Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 256. máls.

Þskj. 298  —  256. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)
1. gr.

    2. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Við framkvæmd laganna skal tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá skulu stjórnvöld tryggja heildarsamtökum fatlaðra og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðra.

2. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Velferðarráðherra fer með yfirstjórn málefna fatlaðra samkvæmt lögum þessum. Ráðherra ber ábyrgð á opinberri stefnumótun í málefnum fatlaðra sem skal gerð í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Enn fremur hefur ráðherra eftirlit með framkvæmd laganna, þar á meðal að þjónusta, starfsemi og rekstur sveitarfélaga og annarra aðila samkvæmt lögum þessum sé í samræmi við markmið laganna, reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim og að réttindi fatlaðra séu virt. Markmið eftirlitsins er jafnframt að safna og miðla upplýsingum til að tryggja samræmda þjónustu við fatlaða. Skal ráðherra gera tillögur til sveitarfélaga um úrbætur á þjónustu þar sem þess er þörf og stuðla að samræmingu hennar. Enn fremur skal ráðherra hafa umsjón með gerð þjónustu- og gæðaviðmiða í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur í reglugerð um eftirlit skv. 2. mgr. í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, þar á meðal um framkvæmd eftirlitsins og upplýsingaskyldu sveitarfélaga.

3. gr.

    4. gr. laganna orðast svo:
    Sveitarfélög bera ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlaða, þar með talið gæðum þjónustunnar, sem og kostnaði vegna hennar samkvæmt lögum þessum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum. Enn fremur skulu sveitarfélögin hafa innra eftirlit með framkvæmd þjónustunnar, þar á meðal með framkvæmd samninga sem sveitarfélögin gera við rekstrar- eða þjónustuaðila um framkvæmd þjónustunnar, sbr. 6. gr. b.
    Landinu skal skipt í þjónustusvæði þannig að á hverju þjónustusvæði séu að lágmarki 8.000 íbúar. Fámennari sveitarfélög skulu hafa samvinnu við önnur sveitarfélög um skipulag og framkvæmd þjónustu við fatlaða skv. 1. mgr. og bera þau þá sameiginlega ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustunnar sem og kostnaði vegna hennar nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum. Sveitarfélögum er hafa samvinnu um skipulag og framkvæmd þjónustu við fatlaða á einu þjónustusvæði er heimilt að fela einu þeirra skipulag og framkvæmd þjónustunnar og tekur það þá ákvarðanir um þjónustuna fyrir hönd annarra sveitarfélaga á svæðinu. Jafnframt er þeim heimilt að fela skipulag og framkvæmd þjónustunnar sérstökum lögaðila sem þau eiga aðild að, svo sem byggðasamlagi.
    Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá íbúafjölda skv. 2. mgr. á grundvelli landfræðilegra aðstæðna, enda hafi viðkomandi sveitarfélag eða sveitarfélög sýnt fram á getu til að veita þjónustu í samræmi við ákvæði laga þessara.
    Náist ekki samkomulag milli sveitarfélaga um að mynda þjónustusvæði skv. 2. mgr. getur ráðherra, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, tekið ákvarðanir um stærð eða mörk þjónustusvæða og eru þær ákvarðanir bindandi fyrir hlutaðeigandi sveitarfélög.

4. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Sveitarfélag þar sem hinn fatlaði á lögheimili tekur ákvarðanir um þjónustu við hann samkvæmt lögum þessum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum. Sveitarfélag sem hefur samvinnu við önnur sveitarfélög um myndun þjónustusvæðis getur falið öðru sveitarfélagi eða sérstökum lögaðila að taka ákvarðanir um þjónustu við hinn fatlaða fyrir sína hönd.
    Umsóknir um þjónustu á grundvelli laganna, þar á meðal um þjónustu á stofnunum skv. 1.–3. tölul. 2. mgr. 9. gr. og um húsnæðisúrræði skv. 1. mgr. 10. gr., skulu sendar viðkomandi sveitarfélagi, sbr. 1. mgr., eða þeim lögaðila sem annast framkvæmd þjónustunnar á hlutaðeigandi þjónustusvæði þegar það á við. Umsókn er gild þegar hinn fatlaði, forsjármaður hans eða lögráðamaður stendur að henni.
    Sveitarfélög skulu starfrækja teymi fagfólks sem metur heildstætt þörf hins fatlaða fyrir þjónustu og hvernig koma megi til móts við óskir hans. Teymin skulu hafa samráð við hinn fatlaða við matið og skal það byggt á viðurkenndum matsaðferðum. Þegar óskir hins fatlaða lúta að þjónustu sem rekin er af öðrum en sveitarfélögum þarf að koma til samþykkis rekstraraðila áður en ákvarðanir eru teknar um að hlutaðeigandi þjónusta sé veitt hinum fatlaða. Enn fremur skal hafa samráð við hinn fatlaða og væntanlegt sambýlisfólk hans áður en tekin er ákvörðun um þjónustu á grundvelli 10. gr. laganna.

5. gr.

    Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, 5. gr. a, svohljóðandi:
    Hinum fatlaða er heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir um þjónustu sem teknar eru á grundvelli laga þessara til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.
    Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála fjallar um málsmeðferð, rétt til þjónustu og hvort þjónustan er í samræmi við lög þessi, reglugerðir eða reglur hlutaðeigandi sveitarfélags sem settar eru á grundvelli laganna.
    Kærufrestur er fjórar vikur frá því að tilkynning barst um ákvörðunina. Kæra telst fram komin innan kærufrests ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist úrskurðarnefndinni eða verið afhent póstþjónustu áður en fresturinn er liðinn.
    Stjórnsýslukæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.
    Um málsmeðferð fer skv. XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og stjórnsýslulögum.

6. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Skipulag sérhvers þjónustusvæðis skal koma fram í sérstöku stofnskjali þar sem fram kemur m.a. hvaða sveitarfélag eða sveitarfélög standa að þjónustu við fatlaða á svæðinu, hvernig skipulagi á samvinnu sveitarfélaganna skuli háttað, svo sem hvert sveitarfélaganna annast skipulag og framkvæmd þjónustunnar eða hvort sérstökum lögaðila, svo sem byggðasamlagi, hafi verið falið að annast skipulag og framkvæmd þjónustunnar fyrir hönd sveitarfélaganna, gerð og inntak samninga og upplýsingar um þá rekstrar- eða þjónustuaðila sem samið hefur verið við um framkvæmd þjónustu á svæðinu. Einnig skal í stofnskjalinu koma fram hvernig innra eftirliti sveitarfélaga, þar á meðal með framkvæmd samninga skv. 6. gr. b, skuli háttað.
    Sveitarfélög sem hafa samvinnu við önnur sveitarfélög um að mynda eitt þjónustusvæði, sbr. 2. mgr. 4. gr., skulu jafnframt gera með sér samstarfssamning um skipulag, framkvæmd og fjármögnun þjónustu við fatlaða innan þjónustusvæðisins. Samningurinn öðlast ekki gildi fyrr en hann hefur fengið staðfestingu hlutaðeigandi sveitarstjórna sem standa að þjónustusvæðinu. Í samningnum skal koma fram að sveitarfélögin bera sameiginlega ábyrgð á framkvæmd og fjármögnun þjónustunnar, þar á meðal gæðum hennar, og skal samningurinn kveða nánar á um form og skipulag þjónustunnar. Jafnframt skal koma fram hvernig stjórnsýslu málefna fatlaðra innan sveitarfélaganna skuli háttað, þar á meðal skal samningurinn fjalla um, þegar það á við, samkomulag sveitarfélaganna um hvert sveitarfélaganna annast skipulag og framkvæmd þjónustunnar eða hvort sérstakur lögaðili annast þjónustuna fyrir hönd þeirra.
    Sveitarfélög skulu senda velferðarráðuneyti afrit af stofnskjali og upplýsa ráðuneytið um þær breytingar sem kunna síðar að verða gerðar á stofnskjalinu.

7. gr.

    Á eftir 6. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 6. gr. a og 6. gr. b, svohljóðandi:

    a. (6. gr. a.)
    Sveitarfélagi eða sveitarfélögum sem standa saman að þjónustusvæði er heimilt að veita starfsleyfi til handa félagasamtökum, sjálfseignarstofnunum eða öðrum einkaaðilum sem vilja hefja eða taka við rekstri þjónustustofnunar skv. 9. gr. eða húsnæðisúrræði skv. 1. mgr. 10. gr. á þjónustusvæði þeirra.
    Hafi leyfisveitandi skv. 1. mgr. falið einu sveitarfélagi eða sérstökum lögaðila, svo sem byggðasamlagi, að skipuleggja og veita þjónustu við fatlaða er honum heimilt að fela þeim leyfisveitinguna skv. 1. mgr.
    Leyfisveitanda er heimilt að afturkalla starfsleyfi sem veitt hefur verið skv. 1. mgr. þegar rekstrar- eða þjónustuaðilinn hefur ekki sinnt kröfum um úrbætur innan tiltekinna tímamarka eða rekstrinum er verulega ábótavant að mati leyfisveitanda. Um afturköllun gilda ákvæði stjórnsýslulaga og meginreglur stjórnsýsluréttarins.

    b. (6. gr. b.)
    Þegar sveitarfélag eða sveitarfélög sem standa saman að þjónustusvæði veita starfsleyfi skv. 6. gr. a skal gerður samningur við þjónustu- eða rekstraraðilann þar sem mælt er ítarlega fyrir um skyldur beggja aðila og hvernig eftirliti skuli háttað. Enn fremur skal tekið fram í samningnum að stjórnsýslulög, sem og meginreglur stjórnsýsluréttar, gildi um þá stjórnsýslu sem þjónustu- eða rekstraraðili tekur að sér að annast á grundvelli samningsins.
    Þjónustu- og rekstraraðili sem starfar á grundvelli samnings sem gerður hefur verið skv. 1. mgr. skal árlega skila viðsemjanda sínum ásamt velferðarráðuneyti og Ríkisendurskoðun ársreikningi undirrituðum af löggiltum endurskoðanda ásamt skýrslu um starfsemi liðins árs.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      4. tölul. 2. mgr. fellur brott.
     b.      3. og 4. mgr. orðast svo:
                  Sveitarfélagi eða sveitarfélögum sem starfa saman á þjónustusvæði er heimilt að bæta við þjónustustofnunum, sameina þær eða fella niður starfsemi þeirra.
                  Félagasamtök, sjálfseignarstofnun eða annar einkaaðili sem vill hefja eða taka við rekstri þjónustustofnunar skal afla leyfis skv. 6. gr. a frá hlutaðeigandi sveitarfélagi eða sveitarfélögum sem standa saman að því þjónustusvæði þar sem stofnunin er staðsett.

9. gr.

    10. gr. laganna orðast svo:
    Fatlaðir skulu eiga kost á félagslegri þjónustu sem gerir þeim kleift að búa á eigin heimili og húsnæðisúrræðum í samræmi við þarfir þeirra og óskir eftir því sem kostur er.
    Sveitarfélag eða sveitarfélög sem standa saman að þjónustusvæði skulu tryggja að framboð á húsnæðisúrræðum skv. 1. mgr. sé til staðar jafnframt því að veita þjónustu skv. 1. mgr.
    Félagasamtök, sjálfseignarstofnun eða annar einkaaðili sem vill starfrækja húsnæðisúrræði eða þjónustu skv. 1. mgr. skal afla leyfis skv. 6. gr. a frá hlutaðeigandi sveitarfélagi eða sveitarfélögum er standa saman að því þjónustusvæði þar sem húsnæðisúrræðið er staðsett.
    Húsnæðisúrræði fatlaðra samkvæmt lögum þessum skulu vera í íbúðabyggð, sbr. skipulagslög. Jafnframt skulu húsnæðisúrræðin staðsett nærri almennri og opinberri þjónustu sé þess nokkur kostur.
    Sveitarfélag gerir húsaleigusamning við hinn fatlaða sem býr í húsnæðisúrræði í samræmi við ákvæði húsaleigulaga og innheimtir húsaleigu á grundvelli þess samnings.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur í reglugerð um húsnæðisúrræði samkvæmt ákvæði þessu í samráði við Sambandi íslenskra sveitarfélaga, þar á meðal hvernig ákveða skuli fjárhæð húsaleigu í húsnæðisúrræðum og breytingar á þeirri fjárhæð, um rekstur heimilissjóða og greiðslur til þeirra og nánar um skipulag húsnæðisúrræða.

10. gr.

    11. gr. laganna fellur brott.

11. gr.

    VII. kafli laganna, Framkvæmd þjónustunnar, og VIII. kafli, Greiningar- og ráðgjafarstofa ríkisins, falla brott.

12. gr.

    Í stað orðanna „eða á sérhæfðum deildum, sbr. lög um leikskóla, nr. 48/1991“ í 19. gr. laganna kemur: sbr. lög um leikskóla.

13. gr.

    20. gr. laganna fellur brott.

14. gr.

    Í stað 3. málsl. 21. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ráðherra er heimilt að gefa út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélögin um framkvæmd þjónustunnar á grundvelli ákvæðis þessa. Sveitarstjórnum er jafnframt heimilt að setja reglur um þjónustuna á grundvelli ákvæðisins og leiðbeinandi reglna ráðherra.

15. gr.

    Síðari málsliður 25. gr. laganna fellur brott.

16. gr.

    Í stað 2. og 3. mgr. 27. gr. laganna kemur ein ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ráðherra er heimilt að gefa út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélögin um framkvæmd þjónustunnar á grundvelli ákvæðis þessa. Sveitarstjórnum er jafnframt heimilt að setja sér nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis, svo sem skilyrði sem uppfylla þarf til að njóta aðstoðarinnar og viðmiðunarreglur um fjárhæð styrkja.

17. gr.

    28. gr. laganna orðast svo:
    Vinnumálastofnun annast framkvæmd vinnumarkaðsaðgerða fyrir fatlaða samkvæmt lögum um vinnumarkaðsaðgerðir og greiðist kostnaður vegna vinnumarkaðsaðgerða úr ríkissjóði.

18. gr.

    Við 29. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Kostnaður vegna sérstakrar liðveislu á vinnustað greiðist úr ríkissjóði.

19. gr.

    Við 30. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Kostnaður vegna verndaðrar vinnu skv. 1. mgr. greiðist úr ríkissjóði.

