Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 204. máls.

Þskj. 221  —  204. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum (frestun gildistöku ákvæðis um aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi).

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




1. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða XVI í lögunum orðast svo:
    Ákvæði 2.–4. málsl. 1. mgr. 14. gr. koma til framkvæmda 1. janúar 2012.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 29. maí 2008 samþykkti Alþingi lög nr. 58/2008, um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði, sem fólu m.a. í sér þá breytingu á 14. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, að gerð var krafa um að samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi orkufyrirtækja yrði rekin í aðskildum fyrirtækjum frá og með 1. júlí 2009 í stað þess að eingöngu væri krafist bókhaldslegs aðskilnaðar. Í kjölfar lagabreytinganna hófu bæði Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur undirbúning að aðskilnaði starfseminnar í samræmi við ákvæði laganna. Á hluthafafundi í Hitaveitu Suðurnesja hf. 1. desember 2008 var samþykkt að skipta fyrirtækinu í HS Orku hf., sem annast virkjanir og raforkusölu, og HS Veitur hf., sem annast veitustarfsemi fyrirtækisins. Formleg uppskipting Hitaveitu Suðurnesja hf. átti sér stað 1. janúar 2009 en ekki hefur orðið af sams konar uppskiptingu innan Orkuveitu Reykjavíkur.
    Í kjölfar beiðni frá Orkuveitu Reykjavíkur var gildistöku framangreindrar breytingar á 14. gr. raforkulaga frestað til 1. janúar 2010 með samþykkt laga nr. 30/2009, um breytingu á raforkulögum. Með lögum nr. 142/2009, um breytingu á raforkulögum, var gildistöku breytingar á 14. gr. raforkulaga, varðandi aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja, frestað í annað sinn til 1. janúar 2011. Í báðum tilfellum var í greinargerð vísað til aðstæðna á fjármálamörkuðum og viðkvæmrar stöðu orkufyrirtækja varðandi fjármögnun.
    Með bréfi, dags. 6. september 2010, fór eigendanefnd Orkuveitu Reykjavíkur þess á leit við iðnaðarráðherra að framkvæmd 2.–4. málsl. 1. mgr. 14. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, sem kveður á um aðskilnað dreifiveitna frá annarri starfsemi orkufyrirtækja, verði frestað enn um sinn. Með bréfinu er jafnframt óskað eftir því að iðnaðarráðuneytið hlutist til um endurskoðun á umræddu lagaákvæði að undangengnu hagfræðilegu mati á kröfunni um fyrirtækjaaðskilnað.
    Meginefni laga nr. 58/2008, um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði, var að kveða á um aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja, setja reglur um opinbert eignarhald fyrirtækja sem stunda sérleyfisstarfsemi, leggja bann við varanlegu framsali opinberra aðila á vatns- og jarðhitaréttindum og lögfesta sjónarmið er varða atriði tengd leigu afnota af vatns- og jarðhitaréttindum. Rökin að baki kröfu um aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja (fyrirtækjaaðskilnaður) voru tvíþætt. Annars vegar þurfti að gera þessa kröfu svo að unnt væri að setja reglur um opinbert eignarhald fyrirtækja sem stunda sérleyfisstarfsemi. Hins vegar væri, með aðgreiningu þessara þátta í starfsemi raforkufyrirtækja, betur unnt að tryggja að allir raforkuframleiðendur sitji við sama borð í samskiptum sínum við þau fyrirtæki sem annast dreifingu á raforku og koma í veg fyrir samkeppnishindranir sem kunna að leiða af því að sérleyfis- og samkeppnisstarfsemi sé á sömu hendi.
