Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 308. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 372 —  308. mál.
Tillaga til þingsályktunarum mótun efnahagsáætlunar sem tryggir velferð og stöðugleika án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Flm.: Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari, Lilja Mósesdóttir,


Höskuldur Þórhallsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Eygló Harðardóttir,
Gunnar Bragi Sveinsson, Sigurður Ingi Jóhannsson,
Vigdís Hauksdóttir, Ásmundur Einar Daðason.


    Alþingi ályktar að fela efnahags- og viðskiptaráðherra að láta vinna efnahagsáætlun sem tryggir velferð og stöðugleika án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Skilgreindar verði nauðsynlegar aðgerðir til að gera íslenskt hagkerfi óháð aðstoð sjóðsins og forðast frekari skuldsetningu ríkissjóðs, aðgerðaáætlun útbúin og henni fylgt eftir. Leitað verði liðsinnis færustu erlendra sérfræðinga á sviði hagvísinda við mótun og framkvæmd áætlunarinnar til að tryggja efnahagsstjórn landsins nauðsynlegan trúverðugleika.
    Efnahagsáætlunin liggi fyrir 1. mars 2011 og komi þegar til framkvæmda.
    Ráðherra kynni Alþingi efnahagsáætlunina við fyrsta tækifæri eftir að áætlunin liggur fyrir.

Greinargerð.


Ísland, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og umheimurinn.
    Eftir hrun bankakerfisins haustið 2008 kom fátt annað til greina en að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um aðstoð þar sem stjórnvöld komu alls staðar að lokuðum dyrum.
    Ísland var eitt af stofnríkjum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins árið 1945. Um 185 lönd eru nú aðilar að sjóðnum. Ísland var skuldlaust við sjóðinn fyrir hrun en hafði þó fengið lán frá honum í fjórgang, fyrst árið 1960 á árum Viðreisnarstjórnarinnar, þá 1967–1968 þegar síldin hvarf, 1974–1976 þegar verð á olíu hækkaði og loks árið 1982 vegna útflutningsbrests.
    Yfirlýst hlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er að auka samvinnu milli þjóða og tryggja stöðugleika í fjármálakerfum heimsins. Honum ber að aðstoða þjóðir í fjármála- og gjaldeyriskreppu og lána ríkisstjórnum fé til að koma eðlilegum gjaldeyrisviðskiptum í gang. 1
    Skiptar skoðanir eru um það hvernig Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur tekist að rækja þetta hlutverk sitt. Hann hefur löngum þótt strangur húsbóndi sem ekki hefur tekið nægilegt tillit til sérstakra og staðbundinna aðstæðna. Sjóðurinn hefur þótt einsýnn í málefnum þróunar- og nýmarkaðslanda þar sem hann hefur lagt höfuðáherslu á gildi nýfrjálshyggjunnar frekar en að laga aðstoð sjóðsins að aðstæðum á hverjum stað.
    Mikið vatn hefur runnið til sjávar hér á landi síðan ákveðið var að fara í samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Forsendur hafa gjörbreyst og ljóst að ekki er hægt að treysta á hlut leysi sjóðsins eða að hann framfylgi yfirlýstum markmiðum sínum um að aðstoða þjóðir í fjármála- og gjaldeyriskreppu. 2
    Yfirlýsingar sjóðsins hafa vakið upp spurningar um hvort stefna sjóðsins hafi haft áhrif á aðgerðir og/eða aðgerðaleysi stjórnvalda varðandi söluna á HS Orku og hvort slík afskipti erlendra stofnana samræmist stjórnsýslulögum og stjórnarskrá. 3 Þá telja flutningsmenn mikilvægt að sjóðurinn fái ekki að hafa áframhaldandi áhrif á ríkissjóð. Til að auka tiltrú alþjóðasamfélagsins á íslensku efnahagslífi er nauðsynlegt að ljúka samstarfinu við AGS sem þekktur er sem lánveitandi vandræðalanda. Það er jafnframt með öllu óviðeigandi að sjóðurinn skipti sér af frumvarpagerð í ráðuneytum eins og fram hefur komið að hann hafi gert. 4 AGS hefur tafið fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu skulda heimila og lítilla og meðalstórra fyrirtækja með andstöðu sinni við almennar úrlausnir skuldavandans. Samdrátturinn hérlendis er auk þess meiri en AGS gerði ráð fyrir og því er ljóst að nauðsynlegt er að endurskoða og endurgera efnahagsálætlun án afskipta AGS án tafar.

