Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 200. máls.

Þskj. 217  —  200. mál.



Frumvarp til laga

um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.
1. gr.

    Í stað „18%“ í 1. málsl. 3. mgr. 66. gr. laganna kemur: 20%.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 68. gr. A laganna:
     a.      2. málsl. 2. mgr. orðast svo: Þannig skal fjárhæð barnabóta og skerðingarmörk vegna tekna, sbr. 4. mgr., ákvarðast í hlutfalli við dvalartímann.
     b.      Orðin „3. og“ í 2. mgr. falla brott.
     c.      3. mgr. fellur brott.
     d.      Við 4. mgr. bætist nýr málsliður er verður 1. málsl., svohljóðandi: Tekjutengdar barnabætur skulu árlega nema 61.191 kr. með öllum börnum yngri en sjö ára á tekjuárinu.
     e.      Í stað „3. mgr.“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: 1. málsl.
     f.      Í stað „2%“ í 5. málsl. 4. mgr. kemur: 3%.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 68. gr. B laganna:
     a.      Í stað orðsins „Gjaldfallnir“ og orðsins „gjaldfallnar“ í 1. tölul. 2. mgr. kemur: Greiddir; og: greiddar.
     b.      Í stað „6%“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: 7%.
     c.      Við 4. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvarðaðar vaxtabætur samkvæmt þessari málsgrein skal skerða um 8%.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 70. gr. laganna:
     a.      Í stað „15%“ í 1. mgr. 2. tölul. kemur: 18%.
     b.      Í stað „10%“ í 2. mgr. 2. tölul. kemur: 15%.
     c.      Í stað „15%“ í a-lið 3. tölul. kemur: 18%.
     d.      Í stað „18%“ í b-lið 3. tölul. kemur: 20%.
     e.      Í stað „32,7%“ í c-lið 3. tölul. kemur: 36%.
     f.      Í stað „18%“ í b-lið 4. tölul. kemur: 20%.
     g.      Í stað „32,7%“ í c-lið 4. tölul. kemur: 36%.
     h.      Í stað „18%“ í a-lið 5. tölul. kemur: 20%.
     i.      Í stað „18%“ í b-lið 5. tölul. kemur: 20%.
     j.      Í stað „18%“ í 6. tölul. kemur: 20%.
     k.      Í stað „18%“ í a-lið 7. tölul. kemur: 20%.
     l.      Í stað „15%“ í b-lið 7. tölul. kemur: 18%.
     m.      Í stað „18%“ í a-lið 8. tölul. kemur: 20%.
     n.      Í stað „15%“ í b-lið 8. tölul. kemur: 18%.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 71. gr. laganna:
     a.      Í stað „18%“ í 1. mgr. kemur: 20%.
     b.      Í stað „32,7%“ í 2. mgr. kemur: 36%.
     c.      Í stað „18%“ í 3. mgr. kemur: 20%.
     d.      Í stað „18%“ í 2., 4. og 5. málsl. 4. mgr. kemur: 20%.

6. gr.

    Við lögin bætast þrjú ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a.     (I.)
    Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 8. mgr. A-liðar 68. gr., sbr. reglugerð nr. 555/2004, um greiðslu barnabóta, verður barnabótum ekki skuldajafnað á móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs, opinberum gjöldum til sveitarfélaga og vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga á árinu 2011.

    b.     (II.)
    Þrátt fyrir h-lið ákvæðis til bráðabirgða XXXIII skal á framtalsskyldar eignir skv. 72. gr. í lok áranna 2010 og 2011 við álagningu 2011 og 2012 reikna auðlegðarskatt manna þannig: Af fyrstu 75.000.000 kr. af auðlegðarskattsstofni einstaklings og fyrstu 100.000.000 kr. af samanlögðum auðlegðarskattsstofni hjóna greiðist enginn skattur. Af auðlegðarskattsstofni yfir þeim mörkum greiðast 1,50%. Auðlegðarskattsstofn vegna áranna 2010 og 2011 skal endurreikna við álagningu opinberra gjalda 2012 og 2013 með tilliti til viðbótareigna skv. b-lið ákvæðis til bráðabirgða XXXIII. Sá mismunur sem myndast við þann endurreikning og er umfram viðmiðunarmörk 1. málsl. skal skattlagður við álagningu opinberra gjalda 2012 og 2013.

    c.     (III.)
    Við endurreikning á gengistryggðum húsnæðis- og bílalánum í lán í íslenskum krónum, sbr. dóm Hæstaréttar frá 16. júní 2010 þar sem gengistryggðir bílasamningar voru dæmdir ólögmætir, skulu inneignarvextir skuldara sem ákvarðaðir eru af þessum sökum á árunum 2010 og 2011 ekki teljast til fjármagnstekna. Endurútreikningur afborgana og vaxta af þessum sökum skal hvorki hafa áhrif á áður ákvarðaðar vaxtabætur né barnabætur hvort sem er til hækkunar eða lækkunar nema skattaðili fari fram á endurákvörðun þeirra skv. 2. mgr. 101. gr.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, með síðari breytingum.
7. gr.

    Í stað „18%“ í 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: 20%.

8. gr.

    Í stað „18%“ í 3. og 4. málsl. 2. mgr. 2. gr. laganna kemur: 20%.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 86/2007, um skattlagningu kaupskipaútgerðar, með síðari breytingum.
9. gr.

    Í stað „18%“ í 3. mgr. 6. gr. laganna kemur: 20%.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, með síðari breytingum.
10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað „5%“ í 1. mgr. kemur: 10%.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „1.000.000 kr.“ í 2. mgr. kemur: 1.500.000 kr.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.
11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „83,54 kr.“ í 1. tölul. 1. mgr. kemur: 86,90 kr.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „75,14 kr.“ í 2. tölul. 1. mgr. kemur: 78,15 kr.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar „100,73 kr.“ í 3. tölul. 1. mgr. kemur: 104,75 kr.
     d.      Við 1. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Af áfengi sem selt er í tollfrjálsum verslunum sem falla undir ákvæði 2. mgr. 104. gr. tollalaga, nr. 88/2005: 15% af áfengisgjaldi skv. 1.–3. tölul.
     e.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Geri ferðamaður, skipverji eða flugverji grein fyrir áfengi á tollafgreiðsluhliði sem er umfram tollfrjálsar heimildir skv. 5.–7. tölul. 6. gr. ber honum einungis að greiða mismun áfengisgjalds skv. 1.–3. tölul. og skv. 4. tölul. 1. mgr., enda framvísi hann greiðslukvittun sem sýni fram á að áfengið hafi verið keypt í tollfrjálsri verslun hér á landi.

12. gr.

    Við 1. málsl. 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna bætist: sbr. þó 4. tölul. 1. mgr. 3. gr.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „325,13 kr.“ í 1. tölul. 2. mgr. kemur: 347,90 kr.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „3,85 kr.“ í 2. tölul. 2. mgr. kemur: 4,12 kr.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar „11,63 kr.“ í 3. tölul. 2. mgr. kemur: 12,45 kr.
     d.      Við 2. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Af tóbaki sem selt er í tollfrjálsum verslunum sem falla undir ákvæði 2. mgr. 104. gr. tollalaga, nr. 88/2005: 40% af tóbaksgjaldi skv. 1.–3. tölul.
     e.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Geri ferðamaður, farmaður eða aðrir grein fyrir tóbaki á tollafgreiðsluhliði sem er umfram tollfrjálsar heimildir skv. 2. mgr. 10. gr. ber honum einungis að greiða mismun tóbaksgjalds skv. 1.–3. tölul. og skv. 4. tölul. 2. mgr., enda framvísi hann greiðslukvittun sem sýni fram á að tóbakið hafi verið keypt í tollfrjálsri verslun hér á landi.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „408,40 kr.“ í 1. tölul. 1. mgr. kemur: 437,00 kr.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „20,41 kr.“ í 2. tölul. 1. mgr. kemur: 21,85 kr.
     c.      Á eftir orðunum „hafa meðferðis“ í 2. tölul. kemur: sbr. þó 4. tölul. 2. mgr. 9. gr.

VI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta.
15. gr.

    Í stað fjárhæðanna „2,90 kr.“, „2,60 kr.“, „2,70 kr.“ og „3,60 kr.“ í 2. mgr. 1. gr. laganna kemur: 4,35 kr.; 3,80 kr.; 4,10 kr.; og: 5,35 kr.

VII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.
16. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða VIII í lögunum orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 11. og 12. gr. er rétthafa séreignarsparnaðar heimilt á tímabilinu 1. janúar 2011 fram til 1. apríl 2011 að sækja um útgreiðslu séreignarsparnaðar, sem myndast hefur af viðbótariðgjaldi skv. II. kafla, til vörsluaðila skv. 3.–5. mgr. 8. gr. og skal greiðslum háttað eftir því sem nánar er mælt fyrir um í ákvæði þessu.
    Heimilt er á því tímabili sem tilgreint er í 1. mgr. að hefja útborgun innstæðu séreignarsparnaðar rétthafa, ásamt vöxtum, að fjárhæð sem þann 1. janúar 2011 nemur samanlagt allt að 5.000.000 kr. óháð því hvort sú heildarfjárhæð séreignarsparnaðar er í vörslu hjá fleiri en einum vörsluaðila. Skal sú fjárhæð greiðast út með jöfnum mánaðarlegum greiðslum, að frádreginni staðgreiðslu samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, á 12 mánaða tímabili frá því að beiðni um útgreiðslu er lögð fram hjá vörsluaðila. Útgreiðslutími styttist hlutfallslega ef um lægri fjárhæð en 5.000.000 kr. er að ræða.
    Við ákvörðun fjárhæðar rétthafa til útborgunar skal draga frá hámarksfjárhæð, þ.e. allt að 5.000.000 kr., samanlagða fjárhæð þess séreignarsparnaðar sem þegar hefur verið greiddur út á grundvelli ákvæðisins eins og það hljóðaði fyrir 1. janúar 2011. Sé óskað eftir útgreiðslum samkvæmt ákvæði þessu fellur fyrra greiðslufyrirkomulag niður, en samanlögð heimil heildarfjárhæð útborgunar, allt að 5.000.000 kr., greiðist út í samræmi við ákvæði 2. mgr., sbr. fyrri málslið þessarar málsgreinar.
    Óski rétthafi eftir útgreiðslu séreignarsparnaðar skv. 2. mgr. skal hann leggja fram umsókn þess efnis hjá viðkomandi vörsluaðila. Ef rétthafi á séreignarsparnað hjá fleiri en einum vörsluaðila skal hann gera grein fyrir því í umsókn sinni
    Vörsluaðilar séreignarsparnaðar taka ákvörðun um umsókn rétthafa skv. 2. mgr. og hafa umsjón með útgreiðslu á séreignarsparnaði hans.
    Skuldheimtumönnum er óheimilt að krefjast þess að skuldarar taki út séreignarsparnað sinn samkvæmt þessu ákvæði, sbr. 2. mgr. 8. gr.
    Ríkisskattstjóri hefur eftirlit með útgreiðslum séreignarsparnaðar samkvæmt ákvæði þessu.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um fyrirkomulag eftirlits og útgreiðslu séreignarsparnaðar.
    Útgreiðsla séreignarsparnaðar samkvæmt ákvæði þessu hefur ekki áhrif á bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Þá hefur útgreiðslan ekki áhrif á greiðslu húsaleigubóta skv. 9. gr. laga um húsaleigubætur, greiðslu barnabóta eða vaxtabóta skv. 68. gr. laga um tekjuskatt, atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. 22. gr. laga nr. 22/2006.
    Um afgreiðslu umsókna, sem borist hafa í gildistíð eldra ákvæðis og óafgreiddar kunna að vera, skal fara eftir ákvæði þessu, svo breyttu, frá og með gildistöku þess.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, með síðari breytingum.
17. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „52,77 kr.“ í 3. mgr. 1. gr. laganna kemur: 54,88 kr.

