Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 234. máls.

Þskj. 265  —  234. mál.



Frumvarp til laga

um Lúganósamninginn um dómsvald og um viðurkenningu
og fullnustu dóma í einkamálum.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




1. gr.

    Heimilt er að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum sem gerður var í Lúganó 30. október 2007 og kemur í stað samnings um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum sem gerður var í Lúganó 16. september 1988, ásamt þeim þremur bókunum og níu viðaukum sem honum fylgja og teljast óaðskiljanlegur hluti hans.
    Samningurinn ásamt bókunum og viðaukum sem honum fylgja er prentaður sem fylgiskjal með lögum þessum.

2. gr.

    Lúganósamningurinn og þær þrjár bókanir sem honum fylgja skulu hafa lagagildi hér á landi.

3. gr.

    Dómar, sem hvorki þarf að viðurkenna né fullnægja skv. 61. gr. samningsins, fá ekki réttarverkanir hér á landi.

4. gr.

    Ákvæði 1. gr. laga þessara öðlast þegar gildi.
    Önnur ákvæði laganna öðlast gildi um leið og endurskoðaður Lúganósamningur öðlast gildi að því er Ísland varðar.

5. gr.

    Við gildistöku þessara laga falla úr gildi lög nr. 68/1995, um Lúganósamninginn um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum.


Fylgiskjal.


SAMNINGUR
um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum


Gerður í Lúganó hinn 30. október 2007.

INNGANGUR


AÐILAR AÐ SAMNINGI ÞESSUM,

SEM ERU STAÐRÁÐNIR í að styrkja á yfirráðasvæðum sínum réttarvernd þeirra manna sem þar eru búsettir,

SEM TELJA að í því skyni sé nauðsynlegt að ákvarða hið alþjóðlega dómsvald dómstóla sinna og að auðvelda viðurkenningu og koma á skjótvirkri málsmeðferð til að tryggja fullnustu á dómum, opinberlega staðfestum skjölum og réttarsáttum,

SEM GERA SÉR GREIN fyrir tengslum sín í milli, sem eru staðfest á sviði efnahagsmála með fríverslunarsamningum milli Evrópubandalagsins og tiltekinna aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu,

SEM HAFA HLIÐSJÓN AF:
          Brusselsamningnum frá 27. september 1968 um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum eins og honum hefur verið breytt með aðildarsamningum eftir því sem Evrópusambandið hefur stækkað,
          Lúganósamningnum frá 16. september 1988 um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum, sem felur í sér að reglum Brusselsamningsins verður beitt í tilteknum aðildarríkjum Fríverslunarsamtaka Evrópu,
          reglugerð ráðsins (EB) nr. 44/2001 frá 22. desember 2000 um dómsvald, viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum, sem hefur leyst af hólmi ofangreindan Brusselsamning,
          samningi milli Evrópubandalagsins og konungsríkisins Danmerkur um dómsvald, viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum, sem var undirritaður í Brussel 19. október 2005,

SEM ERU SANNFÆRÐIR um að með því að láta meginreglur reglugerðar (EB) nr. 44/2001 einnig ná til samningsaðilanna muni lagaleg og efnahagsleg samvinna styrkjast,

SEM ÓSKA að tryggja samræmda túlkun á samningi þessum eins og frekast er unnt,

HAFA í þessum anda ÁKVEÐIÐ að gera með sér samning þennan og

HAFA ORÐIÐ ÁSÁTTIR UM EFTIRFARANDI:

I. HLUTI
GILDISSVIÐ
1. gr.

1.     Samningur þessi gildir um einkamál, þar á meðal verslunarmál, án tillits til þess hvaða dómstóll fer með mál. Hann tekur sér í lagi ekki til skattamála, tollamála og stjórnsýslumála.
2.     Samningurinn gildir ekki um:
     a)      persónulega réttarstöðu manna, rétthæfi eða gerhæfi, fjármál hjóna, bréfarf eða lögarf,
     b)      gjaldþrot, nauðasamninga eða sambærilega málsmeðferð,
     c)      almannatryggingar,
     d)      gerðardóma.
3.     Í samningi þessum merkir hugtakið „ríki bundið af þessum samningi“ sérhvert ríki sem er aðili að þessum samningi eða aðildarríki að Evrópubandalaginu. Hugtakið getur einnig þýtt Evrópubandalagið.

II. HLUTI
VARNARÞING
1. KAFLI
ALMENN ÁKVÆÐI
2. gr.

1.     Með þeim takmörkunum sem greinir í samningi þessum skal lögsækja menn, sem eiga heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, fyrir dómstólum í því ríki, hvert sem ríkisfang þeirra er.
2.     Þeir menn sem ekki eru ríkisborgarar í því ríki sem er bundið af þessum samningi, þar sem þeir eiga heimili, skulu lúta sömu varnarþingsreglum og gilda um ríkisborgara þess ríkis.

3. gr.

1.     Menn, sem eiga heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, má aðeins lögsækja fyrir dómstólum í öðru ríki, sem er bundið af þessum samningi, samkvæmt þeim reglum sem settar eru í 2.–7. kafla þessa hluta.
2.     Sérstaklega má ekki beita reglum um dómsvald ríkja, sem settar eru í viðauka I, gegn þeim.

4. gr.

1.     Eigi varnaraðili ekki heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, ákvarða lög hvers ríkis, sem er bundið af þessum samningi, um sig dómsvald dómstóla þess, sbr. þó ákvæði 22. og 23. gr.
2.     Gegn varnaraðila, sem þannig er ástatt um, getur hver sá sem á heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, hvert sem ríkisfang hans er, fært sér í nyt í því ríki þær varnarþingsreglur sem þar gilda á sama hátt og ríkisborgarar þess ríkis og sérstaklega þær reglur sem tilgreindar eru í viðauka I.

2. KAFLI
SÉRSTAKAR VARNARÞINGSREGLUR

5. gr.

Mann, sem á heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, má lögsækja í öðru ríki sem er bundið af þessum samningi:
     1.      a)    í málum, sem varða samninga, fyrir dómstóli þess staðar þar sem skuldbindinguna skyldi efna,
         b)    í tilviki þessa ákvæðis, nema um annað sé samið, er sá staður þar sem skuldbindingu skal efna:
                –    þegar um lausafjárkaup er að ræða, sá staður í ríki, sem er bundið af þessum samningi, þar sem, samkvæmt samningi, hlutur var afhentur eða skyldi afhenda,
                –    þegar þjónusta er veitt, sá staður í ríki, sem er bundið af þessum samningi, þar sem, samkvæmt samningi, þjónusta var veitt eða hana skyldi veita,
        c)     ef ákvæði b-liðar eiga ekki við, þá skulu ákvæði a-liðar gilda,
     2.      í málum, sem varða framfærsluskyldu:
        a)    fyrir dómstóli þess staðar þar sem sá sem rétt á til framfærslu á heimili eða dvelst að jafnaði, eða
        b)    fyrir þeim dómstóli sem samkvæmt lögum sem við hann gilda er bær til að fara með mál varðandi persónulega réttarstöðu manns, ef leysa má úr álitaefni sem tengist framfærsluskyldu í því máli, nema varnarþingið byggist einungis á ríkisfangi eins aðilans, eða
        c)    fyrir þeim dómstóli sem, samkvæmt þeim lögum sem við hann gilda, er bær til að fara með mál varðandi foreldraskyldur, ef leysa má úr álitaefni sem tengist framfærsluskyldu í því máli, nema varnarþingið byggist einungis á ríkisfangi eins aðilans,
     3.      í málum um skaðabætur utan samninga fyrir dómstóli þess staðar þar sem tjónsatburðurinn varð eða getur orðið,
     4.      þegar krafist er skaðabóta eða þess að fyrra ástandi verði komið á og krafan á rót að rekja til refsiverðs verknaðar, fyrir þeim dómstóli þar sem opinbera málið er til meðferðar, að því tilskildu að dómstóllinn, samkvæmt þeim lögum sem við hann gilda, sé bær til að fara með kröfur einkamálaréttarlegs eðlis,
     5.      vegna ágreinings, sem stafar af rekstri útibús, umboðsskrifstofu eða annarrar starfsemi, fyrir dómstóli þess staðar þar sem starfsemin er,
     6.      sem stofnanda, vörslumann eða rétthafa fjárvörslusjóðs, sem stofnaður hefur verið á grundvelli laga eða með skjali eða með munnlegum gerningi sem staðfestur er skriflega, fyrir dómstóli í því ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem sjóðurinn á heimili,
     7.      vegna ágreinings um greiðslu launa, sem krafist er vegna björgunar í þágu farms eða farmgjalds, fyrir þeim dómstóli þar sem kyrrsetning farmsins eða farmgjaldskröfunnar:
        a)    hefur verið gerð til tryggingar á þeirri greiðslu, eða
        b)    hefði mátt fara fram en ábyrgð eða önnur trygging hefur verið sett,
        ákvæði þetta á þó einungis við ef því er haldið fram að varnaraðili eigi til réttar að telja í farminum eða farmgjaldskröfunni eða að hann hafi átt til slíks réttar að telja þegar björgun varð.

6. gr.

Mann, sem á heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, má einnig lögsækja:
     1.      ef hann er einn af mörgum varnaraðilum, fyrir dómstóli þess staðar þar sem einhver þeirra á heimili, svo fremi að kröfurnar séu svo tengdar innbyrðis að æskilegt sé að fara með þær og dæma sameiginlega til að koma í veg fyrir að ósamrýmanlegir dómar verði kveðnir upp ef dæmt væri um hverja þeirra sérstaklega,
     2.      sem þriðja mann í sakaukamáli eða sem þriðja mann í öðrum málum, fyrir þeim dómstóli þar sem mál er upphaflega höfðað, nema það hafi einungis verið höfðað í því skyni að koma í veg fyrir að hann yrði lögsóttur á réttu varnarþingi sínu,
     3.      í málum um gagnkröfu, ef hún á rót sína að rekja til sama samnings eða málsatvika og aðalkrafan byggist á, fyrir dómstóli þar sem aðalkrafan er til meðferðar,
     4.      í málum, sem varða samninga ef málið má sameina máli gegn sama varnaraðila og það varðar réttindi yfir fasteign, fyrir dómstóli í ríki, sem er bundið af þessum samningi, þar sem fasteignin er.

7. gr.

Ef dómstóll í ríki, sem er bundið af þessum samningi, hefur samkvæmt samningi þessum dómsvald í málum um ábyrgð sem stafar af notkun eða rekstri skips hefur sá dómstóll, eða hver sá dómstóll annar sem að lögum þess ríkis kemur í hans stað, einnig dómsvald í málum um takmörkun þessarar ábyrgðar.

3. KAFLI
VARNARÞING Í VÁTRYGGINGARMÁLUM
8. gr.

Í málum um vátryggingar skal ákvarða varnarþing eftir ákvæðum þessa kafla, sbr. þó 4. gr. og 5. tölul. 5. gr.

9. gr.

1.     Vátryggjanda, sem á heimili í ríki sem er bundið af þessum samningi, má lögsækja:
     a)      fyrir dómstólum í því ríki þar sem hann á heimili, eða
     b)      í öðru ríki, sem er bundið af þessum samningi, í þeim tilvikum þegar mál er höfðað af vátryggingartaka, vátryggðum eða öðrum rétthafa, fyrir dómstóli þess staðar þar sem stefnandi á heimili, eða
     c)      sé hann samvátryggjandi, fyrir dómstóli í ríki, sem er bundið af þessum samningi, þar sem mál er höfðað gegn aðalvátryggjanda.
2.     Nú á vátryggjandi ekki heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, en hefur útibú, umboðsskrifstofu eða aðra starfsemi í ríki, sem er bundið af þessum samningi, og skal þá, í málum sem stafa af rekstri starfseminnar, litið svo á sem hann eigi heimili í því ríki.

10. gr.

Í málum vegna ábyrgðartrygginga eða vátrygginga á fasteignum má einnig lögsækja vátryggjanda fyrir dómstóli þess staðar þar sem tjónsatburðurinn varð. Þetta gildir einnig ef vátryggingarsamningur tekur bæði til fasteignar og lausafjár og hvort tveggja verður fyrir tjóni vegna sama atburðar.

11. gr.

1.     Í málum vegna ábyrgðartrygginga má einnig lögsækja vátryggjandann fyrir dómstóli þar sem tjónþoli hefur höfðað mál gegn vátryggðum ef þau lög sem við dómstólinn gilda veita heimild til þess.
2.     Ákvæði 8., 9. og 10. gr. gilda um mál sem tjónþoli höfðar beint gegn vátryggjanda þar sem slík bein málssókn er heimil.
3.     Nú veita lög um slíka beina málssókn heimild til að draga vátryggingartaka eða vátryggðan inn í málið og hefur sami dómstóll þá einnig dómsvald gagnvart þeim.

12. gr.

1.     Vátryggjandi má einungis höfða mál fyrir dómstólum í ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem varnaraðili á heimili, hvort sem hann er vátryggingartaki, vátryggður eða annar rétthafi, sbr. þó ákvæði 3. mgr. 11. gr.
2.     Ákvæði þessa kafla hafa ekki áhrif á rétt til að bera fram gagnkröfu fyrir þeim dómstóli þar sem aðalkrafan er til meðferðar í samræmi við ákvæði þessa kafla.

13. gr.

Frá ákvæðum þessa kafla má aðeins víkja með samningi:
     1.      ef hann er gerður eftir að ágreiningur er risinn, eða
     2.      ef hann veitir vátryggingartaka, vátryggðum eða öðrum rétthafa heimild til málshöfðunar fyrir öðrum dómstólum en þeim sem nefndir eru í þessum kafla, eða
     3.      ef hann er gerður milli vátryggingartaka og vátryggjanda, sem áttu báðir heimili, eða dvöldust að jafnaði í sama ríki, sem er bundið af þessum samningi, þegar samningurinn var gerður, og hann veitir dómstólum þess ríkis dómsvald, jafnvel þótt tjónsatburðurinn kunni að verða erlendis enda sé slíkur samningur ekki andstæður lögum þess ríkis, eða
     4.      ef hann er gerður við vátryggingartaka sem ekki á heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, nema um sé að ræða vátryggingu sem er lögboðin eða hún varðar fasteign í ríki sem er bundið af þessum samningi, eða
     5.      ef hann varðar vátryggingarsamning sem tekur til eins eða fleiri áhættuflokka sem nefndir eru í 14. gr.

14. gr.

Í 5. tölul. 13. gr. er vísað til eftirfarandi áhættuflokka:
     1.      sérhvers tjóns á:
    a)    hafskipum, mannvirkjum undan ströndum eða á rúmsjó eða loftförum þegar tjónið á rætur að rekja til atburða sem tengjast notkun þeirra í atvinnuskyni,
    b)     vörum í flutningi, nema farangri farþega, þegar flutt er að hluta eða að öllu leyti með slíkum skipum eða loftförum,
     2.      sérhverrar ábyrgðar, nema vegna líkamstjóns á farþegum eða tjóns á farangri þeirra,
    a)     sem á rætur að rekja til notkunar eða reksturs skipa, mannvirkja eða loftfara, sem vísað er til í a-lið 1. tölul., að því leyti, hvað hið síðarnefnda varðar, sem lög þess ríkis sem bundið er af þessum samningi, þar sem loftfarið er skráð, banna ekki samninga um varnarþing í sambandi við vátryggingu gegn slíkri áhættu,
    b)     á tjóni sem vörur valda í flutningi sem greinir í b-lið 1. tölul.,
     3.      sérhvers fjártjóns í tengslum við notkun eða rekstur skipa, mannvirkja eða loftfara sem vísað er til í a-lið 1. tölul., einkum taps á farmgjalds- eða leigutekjum,
     4.      sérhverrar áhættu sem tengist þeim áhættuflokkum sem nefndir eru í 1.–3. tölul.,
     5.      mikillar áhættu hvers konar, þrátt fyrir 1.–4. tölul.

4. KAFLI
VARNARÞING Í NEYTENDAMÁLUM
15. gr.

1.     Í málum vegna samninga, sem maður, neytandi, gerir í tilgangi sem telja verður að varði ekki atvinnu hans, skal ákvarða varnarþing eftir ákvæðum þessa kafla, sbr. þó 4. gr. og 5. tölul. 5. gr., enda sé um að ræða:
     a)      samning um lausafjárkaup með afborgunarskilmálum, eða
     b)      samning um lán, sem endurgreiða skal með afborgunum, eða annars konar lánafyrirgreiðslu til að fjármagna kaup á lausafé, eða
     c)      í öllum öðrum tilvikum, hafi samningur verið gerður við mann sem stundar verslunar- eða atvinnustarfsemi í ríki, sem er bundið af þessum samningi og þar sem neytandinn á heimili, eða með einhverjum hætti beinir slíkri starfsemi til þess ríkis eða fleiri ríkja, þar á meðal þess ríkis, enda taki samningur til slíkrar starfsemi.
2.     Nú á viðsemjandi neytandans ekki heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, en hefur útibú, umboðsskrifstofu eða svipaða starfsemi í ríki, sem er bundið af þessum samningi, og skal þá í ágreiningi, sem stafar af rekstri starfseminnar, litið svo á að aðilinn eigi heimili í því ríki.
3.     Kafli þessi gildir ekki um flutningssamninga, nema þeir feli í sér ferðir og gistingu fyrir heildarverð.

16. gr.

1.     Neytandi getur höfðað mál gegn hinum samningsaðilanum annaðhvort fyrir dómstólum í því ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem sá aðili á heimili eða fyrir dómstólum þar sem neytandinn á heimili.
2.     Hinn samningsaðilinn getur einungis höfðað mál gegn neytandanum fyrir dómstólum í því ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem neytandinn á heimili.
3.     Ákvæði þessarar greinar hafa ekki áhrif á rétt til að koma að gagnkröfu fyrir dómstóli þar sem aðalkrafan er til meðferðar í samræmi við ákvæði þessa kafla.

17. gr.

Frá ákvæðum þessa kafla má aðeins víkja með samningi:
     1.      sem gerður er eftir að ágreiningur er risinn, eða
     2.      sem heimilar neytandanum að höfða mál fyrir öðrum dómstólum en þeim sem getið er um í þessum kafla, eða
     3.      sem gerður er af neytanda og samningsaðila hans sem áttu báðir heimili eða dvöldust að jafnaði í sama ríki, sem er bundið af þessum samningi, þegar samningurinn var gerður og samningurinn veitir dómstólum þess ríkis dómsvald enda sé slíkur samningur ekki andstæður lögum þess ríkis.

5. KAFLI
VARNARÞING Í VINNUSAMNINGUM EINSTAKRA MANNA
18. gr.

1.     Í málum sem varða vinnusamninga einstakra manna skal ákvarða varnarþing eftir ákvæðum þessa kafla, sbr. þó 4. gr. og 5. tölul. 5. gr.
2.     Nú gerir launþegi vinnusamning við vinnuveitanda sem á ekki heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, en hefur útibú, umboðsskrifstofu eða svipaða starfsemi í ríki, sem er bundið af þessum samningi, og skal þá, vegna ágreinings sem stafar af rekstri útibúsins, umboðsskrifstofunnar eða starfseminnar, líta svo á að vinnuveitandinn eigi heimili í því ríki.

19. gr.

Heimilt er að höfða mál gegn vinnuveitanda sem á heimili í ríki sem er bundið af þessum samningi:
     1.      fyrir dómstólum í því ríki þar sem hann á heimili, eða
     2.      í öðru ríki sem er bundið af þessum samningi:
        a)    fyrir dómstólum þar sem launþeginn starfar að jafnaði eða fyrir dómstólum þess staðar þar sem hann starfaði síðast, eða
        b)    ef launþeginn starfar eða starfaði að jafnaði ekki í einu tilteknu landi, fyrir dómstólum þess staðar þar sem starfsemin, sem launþeginn var ráðinn til, er eða var.

20. gr.

1.     Vinnuveitandi má einungis höfða mál gegn launþega fyrir dómstólum í ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem launþegi á heimili.
2.     Ákvæði þessa kafla hafa ekki áhrif á rétt til að koma að gagnkröfu fyrir dómstóli þar sem aðalkrafan er til meðferðar í samræmi við ákvæði þessa kafla.

21. gr.

Frá ákvæðum þessa kafla má aðeins víkja með samningi um varnarþing:
     1.      sem gerður er eftir að ágreiningur er risinn, eða
     2.      sem heimilar launþeganum að höfða mál fyrir öðrum dómstólum en þeim sem getið er um í þessum kafla.

6. KAFLI
SKYLDUVARNARÞING
22. gr.

Eftirgreindir dómstólar hafa einir dómsvald, án tillits til heimilis:
     1.      í málum um réttindi yfir fasteign eða leigu fasteignar, dómstólar í því ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem fasteignin er.
             Í málum um fasteignaleigusamninga, sem gerðir eru um tímabundin persónuleg afnot til allt að sex mánaða óslitið, skulu dómstólar í því ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem varnaraðili á heimili þó einnig hafa dómsvald, enda sé leigutaki persóna og bæði leigutaki og leigusali eigi heimili í sama ríki sem er bundið af þessum samningi,
     2.      í málum um gildi stofnskrár félaga, ógildi þeirra eða slit eða annarra lögpersóna eða samtaka manna eða lögpersóna eða um gildi ákvarðana fyrirsvarsaðila þeirra, dómstólar í því ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem félagið, lögpersónan eða samtökin hafa aðsetur. Við ákvörðun á aðsetri skal dómstóllinn beita þeim lagaskilareglum sem við hann gilda,
     3.      í málum um gildi skráninga í opinberar skrár, dómstólar í því ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem skráin er haldin,
     4.      í málum sem varða skráningu eða gildi einkaleyfa, vörumerkja, mynstra eða annarra svipaðra réttinda sem tilkynna þarf eða skrá, hvort heldur ágreiningsefnið er haft uppi til sóknar eða varnar, dómstólar í því ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem tilkynning eða beiðni um skráningu hefur verið lögð fram, hefur farið fram eða er talin hafa farið fram samkvæmt gerningi Evrópubandalagsins eða ákvæðum alþjóðasamnings.
             Að öðru leyti en því, sem greinir um lögsögu Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar samkvæmt samningi um veitingu evrópskra einkaleyfa sem undirritaður var í München 5. október 1973, skulu dómstólar allra ríkja, sem eru bundin af þessum samningi, einir hafa dómsvald, án tillits til heimilis, í málum um skráningu eða gildi evrópsks einkaleyfis hvort heldur ágreiningsefnið er haft uppi til sóknar eða varnar,
     5.      í málum um fullnustu dóma, dómstólar í því ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem fullnusta hefur farið fram eða skal fara fram.

7. KAFLI
SAMNINGAR UM VARNARÞING
23. gr.

1.     Nú hafa aðilar samið um að dómstóll eða dómstólar í ríki, sem er bundið af þessum samningi, skuli hafa dómsvald um ágreining sem þegar er risinn eða um ágreining sem kann að rísa í tengslum við tiltekin lögskipti þeirra og að minnsta kosti annar þeirra eða einn þeirra á heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, og skal þá sá dómstóll eða þeir dómstólar hafa dómsvald. Slíkt dómsvald útilokar dómsvald annarra dómstóla nema málsaðilar hafi samið um annað fyrirkomulag. Slíkur samningur um varnarþing skal vera:
     a)      skriflegur eða munnlegur og staðfestur skriflega, eða
     b)      í formi sem er í samræmi við venjur sem aðilar hafa komið á sín í milli, eða
     c)      í milliríkjaviðskiptum, í formi sem er í samræmi við viðskiptavenjur sem aðilunum voru eða áttu að hafa verið kunnar og eru almennt þekktar og farið er almennt eftir af aðilum samninga af þeirri gerð á því viðskiptasviði sem um er að ræða.
2.     Sérhver rafræn samskipti sem veita varanlega skráningu á samningnum skulu vera jafngild „skriflega“.
3.     Hafi slíkt samkomulag verið gert milli aðila og hvorugur eða enginn þeirra á heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, geta dómstólar í öðrum ríkjum, sem eru bundin af þessum samningi, ekki skorið úr málinu nema sá dómstóll eða þeir dómstólar, sem samið hefur verið um, hafi vísað máli frá dómi vegna rangs varnarþings.
4.     Dómstóll sá eða dómstólar í ríki, sem er bundið af þessum samningi, sem veitt hefur verið dómsvald með skjali sem stofnar fjárvörslusjóð, hafa einir dómsvald í málum gegn stofnanda, vörslumanni eða rétthafa ef mál snýst um lögskipti þessara aðila eða um réttindi þeirra eða skyldur samkvæmt reglum sjóðsins.
5.     Samningar um varnarþing eða slík ákvæði í skjali, sem stofnar fjárvörslusjóð, hafa ekki gildi ef þau fara gegn ákvæðum 13., 17. eða 21. gr. eða ef þau útiloka dómsvald þeirra dómstóla sem einir skulu hafa það samkvæmt 22. gr.

24. gr.

Enda þótt önnur ákvæði samnings þessa veiti dómstóli í ríki, sem er bundið af þessum samningi, ekki dómsvald hefur hann dómsvald ef varnaraðili sækir dómþing fyrir honum. Þetta gildir þó ekki ef þing er sótt til að mótmæla varnarþingi eða ef annar dómstóll hefur einn dómsvald samkvæmt 22. gr.

7. KAFLI
KÖNNUN Á VARNARÞINGI OG ÞVÍ
HVORT MÁL SÉ TÆKT TIL MEÐFERÐAR
25. gr.

Nú er dómstóli í ríki, sem er bundið af þessum samningi, falið að skera úr ágreiningi sem í aðalatriðum varðar málefni sem dómstólar í öðru ríki, sem er bundið af þessum samningi, hafa einir dómsvald um samkvæmt 22. gr. og skal hann þá sjálfkrafa vísa máli frá dómi.

26. gr.

1.     Nú er maður, sem á heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, lögsóttur fyrir dómstóli í öðru ríki, sem er bundið af þessum samningi, og sækir þar ekki dómþing og skal dómstóllinn þá sjálfkrafa vísa máli frá dómi nema hann hafi dómsvald samkvæmt ákvæðum samnings þessa.
2.     Dómstóllinn skal fresta meðferð málsins þar til sýnt er fram á að varnaraðilinn hafi átt kost á að taka á móti stefnu eða samsvarandi skjali svo tímanlega að hann hefði getað undirbúið vörn sína eða að allar nauðsynlegar ráðstafanir hafi verið gerðar í því skyni.
3.     Ákvæði 15. gr. Haagsamningsins frá 15. nóvember 1965 um birtingu erlendis á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum eða verslunarmálum koma í stað ákvæða 2. mgr. ef senda skal stefnu eða samsvarandi skjal um málshöfðun samkvæmt þeim samningi.
4.     Aðildarríki Evrópubandalagsins, sem eru bundin af reglugerð ráðsins (EB) nr. 1348/2000 frá 29. maí 2000 eða samningi milli Evrópubandalagsins og konungsríkisins Danmerkur um birtingu á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum eða verslunarmálum, sem var undirritaður í Brussel 19. október 2005, skulu, í samskiptum sín á milli, beita ákvæðum 19. gr. þeirrar reglugerðar ef senda skal stefnu eða samsvarandi skjal um málshöfðun samkvæmt þeirri reglugerð og þeim samningi.

9. KAFLI
„LITIS PENDENS“ OG SKYLDAR KRÖFUR
27. gr.

1.     Ef krafa, byggð á sömu málsástæðum og milli sömu aðila, er gerð fyrir dómstólum í tveimur eða fleiri ríkjum, sem eru bundin af þessum samningi, skal hver dómstóll, annar en sá sem mál er fyrst höfðað fyrir, sjálfkrafa fresta meðferð þess þar til fyrir liggur að sá dómstóll hafi dómsvald í málinu.
2.     Þegar fyrir liggur að sá dómstóll sem mál er fyrst höfðað fyrir hafi dómsvald skulu aðrir dómstólar vísa málinu frá dómi í þágu hans.

28. gr.

1.     Ef skyldar kröfur eru gerðar fyrir dómstólum í tveimur eða fleiri ríkjum sem eru bundin af þessum samningi getur hver dómstóll, annar en sá sem mál er fyrst höfðað fyrir, frestað málsmeðferð sinni.
2.     Ef skyldar kröfur eru gerðar á fyrsta dómstigi, getur hvaða dómstóll sem er, annar en sá sem málið var fyrst höfðað fyrir, vísað málinu frá samkvæmt kröfu einhvers málsaðilans, ef sá dómstóll sem mál er fyrst höfðað fyrir hefur dómsvald um kröfurnar og lög, sem gilda við þann dómstól, heimila að skyldar kröfur séu sóttar sameiginlega.
3.     Með skyldum kröfum er í grein þessari átt við kröfur sem eru svo tengdar innbyrðis að æskilegt er að fara með þær og dæma sameiginlega til að koma í veg fyrir að ósamrýmanlegir dómar verði kveðnir upp ef dæmt er um hverja þeirra sérstaklega.

29. gr.

Ef fleiri dómstólar en einn eiga hver um sig einir dómsvald um kröfu skulu allir dómstólar, aðrir en sá sem mál er fyrst höfðað fyrir, vísa máli frá dómi í þágu þess dómstóls.

30. gr.

Samkvæmt þessum kafla telst mál höfðað fyrir dómstóli:
     1.      þegar stefna, eða samsvarandi skjal um málshöfðun, hefur verið lögð fram fyrir dómi, svo fremi að stefnandi hafi ekki í kjölfarið látið hjá líða að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til þess að láta birta stefnuna fyrir stefnda,
     2.      ef nauðsynlegt er að birta stefnu áður en hún er lögð fram fyrir dómi, frá þeim tíma þegar sá sem hefur heimild til að birta stefnu tekur við henni, svo fremi að stefnandi hafi ekki í kjölfarið látið hjá líða að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að leggja stefnu fram fyrir dómi.

10. KAFLI
BRÁÐABIRGÐAÚRRÆÐI, ÞAR MEÐ TALIN TRYGGINGARÚRRÆÐI
31. gr.

Leita má til dómstóla í ríki, sem er bundið af þessum samningi, um að beita réttarúrræðum til bráðabirgða, þar með talin tryggingarúrræði, sem lög þess ríkis kunna að heimila, enda þótt dómstólar í öðru ríki, sem er bundið af þessum samningi, hafi dómsvald um efni málsins samkvæmt samningi þessum.

III. HLUTI
VIÐURKENNING OG FULLNUSTA
32. gr.

Í samningi þessum merkir „dómur“ sérhverja ákvörðun um málsúrslit, sem tekin er af dómstóli í ríki, sem er bundið af þessum samningi, hverju nafni sem hún nefnist, svo sem dóm, úrskurð eða ákvörðun um fullnustu, svo og ákvörðun réttarritara um málskostnað.

1. KAFLI
VIÐURKENNING
33. gr.

1.     Dómur, sem kveðinn hefur verið upp í ríki sem er bundið af þessum samningi, skal viðurkenndur í öðrum ríkjum, sem eru bundin af þessum samningi, án þess að nokkurrar sérstakrar málsmeðferðar sé þörf.
2.     Ef ágreiningur rís um það hvort dómur skuli viðurkenndur getur hver sá aðili sem hagsmuna hefur að gæta óskað, samkvæmt þeirri málsmeðferð sem kveðið er á um í 2. og 3. kafla þessa hluta, ákvörðunar um að dómurinn skuli viðurkenndur.
3.     Ef viðurkenningin hefur þýðingu fyrir úrslit máls sem rekið er fyrir dómstóli í ríki, sem er bundið af þessum samningi, og aðili ber hana fyrir sig hefur sá dómstóll dómsvald um viðurkenningarkröfuna.

34. gr.

Dómur skal ekki viðurkenndur:
     1.      ef viðurkenning hans væri bersýnilega andstæð allsherjarreglu í því ríki þar sem hennar er krafist,
     2.      ef hann er útivistardómur og varnaraðila var ekki birt stefna eða samsvarandi skjal svo tímanlega og með þeim hætti að hann gæti undirbúið vörn sína, nema stefndi hafi látið hjá líða að hefja mál til að hnekkja dóminum þegar hann átti þess kost,
     3.      ef hann er ósamrýmanlegur dómi sem kveðinn hefur verið upp í máli milli sömu aðila í ríki því þar sem viðurkenningar er krafist,
     4.      ef hann er ósamrýmanlegur dómi, sem áður hefur verið kveðinn upp í öðru ríki, sem er bundið af þessum samningi, eða í þriðja ríki um sama sakarefni og milli sömu aðila, enda fullnægi fyrri dómurinn skilyrðum til viðurkenningar í því ríki þar sem viðurkenningar er krafist.

