Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 76. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 294  —  76. mál.
Nefndarálitum frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2010.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.    Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir.
    Meiri hlutinn hefur enn fremur farið yfir þau erindi sem hafa borist nefndinni og gerir breytingartillögur við frumvarpið sem samtals nema 5.403,5 m.kr. til lækkunar gjalda.
    Meiri hlutinn gerir tillögur um hækkun tekna að fjárhæð 6.938 m.kr. á rekstrargrunni.
    Nefndin mun á milli 2. og 3. umræðu kalla eftir frekari upplýsingum um einstaka málaflokka.
    Einstakar tillögur eru skýrðar í álitinu auk þess sem fjallað verður nánar um þær í framsögu.
    Ríkissjóður varð fyrir gífurlegu tjóni í kjölfar falls bankanna haustið 2008. Þyngstu höggin á ríkissjóð af þessum sökum voru fall Seðlabanka Íslands upp á 170 milljarða kr., endurfjármögnun bankanna upp á 200 milljarða kr., skuldasöfnun vegna hallareksturs upp á 225 milljarða kr. auk lána til að byggja upp gjaldeyrisvarasjóð upp á 120 milljarða kr. Þessu til viðbótar varð ríkissjóður fyrir miklum tekjubresti auk þess sem vaxtakostnaður margfaldaðist vegna aukinna skulda. Því var ljóst að bregðast þurfti við þessum mikla vanda með afgerandi hætti, með aukinni tekjuöflun, samdrætti í útgjöldum og ekki síst með auknu aðhaldi í ríkisfjármálum. Segja má að aðhald og eftirfylgni með fjármálum ríkisins hafi verið í miklum lamasessi til margra ára. Þó svo að tekjur ríkissjóðs hafi jafnan verið meiri en áætlanir og fjárlög hvers árs gerðu ráð fyrir voru útgjöldin sömuleiðis langt umfram settan ramma á ári hverju.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar vegna framkvæmda fjárlaga 2007 segir m.a. um þetta:
    „Ríkisendurskoðun hefur á undanförnum tveimur áratugum bent ítrekað á ýmsa misbresti á framkvæmd fjárlaga. Virðingarleysi fyrir bindandi fyrirmælum fjárlaga hefur verið gagnrýnt sem og almennt agaleysi í rekstri fjölmargra stofnana.“
    Og síðar í sömu skýrslu:
    „Af þeim þrettán stofnunum sem sérstaklega var fjallað um í skýrslu um framkvæmd fjárlaga 2006 voru tólf enn með halla umfram 4% viðmiðið í árslok 2007. Ljóst er því að ekki hefur verið tekið á rekstrarvanda þeirra. Þetta er algjörlega ólíðandi. Ríkisendurskoðun telur að síendurtekin brot gegn fjárreiðulögum og reglugerð um framkvæmd fjárlaga og aðgerðaleysi ráðuneyta vegna þeirra sýni að ábyrgðin er ekki að öllu leyti hjá forstöðumönnum stofnana. Þá hvetur hún til þess að ákvæði um ábyrgð ráðuneyta á fjárreiðum ríkisstofnana verði gerð afdráttarlausari í gildandi lögum og reglum.
    Umfang halla og uppsafnaðra fjárheimilda í árslok 2007 sýna að ekki hefur verið brugðist við síendurteknum ábendingum Ríkisendurskoðunar. Stofnunin getur eðli málsins samkvæmt ekki annað en komið sínu áliti á framfæri með þeim hætti sem hér er gert.“
    Ríkisendurskoðun fer einnig hörðum orðum um agaleysi við framkvæmd fjárlaga ársins 2006 og er niðurstaða stofnunarinnar hvað það varðar í stuttu máli þessi eins og fram kemur í skýrslunni:
    „Þegar öllu er á botninn hvolft felst vandamálið í agaleysi allra aðila, bæði forstöðumanna sem hlut eiga að máli og stjórnenda þeirra ráðuneyta sem forstöðumennirnir heyra undir.“
    Framkvæmd fjárlaga hefur því að mati Ríkisendurskoðunar verið ámælisverð um langan tíma en eins og stofnunin bendir á þá „… er á ábyrgð Alþingis, ráðuneyta og forstöðumanna stofnana að sjá til þess að fjárlög séu virt“.
    Samkvæmt framansögðu er ljóst að almennt agaleysi hefur ríkt við stjórn ríkisfjármála og skortur á virku eftirliti með fjármálum ríkisins. Á sama tíma og útgjöld fóru verulega umfram fjárlög voru tekjur ríkissjóðs einnig verulega umfram áætlanir. Leiða má líkum að því að miklar umframtekjur hafi ýtt undir agaleysið sem virðist hafa einkennt þennan tíma varðandi útgjöldin og jafnvel verið skýrt eða afsakað með því.

    Tafla yfir tekjur og útgjöld ríkissjóðs, samanburður á fjárlögum og fjáraukalögum:
2010 2009 2008 2007 2006
Tekjur
Fjárlög 461.881,30 402.498,70 473.439,50 376.413,70 334.639,20
Fjáraukalög/frumvarp 15.810,60* 14.787,10 -12.307,70 95.763,00 44.609,10
Hlutfall fjárauka 3,40% 3,70% -2,60% 25,40% 13,30%
Gjöld
Fjárlög 560.724,30 555.640,90 434.231,50 367.260,00 315.059,30
Fjáraukalög/frumvarp -24.941,00* 12.979,10 33.146,60 22.113,90 19.577,40
Hlutfall fjárauka -4,40% 2,30% 7,60% 6,00% 6,20%
* Frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2010 og tillögur meiri hluta fjárlaganefndar við 2. umr.