18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      4. mgr. orðast svo:
                      Kílómetragjald af gjaldskyldum bifreiðum skv. 1. tölul. 1. mgr., sbr. 3. tölul., skal vera sem hér segir:
Leyfð heildarþyngd
ökutækis, kg
Kílómetra-
gjald, kr.
Leyfð heildarþyngd
ökutækis, kg
Kílómetra-
gjald, kr.
10.000–11.000 0,27 21.001–22.000 6,45
11.001–12.000 0,83 22.001–23.000 7,01
12.001–13.000 1,39 23.001–24.000 7,57
13.001–14.000 1,96 24.001–25.000 8,13
14.001–15.000 2,52 25.001–26.000 8,69
15.001–16.000 3,08 26.001–27.000 9,26
16.001–17.000 3,64 27.001–28.000 9,82
17.001–18.000 4,20 28.001–29.000 10,38
18.001–19.000 4,76 29.001–30.000 10,94
19.001–20.000 5,32 30.001–31.000 11,50
20.001–21.000 5,89 31.000 og yfir 12,06
     b.      6. mgr. orðast svo:
                      Sérstakt kílómetragjald af gjaldskyldum ökutækjum skv. 2. mgr. skal vera sem hér segir:

Leyfð heildarþyngd
ökutækis, kg
Kílómetra-
gjald, kr.
Leyfð heildarþyngd
ökutækis, kg
Kílómetra-
gjald, kr.
5.000–6.000 7,91 18.001–19.000 20,88
6.001–7.000 8,55 19.001–20.000 21,82
7.001–8.000 9,21 20.001–21.000 22,78
8.001–9.000 9,87 21.001–22.000 23,72
9.001–10.000 10,50 22.001–23.000 24,66
10.001–11.000 11,44 23.001–24.000 25,60
11.001–12.000 12,66 24.001–25.000 26,56
12.001–13.000 13,87 25.001–26.000 27,50
13.001–14.000 15,08 26.001–27.000 28,44
14.001–15.000 16,30 27.001–28.000 29,39
15.001–16.000 17,51 28.001–29.000 30,34
16.001–17.000 18,72 29.001–30.000 31,28
17.001–18.000 19,94 30.001–31.000 32,22
31.001 og yfir 33,18

IX. KAFLI
Breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.
19. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „22,94 kr.“ í 14. gr. laganna kemur: 23,86 kr.

20. gr.

    Í stað fjárhæðanna „37,07 kr.“ og „39,28 kr.“ í 2. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: 38,55 kr.; og: 40,85 kr.

X. KAFLI
Breyting á lögum nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., með síðari breytingum.
21. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „17.200 kr.“ í 4. málsl. 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: 17.900 kr.

XI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 132/1999, um vitamál, með síðari breytingum.
22. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „125,12 kr.“ í 1. málsl. 2. mgr. 7. gr. laganna kemur: 130,12 kr.

XII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.
23. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „8.400 kr.“ í 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: 8.700 kr.

XIII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 91/1987, um sóknargjöld o.fl., með síðari breytingum.
24. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laganna, með síðari breytingum, skal gjald sem rennur til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga vera 698 kr. á mánuði árið 2011 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri í lok næstliðins árs á undan gjaldári.

XIV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, með síðari breytingum.
25. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði laganna skal skuldbinding ríkisins skv. 60. gr. á árinu 2011 samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar vera 1.278 millj. kr. á árinu 2011. Fari fram endurmat á launa- og verðlagsforsendum fjárveitinga til sambærilegra ríkisstofnana innan ársins skal endurskoða framlag til þjóðkirkjunnar með sama hætti. Framlag til Kristnisjóðs skal vera 76,3 millj. kr. á árinu 2011.

XV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum.
26. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 69. gr. laganna skulu bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., ekki breytast á árinu 2011.

XVI. KAFLI
Gildistaka
27. gr.

    Lög þessi öðlast gildi og koma til framkvæmda sem hér segir:
     a.      1., 4.–5., 7.–9. og 23. gr. öðlast gildi 1. janúar 2011 og koma til framkvæmda við álagningu 2012 og á staðgreiðsluárinu 2011 eftir því sem við á.
     b.      2. og 3. gr. öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við ákvörðun barnabóta og vaxtabóta og álagningu gjalda á árinu 2011.
     c.      6., 11.–15., 17.–20., 22. og 25. gr. öðlast þegar gildi.
     d.      10. gr. öðlast gildi 1. janúar 2011 og tekur til skipta á dánarbúum þeirra sem andast þann dag eða síðar og búskipta þeirra sem hafa heimild til setu í óskiptu búi fari þau fram eftir gildistöku laganna.
     e.      16., 21., 24. og 26. gr. öðlast gildi 1. janúar 2011.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1.     Jöfnuður í ríkisfjármálum 2009–2013.
    Frá haustinu 2008 hefur meginverkefni ríkisstjórnarinnar verið að laga rekstur ríkisins að gjörbreyttum efnahagslegum veruleika með það að markmiði að endurreisa íslenskt efnahagslíf í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Í skýrslu fjármálaráðherra sem lögð var fyrir Alþingi í júní 2009 var þetta verkefni útfært nánar sem áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum á árunum 2009–2013. Þar kemur skýrt fram að aðgerðir ríkisstjórnarinnar muni fela í sér hvort tveggja niðurskurð ríkisútgjalda og hækkun á tekjum ríkissjóðs. Sú blandaða leið niðurskurðar og tekjuöflunar sem ríkisstjórnin hefur haft að leiðarljósi til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum er þó í stöðugri endurskoðun og tekur mið af þeim árangri sem hvor leið skilar. Þannig er reynt að lágmarka það tjón sem niðurskurður á samneyslu veldur hagkerfinu og einnig þau neikvæðu áhrif er tekjuöflunaraðgerðir kunna að hafa.
    Þegar við afgreiðslu fjárlaga 2009 voru gerðar viðamiklar ráðstafanir bæði á tekju- og gjaldahlið og síðan aftur við afgreiðslu fjárlaga 2010. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011 1 er að finna heildarsamantekt á þeim tekjuöflunaraðgerðum sem þegar hefur verið gripið til. Mestur þungi þeirra var á árinu 2010, þó svo að nýjar tekjuöflunaraðgerðir fyrir það ár hafi orðið minni en reiknað var með við undirbúning frumvarps til fjárlaga fyrir það ár. Þessar aðgerðir hafa átt stóran þátt í því að bæta stöðu ríkissjóðs frá því sem ella hefði orðið og þar með mikilvægur liður í þeim viðsnúningi sem að var stefnt.
    Fram undan er þriðja ár áætlunar stjórnvalda um jöfnuð í ríkisfjármálum. Áfram verður farin blönduð leið niðurskurðar og tekjuöflunar, en í þessum áfanga verður þó þungi aðgerðanna að mestu á útgjaldahliðinni. Í forsendum fjárlagafrumvarpsins er gert ráð fyrir samtals 44 milljörðum kr. í beinum aðgerðum til að bæta afkomu ríkissjóðs frá því sem ella hefur orðið þannig að frumjöfnuður hans verði orðinn jákvæður á árinu 2011. Þar af er stefnt að því að sérstakar aðgerðir á tekjuhlið skili 11 milljörðum kr. í viðbótartekjuöflun með það að markmiði að hafa sem minnst áhrif á ráðstöfunartekjur þeirra sem minna mega sín. Engar almennar breytingar eru fyrirhugaðar á helstu tekjustofnum ríkissjóðs, svo sem tekjuskatti einstaklinga, virðisaukaskatti eða tryggingagjaldi, heldur er fremur horft til skatta á fjármagn og eignir, enda ekki síst á þeim sviðum sem núverandi skattkerfi gengur skemur en algengt er í nágrannalöndunum. Þessar breytingar eru um flest í takt við þær hugmyndir sem er að finna í áfangaskýrslu starfshóps sem fjármálaráðherra skipaði til að endurskoða skattkerfið.
    Við samningu frumvarpsins var haft samráð við viðkomandi ráðuneyti um þá málaflokka frumvarpsins sem undir þau heyra. Að auki var haft samráð við embætti ríkisskattstjóra.

2.     Forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2011.
    Í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar er að finna breytingar á ýmsum lögum er varða tekjuöflun ríkissjóðs í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2011, þ.m.t. tillögur að viðbótartekjuöflun. Þessum breytingum má skipta í þrjá meginflokka. Í fyrsta lagi eru sérstakar tekjuöflunaraðgerðir, í öðru lagi hækkanir á krónutölusköttum í takt við verðlagsforsendur frumvarps (bensín, olía, áfengisgjald o.fl.) og í þriðja lagi hækkanir á ýmsum gjaldskrám hjá stofnunum ríkisins, bæði vegna hækkunar verðlags og aðhaldsaðgerða í ríkisrekstrinum almennt. Tillögur að breytingum á barnabótum og vaxtabótum eru einnig í þessu frumvarpi, þó að þeir bótaflokkar falli undir útgjaldahliðina vegna þess hversu samtvinnaðar þessar bætur eru tekjuskattskerfinu. Hér á eftir verður gerð nánari grein fyrir hverjum flokki fyrir sig.

2.1     Sérstakar tekjuöflunaraðgerðir.
    Sem fyrr segir er í forsendum fjárlagafrumvarps gert ráð fyrir að sérstakar aðgerðir á tekjuhlið í formi breytinga á einstökum tekjustofnum skili ríkissjóði 11 milljörðum kr. í viðbótartekjur á næsta ári. Sú breyting hefur átt sér stað á þeim áformum sem fram kemur í þessu frumvarpi að viðbótartekjur af vörugjaldi á áfengi og tóbak verði 700 millj. kr. lægri en reiknað er með í tekjuáætlun fjárlagafrumvarps, eða 600 millj. kr í stað 1,3 milljarða kr. Sérstakar aðgerðir á tekjuhlið nema því nú 10,3 milljörðum kr. í stað 11 milljarða kr. Í eftirfarandi töflu kemur fram hvernig þessi tekjuáform skiptast milli einstakra tekjustofna. Rétt er að taka fram að tillögu um kerfisbreytingar á bifreiðagjaldi og vörugjaldi bifreiða annars vegar og um sérstakan skatt á fjármálastofnanir hins vegar er ekki að finna í þessu frumvarpi, en frumvörp þess efnis verða lögð fram samhliða þessu frumvarpi.

