Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 307. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 371  —  307. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um mótun framleiðslustefnu í lífrænum landbúnaði.

Flm.: Þuríður Backman, Arndís Soffía Sigurðardóttir, Árni Þór Sigurðarson,
Álfheiður Ingadóttir, Ólafur Þór Gunnarsson,
Lilja Rafney Magnúsdóttir, Þráinn Bertelsson.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að móta framleiðslustefnu í lífrænum landbúnaði og beita sér fyrir aðgerðum til að veita bændum sérstakan aðlögunarstuðning við lífrænan landbúnað sambærilegan þeim stuðningi sem veittur er á Norðurlöndum, þannig að ná megi því markmiði að lífrænt vottaðar vörur nemi 15% landbúnaðarframleiðslu árið 2020.

Greinargerð.


    Tillaga áþekk þessari um aðlögunarstuðning við lífrænan landbúnað var flutt á 125., 126.,128., 132. 133 og 135. löggjafarþingi en varð ekki útrædd.
    Í þingsályktun um aðlögun að lífrænum landbúnaði, sem samþykkt var á Alþingi 4. júní 1998, skoraði Alþingi á ríkisstjórnina að undirbúa viðeigandi breytingar á landbúnaðarlöggjöfinni til þess að unnt yrði að veita bændum stuðning við aðlögun búskapar að lífrænum búskaparháttum. Í 6. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998, sem einnig voru samþykkt á Alþingi 4. júní 1998, er m.a. lýst því markmiði að stuðla beri að framþróun lífrænna búskaparhátta. Landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, og Bændasamtök Íslands gerðu samning 5. mars 1999 um verkefni samkvæmt búnaðarlögum og framlög ríkisins til þeirra. Í samningnum er Bændasamtökum Íslands heimilað með tilvísun í 6. gr. búnaðarlaga að veita stuðning til lífrænnar ræktunar árin 1999–2003, nánar tiltekið til endurræktunar lands. Stuðningur mætti vera að hámarki 25.000 kr. á ha lands og 250 kr. á fermetra í gróðurhúsi. Um eingreiðslur er að ræða. Farið var að veita slíkan stuðning árið 1999 og er hann enn veittur í allt að tvö ár í senn á seinni árum. Þótt þessar greiðslur stuðli að lífrænni ræktun og búskap eru þær ekki sambærilegar þeim stuðningi sem bændur sem laga búskap sinn að lífrænum landbúnaði njóta annars staðar á Norðurlöndum og í Evrópusambandinu. Hér er greitt í tvö ár mest en þar eru greiddir styrkir um nokkurra ára skeið. Hér á landi er eðlilegt að reikna með 5–10 ára aðlögunartíma og væri æskilegt að miða greiðslurnar við það.
    Búnaðarþing ályktaði um stuðning við lífrænan búskap árið 1999 og taldi að stefna bæri að því að stærri hluti landbúnaðarframleiðslunnar yrði vottaður lífrænn, m.a. vegna möguleika á útflutningi lífræns dilkakjöts. Svipaðar skoðanir komu fram í skýrslu nefndar um útflutning dilkakjöts sem landbúnaðarráðherra skipaði sumarið 1999. Íslensk stjórnvöld hafa á árum áður skipulagt tvö átaksverkefni til þess að kynna og styðja við lífræna framleiðslu. Er þar um að ræða ÁFORM frá 1995 og Lífræna miðstöð við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Hundruðum milljóna króna var varið til beggja átaksverkefna án þess þó að tilætluðum árangri, þ.e. aukinni lífrænni ræktun, hafi verið náð. Það er því álit flutningsmanna þessarar tillögu að ekki beri að efla slíka ræktun með sams konar átaki heldur að efla rannsóknir, kynningu og aðlögunarstuðning verulega og til lengri tíma litið.