    Eftirfylgni með fjárreiðum ríkisins og áætlanagerð hefur tekið miklum breytingum á síðustu tveimur árum og bera skýrslur Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga ársins 2009 og fyrstu átta mánuði ársins 2010 skýrt vitni um það. Töluvert færri stofnanir eru nú reknar umfram fjárheimildir en áður og útgjöld allra ráðuneyta utan heilbrigðisráðuneytis eru innan áætlana sem er veruleg breyting frá fyrri árum. Fjárlög gerðu ráð fyrir að heildargjöld A-hluta ríkissjóðs á tímabilinu janúar til ágúst 2010 yrðu 379 milljarðar kr. Raunin varð 354 milljarðar kr. eða 25 milljörðum kr. undir áætlun tímabilsins og er ljóst að gjöld ársins verða vel undir því sem fjárlög gerðu ráð fyrir. Hér kemur margt til líkt og minni vaxtakostnaður en ráð var fyrir gert, minni útgjöld til almannatrygginga og sömuleiðis var atvinnuleysi minna en spáð hafði verið sem dró úr útgjöldum til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Bætt eftirfylgni og aukið aðhald með fjármálum ríkissjóðs hefur einnig skilað sér í bættri afkomu og vandaðri fjármálastjórn.
    Líkt og fram kemur í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lántökur ríkissjóðs verði minni en fjárlög segja til um, eða sem nemur 90 milljörðum kr. Lántökur ársins verða því 370 milljarðar kr. í stað 460 milljarða kr. eins og fjárlög gera ráð fyrir. Alls er reiknað með að innlendar lántökur verði 230 milljarðar kr. og að erlendar lántökur jafngildi 140 milljörðum kr.
    Þó svo að tekjur A-hluta ríkissjóðs hafi aukist nokkuð í kjölfar skattahækkana sem munu skila ríkissjóði umtalsverðum tekjum vantar enn töluvert upp á að þær nái tekjum áranna 2007 og 2008 eins og Ríkisendurskoðun bendir á í skýrslu sinni.
    Í tekjuhlutanum vegur þyngst sala á eignum sem er umfram áætlun en þó svo að rekstrartekjur á sama tíma séu undir áætlunum er samt sem áður ljóst að þær aðgerðir sem gripið var til við tekjuöflun á árinu hafa skilað verulegum árangri fyrir ríkissjóð. Tekjur af eignasölu voru áætlaðar 400 m.kr. á tímabilinu en reyndust mun meiri eða rúmlega 19 milljarðar kr. Þar vegur þyngst hagnaður af annars vegar kaupum ríkissjóðs á krónueignum af Seðlabanka Lúxemborgar og hins vegar sölu á stærstum hluta þeirra til 26 innlendra lífeyrissjóða. Samtals námu tekjur ríkisins vegna þessara viðskipta um 17,5 milljörðum kr. Þá skilaði sala á sendiherrabústað í London 1,7 milljörðum kr. í ríkissjóð. Skatttekjur á tímabilinu voru 7% undir áætlun en skatttekjur af vörum og þjónustu voru 2% yfir áætlun.
    Í heild var afkoma A-hluta ríkissjóðs á fyrstu átta mánuðum ársins neikvæð um 52 milljarða kr. en það er engu að síður 38 milljörðum kr. betri útkoma en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það er því augljóst að verulegur árangur hefur náðst umfram áætlanir jafnt á tekju- sem útgjaldahlið ríkisfjármálanna. Samkvæmt fjárlögum ársins er gert ráð fyrir að ríkissjóður verði rekinn með tæplega 100 milljarða kr. halla á árinu. Eins og fram hefur komið verður afkoma ársins mun betri vegna aukinna tekna, minni útgjalda og sölu eigna. Nú er gert ráð fyrir því að hallinn á ríkissjóði verði rétt um 58 milljarðar kr. Fagna ber þeim árangri sem náðst hefur en um leið er rétt að minna á að sá halli sem eftir stendur er gríðarlega mikill og þungbær og hefur hamlandi áhrif á íslenskt samfélag. Það hlýtur því að vera forgangsatriði að eyða þeim halla og snúa í afgang á sem skemmstum tíma í samræmi við áætlun um jöfnun í ríkisfjármálum.
    Á fyrstu átta mánuðum ársins var rekstur 64 stofnana umfram áætlun tímabilsins. Ráðuneytin telja líkur á að einungis þrjár þessara stofnana verði reknar umfram áætlanir ársins í heild og gangi sú spá eftir, sem Ríkisendurskoðun gerir ekki athugasemdir við, má því ljóst vera að verulegur árangur hefur náðst við eftirfylgni með fjárreiðum ríkisins frá því sem áður var þegar 50–70 stofnanir fóru umfram fjárlög á ári hverju.
    Þó svo að góður árangur hafi náðst í fjármálum ríkissjóðs á árinu þarf að gera betur. Enn fara stofnanir umfram heimildir í rekstri sínum og enn vantar upp á að rekstraráætlanir stofnana hafi verið samþykktar eða færðar inn í kerfið og gagnrýnir Ríkisendurskoðun þetta harðlega í skýrslu sinni um framkvæmd fjárlaga fyrstu átta mánuði ársins. Gera verður skilyrðislausa kröfu til ráðuneyta að stofnanir sem undir þau heyra séu reknar innan fjárheimilda. Taka þarf á uppsöfnuðum halla stofnana með afgerandi hætti, annaðhvort þannig að þær fái nægar fjárheimildir til rekstrar eða krefjast samdráttar í rekstri þeirra. Þó svo að flest ráðuneyti hafi styrkt verulega eftirlit sitt með framkvæmd fjárlaga þarf að gera enn betur á því sviði ef koma á í veg fyrir að þau sitji uppi með vanda á hverju ári. Nýleg dæmi sem upp hafa komið um afleiðingar slælegs eftirlits í einstökum málum vitna um nauðsyn þess að taka á slíkum málum af festu og efla eftirlit með umsýslu í meðferð opinbers fjár. Það hefur aldrei verið brýnna en einmitt nú, þegar horft er í hverja krónu við ákvörðun útgjalda, að taka fjármál ríkisins föstum tökum og fara vel með það fé sem ráðstafað er úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.
    Viðhorf stjórnvalda og Alþingis gagnvart ríkisfjármálunum hefur breyst verulega til batnaðar að undanförnu. Æ fleiri gera sér nú grein fyrir mikilvægi þess að góð stjórn sé á fjármálum ríkisins og að vanda þurfi bæði áætlanagerð og eftirfylgni með útgjöldum. Sú ábyrgð hvílir á Alþingi að fylgja eftir fjárlögum hvers árs og sjá til þess að útgjöld ríkisins séu ávallt innan ramma fjárlaga.


SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR


00 Æðsta stjórn ríkisins

        Lagt er til að fjárheimild æðstu stjórnar ríkisins verði aukin um 42,7 m.kr.
201     Alþingi.
        1.06
Almennur rekstur. Gerð er tillaga um 5,3 m.kr. framlag til að ráða lögfræðing tímabundið frá 1. maí til áramóta til að vinna fyrir þingnefndir sem eru í mestum önnum með mál í kjölfar bankahrunsins. Kostnaður við laun, launatengd gjöld, aðstöðu o.fl. er áætlaður 5,3 m.kr.
        1.07
Sérverkefni. Lögð er til 2 m.kr. fjárheimild handa nefnd um eflingu græna hagkerfisins. Í samræmi við þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi 10. júní sl. var skipuð nefnd níu manna með fulltrúum þingflokka sem hefur það verkefni að kortleggja sóknarfæri íslensks atvinnulífs á sviði grænnar atvinnusköpunar. Gert er ráð fyrir að nefndin skili niðurstöðum fyrir 1. mars 2011.
        6.01
Tæki og búnaður. Gerð er tillaga um 8 m.kr. framlag vegna kostnaðar við uppsetningu búnaðar til að sjónvarpa opnum nefndarfundum. Með þessum búnaði er hægt að senda út fundi með stuttum fyrirvara og með aðstoð starfsmanna Alþingis, sem jafnframt annast upptökur og útsendingar frá þingfundum, í stað þess að kaupa alla þjónustu við vinnu og tæknibúnað hverju sinni.
207     Rannsókn á falli íslensku bankanna á árinu 2008.
        1.01
Rannsóknarnefnd. Gerð er tillaga um 4,4 m.kr. framlag til að mæta kostnaði við þýðingu á hluta af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið á ensku, en þýðingin var unnin af Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytis. Kostnaður nemur um 8,5 m.kr. og fellur hluti hans á rannsóknarnefndina, 4,4 m.kr., og hluti fellur á utanríkisráðuneytið, 4,1 m.kr., og er jafnframt gerð tillaga um framlag til ráðuneytisins vegna þessa.
290     Stjórnlagaþing.
        1.01
Stjórnlagaþing. Gerð er tillaga um 12 m.kr. framlag til kaupa á sérfræðiþjónustu fyrir stjórnlaganefnd. Nefndinni ber lögum samkvæmt að annast söfnun og úrvinnslu gagna og upplýsinga um stjórnarskrármálefni sem nýst geta stjórnlagaþingi og þarf að geta leitað til sérfræðinga í því skyni.
295     Saksóknari Alþingis.
        1.01
Saksóknari Alþingis. Gerð er tillaga um 11 m.kr. framlag vegna kostnaðar við störf saksóknara Alþingis og málsrekstur fyrir landsdómi. Tillagan byggist á áætlun saksóknara Alþingis og í henni felast launagjöld fyrir fjóra starfsmenn, sérfræðiþjónusta, húsaleiga og annar rekstrarkostnaður og nær áætlunin í heild til miðs árs 2011.

02 Mennta- og menningarmálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild mennta- og menningarmálaráðuneytis verði aukin um 23,9 m.kr.
202     Tilraunastöð Háskólans að Keldum.
        1.01
Tilraunastöð Háskólans að Keldum. Gerð er tillaga um 3,9 m.kr. framlag vegna kostnaðar af völdum nýrnaveiki í alifiskum árið 2010. Þetta er í samræmi við 16. gr. laga nr. 50/1986, um Rannsóknadeild fisksjúkdóma, þar sem segir að kostnaður við rannsóknir í klak- og eldisstöð sem sett hefur verið í sölu- eða dreifingarbann vegna sjúkdóms, skuli greiddur úr ríkissjóði. Á árunum 2004–2006 komu upp nokkur nýrnaveikitilfelli í fiskeldisstöðvum. Af þeim sökum varð embætti dýralæknis fisksjúkdóma að setja þær stöðvar, reglum samkvæmt, í dreifingarbann. Í kjölfarið var gripið til umfangsmikilla rannsókna sem voru liðir í forvörnum og útrýmingu smitsins úr alifiskunum. Sambærileg mál komu upp árið 2005 og 2006 og 2008 og voru veittar aukafjárveitingar vegna þeirra í fjáraukalögum 2006, 2007 og 2009. Gera má ráð fyrir að dreifingarbanni ljúki næsta vor. Fjárveitingin verði flutt af safnlið fjármálaráðuneytisins sem ætlað er að bregðast við óvæntum útgjöldum, 09-989-1.90 Ófyrirséð útgjöld.
318     Framhaldsskólar, stofnkostnaður.
        6.59
Verkmenntaskólinn á Akureyri. Gerð er tillaga um 15 m.kr. framlag til Akureyrarbæjar til greiðslu á kostnaði við viðbyggingu við Verkmenntaskólann á Akureyri sem nú er lokið. Akureyrarbær sá um viðbygginguna samkvæmt samningi við ríkið.
971     Ríkisútvarpið.
        1.10
Ríkisútvarpið. Lagt er til að millifærðar verði 38 m.kr. af þessum lið yfir á 02-999- 1.98 Ýmis framlög mennta- og menningarmálaráðuneytis. Í frumvarpinu er lögð til 38 m.kr. hækkun á framlagi til RÚV ohf. til að tryggja að stafrænar hljóðvarps- og sjónvarpsútsendingar RÚV verði aðgengilegar á gervihnetti. Ríkisstjórnin samþykkti í mars sl. að gerður yrði nýr samningur til eins árs við Telenor sem rennur út í mars 2011 þannig að útsendingar RÚV ohf. verði áfram aðgengilegar í gegnum gervihnött næstu 12 mánuði meðan nefnd skipuð fulltrúum fjögurra ráðuneyta vinnur að stefnumótun um stafræna sjónvarpsdreifingu. Upphæðin er endurskoðuð miðað við gengisþróun frá mars sl. Lagt er til að framlagið verði fært á ráðuneytið vegna þess að greiðslur fara þar í gegn.
979     Húsafriðunarnefnd.
        6.10
Húsafriðunarsjóður. Herhúsfélagið á Siglufirði fékk framlag í fjárlögum fyrir árið 2010 til uppbyggingar á fasteigninni Norðurgötu 5 á Siglufirði. Horfið var frá uppbyggingu á því húsi. Lagt er til að félaginu verði þess í stað heimilað að nota styrkinn til uppbyggingar á Tjarnargötu 8, gömlu Gránufélagsversluninni, sem félagið fékk að gjöf frá sveitarfélaginu.
982     Listir, framlög.
        1.90
Listir. Gerð er tillaga um 5 m.kr. framlag til stuðnings við IA-tónlistarhátíðina (Iceland Airwaves) sem haldin hefur verið í Reykjavík sl. 11 ár.
999     Ýmislegt.
        1.98
Ýmis framlög mennta- og menningarmálaráðuneytis. Lagt er til að millifærðar verði 38 m.kr. af 02-971-1.10 Ríkisútvarpið yfir á þennan lið mennta- og menningarmálaráðuneytis. Í frumvarpinu er lögð til 38 m.kr. hækkun á framlagi til RÚV ohf. til að tryggja að stafrænar hljóðvarps- og sjónvarpsútsendingar RÚV verði aðgengilegar á gervihnetti. Ríkisstjórnin samþykkti í mars sl. að gerður yrði nýr samningur til eins árs við Telenor sem rennur út í mars 2011 þannig að útsendingar RÚV ohf. verði áfram aðgengilegar í gegnum gervihnött næstu 12 mánuði meðan nefnd skipuð fulltrúum fjögurra ráðuneyta vinnur að stefnumótun um stafræna sjónvarpsdreifingu. Upphæðin er endurskoðuð miðað við gengisþróun frá mars sl. Lagt er til að framlagið verði fært á ráðuneytið vegna þess að greiðslur fara þar í gegn.