Sérstakar tekjuöflunaraðgerðir 2011.

Rekstrargrunnur milljarðar kr.
Fjármagnstekjuskattur 1,5
Tekjuskattur lögaðila 0,5
Auðlegðarskattur 1,5
Erfðafjárskattur 1,0
Vörugjald á áfengi og tóbak 0,6
Áfengis- og tóbaksgjald 0,8
Kolefnisgjald 1,0
Vörugjald bifreiða og bifreiðagjald – kerfisbreyting; sérstakt frumvarp 0,2
Sérstakur skattur á fjármálastofnanir – sérstakt frumvarp 1,0
Viðbótarskatttekjur 7,3
Viðbótarheimild til úttektar á séreignarsparnaði – tekjuskattur einstaklinga 3,0
Viðbótartekjuöflun 2011, samtals 10,3

    Hér á eftir er gerð nánari grein fyrir þeim tekjuöflunaraðgerðum sem er að finna í þessu frumvarpi.

     Fjármagnstekjuskattur einstaklinga og tekjuskattur lögaðila. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fjármagnstekjuskattur einstaklinga hækki úr 18% í 20%. Tekjuáhrif hækkunarinnar eru áætluð 1,5 milljarðar kr. á árinu 2011 og er þessi tekjustofn talinn skila ríkissjóði 24,7 milljörðum kr. samtals á því ári að meðtalinni þessari hækkun.
    Með þeim breytingum sem gerðar voru á skattalögum á síðasta ári var dregið verulega úr mismuni á skattlagningu fjármagnstekna annars vegar og launatekna og annarra tekna hins vegar. Enn er til staðar nokkur munur, en samkvæmt gildandi lögum er lægsta tekjuskattshlutfall að meðtöldu útsvari við staðgreiðslu launatekna samtals 37,22%, en hæsta 46,12% samanborið við 18% fjármagnstekjuskatt. Hækkun fjármagnstekjuskatts í 20% mun því ekki íþyngja fjármagnstekjum umfram launatekjur, lífeyri og aðrar almennar tekjur. Það á eins við þótt tekið sé tillit til verðbótaþáttar vaxtatekna, því þegar breytingar á fjármagnstekjuskatti eru skoðaðar þarf að hafa í huga að vaxtatekjur undir ákveðnum mörkum eru undanþegnar skattlagningu.
    Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að tekjuskattur lögaðila hækki úr 18% í 20%. Hækkun á tekjuskatti lögaðila kemur hins vegar aðeins að litlu leyti fram á árinu 2011 þar sem álagning hans fer alla jafna fram með árstöf. Hækkun skatthlutfallsins úr 18% í 20% ætti að skila ríkissjóði nálægt 2,5 milljörðum kr. á ári, þar af er talið að 500 millj. kr. skili sér á árinu 2011.
    Á sama hátt og enn er til staðar mismunur í skattlagningu launa og fjármagnstekna þeim síðarnefndu í hag er einnig til staðar mismunur á skattlagningu launatekna annars vegar og tekna af atvinnurekstri í hlutafélagaformi hins vegar, atvinnurekstrartekjunum í hag. Launatekjur bera sem fyrr segir 37–46% jaðarskatt auk þess sem 8,65% tryggingagjald er lagt á launagreiðslur þannig að heildarjaðarskattlagning launa getur verið á bilinu 46–55%. Samanlagður skattur á hagnað félags og úthlutaðan arð er hins vegar í dag um 33%. Þessi mikli munur getur og hefur leitt til skattalegrar hagræðingar í formi tilfærslna á launatekjum yfir í rekstrarhagnað og arðgreiðslur hjá einkahlutafélögum sem endurspeglast m.a. í þeirri sprengingu sem orðið hefur í fjölda fyrirtækja á því félagaformi.
    Þó svo að verulega hafi dregið úr mismun skattlagningar eftir tegund tekna með lagabreytingum á síðasta ári, eins og þegar hefur verið bent á, er unnt að draga frekar úr þessum mun án neikvæðra afleiðinga. Hækkun á skatthlutfalli fjármagnstekjuskatts einstaklinga og tekjuskatts lögaðila úr 18% í 20% er frekara skref í átt að minni mun. Með þeim breytingum verður samanlagður skattur á hagnað félags og arð eiganda samtals 36% sem er enn nokkru lægra en skattlagning á launatekjur og lægra en sambærilegar tölur fyrir önnur lönd. Þá verður fjármagnstekjuskattur og skattur á hagnað lögaðila enn lægri en í flestum öðrum löndum.

     Auðlegðarskattur. Ein af tekjuöflunaraðgerðum stjórnvalda á síðasta ári var að taka upp auðlegðarskatt sem lagður var á í fyrsta sinn á þessu ári. Skatthlutfall hans er 1,25% á nettóeign hjóna yfir 120 millj. kr. og nettóeign einhleypra yfir 90 millj. kr. Skatturinn er tímabundinn til ársins 2012. Endurreikningur skattsins fer að vísu fram ári síðar að teknu tilliti til markaðsverðs á hlutabréfaeign viðkomandi skattaðila. Samkvæmt greinargerð með lögunum var þessi tekjuöflunarleið m.a. valin í ljósi þess að eignamyndun og samþjöppun eignarhalds, einkum peningalegra eigna, hefur verið mikil á undanförnum árum, m.a. vegna þess munar sem hefur verið á skattlagningu fjármagnstekna og annarra tegunda tekna. Samkvæmt upplýsingum úr álagningargögnum er sterkt samhengi milli tekna þeirra sem skatturinn leggst á og nettóeignar þeirra eins og búast mátti við. Má því líta á eignarskatt með svo háum fríeignarmörkum sem ígildi stighækkandi fjármagnstekjuskatts.
    Það er ein af forsendum tekjuáætlunar fyrir árið 2011 að hinn tímabundni auðlegðarskattur verði hækkaður sem liður í aukinni tekjuöflun stjórnvalda. Miðað er við að hann skili 1,5 milljörðum kr. í viðbótartekjur með hækkun á skatthlutfallinu í 1,50% sem nú er 1,25%, og lækkun fríeignarmarka úr 90 millj. kr. í 75 millj. kr. nettóeignir hjá einhleypum einstaklingum og úr 120 millj. kr. í 100 millj. kr. hjá hjónum. Heildartekjur af auðlegðarskatti verði frumvarpið að lögum eru áætlaðar 5,2 milljarðar kr. miðað við rekstrargrunn á árinu 2011.

    Erfðafjárskattur. Erfðafjárskattur er lágur hérlendis miðað við flest nágrannalönd okkar, eða 5% óháð skyldleika við arfláta að öðru leyti en því að maki eða sambúðaraðili er undanþeginn skattinum. Skatthlutfallið er hið sama hvort heldur um er að ræða fyrirframgreiðslu arfs eða greiðslu hans eftir andlát. Skattfrelsismörk eru 1 millj. kr. á hvert dánarbú, en þau eiga ekki við í tilviki fyrirframgreiðslu arfs.
    Í skattalegu tilliti er almennt litið á erfðafjárskatt sem ígildi tekjuskattlagningar. Mikill munur á hlutfalli hans og almennu tekjuskattshlutfalli gæti því ýtt undir skattasniðgöngu, ekki síst í tilviki fyrirframgreiðslu. Meðal annars í ljósi þess og sömuleiðis í tekjuöflunarskyni fyrir ríkissjóð er í frumvarpi þessu lagt til að erfðafjárskattur hækki úr 5% í 10%. Samhliða er lagt til að skattfrelsismörk skattsins á hvert dánarbú hækki úr 1 millj. kr. í 1,5 millj. kr. Reiknað er með að þessar breytingar skili ríkissjóði 1 milljarði kr. í viðbótartekjur á árinu 2011 og eru heildartekjur af skattinum taldar verða 2.350 millj. kr. á því ári.

    Vörugjald á áfengi og tóbak. Í dag er sala á áfengi og tóbaki í komuverslun fríhafna undanþegin vörugjaldi og virðisaukaskatti. Þetta fyrirkomulag er séríslenskt fyrirbrigði ef frá er talinn Noregur sem tók nýverið upp svipað fyrirkomulag. Til fróðleiks má nefna að árið 1995 var í reglugerð um áfengisgjald kveðið á um hlutfallslegt gjald á áfengi sem selt er í tollfrjálsum verslunum hér á landi. Í þeirri reglugerð var gjaldið stigskipt eftir styrkleika áfengis og var frá 75 kr. á hvern lítra af áfengi undir 15% af hreinum vínanda upp í 1.150 kr. á hvern lítra af áfengi yfir 60% af hreinum vínanda. Á þeim tíma var álagning gjaldsins í lögum frá 300 kr. upp í 7.000 kr. á hvern lítra. Í reglugerðinni var þó undanþága frá gjaldinu til handa Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli. Sú breyting var hins vegar gerð á reglugerðinni árið 1998 að sú undanþága var afnumin og allar tollfrjálsar verslanir skyldu leggja á þetta hlutfallslega áfengisgjald ásamt því að álagning þeirra var lækkuð. Nam þá hlutfall gjaldsins um 16% af almennu áfengisgjaldi. Árið 2000 var þessi gjaldtaka afnumin með setningu ákvæðis í lög um áfengi og tóbak þar sem kveðið var á um gjaldfrelsi þessara vara í sölu tollfrjálsra verslana.
    Mikilvægur þáttur í viðbótartekjuöflun ríkissjóðs frá því eftir hrun haustið 2008 hefur verið rúmlega 40% hækkun á vörugjaldi á áfengi og tóbak sem selt er innan lands. Þó svo að sú hækkun hafi að einhverju marki dregið úr innlendri sölu á þessum vöruflokkum eins og búast mátti við hafa vörugjaldstekjurnar aukist verulega. Með tilliti til þess hlutverks þessara vörugjalda að draga úr neyslu um leið og aflað er tekna fyrir ríkissjóð má draga í efa réttmæti þess fyrirkomulags að sala í íslenskum fríhöfnum sé skattfrjáls. Ljóst er að verði sú ívilnun skert mun það rýra tekjur hjá rekstraraðilum fríhafnanna í einhverjum mæli. Eigi þjónusta þeirra á flugvöllum að haldast óbreytt kallar slíkt tekjutap á hagræðingu og/eða nýja tekjuöflun.
    Í forsendum tekjuáætlunar fjárlagafrumvarps fyrir árið 2011 er reiknað með að tekið verði upp sérstakt vörugjald á áfengi og tóbak í komuverslun fríhafna sem skili ríkissjóði nálægt 1 milljarði kr. Þessi áform hafa nú verið tekin til endurskoðunar og er nú miðað við að sú tekjuöflun verði nær 300 millj. kr. Er þá miðað við að tóbaksgjaldið verði 20% af almennu vörugjaldi tóbaks og áfengisgjaldið 10% af almennu vörugjaldi áfengis. Á móti lægri tekjum en reiknað var með í forsendum fjárlagafrumvarps er gert ráð fyrir að frekara aðhalds verði gætt í rekstri Isavia ohf. með það að markmiði að unnt verði að lækka bein framlög ríkisins til fyrirtækisins. Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að vörugjald af tóbaki hækki nokkuð umfram verðlag á næsta ári, eða um 7%, sem skila mun ríkissjóði um 250–300 millj. kr. í viðbótartekjur.

