Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 152. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 347  —  152. mál.
Breytingartillögurvið frv. til l. um breyt. á l. nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga, lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og lögum nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.     1.      2. gr. orðist svo:
              Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
              a.      Í stað orðanna „skulda vegna námslána“ í g-lið 1. mgr. kemur: krafna Lánasjóðs íslenskra námsmanna vegna námslána.
              b.      Við g-lið 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Almenn skuldabréf sem stofnuð eru vegna vanskila, ofgreiðslu námslána eða markaðskjaralána teljast ekki kröfur vegna námslána.
              c.      Á eftir g-lið 1. mgr. kemur nýr stafliður, svohljóðandi: krafna viðskiptabanka vegna tímabundinnar fyrirgreiðslu sem námsmanni er veitt vegna framfærslu á grundvelli væntanlegs láns frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, enda hafi samhliða verið samið um að láninu skuli ráðstafa að fullu til uppgjörs á fyrirgreiðslu viðskiptabankans. Ef umsækjandi fullnægir ekki skilyrðum lánasjóðsins um framvindu náms skal farið með fyrirgreiðslu viðskiptabanka, eða eftir atvikum þann hluta hennar sem ekki fæst greiddur með láni frá sjóðnum, sem samningskröfu og tekur greiðsluaðlögun þá til kröfunnar.
     2.      5. gr. orðist svo:
              Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
              a.      Við f-lið 1. mgr. bætist: eða ráðast í hvers konar aðgerðir til innheimtu kröfu.
              b.      Á eftir f-lið 1. mgr. kemur nýr stafliður, svohljóðandi: ráðast í hvers konar aðgerðir til innheimtu krafna sem tryggðar eru með veði í fasteign þriðja aðila.
              c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Sé krafa tryggð með lögveði þegar frestun greiðslna hefst skal sá tími sem frestun greiðslna er í gildi vera undanskilinn lögbundnum fyrningarfresti lögveðs.
     3.      Á eftir 5. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Við d-lið 12. gr. laganna bætist: nema skuldbinding sem stofnað er til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.
     4.      Á eftir 9. gr. komi ný grein, svohljóðandi.
                  Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum, sbr. lög nr. 128/2010, bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Á meðan á frestun greiðslna stendur og áður en umsjónarmaður er skipaður í samræmi við 9. gr. skal umboðsmanni skuldara vera heimilt að veita samþykki til ráðstöfunar eigna skuldara. Ráðstöfun eigna skal ekki heimiluð nema hún verði talin til þess fallin að auðvelda skuldara að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu. Sala eigna skal eftir því sem við á vera í samræmi við 13. gr., eðlilegt verð skal koma fyrir eignir og sé hagnaður eftir greiðslu áhvílandi veðskulda skal hann varðveittur þannig að hann liggi fyrir óskertur við lok frestunar greiðslna. Þrátt fyrir ákvæði 11. gr. skal lánardrottnum sem njóta veðréttar í hinni seldu eign heimilt að taka við greiðslu á kröfum sínum.
                  Umboðsmaður skuldara skal tryggja að ráðstöfun eigna sé í samræmi við 8. mgr. og að hagnaður af sölu eigna sé varðveittur á sérstökum vörslureikningi umboðsmanns skuldara á meðan á frestun greiðslna stendur.
     5.      Við 10. gr.:
              a.      Við b-lið bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Almenn skuldabréf sem stofnuð eru vegna vanskila, ofgreiðslu námslána eða markaðskjaralána teljast ekki kröfur vegna námslána.
              b.      Á eftir b-lið komi nýr stafliður, svohljóðandi: krafna viðskiptabanka vegna tímabundinnar fyrirgreiðslu sem námsmanni er veitt vegna framfærslu á grundvelli væntanlegs láns frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, enda hafi samhliða verið samið um að láninu skuli ráðstafa að fullu til uppgjörs á fyrirgreiðslu viðskiptabankans. Ef umsækjandi fullnægir ekki skilyrðum lánasjóðsins um framvindu náms skal farið með fyrirgreiðslu viðskiptabanka, eða eftir atvikum þann hluta hennar sem ekki fæst greiddur með láni frá sjóðnum, sem samningskröfu og tekur greiðsluaðlögun þá til kröfunnar.
     6.      Á eftir 10. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  63. gr. c laganna orðast svo:
                  Ljúka má gjaldþrotaskiptum með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar eftir ákvæðum XXI. kafla og eftir atvikum tímabundinni greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna samkvæmt lögum nr. 50/2009. Í stað þess að þrotamaður leggi frumvarp að nauðasamningi fyrir skiptastjóra og hann láti greiða atkvæði um það skal þrotamaðurinn þá leggja fyrir skiptastjóra greiðsluáætlun og hann síðan leita greiðsluaðlögunar á sama hátt og umsjónarmaður hefði ella gert samkvæmt ákvæðum V. kafla laga nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga.
     7.      Við bætist nýr kafli, IV. kafli, Breyting á lögum nr. 100/2010, um umboðsmann skuldara, með tveimur nýjum greinum, 15. og 16. gr., svohljóðandi:
        a. (15. gr.)
                Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
                  a.      4. mgr. fellur brott.
                  b.      Í stað lokamálsliðar 5. mgr. koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Miða skal við að gjaldskyldir aðilar greiði gjaldið í hlutföllum við umfang útlánastarfsemi sinnar í lok næstliðins árs. Gjaldskyldur aðili er undanþeginn greiðslu á því ári sem hann hefur starfsemi. Árið eftir að gjaldskyldur aðili hefur starfsemi skal miða álagningu við greiðslu á 500.000 kr.
        b. (16. gr.)
                 Við 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða III í lögunum bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við gjaldtöku vegna ársins 2010 skal miða við upplýsingar um umfang útlána gjaldskyldra aðila í lok ársins 2009 og skal gjalddagi gjaldsins vera 31. desember 2010.
     8.      Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 101/ 2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga, og fleiri lögum.