Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 351. máls.

Þskj. 433  —  351. mál.Frumvarp til laga

um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)
I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um starfsemi og rekstur verðbréfasjóða, fjárfestingarsjóða og fagfjárfestasjóða.
    Starfsheimildir verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða takmarkast við að veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í framseljanlegum verðbréfum og öðrum eignum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu.
    Viðtaka fjár frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í framseljanlegum verðbréfum og öðrum lausafjáreignum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu er einungis heimil verðbréfasjóðum og fjárfestingarsjóðum.

2. gr.
Orðskýringar.

    Í lögum þessum merkir:
     1.      Verðbréfasjóður: Sjóður sem gefur út hlutdeildarskírteini sem eru innleysanleg að kröfu eigenda þeirra. Sjóðurinn hefur hlotið staðfestingu Fjármálaeftirlitsins og hefur heimild til markaðssetningar á Evrópska efnahagssvæðinu.
     2.      Fjárfestingarsjóður: Sjóður sem gefur út hlutdeildarskírteini og hefur hlotið staðfestingu Fjármálaeftirlitsins. Sjóðurinn hefur ekki heimild til markaðssetningar á Evrópska efnahagssvæðinu.
     3.      Fagfjárfestasjóður: Sjóður um sameiginlega fjárfestingu sem eingöngu stendur fagfjárfestum til boða.
     4.      Rekstrarfélag: Fjármálafyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi skv. 7. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki og rekur sjóði um sameiginlega fjárfestingu samkvæmt lögum þessum.
     5.      Vörslufyrirtæki: Fjármálafyrirtæki, samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, sem uppfyllir skilyrði II. kafla C laga þessara.
     6.      Framseljanleg verðbréf:
                  a.      hlutabréf í félögum og önnur verðbréf sem eru ígildi hlutabréfa í félögum,
                  b.      skuldabréf eða skuld á verðbréfaformi,
                  c.      öll önnur framseljanleg verðbréf sem veita rétt til öflunar slíkra framseljanlegra verðbréfa með áskrift eða skiptum.
     7.      Peningamarkaðsskjöl: Þeir flokkar auðseljanlegra gerninga sem viðskipti fara venjulega fram með á skammtímamarkaði (peningamarkaði), svo sem víxlar ríkis- og sveitarfélaga, innlánsskírteini og viðskiptabréf að undanskildum greiðsluskjölum. Líftími þeirra skal ávallt vera styttri en 397 dagar.
     8.      Hlutdeildarskírteini: Fjármálagerningur sem er staðfesting á tilkalli allra þeirra sem eiga hlutdeild í sjóði um sameiginlega fjárfestingu eða einstakri deild hans til verðbréfaeignar sjóðsins. Eigendur hlutdeildarskírteina eiga rétt til tekna og eigna sjóðsins eða viðkomandi deildar í sama hlutfalli og nemur hlutdeild þeirra í heildarfjölda útgefinna hlutdeildarskírteina.
     9.      Fagfjárfestir: Fagfjárfestir samkvæmt skilgreiningu laga um verðbréfaviðskipti.
     10.      Almenningur: Þeir sem ekki teljast til fagfjárfesta samkvæmt skilgreiningu laga um verðbréfaviðskipti.
     11.      Reiðufé: Laust fé sem sjóður getur notað fyrirvaralaust til fjárfestinga. Það telst ekki til innlána og er ekki hluti af fjárfestingarstefnu sjóðs.
     12.      Innlán: Fjárfesting þar sem sérstaklega hefur verið samið um binditíma og vexti. Innlán eru hluti af fjárfestingarstefnu verðbréfasjóðs.
     13.      Markaðssetning: Tilboð eða hvatning, með auglýsingum eða annarri kynningu, um kaup á hlutdeildarskírteinum eða hlutum í verðbréfasjóði eða öðrum sjóði um sameiginlega fjárfestingu.
     14.      Staðfesting: Með staðfestingu verðbréfasjóðs eða fjárfestingarsjóðs er átt við heimild Fjármálaeftirlitsins til handa rekstrarfélagi til að starfrækja verðbréfa- eða fjárfestingarsjóð.

3. gr.
Heimildir til að hefja starfsemi. Skrá yfir sjóði.

    Fjármálaeftirlitið veitir verðbréfasjóðum staðfestingu til reksturs skv. II. kafla og fjárfestingarsjóðum staðfestingu skv. III. kafla. Fjármálaeftirlitið úrskurðar um hvort starfsemi fellur undir lög þessi.
    Fjármálaeftirlitið heldur skrá yfir verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, sem skal birt opinberlega, þar sem fram koma allar helstu upplýsingar um viðkomandi sjóði. Breytingar á áður skráðum upplýsingum skulu tilkynntar Fjármálaeftirlitinu fyrir fram.

II. KAFLI
Verðbréfasjóðir.
A. Staðfesting og afturköllun staðfestingar.
4. gr.
Veitandi staðfestingar.

    Fjármálaeftirlitið veitir verðbréfasjóðum staðfestingu. Verðbréfasjóðir fá því aðeins staðfestingu að rekstrarfélög og vörslufyrirtæki þeirra uppfylli skilyrði laga um fjármálafyrirtæki.
    Verðbréfasjóðum er heimilt að hefja starfsemi þegar staðfesting er fengin frá Fjármálaeftirlitinu. Óheimilt er að starfrækja verðbréfasjóð án staðfestingar Fjármálaeftirlitsins.
    Óheimilt er að breyta verðbréfasjóðum í aðrar tegundir sjóða um sameiginlega fjárfestingu.

5. gr.
Umsókn um staðfestingu.

    Umsókn rekstrarfélags um staðfestingu verðbréfasjóðs skal vera skrifleg og henni skulu fylgja reglur sjóðsins skv. 11. gr., útboðslýsing og útdráttur úr útboðslýsingu skv. 49.–56. gr., upplýsingar um stjórnendur verðbréfasjóðs og aðrar viðeigandi upplýsingar. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um upplýsingagjöf samkvæmt þessari grein.

6. gr.
Veiting staðfestingar.

    Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um veitingu staðfestingar skal tilkynnt umsækjanda skriflega svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að fullbúin umsókn barst. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna umsækjanda um það án tafar, og eigi síðar en einum mánuði eftir að umsókn barst, þegar umsókn telst fullnægjandi.
    Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynningar um staðfestingu verðbréfasjóða opinberlega.

7. gr.
Synjun um staðfestingu.

    Fullnægi umsókn ekki skilyrðum laga þessara að mati Fjármálaeftirlitsins skal það synja um staðfestingu.
    Synjun umsóknar skal rökstudd og tilkynnt umsækjanda innan tveggja mánaða frá móttöku fullbúinnar umsóknar.

8. gr.
Afturköllun staðfestingar.

    Fjármálaeftirlitið getur afturkallað staðfestingu verðbréfasjóðs:
     1.      hafi rekstrarfélag brotið með alvarlegum hætti eða ítrekað gegn lögum þessum, reglugerðum eða reglum settum samkvæmt þeim eða samþykktum,
     2.      uppfylli hann ekki lengur skilyrði fyrir staðfestingu að mati Fjármálaeftirlitsins,
     3.      hafi rekstrarfélag ekki nýtt heimild til starfsemi verðbréfasjóðs innan tólf mánaða frá því að staðfesting var veitt, ótvírætt afsalað staðfestingu eða hafi starfsemi sjóðs verið hætt í meira en sex mánuði samfellt,
     4.      hafi sjóðurinn ekki yfir að ráða minnst 50 millj. kr. þremur mánuðum eftir að markaðssetning hófst eða minnst 10 millj. kr. sem skiptast á að minnsta kosti 50 aðila þannig að hlutur hvers þeirra nemi minnst 10 þús. kr.,
     5.      fari sjóðurinn á einhverjum tímapunkti niður fyrir stærðarmörk 4. tölul.
    Áður en til afturköllunar kemur skv. 2. tölul. 1. mgr. skal veittur hæfilegur frestur til úrbóta sé þess kostur.

9. gr.
Tilkynning um afturköllun.

    Afturköllun á staðfestingu verðbréfasjóðs skal tilkynnt stjórn rekstrarfélags og rökstudd skriflega. Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynninguna í Lögbirtingablaði og auglýsa í fjölmiðlum. Markaðssetji rekstrarfélag verðbréfasjóð í öðru aðildarríki skal Fjármálaeftirlitið tilkynna afturköllunina lögbærum eftirlitsaðilum í viðkomandi ríki.

B. Stofnun og starfsemi.
10. gr.
Heiti.

    Verðbréfasjóðum er einum heimilt að nota í heiti sínu eða til nánari skýringar á starfsemi sinni orðið „verðbréfasjóður“.

11. gr.
Reglur.

    Rekstrarfélag skal setja verðbréfasjóði reglur. Eftirfarandi atriði skulu að minnsta kosti koma þar fram:
     1.      Heiti sjóðsins.
     2.      Hvort sjóðurinn starfi óskiptur eða í aðgreindum deildum.
     3.      Fjárfestingarstefna sjóðsins.
     4.      Hvert sé vörslufyrirtæki sjóðsins og ákvæði um hvernig skipt verði um vörslufyrirtæki.
     5.      Þóknun rekstrarfélags.
     6.      Heimild til markaðssetningar sjóðsins á Íslandi og í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.
     7.      Útgáfa hlutdeildarskírteina og innlausn þeirra.
     8.      Hvernig ráðstafa skuli arði eða öðrum hagnaði af verðbréfum sjóðsins.
     9.      Hvernig reikna skuli út innlausnarvirði hvers hlutar.
     10.      Hvernig staðið skuli að samruna sjóðsins við aðra verðbréfasjóði eða samruna deilda sama sjóðs.
     11.      Hvernig sjóði eða deild er slitið.
    Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um afmörkun fjárfestingarstefnu verðbréfasjóða og upplýsingagjöf til viðskiptavina í tengslum við fjárfestingar.
    Breytingar á reglum verðbréfasjóðs öðlast gildi að fenginni staðfestingu Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að fresta gildistöku í allt að þrjá mánuði frá staðfestingu ef ástæða er til. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna um breytingu í Lögbirtingablaðinu.
    Rekstrarfélag skal tilkynna eigendum hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðs um sérhverja breytingu á reglum sjóðsins. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði og skal það gert skriflega.

12. gr.
Deildaskipting.

    Heimilt er að starfrækja verðbréfasjóð í aðgreindum deildum. Hver sjóðsdeild skal hafa aðgreindan fjárhag innan rekstrarfélags. Ber þá hver deild ábyrgð á sínum skuldbindingum. Þó bera deildir sjóðsins óskipta ábyrgð á sameiginlegum kostnaði þeirra.
    Rekstrarfélag ber ekki ábyrgð á skuldbindingum einstakra verðbréfasjóða eða deilda þeirra og standa einvörðungu eignir hvers sjóðs eða deildar til fullnustu skuldbindingum hvers þeirra. Ákvæði þetta víkur ekki til hliðar skaðabótaábyrgð rekstrarfélags.

13. gr.
Sjóðsmyndun.

    Eignir myndast í verðbréfasjóði með samningi rekstrarfélags við viðskiptavin sem felur því að ávaxta fjármuni sína í tilteknum verðbréfasjóði innan vébanda þess. Sjóðurinn myndast með afhendingu fjármuna viðskiptavinar gegn hlutdeildarskírteinum og samanstendur síðan af þeim eignum sem verða til við ráðstöfun þessara fjármuna til sameiginlegrar fjárfestingar.

14. gr.
Hæfi.

    Framkvæmdastjóri rekstrarfélags og sjóðstjórar skulu hafa staðist próf í verðbréfaviðskiptum, sbr. 53. gr. laga um fjármálafyrirtæki.
    Um hæfi stjórnenda og sjóðstjóra verðbréfasjóða fer að öðru leyti eftir lögum um fjármálafyrirtæki.
    Fjármálafyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um skipan og síðari breytingar á sjóðstjórum og framkvæmdastjórn og skulu tilkynningunni fylgja fullnægjandi upplýsingar til að hægt sé að meta hvort skilyrðum 1. og 2. mgr. sé fullnægt.

15. gr.
Aðskilnaður reksturs og vörslu og óhæði.

    Rekstrarfélag má ekki jafnframt vera vörslufyrirtæki. Stjórnarmaður í rekstrarfélagi má ekki vera í stjórn eða lykilstarfsmaður móðurfélags eða vörslufyrirtækis. Meiri hluti stjórnarmanna rekstrarfélags verðbréfasjóða skal vera óháður móðurfélagi og vörslufyrirtæki.
    Rekstrarfélög skulu vera óháð móðurfélagi og vörslufyrirtæki í störfum sínum og ætíð hafa hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðarljósi.

16. gr.
Málshöfðunarréttur.

    Rekstrarfélag getur höfðað mál í eigin nafni fyrir hönd einstakra eigenda hlutdeildarskírteina til ógildingar á skírteinum.
    Rekstrarfélag ber ábyrgð á rekstri verðbréfasjóða og sjóðsdeilda og kemur fram fyrir þeirra hönd.

17. gr.
Rekstur verðbréfasjóða.

    Rekstur verðbréfasjóða felst m.a. í eftirfarandi verkefnum:
     1.      Fjárfestingum í samræmi við fjárfestingarstefnu.
     2.      Umsýslu:
                  a.      Bókhalds- og lögfræðiþjónustu.
                  b.      Þjónustu við viðskiptavini.
                  c.      Mati á verðmæti verðbréfa og annarra eigna.
                  d.      Innra eftirliti.
                  e.      Að halda og uppfæra skrá yfir eigendur hlutdeildarskírteina.
                  f.      Útreikningi innlausnarvirðis.
                  g.      Útgáfu og innlausn hlutdeildarskírteina.
                  h.      Uppgjöri viðskipta.
                  i.      Vörslu hlutdeildarskírteina og gagna um viðskipti.
     3.      Áhættustýringu.
     4.      Markaðssetningu.

18. gr.
Útvistun verkefna rekstrarfélags.

    Rekstrarfélagi er aðeins heimilt að fela öðrum aðilum verkefni þau sem kveðið er á um í 17. gr. að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins. Rekstrarfélagi er þó aldrei heimilt að útvista öll verkefni skv. 17. gr. Meiri hluta verkefna skv. 1. tölul. 17. gr. skal unninn innan rekstrarfélags. Verkefni skv. 1. tölul. 17. gr. er ekki heimilt að fela vörslufyrirtæki eða öðru félagi fari hagsmunir þess ekki saman við hagsmuni rekstrarfélags og eigenda hlutdeildarskírteina.
    Ábyrgð rekstrarfélags gagnvart eigendum hlutdeildarskírteina helst óbreytt þó að það feli öðru fyrirtæki hluta af verkefnum sínum skv. 17. gr.
    Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um útvistun verkefna rekstrarfélaga í reglugerð.

19. gr.
Góðir viðskiptahættir og venjur.

    Rekstrarfélag skal starfrækja verðbréfasjóð í samræmi við góða viðskiptahætti og venjur með trúverðugleika markaðarins og hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðarljósi.

C. Vörslufyrirtæki.
20. gr.
Starfsemi vörslufyrirtækis.

    Umsjá og varðveisla eigna verðbréfasjóðs skal falin vörslufyrirtæki sem hlotið hefur viðurkenningu Fjármálaeftirlitsins. Fjármunum verðbréfasjóðs skal haldið aðgreindum frá fjármunum vörslufyrirtækis. Vörslufyrirtæki skal:
     1.      tryggja að sala, útgáfa, endurkaup, innlausn og ógilding hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðs fari samkvæmt lögum og reglum hlutaðeigandi aðila,
     2.      tryggja að innlausnarvirði hlutdeildarskírteina sé reiknað í samræmi við lög og reglur hlutaðeigandi aðila,
     3.      framfylgja fyrirmælum rekstrarfélags nema þau séu í andstöðu við lög og samþykktir hlutaðeigandi aðila,
     4.      tryggja að í viðskiptum með eignir verðbréfasjóðs sé endurgjald fyrir þær innt af hendi innan eðlilegra tímamarka,
     5.      tryggja að tekjum verðbréfasjóðs sé ráðstafað í samræmi við lög og reglur sjóðsins.

21. gr.
Viðurkenndir aðilar.

    Viðskiptabankar, sparisjóðir, lánafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki og útibú hliðstæðra erlendra fyrirtækja sem starfa hér á landi geta hlotið viðurkenningu sem vörslufyrirtæki.
    Óheimilt er að skipta um vörslufyrirtæki án samþykkis Fjármálaeftirlitsins.

22. gr.
Ábyrgð.

    Vörslufyrirtæki ber ábyrgð gagnvart rekstrarfélagi og eigendum hlutdeildarskírteina vegna tjóns sem þeir kunna að verða fyrir og rekja má til ásetnings eða gáleysis starfsmanna vörslufyrirtækis við framkvæmd verkefna þess skv. 20. gr.
    Vörslufyrirtæki er heimilt að fela öðru fyrirtæki, sem hæft er til að hljóta viðurkenningu skv. 21. gr. eða hefur starfsleyfi sem fjármálafyrirtæki og lýtur sambærilegu eftirliti og félög skv. 21. gr., varðveislu verðbréfa verðbréfasjóðs að hluta eða öllu leyti. Nú felur vörslufyrirtæki öðru fyrirtæki varðveislu verðbréfa verðbréfasjóðs og hefur það engin áhrif á ábyrgð vörslufyrirtækis gagnvart rekstrarfélagi og eigendum hlutdeildarskírteina skv. 1. mgr.

D. Hlutdeildarskírteini.
23. gr.
Útgáfa hlutdeildarskírteina.

    Rekstrarfélag gefur út skilríki fyrir eignarréttindum að verðbréfasjóði í formi hlutdeildarskírteinis, sbr. þó 3. mgr.
    Allir, sem eiga hlutdeild að verðbréfasjóði eða einstakri deild hans, eiga sama rétt til tekna og eigna sjóðsins, eða viðkomandi deildar, í hlutfalli við hlutdeild sína og eru hlutdeildarskírteinin staðfesting á tilkalli til eignarhlutdeildar.
    Rekstrarfélagi er ekki skylt að gefa út hlutdeildarskírteini nema eigendur þeirra óski eftir því enda geti þeir hvenær sem er aflað sér staðfestingar á hlutdeild sinni með öðrum hætti.
    Séu hlutdeildarskírteini gefin út sem rafbréf í verðbréfamiðstöð gilda um útgáfuna lög um rafræna eignarskráningu verðbréfa.
    Hlutdeildarskírteini skulu skráð á nafn eða á safnreikning, sbr. lög um verðbréfaviðskipti.
    Hlutdeildarskírteini eru undanþegin greiðslu stimpilgjalda.

24. gr.
Upplýsingar í hlutdeildarskírteini.

    Í hlutdeildarskírteini skulu að minnsta kosti eftirtalin atriði koma fram, sbr. þó 4. og 5. mgr. 23. gr.:
     1.      Nafn verðbréfasjóðs, vörslufyrirtækis og rekstrarfélags.
     2.      Nafn og kennitala upphaflegs eiganda skírteinis.
     3.      Hvernig hlutdeildarskírteini verði innleyst og hvaða reglur gildi um arðgreiðslur.
     4.      Nafn og kennitala framsalshafa hafi skírteini gengið kaupum og sölum án innlausnar þess.
    Hlutdeildarskírteini skal vera dagsett og undirritað af stjórn rekstrarfélags. Nafnritunin má vera prentuð eða sett fram á annan sambærilegan hátt.

25. gr.
Skrá yfir hlutdeildarskírteini.

    Rekstrarfélag skal halda skrá yfir eigendur hlutdeildarskírteina í sjóðnum. Í skránni skulu að minnsta kosti eftirtalin atriði koma fram:
     1.      Nafn og kennitala eiganda.
     2.      Söludagur skírteinis.
     3.      Nafnverð skírteinis.
     4.      Heildarfjöldi útistandandi skírteina.
    Tilkynna skal eigendaskipti hlutdeildarskírteina til rekstrarfélags. Slíkar tilkynningar, ásamt öðrum upplýsingum sem berast varðandi eignarhald á skírteinum, skulu færðar inn á skrána og heimildar tilkynningar getið, sbr. þó 4. mgr. 23. gr.

26. gr.
Staðgreiðsla.

    Hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða verða einungis seld gegn staðgreiðslu kaupverðs.

E. Innlausn.
27. gr.
Innlausnarskylda.

    Hlutdeildarskírteini skulu innleyst að kröfu eigenda samkvæmt reglum verðbréfasjóðsins.
    Þrátt fyrir 1. mgr. er rekstrarfélagi heimilt samkvæmt ákvæðum reglna sjóðsins að fresta innlausn hlutdeildarskírteina. Frestun skal vera almenn og taka til allra hlutdeildarskírteina og verður einungis beitt mæli sérstakar ástæður með því og sameiginlegir hagsmunir eigenda hlutdeildarskírteina krefjist. Frestun á innlausn skal ekki vara lengur en nauðsyn krefur og skal þegar tilkynnt Fjármálaeftirlitinu. Jafnframt skal frestun auglýst opinberlega.
    Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að innlausn hlutdeildarskírteina verði frestað krefjist hagsmunir eigenda skírteinanna eða almennings þess.
    Frestun á innlausn tekur gildi þegar Fjármálaeftirlitinu berst tilkynning rekstrarfélags þess efnis. Fjármálaeftirlitið skal birta á heimasíðu sinni tilkynningu um frestun innlausna.
    Er frestun á innlausn lýkur skal tilkynna opnun sjóða með sama hætti og getur í 2. mgr. Vari frestun lengur en fjórar vikur samfellt skal tilkynna opnun sjóða með bréfi til hlutdeildarskírteinishafa eða öðrum sambærilegum hætti svo fljótt sem auðið er.
    Eftirlitsaðilum annarra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins, þar sem hlutdeildarskírteini verðbréfasjóðs hafa verið sett á markað, skal tilkynnt um frestun innlausna samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.

28. gr.
Útreikningur innlausnarvirðis.

    Innlausnarvirði hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðs er markaðsvirði samanlagðra eigna að frádregnum skuldum sjóðsins við innlausn, svo sem skuldum hans við innlánsstofnanir, ógreiddum umsýslu- og stjórnunarkostnaði, innheimtukostnaði og áföllnum eða reiknuðum opinberum gjöldum, deilt niður á heildarfjölda útgefinna og óinnleystra hlutdeildarskírteina.
    Verðbréfasjóði er óheimilt að taka önnur lán en skammtímalán til að standa straum af innlausn hlutdeildarskírteina. Slík lán mega ekki nema meira en svarar 10% af eignum sjóðsins eða einstakra deilda innan hans.
    Ráðherra getur í reglugerð sett nánari reglur um útreikning á innlausnarvirði hlutdeildarskírteina verðbréfasjóða og mat á markaðsvirði eigna.

29. gr.
Auglýsing innlausnarvirðis.

    Innlausnarvirði hlutdeildarskírteina verðbréfasjóða skal reiknað daglega og auglýst opinberlega eigi sjaldnar en tvisvar í mánuði. Fjármálaeftirlitið getur ákveðið að opinber auglýsing innlausnarvirðis skuli fara fram oftar ef ástæða þykir til.

F. Fjárfestingarheimildir.
30. gr.
Fjármálagerningar og innlán.

    Fjárfestingarheimildir samkvæmt þessum kafla taka til verðbréfasjóðs eða, sé hann deildaskiptur skv. 12. gr., til einstakra deilda hans. Verðbréfasjóði er eingöngu heimilt að binda fé sitt í eftirtöldum framseljanlegum verðbréfum:
     1.      Framseljanlegum verðbréfum og peningamarkaðsskjölum sem uppfylla eftirtalin skilyrði:
                  a.      hafa verið skráð eða tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði samkvæmt skilgreiningu laga um kauphallir,
                  b.      ganga kaupum og sölum á öðrum markaði innan Evrópska efnahagssvæðisins sem er opinn almenningi, starfar reglulega, lýtur opinberu eftirliti og er viðurkenndur með þeim hætti sem Fjármálaeftirlitið metur gildan, og/eða
                  c.      hafa verið skráð eða tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins eða ganga kaupum og sölum á öðrum markaði í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins sem er opinn almenningi, starfar reglulega, lýtur opinberu eftirliti og er viðurkenndur með þeim hætti sem Fjármálaeftirlitið metur gildan.
     2.      Nýútgefnum verðbréfum, enda sé í skilmálum vegna útgáfu þeirra skuldbinding um að sótt verði um skráningu verðbréfanna á skipulegum verðbréfamarkaði skv. 1. tölul. Skráning verðbréfa samkvæmt þessu ákvæði skal fara fram eigi síðar en einu ári frá útgáfu þeirra.
     3.      Hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða. Einnig er heimilt að fjárfesta í skírteinum annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu enda sýni verðbréfasjóðir fram á það með fullnægjandi hætti að mati Fjármálaeftirlitsins að þeir lúti sambærilegu eftirliti og verðbréfasjóðir, samstarf Fjármálaeftirlitsins og lögbærra yfirvalda heimaríkis sjóðsins sé tryggt með fullnægjandi hætti, vernd hlutdeildarskírteinishafa sé tryggð með sambærilegum hætti og í verðbréfasjóðum, einkum er varðar innlausnarrétt, vörslufyrirtæki, lánveitingar, lántökur og skortsölu, og gefin sé út ársskýrsla og árshlutauppgjör að minnsta kosti á sex mánaða fresti. Óheimilt er að fjárfesta í verðbréfasjóðum og öðrum sjóðum um sameiginlega fjárfestingu sem fjárfesta, samkvæmt reglum sínum, meira en 10% eigna sinna í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða eða hlutdeildarskírteinum eða hlutabréfum annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu.
     4.      Innlánum fjármálafyrirtækja sem hafa staðfestu í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þó er verðbréfasjóði heimilt að binda fé í innlánum fjármálafyrirtækja með staðfestu utan Evrópska efnahagssvæðisins sýni hann fram á með fullnægjandi hætti að mati Fjármálaeftirlitsins að fjármálafyrirtækin búi við sambærilegar reglur um áhættu og eftirlit og gilda innan Evrópska efnahagssvæðisins. Innlán samkvæmt þessum tölulið verða að vera endurgreiðanleg að kröfu innlánseiganda með að hámarki tólf mánaða binditíma.
     5.      Afleiðum sem skráðar eru á skipulegum verðbréfamarkaði samkvæmt skilgreiningu 1. tölul. Viðmið afleiðna skulu vera fjárfestingarheimildir samkvæmt þessari grein, verðbréfavísitölur, vextir, gengi erlendra gjaldmiðla eða gjaldmiðlar sem verðbréfasjóðnum er heimilt að fjárfesta í samkvæmt ákvæðum reglna sjóðsins.
     6.      Afleiðum utan skipulegra verðbréfamarkaða. Viðmið afleiðna skulu vera fjárfestingarheimildir samkvæmt þessari grein, verðbréfavísitölur, vextir, gengi erlendra gjaldmiðla eða gjaldmiðlar sem verðbréfasjóðnum er heimilt að fjárfesta í samkvæmt ákvæðum reglna sjóðsins. Gagnaðilar verðbréfasjóða í slíkum afleiðuviðskiptum skulu lúta eftirliti sem Fjármálaeftirlitið metur gilt. Verðmæti slíkra samninga skal vera unnt að reikna daglega með áreiðanlegum hætti. Tryggt skal að hægt sé að selja slíka samninga samdægurs á raunvirði hverju sinni.
     7.      Peningamarkaðsskjölum sem viðskipti eru með utan skipulegra verðbréfamarkaða.

