Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 218. máls.

Þskj. 244  —  218. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um verðbréfaviðskipti,
nr. 108/2007, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)



1. gr.

    Í stað 7. mgr. 100. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Nú fer aðili og þeir sem hann er í samstarfi við með yfirráð í félagi þegar verðbréf þess eru tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, og verður hann þá ekki tilboðsskyldur samkvæmt þessari grein. Þetta gildir þó ekki ef viðkomandi aðili missir yfirráðin en nær þeim að nýju.
    Nú átti eigandi hlutafjár meira en 30% atkvæðisréttar í félagi sem hefur fjármálagerninga tekna til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði fyrir 1. apríl 2009 og er hann þá ekki tilboðsskyldur samkvæmt þessari grein, enda auki hann ekki við hlut sinn. Sami tímafrestur gildir hafi aðili farið með yfirráð í félagi á grundvelli samstarfs samkvæmt þessari grein.

2. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða II, III, IV, V og VI í lögunum falla brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í 17. gr. frumvarps til laga um breyting á lögum um verðbréfaviðskipti sem lagt var fram á 136. löggjafarþingi (þskj. 53 – 53. mál) var lagt til að svohljóðandi bráðabirgðaákvæði yrði tekið upp í lögin:
    „Nú átti eigandi hlutafjár meira en 33% atkvæðisréttar í félagi sem var skráð á skipulegum verðbréfamarkaði við gildistöku laga þessara og er hann þá ekki tilboðsskyldur skv. 100. gr. laganna, enda auki hann ekki við hlut sinn. Sama gildir hafi aðili á grundvelli samstarfs við aðra hluthafa rétt til að ráða yfir sem nemur 33% atkvæða í félaginu við gildistöku laga þessara.“
    Við þinglega meðferð málsins var ákvæðinu breytt og svohljóðandi ákvæði samþykkt:
    „Nú átti eigandi hlutafjár a.m.k. 30% atkvæðisréttar í félagi sem hefur fjármálagerninga tekna til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði fyrir 1. apríl 2009 og hefur hann þá tíma til 31. mars 2011 að fullnægja tilboðsskyldu sinni eða draga svo úr hlutafjáreign sinni að hann fari niður fyrir yfirtökumörk. Auki hann við hlut sinn á tímabilinu gilda reglur laganna um tilboðsskyldu. Sami tímafrestur gildir hafi aðili farið með yfirráð í félagi á grundvelli samstarfs skv. 100. gr. laganna. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að framlengja tímafresti 1. málsl. þessa ákvæðis tvisvar sinnum í 6 mánuði í senn ef aðstæður á markaði leiða til þess að ósanngjarnt er að krefjast þess að aðili selji sig niður fyrir yfirtökumörk innan tímamarkanna.“
    Tilgangur breytinganna virðist að hluta til hafa verið að árétta að ein og sama regla gilti um yfirtökumörk og tengsl aðila og um leið var fallið frá þeirri leið sem fram að þessu hafði verið farin við sambærilega lagasetningu, þ.e. að setja ákvæði til bráðabirgða sem gerðu þeim kleift sem áttu yfir nýjum yfirtökumörkum eða féllu undir nýjar tengslareglur kleift að viðhalda eignarhluta sínum eða tengslum þrátt fyrir breytingu á reglum laganna. Lagt var til að veita nokkuð rúman tímafrest til aðlögunar á umræddu ákvæði.
    Þess má jafnframt geta að skv. 5. mgr. 100. gr. laganna er Fjármálaeftirlitinu heimilt að að veita undanþágu frá tilboðsskyldu ef sérstakar ástæður mæla með því.
    Samkvæmt lögunum hefur aðili frest til að fullnægja tilboðsskyldu sinni eða draga úr hlutabréfaeign sinni til 31. mars 2011. Að auki hefur Fjármálaeftirlitið heimild til þess að framlengja frestinn tvisvar sinnum í sex mánuði í senn þannig að fresturinn getur mest verið til 31. mars 2012.