    Kolefnisgjald. Á síðasta ári var tekið upp kolefnisgjald á fljótandi eldsneyti úr jarðefnum, en með því var stigið ákveðið skref í nýrri skattheimtu á sviði umhverfis- og auðlindaskatta. Kolefnisgjald er ákvarðað með hliðsjón af verði losunarheimilda á uppboðsmarkaði ESB (EU ETS) og var fjárhæð gjaldsins fyrir árið 2010 um það bil helmingur af verðinu eins og það stóð þegar lögin voru samþykkt í lok árs 2009. Verð á losunarheimildum hefur hins vegar hækkað nokkuð að undanförnu, en á móti vegur heldur sterkari króna gagnvart evru. Jafnframt er talið rétt að taka viðbótarskref varðandi þessa gjaldtöku og því er lagt til að kolefnisgjaldið sem hlutfall af verði losunarheimilda á uppboðsmarkaði ESB hækki úr 50% í 75%. Þá hafa forsendur um kolefnisinnihald eldsneytis, sem geta verið lítillega mismunandi eftir heimildum, verið endurskoðaðar. Niðurstaðan er sú að kolefnisgjald hækkar um nálægt 50% í flestum gjaldflokkum. Viðbótartekjur ríkissjóðs af þessum breytingum eru áætlaðar um 1 milljarður kr. Gjaldið er misjafnt eftir tegundum eldsneytis, eða á bilinu 2,60–3,10 kr. á hvern lítra, en verður eftir hækkunina 3,80–4,60 kr. á hvern lítra.

     Útgreiðsla séreignarsparnaðar. Samkvæmt 11. og 12. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, geta eigendur séreignarsparnaðar ekki hafið úttekt hans fyrr en að þeir hafa náð 60 ára aldri. Í byrjun árs 2009 var hins vegar lögfest ákvæði til bráðabirgða við lögin sem heimilaði úttekt hans allt að 1 millj. kr. og síðan aftur undir lok ársins um 1,5 millj. kr. til viðbótar. Samkvæmt gildandi lögum geta því eigendur séreignarsparnaðar sótt um að taka út allt að 2,5 millj. kr. fram til 1. apríl á næsta ári og fá hann greiddan út á næstu 12–24 mánuðum. Rökin fyrir þessari tímabundnu ráðstöfun var að milda með þessum hætti þann samdrátt ráðstöfunartekna sem ýmsar fjölskyldur hafa orðið fyrir, m.a. í kjölfar atvinnumissis. Fram til þessa hafa rúmlega 50 þúsund eigendur séreignarsparnaðar sótt um þessa úttekt, samtals 43,2 milljarða kr. Meðalúttekt fyrir skatt er samkvæmt því tæplega 900 þús. kr. á rétthafa.
    Í forsendum fjárlagafrumvarps fyrir komandi ár er reiknað með frekari heimildum til úttektar á séreignarsparnaði sem skila mundu ríkissjóði nálægt 3 milljörðum kr. í tekjuskatt umfram tekjuáhrif fyrri heimilda. Það þýðir samkvæmt lauslegu mati að um 10 milljarðar kr. verði greiddir út á grundvelli nýrrar heimildar til viðbótar þeim 43 milljörðum kr. sem þegar hafa verið greiddir út. Í ljósi þeirra áforma er lagt til í þessu frumvarpi að hverjum rétthafa verði heimilt að taka út allt að 5 millj. kr. af séreignarsparnaði sínum sem greiddar verði út á næstu 12 mánuðum. Umsóknarfrestur er sá sami og í gildandi bráðabirgðaákvæði, 1. apríl 2011. Fyrir þá einstaklinga sem sækja um 5 millj. kr. útgreiðslu nú og hafa ekki nýtt hana áður nemur mánaðarleg útgreiðsla að frádregnum tekjuskatti og útsvari samtals 250 þús. kr. næstu tólf mánuði. Þá er miðað við að staðgreiðsluhlutfall á útgreiðslu sé 40,12%. Í tilviki hjóna væri greiðslan tvöföld, 500 þús. kr. ef bæði eiga rétt á útgreiðslu og hafa ekki nýtt hana áður. Ljóst er að opnun slíkrar heimildar ætti sannanlega að geta nýst þeim sem búa við óhagstæð vaxtakjör vegna skammtímalánsfjármögnunar af margvíslegum ástæðum. Á hinn bóginn er rétt að hafa í huga að séreignarsparnaðurinn er tiltölulega nýtt sparnaðarform og nær hjá flestum einungis aftur til ársins 1998. Þar af leiðandi er meðalfjárhæð séreignarsparnaðar á hvern einstakling mun lægri en 5 millj. kr. eða nær 3 millj. kr.

2.2     Aðhaldsaðgerðir í barnabóta- og vaxtabótakerfinu.
    Sem fyrr segir er í þessu frumvarpi að finna tillögur að breytingum á barnabótum og vaxtabótum þó að þeir bótaflokkar falli undir útgjaldahliðina vegna þess hversu samtvinnaðar þessar bætur eru tekjuskattskerfinu. Samkvæmt forsendum fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2011 er reiknað með samtals 3,5 milljarða kr. sparnaði í greiðslum barnabóta og vaxtabóta. Sá sparnaður endurspeglast í tillögum þessa frumvarps eins og nánar er lýst hér á eftir.

     Barnabætur. Samkvæmt fjárlögum ársins 2010 var reiknað með að greiddur yrði út 10,1 milljarður kr. í barnabætur á þessu ári, en eftir endanlega ákvörðun þeirra við álagningu opinberra gjalda 1. ágúst sl. er ljóst að þær verða heldur hærri, eða 10,5 milljarðar kr. Í forsendum fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2011 er reiknað með nokkrum sparnaði á þessum útgjaldalið, eða 1.300 millj. kr. frá áætlaðri útkomu á yfirstandandi ári. Það þýðir að heildargreiðslur barnabóta á árinu 2011 verði 9,2 milljarðar kr. Til að ná þessu markmiði er í þessu frumvarpi lagt til að barnabætur vegna barna yngri en sjö ára verði skertar af tekjum eins og aðrar bætur. Enn fremur verði tekjuskerðingarhlutfall vegna eins barns hækkað úr 2% í 3%. Engin breyting verður hins vegar á skerðingarhlutfallinu þegar börnin eru fleiri. Þetta er gert til að lækkun bótanna komi fremur fram hjá þeim sem hafa hærri tekjur. Jafnframt er lagt til að skuldajöfnun barnabóta á móti opinberum gjöldum verði óheimil út árið 2011.
    Samkvæmt gildandi lögum eru ótekjutengdar barnabætur með hverju barni yngra en sjö ár samtals 61.191 kr. á ári, eða 5.100 kr. á mánuði. Þessi fjárhæð helst óbreytt hjá hjónum með börn á þessum aldri séu samanlagðar tekjur þeirra undir 300 þús. kr. á mánuði. Séu tekjurnar hærri skerðist bótafjárhæðin með hverju barni undir sjö ára um 3% af mánaðartekjum umfram 300 þús. kr. (umfram 3,6 millj. kr. á ári) uns þær falli niður við 470 þús. kr. mánaðartekjur (5,6 millj. kr. á ári) verði frumvarp þetta að lögum.
    Barnabætur með fyrsta barni eru í dag samtals 152.331 kr. á ári eða 12.694 kr. á mánuði óháð aldri barns. Skerðingarhlutfall af tekjum umfram 300 þús. kr. á mánuði er nú 2% með einu barni, en í frumvarpinu er lagt til að það hækki í 3%. Það þýðir að barnabætur með einu barni falla alveg niður við lægri tekjuviðmiðun en áður, eða við 8,7 millj. kr. árstekjur (725 þús. kr. á mánuði) í stað 11,2 millj. kr. (933 þús. kr. á mánuði). Auk þess að skila ríkissjóði viðbótartekjum leiðir hækkun á tekjuskerðingarhlutfalli með einu barni til þess að hjón með tvö börn njóta barnabóta lengra upp tekjuskalann, eða allt upp að 856 þús. kr. á mánuði, en hjón með eitt barn fá eins og áður er nefnt bætur upp að 933 þús. kr. á mánuði samkvæmt gildandi lögum.

     Vaxtabætur. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011 er gerð tillaga um 9.800 millj. kr. fjárheimild til greiðslu vaxtabóta á næsta ári sem er 270 millj. kr. lægri fjárhæð en gert var ráð fyrir í fjárlögum 2010. Áætlað er að þessi útgjöld verði að óbreyttu um 1,9 milljörðum kr. hærri á næsta ári en reiknað var með í fjárlögum 2010, bæði vegna vanmats í áætluninni og vegna innbyggðrar aukningar í bótakerfinu milli ára. Til þess að ná settum markmiðum um að lækkun þessara útgjalda bitni síður á hinum tekjulægri er í þessu frumvarpi lagt til að gerð verði sú breyting á útreikningi vaxtabóta samkvæmt gildandi lögum að tekjutenging þeirra verði 7% í stað 6% nú. Því til viðbótar er lagt til að þannig ákvarðaðar vaxtabætur verði síðan skertar um 8% hjá öllum bótaþegum til þess að unnt verði að ná settu markmiði um 2,2 milljarða kr. sparnað á næsta ári.
    Samkvæmt tekjuskattslögunum eru hámarksvaxtabætur misháar eftir hjúskaparstöðu. Hjá barnlausum einstaklingum eru árlegar hámarksbætur 246.944 kr., hjá einstæðu foreldri 317.589 kr. og hjá hjónum eða sambúðarfólki 408.374 kr. Þessar fjárhæðir munu lækka um 8% nái tillaga frumvarpsins fram að ganga, eða um 19.755 kr. hjá einhleypum, 25.407 kr. hjá einstæðum foreldrum og 32.670 kr. hjá hjónum. Rétt er að árétta að þetta er lækkun á hámarksgreiðslu bótanna. Að auki gætu vaxtabætur hjá tekjuhærri fjölskyldum lækkað nokkuð vegna aukinnnar tekjutengingar.
    Nú standa hins vegar yfir viðræður milli stjórnvalda og ýmissa hagsmunaaðila um það hvaða leiðir séu færar til að ná betri tökum á skuldavanda heimilanna. Ein þeirra leiða sem rædd hefur verið er hvort unnt sé að breyta kerfi vaxtabóta þannig að þær gagnist þeim betur sem eru í hvað mestum skuldavanda. Enn liggja ekki fyrir endanlegar tillögur í þeim efnum, en þær kunna að leiða til breytinga á þeim tillögum sem kynntar eru í þessu frumvarpi.

