Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 214. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 239  —  214. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu og lögum um málefni aldraðra (einbýli).

Flm.: Ólafur Þór Gunnarsson, Þráinn Bertelsson, Lilja Mósesdóttir,
Lilja Rafney Magnúsdóttir, Þuríður Backman, Árni Þór Sigurðsson,
Arndís Soffía Sigurðardóttir, Siv Friðleifsdóttir, Guðmundur Steingrímsson,
Jónína Rós Guðmundsdóttir, Margrét Tryggvadóttir.


Breyting á lögum nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu,
með síðari breytingum.

1. gr.

    Við 16. gr. laganna bætist ný málsgrein, 3. mgr., svohljóðandi:
    Öllum íbúum á hjúkrunar- og dvalarheimilum, sem þiggja daggjöld frá ríkinu, skal bjóðast einbýli á viðkomandi stofnun.

Breyting á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra,


með síðari breytingum.


2. gr.


    Lokamálsliður 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. laganna orðast svo: Við hönnun hjúkrunar- og dvalarrýma skal þess gætt að öllum íbúum gefist kostur á einbýli óski þeir þess.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Stofnunum þar sem enn eru tvíbýli, sbr. 1. gr. laga þessara, skal á næstu 5 árum frá gildistöku laga þessara breyta með þeim hætti að fjölbýlum sé lokað en öll rými verði einbýli. Ráðherra velferðarmála skal innan árs frá gildistöku laga þessara leggja fram áætlun um með hvaða hætti fjölbýlum verði fækkað og loks útrýmt.

II.


    Á heimilum þar sem enn eru starfrækt fjölbýli, sbr. 2. gr. laga þessara, skal innan 5 ára frá gildistöku laga þessara tryggja að öllum íbúum bjóðist einbýli.

Greinargerð.


    Á hjúkrunar- og dvalarheimilum landsins eru nú 2.542 hjúkrunarrými og 544 dvalarrými. Þessum rýmum hefur fækkað frá árinu 2007 úr tæplega 2.700 hjúkrunarrýmum og ríflega 700 dvalarrýmum. Hlutfallsleg fækkun hjúkrunarrýma hefur verið um 6% á þessum tíma en fækkun dvalarrýma um ríflega 20%. Á sama tíma hafa sveitarfélög og ríkið bætt verulega í þá þjónustu sem aldraðir og aðrir þurfa að geta fengið heim, auk fjölgunar á dagvistarúrræðum fyrir eldra fólk.
    Að minnsta kosti 800 af þeim rýmum sem eru í boði eru í fjölbýli, þ.e. þar búa fleiri en einn einstaklingur í herbergi. Við hönnun allra þeirra rýma sem hafa verið byggð undanfarin 10 ár hefur þess verið gætt að allir heimilismenn byggju einir á herbergi nema sérstakar óskir væru um annað. Þannig hafa heimilin í Sóltúni, Boðaþingi og Mörk á höfuðborgarsvæðinu verið byggð með þessar þarfir í huga. Auk þessara hjúkrunarheimila hefur Droplaugarstöðum verið breytt í þessa veru. Við hönnun og byggingu hjúkrunarrýma á landsbyggðinni hefur einnig verið gætt að byggingu einbýla og nægir þar að nefna Fellsenda í Dalabyggð og Jaðar í Ólafsvík auk fleiri staða.
    Á undanförnum árum hafa þingmenn og ráðherrar viðrað hugmyndir um að útrýma fjölbýlum á hjúkrunarheimilum. Þar nægir að nefna áætlun um fjölgun hjúkrunarrýma, sem var lögð fram af Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi félagsmálaráðherra, sem fól m.a. í sér að fækka fjölbýlum. Í kjölfarið hafa síðan félagsmálaráðherrarnir Ásta R. Jóhannesdóttir og Árni Páll Árnason fylgt málinu eftir. Auk þess hafa þingmenn alloft í þingræðum og fyrirspurnum velt þessu máli upp. Hér er hins vegar lagt til að skrefið verði stigið lengra, þ.e. að gerð verði áætlun um að á tilteknum tíma verði útrýmt fjölbýlum á hjúkrunarheimilum og að lögfestur verði réttur til einbýlis.
    Samtök aldraðra hafa oft ályktað um málefni hjúkrunarheimila og krafist þess að sá háttur yrði hafður á að öllum íbúum gefist kostur á einbýli óski þeir þess. Þegar unnið var að gerð nýrra heilbrigðislaga var rætt um að taka þessa breytingu inn í lögin en horfið frá þeim áætlunum. Stefna þeirra ráðuneyta sem með málefni aldraðra og heilbrigðisþjónustu fara hefur verið að reyna að minnka áherslu á stofnanaþjónustu, en auka áherslu á þá þjónustu sem fólk getur fengið heim til sín. Sú þjónusta hefur stóraukist undanfarin missiri, bæst hefur við kvöld-, helgar- og næturþjónusta víða um land, unnið hefur verið að samþættingu heimahjúkrunar og heimaþjónustu, og dagvistarúrræðum fjölgað. Þá hefur matsferli vegna vistunar á hjúkrunar- og dvalarheimilum verið breytt á þann hátt að biðtími eftir hjúkrunarrými er nú mun styttri en áður eftir að matið hefur verið gert. Aukin áhersla á endurhæfingu aldraðra hefur einnig gert það að verkum að þörf fyrir hjúkrunarrými skapast seinna á æviskeiði flestra.
    Fyrir liggur að á næstu missirum er vilji til að flytja málefni aldraðra til sveitarfélaganna á svipaðan hátt og gert verður um næstu áramót með málefni fatlaðra. Það er afar mikilvægt að áður en sá flutningur verði liggi fyrir vilji löggjafarvaldsins um hvenær og hvernig staðið verður að því að tryggja þennan rétt íbúa á hjúkrunar og dvalarheimilum.
    Í frumvarpinu er annars vegar lagt til að lögfest verði að allir íbúar þessara stofnana eigi rétt á að búa einir í herbergi, sé það ósk þeirra. Einnig er skilgreint að þetta skuli gerast á næstu fimm árum og er ráðuneyti velferðarmála falið að leggja fram áætlun þar um innan árs frá gildistöku laganna.