    Umhverfismengun og heilsufarsvandamál henni tengd eru sífellt að verða mönnum ljósari. Ýmis eiturefni og önnur efni sem notuð eru í iðnvæddum búskap eða stórbúskap eru meðal þeirra þátta sem þekktastir eru. Neytendur gera því æ ríkari kröfur um heilnæm matvæli, umhverfisvernd og sjálfbæra landbúnaðarstefnu. Ljóst er að markaður fyrir lífrænt vottaðar vörur eykst stöðugt í iðnvæddum löndum. Í fyrstu var einkum um að ræða grænmeti, ávexti og kornmeti en á seinni árum búfjárafurðir á borð við mjólk, egg og kjöt af ýmsum gripum og þessu til viðbótar eykst krafa um umhverfisvænar og vottaðar neysluvörur af öllum toga. Þessi áhugi telst núorðið vart vera meiri erlendis en hér á landi. Aukinn innflutningur á lífrænt vottuðum matvælum, auk ýmissa vörutegunda sem flokkast undir heilsuvörur, ber vott um vitundarvakningu og breytt viðhorf íslenskra neytenda sem meðal annars stafar af aukinni fræðslu um áhrif eiturefna og vaxtahvata í landbúnaði og mikilvægi þess að forðast slík efni vegna skaðlegra umhverfisáhrifa á heilsu manna og dýra, umhverfis og náttúru. Í lífrænni ræktun eru slík efni sniðgengin. Þetta tvennt stuðlar að neyslu lífrænt ræktaðrar matvöru, þ.e. matvöru sem framleidd er með aðferðum sem uppfylla ströngustu kröfur um umhverfisvernd og er jafnframt líkleg til að stuðla að betri heilsu fólks.
    Haldið hefur verið fram að engar markaðsforsendur séu fyrir því að auka hlut lífrænnar ræktunar á Íslandi. Staðreyndin er sú framleiðsla lífrænt vottaðra afurða hefur verið það hæg hér á landi að framboð á grænmeti hefur ekki svarað eftirspurn. Eftirspurn eftir lífrænt vottuðu grænmeti hefur verið mætt með auknum innflutningi og þó að nokkuð hafi dregið úr innflutningi á síðasta ári þá hefur hann, þrátt fyrir erfitt efnahagsástand, aftur aukist í ár og bendir allt til þess að hlutfall lífrænt vottaðra matvara, sérstaklega grænmetis, verði innan fárra ára svipað og er nú þegar í grannlöndunum. Allt útlit er fyrir að verð á innfluttu kjarnfóðri og áburði haldist áfram hátt sem óhjákvæmilega skilar sér í verðhækkun á afurðum af hefðbundinni ræktun. Ef þessi spá gengur eftir mun draga úr verðmun á vörum úr lífrænni ræktun og hefðbundinni. Aukinn innflutningur á lífrænum vottuðum vörum ætti því að vera íslenskum bændum hvatning til þess að skipta yfir í lífræna ræktun og svara þar með aukinni eftirspurn, ekki hvað síst í ljósi efnahagskreppunnar, hækkandi verðlags á innfluttu fóðri og tilbúnum áburði. Með hækkandi hitastigi hafa skapast skilyrði fyrir ræktun ýmissa tegunda sem fyrir fáum árum var talið óhugsandi að stunda hér á landi. Að einhverju leyti var um vantrú að ræða, sbr. kornrækt bænda og frumkvöðla í Vallanesi á Fljótsdalshéraði sem um árabil hafa stundað lífræna ræktun á byggi auk fjölbreyttra tegunda grænmetis. Eftirspurn eftir algengum korntegundum, svo sem byggi og hveiti og mjöli úr þessum korntegundum til manneldis fer einnig vaxandi hér á landi.
    Fjölbreytt og aukin framleiðsla á lífrænt vottuðum snyrtivörum ber vott um vitundarvakningu um skaðsemi fjölda íblöndunarefna í snyrti- og húðvörum. Bændur í lífrænni framleiðslu gætu sótt inn á þennan markað með nýjar vörur eða ræktun til framleiðslu af þessum toga.
    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði 14. maí 2010 starfshóp til að meta stöðu og horfur í lífrænum landbúnaði og gera tillögur um stuðning við aðlögun að slíkum búskparháttum. Starfshópurinn skilaði áliti 28. september 2010 og lýsa flutningsmenn fullum stuðningi við tillögur hans, sjá fylgiskjal.