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Félagsmálaráðuneytið“ kemur: Vinnumálastofnun.
     b.      Í stað orðsins „samtök“ kemur: heildarsamtök.

21. gr.

    Síðari málsliður 32. gr. laganna fellur brott.

22. gr.

    XIII. kafli laganna, Húsnæðismál, fellur brott.

23. gr.

    34. gr. laganna orðast svo:
    Sveitarfélög skulu sinna ferlimálum fatlaðra með skipulögðum hætti, m.a. með gerð áætlana um endurbætur á aðgengi opinberra bygginga og þjónustustofnana í samræmi við ákvæði mannvirkjalaga og skipulagslaga sem og reglugerða settra á grundvelli þeirra.

24. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 35. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „almenningsfarartæki“ í 1. mgr. kemur: vegna fötlunar.
     b.      3. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     c.      Í stað „1.–4. tölul.“ í 2. mgr. kemur: 1.–3. tölul.
     d.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ráðherra er heimilt að gefa út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélögin um rekstur ferðaþjónustu fatlaðra á grundvelli ákvæðis þessa. Sveitarstjórnum er jafnframt heimilt að setja reglur um þjónustuna á grundvelli ákvæðisins og leiðbeinandi reglna ráðherra. Þá er sveitarfélögum heimilt að innheimta gjald fyrir ferðaþjónustu fatlaðra samkvæmt gjaldskrá sem sveitarstjórnir skulu setja.

25. gr.

    Fyrri málsliður 36. gr. laganna fellur brott.

26. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 37. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Í því skyni að treysta réttindi fatlaðra einstaklinga á heimilum fatlaðra skv. 1. mgr. 10. gr. á sviði einkalífs og meðferðar fjármuna þeirra skal ráðherra skipa trúnaðarmenn fatlaðra að fengnum tillögum heildarsamtaka fatlaðra. Skilyrði er að trúnaðarmenn hafi þekkingu og reynslu af málefnum fatlaðra.
     b.      2. málsl. 3. mgr. orðast svo: Að lokinni könnun aðstoðar trúnaðarmaður hinn fatlaða við að kæra málið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála þegar það á við, sbr. 3. mgr. 5. gr. a, og metur hvort hann tilkynnir um málið til velferðarráðuneytis.
     c.      Í stað „3.–6. tölul.“ í 4. mgr. kemur: 1. mgr.
     d.      2. málsl. 4. mgr. orðast svo: Að lokinni könnun aðstoðar trúnaðarmaður hinn fatlaða við að kæra málið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála þegar það á við, sbr. 3. mgr. 5. gr. a, og metur hvort hann tilkynnir um málið til velferðarráðuneytis.
     e.      Fyrri málsliður 5. mgr. fellur brott.
     f.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Kostnaður vegna trúnaðarmanna fatlaðra greiðist úr ríkissjóði.
                  Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur í reglugerð um trúnaðarmenn fatlaðra, svo sem um fjölda þeirra.

27. gr.

    XVI. kafli laganna, Framkvæmdasjóður fatlaðra, fellur brott.

28. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 41. gr. laganna:
     a.      Greinin orðast svo:
                  Sveitarfélög skulu fjármagna þjónustu við fatlaða og annan rekstrarkostnað samkvæmt lögum þessum að því leyti sem annað er ekki tekið fram eða leiðir af öðrum lögum. Jafnframt skulu sveitarfélög standa að uppbyggingu á þjónustustofnunum fyrir fatlaða með framlögum til stofnkostnaðar eftir því sem nauðsyn krefur.
                  Sveitarfélög skulu árlega gera fjárhagsáætlanir um útgjöld til málefna fatlaðra í samræmi við þá þjónustu sem þeim ber að veita á grundvelli þessara laga.
                  Velferðarráðuneyti er heimilt að óska eftir því að sveitarfélög sendi ráðuneytinu fjárhagsáætlanir sínar skv. 2. mgr.
     b.      Fyrirsögn á undan greininni fellur brott.

29. gr.

    42. gr. laganna orðast svo:
    Tekjur, sem falla til vegna atvinnustarfsemi þjónustu- eða rekstraraðila sem nýtur framlaga frá sveitarfélögum eða úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, vegna framkvæmdar á þjónustu á grundvelli laga þessara skulu renna til greiðslu rekstrarkostnaðar starfseminnar. Opinber fjárframlög skulu taka mið af þessum tekjum og er umræddum aðilum skylt að veita allar þær bókhaldsupplýsingar sem þörf er á til þess að staðreyna megi tekjur og rekstrarkostnað.

30. gr.

    43. gr. laganna orðast svo:
    Óheimilt er að ráða í störf hjá sveitarfélögum, þ.m.t. byggðasamlögum, ríki eða einkaaðilum sem unnin eru í þágu þjónustu við fatlaða, hvort sem þjónustan er veitt á heimili hins fatlaða, á öðrum heimilum eða stofnunum, þá sem hafa hlotið refsidóma vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum. Hafi umsækjandi verið dæmdur til refsingar fyrir brot á öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga skal meta áhrif þess á hæfni viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir, m.a. að teknu tilliti til eðlis starfsins og alvarleika brotsins.
    Stjórnendur hjá sveitarfélögum, ríki eða einkaaðilum sem fara með þjónustu við fatlaða eiga rétt til upplýsinga úr sakaskrá um það hvort tiltekinn umsækjandi um starf á þeirra vegum hefur hlotið dóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga eða annarra ákvæða sömu laga að fengnu samþykki hans.

31. gr.

    44.–53. gr. laganna ásamt fyrirsögn á undan 45. gr. falla brott.

32. gr.

    55. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra er heimilt að gefa út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélögin um framkvæmd þjónustu á grundvelli laga þessara. Sveitarstjórnum er jafnframt heimilt að setja reglur um þjónustuna á grundvelli laga þessara og leiðbeinandi reglna ráðherra. Reglur sveitarstjórna skulu birtar í B-deild Stjórnartíðinda.

33. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða IV í lögunum orðast svo:
    Sérstöku samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðra skal komið á um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar. Markmið verkefnisins er að prófa leiðir til að taka upp notendastýrða persónulega aðstoð við fatlaða með markvissum og árangursríkum hætti. Miða skal við að þjónustan verði skipulögð á forsendum notandans og undir verkstjórn hans um leið og hún verði sem heildstæðust milli ólíkra þjónustukerfa.
    Ráðherra skal skipa sjö manna verkefnisstjórn til að leiða samstarfsverkefnið um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar. Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalagið skulu tilnefna sinn fulltrúann hvor og Samband íslenskra sveitarfélaga þrjá. Ráðherra skipar tvo fulltrúa án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður. Varamenn í verkefnisstjórn skulu vera jafnmargir aðalmönnum og skipaðir með sama hætti.
    Hlutverk verkefnisstjórnar er að móta ramma um fyrirkomulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar við fatlaða. Í því skyni munu sveitarfélög í samráði við verkefnisstjórnina leitast við að bjóða fötluðum notendastýrða persónulega þjónustu til reynslu í tiltekinn tíma. Við mat á því hverjum eða hvaða hópi fatlaðra skuli boðin slík þjónusta skal gæta jafnræðis.
    Sveitarfélögum er heimilt að verðmeta einstaka þjónustuþætti í gjaldskrá. Sveitarfélög skulu síðan gera notendasamninga um notendastýrða persónulega aðstoð við hvern notanda eða aðila sem kemur fram fyrir hönd þeirra þar sem fram kemur hvaða þjónustu hlutaðeigandi þarf á að halda í daglegu lífi og verðmat þjónustunnar. Sveitarfélögum er heimilt að ráðstafa þeim fjármunum sem svara til kostnaðar vegna þjónustu hvers notanda sem veitt er á grundvelli notendasamnings um notendastýrða persónulega þjónustu til notandans með þeim hætti sem ákveðið er í notendasamningnum.
    Faglegt og fjárhagslegt mat á samstarfsverkefninu skal fara fram fyrir árslok 2014 en þá skal verkefninu formlega vera lokið. Enn fremur skal ráðherra eigi síðar en í árslok 2014 leggja fram frumvarp til laga þar sem lagt verður til að lögfest verði að persónuleg notendastýrð aðstoð verði eitt meginform þjónustu við fatlaða og skal efni frumvarpsins m.a. taka mið af reynslu af framkvæmd samstarfsverkefnisins.

34. gr.

    Við lögin bætast átta ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (V.)
    Þrátt fyrir 3. mgr. 29. gr. og 2. mgr. 30. gr. skal kostnaður sem til fellur vegna sérstakrar liðveislu á vinnustað og verndaðrar vinnu á árinu 2011 skiptast milli ríkis og sveitarfélaga í samræmi við samkomulag þeirra á milli eins og fram kemur í 1. gr. samnings þeirra um yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga.

    b. (VI.)
    Velferðarráðherra skal skipa átta manna samráðsnefnd um málefni fatlaðra. Fjármálaráðherra, innanríkisráðherra, Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands skulu tilnefna einn fulltrúa hver og Samband íslenskra sveitarfélaga skal tilnefna þrjá fulltrúa. Ráðherra skipar einn án tilnefningar og skal hann vera formaður samráðsnefndarinnar. Skipun samráðsnefndarinnar skal gilda til 31. desember 2014.
    Samráðsnefndin skal vera velferðarráðherra og sveitarfélögum til ráðgjafar um málefni fatlaðra, hafa umsjón með framkvæmd á yfirfærslu þjónustu við fatlaða, gera tillögur um breytingar á tilhögun yfirfærslunnar eftir því sem ástæða er til, stýra endurmati yfirfærslunnar og fjalla um vafamál og álitaefni sem upp kunna að koma. Ráðherra er heimilt að fela nefndinni frekari verkefni í tengslum við yfirfærslu þjónustunnar.
    Sérdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga skal greiða kostnað vegna starfa samráðsnefndarinnar.

    c. (VII.)
    Framkvæmdasjóður fatlaðra skal lagður niður 1. janúar 2011 en frá þeim tíma tekur fasteignasjóður innan Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, sbr. lög nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum, við réttindum og skyldum sjóðsins í tengslum við fasteignir sem nýttar eru í þágu þjónustu við fatlaða við yfirfærsluna. Enn fremur er stjórnarnefnd um málefni fatlaðra lögð niður frá sama tíma.

    d. (VIII.)
    Svæðisskrifstofur um málefni fatlaðra er hafa starfað á grundvelli 9. gr. laga nr. 59/1992 skulu lagðar niður 1. janúar 2011. Öll störf í yfirstjórn, umsýslu og ráðgjöf svæðisskrifstofanna eru lögð niður frá sama tíma. Um réttindi starfsmanna svæðisskrifstofanna gilda lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

    e. (IX.)
    Frá 1. janúar 2011 flytjast öll störf á þjónustustofnunum eða í tengslum við búsetuúrræði sem ríkið rekur á grundvelli 9. og 10. gr. laga nr. 59/1992 frá ríki til hlutaðeigandi sveitarfélaga sem taka við rekstri stofnana eða búsetuúrræða við tilfærslu þjónustunnar frá ríki til sveitarfélaga. Um réttindi og skyldur starfsmanna til starfa hjá hlutaðeigandi sveitarfélögum fer eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, með síðari breytingum, samþykktum sveitarfélaga og laga nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, eins og á við hverju sinni.

    f. (X.)
    Svæðisráð skv. 6. gr. laga nr. 59/1992 skulu lögð niður 1. janúar 2011.

    g. (XI.)
    Ráðherra skal leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk eigi síðar en í lok árs 2011 þar sem m.a. eru lögð til ákvæði um réttindagæslumenn fyrir fatlað fólk, persónulega talsmenn og nauðsynlegar aðgerðir til að draga úr nauðung við fatlað fólk.

    h. (XII.)
    Lög þessi skal endurskoða í heild sinni fyrir árslok 2014, m.a. með hliðsjón af endurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og heildarsamtök fatlaðra. Við þá endurskoðun skal taka mið af meginreglum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hafi það ekki þegar verið gert.

35. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2011.
    Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skal fella meginmál þeirra inn í lög um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, með síðari breytingum, og gefa þau út svo breytt með samfelldri greinatölu og kaflanúmerum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Ríkisstjórn Íslands og sveitarfélögin hafa gert með sér samkomulag um að fagleg og fjárhagsleg ábyrgð á framkvæmd þjónustu við fatlað fólk flytjist frá ríki til sveitarfélaga en samkomulagið miðar að því að yfirfærslan eigi sér stað 1. janúar 2011. Frumvarp þetta er lagt fram í því skyni að samkomulagið komist í framkvæmd. Þær breytingar sem lagðar eru til á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, með síðari breytingum, miða nánast eingöngu að því að ná þeim markmiðum að framkvæmdin á opinberri þjónustu við fatlað fólk flytjist frá ríki til sveitarfélaga. Því er efnisbreytingum haldið í lágmarki en eðli málsins samkvæmt eru lagðar til töluverðar breytingar á stjórnsýslu innan málaflokksins.
    Flutningur málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga hefur lengi verið til umræðu. Árið 1996 samþykkti Alþingi breytingu á gildandi lögum um málefni fatlaðra þar sem lögfest var með ákvæði til bráðabirgða að fela félagsmálaráðherra að undirbúa yfirfærslu málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga. Í kjölfarið skipaði ráðherra nefndir til þess að undirbúa málið. Afrakstur þeirrar vinnu voru m.a. ítarlegar upplýsingar um faglega stöðu þjónustu við fatlað fólk sem og tillögur að mati á kostnaði við þjónustuna og fjármögnun hennar á vegum sveitarfélaga. Þrátt fyrir vandaðan undirbúning tókst ekki samkomulag um yfirfærsluna milli ríkis og sveitarfélaga og var verkefnið lagt til hliðar á vordögum árið 2000.
    Ákvörðun um að hefja að nýju vinnu við undirbúning að yfirfærslu þessarar þjónustu frá ríki til sveitarfélaga var tekin á samráðsfundi þessara aðila sem haldinn var 16. febrúar 2007. Frumkvæði að málinu kom frá fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þáverandi félagsmálaráðherra skipaði í apríl 2007 sérstaka verkefnisstjórn til þess að stýra vinnunni. Verkefnisstjórnin er skipuð fulltrúum þeirra ráðuneyta sem koma að málaflokknum ásamt fulltrúum sveitarfélaganna og heildarsamtaka fatlaðs fólks. Frá því að verkefnið hófst hafa nokkrar breytingar verið gerðar á skipan verkefnisstjórnarinnar, en þar sitja nú: Einar Njálsson, sérfræðingur í félags- og tryggingamálaráðuneyti, formaður, Gerður Aagot Árnadóttir, tilnefnd af Landssamtökunum Þroskahjálp, Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, tilnefnd af samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Guðmundur Magnússon, tilnefndur af Öryrkjabandalagi Íslands, Hlynur Hreinsson, tilnefndur af fjármálaráðuneyti, Lúðvík Geirsson, Sigrún Björk Jakobsdóttir og Stella K. Víðisdóttir, öll tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Einar Jón Ólafsson, tilnefndur af heilbrigðisráðuneytinu, og Þór G. Þórarinsson frá félags- og tryggingamálaráðuneyti, skipaður án tilnefningar. Með verkefnisstjórn störfuðu fagnefndir eftir því sem talið var þurfa hverju sinni.
    Ljóst er að gildandi lög um málefni fatlaðra eru að stofni til komin nokkuð til ára sinna. Það er því álit margra að rök séu til að endurskoða lögin í heild sinni. Ástæða þess að ekki var ráðist í heildarendurskoðun á lögunum samhliða yfirfærslu málaflokksins nú er sú að talið var mjög erfitt að ráðast í stórfelldar breytingar á innihaldi og framkvæmd þjónustunnar á sama tíma og leitast var við að ná með heildstæðum hætti yfir þau verkefni sem flytjast ættu til sveitarfélaga. Með frumvarpi þessu er því jafnframt lagt til í ákvæði til bráðabirgða að vinna við heildarendurskoðun á lögunum hefjist þegar árið 2011 en gert er ráð fyrir að endurskoðuninni ljúki fyrir árslok 2014. Meðal annars er lagt til að litið verði sérstaklega til efnis samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Jafnframt er lagt til að endurskoðunin verði gerð með hliðsjón af heildarendurskoðun á lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, sbr. ákvæði III til bráðabirgða við lögin um málefni fatlaðra. Engu síður er gert ráð fyrir að þegar hefjist undirbúningur að smíði frumvarps er fjallar nánar um réttindagæslu fatlaðs fólks og er miðað við að velferðarráðherra leggi fram frumvarp þess efnis á Alþingi eigi síðar en í árslok 2011, sbr. g-lið 34. gr. frumvarps þessa. Við smíði frumvarpsins verður haft samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks en gert er ráð fyrir að réttindagæsla fatlaðs fólks verði áfram verkefni ríkisins. Rétt er að nefna að við gerð þessa frumvarps var ákveðið að notast áfram við orðin „málefni fatlaðra“ og „fatlaður“ þegar átt er við málefni fatlaðs fólks og fatlað fólk þar sem framangreind orð eru notuð í gildandi lögum. Er gert ráð fyrir að þessari orðnotkun verði breytt við endurskoðun laganna.
    Ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga undirrituðu 13. mars 2009 viljayfirlýsingu um tilfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga. Meginmarkmið tilfærslunnar er að stuðla að samþættingu félagslegrar þjónustu við íbúa sveitarfélaganna og stuðla þannig að heildstæðari og um leið bættri þjónustu við einstaklingana sem þurfa á þjónustunni að halda í daglegu lífi. Þykja sveitarfélögin að mörgu leyti betur í stakk búin en ríkið til að laga félagslega þjónustu að þörfum notenda með hliðsjón af ólíkum aðstæðum fólks. Standa vonir til að félagsþjónusta sveitarfélaga eflist samhliða því að sveitarfélögin sinni skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk.
    Gert er ráð fyrir að velferðarráðherra fari með yfirstjórn málefna fatlaðs fólks þegar nýtt velferðarráðuneyti tekur til starfa 1. janúar 2011, sbr. lög nr. 121/2010, um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, með síðari breytingum, og beri ábyrgð á stefnumótun innan málaflokksins. Áhersla er lögð á mikilvægi þess að stefnumótunin verði unnin í náinni samvinnu með sveitarfélögunum sem fara þá með framkvæmdina sem og fjármögnun þjónustunnar. Þá eru ekki lagðar til breytingar á aðkomu heildarsamtaka fatlaðs fólks að slíkri vinnu.
    Ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga undirrituðu 6. júlí 2010 samkomulag um fjárhagsramma yfirfærslunnar. Markmið samkomulagsins er að færa ábyrgð á fjármögnun þjónustunnar frá ríki til sveitarfélaga og tryggja sveitarfélögum sanngjarnan fjárhagsramma í því skyni. Til að tryggja að sveitarfélögin séu í stakk búin að taka við þjónustu við fatlað fólk mun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum, samhliða frumvarpi þessu. Þar er lagt til að útsvarshlutfall sveitarfélaga hækki um 1,2%, sem svarar til lækkunar á tekjuskattshlutfalli ríkisins. Enn fremur er gert ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga að ríkissjóður leggi til framlög sem ætlað er að nýta í þróun á notendastýrðri persónulegri aðstoð til að eyða biðlista eftir þjónustu við fatlað fólk sem og hugsanlegan viðbótarkostnað sem fellur til vegna tilfærslu málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga. Í frumvarpi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga er jafnframt gert ráð fyrir að sérstök deild við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga verði sett á laggirnar. Til sérdeildarinnar renna 80% af tekjuauka sveitarfélaga vegna breytinga á útsvarshlutfalli ásamt tekjum fasteignasjóðs innan Jöfnunarsjóðsins og eingreiðslu sem ákveðin er með fjárlögum vegna yfirfærslunnar. Hlutverk sérdeildarinnar er að tryggja að tekjuaukning einstakra sveitarfélaga endurspegli kostnaðarmun vegna mismunandi fjölda fatlaðra íbúa og ólíkra þjónustuþarfa þeirra. Þá er lagt til að stofnaður verði sérstakur fasteignasjóður innan Jöfnunarsjóðsins til þess að annast umsýslu fasteigna í eigu ríkisins sem nýttar eru í þjónustu við fatlað fólk við yfirfærsluna. Sjóðnum er því ætlað taka við réttindum og skyldum Framkvæmdasjóðs fatlaðra að því er varðar umsýslu fasteigna en gert er ráð fyrir að Framkvæmdasjóðurinn verði lagður niður frá sama tíma, sbr. c-lið 34. gr. frumvarps þessa.
    Verkefnisstjórnin hefur unnið skipulega að undirbúningi yfirfærslu málaflokksins og látið taka saman töluvert af talnaefni og öðrum gögnum um þjónustu við fatlað fólk. Gögnum var safnað kerfisbundið frá ýmsum aðilum, m.a. frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu, svæðisskrifstofum í málefnum fatlaðra og sveitarfélögum sem samið hafa við ríkið um þjónustu við fatlað fólk. Verkefnisstjórnin hefur jafnframt haft aðgang að ítarlegum gögnum og skýrslum sem m.a. voru unnar á tímabilinu 1998–2000 vegna fyrri áætlana um yfirfærslu málaflokksins sem hafa m.a. nýst við að meta þróun þjónustunnar síðastliðin tíu ár. Þessi sjálfstæða gagnaöflun verkefnisstjórnarinnar er sá faglegi og fjárhagslegi grunnur sem er nauðsynlegur svo yfirfærslan geti orðið árangursrík. Samkomulagið milli ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustu við fatlað fólk er sett fram með heildstæðum hætti þar sem byggt er á framangreindum grunni en jafnframt er að finna ítarefni tengt einstökum greinum samkomulagsins í tölusettum viðaukum við samkomulagið. Þar á meðal er fjallað um hvernig réttur fatlaðs fólks til þjónustu er tryggður og skilgreint nýtt samstarfsverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð. Fjallað er um mat á biðlista og einnig ítarlega um innleiðingu á nýju þjónustumati sem er grundvöllur jöfnunarkerfis milli þjónustuveitenda. Einnig er fjallað um starfsmannamál, meðferð fasteigna og sérstakan stýrihóp sveitarfélaga, heildarsamtaka fatlaðs fólks og ríkisins sem mun hafa umsjón með framkvæmd tilfærslunnar, sbr. einnig b- lið 34. gr. frumvarps þessa. Enn fremur er fjallað um eftirlit með þjónustunni og faglegt og fjárhagslegt endurmat á árangri tilfærslunnar.
    Helstu breytingar í frumvarpinu eru eftirfarandi:
     a.      Miðað verður við að notendur þjónustu við fatlað fólk sæki um hana hjá því sveitarfélagi þar sem þeir eiga lögheimili en það sveitarfélag tekur ákvörðun um hvort veita eigi þjónustuna.
     b.      Lagt er til að landinu verði skipt upp í þjónustusvæði þannig að á hverju þjónustusvæði séu að lágmarki 8.000 íbúar, en mikilvægt er að hvert svæði hafi yfir að ráða fjölbreyttum þjónustuúrræðum og nauðsynlegri fagþekkingu í málaflokknum. Því er miðað við að sveitarfélög með færri en 8.000 íbúa komi á samvinnu sín á milli um skipulag og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk. Í því sambandi er lögð áhersla á að sveitarfélögin beri sameiginlega ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustunnar sem og fjármögnun hennar. Engu síður er gert ráð fyrir að ráðherra verði heimilt að veita undanþágur frá skilyrðinu um íbúafjölda við mótun þjónustusvæða vegna landfræðilegrar legu einstakra sveitarfélaga.
     c.      Lagt er til að sveitarfélög sameinist um að starfrækja matsteymi, skipuð fagfólki, er hafa það hlutverk að meta með samræmdum hætti þjónustuþörf þeirra einstaklinga sem þurfa á þjónustu að halda og undirbyggja stjórnvaldsákvarðanir um þá þjónustu sem veitt er.
     d.      Áhersla er lögð á mikilvægi þess að stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélaga á grundvelli laganna verði unnt að kæra til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. XVII. kafla laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þar með er unnt að kæra stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og laga um málefni fatlaðra til sömu úrskurðarnefndarinnar sem kann að fela í sér ákveðið hagræði fyrir þá einstaklinga sem nýta sér þjónustu sveitarfélaganna á grundvelli laganna.
     e.      Samhliða því að sveitarfélögin taki yfir opinbera þjónustu við fatlað fólk frá ríkinu 1. janúar 2011 er lagt til að svæðisskrifstofur í málefnum fatlaðra, svæðisráð í málefnum fatlaðra, Framkvæmdasjóður fatlaðra og stjórnarnefnd um málefni fatlaðra verði lögð niður frá sama tíma. Velferðarráðuneytið mun taka að sér eftirlit með framkvæmd laganna fyrst um sinn en stefnt er að því að setja á laggirnar almenna eftirlitsstofnun sem hafi það hlutverk að sinna gæðaeftirliti með félagslegri þjónustu. Tilgangurinn er að hafa eftirlit með að þjónusta, starfsemi og rekstur sveitarfélaga og annarra aðila samkvæmt lögunum sé í samræmi við markmið laganna, reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim og að réttindi fatlaðs fólks séu virt. Jafnframt er gert ráð fyrir að ráðherra skipi trúnaðarmenn fatlaðs fólks sem ætlað er að hafa sambærilegt hlutverk og þeir hafa í gildandi kerfi. Hins vegar er lagt til að sveitarfélögin taki við því hlutverki svæðisskrifstofa að sjá um skipulag og framkvæmd þjónustunnar. Enn fremur taka sveitarfélög við rekstri þjónustustofnana og búsetuúrræða sem ríkið hefur áður rekið á grundvelli 9. og 10. gr. laganna þannig að starfsemin haldi áfram. Starfsfólki þjónustustofnana og búsetuúrræða bjóðast áfram sömu störfin. Þá er sveitarfélögunum gert að hafa innra eftirlit með framkvæmd þjónustunnar, þar á meðal með framkvæmd samninga sem þau gera við rekstrar- eða þjónustuaðila um framkvæmd þjónustu við fatlað fólk.
     f.      Lagt er til að samstarfsverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð verði hafið með það að markmiði að prófa leiðir til að taka upp slíka aðstoð við fatlað fólk á markvissan og árangursríkan hátt, sbr. 33. gr. frumvarps þessa. Notendastýrð persónuleg aðstoð snýst um að einstaklingar sem þurfa aðstoð í daglegu lífi sínu stjórni því sjálfir hvers konar stoðþjónustu þeir njóta, hvar og hvernig hún er veitt og af hverjum. Það er þó háð tilteknum fjárhags- og tímaramma sem byggist á mati á þjónustuþörf viðkomandi notanda. Sveitarfélögin hafa fullan hug á að taka upp notendastýrða persónulega aðstoð og telja mikilvægt að unnið verði skipulega að því markmiði í samráði við hagsmunaaðila. Má líta á þessa tilhögun sem fyrsta skrefið í þá átt að innleiða notendastýrða persónulega aðstoð sem eitt meginform þjónustu við fatlað fólk í samræmi við þingsályktun um sama efni sem Alþingi samþykkti á 138. löggjafarþingi (þskj. 641 – 354. mál).
     g.      Gert er ráð fyrir að skýrt verði kveðið á um bann við því að ráða fólk til starfa við þjónustu samkvæmt lögunum sem hlotið hefur refsidóma vegna brota á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga. Enn fremur þykir þýðingarmikið að heimilt verði að meta sérstaklega áhrif þess ef einstaklingur hefur brotið gegn öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga á hæfi hlutaðeigandi til að sinna þjónustustörfum í þágu fatlaðs fólks. Þá er gert ráð fyrir að nánar tilgreindir aðilar geti fengið upplýsingar úr sakaskrá um það hvort tiltekinn einstaklingur sem hefur sótt um starf á þeirra vegum hafi gerst sekur um brot á ákvæðum kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga, sem og annarra ákvæða laganna. Því er ekki lagt til að gerð verði krafa um að sakarvottorð verði lagt fram við hverja ráðningu í þjónustustörf í þágu fatlaðs fólks.
     h.      Lagt er til að á árinu 2014 skuli fara fram sameiginlegt endurmat ríkis og sveitarfélaga á faglegum og fjárhagslegum árangri tilfærslunnar og skal undirbúningur matsins hefjast þegar árið 2013. Aðilar skulu taka upp viðræður sín á milli leiði matið í ljós verulega röskun á forsendum yfirfærslunnar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Lögð er til sú breyting að tekið verði skýrar fram en áður að tekið skuli mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir við framkvæmd laganna og er þar sérstaklega vísað til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þáverandi félagsmálaráðherra undirritaði samninginn fyrir hönd íslenskra stjórnvalda 30. mars 2007 og stendur yfir vinna að undirbúningi fyrir fullgildingu samningsins en jafnframt stefna stjórnvöld að því að leggja til við Alþingi að samningurinn verði lögfestur í heild sinni.

