Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 201. máls.

Þskj. 218  —  201. mál.Frumvarp til laga

um skeldýrarækt.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)
I. KAFLI
Markmið, gildissvið og skilgreiningar.
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að skapa skilyrði til ræktunar skeldýra, setja reglur um starfsemina og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu.

2. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi taka til ræktunar skeldýra á íslensku forráðasvæði. Ákvæði laganna gilda m.a. um skrápdýr, möttuldýr og sæsnigla.
    

3. gr.
Skilgreiningar.

    Í lögum þessum, reglugerðum og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra er merking hugtaka sem hér segir:
     1.      Eignarland: Landsvæði, þ.m.t. innan netlaga í stöðuvötnum og sjó, sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.
     2.      Framleiðslusvæði: Sjávarsvæði, ármynni eða lón þar sem er að finna náttúruleg skeldýr eða svæði sem eru notuð til að rækta skeldýr og þaðan sem lifandi skeldýr eru tekin.
     3.      Lindýr: Hryggleysingjar með mjúkan, óliðskiptan líkama, sveipaðan möttli (kápu) (Mollusca).
     4.      Mannvirki: Hvers konar byggingar og búnaður sem er notaður við ræktun skeldýra.
     5.      Netlög: Sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar.
     6.      Ræktunarsvæði: Afmarkað svæði þar sem skeldýraræktarfyrirtæki ræktar skeldýr og dýr sem eru ekki fóðruð en taka sjálf upp næringu úr umhverfi.
     7.      Skeldýr: Flokkur lindýra sem hefur um sig skel.
     8.      Skeldýrarækt: Ræktun skeldýra með skipulegri umhirðu og vöktun á afmörkuðu svæði þar sem engin fóðrun á sér stað. Hluti af ræktun er einnig skipuleg söfnun og veiði á skeldýrum til áframhaldandi ræktunar.
     9.      Skeldýraræktarstöð: Ræktunarstaður skeldýra.
     10.      Þörungaeitur: Lífræn eiturefni sem samlokur safna í sig þegar þær nærast á þörungum sem innihalda slík efni (sjávarlífeitur).

II. KAFLI
Stjórnsýsla.
4. gr.
Stjórnsýsla.

    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum en framkvæmd stjórnsýslunnar er að öðru leyti í höndum Matvælastofnunar sem hefur eftirlit með því að ákvæðum laganna sé framfylgt. Einnig hefur Fiskistofa eftirlit með veiðum skeldýra til áframhaldandi ræktunar, vigtun og skráningu sjávarafla í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli sem gilda á hverjum tíma. Þá skal Fiskistofa hafa eftirlit með því að veiði á skeldýrum sé einungis stunduð á svæðum sem flokkuð hafa verið af Matvælastofnun og upplýsa Matvælastofnun um atriði sem varða veiði skeldýra á hverjum tíma, svo sem hvaða aðilar stundi veiðarnar, aflabrögð, og hvar skeldýranna er aflað.

5. gr.
Svæðaskipting starfsemi.

    Ráðherra er heimilt, ef vistfræðileg eða hagræn rök mæla með því, að ákveða samkvæmt lögum þessum skipulag og skiptingu ræktunarsvæða meðfram ströndum landsins. Ráðherra getur falið Fiskistofu umsjón með skipulagi, gerð og vörslu gagnagrunns um svæðaskiptingu vegna ræktunarsvæða.
    Áður en ákvörðun um slíka svæðaskiptingu er tekin skal ráðherra m.a. afla umsagna Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunarinnar, Landhelgisgæslu Íslands, Matvælastofnunar, Orkustofnunar, Siglingastofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar. Frestur umsagnaraðila til að skila umsögnum skal að hámarki vera tvær vikur.
    Ákvörðun ráðherra um svæðaskiptingu skal birt með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.

6. gr.
Staðbundið bann við starfsemi o.fl.

    Ráðherra getur takmarkað eða bannað skeldýrarækt eða ákveðnar aðferðir við slíka starfsemi í einstökum fjörðum, flóum eða á svæðum sem teljast sérlega viðkvæm gagnvart þeirri starfsemi sem fer fram samkvæmt lögum þessum. Sama gildir ef starfsemin truflar siglingar eða veldur siglingahættu. Áður en ákvörðun um slíkt bann er tekin skal ráðherra leita eftir afstöðu aðila sem starfrækja skeldýrarækt á viðkomandi svæðum. Einnig skal ráðherra afla umsagna Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunarinnar, Landhelgisgæslu Íslands, Matvælastofnunar, Orkustofnunar, Siglingastofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar. Frestur umsagnaraðila til að skila umsögnum skal að hámarki vera tvær vikur.

III. KAFLI
Leyfisveitingar o.fl.
7. gr.
Tilraunaleyfi.

    Matvælastofnun er heimilt að gefa út tímabundin tilraunaleyfi til skeldýraræktar, til þess að kanna hvort svæðið hentar til slíkrar ræktunar. Leyfi þetta veitir ekki heimild til dreifingar afurða til neyslu.
    Áður en tilraunaleyfi er veitt skal Matvælastofnun afla umsagna Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunarinnar, Landhelgisgæslu Íslands, Orkustofnunar, Siglingastofnunar Íslands og viðkomandi sveitarstjórnar um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu tilraunasvæði eða fyrirhugaðar tegundir, stofnar eða starfsaðferðir gefi tilefni til hættu á neikvæðum vistfræði- eða erfðafræðiáhrifum sem leitt getur af leyfisskyldri starfsemi. Frestur umsagnaraðila til að skila umsögnum skal að hámarki vera tvær vikur.
    Umsókn um tilraunaleyfi skal vera skrifleg. Þar skulu m.a. koma fram upplýsingar um eignaraðild að skeldýraræktarstöð, fagþekkingu umsækjenda um tilraunaleyfi á viðkomandi sviði, stærð og umfang starfsemi og tegundir. Ef áformað er að starfsemi samkvæmt umsókn umsækjanda fari fram innan netlaga eignarlands skal fylgja eignarheimild eða samningur við eiganda viðkomandi lands. Þá skal fylgja yfirlýsing bygginga- og/eða skipulagsfulltrúa sveitarfélags um að mannvirki sem er áformað að nota við skeldýrarækt séu í samræmi við skipulag.
    Veiti fyrirliggjandi gögn ekki nægilegar upplýsingar til þess að mat verði lagt á þá þætti sem um getur í 3. mgr. getur Matvælastofnun gert umsækjanda að láta í té frekari upplýsingar áður en tilraunaleyfi er veitt.
    Tilraunaleyfi gildir að hámarki til tveggja ára í senn en heimilt er að endurnýja það samkvæmt umsókn leyfishafa um eitt ár í senn þannig að það gildi að hámarki í fimm ár. Í leyfi skulu koma fram upplýsingar um staðsetningu, aðferðir við ræktun og þær tegundir sem leyfið gildir um. Leyfið gildir eingöngu um þær skelfisktegundir sem sótt er um leyfi fyrir og skal það vera bundið við afmörkuð svæði.
    Einnig er heimilt að binda tilraunaleyfi skilyrðum um að leyfishafi merki ræktunarsvæði til öryggis fyrir sjófarendur, haldi skrár um fjölda lína, botnfestingar og framvindu ræktunartilraunar, framkvæmi tilteknar forkannanir varðandi staðarval og sýnatökur á framleiðslusvæði, efna- og örverurannsóknir, athugun á áhrifum veðurfarslegra þátta, mengun o.fl.
    Leyfishafi skal skila Matvælastofnun skýrslu um ræktunina árlega auk þess að veita stofnuninni aðgang að gögnum um ræktunina.
    Við útgáfu tilraunaleyfis getur Matvælastofnun krafist þess að leyfishafi setji tryggingu fyrir kostnaði við að fjarlægja mannvirki, línur og annan búnað að lokinni starfsemi.
    Matvælastofnun er heimilt að veita tilraunaleyfishafa forgang að ræktunarleyfi á viðkomandi svæði að gildistíma loknum.

