Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 202. máls.

Þskj. 219  —  202. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




1. gr.

    Í stað orðsins „fimm“ í 5. mgr. 10. gr. laganna kemur: tíu.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 44. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Einn skal skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar og einn samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands og skulu þeir uppfylla almenn hæfisskilyrði héraðsdómara.
     b.      5. málsl. 1. mgr. fellur brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2011.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu að tilhlutan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en með því eru lagðar til breytingar á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum.
    Með frumvarpinu eru annars vegar lagðar til breytingar á ákvæði 10. gr. laganna um innlausn veiðiréttar en samkvæmt því ákvæði er innlausnarrétturinn tímabundinn og gildir til 30. júní 2011. Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að gildistími innlausnarréttarins verði framlengdur um fimm ár, þ.e. til 30. júní 2016.
    Í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu er nú til meðferðar mál til ákvörðunar samkvæmt framangreindu ákvæði 10. gr. laga nr. 61/2006, sem ekki er enn lokið. Um er að ræða flókin eignarréttarleg ágreiningsefni sem ekki er útilokað að leitað verði úrlausnar dómstóla um þegar ráðuneytið hefur lokið þeirri vinnu sem er á verksviði þess samkvæmt framangreindu ákvæði. Ljóst er að slíkur málarekstur getur dregist, m.a. vegna þess hve flókin og umfangsmikil slík mál geta verið. Einnig hefur komið fram í viðræðum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins við hagsmunaaðila að talið er æskilegt að gildistími þessa ákvæðis verði framlengdur um tiltekinn tíma eða um fimm ár.
    Hins vegar eru með frumvarpinu lagðar til breytingar á skipan matsnefndar skv. 44. gr. laganna. Samkvæmt gildandi ákvæði greinarinnar er gert ráð fyrir að tveir nefndarmenn séu skipaðir samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands og að annar þeirra skuli vera formaður nefndarinnar. Ekki er samkvæmt lögunum gert ráð fyrir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tilnefni mann í matsnefndina.
    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ber ábyrgð á lax- og silungsveiðimálum hér á landi en þetta er einn af þeim málaflokkum sem eru á verksviði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Einnig er ljóst að meiri hluti laxveiðiáa landsins er í eigu bænda en sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið fer með yfirstjórn landbúnaðarmála hér á landi. Þegar litið er til þessa verður að telja rétt að ráðherra skipi sjálfur a.m.k. einn mann í matsnefndina. Þá kom fram á aðalfundi Landssambands Veiðifélaga, sem haldinn var í Mosfellsbæ 11. og 12. júní 2010, að fundurinn beindi því til stjórnar að beita sér fyrir skoðun á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, hvað varðar skipun í matsnefnd og meðferð arðskrármála fyrir dómstólum.
    Með frumvarpinu er því lagt til að í stað þess að tveir nefndarmenn séu tilnefndir af Hæstarétti Íslands og að annar þeirra skuli vera formaður skuli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipa einn nefndarmann án tilnefningar sem skal vera formaður nefndarinnar. Hins vegar er áfram gert ráð fyrir að Hæstiréttur Íslands tilnefni einn mann í nefndina eins og verið hefur samkvæmt gildandi lögum. Þá er gert ráð fyrir að báðir framangreindir nefndarmenn verði að uppfylla sömu hæfisskilyrði og samkvæmt gildandi lögum, þ.e. almenn hæfisskilyrði héraðsdómara. Loks er áfram gert ráð fyrir að Landssamband veiðifélaga tilnefni einn mann í nefndina.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Réttur til innlausnar veiðiréttinda skv. 10. gr. laga nr. 61/2006 er bundinn þeim tímatakmörkunum að ef innlausn hefur ekki farið fram innan fimm ára frá gildistöku laganna, sem var 1. júlí 2006, fellur slíkur réttur endanlega niður í eitt skipti fyrir öll, þ.e. 30. júní 2011.