03 Utanríkisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild utanríkisráðuneytis verði lækkuð um 11,9 m.kr.
101     Utanríkisráðuneyti, aðalskrifstofa.
        1.01
Utanríkisráðuneyti, aðalskrifstofa. Gerð er tillaga um 4,1 m.kr. framlag til að mæta kostnaði við þýðingu á hluta af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið á ensku, en þýðingin var unnin af Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytis. Kostnaður nemur um 8,5 m.kr. og fellur hluti hans á utanríkisráðuneytið, 4,1 m.kr., og hluti fellur á rannsóknarnefndina, 4,4 m.kr., og er jafnframt gerð tillaga um framlag til nefndarinnar vegna þessa.
611     Útflutningsráð Íslands.
        1.10
Útflutningsráð Íslands. Lögð er til 16 m.kr. lækkun á framlagi til Útflutningsráðs Íslands í ljósi endurskoðaðrar áætlunar um innheimtu tekna af markaðsgjaldi sem lagt er á gjaldstofn tryggingagjalds.

04 Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis verði aukin um 19,2 m.kr.
417     Rannsóknasjóður til að auka verðmæti sjávarfangs.
        1.10
Rannsóknasjóður til að auka verðmæti sjávarfangs. Lagt er til að veitt verði 19,2 m.kr. framlag til liðarins. Í lögum nr. 22/2010, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, er m.a. gert ráð fyrir að fiskveiðiárin 2009/2010 og 2010/2011 hafi ráðherra til sérstakrar ráðstöfunar hvort ár um sig allt að 2.000 lestir af skötusel án þess að þeim verði úthlutað á grundvelli aflahlutdeilda í tegundinni heldur gegn greiðslu gjalds. Þá er gert ráð fyrir að þessi sömu fiskveiðiár hafi ráðherra einnig til ráðstöfunar allt að 200 lestir af óslægðum botnfiski á hvoru ári og gegn greiðslu verði heimilt að ráðstafa þessum aflaheimildum til skipa sem leyfi hafa til frístundaveiða. Í lögunum er gert ráð fyrir að á árunum 2010 og 2011 verði veitt framlag til rannsóknasjóðs til að auka verðmæti sjávarfangs (AVS) sem svari til 40% af tekjunum og að Átak til atvinnusköpunar fái framlag sem svari til 60% af tekjunum. Í frumvarpinu voru samtals 55,5 m.kr. veittar til liðarins samkvæmt þessari skiptingu. Nú hefur verið ákveðið að úthluta 400 lestum af skötusel til viðbótar þeim 800 lestum sem forsendur frumvarpsins gerðu ráð fyrir. Áætlað er að viðbótartekjurnar vegna þessa verði samtals 48 m.kr. og þar af er gert ráð fyrir að AVS fái 19,2 m.kr. framlag samkvæmt fyrrgreindri skiptingu.