8. gr.
Heilnæmiskönnun.

    Áður en gefin eru út ræktunarleyfi skal leyfishafi eða umsækjandi láta framkvæma heilnæmiskönnun. Heilnæmiskönnun skal skipulögð og framkvæmd af Matvælastofnun í samræmi við ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla þar að lútandi. Leyfishafi greiðir kostnað við heilnæmiskönnun en heimilt er ráðherra að ákveða að hann skuli greiddur úr ríkissjóði að hluta eða öllu leyti ef fjárheimildir fást til þess í fjárlögum.
    Niðurstöður úr heilnæmiskönnun skulu liggja fyrir við útgáfu ræktunarleyfis.

9. gr.
Ræktunarleyfi.

    Ræktun og veiðar skeldýra eru einungis heimilar á ræktunarsvæðum sem Matvælastofnun hefur viðurkennt á grundvelli heilnæmiskannana.
    Hægt er að sækja um ræktunarleyfi þótt tilraunaleyfi hafi ekki áður verið veitt. Við útgáfu ræktunarleyfis getur Matvælastofnun krafist þess að leyfishafi setji tryggingu fyrir kostnaði við að fjarlægja mannvirki, línur og annan búnað að lokinni starfsemi.
    Áður en ræktunarleyfi er veitt skal Matvælastofnun afla umsagna Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunarinnar, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Orkustofnunar, Siglingastofnunar Íslands og viðkomandi sveitarstjórnar um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu ræktunarsvæði eða fyrirhugaðar tegundir, stofnar eða starfsaðferðir gefi tilefni til hættu á neikvæðum vistfræði- eða erfðafræðiáhrifum sem leitt getur af leyfisskyldri starfsemi. Frestur umsagnaraðila til að skila umsögnum skal að hámarki vera tvær vikur. Einnig skal leita umsagnar Landhelgisgæslu Íslands um hvort fyrirhugað ræktunarsvæði truflar siglingar eða veldur siglingahættu. Jafnframt hefur Matvælastofnun heimild, að fenginni umsögn Fiskistofu, til að ákvarða stærð ræktunarsvæðis, hafi svæðaskipting ekki verið ákveðin, sbr. 5. gr. Matvælastofnun skal hafa að leiðarljósi reynslu tilraunaleyfishafa á tilraunaleyfissvæðinu þegar ræktunarleyfi er veitt á viðkomandi svæði að loknum gildistíma tilraunaleyfisins.
    Umsókn um ræktunarleyfi skal vera skrifleg. Þar skulu m.a. koma fram upplýsingar um eignaraðild að skeldýraræktarstöð, fagþekkingu umsækjenda um ræktunarleyfi á viðkomandi sviði, stærð og umfang starfsemi, framleiðslumagn og tegundir. Einnig skulu fylgja umsókn upplýsingar um merkingu ræktunarsvæðis til öryggis fyrir sjófarendur. Ef áformað er að starfsemi samkvæmt umsókn umsækjanda fari fram innan netlaga eignarlands skal fylgja eignarheimild eða samningur við eiganda viðkomandi lands. Þá skal fylgja umsókn yfirlýsing bygginga- og/eða skipulagsfulltrúa sveitarfélags um að mannvirki sem er áformað að nota við skeldýrarækt séu í samræmi við skipulag.
    Veiti fyrirliggjandi gögn ekki nægilegar upplýsingar til þess að mat verði lagt á þá þætti sem um getur í 4. mgr. getur Matvælastofnun gert umsækjanda að láta í té frekari upplýsingar áður en ræktunarleyfi er veitt. Þá getur Matvælastofnun takmarkað stærð og umfang ræktunarsvæðis frekar en fram kemur í umsókn þótt svæðaskipting hafi verið ákveðin skv. 5. gr., ef stofnunin telur tilefni til þess.
    Telji Matvælastofnun að umsókn um ræktunarleyfi fullnægi skilyrðum laga þessara skal stofnunin gefa út ræktunarleyfi til sjö ára í senn.
    Leyfishafi skal skila Matvælastofnun skýrslu um ræktunina árlega auk þess að veita stofnuninni aðgang að gögnum um ræktunina.
    Matvælastofnun getur við útgáfu ræktunarleyfis krafist þess að leyfishafi setji tryggingu fyrir kostnaði við að fjarlægja mannvirki, línur og annan búnað að lokinni starfsemi.

10. gr.
Afturköllun.

    Heimilt er að afturkalla tilraunaleyfi og ræktunarleyfi séu aðstæður að mati Matvælastofnunar óviðunandi vegna hættu á mengun eða vegna annarra ófyrirsjáanlegra aðstæðna.
    Ef leyfishafi hefur ekki hafið starfsemi innan 24 mánaða frá útgáfu ræktunarleyfis er Matvælastofnun heimilt að fella ræktunarleyfi úr gildi. Sama gildir ef starfsemi leyfishafa stöðvast í 24 mánuði. Einnig getur Matvælastofnun afturkallað ræktunarleyfi ef leyfishafi eða starfsmenn hans brjóta gegn ákvæðum laga þessara eða stjórnvaldsfyrirmælum eða gegn skilyrðum tilrauna- eða ræktunarleyfis eða skilyrði eru að öðru leyti ekki uppfyllt.
    Þá er heimilt að svipta aðila tilrauna- eða ræktunarleyfum ef þeir afhenda Matvælastofnun ekki umbeðnar upplýsingar samkvæmt lögum þessum.
    Áður en gripið er til afturköllunar leyfis skal Matvælastofnun ávallt veita leyfishafa skriflega viðvörun og hæfilegan frest til úrbóta.