35. gr.

1.     Dómur skal enn fremur ekki viðurkenndur ef hann brýtur gegn ákvæðum 3., 4. eða 6. kafla II. hluta eða ef um er að ræða tilvik sem fjallað er um í 68. gr. Auk þess má synja um viðurkenningu dóms ef um er að ræða tilvik sem fjallað er um í 3. mgr. 64. gr. eða 4. mgr. 67. gr.
2.     Við könnun á varnarþingsreglum þeim sem vísað er til í 1. mgr. er dómstóll sá eða yfirvald það sem viðurkenningarkrafan er sett fram við bundið þeim niðurstöðum um málsatvik sem dómstóll upphafsríkisins byggði dómsvald sitt á.
3.     Dómsvald dómstólsins í dómsríkinu verður ekki endurskoðað að öðru leyti en greinir í 1. mgr. Áskilnaður sá sem vísað er til í 1. tölul. 34. gr. um samræmi við allsherjarreglu tekur ekki til varnarþingsreglna.

36. gr.

Erlendan dóm má aldrei endurskoða að efni til.

37. gr.

1.     Ef krafist hefur verið viðurkenningar fyrir dómstóli í ríki, sem er bundið af þessum samningi, á dómi kveðnum upp í öðru ríki, sem er bundið af þessum samningi, má dómstóllinn fresta málinu ef dómurinn hefur sætt málskoti með venjulegum hætti.
2.     Ef krafist hefur verið viðurkenningar fyrir dómstóli í ríki, sem er bundið af þessum samningi, á dómi kveðnum upp á Írlandi eða í Breska konungsríkinu má dómstóllinn fresta málinu ef fullnustu hefur verið frestað í dómsríkinu vegna málskots.

2. KAFLI
FULLNUSTA
38. gr.

1.     Dómi, sem kveðinn hefur verið upp í ríki, sem er bundið af þessum samningi, og fullnægja má í því ríki, skal fullnægja í öðru ríki, sem er bundið af þessum samningi, þegar hann, að beiðni rétts aðila, hefur verið lýstur fullnustuhæfur þar.
2.     Í Breska konungsríkinu skal þó fullnægja slíkum dómi í Englandi og Wales, í Skotlandi eða á Norður-Írlandi þegar hann, að beiðni rétts aðila, hefur verið skráður fullnustuhæfur í þeim hluta Breska konungsríkisins.

39. gr.

1.     Beiðnina skal leggja fram til þess dómstóls eða valdbærs stjórnvalds sem er talið upp í listanum í viðauka II.
2.     Heimili þess, sem fullnustu er krafist hjá, eða sá staður þar sem fullnustu er krafist, ræður því hver dómstóll fer með mál.

40. gr.

1.     Með beiðnina skal fara samkvæmt lögum þess ríkis þar sem fullnustu er krafist.
2.     Beiðandi skal tilgreina réttarfarslegt aðsetur í umdæmi þess dómstóls sem beiðni er beint til. Ef lög þess ríkis þar sem fullnustu er krafist mæla ekki fyrir um slíkt aðsetur skal beiðandi tilnefna málflutningsumboðsmann.
3.     Skjöl þau sem í 53. gr. getur skulu fylgja beiðni.

41. gr.

Dómur skal lýstur aðfararhæfur um leið og formskilyrði 53. gr. hafa verið uppfyllt, án þess að hann sé endurskoðaður samkvæmt 34. og 35. gr. Á þessu stigi málsins skal þeim aðila sem fullnustu er krafist hjá ekki veitt færi á að gera athugasemdir við beiðnina.

42. gr.

1.     Gera skal beiðanda samstundis kunnugt um afdrif ákvörðunar um beiðni um fullnustuhæfi í samræmi við réttarfarsreglur í því ríki sem fullnustu er leitað.
2.     Yfirlýsingu um að dómur sé fullnustuhæfur skal birta fyrir þeim aðila sem fullnustu er krafist hjá, ásamt dóminum sjálfum, ef hann hefur ekki þegar verið birtur aðilanum.

43. gr.

1.     Málsaðilum er báðum heimilt að bera undir dóm ákvörðun í tilefni af beiðni um yfirlýsingu um fullnustuhæfi eða fá hana endurupptekna.
2.     Málskoti eða ósk um endurupptöku skal beina til þess dómstóls sem nefndur er í viðauka III.
3.     Um málskot eða ósk um endurupptöku fer samkvæmt reglum um réttarfar í umþrættum einkamálum.
4.     Ef sá aðili, sem fullnustu er leitað hjá, mætir ekki fyrir dómi þegar krafa beiðanda um málskot er tekin fyrir, gilda ákvæði 2. og 4. mgr. 26. gr. þrátt fyrir að sá aðili sem fullnustu er leitað hjá eigi ekki heimili í neinu ríki sem er bundið af þessum samningi.
5.     Bera má ákvörðun um fullnustuhæfi undir dóm innan mánaðar frá birtingu hennar. Ef sá aðili sem fullnustu er leitað hjá á heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, öðru en því þar sem fullnustuheimild var veitt, er frestur til málskots eða endurupptöku tveir mánuðir talið frá þeim degi er birting fór fram, annaðhvort fyrir honum sjálfum eða á heimili hans. Frest þennan má ekki lengja vegna mikillar fjarlægðar.

44. gr.

Niðurstöðu málskots eða endurupptöku verður aðeins hnekkt með málskoti sem vísað er til í viðauka IV.

45. gr.

1.     Dómstóll sem tekur fyrir málskot eða beiðni um endurupptöku samkvæmt 43. eða 44. gr. skal synja eða fella úr gildi yfirlýsingu um fullnustuhæfi einungis á þeim grundvelli sem tilgreindur er í 34. og 35. gr. Skal ákvörðun dómstólsins liggja fyrir án tafar.
2. Hinn erlenda dóm má aldrei endurskoða að efni til.

46. gr.

1.     Dómstóll sá sem máli er skotið til samkvæmt 43. eða 44. gr. getur að kröfu þess sem fullnustu er krafist hjá frestað máli ef dóminum hefur verið skotið til æðra dóms á venjulegan hátt í dómsríkinu eða endurupptöku er krafist þar eða ef frestur til þessa er enn ekki liðinn. Í síðargreinda tilvikinu getur dómstóllinn ákveðið frest til að koma fram málskoti eða leggja fram kröfu um endurupptöku.
2.     Hafi dómur verið kveðinn upp á Írlandi eða í Breska konungsríkinu skal litið á hvert það málskot, sem heimilað er í dómsríkinu, sem venjulegt málskot í merkingu 1. mgr.
3.     Dómstóllinn getur einnig áskilið um fullnustu að sett verði trygging sem dómstóllinn ákvarðar.

47. gr.

1.     Þegar viðurkenna ber dóm samkvæmt þessum samningi skal ekki koma í veg fyrir að beiðandi notfæri sér réttarúrræði til bráðabirgða, þar með talin tryggingarúrræði, í samræmi við lög þess ríkis sem um ræðir, án þess að krafist sé yfirlýsingar um fullnustuhæfi samkvæmt 41. gr.
2.     Yfirlýsing um fullnustuhæfi felur í sér rétt til að beita hvaða tryggingarráðstöfunum sem er.
3.     Meðan frestur til málskots samkvæmt 5. mgr. 43. gr. um ákvörðun um fullnustuhæfi er ekki liðinn og þar til niðurstaða af slíku málskoti liggur fyrir má ekki gera aðrar ráðstafanir til fullnustu en þær sem miða að því að tryggja fullnustu í eignum þess aðila sem fullnustu er krafist hjá.

48. gr.

1.     Nú hefur í erlendum dómi verið tekin afstaða til margra krafna og ekki er unnt að heimila fullnustu þeirra allra og skal þá dómstóllinn eða valdbært stjórnvald heimila fullnustu einnar þeirra eða fleiri.
2.     Beiðandinn getur krafist yfirlýsingar um fullnustuhæfi dóms að hluta til.

49. gr.

Hafi erlendur dómur mælt fyrir um févíti verður honum aðeins fullnægt í því ríki þar sem fullnustu er krafist ef fjárhæð févítisins hefur verið endanlega ákveðin af dómstólum í dómsríkinu.

50. gr.

1.     Ef sá sem fullnustu krefst hefur í dómsríkinu, að öllu leyti eða að hluta, notið að lögum fjárhagslegrar aðstoðar við málarekstur eða verið undanþeginn kostnaði eða gjöldum skal hann við þá málsmeðferð sem í þessum kafla getur njóta allrar þeirrar aðstoðar eða undanþágna frá kostnaði eða gjöldum sem framast eru veittar með lögum í því ríki þar sem fullnustu er krafist.
2.     Þó getur sá sem krefst fullnustu á úrskurði um framfærsluskyldu, sem stjórnvald í Danmörku, Íslandi eða Noregi hefur kveðið upp, nýtt sér í því ríki þar sem fullnustu er krafist það hagræði sem í 1. mgr. segir, ef hann leggur fram yfirlýsingu frá danska, íslenska eða norska dómsmálaráðuneytinu, eftir því sem við á, um að hann fullnægi efnahagslegum skilyrðum til fjárhagslegrar aðstoðar, að öllu leyti eða að hluta, eða til undanþágu frá kostnaði eða gjöldum.

51. gr.

Aðili, sem krefst fullnustu í ríki, sem er bundið af þessum samningi, á dómi sem upp hefur verið kveðinn í öðru ríki, sem er bundið af þessum samningi, verður ekki krafinn um neins konar tryggingu eða framlag á þeim forsendum að hann sé erlendur ríkisborgari eða að hann eigi ekki heimili eða dvöl í því ríki þar sem fullnustu er krafist.

52. gr.

Engan skatt, gjald eða þóknun, sem reiknast með hliðsjón af verðmæti þeirra hagsmuna sem í húfi eru, má leggja á í tengslum við meðferð yfirlýsingar um fullnustuhæfi í því ríki þar sem fullnustu er krafist.

3. KAFLI
SAMEIGINLEG ÁKVÆÐI
53. gr.

1.     Aðili, sem krefst viðurkenningar eða yfirlýsingar um fullnustuhæfi á dómi, skal leggja fram endurrit dóms sem fullnægir nauðsynlegum skilyrðum til að sanna gildi hans.
2.     Aðili, sem krefst yfirlýsingar um fullnustuhæfi á dómi, skal einnig leggja fram vottorð það sem vísað er til í 54. gr., sbr. þó 55. gr.

54. gr.

Dómstóll eða valdbært stjórnvald í ríki, sem er bundið af þessum samningi og þar sem úrlausn var fengin, skal, eftir kröfu þess sem á hagsmuna að gæta, gefa út vottorð og til þess nota staðlaða eyðublaðið í viðauka V.

55. gr.

1.     Hafi skjalið, sem tilgreint er í 54. gr., ekki verið lagt fram getur dómstóllinn eða valdbært stjórnvald sett frest til framlagningar þess, tekið samsvarandi skjal gilt eða, ef dómstóllinn telur mál nægilega upplýst, fallið frá kröfu um framlagningu þess.
2.     Ef dómstóllinn eða valdbært stjórnvald krefst þess skal leggja fram þýðingu á skjölunum. Skal þýðingin staðfest af manni sem til þess er bær í einhverju ríkjanna sem er bundið af þessum samningi.

56. gr.

Ekki verður krafist löggildingar eða svipaðra formsatriða að því er varðar skjöl þau sem fjallað er um í 53. gr. eða 2. mgr. 55. gr., né að því er varðar málflutningsumboð.

IV. HLUTI
OPINBERLEGA STAÐFEST SKJÖL OG RÉTTARSÁTTIR
57. gr.

1.     Opinberlega staðfest skjal, sem gefið hefur verið út og fullnustuhæft er í ríki sem er bundið af þessum samningi, skal samkvæmt beiðni lýsa fullnustuhæft í öðru ríki, sem er bundið af þessum samningi, samkvæmt þeim reglum sem greinir í 38. gr. og eftirfarandi greinum. Dómstóll, sem tekur fyrir málskot eða beiðni um endurupptöku samkvæmt 43. eða 44. gr., skal einungis synja eða fella úr gildi yfirlýsingu um að dómur sé fullnustuhæfur ef fullnusta skjalsins væri bersýnilega andstæð allsherjarreglu í ríki því sem beiðni er beint til.
2.     Einnig skal líta á ráðstafanir stjórnvalda vegna framfærsluskyldu eða staðfestingar stjórnvalda á þeim sem opinberlega staðfest skjöl í skilningi 1. mgr.
3.     Skjalið skal fullnægja þeim skilyrðum sem nauðsynleg eru til að sanna að það sé opinberlega staðfest skjal í ríki því sem það var gefið út í.
4.     Ákvæðin í 3. kafla III. hluta gilda eftir því sem við á. Valdbært stjórnvald í ríki, sem er bundið af þessum samningi og þar sem skjal var opinberlega staðfest og gefið út, skal gefa út vottorð, eftir kröfu þess sem hefur hagsmuna að gæta, og til þess nota staðlaða eyðublaðið í viðauka VI.

58. gr.

Sátt, sem gerð hefur verið fyrir dómstóli við meðferð máls og er fullnustuhæf í ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem hún var gerð, má fullnægja í því ríki þar sem fullnustu er krafist með sömu skilyrðum og gilda um opinberlega staðfest skjöl. Dómstóll eða valdbært stjórnvald í ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem réttarsátt var staðfest skal gefa út vottorð, eftir kröfu þess sem hefur hagsmuna að gæta, og til þess nota staðlaða eyðublaðið í viðauka V.

V. HLUTI
ALMENN ÁKVÆÐI
59. gr.

1.     Þegar ákvarða skal hvort aðili eigi heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi og þar sem mál hefur verið höfðað, skal dómstóllinn beita þeim lögum sem við hann gilda.
2.     Ef aðili á ekki heimili í því ríki þar sem mál hefur verið höfðað skal dómstóllinn, þegar hann tekur afstöðu til þess hvort aðilinn eigi heimili í öðru ríki sem er bundið af þessum samningi, beita lögum þess ríkis.

60. gr.

1.     Þegar beitt er ákvæðum samnings þessa skal telja heimili félags, annarrar lögpersónu eða samtaka manna eða lögpersóna þar sem:
     a)      aðsetur þeirra er, eða
     b)      höfuðstöðvar þeirra eru, eða
     c)      meginstarfsemi þeirra fer fram.
2.     Í tilviki Breska konungsríkisins og Írlands merkir „aðsetur“ skráða skrifstofu eða, ef um enga slíka skrifstofu er að ræða neins staðar, þann stað þar sem aðili er stofnaður sem lögpersóna, eða, ef um engan slíkan stað er að ræða neins staðar, þann stað þar sem viðkomandi aðili varð til eftir þeim lögum sem þar gilda.
3.     Þegar ákvarða skal hvort fjárvörslusjóður eigi heimili í ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem mál hefur verið höfðað skal dómstóllinn beita þeim lagaskilareglum sem við hann gilda.

61. gr.

Án þess að raskað sé gildi ákvæða í landslögum, sem betri rétt veita, geta þeir sem eiga heimili í ríki, sem er bundið af þessum samningi, og sæta málshöfðun vegna brots, sem framið var af gáleysi, valið sér, fyrir sakadómi í öðru ríki sem er bundið af þessum samningi og þar sem þeir eru ekki ríkisborgarar, löghæfan mann til að annast vörn sína, einnig þótt þeir mæti ekki sjálfir fyrir dómi. Dómstóll sá, sem með málið fer, getur þó ákveðið að viðkomandi skuli sjálfur koma fyrir dóm; komi hann ekki fyrir dóm þarf hvorki að viðurkenna né fullnægja dómi í öðrum ríkjum, sem eru bundin af þessum samningi, að því er tekur til kröfu einkamálaréttarlegs eðlis ef hann átti þess ekki kost að taka til varna í málinu.

62. gr.

Í samningi þessum merkir hugtakið „dómstóll“ yfirvald sem hefur verið falið dómsvald af ríki, sem er bundið af þessum samningi, í málum sem falla undir gildissvið þessa samnings.

VI. HLUTI
BRÁÐABIRGÐAÁKVÆÐI
63. gr.

1.     Þessum samningi skal einungis beita um dómsmál sem höfðuð eru og um opinberlega staðfest skjöl sem gefin eru út eftir að samningurinn öðlast gildi í dómsríkinu og þegar krafist er viðurkenningar eða fullnustu á dómi eða opinberlega staðfestu skjali, í því ríki sem beiðni er beint til.
2.     Þó skulu dómar, sem kveðnir eru upp eftir að samningur þessi öðlast gildi, en þar sem mál í dómsríkinu var höfðað fyrir gildistöku þessa samnings, vera viðurkenndir og þeim fullnægt samkvæmt ákvæðum III. hluta:
     a)      ef málið í dómsríkinu var höfðað eftir að Lúganósamningurinn frá 16. september 1988 tók gildi bæði í dómsríkinu og í því ríki sem beiðni er beint til,
     b)      í öllum öðrum tilvikum, ef dómsvald dómstólsins byggðist á hliðstæðum reglum og eru í II. hluta samnings þessa eða samningi sem var í gildi milli dómsríkisins og þess ríkis sem beiðni er beint til þegar málið var höfðað.

VII. HLUTI
AFSTAÐA TIL REGLUGERÐAR RÁÐSINS (EB) NR. 44/2001
OG ANNARRA SAMNINGA

64. gr.

1.     Samningur þessi hindrar ekki að aðildarríki Evrópubandalagsins beiti reglugerð ráðsins (EB) nr. 44/2001 um dómsvald, viðurkenningu og um fullnustu dóma í einkamálum, með síðari breytingum, samningi um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum, sem undirritaður var í Brussel 27. september 1968, eða bókun um túlkun dómstóls Evrópubandalaganna á þeim samningi, sem undirrituð var í Lúxemborg 3. júní 1971, eins og þeim hefur verið breytt með aðildarsamningum ríkja Evrópubandalaganna að þeim samningi og bókun, auk samnings milli Evrópubandalagsins og konungsríkisins Danmerkur um dómsvald, viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum sem var undirritaður í Brussel 19. október 2005.
2.     Samningi þessum skal þó ávallt beita:
     a)      við úrlausn um dómsvald ef varnaraðili á heimili í ríki þar sem þessi samningur gildir, en ekki samningur samkvæmt 1. mgr., eða ef dómstólum í slíku ríki er veitt dómsvald með 22. eða 23. gr. samnings þessa,
     b)      um „litis pendens“ eða skyldar kröfur, sbr. 27. og 28. gr., þegar mál er höfðað í ríki þar sem samningur þessi gildir, en ekki samningur samkvæmt 1. mgr., og í ríki þar sem samningur þessi gildir auk samnings samkvæmt 1. mgr.,
     c)      við úrlausn um viðurkenningu og fullnustu þegar annaðhvort dómsríkið eða ríki það sem beiðni er beint til beitir ekki samningi samkvæmt 1. mgr.
3.     Auk þeirra ástæðna sem tilgreindar eru í III. hluta má synja um viðurkenningu eða fullnustu ef þær reglur sem dómstóllinn hefur byggt dómsvald sitt á eru aðrar en þær sem af samningi þessum leiðir og krafist er viðurkenningar eða fullnustu hjá aðila sem á heimili í ríki þar sem þessi samningur gildir en ekki samningur samkvæmt 1. mgr., nema dóminn megi ella viðurkenna eða honum megi fullnægja samkvæmt lögum í því ríki sem beiðni er beint til.

65. gr.

Að öðru leyti en því sem leiðir af 2. mgr. 63. gr., 66. gr. og 67. gr. kemur samningur þessi, hvað varðar ríki sem eru bundin af þessum samningi, í stað samninga milli tveggja þeirra eða fleiri sem fjalla um sama efni og þessi samningur. Sér í lagi skal þessi samningur ganga fyrir þeim samningum sem vísað er til í viðauka VII.

66. gr.

1.     Samningar þeir sem taldir eru í 65. gr. skulu halda gildi sínu á þeim sviðum sem samningur þessi tekur ekki til.
2.     Þeir skulu enn fremur halda gildi sínu um dóma sem kveðnir eru upp og um opinberlega staðfest skjöl sem gefin eru út áður en samningur þessi öðlast gildi.

67. gr.

1.     Samningur þessi hefur ekki áhrif á samninga sem binda samningsaðilana og/eða ríkin, sem bundin eru af þessum samningi, og ákvarða dómsvald eða viðurkenningu eða fullnustu dóma á tilteknum sviðum. Þrátt fyrir skyldur, sem leiðir af öðrum samningum milli tiltekinna samningsaðila, kemur þessi samningur ekki í veg fyrir að samningsaðilar geri slíka samninga.
2.     Samningur þessi kemur ekki í veg fyrir að dómstóll í ríki, sem er bundið af þessum samningi og samningi um tiltekið efni, taki sér dómsvald samkvæmt þeim samningi enda þótt varnaraðili eigi heimili í öðru ríki sem er bundið af þessum samningi og ekki er aðili að þeim samningi. Dómstóll sá sem mál hefur til meðferðar skal þó ávallt beita ákvæðum 26. gr. samnings þessa.
3.     Dómar, sem kveðnir eru upp í ríki, sem er bundið af þessum samningi, af dómstóli, sem dómsvald hefur samkvæmt samningi um tiltekið efni, skulu viðurkenndir og þeim fullnægt í öðrum ríkjum sem eru bundin af þessum samningi í samræmi við ákvæðin í III. hluta samnings þessa.
4.     Auk þeirra ástæðna sem tilgreindar eru í III. hluta má synja um viðurkenningu eða fullnustu ef ríki það sem beiðni er beint til er ekki aðili að samningi um tiltekið efni og sá maður sem viðurkenningar eða fullnustu er krafist hjá á heimili í því ríki eða, ef ríkið er aðili að Evrópubandalaginu og vegna samninga sem Evrópubandalagið þyrfti að gera, í einhverju aðildarríkja sinna, nema dóminn megi ella viðurkenna eða honum megi fullnægja samkvæmt lögum í því ríki sem beiðni er beint til.
5.     Nú eru bæði dómsríkið og ríki það sem beiðni er beint til aðilar að samningi um tiltekið efni og samningurinn tilgreinir skilyrði fyrir viðurkenningu eða fullnustu dóma og skulu þá þau skilyrði gilda. Ávallt má beita ákvæðum samnings þessa um málsmeðferð til viðurkenningar og fullnustu dóma.

68. gr.

1.     Samningur þessi hefur ekki áhrif á samninga sem ríki, sem eru bundin af þessum samningi, gerðu, áður en þessi samningur öðlast gildi, um að viðurkenna ekki dóma, sem kveðnir eru upp í öðrum ríkjum sem eru bundin af þessum samningi, gegn varnaraðilum sem eiga heimili eða dveljast að jafnaði í þriðja ríki ef svo stendur á sem í 4. gr. segir og dóminn mátti einungis byggja á varnarþingsreglu sem tilgreind er í 2. mgr. 3. gr. Þrátt fyrir skyldur, sem leiðir af öðrum samningum milli tiltekinna samningsaðila, kemur þessi samningur ekki í veg fyrir að samningsaðilar geri slíka samninga.
2.     Þó má samningsaðili ekki skuldbinda sig gagnvart þriðja ríki til að viðurkenna ekki dóm sem kveðinn er upp í öðru ríki, sem er bundið af þessum samningi, af dómstóli sem byggir dómsvald sitt á því að varnaraðili á eignir í því ríki eða á því að sóknaraðili hefur komið fram aðför í eign sem er í því ríki:
     a)      ef málið varðar eignarrétt eða umráðarétt yfir eigninni, miðar að því að öðlast ráðstöfunarrétt yfir henni eða varðar annan ágreining um eignina, eða
     b)      ef eignin hefur verið sett til tryggingar kröfu sem málið varðar.

VIII. HLUTI
LOKAÁKVÆÐI
69. gr.

1.     Samning þennan skal leggja fram til undirritunar af hálfu Evrópubandalagsins, Danmerkur og ríkja sem eru aðilar að Fríverslunarsamtökum Evrópu á þeim tíma sem samningurinn var lagður fram til undirritunar.
2.     Samningurinn er háður fullgildingu af hálfu þeirra ríkja sem undirrita hann. Fullgildingarskjölin skal afhenda svissneska sambandsráðinu sem sinnir hlutverki vörsluaðila samningsins.
3.     Þegar samningurinn hefur verið fullgiltur mega samningsaðilar senda yfirlýsingar í samræmi við I., II. og III. gr. í bókun nr. 1.
4.     Samningurinn öðlast gildi fyrsta dag sjötta mánaðar eftir þann dag þegar Evrópubandalagið og aðildarríki að Fríverslunarsamtökum Evrópu hafa afhent fullgildingarskjöl sín.
5.     Samningurinn öðlast gildi gagnvart sérhverjum öðrum samningsaðila fyrsta dag þriðja mánaðar eftir að hann hefur afhent fullgildingarskjal sitt.
6.     Með fyrirvara um 3. mgr. 3. gr. í bókun nr. 2 kemur samningur þessi í stað samnings um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum, sem var gerður í Lúganó 16. september 1988, frá þeim degi sem hann tekur gildi í samræmi við 4. og 5. mgr. hér að framan. Litið verður á allar tilvísanir í Lúganósamninginn frá 1988 í öðrum samningum sem tilvísun til þessa samnings.
7.     Að því er varðar sambandið á milli aðildarríkja Evrópubandalagsins og þeirra yfirráðasvæða sem fjallað er um í b-lið 1. mgr. 70. gr. og eru ekki í Evrópu, þá kemur þessi samningur í stað samnings um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum sem var undirritaður í Brussel 27. september 1968, bókunar um túlkun dómstóls Evrópubandalaganna á þeim samningi, sem undirrituð var í Lúxemborg 3. júní 1971, eins og þeim hefur verið breytt með aðildarsamningum ríkja að Evrópubandalögunum að þeim samningi og bókun, hvað þessi yfirráðasvæði varðar í samræmi við 2. mgr. 73. gr., frá þeim degi sem þessi samningur tekur gildi.

70. gr.

1.     Þegar samningur þessi hefur öðlast gildi er aðild að honum heimil:
     a)      ríkjum sem verða aðilar að Fríverslunarsamtökum Evrópu, eftir að samningur þessi er lagður fram til undirritunar, með þeim skilyrðum sem er að finna í 71. gr.,
     b)      aðildarríkjum Evrópubandalagsins sem koma fram fyrir hönd tiltekinna yfirráðasvæða utan Evrópu, en eru hluti af yfirráðasvæði þess aðildarríkis eða aðildarríkið er ábyrgt fyrir utanríkismálum þess yfirráðasvæðis samkvæmt skilyrðum 71. gr.,
     c)      hvaða annað ríki sem er með þeim skilyrðum sem er að finna í 72. gr.
2.     Þau ríki sem vísað er til í 1. mgr. og vilja gerast aðilar að þessum samningi skulu beina umsókn sinni til vörsluaðilans. Umsókninni, ásamt þeim upplýsingum er um getur í 71. og 72. gr., skal fylgja ensk og frönsk þýðing.

71. gr.

1.     Hvert það ríki sem vísað er til í a- og b-lið 1. mgr. 70. gr. og vill gerast aðili að þessum samningi:
     a)      skal koma til skila þeim upplýsingum sem krafist er til að þessi samningur gildi,
     b)      má leggja fram yfirlýsingar í samræmi við I. og III. gr. í bókun nr. 1.
2.     Vörsluaðilinn skal senda allar upplýsingar sem hann hefur fengið samkvæmt 1. mgr. til hinna samningsaðilanna áður en aðildarskjal viðkomandi ríkis er afhent til vörslu.

72. gr.

1.     Hvert það ríki sem vísað er til í c-lið 1. mgr. 70. gr. og vill gerast aðili að þessum samningi:
     a)      skal koma til skila þeim upplýsingum sem krafist er til að þessi samningur gildi,
     b)      má leggja fram yfirlýsingar í samræmi við I. og III. gr. í bókun nr. 1, og
     c)      skal veita vörsluaðilanum upplýsingar, er varða sérstaklega:
        1)    réttarkerfi þess, þar á meðal upplýsingar um skipun dómara og sjálfstæði þeirra,
         2)    landsrétt þess varðandi réttarfar í einkamálum og um fullnustu dóma, og
         3)    lagaskilareglur þeirra í tengslum við einkamálaréttarfar.
2.     Vörsluaðilinn skal senda allar upplýsingar, sem berast samkvæmt 1. mgr., til hinna samningsaðilanna áður en viðkomandi ríki er boðið að gerast aðili að samningnum í samræmi við 3. mgr.
3.     Vörsluaðilinn skal því aðeins bjóða viðkomandi ríki aðild ef það hefur fengið einróma samþykki samningsaðilanna, sbr. þó 4. mgr. Samningsaðilarnir skulu kappkosta að ljá samþykki sitt í síðasta lagi innan árs frá því að vörsluaðilinn bauð viðkomandi ríki að gerast aðili.
4.     Að því er varðar samskipti þess ríkis sem gerist aðili og þeirra samningsaðila sem ekki hafa andmælt aðild þess öðlast samningurinn gildi fyrir fyrsta dag þriðja mánaðar eftir að aðildarskjalið er afhent til vörslu.

73. gr.

1.     Fullgildingarskjölin skal afhenda vörsluaðilanum til vörslu.
2.     Í tilviki ríkis, sem gerist aðili að samningnum samkvæmt 70. gr., tekur samningurinn gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir að aðildarskjalið er afhent til vörslu. Frá þeim tíma skal viðkomandi ríki talið vera aðili að þessum samningi.
3.     Sérhver samningsaðili má senda vörsluaðilanum texta þessa samnings á tungumáli eða tungumálum viðkomandi samningsaðila og skal textinn talinn jafngildur öðrum textum, ef aðilar að þessum samningi komast að samkomulagi um slíkt í samræmi við 4. gr. í bókun nr. 2.

74. gr.

1.     Samningur þessi er ótímabundinn.
2.     Sérhver samningsaðili getur, hvenær sem er, sagt samningnum upp með tilkynningu til vörsluaðilans.
3.     Uppsögnin öðlast gildi við lok þess almanaksárs þegar sex mánuðir eru liðnir frá þeim degi er vörsluaðilinn veitti tilkynningu um uppsögn viðtöku.

75. gr.

Eftirfarandi bókanir og viðaukar fylgja samningnum:
          bókun nr. 1 um tiltekin atriði varðandi varnarþing, málsmeðferð og fullnustu,
          bókun nr. 2 um samræmda túlkun samningsins og um fastanefndina,
          bókun nr. 3 um beitingu 67. gr. samningsins,
          viðaukar I–IV og viðauki VII með upplýsingum í tengslum við beitingu þessa samnings,
          viðaukar V og VI þar sem er að finna vottorðin sem vísað er til í 54., 58. og 57. gr. þessa samnings,
          viðauki VIII þar sem er að finna yfirlit yfir jafngild tungumál sem vísað er til í 79. gr., og
          viðauki IX sem varðar beitingu II. gr. í bókun nr. 1.
Bókanir þessar og viðaukar skulu teljast óaðskiljanlegur hluti þessa samnings.

76. gr.

Sérhver samningsaðili getur farið fram á endurskoðun þessa samnings, sbr. þó 77. gr. Vörsluaðilinn skal í því skyni kalla til fastanefndina með þeim hætti sem segir í 4. gr. í bókun nr. 2.

77. gr.

1.     Samningsaðilarnir skulu senda vörsluaðilanum texta allra ákvæða í lögum sem breyta listunum sem er að finna í viðauka I–IV, sem og öllum brottfellingum og viðbótum við listann sem er að finna í viðauka VII og hvenær þær tóku gildi. Koma skal með slíkar tilkynningar innan hæfilegs tíma áður en breytingarnar taka gildi og skal þeim fylgja þýðing á ensku og frönsku. Vörsluaðilinn skal aðlaga umrædda viðauka í samræmi við breytingarnar, eftir að hafa ráðfært sig við fastanefndina í samræmi við 4. gr. í bókun nr. 2. Samningsaðilarnir skulu í því skyni útvega þýðingu á þeirri aðlögun á tungumálum þeirra.
2.     Fastanefndin skal gera allar breytingar á viðaukum V–VI og VIII–IX við þennan samning í samræmi við 4. gr. í bókun nr. 2.

