Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 97. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 431  —  97. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum (samningur Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu).

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti.
    Frumvarpið var sent til umsagnar á 138. löggjafarþingi og bárust þá umsagnir frá Fjármálaeftirlitinu, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Ríkisendurskoðun, ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara og Viðskiptaráði Íslands sem allar voru jákvæðar.
    Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á lögsöguákvæðum almennra hegningarlaga í samræmi við ákvæði 42. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu. Lagt er til að við 6. gr. laganna bætist nýr töluliður sem heimili að maður verði sóttur til saka eftir íslenskum hegningarlögum fyrir brot sem falla undir samning Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu, enda þótt þau séu framin utan íslenska ríkisins og án tillits til þess hver er valdur að þeim.
    Nefndin fjallaði um málið og tildrög frumvarpsins, sem eru fyrirhuguð aðild að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu frá 31. október 2003. Markmið samningsins er að stuðla að og styrkja ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir og berjast gegn spillingu með skilvirkari og árangursríkari hætti, styðja alþjóðlega samvinnu og tæknilega aðstoð í tengslum m.a. við að endurheimta fjármuni og stuðla að ráðvendni, áreiðanleika og jafnframt að stuðla að góðri opinberri stjórnsýslu og umsýslu opinberra eigna. Í ákvæðum samningsins eru m.a. ákvæði um refsinæmi þess að múta innlendum eða erlendum opinberum embættismönnum og mönnum innan einkageirans. Einnig er kveðið á um refsinæmi áhrifakaupa, þ.e. þegar embættismaður, eða annar maður sem hefur raunveruleg eða ætluð áhrif á ákvarðanatöku í tilteknu máli, skiptir þeim áhrifum út fyrir óviðeigandi ávinning. Þá eru í frumvarpinu ákvæði um refsinæmi peningaþvættis og kveðið á um ábyrgð lögaðila.
    Málið tengist nýsamþykktum lögum nr. 86/2010, sem ætlað er að skapa lagalega umgjörð um siðareglur fyrir ríkisstarfsmenn og ráðherra.
    Nefndin telur mikilvægt að tryggja alþjóðlega samvinnu í baráttu gegn spillingu og telur að með frumvarpinu og aðild að samningnum sé stigið mikilvægt skref til þess að koma í veg fyrir að þeir sem hafa brotið gegn ákvæðum samningsins erlendis geti komist hjá refsingu, t.d. með því að dvelja hér á landi.
         Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Vigdís Hauksdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. des. 2010.Róbert Marshall,


form., frsm.


Atli Gíslason.


Mörður Árnason.Birgir Ármannsson.


Valgerður Bjarnadóttir.


Álfheiður Ingadóttir.Sigurður Kári Kristjánsson.


Þráinn Bertelsson.