Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 310. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
2. uppprentun.

Þskj. 376  —  310. mál.
Flutningsmenn.
Tillaga til þingsályktunarum staðgöngumæðrun.

Flm.: Ragnheiður E. Árnadóttir, Álfheiður Ingadóttir, Ásbjörn Óttarsson,
Bjarni Benediktsson, Einar K. Guðfinnsson, Guðlaugur Þór Þórðarson,
Gunnar Bragi Sveinsson, Íris Róbertsdóttir, Jón Gunnarsson, Ólína Þorvarðardóttir,
Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður Ríkharðsdóttir,
Sigurður Kári Kristjánsson, Siv Friðleifsdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson,
Vigdís Hauksdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem undirbúi frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun. Við vinnuna skuli m.a. lögð áhersla á að:
     a.      staðgöngumæðrun verði aðeins heimiluð í velgjörðarskyni,
     b.      sett verði ströng skilyrði fyrir staðgöngumæðrun í því augnamiði að tryggja sem best réttindi, skyldur og hagsmuni staðgöngumæðra og væntanlegra foreldra og réttindi og hag þeirra barna sem hugsanlega verða til með þessu úrræði,
     c.      verðandi staðgöngumæður og verðandi foreldrar verði skyldugir til að gera með sér bindandi samkomulag um staðgöngumæðrun.
    Frumvarpið verði lagt fram eins fljótt og mögulegt er, þó ekki síðar en 31. mars 2011.

Greinargerð.


    Með tillögu þessari er lagt til að heilbrigðisráðherra verði falið að skipa starfshóp sem undirbúi frumvarp sem heimili staðgöngumæðrun á Íslandi. Tiltekin eru ákveðin atriði sem vinnuhópurinn skal leggja áherslu á við vinnu sína og frumvarpsgerð. Þau lúta að siðferðilegum, læknisfræðilegum og lagalegum álitaefnum en eru þó ekki tæmandi talin enda ljóst að leita þarf til sérfræðinga við vinnuna og enn fremur skoða hvaða reglur gilda um staðgöngumæðrun erlendis. Fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, skipaði í janúar 2009 starfshóp til þess að fara yfir þau álitamál er tengjast staðgöngumæðrun. Starfshópurinn skilaði af sér áfangaskýrslu 5. febrúar sl. og í framhaldinu stóð heilbrigðisráðherra fyrir málþingi um staðgöngumæðrun. Flutningsmenn tillögunnar telja ljóst að nægar upplýsingar séu tiltækar til þess að undirbúa frumvarpssmíð.

Staðgöngumæðrun.
    Hugtakið staðgöngumæðrun, eins og það er skilgreint í lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, felur í sér að tæknifrjóvgun er framkvæmd á konu sem hyggst ganga með barn fyrir aðra konu og að staðgöngumóðirin hafi fallist á það fyrir meðgönguna að láta barnið af hendi strax eftir fæðingu til væntanlegrar ættleiðingar og uppeldis hjá þeim foreldrum sem tækju við barninu. Í umræðu um staðgöngumæðrun er annars vegar talað um hefðbundna staðgöngumæðrun (traditional or partial surrogacy) og hins vegar fulla staðgöngumæðrun (gestational surrogacy, full surrogacy). Hefðbundin staðgöngumæðrun er þegar staðgöngumóðir gengur með sitt eigið barn í þeim tilgangi að afhenda það erfðafræðilegum föður og konu hans eða sambúðaraðila. Full staðgöngumæðrun er hins vegar þegar hin þungaða kona hefur enga erfðafræðilega tengingu við barnið og það hefur verið getið með glasafrjóvgun. Staðgöngumæðrun sem úrræði fyrir barnlaus pör hefur verið stunduð frá örófi alda og þá sem hefðbundin staðgöngumæðrun. Einnig hefur líklega tíðkast áður fyrr að kona gefi barn sitt til barnlausra kvenna eða para, oft vegna fjölskyldutengsla. Nútímastaðgöngumæðrun var fyrst framkvæmd í Bandaríkjunum í kringum 1980 en þróun staðgöngumæðrunar er nátengd þróun glasafrjóvgunar.