78. gr.

1.     Vörsluaðilinn skal tilkynna samningsaðilunum um:
     a)      afhendingu sérhvers fullgildingar- eða aðildarskjals,
     b)      gildistökudaga samnings þessa gagnvart samningsaðilunum,
     c)      sérhverja yfirlýsingu sem móttekin er samkvæmt I.–IV. gr. í bókun nr. 1,
     d)      sérhverja tilkynningu sem gerð er samkvæmt 2. mgr. 74. gr., 1. mgr. 77. gr. og 4. mgr. í bókun nr. 3.
2.     Tilkynningunum mun fylgja þýðing á ensku og frönsku.

79. gr.

Samningur þessi, sem gerður er í einu frumriti á þeim tungumálum sem talin eru upp í viðauka VIII, þar sem allir textarnir eru jafngildir, skal varðveittur í skjalasafni svissneska sambandsráðsins. Svissneska sambandsráðið skal senda staðfest afrit samningsins til allra samningsaðila.

ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirritaðir fulltrúar ritað undir samning þennan.

Gjört í Lúganó 30. október 2007

Fyrir hönd Evrópubandalagsins

Fyrir hönd lýðveldisins Íslands

Fyrir hönd konungsríkisins Noregs

Fyrir hönd Svissneska sambandslýðveldisins

Fyrir hönd konungsríkisins Danmerkur

BÓKUN NR. 1
um tiltekin atriði varðandi varnarþing, málsmeðferð og fullnustu.


SAMNINGSAÐILAR HAFA KOMIÐ SÉR SAMAN UM EFTIRFARANDI:

I. gr.

1.     Réttarskjöl og utanréttarskjöl, sem gerð hafa verið í ríki sem er bundið af þessum samningi og birta þarf manni í öðru ríki, sem er bundið af þessum samningi, skal framsenda með þeim hætti sem samningar eða samkomulag sem er í gildi milli þessara ríkja kveða á um.
2.     Ef samningsaðili á yfirráðasvæði, þar sem birting skal fram fara, mótmælir því ekki með yfirlýsingu við vörsluaðilann má einnig senda slík skjöl frá viðkomandi opinberum starfsmönnum í því ríki þar sem skjal er samið beint til viðkomandi opinberra starfsmanna í því ríki þar sem viðtakanda er að finna. Skal starfsmaðurinn í dómsríkinu þá senda samrit skjalsins til þess starfsmanns, í því ríki sem beiðni er send til, sem bær er til að afhenda það viðtakanda. Skjalið skal afhent með þeim hætti sem lög þess ríkis sem beiðni er send til mæla fyrir um. Afhendingin skal staðfest með vottorði sem senda skal beint til starfsmannsins í dómsríkinu.
3.     Aðildarríki Evrópubandalagsins, sem eru bundin af reglugerð ráðsins (EB) nr. 1348/2000 frá 29. maí 2000 eða samningi milli Evrópubandalagsins og konungsríkisins Danmerkur um birtingu á réttarskjölum eða utanréttarskjölum í einkamálum eða verslunarmálum, sem var undirritaður í Brussel 19. október 2005, skulu, í samskiptum sín á milli, beita ákvæðum þeirrar reglugerðar og þeim samningi.

II. gr.

1.     Reglu 2. tölul. 6. gr. og 11. gr. um varnarþing í sakaukamálum eða í öðrum málum gegn þriðja manni má ekki beita að fullu í þeim ríkjum sem eru bundin af þessum samningi og vísað er til í viðauka IX. Mann, sem á heimili í öðru ríki sem er bundið af þessum samningi, má lögsækja fyrir dómstólum í þeim ríkjum samkvæmt þeim reglum sem vísað er til í viðauka IX.
2.     Frá þeim tíma er samningur þessi er fullgiltur getur Evrópubandalagið lýst því yfir að 2. tölul. 6. gr. og 11. gr. megi ekki beita í tilteknum öðrum aðildarríkjum og látið í té upplýsingar um þær reglur sem skulu gilda.
3.     Dómar, sem kveðnir eru upp í öðrum ríkjum sem eru bundin af þessum samningi í samræmi við 2. tölul. 6. gr. eða 11. gr., skulu viðurkenndir og þeim fullnægt í ríkjum samkvæmt 1. og 2. mgr. í samræmi við III. hluta. Þau réttaráhrif sem dómar, sem kveðnir eru upp í ríkjum þessum, geta haft gagnvart þriðja manni, með því að beita ákvæðum 1. og 2. mgr., skal einnig viðurkenna í öðrum ríkjum sem eru bundin af þessum samningi.

III. gr.

1.     Sviss áskilur sér rétt til að lýsa því yfir, við fullgildingu samningsins, að það muni ekki beita eftirfarandi hluta ákvæðis 2. tölul. 34. gr.:
„nema stefndi hafi látið hjá líða að hefja mál til að hnekkja dóminum þegar hann átti þess
kost“.
Ef Sviss lýsir slíku yfir skulu aðrir samningsaðilar beita sama fyrirvara varðandi þá dóma sem eru kveðnir upp af svissneskum dómstólum.
2.     Samningsaðilar geta á grundvelli yfirlýsingar, að því er varðar dóma sem eru kveðnir upp í því ríki sem gerist aðili samkvæmt c-lið 1. mgr. 70. gr., áskilið sér:
     a)      þann rétt sem nefndur er í 1. mgr., og
     b)      rétt þess yfirvalds sem um getur í 39. gr., þrátt fyrir ákvæði 41. gr., til þess að kanna sjálft hvort einhver þeirra ástæðna sem notaðar eru til að neita um viðurkenningu og fullnustu dóms sé til staðar eða ekki.
3.     Hafi samningsaðili gert slíkan fyrirvara, sem mælt er fyrir um í 2. mgr., gagnvart ríki, sem gerist aðili, getur það ríki gert sama fyrirvara með yfirlýsingu gagnvart dómum sem kveðnir eru upp af dómstólum viðkomandi samningsaðila.
4.     Að undanskildum þeim fyrirvara sem nefndur er í 1. mgr. gilda yfirlýsingarnar í fimm ár og eru endurnýjanlegar að loknum þeim tíma. Samningsaðilinn skal tilkynna um endurnýjun yfirlýsingar þeirrar sem mælt er fyrir um í 2. mgr. ekki síðar en sex mánuðum áður en slíku tímabili lýkur. Ríki, sem gerist aðili, getur einungis endurnýjað yfirlýsingu sína, sem gefin er samkvæmt 3. mgr., eftir að hlutaðeigandi yfirlýsing samkvæmt 2. mgr. hefur verið endurnýjuð.

IV. gr.

Yfirlýsingar þær sem vísað er til í þessari bókun má draga til baka hvenær sem er með tilkynningu til vörsluaðilans. Tilkynningunni skal fylgja þýðing á ensku og frönsku. Samningsaðilarnir skulu útvega þýðingar á sínum tungumálum. Slík afturköllun tekur gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar að lokinni tilkynningunni.

BÓKUN NR. 2
um samræmda túlkun samningsins og um fastanefndina.


INNGANGUR


SAMNINGSAÐILAR,

SEM VÍSA TIL 75. gr. samnings þessa,

SEM HAFA Í HUGA hin nánu tengsl milli samnings þessa, Lúganósamningsins frá 1988 og samninganna sem vísað er til í 1. mgr. 64. þessa samnings,

SEM HAFA Í HUGA að dómstóll Evrópubandalaganna hefur vald til þess að skera úr um túlkun þeirra samninga sem vísað er til í 1. mgr. 64. gr. þessa samnings,

SEM HAFA Í HUGA að þessi samningur verður hluti af reglum Evrópubandalagsins og þar af leiðandi hefur dómstóll Evrópubandalaganna vald til að skera úr um túlkun á ákvæðum þessa samnings sem dómstólar aðildarríkja Evrópubandalagsins hafa beitt,

SEM ER KUNNUGT um úrlausnir dómstóls Evrópubandalaganna um túlkun á þeim samningum sem vísað er til í 1. mgr. 64. gr. þessa samnings fram að undirritun samnings þessa og úrlausnir dómstóla samningsaðila Lúganósamningsins frá 1988 um hinn síðarnefnda samning fram að undirritun þessa samnings,

SEM HAFA Í HUGA að samhliða endurskoðun bæði Lúganósamningsins frá 1988 og Brusselsamninganna, sem leiddi til þess að texti þessara samninga var endurskoðaður, var efnislega byggð á ofangreindum úrlausnum um Brusselsamninginn frá 1968 og Lúganósamninginn frá 1988,

SEM HAFA Í HUGA að endurskoðaður texti Brusselsamningsins hefur verið felldur inn í reglugerð (EB) nr. 44/2001 eftir að Amsterdamsáttmálinn tók gildi,

SEM HAFA Í HUGA að þessi endurskoðaði texti var einnig grundvöllur texta þessa samnings,

SEM VILJA, með fullri virðingu fyrir sjálfstæði dómstólanna, koma í veg fyrir mismunandi túlkun og ná eins samræmdri túlkun og unnt er á ákvæðum samningsins og ákvæðum reglugerðar (EB) nr. 44/2001, sem í öllum meginatriðum eru tekin upp í þennan samning, og á öðrum samningum sem vísað er til í 1. mgr. 64. gr. þessa samnings,

HAFA ORÐIÐ ÁSÁTTIR UM EFTIRFARANDI:

1. gr.

1.     Sérhver dómstóll, sem beitir þessum samningi og túlkar hann, skal taka réttmætt tillit til þeirra meginsjónarmiða sem fram koma í úrlausnum dómstóla ríkja, sem eru bundin af þessum samningi, eða dómstóls Evrópubandalaganna, sem skipta máli og varða ákvæði, eitt eða fleiri, sem um er að ræða eða hvað eða hver önnur svipuð ákvæði Lúganósamningsins frá 1988 og þeirra gerninga sem vísað er til í 1. mgr. 64. gr. þessa samnings.
2.     Skylda samkvæmt 1. mgr. gildir gagnvart aðildarríkjum Evrópubandalagsins, sbr. þó skyldur þeirra í tengslum við dómstól Evrópubandalaganna sem leiðir af sáttmálanum um stofnun Evrópubandalagsins eða af samningi milli Evrópubandalagsins og konungsríkisins Danmerkur um dómsvald, viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum sem var undirritaður í Brussel 19. október 2005.

2. gr.

Sérhverju ríki, sem er bundið af þessum samningi og er ekki aðili að Evrópubandalaginu, er heimilt að senda greinargerð eða skriflegar athugasemdir, í samræmi við 23. gr. í bókun við samþykkt dómstóls Evrópubandalaganna, þar sem dómstóll aðildarríkis Evrópubandalagsins biður dómstól Evrópubandalaganna um forúrskurð varðandi spurningu um túlkun á þessum samningi eða þeim gerningum sem vísað er til í 1. mgr. 64. gr. þessa samnings.

3. gr.

1.     Framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna skal setja upp kerfi til að skiptast á upplýsingum um þá dóma sem máli skipta og kveðnir hafa verið upp samkvæmt þessum samningi, svo og um dóma sem máli skipta samkvæmt Lúganósamningnum frá 1988 og þeim gerningum sem vísað er til í 1. mgr. 64. gr. þessa samnings. Aðgangur að þessu kerfi skal vera opinn almenningi og skal geyma dóma æðsta dómstigs og dómstóls Evrópubandalaganna, sem og dóma sem hafa sérstaka þýðingu, eru endanlegir og hafa verið kveðnir upp samkvæmt þessum samningi, Lúganósamningnum frá 1988 og þeim gerningum sem vísað er til í 1. mgr. 64. gr. þessa samnings. Dómarnir skulu vera flokkaðir og skal þeim fylgja útdráttur.
    Kerfið er með þeim hætti að valdbær yfirvöld í ríkjum, sem eru bundin af þessum samningi, skulu senda dóma sem vísað er til hér að ofan og kveðnir hafa verið upp af dómstólum í þessum ríkjum til framkvæmdastjórnarinnar.
2.     Ritari dómstóls Evrópubandalaganna sér um að velja mál, sem hafa sérstaka þýðingu fyrir tilhlýðilegt hlutverk samningsins, og skal hann kynna þau mál sem hafa verið valin á fundi sérfræðinga samkvæmt 5. gr. þessarar bókunar.
3.     Þar til Evrópubandalögin hafa komið upp kerfi samkvæmt 1. mgr. skal dómstóll Evrópubandalaganna viðhalda þeirri upplýsingamiðlun sem var komið á fót með bókun nr. 2 við Lúganósamninginn frá 1988, vegna dóma sem kveðnir hafa verið upp samkvæmt þessum samningi og Lúganósamningnum frá 1988.

4. gr.

1.     Setja skal á fót fastanefnd sem í skulu eiga sæti fulltrúar samningsaðilanna.
2.     Að ósk samningsaðila skal vörsluaðili samningsins boða til funda í nefndinni í því skyni að:
          ræða um sambandið milli þessa samnings og annarra alþjóðasamninga,
          ræða um beitingu 67. gr., þar á meðal um fyrirhugaða aðild að gerningum um tiltekin mál samkvæmt 1. mgr. 67. gr., og um áformaða löggjöf samkvæmt bókun nr. 3,
          taka til skoðunar aðild nýrra ríkja. Má sérstaklega nefna að nefndin getur spurt ríki sem vilja gerast aðilar og vísað er til í c-lið 1. mgr. 70. gr. spurninga varðandi réttarkerfi þeirra og framkvæmd samningsins. Nefndin getur einnig tekið til skoðunar hugsanlega aðlögun samningsins sem er nauðsynleg fyrir beitingu hans í þeim ríkjum sem gerast aðilar,
          samþykkja nýjar jafngildar tungumálaútgáfur samkvæmt 3. mgr. 73. gr. þessa samnings og nauðsynlegar breytingar á viðauka VIII,
          ræða um endurskoðun samningsins samkvæmt 76. gr.,
          ræða um breytingar á viðaukum I–IV og viðauka VII samkvæmt 1. mgr. 77. gr.,
          samþykkja breytingar á viðaukum V og VI samkvæmt 2. mgr. 77. gr.,
          afturkalla fyrirvara og yfirlýsingar samningsaðilanna samkvæmt bókun nr. 1 og gera nauðsynlegar breytingar á viðauka IX.
3.     Nefndin skal setja málsmeðferðarreglur um hlutverk sitt og ákvarðanatöku. Reglurnar skulu mæla fyrir um að unnt sé að hafa samráð og taka ákvarðanir með skriflegum hætti.

5. gr.

1.     Vörsluaðili samningsins má, þegar nauðsynlegt er, boða til fundar í nefndinni með sérfræðingum til að skiptast á skoðunum um hvernig samningurinn reynist og einkum varðandi þróun fordæmisreglna og nýja löggjöf sem getur haft áhrif á beitingu samningsins.
2.     Á þessum fundi eiga sæti sérfræðingar samningsaðilanna, ríkja sem eru bundin af þessum samningi, dómstóls Evrópubandalaganna og Fríverslunarsamtaka Evrópu. Fundurinn skal vera opinn hverjum öðrum sérfræðingum sem talið er nauðsynlegt að séu viðstaddir.
3.     Sérhverjum vanda sem upp kemur varðandi framkvæmd samningsins má vísa til fastanefndarinnar, sem vísað er til í 4. gr. í þessari bókun, vegna frekari ráðstafana.

BÓKUN NR. 3
um beitingu 67. gr. samningsins.


SAMNINGSAÐILAR HAFA ORÐIÐ ÁSÁTTIR UM EFTIRFARANDI:

1.    Ákvæði sem mæla fyrir um dómsvald eða viðurkenningu eða fullnustu dóma, að því er varðar tiltekin málefni, og felast eða munu felast í ákvörðunum stofnana Evrópubandalaganna, skal, hvað samninginn varðar, fara með á sama hátt og samninga þá sem vísað er til í 1. mgr. 67. gr.
2.    Nú telur samningsaðili að ákvæði, sem felst í fyrirhugaðri ákvörðun stofnana Evrópubandalaganna, samrýmist ekki samningnum og skulu samningsaðilarnir þá þegar íhuga að breyta samningnum samkvæmt 76. gr., án þess þó að raskað sé gildi þeirrar málsmeðferðar sem kveðið er á um í bókun nr. 2.
3.    Í þeim tilvikum þegar einn samningsaðili eða margir saman fella sum eða öll ákvæðin, sem eru í gerðum stofnana Evrópubandalagsins, sem vísað er til í 1. mgr., inn í landsrétt, skal tekið á þessum ákvæðum landsréttar með sama hætti og samningunum sem vísað er til í 1. mgr. 67. gr.
4.    Samningsaðilarnir skulu tilkynna vörsluaðilanum um texta þeirra ákvæða sem vísað er til í 3. mgr. Slíkri tilkynningu skal fylgja þýðingu á ensku og frönsku.

VIÐAUKI I

Eftirfarandi eru þær varnarþingsreglur sem vísað er til í 2. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 4. gr. samningsins:
          í Austurríki: 99. gr. laga um dómsvald dómstóla ( Jurisdiktionsnorm),
          í Belgíu: 5.–14. gr. laga frá 16. júlí 2004 um alþjóðlegt einkamálaréttarfar,
          í Breska konungsríkinu: reglur þær sem heimila að varnarþing byggist á því:
               a)      að stefna hafi verið birt varnaraðila meðan á tímabundinni dvöl hans í Breska konungsríkinu stóð, eða
               b)      að varnaraðili eigi eignir í Breska konungsríkinu, eða
               c)      að sóknaraðili hafi komið fram aðför í eignum sem eru í Breska konungsríkinu,
          í Búlgaríu: 1. tölul. 4. gr. laga um alþjóðlegt einkamálaréttarfar,
          í Danmörku: 2. og 3. mgr. 246. gr. réttarfarslaga ( Lov om rettens pleje),
          í Eistlandi: 86. mgr. laga um réttarfar í einkamálum (tsiviilkohtumenetluse seadustik),
          í Finnlandi: 2., 3. og 4. málsl. 1. mgr. 1. hluta 10. kafla réttarfarslaga ( oikeudenkäymiskaari/rättegångsbalken),
          í Frakklandi: 14. og 15. gr. borgaralögbókar ( Code civil),
          í Grikklandi: 40. gr. laga um réttarfar í einkamálum ( ....... ......... ......µ...),
          á Írlandi: reglur þær sem heimila að varnarþing byggist á því að stefna hafi verið birt varnaraðila meðan á tímabundinni dvöl hans á Írlandi stóð,
          á Íslandi: 4. mgr. 32. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991,
          á Ítalíu: 3. og 4. gr. laga 218 frá 31. maí 1995,
          á Kýpur: 2. tölul. 21. kafla dómstólalaganna nr. 14/1960, með síðari breytingum,
          í Lettlandi: 27. kafli og 3., 5., 6. og 9. mgr. 28. kafla laga um réttarfar í einkamálum ( Civilprocesa likums),
          í Litháen: 31. gr. laga um réttarfar í einkamálum ( Civilinio proceso kodeksas),
          í Lúxemborg: 14. og 15. gr. borgaralögbókar ( Code civil),
          á Möltu: 742., 743. og 744. gr. laga um réttarfar í einkamálum – 12. kafli 12 ( Kodici ta' Organizzazzjoni u Procedura Civili – Kap. 12) og 549. gr. viðskiptalaganna – 13. kafli ( Kodici tal-kummerc – Kap. 13),
          í Noregi: 2. málsl. í kafla 4-3(2) í lögum um deilumál ( tvisteloven),
          í Portúgal: 65. og 65. gr. A í lögum um réttarfar í einkamálum (Código de Processo Civil) og 11. gr. laga um réttarfar í vinnumálum ( Código de Processo de Trabalho),
          í Póllandi: 1103. og 1110. gr. laga um réttarfar í einkamálum (Kodeks postepowania cywilnego), að því leyti sem þær kveða á um dómsvald á grundvelli heimilis varnaraðila í Póllandi, umráða varnaraðila á eignum í Póllandi eða tilkalls hans til eignarréttar í Póllandi, þeirrar staðreyndar að andlag deilunnar er staðsett í Póllandi og þeirrar staðreyndar að einn málsaðila er pólskur ríkisborgari,
          í Rúmeníu: 148.–157. gr. laga nr. 105/1992 um alþjóðlegt einkamálaréttarfar,
          í Slóvakíu: 37.–37. gr. e í lögum nr. 97/1963 um alþjóðlegt einkamálaréttarfar og skyldar reglur,
          í Slóveníu: 2. tölul. 48. gr. laga um alþjóðlegt einkamálaréttarfar (Zakon o mednarodnem zasebnem pravu in postopku) í tengslum við 2. tölul. 47. gr. laga um réttarfar í einkamálum ( Zakon o pravdnem postopku) og 58. gr. laga um alþjóðlegt einkamálaréttarfar ( Zakon o mednarodnem zasebnem pravu in postopku) í tengslum við 59. gr. laga um réttarfar í einkamálum ( Zakon o pravdnem postopku),
          í Sviss: reglur um kyrrsetningarvarnarþing (le for du lieu du séquestre/Gerichtsstand des Arrestortes/foro del luogo del sequestro) samkvæmt 4. gr. sambandsríkislaganna um alþjóðlegan einkamálarétt ( loi fédérale sur le droit international privé/Bundesgesetz über das internationale Privatrecht/legge federale sul diritto internazionale privato),
          í Svíþjóð: 1. málsl. 1. mgr. 3. hluta 10. kafla réttarfarslaga ( rättegångsbalken),
          í Tékklandi: 86. gr. laga nr. 99/1963 um réttarfar í einkamálum ( obcanský soudní rád) með síðari breytingum,
          í Ungverjalandi: 57. gr. lagatilskipunar nr. 13/1979 um alþjóðlegt einkamálaréttarfar (a nemzetközi magánjogról szóló 1979. évi 13. törvényereu rendelet),
          í Þýskalandi: 23. gr. laga um réttarfar í einkamálum ( Zivilprozessordnung).

VIÐAUKI II

Dómstólar eða valdbær stjórnvöld sem vísað er til í 39. gr. og leggja má fram beiðni til eru eftirfarandi:
          í Austurríki: „Bezirksgericht“,
          í Belgíu: „tribunal de première instance“ eða „rechtbank van eerste aanleg“ eða „erstinstanzliches Gericht“,
          í Breska konungsríkinu:
        a)    í Englandi og Wales, „High Court of Justice“ eða, ef um er að ræða dóm um framfærsluskyldu, „Magistrates' Court“ fyrir milligöngu „Secretary of State“,
        b)     í Skotlandi, „Court of Session“ eða, ef um er að ræða dóm um framfærsluskyldu, „Sheriff Court“ fyrir milligöngu „Secretary of State“,
        c)     á Norður-Írlandi, „High Court of Justice“ eða, ef um er að ræða dóm um framfærsluskyldu, „Magistrates' Court“ fyrir milligöngu „Secretary of State“,
         d)    á Gíbraltar, „Supreme Court“ eða, þegar um er að ræða dóm vegna framfærsluskyldu, „Magistrates' Court“ fyrir milligöngu „the Attorney General of     Gibraltar“,
          í Búlgaríu: „........ ....... ...“,
          í Danmörku: „byret“,
          í Eistlandi: „maakohus“ eða sýsludómstól,
          í Finnlandi: „käräjäoikeus/tingsrätt“,
          í Frakklandi:
         a)    „greffier en chef du tribunal de grande instance“,
        b)    „président de la chambre départementale des notaires“ þegar um er að ræða fullnustu á grundvelli skjals sem er opinberlega staðfest af lögbókanda,
          í Grikklandi: „....µ.... ...........“,
          í Hollandi: „voorzieningenrechter van de rechtbank“,
          á Írlandi: „High Court“,
          á Íslandi: héraðsdómur,
          á Ítalíu: „corte d'appello“,
          á Kýpur: „......... ..........“ eða, þegar um dóm vegna framfærsluskyldu er að ræða, „............ ..........“,
          í Lettlandi: „rajona (pilsetas) tiesa“,
          í Litháen: „Lietuvos apeliacinis teismas“,
          í Lúxemborg: dómstjóri „tribunal d'arrondissement“,
          á Möltu: „Prim' Awla tal-Qorti Civili“ eða „Qorti tal-Magistrati ta' Ghawdex fil-gurisdizzjoni superjuri taghha“ eða, þegar um er að ræða dóm vegna framfærsluskyldu, „Registratur tal-Qorti“ fyrir milligöngu „Ministru responsabbli ghall-Gustizzja“,
          í Noregi: „tingrett“,
          í Portúgal: „Tribunal de Comarca“,
          í Póllandi: „sad okregowy“,
          í Rúmeníu: „Tribunal“,
          í Slóvakíu: „okresný súd“,
          í Slóveníu: „okrozno sodisce“,
          á Spáni: „Juzgado de Primera Instancia“,
          í Sviss:
        a)     ef dómur er til greiðslu peninga, „juge de la mainlevée/Rechtsöffnungsrichter/giudice competente a pronunciare sul rigetto dell'opposizione“ eftir réttarfarsreglum 80. og 81. gr. sambandsríkislaganna um málssókn vegna skulda og gjaldþrots (loi fédérale sur la poursuite pour dettes et la faillite/Bundesgesetz über Schuldbetreibung und Konkurs/legge federale sulla esecuzione e sul fallimento),
        b)     ef dómur er til annars en greiðslu peninga, „juge cantonal d'exequatur compétent/ zuständiger kantonaler Vollstreckungsrichter/giudice cantonale competente a pronunciare l'exequatur“,
          í Svíþjóð: „Svea Hovrätt“,
          í Tékklandi: „okresní soud“ eða „soudní exekutor“,
          í Ungverjalandi: „megyei bíróság székhelyén muködo helyi bíróság“ og í Búdapest, „Budai Központi Kerületi Bíróság“,
          í Þýskalandi:
        a)    dómstjóri við deild í „Landgericht“,
        b)    lögbókandi þegar leitað er eftir fullnustu á grundvelli opinberlega staðfests skjals.

VIÐAUKI III

Dómstólar sem skjóta má málum til samkvæmt 2. mgr. 43. gr. eru eftirfarandi:
          í Austurríki: „Landesgericht“ gegnum „Bezirksgericht“,
          í Belgíu:
        a)    þegar um málskot varnaraðila er að ræða, „tribunal de première instance“ eða „rechtbank van eerste aanleg“ eða „erstinstanzliche Gericht“,
        b)    þegar um málskot beiðanda er að ræða, „ cour d'appel“ eða „ hof van beroep“,
          í Breska konungsríkinu:
        a)    í Englandi og Wales, „High Court of Justice“ eða, ef um er að ræða dóm um framfærsluskyldu, „Magistrates' Court“,
        b)     í Skotlandi, „Court of Session“ eða, ef um er að ræða dóm um framfærsluskyldu, „Sheriff Court“,
        c)    á Norður-Írlandi, „High Court of Justice“ eða, ef um er að ræða dóm um framfærsluskyldu, „Magistrates' Court“,
         d)    á Gíbraltar, „the Supreme Court“ eða, þegar um er að ræða dóm um framfærsluskyldu, „Magistrates' Court“,
          í Búlgaríu: „ .......... ... – .....“,
          í Danmörku: „landsret“,
          í Eistlandi: „ringkonnakohus“,
          í Finnlandi: „hovioikeus/hovrätt“,
          í Frakklandi:
        a)    „cour d'appel“ varðandi ákvarðanir sem heimila beitinguna,
        b)    dómstjóri „tribunal de grande instance“ varðandi ákvarðanir sem heimila ekki beitinguna,
          í Grikklandi: „.......“,
          í Hollandi: „rechtbank“,
          á Írlandi: „High Court“,
          á Íslandi: héraðsdómur,
          á Ítalíu: „corte d'appello“,
          á Kýpur: „......... ..........“ eða, þegar um er að ræða dóm vegna framfærsluskyldu, „............ ..........“,
          í Lettlandi: „Apgabaltiesa“ gegnum „rajona (pilsetas) tiesa“,
          í Litháen: „Lietuvos apeliacinis teismas“,
          í Lúxemborg: „Cour supérieure de justice“ sem áfrýjunardómstóls í einkamálum,
          á Möltu: „Qorti ta' l-Appell“ í samræmi við áfrýjunarferlið í „Kodici ta' Organizzazzjoni u Procedura Civili – Kap.12“ eða, þegar um er að ræða dóm vegna framfærsluskyldu, „citazzjoni“ hjá „Prim' Awla tal-Qorti ivili jew il-Qorti tal-Magistrati ta' Ghawdex fil- gurisdizzjoni superjuri taghha“,
          í Noregi: „lagmannsrett“,
          í Portúgal: „Tribunal da Relação“ er hinn valdbæri dómstóll. Málum er skotið til dómstólsins, í samræmi við gildandi landslög, með beiðni sem stíluð er á dómstólinn sem kvað upp hinn umdeilda úrskurð,
          í Póllandi: „sad apelacyjny“ gegnum „sad okregowy“,
          í Rúmeníu: „Curte de Apel“,
          í Sambandslýðveldinu Þýskalandi: „Oberlandesgericht“,
          í Slóvakíu: áfrýjunardómstóllinn í gegnum þann héraðsdómstól hvers ákvörðun er verið að áfrýja,
          í Slóveníu: „okrozno sodisce“,
          á Spáni: „el „Juzgado de Primera Instancia“ que dictó la resolución recurrida para ser resuelto el recurso por la Audiencia Provincial“,
          í Sviss: „tribunal cantonal/Kantonsgericht/tribunale cantonale“,
          í Svíþjóð: „Svea Hovrätt“,
          í Tékklandi: áfrýjunardómstóllinn gegnum héraðsdómstólinn,
          í Ungverjalandi: staðardómstóllinn sem er staðsettur þar sem sýsludómstóllinn hefur aðsetur (í Búdapest, héraðsdómstóllinn í Búda); sýsludómstóllinn tekur fyrir málskotsbeiðnina (í Búdapest, „the Capital Court“).

VIÐAUKI IV

Málskot sem um er að ræða í 44. gr. samningsins eru eftirfarandi:
          í Austurríki: „Revisionsrekurs“,
          í Belgíu, í Grikklandi, á Spáni, í Frakklandi, á Ítalíu, í Lúxemborg og í Hollandi: með áfrýjun til ógildingar,
          í Breska konungsríkinu: með einum möguleika á áfrýjun um lagaatriði,
          í Búlgaríu: „......... .... ......... .......... ...“,
          í Danmörku: með áfrýjun til „höjesteret“ að fengnu leyfi „Procesbevillingsnævnet“,
          í Eistlandi: „kassatsioonikaebus“,
          í Finnlandi: með áfrýjun til „korkein oikeus/högsta domstolen“,
          á Írlandi: með áfrýjun um lagaatriði til „Supreme Court“,
          á Íslandi: með áfrýjun til Hæstaréttar,
          á Kýpur: með áfrýjun til hæstaréttar,
          í Lettlandi: með áfrýjun til „Augstãkãs tiesas Senãts“ gegnum „Apgabaltiesa“,
          í Litháen: með áfrýjun til „Lietuvos Auksciausiasis Teismas“,
          á Möltu: engum frekari málskotum er beint til einhvers annars dómstóls; þegar um er að ræða dóm vegna framfærsluskyldu „Qorti ta' l-Appell“ í samræmi við áfrýjunarferlið í „kodici ta' Organizzazzjoni u Procedura Civili – Kap. 12“,
          í Noregi: með áfrýjun til „Höyesteretts kjæremålsutvalg“ eða „Höyesterett“,
          í Portúgal: með áfrýjun um lagaatriði,
          í Póllandi: „skarga kasacyjna“,
          í Rúmeníu: „contestatie in anulare“ eða „revizuire“,
          í Sambandslýðveldinu Þýskalandi: með „Rechtsbeschwerde“,
          í Slóvakíu: „dovolanie“,
          í Slóveníu: með áfrýjun til „Vrhovno sodisce Republike Slovenije“,
          í Sviss: með „recours devant le tribunal fédéral/Beschwerde beim Bundesgericht/ricorso di davanti al Tribunale federale“,
          í Svíþjóð: með áfrýjun til „Högsta domstolen“,
          í Tékklandi: „dovolání“ og „zaloba pro zmatecnost“,
          í Ungverjalandi: „felülvizsgálati kérelem“.

