Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 79. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Prentað upp.

Þskj. 351  —  79. mál.
Umsagnir.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um brunavarnir, nr. 75/2000, með síðari breytingum.

Frá umhverfisnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hafstein Pálsson og Steinunni Fjólu Sigurðardóttur frá umhverfisráðuneyti.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Isavia, Reykjavíkurborg, ríkislögreglustjóra, Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Skorradalshreppi, K. Huldu Guðmundsdóttur, Akureyrarbæ, Reykjanesbæ, Samtökum fjármálafyrirtækja, Náttúrufræðistofnun Íslands, Landsvirkjun, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppi, Hrunamannahreppi, Vinnueftirlitinu, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Vegagerðinni, Grindavíkurbæ, Ísafjarðarbæ, Brunavörnum Austur-Húnavatnssýslu, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, skipulags- og umhverfisnefnd Akraneskaupstaðar, Brunamálastofnun, Skógrækt ríkisins, Sigurði G. Sigurðssyni hrl., sveitarfélaginu Ölfusi, Landsneti, Félagi slökkviliðsstjóra á Íslandi, Mosfellsbæ, Fasteignaskrá Íslands, Ferðamálastofu, Öryrkjabandalagi Íslands, Hafnarfjarðarbæ, Grundarfjarðarbæ, Landssamtökum skógareigenda, Fornleifavernd ríkisins, Félagi byggingarfulltrúa, sveitarfélaginu Árborg, Skipulagsstofnun, Byggðastofnun, Félagi atvinnurekenda, úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Orkustofnun, skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings, Fjallabyggð, Húnavatnshreppi, Flugstoðum ohf., Keflavíkurflugvelli ohf. og Landmælingum Íslands.
    Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um mannvirki og þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru einkum til samræmis við frumvarp til laga um mannvirki. Auk þess eru gerðar breytingar í ljósi þeirrar reynslu sem hlotist hefur af lögum um brunavarnir.
    Þau atriði sem fengu mesta umfjöllun í nefndinni voru björgun á fastklemmdu fólki, stjórn slökkviliðsstjóra á vettvangi, eldvarnir í gróðurlendi og gildissvið brunavarnalaga, nr. 75/ 2000.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að við 2. gr. laganna bætist nýr málsliður um að björgun á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum með sérhæfðum björgunarbúnaði falli undir gildissvið laganna. Í 8. gr. er enn fremur kveðið á um að björgun á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum skuli vera eitt af lögbundnum verkefnum slökkviliðs. Þá segir í 12. gr. að slökkviliðsstjóri skuli stjórna slökkvistarfi við eldsvoða og björgun á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum. Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna fagnar ákvæðinu og bendir á að með því sé skotið skýrri lagastoð undir þau verkefni sem slökkvilið hafi almennt sinnt til þessa en er samkvæmt núgildandi lögum vistað hjá lögreglu, sbr. 4. mgr. 6. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, þar sem kveðið er á um að lögregla fari með yfirstjórn leitar- og björgunaraðgerða. Sú hefð hefur þó komist á að slökkvilið sveitarfélaga hafa annast björgun, til að mynda þegar ná þarf fólki úr bílflaki eftir umferðarslys og við aðrar aðstæður sem krefjast skjótra viðbragða. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að margar björgunarsveitir hafi komið sér upp búnaði til rústabjörgunar og sambandið líti svo á að 2. gr. breyti ekki þeirri verkaskiptingu sem sé milli slökkviliða sveitarfélaganna annars vegar og björgunarsveita hins vegar. Í umsögn Slysavarnafélagsins Landsbjargar kemur fram að mikill metnaður hafi verið lagður í uppbyggingu á rústabjörgunarsveit og telur félagið að það eigi ekki að vera hlutverk slökkviliðs að bjarga fastklemmdu fólki úr mannvirkjum. Skv. 4. gr. reglugerðar um leit og björgun á landi og samstarf lögreglu og björgunarsveita, nr. 289/2003, eru björgunarsveitir hjálparlið lögreglu við leit og björgun á landi og við sérstök gæslustörf. 