06 Dómsmála- og mannréttindaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild dómsmála- og mannréttindaráðuneytis verði lækkuð um 35,3 m.kr.
309     Sérstakur saksóknari samkvæmt lögum nr. 135/2008.
        1.01
Sérstakur saksóknari. Lagt er til að fjárveiting til embættisins verði lækkuð um 37 m.kr. Rekstrarumfang og fjárheimildir embættis sérstaks saksóknara í málum sem tengjast bankahruninu voru endurmetnar sl. vor og þá samþykkt ný rekstraráætlun sem gerði ráð fyrir stóraukinni starfsemi embættisins. Nú hefur að nýju verið lagt mat á útgjöld vegna starfseminnar, enda hafa ýmsar forsendur breyst frá því í vor, m.a. hefur sérstakur ráðgjafi, Eva Joly, hætt störfum fyrr en ætlað var, auk þess sem útgjöld vegna hennar reyndust vera minni en ætlað var í fyrstu.
390     Ýmis löggæslu- og öryggismál.
        1.10
Ýmis löggæslukostnaður. Lagt er til að veitt verði 1,5 m.kr. fjárveiting til liðarins. Á fundi ríkisstjórnarinnar sem haldinn var á Suðurnesjum þann 9. nóvember sl. var m.a. samþykkt að skoða vandlega kosti þess að flytja starfsemi Landhelgisgæslu Íslands á öryggissvæðið á Miðnesheiði á Suðurnesjum og að gerð verði hagkvæmnisathugun á þeim kosti.
601     Fasteignaskrá Íslands.
        1.01
Fasteignaskrá Íslands. Lagt er til að 250,3 m.kr. verði færðar af þessum fjárlagalið til nýrrar stofnunar, 06-603 Þjóðskrá Íslands, sem tók til starfa þann 1. júlí sl. með sameiningu Fasteignaskrár Íslands og Þjóðskrár, sem áður var skrifstofa í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu. Í frumvarpinu var helmingur fjárveitinga sameinuðu stofnananna færður til Þjóðskrár Íslands og var þá miðað við að gömlu stofnanirnar yrðu gerðar upp hvor í sínu lagi fyrri helming ársins og í einu lagi í sameinaðri stofnun fyrir seinni helming ársins. Nú er hins vegar talið heppilegra að allar fjárveitingar hinna sameinuðu stofnana verði færðar til nýju stofnunarinnar og hún gerð upp í einu lagi í ríkisreikningi 2010.
603     Þjóðskrá Íslands.
        1.01
Þjóðskrá Íslands. Lagt er til að 250,3 m.kr. verði færðar af fjárlagalið 06-601 Fasteignaskrá Íslands og 149,9 m.kr. af fjárlagalið 06-605 Þjóðskrá til nýrrar stofnunar, 06- 603 Þjóðskrá Íslands, sem tók til starfa þann 1. júlí sl. með sameiningu Fasteignaskrár Íslands og Þjóðskrár, sem áður var skrifstofa í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu. Í frumvarpinu var helmingur fjárveitinga sameinuðu stofnananna færður til Þjóðskrár Íslands og var þá miðað við að gömlu stofnanirnar yrðu gerðar upp hvor í sínu lagi fyrri helming ársins og í einu lagi í sameinaðri stofnun fyrir seinni helming ársins. Nú er hins vegar talið heppilegra að allar fjárveitingar hinna sameinuðu stofnana verði færðar til nýju stofnunarinnar og hún gerð upp í einu lagi í ríkisreikningi 2010.    
605
     Þjóðskrá.
        1.01
Þjóðskrá. Lagt er til að 149,9 m.kr. verði færðar af þessum fjárlagalið til nýrrar stofnunar, 06-603 Þjóðskrá Íslands, sem tók til starfa þann 1. júlí sl. með sameiningu Fasteignaskrár Íslands og Þjóðskrár, sem áður var skrifstofa í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu. Í frumvarpinu var helmingur fjárveitinga sameinuðu stofnananna færður til Þjóðskrár Íslands og var þá miðað við að gömlu stofnanirnar yrðu gerðar upp hvor í sínu lagi fyrri helming ársins og í einu lagi í sameinaðri stofnun fyrir seinni helming ársins. Nú er hins vegar talið heppilegra að allar fjárveitingar hinna sameinuðu stofnana verði færðar til nýju stofnunarinnar og hún gerð upp í einu lagi í ríkisreikningi 2010.
705     Kirkjumálasjóður.
        1.10
Kirkjumálasjóður. Lagt er til að lögboðið framlag til Kirkjumálasjóðs vegna sóknargjalda verði lækkað um 0,8 m.kr. frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum þessa árs. Einingarverð sóknargjalda var sett fast við 767 kr. fyrir hvern einstakling og breytist því ekki en breyting hefur orðið á milli trúfélaga á fjölda einstaklinga 16 ára og eldri.
735     Sóknargjöld.
        1.10
Sóknargjöld til þjóðkirkjunnar. Lagt er til að lögboðið framlag til safnaða þjóðkirkjunnar vegna sóknargjalda verði lækkað um 6,2 m.kr. frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum þessa árs. Einingarverð sóknargjalda var sett fast við 767 kr. fyrir hvern einstakling og breytist því ekki en breyting hefur orðið á milli trúfélaga á fjölda einstaklinga 16 ára og eldri.
        1.20
Sóknargjöld til annarra trúfélaga. Lagt er til að lögboðið framlag til annarra trúfélaga en þjóðkirkjunnar vegna sóknargjalda verði hækkað um 8,4 m.kr. frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum þessa árs. Einingarverð sóknargjalda var sett fast við 767 kr. fyrir hvern einstakling og breytist því ekki en breyting hefur orðið á milli trúfélaga á fjölda einstaklinga 16 ára og eldri.
736     Jöfnunarsjóður sókna.
        1.10
Jöfnunarsjóður sókna. Lagt er til að lögboðið framlag til Jöfnunarsjóðs sókna vegna sóknargjalda verði lækkað um 1,2 m.kr. frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum þessa árs. Einingarverð sóknargjalda var sett fast við 767 kr. fyrir hvern einstakling og breytist því ekki en breyting hefur orðið á milli trúfélaga á fjölda einstaklinga 16 ára og eldri.