VIÐAUKI V

Vottorð um dóma og réttarsáttir sem vísað er til í 54. og 58. gr. í samningnum um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum.

     1.      Dómsríki
     2.      Dómstóll eða valdbært stjórnvald sem gefur út vottorðið
        2.1.    Nafn
        2.2.     Heimilisfang
        2.3.     Sími/Fax/Netfang
     3.      Dómstóll sem kvað upp dóminn/samþykkti réttarsáttina*
        3.1.     Tegund dómstóls
        3.2.     Aðsetur dómstóls
     4.      Dómur/réttarsátt*
        4.1.     Dagsetning
        4.2.     Tilvísunarnúmer
        4.3.     Aðilar að dómnum/réttarsáttinni*
                     4.3.1.    Nafn/nöfn stefnanda/stefnenda
                      4.3.2.     Nafn/nöfn stefnda/stefndu
                     4.3.3.     Nafn/nöfn annars/annarra aðila, ef einhver/-jir er/-u
        4.4.     Dagsetning birtingar stefnu í útivistarmálum
        4.5.     Texti dómsins/réttarsáttarinnar* sem fylgir þessu vottorði
     5.      Nöfn þeirra aðila sem notið hafa að lögum fjárhagslegrar aðstoðar

Dómurinn/réttarsáttin* er fullnustuhæf/-ur í dómsríkinu (38. og 58 gr. í samningnum) gagnvart:
Nafn:

         Gjört í ........................., dagsetning ...........................

         Undirskrift og/eða stimpill ...................................

* Strokist út eftir atvikum.


VIÐAUKI VI

Vottorð um opinberlega staðfest skjöl sem vísað er til í 4. mgr. 57. gr. í samningnum um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum.

     1.      Dómsríki
     2.      Dómstóll eða valdbært stjórnvald sem gefur út vottorðið
        2.1.    Nafn
        2.2.     Heimilisfang
        2.3.     Sími/Fax/Netfang
     3.      Stjórnvald sem hefur staðfest hið opinbera skjal
        3.1.     Stjórnvald sem átti þátt í að útbúa hið opinbera skjal (ef við á)
                     3.1.1.     Nafn og hlutverk stjórnvalds
                      3.1.2.     Aðsetur stjórnvalds
        3.2.     Stjórnvald sem hefur skráð hið opinbera staðfesta skjal (ef við á)
                     3.2.1.     Tegund stjórnvalds
                     3.2.2.     Aðsetur stjórnvalds
     4.      Opinberlega staðfest skjal
        4.1.     Lýsing á skjalinu
        4.2.     Dagsetning
                     4.2.1.     þegar skjalið var útbúið
                     4.2.2     ef annað: þegar skjalið var skráð
        4.3.     Tilvísunarnúmer
        4.4.     Aðilar að skjalinu
                     4.4.1.     Nafn lánardrottins
                     4.4.2.     Nafn skuldunauts
     5.      Texti hinnar fullnustuhæfu skuldbindingar sem fylgir þessu vottorði

Hið opinbera staðfesta skjal er fullnustuhæft gegn skuldunauti í dómsríki (1. mgr. 57. gr. samningsins)

         Gjört í     ..... dagsetning

        Undirskrift og/eða stimpill

VIÐAUKI VII

Þessi samningur kemur í stað eftirfarandi samninga í samræmi við 65. gr. samningsins:
          samnings milli Sviss og Spánar um gagnkvæma fullnustu dóma í einkamálum sem undirritaður var í Madríd 19. nóvember 1896,
          samnings milli Tékkóslóvaska lýðveldisins og Sviss um viðurkenningu og fullnustu dóma ásamt viðbótarbókun, undirritaður í Bern 21. desember 1926,
          samnings milli Sviss og Þýska ríkisins um viðurkenningu og fullnustu dóma og gerðardóma sem undirritaður var í Bern 2. nóvember 1929,
          samnings milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um viðurkenningu dóma og fullnægju þeirra sem undirritaður var í Kaupmannahöfn 16. mars 1932,
          samnings milli Sviss og Ítalíu um viðurkenningu og fullnustu dóma sem undirritaður var í Róm 3. janúar 1933,
          samnings milli Svíþjóðar og Sviss um viðurkenningu og fullnustu dóma og gerðardóma sem undirritaður var í Stokkhólmi 15. janúar 1936,
          samnings milli Sviss og Belgíu um viðurkenningu og fullnustu dóma og gerðardóma sem undirritaður var í Bern 29. apríl 1959,
          samnings milli Austurríkis og Sviss um viðurkenningu og fullnustu dóma sem undirritaður var í Bern 16. desember 1960,
          samnings milli Noregs annars vegar og Stóra-Bretlands og Norður-Írlands hins vegar um gagnkvæma viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum sem undirritaður var í Lundúnum 12. júní 1961,
          samnings milli Noregs og Sambandslýðveldisins Þýskalands um viðurkenningu og fullnustu dóma og fullnustuskjala á sviði einkamála sem undirritaður var í Ósló 17. júní 1977,
          samnings milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um viðurkenningu og fullnægju á kröfum borgararéttarlegs eðlis sem undirritaður var í Kaupmannahöfn 11. október 1977,
          samnings milli Noregs og Austurríkis um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum sem undirritaður var í Vín 21. maí 1984.

VIÐAUKI VIII

Tungumálin sem vísað er til í 79. gr. samningsins eru: búlgarska, tékkneska, danska, hollenska, enska, eistneska, finnska, þýska, gríska, ungverska, íslenska, írska, ítalska, lettneska, litháíska, maltneska, norska, pólska, portúgalska, rúmenska, slóvaska, slóvenska, spænska og sænska.

VIÐAUKI IX

Ríkin og reglurnar sem vísað er til í II. gr. í bókun nr. 1 eru eftirfarandi:
          Þýskaland: 68. gr., 72. gr., 73. gr. og 74. gr. laga um réttarfar í einkamálum (Zivilproze.ordnung) varðandi tilkynningar um málshöfðun til þriðja aðila,
          Austurríki: 21. gr. laga um réttarfar í einkamálum (Zivilproze.ordnung) varðandi tilkynningar um málshöfðun til þriðja aðila,
          Ungverjaland: 58. og 60. gr. laga um réttarfar í einkamálum ( Polgári perrendtartás) varðandi tilkynningar um málshöfðun til þriðja aðila,
          Sviss, að því er varðar þær kantónur, þar sem réttarfarslög mæla ekki fyrir um varnarþing það sem vísað er til í 2. mgr. 6. gr. og 11. gr. samningsins: viðeigandi ákvæði varðandi tilkynningar til þriðju aðila um málshöfðun (litis denuntiatio) í viðeigandi réttarfarslögum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1.     Inngangur.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að heimild verði veitt til að fullgilda af Íslands hálfu samning um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum, sem undirritaður var af hálfu íslenska ríkisins þann 30. október 2007 í Lúganó í Sviss (verður samningur þessi hér eftir nefndur Lúganósamningurinn). Lúganósamningurinn gildir milli Evrópubandalagsins (hér ýmist vísað til sem Evrópubandalagsins eða EB), Danmerkur og EFTA-ríkjanna Íslands, Noregs og Sviss og kemur hann í stað eldri Lúganósamnings, sem undirritaður var af hálfu Íslands þann 16. september 1988 í Lúganó, sbr. lög um Lúganósamninginn um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum, nr. 68/1995.
    Með fullgildingu Lúganósamningsins frá 2007 er stefnt að frekari samvinnu á sviði dómsmála í alþjóðlegum einkamálum. Samningurinn treystir enn fremur meginreglur forvera síns frá 1988 um gagnkvæma viðurkenningu og fullnustu dóma sem kveðnir eru upp í ríkjum annarra samningsaðila.
    Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að ákvæði samningsins og þeirra þriggja bókana sem honum fylgja skuli hafa gildi hér á landi sem lög. Er það gert í þeim tilgangi að unnt sé að beita Lúganósamningnum með beinum hætti fyrir íslenskum dómstólum en vegna tvíeðliskenningarinnar sem lögð er til grundvallar í lagatúlkun hér á landi þarf að lögfesta alþjóðlega samninga svo slíkt sé unnt.

2.     Forsaga samningsins.
    Árið 1968 gerðu stofnríki EB, þ.e. Belgía, Frakkland, Holland, Ítalía, Lúxemborg og Þýskaland, fyrst með sér samning um dómsvald og fullnustu dóma í einkamálum. Við samning þennan var bætt bókun árið 1971 sem fól í sér að dómstóll bandalagsins fékk vald til að túlka samninginn með bindandi hætti. Samningnum var breytt nokkrum sinnum til þess að fella ný ríki sem gengu í Evrópusambandið einnig undir gildissvið hans. Samningurinn frá 1968 ásamt síðari breytingum og bókun við hann hafa almennt gengið undir heitinu Brusselsamningurinn og gátu einungis aðildarríki EB orðið aðilar að honum, sbr. þágildandi 220. gr. Rómarsáttmálans (nú 293. gr.).
    Af hálfu aðildarríkja EB og EFTA, svo og af hálfu EB sem stofnunar, kom snemma fram áhugi á því að gera sérstakan fjölþjóðasamning sem hefði að geyma samsvarandi reglur og Brusselsamningurinn með því meginmarkmiði að samræmdar reglur giltu um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum í öllum ríkjum EB og EFTA. Samstarf um slíkan fjölþjóðasamning hófst 1985 með stofnun sameiginlegs verkefnishóps. Niðurstaða þess starfs leiddi til Lúganósamningsins sem samþykktur var í Lúganó 16. september 1988. Er samningurinn mikilvægasti fjölþjóðlegi samningur um dómsvald og fullnustu dóma í einkamálum sem samþykktur hefur verið af hálfu íslenska ríkisins. Nánari umfjöllun um samninginn má finna í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 68/1995, um Lúganósamninginn um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum (Alþingistíðindi 1994–1995 A–deild, bls. 2553–2574).
    Maastrichtsáttmálinn (Evrópusambandssáttmálinn) sem aðildarríki EB undirrituðu 7. febrúar 1992 í Maastricht í Hollandi, tók gildi 1. nóvember 1993 og markaði upphaf Evrópusambandsins (hér ýmist vísað til sem Evrópusambandsins eða ESB). Árið 1997 hóf ESB endurskoðun á Brusselsamningnum og Lúganósamningnum með það að markmiði að yfirfara samningana og samræma þá. Var af því tilefni settur á fót vinnuhópur sem í áttu sæti fulltrúar ESB-ríkjanna ásamt fulltrúum þeirra EFTA-ríkja sem aðilar voru að Lúganósamningnum frá 1988. Vinnuhópurinn komst að sameiginlegri niðurstöðu um endurskoðaða samninga í lok apríl 1999. Við gildistöku Amsterdamsáttmálans þann 1. maí 1999 öðlaðist ESB nýjar heimildir varðandi lagalegt samstarf á sviði einkamála. Kom það í veg fyrir að þau drög sem vinnuhópurinn hafði lagt fram að nýjum samningum yrðu að nýjum Brusselsamningi og nýjum Lúganósamningi en þau urðu hins vegar grundvöllur að reglugerð ráðsins nr. 44/2001/EB um dómsvald, viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum (Brussel I reglugerðin). Reglugerðin öðlaðist gildi í öllum aðildarríkjum ESB, að Danmörku undanskilinni, 1. mars 2002. Þann 19. október 2005 gerðu EB og Danmörk með sér samning sem veitti gildi ákvæðum Brussel I reglugerðarinnar, ásamt síðari breytingum, í samskiptum milli EB-ríkja annars vegar og Danmerkur hins vegar.
    Hinar nýju valdheimildir sem sambandið öðlaðist við gildistöku Amsterdamsáttmálans kölluðu á það álitaefni vegna samningaviðræðna um nýjan Lúganósamning hvort EB sem stofnun gæti eitt verið viðsemjandi EFTA-ríkjanna eða hvort öll aðildarríkin þyrftu einnig að vera aðilar að samningnum. Var af því tilefni óskað eftir áliti dómstóls ESB sem kvað upp úr um það með áliti sínu dags. 7. febrúar 2006 að Evrópubandalagið væri til þess bært að semja fyrir hönd aðildarríkjanna um nýjan Lúganósamning um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum. Í kjölfar álits dómstólsins var haldin ráðstefna í Lúganó frá 10. til 12. október 2006 til þess að leggja lokahönd á samninginn en þar áttu sæti fulltrúar EB, Danmerkur, Íslands, Noregs og Sviss, auk þess sem fjöldi fulltrúa stofnana ESB sem og aðildarríkja fylgdust með. Ekki náðist samkomulag um alla þætti samningsins og áttu frekari samningaviðræður sér stað í kjölfarið. Samningurinn var, eins og áður hefur komið fram, undirritaður í Lúganó þann 30. október 2007.
    Rétt er að geta þess að 1. desember 2009 öðlaðist Lissabonsáttmálinn svokallaði gildi í ríkjum ESB. Með sáttmálanum runnu hinar þrjár stoðir ESB saman í eina og var Evrópubandalagið þannig lagt niður. Evrópusambandið hefur því tekið yfir samningsskuldbindingar Evrópubandalagsins samkvæmt Lúganósamningnum. Með hliðsjón af þessu verður hér eftir vísað til Evrópusambandsins í umfjöllun um samninginn.

3.     Helstu breytingar.
    Efnislega er Lúganósamningurinn frá 2007 að miklu leyti í samræmi við Lúganósamninginn frá 1988. Þó hefur uppsetningu hans að einhverju leyti verið breytt og nýjum ákvæðum og viðaukum verið bætt við. Þá hafa einstök ákvæði sem áður voru í sjálfum samningnum verið flutt í viðauka við samninginn og önnur ákvæði verið færð úr bókunum við eldri samninginn og yfir í samninginn sjálfan. Ein veigamesta breytingin með hinum nýja samningi er sú að Evrópusambandið, sem stofnun, er nú aðili að samningnum í stað einstakra aðildarríkja áður. Samningurinn tekur því til ellefu sambandsríkja til viðbótar en Tékkland, Kýpur, Slóvakía, Slóvenía, Ungverjaland, Malta, Eistland, Lettland, Litháen, Búlgaría og Rúmenía voru ekki aðilar að Lúganósamningnum frá 1988. Endurskoðun á efnisákvæðum samningsins beindist einkum að reglum um varnarþing og lögsögu dómstóla yfir neytendasamningum. Aðrar mikilvægar breytingar voru gerðar á eftirfarandi sviðum: sérstakri lögsögu í félagarétti, litis pendens, og sameiningu skyldra dómsmála, svo og í málum er varða fullnustu dóma í öðru landi ( exequatur). Aðrar óverulegri breytingar voru gerðar á eftirfarandi sviðum: varnarþingssamningum, ráðningarsamningum, lögsögu í skaðabótamálum, samlagsaðild, málshöfðun í ábyrgðarmálum, málshöfðun vegna brota á ábyrgðarskilmálum, málum sem höfðuð eru til að koma í veg fyrir fullnustu dóms, tryggingarmálum, fasteignavarnarþingi og hugverkamálum, svo og rétti til að taka til varna samkvæmt efni máls án þess að réttur glatist þar með til þess að vefengja lögsögu.

4.     Efnisatriði Lúganósamningsins.
    Lúganósamningurinn skiptist í átta hluta sem aftur greinast í kafla og einstök ákvæði. Ákvæðin eru 79 talsins.
    Í I. hluta samningsins (1. gr.) er fjallað um gildissvið hans. Í II. hluta (2.–31. gr.) er fjallað um varnarþing. Í III. hluta (32.–56. gr.) er fjallað um viðurkenningu og fullnustu og í IV. hluta (57. og 58. gr.) um opinberlega staðfest skjöl og réttarsáttir. Þá fylgir í kjölfarið V. hluti (59.–62. gr.) sem fjallar um almenn ákvæði og VI. hluti (63. gr.) sem hefur að geyma bráðabirgðaákvæði. Síðan kemur VII. hluti (64.–68. gr.) sem fjallar um afstöðu til reglugerðar ráðsins nr. 44/2001/EB og annarra samninga og loks VIII. hluti (69.–79. gr.) sem hefur að geyma lokaákvæði.
    Þrjár bókanir fylgja samningnum og teljast þær óaðskiljanlegur hluti hans, sbr. 75. gr. Í bókun nr. 1 er nánar fjallað um tiltekin atriði varðandi varnarþing, málsmeðferð og fullnustu (I.–IV. gr.). Í bókun nr. 2 er fjallað um samræmda túlkun samningsins og um fastanefndina (1.–5. gr.) og í bókun nr. 3 er fjallað um beitingu 67. gr. samningsins.
    Loks fylgja samningnum níu viðaukar sem einnig teljast óaðskiljanlegur hluti hans, sbr. 75. gr. Viðaukar I–IV og viðauki VII hafa að geyma upplýsingar í tengslum við beitingu samningsins. Í viðaukum V og VI er að finna þau stöðluðu eyðublöð sem vísað er til annars vegar í 54. og 58. gr. og hins vegar í 4. mgr. 57. gr. samningsins. Í viðauka VIII er að finna yfirlit yfir jafngild tungumál sem vísað er til í 79. gr. og í viðauka IX er fjallað um beitingu II. gr. í bókun nr. 1.
    Ákvæði Lúganósamningsins frá 2007 eru að mestu leyti efnislega samhljóða samsvarandi ákvæðum Brussel I reglugerðarinnar og er tölusetning einstakra ákvæða að sama skapi að meginstefnu sú hin sama. Þó eiga aðfaraorð samningsins, 69.–79. gr., ákvæði I., III. og IV. gr. bókunar nr. 1, bókanir nr. 2 og 3, svo og viðauki VIII, sér ekki samsvörun í Brussel I reglugerðinni.

4.1.     Gildissvið (1. gr.).
    Lúganósamningurinn gildir einungis á sviði einkamála, þar á meðal verslunarmála, án tillits til þess hvaða dómstóll fer með mál. Það leiðir af efni samningsins að hann gildir einungis um þau einkamál sem hafa á sér vissan alþjóðlegan blæ en ekki mál þar sem um er að ræða hreina innlenda hagsmuni. Opinber mál falla ekki undir samninginn. Samningurinn gildir ekki um skattamál, tollamál og stjórnsýslumál. Sérstaklega eru undanskilin mál sem varða persónulega réttarstöðu manna, rétthæfi og gerhæfi, svo og fjárhagsleg réttindi sem eiga rætur að rekja til hjúskapar eða erfða. Gjaldþrotamál eru undanþegin, svo og mál í sambandi við nauðasamninga og mál varðandi almannatryggingar og gerðardóma. Hvað þessi atriði varðar er ákvæðið samhljóða 1. gr. Lúganósamningsins frá 1988.
    Ákvæði 3. mgr. 1. gr. er nýmæli í samningnum en þar er kveðið á um það að með hugtakinu „ríki bundið af þessum samningi“ sé átt við sérhvert ríki sem aðili er að samningnum, aðildarríki Evrópusambandsins eða Evrópusambandið sjálft. Nauðsynlegt var talið að kveða sérstaklega á um þetta atriði þar sem Evrópusambandið sem slíkt er orðið aðili að samningnum en á sama tíma skal hann gilda fyrir einstök aðildarríki þess og þá dómstóla sem í aðildarríkjunum eru.

4.2.     Varnarþing.
4.2.1.     Almennar reglur um varnarþing (2.–4. gr.).
    Ákvæði nýja Lúganósamningsins sem mæla fyrir um almennar reglur um varnarþing eru að mestu leyti sama efnis og í Lúganósamningnum frá 1988. Þannig er það enn meginregla samkvæmt samningnum að menn skuli lögsækja á heimilisvarnarþingi sínu, sbr. 2. gr., og skiptir þá ríkisfang ekki máli í því sambandi. Það fer svo eftir almennum réttarfarsreglum í hverju samningsríki fyrir hvaða dómstóli innan þeirra mál skal höfðað nema samningurinn kveði á um annað.
    Einungis er heimilt að lögsækja einstakling utan þess samningsríkis þar sem hann á heimili, eftir þeim varnarþingsreglum sem kveðið er á um í 2.–7. kafla II. hluta samningsins, sbr. 1. mgr. 3. gr. Varnarþingsreglurnar eru þannig tæmandi taldar í samningnum og leiða því m.a. til þess að engum íslenskum reglum um alþjóðlegt varnarþing má lengur beita gegn íbúum samningsríkjanna í málum sem falla undir samninginn og er það raunar sérstaklega tekið fram í 3. gr. Sem dæmi má nefna að 4. mgr. 32. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, verður ekki beitt gegn mönnum sem heimili eiga í aðildarríki samningsins eftir lögtöku hans, sbr. 2. mgr. 3. gr. og viðauka I.
    Allar venjulegar alþjóðlegar varnarþingsreglur gilda hins vegar samkvæmt Lúganósamningnum gagnvart þeim sem ekki eru búsettir í samningsríki, þar á meðal þær alþjóðlegu varnarþingsreglur sem í gildi eru skv. 4. gr. hans. Þetta hefur þá þýðingu að dómur, sem kveðinn er upp í samningsríki á slíkum forsendum, hefur full réttaráhrif í hinum samningsríkjunum.

4.2.2.     Sérstök varnarþing (5.–7. gr.).
    Með sérstöku varnarþingi er átt við að í nánar tilteknum tilvikum megi lögsækja mann í einu samningsríki þótt hann sé búsettur í öðru samningsríki. Meginreglan um heimilisvarnarþing skv. 2. gr. byggist á tengslum varnaraðila við tiltekið ríki en reglurnar um sérstök varnarþing byggjast hins vegar á tengslum tiltekins sakarefnis við það ríki. Rétt er að taka fram að sérstöku varnarþingin eru valkvæð þannig að sóknaraðili getur að jafnaði valið hvort hann lögsækir varnaraðila á heimilisvarnarþingi skv. 2. gr. eða á sérstöku varnarþingi.
    Efnislega eru ákvæði 5. gr. Lúganósamningsins frá 2007 að mestu í samræmi við ákvæði Lúganósamningsins frá 1988. Þó hafa nokkrar breytingar átt sér stað. Þannig hafa reglur um varnarþing í vinnusamningnum, sem kveðið var á um í 1. mgr. 5. gr., verið teknar út úr ákvæðinu og er sérstaklega fjallað um þær í 18.–21. gr. samningsins. Ákvæði 1. mgr. hefur jafnframt verið skýrt að því er varðar hvar efndavarnarþing vegna lausafjárkaupa og þjónustu skuli vera (b-liður 1. mgr. 5. gr.) en samkvæmt ákvæðinu skal sá staður þar sem skuldbindingu skal efna vera talinn sá staður í samningsríki þar sem samkvæmt samningi hlutur var afhentur eða skyldi afhenda eða þjónusta var veitt eða hana skyldi veita, nema um annað hafi verið samið. Var 5. gr. eldri Lúganósamningsins óskýr hvað þetta varðar.
    Í 2. mgr. 5. gr. er fjallað um framfærsluvarnarþing en þar er mælt fyrir um að mál út af framfærsluskyldu, hvort sem er með barni eða maka, megi sækja fyrir dómstóli þess staðar þar sem sá sem rétt á til framfærslu á heimili eða dvelst að jafnaði. Hér á landi er venjulega ekki farið í dómsmál út af kröfum af þessu tagi heldur eru þær úrskurðaðar af stjórnvöldum og eru aðfararhæfar. Skv. 62. gr. samningsins telst slíkur úrskurður jafngildur dómi og verður við það jafnræði milli samningsríkja í þessu tilliti.
    Í málum sem varða skaðabætur utan samninga er heimilt að höfða mál þar sem tjónsatburður átti sér stað (brotavarnarþing), sbr. 3. mgr. 5. gr. Sú breyting átti sér stað á ákvæðinu með Lúganósamningnum frá 2007 að jafnframt er heimilt að höfða mál fyrir dómstóli þess ríkis þar sem tjónsatburður getur orðið.
    Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á orðalagi 4.–7. mgr. 5. gr. en efnislega eru ákvæðin í samræmi við ákvæði Lúganósamningsins frá 1988. Þetta á t.d. við um varnarþing í refsimáli skv. 4. mgr. 5. gr. og varnarþing fjárvörslusjóðs skv. 6. mgr. 5. gr.
    Í 1. mgr. 6. gr. samningsins er áfram gert ráð fyrir aðilasamlagsvarnarþingi. Í því felst að ef lögsækja má marga menn búsetta í samningsríkjunum má höfða mál fyrir dómstóli á heimilisvarnarþingi einhvers þeirra. Sú breyting hefur þó verið gerð á ákvæðinu að gerð er krafa um að kröfurnar séu svo tengdar innbyrðis að æskilegt sé að fara með þær og dæma sameiginlega til að koma í veg fyrir hættu á því að ósamrýmanlegir dómar yrðu kveðnir upp, ef dæmt væri um hverja þeirra sérstaklega.
    Ákvæði 2.–4. mgr. 6. gr. samningsins eru samhljóða ákvæðum 2.–4. mgr. 6. gr. Lúganósamningsins frá 1988. Í 2. mgr. 6. gr. er mælt fyrir um varnarþing þriðja manns, í 3. mgr. um gagnkröfuvarnarþing og í 4. mgr. um varnarþing varðandi réttindi yfir fasteign.
    Í 7. gr. er kveðið á um að ef dómstóll í samningsríki er talinn hafa lögsögu til þess að skera úr um ábyrgð sem stafar af notkun eða rekstri skips hafi sá dómstóll einnig lögsögu í málum um takmörkun þeirrar ábyrgðar.

4.2.3.     Varnarþing í vátryggingarmálum (8.–14. gr.).
    Í vátryggingamálum gilda sérstakar ófrávíkjanlegar varnarþingsreglur, sbr. 8. gr. samningsins, en markmiðið með þessum reglum er að vernda vátryggingartaka sem almennt er talinn hafa verri stöðu við samningsgerð en vátryggjandi.
    Er 9. gr. samningsins að mestu samhljóða 8. gr. Lúganósamningsins frá 1988 en þó er gengið nokkuð lengra í b-lið 1. mgr. 9. gr. en áður var gert. Meginreglan skv. a-lið 1. mgr. 9. gr. er hin sama og áður, þ.e. að vátryggjanda má lögsækja fyrir dómstóli í því ríki þar sem hann á heimili. Í b-lið er vátryggingartaka, vátryggðum eða öðrum rétthafa heimilað að höfða mál fyrir dómstóli þar sem hann sjálfur á heimili, en slíkt átti aðeins við um vátryggingartaka áður. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að reki vátryggjandi útibú, umboðsskrifstofu eða aðra starfsemi í öðru ríki, sem bundið er af samningnum, er heimilt að líta svo á að hann eigi heimili þar hafi vátryggingin verið tekin þar, sbr. 2. mgr. 9. gr. Í málum vegna ábyrgðartrygginga eða vátrygginga á fasteignum má einnig lögsækja vátryggjanda fyrir dómstóli þess staðar þar sem tjónsatburður varð, sbr. 10. gr. samningsins. Skv. 12. gr. samningsins má vátryggjandi sjálfur hins vegar að jafnaði aðeins höfða mál fyrir dómstóli í því samningsríki þar sem varnaraðili á heimili.
    Í 13. gr. samningsins er kveðið á um að í nánar tilteknum tilvikum sé heimilt að víkja frá varnarþingsreglunum með samningi og eru skilyrði þess sett fram í ákvæðinu sem er samhljóða 12. gr. Lúganósamningsins frá 1988. Er í ákvæðinu m.a. fjallað um vátryggingartaka sem ekki á heima í aðildarríki og vátryggingarsamninga sem taka til eins eða fleiri áhættuflokka sem nefndir eru í 14. gr. en í því ákvæði er fjallað um sérstaka áhættuflokka sem varða skip og loftför. Ástæða þess að heimilt er að víkja frá varnarþingsreglum í þessu sambandi er sú að slíkir samningar eru að jafnaði gerðir milli hliðsettra aðila. Er það metið svo að í þessum tilvikum sé ekki fyrir hendi mismunur á samningsaðstöðu aðilanna líkt og ef um væri að ræða hefðbundið samningssamband milli vátryggjanda og vátryggingartaka.

4.2.4.     Varnarþing í neytendamálum (15.–17. gr.).
    Markmið með varnarþingsreglu 15.–17. gr. samningsins er svipað og um varnarþing í vátryggingarmálum, þ.e. að vernda þann aðila sem ætla má að hafi almennt verri stöðu við samningsgerð. Um neytendamál er að ræða þegar menn gera vissar tegundir samninga án þess að þeir séu liður í atvinnu þeirra. Gildissvið samningsins er með breytingunum frá 2007 víðara en áður var að því er varðar neytendamál. Í 15. gr. samningsins er fjallað um það hvaða samningstegundir falla undir þessar sérstöku varnarþingsreglur og eru þær eftirfarandi:
     a)      samningar um lausafjárkaup með afborgunarskilmálum,
     b)      samningar um lán sem endurgreiða skal með afborgunum, eða annars konar lánafyrirgreiðslu, til að fjármagna kaup á lausafé, og
     c)      samningar sem gerðir hafa verið við mann sem stundar verslunar- eða atvinnustarfsemi í ríki þar sem neytandinn á heimili, eða með einhverjum hætti beinir slíkri starfsemi til þess ríkis, enda sé samningurinn í tengslum við atvinnustarfsemi viðkomandi.
Skv. 13. gr. Lúganósamningsins frá 1988 giltu varnarþingsreglurnar einungis um tilteknar tegundir samninga en af c-lið 15. gr. hins nýja samnings má sjá að honum er ætlað að gilda um alla neytendasamninga. Frá þessu eru þó tvær undantekningar: annars vegar í málum sem varða vátryggingasamninga en í slíkum tilvikum ræðst það af ákvæðum 8.–14. gr. samningsins hvar höfða skal mál, sbr. umfjöllun í kafla 4.2.3, og hins vegar í málum þar sem efni samningsins fellur undir ákvæði 22. gr. um skylduvarnarþing og ber þá að höfða mál á því varnarþingi sem þar er mælt fyrir um.
    Reglan er sú að neytandi getur höfðað mál gegn samningsaðila sínum annaðhvort fyrir dómstóli í því samningsríki þar sem seljandi er til heimilis eða þar sem neytandinn sjálfur á heima, sbr. 1. mgr. 16. gr. samningsins. Seljandi getur á hinn bóginn aðeins höfðað mál gegn neytanda þar sem neytandinn á heima, sbr. 2. mgr. 16. gr. Ákvæði 1. og 2. mgr. 16. gr. hafa ekki áhrif á rétt til að koma að gagnkröfu fyrir dómstóli þar sem aðalkrafan er til meðferðar, sbr. 3. mgr. 16. gr.
    Í 17. gr. samningsins er kveðið á um að víkja megi frá þessum varnarþingsreglum með samningi en einungis ef einhverju þessara skilyrða er fullnægt:
     1.      að samningurinn sé gerður eftir að ágreiningur er risinn,
     2.      að samningurinn heimili neytanda að höfða mál fyrir öðrum dómstólum en þeim sem getið var að framan, eða
     3.      að samningurinn hafi verið gerður af neytanda og samningsaðila hans sem, þegar samningurinn var gerður, áttu báðir heimili eða dvöldust að jafnaði í sama samningsríki, og samningurinn veitir dómstólum þess ríkis dómsvald, enda sé slíkur samningur ekki andstæður lögum þess ríkis.

4.2.5.     Varnarþing í vinnusamningum einstaklinga (18.–21. gr.).
    Með Lúganósamningnum frá 2007 voru varnarþingsreglur í vinnusamningum einstaklinga settar í sérstakan kafla þar sem þær voru útfærðar með nánari hætti.
    Í 2. mgr. 18. gr. segir að geri launþegi vinnusamning við vinnuveitanda sem á ekki heimili í aðildarríki, en hafi þar útibú, umboðsskrifstofu eða svipaða starfsemi skuli, vegna ágreinings sem stafi af rekstri útibúsins, umboðsskrifstofunnar eða starfseminnar, líta svo á að vinnuveitandinn eigi heimili í aðildarríkinu.
    Samkvæmt 19. gr. samningsins getur launþegi valið um að höfða mál gegn vinnuveitanda sínum fyrir dómstólum í ríki þar sem vinnuveitandinn á heimili, þar sem starfsemin er eða þar sem launþeginn starfar að jafnaði eða starfaði síðast. Vinnuveitandinn getur hins vegar að jafnaði einungis höfðað mál gegn launþega sínum þar sem launþeginn á heima, sbr. 20. gr. samningsins.
    Heimilt er að víkja frá varnarþingsreglunum með samningi sem gerður er eftir að ágreiningur er risinn eða heimilar launþeganum að höfða mál fyrir öðrum dómstólum en þeim sem getið er um í kaflanum, sbr. 21. gr. samningsins.