Þörfin fyrir staðgöngumæðrun.
    Þrátt fyrir gríðarlegar framfarir í læknavísindum með tæknisæðingum, glasafrjóvgunum og aðferðum til að vinna á frjósemisvandamálum hefur þörfin fyrir staðgöngumæðrun ekki horfið. Til er hópur kvenna/para sem ekki á neinn möguleika til að eignast eigið barn nema með aðstoð staðgöngumóður. Ástæður þess geta verið fjölmargar, svo sem meðfætt legleysi, krabbamein í legi og ófrjósemi í kjölfar krabbameinsmeðferðar, svo og skemmdir á legi eða legnám. Þá getur einnig verið að líkami konu þoli ekki meðgöngu og líf hennar yrði í hættu reyndi hún að ganga sjálf með barn.
    Flestir þekkja þá gleði sem fylgir því að eignast barn og ljóst er að löngunin til þess að eignast barn er ein sú sterkasta sem maðurinn upplifir. Í litlu landi eins og Íslandi er hópur kvenna eða para sem þarf á aðstoð staðgöngumóður að halda ekki stór, en er þó til staðar. Í fyrrnefndri skýrslu vinnuhóps á vegum heilbrigðisráðuneytisins segir að líklega muni ekki fleiri en fimm pör eða einstaklingar hér á landi hafa þörf fyrir staðgöngumæðrun ár hvert. Hugsanlega gæti orðið um færri tilvik að ræða.

Helstu siðferðileg álitaefni.
    Nokkur siðferðileg álitaefni vakna þegar rætt er um möguleikann á lögleiðingu staðgöngumæðrunar. Almennt eru menn neikvæðir gagnvart staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni út frá því sjónarmiði að verið sé að nota líkama konu í annarlegum tilgangi og einnig væri hægt að líta á slíka gjörð sem einhvers konar form af viðskiptum með börn. Staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni hefur verið líkt við vændi og hugsanlegt er að konur sem búa við fátækt og þröngar félagslegar aðstæður gerist staðgöngumæður vegna slæmra aðstæðna. Þessi álitamál eiga þó betur við um samfélög þar sem mikil fátækt er ríkjandi og heilbrigðisþjónusta og samfélagsform er með öðru sniði en í vestrænum löndum, t.d. á Indlandi.
    Önnur sjónarmið gilda um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Þar er um að ræða eins konar góðverk og oft einhver tengsl milli verðandi móður og staðgöngumóður. Meiri líkur standa til þess að slík staðgöngumæðrun sé gerð af fúsum og frjálsum vilja allra sem koma þar að. Þó er þessi leið ekki gallalaus enda mögulegt að úrræðið leiði til óeðlilegs þrýstings á ættingja konu eða pars sem ekki getur eignast barn á náttúrulegan hátt.
    Þá skipta hagsmunir og réttindi barnsins sem fæðist á þennan hátt máli. Tryggja þarf barninu rétt til þess að þekkja uppruna sinn og auk þess þarf að vera ljóst hvernig barninu muni reiða af missi það t.d. foreldra sína.
    Þessi álitaefni eru ekki frábrugðin þeim sem uppi hafa verið í tengslum við umræðu um börn sem getin eru með bæði gjafaeggi og gjafasæði, en það er nú heimilt á Íslandi samkvæmt lögum nr. 55/2010 sem breyttu lögum, nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