    Í almennum athugasemdum í greinargerð með 10. gr. frumvarps til laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, sbr. Alþingistíðindi, A-deild, 132. löggjafarþing 2005–2006, þskj. 891, 607. mál, kemur fram að með lögum nr. 61/1932 hafi verið sett ákvæði í lög um innlausnarrétt eigenda landareigna á veiðiréttindum sem skilin höfðu verið frá þeim eignum fyrir gildistöku laganna. Einnig kemur þar fram að þessi frestur hafi þrívegis verið lengdur, síðast til ársloka 1951, en eftir það, með lögum nr. 53/1957, hafi verið ákveðið að innlausnarrétturinn skyldi haldast án tímamarka og hafi sú tilhögun verið óbreytt í lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði. Í athugasemdum við 10. gr. í framangreindu frumvarpi kemur enn fremur fram að lítið hafi reynt á ákvæði eldri laga um innlausnarréttinn og að um sé að ræða ákvæði sem feli í sér íþyngjandi inngrip í réttindi sem stofnað hafi verið til fyrir meira en 70 árum. Þá kemur þar fram að með hliðsjón af þeirri meginreglu sem fram komi í 9. gr. frumvarpsins, og þeim sjónarmiðum sem það ákvæði var byggt á, væri talið rétt að taka enn upp ákvæði um rétt í þessa veru í ný lög um lax- og silungsveiði, en ætla því nú stuttan gildistíma, þ.e. fimm ár frá gildistöku laganna. Í umræddu ákvæði 9. gr. frumvarpsins og greinargerð með því ákvæði kemur fram sú meginregla að frá gildistöku laganna verði veiðiréttur ekki skilinn frá fasteignum, hvorki með hefðbundnu afsali né heldur við uppskiptingu fasteignar eða ráðstöfun einstakra spildna úr henni. Slíkt yrði í öllum tilvikum leyfisskylt, og gert ráð fyrir að við mat á heimild til undanþágu beri sérstaklega að líta til þess hvort kostir fasteignar til landbúnaðarnota skerðist, og jafnframt að fiskstofnar viðkomandi vatns verði ekki ofnýttir. Sú tilhögun þyki í betra samræmi við meginmarkmið frumvarpsins og væri m.a. ætlað að tryggja áframhaldandi sjálfstæði og rekstrargrundvöll þeirra jarða sem byggi afkomu sína, að öllu leyti eða að hluta, á veiðinytjum. Þess utan sé ljóst að takmarkalaus uppskipting veiðiréttar einstakra jarða á fleiri hendur geti stefnt í hættu því markmiði frumvarpsins að tryggja skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu þeirrar auðlindar sem fiskstofnar ferskvatna séu. Í framangreindri greinargerð með 10. gr. frumvarpsins var því talið rétt að takmarka gildistíma innlausnarréttarins við fimm ár, frá gildistöku laganna. Þá var þar tekið fram að með því væri gætt réttmætra hagsmuna bæði landeigenda og veiðiréttarhafa.
    Í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu er nú til meðferðar mál til ákvörðunar samkvæmt framangreindu ákvæði 10. gr. laga nr. 61/2006, sem ekki er enn lokið. Um er að ræða flókin eignarréttarleg ágreiningsefni sem ekki er útilokað að leitað verði úrlausnar dómstóla um þegar ráðuneytið hefur lokið þeirri vinnu sem er á verksviði þess samkvæmt framangreindu ákvæði. Ljóst er að slíkur málarekstur getur dregist, m.a. vegna þess hve flókin og umfangsmikil slík mál geta verið.
    Einnig hefur komið fram í viðræðum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins við hagsmunaaðila að talið er æskilegt að gildistími innlausnarréttarins skv. 10. gr. laganna verði framlengdur um tiltekinn tíma eða um fimm ár.
    Þegar litið er til þessa er talið rétt að framlengja gildistíma ákvæðisins um tiltekinn tíma á meðan leyst verður úr þeim málum sem til meðferðar eru nú samkvæmt framangreindu ákvæði 10. gr. laga nr. 61/2006 þegar gildistíma ákvæðisins lýkur. Hins vegar skal áréttað að ef hið nýja ákvæði skv. 1. gr. þessa frumvarps verður að lögum heimilar það einnig rétthöfum að gera nýjar kröfur um innlausn veiðiréttinda allt fram til þess tíma þegar gildistíma ákvæðisins er lokið.
    Með vísan til framanritaðs er því lagt til að það tímamark innlausnarréttar sem tilgreint er í 5. mgr. 10. gr. laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, verði framlengt um fimm ár, þ.e. til 30. júní 2016.