3. málsl. 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar kveður svo á um að lögreglan kalli til björgunarsveitir þegar þörf krefur. Það er álit nefndarinnar að nauðsynlegt sé að verkefni af þessum toga séu áfram vistuð hjá opinberum aðilum án þess að dregið sé úr því mikilvæga hlutverki sem björgunarsveitir hafa gegnt við björgunarstörf á fastklemmdu fólki. Nefndin bendir einnig á að björgun sem þessi er í raun tvenns konar. Annars vegar er um rústabjörgun að ræða, til að mynda í kjölfar náttúruhamfara, svo sem snjóflóða, jarðskjálfta og skriðufalla, þar sem björgunarsveitir hafa gegnt veigamiklu hlutverki. Hins vegar eru tilfallandi aðstæður, svo sem við umferðarslys, þegar beita þarf klippum til að komast að fólki en því verkefni hafa slökkvilið sinnt. Nefndin telur mikilvægt að greint sé hér á milli og að slökkvilið fái lagastoð fyrir þeim verkefnum sem þau hafa sinnt en björgunarsveitir sjái áfram um rústabjörgun undir yfirstjórn lögreglu eins og verið hefur og haldist ábyrgð á slíkum verkefnum því hjá lögreglu. Nefndin áréttar einnig að mikilvægt er að verkaskipting á slysa- og björgunarvettvangi sé skýr.
    Við umfjöllun nefndarinnar komu upp álitamál um gildissvið laga um brunavarnir þegar um er að ræða eldvarnir á flugvöllum. Nefndin áréttar að í athugasemdum með frumvarpinu sem varð að lögum um brunavarnir, nr. 75/2000, segir að lögin gildi um flugvallarslökkvilið. Engu síður hefur verið ágreiningur um túlkun á gildissviðsákvæði laganna. Í ljósi þess telur nefndin mikilvægt að árétta þann skilning að samgöngumannvirki, þ.m.t. flugvellir, falli undir gildissvið laganna og gerir nefndin tillögu að breytingu á 3. gr. frumvarpsins, í skilgreiningu „mannvirkis“, hvað það varðar. Í breytingartillögum nefndarinnar við 16. gr. eru einnig ákvæði um eftirlit slökkviliðsstjóra með mannvirkjum þar sem fram fer starfsemi sem af stafar sérstök slysahætta, svo sem á stærri flugvöllum.
    Nefndin fjallaði um eldvarnir vegna hættu á gróður- eða skógareldum, m.a. í skipulagðri frístundabyggð. Nefndin tekur undir ábendingar um að nauðsynlegt sé að lögfesta ákvæði um þessi mikilvægu efni og hvetur umhverfisráðherra og væntanlega Mannvirkjastofnun að taka þetta til sérstakrar skoðunar. Gerir nefndin því ekki tillögu um sérstök ákvæði þar að lútandi enda ekki um að ræða heildarendurskoðun á lögunum.
    Þegar frumvarpið var lagt fram á 135. þingi var þar ákvæði um slysatryggingu slökkviliðsmanna. Kvað það á um að slökkviliðsmenn og aðrir sem vinna að brunavörnum eftir kvaðningu slökkviliðsstjóra eða lögreglustjóra skyldu slysatryggðir við æfingar og önnur störf í þágu brunavarna eða vegna mengunaróhappa á landi. Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna gerir í umsögn sinni athugasemdir við að ákvæðið sé ekki í frumvarpinu nú þar sem dæmi séu um að slökkviliðsmenn í hlutastarfi slasist í æfingum eða útköllum og geti ekki snúið aftur í sitt aðalstarf. Telur nefndin að skoða þurfi slysatryggingamál slökkviliðsmanna ítarlega og leggur til að umhverfisráðherra ráðist í það nú þegar í samráði við samtök slökkviliðsmanna og sveitarfélögin.
    Nefndin leggur jafnframt til nokkrar aðrar breytingar á frumvarpinu sem einkum varða lagatæknileg atriði, auk málfarslegra breytinga.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Kristján Þór Júlíusson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 26. nóv. 2010.Mörður Árnason,


form., frsm.


Ólína Þorvarðardóttir.


Birgir Ármannsson,


með fyrirvara.Álfheiður Ingadóttir.


Vigdís Hauksdóttir,


með fyrirvara.


Ólafur Þór Gunnarsson.Skúli Helgason.


Birgitta Jónsdóttir.