sjúkratryggingar Íslands, annast alla samningsgerð um kaup á heilbrigðisþjónustu. Lögin tóku gildi 1. október 2008 en gert var ráð fyrir að ákvæði IV. kafla laganna að því er varðar samninga sem heilbrigðisráðuneytið hefur gert kæmu til framkvæmda eigi síðar en 1. júlí 2009 og gekk það að mestu leyti eftir. Enn fremur var fyrirhugað að ákvæði um samninga við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins og samninga við sveitarfélög og aðra sem reka hjúkrunarheimili kæmu til framkvæmda eigi síðar en 1. janúar 2010. Það gekk hins vegar ekki eftir og var frestað til 1. janúar 2011 með lögum nr. 121/2009.
    Nú er ljóst að enn vantar talsvert upp á að Sjúkratryggingar Íslands verði í stakk búnar að semja við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins, svo og sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili. Í kjölfar efnahagshrunsins hefur orðið ákveðinn forsendubrestur að því er varðar hugmyndafræði þá sem liggur að baki lögum um sjúkratryggingar. Stofnunin hefur ekki fengið þær fjárveitingar sem nauðsynlegar eru til að hún geti sinnt að fullu því hlutverki sem henni er ætlað samkvæmt IV. kafla laga um sjúkratryggingar og ekki er fyrirsjáanlegt að breyting geti orðið þar á á næstu missirum. Nauðsynlegt þykir því að fresta enn um sinn gildistöku ákvæða um samninga við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins og samninga við sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili. Af því leiðir að framlengja þarf heimild ákvæðis til bráðabirgða IV til ákvörðunar á daggjöldum vegna hjúkrunarrýma með reglugerð. Lagt er til að gildistöku verði frestað um þrjú ár. Fyrirhugað er á því tímabili að taka lög um sjúkratryggingar til endurskoðunar með hliðsjón af þeim miklu breytingum sem orðið hafa frá því lögin tóku gildi.

Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar,
nr. 112/2008, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að gerð samninga um heilbrigðisþjónustu sem heilbrigðisráðuneytið hefur séð um og gert við heilbrigðisstofnanir, sveitarfélög og rekstraraðila hjúkrunarheimila flytjist til Sjúkratrygginga Íslands eigi síðar en 1. janúar 2014 í stað 1. janúar 2011 þar sem heilbrigðisráðuneytið og Sjúkratryggingar Íslands telja að stofnunin sé ekki tilbúin að taka við verkefninu. Gildistökunni er því frestað um þrjú ár og á meðan er fyrirhugað að taka lög um sjúkratryggingar til gagngerrar endurskoðunar.
    Gerð þjónustusamninga sem heilbrigðisráðuneytið hefur haft með höndum vegna heilbrigðisþjónustu á vegum einstaklinga, fyrirtækja og annarra sjálfseignarstofnana en rekstraraðila hjúkrunarheimila var færð til Sjúkratrygginga Íslands 1. júlí 2009.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.