IV. KAFLI
Starfsemi.
11. gr.
Mannvirki og búnaður.

    Mannvirki og búnaður sem nýtt eru í þágu skeldýraræktar skulu vera í samræmi við gildandi skipulag og ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla sem gilda á hverjum tíma.
    Leyfishafi skal merkja búnað og mannvirki og senda tilkynningar um starfsemina til Landhelgisgæslu Íslands, Siglingastofnunar Íslands, hafnaryfirvalda í viðkomandi sveitarfélögum og annarra stjórnvalda eftir því sem við á, í samræmi við ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla sem gilda á hverjum tíma. Landhelgisgæsla Íslands sendir út tilkynningu til sjófarenda um staðsetningu ræktunarsvæðis.

12. gr.
Eftirlit og skýrslugjöf.

    Matvælastofnun skal hafa eftirlit með skeldýraræktarstöðvum í samræmi við fyrirmæli laga þessara. Eftirlitið skal ná til starfsemi stöðvanna og þess að skilyrði í tilrauna- og ræktunarleyfi séu haldin.

13. gr.
Lok starfsemi.

    Við lok starfsemi sem leyfi hefur verið veitt til samkvæmt lögum þessum, bæði tilraunaleyfi og ræktunarleyfi, er leyfishafa skylt að fjarlægja öll mannvirki og allan búnað sem hann hefur notað til starfsemi sinnar innan þriggja mánaða. Matvælastofnun getur þó veitt leyfishafa lengri frest ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Ef leyfishafi sinnir ekki þessari skyldu innan framangreindra tímamarka getur Matvælastofnun látið framkvæma verkið á hans kostnað. Tilkynna skal um lok starfsemi til Landhelgisgæslu Íslands sem kemur upplýsingum á framfæri með tilkynningum til sjófarenda.

14. gr.
Framleiðsla og dreifing.

    Um framleiðslu og dreifingu skeldýra og eftirlit með heilbrigði skeldýra og heilnæmi afurða fer eftir ákvæðum laga og stjórnvaldsfyrirmæla þar að lútandi.

V. KAFLI
Gjaldtaka.
15. gr.
Gjaldskrá.

    Fyrir leyfisveitingar og eftirlit samkvæmt lögum þessum skulu leyfishafar greiða gjald sem ekki er hærra en raunkostnaður við störf Matvælastofnunar vegna veitingar leyfis og til að standa straum af kostnaðarþáttum við eftirlitið, svo sem:
     a.      launum starfsfólks sem sinnir störfum vegna útgáfu leyfa og eftirlits,
     b.      öðrum kostnaði vegna starfsfólks, þ.m.t. vegna aðstöðu, áhalda, búnaðar, þjálfunar, ferðalaga og tengds kostnaðar, svo og vegna vinnu og annars kostnaðar Fiskistofu við skipulag, gerð og vörslu gagnagrunns, sbr. 5. gr.,
     c.      kostnaði við greiningu á rannsóknastofu og sýnatöku.
    Matvælastofnun framkvæmir viðbótareftirlit, þar á meðal rannsóknir, þegar tiltekin starfsemi leyfishafa eða afurðir eru ekki taldar uppfylla þær almennu og eðlilegu kröfur sem gerðar eru til meðferðar eða heilbrigðis skeldýra vegna vísbendinga um smitefni, mengun eða brot gegn heilbrigðis- eða starfsreglum eða skyldra atvika. Raunkostnað við viðbótareftirlit ber leyfishafi. Framkvæma má viðbótareftirlit þrátt fyrir að afurðir eða vara hafi þegar hlotið heilbrigðisvottun.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd og inntak opinbers eftirlits og skal hann gefa út gjaldskrá fyrir leyfisveitingar og eftirlit Matvælastofnunar að fengnum tillögum stofnunarinnar.
    Við gerð reglugerðar og gjaldskrár skal taka tillit til eftirfarandi atriða:
     a.      hvers konar fyrirtæki um er að ræða og viðkomandi áhættuþátta,
     b.      hagsmuna fyrirtækja með litla framleiðslu,
     c.      hefðbundinna aðferða við framleiðslu, vinnslu og dreifingu,
     d.      þarfa fyrirtækja með aðsetur á svæðum sem líða fyrir tilteknar landfræðilegar takmarkanir.
    Ráðherra skal afla umsagna hlutaðeigandi hagsmunasamtaka og kynna þeim efni og forsendur reglugerðar og/eða gjaldskrár Matvælastofnunar með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara. Hafi umsagnir þeirra ekki borist ráðherra að mánuði liðnum er honum þó heimilt að setja reglugerð og gjaldskrá án umsagna þeirra.
    Eftirlitsgjald skal greiða samkvæmt framlögðum reikningi Matvælastofnunar.
    Innheimta má eftirlitsgjaldið með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar. Matvælastofnun er heimilt að krefjast dráttarvaxta af ógreiddri fjárkröfu vegna eftirlits frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi.

VI. KAFLI
Ýmis ákvæði.
16. gr.
Framsal.

    Framsal, leiga og veðsetning á tilraunaleyfi og ræktunarleyfi til skeldýraræktar samkvæmt lögum þessum er óheimil.

VII. KAFLI
Reglugerðarheimild, viðurlög, o.fl.
17. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessara laga með reglugerð. Þar skal m.a. kveðið á um útgáfu tilrauna- og ræktunarleyfa, merkingar á búnaði og mannvirkjum, úttekt á mannvirkjum og búnaði, endurnýjun og viðhald þeirra. Einnig skal skilgreina í reglugerðinni tegundir skeldýra sem er heimilt að rækta, eftirlit með starfsemi skeldýraræktarstöðva og flutning skeldýra milli starfsstöðva eða svæða. Enn fremur hefur ráðherra heimild til að setja í reglugerð ákvæði um veiðar á villtum stofnum skeldýra til ræktunar. Við setningu reglugerða skal eftir því sem við á leitað umsagna Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunarinnar, Matvælastofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Orkustofnunar, Siglingastofnunar Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Frestur umsagnaraðila til að skila umsögnum skal að hámarki vera tvær vikur.
    

