Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 283. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 326  —  283. mál.
Tillaga til þingsályktunarum uppbyggingu Náttúrugripasafns Íslands á Selfossi.

Flm.: Árni Johnsen, Björgvin G. Sigurðsson, Jón Gunnarsson,


Ragnheiður E. Árnadóttir, Róbert Marshall, Sigmundur Ernir Rúnarsson,
Sigurður Ingi Jóhannsson, Unnur Brá Konráðsdóttir.

    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að hefjast nú þegar handa við uppbyggingu Náttúrugripasafns Íslands á Selfossi í Árborg.

Greinargerð.


    Það er með ólíkindum að Náttúrugripasafn Íslands skuli ekki vera til á Íslandi, bæði vegna sérstæðs náttúrulífs og jarðfræði og hins að sívaxandi ferðamannastraumur til Íslands er ekki síst kominn til vegna sérstöðu náttúru landsins.
    Árið 1889 var Náttúrufræðifélag Íslands stofnað í þeim eina tilgangi að koma á laggirnar Náttúrugripasafni Íslands. 121 ár er liðið síðan og markmiðinu hefur ekki enn þá verið náð. Það er ekki til sóma fyrir land og þjóð. Fyrir skömmu gerðust þau merku tíðindi að Náttúrufræðistofnun komst í nýtt húsnæði til frambúðar í Garðabæ. Þar hefur stofnunin aðstöðu í fullkomnu skrifstofu- og rannsóknarhúsnæði og með fullkomna aðstöðu til að geyma gripi við réttar aðstæður, hitastig, raka og tæknilegan búnað.
    Enn liggur Náttúrugripasafnið óbætt hjá garði en Náttúrufræðistofnun Íslands á í geymslum sínum fjölda safngripa sem full ástæða er til að landsmenn allir og ekki síst nemendur og ferðamenn hafi aðgang að.
    Náttúrugripasafn Íslands væri afar vel staðsett á Selfossi sem er í þjóðbraut fyrir mesta ferðamennastrauminn um Ísland og steinsnar frá höfuðborginni, eða aðeins um 30 mínútna akstursleið innan tíðar. Leiðin að flestum náttúruperlum Íslands liggur um Selfoss til Þingvalla, Gullfoss, Geysis, Heklu, Landmannalauga, Þórsmerkur, Vestmannaeyja, Eyjafjallajökuls, Mýrdalsjökuls, Dyrhólaeyjar, Lómagnúps og Vatnajökuls svo nokkur dæmi séu nefnd og nánast öll jurtaflóra og fuglafána Íslands er á þessu svæði. Margar náttúruperlur eru síðan allt í kringum landið, en ferðamannastraumurinn er langmestur á Suðurlandi vegna fjölbreytninnar og ekki síst Gullfoss og Geysis.
    Á Selfossi eru til staðar húsakostir sem mundu henta vel fyrir Náttúrugripasafn Íslands en gera má ráð fyrir að það þurfi 5000 fermetra húsnæði til þess að koma fyrir safngripum við hæfi.
    Sem dæmi um mögulegan valkost er aðstaða í Hótel Selfossi, gamla hluta hótelsins þar sem er rými sem hentar með fyrirlestrarsölum, ráðstefnusal, geymslum og miklu rými fyrir sýningaraðstöðu. Það er ekki ólíklegt að gera megi mikið í þessum efnum og láta 121 árs gamlan draum rætast með hóflegum kostnaði og viðráðanlegum á Selfossi, því þar er ein höfuðstöðin í þjóðbraut ferðamanna og þar opnast víðasti faðmur landsins að næstu náttúruperlum, heiðum, völlum, fjöllum, hverum og jöklum.
    Jón Gunnar Ottósson, forstöðumaður Náttúrufræðistofnunar Íslands, hefur staðfest að staðsetning Náttúrugripasafns Íslands þurfi ekki að vera í neinu tengd staðsetningu stofnunarinnar sjálfrar þótt uppbygging Náttúrugripasafnsins sjálfs yrði að sjálfsögðu í fullri samtengingu og samráði við Náttúrufræðistofnun. Óskandi er að mennta- og menningarmálaráðherra skipi snarlega nefnd til þess að kanna lausn á þessu máli til árangurs.