2.3     Almenn hækkun krónutöluskatta.
    Auk þeirra sérstöku tekjuöflunaraðgerða og breytinga á barnabótum og vaxtabótum sem þegar hefur verið lýst eru í frumvarpinu einnig tillögur um almenna 4% hækkun á hinum svokölluðu krónutölusköttum í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Markmiðið er að fjárhæðir þessara skatta haldi raungildi sínu frá fyrra ári. Hér er um að ræða vörugjöld sem ákvörðuð eru sem ákveðin fjárhæð á magneiningu. Þetta eru vörugjöld á bensíni, olíu og kílómetragjald og vörugjald á áfengi. Vörugjald á tóbak og bifreiðagjald falla alla jafna einnig undir þessa skilgreiningu, en eins og áður er komið fram munu þeir tekjustofnar hækka með öðru móti.

     Bensíngjald, olíugjald og kílómetragjald. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að almennt bensíngjald sem í dag er 22,94 kr. á hvern lítra hækki í 23,86 kr. og sérstakt bensíngjald á 95 oktana bensín hækki úr 37,07 kr. á hvern lítra í 38,55 kr., eða samtals um 2,40 kr. á hvern lítra. Samsvarandi hækkun á olíugjaldi er 2,11 kr. á hvern lítra. Um er að ræða 4% hækkun sem fyrr segir er í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Gert er ráð fyrir að þessar hækkanir skili ríkissjóði aukalega 750 millj. kr.
    Þá er einnig lagt til að almennt og sérstakt kílómetragjald hækki um 4% í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarpsins. Gert er ráð fyrir að hækkunin skili ríkissjóði aukalega 30 millj. kr.

    Vörugjald á áfengi. Í frumvarpinu er einnig að finna tillögu um 4% hækkun á vörugjöldum á áfengi í samræmi við verðlagsforsendur frumvarpsins. Viðbótartekjur af þeirri hækkun eru áætlaðar um og yfir 400 millj. kr. Sem fyrr segir er nú til skoðunar að breyta skattlagningu áfengis, einkum bjórs, þannig að meira tillit sé tekið til styrkleika, sem gæti hugsanlega að hluta komið í staðinn fyrir umrædda hækkun.

2.4     Gjaldskrárhækkanir o.fl.
    Þá er að lokum í frumvarpi þessu gert ráð fyrir eftirfarandi gjaldskrárhækkunum ýmissa stofnana eða fyrirtækja ríkisins, fyrst og fremst í takt við verðlagsforsendur frumvarpsins, en einnig vegna aðhaldsaðgerða í ríkisrekstrinum almennt.

    Útvarpsgjald.
Lagt er til að fjárhæð sérstaks útvarpsgjalds hækki um 700 kr. og nemi 17.900 kr. á hvern gjaldanda í stað 17.200 kr. samkvæmt gildandi lögum. Miðað er við 4% hækkun og nálgað að hundraði. Við það er miðað að þeir einstaklingar sem greiða í Framkvæmdasjóð aldraðra greiði útvarpsgjaldið, svo og þeir lögaðilar sem eru skattskyldir og bera sjálfstæða skattaðild. Þeir einstaklingar sem ekki skulu sæta álagningu sérstaks gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra eða fá það gjald fellt niður samkvæmt lögum um málefni aldraðra eru undanskildir gjaldinu. Undanskilin álagningu gjaldsins eru einnig dánarbú, þrotabú og ýmsir lögaðilar, svo sem stofnanir í eigu ríkis og sveitarfélaga, félagasamtök og sjálfseignarstofnanir sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni. Með því að láta gjaldið renna í ríkissjóð er aukin vissa í rekstri Ríkisútvarpsins ohf., en ríkissjóður mun bera áhættuna af óvissu um fjölda greiðenda sem félagið hefði ella borið. Viðbótartekjur ríkissjóðs af þessari hækkun eru áætlaðar rúmlega 140 millj. kr.

    Vitagjald. Lagt er til að vitagjald hækki um 5 kr. á hvert brúttótonn. Um er að ræða 4% hækkun í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarpsins. Áætlaðar viðbótartekjur af hækkuninni eru taldar nema 10 millj. kr.

    Gjald í framkvæmdasjóð aldraðra. Lagt er til að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra hækki um 300 kr. eða í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarpsins. Miðað er við 4% hækkun og nálgað að hundraði. Gert er ráð fyrir að gjaldendur verði um 175 þús. á álagningarárinu 2011 og fækki um 3% milli ára. Áætlað er að hækkunin skili ríkissjóði aukalega 60 millj. kr.

    Fæðingarorlof. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011 er gert ráð fyrir því að gjöld fæðingarorlofssjóðs verði lækkuð um 1 milljarð kr. með sértækum aðhaldsaðgerðum. Nú stendur yfir mat á áhrifum þeirra sparnaðaraðgerða sem gripið var til í fjárlögum yfirstandandi árs í fæðingarorlofskerfinu. Vonir standa til að þær aðgerðir skili meiri útgjaldaminnkun og því er ekki lögð til nein breyting á lögum um fæðingarorlof í þessu frumvarpi.

     Bætur almannatrygginga. Í forsendum fjárlagafrumvarpsins er ekki gert ráð fyrir verðlagshækkunum á grunnfjárhæðum bótakerfa eins og lífeyristryggingum, atvinnuleysistryggingum, barnabótum, vaxtabótum og fæðingarorlofsgreiðslum. Hallarekstur í ríkisfjármálum og samdráttaraðgerðir sem nauðsynlegt hefur verið að grípa til í þessu frumvarpi, auk óhjákvæmilegra nýrra útgjaldaskuldbindinga sem falla til, m.a. vegna skuldabyrði og atvinnuleysis, gefa ekki svigrúm til þess að standa undir slíkum verðlagshækkunum.

    Sóknargjöld.
Samkvæmt gildandi lögum eru svonefnd sóknargjöld ákvörðuð með þeim hætti að ákveðin grunnfjárhæð hækkar milli ára skv. 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna með því að ofan á hana bætist hækkun sem kann að verða á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga á öllu landinu milli næstliðinna tekjuára á undan tekjuárinu. Framlagið reiknast fyrir alla einstaklinga, 16 ára og eldri, og rennur til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga. Þrátt fyrir nafngiftina innheimtir ríkið í raun engin sóknargjöld heldur er um það að ræða að framlagið er reiknað samkvæmt lögum á grundvelli framangreindra viðmiða. Með tilliti til almennrar tekjuöflunar fyrir ríkissjóð í tengslum við nauðsynlegar ráðstafanir í ríkisfjármálum er talið nauðsynlegt að lækka þessa fjárhæð og er því í þessu frumvarpi lagt til að sóknargjöld verði föst krónutala, og lækki úr 767 kr. á mánuði samkvæmt núgildandi lögum í 698 kr. fyrir árið 2011. Með breytingunni er gert ráð fyrir að útgjöld ríkisins á árinu 2011 lækki um 183 millj. kr. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs lækki um rúmar 53 millj. kr. vegna Jöfnunarsjóðs sókna en framlag í sjóðinn reiknast sem 18,5% af gjöldum er renna til þjóðkirkjusafnaða samkvæmt lögum um sóknargjöld og hins vegar vegna Kirkjumálasjóðs sem reiknast á sama hátt sem 11,3% af sóknargjöldum.

    Framlag til þjóðkirkjunnar.
Við hrun fjármálakerfisins í október 2008 komust fjármál ríkisins í uppnám. Tekjur ríkisins hafa síðan dregist verulega saman og útgjöld aukist og er ríkissjóður rekinn með meiri halla og skuldasöfnun en nokkur dæmi eru um. Til þess að ná aftur jöfnuði í ríkisfjármálum þannig að þau verði sjálfbær er nauðsynlegt að grípa til margþættra aðgerða til lækkunar á útgjöldum ríkisins og til aukinnar tekjuöflunar. Í frumvarpinu er lagt til að skuldbinding ríkissjóðs á árinu 2011 gagnvart þjóðkirkjunni samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar muni lækka um 100 millj. kr. Með sama hætti er lagt til að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs muni skerðast um 5,9 millj. kr. á árinu. Tekjur ríkissjóðs hafa dregist verulega saman á síðustu árum í kjölfar hruns fjármálakerfisins í október 2008. Með tilliti til þess og aðgerða ríkissjóðs til lækkunar á útgjöldum og til aukinnar tekjuöflunar er nauðsynlegt að lækka framlög ríkissjóðs á árinu 2011 til þjóðkirkjunnar og til Kristnisjóðs sem þessu nemur. Með þessari lækkun mun þjóðkirkjan leggja sitt af mörkum til samræmis við almennan samdrátt í útgjöldum á flestum sviðum ríkisins með nefndri hagræðingarkröfu, að frátöldum breytingum vegna annarra forsendna vegna verðlagshækkana.

3.     Áhrif tillagna frumvarpsins á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt.
    Erfitt er að meta af einhverri nákvæmni hvaða áhrif framangreindar aðgerðir hafa á einstakar efnahagsstærðir eins og ráðstöfunartekjur heimilanna, verðlag eða kaupmátt ráðstöfunartekna sem aftur hafa áhrif á framvindu efnahagsmála. Ljóst er að viðbótartekjuöflun í formi fjármagnstekjuskatts, erfðafjárskatts, auðlegðarskatts, bifreiðagjalds og lægri greiðslur barnabóta, vaxtabóta og úr fæðingarorlofssjóði hafa bein áhrif til lækkunar á ráðstöfunartekjur, eða um nálægt 8,7 milljarða kr. Á móti vega auknar útgreiðslur séreignarsparnaðar sem áætlað er að nemi nálægt 6 milljörðum kr. eftir greiðslu tekjuskatts og útsvars. Samanlögð áhrif þessara aðgerða á ráðstöfunartekjur heimilanna eru samkvæmt því mati lítillega neikvæð, eða sem nemur 2,5–3 milljörðum kr. til lækkunar.
    Áhrif annarra aðgerða í frumvarpinu ættu fyrst og fremst að koma fram í hærra verðlagi (tekjuskattur lögaðila, áfengis- og tóbaksgjald, kolefnisgjald, krónutöluskattar, gjaldskrár). Lauslegt mat sýnir að þau áhrif gætu verið kringum 0,2% til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Rétt er að taka fram að vörugjald á sölu áfengis og tóbaks í fríhöfnum hefur ekki áhrif á vísitölu neysluverðs.
    Gangi þetta mat eftir væru samanlögð áhrif af tillögum frumvarpsins nálægt 0,5% til lækkunar á kaupmætti ráðstöfunartekna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Ákvæðið gerir ráð fyrir að tekjuskattur af fjármagnstekjum einstaklinga utan rekstrar hækki úr 18% í 20% vegna tekna sem falla til frá og með 1. janúar 2011. Gert er ráð fyrir að hækkunin komi til framkvæmda við álagningu á árinu 2012.