Um 2. gr.


    Gert er ráð fyrir að málefni fatlaðs fólks falli undir málefnasvið velferðarráðuneytis eftir sameiningu félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis sem tekur gildi 1. janúar 2011, sbr. lög nr. 121/2010, um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/ 1969, með síðari breytingum. Er lagt til að ráðherra beri áfram ábyrgð á opinberri stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks þrátt fyrir að framkvæmdin færist til sveitarfélaganna. Engu síður er talið mjög mikilvægt að slík stefnumótun sé gerð í náinni samvinnu við sveitarfélögin sem er ætlað að bera ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk sem og fjármögnun hennar, sbr. 3. gr. frumvarps þessa. Enn fremur er gert ráð fyrir að heildarsamtök fatlaðs fólks og aðildarfélög þeirra hafi eftir sem áður áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðs fólks, sbr. 1. gr. frumvarps þessa, en ekki eru lagðar til breytingar á lögunum að þessu leyti.
    Lagt er til að velferðarráðherra fari með eftirlit með framkvæmd laganna í fyrstu en stefnt er að því síðar að fela sérstakri stofnun gæðaeftirlit með allri félagslegri þjónustu sem sveitarfélög veita í því skyni að tryggja gæði þjónustunnar. Er í því sambandi m.a. gert ráð fyrir að ráðherra hafi umsjón með gerð þjónustu- og gæðaviðmiða í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Tilgangur þessa er að hafa eftirlit með að þjónustan sé í samræmi við markmið laganna, reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim og að réttindi fatlaðs fólks séu virt. Gert er ráð fyrir að sérfræðingi í málefnum fatlaðs fólks í ráðuneytinu verði falið að annast eftirlitið. Mun sérfræðingurinn kalla eftir upplýsingum frá sveitarfélögunum og fylgja því eftir að þjónusta, starfsemi og rekstur sveitarfélaga og annarra aðila á grundvelli laganna sé í samræmi við markmið þeirra. Einnig mun sérfræðingurinn starfa með trúnaðarmönnum fatlaðs fólks eftir því sem við á hverju sinni. Gert er ráð fyrir að sveitarfélögin annist innra eftirlit með framkvæmd þjónustunnar en í því felst m.a. að sveitarfélögin hafi eftirlit með framkvæmd þeirra samninga sem þau gera við rekstrar- og þjónustuaðila um framkvæmd þjónustu við fatlað fólk skv. b-lið 7. gr. frumvarps þessa, sbr. 3. gr. þess. Í a-lið 7. gr. er gert ráð fyrir að sveitarfélögum verði gert heimilt að afturkalla starfsleyfi sem þau hafa áður veitt rekstrar- eða þjónustuaðila, hafi sá síðarnefndi ekki sinnt kröfum um úrbætur innan tiltekinna tímamarka eða rekstrinum sé verulega ábótavant að mati sveitarfélagsins.

Um 3. gr.


    Ákvæðið er í samræmi við samning ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaga um yfirfærslu málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga. Mælt er fyrir um að sveitarfélögin beri ábyrgð á skipulagi, framkvæmd og kostnaði vegna þjónustu við fatlað fólk nema annað sé tekið fram eða leiðir af öðrum lögum. Í því sambandi má nefna að Vinnumálastofnun mun annast framkvæmd vinnumarkaðsaðgerða sem fötluðu fólki stendur til boða á grundvelli laga nr. 55/ 2006, um vinnumarkaðsaðgerðir, sbr. 17.–19. gr. frumvarps þessa, sbr. þó einnig a-lið 34. gr. þess. Þar á meðal er atvinna með stuðningi og verndaðir vinnustaðir sem verða því áfram á verksviði ríkisins og greiðist kostnaður vegna þeirra úr ríkissjóði. Þá verða eftirtalin verkefni áfram á verksviði ríkisins: Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, sbr. lög nr. 83/2003, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, sbr. lög nr. 160/2008, umönnunargreiðslur samkvæmt lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, greiðslur samkvæmt lögum nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, styrkir vegna bifreiðakaupa sem forsjármenn fatlaðra barna eiga rétt á samkvæmt lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, og niðurfelling bifreiðagjalda samkvæmt lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, kostnaður vegna ferða fatlaðs fólks frá landsbyggðinni til Reykjavíkur þegar um er að ræða nauðsynlegar ferðir að tilhlutan lækna, svo sem til greiningar, eftirlits og endurhæfingar samkvæmt reglum þar um, og fullorðinsfræðsla fatlaðs fólks sem starfrækt er á grundvelli samnings milli Fjölmenntar og mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
    Lagt er til að landinu verði skipt í þjónustusvæði þannig að á hverju þjónustusvæði séu að lágmarki 8.000 íbúar. Er því gert ráð fyrir að sveitarfélög með færri en 8.000 íbúa hafi samvinnu við önnur sveitarfélög um skipulag og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk þar sem ekki var talið rekstrarlega hagkvæmt fyrir fámennari sveitarfélög að standa ein að þjónustunni þannig að gæði væru nægilega tryggð. Tilgangur þjónustusvæða er því að tryggja að þeir sem veita þjónustuna hafi faglega og fjárhagslega getu til að sinna verkefninu. Enn fremur standa vonir til að einstök þjónustusvæði geti stuðlað að almennri eflingu félagsþjónustu sveitarfélaga en mikilvægt er að þjónustusvæðin hafi yfir að ráða fjölbreyttum þjónustuúrræðum og nauðsynlegri sérþekkingu í málaflokknum til þess að geta sinnt verkefninu. Faglegur viðbúnaður þarf að vera til staðar svo að unnt sé að mæta þeim þjónustuþörfum sem fyrir hendi eru með tiltölulega skömmum fyrirvara, svo sem vegna fæðingar fatlaðs barns eða flutnings fatlaðs einstaklings á svæðið. Enn fremur er með þessu skipulagi leitast við að takmarka áhættu af sveiflum í fjölda og þjónustuþörfum fatlaðs fólks.
    Áhersla er lögð á að þegar sveitarfélög hafa með sér samvinnu bera þau sameiginlega ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustunnar sem og fjármögnun hennar. Þegar sveitarfélög mynda eitt þjónustusvæði er eðlilegt að þau geti ákveðið að fela einu sveitarfélagi ákvörðunarvaldið um veitingu þjónustu á grundvelli laganna fyrir hönd annarra sveitarfélaga á svæðinu. Sveitarfélagið sem væri falið ákvörðunarvaldið yrði þá leiðandi á því þjónustusvæði. Enn fremur er gert ráð fyrir að sveitarfélögum sem hafa samvinnu sín á milli um framkvæmd þjónustunnar á grundvelli laganna sé heimilt að fela skipulag og framkvæmd þjónustunnar sérstökum lögaðila sem þau eiga aðild að. Ákvæði þetta kemur ekki í veg fyrir að aðrar leiðir en þær sem nefndar eru verði farnar í samvinnu sveitarfélaga enda rúmist þær innan ramma gildandi sveitarstjórnarlaga. Hvaða leið sem farin verður bera sveitarfélögin eftir sem áður sameiginlega ábyrgð á framkvæmd þjónustunnar sem og fjármögnun hennar.
    Ljóst er að í ákveðnum tilvikum er það erfiðleikum bundið að mynda þjónustusvæði með 8.000 eða fleiri íbúa í samræmi við 2. mgr. ákvæðis þessa í ljósi landfræðilegra aðstæðna. Í því sambandi má nefna níu sveitarfélög innan Fjórðungssambands Vestfirðinga, Sveitarfélagið Hornafjörð, Norðurþing og Vestmannaeyjabæ. Því er gert ráð fyrir að ráðherra velferðarmála sé heimilt að veita undanþágu frá skilyrðinu um íbúafjölda á þjónustusvæði á grundvelli landfræðilegra aðstæðna enda hafi viðkomandi sveitarfélag eða sveitarfélög sýnt fram á getu til að veita þjónustu í samræmi við ákvæði laganna. Þá er gert ráð fyrir að til þess geti komið að sveitarfélög nái ekki samkomulagi sín á milli um myndun þjónustusvæðis og er lagt til að velferðarráðherra sé þá heimilt, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, að taka ákvarðanir um stærð eða mörk þjónustusvæða. Þær ákvarðanir yrðu bindandi fyrir hlutaðeigandi sveitarfélög.

Um 4. gr.


    Gert er ráð fyrir í frumvarpi þessu að lögheimili fatlaðra einstaklinga ráði því hvaða sveitarfélag skuli veita þeim þjónustu á grundvelli laganna. Þannig fellur það í hlut þess sveitarfélags þar sem fatlaður einstaklingur á lögheimili að taka ákvarðanir um rétt hlutaðeigandi til þjónustunnar sem og eftir atvikum um nánari útfærslu þjónustunnar. Er því skýrt til hvaða sveitarfélags sá sem þarf á þjónustu að halda á grundvelli laganna skuli leita og er gert ráð fyrir að hann sæki um þjónustuna þar. Enn fremur er gert ráð fyrir að sveitarfélög starfræki matsteymi þar sem í eiga sæti sérfræðingar sem hafa nauðsynlega fagþekkingu og starfa á vegum sveitarfélaganna eða eftir atvikum lögaðila, svo sem byggðasamlags, sem annast þjónustuna fyrir þeirra hönd. Er gert ráð fyrir að fleiri en eitt þjónustusvæði geti sameinast um slíkt matsteymi þannig að nauðsynleg fagþekking sé betur tryggð og ákveðin samræming sé í mati á þjónustuþörfum milli þjónustusvæða. Einnig geta sveitarfélögin komið sér saman um að sama matsteymið meti þörf einstaklinga fyrir félagslega þjónustu sem veitt er á vegum sveitarfélaga á grundvelli annarra laga, svo sem laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum. Er teymunum ætlað að meta heildstætt þörf þeirra sem þurfa á þjónustu sem veitt er á grundvelli laganna að halda og þá einnig hvernig koma megi til móts við óskir þeirra. Er gert ráð fyrir að teymin hafi samráð við einstaklingana við matið. Ástæða þykir til að taka fram í þessu sambandi að ákvarðanir sveitarfélaga um rétt einstaklinga til tiltekinnar þjónustu sem byggjast á slíku mati teljast til stjórnvaldsákvarðana í skilningi stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Hið sama gildir um ákvarðanir er varða synjun um tiltekna þjónustu. Niðurstöður matsins verða því ekki taldar til stjórnvaldsákvarðana í skilningi stjórnsýslulaga en sveitarfélögum ber að taka ákvörðun á grundvelli þeirra. Láti sveitarfélag hjá líða að taka ákvörðun á grundvelli niðurstöðu matsteymis er hinum fatlaða heimilt að kæra þann drátt til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. 5. gr. frumvarps þessa. Þá má geta þess að stjórnsýslulögin taka ekki til þjónustustarfsemi á vegum hins opinbera en þar er m.a. annars átt við þjónustu við fatlað fólk. Sem dæmi má nefna að ákvörðun þess efnis að fatlaður einstaklingur skuli njóta frekari liðveislu telst vera stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga en hvernig þjónustan er nánar útfærð telst þjónustustarfsemi. Engu síður verður að líta til þess hvers eðlis ákvörðunin er en ekki eingöngu til þess hver tekur hana og hvers efnis hún er.

Um 5. gr.


    Lagt er til að stjórnvaldsákvarðanir, þ.e. ákvarðanir um réttindi og skyldur fatlaðs fólks í tengslum við veitingu þjónustu sem teknar eru á grundvelli laganna, verði unnt að kæra til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Úrskurðarnefndin starfar á grundvelli XVII. kafla laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, og er eingöngu verið að leggja til að verksvið nefndarinnar verði breytt þannig að nefndinni beri jafnframt að úrskurða á grundvelli laga um málefni fatlaðra. Þar með er heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og laga um málefni fatlaðra til sömu úrskurðarnefndarinnar sem getur falið í sér ákveðið hagræði fyrir þá einstaklinga sem þurfa að óska eftir þjónustu sveitarfélaganna sem veitt er á grundvelli hvorra tveggja laganna. Lagt er til að nefndin fjalli um málsmeðferð, rétt til þjónustu og hvort þjónustan er í samræmi við lög þessi, reglugerðir eða reglur hlutaðeigandi sveitarfélags sem settar eru á grundvelli laganna. Lagt er til að kærufrestur verði fjórar vikur sem er í samræmi við kærufrest sem veittur er á grundveli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Enn fremur er tekið fram að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvarðana um þjónustu. Þetta er í samræmi við 29. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Miðað er við að úrskurðarnefndinni sé jafnframt heimilt á grundvelli 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar þar sem ástæður mæla með því. Með þessu fyrirkomulagi er leitast við að stuðla að betra réttaröryggi fyrir fatlað fólk þar sem þær kæruleiðir sem fyrir hendi hafa verið innan stjórnsýslunnar hafa þótt óskýrar. Hefur m.a. ríkt ákveðin óvissa um hvaða stjórnvaldsákvarðanir sem teknar hafa verið á grundvelli laganna hafi verið unnt að fá endurskoðaðar á æðra stjórnsýslustigi. Að öðru leyti er vísað til umfjöllunar um 4. gr. frumvarps þessa.

Um 6. gr.