31. gr.
Aðrar eignir.

    Þrátt fyrir ákvæði 30. gr. er verðbréfasjóði heimilt að binda sem svarar allt að 10% af eignum sínum í óskráðum framseljanlegum verðbréfum og peningamarkaðsskjölum.
    Verðbréfasjóði er óheimilt að eiga meira en 10% í reiðufé eða auðseljanlegum eignum á hverjum tíma, nema slíkt sé til hagsbóta fyrir hlutdeildarskírteinishafa. Slíkar eignir mega þó ekki vera hluti af fjárfestingarstefnu sjóðsins.

32. gr.
Yfirtaka eigna og hrávörur.

    Verðbréfasjóði er heimilt án takmarkana að yfirtaka eignir til að tryggja fullnustu kröfu. Eignirnar skulu seldar jafnskjótt og það er talið hagkvæmt og eigi síðar en innan níu mánaða frá yfirtöku eignanna. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita lengri frest sé það í þágu hagsmuna hlutdeildarskírteinishafa.
    Verðbréfasjóði er óheimilt að fjárfesta í hrávörum eða heimildarskírteinum fyrir þeim.

33. gr.
Eftirlit með áhættu.

    Rekstrarfélög skulu hafa yfir að ráða eftirlitskerfi sem gerir þeim kleift að vakta, meta og stýra áhættu einstakra eigna og eignasafns verðbréfasjóða á hverjum tíma. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um slíkt eftirlitskerfi.

34. gr.
Afleiðuviðskipti.

    Verðbréfasjóði er ávallt skylt að eiga hæfilegar og nægjanlega verðmætar eignir á móti metnu hámarkstapi af afleiðu. Til grundvallar slíku mati skal taka mið af verðmæti undirliggjandi eigna, mótaðilaáhættu, ytri aðstæðum á fjármálamörkuðum og þeim tíma sem það tekur að fullnusta eða selja viðkomandi afleiðusamning.
    Verðbréfasjóði er heimilt að eiga viðskipti með afleiður svo fremi sem samanlögð áhætta afleiðna og undirliggjandi eigna sé undir þeim mörkum sem um getur í 35. gr. Eftirlitskerfi skv. 33. gr. skal meta með fullnægjandi hætti virði afleiðna utan skipulegra verðbréfamarkaða.
    Verðbréfasjóðir skulu gera Fjármálaeftirlitinu reglulega grein fyrir afleiðuviðskiptum sínum í því formi sem Fjármálaeftirlitið ákveður.
    Viðskipti með afleiður mega ekki verða til þess að verðbréfasjóður víki frá fjárfestingarstefnu sinni eins og hún er sett fram í reglum sjóðsins og útboðslýsingu.
    Ef verðbréf eða peningamarkaðsskjal felur í sér afleiðu skal tekið mið af því þegar kröfur samkvæmt þessari grein eru uppfylltar.

35. gr.
Hámark fjárfestingar í framseljanlegum verðbréfum og innlánum sama útgefanda.

    Verðbréfasjóði er óheimilt að binda:
     1.      meira en 10% af eignum sínum í verðbréfum og peningamarkaðsskjölum útgefnum af sama útgefanda, eða
     2.      meira en 20% af eignum sínum í innlánum sama fjármálafyrirtækis.
    Mótaðilaáhætta vegna afleiðna utan skipulegra verðbréfamarkaða má ekki vera umfram:
     1.      10% af heildareignum sjóðs þegar mótaðili er fjármálafyrirtæki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða fjármálafyrirtæki utan þess sem lýtur eftirliti sem Fjármálaeftirlitið metur gilt,
     2.      5% af heildareignum sjóðs þegar mótaðili er annar en fjármálafyrirtæki skv. 1. tölul, en lýtur þó eftirliti sem Fjármálaeftirlitið metur gilt.
    Fjárfesti verðbréfasjóður meira en 5% í verðbréfum útgefnum af sama útgefanda skal samtala slíkra fjárfestinga ekki fara yfir 40% af eignum sjóðsins. Við útreikning samtölu skal ekki litið til innlána hjá fjármálafyrirtæki eða afleiðna sem gerðar eru utan skipulegra verðbréfamarkaða þegar mótaðili er fjármálafyrirtæki sem lýtur eftirliti sem Fjármálaeftirlitið metur gilt.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. má heildarfjárfesting í viðskiptum við sama aðila, í verðbréfum, peningamarkaðsskjölum, innlánum og afleiðusamningum utan skipulegra verðbréfamarkaða, samtals ekki fara yfir 20% af eignum sjóðsins.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 1. mgr. er verðbréfasjóði heimilt að binda allt að 35% af eignum sínum í verðbréfum og peningamarkaðsskjölum sem eitt eða fleiri ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða sveitarfélög þeirra, alþjóðlegar stofnanir, sem eitt eða fleiri þessara ríkja eru aðilar að, eða ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins gefa út eða ábyrgjast. Fjárfesting í einni og sömu verðbréfaútgáfunni má ekki nema hærri fjárhæð en sem svarar til 30% af eignum verðbréfasjóðs. Ekki skal tekið tillit til verðbréfa samkvæmt þessari málsgrein þegar reiknuð er samtala fjárfestinga skv. 3. mgr.
    Takmarkanir samkvæmt 1.–5. mgr. er óheimilt að leggja saman. Verðbréfasjóði er því óheimilt að binda meira en 20% af eignum sínum í verðbréfum, peningamarkaðsskjölum, innlánum eða afleiðum sama útgefanda eða 35% af verðbréfum og peningamarkaðsskjölum sama útgefanda, sbr. 5. mgr.
    Aðilar sem teljast til sömu samstæðu skulu teljast einn aðili við útreikning samkvæmt þessari grein.
    Samanlögð eign sjóðsins í verðbréfum útgefnum af aðilum tengdum rekstrarfélaginu eða móðurfélagi þess, sbr. lög um fjármálafyrirtæki, skal ekki vera meiri en 20% af eign sjóðsins.
    Samanlögð eign sjóðsins í verðbréfum útgefnum af öðrum tengdum aðilum, sbr. lög um fjármálafyrirtæki, skal ekki vera meiri en 20% af eign sjóðsins.
    Traust verðbréf skv. 38. gr. eru undanþegin ákvæðum 8. og 9. mgr.
    Um skyldu rekstrarfélaga til þess að tengja saman aðila fer eftir lögum um fjármálafyrirtæki.

36. gr.
Vísitölusjóðir.

    Þrátt fyrir ákvæði 35. gr. er verðbréfasjóði heimilt að fjárfesta allt að 20% af eign sjóðsins í hlutabréfum eða skuldabréfum sama útgefanda ef markmið fjárfestingarstefnu samkvæmt reglum sjóðsins er að endurspegla tiltekna hlutabréfa- eða skuldabréfavísitölu. Vísitalan skal hafa fullnægjandi áhættudreifingu, birt opinberlega og endurspegla viðkomandi markað með fullnægjandi hætti.
    Fjármálaeftirlitið getur hækkað heimild skv. 1. mgr. í 35% ef vægi eins útgefanda í vísitölunni er meira en 20%. Fjárfesting yfir 20% er aðeins leyfð í hlutabréfum eða skuldabréfum eins útgefanda.

37. gr.
Peningamarkaðssjóðir.

    Fjárfestingarheimildir peningamarkaðssjóða takmarkast af 35. gr.
    Peningamarkaðssjóði er eingöngu heimilt að fjárfesta í peningamarkaðsskjölum eins og þau eru skilgreind í lögum þessum, afleiðum tengdum þessum skjölum og innlánum, sbr. 4. tölul. 30. gr.
    Hámarkslíftími einstakra verðbréfa skal ekki vera lengri en 397 dagar og meðallíftími eignasafns peningamarkaðssjóðs má að hámarki vera 90 dagar.

38. gr.
Traust verðbréf.

    Fjármálaeftirlitið getur heimilað verðbréfasjóði að binda allt að 100% af eignum sínum í verðbréfum og peningamarkaðsskjölum skv. 5. mgr. 35. gr. telji Fjármálaeftirlitið það samrýmanlegt hagsmunum eigenda hlutdeildarskírteina.
    Fjárfestingar verðbréfasjóðs skv. 1. mgr. skulu dreifast á að minnsta kosti sex mismunandi verðbréfaútgáfur og má fjárfesting í einni og sömu verðbréfaútgáfu ekki nema hærri fjárhæð en sem svarar til 30% af eignum verðbréfasjóðs.
    Skýrt skulu koma fram í reglum verðbréfasjóðs og útboðslýsingu þau ríki, sveitarstjórnir eða alþjóðastofnanir sem gefa út eða ábyrgjast verðbréf eða peningamarkaðsskjöl sem sjóðurinn hyggst fjárfesta í skv. 1. mgr.

39. gr.
Fjárfestingar í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða.

    Verðbréfasjóði er heimilt að fjárfesta í hlutdeildarskírteinum annarra verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða (sjóðasjóðir). Þó skal verðbréfasjóður ekki binda meira en 20% af eignum sínum í hlutdeildarskírteinum einstakra verðbréfasjóða eða fjárfestingarsjóða.
    Heildarfjárfesting verðbréfasjóðs í hlutdeildarskírteinum fjárfestingarsjóða má ekki fara yfir 30% af eignum verðbréfasjóðs.

40. gr.
Takmarkanir á eignasafni.

    Verðbréfasjóði er óheimilt að eignast meira en:
     1.      10% af hlutabréfum án atkvæðisréttar í einstöku hlutafélagi,
     2.      10% af skuldaskjölum einstakra útgefenda verðbréfa, þó aldrei umfram 25% í hverri útgáfu,
     3.      25% af hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóðs og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu,
     4.      10% af peningamarkaðsskjölum einstakra útgefenda.

41. gr.
Lán og ábyrgðir.

    Verðbréfasjóði er óheimilt að veita lán eða ganga í ábyrgð fyrir aðra, sbr. þó heimildir skv. 30. gr. Þó er heimilt að veita verðbréfalán sem hluta af eðlilegri áhættustýringu. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um verðbréfalán verðbréfasjóða.

42. gr.
Skortsala.

    Verðbréfasjóði er óheimilt að selja fjármálagerninga sem ekki eru í eigu hans á þeim tíma sem sala þeirra fer fram.

43. gr.
Ráðstafanir til úrbóta.

    Fari fjárfesting verðbréfasjóðs fram úr leyfilegum mörkum samkvæmt lögum þessum skal Fjármálaeftirlitinu án tafar tilkynnt um það og skulu þegar gerðar ráðstafanir til úrbóta og skal lögmæltu hámarki í síðasta lagi náð innan þriggja mánaða. Fjármálaeftirlitið getur þó í einstökum tilvikum heimilað lengri frest enda sé það augljóslega í þágu eigenda hlutdeildarskírteina.

G. Markaðssetning utan heimalands.
44. gr.
Markaðssetning verðbréfasjóða með staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins hér á landi.

    Erlendur verðbréfasjóður með staðfestu og staðfestingu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins getur markaðssett skírteini sín hér á landi tveimur mánuðum eftir að Fjármálaeftirlitið hefur fengið tilkynningu um fyrirhugaða starfsemi frá verðbréfasjóðnum. Hið sama gildir um starfsemi svissneskra og færeyskra verðbréfasjóða, enda séu sömu kröfur gerðar til þeirra og til verðbréfasjóða með staðfestu í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og gerður hafi verið samstarfssamningur á milli Fjármálaeftirlitsins og lögbærra svissneskra eða færeyskra yfirvalda. Tilkynningu skulu fylgja eftirfarandi gögn:
     1.      Yfirlýsing lögbærra eftirlitsaðila í heimaríki verðbréfasjóðsins um að hann hafi staðfestingu í því ríki og uppfylli að öðru leyti settar kröfur í tilskipunum Evrópusambandsins um sjóði um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum.
     2.      Reglur verðbréfasjóðsins.
     3.      Útboðslýsing og útdráttur úr útboðslýsingu. Útboðslýsing skal hafa að geyma upplýsingar skv. 6. tölul. þessarar málsgreinar.
     4.      Endurskoðaður ársreikningur næstliðins árs, sé hann fyrirliggjandi, og síðari hálfsársuppgjör.
     5.      Lýsing á framkvæmd fyrirhugaðrar starfsemi eða markaðssetningar hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðsins, m.a. hverjir muni annast sölu hlutdeildarskírteina og hafa lögformlega heimild til innlausnar fyrir hönd verðbréfasjóðsins og hver væntanlegur markhópur fjárfesta verður.
     6.      Upplýsingar um fyrirhugaðar ráðstafanir verðbréfasjóðsins til að tryggja rétt eigenda skírteina til útgreiðslu hagnaðar, innlausnar hlutdeildarskírteina og þeirra upplýsinga sem sjóðnum er skylt að miðla, m.a. upplýsingar um fyrirhugaðar ráðstafanir sjóðsins til að tryggja rétt viðskiptamanna ef sjóðurinn hyggst hætta starfsemi eða markaðssetningu hérlendis.
    Fjármálaeftirlitið getur hafnað því að verðbréfasjóður skv. 1. mgr. hefji markaðssetningu hér á landi ef ráðstafanir skv. 6. tölul. 1. mgr. eru ekki fullnægjandi eða markaðssetningin stríðir að öðru leyti gegn ákvæðum laga. Fjármálaeftirlitið skal rökstyðja synjun skriflega til verðbréfasjóðsins áður en frestur skv. 1. mgr. rennur út. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að stytta frest skv. 1. mgr. enda hafi öll tilskilin gögn borist því og einnig er því heimilt að lengja frest skv. 1. mgr. þurfi að kalla eftir frekari gögnum eða ef ástæða er til að ætla að til höfnunar komi.
    Fjármálaeftirlitið gengur úr skugga um eftirlit með verðbréfasjóðnum í heimaríkinu, starfsheimildir þess og starfsemi.
    Breytingar á áður tilkynntum atriðum samkvæmt þessari grein skulu þegar tilkynntar Fjármálaeftirlitinu.

45. gr.
Markaðssetning fjárfestingarsjóða (Non-UCITS).

    Aðrir sjóðir sem hyggjast hefja markaðssetningu hlutdeildarskírteina eða hluta sinna hér á landi skulu sækja um heimild til Fjármálaeftirlitsins og samhliða senda Fjármálaeftirlitinu þau gögn sem tilgreind eru í 2.–6. tölul. 1. mgr. 44. gr. Auk þess skal senda eftirfarandi gögn:
     1.      Yfirlýsingu frá lögbæru yfirvaldi heimaríkis sjóðsins þar sem fram komi að sjóðurinn og rekstrarfélag hans hafi staðfestingu eða starfsleyfi í samræmi við löggjöf heimaríkisins og lúti eftirliti þess, þ.m.t. vegna athafna þess hérlendis.
     2.      Yfirlýsingu frá lögbæru yfirvaldi heimaríkis sjóðsins þess efnis að það sé reiðubúið að veita sambærilegum íslenskum sjóðum heimild til markaðssetningar í viðkomandi ríki. Ríki sem falla undir svæði A í viðauka I í reglum nr. 530/2003, um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja, eru undanþegin þessum tölulið.
    Breytingar á áður tilkynntum atriðum samkvæmt þessari grein skulu þegar tilkynntar Fjármálaeftirlitinu.
    Fjármálaeftirlitið getur veitt samþykki fyrir því að sjóður skv. 1. mgr. hefji markaðssetningu hér á landi ef ákvæði 1. mgr. eru uppfyllt og ráðstafanir skv. 6. tölul. 1. mgr. 44. gr. eru fullnægjandi og markaðssetningin stríðir að öðru leyti ekki gegn ákvæðum laga. Ef Fjármálaeftirlitið hafnar markaðssetningu skal það rökstyðja synjun skriflega til sjóðsins.

46. gr.
Heimild til að banna starfsemi erlendra verðbréfasjóða.

    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að banna erlendum verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði að markaðssetja skírteini sín hér á landi hafi hlutaðeigandi verðbréfasjóður eða fjárfestingarsjóður brotið gróflega eða ítrekað gegn ákvæðum laga þessara, reglum settum samkvæmt þeim eða gegn ákvæðum annarra laga um fjármálastarfsemi. Fjármálaeftirlitið getur endurnýjað heimild sjóðsins til markaðssetningar geti sjóðurinn sýnt fram á að hann muni uppfylla skilyrði laga þessara.

47. gr.
Undanþága.

    Undanþegnir ákvæðum 44. og 45. gr. eru erlendir verðbréfasjóðir og aðrir sjóðir um sameiginlega fjárfestingu sem eingöngu eru boðnir eða markaðssettir, án almennrar auglýsingar eða kynningar, til fagfjárfesta samkvæmt skilgreiningu laga um verðbréfaviðskipti.
    Sjóðir sem eingöngu hyggjast markaðssetja hluti eða hlutdeildarskírteini sín til fagfjárfesta hér á landi skulu fyrir fram tilkynna það til Fjármálaeftirlitsins, ásamt upplýsingum um heimaríki sjóðsins, rekstraraðila og heimilisfang hans, hvort sjóður lúti reglubundnu eftirliti, ásamt öðrum upplýsingum sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegar.

48. gr.
Markaðssetning íslenskra verðbréfasjóða utan Íslands.

    Hyggist verðbréfasjóður markaðssetja hlutdeildarskírteini sín utan Íslands skal það tilkynnt Fjármálaeftirlitinu og eftirlitsaðila í því landi þar sem markaðssetning er fyrirhuguð.

H. Upplýsingagjöf.
49. gr.
Ársreikningur og árshlutauppgjör.

    Í ársreikningi og árshlutauppgjörum rekstrarfélags skulu sérgreindar upplýsingar um verðbréfasjóð eða sérhverja deild hans. Ráðherra er heimilt að gefa út reglugerð sem kveður nánar á um sérgreindar upplýsingar um verðbréfasjóði í ársreikningum og árshlutauppgjörum rekstrarfélaga.

50. gr.
Sundurliðun fjárfestinga.

    Rekstrarfélag verðbréfasjóða skal senda Fjármálaeftirlitinu skýrslu um sundurliðun fjárfestinga verðbréfasjóða á því formi sem Fjármálaeftirlitið ákveður.

51. gr.
Útboðslýsing og útdráttur úr útboðslýsingu.

    Rekstrarfélag skal gefa út útboðslýsingu og útdrátt úr útboðslýsingu fyrir verðbréfasjóð.
    Í útboðslýsingu skulu koma fram nauðsynlegar upplýsingar til að fjárfestum sé kleift að meta kosti fjárfestinga í viðkomandi verðbréfasjóði. Í útdrætti úr útboðslýsingu skal draga fram meginatriði útboðslýsingar.
    Rekstrarfélag skal senda Fjármálaeftirlitinu útboðslýsingu og útdrátt úr útboðslýsingu í kjölfar breytinga á þeim.

52. gr.
Nánari upplýsingar í útboðslýsingu.

    Í útboðslýsingu verðbréfasjóðs skal á ítarlegan hátt lýsa fjárfestingarstefnu sjóðsins og, ef við á, einstakra deilda hans og tilgreina þær tegundir fjárfestinga sem honum eru heimilar samkvæmt reglum sjóðsins.
    Í útboðslýsingu skal tilgreina hvort sjóði, eða einstakri deild hans, er heimilt að fjárfesta í afleiðum, og sé slíkt heimilt, hvort fjárfestingin takmarkist við að lágmarka áhættu og fastsetja hagnað vegna verðsveiflna eða hvort hún sé liður í fjárfestingarstefnu.
    Nú er verðbréfasjóði, eða einstakri deild hans, heimilt samkvæmt reglum sjóðsins að fjárfesta í afleiðum og skal þá í útboðslýsingu lýsa á ítarlegan hátt hugsanlegum áhrifum afleiðna á áhættu fjárfestinga hlutdeildarskírteinishafa í sjóðnum.
    Ef bókfært virði eigna verðbréfasjóðs, eða einstakrar deildar hans, er líklegt til að sveiflast mikið vegna samsetningar verðbréfasamvals hans eða aðferða sem beitt er við stjórnun verðbréfasamvals skal vakin sérstök athygli á því á áberandi hátt í útboðslýsingu og öðrum kynningarritum.
    Fjárfesti verðbréfasjóður verulegan hluta eigna sinna í öðrum verðbréfasjóðum og öðrum sjóðum um sameiginlega fjárfestingu skal í útboðslýsingu hans tilgreina hámarksstjórnunarkostnað sem verðbréfasjóðurinn sjálfur og hinir sjóðirnir skulu bera. Í ársreikningi verðbréfasjóðsins skal tilgreina hámarkshlutfall stjórnunarkostnaðar sem annars vegar verðbréfasjóðurinn sjálfur og hins vegar hinir sjóðirnir, sem hann fjárfestir í, bera.
    Rekstrarfélagi er skylt að afhenda, óski eigandi hlutdeildarskírteinis í verðbréfasjóði eftir því, upplýsingar um aðferðafræði sjóðsins við áhættustýringu eigna sjóðsins með tilliti til áhættu og væntrar ávöxtunar í fjárfestingum sjóðsins undangengin missiri.
    Í útboðslýsingu skal koma fram hvaða verkefnum rekstrarfélagið hefur útvistað skv. 18. gr.
         Nánar er unnt að kveða á um útboðslýsingar og útdrætti úr útboðslýsingum vegna verðbréfasjóða í reglugerð, m.a. um hvaða upplýsingar skuli birta í útboðslýsingum og útdráttum úr þeim.

53. gr.
Aðgengi að upplýsingum.

    Útdráttur úr útboðslýsingu skal boðinn fjárfesti endurgjaldslaust áður en viðskipti með hlutdeildarskírteini fara fram. Útboðslýsing auk ársreiknings og hálfsársuppgjörs skal ávallt vera fjárfesti í verðbréfasjóði aðgengileg endurgjaldslaust.
    Ársreikningur og hálfsársuppgjör skulu vera almenningi aðgengileg með þeim hætti sem kveðið er á um í útboðslýsingu og útdrætti úr útboðslýsingu og Fjármálaeftirlitið samþykkir.
    Gildandi reglur verðbréfasjóðs, útboðslýsing og útdráttur úr útboðslýsingu skulu vera aðgengileg almenningi.

54. gr.
Þóknun.

    Rekstrarfélög skulu kunngera fjárfestum í verðbréfasjóði fyrir fram hvaða þóknun þau muni áskilja sér fyrir þjónustu sína. Breytingar á þóknun skal tilkynna eigendum hlutdeildarskírteina með hæfilegum fyrirvara.
    Ef verðbréfasjóður fjárfestir í hlutdeildarskírteinum annarra verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu, sem stjórnað er beint eða með umboði af sama rekstrarfélagi, eða öðru félagi sem rekstrarfélagið tengist í gegnum sameiginlegan rekstur eða stjórnendur, eða með umtalsverðri beinni eða óbeinni eignarhlutdeild, er rekstrarfélaginu ekki heimilt að taka þóknun fyrir áskrift eða innlausn fyrir fjárfestingu í sjóðunum.

55. gr.
Kynningarstarfsemi.

