Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 76. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 370  —  76. mál.
Framhaldsnefndarálitum frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2010.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.    Á tímum yfirlýsinga um gagnsæi og breytt vinnubrögð hófst fundur í fjárlaganefnd Alþingis mánudaginn 29. nóvember 2010 kl. 19.25. Á dagskrá fundarins voru tillögur ríkisstjórnar að breytingum á fjáraukalagafrumvarpi ársins. Nefndin lauk störfum um 58 mínútum síðar og þá hafði eftirfarandi gerst: Til fundar við nefndina komu fulltrúar fjármálaráðuneytisins og kynntu tillögur ríkisstjórnarinnar að breytingum á frumvarpinu. Þar var m.a. að finna tvær tillögur samtals að fjárhæð um 55 milljarðar kr. Önnur laut að 22 milljarða kr. gjaldfærslu ríkisábyrgða og hin gerði ráð fyrir heimild allt að 33 milljörðum kr. til endurfjármögnunar Íbúðalánasjóðs.

Íbúðalánasjóður.
    Engar tilraunir voru gerðar af hálfu nefndarinnar til að meta áhrif þessara fjárskuldbindinga á afkomu og stöðu ríkisins né heldur gerð tilraun til að leiða fram með hvaða hætti þessi fjárhæð yrði fjármögnuð. Af hálfu meiri hluta nefndarinnar var ekki talin ástæða til að fulltrúar félags- og tryggingamálaráðuneytisins og Íbúðalánasjóðs væru viðstaddir til að veita nefndinni upplýsingar og álit sitt.

Ríkisábyrgðir.
    Í allri umræðu hefur ríkisstjórnin gefið í skyn að sífellt næðust betri tök á ríkisfjármálunum. Í fjáraukalögunum sem afgreidd voru til þriðju umræðu í gær var gefið í skyn að afkoma ríkissjóðs hefði batnað um u.þ.b. 40 milljarða kr. Sex klukkustundum síðar gerir ríkisstjórnin tillögu um 24,8 milljarða kr. gjaldfærslu á gömlum ríkisábyrgðum.

Sjálfstæði Alþingis.
    Framanngreind vinnubrögð eru bæði forkastanleg og ótæk. Það er með hreinum ólíkindum að meiri hluti nefndarinnar skuldbindi ríkissjóð um tugi milljarða króna á örfáum mínútum án alls rökstuðnings og skýringa. Er borin von að hægt verði að ná tökum á ríkisfjármálunum með þeim agalausu og forkastanlegu vinnubrögðum sem meiri hluti fjárlaganefndar lætur bjóða sér. Þá eru þessu vinnubrögð ekki í takt við margítrekaðan vilja Alþingis og því síður í samræmi við ályktun sem 63 alþingismenn samþykktu samhljóða á grunni skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar má finna eftirfarandi texta er snertir vinnubrögð Alþingis:
    „Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er sett fram gagnrýni á störf og starfshætti Alþingis sem mikilvægt er að bregðast við. Meginniðurstöður þingmannanefndarinnar varðandi Alþingi eru þær að auka þurfi sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu, leggja beri meiri áherslu á eftirlitshlutverk þingsins og auka fagmennsku við undirbúning löggjafar.
    Þingmannanefndin telur brýnt að Alþingi taki starfshætti sína til endurskoðunar, verji og styrki sjálfstæði sitt og marki skýr skil á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Alþingi á ekki vera verkfæri í höndum framkvæmdarvalds og oddvitaræðis.
    […]
    Þingmannanefndin telur að styrkja beri eftirlitshlutverk þingsins, rétt þingmanna til upplýsinga, aðgengi að faglegri ráðgjöf og stöðu stjórnarandstöðunnar á Alþingi sem gegnir þar mikilvægu aðhaldshlutverki.
    […]
    Þingmannanefndin telur að taka þurfi til endurskoðunar það verklag sem tíðkast hefur við framlagningu stjórnarfrumvarpa með það að markmiði að auka sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Í því samhengi leggur nefndin til að ríkisstjórn verði gert að leggja fram stjórnarfrumvörp með góðum fyrirvara þannig að þingmönnum gefist gott ráðrúm til að taka þau til faglegrar skoðunar, upplýstrar málefnalegrar umræðu og afgreiðslu.“

Alþingi, 30. nóv. 2010.Kristján Þór Júlíusson,


frsm.


Ásbjörn Óttarsson.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.