18. gr.
Viðurlög.

    Brot gegn ákvæðum þessara laga og stjórnvaldsfyrirmælum settum samkvæmt þeim varða sektum, hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að tveimur árum.
    Mál út af brotum skv. 1. mgr. skulu sæta meðferð samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

19. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2011.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu að tilhlutan samráðshóps um kræklingarækt sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði 26. nóvember 2008 á grundvelli tillagna í skýrslu nefndar um stöðu og möguleika kræklingaræktar á Íslandi, sem birt var 2. júní 2008. Þar var gerð tillaga um stofnun samráðshóps um uppbyggingu kræklingaræktar sem í sætu fulltrúar kræklingaræktenda og opinberra stofnana. Hlutverk samráðshópsins var að samþætta starf ríkisstofnana og koma með tillögur til ráðherra um fyrirhuguð ræktunarsvæði sem færu í heilnæmiskönnun og mat á tíðni eitraðra svifþörunga.
    Samráðshópinn skipuðu: Ingimar Jóhannsson, skrifstofustjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, formaður, Guðrún Þórarinsdóttir frá Hafrannsóknastofnuninni, varamaður Hrafnkell Eiríksson, Franklín Georgsson frá Matís ohf., varamaður Ragnar Jóhannsson, Þór Gunnarsson frá Matvælastofnun, varamaður Gísli Jónsson, Skúli Gunnar Böðvarsson frá Skelrækt og Björn Theodórsson, ritari starfshópsins. Þá starfaði Sigríður Norðmann, lögfræðingur í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu með hópnum að gerð frumvarpsins.
    Ekki eru til sérstök heildarlög um þessa atvinnugrein hér á landi en talið hefur verið að um hana gildi ákvæði laga um fiskeldi. Í framkvæmd hefur hins vegar komið í ljós að ákvæði þeirra laga eiga ekki að öllu leyti við um skeldýrarækt, t.d. kræklingarækt. Gera þarf a.m.k. nokkrar breytingar á lögunum til þess að þau geti gilt um skeldýrarækt eða kræklingarækt og bæta við þau sérstökum ákvæðum sem víkja nokkuð frá öðrum ákvæðum laganna. Ekki hefur heldur verið talið að lög um fiskrækt geti átt við um þessa atvinnugrein.
    Í vinnu og á fundum samráðshópsins hefur verið rætt um hvort setja eigi sérstök lög um skeldýrarækt eða breyta eldri lögum um svipað efni, t.d. lögum nr. 71/2008, um fiskeldi, eða lögum nr. 58/2006, um fiskrækt, til þess að þau geti gilt um kræklingaeldi eða kræklingarækt.
    Aflað var upplýsinga um hvernig ákvæðum laga og stjórnvaldsfyrirmæla er hagað í nágrannalöndum okkar. Niðurstöður þeirrar athugunar voru m.a. að ekki eru sérstök lög í Danmörku um þetta efni og heldur ekki á Írlandi heldur eru ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla um kræklingarækt hluti af fiskveiðilöggjöfinni. M.a. er ráðherra á Írlandi veitt heimild til að gefa út rekstrarleyfi þarlendis. Það vald hefur verið framselt til Fiskeridirektoratet í Danmörku. Sérstakar reglugerðir gilda síðan um útgáfu leyfa og eftirlit með starfseminni og svo aðrar reglugerðir um heilnæmis- og matvælaeftirlit með starfseminni sem byggðar eru á EES-gerðum um það efni.
    Í frumvarpi þessu er farin sú leið að setja sérstök lög um skeldýrarækt sem munu þá einnig gilda um kræklingarækt.
    Eftirlit með starfsemi á sviði skeldýraræktar, einkum kræklingarækt er aðallega eftirlit með heilnæmi og hollustuháttum, þ.e. matvælaeftirlit sem fer eftir lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem sett eru á grundvelli EES-gerða um það efni, sbr. m.a. lög nr. 93/1995, um matvæli, sbr. og lög nr. 143/2009, um breytingar á ýmsum lögum vegna endurskoðunar á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn og innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002 frá 28. janúar 2002 auk afleiddra gerða. Í frumvarpinu er því gert ráð fyrir að Matvælastofnun annist hér á landi eftirlit með starfseminni með svipuðum hætti og gildir um eftirlit með annarri matvælaframleiðslu.
    Með vísan til framangreindra sjónarmiða var talið rétt að setja sérstök lög um atvinnugreinina. Um er að ræða fyrstu heildarlögin á Íslandi sem fjalla um skeldýrarækt. Við samningu frumvarpsins hefur ekkert komið fram um að ákvæði þess séu ekki í samræmi við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum, og einnig hefur verið reynt að gæta þess að ákvæði frumvarpsins séu í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn) og reglur sem settar hafa verið á grundvelli samningsins. Frumvarpið snertir fyrst og fremst skeldýraræktarstöðvar og hefur eins og áður segir verið unnið af vinnuhóp sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði 26. nóvember 2008 og í sátu fulltrúar frá stofnunum og hagsmunaaðilum sem fjalla um skeldýrarækt. Einnig hefur við samningu frumvarpsins verið haft samráð við Matvælastofnun og Fiskistofu.
    Frumvarp þetta var áður lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010 en varð ekki útrætt á því þingi. Við meðferð málsins á þinginu komu hins vegar fram umsagnir frá eftirtöldum aðilum um efni frumvarpsins: Bændasamtökum Íslands, Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Fjórðungssambandi Vestfjarða, Hafrannsóknastofnuninni, Landhelgisgæslu Íslands, Landssambandi fiskeldisstöðva, Samtökum fiskvinnslustöðva, Matís ohf., Matvælastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Samtökum eigenda sjávarjarða, Samtökum heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi, Siglingastofnun Íslands, Skipulagsstofnun og Viðskiptaráði Íslands.
    Við gerð frumvarpsins hefur eins og unnt er verið tekið tillit til þeirra athugasemda sem komu fram í umsögnum framangreindra aðila og gerðar viðeigandi breytingar á frumvarpinu í samræmi við þær athugasemdir og ábendingar, m.a. eftirtaldar breytingar:
    Lítils háttar breytingar eru gerðar á skilgreiningum í 3. gr. frumvarpsins, verksvið Fiskistofu til eftirlits aukið að tilteknu marki og kveðið á um tiltekna upplýsingaskyldu til Matvælastofnunar, bætt hefur verið við frumvarpið umsagnaraðilum og tryggð aðkoma sveitarstjórna sem umsagnaraðila við ýmsar ákvarðanir samkvæmt frumvarpinu og Sambands íslenskra sveitarfélaga við samningu stjórnvaldsfyrirmæla, bætt hefur verið við frumvarpið tilteknum ákvæðum í því skyni að auka eða tryggja öryggi sjófarenda og áréttuð viðmið um forgang tilraunaleyfishafa að ræktunarleyfi á tilraunaleyfissvæði að tilraunaleyfistíma loknum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Markmiðið með setningu sérstakra laga um skeldýrarækt er, svo sem nánar kemur fram í greininni, að skapa skilyrði til ræktunar skeldýra, setja reglur um starfsemina og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu.
    Skeldýrarækt er, sem kunnugt er, ný atvinnugrein sem hefur átt misjöfnu gengi að fagna á þeim tíma sem hún hefur starfað. Eigi að síður eru bundnar við það vonir að atvinnugreinin geti eflt atvinnulíf og byggð í landinu og þannig skilað þjóðarbúinu umtalsverðum tekjum, svo sem raun hefur orðið á með öðrum þjóðum. Með frumvarpi þessu er ætlunin því að styðja eftir föngum við uppbyggingu skeldýraræktar sem atvinnugreinar, m.a. kræklingaræktar, og setja þeirri atvinnugrein jafnframt skýrar reglur og umgjörð.