    Kauphöllin (NasdaqOmx) hefur gert ráðuneytinu grein fyrir því að hún telji bráðabirgðaákvæði það sem samþykkt var vorið 2009 vera til þess fallið að skaða verðbréfamarkaðinn og að veruleg hætta sé á því að félög taki hlutabréf sín úr viðskiptum hér á landi ef ákvæðið kemur að fullu til framkvæmda. Það fer ekki á milli mála að yfirgnæfandi líkur eru á að hlutabréf a.m.k. eins félags hverfi úr viðskiptum á Íslandi ef þetta ákvæði verður óbreytt. Umrætt félag er Össur hf. en félagið er einnig með hlutabréf sín í viðskiptum hjá kauphöllinni í Kaupmannahöfn. Sams konar ákvæði er varðar yfirtökur er ekki að finna í danskri löggjöf. Kauphöllin álítur því mikilvægt að koma í veg fyrir að félög fari úr viðskiptum eingöngu vegna þessa ákvæðis. Engin fordæmi eru fyrir svona ákvæði í yfirtökureglum í öðrum norrænum ríkjum og því skerðir þetta samkeppnisstöðu kauphallarinnar. Þá sé einnig afar slæmt, að mati kauphallarinnar, að leikreglum á markaði sé breytt með þessum hætti eftir á. Slíkt geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir verðbréfamarkaðinn í heild sinni.
    Í þessu samhengi hefur kauphöllin einnig bent á að önnur regla gildir ef hluthafi, einn eða í samstarfi við aðra, á yfir yfirtökumörkum þegar hlutabréf eru tekin til viðskipta, sbr. 7. mgr. 100. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Við þær aðstæður má hluthafi fara með yfirráð í félagi án þess að þurfa að gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð eða draga úr hlutafjáreign sinni þannig að hún fari undir yfirtökumörk, að því gefnu að hluthafinn auki ekki við atkvæðisrétt sinni í félaginu umfram næsta margfeldi af fimm. Að mati kauphallarinnar er því hluthöfum mismunað samkvæmt lögunum, þ.e. umrædd sölukvöð á eingöngu við þá sem áttu yfir yfirtökumörkunum þegar lögunum var breytt.
    Verulegar breytingar hafa orðið á hlutabréfamarkaði frá því að hremmingar dundu yfir fjármálamarkaði haustið 2008. Mikilvægt er að standa vörð um innlendan hlutabréfamarkað og reyna að koma í veg fyrir frekari þynningu á honum. Þótt áhugi og geta almennings, stofnanafjárfesta og fyrirtækja til virkrar þátttöku á hlutabréfamarkaði kunni að vera í lágmarki sem stendur þarf lagaumgjörð markaðarins að vera þannig að þátttakendur á honum sjái sér hag í því að eiga þar viðskipti þegar hjól atvinnulífsins fara aftur að snúast.
    Samkvæmt upplýsingum kauphallarinnar eru félögin Össur og Marel í þeirri aðstöðu að annaðhvort verður viðskiptum á verðbréfamarkaði hér á landi hætt eða stærstu hluthafar þurfa að selja sig undir 30% mörkin.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Til þess að gæta jafnræðis á milli þeirra sem falla undir ákvæði 7. mgr. 100. gr. og þeirra sem falla munu undir ákvæði hinnar nýju 8. mgr. er lagt til að þeir sem eru yfir tilboðsskyldumörkum verði læstir við þau mörk sem þeir eru við á skráningardegi eða 1. apríl 2009, eftir því sem við á. Að öðru leyti vísast til þess sem segir í almennum hluta athugasemdanna.

Um 2. gr.


    Lagt er til að bráðabirgðaákvæði sem ekki eru lengur virk falli brott.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um verðbréfaviðskipti,
nr. 108/2007, með síðari breytingum.

    Frumvarpinu er ætlað að samræma ákvæði um tilboðsskyldu þeirra sem eru undanþegnir almennu ákvæðunum um tilboðsskyldu sem stofnast við 30% mörk eignarhalds.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.