Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 76. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 358  —  76. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2010.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar eftir 2. umræðu og leitað m.a. skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi breytingar á fjárheimildum.
    Meiri hlutinn gerir breytingartillögu við sundurliðun 2 sem nemur alls 23.741,4 m.kr. til hækkunar gjalda. Auk þess eru gerðar breytingar á 4. gr., heimildagrein.
    Þá eru gerðar breytingar á tekjugrein í ljósi nýrra upplýsinga um innheimtar tekjur það sem af er þessu ári en gert er ráð fyrir 3 milljarða kr. hækkun á greiðslugrunni frá 2. umræðu um frumvarpið þar sem horfur eru á að innheimta á tekjuskatti lögaðila verði betri en áður var áætlað. Rekstraryfirlit í 1. gr. og viðeigandi liðir í 2. gr., sjóðstreymi ríkissjóðs, uppfærast í samræmi við framangreindar breytingar. Heildartekjur ársins 2010 verða 477.692,2 m.kr. og heildargjöld 559.524,7 m.kr. Tekjujöfnuður verður því neikvæður um 81.832,5 m.kr.


SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR


02 Mennta- og menningarmálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild mennta- og menningarmálaráðuneytis verði aukin um 1,4 m.kr.
357     Fjölbrautaskóli Suðurlands.
        1.01
Fjölbrautaskóli Suðurlands. Gerð er tillaga um 1,4 m.kr. framlag vegna aukinnar þarfar fyrir þjónustu námsráðgjafa, kennara og kennslustjóra á árinu 2010 í kjölfar þess að fangelsið í Bitru var tekið í notkun sl. vor. Stór hluti fanga þar stundar nám, þar af allmargir fjarnám í Fjölbrautaskóla Suðurlands.

06 Dómsmála- og mannréttindaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild dómsmála- og mannréttindaráðuneytis verði aukin um 15 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.27
Slysavarnafélagið Landsbjörg. Gerð er tillaga um 15 m.kr. framlag til Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Framlagið er til leiðréttingar á rekstrarstyrk sem félagið átti að fá samkvæmt samningi við dómsmálaráðuneytið.

09 Fjármálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild fjármálaráðuneytis verði aukin um 23.725 m.kr.
971     Ríkisábyrgðir.
        6.01
Ríkisábyrgðir. Lagt er til að í frumvarpinu verði gert ráð fyrir 23,7 milljarða kr. fjárheimild vegna gjaldfærslu á ríkisábyrgðum á lánum sem ríkissjóður mun taka yfir vegna föllnu bankanna. Er það til viðbótar við liðlega 1 milljarðs kr. hækkun í þessum útgjöldum sem þegar hefur verið gert ráð fyrir í frumvarpinu með tillögu við 2. umræðu. Ríkissjóður mun eftir sem áður gera kröfur í þrotabú bankanna um endurheimtur. Þar af eru 22,5 milljarðar kr. vegna gjaldfærslu á uppreiknuðum höfuðstól þessara ábyrgða sem gert er ráð fyrir að gera þurfi í ríkisreikning ársins 2010. Það felur jafnframt í sér að afborganir og uppgreiðslur á slíkum lánum munu þá ekki lengur fara í gegnum rekstrarreikning ríkissjóðs með framlögum til Ríkisábyrgðasjóðs heldur færast til skuldar í efnahagsreikningi ríkisins með sama hætti og aðrar skuldir sem hann verður að standa skil á. Verður því jafnframt lagt til að fjárheimild vegna þessara framlaga til Ríkisábyrgðasjóðs í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011 verði felld niður við 2. umræðu þess frumvarps en sú fjárhæð nemur liðlega 3 milljörðum kr. Engar greiðslur úr ríkissjóði eiga sér þó stað í tengslum við þessa ráðstöfun heldur er eingöngu um að ræða gjaldfærslu í ríkisreikninginn. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að hækka þurfi fjárheimild liðarins um rúmlega 2,2 milljarða kr. þar sem framlög til Ríkisábyrgðasjóðs vegna afborgana og vaxta af þessum lánum hafa verið vanáætluð sem því nemur í gildandi fjárlögum.
                  Þegar ríkisviðskiptabankarnir voru gerðir að hlutafélögum á sínum tíma hvíldu á þeim ýmsar skuldbindingar vegna skuldabréfa með ríkisábyrgð sem þá höfðu verið útgefin. Ríkið ber því enn ábyrgð á þeim skuldbindingum. Hér er um að ræða Útvegsbanka Íslands sem Íslandsbanki yfirtók gegnum Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og svo Landsbanka Íslands sem yfirtók skuldbindingar Lánasjóðs landbúnaðarins á sínum tíma. Nær öll lánin eru hjá Landsbankanum, 22,1 milljarður kr., og þar af er stærsti hlutinn vegna Lánasjóðs landbúnaðarins, 13,8 milljarðar kr.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum þeim sem skýrðar
hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 29. nóv. 2010.



Oddný G. Harðardóttir,


form., frsm.


Björn Valur Gíslason.


Ásmundur Einar Daðason.




Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Þuríður Backman.


Róbert Marshall.