4.2.6.     Skylduvarnarþing (22. gr.).
    Í sumum tilvikum býður Lúganósamningurinn aðeins upp á eitt tiltekið varnarþing í samningsríki sem skylt er að nota við málshöfðun. Ekki má víkja frá þessu með samningi eða á annan hátt. Ef mál er höfðað fyrir dómstóli í samningsríki í bága við slíkt ákvæði ber dómara í því ríki að vísa máli frá dómi af sjálfsdáðum. Gangi dómur andstætt þessu engu að síður nýtur hann hvorki viðurkenningar né aðfararhæfis í öðrum samningsríkjum.
    Rökin fyrir því að mæla fyrir um sérstök skylduvarnarþing eru þau að sakarefnið telst svo tengt því samningsríki sem varnarþing er í, að því er tekur til löggjafar í því ríki og annarra atriða, að það væri óæskilegt eða óeðlilegt að dómsvald um það væri í öðru samningsríki. Ákvæðin um skylduvarnarþing gilda án tillits til þess hvort varnaraðili er búsettur í samningsríki eða ekki. Er þetta frábrugðið því sem gildir um sérstök varnarþing. Tilvikin eru að mestu sambærileg þeim sem tilgreind eru í Lúganósamningnum frá 1988 en þó er að finna breytingar í 1. mgr. sem og 4. mgr. 22. gr. Samkvæmt ákvæðinu eru skylduvarnarþingin þessi:
     1.      Mál um réttindi yfir fasteign eða leigu fasteignar má aðeins sækja í því samningsríki sem fasteignin er í. Þó er gerð undantekning varðandi mál um fasteignaleigusamninga sem gerðir eru um tímabundin persónuleg afnot til allt að sex mánaða óslitið. Slík mál verða annaðhvort höfðuð í því ríki þar sem fasteignin er eða þar sem varnaraðili á heimili, enda sé leigutaki persóna og bæði leigutaki og leigusali eiga heimili í sama ríki.
     2.      Mál um gildi og ógildi eða slit félaga eða annarra lögpersóna eða um ákvarðanir fyrirsvarsmanna þeirra skal höfða þar sem lögpersónan hefur aðsetur.
     3.      Mál um gildi skráninga í opinbera skrá skal höfða fyrir dómstólum þess samningsríkis þar sem skráin er haldin.
     4.      Mál, sem varða skráningu eða gildi einkaleyfa, vörumerkja, mynstra eða annarra svipaðra réttinda sem tilkynna þarf eða skrá, skal höfða fyrir dómstólum þess samningsríkis þar sem tilkynning eða beiðni um skráningu hefur verið lögð fram, hefur farið fram eða er talin hafa farið fram samkvæmt gerningi Evrópusambandsins eða ákvæðum þjóðréttarsamnings. Að öðru leyti en því, sem greinir um lögsögu Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar samkvæmt samningi um veitingu evrópskra einkaleyfa sem undirritaður var í München 5. október 1973, hafa dómstólar samningsríkjanna einir dómsvald, án tillits til heimilis, í málum um skráningu eða gildi evrópsks einkaleyfis sem veitt hefur verið því ríki. Gildir það hvort sem ágreiningsefnið er haft uppi til sóknar eða varnar.
     5.      Í málum um fullnustu dóma hafa dómstólar þess samningsríkis einir dómsvald þar sem fullnusta hefur farið fram eða skal fara fram.

4.2.7.     Samningsvarnarþing (23.–24. gr.).
    Aðilum er heimilt að gera samninga um varnarþing fullnægi þeir þeim skilyrðum sem koma fram í 23. gr., en þau eru einkum þessi:
    1)    að minnsta kosti annar samningsaðili eða einn þeirra eigi heimili í samningsríki, sbr. 1. mgr. 23 gr.,
    2)    að aðilar hafi í samningnum vísað til tiltekins dómstóls eða dómstóla í samningsríki, sbr. 1. mgr. 23. gr.,
    3)    að samningurinn sé gerður í tengslum við ágreininginn sem þegar er risinn eða kann að rísa í tengslum við tiltekin lögskipti.
    Að auki má gera ráð fyrir því að það geti talist skilyrði samkvæmt samningnum að réttarsamband aðila hafi alþjóðleg tengsl, þar sem samningurinn tekur einungis til mála sem hafa á sér vissan alþjóðlegan blæ, enda þótt það sé ekki beinlínis tekið fram í 23. gr. samningsins.
    Samningur um varnarþing þarf annaðhvort að vera skriflegur eða munnlegur og staðfestur skriflega eða í formi sem er í samræmi við venjur sem aðilar hafa komið á sín í milli eða vera í samræmi við viðskiptavenjur þegar um milliríkjaviðskipti er að ræða. Í Lúganósamningnum frá 2007 er það sérstaklega tekið fram í þessu sambandi að sérhver rafræn samskipti sem veita varanlega skráningu á samningnum sjálfum skuli teljast jafngild því að þau væru gerð skriflega. Þegar samningur um varnarþing liggur fyrir hefur enginn annar dómstóll dómsvald í málinu. Það skal þó tekið fram að samningur um varnarþing getur ekki haggað ákvæðum samningsins um skylduvarnarþing. Hátti þannig til að enginn eða hvorugur aðila á heimili í samningsríki en geri samt samning um alþjóðlegt varnarþing í því tiltekna ríki leiðir það til þess að dómstólar annarra samningsríkja hafa ekki dómsvald nema sá dómstóll sem samið var um hafi vísað máli frá sér vegna rangs varnarþings. Liggi slík frávísun hins vegar fyrir geta dómstólar annarra samningsríkja dæmt í málinu ef lög viðkomandi ríkis um alþjóðlegt varnarþing standa til þess.
    Rétt er að taka fram að ákvæði 4. mgr. 17. gr. Lúganósamningsins frá 1988 er ekki að finna í Lúganósamningnum frá 2007. Í ákvæðinu var kveðið á um að hefði samningur um varnarþing einungis verið gerður í þágu annars aðilans eða eins þeirra héldi sá aðili rétti sínum til málshöfðunar fyrir hverjum þeim dómstóli öðrum sem hafði dómsvald samkvæmt samningnum. Rökin að baki þessari breytingu eru þau að erfitt þótti að skilgreina hvenær samningur um varnarþing teldist einungis hafa verið gerður í þágu annars aðilans eða eins þeirra.
    Í 24. gr. samningsins er gert ráð fyrir þegjandi samþykki um varnarþing. Í stuttu máli segir að dómstóll í samningsríki hafi dómsvald ef varnaraðili sækir þar dómþing. Þetta gildir þó ekki ef hann mætir til þess að mótmæla varnarþingi. Reglan gildir heldur ekki um skylduvarnarþing skv. 22. gr. Ákvæðið var áður að finna í 18. gr. Lúganósamningsins frá 1988 en það er breytt að því leyti að ekki er lengur gerð krafa um að aðili sem sækir dómþing til að mótmæla varnarþingi geri það einungis í þeim tilgangi líkt og áður var.

4.3.     Könnun á varnarþingi og því hvort mál sé tækt til meðferðar (25.–26. gr.).
    Í 25. gr. samningsins er kveðið á um að þegar dómstóli í samningsríki er falið að skera úr ágreiningi sem í aðalatriðum varðar málefni sem dómstólar annars samningsríkis hafa einir dómsvald um skal hann sjálfkrafa vísa máli frá dómi. Er ákvæðið samhljóða 19. gr. Lúganósamningsins frá 1988. Reglan telst nauðsynleg til þess að unnt sé að framfylgja ákvæðunum í 22. gr. um skylduvarnarþing.
    Í 26. gr. er fjallað um hvernig fara skal með þegar um útivistarmál er að ræða. Ákvæðið er að mestu samhljóða ákvæði 20. gr. Lúganósamningsins frá 1988. Nýmæli er þó að finna í 4. mgr. 26. gr. en það snýr einungis að aðildarríkjum Evrópusambandsins og konungsríkinu Danmörku. Hér skal þess enn fremur getið að hvorki skal viðurkenna né fullnusta útivistardómi ef varnaraðila var ekki réttilega stefnt svo tímanlega að hann gæti undirbúið vörn sína, sbr. 2. mgr. 34. gr. samningsins. Ákvæðið kveður þó á um að það eigi þó ekki við hafi stefndi látið hjá líða að hefja mál til að hnekkja dóminum þegar hann átti þess kost.

4.4.     „Litis pendens“ og skyldar kröfur (27.–30. gr.).
    Engar efnislegar breytingar er að finna í ákvæði 27. gr. samningsins sem fjallar um svokölluð „litis pendens áhrif“ en ákvæðið var áður að finna í 21. gr. Lúganósamningsins frá 1988. Ef krafa, byggð á sömu málsástæðum og milli sömu aðila, er gerð fyrir dómstólum í tveimur eða fleiri samningsríkjum skal hver dómstóll, annar en sá sem mál er fyrst höfðað fyrir, sjálfkrafa fresta meðferð þess þar til fyrir liggur að sá dómstóll hafi dómsvald í málinu. Ef það liggur hins vegar fyrir að sá dómstóll, sem mál er fyrst höfðað fyrir, hafi dómsvald skulu aðrir dómstólar vísa málinu frá dómi í þágu hans.
    Nokkrar breytingar hafa átt sér stað að því er varðar skyldar kröfur, sbr. 28. gr. samningsins. Skv. 1. mgr. er það ekki lengur skilyrði fyrir frestun málsmeðferðar að málin séu til meðferðar á fyrsta dómstigi í samningsríkjunum. Í ákvæðinu segir nú að séu skyldar kröfur gerðar fyrir dómstólum í tveimur eða fleiri samningsríkjum geti hver dómstóll, annar en sá þar sem mál hefur fyrst verið höfðað, frestað málsmeðferð sinni. Skv. 2. mgr. er kveðið skýrar á um að dómstóli á fyrsta dómstigi sé heimilt, eftir kröfu annars aðilans, að vísa frá máli um skyldar kröfur hafi mál þegar verið höfðað fyrir öðrum dómstóli sem hefur lögsögu í málinu. Gerð er krafa um að heimilt sé samkvæmt lögum þess ríkis þar sem dómstóllinn starfar að skyldar kröfur séu sóttar sameiginlega og að sá dómstóll þar sem mál var fyrst höfðað hafi dómsvald um kröfurnar. Engar efnislegar breytingar hafa verið gerðar á 3. mgr. 28. gr. en þar er kveðið á um að skyldar kröfur séu þær kröfur kallaðar sem eru svo tengdar innbyrðis að æskilegt er að dæma um þær sameiginlega til að koma í veg fyrir ósamrýmanlega dóma.
    Ákvæði 30. gr. samningsins er nýmæli og kveður á um hvenær mál telst vera höfðað fyrir dómstóli. Þar segir að mál teljist vera höfðað fyrir dómstóli annars vegar þegar stefna, eða samsvarandi skjal um málshöfðun, hefur verið lögð fram fyrir dómi, enda hafi stefnandi ekki í kjölfarið látið hjá líða að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til þess að láta birta stefnuna fyrir stefnda, og hins vegar, þegar um er að ræða tilvik þar sem nauðsynlegt er að birta stefnu áður en hún er lögð fram fyrir dómi, frá þeim tíma þegar sá sem hefur heimild til að birta stefnu tekur við henni, svo fremi að stefnandi hafi ekki í kjölfarið látið hjá líða að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að leggja stefnu fram fyrir dómi. Ákvæðinu er ætlað að samræma réttarreglur samningsríkjanna að þessu leyti.

4.5.     Bráðabirgðaúrræði, þ.m.t. tryggingarúrræði (31. gr.).
    Ákvæðið er óbreytt frá 24. gr. Lúganósamningsins frá 1988. Í því er kveðið á um að þótt dómstóll í einu samningsríki hafi dómsvald um efni máls megi leita til dómstóla annars samningsríkis um að beita réttarúrræðum til bráðabirgða, þar með töldum tryggingarúrræðum, sem lög þess ríkis kunna að heimila. Ef staðfestingarmál skal fylgja í kjölfarið verður að höfða það en þá yrði fyrst að fresta staðfestingarmálinu uns dómur er fallinn í fyrsta málinu. Fer það eftir almennum reglum samningsins um lögsögu hvaða dómstóll er talinn bær til þess að fjalla um efni máls skv. 31. gr.

4.6.     Viðurkenning og fullnusta dóma (32.–56. gr.).
4.6.1.     Hugtakið dómur.

    Ákvæði 32. gr. samningsins er samhljóða ákvæði 25. gr. Lúganósamningsins frá 1988 en ákvæðið skilgreinir hugtakið „dóm“ samkvæmt samningnum. Rétt er að benda á nýtt ákvæði í 62. gr. samningsins sem skilgreinir hugtakið „dómstól“ á þann hátt að það nái jafnframt til ákvarðana stjórnvalds sem falið hefur verið dómsvald í málum sem falla undir gildissvið samningsins. Í þessu felst að þær ákvarðanir stjórnvalds sem eru fullnustuhæfar teljast til „dóma“ í þessu sambandi. Sem dæmi má nefna að úrskurður sýslumanns um meðlag er aðfararhæfur á grundvelli 1. mgr. 66. gr. barnalaga, nr. 76/2003, og fellur því undir hugtakið dóm í þessu sambandi.

4.6.2.     Viðurkenning dóma (33.–37. gr.).
    Ákvæði 33.–37. gr. samningsins fjalla um skyldu samningsríkjanna til þess að viðurkenna dóma sem kveðnir eru upp í öðrum samningsríkjum og þær undantekningar sem gilda þar um. Meginreglan er sú, líkt og í Lúganósamningnum frá 1988, að dómar, sem kveðnir eru upp í samningsríki, skulu viðurkenndir í öðrum samningsríkjum án nokkurrar sérstakrar málsmeðferðar, sbr. 33. gr. samningsins.
    Stundum verða dómar þó ekki viðurkenndir. Í samningnum eru með tæmandi hætti taldar upp þær málsástæður sem unnt er að setja fram eða nota gegn viðurkenningu dóms sem kveðinn hefur verið upp í öðru samningsríki, sbr. nánar 34. og 35. gr. Öðrum varnarástæðum verður því ekki komið að og er sérstaklega tekið fram í 36. gr. að erlendan dóm megi aldrei endurskoða að efni til.
    Talsverðar breytingar hafa verið gerðar á ákvæði 34. gr. frá því sem áður var en í ákvæðinu er fjallað um þau tilvik þar sem dómur skal ekki viðurkenndur. Ákvæðið var áður að finna í 27. gr. Í 2. mgr. 34. gr. er mælt fyrir um að útivistardómur skuli ekki viðurkenndur hafi varnaraðila ekki verið birt stefna eða samsvarandi skjal svo tímanlega og með þeim hætti að hann gæti undirbúið vörn sína. Jafnframt segir í ákvæðinu að hafi stefndi látið hjá líða að hefja mál til að hnekkja dóminum þegar hann átti þess kost, þá skuli dómurinn viðurkenndur og er það nýmæli. Í ljósi framkvæmdarinnar þótti ljóst að sá möguleiki væri fyrir hendi að skuldari sem ekki væri í góðri trú gæti nýtt eldra ákvæðið sér til hagsbóta. Með dómi sínum þann 14. desember 2006 í máli ASML Netherlands BV gegn Semiconductor Industry Services GmbH (mál nr. C-203/05) tók dómstóll ESB afstöðu til 2. mgr. 34. gr. Brussel I reglugerðarinnar. Þar segir að með kröfunni um að varnaraðili hafi átt þess kost að hefja mál til að hnekkja dómi sé gerð krafa um að varnaraðila hafi verið kunnugt um innihald dómsins þar sem hann hafði verið birtur honum innan hæfilegs tíma svo varnaraðilinn hafi getað undirbúið vörn sína. Ekki væri nægilegt að viðkomandi væri kunnugt um að mál hafi verið höfðað gegn honum og að útivistardómur hafi fallið í kjölfarið. Þá staðfesti dómstólinn einnig að formgalli á birtingu, sem hefði ekki umtalsverð áhrif fyrir varnaraðila, væri ekki nægilegur til þess að koma í veg fyrir að útivistardómur yrði viðurkenndur.
    Í ákvæðinu er ekki lengur að finna skilyrðið um að dómur skuli ekki viðurkenndur, hafi dómstóllinn í dómsríkinu við ákvörðun sína fyrst tekið afstöðu til álitaefnis um persónulega réttarstöðu manna, rétthæfi eða gerhæfi, fjármál hjóna, lögarf eða bréfarf og komist að niðurstöðu sem andstæð er lagaskilareglum í ríki því þar sem viðurkenningar er krafist, nema sama niðurstaða hefði fengist ef beitt hefði verið lagaskilareglum þess ríkis. Regluna var að finna í Lúganósamningnum frá 1988 vegna ólíkra lagavalsreglna í samningsríkjunum í fjölskyldu- og erfðamálum en munurinn er einkum fólginn í því að sum ríki leggja til grundvallar að lög þess ríkis þar sem viðkomandi á heimili skuli gilda á meðan önnur byggja á því að ríkisborgararéttur viðkomandi skuli ráða. Vegna vinnu Evrópusambandsins við að samræma lagavalsreglur aðildarríkja sinna þótti ekki nauðsynlegt að kveða lengur á um þessa undantekningu. Ekki hafa þó verið settar sameiginlegar reglur á þessu sviði innan Evrópusambandsins.
    Í 4. mgr. 34. gr. er fjallað um ósamrýmanlega dóma. Í ákvæðinu er að finna þau nýmæli að dóm skuli ekki viðurkenna ef hann er ósamrýmanlegur dómi um sama sakarefni og milli sömu aðila sem áður hefur verið kveðinn upp í samningsríki. Af þessu leiðir að nú getur varnaraðili einnig borið það fyrir sig að dómur sé ósamrýmanlegur dómi sem kveðinn hefur verið upp í öðru samningsríki en það var ekki unnt áður. Samkvæmt Lúganósamningnum frá 1988 gilti þessi regla einungis um dóma sem ósamrýmanlegir voru dómum sem kveðnir voru upp í þriðja ríki.
    Samkvæmt Lúganósamningnum frá 2007 eru helstu varnarástæður sem unnt er að koma fram með gegn viðurkenningu dóms eftirtaldar:
    1)    ef viðurkenning hans væri bersýnilega andstæð allsherjarreglu í viðkomandi ríki,
    2)    ef um útivistardóm er að ræða og stefna var ekki birt svo tímanlega og með þeim hætti að varnaraðili gæti undirbúið vörn sína, nema stefndi hafi látið hjá líða að hefja mál til að hnekkja dóminum þegar hann átti þess kost,
    3)    ef hann er ósamrýmanlegur dómi, sem áður hefur verið kveðinn upp í öðru samningsríki eða í þriðja ríki, um sama sakarefni og milli sömu aðila, enda fullnægi fyrri dómurinn skilyrðum til viðurkenningar í því ríki þar sem viðurkenningar er krafist, og
    4)    ef ekki hefur verið farið eftir varnarþingsreglum sem gilda í vátryggingarmálum eða neytendamálum eða um skylduvarnarþing. Dómstólar í fullnusturíkinu eru þó bundnir af niðurstöðu dómstóls í dómsríki um málsatvik þegar þeir meta síðastgreint atriði. Einnig felst í umræddum ákvæðum með gagnályktun að dómstólar í síðara ríkinu eru bundnir af úrlausnum dómstóla dómsríkisins um varnarþing í öðrum tilvikum en hér greinir.

4.6.3.     Fullnusta dóma (38.–52. gr.).
    Ákvæði 38.–52. gr. samningsins fjalla um fullnustu dóms í öðru samningsríki en því þar sem hann var kveðinn upp, þar á meðal um heimild varnaraðila til þess að bera ákvörðun um fullnustuhæfi undir dóm. Eru reglur Lúganósamningsins frá 2007 nokkuð einfaldari en í samningnum frá 1988.
    Meginreglan er áfram sú að dómi, sem kveðinn hefur verið upp í samningsríki og fullnægja má í því ríki, skuli fullnægja í öðru samningsríki þegar hann, að beiðni rétts aðila, hefur verið lýstur fullnustuhæfur þar, sbr. 1. mgr. 38. gr. samningsins. Beiðni um þetta skal leggja fram hjá þeim dómstóli eða valdbæru stjórnvaldi sem talið er upp í viðauka II með samningnum, sbr. 1. mgr. 39. gr. Hér á landi skal leggja beiðnina fram hjá héraðsdómi. Heimili þess, sem fullnustu er krafist hjá, eða sá staður þar sem fullnustu er krafist, ræður því hvaða dómstóll fer með mál, sbr. 2. mgr. 39. gr. Ákvæðið er breytt að því leyti að í Lúganósamningnum frá 1988 var gert ráð fyrir því að meginreglan væri sú að heimili þess sem fullnustu var krafist hjá réði því hvaða dómstóll færi með mál. Í samningnum frá 2007 eru framangreindar tvær aðferðir lagðar að jöfnu. Með beiðni skal fara með þeim hætti sem lög mæla fyrir um í því ríki þar sem fullnustu er krafist, sbr. 1. mgr. 40. gr. en ákvæðið er samhljóða ákvæði 33. gr. Lúganósamningsins frá 1988.
    Dómur skal lýstur aðfararhæfur um leið og formskilyrði 53. gr. hafa verið uppfyllt, sbr. 41. gr. samningsins. Ákvæðið er nokkuð breytt frá því sem áður var og hafa reglurnar um þau málskjöl sem lögð skulu fram, skv. 53. gr. samningsins, verið einfaldaðar og samræmdar. Dómstól, sem móttekur fullnustubeiðni, ber ekki skylda til þess að kanna hvort dómurinn uppfylli skilyrði um fullnustu skv. 34. eða 35. gr. en slíkt var skilyrði áður. Slík könnun fer því ekki fram nema varnaraðili beri ákvörðun um fullnustuhæfi undir dóm skv. 5. mgr. 43. gr. samningsins. Rétt er þó að taka fram að undantekningu frá þessu má finna í b-lið 2. mgr. III. gr. bókunar nr. 1 við samninginn að því er varðar ríki sem gerist aðili að samningnum eftir gildistöku hans, sé ríkið hvorki EFTA- né ESB-ríki.
    Dómstóllinn skal tilkynna gerðarbeiðanda um afdrif ákvörðunar um fullnustuhæfi í samræmi við þær reglur sem í ríkinu gilda, sbr. 1. mgr. 42. gr. Skv. 2. mgr. skal birta yfirlýsingu um að dómur sé fullnustuhæfur fyrir þeim sem fullnustu er krafist hjá, ásamt dóminum, ef hann hefur ekki þegar verið birtur honum. Ákvæðið inniheldur ákveðnar breytingar frá því sem var. Skerpt er á málshraðareglunni, sbr. 1. mgr., á þann veg að gera skal gerðarbeiðanda „samstundis kunnugt“ um afdrif ákvörðunar í stað „án tafar“ samkvæmt Lúganósamningnum frá 1988. Þá er ákvæði 2. mgr. nýmæli en regluna mátti leiða af ákvæði 36. gr. eldri samningsins.
    Í 43. gr. samningsins er fjallað um heimild málsaðila til þess að fá ákvörðun um fullnustuhæfi dóms endurskoðaða eða endurupptekna og þær formreglur sem gilda í slíkum málum. Niðurstöðu málskots eða endurupptöku verður einungis hnekkt með málskoti í samræmi við þá upptalningu sem er að finna í viðauka IV við samninginn, sbr. 44. gr. Hafa skal í huga að 44. gr. gefur ekki til kynna með hvaða hætti þetta málskot skuli fara fram. Má draga þá ályktun að málskotið stjórnist af ákvæðum landsréttar í hverju ríki fyrir sig. Á sama hátt lýtur það jafnframt þeim takmörkunum sem um slíkt gilda samkvæmt ákvæðum landsréttar. Við málskot eða endurupptöku er dómstóll þó bundinn af 45. gr. samningsins. Dómur erlends ríkis skal ekki undir neinum kringumstæðum verða endurskoðaður efnislega og ber dómstólnum í því ríki þar sem óskað hefur verið eftir fullnustu að kveða upp úrskurð sinn án tafar.
    Í 46. gr. kemur fram að dómstóll sá sem máli er skotið til skv. 43. eða 44. gr. samningsins geti samkvæmt kröfu varnaraðila stöðvað málaferli ef dómi hefur verið skotið til æðra dóms í ríki gerðarbeiðanda.
    Í 1. mgr. 47. gr. er að finna nýmæli. Í ákvæðinu er því slegið föstu að gerðarbeiðandi geti notfært sér réttarúrræði til bráðabirgða, þ.m.t. tryggingarúrræði, í samræmi við lög þess ríkis sem um ræðir, áður en ákvörðun er tekin um fullnustuhæfi dóms. Beiting þessara úrræðis á einkum við í þremur mismunandi tilvikum:
    1)    þegar svo háttar til sem í 31. gr. samningsins segir, þ.e. þegar mál er til meðferðar í því ríki sem dómsvald hefur um efni málsins,
    2)    þegar beiðni um fullnustuhæfi ákvörðunar er til meðferðar í fullnusturíkinu, sbr. 1. mgr. 47. gr., og
    3)    þegar ákvörðun um fullnustuhæfi hefur verið kveðin upp, þ.e. á meðan ákvörðunin er til meðferðar hjá æðra dómstigi, sbr. 3. mgr. 47. gr.
Ástæðu þessa nýmælis má rekja til ákvæðis 39. gr. Lúganósamningsins frá 1988 þar sem kveðið var á um að á meðan frestur til málskots væri ekki liðinn og þar til niðurstaða af slíku málskoti lægi fyrir mætti ekki gera aðrar ráðstafanir til fullnustu en þær sem miðuðu að því að tryggja fullnustu í eignum þess aðila sem fullnustu væri krafist hjá. Þetta fól í sér að ekki var unnt að grípa til annarra tryggingarráðstafana fyrr en ákvörðun um fullnustuhæfi dóms lá fyrir.
    Engar efnislegar breytingar hafa verið gerðar á ákvæðum 48.–49. og eru þau í meginatriðum samhljóða ákvæðum Lúganósamningsins frá 1988. Ákvæði 50. gr. samningsins er að mestu leyti í samræmi við ákvæði 44. gr. Lúganósamningsins frá 1988 en í ákvæðinu er mælt fyrir um fjárhagslega aðstoð við málarekstur. Sú mikilvæga breyting hefur þó átt sér stað að ákvæðið gildir nú um öll ákvæði 2. kafla III. hluta (38.–52. gr.) en gilti áður einungis um þau ákvæði sem nú er að finna í 39.–42. gr. samningsins. Ákvæðið hefur þannig rýmra gildissvið en áður og tekur jafnframt til málskots til æðra dómstigs. Grundvöllur fjárhagsaðstoðarinnar ræðst af reglum þess ríkis þar sem málið var tekið til efnislegrar meðferðar og verður hann ekki endurskoðaður af fullnusturíkinu. Í 1. mgr. 50. gr. er kveðið á um rétt þess sem notið hefur lögbundinnar fjárhagslegrar aðstoðar við málarekstur eða verið undanþeginn kostnaði eða gjöldum í dómsríkinu til þess að njóta allrar þeirrar aðstoðar eða undanþágna frá kostnaði eða gjöldum sem framast eru veittar með lögum í því ríki þar sem fullnustu er krafist. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að sá sem krefst fullnustu á úrskurði um framfærsluskyldu, sem stjórnvald í Danmörku, Íslandi eða Noregi hefur kveðið upp, geti notið sama hagræðis ef hann leggur fram yfirlýsingu frá danska, íslenska eða norska dómsmálaráðuneytinu um að hann fullnægi efnahagslegum skilyrðum til fjárhagslegrar aðstoðar, að öllu leyti eða að hluta, eða til undanþágu frá kostnaði eða gjöldum. Er 2. mgr. 50. gr. frábrugðin 2. mgr. 44. gr. Lúganósamningsins frá 1988 um sama efni, að því leyti að ákvæðið gildir nú jafnframt um fullnustu á úrskurði um framfærsluskyldu sem stjórnvald í Noregi hefur kveðið upp en áður var einungis getið um Ísland og Danmörk í þessu sambandi.
    Ákvæði 52. gr. samningsins var áður að finna í III. gr. bókunar nr. 1 við Lúganósamninginn frá 1988.

4.6.4.     Sameiginleg ákvæði (53.–56. gr.).
    Ef aðili krefst viðurkenningar eða yfirlýsingar um fullnustuhæfi á dómi þarf hann að leggja fram tiltekin gögn, svo sem kveðið er á um í 53. gr. samningsins. Er þar um að ræða staðfest endurrit dómsins auk vottorðs sem staðfestir að dómurinn sé fullnustuhæfur samkvæmt lögum dómsríkisins. Í 54. gr. samningsins er mælt fyrir um skyldu dómstóls eða þar til bærs stjórnvalds í dómsríki til þess að gefa út slíkt vottorð sé þess óskað af þeim sem hagsmuna á að gæta í málinu. Með þessum breytingum er málsmeðferðin gerð einfaldari, bæði fyrir gerðarbeiðanda sem og þann dómstól sem móttekur fullnustubeiðnina. Áður hvíldi sú skylda á dómstólnum að kanna gildi framlagðra gagna en með breytingunni þarf dómstóllinn einungis að taka til skoðunar staðlað eyðublað, sbr. viðauka V við samninginn, sem gefið er út af valdbæru stjórnvaldi í dómsríkinu.
    Ákvæði 55. gr. er efnislega óbreytt en hefur þó tekið mið af þeim breytingum sem hér að framan greinir. Svarar ákvæðið til 48. gr. Lúganósamningsins frá 1988. Líkt og í Lúganósamningnum frá 1988 er ekki krafist löggildingar eða svipaðra formsatriða að því er varðar þau skjöl sem lögð eru fram í tengslum við viðurkenningu eða fullnustu dóma, né að því er varðar málflutningsumboð, sbr. 56. gr. samningsins.

4.7.     Opinberlega staðfest skjöl og réttarsáttir (57.–58. gr.).
    Í sumum ríkjum hafa opinberir aðilar heimild til að lýsa tiltekin skjöl fullnustuhæf ( acts autentiques). Það sem skilur skjöl þessi frá öðrum aðfararheimildum er að aðfararheimild verður ekki til með atbeina dómara heldur fyrir tilstilli opinbers aðila sem annaðhvort hefur tekið þátt í að semja skjalið eða hefur staðfest falsleysi þess og að efni þess samræmist lögum viðkomandi ríkis. Um þessi skjöl gilda allar sömu reglur og gilda annars um fullnustu dóma samkvæmt samningnum, sbr. umfjöllun í kafla 4.6.3 hér að framan.
    Ákvæði 57. gr. er að mestu efnislega óbreytt frá því sem áður var en þó hefur það verið lagað að nýjum sáttmála. Nýmæli er að finna í 2. málsl. 1. mgr. ákvæðisins þar sem vísað er til 43. og 44. gr. samningsins. Breytingin tekur af allan vafa um það að dómstólum (einnig æðra dómstigi) er heimilt að vísa frá eða fella úr gildi yfirlýsingu um fullnustuhæfi skjals sem hefur verið opinberlega staðfest.
    Jafnframt er að finna nýmæli í 2. mgr. 57. gr. en þar er kveðið á um að líta skuli á ráðstafanir stjórnvalda vegna framfærsluskyldu eða staðfestingar stjórnvalda á þeim sem opinberlega staðfest skjöl í skilningi 1. mgr. Þá er 2. málsl. 4. mgr. 57. gr. nýr og mælir fyrir um útgáfu staðlaðs eyðublaðs sem gerðarbeiðandi skal leggja fram með beiðni um fullnustu. Eyðublað þetta má finna í viðauka VI við samninginn.
    Loks skal getið nýmæla í tengslum við réttarsáttir sem getið er um í 2. málsl. 58. gr. en þar er mælt fyrir um að dómstóll eða valdbært stjórnvald í því ríki þar sem réttarsátt var staðfest skuli gefa út vottorð af því tilefni, eftir kröfu þess sem hefur hagsmuna að gæta, og nota til þess staðlað eyðublað sem finna má í viðauka V við samninginn.