Fylgiskjal.



Staða og horfur í lífrænum landbúnaði og tillögur um stuðning

við aðlögun að lífrænum búskap á Íslandi.
Álit starfshóps skilað til hr. Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,
28. september 2010.


I. Inngangur.
    Þáttaskil urðu í þróun lífræns landbúnaðar á Íslandi þegar VOR – verndun og ræktun, félag bænda í lífrænum búskap, var stofnað 1993, Vottunarstofan TÚN ehf. tók til starfa 1994 og ný lög voru sett 1994 ásamt reglugerð 1995. Nú fellur lífrænn landbúnaður hér á landi að fullu undir löggjöf Evrópusambandsins vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Bændasamtök Íslands tóku upp formlega leiðbeiningaþjónustu í þágu lífræns búskapar 1995 og Landbúnaðarháskóli Íslands o.fl. stofnanir hafa verið að þróa kennslu og rannsóknastarfsemi á þessu sviði um árabil. Þá hafa ríkisstjórnir, einstakir alþingismenn og ráðuneyti landbúnaðarmála lagt hönd á plóginn með ýmsum hætti, þótt ekki hafi verið mótuð ákveðin stefna með skýr markmið, líkt og t.d. hefur verið í Noregi þar sem stefnt er að því að 15% af landbúnaðarframleiðslunni verði lífrænt vottuð fyrir 2015.
    
II. Starfshópur.
    Með bréfi dags. 14. maí 2010 skipaði hr. Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp til að meta stöðu og horfur í lífrænum landbúnaði og gera tillögur um stuðning við aðlögun að slíkum búskaparháttum. Starfshópinn skipa:
    Guðni Einarsson, bóndi, Þórisholti, Mýrdal, Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður, Landbúnaðarháskóla Íslands, Helga Þórðardóttir, bóndi, Mælifellsá, Skagafirði, Ólafur R. Dýrmundsson, landsráðunautur, Bændasamtökum Íslands (formaður starfshópsins), Sigurður Jóhannesson, formaður Landssamtaka sláturleyfishafa.
    Ólafur Friðriksson, skrifstofustjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, hefur starfað með hópnum.
    Starfshópurinn hefur haldið þrjá fundi auk mikilla tölvusamskipta, hefur aflað ýmissa upplýsinga um þróun lífræns landbúnaðar hér á landi og vísar hér í skrá um helstu skýrslur og greinar sem hafðar voru til hliðsjónar. Hvað þróunina á liðnum árum varðar hefur sérstaklega verið höfð hliðsjón af skýrslu starfshóps sem Vottunarstofan TÚN ehf. kom á fót um stöðu og möguleika lífrænnar framleiðslu á Íslandi, „Lífræn framleiðsla. Ónotað tækifæri í atvinnulífi landsbyggðarinnar“ 2006 (1).