07 Félags- og tryggingamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild félags- og tryggingamálaráðuneytis verði lækkuð um 2.844,6 m.kr.
505     Öldrunarstofnanir, almennt.
        1.13
Óskipt framlag til minni öldrunarstofnana. Lagt er til að 360 m.kr. fjárheimild verði flutt af safnlið öldrunarstofnana á nýjan lið fyrir rekstur á nýju öldrunarheimili, Mörk í Reykjavík, sem tók til starfa á miðju þessu ári. Afgangsheimildir Vífilsstaða og Víðiness, þar sem starfsemi var lögð niður frá sama tíma, og Hrafnistu í Reykjavík færast þannig af þessum lið til að fjármagna rekstur hjúkrunarrýma hjá hinni nýju stofnun.
        1.83
Greiðslur frá vistmönnum. Gert er ráð fyrir að sértekjur sem færast á þennan lið vegna greiðslna frá vistmönnum fyrir dvöl á öldrunarstofnunum hækki um 557 m.kr. Í fjárlögum er þessi fjárhæð áætluð 373 m.kr. en á undanförnum árum hefur farist fyrir hjá þeim ráðuneytum sem hafa haft umsjón með málaflokknum að uppfæra áætlanir til samræmis við raunverulega þróun greiðslna frá vistmönnum. Á sama tíma hafa lífeyrissjóðsgreiðslur og fjármagnstekjur vistmanna farið hækkandi eftir því sem fjölgað hefur í hópi þeirra sem hafa betri lífeyrisrétt úr almennum lífeyrissjóðum en áður var. Þessi leiðrétting á áætlun fjárlaga hefur engin áhrif á útkomuna í þessum greiðslum vistmanna á árinu.
515     Framkvæmdasjóður aldraðra.
        6.21
Stofnkostnaður og endurbætur. Gert er ráð fyrir að fjárheimild sjóðsins hækki um 107,3 m.kr. í samræmi við endurskoðaða áætlun um ríkistekjur af gjaldi til sjóðsins og með hliðsjón af niðurstöðu skattálagningar ársins 2010. Við gerð fjárlaga fyrir árið 2010 var fjöldi gjaldenda áætlaður um 166 þúsund en samkvæmt álagningargögnum frá ríkisskattstjóra var fjöldinn um 180 þúsund. Vanáætlaðar tekjur sjóðsins eru því 107,3 m.kr. þegar tekið hefur verið tillit til innheimtuhlutfalls gjaldsins. Í fjárlögum fyrir árið 2010 nam fjárhæðin 1.368,1 m.kr. en er nú áætluð 1.475,4 m.kr.
                  Þá eru leiðrétt mistök sem urðu við gerð fjárlaga og mæltu fyrir um 0,1 m.kr. greiðslu liðarins í ríkissjóð.
518     Mörk, Reykjavík.
        1.01
Hjúkrunarrými. Lagt er til að 360 m.kr. fjárheimild verði flutt af safnlið öldrunarstofnana á þennan lið fyrir rekstur á nýju öldrunarheimili, Mörk í Reykjavík, sem tók til starfa á miðju þessu ári.
519     Boðahlein, Kópavogi.
        1.01
Hjúkrunarrými. Lagt er til að 295 m.kr. fjárheimild verði flutt af lið Hrafnistu í Reykjavík á nýjan lið fyrir rekstur á nýju öldrunarheimili, Boðahlein í Kópavogi, sem tók til starfa á miðju þessu ári.
521     Hrafnista, Reykjavík.
        1.01
Hjúkrunarrými. Lagt er til að 295 m.kr. fjárheimild verði flutt af lið Hrafnistu í Reykjavík á nýjan lið fyrir rekstur á nýju öldrunarheimili, Boðahlein í Kópavogi, sem tók til starfa á miðju þessu ári.
825     Bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.
        1.31
Endurhæfingarlífeyrir. Lagt er til að fjárheimildin lækki um 100 m.kr. Tillagan byggist á endurskoðaðri spá um útgjöld þessa bótaflokks á árinu 2010. Nú liggja fyrir raunútgjöld fyrir ellefu mánuði ársins, þ.e. jan.–nóv. Þær tölur gefa til kynna að útgjöld verði nokkru minni en gert var ráð fyrir í frumvarpinu.
827     Lífeyristryggingar.
        1.21
Tekjutrygging ellilífeyrisþega. Lagt er til að fjárheimildin lækki um 390 m.kr. Tillagan byggist á endurskoðaðri spá um útgjöld þessa bótaflokks á árinu 2010. Nú liggja fyrir raunútgjöld fyrir ellefu mánuði ársins, þ.e. jan.–nóv. Þær tölur gefa til kynna að útgjöld lífeyristrygginga verði nokkru minni en gert var ráð fyrir í frumvarpinu.
        1.25
Tekjutrygging örorkulífeyrisþega. Lagt er til að fjárheimildin lækki um 160 m.kr. Tillagan byggist á endurskoðaðri spá um útgjöld þessa bótaflokks á árinu 2010. Nú liggja fyrir raunútgjöld fyrir ellefu mánuði ársins, þ.e. jan.-nóv. Þær tölur gefa til kynna að útgjöld lífeyristrygginga verði nokkru minni en gert var ráð fyrir í frumvarpinu.
983     Foreldrar langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.
        1.11
Bætur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Lagt er til að fjárheimildin lækki um 12 m.kr. Tillagan byggist á endurskoðaðri spá um útgjöld þessa bótaflokks á árinu 2010. Nú liggja fyrir raunútgjöld fyrir ellefu mánuði ársins, þ.e. jan.–nóv. Þær tölur gefa til kynna að útgjöld verði nokkru minni en gert var ráð fyrir í frumvarpinu.
984     Atvinnuleysistryggingasjóður.
        1.11
Atvinnuleysisbætur. Lagt er til að fjárheimild liðarins lækki um 1.240 m.kr. þar sem atvinnuleysi verður nokkru minna en eldri forsendur hafa gert ráð fyrir. Nú er áætlað að atvinnuleysi á árinu 2010 verði að jafnaði 8,1–8,2% en í frumvarpinu var miðað við 8,6% atvinnuleysi.
        1.35
Námskeiðahald, átaksverkefni og önnur úrræði. Lagt er til að fjárheimild viðfangsefnisins lækki um 268 m.kr. Við framlagningu frumvarpsins var lögð til 206 m.kr. viðbótarheimild til aðgerða fyrir námsmenn og atvinnuleitendur yfir sumarmánuðina. Ljóst er að kostnaður vegna þeirra aðgerða rúmast innan upphaflegrar fjárheimildar þessa viðfangsefnis og því er ekki þörf fyrir viðbótarfjárheimildina.
989     Fæðingarorlof.
        1.11
Fæðingarorlofssjóður. Lögð er til 190 m.kr. lækkun liðarins með hliðsjón af endurskoðaðri spá um útgjöld á árinu. Í frumvarpinu hefur þegar verið gert ráð fyrir 75 m.kr. lækkun þannig að alls er reiknað með að útgjöld vegna fæðingarorlofs verði 265 m.kr. minni en áætlað var í fjárlögum 2010.
        1.13
Foreldrar utan vinnumarkaðar. Lögð er til 35 m.kr. lækkun á fjárheimild liðarins. Í frumvarpinu var lögð til 75 m.kr. hækkun á heimild til greiðslu fæðingarorlofs foreldra utan vinnumarkaðar. Endurmat á útgjöldum ársins bendir til að sú fjárþörf hafi verið ofmetin um 35 m.kr.

08 Heilbrigðisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild heilbrigðisráðuneytis verði aukin um 1 m.kr.
305     Lýðheilsustöð.
        1.90
Forvarnasjóður. Lögð er til 1 m.kr. hækkun á fjárheimild liðarins í ljósi endurskoðaðrar áætlunar um hlutdeild liðarins í ríkistekjum af áfengisgjaldi.