Um 2. gr.

    Í gildandi lögum eru sérstakar barnabætur sem greiddar eru með börnum yngri en sjö ára ótekjutengdar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að því verði breytt á þann veg að barnabætur vegna barna yngri en sjö ára verði skertar með tekjutengingu eins og aðrar barnabætur. Jafnframt er lagt til að tekjuskerðingarhlutfall þeirra verði 3% óháð fjölda barna. Þá er gerð tillaga um að tekjuskerðingarhlutfall barnabóta með einu barni verði hækkað úr 2% í 3%, en önnur tekjuskerðingarhlutföll haldist óbreytt. Sú breyting miðar að því að lækkun bótanna komi síður niður á stærri fjölskyldum. Þessar breytingar eru áætlaðar skila um 1,3 milljarða kr. sparnaði í greiðslum barnabóta.

Um 3. gr.

    Samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, teljast gjaldfallnir vextir og gjaldfallnar verðbætur á afborganir og vexti til vaxtagjalda og reiknast því vaxtabætur af þeim. Fjármálastofnanir hafa beitt þeirri aðferð við útreikning lána sem eru í svokallaðri frystingu að leggja árlega vexti við höfuðstól lánsins. Íbúðalánasjóður beitir m.a. þeirri aðferð. Þessir vextir eru taldir gjaldfallnir þó svo að engin greiðsla hafi farið fram og mynda þar með stofn til vaxtabóta. Þessari aðferð er þó ekki beitt hjá öllum fjármálastofnunum og hefur það skapað ákveðið misræmi við ákvörðun vaxtabóta.
    Í lok árs 2008 var ákvæði um skuldajöfnun vaxtabóta til Íbúðalánasjóðs fellt brott. Það þýðir að vaxtabætur eru í einhverjum mæli greiddar til einstaklinga sem eru með lán í frystingu og í vanskilum hjá sjóðnum án þess að þeir hafi orðið fyrir beinum fjárútlátum við greiðslu afborgana og vaxta. Með þessu móti geta þeir sem eru með lán í frystingu og fara e.t.v. síðar í sértæka skuldaaðlögun eða greiðsluaðlögun fengið peninga greidda út úr ríkissjóði og síðan fengið kröfur afskrifaðar vegna áðurnefndra vaxta og verðbóta sem aldrei hefur verið lagt út fyrir. Sama á við varðandi fleiri fjármálastofnanir.
    Þetta er ekki til þess fallið að auka réttlæti gagnvart þeim sem eru enn að berjast við að standa í skilum og greiða sitt. Því er lagt til með frumvarpi þessu að til vaxtagjalda sem mynda stofn til vaxtabóta teljist einungis greiddir vextir og verðbætur á afborganir og vexti.     Eins og fram kemur í almennum athugasemdum með frumvarpi þessu er stefnt að tæplega 2 milljarða kr. sparnaði í greiðslu vaxtabóta á næsta ári samkvæmt forsendum fjárlagafrumvarps fyrir árið 2011. Í ljósi þeirra áforma er í b- og c-lið þessarar greinar lagt til að tekjutenging vaxtabóta verði 7% í stað 6% eins og nú er og að endanlega ákvarðaðar vaxtabætur verði síðan skertar um 8% hjá öllum bótaþegum.

Um 4. gr.

    Hér er lögð til hækkun á tekjuskatti aðila með takmarkaða skattskyldu í samræmi við aðrar hækkanir frumvarpsins ef frá eru taldar hækkanir samkvæmt a- og b-lið. Þeir liðir sættu ekki hækkun til samræmis við hærri tekjuskattsprósentu skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 66. gr. þegar tekinn var upp þrepaskiptur tekjuskattur í lok ársins 2009, með lögum nr. 128/2009, um tekjuöflun ríkisins. Því er hér lögð til hækkun í samræmi við þær breytingar.

Um 5. gr.

    Lagt er til að tekjuskattur lögaðila sem skattskyldir eru skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 2. gr., þ.m.t. hlutafélög og einkahlutafélög, hækki úr 18% í 20%. Þá er lögð til samsvarandi hækkun á tekjuskatti lögaðila sem skattskyldir eru skv. 3.–5. tölul. 1. mgr. 2. gr., eins og sameignar- og samlagsfélög, úr 32,7% í 36%. Gert er ráð fyrir að hækkunin komi til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2012 vegna rekstrarársins 2011.
    Enn fremur er gert ráð fyrir að tekjuskattur lögaðila í 3., 4. og 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna af fengnum arði hækki í samræmi við almenna hækkun skatts á fjármagnstekjur úr 18% í 20%. Á sama hátt er gert ráð fyrir að tekjuskattur af fjármagnstekjum þeirra lögaðila sem undanþegnir eru skattskyldu samkvæmt tilteknum ákvæðum 4. gr. hækki úr 18% í 20%.

Um 6. gr.

    Með bráðabirgðaákvæði I er lagt til að skuldajöfnun barnabóta á móti opinberum gjöldum verði áfram óheimil út árið 2011, ella mundi hún falla niður í lok árs 2010.
    Með bráðabirgðaákvæði II er lagt til að hinn tímabundni auðlegðarskattur sem fyrst var lagður á árið 2010 verði hækkaður sem liður í aukinni tekjuöflun stjórnvalda. Miðað er við að hann skili 1,5 milljörðum kr. í viðbótartekjur með hækkun á skatthlutfallinu í 1,50% sem nú er 1,25%, og lækkun skattleysismarka úr 90 millj. kr. í 75 millj. kr. nettóeignir hjá einhleypum einstaklingum og úr 120 millj. kr. í 100 millj. kr. hjá hjónum. Að öðru leyti eru álagningarreglur auðlegðarskattsins óbreyttar.
    Með bráðabirgðaákvæði III er lagt til að endurreikningur lána í kjölfar dóms Hæstaréttar hafi engin skattaleg áhrif þótt ákvarðaðar séu vaxtatekjur á ofgreiddar innborganir á einhverjum tímabilum. Jafnframt er lagt til að ekki komi til endurákvörðunar á barnabótum og vaxtabótum af þessum sökum nema skattaðili fari fram á endurákvörðun þeirra skv. 2. mgr. 101. gr.

Um 7. og 8. gr.

    Í greinunum er lagt til að staðgreiðsla tekjuskatts á fjármagnstekjur hækki úr 18% í 20% vegna tekna sem falla til frá og með 1. janúar 2011. Gert er ráð fyrir að hækkunin komi til framkvæmda við staðgreiðslu á árinu 2011. Þetta er liður í viðbótartekjuöflun ríkissjóðs fyrir árið 2011, en tekjuáhrif hækkunarinnar eru áætluð um 1,5 milljarðar kr.

Um 9. gr.

    Í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2011 er í þessari grein lagt til að tekjuskattur lögaðila sem stunda kaupskipaútgerð hækki úr 18% í 20% til samræmis við fyrrgreinda hækkun tekjuskatts á lögaðila, sbr. athugasemdir við 5. gr.

Um 10. gr.

    Í þessari grein er lagt til að erfðafjárskattur hækki úr 5% í 10%. Jafnframt er lagt til að fríeignarmörk á hvert dánarbú hækki úr 1 millj. kr. í 1,5 millj. kr. Tilgangur þessarar breytingar er almenn tekjuöflun fyrir ríkissjóð í tengslum við nauðsynlegar ráðstafanir í ríkisfjármálum samkvæmt forsendum fjárlagafrumvarps fyrir komandi ár. Talið er að breytingin muni skila ríkissjóði nálægt 1 milljarði kr. í viðbótartekjur.

Um 11. gr.

    Með greininni er lagt til að fjárhæð áfengisgjalds verði hækkuð um 4%, sbr. umfjöllun í almennum athugasemdum við frumvarpið. Þá er lagt til að tekið verði upp sérstakt áfengisgjald á áfengi sem selt er úr komuverslunum hér á landi, sbr. skilgreiningu í 104. gr. tollalaga. Um er að ræða verslanir sem starfræktar eru í tengslum við millilandaflug í Keflavík, í Reykjavík, á Akureyri og á Egilsstöðum. Slíkar vörur eru með öllu gjaldfrjálsar, en tillaga greinarinnar gerir ráð fyrir að gjald sem nemur 10% af því áfengisgjaldi sem þegar er lagt á annað áfengi í landinu verður tekið upp.
    Í ákvæðinu er einnig kveðið á um að hafi aðili keypt umfram það magn sem heimilt er gjaldfrjálst samkvæmt tollalögum þá skuli einungis greiða mismun á hefðbundnu áfengisgjaldi og sérstaka áfengisgjaldinu framvísi hann kvittun sem sýni að áfengið hafi verið keypt í tollfrjálsri verslun hér á landi.

Um 12. gr.

    Í ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. í gildandi lögum er kveðið á um gjaldfrelsi áfengis í tollfrjálsum verslunum hér á landi. Hér er lagt til að bætt verði við ákvæðið tilvísun í 3. gr. laganna um undanþágu frá gjaldfrelsinu, sbr. tillögu 11. gr. hér að framan. Er það nauðsynlegt því verði frumvarpið að lögum verður áfengi sem selt er í komuverslunum ekki lengur gjaldfrjálst heldur einungis það sem selt er í brottfararverslunum í samræmi við það sem almennt gerist í nágrannalöndunum.

Um 13. gr.

    Í greininni er lagt til að tóbaksgjald hækki um 7%, eða hlutfallslega jafnt af öllum tegundum tóbaks sem flutt er til landsins og selt innan lands. Í ákvæðinu er einnig lagt til að sett verði sérstakt tóbaksgjald á tóbak sem selt er úr komuverslunum hér á landi, sbr. skilgreiningu í 104. gr. tollalaga. Um er að ræða verslanir sem starfræktar eru í tengslum við millilandaflug í Keflavík, í Reykjavík, á Akureyri og á Egilsstöðum. Tóbaksvörur eru með öllu gjaldfrjálsar samkvæmt gildandi lögum, en hér er lagt til að tekið verði upp sérstakt gjald sem nemi 20% af því tóbaksgjaldi sem lagt er á tóbaksvörur seldar innan lands.
    Í ákvæði 2. tölul. 9. gr. í gildandi lögum er kveðið á um gjaldfrelsi tóbaks í tollfrjálsum verslunum hér á landi. Hér er lagt til að bætt verði við ákvæðið tilvísun í 4. gr. laganna um undanþágu frá gjaldfrelsinu, sbr. tillögu 1. mgr. Er það nauðsynlegt því verði frumvarpið að lögum verður tóbak sem selt er í komuverslunum ekki lengur gjaldfrjálst heldur einungis það sem selt er í brottfararverslunum í samræmi við það sem almennt gerist í nágrannalöndunum.