III. Staða og horfur.
    Þótt þróun lífræns landbúnaðar hafi verið hægari hér á landi en í flestum nágrannalöndunum, hefur vottuðum framleiðslueiningum fjölgað nokkuð stöðugt, úr fáeinum við upphaf vottunar fyrir um 15 árum í 39 árið 2001 og í 64 í árslok 2009. Um er að ræða bæði vottuð býli og vinnslustöðvar. Þá hefur orðið veruleg fjölgun vörutegunda með lífræna vottun á markaði, eftirspurn hefur aukist mikið og dreifingaraðilum, bæði í heildsölu og smásölu, hefur fjölgað sömuleiðis. Það háði starfi hópsins nokkuð hve lítið er til af skráðum upplýsingum um framleiðslumagn og verðmæti lífrænna afurða og engin gögn liggja fyrir um innflutninginn sem hefur aukist verulega. Gerð var könnun á miðju sumri meðal helstu dreifingaraðila lífrænt vottaðra vara hér á landi, bæði í heildsölu og smásölu. Af þeim gáfu Yggdrasill ehf. og Bíóbú ehf. ítarlegustu upplýsingarnar. Meginniðurstöður þessarar könnunar eru eftirfarandi:
     1)      Framleiðsla lífrænt vottaðra afurða hefur vaxið það hægt hér á landi að t.d. framboð á grænmeti er langt frá því að svara eftirspurn á ársgrundvelli. Vaxandi eftirspurn hefur því verið mætt að verulegu leyti með innflutningi ávaxta, grænmetis og kornmetis.
     2)      Eftir bankahrunið og samdráttinn í efnahagslífinu haustið 2008 dró töluvert úr innflutningi og sölu lífrænt vottaðra vara en á þessu ári hefur verið að koma fram aukning. Vöruúrvalið er þó ennþá minna en það var fyrir hrunið en kaupendur eru trúlega a.m.k. jafn margir. Markaðurinn er því að ná jafnvægi en fyrir hrunið var vöxturinn í sölu mikill eða allt að 20% á ári fram til 2008. Svipaðrar þróunar verður vart erlendis.
     3)      Reiknað er með að lífrænt vottaðar vörur lækki nokkuð í verði eftir því sem efnahagslífið glæðist að nýju og gengið hækkar en þó er áfram reiknað með töluverðum verðmun, mest á bilinu 20–40%, miðað við samsvarandi vöruflokka úr hefðbundinni framleiðslu. Nefna má að vöruflokkar eru nú um 30 hjá stærstu dreifingaraðilunum, aðallega matvörur. Barnamatur er meðal söluhæstu flokkanna.
     4)      Heildsalar eru að afgreiða fleiri verslanir en fyrr á árum. Þannig hefur verslun með lífrænt vottaðar vörur færst mikið yfir í stórmarkaði en helst einnig áfram í sérverslunum. Þá er töluverð dreifing beint til neytenda, með pöntunarþjónustu eða öðrum hætti, einkum í grænmeti. Þótt mest hafi farið fyrir akur- og garðyrkjuafurðum á markaði með lífrænar vörur sækja búfjárafurðir á, einkum mjólkurvörur. Þar hefur orðið fjölgun í vöruflokkum og aukning í sölumagni síðustu árin. Miðað við fyrri árshelming 2009 var innvegin í afurðastöð 36% meiri lífrænt vottuð mjólk á fyrstu sex mánuðum þessa árs og búist er við allt að 50% aukningu nú á seinni hluta ársins. Talið er að þessar vörur fari bráðlega upp í 5% hillurýmis í þeim verslunum sem selja lífrænt vottaðar mjólkurvörur. Sem dæmi má nefna að í Danmörku er þetta hlutfall komið í 30%. Kjöt og egg eru skemmra á veg komin í þessari þróun en hvað kjöt varðar er ástæða til að ætla að dilkakjöt eigi góða möguleika. Það litla sem framleitt er svarar ekki eftirspurn á heimamarkaði og trúlega eru tiltækir útflutningsmöguleikar, bæði austan hafs og vestan.
     5)      Þótt þessi könnun gefi aðeins gagnlegar vísbendingar, þar sem magn- og verðmætaupplýsingar skortir að mestu er aðeins unnt að áætla markaðshlutdeild lífrænt vottaðra vara. Starfshópurinn telur að hún geti verið í heild allt að 2%, að innflutningi meðtöldum, miðað við matvæli. Verslun með þessar vörur og hin jákvæða ímynd þeirra sýna að um vaxtarbrodd er að ræða sem gæti nýst betur bæði bændum og afurðastöðvum um land allt.
    Þegar rætt er um stöðu og horfur í lífrænum landbúnaði er t.d. fróðlegt að kynna sér viðhorfin í nágrannalöndunum, ekki síst í Evrópusambandinu þar sem lífræn ræktun jókst úr 4,4 milljón ha í 7,6 milljón ha frá 2001–2008 eða liðlega 20% á ári. Hjá ESB hefur nú fengist viðurkenning á því að lífrænn landbúnaður verði viðurkenndur sem eðlilegur þáttur í landbúnaði allra aðildarríkja. Þau ríki sem komin eru lengst í þessari þróun eru nú þegar með um 9% landbúnaðarlands í vottaðri lífrænni ræktun og markaðshlutdeild matvæla er komin í allt að 15%, t.d. í Austurríki. Þess ber að geta að ekki felst nein áhætta í framleiðslu lífrænt vottaðra afurða, nema aukalegur kostnaður.