    Færa má rök fyrir því að þau sjónarmið sem byggt var á við setningu framangreindra laga nr. 30/2009 og laga nr. 142/2009 eigi enn við um starfsemi íslenskra orkufyrirtækja. Í bréfi eigendanefndar Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 9. september 2010, kemur fram að Orkuveita Reykjavíkur standi nú frammi fyrir viðræðum við lánardrottna um endurfjármögnun lána félagsins og að skuldabyrði fyrirtækisins sé veruleg. Við slíkar aðstæður, auk gjaldskrárhækkana og niðurskurðar í rekstri, sé erfitt fyrir fyrirtækið að leggja í kostnaðarsamar aðgerðir til að mæta kröfum raforkulaga um uppskiptingu fyrirtækisins. Þá sé það mat eigendanefndar Orkuveitu Reykjavíkur að lögformlegur aðskilnaður dreifiveitu frá annarri starfsemi félagsins sé ekki til þess fallinn að stuðla að hagkvæmari nýtingu framleiðsluþátta, neytendum til hagsbóta, sem sé hinn almenni tilgangur samkeppni á markaði. Þvert á móti kunni slíkar aðgerðir að leiða til enn frekari verðhækkana þar sem líklegt sé að rekstrarkostnaður muni heldur aukast verði félaginu gert að reka dreifiveitustarfsemi í sérstöku fyrirtæki. Með vísan til þessa leggur eigendanefnd Orkuveitu Reykjavíkur til í bréfi sínu til ráðuneytisins, dags. 9. september 2010, að umrætt ákvæði 14. gr. raforkulaga verði endurskoðað og að lagt verði hagfræðilegt mat á hvort markaðsaðstæður hér á landi, að teknu tilliti til smæðar staðbundinna dreifiveitna, séu þess eðlis að líklegt geti talist að fullkominn aðskilnaður sölu og dreifingar raforku sé til þess fallinn að skila sér í bættri þjónustu og hagstæðari verðum til almennings.
    Eins og fram kemur að framan hefur ákvæði 14. gr. raforkulaga, um aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja, verið frestað tvívegis með vísan til aðstæðna á fjármálamörkuðum og viðkvæmrar stöðu orkufyrirtækjanna varðandi fjármögnun. Í ljósi þeirra aðstæðna sem enn eru á fjármálamörkuðum og viðkvæmrar stöðu orkufyrirtækjanna má fallast á að í þriðja sinn sé rétt að fresta tímabundið framkvæmd ákvæða 14. gr. raforkulaga varðandi aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja.
    Með vísan til framangreinds er því með frumvarpi þessu lagt til að framkvæmd ákvæða 2.–4. málsl. 1. mgr. 14. gr. raforkulaga verði frestað til 1. janúar 2012.
    Iðnaðarráðuneytið mun nýta þann tíma sem gefst til 1. janúar 2012 til að láta fara fram hagfræðilega úttekt á því hvort sá fyrirtækjaaðskilnaður sem mælt er fyrir um í viðeigandi gerðum Evrópusambandsins á sviði raforkumála (sbr. tilskipun 2003/54/EB og tilskipun 2009/72/EB) eigi að öllu leyti við um markaðsaðstæður hér á landi og hvort hann sé til þess fallinn að skapa samkeppnisumhverfi sem sé neytendum raforkuþjónustu til hagsbóta.
    Við gerð og undirbúning frumvarpsins var haft samráð við Orkuveitu Reykjavíkur. Var farið yfir drög að frumvarpinu á sameiginlegum fundum og fyrirtækinu og eigendanefnd þess gefinn kostur á að koma að athugasemdum og ábendingum.
    Frumvarpið hefur fyrst og fremst áhrif á Orkuveitu Reykjavíkur og eigendur þess fyrirtækis. Ekki er um íþyngjandi áhrif að ræða.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á raforkulögum, nr. 65/2003,
með síðari breytingum (frestun gildistöku ákvæðis um aðgreiningu
samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi).

    Í frumvarpi þessu er lagt til að framkvæmd ákvæða raforkulaga varðandi aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta verði frestað til 1. janúar 2012. Ákvæði þau sem hér um ræðir voru samþykkt á Alþingi árið 2008 með lögum nr. 58/2008, um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði, en þau lög fólu m.a. í sér breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003. Gangi frumvarp þetta að óbreyttu eftir væri hér um þriðju frestunina að ræða á framkvæmd þessara ákvæða.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.