    Í auglýsingum og annarri kynningarstarfsemi verðbréfasjóða skal þess gætt að fram komi réttar og nákvæmar upplýsingar um starfsemi þessara aðila.
    Í auglýsingum og annarri kynningarstarfsemi verðbréfasjóða skulu m.a. eftirfarandi atriði koma fram:
     1.      hvort sjóður sé verðbréfasjóður eða fjárfestingarsjóður,
     2.      heiti rekstrarfélags,
     3.      upplýsingar um áhættu verðbréfasjóðs,
     4.      tilvísun í útboðslýsingu og útdrátt úr útboðslýsingu og hvar megi nálgast þau gögn.
    Á heimasíðu rekstrarfélags og öðru kynningarefni einstakra sjóða skulu koma fram sömu upplýsingar og kveðið er á um í 2. mgr. auk þess sem birta skal upplýsingar um tíu stærstu útgefendur í eignasafni sjóðsins ásamt upplýsingum um hlutfall fjárfestingar í hverjum aðila. Einnig skal birta þar nafn- og raunávöxtun verðbréfasjóðs síðustu þriggja reikningsára. Upplýsingar um stærstu útgefendur sjóðsins skal uppfæra að minnsta kosti á sex vikna fresti. Jafnframt skulu gögn skv. 53. gr. vera aðgengileg á heimasíðu.

56. gr.
Tilkynning um áhættu.

    Rekstrarfélagi ber að greina fjárfestum frá þeirri áhættu sem felst í fjárfestingu í verðbréfasjóði áður en viðskipti eiga sér stað.

III. KAFLI
Fjárfestingarsjóðir.
57. gr.
Tilvísanir í II. kafla.

    Rekstrarfélag gefur út skilríki fyrir eignarréttindum að fjárfestingarsjóði í formi hlutdeildarskírteinis. Um fjárfestingarsjóði samkvæmt þessum kafla gilda ákvæði II. kafla A–D og H.
    Fjárfestingarsjóðum er einum heimilt að nota í heiti sínu eða til nánari skýringar á starfsemi sinni orðið „fjárfestingarsjóður“.

58. gr.
Innlausn.

    Hlutdeildarskírteini fjárfestingarsjóða samkvæmt þessum kafla eru innlausnarskyld. Um innlausn fjárfestingarsjóða fer samkvæmt reglum sjóðs. Rekstrarfélagi er skylt að vekja sérstaka athygli viðskiptavinar á þeim reglum sem gilda um innlausnarskyldu sjóðs.
    Þrátt fyrir 1. mgr. er fjárfestingarsjóðum heimilt samkvæmt ákvæðum reglna sjóðsins að fresta innlausn hlutdeildarskírteina. Frestun skal vera almenn og taka til allra hlutdeildarskírteina og verður einungis beitt mæli sérstakar ástæður með því og hagsmunir eigenda hlutdeildarskírteina krefjist. Frestun á innlausn skal ekki standa lengur en nauðsyn krefur og skal þegar tilkynnt Fjármálaeftirlitinu. Jafnframt skal frestun auglýst opinberlega.
    Er frestun á innlausn lýkur skal tilkynna opnun sjóða með sama hætti og getur í 2. mgr. Standi frestun lengur en fjórar vikur samfellt skal tilkynna opnun sjóða með bréfi til hlutdeildarskírteinishafa eða öðrum sambærilegum hætti.
    Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að innlausn hlutdeildarskírteina verði frestað krefjist hagsmunir eigenda skírteinanna eða almennings þess.
    Innlausnarvirði hlutdeildarskírteina fjárfestingarsjóða er markaðsvirði samanlagðra eigna að frádregnum skuldum sjóðs við innlausn, svo sem skuldum hans við innlánsstofnanir, ógreiddum umsýslu- og stjórnunarkostnaði, innheimtukostnaði og áföllnum eða reiknuðum opinberum gjöldum, deilt niður á heildarfjölda útgefinna og óinnleystra hlutdeildarskírteina.

59. gr.
Fjárfestingarheimildir.

    Fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða skv. 30.–43. gr. eiga við um fjárfestingar fjárfestingarsjóða með þeim undantekningum sem fram koma í 2.–7. mgr. Nýti fjárfestingarsjóður heimildir þessa ákvæðis skal þess skýrlega getið í reglum sjóðsins.
    Ákvæði 3. tölul. 30. gr. gildir ekki um fjárfestingarsjóði. Fjárfestingarsjóði er heimilt að fjárfesta í hlutdeildarskírteinum annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu en verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða allt að 20% af eignum sínum.
    Ákvæði 1. mgr. 31. gr. gildir ekki um fjárfestingarsjóði. Fjárfestingarsjóðum er heimilt að fjárfesta án takmarkana í óskráðum verðbréfum og peningamarkaðsskjölum. Fjárfesting í verðbréfum eins útgefanda má ekki fara yfir 10% af eignum fjárfestingarsjóðs.
    Ákvæði 35. gr. gilda ekki um fjárfestingarsjóði. Um hámark fjárfestingar fjárfestingarsjóða í framseljanlegum verðbréfum og innlánum sama útgefanda gilda eftirfarandi reglur:
     1.      Fjárfestingarsjóðum er heimilt að:
                  a.      binda allt að 20% af eignum sínum í verðbréfum og peningamarkaðsskjölum útgefnum af sama útgefanda. Þó er heimilt að binda allt að 35% af eignum sjóðs í skráðum verðbréfum í kauphöll og peningamarkaðsskjölum útgefnum af sama útgefanda, enda sé fjárfesting yfir 20% aðeins í verðbréfum eins útgefanda,
                  b.      binda allt að 30% af eignum sjóðs í innlánum sama fjármálafyrirtækis,
                  c.      binda allt að 10% af eignum sjóðs í viðskiptum við sama aðila með afleiður utan skipulegra verðbréfamarkaða ef mótaðili er fjármálafyrirtæki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða fjármálafyrirtæki með staðfestu utan Evrópska efnahagssvæðisins sem lýtur eftirliti sem Fjármálaeftirlitið telur gilt,
                  d.      binda allt að 35% í verðbréfum, peningamarkaðsskjölum og afleiðum útgefnum af sama útgefanda en þá er einungis heimilt að fjárfesta yfir 20% í bréfum frá einum útgefanda. Þá er fjárfestingarsjóði heimilt að binda allt að 30% af eignum sjóðs í innlánum sama fjármálafyrirtækis. Samanlögð fjárfesting fjárfestingarsjóðs í verðbréfum, peningamarkaðsskjölum, afleiðum og innlánum sama útgefanda má aldrei verða hærri en 40%,
                  e.      binda allt að 35% af eignum sínum í verðbréfum og peningamarkaðsskjölum sem eitt eða fleiri ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða sveitarfélög þeirra, alþjóðlegar stofnanir, sem eitt eða fleiri þessara ríkja eru aðilar að, eða ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins gefa út eða ábyrgjast. Fjárfesting í einni og sömu verðbréfaútgáfunni má ekki nema hærri fjárhæð en sem svarar til 30% af eignum fjárfestingarsjóðs.
     2.      Ekki er heimilt að leggja saman takmarkanir er koma fram í a- og d-lið 1. tölul.
     3.      Aðilar sem teljast til sömu samstæðu skulu teljast einn aðili við útreikning samkvæmt þessari málsgrein.
     4.      Samanlögð eign sjóðsins í verðbréfum útgefnum af aðilum tengdum rekstrarfélaginu eða móðurfélagi þess, sbr. lög um fjármálafyrirtæki, skal ekki vera meiri en 40% af eign sjóðsins.
     5.      Samanlögð eign sjóðsins í verðbréfum útgefnum af öðrum tengdum aðilum, sbr. lög um fjármálafyrirtæki, skal ekki vera meiri en 40% af eign sjóðsins.
     6.      Traust verðbréf skv. 38. gr. laganna eru undanþegin ákvæðum 4. og 5. tölul. 4. mgr.
     7.      Um skyldu rekstrarfélaga til þess að tengja saman aðila fer eftir lögum um fjármálafyrirtæki.
    Ákvæði 2. mgr. 39. gr. gildir ekki um fjárfestingarsjóði. Fjárfestingarsjóðum er heimilt að fjárfesta án takmarkana í fjárfestingarsjóðum. Fjárfesting í sama fjárfestingarsjóði má ekki fara yfir 20% af eignum fjárfestingarsjóðs.
    Fjárfestingarsjóðum er heimilt að taka að láni til skamms tíma allt að 25% af verðmæti eigna sjóðs.
    Ákvæði 42. gr. gildir ekki um fjárfestingarsjóði. Metið hámarkstap af viðskiptum með verðbréf sem fjárfestingarsjóður hefur ekki ráðstöfunarrétt yfir skal ekki nema meiru en 20% af endurmetnu innra virði sjóðsins. Skortsala á óskráðum verðbréfum er óheimil.

IV. KAFLI
Fagfjárfestasjóðir.
60. gr.
Stofnun fagfjárfestasjóða.

    Heimilt er að stofna sjóði um sameiginlega fjárfestingu sem ekki veita viðtöku fé frá almenningi (fagfjárfestasjóði) og gefa út hlutdeildarskírteini eða hlutabréf. Óheimilt er að markaðssetja og koma slíkum sjóði á framfæri við almenning. Rekstraraðilar fagfjárfestasjóða skulu tilkynna Fjármálaeftirlitinu um stofnun sjóða samkvæmt þessari grein innan eins mánaðar frá stofnun sjóðsins.
    Rekstraraðilar bera ekki ábyrgð á skuldbindingum einstakra sjóða samkvæmt þessari grein og standa einvörðungu eignir einstakra sjóða til fullnustu skuldbindingum hvers sjóðs. Ákvæði þetta víkur ekki til hliðar skaðabótaábyrgð rekstraraðila.

61. gr.

Reglur, fjárfestingarstefna og upplýsingaskylda.


    Rekstraraðilar fagfjárfestasjóða skulu setja þeim reglur og fjárfestingarstefnu og skal hún ávallt vera fjárfestum aðgengileg.
    Samhliða tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins skv. 1. mgr. 60. gr. skal rekstraraðili senda Fjármálaeftirlitinu reglur og fjárfestingarstefnu sjóðsins. Jafnframt skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um sjóðstjóra. Allar breytingar skv. 2. mgr. skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu tafarlaust.
    Rekstraraðilum fagfjárfestasjóða ber að veita upplýsingar um eignasafn sjóðs í ársreikningi og hálfsársuppgjöri. Ársreikningur skal ávallt vera fjárfestum aðgengilegur.

62. gr.

Hæfi.


    Sjóðstjórar skulu hafa staðist próf í verðbréfaviðskiptum, sbr. lög um fjármálafyrirtæki.
    Um hæfi sjóðstjóra fagfjárfestasjóða fer að öðru leyti eftir lögum um fjármálafyrirtæki.
    Rekstraraðili fagfjárfestasjóða skal uppfylla hæfisreglur laga um fjármálafyrirtæki. Ef rekstraraðili fagfjárfestasjóðs er lögaðili skal framkvæmdastjóri hans uppfylla hæfisreglur laga um fjármálafyrirtæki.
    Rekstraraðili fagfjárfestasjóða skal tafarlaust tilkynna Fjármálaeftirlitinu um skipan og síðari breytingar á sjóðstjóra og framkvæmdastjóra og skulu tilkynningunni fylgja fullnægjandi upplýsingar til að hægt sé að meta hvort skilyrðum 1.–3. mgr. sé fullnægt.

63. gr.
Eftirlit.

    Rekstraraðilar fagfjárfestasjóða skulu gefa Fjármálaeftirlitinu skýrslu um sundurliðun fjárfestinga vegna sjóða í þeirra rekstri, á því formi sem Fjármálaeftirlitið ákveður.
    Ákvæði 19. gr. um góða viðskiptahætti og venjur, 23.–25. gr. um hlutdeildarskírteini og 64. gr. um eftirlit gilda um sjóði samkvæmt þessum kafla.

V. KAFLI
Eftirlit og reglugerð.
64. gr.
Eftirlit.

    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með að starfsemi verðbréfasjóða, fjárfestingarsjóða og fagfjárfestasjóða, sem og rekstrarfélaga og vörslufyrirtækja slíkra sjóða, sé í samræmi við lög þessi og reglugerðir settar samkvæmt þeim. Skal Fjármálaeftirlitið eiga aðgang að öllum gögnum og upplýsingum hjá þeim aðilum sem lögin taka til og það telur nauðsynleg vegna eftirlitsins. Um eftirlitið gilda, eftir því sem við getur átt, lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Telji Fjármálaeftirlitið að starfsemi aðila skv. 1. mgr. brjóti gegn ákvæðum laga þessara, reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim, eða sé að öðru leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust getur það veitt viðkomandi hæfilegan frest til úrbóta nema brot séu alvarleg.
    Telji Fjármálaeftirlitið að starfsemi samkvæmt lögum þessum sé stunduð án tilskilinna leyfa getur það krafist gagna og upplýsinga hjá viðkomandi aðilum eða hjá eftirlitsskyldum aðilum sem nauðsynleg eru til að ganga úr skugga um hvort svo sé. Getur það krafist þess að slíkri starfsemi sé hætt þegar í stað. Jafnframt er því heimilt að birta opinberlega nöfn aðila sem taldir eru bjóða þjónustu án tilskilinna leyfa.

65. gr.
Reglugerð.

    Lög þessi heyra undir efnahags- og viðskiptaráðherra og er honum heimilt að kveða nánar á um framkvæmd þeirra með reglugerð. Í reglugerð er m.a. heimilt að kveða á um fjárfestingarstefnu og fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða, góða viðskiptahætti, útvistun verkefna rekstrarfélaga, innlausnarvirði, markaðssetningu utan heimalands, heimildir til markaðssetningar annarra sjóða en verðbréfasjóða utan heimalands og upplýsingagjöf verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða og eftirlit með fagfjárfestasjóðum. Í reglugerðinni er einnig heimilt að kveða á um notkun afleiðusamninga verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða og aðferðir til að meta áhrif þeirra á áhættu eignasafns sjóðanna.

VI. KAFLI
Viðurlög.
66. gr.
Stjórnvaldssektir.

    Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn ákvæðum:
     1.      3. mgr. 1. gr. og 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. um að leyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án staðfestingar eða starfsleyfis,
     2.      2. mgr. 3. gr. um skyldu til að tilkynna breytingar á áður skráðum upplýsingum,
     3.      3. mgr. 4. gr. um bann við því að breyta verðbréfasjóðum í aðra tegund sjóðs um sameiginlega fjárfestingu,
     4.      10. gr. um einkarétt verðbréfasjóða til að nota til nánari skýringar á starfsemi sinni orðið verðbréfasjóður,
     5.      3. mgr. 11. gr. um breytingu á reglum verðbréfasjóðs,
     6.      4. mgr. 11. gr. um tilkynningu til hlutdeildarskírteinishafa á breytingum á reglum sjóðsins,
     7.      1. mgr. 14. gr. um að framkvæmdastjórar rekstrarfélaga og sjóðstjórar skuli hafa lokið prófi í verðbréfaviðskiptum,
     8.      3. mgr. 14. gr. um tilkynningar á breytingum á sjóðstjórum og framkvæmdastjórum,
     9.      15. gr. um aðskilnað reksturs og vörslu og óhæði rekstrarfélags gagnvart móðurfélagi þess og vörslufyrirtæki verðbréfasjóða og skyldu rekstrarfélaga til að hafa hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðarljósi,
     10.      1. mgr. 18. gr. um útvistun verkefna rekstrarfélags verðbréfasjóðs,
     11.      20. gr. um starfsemi vörslufyrirtækis verðbréfasjóða,
     12.      2. mgr. 21. gr. um að óheimilt sé að skipta um vörslufyrirtæki án samþykkis Fjármálaeftirlitsins,
     13.      1. mgr. 25. gr. um skyldu rekstrarfélags til að halda skrá yfir hlutdeildarskírteinishafa,
     14.      29. gr. um auglýsingu innlausnarvirðis,
     15.      30.–43. gr. um fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða,
     16.      1. mgr. 44. gr. um markaðssetningu verðbréfasjóðs með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins hér á landi,
     17.      1. mgr. 45. gr. um markaðssetningu fjárfestingarsjóðs hér á landi,
     18.      2. mgr. 47. gr. um tilkynningu erlendra sjóða um sameiginlega fjárfestingu,
     19.      48. gr. um markaðssetningu íslenskra verðbréfasjóða utan Íslands,
     20.      49.–55. gr. um upplýsingagjöf verðbréfasjóða,
     21.      56. gr. um tilkynningu um áhættu,
     22.      2. málsl. 1. mgr. 57. gr., sbr. 3. mgr. 4. gr., um breytingu á fjárfestingarsjóðum í aðra tegund sjóða um sameiginlega fjárfestingu,
     23.      2. málsl. 1. mgr. 57. gr., sbr. 3. mgr. 11. gr., um breytingu á reglum fjárfestingarsjóðs,
     24.      2. málsl. 1. mgr. 57. gr., sbr. 4. mgr. 11. gr., um tilkynningu til hlutdeildarskírteinishafa á breytingum á reglum sjóðsins,
     25.      2. málsl. 1. mgr. 57. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., um að framkvæmdastjórar rekstrarfélaga og sjóðstjórar skuli hafa lokið prófi í verðbréfaviðskiptum,
     26.      2. máls. 1. mgr. 57. gr., sbr. 3. mgr. 14. gr., um tilkynningar á breytingum á sjóðstjórum og framkvæmdastjórum,
     27.      2. málsl. 1. mgr. 57. gr., sbr. 15. gr., um aðskilnað reksturs og vörslu og óhæði rekstrarfélaga gagnvart móðurfélagi þess og vörslufyrirtæki fjárfestingarsjóða og skyldu rekstrarfélaga til að hafa hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðarljósi,
     28.      2. málsl. 1. mgr. 57. gr., sbr. 1. mgr. 18. gr., um útvistun verkefna rekstrarfélags fjárfestingarsjóðs,
     29.      2. málsl. 1. mgr. 57. gr., sbr. 20. gr., um starfsemi vörslufyrirtækis fjárfestingarsjóða,
     30.      2. málsl. 1. mgr. 57. gr., sbr. 2. mgr. 21. gr., um að óheimilt sé að skipta um vörslufyrirtæki án samþykkis Fjármálaeftirlitsins,
     31.      2. málsl. 1. mgr. 57. gr., sbr. 49.–55. gr., um upplýsingagjöf fjárfestingarsjóða,
     32.      2. málsl. 1. mgr. 57. gr., sbr. 56. gr., um tilkynningu um áhættu,
     33.      2. mgr. 57. gr. um einkarétt fjárfestingarsjóða til að nota til nánari skýringar á starfsemi sinni orðið fjárfestingarsjóður,
     34.      59. gr. um fjárfestingarheimildir fjárfestingarsjóða,
     35.      2. málsl. 1. mgr. 60. gr. um að óheimilt sé að markaðssetja fagfjárfestasjóð til almennings,
     36.      3. málsl. 1. mgr. 60. gr. um stofnun fagfjárfestasjóða og tilkynningu um stofnun sjóðanna til Fjármálaeftirlitsins,
     37.      2. mgr. 61. gr. um skyldu fagfjárfestasjóða til að senda Fjármálaeftirlitinu gögn og tilkynningar,
     38.      62. gr. um að sjóðstjórar skuli hafa lokið prófi í verðbréfaviðskiptum,
     39.      63. gr. um skýrslugjöf rekstraraðila fagfjárfestasjóða til Fjármálaeftirlitsins varðandi sundurliðun fjárfestinga vegna sjóða í þeirra rekstri og önnur ákvæði sem gilda um fagfjárfestasjóði,
     40.      sátt milli Fjármálaeftirlitsins og aðila, sbr. 67. gr.
    Þá getur Fjármálaeftirlitið lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gróflega eða ítrekað gegn 19. gr. um góða viðskiptahætti.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að leggja stjórnvaldssekt á rekstraraðila verðbréfasjóðs, fjárfestingarsjóðs eða fagfjárfestasjóðs brjóti hann gróflega eða ítrekað gegn fjárfestingarstefnu sjóðsins.
    Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 10 þús. kr. til 20 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 50 þús. kr. til 50 millj. kr. Við ákvörðun sekta skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Ákvarðanir um stjórnvaldssektir skulu teknar af stjórn Fjármálaeftirlitsins og eru þær aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.

67. gr.

    Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara eða ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þeirra er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila, enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.

68. gr.

    Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Fjármálaeftirlitið skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.

69. gr.

    Heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
    Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar Fjármálaeftirlitið tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.

70. gr.

Sektir eða fangelsi.


    Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn ákvæðum:
     1.      3. mgr. 1. gr. og 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. um að leyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án staðfestingar eða starfsleyfis,
     2.      3. mgr. 4. gr. um bann við því að breyta verðbréfasjóðum í aðra sjóði um sameiginlega fjárfestingu,
     3.      2. mgr. 15. gr. um aðskilnað reksturs og vörslu og óhæði rekstrarfélaga gagnvart móðurfélagi þess og vörslufyrirtæki verðbréfasjóða og skyldu rekstrarfélaga til að hafa hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðarljósi,
     4.      1. mgr. 18. gr. um útvistun verkefna rekstrarfélags verðbréfasjóðs,
     5.      20. gr. um starfsemi vörslufyrirtækis verðbréfasjóða,
     6.      30.–43. gr. um fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða,
     7.      1. mgr. 44. gr. um markaðssetningu verðbréfasjóðs með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins hér á landi,
     8.      49.–55. gr. um upplýsingagjöf verðbréfasjóða,
     9.      56. gr. um tilkynningu um áhættu,
     10.      2. málsl. 1. mgr. 57. gr., sbr. 3. mgr. 4. gr., um breytingu á fjárfestingarsjóðum í aðra sjóði um sameiginlega fjárfestingu,
     11.      2. málsl. 1. mgr. 57. gr., sbr. 2. mgr. 15. gr., um aðskilnað reksturs og vörslu og óhæði rekstrarfélaga gagnvart móðurfélagi þess og vörslufyrirtæki fjárfestingarsjóða og skyldu rekstrarfélaga til að hafa hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðarljósi,
     12.      2. málsl. 1. mgr. 57. gr., sbr. 1. mgr. 18. gr., um útvistun verkefna rekstrarfélags fjárfestingarsjóðs,
     13.      2. málsl. 1. mgr. 57. gr., sbr. 20. gr., um starfsemi vörslufyrirtækis fjárfestingarsjóða,
     14.      2. málsl. 1. mgr. 57. gr., sbr. 49.–55. gr., um upplýsingagjöf fjárfestingarsjóða,
     15.      2. málsl. 1. mgr. 57. gr., sbr. 56. gr., um tilkynningu um áhættu,
     16.      59. gr. um fjárfestingarheimildir fjárfestingarsjóða.

71. gr.

    Brot gegn lögum þessum er varða sektum eða fangelsi varða refsingu hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Heimilt er að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laga þessara er varða sektum eða fangelsi.
    Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.

72. gr.

    Brot gegn lögum þessum sæta aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Fjármálaeftirlitsins.
    Varði meint brot á lögum þessum bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Fjármálaeftirlitið hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot eru meiri háttar ber Fjármálaeftirlitinu að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Fjármálaeftirlitið á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum til rannsóknar lögreglu. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
    Með kæru Fjármálaeftirlitsins skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að kæra mál til lögreglu.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.
    Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar og gögn sem hún hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Lögreglu er heimilt að taka þátt í aðgerðum Fjármálaeftirlitsins sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.
    Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til Fjármálaeftirlitsins til meðferðar og ákvörðunar.

VII. KAFLI
Gildistaka o.fl.
73. gr.
Innleiðing.

    Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2007/16/EB um framkvæmd tilskipunar ráðsins 85/611/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (UCITS) að því er varðar útskýringu á tilteknum skilgreiningum eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 114/ 2007 sem birt var 21. febrúar 2008 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 9/2008.

74. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2011 og falla þá úr gildi lög nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Rekstraraðilar fagfjárfestasjóða sem eru starfandi við gildistöku laga þessara skulu hafa tilkynnt Fjármálaeftirlitinu um stofnun fagfjárfestasjóðs skv. 60. gr. fyrir 1. júlí 2011.

II.


    Skýrsluskil fagfjárfestasjóða skv. 63. gr. skulu hefjast 31. desember 2011.

III.


