Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 304. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 363  —  304. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.

Flm.: Ásbjörn Óttarsson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Einar K. Guðfinnsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Íris Róbertsdóttir, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður E. Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigurður Kári Kristjánsson, Tryggvi Þór Herbertsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


1. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skal, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar og aflaráðgefandi nefndar, sbr. 3. gr. a., ákveða með reglugerð þann heildarafla sem veiða má á ákveðnu tímabili eða vertíð úr þeim einstökum nytjastofnum við Ísland sem nauðsynlegt er talið að takmarka veiðar á.


2. gr.

    Við lögin bætist ný grein er verður 3. gr. a, svohljóðandi:
    Ráðherra skal skipa aflaráðgefandi nefnd og leita til hennar um tillögur að heildarafla sem veiða má á ákveðnu tímabili eða vertíð, sbr. 1. mgr. 3. gr.
    Nefndin skal við tillögugerð sína m.a. byggja á reynslu og þekkingu sjómanna og þeim gögnum sem verða til við störf þeirra á vettvangi og leggja áherslu á nauðsyn þess að nýta fiskistofna með skynsamlega nýtingu að leiðarljósi og að samræmis sé gætt milli tegunda.
    Í nefndinni sitja fimm fulltrúar og skulu eftirtaldir aðilar tilnefna einn fulltrúa hver: Félag skipstjórnarmanna, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Landssamband smábátaeigenda, Sjómannafélag Íslands og Sjómannasamband Íslands. Nefndin kýs sér formann úr eigin röðum.

3. gr.

    Við lögin bætist svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða:
    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skal fyrir 31. desember 2010 stofna aflaráðgefandi nefnd samkvæmt tilnefningum, sbr. 3. gr. a. Nefndin skal gera tillögur að heildarafla á fiskveiðitímabilinu 1. september 2010 til 31. ágúst 2011. Þegar tillögur nefndarinnar liggja fyrir getur ráðherra gert breytingar á heildarafla sem veiða má á tímabilinu.

4. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp sama efnis var flutt á 138. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu (305. mál á 138. löggjafarþingi). Með frumvarpinu er lagt til að lögum um stjórn fiskveiða verði breytt á þann hátt að þegar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ákveður heildarafla hvers fiskveiðiárs skuli hann leita tillagna hjá aflaráðgefandi nefnd sem sé skipuð af hagsmunaaðilum. Er því lagt til að nefndin sé skipuð fimm fulltrúum þar sem Félag skipstjórnarmanna, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Landssamband smábátaeigenda, Sjómannafélag Íslands og Sjómannasamband Íslands tilnefna einn fulltrúa hver. Skulu tillögur nefndarinnar liggja fyrir á sama tíma og tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar en þó er gerð sú undantekning í ákvæði til bráðabirgða að nefndin geri jafnframt tillögu fyrir yfirstandi fiskveiðiár og skili þeim til ráðherra sem geti þá gert breytingar á fyrri ákvörðun um heildarafla.
    Lagt er til að nefndinni verði gert að byggja tillögugerð sína m.a. á reynslu og þekkingu sjómanna og þeim gögnum sem verða til við störf þeirra á vettvangi tillögugerðar. Með þessu yrði tryggt að reynsla sjómanna og þekking þeirra nýtist við ákvörðun heildarafla. Nefndin getur þó jafnframt leitað í önnur gögn eða til þeirra aðila sem hún telur þörf á. Áhersla er lögð á að tillögur nefndarinnar miði að því nýta fiskistofna með skynsamlega nýtingu að leiðarljósi þannig að þeir verði hvorki ofnýttir né vannýttir. Þá verði kveðið á um að nefndin gæti að samræmi milli tegunda í tillögum sínum.
    Gert er ráð fyrir að kostnaður af starfi aflaráðgjafarnefndar verði greiddur af þeim hagsmunaaðilum sem tilnefni fulltrúa í nefndina.
    Á undanförnum árum hefur sterk umræða farið fram um ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar. Bent hefur verið á að ráðgjöfin endurspegli ekki álit þeirra sem starfa á vettvanginum allan ársins hring, sjómanna og skipstjórnarmanna. Aflaráðgefandi nefndinni er ætlað fyrir 1. maí ár hvert að senda sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tillögur sínar um heildarafla sem æskilegt er að komi til úthlutunar á komandi fiskveiðiári. Ráðgjöf nefndarinnar verður byggð á reynslu og þekkingu sjómanna sem er þjóðinni ómetanleg og þeim gögnum sem verða til við störf þeirra á vettvangi. Sjómenn hafa mikla almenna þekkingu á lífríkinu í hafinu auk þess sem sjómenn hafa víðtæka reynslu og þekkingu á öllu því sem viðkemur veiðum, ástandi einstakra fiskistofna og veiðisvæða og skilyrðum í sjó. Þá hafa orðið gríðarlegar breytingar á undanförnum árum hvað varðar tækninýjungar um borð í skipum sem lúta að upplýsingum um ástand sjávar, skráningu afla og nýtingu svo fátt eitt sé nefnt. Öflugir gagnagrunnar hafa þannig orðið til sem auðvelda sjómönnum, skipstjórum og útgerðarstjórum að lesa í lífríkið. Áður fyrr varðveittust upplýsingarnar eingöngu í dagbókum sjómanna og minni þeirra. Með starfi nefndarinnar yrði til vettvangur fyrir úttekt úr reynslubanka sjómanna sem byggst hefur upp í áratugi, þekkingu þeirra á veiðum og aflabrögðum, ástandi einstakra fiskistofna og veiðisvæða, skilyrðum í sjónum og almennt um lífríkið í hafinu.
    Tillögum og ráðgjöf aflaráðgefandi nefndarinnar er ætlað að styrkja ákvörðun ráðherra um ákvörðun á heildarafla. Nefndinni er ætlað að brúa þá gjá sem nú er milli veiðiráðgjafar Hafrannsóknastofnunarinnar og reynslu sjómanna af stærð einstakra fiskistofna, auk þess að bæta við þekkingu vísindamanna Hafrannsóknastofnunarinnar með samanburði við niðurstöður togararalls.
    Samhliða tillögugerð til ráðherra er augljóst að miklum upplýsingum verður safnað sem geta nýst í gerð gagnagrunns um þá þekkingu og reynslu sem sjómenn afla sér í daglegri umgengni við fiskistofnana umhverfis landið auk þess að nýtast Hafrannsóknastofnunninni við sín störf. Gagnagrunn af þessu tagi mætti vinna áfram í samvinnu við háskólasamfélagið og mundi hann því ekki eingöngu nýtast til frekari tillögugerðar og gera nefndina færari um að meta þolmörk fiskistofnanna heldur einnig til framtíðar í vísindum, rannsóknum og kennslu.