Um 14. gr.

    Með a- og b-lið er lagt til að gjald af tóbaki sem ferðamenn eða farmenn hafa með sér til landsins verði hækkað um 7% til samræmis við áðurnefnda hækkun, sbr. 8. gr. laganna.
    Í c-lið er kveðið á um að hafi aðili keypt umfram það magn sem heimilt er gjaldfrjálst samkvæmt tollalögum þá skuli einungis greiða mismun á hefðbundnu tóbaksgjaldi og sérstaka tóbaksgjaldinu framvísi hann kvittun sem sýni að tóbakið hafi verið keypt í tollfrjálsri verslun hér á landi.

Um 15. gr.

    Á síðasta ári var tekið upp kolefnisgjald á fljótandi eldsneyti úr jarðefnum, en með því var stigið ákveðið skref í nýrri skattheimtu á sviði umhverfis- og auðlindaskatta. Nú er talið rétt að taka viðbótarskref varðandi þessa gjaldtöku. Í frumvarpinu er því lagt til að kolefnisgjaldið hækki um 50% frá því sem er nú þannig að miðað verði við 75% af verði losunarheimilda á uppboðsmarkaði ESB í stað 50%. Viðbótartekjur ríkissjóðs af þeirri hækkun eru áætlaðar um 1 milljarður kr. Gjaldið er misjafnt eftir tegundum eldsneytis, eða á bilinu 2,60–3,10 kr. á hvern lítra, en verður eftir hækkunina 3,80–4,60 kr. á hvern lítra.

Um 16. gr.

    Með greininni er lagt til að ákvæði til bráðabirgða VIII í lögum nr. 129/1997, sem fyrst var sett með lögum nr. 13/2009, og síðan breytt með lögum nr. 130/2009, verði breytt þannig að rétthöfum verði heimilt að sækja um að fá greiddan út séreignarsparnað að ákveðnu marki á tímabilinu 1. janúar 2011 fram til 1. apríl 2011, til viðbótar við þá bráðabirgðaheimild sem nú er að finna í ákvæði til bráðabirgða VIII í lögunum, þ.e. að heimild til að greiða út séreignarsparnað verði framlengd. Með lögum nr. 13/2009 var heimild veitt til að greiða út í áföngum og upp að 1 millj. kr. sem tæki jafnt til allra rétthafa. Með lögum nr. 130/2009 var síðan veitt heimild til þess að rétthafar gætu innleyst allt að 1,5 millj. kr. til viðbótar. Með þessu frumvarpi er lagt til að rétthafar geti fengið greiddar út allt að 2,5 millj. kr. til viðbótar við þá greiðslu sem heimil er samkvæmt ákvæði til bráðabirgða VIII, eins og því var breytt með lögum nr. 130/2009, eða samtals allt að 5,0 millj. kr. Gert er ráð fyrir að sú fjárhæð sem heimilt verður að greiða út samkvæmt þessari viðbótarheimild verði miðuð við stöðu á samanlögðum séreignarsparnaði rétthafa í lok ársins 2010. Miðar breytingin að því að samanlagður útgreiðslutími fjárhæðar sem nemur allt að 5,0 millj. kr. verði 12 mánuðir og sækja þarf um að fá sparnaðinn greiddan út með umsókn fyrir 1. apríl 2011 samkvæmt greininni. Því gildir það að ef óskað er eftir því að fá sparnaðinn greiddan út samkvæmt þessu nýja ákvæði fellur fyrra greiðslufyrirkomulag niður, en samanlögð heimil heildarfjárhæð útborgunar, allt að 5.000.000 kr., greiðist út í samræmi við ákvæði 2. mgr.
    Ákvæði það sem hér er lagt til er að mestu leyti samhljóða ákvæði 41. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2009. Til að taka af öll tvímæli er í 9. mgr. kveðið á um að það er einungis útgreiðsla séreignarsparnaðar samkvæmt ákvæði þessu sem hefur ekki áhrif á þær bætur sem þar eru taldar upp. Um frekari skýringar á efnisákvæðum þeim sem hér um ræðir vísast til athugasemda við 41. gr. laga nr. 130/2009 og 3. gr. þess frumvarps sem varð að lögum nr. 13/2009.

Um 17. gr.

    Lagt er til að olíugjald verði hækkað úr 52,77 kr. í 54,88 kr. eða um 4% í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2011. Að meðtöldum virðisaukaskatti nemur hækkunin 2,65 kr. á lítra, sem þýðir nálægt 1,4% hækkun útsöluverðs. Fjárhæð olíugjalds var síðast breytt 21. desember 2009 þegar gjaldið var hækkað um 3,2%. Frá þeim tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,1%.

Um 18. gr.

    Í a- og b-liðum greinarinnar er lagt til að fjárhæð almenns kílómetragjalds og sérstaks kílómetragjalds hækki um 4% í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2011. Fjárhæð almenns kílómetragjalds var síðast breytt 28. maí 2009 þegar gjaldið var lækkað um 20% með lögum nr. 60/2009 á móti hækkun bensíngjalds og olíugjalds. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 7,5% frá þeim tíma og hefur hið almenna kílómetragjald því lækkað að raungildi sem því nemur.

Um 19. gr.

    Hér er lagt til að almennt vörugjald af eldsneyti hækki um 0,92 kr. á hvern lítra, úr 22,94 kr. í 23,86. kr., eða um 4% í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2011. Að meðtöldum virðisaukaskatti nemur hækkunin liðlega 1 kr. á hvern lítra. Fjárhæð almenna vörugjaldsins var síðast breytt 21. desember 2009. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 2,1% frá þeim tíma og hefur almennt vörugjald af eldsneyti því lækkað að raungildi sem því nemur.

Um 20. gr.

    Lagt er til að sérstakt vörugjald af blýlausu bensíni hækki um 1,48 kr. á hvern lítra, úr 37,07 kr. í 38,55 kr. Að meðtöldum virðisaukaskatti nemur hækkunin tæplega 1,9 kr. á lítra. Einnig er lagt til að sérstakt vörugjald á hvern lítra af öðru bensíni hækki um 1,57 kr. á hvern lítra, úr 39,28 kr. í 40,85 kr. Að meðtöldum virðisaukaskatti nemur hækkunin tæplega 2 kr. á hvern lítra. Sú hækkun sem hér er lögð til er 4% og í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2011. Fjárhæð sérstaks vörugjalds var síðast hækkuð 11. desember 2008. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um tæp 10% frá þeim tíma og hefur sérstakt vörugjald af eldsneyti því lækkað að raungildi sem því nemur.

Um 21. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að fjárhæð sérstaks útvarpsgjalds verði hækkuð um 700 kr., eða 4%, og nemi 17.900 kr. á hvern gjaldanda í stað 17.200 kr. samkvæmt gildandi lögum. Vegna almennrar tekjuöflunar fyrir ríkissjóð í tengslum við nauðsynlegar ráðstafanir í ríkisfjármálum er nú talið nauðsynlegt að hækka fjárhæð sérstaks útvarpsgjalds um 4%.

Um 22. gr.

    Fjárhæð vitagjalds var síðast breytt 19. desember 2009. Þá var ákveðið að vitagjald skyldi vera 125,12 kr. af hverju brúttótonni skips og lágmarksgjald 4.900 kr. Í samræmi við verðlagsbreytingar frá síðustu hækkun gjaldsins og í samræmi við almenna tekjuöflun fyrir ríkissjóð í tengslum við nauðsynlegar ráðstafanir í ríkisfjármálum er lagt til að vitagjald hækki um 4% og verði 130,12 kr.

Um 23. gr.

    Hér er lagt til að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra samkvæmt lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, verði hækkað um 300 kr. og nemi 8.700 kr. á hvern gjaldanda í stað 8.400 kr. samkvæmt gildandi lögum. Hækkunin kemur til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2011 vegna tekna ársins 2010.

Um 24. gr.

    Samkvæmt gildandi lögum eru svonefnd sóknargjöld ákvörðuð með þeim hætti að ákveðin grunnfjárhæð hækkar milli ára skv. 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna með því að ofan á hana bætist hækkun sem kann að verða á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga á öllu landinu milli næstliðinna tekjuára á undan tekjuárinu. Framlagið reiknast fyrir alla einstaklinga, 16 ára og eldri, og rennur til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga. Þrátt fyrir nafngiftina innheimtir ríkið í raun engin sóknargjöld heldur er um það að ræða að framlagið er reiknað samkvæmt lögum á grundvelli framangreindra viðmiða. Í ákvæðinu er lagt til að sóknargjöld verði föst krónutala og lækki úr 767 kr. á mánuði samkvæmt núgildandi lögum í 698 kr. fyrir árið 2011. Með tilliti til almennrar tekjuöflunar fyrir ríkissjóð í tengslum við nauðsynlegar ráðstafanir í ríkisfjármálum er talið nauðsynlegt að lækka þessa fjárhæð. Með breytingunni er gert ráð fyrir að útgjöld ríkisins á árinu 2011 lækki um 183 millj. kr. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs lækki um rúmar 53 millj. kr. vegna Jöfnunarsjóðs sókna en framlag í sjóðinn reiknast sem 18,5% af gjöldum er renna til þjóðkirkjusafnaða samkvæmt lögum um sóknargjöld og hins vegar vegna Kirkjumálasjóðs sem reiknast á sama hátt sem 11,3% af sóknargjöldum.

Um 25. gr.

    Við hrun fjármálakerfisins í október 2008 komust fjármál ríkisins í uppnám. Tekjur ríkisins hafa síðan dregist verulega saman og útgjöld aukist og er ríkissjóður rekinn með meiri halla og skuldasöfnun en nokkur dæmi eru um. Til þess að ná aftur jöfnuði í ríkisfjármálum þannig að þau verði sjálfbær er nauðsynlegt að grípa til margþættra aðgerða til lækkunar á útgjöldum ríkisins og til aukinnar tekjuöflunar. Í ákvæðinu er lagt til að skuldbinding ríkissjóðs á árinu 2011 gagnvart þjóðkirkjunni samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar muni lækka um 100 millj. kr. Með sama hætti er lagt til að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs muni skerðast um 5,9 millj. kr. á árinu. Tekjur ríkissjóðs hafa dregist verulega saman á síðustu árum í kjölfar hruns fjármálakerfisins í október 2008. Með tilliti til þess og aðgerða ríkissjóðs til lækkunar á útgjöldum og til aukinnar tekjuöflunar er nauðsynlegt að lækka framlög ríkissjóðs á árinu 2011 til þjóðkirkjunnar og til Kristnisjóðs sem þessu nemur. Með þessari lækkun mun þjóðkirkjan leggja sitt af mörkum til samræmis við almennan samdrátt í útgjöldum á flestum sviðum ríkisins með nefndri hagræðingarkröfu, að frátöldum breytingum vegna annarra forsendna vegna verðlagshækkana.

Um 26. gr.