    Starfandi sjóðstjórar skulu hafa lokið prófi í verðbréfaviðskiptum í síðasta lagi tveimur árum eftir gildistöku laganna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Almennt.
    Gildandi lög um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, nr. 30/2003, tóku gildi 1. júlí 2003 í kjölfar örrar þróunar og breytinga á verðbréfamarkaði og fólu lögin í sér töluverðar breytingar fyrir starfandi verðbréfasjóði. Í lögunum er m.a. fjallað um stofnun og skráningu sjóða um sameiginlega fjárfestingu, rekstrarfélög og vörslufyrirtæki, fjárfestingarheimildir, eftirlit og viðurlög við brotum á lögunum. Þá voru jafnframt innleiddar breytingar sem gerðar höfðu verið á UCITS-tilskipuninni, annars vegar tilskipun 2001/107/EB sem varðar stjórnsýslu UCITS-sjóða og hins vegar tilskipun 2001/108/EB sem inniheldur ákvæði um fjárfestingarstefnu UCITS-sjóða.
    Starfsheimildir verðbréfasjóða takmarkast við að veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í framseljanlegum verðbréfum og öðrum eignum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu. Við setningu laga nr. 30/2003 var gildissvið laganna víkkað nokkuð þannig að lögin tækju einnig til stofnunar og reksturs fjárfestingarsjóða. Meginmunurinn á fjárfestingarsjóðum og verðbréfasjóðum felst í því að hinir fyrrnefndu hafa ekki svokallaðan Evrópupassa, þ.e. þeim er ekki heimilt að markaðssetja þá á Evrópska efnahagssvæðinu án starfsleyfis í viðkomandi aðildarríki, auk þess sem fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða eru takmarkaðari en fjárfestingarsjóða.
    Málefni sem lúta að fjármálamarkaði eru oft og tíðum flókin og geta krafist sérfræðikunnáttu. Svo er einnig um þann afmarkaða hluta sem lýtur að rekstri verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, en málefni tengd rekstri þeirra hafa verið töluvert í umræðunni undanfarið. Til þess að varpa nokkru ljósi á tegundir þeirra verðbréfa- og fjárfestingarsjóða sem eru starfræktir hér á landi þykir rétt að telja nokkra þeirra upp hér á eftir en þessi upptalning er ekki tæmandi.
    Peningamarkaðssjóður:
    Verðbréfasjóður sem samkvæmt fjárfestingarstefnu sinni fjárfestir í peningamarkaðsskjölum, sbr. 8. tölul. 2. gr. Peningamarkaðssjóðir skulu ekki fjárfesta í verðbréfum sem hafa lengri líftíma en 13 mánuði.
    Sjóðasjóður:
    Verðbréfasjóður sem samkvæmt fjárfestingarstefnu sinni fjárfestir í öðrum verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum, sbr. heimildir 39. gr.
    Vísitölusjóður:
    Verðbréfasjóður sem samkvæmt fjárfestingarstefnu sinni líkir eftir tilgreindri vísitölu, innlendri eða erlendri, sbr. heimildir 36. gr.
    Hlutabréfasjóður:
    Verðbréfa- eða fjárfestingarsjóður sem fjárfestir í innlendum eða erlendum hlutabréfum.
    Skuldabréfasjóður:
    Verðbréfa- eða fjárfestingarsjóður sem samkvæmt fjárfestingarstefnu sinni fjárfestir í innlendum og/eða erlendum skuldabréfum, m.a. skuldabréfum fyrirtækja og/eða sveitarfélaga.
    Ríkisskuldabréfasjóður:
    Verðbréfasjóður sem samkvæmt fjárfestingarstefnu sinni fjárfestir í verðbréfum og peningamarkaðsskjölum útgefnum af ríki eða með ábyrgð þess.
    Blandaður sjóður:
    Verðbréfa- eða fjárfestingarsjóður sem samkvæmt fjárfestingarstefnu sinni fjárfestir í innlendum og/eða erlendum verðbréfum, peningamarkaðsskjölum og öðrum verðbréfa- og/eða fjárfestingarsjóðum.

II. Vinna við gerð frumvarpsins.
    Skömmu eftir hrun bankanna var ákveðið að endurskoðun á gildandi lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, nr. 30/2003, skyldi fara fram en það hafði staðið til í nokkurn tíma. Viðskiptaráðherra skipaði nefnd 30. mars 2009 til þess að vinna að endurskoðun laganna og semja frumvarp til laga um breytingar fyrir haustþing 2009. Nefndinni var sérstaklega falið að endurskoða ákvæði um fjárfestingarheimildir, eignarhald, óhæði rekstrarfélaga, lagaumhverfi fagfjárfestasjóða o.fl. Jafnframt skyldi taka tillit til og innleiða nauðsynlegar breytingar sem fram koma í tilskipunum um sameiginlega fjárfestingu nr. 2001/107/EB, 2001/108/EB og 2007/16/EB og nefndar eru hér að framan. Nefndin var þannig skipuð: Ástríður Jóhannesdóttir, lögfræðingur í viðskiptaráðuneytinu, formaður, Guðrún Áslaug Jósepsdóttir, lögfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu, tilnefnd af Fjármálaeftirlitinu, Sigurður Guðmundsson, lögfræðingur hjá Nýja Kaupþingi banka hf., tilnefndur af Samtökum fjármálafyrirtækja, Vilhjálmur Bjarnason, viðskiptafræðingur, tilnefndur af Samtökum fjárfesta.
    Fyrsti fundur nefndarinnar var haldinn 7. apríl 2009. Nefndin fundaði að jafnaði einu sinni í mánuði en vann þess á milli nauðsynleg skjöl og hafði samskipti sín á milli símleiðis og með tölvupósti. Ákveðið var að byggja á gildandi lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Nefndin leit svo á að þau mætti bæta nokkuð en við endurskoðun laganna var jafnframt tekið mið af þeirri þróun sem hefur orðið á umræddum málaflokki í nágrannalöndum okkar og víðar. Jafnframt er byggt á frumvarpi til laga um breytingar á lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, nr. 30/2003, sem samið var á vegum viðskiptaráðuneytisins á árinu 2006 en var ekki lagt fram á Alþingi.
    Víða í frumvarpinu er lögð áhersla á að taka upp með skýrari hætti einstök ákvæði framangreindra tilskipana um sameiginlega fjárfestingu. Þá er í frumvarpinu lagt til að lögfest verði ýmis ákvæði sem talin er þörf á að setja í lög í ljósi þeirra miklu breytinga sem dundu yfir íslenskan fjármálamarkað og efnahagslíf og hófust með falli viðskiptabankanna þriggja í október 2008. Í lögunum er lögð meiri áhersla á ýmis ákvæði sem fjalla um hlutverk og skyldur rekstrarfélaga sjóða um sameiginlega fjárfestingu, móðurfélaga rekstrarfélaga og vörslufyrirtækja í tengslum við rekstur sjóða. Rétt er þó að vekja athygli á að einungis verðbréfasjóðir og fjárfestingarsjóðir veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í verðbréfum og öðrum eignum og skilur það fagfjárfestasjóði frá verðbréfasjóðum og fjárfestingarsjóðum.
    Nefndin leit svo á að í ljósi þess skamma tíma sem hún hafði til ráðstöfunar væri heppilegast að leggja fram frumvarp til nýrra heildarlaga, þrátt fyrir að mörg ákvæði laganna séu óbreytt. Endurskoðun laga er ávallt vandasöm, ekki síst í kjölfar slíkra atburða sem dunið hafa yfir. Gæta verður meðalhófs á allan hátt og taldi nefndin því rétt að byggja á þeim grunni sem fyrir er en að sama skapi leggja fram tillögur að lagfæringum.
    Í október lágu fyrir endanleg drög að lagafrumvarpi og var óskað umsagna frá Kauphöllinni, Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitinu og Samtökum fjármálafyrirtækja. Það frumvarp sem hér er lagt fram tekur tillit til þeirra umsagna sem bárust. Auk þess var almenningi boðið að senda umsagnir en frumvarpsdrögin voru birt á heimasíðu viðskiptaráðuneytisins opin til umsagnar. Einhugur var í nefndinni um efni frumvarpsins og voru flestar umsagnir jákvæðar gagnvart þeim breytingum sem þar eru lagðar til.
III. Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu.
    Lagt er til að heiti laganna verði breytt þannig að það gefi til kynna að lögin gildi einnig um fagfjárfestasjóði, og lögin taki þá til allra sjóða um sameiginlega fjárfestingu. Það er í samræmi við efnistök laganna, sem innleiða jafnframt ákvæði UCITS-tilskipunarinnar með síðari breytingum.
    Eftirtaldar breytingar eru lagðar til frá gildandi lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði:
          Í 1. og 2. gr. er lagt til að nota hugtakið framseljanleg verðbréf en það er yfirhugtak um þá fjármálagerninga sem verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum er heimilt að fjárfesta í. Orðskýringar eru stórbættar og fleiri fjármálaleg hugtök útskýrð og safnað saman á einn stað sem eykur yfirsýn lesandans.
          Lagt er til að skilyrði fyrir afturköllun á staðfestingu verðbréfa- og fjárfestingarsjóðs verði rýmkuð.
          Lagt er til að ráðherra fái heimild til að kveða í reglugerð á um afmörkun fjárfestingarstefnu verðbréfasjóðs. Nú er nokkuð um það að fjárfestingarstefnu sjóðs sé lýst sem 0–100% í tilteknum eignaflokki og því varla hægt að tala um stefnu í því samhengi. Í reglugerð gæti ráðherra kveðið á um hámarksmun á efri og neðri mörkum fjárfestingarstefnu auk þess að kveða nánar á um upplýsingagjöf til viðskiptavina.
          Lagt er til að sú krafa verði gerð að framkvæmdastjórar rekstrarfélaga og sjóðstjórar sjóða um sameiginlega fjárfestingu hafi staðist próf í verðbréfaviðskiptum eða hafi hlotið löggildingu til þess.
          Í 15. gr. frumvarpsins er lagt til að auknar kröfur séu gerðar um óhæði rekstrarfélaga, sem felst í auknum kröfum til óhæðis stjórnarmanna rekstrarfélags.
          Í 18. gr. eru lagðar til strangari kröfur við útvistun verkefna
          Lagt er til að frestun á innlausn verðbréfasjóðs eða fjárfestingarsjóðs skuli ekki standa lengur en nauðsyn krefur, tilkynnt verði um opnun sjóða og mælt fyrir um skriflega tilkynningu til hlutdeildarskírteinishafa standi frestun lengur en fjórar vikur samfellt.
          Strangari reglur eru settar fyrir fjárfestingum í tengdum aðilum, eign verðbréfasjóðs í verðbréfum útgefnum af tengdum aðilum skuli ekki nema meiru en 20% af eign sjóðsins. Sérstaklega er kveðið á um peningamarkaðssjóði sem eftirleiðis munu teljast til verðbréfasjóða og um fjárfestingarheimildir þeirra.
          Mælt er fyrir um aukinn aðgang almennings að upplýsingum með því að reglur verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, útboðslýsing og útdráttur úr útboðslýsingu skuli vera aðgengileg almenningi.
          Fjárfestingarheimildir fjárfestingarsjóða eru þrengdar.
          Kafli um hlutafélagasjóði (hlutabréfasjóði) er felldur brott enda hafa engir sjóðir reknir sem hlutafélög verið starfandi frá setningu gildandi laga.
          Í V. kafla er lagt til að lögfest verði lágmarkseftirlit með fagfjárfestasjóðum og mælt fyrir um skráningu þeirra. Lagt er til í 75. gr. að ráðherra geti kveðið nánar á um eftirlit með fagfjárfestasjóðum í reglugerð.
          Lagt er til að Fjármálaeftirlitinu verði veitt heimild til þess að beita verðbréfasjóð, fjárfestingarsjóð eða fagfjárfestasjóð stjórnvaldssektum ef sjóður verður uppvís að því að brjóta gróflega eða ítrekað gegn þeirri fjárfestingarstefnu sem sjóðurinn hefur sett sér og kynnt fyrir sínum fjárfestum.
          Lagt er til að Fjármálaeftirlitið fái heimild til beitingar stjórnvaldssekta ef verðbréfasjóðir breyta reglum sínum án þess að fá staðfestingu Fjármálaeftirlitsins eins og áskilið er í 11. gr.
    Eins og sjá má af þessari upptalningu felast helstu breytingar í því að þrengja fjárfestingarheimildir og herða skilyrði fyrir rekstri sjóða en ekki síst í aukinni upplýsingagjöf til almennings en almenningur og viðskiptavinir sjóðanna eru lykilaðilar til þess að veita sjóðunum virkt aðhald. Til þess að það sé mögulegt þurfa viðkomandi aðilar að hafa víðtækt aðgengi að upplýsingum og hafa nægilega fjármálaþekkingu til þess að geta nýtt sér viðkomandi upplýsingar.

IV. Breytingar á frumvarpinu frá fyrri framlagningu.
    Frumvarp þetta var lagt fram á síðasta vorþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Farið var yfir umsagnir um frumvarpið frá umsagnaraðilum og hafa verið gerðar breytingar á frumvarpinu frá fyrri framlagningu að teknu tilliti til þeirra, eftir því sem tilefni þótti til. Nokkrar breytingar lúta einungis að orðalagi og orðanotkun eða staðsetningu ákvæða í frumvarpinu, en auk þess er um einhverjar efnisbreytingar að ræða. Þykir rétt að geta hér þeirra efnislegu breytinga sem gerðar hafa verið:
          Lagt er til að frestur Fjármálaeftirlitsins til að tilkynna rekstrarfélagi um staðfestingu verðbréfasjóðs í 1. mgr. 6. gr. og synjun um staðfestingu í 2. mgr. 7. gr. verði lengdur úr einum í tvo mánuði.
          Lagt er til að tilkynningarskyldu Fjármálaeftirlitsins skv. 2. mgr. 6. gr. til að staðfesta að umsókn sé fullbúin verði markaður tímafrestur til eins mánaðar.
          Lagt er til að tilvísun til 1. tölul. í 2. mgr. 8. gr. verði felld niður þannig að ekki verði veittur hæfilegur frestur áður en til afturköllunar kemur þegar rekstrarfélag brýtur með alvarlegum hætti eða ítrekað gegn lögunum, reglugerðum eða reglum settum samkvæmt þeim eða samþykktum.
          Lagt er til að felldur verði brott IV. kafli um hlutafélagasjóði (60.–69. gr.).
          Lagt er til að óheimilt verði að markaðssetja og koma fagfjárfestasjóðum á framfæri við almenning.
          Lagt er til að frestur rekstraraðila til að tilkynna um stofnun fagfjárfestasjóðs skv. 1. mgr. 60. gr. verði mánuður frá stofnun sjóðs.
          Lagt er til að breytingar á framkvæmdastjórum skuli tilkynna til Fjármálaeftirlitsins um leið og breytingar verða í 4. mgr. 62. gr.
          Lagt er til að í ákvæði 3. mgr. 61. gr. komi fram að ársreikningur skuli ávallt vera fjárfestum aðgengilegur.
          Lagt er til að heimild verði í 65. gr. til að kveða nánar á um eftirlit með starfsemi fagfjárfestasjóða í reglugerð sem ráðherra setur.
          Lagt er til að í viðurlagaákvæði 66. gr. verði bætt við tilvísunum til 60. og. 63. gr. laganna í 1. mgr. ákvæðisins.

V. Tilskipanir Evrópusambandsins á sviði verðbréfasjóða (UCITS).
    Tilskipun 85/611/EBE um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum, svokölluð UCITS-tilskipun (Undertakings for Collective Investments in Transferable Securities), var upphaflega innleidd með lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði. Miklar breytingar voru gerðar á tilskipuninni með tveimur tilskipunum sem voru samþykktar árið 2001, annars vegar tilskipun 2001/107/EB um stjórnsýslu verðbréfasjóða og hins vegar tilskipun 2001/ 108/EB sem setti skýrari ákvæði um fjárfestingarstefnu slíkra sjóða. Umræddar tilskipanir voru innleiddar við þá endurskoðun sem leiddi til setningar gildandi laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, nr. 30/2003.
    Með bréfi frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) dags. 31. janúar 2007 voru gerðar nokkrar athugasemdir við innleiðingu Íslands á ákvæðum tilskipana 2001/107/EB og 2001/108/EB. Breytingum vegna þessara athugasemda var lokið í október 2009 og var Eftirlitsstofnun EFTA tilkynnt það með bréfi, dags. 30. desember 2009.
    Tilskipun sem felur í sér breytingar á upprunalegu UCITS-tilskipuninni var sett 2007. Þetta er tilskipun 2007/16/EB sem felur í sér útskýringar á tilteknum skilgreiningum sem notaðar eru í tilskipun um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum. Innleiðingu hennar átti að ljúka fyrir 23. mars 2008. Stjórnskipulegum fyrirvara vegna hennar var aflétt með þingsályktun 11. mars 2009 og verða efnisákvæði tilskipunarinnar að fullu innleidd ef frumvarp þetta verður að lögum og er jafnframt gert ráð fyrir setningu reglugerðar til þess að ljúka innleiðingunni. Farin var sú leið að setja hugtaksskilgreiningar úr tilskipun 2007/16/EB í frumvarpið en skilgreiningarákvæði er einnig að finna í 2. gr. gildandi laga, nr. 30/2003. Flest ákvæði tilskipunarinnar verða innleidd með reglugerð sem fær lagastoð í frumvarpinu. Byggist sú leið á innleiðingu Norðmanna á tilskipun 2007/16/EB og fyrirkomulagi gildandi laga nr. 30/2003.
    Nú hefur litið dagsins ljós ný tilskipun um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (2009/65/EC) sem á að taka gildi 1. júlí 2011. Mun umrædd tilskipun leysa hinar fyrrnefndu af hólmi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. gr. gildandi laga nr. 30/2003 kemur fram að lögin gildi um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Hér er lagt til að tekið verði fram að lögin gildi einnig um starfsemi og rekstur fagfjárfestasjóða þar sem lagt er til að lágmarkseftirlit með fagfjárfestasjóðum verði tekið upp.
    Jafnframt er lagt til að breyta ákvæðinu um gildissvið laganna þannig að það sé í samræmi við gildissvið UCITS-tilskipunarinnar um sameiginlega fjárfestingu, sbr. 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar um að henni skuli beitt vegna sjóða um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum og/eða öðrum lausafjáreignum sem um getur í 19. gr. tilskipunarinnar. Við setningu gildandi laga var í 1. gr. þeirra tekið upp hugtakið „fjármálagerningur“ í stað „framseljanlegra verðbréfa“ sem var notað í eldri lögum nr. 10/1993 en með þeim lögum var fyrsta UCITS-tilskipunin (85/611/EBE) innleidd í íslenskan rétt. Í 5. tölul. 2. gr. gildandi laga er vísað til skilgreiningar laga um verðbréfaviðskipti um skýringu á hugtakinu „fjármálagerningur“. Í 1. gr. gildandi laga er mælt fyrir um einkarétt verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða til að veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í fjármálagerningum, þ.e. framseljanlegum verðbréfum og öðrum lausafjáreignum, á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu. Rétt þykir að breyta ákvæðinu til fyrra horfs og leggja þannig áherslu á hugtökin „framseljanleg verðbréf“ og „lausafjáreignir“ enda er það í samræmi við UCITS-tilskipunina og styrkist það sjónarmið enn fremur við innleiðingu á tilskipun 2007/16/EB. Jafnframt er lagt til að í 2. gr. laganna verði hugtakið „framseljanleg verðbréf“ skýrt nánar.
    Þar sem hér er um heildarlög að ræða og litlar aðrar breytingar gerðar á 1. gr. laganna þykir samhengisins vegna rétt að rifja upp hluta skýringa við 1. gr. gildandi laga nr. 30/2003 sem varðar skýringu á hugtökum sem beitt er í 1. gr. en að öðru leyti er eftir atvikum vísað til athugasemda með þeim lögum. Með orðalaginu „viðtaka fjár“ er átt við að sjóður sé opinn (e. open-ended), þ.e. hann fær nýtt fjármagn með því að selja ný skírteini. Í því felst ekki að sjóður sé með stöðugt útboð í gangi heldur er nægjanlegt að sjóðurinn fái nýtt fjármagn frá fjárfestum með reglulegu millibili og almenningur eigi auðveldan aðgang að bréfum hans. Með „sameiginlegri fjárfestingu“ í verðbréfum og öðrum eignum er átt við þá starfsemi sjóða að taka við fé frá fjárfestum til að endurfjárfesta. Með „áhættudreifingu“ er átt við að sjóður leitist við með kerfisbundnum hætti að lágmarka áhættu verðbréfasafns síns með því að fjárfesta í fjármálagerningum margra útgefenda samkvæmt viðurkenndum aðferðum (e. portfolio management). Slíka starfsemi verður að telja til fjármálastarfsemi. Hins vegar verður ekki talið að eignarhaldsfélög sem hafa það að markmiði að halda utan um ráðandi eignarhluta í félögum stundi áhættudreifingu í þessum skilningi. Með „fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu“ er átt við að sjóður verður að móta sér stefnu um það hvernig ráðstafa skuli fé sem hann veitir viðtöku frá fjárfestum. Fjárfestingarstefnan verður að vera fjárfestum aðgengileg. Ekki er þó hægt að komast undan ákvæðum laga þessara með því að láta hjá líða að kunngera fjárfestingarstefnu, séu önnur skilyrði uppfyllt.

Um 2. gr.