Um 2. gr.

    Í 44. gr. laganna koma fram ákvæði um skipan og störf matsnefndar sem starfar samkvæmt lögunum. Þar kemur fram m.a. að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipar þrjá menn og jafnmarga til vara í matsnefndina til fjögurra ára í senn. Tveir skulu skipaðir að tilnefningu Hæstaréttar Íslands og skulu þeir uppfylla almenn hæfisskilyrði héraðsdómara. Einn nefndarmaður skal skipaður að tilnefningu stjórnar Landssambands veiðifélaga. Nefndin skiptir með sér störfum. Annar nefndarmanna sem Hæstiréttur Íslands tilnefnir skal vera formaður nefndarinnar. Ráðherra er heimilt að framlengja starfstíma matsnefndar um sex mánuði til þess að ljúka þeim málum sem nefndin hefur til meðferðar þegar ráðherra skipar nýja menn í nefndina. Heimilt er matsnefndinni að kveðja sérfræðinga sér til aðstoðar ef þörf þykir og einnig er nefndinni heimilt að leita eftir áliti eða rannsóknum sérfræðinga eða rannsóknastofnana á lífríki vatns þar sem það hefur þýðingu fyrir úrlausn máls. Þá er gert ráð fyrir að matsnefnd sé heimilt að ráða sér starfsmenn. Ráðherra ákveður tímagjald matsmanna og starfsmanns nefndarinnar. Laun og annar kostnaður af starfsemi matsnefndar greiðist með fjárveitingum af fjárlögum. Við ákvörðun matskostnaðar skv. 47. gr. skal miðað við að hann standi almennt undir kostnaði af starfsemi nefndarinnar.
    Matsnefndin hefur ýmis verkefni samkvæmt lögunum, m.a. að framkvæma matsgerðir og gera arðskrár, sbr. 44. gr. laganna, úrlausn ágreinings um skiptingu veiðiréttar í óskiptri sameign, sbr. 2. mgr. 8. gr., úrlausn ágreinings um verðmæti innleysts veiðiréttar, sbr. 10. gr., ákvörðun bóta fyrir tjón af svæðisbundinni friðun eða veiði, sbr. 3. mgr. 24. gr., ákvörðun bóta fyrir tjón vegna notkunar fastra veiðivéla, sbr. 6. mgr. 28. gr., ákvörðun um skiptingu veiðitíma, veiðistaða, endurgjald o.fl. fyrir stangveiði í straumvatni, sbr. 4. mgr. 29. gr., ákvörðun bóta fyrir tjón vegna gerðar fiskvega, sbr. 4. mgr. 34. gr., og ákvörðun bóta vegna tjóns ef sannað þykir að framkvæmd eða mannvirkjagerð í eða við veiðivatn spilli fiskgengd, lífríki veiðivatns eða öðrum þeim hagsmunum sem verndar njóta samkvæmt lögunum, sbr. 36. gr. Í 4. mgr. 46. gr. laganna kemur fram að matsnefnd skuli ganga á vettvang að tilkvöddum málsaðilum samkvæmt ákvörðun nefndarinnar. Þá kemur fram í 47. gr. laganna að í úrskurði matsnefndar skuli kveðið á um kostnað af meðferð máls og skiptingu hans á aðila og að hann renni í ríkissjóð. Loks kemur þar fram að veiðifélag skuli að jafnaði bera kostnað af endurskoðun arðskrár.
    Samkvæmt eldri lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði var gert ráð fyrir að undirmatsmenn væru dómkvaddir af héraðsdómara en að heimilt væri að kæra mat þeirra til yfirmatsnefndar sem starfaði samkvæmt lögunum. Lög nr. 76/1970 voru felld úr gildi með lögum nr. 61/2006 og jafnframt breytt ákvæðum um matsgerðir samkvæmt lögunum á þann veg að einungis er starfandi ein matsnefnd samkvæmt lögunum og því eingöngu gert ráð fyrir einu stjórnsýslustigi um slíkar ákvarðanir. Matsgerðum matsnefndarinnar verður ekki skotið til ráðherra eða annarra stjórnvalda, sbr. 48. gr. laganna, en þær er hins vegar að sjálfsögðu unnt að bera undir dómstóla.
    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ber ábyrgð á framkvæmd laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, og þeim málaflokki sem fjallað er um í lögunum.
    Einnig er ljóst að meiri hluti laxveiðiáa landsins er í eigu bænda en sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið fer með yfirstjórn landbúnaðarmála hér á landi.
    Þá kom fram á aðalfundi Landssambands Veiðifélaga, sem haldinn var í Mosfellsbæ 11. og 12. júní 2010, að fundurinn beindi því til stjórnar Landssambands Veiðifélaga að beita sér fyrir skoðun á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, hvað varðar skipun í matsnefnd og meðferð arðskrármála fyrir dómstólum.
    Með vísan til framanritaðs eru með frumvarpi þessu lagðar til breytingar á skipan matsnefndar skv. 44. gr. laganna á þann veg að í stað þess að tveir menn séu skipaðir í nefndina samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands og að annar þeirra verði formaður verði einn skipaður af ráðherra án tilnefningar og gert ráð fyrir að hann verði formaður nefndarinnar. Hins vegar er gert ráð fyrir að báðir framangreindir nefndarmenn verði að uppfylla sömu hæfisskilyrði og samkvæmt gildandi lögum, þ.e. almenn hæfisskilyrði héraðsdómara. Áfram er gert ráð fyrir að Hæstiréttur tilnefni einn mann í nefndina. Þá er einnig áfram gert ráð fyrir að Landssamband veiðifélaga tilnefni einn mann í nefndina.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu eru annars vegar lagðar til breytingar á 10. gr. laganna um innlausn veiðiréttar en lagt er til að innlausnarrétturinn verði framlengdur um fimm ár eða til 30. júní 2016. Hins vegar eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á skipan matsnefndar skv. 44. gr. laganna.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.