Um 2. gr.


    Í greininni er kveðið á um það að lögin taki til ræktunar skeldýra á íslensku forráðasvæði. Ákvæði laganna gilda einnig um skrápdýr, möttuldýr og sæsnigla. Gert er ráð fyrir að ákvæði laganna gildi um alla skeldýrarækt, bæði kræklingarækt og ræktun tegunda sem festa sig á undirlag og einnig tegundir sem eru hreyfanlegar og botnlægar, svo sem hörpudisk og kuðungategundir.

Um 3. gr.


     Í greininni eru skilgreind helstu hugtök sem fyrir koma í frumvarpinu, sem og hugtök sem lýsa ýmsum þeim afbrigðum sem fyrir koma við lagalega útfærslu heimilda til skeldýraræktar, þ.m.t. kræklingaræktar.

Um 4. gr.


    Í greininni kemur fram að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögunum. Framkvæmd stjórnsýslunnar er hins vegar að öðru leyti í höndum Matvælastofnunar sem hefur eftirlit með því að ákvæðum laganna sé framfylgt. Einnig er þar áréttað að Fiskistofa hefur eftirlit með veiðum skeldýra til áframhaldandi ræktunar, vigtun og skráningu sjávarafla í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli sem gilda á hverjum tíma. Ekki er gert ráð fyrir neinum breytingum á yfirstjórn eða eftirliti með þeirri starfsemi samkvæmt frumvarpinu. Þó er Fiskistofu fengið það viðbótarhlutverk að hafa eftirlit með því að veiði á skeldýrum sé einungis stunduð á svæðum sem flokkuð hafa verið af Matvælastofnun og jafnframt að upplýsa Matvælastofnun um atriði sem varða veiði skeldýra á hverjum tíma, svo sem hvaða aðilar stundi veiðarnar, aflabrögð og hvar skeldýranna sé aflað. Er þetta ákvæði sett til að tryggja að skeldýr sem sett eru á markað komi af svæðum sem hafa farið í gegnum heilnæmiskönnun og verið flokkuð af Matvælastofnun. Ástæðan er sú m.a. að þess hefur orðið vart að einstaka kræklingaræktendur hafi stundað veiðar á villtum kræklingi í tilteknum landshluta og flutt frá veiðisvæði á ræktunarsvæði sitt í öðrum landshluta til áframhaldandi ræktunar, m.a. svæði sem hafa ekki verið flokkuð og viðurkennd af Matvælastofnun. Í umsögn Matvælastofnunar til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis, dags. 17. maí 2010, kemur fram að viðbúið er að framhald verði á þessum veiðum og megi gera ráð fyrir að flutningur á lifandi dýrum með þessum hætti geti haft ýmis vandamál í för með sér, svo sem vegna útbreiðslu á sjúkdómum og sníkjudýrum, við blöndun ólíkra erfðastofna og flutning á óæskilegum tegundum skeldýra milli landshluta. Við útgáfu á ræktunarleyfi skv. 9. gr. eru skoðuð neikvæð vistfræði- og erfðafræðiáhrif og telur Matvælastofnun að það kunni að vera að sömu atriði ættu að vera til skoðunar þegar veidd skeldýr eru flutt milli svæða til áframeldis. Ekkert í frumvarpinu eða reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins bannar hins vegar veiðar á einu svæði og áframhaldandi ræktun á öðrum ef um er að ræða tvö flokkuð svæði. Fiskistofa fer með eftirlit með veiðum skeldýra, vigtun og skráningu sjávarafla í samræmi við gildandi lög á hverjum tíma og þykir því rétt að fela stofnuninni framangreint viðbótarhlutverk.

Um 5. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um heimild sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að ákveða skiptingu og skipulag svæða til skeldýraræktar meðfram ströndum landsins. Nauðsynlegt þykir að setja reglur um skipulag um hvers konar nýtingu strandsvæða þar sem tekið er tillit til þeirra fjölmörgu hagsmunaárekstra sem geta orðið á milli þeirra sem vilja nýta strandsvæði með einum eða öðrum hætti, sem eru t.d. landeigendur, eigendur sumar- eða heilsárshúsa, eigendur netlaga, æðarbændur, veiðiréttarhafar, sjófarendur, fiskeldisaðilar, aðilar sem nýta þara eða þörunga, möl, sand, skeljasand, kalkþörungaset, málma, olíu, gas, og einnig ferðamenn o.fl. Þó er ekki gert ráð fyrir ákvörðun ráðherra um heildarframleiðslu á hverju svæði enda fjallað um hana í ræktunarleyfum. Við það er nú miðað í frumvarpsgreininni að svæðaskipting styðjist við vistfræðileg eða hagræn rök, og því er gert ráð fyrir að ævinlega skuli afla umsagna tiltekinna stofnana áður en ákvörðun um hana er tekin. Gert er ráð fyrir að umsagnir þessara fagstofnana tryggi að aflað verði allra þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að taka ákvarðanir samkvæmt greininni. Frestur umsagnaraðila til að skila umsögnum skal að hámarki vera tvær vikur. Einnig er gert ráð fyrir að ráðherra geti falið Fiskistofu umsjón með skipulagi, gerð og vörslu gagnagrunns um svæðaskiptingu. Slíkur gagnagrunnur er m.a. nauðsynlegur til að tryggja að skýrt sé hvaða svæði aðilar hafa til umráða vegna ræktunar. Talið er rétt að fela Fiskistofu það verkefni að annast skipulag, gerð og vörslu gagnagrunnsins en stofnunin annast einnig gerð og vörslu gagnagrunns um starfsemi á sviði fiskeldis og fiskræktar og hefur því öll gögn, tækni og þekkingu til að annast þessa vinnslu. Talið er rétt að þessi verkefni séu á hendi einnar stofnunar til að tryggja nauðsynlega heildaryfirsýn yfir starfsemi á þessum sviðum og samræmi í upplýsingaöflun og vörslu gagna um þau svæði sem ráðstafað verður samkvæmt lögunum.