    Lagt er til að bæta orðskýringaákvæði laganna verulega þannig að finna megi á einum stað í lögunum skýringar á helstu hugtökum. Í gildandi lögum er í sumum tilvikum að finna skilgreiningar á hugtökum í efnisumfjöllun lagatextans en betur þykir fara á að hafa hugtakaskýringar á einum stað. Vakin er athygli á að í almennum athugasemdum þessa lagafrumvarps er að finna upptalningu á helstu tegundum verðbréfa- og fjárfestingarsjóða sem starfræktir eru hér á landi.
    Verðbréfasjóði er heimilt að markaðssetja á Evrópska efnahagssvæðinu. Í þessu felst að verðbréfasjóðir hafa Evrópupassa, þ.e. verðbréfasjóður sem hefur fengið starfsleyfi í einu af aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins getur á grundvelli þess markaðssett hlutdeildarskírteini sín í sérhverju hinna ríkjanna án þess að þurfa til þess sérstakt leyfi stjórnvalda. Verðbréfasjóðir uppfylla öll skilyrði tilskipunar um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (UCITS).
    Fjárfestingarsjóðir uppfylla ekki tilskipun um sameiginlega fjárfestingu og geta því ekki markaðssett hlutdeildarskírteini sín á Evrópska efnahagssvæðinu án starfsleyfis í viðkomandi ríki. Um markaðssetningu fjárfestingarsjóða í öðru ríki fer því eftir lögum hlutaðeigandi ríkis. Ólíkt verðbréfasjóðum fer innlausn þeirra ekki fram að kröfu hlutdeildarskírteinishafa heldur samkvæmt reglum sjóðsins, sbr. III. kafla. Heitin verðbréfasjóður og fjárfestingarsjóður eiga að endurspegla núverandi hugtakanotkun á fjármálamarkaði. Hugtakið verðbréfasjóður hefur fest sig í sessi hér á landi og stendur fyrir hlutdeild í áhættudreifðu safni verðbréfa sem ávallt eru innleysanleg. Hugtakið fjárfestingarsjóður hefur á undanförnum árum verið notað hér á landi um sjóði sem hafa áhættusamari fjárfestingarstefnu en annað einkenni þeirra er að þeir mega ekki markaðssetja hlutdeildarskírteini sín annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Með þessu frumvarpi er lagt til að lögin nái einnig til fagfjárfestasjóða og er lagt til að þeir lúti skráningu og lágmarkseftirliti. Fagfjárfestasjóðir eru sjóðir um sameiginlega fjárfestingu en það sem skilur þá frá verðbréfasjóðum og fjárfestingarsjóðum er að þeir standa aðeins fagfjárfestum til boða. Almenningi er því ekki heimilt að fjárfesta hjá fagfjárfestasjóði og raunar er óheimilt að markaðssetja og kynna slíka sjóði fyrir almenningi. Fjárfestingarheimildir fagfjárfestasjóða eru enda mun rýmri og reyndar eru engar takmarkanir á þeim. Fjárfesting í fagfjárfestasjóðum er því eðli málsins samkvæmt mun áhættusamari en í þeim sjóðum sem bjóðast almenningi. Það þykir hins vegar ásættanlegt í ljósi þess að ekki getur verið um að ræða almenna neytendavernd gagnvart umræddum fjárfestum, sem eins og nafnið bendir til hafa það að meginstarfa að sérhæfa sig í fjárfestingum. Rekstrarfélag gefur út hlutdeildarskírteini til þeirra sem fá sjóði fé til ávöxtunar. Skírteinin eru innleysanleg að kröfu eigenda af eignum sjóðsins. Um innlausn hlutdeildarskírteina fer skv. II. kafla E, þ.e. 27.–29. gr. Rekstrarfélag er fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Í þessum lögum er hugtakið stytt í rekstrarfélag. Rekstrarfélagi er heimilt að reka sjóði um sameiginlega fjárfestingu samkvæmt lögunum. Rekstrarfélag ber ábyrgð á rekstri verðbréfasjóðs og er auk þess sú lögpersóna sem gætir hagsmuna verðbréfasjóðs.
    Í gildandi lögum er vísað til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, um skilgreiningu á hugtakinu fjármálagerningur. Í störfum nefndarinnar var horft til laga um verðbréfaviðskipti að því er varðar skilgreiningu á hugtakinu verðbréf og fjallað um hvort beita mætti sömu hugtaksskýringu og þar er að finna. Í greininni er mælt fyrir um einkarétt verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða til að veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í fjármálagerningum, þ.e. framseljanlegum verðbréfum og öðrum lausafjáreignum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu. Rétt þykir að breyta orðalagi ákvæðisins til fyrra horfs, þ.e. eins og það var orðað í lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði. Með tilskipun 2007/16/EB, sem felur í sér breytingar á upprunalegu UCITS-tilskipuninni, nr. 85/611/EB, eru sett fram sjónarmið sem eiga að auðvelda aðildarríkjunum að þróa sameiginlegan skilning á því hvort tiltekinn eignaflokkur sé hæfur til fjárfestingar fyrir verðbréfasjóð. Niðurstaða nefndarinnar var sú að leggja til að taka upp í 2. gr. laganna skilgreiningu á hugtakinu „framseljanleg verðbréf“ eins og það er skýrt í tilskipun um sameiginlega fjárfestingu með síðari breytingum. Lög um verðbréfaviðskipti og lög um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði byggjast á sitthvorri tilskipuninni, annars vegar MiFID-tilskipuninni, sem er innleidd með lögum um verðbréfaviðskipti, og hins vegar UCITS-tilskipuninni, sem er innleidd með lögum um verðbréfasjóði. Skilgreining þessara tilskipana á hugtakinu verðbréf er ólík að því leyti að skilgreining UCITS-tilskipunarinnar er tæmandi (framseljanleg verðbréf) og þrengri en skilgreining MiFID-tilskipunarinnar (verðbréf). Nefndin taldi, að vel athuguðu máli og þrátt fyrir að sterk rök hnígi til þess að sömu hugtök séu skilgreind á sama hátt í lögum, að það væri engu að síður rétt að fylgja skilgreiningu UCITS-tilskipunarinnar. Er þessi niðurstaða samhljóða þeirri leið sem farin var við innleiðingu tilskipunarinnar í Noregi. Verði frumvarpið samþykkt að þessu leyti verður því að finna í 2. gr. laganna tæmandi talningu á því hvaða verðbréf falli undir flokkinn framseljanleg verðbréf og séu þar með hæfur fjárfestingarkostur fyrir verðbréfasjóði.
    Lagt er til að í 8. tölul. verði skilgreining á peningamarkaðsskjölum en hingað til hefur slíka hugtaksskilgreiningu ekki verið að finna í lögum þrátt fyrir að vísað sé til peningamarkaðsskjala í 30. gr. gildandi laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Stuðst er við skilgreiningu hugtaksins eins hún kemur fram í lögum um verðbréfaviðskipti, þ.e. að um sé að ræða þá flokka gerninga sem viðskipti fara venjulega fram með á peningamarkaði, svo sem ríkisvíxla, innlánsskírteini og viðskiptabréf að undanskildum greiðsluskjölum. Með greiðsluskjölum er m.a. átt við ávísanir, víxla og önnur sambærileg greiðsluskjöl, sbr. a-lið 7. tölul. 1. mgr. 20. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Að auki skulu peningamarkaðsskjöl í þessum skilningi uppfylla skilyrði UCITS-tilskipunarinnar um að gerningarnir séu auðseljanlegir og líftími þeirra ekki lengri en 397 dagar. Með auðseljanlegum gerningum er átt við að almennt sé álitið að skjölin seljist á skömmum tíma og með litlum tilkostnaði fyrir seljanda, í frumtexta tilskipunarinnar er þetta orðað sem „financial instruments which can be sold at limited cost in an adequately short time frame“. Líftími telst vera tíminn frá kaupdegi til gjalddaga. Í greininni er tekið fram að viðskipti með peningamarkaðsskjöl fari venjulega fram á peningamarkaði. Það er því ekki útilokað að viðskipti með peningamarkaðsskjöl fari fram á skipulegum verðbréfamarkaði, uppfylli peningamarkaðsskjalið önnur skilyrði laganna.
    Hlutdeildarskírteini er ein tegund fjármálagerninga samkvæmt lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og vísast til frumvarps til þeirra laga um skýringu á hugtakinu.
    Í 10. og 11. tölul. er bætt við skýringum á hugtökunum „fagfjárfestir“ og „almenningur“. Ekki er farin sú leið að að setja sérstakan mælikvarða um stærð ákveðinna viðskipta til þess að segja til um hvort um fagfjárfesti sé ræða, heldur er vísað til laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, að þessu leyti. Hins vegar er ljóst að með þeirri starfsemi verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða að taka við fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar felst að verðbréfa- eða fjárfestingarsjóði er ekki heimilt að setja reglur eða skilyrði um lágmark fjárfestingar. Til skýringar má nefna að verðbréfasjóði væri ekki heimilt að gera það að skilyrði viðtöku fjár frá einstaklingi að fjárfesting hans næmi að lágmarki 3 millj. kr. Óheimilt er því að setja einhvers konar lágmörk á fjárfestingar almennings í verðbréfasjóði, enda færi slíkt gegn hugmyndafræði UCITS-sjóða. Litið er svo á að viðurkenndur gagnaðili falli undir undirskilgreininguna á fagfjárfesti eins og lesa má út frá lögum um verðbréfaviðskipti. Það er því ljóst að „viðurkenndum gagnaðilum“ er heimilt að fjárfesta í fagfjárfestasjóðum.
    Í 12. og 13. tölul. 2. gr. er að finna skilgreiningu á hugtökunum „reiðufé“ og „innlán“. Borið hefur á misskilningi á hugtökunum þar sem talið hefur verið að um sama hlut sé að ræða. Með skilgreiningu á reiðufé er ætlað að bæta úr þessum misskilningi. Skilgreiningin er að hluta til neikvæð þar sem skýrt er tekið fram að reiðufé teljist ekki til innlána og sé ekki hluti af fjárfestingarstefnu sjóðs.
    Að lokum er að finna í 14. og 15. tölul. útskýringar á tveimur hugtökum sem koma oft fyrir í lögunum. Annars vegar er um að ræða hugtakið „markaðssetning“ en með því er m.a. átt við hvers konar tilboð eða hvatningu, með auglýsingum eða annarri kynningu, um kaup á hlutdeildarskírteinum eða hlutum í verðbréfasjóði eða öðrum sjóði um sameiginlega fjárfestingu. Þessa skilgreiningu var áður að finna í 13. gr. reglugerðar nr. 792/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Með tilliti til þess að verið er að stórbæta orðskýringaákvæði laganna þótt eðlilegt að hafa slík ákvæði öll staðsett á sama stað. Hins vegar er um að ræða hugtakið „staðfesting“. Með staðfestingu verðbréfa- eða fjárfestingarsjóðs er átt við heimild Fjármálaeftirlitsins til handa rekstrarfélagi til að starfrækja verðbréfa- eða fjárfestingarsjóð. Það orðalag er notað í frumvarpi þessu og gildandi lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði að slíkir sjóðir sem gefa út hlutdeildarskírteini fá svokallaða staðfestingu Fjármálaeftirlitsins en ekki starfsleyfi. Ástæðan fyrir þessari hugtakanotkun er sú að verðbréfasjóðir og fjárfestingarsjóðir sem gefa út hlutdeildarskírteini eru ekki lögaðilar heldur stofnaðir og reknir af rekstrarfélögum sem eru með starfsleyfi og hafa farið í gegnum umfangsmikinn starfsleyfisferil. Það var því talið eðlilegt að nota hugtakið staðfesting en ekki starfsleyfi um heimildir sjóðanna til þess að hefja starfsemi.

Um 3. gr.


    Ákvæði 3. gr. er nánast efnislega óbreytt frá gildandi lögum. Í 2. mgr. er lögð til lítils háttar breyting á ákvæðinu sem felst í því að Fjármálaeftirlitinu er einnig falið að halda skrá yfir fagfjárfestasjóði og jafnframt er tekið fram að hana skuli birta opinberlega en í því felst t.d. birting á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins. Jafnframt er lagt til að í lögunum verði sérstakur kafli um fagfjárfestasjóði og að þeir muni lúta lágmarkseftirliti og skráningu hjá Fjármálaeftirlitinu (V. kafli). Ekki er talið að um mjög íþyngjandi ákvæði sé að ræða, þar sem meiri hagsmunir en minni eru fólgnir í því að vitað sé um starfrækslu og starfsemi slíkra sjóða. Að öðru leyti er vísað til athugasemda við 3. gr. gildandi laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði.

Um 4. gr.


    Í greininni sem samsvarar 5. gr. gildandi laga er fjallað um staðfestingu verðbréfasjóða. Fjármálaeftirlitið veitir verðbréfasjóðum staðfestingu. Með staðfestingu er átt við að Fjármálaeftirlitið hafi staðfest að öll gögn sem verðbréfa- eða fjárfestingarsjóði er skylt að gefa út séu í samræmi við lög, reglur, reglugerðir og önnur gögn sem um sjóðina gilda. Þeir teljast ekki lögaðilar enda stofnaðir og reknir af rekstrarfélagi sem hefur hlotið starfsleyfi Fjármálaeftirlitsins í samræmi við lög um fjármálafyrirtæki. Verðbréfasjóðum er óheimilt að hefja starfsemi án staðfestingar. Það felur jafnframt í sér að sjóðunum er óheimilt að hefja kynningu eða markaðssetningu, sbr. 17. gr. nema að henni fenginni.
    Í 5. mgr. 1. gr. UCITS-tilskipunarinnar um sameiginlega fjárfestingu með síðari breytingum, kemur fram að einstök aðildarríki skuli banna að verðbréfasjóðum (UCITS), sem falla undir tilskipunina, sé breytt í aðrar tegundir sjóða um sameiginlega fjárfestingu sem falli ekki undir tilskipunina. Þetta þýðir m.ö.o. að ekki er heimilt að breyta verðbréfasjóðum (UCITS) í aðrar tegundir sjóða. Í 2. mgr. 5. gr. gildandi laga nr. 30/2003 kemur fram að óheimilt sé að breyta verðbréfasjóðum samkvæmt lögunum í sjóði sem lögin taki ekki til. Lögin taka hins vegar bæði til verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða, sbr. 1. gr. laganna. Fjárfestingarsjóðir eru sjóðir sem veita viðtöku fé frá almenningi, líkt og verðbréfasjóðir, en hafa hins vegar ekki svokallaðan Evrópupassa, þ.e. hafa ekki heimild til markaðssetningar á Evrópska efnahagssvæðinu, og falla þar með ekki undir tilskipunina. Því er ljóst að framangreint ákvæði tilskipunarinnar hefur ekki verið innleitt með réttum hætti og miðar breytingin að því að færa ákvæði laganna til samræmis við tilskipunina. Ekki hefur verið mikið um að verðbréfasjóðum hafi verið breytt í fjárfestingarsjóði, en þó er þekkt að það hafi verið gert. Fjármálaeftirlitið hefur ekki talið að sér væri lagalega stætt á að hafna slíkri breytingu þrátt fyrir að um augljósa innleiðingarvillu hafi verið að ræða í lögum nr. 30/2003. Fjármálaeftirlitið hefur því samþykkt slíkt en með þröngum skilyrðum.

Um 5. gr.


    Greinin samsvarar 6. gr. gildandi laga og fjallar um umsókn rekstrarfélags um staðfestingu en ákvæðið er efnislega óbreytt. Umsókn um staðfestingu skal vera skrifleg og henni skulu fylgja reglur sjóðsins, útboðslýsing og útdráttur úr útboðslýsingu, upplýsingar um stjórnendur o.fl. sem Fjármálaeftirlitið ákveður.

Um 6. gr.


    Í 1. málsl. 1. mgr. greinarinnar sem samsvarar 7. gr. gildandi laga er fjallað um veitingu staðfestingar sem skal tilkynnt umsækjanda svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir móttöku umsóknar í stað eins mánaðar frests í gildandi lögum. Í 2. málsl. 1. mgr. 7. gr. er Fjármálaeftirlitinu markaður frestur til eins mánaðar til að tilkynna umsækjanda þegar umsókn telst fullbúin, og er það nýmæli. Í athugasemdum við 7. gr. gildandi laga segir um skýringu ákvæðisins:
    „Vakin er athygli á því að það er Fjármálaeftirlitsins að meta hvenær umsókn telst fullbúin. Til að umsækjandi sé ekki í vafa um hversu lengi þurfi að bíða úrlausnar Fjármálaeftirlitsins er til áréttingar tekið fram að tilkynna skuli umsækjandanum um það þegar umsókn telst fullnægjandi með þeim réttaráhrifum að frestur fari að líða.“
    Í 2. mgr. er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið skuli birta tilkynningar um staðfestingu verðbréfasjóða opinberlega. Í gildandi lögum er kveðið á um birtingu í Lögbirtingablaði en telja verður að slík opinber birting geti allt eins orðið með auglýsingu eða birtingu í dagblöðum eða á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins sem komi almenningi jafnvel frekar að gagni þar sem dreifing á Lögbirtingablaði er ekki almenn.

Um 7. gr.


    Í þessu ákvæði er fjallað um synjun staðfestingar og tekur 1. mgr. ekki efnislegum breytingum frá samsvarandi ákvæði 8. gr. gildandi laga. Þá er 2. mgr. breytt til samræmis við 6. gr. þannig að Fjármálaeftirlitið skuli rökstyðja synjun staðfestingar og tilkynna umsækjanda innan tveggja mánaða frá móttöku fullbúinnar umsóknar í stað eins mánaðar í gildandi lögum.

Um 8. gr.


    Nokkrar breytingar eru lagðar til á 9. gr. gildandi laga um afturköllun staðfestingar en greinin verður 8. gr. ef frumvarpið verður að lögum. Umræddar breytingar miða að því að skýra nánar þau skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt til þess að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að afturkalla staðfestingu verðbréfasjóðs.
    Í 2. tölul. 1. mgr. er lagt til að Fjármálaeftirlitið fái heimild til að afturkalla staðfestingu verðbréfasjóðs ef hann uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir staðfestingu. Litið er svo á að slíkt úrræði sé mun vægara gagnvart rekstrarfélögunum en ef bíða þyrfti þess að ítrekað hefði verið brotið gegn lögunum eins og áskilið er í 1. tölul. Þetta heimildarákvæði er að finna í c-lið 5. mgr. 5. gr. a tilskipunar 85/611/EBE um sameiginlega fjárfestingu, eins og henni var breytt með tilskipun 2001/107/EB. Sú röksemd sem liggur að baki þessari tillögu varð greinileg í kjölfar bankahrunsins í október 2008. Þá kom í ljós að forsendur fyrir rekstri verðbréfasjóða er líktu eftir OMXI-15 vísitölunni (úrvalsvísitölu Kauphallar Íslands) voru brostnar. Samkvæmt núgildandi lögum hefði eingöngu verið mögulegt að afturkalla staðfestingu slíkra sjóða með því að beita 1. tölul. ákvæðisins sem er hins vegar mjög íþyngjandi fyrir rekstrarfélög verðbréfasjóða. Þessu ákvæði er því ætlað að veita heimild til afturköllunar án þess að lög, reglur, samþykktir eða annað hafi verið brotið.
    Í 3. tölul. 1. mgr. núgildandi laga sem breytist í 4. tölul. 1. mgr. ef frumvarpið verður að lögum, er bætt við orðunum „eftir að markaðssetning hófst“ þannig að ljóst sé að sjóðurinn þurfi að hafa náð tiltekinni lágmarksstærð að minnsta kosti þremur mánuðum eftir að markaðssetning hófst. Áður var miðað við tímamarkið þremur mánuðum eftir staðfestingu en ljóst þótti að það væru of ströng skilyrði sem að auki gætu ekki gengið upp með tilliti til orðalags 3. og 4. tölul. Þetta felur í sér að að þremur mánuðum liðnum frá upphafi markaðssetningar skulu umrædd lágmarksskilyrði uppfyllt á hverjum tíma,
    Í 5. tölul. 1. mgr. er lagt til að nýr töluliður bætist við þar sem áréttað er að heimild Fjármálaeftirlitsins til þess að afturkalla staðfestingu verðbréfasjóðs sé virk fari sjóðurinn á einhverjum tímapunkti niður fyrir þau stærðarmörk sem tilgreind eru í 4. tölul. Ástæður þessa eru að 3. tölul. núgildandi laga nær aðeins yfir fyrstu þrjá mánuðina sem sjóðurinn er starfræktur, en ekki er tekið á því með beinum hætti hvað skuli gera eftir þann tíma ef sjóðurinn fer niður fyrir tilskilin lágmörk.
    Ekki eru lagðar til miklar breytingar á 2. mgr. en þar er kveðið á um að afturköllunarúrræði 1. mgr. verði ekki beitt án þess að rekstrarfélagi hafi fyrst gefist færi á að færa starfsemi sína í löglegt horf. Þó kunna að vera fyrir hendi þær aðstæður að frestur gæti leitt til tjóns t.d. fyrir viðskiptamenn fyrirtækisins og getur því ekki verið um fortakslausan rétt rekstrarfélags að ræða hvað þetta snertir. Hefur því tilvísun til 1. tölul. verið felld niður þar sem ekki þykir ástæða til að veita hæfilegan frest til úrbóta þegar fyrirtæki hefur brotið með alvarlegum hætti eða ítrekað gegn lögunum.

Um 9. gr.


    Í greininni er fjallað um tilkynningu um afturköllun og samsvarar hún 10. gr. gildandi laga. Í 3. málsl. er lagfærð röng hugtakanotkun í gildandi lögum. Í stað þess að fjalla um starfrækslu útibús verðbréfasjóðs í öðru aðildarríki er réttara að nota orðalagið markaðssetning verðbréfasjóðs. Ástæðan er sú að verðbréfasjóðir stofna ekki útibú heldur eru þeir sjóðir markaðssettir. Ákvæðið tekur við þessar breytingar ekki efnislegum breytingum og þarfnast ekki nánari skýringa.

Um 10. gr.


    Í ákvæðinu segir að verðbréfasjóðum sé einum heimilt að nota hugtakið „verðbréfasjóður“ í heiti sínu. Þetta ákvæði tekur ekki efnislegum breytingum og vísast til athugasemda við 11. gr. gildandi laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, nr. 30/2003.

Um 11. gr.


    Í ákvæðinu er fjallað um reglur verðbréfasjóðs sem rekstrarfélag setur. Þetta ákvæði samsvarar 12. gr. gildandi laga.
    Lagt er til að bæta við nýrri 2. mgr. þar sem ráðherra er heimilað að setja reglugerð sem kveði nánar á um afmörkun á fjárfestingarstefnu verðbréfasjóðs. Dæmi eru um að sjóðir lýsi fjárfestingarstefnu sinni á þann veg að þeim sé heimilt að fjárfesta 0–100% í tilteknum eignaflokki, sem verður að teljast ófullnægjandi upplýsingagjöf. Þegar svo rúm heimild til fjárfestinga er til staðar vegna fleiri en eins eignaflokks er vart hægt að tala um eiginlega fjárfestingarstefnu. Nefndin hafði við samningu frumvarpsins velt fyrir sér að lögfesta ákveðnar skorður á fjárfestingarstefnu sjóðanna, t.d. á þann veg að munur á efri og neðri mörkum heimildar sjóðs til að fjárfesta í tilteknum eignaflokki skyldi ekki vera meiri en 40%. Samdóma álit nefndarinnar var að lögfesting slíks ákvæðis gæti orðið of íþyngjandi og væri því eðlilegra að veita ráðherra umrædda reglugerðarheimild. Ráðherra gæti þá jafnframt sett önnur skilyrði til lýsingar á fjárfestingarstefnu en að takmarka mun á efri og neðri mörkum stefnunnar. Auk þess felur reglugerðarheimildin í sér að kveða megi á um upplýsingagjöf til viðskiptavina í tengslum við fjárfestingar, t.d. um stærð fjárfestinga í tengdum aðilum o.fl. Ekki eru lagðar til efnislegar breytingar á 2. mgr. sem breytist í 3. mgr. verði frumvarpið að lögum en orðalagi er breytt lítillega til þess að auka skýrleika greinarinnar. Að lokum er lagt til að við síðari málslið 3. mgr. 11. gr., sem breytist í 4. mgr. verði frumvarpið að lögum, verði bætt við að undanþága Fjármálaeftirlitsins vegna tilkynningar til hlutdeildarskírteinishafa á breytingum á reglum sjóðs skuli vera skrifleg. Þessu ákvæði er ætlað að tryggja að enginn vafi sé á hvort undanþága hafi verið veitt eða ekki.
    Að öðru leyti er vísað til athugasemda við 12. gr. gildandi laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, nr. 30/2003.

Um 12. gr.


    Í greininni, sem samsvarar 13. gr. gildandi laga, er fjallað um deildaskiptingu verðbréfasjóða en heimilt er að starfrækja verðbréfasjóð í aðgreindum deildum. Í athugasemdum við 13. gr. gildandi laga segir að flestir íslenskir verðbréfasjóðir séu deildaskiptir. Kveðið er á um að hver sjóðsdeild skuli hafa aðgreindan fjárhag innan rekstrarfélags. Með þessu er hnykkt á þeirri meginreglu, sem almennt hefur verið viðurkennd í starfsemi verðbréfasjóða, að eigendur hlutdeildarskírteina eigi einungis kröfur á þá deild sem þeir hafa átt viðskipti við.
    Í 2. mgr. er tiltekið að rekstrarfélög verðbréfasjóða beri ekki ábyrgð á skuldbindingum einstakra verðbréfasjóða eða deilda þeirra og aðeins eignir hvers sjóðs eða deildar standi til fullnustu skuldbindingum viðkomandi sjóðs eða deildar. Ekki er litið svo á að um efnisbreytingu sé að ræða og hefur framkvæmdin verið í samræmi við framangreint. Eiga því eigendur hlutdeildarskírteina einungis kröfu til hlutdeildar í eignum viðkomandi sjóðs eða deildar sem þeir eru eigendur í en geta ekki gert tilkall til eigna rekstrarfélags eða annarra sjóða eða deilda í rekstri rekstrarfélags. Rétt þykir þó að taka af allan vafa í þessu efni, m.a. með hliðsjón af fjárfestingarheimildum fjárfestingarsjóða, en umrætt ákvæði á jafnframt við um fjárfestingarsjóði sbr. 1. mgr. 57. gr. frumvarpsins. Fjárfestingarsjóðir hafa m.a. heimildir til að fjármagna sig með lántökum að tilteknu marki. Ef illa gengur í rekstri slíks sjóðs, eða tiltekinnar deildar, getur það leitt til þess að skuldheimtumenn geri tilkall til eigna sjóðsins/deildarinnar. Með þeirri breytingu sem lögð er til er tekinn af allur vafi um að í slíkum tilvikum ættu skuldheimtumenn, eins og eigendur hlutdeildarskírteina, einungis kröfu til eigna viðkomandi sjóðs/deildar en gætu ekki gengið að eignum rekstrarfélags eða annarra sjóða eða deilda þeirra í rekstri rekstrarfélags. Þetta ákvæði víkur þó ekki til hliðar skaðabótaábyrgð rekstrarfélags hafi starfsmenn þess sýnt af sér saknæma háttsemi og öðrum skilyrðum skaðabótaskyldu er fullnægt.

Um 13. gr.


    Fjallað er um sjóðsmyndun í 13. gr. frumvarpsins. Ákvæðið tekur ekki efnislegum breytingum frá 14. gr. gildandi laga og þarfnast ekki nánari skýringa.

Um 14. gr.


    Nokkrar breytingar eru lagðar til á hæfisreglum í frumvarpinu. Lagt er til að sú krafa verði gerð til framkvæmdastjóra rekstrarfélaga og sjóðstjóra verðbréfa- og fjárfestingarsjóða að þeir hafi staðist próf í verðbréfaviðskiptum eða hafi hlotið löggildingu til þess, sbr. lög um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt núgildandi lögum eru ekki gerðar sérstakar hæfiskröfur til sjóðstjóra. Með rekstri verðbréfa- og fjárfestingarsjóða er sýslað með mikla fjármuni almennings og því eðlilegt að gerð sé sú krafa að þeir sem sinna daglegri stýringu sjóða og framkvæmdastjórar rekstrarfélaga hafi nægilega þekkingu og hæfni til að bera.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að hæfi stjórnenda og sjóðstjóra fari að öðru leyti eftir lögum um fjármálafyrirtæki. Með stjórnendum er átt við þá aðila sem fara með daglegan rekstur rekstrarfélags verðbréfasjóða, þ.e. framkvæmdastjóra. Í ákvæðinu er vísað til ákvæða laga um fjármálafyrirtæki er varða hæfisskilyrði en þar kemur fram sú krafa að framkvæmdastjórar séu lögráða, megi ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota eða í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um fjármálafyrirtæki eða löggjöf um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi. Eðlilegt þykir að sama krafa sé gerð til sjóðstjóra þar sem þeir sýsla daglega með fjármuni almennings.
    Til viðbótar framangreindum skilyrðum skulu sjóðstjórar og framkvæmdastjóri búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt. Þeir mega ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að ætla að þeir misnoti aðstöðu sína eða skaði fyrirtækið. Verði þetta ákvæði að lögum er rétt að veita þeim aðilum sem hafa umrædd störf með höndum ákveðinn aðlögunarfrest til þess að afla sér nauðsynlegrar menntunar. Í bráðabirgðaákvæði III er lagt til að sá frestur verði tvö ár frá gildistöku laganna.

Um 15. gr.


