Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 218. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 427  —  218. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, með síðari breytingum.

Frá viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kjartan Gunnarsson frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Pál Rúnar Mikael Kristjánsson frá Félagi atvinnurekenda, Guðrúnu Jónsdóttur frá Fjármálaeftirlitinu og Pál Harðarson frá Kauphöll Íslands. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Félagi atvinnurekenda, Félagi löggiltra endurskoðenda, Fjármálaeftirlitinu, Kauphöll Íslands, Ríkisendurskoðun, ríkisskattstjóra, Samtökum fjárfesta, Seðlabanka Íslands, tollstjóranum í Reykjavík og Viðskiptaráði Íslands.
    Í 7. mgr. 100. gr. laga um verðbréfaviðskipti er kveðið á um að fari aðili og þeir sem hann er í samstarfi við með yfirráð í félagi þegar verðbréf þess eru tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði verði hann ekki tilboðsskyldur enda auki hann ekki atkvæðisrétt sinn í félaginu umfram næsta margfeldi af fimm. Þetta gildir þó ekki ef viðkomandi aðili missir yfirráð en nær þeim að nýju.
    Með frumvarpinu eru lagðar til tvenns konar breytingar á 100. gr. laganna auk þess sem lagt er til að ákvæði til bráðabirgða í lögunum sem eru ekki lengur virk falli brott. Í 1. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 7. mgr. 100. gr. í því skyni að fella brott tilvísun til þess að aðili auki ekki við atkvæðisrétt sinn umfram næsta margfeldi af fimm. Þá er lagt til að við 100. gr. laganna bætist ný málsgrein þar sem kveðið verði á um að eigandi hlutafjár, sem átti meira en 30% atkvæðisréttar í félagi sem hafði fjármálagerninga tekna til viðskipta fyrir 1. apríl 2009, sé ekki tilboðsskyldur skv. 100. gr. enda auki hann ekki við hlut sinn. Ákvæðið miðar að því að taka aftur breytingu sem var gerð á lögum um verðbréfaviðskipti með lögum nr. 22/2009. Í þeim voru yfirtökumörkin lækkuð úr 40% niður í 30% og þeim aðilum sem áttu yfir 30% gert að minnka hlut sinn niður fyrir þau mörk fyrir 31. mars 2011, en þó með möguleika á framlengingu í allt að ár.
    Við umfjöllun um málið í nefndinni var bent á að í frumvarpinu fælist að eigandi hlutafjár sem væri yfir yfirtökumörkum og félli undir undanþáguákvæði laganna yrði tilboðsskyldur ef hann yki við hlut sinn. Fram kom athugasemd um að réttlætanlegt væri að sama viðmið og nú gildir héldist, þannig að hluthafar hefðu svigrúm til að auka við hlut sinn upp að næsta margfeldi af fimm til samræmis við reglur annarra ríkja. Nefndin telur eðlilegra að ein regla gildi, sér í lagi með hliðsjón af því að í 4. og 5. mgr. 100. gr. er mælt fyrir um möguleika á undanþágu frá tilboðsskyldu.
    Nefndin leggur til að við frumvarpið bætist ný grein í því skyni að lagfæra rangar tilvísanir í lögunum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
    Í stað orðanna ,,8. mgr. 100. gr.“ í 27. tölul. 1. mgr. 141. gr. og 9. tölul. 145. gr. laganna kemur: 6. mgr. 100. gr.

    Eygló Harðardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. des. 2010.



Lilja Mósesdóttir,


form., frsm.


Magnús Orri Schram.


Guðlaugur Þór Þórðarson.



Skúli Helgason.


Atli Gíslason.


Sigurður Kári Kristjánsson.



Valgerður Bjarnadóttir.


Margrét Tryggvadóttir.