Um 6. gr.


    Í greininni er kveðið á um heimild sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að takmarka eða banna skeldýrarækt eða tilteknar aðferðir til slíkrar starfsemi á ákveðnum svæðum þar sem sérstök hætta er talin stafa af slíkri starfsemi. Hér er átt við staðbundna mengun eða viðkvæm svæði og hugsanlega verndun svæða og lífríkis þeirra fyrir þessari starfsemi. Loks er í ákvæðinu áréttað að áður en tekin er ákvörðun um slíka svæðaskiptingu skuli ráðherra leita eftir afstöðu aðila sem starfrækja skeldýrarækt á viðkomandi svæðum. Einnig skal ráðherra m.a. afla umsagna ýmissa opinberra stofnana, þ.e. Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunarinnar, Matvælastofnunar, Orkustofnunar, Siglingastofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar og viðkomandi sveitarstjórna. Gert er ráð fyrir að umsagnir þessara stofnana tryggi að aflað verði allra þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að taka ákvarðanir samkvæmt greininni. Frestur umsagnaraðila til að skila umsögnum skal að hámarki vera tvær vikur.

Um 7. gr.


    Hér er kveðið á um að Matvælastofnun sé heimilt að gefa út tímabundið tilraunaleyfi á meðan verið er að kanna hvort svæði hentar til skeldýraræktar. Slík tilraunaleyfi gilda til tveggja ára og að hámarki í fimm ár. Leyfin veita hins vegar ekki heimild til dreifingar afurða til neyslu. Ástæður fyrir því að veita Matvælastofnun heimild til að gefa út tilraunaleyfi eru m.a. að gefa fyrirtækjum kost á að kanna hvort viðkomandi svæði henta til ræktunar áður en tekin er ákvörðun um hvort heilnæmiskönnun skuli gerð. Einnig er í ákvæðinu fjallað um að áður en tilraunaleyfi er veitt skuli Matvælastofnun afla umsagna tiltekinna stofnana, þ.e. Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunarinnar, Siglingastofnunar Íslands og viðkomandi sveitarstjórna, til að afla upplýsinga um hvort sú starfsemi sem er áformuð gefi tilefni til hættu á neikvæðum vistfræði- eða erfðafræðilegum áhrifum. Frestur umsagnaraðila til að skila umsögnum skal að hámarki vera tvær vikur. Þá kemur fram hvaða skilyrði umsókn um tilraunaleyfi þarf að uppfylla og hvaða gögn skulu fylgja henni til Matvælastofnunar svo og að stofnunin geti krafist frekari upplýsinga og gagna ef tilefni verður talið til þess. Enn fremur er gert ráð fyrir að leyfishafi skuli skila Matvælastofnun skýrslu um ræktunina árlega auk þess að veita stofnuninni aðgang að gögnum um hana. Þá er gert ráð fyrir að unnt sé að binda tilraunaleyfi tilteknum skilyrðum. Skal leyfið eingöngu gilda um þær skelfisktegundir sem sótt er um leyfi fyrir og vera bundið við afmörkuð svæði. Loks kemur þar fram að við útgáfu tilraunaleyfis geti Matvælastofnun krafist þess að leyfishafi setji tryggingu fyrir kostnaði við að fjarlægja mannvirki, línur og annan búnað að lokinni starfsemi. Framangreind ákvæði eru sett til að setja skýrar reglur um leyfisveitingarnar og stuðla að gagnsæi við framkvæmd þeirra. Þá er í ákvæðinu fjallað um að Matvælastofnun sé heimilt að veita tilraunaleyfishafa forgang að ræktunarleyfi á viðkomandi svæði að gildistíma loknum. Síðastgreint ákvæði er svipað og ákvæði um forgangsrétt tilraunaleyfishafa til nýtingarleyfis samkvæmt lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, með síðari breytingum.

Um 8. gr.


    Hér er kveðið á um að áður en ræktunarleyfi eru gefin út sé skylt að framkvæma heilnæmiskönnun á tilraunasvæði. Kanna þarf hvort svæði hentar til skeldýraræktar eða hvort það sé óhentugt til slíkrar starfsemi vegna heilnæmisástæðna. Fram kemur að heilnæmiskönnun skuli skipulögð og framkvæmd af Matvælastofnun í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli þar að lútandi. Þá er fjallað um að leyfishafi greiði kostnað við heilnæmiskönnunina en ráðherra er þó heimilt að ákveða að hann skuli greiddur úr ríkissjóði að hluta eða öllu leyti ef fjárheimildir fást til þess í fjárlögum. Loks er áréttað að niðurstöður úr heilnæmiskönnun skuli liggja fyrir við útgáfu ræktunarleyfis og er það í samræmi við tilgang þessa ákvæðis.

Um 9. gr.