    Í ákvæðinu er fjallað um aðskilnað reksturs og vörslu og óhæði stjórnarmanna rekstrarfélaga. Lagt er til að kveðið verði á um að meiri hluti stjórnarmanna rekstrarfélags skuli vera óháður móðurfélagi og vörslufyrirtæki.
    Rekstrarfélög verðbréfasjóða eru sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sem sinna rekstri sjóða um sameiginlega fjárfestingu. Hér á landi eru ýmist bankar eða verðbréfafyrirtæki eigendur rekstrarfélaga verðbréfasjóða. Í mörgum tilvikum eru þessir aðilar jafnframt vörslufyrirtæki fyrir sjóði rekstrarfélaga. Vörslufyrirtækjum ber að varðveita eignir verðbréfasjóða auk þess sem þeim er ætlað tiltekið eftirlitshlutverk eins og fram kemur t.d. í 20. gr. laga nr. 30/2003. Í einhverjum tilvikum, en þó ekki öllum, hafa starfsmenn móðurfélags rekstrarfélags skipað að fullu stjórn viðkomandi rekstrarfélags. Með tilliti til kröfu 10. gr. UCITS-tilskipunarinnar um sameiginlega fjárfestingu, um að rekstrarfélög skuli vera óháð í störfum sínum og ætíð hafa hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteinishafa að leiðarljósi, eru lagðar til auknar kröfur til óhæðis rekstrarfélags og stjórnarmanna þess. Lagt er til að auka kröfur til óhæðis rekstrarfélaga annars vegar og móðurfélaga og vörslufyrirtækja hins vegar á þann veg að tilteknum starfsmönnum móðurfélags og vörslufyrirtækis er ekki heimilt að sitja í stjórn rekstrarfélags, auk þess sem sú krafa er gerð að meiri hluti stjórnarmanna rekstrarfélags sé ekki í tilteknum tengslum við móðurfélag eða vörslufyrirtæki. Þessu ákvæði er ætlað að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra sem upp geta komið og auka trúverðugleika rekstrarfélaganna.
    Litið var svo á að í ljósi þess fámennis og tengsla sem eru óhjákvæmileg hér á landi, einkum vegna smæðar þjóðarinnar, yrði að ganga lengra í óhæðisskilyrðum stjórna rekstrarfélaga en almennt um fjármálafyrirtæki enda augljóst að mikil tengsl eru algeng á milli rekstrarfélaga og vörslufyrirtækja og/eða móðurfyrirtækja. Sem dæmi má nefna, eins og algengt er, að framkvæmdastjóri eignastýringarsviðs móðurfélags rekstrarfélags sitji í stjórn rekstrarfélagsins. Slíkt getur valdið hagsmunaárekstrum þar sem framkvæmdastjóri eignastýringarsviðs teldist án efa lykilstarfsmaður annars fjármálafyrirtækis sem sinnir að hluta til sömu verkefnum og rekstrarfélagið. Seta hlutaðeigandi í stjórn rekstrarfélagsins væri til þess fallin að valda hagsmunaárekstrum á þann veg að hann gæti, sem stjórnarmaður, fengið upplýsingar sem eiga leynt að fara og ekki berast á milli tveggja fjármálafyrirtækja. Þetta getur sérstaklega átt við þegar félögin sinna sömu starfsemi og eru þannig samkeppnisaðilar. Hér getur m.a. verið um fjárhagslegar og viðskiptalegar upplýsingar að ræða, bæði að því er varðar rekstrarfélagið sjálft og viðskiptamenn sem jafnframt eru samkeppnisaðilar móðurfélagsins. Í dæmi sem þessu gæti seta framkvæmdastjóra eignastýringarsviðs móðurfélags í stjórn rekstrarfélagsins skaðað orðspor og trúverðugleika félagsins út á við sem fæli þar með í sér brot gegn 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, sbr. einnig 1. mgr. 10. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Tilgangur þessa ákvæðis er einnig að koma í veg fyrir að stjórn fjármálafyrirtækis verði óstarfhæf vegna vanhæfis. Í 2. mgr. 55. gr. laga um fjármálafyrirtæki kemur fram að stjórnarmenn teljist vanhæfir til að taka þátt í meðferð máls ef mál varðar viðskipti þeirra sjálfra eða fyrirtækja sem þeir sitja í stjórn hjá, eru fyrirsvarsmenn fyrir eða eiga að öðru leyti verulegra hagsmuna að gæta í eða viðskipti samkeppnisaðila framangreindra aðila. Í skýringum með þessu ákvæði segir að það styðst við þau augljósu rök að tengsl stjórnarmanns við t.d. fyrirtæki geta leitt til þess að hann geti ekki litið hlutlausum augum á viðskiptaerindi frá keppinaut þess og á hinn bóginn kann þátttaka stjórnarmanns í meðferð máls að leiða til þess að hann komist yfir upplýsingar varðandi viðkvæma samkeppnis- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækis sem á í samkeppni við aðila sem honum er tengdur.
    Rekstrarfélögum verðbréfasjóða er eins og fram kemur í 2. mgr. ætlað að vera óháð í störfum sínum og hafa ætíð hagsmuni hlutdeildarskírteinishafa að leiðarljósi. Til þess að rekstrarfélag geti uppfyllt ýtrustu kröfur um óhæði er nauðsynlegt að stjórn þess sé óháð félaginu sjálfu og stórum hluthöfum. Telja verður líkur á að stjórn sem er óháð félaginu sjálfu eða móðurfélagi þess og vörslufyrirtæki, sé betur til þess fallin að gæta hagsmuna félagsins og þá einnig hlutdeildarskírteinishafa. Að öðrum kosti gæti skapast sú áhætta að hagsmunir hlutdeildarskírteinishafa væru ekki fyllilega tryggðir. Komi sú aðstaða upp, færi það gegn áskilnaði 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, sbr. einnig 1. mgr. 10. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Í athugasemdum við 19. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, segir að við skýringu á því hvað felst í hugtökunum eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir og venjur verði bæði litið til fyrirmæla sem leiðir af settum lögum, reglugerðum, reglum og leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins auk almennari siðareglna. Ígildi siðareglna hafa verið settar fyrir fyrirtæki en hér er átt við Stjórnarhætti fyrirtækja (e. corporate governance) sem eru útgefnar af Kauphöll Íslands, Viðskiptaráði Íslands og Samtökum atvinnulífsins. Verður að telja að hliðsjón megi hafa af framangreindum reglum þegar metið er hvað teljist vera heilbrigðir og eðlilegir viðskiptahættir, en þar kemur fram að stjórnarmaður teljist ekki óháður félagi ef hann er eða hefur verið starfsmaður fyrirtækisins eða fyrirtækjasamsteypunnar undanfarin 3 ár.
    Með lykilstarfsmanni í 2. málsl. 1. mgr. er átt við bankastjóra, framkvæmdastjóra og aðra aðila sem bera ábyrgð á sviðum innan fjármálafyrirtækis þar sem upp geta komið hagsmunaárekstrar ef viðkomandi aðilar tækju sæti í stjórn rekstrarfélags.
    Í 10. gr. UCITS-tilskipunarinnar kemur fram að rekstrarfélög og vörslufyrirtæki skuli vera óháð í störfum sínum og ætíð hafa hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðarljósi. Misjafnt er hvernig einstök aðildarríki EES hafa innleitt ákvæðið en sum ríki hafa lögfest ítarlegri ákvæði en það sem hér er lagt til. Þannig er t.d. sambærilegt ákvæði í dönskum lögum um verðbréfasjóði, en þó þannig að gerð er krafa um að meira en helmingur stjórnarmanna rekstrarfélags skuli vera óháður móðurfélagi og vörslufyrirtæki. Í Bretlandi er gengið enn lengra og er þar í landi t.d. óheimilt að hafa bæði eigna- og stjórnunartengsl á milli rekstrarfélaga og móðurfélaga og vörslufyrirtækja. Í Finnlandi er gerð sú krafa að þriðjungur stjórnarmanna rekstrarfélags skuli vera kjörinn af eigendum hlutdeildarskírteina. Þess má jafnframt geta að í Bandaríkjunum hefur sú regla verið sett að meira en helmingur stjórnarmanna skuli vera óháður. Í mörgum ríkjum er þó látið nægja að kveða á um sérstakar innri eftirlitsreglur sem eiga að tryggja að hagsmunir eigenda hlutdeildarskírteina séu ekki fyrir borð bornir.

Um 16. gr.


    Ákvæðið lýtur að málshöfðunarrétti rekstrarfélags fyrir hönd einstakra eigenda hlutdeildarskírteina og eru ekki lagðar til efnislegar breytingar á því.
    Lagt er til það nýmæli í 2. mgr. að taka fram að rekstrarfélag beri ábyrgð á rekstri verðbréfasjóða og sjóðsdeilda og komi fram fyrir þeirra hönd. Hér er í raun um að ræða speglun á ákvæði 1. mgr. Ekki er um að ræða breytingu á framkvæmd, það hefur ekki leikið vafi á því að rekstrarfélag komi fram fyrir hönd sjóða sinna en talið var rétt að bæta ákvæðinu við til þess að taka af allan vafa.

Um 17. gr.


    Í ákvæðinu er fjallað um rekstur verðbréfasjóða. Lagt er til að bætt verði við nýjum tölulið, 3. tölul., þar sem kveðið verði á um að rekstur verðbréfasjóða felist m.a. í áhættustýringu, en þetta er einmitt eitt af meginverkefnum rekstrarfélaga verðbréfasjóða. Að öðru leyti eru ekki gerðar tillögur um efnislegar breytingar á ákvæðinu sem byggist á 5. gr. UCITS-tilskipunarinnar með síðari breytingum. Auk þess er orðalagi e-liðar breytt lítillega þar sem fram kemur að verkefni rekstrarfélags sé m.a. að halda og uppfæra skrá yfir eigendur hlutdeildarskírteina. Ekki er um efnisbreytingu að ræða en orðalaginu breytt til þess að auka skýrleika ákvæðisins.

Um 18. gr.


    Rekstrarfélögum er að uppfylltum ákveðnum skilyrðum heimilt að útvista verkefnum sínum. Í 18. gr. frumvarpsins er fjallað um útvistun rekstrarfélaga. Lagðar eru til nokkrar breytingar á 1. mgr. þar sem fjallað er um heimild rekstrarfélags til útvistunar verkefna. Í 5. gr. g. UCITS-tilskipunarinnar kemur fram að aðildarríki er heimilt (en ekki skylt) að veita rekstrarfélögum verðbréfasjóða heimild til að útvista tilteknum verkefnum. Af orðalagi 1. mgr. gildandi laga má ráða að sú staða geti komið upp að rekstrarfélag útvisti öllum verkefnum nema þeim sem koma fram í 3. tölul., þ.e. markaðssetningu. Það felur í raun í sér að rekstrarfélag sinni eingöngu markaðssetningu á sjóðum um sameiginlega fjárfestingu. Í slíkum tilvikum má spyrja hver reki viðkomandi sjóði í raun. Aftur á móti verður að líta svo á að hæpið sé að setja bann við útvistun verkefna, t.d. með tilliti til þess hversu langt eigi að ganga og hvernig fara eigi með eftirlit með því, sem óhjákvæmilega verður matskennt. Markmið þeirra tillagna sem nú eru lagðar til miða að því að ekki verði mögulegt að stofna og starfrækja rekstrarfélag verðbréfasjóða sem „skúffufyrirtæki“, þ.e. fyrirtæki þar sem takmörkuð eða engin raunveruleg starfsemi á sér stað. Lagt er til að heimilt verði að útvista verkefnum þeim sem talin eru upp í 17. gr. Þó verði aldrei heimilt að útvista þeim öllum og tiltekið er að meiri hluta verkefna skv. 1. tölul. 17. gr. skuli sinnt innan rekstrarfélags. Í því sambandi er miðað við fjölda sjóða en ekki veltu. Í ákvæðinu er skýr reglugerðarheimild og þar mætti koma að nánari sjónarmiðum um útvistun verkefna.

Um 19. gr.


    Í greininni segir að rekstrarfélag skuli starfrækja verðbréfasjóð í samræmi við góða viðskiptahætti og venjur með trúverðugleika markaðarins og hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðarljósi. Sambærilegt ákvæði er að finna í 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Í athugasemdum við það ákvæði segir: „Ákvæði þetta er nýmæli, en skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, skal Fjármálaeftirlitið m.a. fylgjast með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Við skýringu á því hvað felst í hugtökunum eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir og venjur verður bæði litið til fyrirmæla sem leiðir af settum lögum, t.d. 11. gr. tilskipunar 93/22/EB um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta, og eins almennari siðareglna og viðtekinna venja í fjármálastarfsemi eða einstökum undirgreinum hennar. Þá geta ákvæði reglugerða og reglur og tilmæli Fjármálaeftirlitsins veitt leiðbeiningu“.
    Ekki eru lagðar til efnislegar breytingar á ákvæðinu, það er matskennt og í raun verður aldrei með tæmandi hætti talið hvað fellur undir góða viðskiptahætti og venjur. Þó verður að telja að sé brotið gegn einhverju eftirtalinna atriða, þá hafi verið brotið gegn ákvæði er varðar góðar venjur og viðskiptahætti:
          Fyrirmælum í lögum (sérstaklega ákvæðum sem fela ekki í sér refsikennd viðurlög).
          Almennum siðareglum sem um starfsemina gilda.
          Venjum sem myndast hafa.
          Ákvæðum reglugerða.
          Ákvæðum reglna.
          Leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins.
    Þetta þarf þó ekki að vera tæmandi talning þar sem upp geta komið atvik sem ekki hefur verið kveðið á um í framangreindum fyrirmælum en teljast þrátt fyrir það ekki vera góðir viðskiptahættir. Það mun því að einhverju leyti koma í hlut dómstóla að túlka ákvæðið.

Um 20. gr.


    Efnislegar breytingar eru ekki lagðar til á 20. gr. þar sem fjallað er um starfsemi vörslufyrirtækis. Þó er lagt til fellt verði niður orðið „fjármálagerninga“ í 1. mgr. og nota orðið „eigna“ í staðinn þar sem lagt er til í 1. gr. frumvarpsins að nota ekki hugtakið „fjármálagerningur“. Í athugasemdum við 20. gr. gildandi laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, segir um 20. gr.:
    „Engar breytingar verða á stöðu vörslufyrirtækis samkvæmt frumvarpinu. Rekstrarfélag þarf að gera samning við vörslufyrirtæki um vörslu eigna verðbréfasjóðs. Með aðskilnaði á milli daglegs reksturs verðbréfasjóða annars vegar og umsjár með þeim eignum sem sjóðurinn hefur fjárfest í hins vegar er stefnt að frekari vernd fyrir eigendur hlutdeildarskírteina. Vörslufyrirtæki er ætlað að stuðla að því að fjármunir séu fjárfestir með lögmætum hætti í samræmi við ákvæði laga og reglna verðbréfasjóða og farið sé að fyrirmælum rekstrarfélags um ráðstöfun eignanna nema þau séu andstæð lögum eða samþykktum. Í samræmi við þetta ber vörslufyrirtæki einnig að fylgjast með því að sala hlutdeildarskírteina, innlausn þeirra og útreikningur á innlausnarvirði fari fram í samræmi við ákvæði laga og reglna sjóðsins. Vakin skal athygli á því að í tölul. 1.–2. og 4.–5. er notuð sögnin „að tryggja“ í staðinn fyrir „að sjá um“, sbr. 1. mgr. 14. gr. gildandi laga [nr. 10/1993]. Þykir það fara nær ákvæði tilskipunar um sameiginlega fjárfestingu um þetta efni.“

Um 21. gr.


    Í 21. gr. frumvarpsins er fjallað um viðurkennda aðila, þ.e. þá sem geta starfað sem vörslufyrirtæki. Ákvæðið tekur ekki efnislegum breytingum og er óbreytt frá gildandi lögum.

Um 22. gr.


    Í ákvæðinu er fjallað um ábyrgð vörslufyrirtækis gagnvart rekstrarfélagi og eigendum hlutdeildarskírteina vegna tjóns. Ákvæðið tekur ekki efnislegum breytingum og leiðir af tilskipun um sameiginlega fjárfestingu.

Um 23. gr.


    Fjallað er um útgáfu hlutdeildarskírteina í 23. gr. frumvarpsins. Ákvæðið tekur ekki efnislegum breytingum en orðalagi 2. mgr. er breytt lítillega á þann veg að felld eru niður orðin „verðbréfaeignar sjóðsins“ og í staðinn kemur „eignarhlutdeildar“. Þetta þykir skýra betur þá aðstöðu sem verið er að lýsa í ákvæðinu, þ.e. að þeir sem eigi hlutdeild í verðbréfasjóði eigi rétt til tekna og eigna í hlutfalli við hlutdeild og að hlutdeildarskírteini séu staðfesting á tilkalli til eignarhlutdeildar.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um að rekstrarfélagi sé ekki skylt að gefa út hlutdeildarskírteini nema eigendur þeirra óski eftir því (hér er átt við útgáfu á pappírsformi). Bætt er við þessa málsgrein þeim áskilnaði að þeir (hlutdeildarskírteinishafar) geti hvenær sem er aflað sér staðfestingar á eignarrétti sínum með öðrum hætti.
    Að öðru leyti er vísað til athugasemda í frumvarpi til gildandi laga nr. 30/2003, um verðbréfa- og fjárfestingarsjóði.

Um 24. gr.


    Í greininni er kveðið á um hvaða atriði skulu koma fram í hlutdeildarskírteini. Ekki eru lagðar til breytingar á ákvæðinu og vísast um skýringar við athugasemdir við 24. gr. í gildandi lögum nr. 30/2003, um verðbréfa- og fjárfestingarsjóði.

Um 25. gr.


    Rekstrarfélag skal halda skrá yfir hlutdeildarskírteini og er kveðið á um það í 25. gr. laganna. Ákvæðið er tekið óbreytt upp í frumvarpinu og þarfnast ekki nánari skýringa.

Um 26. gr.


    Í 26. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að hlutdeildarskírteini verði einungis seld gegn staðgreiðslu kaupverðs. Seinni málsliður greinarinnar er felldur brott þar sem hann á aðeins við um hlutafélagssjóði.

Um 27. gr.


    Fjallað er um innlausnarskyldu verðbréfasjóðs í 27. gr. Ákvæðið byggist á 37. gr. UCITS- tilskipunarinnar um sameiginlega fjárfestingu. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, og var tekið efnislega óbreytt upp í frumvarp til gildandi laga nr. 30/2003, sagði um innlausnarskylduna: „Komi til frestunar samkvæmt ákvæðinu skal hún vera almenn og taka til allra hlutdeildarskírteina. Ákvæðið er undantekning frá meginreglu frumvarpsins um innlausn að kröfu eigenda hlutdeildarskírteina og ber að túlka þannig að til frestunar á innlausn geti eingöngu komið mæli sérstakar aðstæður með því með tilliti til hagsmuna eigenda skírteinanna, enda sé verðbréfasjóður ófær um að uppfylla skyldur sínar til innlausnar. Sem dæmi um slík tilvik má nefna lokun kauphallar þar sem verulegur hluti eigna sjóðsins er skráður þannig að ekki reynist unnt að staðreyna innlausnarvirði hlutdeildarskírteina. Einnig gæti verðbréfasjóður staðið frammi fyrir svo miklum kröfum um innlausn að ekki væri unnt að mæta þeim nema með sölu eigna sem tekið gæti einhvern tíma. Líta ber á heimildir til frestunar á innlausn sem tímabundnar og skulu samþykktir hafa að geyma nánari ákvæði um slíkar heimildir.“
    Nefndin telur rétt í ljósi þeirra atburða sem dundu yfir íslenskt fjármálalíf haustið 2008 að leggja til nokkrar breytingar á þessari grein. Áréttað er í 2. mgr. 27. gr. að frestun á innlausn skuli ekki standa lengur en nauðsyn krefur. Jafnframt er lagt til að bætt verði við nýrri málsgrein, 4. mgr., er varðar hvenær frestun á innlausn tekur gildi, þ.e. þegar Fjármálaeftirlitinu berst tilkynning rekstrarfélags þess efnis. Í október 2008 frestuðu rekstrarfélög verðbréfasjóða innlausn á mörgum sjóðum en upp komu álitamál er vörðuðu hvenær frestun á innlausn tók gildi og þykir því rétt að taka af öll tvímæli um það.
    Einnig er lagt til að bæta við nýrri 5. mgr. er varðar tilkynningar um opnun sjóða þegar frestun innlausnar lýkur. Ástæða þess er að eftir bankahrunið í október 2008 var innlausn margra sjóða frestað í lengri eða skemmri tíma. Dæmi voru um að innlausn væri frestað í rúma þrjá mánuði og voru hlutdeildarskírteinishafar því margir hættir að fylgjast með tilkynningum sem birtust á heimasíðum rekstrarfélaganna eða heimasíðum bankanna. Ákvæðið felur því í sér aukna neytendavernd. Í 5. mgr. er jafnframt mælt fyrir um skriflega tilkynningu til hlutdeildarskírteinishafa standi frestun lengur en fjórar vikur samfellt. Ekki er talið mögulegt að lögfesta einhvers konar tímamark birtingar tilkynningar en lögð er áhersla á að hlutdeildarskírteinishöfum verði tilkynnt um opnun sjóða svo fljótt sem auðið er. Vekja má athygli á því að panta má innlausn þótt viðkomandi sjóður sé lokaður. Þegar sjóðurinn opnar eru innkomnar pantanir afgreiddar fyrst. Tilkynning skal vera bréfleiðis eða með sambærilegum hætti. Það er einnig hugsanlegt að senda hlutdeildarskírteinishöfum upplýsingarnar með tölvupósti haldi sjóðurinn uppfærða netfangaskrá. Telja verður að birting í heimabanka hlutdeildarskírteinishafa geti ekki jafngilt bréflegri tilkynningu.

Um 28. gr.


    Um útreikning innlausnarvirðis er fjallað í 28. gr. frumvarpsins. Ákvæðið tekur ekki efnislegum breytingum frá gildandi lögum. Lagt er til að færa 2. mgr. 40. gr. gildandi laga og staðsetja það frekar sem 2. mgr. 28. gr. frumvarpsins. Í málsgreininni er kveðið á um heimildir verðbréfasjóðs til töku skammtímalána en þau eru aðeins heimil til að standa straum af innlausn hlutdeildarskírteina. Betur þykir fara að staðsetja ákvæðið í þeim kafla laganna er lýtur að innlausn hlutdeildarskírteina.

Um 29. gr.


    Í greininni er fjallað um auglýsingu innlausnarvirðis og tekur þetta ákvæði ekki efnislegum breytingum frá gildandi lögum.

Um 30. gr.


    Fjárfestingarheimildum verðbréfasjóða í fjármálagerningum og innlánum er lýst í 30. gr. Hér eru ákvæði 19. gr. UCITS-tilskipunarinnar innleidd í íslenskan rétt. Þau takmarka fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða ekki við markaði á Evrópska efnahagssvæðinu (eins og MiFID-tilskipunin gerir) heldur er þvert á móti mælt fyrir um heimild slíkra sjóða til að fjárfesta í verðbréfum og peningamarkaðsskjölum sem tekin hafa verið til opinberrar skráningar á verðbréfaþingi í ríki utan bandalagsins eða ganga kaupum og sölum í ríki utan þess á öðrum markaði sem lýtur eftirliti, starfar á reglubundinn hátt, er viðurkenndur og opinn almenningi enda hafi lögbær yfirvöld samþykkt verðbréfaþingið eða markaðinn eða gert er ráð fyrir honum í lögum, reglum eða samþykktum sjóðsins.
    Til þess að undirstrika að fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða skuli vera í seljanlegum gerningum er lagt til að taka upp í 1. mgr. 30. gr. laganna áskilnað um að verðbréfasjóði sé einungis heimilt að binda fé sitt í framseljanlegum verðbréfum, sem eru nánar talin upp í 1.–7. tölul. 30. gr. Í UCITS-tilskipuninni er gerð krafa um seljanleika bæði með tilliti til verðbréfa, peningamarkaðsskjala og fjármálaafleiðna. Jafnframt er gert ráð fyrir að í 30. gr. laganna sé um að ræða tæmandi talningu á þeim fjármálagerningum sem verðbréfasjóði eða fjárfestingarsjóði er heimilt að fjárfesta í.
    Rétt er að vekja athygli á því að með 7. gr. laga nr. 96/2008, um breytingar á lögum er varða verðbréfaviðskipti, voru gerðar breytingar til leiðréttingar á 1. tölul. 30. gr. Í ákvæðinu var vísað til skilgreiningar á skipulegum verðbréfamarkaði í lögum um verðbréfaviðskipti. Eftir gildistöku laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og laga nr. 110/2007, um kauphallir, er skilgreining á skipulegum verðbréfamarkaði samkvæmt þessum lögum orðin mun þrengri en áður, þannig að hún tekur eingöngu til skipulegra verðbréfamarkaða innan Evrópska efnahagssvæðisins og þar af leiddi að verðbréfasjóðum var ekki heimilt að eiga viðskipti á mörkuðum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Þetta stangaðist á við efni UCITS- tilskipunarinnar nr. 85/611/EBE með áorðnum breytingum og því um að ræða ákveðin mistök við lagasetningu. Með 7. gr. laga nr. 96/2008, um breytingar á lögum er varða verðbréfaviðskipti, var bætt úr þessu og ákvæði a–c-liða 1. mgr. 19. gr. UCITS-tilskipunarinnar var innleitt í 1. tölul. 30. gr. laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Umrædd ákvæði tilskipunarinnar takmarka fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða ekki við markaði á Evrópska efnahagssvæðinu. Í c-lið 1. mgr. 19. gr. er þvert á móti mælt fyrir um heimild slíkra sjóða til að fjárfesta í framseljanlegum verðbréfum og peningamarkaðsskjölum sem tekin hafa verið til opinberrar skráningar á verðbréfaþingi í ríki utan bandalagsins eða ganga kaupum og sölum í ríki utan þess á öðrum markaði sem lýtur eftirliti, starfar á reglubundinn hátt, er viðurkenndur og opinn almenningi enda hafi lögbær yfirvöld samþykkt verðbréfaþingið eða markaðinn eða gert er ráð fyrir honum í lögum, reglum eða samþykktum sjóðsins. Við setningu laga nr. 108/2007 og laga nr. 110/2007 stóð ekki til að takmarka fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða með framangreindum hætti. Samhengisins vegna þótti rétt að skýra þetta en ekki eru lagðar til breytingar á 1. tölul. að öðru leyti en því að skýring á peningamarkaðsskjölum er felld niður enda er hugtaksskýringu að finna í orðskýringum í 2. gr. frumvarpsins.
    Við setningu gildandi laga 30/2003 láðist að innleiða það orðalag sem nú er bætt við í 3. tölul. 30. gr. laga nr. 30/2003 og kemur fram í 2. undirlið e-liðar 19. gr. tilskipunar 85/611/ EBE um sameiginlega fjárfestingu. Þar segir að vernd eigenda skírteina sé tryggð með sambærilegum hætti og í verðbréfasjóðum, einkum er varðar innlausnarrétt, vörslufyrirtæki, lánveitingar, lántökur og skortsölu. Var úr þessu bætt í 10. gr. reglugerðar nr. 792/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Litið er svo á að það fari betur að hafa setninguna í heild sinni í lagatextanum einkum vegna heildarsamræmis. Ekki er um efnislega breytingu frá ákvæði reglugerðarinnar að ræða en í ákvæðinu felst m.a. að verðbréfasjóðum er heimilt, auk þess að fjárfesta í öðrum verðbréfasjóðum (UCITS), að fjárfesta í öðrum tegundum sjóða enda hafi eigendur hlutdeildarskírteina í þeim rétt til innlausnar að kröfu þeirra, að eignir sjóðs séu faldar vörslufyrirtæki til varðveislu og að ekki gildi frjálslegri fjárfestingarheimildir í slíkum sjóðum varðandi lán, lántökur og skortsölu. Tilgangur þessa ákvæðis er að koma í veg fyrir að verðbréfasjóðir geti farið óbeint út fyrir leyfilegar fjárfestingarheimildir tilskipunarinnar og laganna með fjárfestingum í sjóðum sem hafa frjálslegri og þar með áhættumeiri fjárfestingarheimildir.
    Einnig er lagt til að ákvæði 5. tölul. 1. mgr. verði breytt þannig að fyrri málsliður töluliðarins verði svohljóðandi: „Afleiðum sem skráðar eru á skipulegum verðbréfamarkaði samkvæmt skilgreiningu 1. tölul. 30. gr.“ Í gildandi lögum er vísað til skilgreiningar í lögum um verðbréfaviðskipti en það þykir fara betur að vísa til þeirrar skilgreiningar sem fram kemur í lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Þegar rætt er um viðmið afleiðna er átt við það sem nefnt hefur verið á ensku „underlying assets“. Í seinni málslið töluliðarins felst að ekki megi fjárfesta í afleiðum nema þær tengist þeim fjárfestingarheimildum sem um getur í 30. gr. (þ.e. að þær tengist t.d. skuldabréfum, hlutabréfum eða þvíumlíku). Auk þess er heimilt að fjárfesta í afleiðum sem tengjast verðbréfavísitölum, vöxtum og erlendum gjaldmiðlum.
    Að lokum er lagt til að bæta við orðunum: „með áreiðanlegum hætti“ í 6. tölul. Með því er lögð meiri áhersla á það að óskráðar afleiður skuli lúta daglegu og áreiðanlegu verðmati. Ekki er um efnisbreytingu að ræða heldur er ákvæðið nánar lagað að ákvæðum UCITS-tilskipunarinnar, nánar tiltekið g-lið 1. mgr. 1. mgr. 19. gr.