Hagstjórnartæki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
    Þrátt fyrir að nú sé meira en áratugur síðan efnahagskreppan í Asíu beindi athyglinni að meiri háttar mistökum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er sjóðurinn enn að gera svipuð mistök í mörgum löndum, sérstaklega í þróunarlöndunum. Á sama tíma og sjóðurinn styður fjárhagslega örvandi aðgerðir í ríkum löndum þvingar hann þróunarlöndin til þess að innleiða kreppudýpkandi hagstjórnaraðgerðir. Sú aðferðafræði hefur verið gagnrýnd á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem settu á fót sérfræðinganefnd undir forustu Joseph Stiglitz til að grafast fyrir um orsakir kreppunnar og áhrif hennar um heim allan. Nefndinni var einnig ætlað að koma með tillögur að aðgerðum til að koma í veg fyrir að álíka atburðir endurtækju sig og vísa á leiðir sem væru líklegri til að koma á efnahagslegum stöðugleika. Um þetta má lesa í skýrslu nefndarinnar, Report of the Commission of Experts of the President of the United Nations General Assembly on Reforms of the International Monetary and Financial System, sem má nálgast á vef SÞ.
    Víða þar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur komið að málum hafa stjórnvöld, sem fyrr segir, verið neydd til að beita kreppudýpkandi aðgerðum og ljóst er að hið sama gildir um Ísland, þrátt fyrir yfirlýsingar ráðamanna um að Ísland fái sérmeðferð. Hagstjórnartækin sem íslensk stjórnvöld eru þvinguð af sjóðnum til að nota eru hátt vaxtastig, mikil skuldsetning vegna gjaldeyrisvarasjóðsins og of hraður niðurskurður. Nýleg könnun sem gerð var af miðstöð fyrir rannsóknir á efnahags- og stjórnmálum í Washington leiddi í ljós að af 41 landi sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur haft afskipti af undanfarin ár hefur 31 verið þvingað til að beita kreppudýpkandi hagstjórnaraðgerðum: háu vaxtastigi, niðurskurði velferðarkerfisins og aðhaldssemi er varðar aukið peningamagn. Sjóðurinn er þekktur fyrir að leggja of mikla áherslu á að ná jafnvægi í ríkisfjármálum, sem m.a. hefur leitt til mun dýpri kreppu en annars hefði orðið. Dýpt kreppunnar skiptir miklu máli þar sem bæði fyrirtæki og einstaklingar verða fyrir miklum skaða vegna niðurskurðar og stöðnunar í efnahagslífi þjóðarinnar. Hægari niðurskurður mundi þýða minni samdrátt en á móti mun hann draga úr hagvexti þegar hagkerfið er farið að ná sér á nýjan leik.
    Rannsóknir sýna að fjármálakreppa einkennist af mikilli eignatilfærslu frá þeim fátæku til þeirra ríku. Annað sem einkennir fjármálakreppu er aukinn ójöfnuður sem stafar m.a. af auknu atvinnuleysi og niðurskurði velferðarkerfisins. Markmið hagstjórnar á krepputímum á að vera að auka efnahagslega velferð og leiðirnar að því markmiði eru aðgerðir sem tryggja fulla atvinnu, hagvöxt og stöðugleika til lengri tíma. Efnahagsstefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda mun ekki ná fram þessum markmiðum. Markmið hennar er aðeins að tryggja að fjármagnseigendur fái sæmilega ávöxtun á fé sitt á meðan það er lokað inni í hagkerfinu og að Seðlabankinn hafi bolmagn til að kaupa krónurnar af þessum fjármagnseigendum þegar hægt verður að afnema gjaldeyrishöftin án þess að krónan fari í frjálst fall.
    Flutningsmenn telja einsýnt að með því að leggja á þjóðarbúið sívaxandi erlendar skuldir verður kreppan lengd um ófyrirsjáanlegan tíma og mikil hætta á að það velferðarkerfi sem við njótum í dag muni líða undir lok ef fer sem horfir.
    Erlendar skuldir landsins eru nú þegar orðnar háskalega miklar og því hætta á að þjóðin þurfi að búa við þann hörmulega veruleika að stór hluti þjóðarframleiðslu muni aðeins renna til þess vonlausa verkefnis að greiða vexti af erlendum skuldum.