    Miðað er við að skipulag sérhvers þjónustusvæðis skv. 3. gr. frumvarps þessa komi fram í sérstöku stofnskjali. Á það við hvort sem eitt sveitarfélag stendur að þjónustusvæði eða nokkur sveitarfélög. Ástæðan er sú að mikilvægt þykir að fram komi á einum stað hvernig skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk skuli háttað, þar á meðal gerð og inntak samninga sem í gildi eru innan svæðisins, sbr. 8. gr. frumvarps þessa, sem og hvort og þá hvaða rekstrar- og þjónustuaðilar eru starfandi á viðkomandi svæði. Enn fremur er gert ráð fyrir að fram komi hvernig innra eftirliti sveitarfélaga skv. 3. gr. frumvarps þessa skuli háttað. Gert er ráð fyrir að sveitarfélögin sendi velferðarráðuneyti afrit af stofnskjölum og upplýsi ráðuneytið jafnframt um þær breytingar sem kunna síðar að verða gerðar á skjalinu.
    Þá er gert ráð fyrir að sveitarfélög sem sameinast um að mynda þjónustusvæði geri með sér samstarfssamning um skipulag, framkvæmd og fjármögnun þjónustu við fatlað fólk innan þjónustusvæðisins. Í því skyni er unnt að hafa stofnskjalið skv. 1. mgr. sem fylgiskjal með slíkum samstarfssamningi svo að forðast megi endurtekningar eftir því sem við á hverju sinni. Miðað er við að slíkir samningar öðlist ekki gildi fyrr en þeir hafa fengið staðfestingu þeirra sveitarstjórna sem standa að þjónustusvæðinu í ljósi þess að sveitarstjórnir fara með stjórn sveitarfélaganna samkvæmt sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998. Í því felst að sveitarstjórnirnar fari með ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna þeirra, sbr. 9. gr. þeirra laga.

Um 7. gr.


    Um a-lið (6. gr. a).
    Ákvæði þetta er efnislega samhljóða 14. gr. laganna. Ekki eru lagðar til aðrar breytingar en þær að í stað félags- og tryggingamálaráðherra fellur það í hlut sveitarfélaganna að veita starfsleyfi til handa félagasamtökum, sjálfseignarstofnunum og eftir atvikum öðrum einkaaðilum sem vilja hefja eða taka við rekstri þjónustustofnana eða húsnæðisúrræða á grundvelli laganna. Er jafnframt lagt til að tekið verði fram að sveitarfélögum sé heimilt að afturkalla starfsleyfi sem veitt er á grundvelli ákvæðisins þegar rekstrar- eða þjónustuaðilinn hefur ekki sinnt þeim kröfum sem til hans eru gerðar varðandi úrbætur innan tiltekinna tímamarka eða rekstrinum er verulega ábótavant að mati fagaðila sveitarfélagsins. Að öðru leyti gilda stjórnsýslulög sem og óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins um afturköllun stjórnvaldsákvarðana.
     Um b-lið (6. gr. b).
    Mikilvægt þykir að samhliða veitingu starfsleyfa skv. a-lið greinarinnar (6. gr. a) verði jafnframt gerðir samningar við þjónustu- og rekstraraðila þar sem mælt verði ítarlega fyrir um skyldur beggja aðila og hvernig eftirliti með framkvæmd samningsins skuli háttað. Enn fremur þykir mikilvægt að samningsaðilar komi sér saman um áætlaðan rekstrarkostnað og hvernig hann skuli metinn. Þá er gert ráð fyrir að þjónustu- og rekstraraðili, sem gerður hefur verið þjónustusamningur við á grundvelli ákvæðis þessa, skili til hlutaðeigandi sveitarfélags eða sveitarfélaga, sem eru viðsemjendur þjónustu- og rekstraraðila, ásamt velferðarráðuneyti og Ríkisendurskoðun árlega ársreikningi undirrituðum af löggiltum endurskoðanda ásamt skýrslu um starfsemi liðins árs. Ákvæði 3. mgr. er efnislega samhljóða 53. gr. laganna.

Um 8. gr.


    Lagðar eru til breytingar á 9. gr. laganna sem verða að teljast nauðsynlegar í ljósi þess að sveitarfélögin taka við framkvæmd þjónustu við fatlað fólk á grundvelli laganna. Enn fremur er lagt til að ekki verði gert ráð fyrir að sérstök leikfangasöfn verði starfrækt enda heyra slík söfn sögunni til. Mun breytingin því ekki hafa áhrif á þá þjónustu sem veitt er á grundvelli laganna.

Um 9. gr.


    Í ákvæði þessu eru lagðar til breytingar á 10. gr. laganna sem fjallar um búsetu fatlaðs fólks. Er þar gert ráð fyrir að fatlað fólk eigi kost á þjónustu og húsnæðisúrræðum í samræmi við þarfir þeirra og óskir eftir því sem kostur er. Í því sambandi er átt við að fatlað fólk eigi bæði rétt á tilteknum húsnæðisúrræðum sem í boði eru á vegum sveitarfélaganna sem og þeirri félagslegu þjónustu sem gerir þeim kleift að búa á eigin heimili. Enn fremur er sveitarfélögum gert að tryggja að framboð á húsnæðisúrræðum sé til staðar jafnframt því að veita þjónustuna. Þá er gert ráð fyrir að þeir sem óska eftir að starfrækja húsnæðisúrræði eða þjónustu skv. 1. mgr. ákvæðisins sæki um starfsleyfi til hlutaðeigandi sveitarfélags skv. a-lið 7. gr. frumvarps þessa, en því fylgir jafnframt að gera skuli samning skv. b-lið sömu greinar. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að einstök húsnæðisúrræði verði sérstaklega talin upp í lögunum eins og verið hefur í 10. gr. laganna. Í stað þess er gert ráð fyrir að húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk mótist í samræmi við þarfir notenda sem og aðstæður á þjónustusvæðinu. Enn fremur er lagt til að húsnæðisúrræði sem ætlað er fötluðu fólki sé nálægt almennri og opinberri þjónustu sé þess nokkur kostur. Tilgangur þessa er að tiltölulega auðvelt sé að nálgast t.d. búðarkjarna og þá opinberu þjónustu sem þarf að sækja. Þá er gert ráð fyrir að fatlað fólk sem nýtir sér þau húsnæðisúrræði sem í boði eru greiði mánaðarlega húsaleigu eins og verið hefur. Því þykir mikilvægt að tekið sé fram að sveitarfélögin geri húsaleigusamninga við fatlað fólk og innheimti húsaleigu á grundvelli slíkra samninga. Miðað er við að húsaleigusamningarnir séu í samræmi við ákvæði gildandi húsaleigulaga. Jafnframt er gert ráð fyrir að ráðherra sé heimilt að kveða nánar á um framkvæmd ákvæðisins í reglugerð, þar á meðal hvernig ákveða skuli fjárhæð húsaleigu í húsnæðisúrræðum og breytingar á þeirri fjárhæð.

Um 10. og 11. gr.


    Lagt er til að ákvæði 11. gr. laganna ásamt VII. kafla og VIII. kafla þeirra verði felld brott. Lagt er til í 2. mgr. 4. gr. frumvarps þessa að umsókn um þjónustu laganna, þar á meðal um þjónustu á stofnunum og húsnæðisúrræði, skuli sendar viðkomandi sveitarfélagi eða þeim lögaðila sem annast framkvæmd þjónustunnar á hlutaðeigandi þjónustusvæði en því ákvæði er m.a. ætlað að koma í stað 11. gr. laganna. Lagt er til að svæðisskrifstofur um málefni fatlaðra verði lagðar niður í ljósi þess að sveitarfélögin taka við þjónustunni á grundvelli laganna og taka þar með við hlutverki svæðisskrifstofanna. Gert er ráð fyrir að 6. gr. og a- liður 7. gr. frumvarps þessa komi í stað 13. og 14. gr. laganna og er vísað til athugasemda við þau ákvæði að því er þau atriði varða. Þá er lagt til að svæðisráðin verði lögð niður en ráðuneyti velferðarmála fari með eftirlit með framkvæmd sveitarfélaga á efni laganna skv. 2. gr. frumvarps þessa og er vísað til athugasemda við það ákvæði.

Um 12. gr.


    Lagt er til að breyting verði gerð á orðalagi 19. gr. laganna til samræmis við orðalag laga nr. 90/2008, um leikskóla. Í lögum um leikskóla er ekki vikið að sérhæfðum deildum og ljóst að ekki er gert ráð fyrir slíkum deildum á leikskólum. Þess í stað er gert ráð fyrir rýmum fyrir sérfræðiþjónustu vegna barna með sérþarfir, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um leikskóla.

Um 13. gr.


    Í ljósi þess að engin leikfangasöfn eru starfrækt er lagt til að 20. gr. laganna falli brott.

Um 14. gr.


    Gert er ráð fyrir að sveitarstjórnum verði gert heimilt að setja reglur um þjónustu stuðningsfjölskyldna á grundvelli ákvæðisins í stað ráðherra áður. Er þetta í samræmi við ákvæði 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins um að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk. Engu síður er gert ráð fyrir að velferðarráðherra sé heimilt að gefa út leiðbeinandi reglur um framkvæmd þjónustunnar sem sveitarstjórnir taka þá mið af við smíði sinna reglna.

Um 15. gr.


    Lagt er til að síðari málsliður 25. gr. laganna sem fjallar um hlutverk svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra falli brott, enda gerir frumvarp þetta ráð fyrir að svæðisskrifstofurnar verði lagðar niður og sveitarfélögin taki við hlutverki þeirra að þessu leyti.

Um 16. gr.


    Þær breytingar sem lagðar eru til á 27. gr. laganna eru í samræmi við þá tilhögun að færa framkvæmd þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga. Þar af leiðandi er lagt til að 2. mgr. ákvæðisins verði felld brott en gert er ráð fyrir að sveitarfélögin taki ákvörðun um félagslega hæfingu og endurhæfingu, sbr. 4. gr. frumvarps þessa, í ljósi þess að lagt er til að svæðisskrifstofur um málefni fatlaðra verði lagðar niður. Þá er jafnframt lagt til að sveitarstjórnir setji sér reglur um framkvæmd ákvæðisins en ekki ráðherra.

Um 17. gr.


    Vinnumiðlun var flutt frá sveitarfélögum til ríkisins á árinu 1997, sbr. þágildandi lög nr. 13/1997, um vinnumarkaðsaðgerðir, og hefur Vinnumálastofnun síðan annast framkvæmd vinnumarkaðsaðgerða. Meðal þeirra vinnumarkaðsúrræða sem stofnuninni er ætlað að veita er atvinnutengd endurhæfing einstakra hópa en þar undir falla úrræði eins og atvinna með stuðningi og verndaðir vinnustaðir, sbr. f-lið 12. gr. laga nr. 55/2006, um vinnumarkaðsaðgerðir. Þess ber að geta að félags- og tryggingamálaráðherra mun skipa starfshóp til að fara yfir og skilgreina hvað telst vera atvinnutengd endurhæfing einstakra hópa í skilningi laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Í starfshópnum munu eiga sæti fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og heildarsamtökum fatlaðs fólks auk fulltrúa ráðuneytisins og Vinnumálastofnunar. Er áætlað að starfshópurinn skili skýrslu til ráðherra eigi síðar en í lok árs 2011. Í ljósi þessa er lagt til að vísað verði til gildandi laga um vinnumarkaðsaðgerðir í ákvæði þessu sem ætlað er að fjalla um vinnumarkaðsaðgerðir fyrir fatlað fólk, en Vinnumálastofnun annast framkvæmd þeirra laga. Er því áfram gert ráð fyrir að atvinnumál fatlaðs fólks verði verkefni ríkisins, sbr. þó a-lið 34. gr. frumvarps þessa þar sem gert er ráð fyrir að sveitarfélög annist þessa þjónustu á árinu 2011 samkvæmt nánara samkomulagi milli ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaga.

Um 18. gr.


    Lagt er til að tekið verði fram að kostnaður vegna sérstakrar liðveislu á vinnustað skv. 29. gr. laganna verði greiddur úr ríkissjóði eins og verið hefur enda gert ráð fyrir að atvinnumál fatlaðs fólks verði áfram verkefni ríkisins, sbr. þó a-lið 34. gr. frumvarps þessa.

Um 19. gr.


    Lagt er til að tekið verði fram að kostnaður vegna verndaðrar vinnu skv. 30. gr. laganna verði greiddur úr ríkissjóði eins og verið hefur enda gert ráð fyrir að atvinnumál fatlaðs fólks verði áfram verkefni ríkisins, sbr. þó a-lið 34. gr. frumvarps þessa.

Um 20. gr.


    Samkvæmt lögum nr. 55/2006, um vinnumarkaðsaðgerðir, er Vinnumálastofnun ætlað að fylgjast með aðstæðum á innlendum vinnumarkaði sem og að gefa út skýrslu þar sem fram koma upplýsingar um atvinnuleysi, atvinnuhorfur og mannaflaþörf innan tiltekinna starfsgreina. Enn fremur gefur stofnunin út aðrar skýrslur eða miðlar upplýsingum í sambandi við einstök atriði sem varða aðstæður á vinnumarkaði. Þykir því eðlilegra að Vinnumálastofnun hafi það hlutverk sem kveðið er á um í 32. gr. laganna að kanna stöðu fatlaðs fólks á vinnumarkaði í stað ráðuneytisins áður.

Um 21. gr.


    Lagt er til að síðari málsliður 32. gr. laganna falli brott í ljósi þess að lagt er til að svæðisráðin verði lögð niður með frumvarpi þessu. Félags- og tryggingamálaráðherra stefnir að því að leggja fram frumvarp á yfirstandandi þingi sem ætlað er að innleiða efni Evróputilskipunar nr. 78/2000 sem hefur að geyma meginreglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi, þar á meðal um að hvers konar mismunun, hvort sem er bein eða óbein, á grundvelli trúar eða trúarskoðana, fötlunar/örorku, aldurs eða kynhneigðar, á vinnumarkaði verði óheimil. Í tilskipuninni er m.a. gert ráð fyrir að ákveðnu ferli verði komið á innan stjórnsýslunnar sem fatlað fólk getur nýtt sér telji það á sér brotið á vinnumarkaði.

Um 22. gr.


    XIII. kafli laganna, Húsnæðismál, er felldur brott í ljósi þess að sveitarfélögin taka við öllum húsnæðisúrræðum á grundvelli laganna en gert er ráð fyrir að ákvæði 10. gr. laganna eigi við um öll þau húsnæðisúrræði sem í boði eru á vegum sveitarfélaganna.

Um 23. gr.


    Ákvæði þetta felur ekki í sér efnislega breytingu á ferlimálum fatlaðs fólks. Ekki þykir ástæða til að taka sérstaklega fram að sveitarstjórnum sé heimilt að skipa samstarfsnefndir um ferlimál fatlaðs fólks í ljósi þess að sveitarfélögin fara með framkvæmd laganna. Verður að líta svo á að sveitarfélögum sé heimilt að skipa þær nefndir sem þau vilja að fjalli um þá þjónustu við fatlað fólk sem þeim er ætlað að veita á grundvelli laganna. Ekki er gert ráð fyrir að sveitarfélög standi straum af kostnaði vegna aðgengis opinberra bygginga og þjónustustofnana sem eru í eigu ríkisins, sbr. einnig athugasemdir við 27. gr. frumvarps þessa.