Um 31. gr.


    Í ákvæðinu er lagt til að skerpt verði á því að 1. mgr. eigi við um óskráð framseljanleg verðbréf og peningamarkaðsskjöl en ekki aðra fjármálagerninga. Reglan sem þar kemur fram, og kölluð er 90% reglan, felur í sér að 90% eigna verðbréfasjóðs verða ætíð að vera í skráðum verðbréfum eða öðrum eignum skv. 30. gr. þannig að heimilt er að fjárfesta allt að 10% eigna sjóðsins í óskráðum verðbréfum og peningamarkaðsskjölum.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að verðbréfasjóði sé óheimilt að eiga meira en 10% í reiðufé eða auðseljanlegum eignum (e. ancillary liquid assets) á hverjum tíma, nema slíkt sé til hagsbóta fyrir hlutdeildarskírteinishafa. Hingað til hefur ekki verið ákvæði um þetta í lögum. Það er mikilvægt að verðbréfasjóður sem fær nýtt fé vegna sölu hlutdeildarskírteina eða sölu verðbréfa í eigu sjóðsins eigi möguleika á því að bíða með að fjárfesta eða binda féð í einhvern afmarkaðan tíma ef aðstæður til viðskipta eru ekki heppilegar á þeim tíma. Það væri óheppilegt ef reglur skylduðu sjóðinn til að fjárfesta strax. Að sama skapi er ljóst að það væri andstætt hugmyndafræðinni að baki UCITS-sjóðum ef verðbréfasjóður hefði eignarhald á reiðufé eða auðseljanlegum eignum sem hluta af fjárfestingarstefnu sinni. Í framkvæmd hefur verið miðað við 10% af eign sjóða í þessu sambandi. Lagt er til að lögfest verði það viðmið að aðeins megi fara yfir 10% mörkin ef það er til hagsbóta fyrir hlutdeildarskírteinishafa. Á síðastliðnu ári hafa þær aðstæður komið upp að fjárfesting í reiðufé, sem almennt er talin ein lakasta fjárfestingin, hefur skilað meiri ávöxtun en aðrir fjárfestingarkostir. Við skýringu þessa ákvæðis þarf þó rekstrarfélagið að sýna fram á að þetta sé besti fjárfestingarkosturinn og þar með til hagsbóta fyrir hlutdeildarskírteinishafa. Í 2. mgr. hefur að auki verið skerpt á þeim mun sem felst í reiðufé og innlánum.

Um 32. gr.


    Í þessari grein er fjallað um heimild til yfirtöku eigna sem þátt í fjárfestingum verðbréfasjóðs. Lagt er til að stytta frest til sölu yfirtekinna eigna úr 18 mánuðum í níu mánuði. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að framlengja frestinn krefjist hagsmunir hlutdeildarskírteinishafa þess. Það telst ekki vera hluti af venjubundinni starfsemi sjóða að fara með eignarhald á öðrum eignum en þeim fjármálagerningum sem taldir eru upp í 30. gr. og það er því hlutdeildarskírteinishöfum ekki til hagsbóta að sala slíkra eigna sé dregin. Með styttingu á frestinum er verið að hvetja til að sala eignanna dragist ekki enda er yfirtaka eigna ekki hluti af fjárfestingarstefnu sjóðsins. Auk þess verður að telja að níu mánuðir séu ríflegur frestur til sölu á fullnustueignum.
    Í 2. mgr. er lagt til að breyta orðalagi greinarinnar á þá leið að í stað þess að einskorða bann við fjárfestingum við eðalmálma þá er lögð áhersla á að óheimilt er að fjárfesta í hrávörum eða heimildarskírteinum fyrir þeim. Litið er svo á að eðalmálmar teljist til hrávara og ljóst er að fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða eru tæmandi taldar í 30. gr. frumvarpsins og eru hrávörur og eðalmálmar ekki meðal þeirra. Það þykir því auka skýrleika ákvæðisins að árétta að óheimilt sé að fjárfesta í öllum hrávörum eða heimildarskírteinum fyrir þeim en ekki eingöngu tiltaka eðalmálma.

Um 33. gr.


    Rekstrarfélögum er skylt að hafa yfir að ráða eftirlitskerfi til þess að vakta, meta og stýra áhættu. Ákvæði 33. gr. var nýmæli í lögum nr. 30/2003 og sagði svo um það í athugasemdum við greinina: „Ákvæðið er nýmæli og er sett í samræmi við 21. gr. tilskipunar um sameiginlega fjárfestingu. Ákvæðið kemur til af því að í tilskipun nr. 2001/108/EB um breytingu á tilskipun um sameiginlega fjárfestingu er verðbréfasjóðum heimilað að eiga viðskipti með afleiður í ríkari mæli. Afleiður hafa verið mikið í sviðsljósinu á alþjóðafjármálamörkuðum vegna mikillar áhættu sem sjóðstjórar og spákaupmenn hafa tekið með slíkum samningum. Afleiður eru þó mikið notaðar til að tryggja sig gegn áhættu, t.d. til að tryggja sér ákveðið verð í viðskiptum að ákveðnum tíma liðnum.“
    Ákvæðið kveður eingöngu á um skyldu rekstrarfélaga til þess að hafa yfir að ráða eftirlitskerfi til að vakta, meta og stýra áhættu en ekki er kveðið nánar á um hvernig slík kerfi eiga að vera. Hér er því lagt til að veita Fjármálaeftirlitinu heimild til að setja nánari reglur um eftirlitskerfi með áhættu verðbréfasjóða.

Um 34. gr.


    Í athugasemdum við 34. gr. gildandi laga segir að afleiður séu samningar þar sem verðmæti samnings er leitt af verðbreytingum einhvers annars þáttar eða eignar. Algengustu afleiðusamningarnir eru framvirkir samningar (e. forward/future contracts) og valréttarsamningar (e. options). Munurinn á framvirkum samningum og valréttarsamningum er í grófum dráttum munurinn á skyldu og rétti. Framvirkur samningur er óafturkræfur samningur á milli tveggja aðila um kaup eða sölu á tiltekinni eign á tilteknu verði á tilteknum tíma í framtíðinni. Valréttarsamningur veitir hins vegar kaupanda sínum rétt, ekki skyldu, til að kaupa eða selja eign á ákveðnu verði á ákveðnum tíma eða tímabili.
    Í 1. mgr. er áhættan af afleiðusamningum verðbréfasjóða takmörkuð þar sem sjóði er ávallt skylt að eiga hæfilegar og nægjanlega verðmætar eignir á móti metnu hámarkstapi af afleiðu. Ákvæði 1. mgr. er ætlað að koma í veg fyrir að verðbréfasjóðir taki á sig opnar skuldbindingar sem geta fræðilega leitt til óendanlega mikils taps ef verðþróun verður óhagstæð. Það hindrar sjóðina þó ekki í að nýta sér það hagræði sem felst í afleiðum. Það er t.d. fólgið í lægri viðskiptakostnaði og gefur færi á skjótari viðbrögðum en ef höndlað er með undirliggjandi eignir. Jafnframt er sú leið opin fyrir sjóði, sem hafa mjög ákveðna skoðun á verðþróun í framtíðinni, að auka hagnaðarmöguleika sína með kaupum á valréttarsamningum. Þeir hætta þá ekki meira en upphaflegu fjárhæðinni sem þeir leggja út í byrjun. Afleiðurnar geta líka verið hentugar verðbréfasjóðum sem hafa mikla trú á framtíð ákveðins fyrirtækis en vilja ekki taka markaðsáhættu.
    Í gildandi 1. málsl. 2. mgr. 34. gr. laga nr. 30/2003 kemur fram að verðbréfasjóði sé heimilt að eiga viðskipti með afleiður svo fremi sem undirliggjandi eignir séu undir þeim mörkum sem um getur í 35. gr. Umrætt ákvæði innleiddi ekki fyllilega 2. undirmálsgrein 3. mgr. 21. gr. tilskipunar 85/611/EB með síðari breytingum. Það skorti á að þess væri getið að samanlögð áhætta afleiðna og undirliggjandi eigna væri undir mörkum um fjárfestingar í einstökum útgefendum. Tilgangur þessarar reglu er að koma í veg fyrir að hægt sé að fara upp fyrir leyfileg mörk varðandi fjárfestingar í einstökum útgefendum með notkun afleiðna. Úr þessu var bætt með 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 792/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Nú er lagt til að ákvæði tilskipunarinnar verði tekið upp með fullnægjandi hætti í lögin. Ekki er um að ræða efnisbreytingu frá reglugerðarákvæðinu. Leiðir af framangreindu að í 34. gr. laganna mun koma fram að einstakar eignir verðbréfasjóða eða deilda eftir því sem við á, auk undirliggjandi eigna afleiðusamninga skulu vera undir þeim hámörkum sem vikið er að í 35. gr. laganna varðandi fjárfestingar í einstökum útgefendum. Þess má geta að nánar er fjallað um afleiðunotkun verðbréfasjóða í leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 2/2006 er byggjast á leiðbeiningum framkvæmdastjórnar ESB nr. 2004/383/EC, um afleiðunotkun verðbréfasjóða.
    Þau ákvæði sem lagt er til að verði 4. og 5. mgr. 34. gr. frumvarpsins voru innleidd í 8. gr. reglugerðar nr. 792/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Með tilliti til heildarsamræmis er lagt til að málsgreinarnar verði teknar upp í lögin en 4. mgr. byggist á 2. undirmálsgrein 2. mgr. 21. gr. tilskipunar 85/611/EB en 5. mgr. á 4. undirmálsgrein 3. mgr. 21. gr. tilskipunarinnar um sameiginlega fjárfestingu.

Um 35. gr.


    Fjallað er um hámarksfjárfestingar verðbréfasjóða í framseljanlegum verðbréfum og innlánum gefnum út af sama útgefanda í 35. gr. frumvarpsins en hún samsvarar 35. gr. gildandi laga. Ákvæðið felur í sér takmarkanir á heimildum verðbréfasjóða, eða einstakra deilda þeirra, til að fjárfesta í framseljanlegum verðbréfum, peningamarkaðsskjölum eða innlánum sama útgefanda. Ákvæðinu er ætlað að tryggja eðlilega áhættudreifingu í fjárfestingum verðbréfasjóða og tekur mið af tilskipun um sameiginlega fjárfestingu með þeim breytingum sem leiða af tilskipun 2001/108/EB.
    Lagt er til að skipta 1. mgr. upp í tvo töluliði til að auka skýrleika og læsileika ákvæðisins í heild sinni en ekki eru lagðar til efnislegar breytingar á ákvæðinu.
    Í 2. mgr. eru sett takmörk við mótaðilaáhættu vegna afleiðna utan skipulegra verðbréfamarkaða. Áhættan má mest vera 5% eða 10% eftir því hver mótaðilinn er. Við fyrstu sýn mætti ætla að 1. tölul stangist á við 6. tölul. 30. gr. þar sem ávallt er gerð sú krafa að mótaðili lúti eftirliti sem Fjármálaeftirlitið metur gilt. Ákvæðunum lýstur þó ekki saman en nauðsynlegt er að lesa þau saman. Mótaðili í afleiðuviðskiptum utan skipulegra verðbréfamarkaða verður að lúta eftirliti sem Fjármálaeftirlitið metur gilt eins og kveðið er á um í 6. tölul. 30. gr. og er ekki vikið frá þeim áskilnaði í 2. mgr. 35. gr. Með ákvæðinu er í raun átt við að mótaðilaáhætta vegna afleiðuviðskipta utan skipulegra verðbréfamarkaða megi ekki vera meiri en 5% en mótaðili verður samt sem áður að lúta eftirliti sem Fjármálaeftirlitið metur gilt. Ef mótaðili er fjármálafyrirtæki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða fjármálafyrirtæki utan þess sem lýtur eftirliti sem Fjármálaeftirlitið metur gilt má mótaðilaáhættan verða allt að 10%. Lagt er til að breyta orðalagi og uppsetningu 2. mgr. 35. gr. til þess að auka skýrleika og læsileika ákvæðisins.
    Engar efnisbreytingar verða á 3. og 4. mgr. gildandi laga og standa þær því óbreyttar. Í 5. mgr. er lagt til að bæta við áskilnaði um að fjárfesting í einni og sömu verðbréfaútgáfu megi ekki vera umfram 30% og er þetta til að gæta samræmis við 38. gr. Þá er áréttað að ekki skuli telja þessi verðbréf með þegar 5/40-reglan, sem kemur fram í 3. mgr. ákvæðisins er reiknuð.
    Lagt er til að seinni málsliður 6. mgr. gildandi laga verði gerður að sérstakri málsgrein, 7. mgr., til að auka skýrleika ákvæðisins en ekki er um efnisbreytingu að ræða.
    Nýmæli eru lögð til í 8. og 9. mgr. er varða fjárfestingar í tengdum aðilum. Samanlögð fjárfesting í tengdum aðilum má ekki nema meiru en 20% af heildareignum sjóðsins. Annars vegar er um að ræða fjárfestingar í aðilum tengdum rekstrarfélaginu og móðurfélagi þess og hins vegar er um að ræða aðra tengda aðila, þ.e. aðila sem tengdir eru innbyrðis. Í 8. mgr. er tekið fram að aðilar sem teljast til sömu samstæðu skulu teljast einn aðili við útreikning samkvæmt greininni. Í 97. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, kemur fram að fyrirtæki teljist vera móðurfyrirtæki þegar það:
    „1.        ræður yfir meiri hluta atkvæða í öðru fyrirtæki,
    2.        á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur rétt til að tilnefna eða víkja frá meiri hluta stjórnarmanna eða stjórnenda,
    3.        á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur rétt til að hafa ráðandi áhrif á starfsemi þess á grundvelli samþykkta fyrirtækisins eða samnings við það,
    4.        á eignarhluti í öðru fyrirtæki og ræður, á grundvelli samnings við aðra hluthafa eða eignaraðila, meiri hluta atkvæða í fyrirtækinu eða á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur ráðandi stöðu í því.
    Fyrirtæki, sem hafa þau tengsl við fjármálafyrirtæki eða eignarhaldsfélag á fjármálasviði sem lýst er í 1. mgr., teljast vera dótturfyrirtæki. Fyrirtæki sem er dótturfyrirtæki dótturfyrirtækisins, telst einnig vera dótturfélag móðurfélags.
    Móðurfyrirtæki og dótturfyrirtæki þess mynda samstæðu.“
    Með þeim tengslum sem nefnd eru í 8. og 9. mgr. er ekki eingöngu átt við fjárfestingu í þeim félögum er mynda samstæðu, heldur félög sem tengjast rekstrarfélaginu eða móðurfélagi þess eða tengjast innbyrðis, sbr. ákvæði laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
    Í 10. mgr. er lagt til að áréttað verði að svokölluð traust verðbréf séu undanþegin þeim takmörkunum sem koma fram í 8. og 9. mgr.
    Að lokum er í 11. mgr. mælt svo fyrir að um skyldu rekstrarfélaga til þess að tengja saman aðila fari samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Ástæðan er sú að huga þarf að því að um tvenns konar tengingu getur verið að ræða, annars vegar náin tengsl (e. close links) og hins vegar hóp tengdra viðskiptamanna (e. group of connected clients). Í 2. mgr. 18. gr. laga um fjármálafyrirtæki kemur fram að með nánum tengslum sé átt við þegar tveir eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar tengjast gegnum:
     a.      viðskiptahagsmuni, þ.e. beint eða óbeint eignarhald á minnst 20% hlutafjár eða yfirráð yfir 20% af atkvæðisrétti fyrirtækis; eða
     b.      yfirráð, þ.e. tengsl á milli móðurfyrirtækis og dótturfyrirtækis eða sambærileg tengsl milli einstaklings eða lögaðila og fyrirtækis; einnig skal litið á dótturfyrirtæki dótturfyrirtækis sem dótturfyrirtæki móðurfyrirtækisins sem er í forsvari fyrir þessi fyrirtæki.
         Dæmi 1: A á 30% eignarhlut í B sem á rekstrarfélagið C. B á jafnframt dótturfélögin D og E. Skv. 8. mgr. má heildarfjárfesting sjóðs í rekstri C, í félögunum A, B, D og E ekki vera umfram 20% af heildareignum sjóðsins. Félögin B, C, D og E mynda samstæðu, en félagið A er tengt móðurfélagi rekstrarfélagsins.
         Dæmi 2: Sjóður í rekstri rekstrarfélagsins F ætlar að fjárfesta í félögunum A, B, D og E og má sú fjárfesting ekki vera umfram 20% af heildareignum sjóðsins. Félögin A, B, D og E eru allt tengd félög, sbr. ákvæði laga um fjármálafyrirtæki, en eru þó ekki tengd rekstrarfélaginu F né móðurfélagi þess.

Um 36. gr.


    Meginreglur um fjárfestingar í framseljanlegum verðbréfum og innlánum sama útgefanda er að finna í 35. gr. Þrátt fyrir það er heimilt að gera nokkrar undantekningar á þessari meginreglu og kemur ein þeirra fram í 36. gr. frumvarpsins á þá leið að heimilt er að fjárfesta allt að 20% af eign sjóðsins í hlutabréfum eða skuldabréfum sama útgefanda ef markmið fjárfestingarstefnu samkvæmt reglum sjóðsins er að endurspegla tiltekna hlutabréfa- eða skuldabréfavísitölu. Vísitölusjóðir eru sjóðir sem hafa að fjárfestingarstefnu að endurspegla samsetningu tiltekinnar vísitölu sem þarf að uppfylla nánar tiltekin skilyrði. Lagt er til að færa orðalag greinarinnar nær tilskipun 85/611/EBE þar sem kemur fram í 22. gr. a að slíkir sjóðir „… replicate the composition of a certain stock or debt securities index“. Telja verður að orðið „endurspegla“ sé nær þeirri merkingu heldur en orðin „líkja eftir“ og þykir því réttara að nota það hér eftir. Er það jafnframt í samræmi við lög nr. 17/1999, um breytingu á lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, þar sem sambærilegt ákvæði kom fyrst í lög.
    Að öðru leyti er vísað til skýringar við ákvæðið í frumvarpi til gildandi laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði.

Um 37. gr.


    Nýmæli er að finna í 37. gr. frumvarpsins. Lagt er til að sérstakt ákvæði verði í lögunum er fjalli sérstaklega um peningamarkaðssjóði. Með staðsetningu ákvæðisins í II. kafla frumvarpsins felst að jafnframt er lagt til að peningamarkaðssjóðir hérlendis teljist til verðbréfasjóða. Af því leiðir að fjárfestingarheimildir þeirra verða takmarkaðri en hingað til hefur verið. Samhliða munu því fjárfestingarheimildir peningamarkaðssjóða verða þrengri en áður. Áréttað er að þær takmarkist af 35. gr. frumvarpsins.
    Engar sérstakar hömlur hafa verið settar hér á landi gagnvart fjárfestingum peningamarkaðssjóða umfram aðra sjóði. Í Bandaríkjunum og Evrópu, þar sem löng hefð er fyrir starfsemi peningamarkaðssjóða, eru hins vegar gerðar miklar kröfur til fjárfestinga og líftíma þeirra. Þar sem peningamarkaðssjóðir eru skammtímafjárfesting er eðlilegt að slíkar kröfur séu einnig gerðar hérlendis og eru þær kröfur sem hér eru lagðar til byggðar á ákvæðum tilskipunar um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum. Í Evrópu teljast peningamarkaðssjóðir (e. money market funds) til verðbréfasjóða en á Íslandi voru þeir reknir sem fjárfestingarsjóðir (e. non-UCITS) og höfðu því rýmri fjárfestingarheimildir.

Um 38. gr.


    Um traust verðbréf er fjallað í 38. gr. frumvarpsins og samsvarar ákvæðið 37. gr. gildandi laga. Ákvæðið felur í sér undantekningu frá þeirri meginreglu sem kemur fram í 35. gr. um fjárfestingar í sama útgefanda. Ekki eru gerðar breytingar á 1. og 2. mgr. en lagt er til að nýrri málsgrein, 3. mgr., verði bætt við er áskilur að verðbréfasjóður skuli tiltaka með skýrum hætti í reglum sínum og útboðslýsingu þau ríki, sveitarstjórnir eða alþjóðastofnanir sem gefa út eða ábyrgjast verðbréf og/eða peningamarkaðsskjöl sem sjóðurinn hyggst fjárfesta í. Ákvæðið byggist á 2. og 3. mgr. 23. gr. tilskipunar 85/611/EBE sem var innleidd í 11. gr. reglugerðar nr. 792/2003. Með tilliti til heildarsamræmis er lagt til að ákvæðið verði tekið upp í lögin en ekki er um efnisbreytingu frá gildandi rétti að ræða.

Um 39. gr.


    Í greininni, sem er sambærileg 38. gr. gildandi laga, eru lagðar til nokkrar orðalagsbreytingar. Í stað þess að leggja hömlur við fjárfestingum í verðbréfasjóðum eða öðrum sjóðum um sameiginlega fjárfestingu verður hugtakið fjárfestingarsjóður notað. Verðbréfasjóðum er eingöngu heimilt að fjárfesta í hlutdeildarskírteinum verðbréfa- og fjárfestingarsjóða og er því villandi að beita orðalaginu „aðrir sjóðir um sameiginlega fjárfestingu.“

Um 40. gr.


    Ákvæði 39. gr. gildandi laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, eru tekin upp í 40. gr. frumvarpsins sem fjallar um takmarkanir á eignasafni. Lagt er til það nýmæli að takmarka heimild verðbréfasjóðs til þess að eignast meira en 25% útgefinna skuldaskjala í einni útgáfu. Þannig verði í 2. tölul. tekið fram að verðbréfasjóði sé óheimilt að eignast meira en 10% af skuldaskjölum einstakra útgefenda verðbréfa, þó aldrei meira ein 25% í hverri útgáfu. Tilgangur þessara breytinga er að koma í veg fyrir að verðbréfasjóðir verði notaðir til þess að fjármagna félög sem gefa út skuldabréf með því að kaupa upp öll skuldabréf í einstakri skuldabréfaútgáfu og fjármagna þannig viðkomandi félag. Að öðru leyti tekur ákvæðið ekki efnislegum breytingum.

Um 41. gr.