Staðgöngumæðrun heimiluð að skilyrðum uppfylltum.
    Flutningsmenn leggja til í tillögu þessari að Alþingi heimili staðgöngumæðrun eingöngu í velgjörðarskyni. Hugtakið staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni felur í sér að ekki sé greitt fyrir aðstoðina sem veitt er. Þrátt fyrir það er eðlilegt að greitt sé fyrir sanngjarnan aukakostnað, svo sem lækniskostnað sem fellur á þungaða konu auk annars kostnaðar sem tengist meðgöngu, eða mögulegt vinnutap staðgöngumóður sem skerðir fjárhag hennar. Flutningsmenn tillögunnar telja rétt að heimila að verðandi foreldrar greiði útlagðan kostnað staðgöngumóður vegna læknisheimsókna og einnig annan sannanlegan kostnað sem hlýst af meðferð eða meðgöngunni.
    Flutningsmenn leggja til að skilyrði fyrir staðgöngumæðrun verði ströng. Þau gætu t.d. verið að staðgöngumóðir megi ekki nota kynfrumur sínar við glasafrjóvgunina enda flæki það málið að staðgöngumóðir sé einnig líffræðileg móðir. Einnig er mögulegt að setja aldurstakmark fyrir staðgöngumóður og skilyrði um að kona hafi áður gengið með og fætt barn án vandkvæða eða inngripa í fæðingu. Tryggja þarf að kona gangist ekki undir þetta ferli nema vitandi og upplýst um hvað það geti mögulega haft í för með sér.
    Þá þarf hún að þekkja þær tilfinningar sem bærast með þungaðri konu og hafa þroska til að takast á við það sem koma skal. Aldurstakmark staðgöngumóður þjónar einnig læknisfræðilegu hlutverki, þar sem frjósemi kvenna og hætta á vandkvæðum við meðgöngu og fæðingu eykst með hærri aldri.
    Huga þarf vandlega að réttindum, skyldum og hagsmunum staðgöngumóðurinnar sem tekur að sér að ganga með og fæða barn fyrir annað par. Tryggja þarf foreldrum rétt til fæðingarorlofs og staðgöngumóður rétt til orlofs vegna fæðingarinnar. Réttindi verðandi foreldra þarf einnig að tryggja með samningi milli aðilanna, þ.m.t. að staðgöngumóðir geti ekki hætt við að afhenda barnið við fæðinguna. Á sama hátt þarf að tryggja að foreldrar geti ekki neitað að taka við barni eða börnum, svo sem vegna veikinda, þroska- eða sköpulagsfrávika hjá barninu eða ef um fjölbura er að ræða.
    Í barnalögum, nr. 76/2003, er tiltekið í 5. gr. að móðir barns sem getið er með tæknifrjóvgun skuli teljast sú kona sem elur barnið. Þetta ákvæði getur ekki staðið samhliða heimild í lögum um tæknifrjóvgun til staðgöngumæðrunar enda þarf að tryggja það að móðir barns sem getið er með tæknifrjóvgun geti líka verið önnur en sú kona sem elur það. Benda má starfshópnum á þann möguleika að fæðingarvottorð barns skilgreini einfaldlega þrjá einstaklinga: staðgöngumóður, móður og föður.
    Þá þarf að huga að öðrum skilyrðum til að tryggja rétt allra hlutaðeigandi, þ.e. staðgöngumóður, verðandi foreldra og barns, sem og að tryggja að ekki verði unnt að misnota úrræðið. Meðal álitaefna sem skoða þarf eru skilyrði fyrir því að staðgöngumóðir og/eða verðandi foreldrar séu íslenskir ríkisborgarar eða hafi búið á landinu í tiltekinn lágmarkstíma, t.d. fimm ár. Jafnframt þarf þó að skoða hvort heimila eigi undantekningar á þessu, t.d. ef um er að ræða skyldmenni eða nána vinkonu sem búsett er erlendis og vill gerast staðgöngumóðir fyrir íslenskan ættingja eða vin.

Lagaleg útfærsla.
    Heilbrigðisráðherra lagði fram frumvarp um breytingu á lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, þann 25. mars sl. Þar er einhleypum konum sem búa við skerta frjósemi heimilt að nota bæði gjafaegg og gjafasæði við glasafrjóvgun, og að sama gildi um gagnkynhneigð og samkynhneigð pör þar sem frjósemi beggja aðila er skert. Í frumvarpi þessu felst nýtt skref í átt að frjálsræði í frjósemismálum þar sem búið er að opna fyrir þann möguleika að koma fyrir í konu fósturvísi sem hefur engin erfðafræðileg tengsl við hana, þ.e. þá konu sem gengur með og fæðir barnið. Munurinn á þessu úrræði og staðgöngumæðrun er aðeins sá að sú kona sem gengur með og fæðir það barn sem varð til með glasafrjóvgun, og hún hefur engin erfðafræðileg tengsl við, lætur barnið af hendi við fæðingu. Sú sem elur barnið skal þá ekki teljast móðir þess í skilningi barnalaga, nr. 76/2003. Því telja flutningsmenn að þegar hafi verið tekið á þeim lagalegu og siðfræðilegu álitamálum sem tiltekin hafa verið, möguleikinn til þess að heimila staðgöngumæðrun sé fyrir hendi og að lagabreytingar sem þurfi að gera séu ekki verulegar enda hafi þegar farið fram nokkur umræða um þessa þróun. Því sé ekki mikið sem standi eftir svo að tryggja megi úrræði sem er mörgum pörum og einstaklingum mikilvægt.