IV. Stuðningur við aðlögun.
    Víða um lönd er bændum veittur sérstakur stuðningur til að taka upp alþjóðlega, viðurkennda lífræna búskaparhætti og litið er á afurðirnar sem sérvörur, gjarnan upprunamerktar. Alþjóðleg samtök á borð við IFOAM, lífrænu hreyfinguna í heiminum, og Slow Food, sem einnig starfar á heimsvísu, hafa hvatt mjög til slíkra breytinga. Í skýrslu nefndar sem skilaði áliti til Bændasamtaka Íslands um stuðning við aðlögun að lífrænum búskap í nóvember 1996 (2) segir m.a.:
    „…Eflingu lífrænnar ræktunar á seinni árum má í grófum dráttum rekja til vaxandi áhuga á umhverfisvernd, búfjárvernd og hollustuvörum sem framleiddar eru án margvíslegra hjálparefna. Reyndar er þessi þróun í góðu samræmi við þá stefnu að efla beri sjálfbæra þróun í hvívetna. Nú er almennt viðurkennt að bændur sem stunda lífrænan búskap taki á sig mun stærri hluta umhverfiskostnaðar en þeir sem stunda hefðbundinn búskap. Þótt markaðsverð sé oftast nokkru hærra fyrir lífrænt vottaðar vörur nægir það ekki til að vega á móti hærri framleiðslukostnaði á aðlögunartímanum því að bóndi sem leggur út í lífræna aðlögun með bú sitt þarf m.a. að kosta töluverðu til endurræktunar, breytinga á gripahúsum, aðlögun vélakosts og standa auk þess straum af eftirlits- og vottunarkostnaði. Þá þarf að taka tillit til minni uppskeru á flatareiningu ræktaðs lands og minni afurðum eftir hvern grip en í hefðbundnum búskap…“
    Við þennan rökstuðning, sem enn er að mestu í fullu gildi, má bæta því við að hin jákvæðu umhverfisáhrif lífræns búskapar hafa öðlast aukið vægi á seinni árum vegna umræðna um líffræðilega fjölbreytni, mengun og útblástur gróðurhúsalofttegunda. Í flestu tilliti skarar lífræni búskapurinn fram úr þeim hefðbundna og munar t.d. mikið um bann gegn notkun tilbúins áburðar og eiturefna. Þá er í vaxandi mæli litið til lífræns landbúnaðar sem liðar í viðhaldi sveitabyggðar og þar með atvinnusköpunar. Það er því ekki aðeins stuðningur við bændur til að fara út í lífræna ræktun sem réttlætir opinber framlög heldur er stuðningurinn einnig framlag til samfélagsins í heild og umhverfisins í býsna víðtækum skilningi.

a) Skilyrði fyrir aðlögunarstuðningi.
    Starfshópurinn leggur til að bændur og aðrir sem ætla að sækja um stuðning við aðlögun að lífrænum búskap þurfi að uppfylla eftirtalin skilyrði:
     1)      Umsækjandi skal hafa undirritað samning um lífræna aðlögun á þeirri jörð, eða á því landi, sem hann hefur til umráða, við viðurkennda vottunarstofu, skv. gildandi löggjöf.
     2)      Miðað skal við aðlögunarstuðning til 5 ára sem greiðist ár hvert, þ.e.a.s. í lok hvers aðlögunarárs, að fenginni staðfestingu frá vottunarstofu.
     3)      Umsækjandi skal sýna fram á að hann hafi sótt a.m.k. eins dags viðurkennd námskeið, eitt eða fleiri, í þeim búgreinum sem hann ætlar að laga að lífrænum búskaparháttum. Miðað er við námskeið sem Landbúnaðarháskóli Íslands, Bændasamtök Íslands og Vottunarstofna TÚN ehf. standa að, hver aðili fyrir sig eða sameiginlega.