Um 24. gr.


    Lagt er til að skýrt verði í 35. gr. laganna að ferðaþjónusta fatlaðs fólks eigi eingöngu við um þá sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar sinnar. Ekki er um efnislega breytingu að ræða á framkvæmd þjónustunnar. Þá er lagt til að tekið verði fram að ráðherra sé heimilt að gefa út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélögin um ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Slíkar reglur eru eingöngu til leiðbeiningar fyrir sveitarfélögin við smíði þeirra reglna sem þeim er heimilt að setja um framkvæmd þjónustunnar. Enn fremur er gert ráð fyrir að sveitarfélögum verði gert heimilt að innheimta þjónustugjöld sem ætlað er að standa að hluta undir kostnaði við ferðaþjónustu sem veitt er hinum fatlaða á grundvelli ákvæðis þessa. Í ljósi þess að þjónustugjöld eru í eðli sínu íþyngjandi fyrir gjaldandann verða þjónustugjöld almennt ekki innheimt nema að fyrir þeim sé skýr lagaheimild frá löggjafanum. Á þetta sérstaklega við þegar um lögmælta þjónustustarfsemi er að ræða. Enn fremur skulu sveitarfélögin setja sér gjaldskrá áður en gjöld eru innheimt á grundvelli ákvæðis þessa.

Um 25. gr.


    Í ljósi þess að lagt er til að svæðisráðin verði lögð niður er jafnframt lagt til að fyrri málsliður 36. gr. laganna falli brott. Engu síður er áfram gert ráð fyrir að starfsmenn sem sinna þjónustu við fatlað fólk og starfa á stofnunum fyrir fatlað fólk standi vörð um hagsmuni þess og gæti þess að réttindi þess séu virt.

Um 26. gr.


    Lagt er til að áfram verði skipaðir trúnaðarmenn fatlaðs fólks sem ætlað er að treysta réttindi fatlaðs fólks á heimilum sem rekin eru á vegum sveitarfélaga eða einkaaðila á sviði einkalífs og fer með fjármuni þeirra. Er því ekki gert ráð fyrir breyttu hlutverki trúnaðarmanna en gert er ráð fyrir að ráðherra skipi þá í stað svæðisráða að fengnum tillögum frá heildarsamtökum fatlaðra. Jafnframt er lagt til að þeir sem gegna störfum trúnaðarmanna hafi þekkingu og reynslu á málefnum fatlaðs fólks. Þá er gert ráð fyrir að trúnaðarmaður aðstoði hinn fatlaða við að kæra málið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála á grundvelli 5. gr. frumvarps þessa þegar það á við og jafnframt að hann meti hvort ástæða sé til að hann tilkynni um málið til velferðarráðuneytis. Áfram er gert ráð fyrir að kostnaður vegna trúnaðarmanna greiðist úr ríkissjóði.

Um 27. gr.


    Gert er ráð fyrir að XVI. kafli laganna verði felldur brott í ljósi þess að lagt er til að Framkvæmdasjóður fatlaðra verði lagður niður, sbr. c-lið 34. gr. frumvarps þessa. Gert er ráð fyrir að sérstakur fasteignasjóður innan Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga taki við hlutverki Framkvæmdasjóðs fatlaðra að því er varðar umsýslu fasteigna sem eru nýttar í þágu þjónustu við fatlað fólk frá 1. janúar 2011 þegar yfirfærsla þjónustunnar frá ríki til sveitarfélaga mun eiga sér stað. Er nánar fjallað um hlutverk fasteignasjóðsins í frumvarpi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til laga um breytingu á lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, sem lagt verður fram á þessu þingi. Er nánar vísað til athugasemda við það frumvarp. Að því er varðar það hlutverk Framkvæmdasjóðsins er kemur fram í 5. tölul. 40. gr. laganna um að heimilt sé að verja allt að 10% af ráðstöfunarfé sjóðsins til lagfæringa á aðgengi opinberra bygginga er gert ráð fyrir að opinberar stofnanir í eigu ríkisins sjái sjálfar um að tryggja aðgengi fatlaðs fólks að þeirri þjónustu sem þeim er ætlað að veita. Jafnframt er miðað við að sveitarfélögin leggi til framlög til stofnkostnaðar við byggingar sem ætlað er að nýta í þágu þjónustu við fatlað fólk ef nauðsyn krefur en ekki verður um að ræða framlög af hálfu ríkisins eins og verið hefur af hálfu Framkvæmdasjóðs fatlaðra.

Um 28. gr.


    Sveitarfélögum er gert að fjármagna þjónustu við fatlað fólk sem veitt er á grundvelli laganna, sem og annan rekstrarkostnað sem til fellur á grundvelli laganna. Þá er miðað við að sveitarfélög standi að uppbyggingu á þjónustustofnunum fyrir fatlað fólk eftir því sem þörf krefur en skv. 8. gr. frumvarps þessa er sveitarfélögum heimilt að bæta við þjónustustofnunum, sameina þær eða fella niður starfsemi þeirra. Er því miðað við að sveitarfélögin leggi til framlög til stofnkostnaðar ef nauðsyn krefur en ekki verður um að ræða framlög af hálfu ríkisins eins og verið hefur í gegnum Framkvæmdasjóð fatlaðra enda lagt til með frumvarpi þessu að sjóðurinn verði lagður niður. Enn fremur er gert ráð fyrir að viðhaldskostnaður við fasteignir falli undir annan rekstrarkostnað sem til fellur. Að öðru leyti er vísað til almennra athugasemda við frumvarp þetta sem og athugasemda við 27. gr. frumvarpsins.
    Talið er mikilvægt að tekið sé sérstaklega fram í lögum að sveitarfélög skuli gera árlega fjárhagsáætlanir um útgjöld til málefna fatlaðs fólks í samræmi við þá þjónustu sem þeim ber að veita á grundvelli laganna og einnig þá tekjustofna sem lög gera ráð fyrir að standi straum af þjónustunni. Ekki þykir ástæða til að sveitarfélögin sendi sjálfkrafa velferðarráðuneyti, sem eftirlitsaðila með framkvæmd laganna, fjárhagsáætlanir sínar en engu síður þykir mikilvægt að velferðarráðuneyti sé heimilt að kalla eftir slíkum áætlunum svo að unnt sé að meta t.d. það heildarfjármagn sem sveitarfélögin leggja til málefna fatlaðs fólks og þá einnig hvort nægilega vel sé staðið að málum á einstökum þjónustusvæðum.

Um 29. gr.


    Ástæða þykir til að skýrt sé tekið fram að hafi þjónustu- eða rekstraraðili tekjur sem falla til vegna atvinnustarfsemi hans umfram framlög sem renna til starfseminnar frá sveitarfélögum eða úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna framkvæmdar á þjónustu við fatlað fólk á grundvelli laganna skulu tekjurnar renna til greiðslu rekstrarkostnaðar. Dæmi um slíkar tekjur getur verið söluhagnaður af handverki sem fatlað fólk hefur unnið og er selt á vegum atvinnustarfseminnar. Eðlilegt þykir að opinber fjárframlög taki mið af þeim tekjum og jafnframt að hlutaðeigandi þjónustu- og rekstraraðila sé gert að veita allar þær bókhaldsupplýsingar sem þörf er á svo að unnt sé að staðreyna tekjur og rekstrarkostnað.

Um 30. gr.


    Ákvæðið felur í sér að unnt verði að grípa til ráðstafana í því skyni að vernda fatlað fólk gegn hættum sem kunna að stafa frá dæmdum kynferðisbrotamönnum. Rannsóknir sýna að nokkur hluti kynferðisbrotamanna er líklegur til að endurtaka brot sín. Þykir því mikilvægt að óheimilt verði að ráða til starfa í þágu þjónustu við fatlað fólk þá sem hafa hlotið refsidóm fyrir brot gegn ákvæðum kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum. Enn fremur þykir þýðingarmikið að heimilt sé að meta sérstaklega áhrif þess á hæfi einstaklings til að sinna þjónustustörfum í þágu fatlaðs fólks hafi hlutaðeigandi brotið gegn öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga. Þar má nefna sem dæmi brot á ákvæðum XXVI. kafla laganna um auðgunarbrot. Í því skyni að ganga úr skugga um þetta er lagt til að nánar tilgreindir aðilar geti fengið upplýsingar úr sakaskrá um það hvort tiltekinn einstaklingur sem hefur sótt um starf á þeirra vegum hafi gerst sekur um brot á ákvæðum kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga sem og annarra ákvæða laganna. Eingöngu er lagt til að þessir aðilar geti fengið þessar upplýsingar um tilgreindan einstakling að fengnu samþykki hans. Þannig er ekki gerð krafa um að sakavottorð verði alltaf lagt fram með umsókn um störf í þágu fatlaðs fólks en það gæti gert umsóknarferlið óþarflega flókið, en þó þannig að þeir sem ráða í störfin hafi aðgang að slíkum upplýsingum þegar tilefni gefst til.

Um 31. gr.


    Ákvæði XVII. kafla laganna falla brott þar sem málefni fatlaðs fólks flytjast frá ríki til sveitarfélaga og á það einnig við um fjármögnun þjónustunnar. Ákvæði 28. og 29. gr. frumvarps þessa fjalla um fjármögnun þjónustunnar hjá sveitarfélögum og koma í stað ákvæða 41. og 42. gr. laganna en önnur ákvæði kaflans falla brott.

Um 32. gr.


    Þýðingarmikið kann að vera fyrir sveitarstjórnir að geta sett sér reglur um einstaka þjónustuþætti sem fjallað er um í lögunum í því skyni m.a. að stuðla að aukinni skilvirkni í framkvæmd laganna, sem og til að tryggja jafnræði þeirra sem þjónustunnar njóta. Engu síður þykir mikilvægt að ráðherra hafi heimildir til að gefa út leiðbeinandi reglur um einstaka þjónustuþætti. Markmið slíkra leiðbeinandi reglna er einkum að tryggja samræmi í þjónustu við fatlað fólk milli þjónustusvæða og þar með á landsvísu. Slíkar reglur eru ekki formlega birtar í Stjórnartíðindum en verða aðgengilegar sveitarstjórnum sem og almenningi, t.d. á heimasíðu ráðuneytisins. Enn fremur þarf ráðuneytið að gæta þess að upplýsa sveitarfélögin um þær breytingar sem ráðherra kann að gera á leiðbeinandi reglum. Þessar reglur eru ekki bindandi fyrir sveitarfélögin heldur eingöngu til leiðbeiningar en mælst er til þess að sveitarstjórnir hafi hliðsjón af efni þeirra við setningu eigin reglna um framkvæmd þjónustu við fatlað fólk. Reglur sveitarstjórna skulu birtar í B-deild Stjórnartíðinda.

Um 33. gr.


    Notendastýrð persónuleg aðstoð snýst um að einstaklingar sem þurfa aðstoð í daglegu lífi sínu stjórni því sjálfir hvers konar stoðþjónustu þeir njóta, hvar og hvernig hún er veitt og af hverjum. Markmiðið er að fatlað fólk geti notið sjálfstæðis í lífi sínu til jafns við ófatlað fólk. Engu síður er það ávallt háð tilteknum fjárhags- og tímaramma sem veltur á mati um þjónustuþörf viðkomandi. Alþingi samþykkti á 138. löggjafarþingi þingsályktun um notendastýrða persónulega aðstoð (þskj. 641 – 354. mál) þar sem félags- og tryggingamálaráðherra var falið að koma á fót notendastýrðri persónulegri aðstoð við fatlað fólk. Var ráðherra gert að leggja fram tillögu að útfærslu á þjónustunni ásamt frumvarpi til nauðsynlegra lagabreytinga á haustþingi 2010. Enn fremur gerir samkomulag ríkisstjórnar Íslands og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga ráð fyrir að komið verði á laggirnar sérstöku samstarfsverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð, sbr. viðauka 9 við samkomulagið. Þar kemur m.a. fram að sveitarfélögin hafi fullan hug á að taka upp notendastýrða persónulega aðstoð og telja þau mikilvægt að unnið verði skipulega að því markmiði í samráði við heildarsamtök fatlaðs fólks. Í samkomulaginu er m.a. lagt til að lögfest verði í ákvæði til bráðabirgða að sett verði á laggirnar sérstakt samstarfsverkefni um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar sem lýtur stjórn verkefnisstjórnar þar sem í eiga sæti fulltrúar ríkisins, sveitarfélaganna og notenda. Lagt er til að fulltrúar heildarsamtaka fatlaðs fólks verði fulltrúar notenda í verkefninu.
    Má því segja að þetta sé fyrsta skrefið í þá átt að innleiða notendastýrða persónulega aðstoð sem eitt meginform þjónustu við fatlað fólk um leið og farið er eftir þeim tilmælum sem koma fram í viðauka 9 við fyrrgreint samkomulag um tilfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga. Ljóst er að verkefnið er umfangsmikið og þótti því betra að leggja það upp með þeim hætti sem gert er í ákvæði þessu en gert er ráð fyrir að velferðarráðherra leggi fram frumvarp eigi síðar en í árslok 2014 þar sem framangreint markmið kemur fram.
    Markmið verkefnisins er að prófa leiðir til að taka upp notendastýrða persónulega aðstoð við fatlað fólk með markvissum og árangursríkum hætti. Mikilvægt er að sú þróun sé unnin í nánu samstarfi við notendurna sjálfa og er því við það miðað að náið samstarf verði við miðstöð á vegum fatlaðs fólks um notendastýrða persónulega aðstoð. Meðal annars er gert ráð fyrir að sveitarfélögin verðmeti einstaka þjónustuþætti í gjaldskrá. Er það lagt til í því skyni að unnt sé að auka gagnsæi verðmats þeirrar þjónustu sem í boði er. Þá er um að ræða gjaldskrá í þeim skilningi að notandinn greiðir fyrir þjónustuna samkvæmt henni en sveitarfélagið leggur notandanum það fé til á grundvelli notendasamnings þeirra á milli. Ekki þykir því nauðsynlegt að tilgreina nákvæmlega hvaða þjónustu sveitarfélögum er heimilt að setja fram í gjaldskrá þar sem ekki er um að ræða þjónustugjöld í hefðbundnum skilningi af því að notandinn þarf sjálfur að greiða gjöldin af framfærslufé sínu. Síðan er við það miðað að gerður verði sérstakur notendasamningur milli sveitarfélagsins og notandans eða aðila sem kemur fram fyrir hönd hans þar sem sú þjónusta sem hlutaðeigandi þarf á að halda í daglegu lífi er tilgreind og verðmetin. Þá er sveitarfélaginu heimilt að ráðstafa því fé sem svarar til kostnaðar vegna þeirrar þjónustu sem fram kemur í notendasamningi aðila til hlutaðeigandi með þeim hætti sem ákveðinn er í þjónustusamningnum.

