Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 303. máls.

Þskj. 357  —  303. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 17/1991, um einkaleyfi,
með síðari breytingum (reglugerðarheimild).

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)
1. gr.

    68. gr. laganna orðast svo:
    Í reglugerð, sem efnahags- og viðskiptaráðherra setur, skal kveðið á um gjöld samkvæmt lögum þessum og þóknun fyrir þá þjónustu sem Einkaleyfastofan veitir.
    Gjöld, þar á meðal umsóknar- og árgjöld, skulu standa undir kostnaði við rekstur Einkaleyfastofunnar vegna einkaleyfa og við þjónustu sem veitt er, m.a. fyrir landsbundnar, evrópskar og alþjóðlegar umsóknir um einkaleyfi, könnun Einkaleyfastofunnar á form- og efnisskilyrðum umsókna, þjónustu vegna rannsókna einkaleyfisumsókna, útgáfu og framsendingu forgangsréttarskjala, útgáfu einkaleyfa og viðbótarvottorða, endurveitingu réttinda og endurupptöku, meðferð skv. 21. gr., birtingu í ELS-tíðindum, breytingar á einkaleyfaskrá og útskriftir úr skránni og önnur þjónustuverkefni.
    Gjaldskrá þjónustugjalda skal m.a. taka mið af launum og launatengdum gjöldum, þjálfun og endurmenntun, aðkeyptri sérfræðiþjónustu, húsnæði, starfsaðstöðu, búnaði og tækjum og alþjóðlegri samvinnu.
    Gjöld samkvæmt lögum þessum renna til Einkaleyfastofunnar og innheimtir hún gjöldin.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu, sem samið er í samráði við Einkaleyfastofuna, er lagt til að heimild ráðherra til að ákveða gjöld, sem taka mið af kostnaði við rekstur Einkaleyfastofunnar vegna einkaleyfamálefna og þeirrar þjónustu sem veitt er, verði gerð skýrari og færð betur til samræmis við þær kröfur sem gerðar eru til innheimtu þjónustugjalda.
    Í frumvarpi þessu er kveðið á um heimildir Einkaleyfastofunnar til að innheimta gjöld með sérstakri gjaldskrárreglugerð, sem ráðherra setur, fyrir þá þjónustu sem stofnunin veitir aðilum sem sækja um skráningu einkaleyfis.
    Þá er kveðið á um að gjöld samkvæmt gjaldskrá skuli standa undir rekstri Einkaleyfastofunnar vegna umsýslu með umsóknum og veitingar einkaleyfa. Nefnd eru dæmi um þau þjónustugjöld sem fallið geta til í tengslum við umsókn en undir önnur þjónustugjöld geta til að mynda fallið beiðnir um endurbirtingu umsóknar eða einkaleyfis, beiðni um takmörkun á verndarsviði, leit í einkaleyfaskrá, veiting afrita af aðgengilegum umsóknum eða veittum einkaleyfum o.fl.
    Loks er tilgreint á hvaða kostnaðarliðum gjaldskrá skuli byggð.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 17/1991,
um einkaleyfi, með síðari breytingum (reglugerðarheimild).

    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á reglugerðarheimild 68 gr. laganna með það að markmiði að gera gjaldskrárheimild greinarinnar skýrari og ítarlegri þannig að sýnt sé skilmerkilega hvaða kostnaðarliði gjaldtakan eigi að fjármagna.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.