Sérálit Helgu Þórðardóttur vegna liðar 2) í kafla IV a (Skilyrði fyrir aðlögunarstuðningi):
    „Sé lífrænn landbúnaður lagður niður á býlinu innan 5 ára frá lokum aðlögunartímans skal endurgreiða alla aðlögunarstyrki ásamt vöxtum. Ef býlið er selt á þessu tímabili færist þessi kvöð til kaupanda. Undanþegnir eru þeir styrkþegar sem verða að hætta lífrænni framleiðslu vegna náttúruhamfara og/eða alvarlegra veikinda.
     Rökstuðningur: Ég tel nauðsynlegt að setja þessi skilyrði svo ekki verði hætta á að aðlögunargreiðslurnar verði misnotaðar. Það væri hægt að taka við þeim í fimm ár og hætta svo við lífræna ræktun. Jafnvel væri hægt að byrja aftur eftir fáein ár og láta greiða aðlögunarstyrki aftur til sama aðila.
    Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að breyta hugarfari bænda varðandi lífræna framleiðslu og tel að styrkir í þessari mynd séu varhugaverðir.“

b) Framlög til stuðnings við aðlögun.
     1)      Vísar að reglum um bein framlög til aðlögunarstuðnings hafa verið í báðum búnaðarlagasamningunum sem gerðir hafa verið til þessa, en sá síðari rennur út í árslok 2010 (3). Hefur það verið 1. liður í reglum um framlög til þróunarverkefna og jarðabóta á lögbýlum, þ.e.a.s. „Endurræktun vegna aðlögunar að lífrænum búskap“. Þessir fjármunir hafa ekki nýst sem skyldi, einkum vegna þess að stuðningurinn takmarkast við endurvinnslu túna, akra, garðlanda og gróðurhúsa í aðeins tvö ár. Þá má geta þess að í 4.5 lið samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar 2008–2013, (4), þ.e.a.s. undir „Nýliðunar- og átaksverkefni“ er m.a. ákvæði um stuðning við lífræna framleiðslu sem ekki hefur verið nýtt til þessa. Svo sem segir í lið IV a) 2) hér að framan telur starfshópurinn að miða eigi við a.m.k. 5 ár í stað tveggja með hliðsjón af íslenskum aðstæðum og reglum um slíkan aðlögunarstuðning erlendis. Þá verði stuðningurinn ekki bundinn við lögbýli. Einnig bendir hópurinn á að hin almenna skilgreining á endurræktun með endurvinnslu/jarðvinnslu er of þröng hvað varðar aðlögun að lífrænni ræktun og leggur til að við aðlögun túna og engja sé miðað við véltækt land til slægna með eða án jarðvinnslu, eftir aðstæðum. Þannig verði ekki krafist jarðvinnslu þar sem fleiri aðferðir geta hentað við aðlögun að lífrænum búskap, svo sem skipuleg friðun túna og nýting flæðiengja. Þær tillögur um framlög sem hér eru lagðar fram taka einkum mið að núgildandi reglum um aðlögun að lífrænum landbúnaði í Noregi (5):

     2)      Tún, engjar, akurlendi og garðlönd (hey, vothey, grænfóður, korn, kartöflur, grænmeti)
        a)     án jarðvinnslu: kr. 25.000/ha/ár
        b)     með jarðvinnslu (tún, engjar): kr. 40.000/ha/ár
        c)     með jarðvinnslu, þar með sáðskipti (akurlendi, garðlönd) kr. 60.000 ha/ár

         Gróðurhús (grænmeti, ávextir, jurtir, blóm)
         kr. 500/m2/ár (hituð), kr. 50/m2/ár (óhituð)

         Vetrarfóðraðar mjólkurkýr ásamt ásetningskvígum, kálfum og nautum (mjólk, kjöt, húðir)
         kr 40.000/gripur/ár

        
Vetrarfóðraðar holdakýr ásamt ásetningskvígum og nautum (kjöt, húðir)
         kr. 15.000/gripur/ár