4.8.     Almenn ákvæði (59.–62. gr.).
    Þær breytingar hafa átt sér stað á V. hluta sem fjallar um almenn ákvæði samningsins að í stað tveggja ákvæða áður telur hlutinn nú fjögur ákvæði. Ákvæði 59. gr. er óbreytt frá því sem áður var en orðalag 60. gr. er að nokkru breytt. Ákvæðin mæla fyrir um það hvar einstaklingar og lögaðilar skulu vera taldir eiga heimili. Þá hefur ákvæðum 61. og 62. gr. verið bætt við samninginn en þau var áður að finna í II. og V. gr. a bókunar nr. 1 við samninginn.
    Í 61. gr. samningsins er fjallað um kröfur einkamálaréttarlegs eðlis sem dæmt er um í tengslum við refsimál vegna brots sem framið er af gáleysi. Ákvæðið tengist 4. mgr. 5. gr. þar sem mælt er fyrir um varnarþing í slíkum málum. Í 62. gr. er fjallað um hugtakið „dómstól“, sbr. umfjöllun í kafla 4.6. hér að framan.

4.9.     Bráðabirgðaákvæði (63. gr.).
    Í 63. gr. er að finna bráðabirgðaákvæði en þar er m.a. mælt fyrir um hvernig fara skuli með mál sem hafa verið höfðuð fyrir gildistöku samningsins.
    Þá hefur ákvæði 54. gr. A Lúganósamningsins frá 1998 verið fellt út úr samningnum en ákvæðinu, sem varðaði þau ríki sem ekki höfðu undirritað alþjóðasamninginn um kyrrsetningu hafskipa, var einungis ætlað að gilda í þrjú ár eftir að Lúganósamningurinn frá 1988 öðlaðist gildi. Ísland hefur ekki fullgilt samninginn um kyrrsetningu hafskipa.

4.10.     Afstaða til reglugerðar ráðsins nr. 44/2001/EB og annarra samninga (64.–68. gr.).
    Í 64. gr. er mælt fyrir um sambandið milli Lúganósamningsins frá 2007, Brussel I reglugerðarinnar og samnings milli Evrópusambandsins annars vegar og konungsríkisins Danmerkur hins vegar um dómsvald, viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum, sem undirritaður var í Brussel 19. október 2005. Ákvæðið hefur að geyma reglur um það hvenær eigi að beita Lúganósamningnum og hvenær eigi að beita Brussel I reglugerðinni eða samningnum milli ESB og Danmerkur. Í stuttu máli má segja að Brussel I reglugerðin gildir í málum sem varða eingöngu aðildarríki ESB, samningnum milli ESB og Danmerkur er beitt í málum þegar um er að ræða mál milli aðila í Danmörku annars vegar og aðildarríki ESB hins vegar og Lúganósamningurinn gildir í málum milli aðila í Danmörku eða aðildarríki ESB annars vegar og hins vegar aðila í einhverju þeirra EFTA-ríkja sem aðilar eru að samningnum.
    Í 65. gr. er líkt og áður mælt fyrir um að tilteknir samningar verði óvirkir við gildistöku samningsins. Sú breyting hefur átt sér stað að í stað þess að samningarnir séu taldir upp í ákvæðinu sjálfu, sbr. 55. gr. Lúganósamningsins frá 1988, hefur upptalningin verið færð í VII. viðauka við samninginn en hún er þó ekki tæmandi, sbr. orðalag 2. málsl. 65. gr. Þar segir að samningurinn skuli „sér í lagi“ ganga framar þeim samningnum sem upp eru taldir í viðaukanum. Þá hefur verið bætt við ákvæðið tilvísun til 67. gr. samningsins þar sem m.a. er fjallað um heimild fyrir samningsaðila til að gera samninga sín á millum, svo sem varðandi fullnustu.
    Ákvæði 66. gr. er óbreytt. Í því er mælt fyrir um að samningar þeir sem getið er í VII. viðauka skuli halda gildi sínu á þeim sviðum sem Lúganósamningurinn tekur ekki til og einnig hafa þeir gildi um dóma sem kveðnir eru upp áður en Lúganósamningurinn öðlast gildi.
    Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á 67. gr. samningsins. Í 1. mgr. er mælt fyrir um að samningurinn hafi ekki áhrif á samninga sem binda samningsaðilana og/eða samningsríkin og ákvarða dómsvald eða viðurkenningu eða fullnustu dóma á tilteknum sviðum. Skv. 3. mgr. ákvæðisins skulu dómar, sem kveðnir eru upp í samningsríki af dómstóli sem dómsvald hefur samkvæmt samningi um tiltekið efni, viðurkenndir og þeim fullnægt í öðrum samningsríkjum í samræmi við ákvæði III. hluta samningsins (32.–56. gr.). Í 4. mgr. 67. gr. er að finna nýmæli. Þar er mælt fyrir um að til viðbótar við þær ástæður, sem tilgreindar eru í III. hluta samningsins, megi synja um viðurkenningu eða fullnustu dóms ef ríki sem beiðni er beint til er ekki aðili að samningi um tiltekið efni og sá maður, sem viðurkenningar eða fullnustu er krafist hjá, á heimili í því ríki, eða ef ríkið er aðili að Evrópusambandinu og vegna samninga sem Evrópusambandið þyrfti að gera, í einhverju aðildarríkja sinna, nema dóminn mætti ella viðurkenna eða fullnægja samkvæmt lögum í því ríki sem beiðni er beint til. Er ákvæðinu ætlað að koma í veg fyrir að dómar verði viðurkenndir og þeim fullnustað í Evrópusambandinu ef þeir eru grundvallaðir á reglum sem sambandinu sjálfu hefði borið að semja um en ekki gert.
    Ákvæði 68. gr. samningsins er að miklu leyti í samræmi við ákvæði 59. gr. Lúganósamningsins frá 1988. Ákvæðið mælir fyrir um að samningurinn skuli ekki hafa áhrif á samninga sem samningsríkin gerðu, áður en samningurinn öðlast gildi, um að viðurkenna ekki dóma, sem kveðnir eru upp í öðrum samningsríkjum, gegn varnaraðilum sem eiga heimili eða dveljast að jafnaði í þriðja ríki að nánari skilyrðum uppfylltum.

4.11.     Lokaákvæði (69.–79. gr.).
    Lokaákvæðin hafa m.a. að geyma reglur um undirritun samningsins, staðfestingu, hverjir geti orðið aðilar að honum, hvenær hann taki gildi, gildistíma, endurskoðun og um uppsögn hans. Þessi ákvæði skýra sig að mestu leyti sjálf.
    Af 4. mgr. 69. gr. er ljóst að samningurinn öðlast gildi fyrsta dag sjötta mánaðar eftir þann dag þegar Evrópusambandið og eitt aðildarríkja EFTA hafa afhent fullgildingarskjöl sín. Tók samningurinn gildi þann 1. janúar 2010 að því er varðar Evrópusambandið, Danmörku og Noreg. Gagnvart öðrum ríkjum sem fullgilda samninginn eftir þennan tíma öðlast samningurinn gildi fyrsta dag þriðja mánaðar eftir að það ríki hefur afhent fullgildingarskjal sitt, sbr. 5. mgr. 69. gr.
    Líkt og í Lúganósamningnum frá 1988 er heimild fyrir þau ríki sem síðar gerast aðilar að EFTA að gerast aðilar að samningnum, sem og ríki utan ESB og EFTA að því gefnu að þau uppfylli skilyrði 72. gr. samningsins. Sérstaklega skal bent á að skv. b-lið 1. mgr. 70. gr. er aðild að samningnum jafnframt heimil aðildarríkjum Evrópusambandsins sem koma fram fyrir hönd tiltekinna yfirráðasvæða sem eru ekki í Evrópu en eru hluti af yfirráðasvæði þess aðildarríkis eða aðildarríkið er ábyrgt fyrir utanríkismálum þess yfirráðasvæðis samkvæmt skilyrðum 71. gr. Ákvæði þessa efnis var ekki að finna í Lúganósamningnum frá 1988, þótt talið væri að samningurinn gæti átt við slíkar lendur eða landsvæði.
    Ákvæði 71.–79. gr. þarfnast ekki frekari skýringa en þau eru að mestu í samræmi við lokaákvæði Lúganósamningsins frá 1988. Rétt er þó að taka fram að efni VI. gr. bókunar 1 hefur verið flutt í 77. gr. samningsins.

4.12.     Bókanir.
    Lúganósamningnum fylgja þrjár bókanir sem teljast óaðskiljanlegur hluti hans, sbr. 75. gr.
    Bókun nr. 1 hefur að geyma ákvæði um tiltekin atriði varðandi varnarþing, málsmeðferð og fullnustu dóma. Hefur bókunin verið einfölduð frá því sem áður var og hafa bæst við hana tvö ný ákvæði, í III. og IV. gr. Í III. gr. er m.a. kveðið á um mögulega fyrirvara af hálfu Sviss að því er varðar 2. mgr. 34. gr. samningsins. Þarfnast hvorugt ákvæðið skýringa við.
    Bókun nr. 2 fjallar um samræmda túlkun samningsins og um fastanefndina sem setja skal á stofn og fulltrúar samningsríkjanna eiga sæti í. Er henni ætlað að koma í veg fyrir sundurleita túlkun á ákvæðum samningsins, svo sem framast er unnt. Ákvæði bókunarinnar eru talsvert breytt. Taka breytingarnar m.a. mið af því að Evrópusambandið er nú aðili að samningnum í stað aðildarríkja þess áður. Þannig er dómstól ESB ætlað meira hlutverk nú, m.a. að því er varðar túlkun og önnur atriði sem lúta eingöngu að aðildarríkjum ESB, sbr. 2. mgr. 1. gr. bókunarinnar. Þá ber sérhverjum dómstóli sem beitir samningnum og túlkar hann að taka réttmætt tillit til þeirra meginsjónarmiða sem fram koma í úrlausnum dómstóla samningsríkjanna, sem og úrlausnum dómstóls ESB. Rétt er að benda á að ákvæði 2. gr. gerir ráð fyrir því að samningsríki sem ekki er aðili að ESB sé heimilt að leggja fram greinargerð eða skriflegar athugasemdir fyrir dómstól ESB í tengslum við beiðni um forúrskurð, varðandi spurningu um túlkun á samningnum eða annarra samninga sem vísað er til í 1. mgr. 64. gr. samningsins, til að mynda Brussel I reglugerðina. Í 4. gr. er mælt fyrir um stofnun fastanefndar og hlutverk hennar.
    Bókun nr. 3 fjallar um beitingu 67. gr. samningsins þar sem m.a. er mælt fyrir um að samningurinn hafi ekki áhrif á samninga sem samningsríkin gera við önnur ríki varðandi dómsvald eða viðurkenningu eða fullnustu dóma á tilteknum sviðum. Þessu er m.a. ætlað að tryggja samræmi milli Lúganósamningsins og Brussel I reglugerðarinnar.

4.13.     Viðaukar.
    Lúganósamningnum fylgja níu viðaukar sem teljast óaðskiljanlegur hluti hans, sbr. 75. gr. samningsins. Þeim er hægt að breyta á einfaldari hátt en samningnum og bókununum, sbr. 77. gr.
    Viðaukar I–IV og viðauki VII hafa að geyma upplýsingar í tengslum við beitingu samnings. Í viðaukum V og VI er að finna vottorðin sem vísað er til annars vegar í 54. og 58. gr. og hins vegar í 4. mgr. 57. gr. samningsins. Í viðauka VIII er að finna yfirlit yfir jafngild tungumál sem vísað er til í 79. gr. samningsins og í viðauka IX er fjallað um beitingu II. gr. í bókun nr. 1 við samninginn.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með grein þessari er íslenskum stjórnvöldum veitt heimild til að fullgilda Lúganósamninginn ásamt bókunum hans fyrir Íslands hönd.
    Samningurinn í heild sinni ásamt bókunum og viðaukum sem honum fylgja er prentaður sem fylgiskjal með frumvarpinu, annars vegar íslenski textinn sem verður fylgiskjal með lögunum og hins vegar enski textinn sem er fylgiskjal I með frumvarpinu.

Um 2. gr.


    Ákvæðið veitir ákvæðum Lúganósamningsins og þriggja bókana við hann lagagildi hér á landi. Þeir níu viðaukar sem fylgja samningnum fá hins vegar ekki lagagildi enda er efni þeirra þannig að ekki er ástæða til þess. Þar er m.a. að finna lista yfir dómstóla aðildarríkja samningsins þar sem leggja skal fram beiðni um fullnustu dóms, lista yfir dómstóla aðildarríkjanna þangað sem skjóta má málum í tilefni af beiðni um yfirlýsingu um fullnustuhæfi eða ósk um endurupptöku, yfirlit yfir jafngild tungumál og vottorð sem opinberum aðilum í aðildarríkjunum er ætlað að fylla út í tengslum við einstök mál á grundvelli samningsins.
    Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 68/1995, um Lúganósamninginn um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum, sem sett voru vegna fullgildingar Íslands á Lúganósamningnum frá 1988 er ítarlega farið yfir ástæður þess að þörf er á lögfestingu Lúganósamningsins. Eiga þau rök við enn í dag en helsta ástæðan er sú að mörg ákvæði hans eru með þeim hætti að þau veita einstaklingum og lögaðilum réttindi og leggja á þá skyldur. Slík ákvæði eru til þess fallin að hafa svonefnd bein réttaráhrif. Þá verður jafnframt að hafa í huga, líkt og áður, að Lúganósamningurinn er þjóðréttarsamningur og því háður þeim lagareglum um túlkun sem um það gilda en til að mynda verður við túlkun og beitingu hans að taka tillit til ýmissa erlendra dómsúrlausna og jafnvel skýringarrita sem fyrir liggja um ákvæði hans.
    Þess skal að lokum getið að verði Lúganósamningurinn lögfestur hér á landi ber að líta á hann sem sérlög með hliðsjón af öðrum ákvæðum laga, einkum réttarfarsákvæðum. Þetta þýðir að ákvæði hans skuli skýrð svo að þau gangi framar öðrum ósamrýmanlegum ákvæðum nema atvik leiði ótvírætt til annarrar niðurstöðu.

Um 3. gr.


    Í 61. gr. samningsins segir að ekki þurfi að viðurkenna eða fullnægja dómi sem kveðinn hefur verið upp í samningsríki þegar svo stendur á að dæmt hefur verið um kröfu einkamálaréttarlegs eðlis í refsimáli ef varnaraðili átti þess ekki kost að taka til varna í málinu. Ákvæði 3. gr. frumvarpsins kveður á um að slíkir dómar sem kveðnir kunna að vera upp í öðru samningsríki skuli hvorki hljóta viðurkenningu né þeim fullnægt hér á landi.

Um 4. gr.


    Í 4. mgr. 69. gr. samningsins segir að samningurinn öðlist gildi fyrsta dag sjötta mánaðar eftir þann dag þegar Evrópusambandið og eitt aðildarríkja EFTA hafa afhent fullgildingarskjöl sín. Eins og kemur fram í almennum athugasemdum með frumvarpi þessu hefur því skilyrði nú verið fullnægt. Gagnvart öðrum ríkjum sem fullgilda samninginn eftir þennan tíma öðlast samningurinn gildi fyrsta dag þriðja mánaðar eftir að það ríki hefur afhent fullgildingarskjal sitt, sbr. 5. mgr. 69. gr.
    Þegar fullgildingarskjal Íslands hefur verið afhent mun utanríkisráðuneytið birta auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda um hvenær samningurinn tekur gildi gagnvart Íslandi.

Um 5. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Fylgiskjal I.


CONVENTION
on jurisdiction and the recognition and enforcement of judgments
in civil and commercial matters


Done at Lugano on 30 October 2007


PREAMBLE


THE HIGH CONTRACTING PARTIES TO THIS CONVENTION,

DETERMINED to strengthen in their territories the legal protection of persons therein established,

CONSIDERING that it is necessary for this purpose to determine the international jurisdiction of the courts, to facilitate recognition, and to introduce an expeditious procedure for securing the enforcement of judgments, authentic instruments and court settlements,

AWARE OF the links between them, which have been sanctioned in the economic field by the free trade agreements concluded between the European Community and certain States members of the European Free Trade Association,

TAKING INTO ACCOUNT:
 –    the Brussels Convention of 27 September 1968 on jurisdiction and the enforcement of judgments in civil and commercial matters, as amended by the Accession Conventions under the successive enlargements of the European Union,
 –    the Lugano Convention of 16 September 1988 on jurisdiction and the enforcement of judgments in civil and commercial matters, which extends the application of the rules of the 1968 Brussels Convention to certain States members of the European Free Trade Association,
 –    Council Regulation (EC) No 44/2001 of 22 December 2000 on jurisdiction and the recognition and enforcement of judgments in civil and commercial matters, which has replaced the above-mentioned Brussels Convention,
 –    the Agreement between the European Community and the Kingdom of Denmark on jurisdiction and the recognition and enforcement of judgments in civil and commercial matters, signed at Brussels on 19 October 2005,

PERSUADED that the extension of the principles laid down in Regulation (EC) No 44/2001 to the Contracting Parties to this instrument will strengthen legal and economic cooperation,

DESIRING to ensure as uniform an interpretation as possible of this instrument,

HAVE in this spirit DECIDED to conclude this Convention, and

HAVE AGREED AS FOLLOWS:

TITLE I
SCOPE
ARTICLE 1


1.     This Convention shall apply in civil and commercial matters whatever the nature of the court or tribunal. It shall not extend, in particular, to revenue, customs or administrative matters.
2.     The Convention shall not apply to:
(a)        the status or legal capacity of natural persons, rights in property arising out of a matrimonial relationship, wills and succession;
(b)     bankruptcy, proceedings relating to the winding-up of insolvent companies or other legal persons, judicial arrangements, compositions and analogous proceedings;
(c)     social security;
(d)     arbitration.
3.     In this Convention, the term 'State bound by this Convention' shall mean any State that is a Contracting Party to this Convention or a Member State of the European Community. It may also mean the European Community.

TITLE II
JURISDICTION
SECTION 1
GENERAL PROVISIONS
ARTICLE 2

1.     Subject to the provisions of this Convention, persons domiciled in a State bound by this Convention shall, whatever their nationality, be sued in the courts of that State.
2.     Persons who are not nationals of the State bound by this Convention in which they are domiciled shall be governed by the rules of jurisdiction applicable to nationals of that State.

ARTICLE 3

1.     Persons domiciled in a State bound by this Convention may be sued in the courts of another State bound by this Convention only by virtue of the rules set out in Sections 2 to 7 of this Title.
2.     In particular the rules of national jurisdiction set out in Annex I shall not be applicable as against them.

ARTICLE 4

1.     If the defendant is not domiciled in a State bound by this Convention, the jurisdiction of the courts of each State bound by this Convention shall, subject to the provisions of Articles 22 and 23, be determined by the law of that State.
2.     As against such a defendant, any person domiciled in a State bound by this Convention may, whatever his nationality, avail himself in that State of the rules of jurisdiction there in force, and in particular those specified in Annex I, in the same way as the nationals of that State.

SECTION 2
SPECIAL JURISDICTION
ARTICLE 5

A person domiciled in a State bound by this Convention may, in another State bound by this Convention, be sued:
1.     (a)    in matters relating to a contract, in the courts for the place of performance of the obligation in question;
    (b)    for the purpose of this provision and unless otherwise agreed, the place of performance of the obligation in question shall be:
             –        in the case of the sale of goods, the place in a State bound by this Convention where, under the contract, the goods were delivered or should have been delivered,
             –         in the case of the provision of services, the place in a State bound by this Convention where, under the contract, the services were provided or should have been provided;
    (c)    if subparagraph (b) does not apply then subparagraph (a) applies;
2.     in matters relating to maintenance,
    (a)    in the courts for the place where the maintenance creditor is domiciled or habitually resident; or
    (b)    in the court which, according to its own law, has jurisdiction to entertain proceedings concerning the status of a person if the matter relating to maintenance is ancillary to those proceedings, unless that jurisdiction is based solely on the nationality of one of the parties; or
    (c)    in the court which, according to its own law, has jurisdiction to entertain proceedings concerning parental responsibility, if the matter relating to maintenance is ancillary to those proceedings, unless that jurisdiction is based solely on the nationality of one of the parties;
3.     in matters relating to tort, delict or quasi-delict, in the courts for the place where the harmful event occurred or may occur;
4.     as regards a civil claim for damages or restitution which is based on an act giving rise to criminal proceedings, in the court seised of those proceedings, to the extent that that court has jurisdiction under its own law to entertain civil proceedings;
5.     as regards a dispute arising out of the operations of a branch, agency or other establishment, in the courts for the place in which the branch, agency or other establishment is situated;
6.     as settlor, trustee or beneficiary of a trust created by the operation of a statute, or by a written instrument, or created orally and evidenced in writing, in the courts of the State bound by this Convention in which the trust is domiciled;
7.     as regards a dispute concerning the payment of remuneration claimed in respect of the salvage of a cargo or freight, in the court under the authority of which the cargo or freight in question:
    (a)     has been arrested to secure such payment, or
    (b)     could have been so arrested, but bail or other security has been given,
    provided that this provision shall apply only if it is claimed that the defendant has an interest in the cargo or freight or had such an interest at the time of salvage.

ARTICLE 6

A person domiciled in a State bound by this Convention may also be sued:
1.    where he is one of a number of defendants, in the courts for the place where any one of them is domiciled, provided the claims are so closely connected that it is expedient to hear and determine them together to avoid the risk of irreconcilable judgments resulting from separate proceedings;
2.    as a third party in an action on a warranty or guarantee or in any other third party proceedings, in the court seised of the original proceedings, unless these were instituted solely with the object of removing him from the jurisdiction of the court which would be competent in his case;
3.    on a counter-claim arising from the same contract or facts on which the original claim was based, in the court in which the original claim is pending;
4.    in matters relating to a contract, if the action may be combined with an action against the same defendant in matters relating to rights in rem in immovable property, in the court of the State bound by this Convention in which the property is situated.

ARTICLE 7

Where by virtue of this Convention a court of a State bound by this Convention has jurisdiction in actions relating to liability from the use or operation of a ship, that court, or any other court substituted for this purpose by the internal law of that State, shall also have jurisdiction over claims for limitation of such liability.

SECTION 3
JURISDICTION IN MATTERS RELATING TO INSURANCE
ARTICLE 8

In matters relating to insurance, jurisdiction shall be determined by this Section, without prejudice to Articles 4 and 5(5).

ARTICLE 9

1.     An insurer domiciled in a State bound by this Convention may be sued:
(a)        in the courts of the State where he is domiciled, or
(b)    in another State bound by this Convention, in the case of actions brought by the policyholder, the insured or a beneficiary, in the courts for the place where the plaintiff is domiciled, or
(c)        if he is a co-insurer, in the courts of a State bound by this Convention in which proceedings are brought against the leading insurer.
2.     An insurer who is not domiciled in a State bound by this Convention but has a branch, agency or other establishment in one of the States bound by this Convention shall, in disputes arising out of the operations of the branch, agency or establishment, be deemed to be domiciled in that State.

ARTICLE 10

In respect of liability insurance or insurance of immovable property, the insurer may in addition be sued in the courts for the place where the harmful event occurred. The same applies if movable and immovable property are covered by the same insurance policy and both are adversely affected by the same contingency.

ARTICLE 11

1.     In respect of liability insurance, the insurer may also, if the law of the court permits it, be joined in proceedings which the injured party has brought against the insured.
2.     Articles 8, 9 and 10 shall apply to actions brought by the injured party directly against the insurer, where such direct actions are permitted.
3.     If the law governing such direct actions provides that the policyholder or the insured may be joined as a party to the action, the same court shall have jurisdiction over them.

ARTICLE 12

1.     Without prejudice to Article 11(3), an insurer may bring proceedings only in the courts of the State bound by this Convention in which the defendant is domiciled, irrespective of whether he is the policyholder, the insured or a beneficiary.
2.     The provisions of this Section shall not affect the right to bring a counter-claim in the court in which, in accordance with this Section, the original claim is pending.

ARTICLE 13

The provisions of this Section may be departed from only by an agreement:
1.    which is entered into after the dispute has arisen, or
2.    which allows the policyholder, the insured or a beneficiary to bring proceedings in courts other than those indicated in this Section, or
3.    which is concluded between a policyholder and an insurer, both of whom are at the time of conclusion of the contract domiciled or habitually resident in the same State bound by this Convention, and which has the effect of conferring jurisdiction on the courts of that State even if the harmful event were to occur abroad, provided that such an agreement is not contrary to the law of that State, or
4.    which is concluded with a policyholder who is not domiciled in a State bound by this Convention, except insofar as the insurance is compulsory or relates to immovable property in a State bound by this Convention, or
5.    which relates to a contract of insurance insofar as it covers one or more of the risks set out in Article 14.

ARTICLE 14

The following are the risks referred to in Article 13(5):
1.    any loss of or damage to:
    (a)    seagoing ships, installations situated offshore or on the high seas, or aircraft, arising from perils which relate to their use for commercial purposes;
    (b)    goods in transit, other than passengers' baggage, where the transit consists of or includes carriage by such ships or aircraft;
2.    any liability, other than for bodily injury to passengers or loss of or damage to their baggage:
    (a)    arising out of the use or operation of ships, installations or aircraft as referred to in point 1(a) insofar as, in respect of the latter, the law of the State bound by this Convention in which such aircraft are registered does not prohibit agreements on jurisdiction regarding insurance of such risks;
    (b)    for loss or damage caused by goods in transit as described in point 1(b);
3.    any financial loss connected with the use or operation of ships, installations or aircraft as referred to in point 1(a), in particular loss of freight or charter-hire;
4.    any risk or interest connected with any of those referred to in points 1 to 3;
5.    notwithstanding points 1 to 4, all large risks.

SECTION 4

JURISDICTION OVER CONSUMER CONTRACTS
ARTICLE 15

1.     In matters relating to a contract concluded by a person, the consumer, for a purpose which can be regarded as being outside his trade or profession, jurisdiction shall be determined by this Section, without prejudice to Articles 4 and 5(5), if:
(a)        it is a contract for the sale of goods on instalment credit terms, or
(b)    it is a contract for a loan repayable by instalments, or for any other form of credit, made to finance the sale of goods, or
(c)        in all other cases, the contract has been concluded with a person who pursues commercial or professional activities in the State bound by this Convention of the consumer's domicile or, by any means, directs such activities to that State or to several States including that State, and the contract falls within the scope of such activities.
2.     Where a consumer enters into a contract with a party who is not domiciled in the State bound by this Convention but has a branch, agency or other establishment in one of the States bound by this Convention, that party shall, in disputes arising out of the operations of the branch, agency or establishment, be deemed to be domiciled in that State.
3.     This section shall not apply to a contract of transport other than a contract which, for an inclusive price, provides for a combination of travel and accommodation.

ARTICLE 16

1.     A consumer may bring proceedings against the other party to a contract either in the courts of the State bound by this Convention in which that party is domiciled or in the courts for the place where the consumer is domiciled.
2.     Proceedings may be brought against a consumer by the other party to the contract only in the courts of the State bound by this Convention in which the consumer is domiciled.
3.     This Article shall not affect the right to bring a counter-claim in the court in which, in accordance with this Section, the original claim is pending.

ARTICLE 17

The provisions of this Section may be departed from only by an agreement:
1.    which is entered into after the dispute has arisen; or
2.    which allows the consumer to bring proceedings in courts other than those indicated in this Section; or
3.    which is entered into by the consumer and the other party to the contract, both of whom are at the time of conclusion of the contract domiciled or habitually resident in the same State bound by this Convention, and which confers jurisdiction on the courts of that State, provided that such an agreement is not contrary to the law of that State.

SECTION 5
JURISDICTION OVER INDIVIDUAL CONTRACTS OF EMPLOYMENT
ARTICLE 18

1.     In matters relating to individual contracts of employment, jurisdiction shall be determined by this Section, without prejudice to Articles 4 and 5(5).
2.     Where an employee enters into an individual contract of employment with an employer who is not domiciled in a State bound by this Convention but has a branch, agency or other establishment in one of the States bound by this Convention, the employer shall, in disputes arising out of the operations of the branch, agency or establishment, be deemed to be domiciled in that State.

ARTICLE 19

An employer domiciled in a State bound by this Convention may be sued:
1.    in the courts of the State where he is domiciled; or
2.    in another State bound by this Convention:
    (a)    in the courts for the place where the employee habitually carries out his work or in the courts for the last place where he did so; or
    (b)    if the employee does not or did not habitually carry out his work in any one country, in the courts for the place where the business which engaged the employee is or was situated.

ARTICLE 20

1.     An employer may bring proceedings only in the courts of the State bound by this Convention in which the employee is domiciled.
2.     The provisions of this Section shall not affect the right to bring a counter-claim in the court in which, in accordance with this Section, the original claim is pending.

ARTICLE 21

The provisions of this Section may be departed from only by an agreement on jurisdiction:
1.     which is entered into after the dispute has arisen; or
2.     which allows the employee to bring proceedings in courts other than those indicated in this Section.

SECTION 6

EXCLUSIVE JURISDICTION
ARTICLE 22

The following courts shall have exclusive jurisdiction, regardless of domicile:
1.     in proceedings which have as their object rights in rem in immovable property or tenancies of immovable property, the courts of the State bound by this Convention in which the property is situated.
    However, in proceedings which have as their object tenancies of immovable property concluded for temporary private use for a maximum period of six consecutive months, the courts of the State bound by this Convention in which the defendant is domiciled shall also have jurisdiction, provided that the tenant is a natural person and that the landlord and the tenant are domiciled in the same State bound by this Convention;
2.     in proceedings which have as their object the validity of the constitution, the nullity or the dissolution of companies or other legal persons or associations of natural or legal persons, or of the validity of the decisions of their organs, the courts of the State bound by this Convention in which the company, legal person or association has its seat. In order to determine that seat, the court shall apply its rules of private international law;
3.     in proceedings which have as their object the validity of entries in public registers, the courts of the State bound by this Convention in which the register is kept;
4.     in proceedings concerned with the registration or validity of patents, trade marks, designs, or other similar rights required to be deposited or registered, irrespective of whether the issue is raised by way of an action or as a defence, the courts of the State bound by this Convention in which the deposit or registration has been applied for, has taken place or is, under the terms of a Community instrument or an international convention, deemed to have taken place.
    Without prejudice to the jurisdiction of the European Patent Office under the Convention on the grant of European patents, signed at Munich on 5 October 1973, the courts of each State bound by this Convention shall have exclusive jurisdiction, regardless of domicile, in proceedings concerned with the registration or validity of any European patent granted for that State irrespective of whether the issue is raised by way of an action or as a defence;
5.    in proceedings concerned with the enforcement of judgments, the courts of the State bound by this Convention in which the judgment has been or is to be enforced.

SECTION 7
PROROGATION OF JURISDICTION
ARTICLE 23

1.     If the parties, one or more of whom is domiciled in a State bound by this Convention, have agreed that a court or the courts of a State bound by this Convention are to have jurisdiction to settle any disputes which have arisen or which may arise in connection with a particular legal relationship, that court or those courts shall have jurisdiction. Such jurisdiction shall be exclusive unless the parties have agreed otherwise. Such an agreement conferring jurisdiction shall be either:
(a)        in writing or evidenced in writing, or
(b)    in a form which accords with practices which the parties have established between themselves, or
(c)        in international trade or commerce, in a form which accords with a usage of which the parties are or ought to have been aware and which in such trade or commerce is widely known to, and regularly observed by, parties to contracts of the type involved in the particular trade or commerce concerned.
2.     Any communication by electronic means which provides a durable record of the agreement shall be equivalent to 'writing'.
3.     Where such an agreement is concluded by parties, none of whom is domiciled in a State bound by this Convention, the courts of other States bound by this Convention shall have no jurisdiction over their disputes unless the court or courts chosen have declined jurisdiction.
4.     The court or courts of a State bound by this Convention on which a trust instrument has conferred jurisdiction shall have exclusive jurisdiction in any proceedings brought against a settlor, trustee or beneficiary, if relations between these persons or their rights or obligations under the trust are involved.
5.     Agreements or provisions of a trust instrument conferring jurisdiction shall have no legal force if they are contrary to the provisions of Articles 13, 17 or 21, or if the courts whose jurisdiction they purport to exclude have exclusive jurisdiction by virtue of Article 22.