    Í greininni eru ákvæði um ræktunarleyfi til skeldýraræktar, m.a. kræklingaræktar. Þar kemur fram m.a. að ræktun og veiðar skeldýra eru einungis heimilar á ræktunarsvæðum sem Matvælastofnun hefur viðurkennt á grundvelli heilnæmiskönnunar. Fram kemur að hægt er að sækja um ræktunarleyfi þótt tilraunaleyfi hafi ekki áður verið veitt. Við útgáfu ræktunarleyfis getur Matvælastofnun krafist þess að leyfishafi setji tryggingu fyrir kostnaði við að fjarlægja mannvirki, línur og annan búnað að lokinni starfsemi. Enn fremur eru í greininni fyrirmæli um þær kröfur sem umsókn um ræktunarleyfi skal uppfylla og ákvæði um málsmeðferð umsóknar. Gert er ráð fyrir því að Matvælastofnun skuli leita umsagna tiltekinna stjórnvalda, þ.e. Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunarinnar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Siglingastofnunar Íslands. Frestur umsagnaraðila til að skila umsögnum skal að hámarki vera tvær vikur. Skylda til upplýsingagjafar hefur þann tilgang að ræktunarleyfi verði einungis veitt þeim sem fyrir fram getur sýnt fram á að hann sé líklegur til að uppfylla skilyrði laga og ræktunarleyfis, komi til útgáfu þess. Þess ber að sjálfsögðu að gæta að ekki séu lagðar víðtækari skyldur og kvaðir á umsækjanda en nauðsyn krefur með tilliti til þeirra upplýsinga sem leyfisveitandi þarf á að halda við meðferð umsóknar, enda geta rannsóknir verið bæði tímafrekar og kostnaðarsamar. Jafnframt kemur þar fram að Matvælastofnun skuli hafa að leiðarljósi reynslu tilraunaleyfishafa á tilraunaleyfissvæði þegar ræktunarleyfi er veitt á viðkomandi svæði að loknum gildistíma tilraunaleyfisins. Þannig skuli tilraunaleyfishafi njóta forskots þegar komi að útgáfu ræktunarleyfis á viðkomandi svæði. Síðastgreint efnisákvæði er byggt á því að tilraunaleyfishafi verði að hafa ákveðna tryggingu fyrir því að einhver annar aðili geti ekki stokkið fram fyrir hann þegar kemur að útgáfu ræktunarleyfis fyrir viðkomandi tilraunaleyfissvæði. Ræktunarleyfi til skeldýraræktar skulu gefin út til sjö ára í senn. Enn fremur er gert ráð fyrir að leyfishafi skuli skila Matvælastofnun skýrslu um ræktunina árlega auk þess að veita stofnuninni aðgang að gögnum um hana. Um veiðar skeldýra fer að öðru leyti eftir ákvæðum laga og stjórnvaldsfyrirmæla sem gilda um veiðar á nytjastofnum sjávar, meðferð, vigtun og skráningu sjávarafla á hverjum tíma. Þá er í ákvæðinu gert ráð fyrir að Matvælastofnun geti takmarkað stærð og umfang ræktunarsvæða frekar en fram kemur í umsókn þótt svæðaskipting hafi verið ákveðin skv. 5. gr., ef stofnunin telur tilefni til þess. Hér er gert ráð fyrir að Matvælastofnun leggi mat á hvort taka skuli slíkar ákvarðanir í einstökum tilvikum. Áréttað skal að hér er um að ræða heimild en ekki skyldubundið ákvæði. Slíkar ákvarðanir Matvælastofnunar verða að sjálfsögðu að vera byggðar á tilteknum málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum og mega ekki ganga lengra en ástæða er talin til, sbr. m.a. meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Um 10. gr.


    Í þessari grein er mælt fyrir um að heimilt sé að afturkalla tilraunaleyfi og ræktunarleyfi séu aðstæður að mati Matvælastofnunar óviðunandi vegna hættu á mengun eða vegna annarra ófyrirsjáanlegra aðstæðna. Ástæða þessa ákvæðis er hugsanlegar breytingar á aðstæðum á tilrauna- eða ræktunarleyfissvæðum, t.d. vegna mengunar og annarra umhverfisþátta. Einnig er í greininni heimild til að fella úr gildi ræktunarleyfi ef leyfishafi hefur ekki hafið starfsemi innan 24 mánaða frá útgáfu ræktunarleyfis. Sama gildir ef starfsemi leyfishafa stöðvast í 24 mánuði. Enn fremur er ákvæði um að Matvælastofnun geti afturkallað ræktunarleyfi ef leyfishafi eða starfsmenn hans brjóta gegn ákvæðum laganna eða gegn skilyrðum tilrauna- eða ræktunarleyfis, t.d. með óheimilli sölu afurða, svo og ef skilyrði slíks leyfis eru að öðru leyti ekki uppfyllt. Þá er heimilt að svipta aðila tilrauna- og ræktunarleyfum ef þeir afhenda Matvælastofnun ekki umbeðnar upplýsingar samkvæmt lögum þessum. Loks er tekið fram að ekki sé heimilt að grípa til leyfissviptingar eða afturköllunar samkvæmt ákvæði þessu nema leyfishafa sé fyrst gefið færi á að bæta úr.

Um 11. gr.


    Hér er kveðið á um að öll mannvirki og búnaður sem nýttur er í þágu skeldýraræktar, m.a. til kræklingaræktar, skuli vera í samræmi við ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla um það efni á hverjum tíma. Slík mannvirki þurfa m.a. að vera í samræmi við skipulag, ef þau eru í netlögum, stjórnvaldsfyrirmæli um siglingar og umferð á sjó o.fl. Síðastgreindar reglur heyra undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Siglingastofnun Íslands. Þá kemur fram að leyfishafi skuli merkja búnað og mannvirki og senda tilkynningar um starfsemina til Siglingastofnunar Íslands, hafnaryfirvalda í viðkomandi sveitarfélagi og annarra stjórnvalda eftir því sem við á, í samræmi við ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla sem gilda á hverjum tíma. Er það talið nauðsynlegt til að starfsemin geti farið fram á réttan hátt og viðkomandi stjórnvöld geti sinnt þeim hlutverkum sem þeim eru falin samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum á hverjum tíma.

Um 12. gr.


    Gert er ráð fyrir að Matvælastofnun skuli hafa eftirlit með skeldýraræktarstöðvum í samræmi við fyrirmæli laganna. Þá kemur fram að eftirlitið skuli ná til starfsemi stöðvanna og þess að skilyrði í tilrauna- og ræktunarleyfi séu haldin.

Um 13. gr.


    Hér er kveðið á um skyldu ræktunarleyfishafa og einnig tilraunaleyfishafa til að fjarlægja allan búnað og öll mannvirki þegar starfsemi lýkur og honum settur ákveðinn tímafrestur til að framkvæma það verk. Ljóst er að mikil hætta getur verið af t.d. sokknum, yfirgefnum kræklingalínum og því er hér um mikilvægt ákvæði að ræða. Einnig er kveðið á um tiltekin þvingunarúrræði ef leyfishafi sinnir ekki þessari skyldu.

Um 14. gr.


    Hér er áréttað að um framleiðslu og dreifingu skeldýra og eftirlit með heilbrigði skeldýra og heilnæmi afurða fari eftir ákvæðum laga og stjórnvaldsfyrirmæla þar að lútandi. Hér er átt við matvælalög, nr. 93/1995, og ýmis sérlög sem fjalla um eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla, m.a. skeldýra.

Um 15. gr.