Um 34. gr.


     Um a-lið (V.).
    Lagt er til að kostnaður sem til fellur vegna sérstakrar liðveislu á vinnustað skv. 29. gr. laganna og verndaðrar vinnu skv. 30. gr. laganna á árinu 2011 skiptist milli ríkis og sveitarfélaga í samræmi við nánara samkomulag þeirra á milli eins og fram kemur í samningi um yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga. Þar kemur fram að sérstök liðveisla á vinnustað og vernduð vinna sé meðal þeirra þjónustuþátta sem sveitarfélögin taka við 1. janúar 2011. Engu síður gerir samkomulagið ráð fyrir að Hringsjá – náms og starfsendurhæfing, Tölvumiðstöð fatlaðs fólks, Múlalundur, Blindravinnustofan og Vinnustaðir Öryrkjabandalags Íslands verði á málefnasviði velferðarráðuneytis sem tekur við verkefnum félags- og tryggingamálaráðuneytis á sama tíma. Jafnframt er tekið fram að samningsaðilar muni vinna að framtíðarverkaskiptingu sveitarfélaga og Vinnumálastofnunar á sviði atvinnumála fatlaðs fólks, en markmiðið er að atvinnumál fatlaðs fólks verði á málefnasviði Vinnumálastofnunar, sbr. lög nr. 55/2006, um vinnumarkaðsaðgerðir. Skal jafnframt fjalla um tilfærslu fjármagns vegna sérstakrar liðveiðslu og verndaðrar vinnu til Vinnumálastofnunar. Er því gert ráð fyrir að félags- og tryggingamálaráðherra skipi starfshóp vegna þessa verkefnis. Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að vinnunni verði lokið eigi síðar en í árslok 2011 en að öðru leyti er vísað til athugasemda við 17. gr. frumvarps þessa.
     Um b-lið (VI.).
    Lagt er til að velferðarráðherra skipi sérstaka samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks sem ætlað er að vera ráðherra og sveitarfélögum til ráðgjafar um málefni fatlaðra. Einnig er lagt til að nefndin hafi umsjón með framkvæmd á yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk ásamt því að gera tillögur um breytingar á tilhögun yfirfærslunnar, eftir því sem ástæða þykir til. Gert er ráð fyrir að nefndin starfi fram til þess að mati á yfirfærslu málaflokksins verður lokið eða til loka árs 2014.
     Um c-lið (VII.).
    Lagt er til að Framkvæmdasjóður fatlaðra verði lagður niður frá gildistöku laganna 1. janúar 2011 og gert ráð fyrir að fasteignasjóður innan Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga taki við réttindum og skyldum sjóðsins, sbr. frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Hið sama gildir um stjórnarnefnd um málefni fatlaðra. Að öðru leyti er vísað til almennra athugasemda og athugasemda við 27. gr. frumvarps þessa.
     Um d-lið (VIII.).
    Gert er ráð fyrir að svæðisskrifstofur þær sem starfa á grundvelli 12. gr. laga nr. 59/1992 verði lagðar niður 1. janúar 2011 er sveitarfélögin verða veitendur þjónustu við fatlað fólk. Öll störf starfsmanna svæðisskrifstofanna í yfirstjórn, umsýslu og ráðgjöf verða þá lögð niður frá sama tíma. Þá munu sveitarfélögin leitast við að bjóða starfsmönnum svæðisskrifstofanna sem áður störfuðu við umsýslu og ráðgjöf störf. Um réttindi starfsmanna, svo sem rétt til uppsagna og biðlauna, gilda lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum.
    Um e-lið (IX.).
    Gert er ráð fyrir að öll störf innan þjónustueininga sem ríkið rekur á grundvelli 9. og 10. gr. laga nr. 59/1992, hvort sem störfin eru stofnanabundin eða í tengslum við búsetuþjónustu, flytjist yfir til hlutaðeigandi sveitarfélaga sem taka við rekstri þjónustueininganna frá og með 1. janúar 2011. Sveitarfélög þar sem þessar þjónustueiningar eru staðsettar munu taka við rekstri þeirra og bjóða starfsmönnunum áframhaldandi störf við þjónustu. Munu starfsmennirnir þá verða starfsmenn sveitarfélaganna eða eftir atvikum þess lögaðila sem annast þjónustuna fyrir hönd sveitarfélagsins. Um réttindi og skyldur starfsmanna til starfa hjá hlutaðeigandi sveitarfélögum fer eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, með síðari breytingum, samþykktum sveitarfélaga um starfsmannahald, og laga nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, eins og á við hverju sinni.
     Um f-lið (X.).
    Lagt er til að svæðisráðin, sem starfa á grundvelli 6. gr. laga nr. 59/1992, verði lögð niður 1. janúar 2011 en miðað er við að velferðarráðuneyti muni taka við hlutverki þeirra eftir því sem við á.
    Um g-lið (XI.).
    Áhersla er lögð á mikilvægi þess að farið verði markvisst yfir réttindagæslumál fatlaðs fólks áður en lög um málefni fatlaðra verða endurskoðuð í heild sinni. Er því lagt til að velferðarráðherra verði falið að leggja fram frumvarp til sérlaga um réttindagæslu fatlaðs fólks fyrir árslok 2011. Þar yrðu m.a. lagðar til leiðir að nýju fyrirkomulagi um réttindagæslu fatlaðs fólks, þar á meðal um réttindagæslumenn og persónulega talsmenn fyrir fatlað fólk, og nauðsynlegar aðgerðir til að draga úr nauðung við fatlað fólk.
    Um h-lið (XII.).
    Mikilvægt þykir að lögin verði endurskoðuð, enda gildandi lög nokkuð komin til ára sinna. Hins vegar þykir betra að bíða með endurskoðun laganna þangað til ákveðin reynsla er komin á þjónustu sveitarfélaganna við fatlað fólk sem og notendastýrða persónulega aðstoð við fatlað fólk með þeim hætti sem lagt er til með a-lið ákvæðis þessa áður en ráðist verður í heildarendurskoðun laganna. Því er lagt til að ráðist verði í heildarendurskoðun á lögunum innan fjögurra ára.

Um 35. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 59/1992,
um málefni fatlaðra, með síðari breytingum.