         Vetrarfóðraðar ær ásamt ásetningsgimbrum og hrútum (kjöt, mjólk ull, gærur)
         kr. 4.000 /gripur/ár

         Vetrarfóðraðar geitur ásamt ásetningshuðnum og höfrum (kjöt, mjólk, ull, stökur)
         kr. 3.000/gripur/ár

         Vetrarfóðraðar hryssur ásamt ásetningsmerfolöldum og stóðhestum (kjöt, mjólk, hár, húðir)
         kr. 10.000/gripur/ár

         Gyltur ásamt göltum og gyltugrísum til viðhalds stofninum (kjöt, hár)
         kr. 6.000/gripir/ár

         Hænur ásamt hönum og hænuungum til viðhalds stofninum (egg, kjöt)
         kr. 1.000/fugl /ár

    Miðað við það fjármagn sem nú virðist tiltækt telur starfshópurinn ekki tímabært að leggja til aðlögunarstuðning við fleiri búgreinar svo sem fiskeldi og ýmsar hlunnindagreinar. Það kæmi því vissulega til greina í framtíðinni.
    Aftur á móti leggur hópurinn til að stuðningur vegna kostnaðar við vottun verði kr. 50.000/býli/ár.
    Miðað sé við að allar framangreindar greiðslur verði inntar af hendi eftir lok hvers aðlögunarárs, þ.e.a.s. 1. greiðsla komi eftir 1. aðlögunarárið.
    Þurfi að forgangsraða er lagt til að ræktunarliðirnir tún, engjar, grænfóður, akurlendi, garðlönd og gróðurhús, búfjárliðirnir mjólkurkýr og ær, svo og vottunarkostnaður, njóti forgangs.

V. Lokaorð.
    Auk þess að gera hér stuttlega grein fyrir stöðu og horfum í lífrænum landbúnaði á Íslandi, og leggja fram tillögur um aðlögunarstuðning, bendir starfshópurinn á að móta þarf framleiðslustefnu og gera áætlun um eflingu rannsókna, kennslu og leiðbeininga í þágu lífræns búskapar í öllum greinum (1. og 6. tilvísun). Við frekari þróun lífrænna búskaparhátta þarf m.a. að huga betur að hráefnum til lífrænnar ræktunar og fóðrunar, svo sem fiskúrgangi, og einnig þarf að kanna með hvaða hætti megi styrkja vinnslu, vörumerkingu og markaðssetningu lífrænt vottaðra afurða innanlands og utan. Þá vekur starfshópurinn athygli á nauðsyn þess að yfirvöld taki upp reglubundna skráningu og söfnun hagtalna um slíkar vörur. Brýnt er að eftirlitsaðilar herði eftirlit með sölu þeirra þannig að neytendur geti treyst því að vörur auglýstar sem lífrænar séu framleiddar í samræmi við viðurkenndar og vottaðar aðferðir.

VI. Tilvísanir.
     1)      Lífræn framleiðsla. Ónotað tækifæri í atvinnulífi landsbyggðarinnar. Skýrsla starfshóps um stöðu og möguleika lífrænnar framleiðslu á Íslandi, júní 2006. Útgefandi: Vottunarstofan TÚN ehf, Reykjavík.
     2)      Stuðningur við aðlögun að lífrænum búskap. Áliti skilað til Bændasamtaka Íslands, nóvember 1996.
     3)      Reglur um framlög til þróunarverkefna og jarðabóta á lögbýlum (Búnaðarlagasamningur), janúar 2007.
     4)      Samningur um starfsskilyrði sauðfjárræktar (Búvörusamningur), janúar 2007.
     5)      Tilskudd til økologisk landbruk. Statens landbruksforvaltning. Produksjonstilskudd og avløsertilskudd. Velledningshefte 2009/2010, Oslo, Norge.
     6)      Lífrænn búskapur – fagleg staða og horfur. Áliti skilað til hr. Halldórs Blöndal, landbúnaðarráðherra, mars 1995, birt í Frey, 6. tbl. 1995, bls. 257–263.

Lagt fram fyrir hönd starfshópsins,
28. september 2010


_____________________________
Ólafur R. Dýrmundsson