    Hér er að mestu leyti um að ræða sambærilegt ákvæði og í 25. gr. og 26. gr. matvælalaga, nr. 93/1995, sbr. breytingar á þeim lögum sem gerðar voru með lögum nr. 143/2009, um breytingar á ýmsum lögum vegna endurskoðunar á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn og innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002 frá 28. janúar 2002 auk afleiddra gerða. Í ákvæðinu eru afmarkaðir þeir meginkostnaðarþættir sem gjaldtöku vegna leyfisveitinga og eftirlits er ætlað að standa undir. Þá er þar sérstaklega áréttað að við gerð gjaldskrárinnar sé heimilt að reikna með, eftir því sem við á í hverju tilviki, vinnu og öðrum kostnaði Fiskistofu við skipulag, gerð og vörslu gagnagrunnsins, þ.e. ef afgreiðsla einstakra umsókna hefur í för með sér tiltekinn kostnað vegna slíkrar vinnu. Um skýringu og túlkun ákvæðisins er vísað til þeirra sjónarmiða sem fram koma í greinargerð með sams konar ákvæði í frumvarpi sem varð að lögum nr. 143/2009, sbr. þingskjal 17 í 17. máli á 138. löggjafarþingi. Gert er ráð fyrir að skýring og túlkun ákvæða laganna verði samræmd eins og unnt er.

Um 16. gr.


    Samkvæmt greininni er framsal, leiga eða veðsetning ræktunarleyfis óheimil. Engar undantekningar eru hér gerðar frá þeirri reglu.

Um 17. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um heimild sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til útgáfu reglugerðar til fyllingar ákvæðum laganna. Er í greininni gert ráð fyrir að í reglugerð verði nánar mælt fyrir um útgáfu tilrauna- og ræktunarleyfa, merkingar á búnaði og mannvirkjum, úttekt á mannvirkjum og búnaði, endurnýjun og viðhald ræktunarbúnaðar, skilgreindar tegundir sem heimilt er að rækta, eftirlit með starfsemi skeldýraræktarstöðva og flutning skeldýra milli starfsstöðva eða svæða. Þá hefur ráðherra heimild til að setja í reglugerð ákvæði um veiðar á villtum stofnum skeldýra til ræktunar. Loks er gert ráð fyrir að ráðherra skuli við setningu reglugerðanna leita umsagna tiltekinna stjórnvalda eftir því sem við á, þ.e. þegar fjallað er um tiltekin úrlausnarefni á fagsviðum þeirra stjórnvalda. Frestur umsagnaraðila til að skila umsögnum skal að hámarki vera tvær vikur.

Um 18. gr.


    Brot gegn ákvæðum laganna geta haft í för með sér hættu og valdið heilsutjóni á mönnum og dýrum, svo og skaðað ýmsa aðra hagsmuni. Því er talið nauðsynlegt að huga að varnaðaráhrifum laganna og því lögð til þau viðurlög sem þar er mælt fyrir um við brotum á þeim. Með ákvæðinu er einnig lagt til að um meðferð þeirra mála fari samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

Um 19. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um skeldýrarækt.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði sérstök lög um skeldýrarækt sem munu þá einnig gilda um kræklingarækt en sú atvinnugrein hefur til þessa fallið undir lög um fiskeldi. Samkvæmt frumvarpinu er Matvælastofnun ætlað að gefa út annars vegar tímabundin tilraunaleyfi og hins vegar ræktunarleyfi sem gildir í sjö ár. Stofnunin skal leita umsagnar Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunarinnar, Landhelgisgæslu Íslands, Orkustofnunar, Siglingamálastofnunar Íslands og viðkomandi sveitarstjórnar áður en leyfi eru gefin út. Tilraunaleyfi er veitt til tveggja ára í senn en heimilt er að endurnýja leyfið um eitt ár í senn þannig að það gildi að hámarki í fimm ár. Áður en ræktunarleyfi er gefið út skal umsækjandi um slíkt leyfi láta framkvæma heilnæmiskönnun á því hafsvæði sem hann sækir um ræktunarleyfi á. Slík könnun skal skipulögð og framkvæmd af Matvælastofnun en umsækjandi um ræktunarleyfið greiðir kostnaðinn. Þó gerir frumvarpið ráð fyrir því að ráðherra fái heimild til að greiða kostnað vegna heilnæmiskönnunar úr ríkissjóði að hluta eða öllu leyti ef heimildir fást til þess á fjárlögum. Ástæðan fyrir þessari heimild er sú að hugsanlega geta skapast aðstæður þar sem gera þarf slíka könnun á svæðum sem eru menguð, svo sem í nágrenni þéttbýlis eða í kjölfar mengunarslysa. Hægt verður að sækja um ræktunarleyfi þó svo að tilraunaleyfi hafi ekki áður verið veitt.
    Eftirlit með starfsemi á sviði skeldýraræktunar er aðallega eftirlit með heilnæmi og hollustuháttum. Í frumvarpinu er því gert ráð fyrir að Matvælastofnun annist eftirlit með starfseminni með svipuðum hætti og gildir um eftirlit með annarri matvælaframleiðslu. Gert er ráð fyrir því að greitt verði gjald fyrir veitt leyfi og eftirlit og skal gjaldið ekki vera hærra en raunkostnaður við störf Matvælastofnunar við leyfisveitingarnar og eftirlit með starfseminni. Vakni grunsemdir um að leyfishafi eða afurðir uppfylli ekki almennar og eðlilegar kröfur um meðferð og heilbrigði skeldýra skal stofnunin framkvæma viðbótareftirlit eða rannsóknir og skal leyfishafinn bera allan kostnað af slíku.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að allur kostnaður við veitingu leyfa og eftirlit með þeim verði greiddar af leyfishöfum sjálfum samkvæmt sérstakri gjaldskrá og því ekki gert ráð fyrir breytingum á afkomu ríkissjóðs. Hins vegar hefur ekki verið gerð sérstök áætlun af hálfu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins um hugsanlegt umfang starfseminnar og því er ekki hægt að meta áhrifin á tekjur og gjöld. Heimild ráðherra til að greiða fyrir heilnæmiskannanir úr ríkissjóði samkvæmt frumvarpinu eru háðar fjárveitingum á hverjum tíma. Í fjárlögum áranna 2006-2010 hefur verið veitt 3 m.kr. framlag árlega til rannsóknar á ræktunarsvæði kræklings og veiðisvæði kúfisks, samtals 15 m.kr. fyrir tímabilið. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011 er gert ráð fyrir að veitt verði 2,5 m.kr. framlag vegna þessa verkefnis.