    Hér eru til umfjöllunar breytingar á útgjöldum og tekjum ríkissjóðs vegna nokkurra lagafrumvarpa sem snúa að fyrirhugaðri yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Í því skyni að koma í framkvæmd þeirri stefnu sem mörkuð var með viljayfirlýsingu ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 13. mars 2009 er gert ráð fyrir að lögð verði fyrir haustþingið frumvörp til breytingar á gildandi lagaákvæðum sem taki til eftirfarandi laga: laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, laga nr. 94/ 1986, um kjarasamninga opinberra starfsmann, og laga nr. 1/1007, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Í þessari umsögn er fjallað heildstætt um fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð af fyrirhugum breytingum á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna allra þessara lagafrumvarpa en í umsögnum með einstökum öðrum frumvörpum sem málið varða eingöngu fjallað um þau atriði sem í þeim felast en að öðru leyti verður vísað til þessarar umfjöllunar um málið í heild.
    Unnið hefur verið að yfirfærslunni frá því snemma árs 2007 en þá var tekin ákvörðun um að endurskoða verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og þá sérstaklega þjónustu við fatlaða, öldrunarmál og menntamál. Yfirfærsla á málefnum fatlaðra gæti því orðið fyrsta skrefið í veigamikilli uppstokkun á verkefnaskiptingu ríkisins og sveitarfélaga á næstu árum. Í kjölfarið var skipaður starfshópur sem unnið hefur að verkefninu og var ákveðið að byrja á yfirfærslu málaflokks fatlaðra. Nú liggur fyrir samkomulag ríkis og sveitarfélaga sem gerir ráð fyrir að öll almenn þjónusta við fatlaða færist yfir til sveitarfélaga. Þjónustuþættir sem sveitarfélögin taka við eru sambýli, áfangastaðir, frekari liðveisla við íbúa í þjónustu- og íbúðakjörnum og í sjálfstæðri búsetu, hæfingarstöðvar og dagvistarstofnanir, verndaðir vinnustaðir og atvinna með stuðningi, heimili fyrir börn og skammtímavistanir. Starfsemi sem áfram verður á ábyrgð ríkisins er Hringsjá - náms- og starfsendurhæfing, Tölvumiðstöð fatlaðra, Múlalundur, Blindravinnustofan og vinnustaðir Öryrkjabandalags Íslands. Þá falla ekki heldur undir þessa verkefnayfirfærslu Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskerta og stofnanir tengdar vinnumarkaðsúrræðum. Auk þess er gert ráð fyrir að almenn hagsmunagæsla fatlaðra verði áfram á ábyrgð ríkisins. Flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaga varðar um 2.500 einstaklinga sem þurfa á þjónustu að halda vegna fötlunar sinnar.
    Markmið tilfærslunnar eru skilgreind í heildarsamkomulaginu og eru þau m.a. að bæta þjónustu og laga hana að þörfum notenda með hliðsjón af ólíkum aðstæðum, stuðla að samþættingu nærþjónustu við íbúa sveitarfélaga, draga úr skörun ábyrgðarsviða stjórnsýslustiga, tryggja góða nýtingu fjármuna og einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Mynduð verða þjónustusvæði um rekstur þjónustu við fatlaða og skulu þau hafa að lágmarki átta þúsund íbúa. Því verða þau sveitarfélög sem ekki ná þessari íbúatölu að sinna þjónustunni í samvinnu við önnur. Ráðherra getur hins vegar undir ákveðnum skilyrðum veitt undanþágur frá viðmiðinu um fjölda íbúa svæða. Stofnuð verður sérstök deild innan Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem tryggja á að tekjuaukning einstakra sveitarfélaga og þjónustusvæða endurspegli kostnaðarmun vegna ólíks fjölda fatlaðra íbúa og mismunandi þjónustuþarfa þeirra.
    Gert er ráð fyrir að fasteignir sem Framkvæmdasjóður fatlaðra hefur fjármagnað, áður af hlutdeild í erfðafjárskatti en undanfarin ár með beinum framlögum úr ríkissjóði, renni til sérstaks fasteignasjóðs í umsjón Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og að Framkvæmdasjóður fatlaðra verði lagður niður. Allar tekjur umfram gjöld munu renna til sérdeildar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem úthlutar þeim til sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlaða. Samkvæmt fasteignamati er áætlað að heildarvirði þeirra eigna sem ríkissjóður lætur af hendi við yfirfærsluna verði um 3,7 milljarðar kr.
    Við yfirfærsluna verða starfsmenn ríkisins sem starfa í þjónustueiningum í málaflokki fatlaðra starfsmenn sveitarfélaga. Um er að ræða um 1.500 starfsmenn í rúmlega 1.000 stöðugildum sem annast þjónustuna. Svæðisskrifstofur verða lagðar niður og munu sveitarfélög leitast við að bjóða starfsmönnum þeirra ný störf. Þá verður öllum starfsmönnum sem eiga aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins gert kleift að halda henni óski þeir þess. Þá er gert ráð fyrir að sveitarfélög taki á sig skuldbindingar launagreiðenda vegna starfsmanna í B-deild og greiði sérstök iðgjöld til B-deildar LSR til að standa undir mismun á áföllnum skuldbindingum hvers árs og greiddum iðgjöldum.
    Samhliða yfirfærslu á framkvæmd og ábyrgð á þjónustu við fatlaða taka sveitarfélögin yfir fjárhagslega ábyrgð málaflokksins. Í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga frá 6. júlí sl. um fjárhagsleg málefni yfirfærslunnar var samið um að útsvarshlutfall sveitarfélaga hækki um 1,2 prósentustig og að tekjuskattshlutfall ríkisins lækki á móti um samsvarandi hlutfall. Gert er ráð fyrir að til lengri tíma muni þessi hækkun útsvarshlutfallsins duga sveitarfélögunum til fjármögnunar þjónustunnar og hefur þá verið tekið tillit til ýmiss kostnaðar sem auka muni útgjöldin í fyrirsjáanlegri framtíð. Sökum veikrar stöðu skattstofnsins á næstu árum er gert ráð fyrir að sveitarfélögum verði tryggðar greiðslur á fjárlögum 2011–2013 í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem nemi mismun á skatttekjum og kostnaði vegna veittrar þjónustu og breytingarkostnaðar. Á síðustu árum hafa útgjöld til málefna fatlaðra oftast verið lægri en 1,2% af skattstofni þegar tekið hefur verið tillit til væntanlegs biðlista að undanskildu árinu 2009 en þá fóru útgjöldin yfir þessi mörk og má rekja það til lækkunar skattstofnsins vegna efnahagssamdráttarins. Þá er í samkomulaginu sem gert var um fjárhagsrammann einnig kveðið á um greiðslur yfir sama tímabil til sveitarfélaganna vegna nýrra verkefna í þjónustu, styttingar biðlista og vegna ýmiss kostnaðar sem tengist yfirfærslunni. Faglegar og fjárhagslegar forsendur samkomulagsins og yfirfærslunnar verða svo teknar til endurskoðunar árið 2014.
    Þær breytingar sem lagðar eru til á lögum um málefni fatlaðra beinast fyrst og fremst að því að laga stjórnsýsluna að breyttri verkaskipan og framkvæmd yfirfærslunnar. Gert er ráð fyrir að aðrar efnislegar breytingar verði lagðar fram við heildarendurskoðun laganna sem ætlunin er að hefja strax á næsta ári. Skipta má breytingartillögum frumvarpsins í þrjá meginflokka.
    Í fyrsta lagi eru breytingar sem lagðar eru til á stjórnsýsluhlutverki ríkisins vegna málaflokksins og varða það helst að tryggja hagsmunagæslu fyrir notendur þjónustunnar og möguleika þeirra til að kæra stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Lagt er til að þegar verði hafinn undirbúningur að smíði frumvarps er fjallar nánar um réttindagæslu fatlaðra. Þá er einnig kveðið á um niðurlagningu núverandi svæðisskrifstofa fatlaðra.
    Gert er ráð fyrir að til lengri tíma litið sparist um þrjú stöðugildi á aðalskrifstofu félags- og tryggingamálaráðuneytisins við flutninginn þar sem fjöldi verkefna sem tengjast málaflokknum falla niður eða verða framvegis unnin af sveitarfélögunum. Um er að ræða verkefni sem m.a. snúa að eftirliti með rekstri stofnana, fjárlagavinnu, samningsgerð og almennum samskiptum við sjálfseignarfélög og stofnanir sem með ýmsu móti koma að þjónustu við fatlaða. Þá má gera ráð fyrir að kostnaður vegna ráðgjafar í tengslum við málaflokkinn og yfirfærsluna muni lækka umtalsvert. Á móti þessum sparnaði í stjórnsýslunni er gert ráð fyrir að komi eitt nýtt stöðugildi vegna hagsmunagæslu en í frumvarpinu er lagt til að í fyrstu hafi velferðarráðuneytið eftirlit með framkvæmd laganna. Stefnt er að því síðar að fela sérstakri stofnun eftirlit með allri félagslegri þjónustu sem sveitarfélög veita. Starfsmanni ráðuneytisins er ætlað að kalla eftir upplýsingum frá sveitarfélögunum og fylgja því eftir að þjónusta og starfsemi sveitarfélaga og annarra aðila sé í samræmi við markmið þeirra. Eftirlitshlutverk ríkisins mun að öðru leyti verða svipað því sem verið hefur en á vegum þess eru nú starfandi nokkrir trúnaðarmenn sem jafngilda einu og hálfu stöðugildi. Jafnframt mun ráðherra skipa trúnaðarmenn fatlaðra sem ætlað er að hafa sambærilegt hlutverk og þeir hafa innan gildandi kerfis. Kostnaður vegna trúnaðarmanna er áætlaður um 12 m.kr. og er ekki gert ráð fyrir breytingu á kostnaði vegna þeirra. Ekki hefur verið lagt mat á fjölda kæra til úrskurðarnefndar um félagsþjónustu vegna stjórnvaldsaðgerða. Nefndinni berast nú um 40–50 kærur árlega og er kostnaður vegna hennar um 2,5 m.kr. á ári og er talið að aukinn kostnaður vegna þessa rúmist innan fjárheimilda.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að öllum sex svæðisskrifstofum fatlaðra verði lokað og starfsmönnum þeirra sagt upp. Gera má ráð fyrir að nokkur hópur muni þiggja biðlaun eða nýta sér uppsagnarrétt sinn. Við þetta bætist kostnaður vegna starfsmanna sem starfa munu nokkra mánuði á næsta ári við frágang á gögnum og skjölum áður en kemur til uppsagnar og biðlauna. Því er áætlað að starfsmannakostnaður geti orðið 189 m.kr. á næsta ári auk leigukostnaðar og annars rekstrarkostnaðar sem áætlaður er 22 m.kr. Þessu til viðbótar er reiknað með um 90 m.kr. kostnaði vegna starfsmanna og rekstrar sem töluverð óvissa ríkir enn um og ekki mun skýrast fyrr en ljóst er hversu marga starfsmenn af svæðisskrifstofunum sveitarfélögin munu ráða til sín. Kostnaðarauki ríkissjóðs vegna niðurlagningar svæðisskrifstofanna er því áætlaður 210–300 m.kr. Að auki fellur til ýmis annar kostnaður sem m.a. er tilkominn vegna eldra uppsafnaðs orlofs þeirra starfsmanna sem í málaflokknum starfa og uppgjörs lífeyrisgreiðslna en samtals er áætlað að þessi liður nemi um 50 m.kr.
    Í öðru lagi eru lagðar til breytingar er varða sveitarfélögin, skyldur þeirra við þjónustunotendur og skipulag þeirrar þjónustu og búsetuúrræða sem þeim er ætlað að veita, t.d. myndun þjónustusvæða og lágmarksstærð þeirra. Einnig er kveðið á um myndun sameiginlegs matsteymis sem ætlað er að meta þjónustuþörf þeirra einstaklinga sem á aðstoð þurfa á að halda. Þá eru lagðar til ýmsar takmarkanir vegna ráðningar starfsfólks sem við þjónustuna munu starfa. Allur kostnaður sveitarfélaga vegna þessara verkefna á að fjármagnast af hækkun útsvarsteknanna og tilfærsluframlögunum frá ríkinu sem samkomulagið felur í sér.     
    Í þriðja lagi eru lögð til ýmis ákvæði er varða yfirfærsluna sjálfa og ný verkefni sem tengjast henni. Um er að ræða styttingu biðlista og tillögur að tilraunaverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð en hún felur í sér að einstaklingar sem þurfa á aðstoð að halda í daglegu lífi sínu stjórni því sjálfir í auknum mæli hvers konar þjónustu þeir njóta og hvar og hvenær. Lagt er til að byrjað verði að veita slíka þjónustu með það að markmiði að hún verði í framtíðinni eitt meginform þjónustu við fatlaða. Einnig er lagt til að ríkissjóður greiði breytingarkostnað sveitarfélaganna á aðlögunartímabilinu 2011–1013. Þá er lagt til að sameiginlegt endurmat ríkis og sveitarfélaga skuli fara fram á faglegum og fjárhagslegum árangri yfirfærslunnar og undirbúningur skal hefjast árið 2013.
    Gert er ráð fyrir að á næstu þremur árum verði varið um 300 m.kr. í tilraunaverkefnið um notendastýrða persónulega aðstoð. Í árslok 2014 muni svo liggja fyrir mat á árangri verkefnisins sem haft verði til hliðsjónar við ákvörðum um hvort slík þjónusta verði eitt meginform þjónustu við þá einstaklinga sem búa við fötlun. Þá er áformað að sveitarfélögin fái samtals um 600 m.kr. framlög úr ríkissjóði á árunum 2012 og 2013 vegna biðlista en samkvæmt fyrstu áætlunum frá árinu 2008 var gert ráð fyrir að kostnaður við að stytta biðlista gæti numið allt að 500 m.kr. á ári. Við ákvörðun á breytingum á útsvars- og tekjuskattshlutföllum var tekið tillit til þessa kostnaðar. Ekki liggja fyrir neinar verkáætlanir um hvernig biðlistum verði eytt en unnið er að ítarlegri könnun á fjölda og þjónustuþörf fatlaðra. Í því sambandi verður leitað eftir upplýsingum um biðlista sem nýttar verða til að meta kostnað vegna hans og í framhaldinu verður kostnaður vegna biðlista endurmetinn. Greiðslur ríkissjóðs til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna breytingarkostnaðar, sem samið var um í samkomulaginu frá 6. júlí sl., nema samtals 811 m.kr. á næstu þremur árum og þar af koma til greiðslu um 200 m.kr. á næsta ári. Framlög vegna breytingarkostnaðar skulu standa undir öllum kostnaði sveitarfélaga vegna yfirfærslunnar, m.a. útgjöldum vegna stýrihóps sem velferðarráðherra skipar og í eiga sæti fulltrúar ríkis, sveitarfélaga og notenda þjónustunnar. Auk þess skulu framlögin standa undir kostnaði vegna samræmds mats á þjónustuþörf á landsvísu og kostnaði vegna samhæfingar sem tengdist tilfærslunni.
    Þá er í þessu frumvarpi til breytingar á lögum um fatlaða lagt til að vinna við heildarendurskoðun á lögunum hefjist árið 2011 og að henni verði lokið fyrir árslok 2014. Í endurskoðuninni skal taka tillit til efnis samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra. Ekkert mat hefur farið fram á því hvort og þá hversu mjög útgjöld til málaflokksins gætu aukist vegna samnings Sameinuðu þjóðanna og því engar forsendur til að leggja mat á slíkt hér. Verði fyrirsjáanlegt að fullnusta hans geti aukið útgjöldin umtalsvert verður það tekið til athugunar í endurskoðun forsendna yfirfærslunnar.
    Gert er ráð fyrir að í frumvarpi sem lagt verði fram til breytingar á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna í tengslum við yfirfærsluna verði kveðið á um að þeir starfsmenn sem gerast starfsmenn sveitarfélaganna á grundvelli breytinga á lögum um fatlaða geti valið um áframhaldandi aðild að SFR – Stéttarfélagi í almannaþjónustu eða starfsmannafélagi viðkomandi sveitarfélags. Starfsmenn sem falla undir lögin og hefja störf í þjónustu við fatlaða eftir yfirfærsluna hafa hins vegar ekki þetta val. Um er að ræða svokallað sólarlagsákvæði. Ekki er gert ráð fyrir að útgjöld ríkisins breytist vegna þessa. Ákvæðið skal koma til endurskoðunar samhliða fjárhagslegri endurskoðun forsendna yfirfærslunnar.
    Þá er gert ráð fyrir að lagt verði fram frumvarp til breytingar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins þar sem gerðar verði tillögur um að þeir starfsmenn sem eru í störfum í þjónustu við fatlaða og halda þeim áfram og eiga aðild að B-deild LSR geti haldið aðild sinni að B-deild sjóðsins. Einnig verði lagt til að sveitarfélög taki á sig skuldbindingar launagreiðenda frá aðilaskiptum en ríkissjóður fram að þeim tíma. Er þetta gert til að skýra stöðu starfsmanna en jafnframt stöðu sveitarfélaga gagnvart lífeyrisiðgjöldum. Ríkissjóður mundi samkvæmt þessu greiða til sveitarfélaganna vegna lífeyrisskuldbindinga starfsmanna sem eru í B-deild LSR fyrir árin 2011–2013. Áætlað hefur verið að þessar fjárhæðir geti numið um 15 m.kr. á ári eða samtals 45 m.kr.
    Í tengslum við þessi áform er einnig gert ráð fyrir að fram komi tillögur um breytingar á lögum um tekjuskatt, tekjustofna sveitarfélaga og staðgreiðslu opinberra gjalda í samræmi við rammasamkomulagið frá 6. júlí 2010 í þá veru að tekjuskattshlutfallið lækki um 1,2 prósentustig á öllum skattþrepum og samsvarandi breyting verði gerð á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Þá verði lagt til að efri mörk útsvars hækki úr 13,28% í 14,48% og neðri mörkin úr 11,24% í 12,44%. Auk þessa verði lagðar til breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga í þá veru að stofnuð verði sérdeild innan sjóðsins vegna málefna fatlaðra og að í hann renni 0,95 prósentustig af álagningarstofni útsvars og tekjur umfram útgjöld fasteignasjóðs sem stofnaður verður um fasteignir Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Hlutverk sérdeildarinnar er að tryggja að tekjuaukning einstakra sveitarfélaga endurspegli kostnaðarmun vegna ólíks fjölda fatlaðra íbúa og mismunandi þjónustuþarfa þeirra. Þá er gengið út frá því að söluandvirði þeirra eigna sem í sjóðnum eru og aðrar tilfallandi tekjur verði nýttar til jöfnunar vegna þjónustu við fatlaða. Kveðið verði á um að innanríkisráðherra setji sjóðnum nánari reglur um jöfnunaraðgerðir. Reiknað er með að Jöfnunarsjóðurinn þurfi að bæta við einu starfi vegna aukinna verkefna en sá kostnaður fellur ekki á ríkissjóð.
    Samkvæmt áætlun fjármálaráðuneytisins má gera ráð fyrir að tekjutap ríkissjóðs vegna breytinga á tekjuskattshlutfallinu nemi tæpum 10,2 milljörðum kr. Er það annars vegar vegna lækkunar tekjuskattshlutfallsins og hins vegar vegna útsvarsgreiðslu ríkissjóðs til sveitarfélaga en sveitarfélögum er lögum samkvæmt tryggt útsvar af tekjuskattsskyldum tekjum með því að ríkissjóður greiðir að hluta eða fullu útsvar þeirra sem hafa tekjur undir ákveðnum mörkum. Við útreikninginn er notast við nýja áætlun tekju- og skattaskrifstofu fjármálaráðuneytis um útsvarsstofn ársins 2011 en í samkomulaginu frá júlí 2010 lá hann ekki fyrir og því var miðað við eldri og óvissari áætlanir um útsvarsstofninn. Útsvarsstofninn er nú áætlaður hærri og verður sérstakt aukaframlag til að vega á móti veikri stöðu hans þar með nokkru lægra en áður var áætlað í samræmi við samkomulagið, eða um 370 m.kr. Á móti er gert ráð fyrir að niður falli bein framlög í fjárlögum til starfrækslu málaflokksins sem nema um 10 milljörðum kr. Þá falla til framangreind útgjöld vegna breytingarkostnaðar, notendastýrðrar aðstoðar, biðlauna og niðurlagningar svæðisskrifstofa, sérstakt aukaframlag til að vega á móti veikri stöðu útsvarstofnsins o.fl. sem samtals nema um 970 m.kr. á næsta ári en eru að mestu leyti tímabundnir útgjaldaliðir næstu eitt til þrjú árin. Er þannig gert ráð fyrir að nettóbreyting útgjalda verði tæplega 8.750 m.kr. á árinu 2011. Nánar er gerð grein fyrir helstu áhrifum á tekjur og útgjöld í töflu hér á eftir. Á tímabilinu 2012–2013 mun ríkissjóður þurfa að greiða um 610 m.kr. vegna breytinganna auk 860 m.kr. vegna nýrra verkefna.
    Verði framangreindar lagabreytingar lögfestar og yfirfærsla á málaflokki fatlaðra til sveitarfélaga gengur eftir má þannig gera ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs muni verða um 1.404 m.kr. verri árið 2011 en með óbreyttu fyrirkomulagi. Ekki er gert ráð fyrir þessum breytingum tekna og gjalda í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi. Eru því horfur á að grípa þurfi til mótvægisráðstafana í ríkisfjármálum á öðrum málasviðum ef takast á að ná settum markmiðum í áætlun stjórnvalda um jöfnuð í ríkisfjármálum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.