09 Fjármálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild fjármálaráðuneytis verði aukin um 1.110,8 m.kr.
101     Fjármálaráðuneyti, aðalskrifstofa.
        1.01
Fjármálaráðuneyti, aðalskrifstofa. Lagt er til að millifærðar verði 16 m.kr. af þessum lið á liðinn 09-976 Lánaumsýsla ríkissjóðs vegna samnings við Seðlabanka Íslands um lánaumsýslu fyrir ríkissjóð. Samþykkt var fjárveiting á fjárlögum ársins 2010 til þess að fjármagna kaup á sérfræðiþjónustu í tengslum við endurreisn efnahagslífsins. Gert var ráð fyrir að Seðlabanka Íslands yrði falin umsjón með ákveðinni skuldastýringu og umsýslu á kröfum ríkissjóðs. Fjárveitingin fór á aðalskrifstofu ráðuneytisins þar sem samningur lá ekki fyrir. Nú hafa fjármálaráðuneytið og Seðlabanki Íslands endurnýjað samning um umsýsluna og verður þá millifærð fjárheimild til að fjármagna viðbótina á þessu ári. Í samningnum er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði Seðlabankanum 98 m.kr. fyrir samninginn á árinu 2010. Gert er ráð fyrir viðbótarfjárveitingu fyrir árið 2011 í frumvarpi til fjárlaga.
262     Tollstjórinn.
        1.01
Tollstjórinn og 6.01 Tæki og búnaður. Lagt er til að millifærð verði fjárheimild að upphæð 85,1 m.kr. af rekstrarviðfangsefninu 09-262-1.01 yfir á stofnkostnaðarviðfangsefnið 09-262-6.01. Fjársýsla ríkisins hefur sett fram athugasemdir um fyrirkomulag bókunar útgjalda stofnunarinnar þar sem hún mælist til þess að viðkomandi gjöld séu færð á stofnkostnaðarviðfangsefni í stað rekstrarviðfangsefnis. Dæmi um þessi útgjöld eru bílakaup og endurnýjun tölvubúnaðar og annarra tækja.
391     Jöfnun á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða.
        1.11
Jöfnun á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða. Lögð er til 138,3 m.kr. lækkun á framlagi til liðarins í ljósi endurskoðaðrar áætlunar um innheimtar tekjur af tryggingagjaldi.
721     Fjármagnstekjuskattur.
        1.11
Fjármagnstekjuskattur. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun er gert ráð fyrir að fjármagnstekjuskattur sem ríkissjóður greiðir af vaxtatekjum, arði og söluhagnaði eigna lækki um 47 m.kr. á rekstrargrunni og verði þar með 3.160 m.kr. á árinu 2010. Gert er ráð fyrir því að greiðsla vegna fjármagnstekjuskatts hækki um 222 m.kr. og verði 3.300 m.kr. Fjármagnstekjuskatturinn færist einnig á tekjuhlið ríkissjóðs og hefur þessi breyting því ekki áhrif á afkomu ársins.
971     Ríkisábyrgðir.
        6.01
Ríkisábyrgðir. Lagt er til að fjárheimild liðarins verði hækkuð um 1.050 m.kr. til að auka framlag til Ríkisábyrgðasjóðs vegna afborgana og vaxta af lánum sem voru með ábyrgð í lánasöfnum föllnu bankanna þriggja. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun hafa greiðslurnar verið vanáætlaðar sem því nemur í gildandi fjárlögum. Þegar ríkisviðskiptabankarnir þrír voru gerðir að hlutafélögum á sínum tíma hvíldu á þeim ýmsar skuldbindingar vegna skuldabréfa með ríkisábyrgð sem þá höfðu verið útgefin. Ríkið ber því enn ábyrgð á þeim skuldbindingum.
976     Lánaumsýsla ríkissjóðs.
        1.01
Lánaumsýsla ríkissjóðs. Lagt er til að millifærðar verði á þennan lið 16 m.kr. af liðnum 09-101 Fjármálaráðuneytið, aðalskrifstofa vegna samnings við Seðlabanka Íslands um lánaumsýslu fyrir ríkissjóð. Samþykkt var fjárveiting á fjárlögum ársins 2010 til þess að fjármagna kaup á sérfræðiþjónustu í tengslum við endurreisn efnahagslífsins. Gert var ráð fyrir að Seðlabanka Íslands yrði falin umsjón með ákveðinni skuldastýringu og umsýslu á kröfum ríkissjóðs. Fjárveitingin fór á aðalskrifstofu ráðuneytisins þar sem samningur lá ekki fyrir. Nú hafa fjármálaráðuneytið og Seðlabanki Íslands endurnýjað samning um umsýsluna og verður þá millifærð fjárheimild til að fjármagna viðbótina á þessu ári. Í samningnum er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði Seðlabankanum 98 m.kr. fyrir samninginn á árinu 2010. Gert er ráð fyrir viðbótarfjárveitingu fyrir árið 2011 í frumvarpi til fjárlaga.
985     Fyrrum varnarsvæði við Keflavíkurflugvöll.
        1.01
Fyrrum varnarsvæði við Keflavíkurflugvöll. Lagt er til að veittar verði 250 m.kr. til Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum þann 9. nóvember sl. að ráðast í framkvæmdir á fyrrum varnarsvæðum við Keflavíkurflugvöll til þess að efla atvinnu á Suðurnesjum og flýta áætlunum um einstök verkefni. Þau verkefni sem til stendur að hrinda í framkvæmd og undirbúningur er langt kominn með eru eftirfarandi: frumkvöðlasetrið Eldey, frumkvöðlasetrið Eldvörp, hreinsun mengunar við Stafnes og á Patterson-svæðinu, endurbætur á íþróttamannvirkjum, lagfæring á íþróttavöllum og opnum svæðum, uppbygging endurhæfingaraðstöðu fyrir heilsuferðamenn, breytingar á fyrrum skotfærageymslu í atvinnuhúsnæði, gerð kvikmyndavers. Einnig verði Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar falið að setja á stofn hersetusafn á gamla varnarsvæðinu í einu af fjölmörgum húsum félagsins. Safnið mundi kynna merkilega og umdeilda sögu bandarísks herliðs á Íslandi allt frá síðari heimsstyrjöld. Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður umræddra framkvæmda geti numið um 1 milljarði kr. Til að auka nú þegar möguleika til frekari atvinnuuppbyggingar á þróunarsvæðinu og skapa um leið aukna atvinnu við verklegar framkvæmdir er lagt til að veittar verði aukalega um 250 m.kr. til Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar þannig að félagið geti hraðað þeim verkefnum sem ákvörðun hefur verið tekin um að ráðast í.
989     Ófyrirséð útgjöld.
        1.90
Ófyrirséð útgjöld. Gerð er tillaga um að 3,9 m.kr. framlag vegna kostnaðar af völdum nýrnaveiki í alifiskum árið 2010 verði millifært af þessum lið á lið Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum, 02-202-1.01, eins og nánar er gerð grein fyrir þar .

10 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis verði lækkuð um 10 m.kr.
336     Hafnarframkvæmdir.
        6.72
Landeyjahöfn. Lagt er til að framlag til liðarins verði lækkað um 10 m.kr. frá því sem fram kemur í frumvarpinu. Ástæðan er sú að í frumvarpinu er gert ráð fyrir 10 m.kr. framlagi úr ríkissjóði vegna kostnaðar sem hlotist hefur af eldgosinu í Eyjafjallajökli en jafnframt gert ráð fyrir að sama fjárhæð verði millifærð af liðnum 09-989 Ófyrirséð útgjöld hjá fjármálaráðuneytinu. Er því um að ræða framlag sem fyrir mistök var lagt til í tvígang vegna sama verkefnisins og er tillögu þessari því ætlað að leiðrétta það. Þess má geta að öll framlög vegna gossins í Eyjafjallajökli í frumvarpinu komu af lið ófyrirséðra útgjalda hjá fjármálaráðuneytinu.