ARTICLE 24

Apart from jurisdiction derived from other provisions of this Convention, a court of a State bound by this Convention before which a defendant enters an appearance shall have jurisdiction. This rule shall not apply where appearance was entered to contest the jurisdiction, or where another court has exclusive jurisdiction by virtue of Article 22.


SECTION 8
EXAMINATION AS TO JURISDICTION AND ADMISSIBILITY
ARTICLE 25

Where a court of a State bound by this Convention is seised of a claim which is principally concerned with a matter over which the courts of another State bound by this Convention have exclusive jurisdiction by virtue of Article 22, it shall declare of its own motion that it has no jurisdiction.

ARTICLE 26

1.     Where a defendant domiciled in one State bound by this Convention is sued in a court of another State bound by this Convention and does not enter an appearance, the court shall declare of its own motion that it has no jurisdiction unless its jurisdiction is derived from the provisions of this Convention.
2.     The court shall stay the proceedings so long as it is not shown that the defendant has been able to receive the document instituting the proceedings or an equivalent document in sufficient time to enable him to arrange for his defence, or that all necessary steps have been taken to this end.
3.     Instead of the provisions of paragraph 2, Article 15 of the Hague Convention of 15 November 1965 on the Service Abroad of Judicial and Extrajudicial Documents in Civil and Commercial matters shall apply if the document instituting the proceedings or an equivalent document had to be transmitted pursuant to that Convention.
4.     Member States of the European Community bound by Council Regulation (EC) No 1348/2000 of 29 May 2000 or by the Agreement between the European Community and the Kingdom of Denmark on the service of judicial and extrajudicial documents in civil or commercial matters, signed at Brussels on 19 October 2005, shall apply in their mutual relations the provision in Article 19 of that Regulation if the document instituting the proceedings or an equivalent document had to be transmitted pursuant to that Regulation or that Agreement.

SECTION 9
LIS PENDENS – RELATED ACTIONS
ARTICLE 27

1.     Where proceedings involving the same cause of action and between the same parties are brought in the courts of different States bound by this Convention, any court other than the court first seised shall of its own motion stay its proceedings until such time as the jurisdiction of the court first seised is established.
2.     Where the jurisdiction of the court first seised is established, any court other than the court first seised shall decline jurisdiction in favour of that court.

ARTICLE 28

1.     Where related actions are pending in the courts of different States bound by this Convention, any court other than the court first seised may stay its proceedings.
2.     Where these actions are pending at first instance, any court other than the court first seised may also, on the application of one of the parties, decline jurisdiction if the court first seised has jurisdiction over the actions in question and its law permits the consolidation thereof.
3.     For the purposes of this Article, actions are deemed to be related where they are so closely connected that it is expedient to hear and determine them together to avoid the risk of irreconcilable judgments resulting from separate proceedings.

ARTICLE 29

Where actions come within the exclusive jurisdiction of several courts, any court other than the court first seised shall decline jurisdiction in favour of that court.

ARTICLE 30

For the purposes of this Section, a court shall be deemed to be seised:
1.    at the time when the document instituting the proceedings or an equivalent document is lodged with the court, provided that the plaintiff has not subsequently failed to take the steps he was required to take to have service effected on the defendant; or
2.    if the document has to be served before being lodged with the court at the time when it is received by the authority responsible for service, provided that the plaintiff has not subsequently failed to take the steps he was required to take to have the document lodged with the court.

SECTION 10
PROVISIONAL, INCLUDING PROTECTIVE, MEASURES
ARTICLE 31

Application may be made to the courts of a State bound by this Convention for such provisional, including protective, measures as may be available under the law of that State, even if, under this Convention, the courts of another State bound by this Convention have jurisdiction as to the substance of the matter.


TITLE III
RECOGNITION AND ENFORCEMENT
ARTICLE 32

For the purposes of this Convention, 'judgment' means any judgment given by a court or tribunal of a State bound by this Convention, whatever the judgment may be called, including a decree, order, decision or writ of execution, as well as the determination of costs or expenses by an officer of the court.

SECTION 1
RECOGNITION
ARTICLE 33

1.     A judgment given in a State bound by this Convention shall be recognised in the other States bound by this Convention without any special procedure being required.
2.     Any interested party who raises the recognition of a judgment as the principal issue in a dispute may, in accordance with the procedures provided for in Sections 2 and 3 of this Title, apply for a decision that the judgment be recognised.
3.     If the outcome of proceedings in a court of a State bound by this Convention depends on the determination of an incidental question of recognition that court shall have jurisdiction over that question.

ARTICLE 34

A judgment shall not be recognised:
1.    if such recognition is manifestly contrary to public policy in the State in which recognition is sought;
2.    where it was given in default of appearance, if the defendant was not served with the document which instituted the proceedings or with an equivalent document in sufficient time and in such a way as to enable him to arrange for his defence, unless the defendant failed to commence proceedings to challenge the judgment when it was possible for him to do so;
3.    if it is irreconcilable with a judgment given in a dispute between the same parties in the State in which recognition is sought;
4.    if it is irreconcilable with an earlier judgment given in another State bound by this Convention or in a third State involving the same cause of action and between the same parties, provided that the earlier judgment fulfils the conditions necessary for its recognition in the State addressed.

ARTICLE 35

1.     Moreover, a judgment shall not be recognised if it conflicts with Sections 3, 4 or 6 of Title II, or in a case provided for in Article 68. A judgment may furthermore be refused recognition in any case provided for in Article 64(3) or 67(4).
2.     In its examination of the grounds of jurisdiction referred to in the foregoing paragraph, the court or authority applied to shall be bound by the findings of fact on which the court of the State of origin based its jurisdiction.
3.     Subject to the provisions of paragraph 1, the jurisdiction of the court of the State of origin may not be reviewed. The test of public policy referred to in Article 34(1) may not be applied to the rules relating to jurisdiction.

ARTICLE 36

Under no circumstances may a foreign judgment be reviewed as to its substance.

ARTICLE 37

1.     A court of a State bound by this Convention in which recognition is sought of a judgment given in another State bound by this Convention may stay the proceedings if an ordinary appeal against the judgment has been lodged.
2.     A court of a State bound by this Convention in which recognition is sought of a judgment given in Ireland or the United Kingdom may stay the proceedings if enforcement is suspended in the State of origin, by reason of an appeal.

SECTION 2
ENFORCEMENT
ARTICLE 38

1.     A judgment given in a State bound by this Convention and enforceable in that State shall be enforced in another State bound by this Convention when, on the application of any interested party, it has been declared enforceable there.
2.     However, in the United Kingdom, such a judgment shall be enforced in England and Wales, in Scotland, or in Northern Ireland when, on the application of any interested party, it has been registered for enforcement in that part of the United Kingdom.

ARTICLE 39

1.     The application shall be submitted to the court or competent authority indicated in the list in Annex II.
2.     The local jurisdiction shall be determined by reference to the place of domicile of the party against whom enforcement is sought, or to the place of enforcement.

ARTICLE 40

1.     The procedure for making the application shall be governed by the law of the State in which enforcement is sought.
2.     The applicant must give an address for service of process within the area of jurisdiction of the court applied to. However, if the law of the State in which enforcement is sought does not provide for the furnishing of such an address, the applicant shall appoint a representative ad litem.
3.     The documents referred to in Article 53 shall be attached to the application.

ARTICLE 41

The judgment shall be declared enforceable immediately on completion of the formalities in Article 53 without any review under Articles 34 and 35. The party against whom enforcement is sought shall not at this stage of the proceedings be entitled to make any submissions on the application.

ARTICLE 42

1.     The decision on the application for a declaration of enforceability shall forthwith be brought to the notice of the applicant in accordance with the procedure laid down by the law of the State in which enforcement is sought.
2.     The declaration of enforceability shall be served on the party against whom enforcement is sought, accompanied by the judgment, if not already served on that party.

ARTICLE 43

1.     The decision on the application for a declaration of enforceability may be appealed against by either party.
2.     The appeal is to be lodged with the court indicated in the list in Annex III.
3.     The appeal shall be dealt with in accordance with the rules governing procedure in contradictory matters.
4.     If the party against whom enforcement is sought fails to appear before the appellate court in proceedings concerning an appeal brought by the applicant, Article 26(2) to (4) shall apply even where the party against whom enforcement is sought is not domiciled in any of the States bound by this Convention.
5.     An appeal against the declaration of enforceability is to be lodged within one month of service thereof. If the party against whom enforcement is sought is domiciled in a State bound by this Convention other than that in which the declaration of enforceability was given, the time for appealing shall be two months and shall run from the date of service, either on him in person or at his residence. No extension of time may be granted on account of distance.

ARTICLE 44

The judgment given on the appeal may be contested only by the appeal referred to in Annex IV.

ARTICLE 45


1.     The court with which an appeal is lodged under Article 43 or Article 44 shall refuse or revoke a declaration of enforceability only on one of the grounds specified in Articles 34 and 35. It shall give its decision without delay.
2.     Under no circumstances may the foreign judgment be reviewed as to its substance.

ARTICLE 46

1.     The court with which an appeal is lodged under Article 43 or Article 44 may, on the application of the party against whom enforcement is sought, stay the proceedings if an ordinary appeal has been lodged against the judgment in the State of origin or if the time for such an appeal has not yet expired; in the latter case, the court may specify the time within which such an appeal is to be lodged.
2.     Where the judgment was given in Ireland or the United Kingdom, any form of appeal available in the State of origin shall be treated as an ordinary appeal for the purposes of paragraph 1.
3.     The court may also make enforcement conditional on the provision of such security as it shall determine.

ARTICLE 47

1.     When a judgment must be recognised in accordance with this Convention, nothing shall prevent the applicant from availing himself of provisional, including protective, measures in accordance with the law of the State requested without a declaration of enforceability under Article 41 being required.
2.     The declaration of enforceability shall carry with it the power to proceed to any protective measures.
3.     During the time specified for an appeal pursuant to Article 43(5) against the declaration of enforceability and until any such appeal has been determined, no measures of enforcement may be taken other than protective measures against the property of the party against whom enforcement is sought.

ARTICLE 48

1.     Where a foreign judgment has been given in respect of several matters and the declaration of enforceability cannot be given for all of them, the court or competent authority shall give it for one or more of them.
2.     An applicant may request a declaration of enforceability limited to parts of a judgment.

ARTICLE 49

A foreign judgment which orders a periodic payment by way of a penalty shall be enforceable in the State in which enforcement is sought only if the amount of the payment has been finally determined by the courts of the State of origin.

ARTICLE 50

1.     An applicant who in the State of origin has benefited from complete or partial legal aid or exemption from costs or expenses shall be entitled, in the procedure provided for in this Section, to benefit from the most favourable legal aid or the most extensive exemption from costs or expenses provided for by the law of the State addressed.
2.     However, an applicant who requests the enforcement of a decision given by an administrative authority in Denmark, in Iceland or in Norway in respect of maintenance may, in the State addressed, claim the benefits referred to in paragraph 1 if he presents a statement from the Danish, Icelandic, or Norwegian Ministry of Justice to the effect that he fulfils the economic requirements to qualify for the grant of complete or partial legal aid or exemption from costs or expenses.

ARTICLE 51

No security, bond or deposit, however described, shall be required of a party who in one State bound by this Convention, applies for enforcement of a judgment given in another State bound by this Convention on the ground that he is a foreign national or that he is not domiciled or resident in the State in which enforcement is sought.

ARTICLE 52

In proceedings for the issue of a declaration of enforceability, no charge, duty or fee calculated by reference to the value of the matter at issue may be levied in the State in which enforcement is sought.

SECTION 3
COMMON PROVISIONS
ARTICLE 53

1.     A party seeking recognition or applying for a declaration of enforceability shall produce a copy of the judgment which satisfies the conditions necessary to establish its authenticity.
2.     A party applying for a declaration of enforceability shall also produce the certificate referred to in Article 54, without prejudice to Article 55.

ARTICLE 54

The court or competent authority of a State bound by this Convention where a judgment was given shall issue, at the request of any interested party, a certificate using the standard form in Annex V to this Convention.

ARTICLE 55

1.     If the certificate referred to in Article 54 is not produced, the court or competent authority may specify a time for its production or accept an equivalent document or, if it considers that it has sufficient information before it, dispense with its production.
2.     If the court or competent authority so requires, a translation of the documents shall be produced. The translation shall be certified by a person qualified to do so in one of the States bound by this Convention.

ARTICLE 56

No legalisation or other similar formality shall be required in respect of the documents referred to in Article 53 or Article 55(2), or in respect of a document appointing a representative ad litem.

TITLE IV
AUTHENTIC INSTRUMENTS AND COURT SETTLEMENTS
ARTICLE 57

1.     A document which has been formally drawn up or registered as an authentic instrument and is enforceable in one State bound by this Convention shall, in another State bound by this Convention, be declared enforceable there, on application made in accordance with the procedures provided for in Article 38, et seq. The court with which an appeal is lodged under Article 43 or Article 44 shall refuse or revoke a declaration of enforceability only if enforcement of the instrument is manifestly contrary to public policy in the State addressed.
2.     Arrangements relating to maintenance obligations concluded with administrative authorities or authenticated by them shall also be regarded as authentic instruments within the meaning of paragraph 1.
3.     The instrument produced must satisfy the conditions necessary to establish its authenticity in the State of origin.
4.     Section 3 of Title III shall apply as appropriate. The competent authority of a State bound by this Convention where an authentic instrument was drawn up or registered shall issue, at the request of any interested party, a certificate using the standard form in Annex VI to this Convention.

ARTICLE 58

A settlement which has been approved by a court in the course of proceedings and is enforceable in the State bound by this Convention in which it was concluded shall be enforceable in the State addressed under the same conditions as authentic instruments. The court or competent authority of a State bound by this Convention where a court settlement was approved shall issue, at the request of any interested party, a certificate using the standard form in Annex V to this Convention.

TITLE V
GENERAL PROVISIONS
ARTICLE 59

1.     In order to determine whether a party is domiciled in the State bound by this Convention whose courts are seised of a matter, the court shall apply its internal law.
2.     If a party is not domiciled in the State whose courts are seised of the matter, then, in order to determine whether the party is domiciled in another State bound by this Convention, the court shall apply the law of that State.

ARTICLE 60

1.     For the purposes of this Convention, a company or other legal person or association of natural or legal persons is domiciled at the place where it has its:
(a)        statutory seat; or
(b)    central administration; or
(c)        principal place of business.
2.     For the purposes of the United Kingdom and Ireland 'statutory seat' means the registered office or, where there is no such office anywhere, the place of incorporation or, where there is no such place anywhere, the place under the law of which the formation took place.
3.     In order to determine whether a trust is domiciled in the State bound by this Convention whose courts are seised of the matter, the court shall apply its rules of private international law.

ARTICLE 61

Without prejudice to any more favourable provisions of national laws, persons domiciled in a State bound by this Convention who are being prosecuted in the criminal courts of another State bound by this Convention of which they are not nationals for an offence which was not intentionally committed may be defended by persons qualified to do so, even if they do not appear in person. However, the court seised of the matter may order appearance in person; in the case of failure to appear, a judgment given in the civil action without the person concerned having had the opportunity to arrange for his defence need not be recognised or enforced in the other States bound by this Convention.

ARTICLE 62

For the purposes of this Convention, the expression 'court' shall include any authorities designated by a State bound by this Convention as having jurisdiction in the matters falling within the scope of this Convention.

TITLE VI
TRANSITIONAL PROVISIONS
ARTICLE 63

1.     This Convention shall apply only to legal proceedings instituted and to documents formally drawn up or registered as authentic instruments after its entry into force in the State of origin and, where recognition or enforcement of a judgment or authentic instruments is sought, in the State addressed.
2.     However, if the proceedings in the State of origin were instituted before the entry into force of this Convention, judgments given after that date shall be recognised and enforced in accordance with Title III:
(a)        if the proceedings in the State of origin were instituted after the entry into force of the Lugano Convention of 16 September 1988 both in the State of origin and in the State addressed;
(b)    in all other cases, if jurisdiction was founded upon rules which accorded with those provided for either in Title II or in a convention concluded between the State of origin and the State addressed which was in force when the proceedings were instituted.

TITLE VII
RELATIONSHIP TO COUNCIL REGULATION (EC) No 44/2001
AND OTHER INSTRUMENTS
ARTICLE 64

1.     This Convention shall not prejudice the application by the Member States of the European Community of the Council Regulation (EC) No 44/2001 on jurisdiction and the recognition and enforcement of judgments in civil and commercial matters, as well as any amendments thereof, of the Convention on Jurisdiction and the Enforcement of Judgments in Civil and Commercial Matters, signed at Brussels on 27 September 1968, and of the Protocol on interpretation of that Convention by the Court of Justice of the European Communities, signed at Luxembourg on 3 June 1971, as amended by the Conventions of Accession to the said Convention and the said Protocol by the States acceding to the European Communities, as well as of the Agreement between the European Community and the Kingdom of Denmark on jurisdiction and the recognition and enforcement of judgments in civil and commercial matters, signed at Brussels on 19 October 2005.
2.     However, this Convention shall in any event be applied:
(a)        in matters of jurisdiction, where the defendant is domiciled in the territory of a State where this Convention but not an instrument referred to in paragraph 1 of this Article applies, or where Articles 22 or 23 of this Convention confer jurisdiction on the courts of such a State;
(b)    in relation to lis pendens or to related actions as provided for in Articles 27 and 28, when proceedings are instituted in a State where the Convention but not an instrument referred to in paragraph 1 of this Article applies and in a State where this Convention as well as an instrument referred to in paragraph 1 of this Article apply;
(c)        in matters of recognition and enforcement, where either the State of origin or the State addressed is not applying an instrument referred to in paragraph 1 of this Article.
3.     In addition to the grounds provided for in Title III, recognition or enforcement may be refused if the ground of jurisdiction on which the judgment has been based differs from that resulting from this Convention and recognition or enforcement is sought against a party who is domiciled in a State where this Convention but not an instrument referred to in paragraph 1 of this Article applies, unless the judgment may otherwise be recognised or enforced under any rule of law in the State addressed.

ARTICLE 65

Subject to the provisions of Articles 63(2), 66 and 67, this Convention shall, as between the States bound by this Convention, supersede the conventions concluded between two or more of them that cover the same matters as those to which this Convention applies. In particular, the conventions mentioned in Annex VII shall be superseded.

ARTICLE 66

1.     The conventions referred to in Article 65 shall continue to have effect in relation to matters to which this Convention does not apply.
2.     They shall continue to have effect in respect of judgments given and documents formally drawn up or registered as authentic instruments before the entry into force of this Convention.

ARTICLE 67

1.     This Convention shall not affect any conventions by which the Contracting Parties and/or the States bound by this Convention are bound and which in relation to particular matters, govern jurisdiction or the recognition or enforcement of judgments. Without prejudice to obligations resulting from other agreements between certain Contracting Parties, this Convention shall not prevent Contracting Parties from entering into such conventions.
2.     This Convention shall not prevent a court of a State bound by this Convention and by a convention on a particular matter from assuming jurisdiction in accordance with that convention, even where the defendant is domiciled in another State bound by this Convention which is not a party to that convention. The court hearing the action shall, in any event, apply Article 26 of this Convention.
3.     Judgments given in a State bound by this Convention by a court in the exercise of jurisdiction provided for in a convention on a particular matter shall be recognised and enforced in the other States bound by this Convention in accordance with Title III of this Convention.
4.     In addition to the grounds provided for in Title III, recognition or enforcement may be refused if the State addressed is not bound by the convention on a particular matter and the person against whom recognition or enforcement is sought is domiciled in that State, or, if the State addressed is a Member State of the European Community and in respect of conventions which would have to be concluded by the European Community, in any of its Member States, unless the judgment may otherwise be recognised or enforced under any rule of law in the State addressed.
5.     Where a convention on a particular matter to which both the State of origin and the State addressed are parties lays down conditions for the recognition or enforcement of judgments, those conditions shall apply. In any event, the provisions of this Convention which concern the procedures for recognition and enforcement of judgments may be applied.

ARTICLE 68

1.     This Convention shall not affect agreements by which States bound by this Convention undertook, prior to the entry into force of this Convention, not to recognise judgments given in other States bound by this Convention against defendants domiciled or habitually resident in a third State where, in cases provided for in Article 4, the judgment could only be founded on a ground of jurisdiction as specified in Article 3(2). Without prejudice to obligations resulting from other agreements between certain Contracting Parties, this Convention shall not prevent Contracting Parties from entering into such conventions.
2.     However, a Contracting Party may not assume an obligation towards a third State not to recognise a judgment given in another State bound by this Convention by a court basing its jurisdiction on the presence within that State of property belonging to the defendant, or the seizure by the plaintiff of property situated there:
(a)        if the action is brought to assert or declare proprietary or possessory rights in that property, seeks to obtain authority to dispose of it, or arises from another issue relating to such property, or
(b)    if the property constitutes the security for a debt which is the subject-matter of the action.

TITLE VIII
FINAL PROVISIONS
ARTICLE 69

1.     The Convention shall be open for signature by the European Community, Denmark, and States which, at the time of the opening for signature, are Members of the European Free Trade Association.
2.     This Convention shall be subject to ratification by the Signatories. The instruments of ratification shall be deposited with the Swiss Federal Council, which shall act as Depositary of this Convention.
3.     At the time of the ratification, the Contracting Parties may submit declarations in accordance with Articles I, II and III of Protocol 1.
4.     The Convention shall enter into force on the first day of the sixth month following the date on which the European Community and a Member of the European Free Trade Association deposit their instruments of ratification.
5.     The Convention shall enter into force in relation to any other Party on the first day of the third month following the deposit of its instrument of ratification.
6.     Without prejudice to Article 3(3) of Protocol 2, this Convention shall replace the Convention on jurisdiction and the enforcement of judgments in civil and commercial matters done at Lugano on 16 September 1988 as of the date of its entry into force in accordance with paragraphs 4 and 5 above. Any reference to the 1988 Lugano Convention in other instruments shall be understood as a reference to this Convention.
7.     Insofar as the relations between the Member States of the European Community and the non-European territories referred to in Article 70(1)(b) are concerned, this Convention shall replace the Convention on Jurisdiction and the Enforcement of Judgments in Civil and Commercial Matters, signed at Brussels on 27 September 1968, and of the Protocol on interpretation of that Convention by the Court of Justice of the European Communities, signed at Luxembourg on 3 June 1971, as amended by the Conventions of Accession to the said Convention and the said Protocol by the States acceding to the European Communities, as of the date of the entry into force of this Convention with respect to these territories in accordance with Article 73(2).

ARTICLE 70

1.     After entering into force this Convention shall be open for accession by:
(a)        the States which, after the opening of this Convention for signature, become Members of the European Free Trade Association, under the conditions laid down in Article 71;
(b)    Member States of the European Community acting on behalf of certain non-European territories that are part of the territory of that Member State or for whose external relations that Member State is responsible, under the conditions laid down in Article 71;
(c)        any other State, under the conditions laid down in Article 72.
2.     States referred to in paragraph 1, which wish to become a Contracting Party to this Convention, shall address their application to the Depositary. The application, including the information referred to in Articles 71 and 72 shall be accompanied by a translation into English and French.

ARTICLE 71

1.     Any State referred to in Article 70(1)(a) and (b) wishing to become a Contracting Party to this Convention:
(a)        shall communicate the information required for the application of this Convention;
(b)    may submit declarations in accordance with Articles I and III of Protocol 1.
2.     The Depositary shall transmit any information received pursuant to paragraph 1 to the other Contracting Parties prior to the deposit of the instrument of accession by the State concerned.

ARTICLE 72

1.     Any State referred to in Article 70(1)(c) wishing to become a Contracting Party to this Convention:
(a)        shall communicate the information required for the application of this Convention;
(b)    may submit declarations in accordance with Articles I and III of Protocol 1; and
(c)        shall provide the Depositary with information on, in particular:
         (1)        their judicial system, including information on the appointment and independence of judges;
         (2)         their internal law concerning civil procedure and enforcement of judgments; and
         (3)         their private international law relating to civil procedure.
2.     The Depositary shall transmit any information received pursuant to paragraph 1 to the other Contracting Parties prior to inviting the State concerned to accede in accordance with paragraph 3 of this Article.
3.     Without prejudice to paragraph 4, the Depositary shall invite the State concerned to accede only if it has obtained the unanimous agreement of the Contracting Parties. The Contracting Parties shall endeavour to give their consent at the latest within one year after the invitation by the Depositary.
4.     The Convention shall enter into force only in relations between the acceding State and the Contracting Parties which have not made any objections to the accession before the first day of the third month following the deposit of the instrument of accession.

ARTICLE 73

1.     The instruments of accession shall be deposited with the Depositary.
2.     In respect of an acceding State referred to in Article 70, the Convention shall enter into force on the first day of the third month following the deposit of its instrument of accession. As of that moment, the acceding State shall be considered a Contracting Party to the Convention.
3.     Any Contracting Party may submit to the Depositary a text of this Convention in the language or languages of the Contracting Party concerned, which shall be authentic if so agreed by the Contracting Parties in accordance with Article 4 of Protocol 2.

ARTICLE 74

1.     This Convention is concluded for an unlimited period.
2.     Any Contracting Party may, at any time, denounce the Convention by sending a notification to the Depositary.
3.     The denunciation shall take effect at the end of the calendar year following the expiry of a period of six months from the date of receipt by the Depositary of the notification of denunciation.

ARTICLE 75

The following are annexed to this Convention:
 –    a Protocol 1, on certain questions of jurisdiction, procedure and enforcement,
 –    a Protocol 2, on the uniform interpretation of this Convention and on the Standing Committee,
 –    a Protocol 3, on the application of Article 67 of this Convention,
 –    Annexes I through IV and Annex VII, with information related to the application of this Convention,
 –    Annexes V and VI, containing the certificates referred to in Articles 54, 58 and 57 of this Convention,
 –    Annex VIII, containing the authentic languages referred to in Article 79 of this Convention, and
 –    Annex IX, concerning the application of Article II of Protocol 1.
These Protocols and Annexes shall form an integral part of this Convention.

ARTICLE 76

Without prejudice to Article 77, any Contracting Party may request the revision of this Convention.
To that end, the Depositary shall convene the Standing Committee as laid down in Article 4 of Protocol 2.

ARTICLE 77

1.     The Contracting Parties shall communicate to the Depositary the text of any provisions of the laws which amend the lists set out in Annexes I through IV as well as any deletions in or additions to the list set out in Annex VII and the date of their entry into force. Such communication shall be made within reasonable time before the entry into force and be accompanied by a translation into English and French. The Depositary shall adapt the Annexes concerned accordingly, after having consulted the Standing Committee in accordance with Article 4 of Protocol 2. For that purpose, the Contracting Parties shall provide a translation of the adaptations into their languages.
2.     Any amendment of Annexes V through VI and VIII through IX to this Convention shall be adopted by the Standing Committee in accordance with Article 4 of Protocol 2.

ARTICLE 78

1.     The Depositary shall notify the Contracting Parties of:
(a)        the deposit of each instrument of ratification or accession;
(b)    the dates of entry into force of this Convention in respect of the Contracting Parties;
(c)        any declaration received pursuant to Articles I to IV of Protocol 1;
(d)    any communication made pursuant to Article 74(2), Article 77(1) and paragraph 4 of Protocol 3.
2.     The notifications will be accompanied by translations into English and French.

ARTICLE 79

This Convention, drawn up in a single original in the languages listed in Annex VIII, all texts being equally authentic, shall be deposited in the Swiss Federal Archives. The Swiss Federal Council shall transmit a certified copy to each Contracting Party.

IN WITNESS WHEREOF, the undersigned Plenipotentiaries, have signed this Convention.

For the European Community

For the Republic of Iceland

For the Kingdom of Norway

For the Swiss Confederation

For the Kingdom of Denmark

PROTOCOL 1
on certain questions of jurisdiction, procedure and enforcement


THE HIGH CONTRACTING PARTIES HAVE AGREED AS FOLLOWS:

ARTICLE I

1.     Judicial and extrajudicial documents drawn up in one State bound by this Convention which have to be served on persons in another State bound by this Convention shall be transmitted in accordance with the procedures laid down in the conventions and agreements applicable between these States.
2.     Unless the Contracting Party on whose territory service is to take place objects by declaration to the Depositary, such documents may also be sent by the appropriate public officers of the State in which the document has been drawn up directly to the appropriate public officers of the State in which the addressee is to be found. In this case the officer of the State of origin shall send a copy of the document to the officer of the State applied to who is competent to forward it to the addressee. The document shall be forwarded in the manner specified by the law of the State applied to. The forwarding shall be recorded by a certificate sent directly to the officer of the State of origin.
3.     Member States of the European Community bound by Council Regulation (EC) No 1348/2000 of 29 May 2000 or by the Agreement between the European Community and the Kingdom of Denmark on the service of judicial and extrajudicial documents in civil or commercial matters, signed at Brussels on 19 October 2005, shall apply in their mutual relations that Regulation and that Agreement.

ARTICLE II

1.     The jurisdiction specified in Articles 6(2) and 11 in actions on a warranty or guarantee or in any other third party proceedings may not be fully resorted to in the States bound by this Convention referred to in Annex IX. Any person domiciled in another State bound by this Convention may be sued in the courts of these States pursuant to the rules referred to in Annex IX.
2.     At the time of ratification the European Community may declare that proceedings referred to in Articles 6(2) and 11 may not be resorted to in some other Member States and provide information on the rules that shall apply.
3.     Judgments given in the other States bound by this Convention by virtue of Article 6(2) or Article 11 shall be recognised and enforced in the States mentioned in paragraphs 1 and 2 in accordance with Title III. Any effects which judgments given in these States may have on third parties by application of the provisions in paragraphs 1 and 2 shall also be recognised in the other States bound by this Convention.

ARTICLE III

1.     Switzerland reserves the right to declare upon ratification that it will not apply the following part of the provision in Article 34(2):
"unless the defendant failed to commence proceedings to challenge the judgment when it was possible for him to do so'.
If Switzerland makes such declaration, the other Contracting Parties shall apply the same reservation in respect of judgments rendered by the courts of Switzerland.
2.     Contracting Parties may, in respect of judgments rendered in an acceding State referred to in Article 70(1)(c), by declaration reserve:
(a)        the right mentioned in paragraph 1; and
(b)    the right of an authority mentioned in Article 39, notwithstanding the provisions of Article 41, to examine of its own motion whether any of the grounds for refusal of recognition and enforcement of a judgment is present or not.
3.     If a Contracting Party has made such a reservation towards an acceding State as referred to in paragraph 2, this acceding State may by declaration reserve the same right in respect of judgments rendered by the courts of that Contracting Party.
4.     Except for the reservation mentioned in paragraph 1, the declarations are valid for periods of five years and are renewable at the end of such periods. The Contracting Party shall notify a renewal of a declaration referred to under paragraph 2 not later than six months prior to the end of such period. An acceding State may only renew its declaration made under paragraph 3 after renewal of the respective declaration under paragraph 2.

ARTICLE IV

The declarations referred to in this Protocol may be withdrawn at any time by notification to the Depositary. The notification shall be accompanied by a translation into English and French. The Contracting Parties provide for translations into their languages. Any such withdrawal shall take effect as of the first day of the third month following that notification.