    Í forsendum frumvarps til fjárlaga er ekki gert ráð fyrir verðlagshækkunum á grunnfjárhæðum bótakerfa eins og lífeyristryggingum, atvinnuleysistryggingum, barnabótum, vaxtabótum og fæðingarorlofsgreiðslum. Hallarekstur í ríkisfjármálum og samdráttaraðgerðir sem nauðsynlegt hefur verið að grípa til í þessu frumvarpi, auk óhjákvæmilegra nýrra útgjaldaskuldbindinga sem falla til, m.a. vegna skuldabyrði og atvinnuleysis, gefa ekki svigrúm til þess að standa undir slíkum verðlagshækkunum. Með þessu ákvæði til bráðabirgða er lagt til að bætur almannatrygginga taki ekki breytingum í samræmi við almennt verðlag.

Um 27. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum til að auka tekjur ríkissjóðs í samræmi við forsendur í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011. Í frumvarpinu eru tekjuáformin byggð á markmiðum áætlunar um að jöfnuði verði náð í ríkisfjármálum á næstu þremur árum. Í þessu frumvarpi er verið að leggja til hluta af þeim breytingum á lögum um tekjuöflun ríkissjóðs sem ætlunin er að flytja þannig að ofangreind áform nái fram að ganga. Jafnframt eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á ýmsum lögum til lækkunar á ríkisútgjöldum í samræmi við sömu markmið.
    Í forsendum fjárlagafrumvarps næsta árs er gert ráð fyrir sérstökum aðgerðum á tekjuhlið sem samtals eiga að skila 11 milljörðum kr. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir breytingum á tekjustofnum sem áætlað er að skili samtals 9,1 milljarði kr. Í fyrsta lagi er lagt til að skattur á fjármagnstekjur verði hækkaður úr 18% í 20% frá og með 1. janúar 2011 og að skatturinn komi til framkvæmda við staðgreiðslu tekjuskatts vegna fjármagnstekna á árinu 2011. Endanleg álagning skattsins komi til framkvæmda á árinu 2012. Á ársgrundvelli er gert ráð fyrir að hækkunin auki tekjur ríkissjóðs um rúmlega 1,5 milljarða kr.
    Í öðru lagi er lagt til að tekjuskattur lögaðila, þ.e. meðal annars hlutafélaga og einkahlutafélaga, verði hækkaður úr 18% í 20% og að tekjuskattur sameignar- og samlagsfélaga hækki samsvarandi úr 32,7% í 36%. Gert er ráð fyrir að hækkunin komi til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2012 vegna rekstrarársins 2011 og skili á ársgrundvelli um 2,5 milljörðum kr. en að tekjur vegna skattlagningarinnar verði um 500 m.kr. á næsta ári. Jafnframt er lagt til að skattur lögaðila af fengnum arði hækki í samræmi við almenna hækkun skatts á fjármagnstekjur.
    Í þriðja lagi er lagt til að nýr auðlegðarskattur sem lagður var á í fyrsta skipti á þessu ári verði hækkaður úr 1,25% í 1,50% af nettóeign hjóna yfir 100 m.kr. og 75 m.kr. hjá einstaklingum. Samhliða því að skatthlutfallið er hækkað eru skattleysismörkin lækkuð frá því sem nú er eða úr 120 m.kr. í 100 m.kr. hjá hjónum og úr 90 m.kr. í 75 m.kr. hjá einstaklingum. Ráðgert er að hækkun skattsins skili ríkissjóði um 1,5 milljörðum kr. í auknar tekjur.
    Í fjórða lagi er lagt til að erfðafjárskattur verði hækkaður úr 5% í 10% og er gert ráð fyrir því að skatturinn auki tekjur ríkissjóðs um 1 milljarð kr. árlega.
    Í fimmta lagi er lagt til að tóbaksgjald verði hækkað um 7% og sett verði sérstakt áfengisgjald og tóbaksgjald á þessar vörur í tollfrjálsum komuverslunum í tengslum við millilandaflug hér á landi. Slíkar vörur hafa til þessa verið gjaldfrjálsar en lagt er til að tekið verði upp sérstakt 10% gjald af almennu reiknuðu áfengisgjaldi eins og það er lagt á áfengi sem selt er í landinu og sérstakt 20% gjald af almennu reiknuðu tóbaksgjaldi. Gjaldið verður hins vegar ekki lagt á áfengi eða tóbak sem selt er í verslunum við brottför úr landi. Gert er ráð fyrir því að hækkun á tóbaksgjaldi og upptaka á sérstöku áfengis- og tóbaksgjaldi í komuverslunum til landsins auki tekjur ríkissjóðs um 600 m.kr.
    Í sjötta lagi er lagt til að viðmiðun kolefnisgjalds verði hækkuð úr 50% í 75% af verði losunarheimilda á uppboðsmarkaði Evrópusambandsins. Verð losunarheimilda á uppboðsmarkaðinum hefur hækkað nokkuð á undanförnum misserum en hækkun gengis íslensku krónunnar hefur orðið til þess að hækkunin hefur ekki skilað sér í auknum tekjum ríkissjóðs. Því er gjaldið hækkað og gert ráð fyrir því að tekjuaukinn verði um 1 milljarður kr. á ári.
    Að lokum er gert ráð fyrir því að veitt verði viðbótarheimild til úttektar á séreignarsparnaði. Samkvæmt gildandi lögum geta eigendur séreignarsparnaðar sótt um að taka út allt að 2,5 m.kr. fram til 1. apríl á næsta ári. Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til er gert ráð fyrir að heildarfjárhæð sem hægt verður að taka út verði allt að 5 m.kr. og skal umsóknartíminn vera frá 1. janúar 2011 til 1. apríl 2011. Gert er ráð fyrir að vegna þessara breytinga verði allt að 10 milljarðar kr. greiddir út úr séreignarsjóðum til viðbótar við þá 43 milljarða kr. sem þegar hafa verið greiddir út. Áætlaðar tekjur ríkissjóðs vegna þessa eru áætlaðar 3 milljarðar kr. í tekjuskatt umfram tekjuáhrif fyrri heimilda.

Sérstakar tekjuöflunaraðgerðir 2011

Rekstrargrunnur mia.kr.
Fjármagnstekjuskattur 1,5
Tekjuskattur lögaðila 0,5
Auðlegðarskattur 1,5
Erfðafjárskattur 1,0
Áfengis- og tóbaksgjald 0,6
Kolefnisgjald 1,0
Viðbótarheimild til úttektar á séreignarsparnaði 3,0
Samtals: 9,1

    Til viðbótar þessum sérstöku tekjuöflunaraðgerðum er auk þess lögð til almenn 4% hækkun á nokkrum svokölluðum krónutölusköttum í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Í fyrsta lagi er lögð til 4% hækkun á olíugjaldi, almennu og sérstöku kílómetragjald, almennu vörugjald af eldsneyti og sérstöku vörugjaldi af bensíni. Samtals er gert ráð fyrir að þessar hækkanir skili um 750 m.kr. tekjum í ríkissjóð. Þá er einnig lagt til að almennt og sérstakt kílómetragjald hækki um 4% og að hækkunin muni skila 30 m.kr. tekjuauka.
    Í öðru lagi er lögð til 4% hækkun á sérstöku útvarpsgjaldi sem skili 140 m.kr. í auknum tekjum, vörugjaldi á áfengi sem auki tekjur ríkissjóðs um 400 m.kr. og vitagjaldi sem skili 10 m.kr. tekjuauka.
    Jafnframt er í þriðja lagt til að gjald í Framkvæmdasjóð aldraða verði hækkað um 4% og að hækkunin skili um 60 m.kr.
    Í frumvarpinu er auk tekjuöflunaraðgerða fyrir ríkissjóð gerðar nokkrar breytingar á útgjöldum í samræmi við forsendur í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár til að bæta afkomu ríkissjóðs frá því sem ella hefði orðið þannig að frumjöfnuður hans verði orðinn jákvæður á árinu 2011.
    Í fyrsta lagi er lagt til að barnabætur vegna barna yngri en sjö ára verði tekjutengdar eins og aðrar bætur og enn fremur að tekjuskerðingarhlutfall vegna eins barns hækki úr 2% í 3%. Gert er ráð fyrir að þessar breytingar á barnabótakerfinu lækki greiðslur um 1,3 milljarða kr. á næsta ári.
    Í öðru lagi er lagt til að tekjutenging vaxtabóta verði hækkuð úr 6% í 7%, auk þess sem reiknaðar bætur verði síðan skertar um 8%. Gert er ráð fyrir að greiddar vaxtabætur úr ríkissjóði muni lækka um 2,2 milljarða kr. vegna þessara breytinga á næsta ári.
    Í þriðja lagi er lagt til að sóknargjöld lækki úr 767 kr. á mánuði samkvæmt núgildandi lögum í 698 kr. fyrir árið 2011. Með breytingunni er gert ráð fyrir að útgjöld ríkisins á árinu 2011 lækki um 183 millj. kr. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs lækki um rúmar 53 millj. kr. vegna Jöfnunarsjóðs sókna en framlag í sjóðinn reiknast sem 18,5% af gjöldum er renna til þjóðkirkjusafnaða samkvæmt lögum um sóknargjöld og hins vegar vegna Kirkjumálasjóðs sem reiknast á sama hátt sem 11,3% af sóknargjöldum.
    Í fjórða lagi er lagt til að framlag ríkissjóðs á árinu 2011 til þjóðkirkjunnar muni lækka um 100 millj. kr. og með sama hætti er lagt til að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs muni skerðast um 5,9 millj. kr. á árinu. Þetta er gert með tillögu um að framlag til kirkjunnar samkvæmt lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar verði bundið við fasta krónutölu frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2011 en taki ekki mið af reiknilíkani sem framlögin hafa verið miðuð við.
    Í fimmta og síðasta lagi er í samræmi við verðlagsforsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2011 lagt til að grunnfjárhæðir almannatrygginga verði ekki verðlagshækkaðar. Að óbreyttu má reikna með að fjárheimildir hefðu orðið um 2,7 milljörðum kr. hærri miðað við spá um 3,5% almenna verðlagshækkun.

Aðgerðir til lækkunar ríkisútgjalda 2011

Rekstrargrunnur mia.kr.
Barnabætur 1,3
Vaxtabætur 2,2
Sóknargjöld 0,2
Þjóðkirkjan 0,1
Grunnfjárhæðir almannatrygginga ekki verðbættar 2,7
Samtals: 6,5

    Þær ráðstafanir sem lagt er til að gripið verði til í þessu frumvarpi gera ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs batni um 15,6 milljarða kr. frá því sem hefði orðið að óbreyttu. Eru þær í samræmi við þær forsendur sem settar eru fram í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár. Gert er ráð fyrir að kostnaðarauki í skattkerfinu við að koma þessum breytingum í framkvæmd verði óverulegur og muni rúmast innan fjárheimilda ráðuneytisins.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Fyrra hefti frumvarps til fjárlaga 2011, Stefna og horfur, bls. 33.