    Flutningsmenn telja mikilvægt að ríkisstjórnin leiti allra leiða til að endurreisa efnahagslíf landsins án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og er þingsályktunartillaga þessi því lögð fram. Nú þegar hafa fjölmargir heimsþekktir og sérfróðir menn lagt fram tillögur og hugmyndir um hvernig megi losa þjóðina úr fjötrum sjóðsins. Lagðar hafa verið fram tillögur um lánalínur í stað beinna lána og þá hafa sérfræðingar sem unnið hafa fyrir sjóðinn boðist til að vinna með ríkisstjórninni að áætlun um endurreisn Íslands og aðhald í fjármálum sem þætti jafntraust eða traustara meðal lánardrottna okkar en áætlun frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
    Flutningsmenn leggja því til að efnahags- og viðskiptaráðherra verði falið að láta vinna efnahagsáætlun sem tryggi velferð og félagslegan stöðugleika án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Mikilvægt er að efnahagsáætlunin liggi fyrir sem fyrst, eða fyrir 1. mars 2011, svo að unnt sé að hefja vinnu sem allra fyrst við að koma henni til framkvæmda.
    Efnahags- og viðskiptaráðherra skal kynna Alþingi efnahagsáætlunina við fyrsta tækifæri og eigi síðar en 1. mars 2011.
Neðanmálsgrein: 1
1     Sjá heimasíðu AGS: www.imf.org/external/about/ourwork.htm
Neðanmálsgrein: 2
2     Sjá heimasíðu AGS: www.imf.org/external/about.htm
Neðanmálsgrein: 3
3     Sjá bls. 6 í ábendingum Bjarkar Guðmundsdóttur, Jóns Þórissonar og Oddnýjar Eirar Ævarsdóttur til umboðsmanns Alþingis: www.orkuaudlindir.is/docs/Abending_til_Umbodsmanns_Althingis.pdf
Neðanmálsgrein: 4
4     „Tillagan mætti mótstöðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem gerði þá kröfu að veðkröfuhafar ættu að fá að kjósa um efni nauðasamnings, eða að öðrum kosti ekki vera hluti af nauðasamningum í skilningi laganna. Hafa þær breytingar sem lutu að stöðu veðkrafna því verið felldar brott úr frumvarpinu.“
    (Úr athugasemdum við frumvarp til laga um breyting á lögum um aðför, nr. 90/1989, og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum, frá 138. þingi (þskj. 768 — 447. mál)
    Sjá: www.althingi.is/altext/138/s/0768.html.)
         Sjá einnig ræðu Margrétar Tryggvadóttur frá almennum stjórnmálaumræðum 14. júní 2010 þar sem segir m.a.:
         ,,Ríkisstjórnin hefur þó komið í gegn nokkrum úrræðum sem henta efnameira fólki, sem í mörgum tilfellum getur bjargað sér sjálft, og réttarúrbótum sem gera gjaldþrot huggulegri. Eitt þeirra er frumvarp um gjaldþrotaskipti sem varð að lögum í síðustu viku sem m.a. gerir fólki kleift að leigja og búa í allt að 12 mánuði í húsnæði sem það missir. Á fundi fyrrnefndrar samræmingarnefndar kom fram að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur ýmislegt við það að athuga að lántakendur fái svo mannúðlega meðferð og greindi aðstoðarmaður hæstv. dóms- og mannréttindamálaráðherra frá því að hún hefði verið kölluð á fund hjá fulltrúum sjóðsins og skömmuð fyrir að leggja fram svo óforskammað frumvarp.
         Í greinargerð með öðru frumvarpi frá sama ráðherra, í máli 447, kemur einnig fram að sjóðurinn hafi gert miklar athugasemdir við upphafleg frumvarpsdrög. Ljóst er að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stjórnar hér fleiru en látið er uppi og hendur stjórnvalda eru bundnar. Hafi einhver efast um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé með puttana í lagasetningu á Íslandi þarf sá hinn sami ekki að efast lengur.“
    (http://www.althingi.is/altext/raeda/138/rad20100614T214540.html)