PROTOCOL 2
on the uniform interpretation of the convention and on the standing committee


PREAMBLE

THE HIGH CONTRACTING PARTIES,

HAVING REGARD to Article 75 of this Convention,

CONSIDERING the substantial link between this Convention, the 1988 Lugano Convention, and the instruments referred to in Article 64(1) of this Convention,

CONSIDERING that the Court of Justice of the European Communities has jurisdiction to give rulings on the interpretation of the provisions of the instruments referred to in Article 64(1) of this Convention,

CONSIDERING that this Convention becomes part of Community rules and that therefore the Court of Justice of the European Communities has jurisdiction to give rulings on the interpretation of the provisions of this Convention as regards the application by the courts of the Member States of the European Community,

BEING AWARE of the rulings delivered by the Court of Justice of the European Communities on the interpretation of the instruments referred to in Article 64(1) of this Convention up to the time of signature of this Convention, and of the rulings delivered by the courts of the Contracting Parties to the 1988 Lugano Convention on the latter Convention up to the time of signature of this Convention,

CONSIDERING that the parallel revision of both the 1988 Lugano and Brussels Conventions, which led to the conclusion of a revised text for these Conventions, was substantially based on the above mentioned rulings on the 1968 Brussels and the 1988 Lugano Conventions,

CONSIDERING that the revised text of the Brussels Convention has been incorporated, after the entry into force of the Amsterdam Treaty, into Regulation (EC) No 44/2001,

CONSIDERING that this revised text also constituted the basis for the text of this Convention,

DESIRING to prevent, in full deference to the independence of the courts, divergent interpretations and to arrive at an interpretation as uniform as possible of the provisions of this Convention and of those of the Regulation (EC) No 44/2001 which are substantially reproduced in this Convention and of other instruments referred to in Article 64(1) of this Convention,

HAVE AGREED AS FOLLOWS:

ARTICLE 1

1.     Any court applying and interpreting this Convention shall pay due account to the principles laid down by any relevant decision concerning the provision(s) concerned or any similar provision(s) of the 1988 Lugano Convention and the instruments referred to in Article 64(1) of the Convention rendered by the courts of the States bound by this Convention and by the Court of Justice of the European Communities.
2.     For the courts of Member States of the European Community, the obligation laid down in paragraph 1 shall apply without prejudice to their obligations in relation to the Court of Justice of the European Communities resulting from the Treaty establishing the European Community or from the Agreement between the European Community and the Kingdom of Denmark on jurisdiction and the recognition and enforcement of judgments in civil and commercial matters, signed at Brussels on 19 October 2005.

ARTICLE 2

Any State bound by this Convention and which is not a Member State of the European Community is entitled to submit statements of case or written observations, in accordance with Article 23 of the Protocol on the Statute of the Court of Justice of the European Communities, where a court or tribunal of a Member State of the European Community refers to the Court of Justice for a preliminary ruling a question on the interpretation of this Convention or of the instruments referred to in Article 64(1) of this Convention.

ARTICLE 3

1.     The Commission of the European Communities shall set up a system of exchange of information concerning relevant judgments delivered pursuant to this Convention as well as relevant judgments under the 1988 Lugano Convention and the instruments referred to in Article 64(1) of this Convention. This system shall be accessible to the public and contain judgments delivered by the courts of last instance and of the Court of Justice of the European Communities as well as judgments of particular importance which have become final and have been delivered pursuant to this Convention, the 1988 Lugano Convention, and the instruments referred to in Article 64(1) of this Convention. The judgments shall be classified and provided with an abstract.
The system shall comprise the transmission to the Commission by the competent authorities of the States bound by this Convention of judgments as referred to above delivered by the courts of these States.
2.     A selection of cases of particular interest for the proper functioning of the Convention will be made by the Registrar of the Court of Justice of the European Communities, who shall present the selected case law at the meeting of experts in accordance with Article 5 of this Protocol.
3.     Until the European Communities have set up the system pursuant to paragraph 1, the Court of Justice of the European Communities shall maintain the system for the exchange of information established by Protocol 2 of the 1988 Lugano Convention for judgments delivered under this Convention and the 1988 Lugano Convention.

ARTICLE 4

1.     A Standing Committee shall be set up, composed of the representatives of the Contracting Parties.
2.     At the request of a Contracting Party, the Depositary of the Convention shall convene meetings of the Committee for the purpose of:
 –    a consultation on the relationship between this Convention and other international instruments,
 –    a consultation on the application of Article 67, including intended accessions to instruments on particular matters according to Article 67(1), and proposed legislation according to Protocol 3,
 –    the consideration of the accession of new States. In particular, the Committee may ask acceding States referred to in Article 70(1)(c) questions about its judicial system and the implementation of the Convention. The Committee may also consider possible adaptations to the Convention necessary for its application in the acceding States,
 –    the acceptance of new authentic language versions pursuant to Article 73(3) of this Convention and the necessary amendments to Annex VIII,
 –    a consultation on a revision of the Convention pursuant to Article 76,
 –    a consultation on amendments to Annexes I through IV and Annex VII pursuant to Article 77(1),
 –    the adoption of amendments to Annexes V and VI pursuant to Article 77(2),
 –    a withdrawal of the reservations and declarations made by the Contracting Parties pursuant to Protocol 1 and necessary amendments to Annex IX.
3.     The Committee shall establish the procedural rules concerning its functioning and decision-making. These rules shall provide for the possibility to consult and decide by written procedure.

ARTICLE 5

1.     The Depositary may convene, whenever necessary, a meeting of experts to exchange views on the functioning of the Convention, in particular on the development of the case-law and new legislation that may influence the application of the Convention.
2.     This meeting shall be composed of experts of the Contracting Parties, of the States bound by this Convention, of the Court of Justice of the European Communities, and of the European Free Trade Association. It shall be open to any other experts whose presence is deemed appropriate.
3.     Any problems arising on the functioning of the Convention may be referred to the Standing Committee referred to in Article 4 of this Protocol for further action.

PROTOCOL 3
on the application of article 67 of the convention


THE HIGH CONTRACTING PARTIES HAVE AGREED AS FOLLOWS:

1.    For the purposes of the Convention, provisions which, in relation to particular matters, govern jurisdiction or the recognition or enforcement of judgments and which are or will be contained in acts of the institutions of the European Communities shall be treated in the same way as the conventions referred to in Article 67(1).
2.    If one of the Contracting Parties is of the opinion that a provision contained in a proposed act of the institutions of the European Communities is incompatible with the Convention, the Contracting Parties shall promptly consider amending the Convention pursuant to Article 76, without prejudice to the procedure established by Protocol 2.
3.    Where a Contracting Party or several Parties together incorporate some or all of the provisions contained in acts of the institutions of the European Community referred to in paragraph 1 into national law, then these provisions of national law shall be treated in the same way as the conventions referred to in Article 67(1).
4.    The Contracting Parties shall communicate to the Depositary the text of the provisions mentioned in paragraph 3. Such communication shall be accompanied by a translation into English and French.


ANNEX I

The rules of jurisdiction referred to in Article 3(2) and 4(2) of the Convention are the following:
          in Belgium: Articles 5 through 14 of the Law of 16 July 2004 on private international law,
          in Bulgaria: Article 4(1) of the International Private Law Code,
          in the Czech Republic: Article 86 of Act No 99/1963 Coll., the Code of Civil Procedure ( obcanský soudní rád), as amended,
          in Denmark: Article 246(2) and (3) of the Administration of Justice Act ( Lov om rettens pleje),
          in Germany: Article 23 of the code of civil procedure ( Zivilprozeßordnung),
          in Estonia: Paragraph 86 of the Code of Civil Procedure ( tsiviilkohtumenetluse seadustik),
          in Greece: Article 40 of the code of civil procedure ( ....... ......... ......µ...),
          in France: Articles 14 and 15 of the civil code ( Code civil),
          in Iceland: Article 32 paragraph 4 of the Civil Proceedings Act ( Lög um meðferð einkamála nr. 91/1991),
          in Ireland: the rules which enable jurisdiction to be founded on the document instituting the proceedings having been served on the defendant during his temporary presence in Ireland,
          in Italy: Articles 3 and 4 of Act 218 of 31 May 1995,
          in Cyprus: section 21(2) of the Courts of Justice Law No 14 of 1960, as amended,
          in Latvia: section 27 and paragraphs 3, 5, 6 and 9 of section 28 of the Civil Procedure Law ( Civilprocesa likums),
          in Lithuania: Article 31 of the Code of Civil Procedure ( Civilinio proceso kodeksas),
          in Luxembourg: Articles 14 and 15 of the civil code ( Code civil),
          in Hungary: Article 57 of Law Decree No. 13 of 1979 on International Private Law ( a nemzetközi magánjogról szóló 1979. évi 13. törvényereju rendelet),
          in Malta: Articles 742, 743 and 744 of the Code of Organisation and Civil Procedure – Cap. 12 ( Kodici ta' Organizzazzjoni u Procedura Civili – Kap. 12) and Article 549 of the Commercial Code – Cap. 13 ( Kodici tal-kummerc - Kap. 13),
          in Norway: Section 4-3(2) second sentence of the Dispute Act ( tvisteloven),
          in Austria: Article 99 of the Law on court Jurisdiction ( Jurisdiktionsnorm),
          in Poland: Articles 1103 and 1110 of the Code of Civil Procedure ( Kodeks postepowania cywilnego), insofar as they establish jurisdiction on the basis of the defendant's residence in Poland, the possession by the defendant of property in Poland or his entitlement to property rights in Poland, the fact that the object of the dispute is located in Poland and the fact that one of the parties is a Polish citizen,
          in Portugal: Article 65 and Article 65A of the code of civil procedure ( Código de Processo Civil) and Article 11 of the code of labour procedure ( Código de Processo de Trabalho),
          in Romania: Articles 148–157 of Law No. 105/1992 on Private International Law Relations,
          in Slovenia: Article 48(2) of the Private International Law and Procedure Act ( Zakon o mednarodnem zasebnem pravu in postopku) in relation to Article 47(2) of Civil Procedure Act ( Zakon o pravdnem postopku) and Article 58 of the Private International Law and Procedure Act ( Zakon o mednarodnem zasebnem pravu in postopku) in relation to Article 59 of Civil Procedure Act ( Zakon o pravdnem postopku),
          in Slovakia: Articles 37 to 37e of Act No 97/1963 on Private International Law and the Rules of Procedure relating thereto,
          in Switzerland: le for du lieu du séquestre/Gerichtsstand des Arrestortes/foro del luogo del sequestro within the meaning of Article 4 of the loi fédérale sur le droit international privé/Bundesgesetz über das internationale Privatrecht/legge federale sul diritto internazionale privato,
          in Finland: the second, third and fourth sentences of the first paragraph of Section 1 of Chapter 10 of the Code of Judicial Procedure ( oikeudenkäymiskaari/rättegångsbalken),
          in Sweden: the first sentence of the first paragraph of Section 3 of Chapter 10 of the Code of Judicial Procedure ( rättegångsbalken),
          in the United Kingdom: the rules which enable jurisdiction to be founded on:
         (a)    the document instituting the proceedings having been served on the defendant during his temporary presence in the United Kingdom, or
         (b)    the presence within the United Kingdom of property belonging to the defendant, or
         (c)    the seizure by the plaintiff of property situated in the United Kingdom.

ANNEX II

The courts or competent authorities to which the application referred to in Article 39 of the Convention may be submitted are the following:

          in Belgium: the 'tribunal de première instance' or 'rechtbank van eerste aanleg' or 'erstinstanzliches Gericht',
          in Bulgaria: the '........ ....... ...',
          in the Czech Republic: the 'okresní soud' or 'soudní exekutor',
          in Denmark: the 'byret',
          in Germany:
        (a)    the presiding judge of a chamber of the 'Landgericht';
        (b)    a notary in a procedure of declaration of enforceability of an authentic instrument,
          in Estonia: the 'maakohus' (county court),
          in Greece: the '....µ.... ...........',
          in Spain: the 'Juzgado de Primera Instancia',
          in France:
        (a)    the 'greffier en chef du tribunal de grande instance';
        (b)    the 'président de la chambre départementale des notaires' in the case of application for a declaration of enforceability of a notarial authentic instrument,
          in Ireland: the High Court,
          in Iceland:the 'héraðsdómur',
          in Italy: the 'corte d'appello',
          in Cyprus: the '......... ..........' or in the case of a maintenance judgment the '............ ..........',
          in Latvia: the 'rajona (pilsetas) tiesa',
          in Lithuania: the 'Lietuvos apeliacinis teismas',
          in Luxembourg: the presiding judge of the 'tribunal d'arrondissement',
          in Hungary: the 'megyei bíróság székhelyén muködo helyi bíróság', and in Budapest the 'Budai Központi Kerületi Bíróság',
          in Malta: the 'Prim' Awla tal-Qorti Civili' or 'Qorti tal-Magistrati ta' Ghawdex fil- gurisdizzjoni superjuri taghha', or, in the case of a maintenance judgment, the 'Registratur tal-Qorti' on transmission by the 'Ministru responsabbli ghall-Gustizzja',
          in the Netherlands: the 'voorzieningenrechter van de rechtbank',
          in Norway: the 'tingrett',
          in Austria: the 'Bezirksgericht',
          in Poland: the 'sad okregowy',
          in Portugal: the 'Tribunal de Comarca',
          in Romania: the 'Tribunal',
          in Slovenia: the 'okrozno sodisce',
          in Slovakia: the 'okresný súd',
          in Switzerland:
         (a)    in respect of judgments ordering the payment of a sum of money, the 'juge de la mainlevée'/'Rechtsöffnungsrichter'/'giudice competente a pronunciare sul rigetto dell'opposizione', within the framework of the procedure governed by Articles 80 and 81 of the loi fédérale sur la poursuite pour dettes et la faillite/Bundesgesetz über Schuldbetreibung und Konkurs/legge federale sulla esecuzione e sul fallimento;
        (b)    in respect of judgments ordering a performance other than the payment of a sum of money, the 'juge cantonal d'exequatur' compétent/zuständiger 'kantonaler Vollstreckungsrichter'/'giudice cantonale' competente a pronunciare l'exequatur,
          in Finland: the 'käräjäoikeus/tingsrätt',
          in Sweden: the 'Svea hovrätt',
          in the United Kingdom:
        (a)    in England and Wales, the High Court of Justice, or in the case of a maintenance judgment, the Magistrates' Court on transmission by the Secretary of State;
        (b)    in Scotland, the Court of Session, or in the case of a maintenance judgment, the Sheriff Court on transmission by the Secretary of State;
        (c)    in Northern Ireland, the High Court of Justice, or in the case of a maintenance judgment, the Magistrates' Court on transmission by the Secretary of State;
        (d)    in Gibraltar, the Supreme Court of Gibraltar, or in the case of a maintenance judgment, the Magistrates' Court on transmission by the Attorney General of Gibraltar.

ANNEX III

The courts with which appeals referred to in Article 43(2) of the Convention may be lodged are the following:
          in Belgium:
        (a)    as regards appeal by the defendant, the 'tribunal de première instance' or 'rechtbank van eerste aanleg' or 'erstinstanzliche Gericht';
        (b)    as regards appeal by the applicant: the 'cour d'appel' or 'hof van beroep',
          in Bulgaria: the '.......... ... – .....',
          in the Czech Republic: the court of appeal through the district court,
          in Denmark: the 'landsret',
          in the Federal Republic of Germany: the 'Oberlandesgericht',
          in Estonia: the 'ringkonnakohus',
          in Greece: the '.......',
          in Spain: el 'Juzgado de Primera Instancia' que dictó la resolución recurrida para ser resuelto el recurso por la Audiencia Provincial,
          in France:
        (a)    the 'cour d'appel' on decisions allowing the application;
        (b)    the presiding judge of the 'tribunal de grande instance', on decisions rejecting the application,
          in Ireland: the High Court,
          in Iceland: the 'héraðsdómur',
          in Italy: the 'corte d'appello',
          in Cyprus: the '......... ..........' or in the case of a maintenance judgment the '............ ..........',
          in Latvia: the 'Apgabaltiesa' via the 'rajona (pilsetas) tiesa',
          in Lithuania: the 'Lietuvos apeliacinis teismas',
          in Luxembourg: the 'Cour supérieure de justice' sitting as a court of civil appeal,
          in Hungary: the local court situated at the seat of the county court (in Budapest, the Central District Court of Buda); the appeal is adjudicated by the county court (in Budapest, the Capital Court),
          in Malta: the 'Qorti ta' l-Appell' in accordance with the procedure laid down for appeals in the Kodici ta' Organizzazzjoni u Procedura Civili – Kap.12 or in the case of a maintenance judgment by 'citazzjoni' before the 'Prim' Awla tal-Qorti ivili jew il-Qorti tal- Magistrati ta' Ghawdex fil-gurisdizzjoni superjuri taghha'',
          in the Netherlands: the 'rechtbank',
          in Norway: the 'lagmannsrett',
          in Austria: the 'Landesgericht' via the 'Bezirksgericht',
          in Poland: the 'sad apelacyjny' via the 'sad okregowy',
          in Portugal: the 'Tribunal da Relação' is the competent court. The appeals are launched, in accordance with the national law in force, by way of a request addressed to the court which issued the contested decision,
          in Romania: the 'Curte de Apel',
          in Slovenia: the 'okrozno sodisce',
          in Slovakia: the court of appeal through the district court whose decision is being appealed,
          in Switzerland: the 'tribunal cantonal/Kantonsgericht/tribunale cantonale',
          in Finland: the 'hovioikeus/hovrätt',
          in Sweden: the 'Svea hovrätt',
          in the United Kingdom:
        (a)    in England and Wales, the High Court of Justice, or in the case of a maintenance judgment, the Magistrates' Court;
        (b)    in Scotland, the Court of Session, or in the case of a maintenance judgment, the Sheriff Court;
        (c)    in Northern Ireland, the High Court of Justice, or in the case of a maintenance judgment, the Magistrates' Court;
        (d)    in Gibraltar, the Supreme Court of Gibraltar, or in the case of a maintenance judgment, the Magistrates' Court.


ANNEX IV

The appeals which may be lodged pursuant to Article 44 of the Convention are the following:
          in Belgium: Greece, Spain, France, Italy, Luxembourg and in the Netherlands, an appeal in cassation,
          in Bulgaria: '......... .... ......... .......... ...',
          in the Czech Republic: a 'dovolání' and a 'zaloba pro zmatecnost',
          in Denmark: an appeal to the 'højesteret', with the leave of the 'Procesbevillingsnævnet',
          in the Federal Republic of Germany: a 'Rechtsbeschwerde',
          in Estonia: a 'kassatsioonikaebus',
          in Ireland: an appeal on a point of law to the Supreme Court,
          in Iceland: an appeal to the 'Hæstiréttur',
          in Cyprus: an appeal to the Supreme Court,
          in Latvia: an appeal to the 'Augstãkãs tiesas Senãts' via the 'Apgabaltiesa',
          in Lithuania: an appeal to the 'Lietuvos Auksciausiasis Teismas',
          in Hungary: 'felülvizsgálati kérelem',
          in Malta: no further appeal lies to any other court; in the case of a maintenance judgment the 'Qorti ta' l-Appell' in accordance with the procedure laid down for appeal in the 'kodici ta' Organizzazzjoni u Procedura Civili – Kap. 12',
          in Norway: an appeal to the 'Høyesteretts Ankeutvalg' or 'Høyesterett',
          in Austria: a ' Revisionsrekurs',
          in Poland: 'skarga kasacyjna',
          in Portugal: an appeal on a point of law,
          in Romania: a 'contestatie in anulare' or a ' revizuire',
          in Slovenia: an appeal to the 'Vrhovno sodisce Republike Slovenije',
          in Slovakia: the 'dovolanie',
          in Switzerland: a 'recours devant le Tribunal fédéral'/'Beschwerde beim Bundesgericht'/'ricorso davanti al Tribunale federale',
          in Finland: an appeal to the 'korkein oikeus/högsta domstolen',
          in Sweden: an appeal to the 'Högsta domstolen',
          in the United Kingdom: a single further appeal on a point of law.

ANNEX V

Certificate on judgments and court settlements referred to in Articles 54 and 58 of the Convention on jurisdiction and the recognition and enforcement of judgments in civil and commercial matters
     1.      State of origin
     2.      Court or competent authority issuing the certificate
        2.1.     Name
        2.2.     Address
        2.3.     Tel/Fax/E-mail
     3.      Court which delivered the judgment/approved the court settlement*
        3.1.     Type of court
        3.2.     Place of court
     4.      Judgment/court settlement*
        4.1.     Date     
        4.2.     Reference number
        4.3.     The parties to the judgment/court settlement*
                     4.3.1. Name(s) of plaintiff(s)
                     4.3.2. Name(s) of defendant(s
                     4.3.3. Name(s) of other party(ies), if any
        4.4.    Date of service of the document instituting the proceedings where judgment was given in default of appearance
        4.5.    Text of the judgment/court settlement* as annexed to this certificate
     5.      Names of parties to whom legal aid has been granted

The judgment/court settlement* is enforceable in the State of origin (Article 38/58 of the Convention) against:
Name :     

         Done at .........................., date ....................
    
         Signature and/or stamp ...............................

*     Delete as appropriate

ANNEX VI

Certificate on authentic instruments referred to in Article 57(4) of the Convention on jurisdiction and the recognition and enforcement of judgments in civil and commercial matters

     1.      State of origin
     2.      Court or competent authority issuing the certificate
        2.1.     Name
        2.2.     Address
        2.3.     Tel/Fax/E-mail
     3.      Authority which has given authenticity to the instrument
        3.1.    Authority involved in the drawing up of the authentic instrument (if applicable)
                     3.1.1.     Name and designation of authority
                     3.1.2.     Place of authority
        3.2.     Authority which has registered the authentic instrument (if applicable)
                     3.2.1.     Type of authority
                     3.2.2.     Place of authority
     4.      Authentic instrument
        4.1.     Description of the instrument
        4.2.     Date
                     4.2.1.     on which the instrument was drawn up
                     4.2.2.     if different: on which the instrument was registered
        4.3.     Reference number
        4.4.     Parties to the instrument
                     4.4.1.     Name of the creditor
                     4.4.2.     Name of the debtor
     5.      Text of the enforceable obligation as annexed to this certificate.

The authentic instrument is enforceable against the debtor in the State of origin (Article 57(1) of the Convention).

Done at                    date

Signature and/or stamp

ANNEX VII

The conventions superseded pursuant to Article 65 of the Convention are, in particular, the following:
          the Treaty between the Swiss Confederation and Spain on the mutual enforcement of judgments in civil or commercial matters, signed at Madrid on 19 November 1896,
          the Convention between the Czechoslovak Republic and the Swiss Confederation on the recognition and enforcement of judgments with additional protocol, signed at Bern on 21 December 1926,
          the Convention between the Swiss Confederation and the German Reich on the recognition and enforcement of judgments and arbitration awards, signed at Berne on 2 November 1929,
          the Convention between Denmark, Finland, Iceland, Norway and Sweden on the recognition and enforcement of judgments, signed at Copenhagen on 16 March 1932,
          the Convention between the Swiss Confederation and Italy on the recognition and enforcement of judgments, signed at Rome on 3 January 1933,
          the Convention between Sweden and the Swiss Confederation on the recognition and enforcement of judgments and arbitral awards signed at Stockholm on 15 January 1936,
          the Convention between the Swiss Confederation and Belgium on the recognition and enforcement of judgments and arbitration awards, signed at Berne on 29 April 1959,
          the Convention between Austria and the Swiss Confederation on the recognition and enforcement of judgments, signed at Berne on 16 December 1960,
          the Convention between Norway and the United Kingdom providing for the reciprocal recognition and enforcement of judgments in civil matters, signed at London on 12 June 1961,
          the Convention between Norway and the Federal Republic of Germany on the recognition and enforcement of judgments and enforceable documents, in civil and commercial matters, signed at Oslo on 17 June 1977,
          the Convention between Denmark, Finland, Iceland, Norway and Sweden on the recognition and enforcement of judgments in civil matters, signed at Copenhagen on 11 October 1977, and
          the Convention between Norway and Austria on the recognition and enforcement of judgments in civil matters, signed at Vienna on 21 May 1984.

ANNEX VIII

The languages referred to in Article 79 of the Convention are Bulgarian, Czech, Danish, Dutch, English, Estonian, Finnish, French, German, Greek, Hungarian, Icelandic, Irish, Italian, Latvian, Lithuanian, Maltese, Norwegian, Polish, Portuguese, Romanian, Slovak, Slovenian, Spanish and Swedish.

ANNEX IX

The States and the rules referred to in Article II of Protocol 1 are the following:
          Germany: Articles 68, 72, 73 and 74 of the code of civil procedure ( Zivilprozeßordnung) concerning third-party notices,
          Austria: Article 21 of the code of civil procedure ( Zivilprozeßordnung) concerning third-party notices,
          Hungary: Articles 58 to 60 of the Code of Civil Procedure ( Polgári perrendtartás) concerning third-party notices,
          Switzerland, with respect to those cantons whose applicable code of civil procedure does not provide for the jurisdiction referred to in Articles 6(2) and 11 of the Convention: the appropriate provisions concerning third-party notices (litis denuntiatio) of the applicable code of civil procedure.


Fylgiskjal II.


Samanburðarskjal
yfir ákvæði Lúganósamningsins frá 2007,
Lúganósamningsins frá 1988 og Brussel I reglugerðarinnar.


Lúganósamningur 2007 Lúganósamningur 1988 Brussel I reglugerð
1. gr. 1. gr. 1. gr.
2. gr. 2. gr. 2. gr.
3. gr. 3. gr. 3. gr.
4. gr. 4. gr. 4. gr.
5. gr. 5. gr. 5. gr.
6. gr. 6. gr. 6. gr.
7. gr. 6. gr. A 7. gr.
8. gr. 7. gr. 8. gr.
9. gr. 8. gr. 9. gr.
10. gr. 9. gr. 10. gr.
11. gr. 10. gr. 11. gr.
12. gr. 11. gr. 12. gr.
13. gr. 12. gr. 13. gr.
14. gr. 12. gr. A 14. gr.
15. gr. 13. gr. 15. gr.
16. gr. 14. gr. 16. gr.
17. gr. 15. gr. 17. gr.
18. gr. - 18. gr.
19. gr. 1. tölul. 5. gr. 19. gr.
20. gr. - 20. gr.
21. gr. 5. tölul. 17. gr. 21. gr.
22. gr. 16. gr. og bókun 1, V. gr. d 22. gr.
23. gr. 17. gr. 23. gr.
24. gr. 18. gr. 24. gr.
25. gr. 19. gr. 25. gr.
26. gr. 20. gr. 26. gr.
27. gr. 21. gr. 27. gr.
28. gr. 22. gr. 28. gr.
29. gr. 23. gr. 29. gr.
30. gr. - 30. gr.
31. gr. 24. gr. 31. gr.
32. gr. 25. gr. 32. gr.
33. gr. 26. gr. 33. gr.
34. gr. 27. gr. 34. gr.
35. gr. 28. gr. 35. gr.
36. gr. 29. gr. 36. gr.
37. gr. 30. gr. 37. gr.
38. gr. 31. gr. 38. gr.
39. gr. 32. gr. 39. gr.
40. gr. 33. gr. 40. gr.
41. gr. 34. gr. 41. gr.
42. gr. 35. gr. 42. gr.
1. mgr. 43. gr.
2. mgr. 43. gr.
3. mgr. 43. gr.
4. mgr. 43. gr.
5. mgr. 43. gr.
1. mgr. 36. gr. og 1.mgr. 40. gr.
1. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 40. gr.
1. mgr. 37. gr.
2. mgr. 40. gr.
36. gr.
1. mgr. 43. gr.
2. mgr. 43. gr.
3. mgr. 43. gr.
4. mgr. 43. gr.
5. mgr. 43. gr.
44. gr. 41. gr. 44. gr.
45. gr. 2. og 3. mgr. 34. gr. 45. gr.
46. gr. 38. gr. 46. gr.
47. gr. 39. gr. 47. gr.
48. gr. 42. gr. 48. gr.
49. gr. 43. gr. 49. gr.
50. gr. 44. gr. 50. gr.
51. gr. 45. gr. 51. gr.
52. gr. Bókun 1, III. gr. 52. gr.
53. gr. 46. og 47. gr. 53. gr.
54. gr. - 54. gr.
55. gr. 48. gr. 55. gr.
56. gr. 49. gr. 56. gr.
57. gr. 50. gr. 57. gr.
58. gr. 51. gr. 58. gr.
59. gr. 52. gr. 59. gr.
60. gr. 53. gr. 60. gr.
61. gr. Bókun 1, II. gr. 61. gr.
62. gr. Bókun 1, V. gr. a. 62. gr.
63. gr. 54. gr. 66. gr.
64. gr. 54. gr. B 68. gr.
65. gr. 55. gr. 69. gr.
66. gr. 56. gr. 70. gr.
67. gr. 57. gr. 71. gr.
68. gr. 59. gr. 72. gr.
69. gr. 61. gr. -
70. gr. 1. mgr. 62. gr. -
71. gr. 63. gr. -
1.–3. mgr. 72. gr.
4. mgr. 72. gr.
b-liður 1. mgr. 62. gr.
4. mgr. 62. gr.
-
-
73. gr. 3. mgr. 62. gr. -
74. gr. 64. gr. -
75. gr. 65. gr. -
76. gr. 66. gr. -
77. gr. Bókun 1, VI. gr. -
78. gr. 67. gr. -
79. gr. 68. gr. -
Bókun 1, I. gr. Bókun 1, IV. gr. -
Bókun 1, II. gr. Bókun 1, V. gr. 65. gr.
Bókun 1, III. gr. - -
Bókun 1, IV. gr. - -
Bókun 2, 1. gr. Bókun 2, 1. gr. -
Bókun 2, 2. gr. - -
Bókun 2, 3. gr. Bókun 2, 2. gr. -
Bókun 2, 4. gr. - -
Bókun 2, 5. gr. Bókun 2, 3. og 4. gr. -
Bókun 3 Bókun 3 -
Viðauki I 2. mgr. 3. gr. Viðauki I
Viðauki II 32. gr. Viðauki II
Viðauki III 1. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 40. gr. Viðauki III
Viðauki IV 2. mgr. 37. gr. og 41. gr. Viðauki IV
Viðauki V - Viðauki V
Viðauki VI - Viðauki VI
Viðauki VII 55. gr. 69. gr.
Viðauki VIII 68. gr. -
Viðauki IX Bókun 1, V. gr. 65. gr.



Fylgiskjal III.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um Lúganósamninginn um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að veitt verði heimild til að fullgilda samning um dómsvald, viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum, svonefndan Lúganósamning. Samningur þessi var undirritaður af hálfu íslenska ríkisins 30. október 2007 og kemur í stað eldri Lúganósamnings sem undirritaður var 16. september 1988 og staðfestur var með lögum nr. 68/1995. Með staðfestingu samningsins er stefnt að frekari samvinnu á sviði dómsmála í alþjóðlegum einkamálum og að treysta meginreglur eldri samnings um gagnkvæma viðurkenningu og fullnustu dóma sem kveðnir eru upp í ríkjum annarra samningsaðila.
    Helsta breytingin er að í nýjum samningi er Evrópusambandið, sem stofnun, nú aðili að samningnum í stað einstakra aðildarríkja áður. Samningurinn tekur því til ellefu sambandsríkja til viðbótar sem ekki voru aðilar að samningnum frá 1988. Endurskoðun á efnisatriðum samningsins lýtur einkum að reglum um varnarþing og lögsögu dómstóla yfir neytendasamningum, auk þess sem gerðar eru breytingar á sviðum er snúa að sérstakri lögsögu í félagarétti, sameiningu skyldra dómstóla og málum er varða fullnustu dóma í öðru landi. Aðrar óverulegri breytingar eru gerðar á varnarþingssamningum, ráðningarsamningum, lögsögu í skaðabótamálum, samlagsaðild, málshöfðun í ábyrgðarmálum, málshöfðun vegna brota á ábyrgðarskilmálum, málum sem höfðuð eru til að koma í veg fyrir fullnustu dóms, tryggingarmálum, fasteignavarnarþingi og hugverkamálum, svo og rétti til að taka til varna samkvæmt efni máls án þess að réttur glatist þar með til þess að vefengja lögsögu.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Rétt er þó að vekja athygli á því að þar sem nýr samningur treystir enn frekar samvinnugrundvöll eldri samningsins er hugsanlegt að innlendir dómstólar verði fyrir auknu álagi vegna mála sem höfðuð verða með stoð í samningnum frá því sem áður var. Líkt og áður má þó ætla að þetta álag muni jafnast út vegna mála sem gera má ráð fyrir að höfðuð verði í öðrum aðildarríkjum á grundvelli samningsins.