11 Iðnaðarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild iðnaðarráðuneytis verði aukin um 26,7 m.kr.
299     Iðja og iðnaður, framlög.
        1.19
Staðlaráð. Lögð er til 2,1 m.kr. lækkun á framlagi til Staðlaráðs í ljósi endurskoðaðrar áætlunar um innheimtu tekna af tryggingagjaldi.
        1.48
Átak til atvinnusköpunar. Lagt er til að veitt verði 28,8 m.kr. framlag til liðarins. Í lögum nr. 22/2010, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, er m.a. gert ráð fyrir að fiskveiðiárin 2009/2010 og 2010/2011 hafi ráðherra til sérstakrar ráðstöfunar hvort ár um sig allt að 2.000 lestir af skötusel án þess að þeim verði úthlutað á grundvelli aflahlutdeilda í tegundinni heldur gegn greiðslu gjalds. Þá er gert ráð fyrir að þessi sömu fiskveiðiár hafi ráðherra einnig til ráðstöfunar allt að 200 lestir af óslægðum botnfiski á hvoru ári og gegn greiðslu sé heimilt að ráðstafa þessum aflaheimildum til skipa sem leyfi hafa til frístundaveiða. Í lögunum er gert ráð fyrir að á árunum 2010 og 2011 verði veitt framlag til rannsóknasjóðs til að auka verðmæti sjávarfangs (AVS) sem svari til 40% af tekjunum og að Átak til atvinnusköpunar fái framlag sem svari til 60% af tekjunum. Í fjáraukalagafrumvarpinu var samtals 83,3 m.kr. framlag veitt til liðarins samkvæmt þessari skiptingu. Nú hefur verið ákveðið að úthluta 400 lestum af skötusel til viðbótar þeim 800 lestum sem forsendur fjáraukalagafrumvarpsins gerðu ráð fyrir. Áætlað er að viðbótartekjurnar vegna þessa verði samtals 48 m.kr. og þar af er gert ráð fyrir að Átak til atvinnusköpunar fái 28,8 m.kr. framlag samkvæmt fyrrgreindri skiptingu. Gert er ráð fyrir að AVS og Átak til atvinnusköpunar fái framlag eftir sömu skiptingu og við leigu á skötuselskvóta. Áætlað er að tekjurnar verði samtals 42,8 m.kr. á árinu 2010 og þar af fái AVS 17,1 m.kr. framlag. Samtals er því hér um 55,5 m.kr. framlag að ræða.

12 Efnahags- og viðskiptaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild efnahags- og viðskiptaráðuneytis verði aukin um 10 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.90
Ýmis viðskipta- og bankamál. Lagt er til að 10 m.kr. tímabundið framlag verði veitt til verkefnis um athugun á skuldavanda heimilanna sem ríkisstjórnin samþykkti 5. mars 2010 að ráðuneytið hefði forgöngu um. Frumvarp um málið var lagt fram á sl. vorþingi en fékk ekki afgreiðslu þá og hefur verið lagt fram að nýju á yfirstandandi þingi. Megináhersla verður lögð á að afla nýrra gagna og meta stöðuna á grundvelli þeirra til að hægt verði að leysa bráðavanda á skuldastöðu heimilanna. Jafnframt verði þessi vinna skipulögð þannig að hægt verði að endurtaka ferlið með reglubundnum hætti, t.d. ársfjórðungslega næstu eitt til þrjú árin, á meðan talin er þörf á jafn ítarlegri eftirfylgni eins og nú er raunin. Gert er ráð fyrir að rannsóknin muni í heildina kosta allt að 50 m.kr. Þar af verði um 40 m.kr. vegna launakostnaðar en gert er ráð fyrir tveimur starfsmönnum. Annar kostnaður er vegna hug- og vélbúnaðar, aðkeyptrar sérfræðiaðstoðar og viðhalds og þróunar gagnagrunns. Miðað er við að rannsóknin geti hafist fyrir lok þessa árs og að kostnaður ársins verði um 10 m.kr., einkum vegna stofnkostnaðar við vél- og hugbúnað.

19 Vaxtagjöld ríkissjóðs

        Lagt er til að fjárheimild vaxtagjalda ríkissjóðs verði lækkuð um 3.736 m.kr.
801     Vaxtagjöld ríkissjóðs.
        1.10
Vaxtagjöld ríkissjóðs. Endurskoðuð áætlun um vaxtagjöld gerir ráð fyrir 3,7 milljarða kr. lækkun vaxtagjalda frá frumvarpinu og er gert ráð fyrir að vaxtagjöld 2010 verði 70,3 milljarðar kr. Helstu breytingarnar eru að heldur betri vaxtakjör hafa fengist í útboðum vegna óverðtryggðra ríkisbréfa og ríkisvíxla heldur en áður var áætlað og lækka vaxtagjöld um 1,8 milljarða kr. vegna þessa. Þar sem nær öllum áformuðum útboðum ársins er nú lokið er hægt að áætla vaxtagjöldin með meiri nákvæmni en í fyrri áætlunum. Þá lækka áætlaðir vextir vegna endurfjármögnunar bankanna um 1,4 milljarða kr. en nú er ekki gert ráð fyrir vaxtagreiðslum vegna sparisjóðanna á þessu ári. Aðrar breytingar vaxtagjalda eru minni. Greiddir vextir eru áætlaðir 75,8 milljarðar kr. og lækka því um rúmar 900 m.kr. frá frumvarpinu. Þar munar mestu að kjör í útboðum ríkisvíxla hafa verið hagstæðari en áætlanir gerðu ráð fyrir og lækka greiðslur vegna þeirra um 1,3 milljarða kr. Greiðslur vaxta vegna endurfjármögnunar banka lækka um 0,8 milljarða kr. en á móti hækka greiðslur vaxta vegna gjaldeyrisforðalána um 1,8 milljarða kr. Aðrar breytingar eru minni.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum þeim sem skýrðar
hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 23. nóv. 2010.Oddný G. Harðardóttir,


form., frsm.


Björn Valur Gíslason.


Ólafur Þór Gunnarsson.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.

Þuríður Backman.


Skúli Helgason.