    Í 41. gr. frumvarpsins, sem samsvarar 40. gr. gildandi laga, er fjallað um lán og ábyrgðir en verðbréfasjóði er óheimilt að veita lán eða ganga í ábyrgðir fyrir aðra. Í skýringum við ákvæðið í frumvarpi til gildandi laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði kom fram að ekki væri talið að í ákvæðinu fælist bann við því að veita fé til þeirra aðila sem gefa út fjármálagerninga skv. 30. gr. Jafnframt var vakin athygli á því að ekki mætti nota viðskipti með afleiður til að sniðganga þessa grein eða aðrar takmarkanir í þessum kafla laganna. Áhöld hafa verið um hvort verðbréfalán úr verðbréfasjóðum hafi verið heimil, m.a. með hliðsjón af orðalagi laganna. Hugtakið verðbréfalán (e. securities lending) vísar til þess að verðbréf séu yfirfærð tímabundið frá einum aðila, þ.e. lánveitanda, til annars aðila, þ.e. lántaka, fyrir þóknun á grundvelli samnings þar um. Er lántaki skuldbundinn til að skila bréfunum til að baka annaðhvort að kröfu lánveitanda eða að tilteknum tíma liðnum. Hingað til hefur almennt verið litið þannig á að verðbréfalán væru ekki óheimil hérlendis þó ekki hafi myndast virkur markaður með þau eins og víða erlendis. Lagt er til að taka af skarið um þetta atriði og heimila verðbréfasjóðum að veita verðbréfalán en þó aðeins sem hluta af eðlilegri áhættustýringu. Lánveitingar verðbréfasjóða teljast ekki til almennrar starfsemi þeirra og skyldi því eingöngu nota verðbréfalán til þess að bæta lausafjárstýringu eða draga úr áhættu til hagsbóta fyrir hlutdeildarskírteinishafa. Einnig er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að setja nánari reglur um verðbréfalán verðbréfasjóða.

Um 42. gr.


    Verðbréfasjóði er óheimilt að selja fjármálagerninga sem ekki eru í eigu hans á þeim tíma sem salan fer fram. Með öðrum orðum er í 42. gr. frumvarpsins, sem samsvarar 41. gr. gildandi laga, lagt bann við svokallaðri skortsölu, þ.e. verðbréfasjóði er óheimilt að taka verðbréf að láni tímabundið til að selja þau. Tilskipun um sameiginlega fjárfestingu bannar verðbréfasjóðum að stunda það sem nefnist á ensku „uncovered sales of transferable securities“, einnig nefnt „short sale“. Ákvæðið er í samræmi við tilskipun um sameiginlega fjárfestingu og tekur ekki efnislegum breytingum.

Um 43. gr.


    Hafi fjárfestingar verðbréfasjóðs farið fram úr leyfilegum mörkum er lagt til í 43. gr. frumvarpsins að hámarksfrestur til úrbóta verði styttur úr sex mánuðum í þrjá mánuði. Fjármálaeftirlitinu er þó eftir sem áður heimilt að veita lengri frest og er það í samræmi við gildandi framkvæmd. Ákvæðið er að öðru leyti efnislega óbreytt og samsvarar 42. gr. gildandi laga.

Um 44. gr.


    Í greininni er kveðið á um hvernig erlendur verðbréfasjóður með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins skuli bera sig að við markaðssetningu skírteina sinna hér á landi.
    Í 5. tölul. er lögð til breyting á orðalagi en ekki er um efnisbreytingu að ræða. Síðari hluti þessa töluliðar, sem byggist m.a. á 46. gr. tilskipunar 85/611/EBE um sameiginlega fjárfestingu, er að finna í 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 792/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Með tilliti til heildarsamræmis er lagt til að ákvæði reglugerðarinnar verði tekið upp í lögin.
    Í 6. tölul. er einnig lögð til orðalagsbreyting en ekki er um efnisbreytingu að ræða. Síðari hluti þessa töluliðar, sem byggist m.a. á 46. gr. tilskipunar 85/611/EBE um sameiginlega fjárfestingu, er að finna í 3. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 792/2003. Með tilliti til heildarsamræmis er lagt til að ákvæði reglugerðarinnar verði tekið upp í lögin.
    Lagðar eru til breytingar á orðalagi 2. mgr. þar sem ákvæðið var í gildandi lögum ekki innleitt með réttum hætti. Þar er kveðið á um heimild Fjármálaeftirlitsins til þess að hafna markaðssetningu erlends verðbréfasjóðs uppfylli hann ekki skilyrði sem gerð eru til verðbréfasjóða samkvæmt lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði og byggist það á 46. gr. tilskipunar 85/611/EBE um sameiginlega fjárfestingu með síðari breytingum. Af umræddu ákvæði tilskipunarinnar leiðir að heimilt er að hafna markaðssetningu sjóðs ef þær ráðstafanir, sem hafa verið gerðar með tilliti til þess að tryggja rétt eigenda skírteina til útgreiðslu hagnaðar, innlausnar hlutdeildarskírteina og þeirra upplýsinga sem sjóðnum er skylt að miðla, eru ekki fullnægjandi eða markaðssetningin stríðir að öðru leyti gegn ákvæðum laga. Hér er lagt til að færa ákvæðið til samræmis við ákvæði tilskipunarinnar að þessu leyti.
    Einnig er lagt til í 2. mgr. 44. gr. frumvarpsins að heimila Fjármálaeftirlitinu að stytta frest skv. 1. mgr. ákvæðisins, að því tilskildu að öll nauðsynleg gögn hafi borist. Jafnframt er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði að sama skapi veitt heimild til að lengja frestinn ef kalla þarf eftir frekari gögnum og upplýsingum, í stað þess að Fjármálaeftirlitið þurfi að hafna markaðssetningu. Með þessum úrbótum mundi Fjármálaeftirlitið fylgja leiðbeiningum Committee of European Securities Regulators (CESR).
    CESR hefur birt leiðbeiningar nr. CESR/06–120b til eftirlitsstjórnvalda innan EES vegna markaðssetningar verðbréfasjóða á milli landa. Meginmarkmið leiðbeininganna er að einfalda það ferli sem á sér stað þegar verðbréfasjóðir eru markaðssettir milli aðildarríkja EES á grundvelli svokallaðs Evrópupassa. Einkum hefur verið gagnrýnt að 46. gr. tilskipunar 85/611/EBE virðist gera ráð fyrir því að markaðssetning megi einungis hefjast að liðnum tveimur mánuðum eftir að öll nauðsynleg gögn hafa borist eftirlitsstjórnvöldum, sbr. t.d. 1. mgr. 43. gr. laga nr. 30/2003. Hins vegar hefur komið í ljós að ýmis aðildarríki hafa túlkað umrætt ákvæði með mismunandi hætti þannig að sum hafa sett styttri frest en önnur heimilað markaðssetningu um leið og öll gögn hafa borist. Gagnrýnt hefur verið að réttarstaða aðila með tilliti til fresta hafi verið óljós, t.d. varðandi það hvort frestur lengist þurfi að kalla eftir frekari gögnum. Á grundvelli aðildarsamnings Fjármálaeftirlitsins við CESR er Fjármálaeftirlitið skuldbundið til að framfylgja ákvörðunum og leiðbeiningum CESR. Samkvæmt umræddum leiðbeiningum getur Fjármálaeftirlitið óskað eftir frekari skýringum vegna þeirra gagna sem hafa verið lögð fram með tilkynningu skv. 6. tölul. 1. mgr. 43. gr. gildandi laga, án þess að frestur skv. 1. mgr. lengist. Réttur verðbréfasjóðs til þess að hefja markaðssetningu eftir tveggja mánaða frestinn mundi vera óbreyttur nema rökstudd synjun sé gefin út. Ef Fjármálaeftirlitið telur hins vegar að skilyrði til höfnunar markaðssetningar séu fyrir hendi en líklegt sé að verðbréfasjóðurinn geti bætt úr þannig að það þurfi ekki að koma til höfnunar er heimilt, áður en til höfnunar kemur, að veita viðkomandi aðila kost á að veita umbeðnar upplýsingar og gögn innan frestsins. Í slíkum tilvikum hættir frestur skv. 1. mgr. 43. gr. laganna að líða en hefst aftur þegar allar umbeðnar upplýsingar hafa verið mótteknar af Fjármálaeftirlitinu. Ef Fjármálaeftirlitið telur, eftir að hafa móttekið öll nauðsynleg gögn, að ráðstafanir sjóðsins séu enn ekki fullnægjandi með tilliti til 6. tölul. 1. mgr. 43. gr. laganna mundi það gefa út rökstudda synjun innan þess tíma sem er eftir af fresti skv. 1. mgr. 43. gr. laganna. Fjármálaeftirlitinu er einnig heimilt að stytta frest skv. 1. mgr. 43. gr. laganna hafi öll tilskilin gögn borist. Þess má geta að það er til umræðu á evrópuvettvangi að einfalda kynningarferli við markaðssetningu verðbréfasjóða utan heimalands.

Um 45. gr.


    Lagt er til að taka ákvæði 15. gr. reglugerðar nr. 792/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, upp í 45. gr. frumvarpsins með örlítið breyttu sniði. Reglugerðarákvæðið kveður á um markaðssetningu erlendra sjóða um sameiginlega fjárfestingu hér á landi, annarra en verðbréfasjóða.
    Efnislega verður ákvæðið sambærilegt við 1. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar en þar er fjallað um umsókn fjárfestingarsjóða (non-UCITS sjóða) til Fjármálaeftirlitsins um að hefja markaðssetningu hér á landi.
    Í 2. mgr. greinarinnar er kveðið á um tilkynningu um breytingu á áður tilkynntum atriðum og er ákvæðið óbreytt frá 2. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar. Í 15. gr. reglugerðarinnar er jafnframt tilskilið að öðrum sjóðum sé heimilt að markaðssetja hluti sína tveimur mánuðum eftir að skilyrði 1. mgr. er uppfyllt. Hér er hins vegar lagt til að Fjármálaeftirlitið geti veitt samþykki fyrir því að sjóður skv. 1. mgr. hefji markaðssetningu ef ákvæði 1. mgr. eru uppfyllt og ráðstafanir skv. 6. tölul. 1. mgr. 44. gr. frumvarpsins eru fullnægjandi og markaðssetningin stríðir að öðru leyti ekki gegn ákvæðum laga. Ef Fjármálaeftirlitið hafnar markaðssetningu skal það rökstyðja synjun skriflega til sjóðsins.
    Framangreint felur m.a. í sér að fjárfestingarsjóðir (e. non-UCITS) sem hyggjast markaðssetja hluti sína hérlendis þurfa að sækja um heimild til þess til Fjármálaeftirlitsins, að teknu tilliti til undanþágu 47. gr. frumvarpsins ef eingöngu er markaðssett til fagfjárfesta. Í þeim tilvikum er þó mælt fyrir um tilkynningarskyldu til Fjármálaeftirlitsins.

Um 46. gr.


    Þetta ákvæði samsvarar 44. gr. gildandi laga og tekur af tvímæli um það að Fjármálaeftirlitið geti brugðist við stórfelldum brotum á löggjöf um verðbréfasjóði með því að leggja bann við markaðssetningu erlends verðbréfasjóðs hér á landi. Ekki verða efnislegar breytingar á ákvæðinu að öðru leyti en að það er aðlagað 45. gr. frumvarpsins. Ákvæðið þarfnast að öðru leyti ekki skýringar.

Um 47. gr.


    Í 13. gr. reglugerðar nr. 792/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, er að finna ákvæði sem felur í sér undanþágu frá tilkynningu og umsókn um markaðssetningu erlendra verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu til Fjármálaeftirlitsins vegna markaðssetningar til tiltekinna aðila, þ.e. til fagfjárfesta. Lagt er til að taka upp sambærilegt ákvæði í 47. gr. frumvarpsins.
    Ákvæðið er ekki efnislega samhljóða reglugerðarákvæðinu þar sem lagt er til að sú krafa verði gerð til fagfjárfestasjóða, sem hyggjast eingöngu markaðssetja hluti eða hlutdeildarskírteini sín til fagfjárfesta hér á landi, að þeir skuli fyrir fram tilkynna það til Fjármálaeftirlitsins, ásamt nánar tilteknum upplýsingum. Nauðsynlegt er talið að upplýsingar séu til staðar um hvaða fagfjárfestasjóðir eru markaðssettir hér á landi og verður ekki talið að þessi áskilnaður verði of íþyngjandi fyrir slíka sjóði. Tilgangur þessa ákvæðis er m.a. að stemma stigu við því að íslenskir sjóðir séu markaðssettir með umræddum hætti og rekstrarfélög þeirra komist þannig hjá því lögbundna eftirliti og ákvæðum um upplýsingagjöf sem fram koma í V. kafla frumvarpsins sem fjallar um fagfjárfestasjóði.

Um 48. gr.


    Í greininni er fjallað um markaðssetningu íslenskra verðbréfasjóða utan Íslands. Ákvæðið er samhljóða 45. gr. gildandi laga og tekur ekki efnislegum breytingum.

Um 49. gr.


    Reglur um ársreikninga og árshlutauppgjör vegna verðbréfasjóða eru settar fram í 49. gr. frumvarpsins. Ákvæðið er sambærilegt við 46. gr. gildandi laga en lagt er til að felld verði niður ákvæði er varða skil rekstrarfélags á ársfjórðungslegu efnahagsyfirliti verðbréfasjóðs. Sömu upplýsingar koma fram í þessum skýrslum og í yfirliti um sundurliðun fjárfestinga og er kveðið á um skil skýrslu um sundurliðun fjárfestinga í 50. gr. frumvarpsins.

Um 50. gr.


    Í 50. gr. er kveðið á um skil rekstrarfélags á skýrslum um sundurliðun fjárfestinga. Hingað til hefur slíkum skýrslum verið skilað til Fjármálaeftirlitsins ársfjórðungslega með vísan til 66. gr. gildandi laga, sem fjallar um eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins. Reynslan hefur sýnt að nauðsynlegt er að kanna fjárfestingar sjóðanna oftar og er því lagt til að lögfest verði ákvæði um skil umræddra skýrslna á því formi og eins oft og Fjármálaeftirlitið ákveður.

Um 51. gr.


    Greinin er efnislega óbreytt frá 47. gr. gildandi laga um útboðslýsingu og útdrátt úr útboðslýsingu. Eina breytingin sem verður á ákvæðinu er að 4. mgr. þess verður að 8. mgr. 52. gr. Að öðru leyti er vísað til skýringa sem koma fram í athugasemdum frumvarps til gildandi laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði.

Um 52. gr.


    Kveðið er á um efni útboðslýsinga í 52. gr. frumvarpsins en ákvæðið samsvarar 48. gr. gildandi laga. Smávægilegar orðalagsbreytingar eru lagðar til í 1. mgr. Í 2. mgr. er lagt til að breyta orðalagi lítillega þar sem í ljós hefur komið að ákvæði 2. mgr. 48. gr. gildandi laga nr. 30/2003 innleiðir ekki fyllilega 1. mgr. 24. gr. a tilskipunar 85/611/EBE um sameiginlega fjárfestingu. Láðst hefur að geta þess að í útboðslýsingu skuli jafnframt tilgreina hvort fjárfest sé í afleiðum sem lið í fjárfestingarstefnu. Lagt er til að bæta úr þessu og er þessi breyting í samræmi við þá framkvæmd sem hefur verið viðhöfð. Ákvæði 2. og 3. mgr. eru því efnislega óbreyttar frá gildandi lögum.
    Lagt er til að 4. mgr. ákvæðisins sé felld niður en sömu kröfur koma fram annars staðar í ákvæðinu.
    Í 5. mgr. er lögð til sú orðalagsbreyting að notað er hugtakið „ársreikningur“ í stað „ársskýrslu“ en líklega er um þýðingarvillu að ræða þar sem rétt er að nota hugtakið ársreikningur.
    Í 7. mgr. er lagt til að bæta við áskilnaði um að rekstrarfélag skuli taka fram í útboðslýsingu hvaða verkefnum félagið hefur útvistað.
    Í 8. mgr. er ákvæði sem er samhljóða 4. mgr. 47. gr. gildandi laga og kveður á um að í reglugerð verði kveðið nánar á um upplýsingar sem fram skulu koma í útboðslýsingu og útdrætti úr útboðslýsingu.

Um 53. gr.


    Ákvæðið kveður á um aðgengi að upplýsingum og er sambærilegt 49. gr. gildandi laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Lagt er til að í 3. mgr. verði áskilið að reglur verðbréfasjóðs, útboðslýsing og útdráttur úr útboðslýsingu skuli vera aðgengileg almenningi. Þessar kröfur er t.d. hægt að uppfylla með birtingu skjalanna (upplýsinganna) á heimasíðu rekstrarfélags. Greinin þarfnast að öðru leyti ekki skýringa.

Um 54. gr.


    Fjallað er um þóknun rekstrarfélags í 50. gr. gildandi laga og er lagt til að ákvæðið verði efnislega óbreytt. Í athugasemdum við frumvarp til gildandi laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði segir í skýringum við ákvæðið: „Tekjur rekstrarfélags af verðbréfasjóðastarfsemi eru þóknanir sem það áskilur sér fyrir þjónustu sína. Þóknun getur verið föst, hlutfall af eign eða munur á kaup- og sölugengi. Þóknunin hefur mikil áhrif á mögulega ávöxtun fjárfestis af fjárfestingu sinni í verðbréfasjóði og því mikilvægt að hann geri sér grein fyrir þóknun rekstrarfélags áður en hann tekur ákvörðun um fjárfestingu í sjóðnum.“ Ekki er sérstaklega tekið fram með hvaða hætti tilkynning um breytingu á þóknun skuli fara fram. Líta verður svo á að tilkynning t.d. á heimasíðu viðkomandi rekstrarfélags eða með öðrum opinberum hætti sé nægileg. Það er því ekki áskilið að tilkynning þurfi að vera skrifleg og send bréflega til hvers og eins hlutdeildarskírteinishafa.
    2. mgr. er í samræmi við tilskipun um sameiginlega fjárfestingu.

Um 55. gr.


    Í greininni er fjallað um kynningarstarfsemi verðbréfasjóða. Ákvæðið byggist á 51. gr. gildandi laga að viðbættum nokkrum breytingum.
    Lagt er til að í 2. mgr. ákvæðisins verði að finna upptalningu á þeim atriðum sem eiga að koma fram í auglýsingum og kynningarefni sjóðanna. Með kynningarefni er t.d. átt við einblöðunga sem eru að jafnaði gefnir út mánaðarlega og bæklinga. Ekki er átt við auglýsingar og styttra efni ætlað til kynningar og markaðssetningar. Nauðsynlegt er að viðkomandi upplýsingar séu greinargóðar og aðgengilegar að því er varðar staðsetningu og leturstærð. Með upplýsingum um áhættu er átt við að fram komi hvaða þættir geta haft áhrif á gengi sjóðsins, m.a. markaðsáhætta, skuldaraáhætta, gjaldmiðlaáhætta og lausafjáráhætta.
    Þrátt fyrir tiltölulega afdráttarlaust ákvæði verður engu að síður að líta til þess að í þeim tilvikum sem sjóður vill nýta sér birtingu auglýsingar í ljósvakamiðli getur, eðli málsins samkvæmt, verið óhægt um vik að uppfylla öll efnisatriði ákvæðisins. Það gæti orðið um langa útvarpsauglýsingu að ræða. Telja verður því að í slíkum tilvikum væri heimilt að benda á að nánari upplýsingar væri að finna hjá viðkomandi sjóði og á heimasíðu rekstrarfélagsins, auk hvatningar til þess sem auglýsingu væri beint að til þess að leita sér nánari upplýsinga.
    Þá er lagt til að rekstrarfélagi verði gert skylt að birta á heimasíðu og öðru kynningarefni, t.d. einblöðungi, til viðbótar þeim upplýsingum sem koma fram í 2. mgr., upplýsingar um nöfn tíu stærstu útgefenda í eignasafni og hlutfall fjárfestinga í hverjum aðila. Auk þess er lagt til að birta þar nafn- og raunávöxtun síðustu þriggja reikningsára/almanaksára. Skylda rekstrarfélaga til að birta upplýsingar um tíu stærstu útgefendur mundi stuðla að auknu gagnsæi í fjárfestingum þeirra en mikið hefur verið fjallað um rétt hlutdeildarskírteinishafa til að vera upplýstir um fjárfestingar sjóðanna. Jafnframt er talið nauðsynlegt að leggja áherslu á að umræddar upplýsingar verði uppfærðar reglulega, að lágmarki á sex vikna fresti. Verði verulegar breytingar á samsetningu stærstu útgefenda innan sex vikna skyldi þó tilkynna þær án tafar. Verður að teljast eðlilegt að þessar upplýsingar séu opinberar þar sem í raun eru það hlutdeildarskírteinishafar sem eiga sjóðina en ekki rekstrarfélagið og getur regluleg birting upplýsinganna aðstoðað þann sem vill fjárfesta í sjóðum við að taka upplýsta ákvörðun um fjárfestingar og fjárfestingarstefnu þeirra sjóða sem viðkomandi hefur áhuga á að fjárfesta í. Hins vegar ber einnig að hafa í huga að samkeppnissjónarmið geta haft áhrif á mat á því hversu oft og á hversu víðtækan hátt eigi að birta upplýsingarnar. Regluleg birting, t.d. breytinga á eignasamsetningu sjóðs daglega, gæti einnig leitt til þess að önnur rekstrarfélög nýti greiningar og upplýsingasöfnun annarra sér til hagsbóta. Þarna vegast því á hagsmunir hins almenna fjárfestis á að fá upplýsingar um fjárfestingar sjóða og hins vegar hagsmunir rekstrarfélaga og sjóða til þess að vinna að eigin fjárfestingarstefnu án þess að aðrir notfæri sér þær upplýsingar sem um er að ræða eða þær hamli samkeppni.

Um 56. gr.


    Ákvæði um skyldu rekstrarfélags til að tilkynna um áhættu í verðbréfasjóði er ekki að finna í gildandi lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Þó er slíkt ákvæði að finna í 55. gr. laganna, en þar sem það er staðsett í III. kafla laganna, sem gildir um fjárfestingarsjóði, hefur gildissvið þess takmarkast við fjárfestingarsjóði og þar með ekki náð til verðbréfasjóða. Nú er lagt til að ákvæðið verði fært í II. kafla laganna sem 56. gr. Með þeirri breytingu mun ákvæðið bæði taka til verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða og sú skylda hvíla á rekstrarfélögum að upplýsa hvern þann sem hefur hug á að fjárfesta í slíkum sjóðum um þá áhættu sem slíkum fjárfestingarkostum getur fylgt.

Um 57. gr.


    Í III. kafla laganna er fjallað um fjárfestingarsjóði sem gefa út hlutdeildarskírteini. Eins og þegar hefur komið fram má segja að meginmunurinn á verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði felist í því að fjárfestingarsjóðum er ekki heimilt að markaðssetja sig á Evrópska efnahagssvæðinu og fjárfestingarheimildir þeirra eru ekki í eins miklum mæli takmarkaðar og fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða. Uppbygging, rekstur og tilgangur sjóðanna er hins vegar sambærilegur og þess vegna gilda að mörgu leyti sömu ákvæði um fjárfestingarsjóði og um verðbréfasjóði. Það þykir því við hæfi í upphafi III. kafla, 57. gr. frumvarpsins, sem samsvarar 52. gr. gildandi laga, að taka fram að ákvæði II. kafla, nánar tiltekið undirkaflar A–D og H, gildi einnig um fjárfestingarsjóði. Þeim ákvæðum til viðbótar standa efnisreglur III. kafla sem er nánar lýst hér á eftir. Ákvæðið tekur ekki efnislegum breytingum en orðalagi er lítillega breytt frá gildandi lögum. Vísast til skýringa við 52. gr. frumvarps til gildandi laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði.

Um 58. gr.


    Í ákvæðinu er fjallað um innlausn hlutdeildarskírteina fjárfestingarsjóða og samsvarar það 53. gr. gildandi laga. Lagt er til að sömu breytingar verði gerðar á ákvæðinu um innlausn hlutdeildarskírteina og lagðar eru til í 27. gr. frumvarpsins enda eru ákvæðin sambærileg.
    Áréttað er í 2. mgr. að frestun á innlausn skuli ekki standa lengur en nauðsyn krefur.
    Nýmæli er að finna í 3. mgr. varðandi tilkynningar um opnun sjóða þegar frestun innlausnar lýkur. Mælt er fyrir um skriflega tilkynningu til hlutdeildarskírteinishafa standi frestun lengur en fjórar vikur samfellt. Tilkynning skal vera bréfleiðis eða með sambærilegum hætti. Það sé því hugsanlegt að senda hlutdeildarskírteinishöfum upplýsingarnar með tölvupósti haldi sjóðurinn uppfærða netfangaskrá. Telja verður að birting í heimabanka hlutdeildarskírteinishafa geti ekki jafngilt bréflegri tilkynningu.

Um 59. gr.


    Fjárfestingarheimildir fjárfestingarsjóða eru skv. 30.–43. gr., þ.e. sambærilegar þeim sem gilda um verðbréfasjóði með þeim undanþágum sem eru heimilaðar í greininni. Tekið er fram að nýti fjárfestingarsjóður sér þær heimildir sem hér koma fram þá skuli það koma skýrt fram í reglum sjóðsins.
    Uppbygging ákvæðisins er með sambærilegum hætti og áður, vísað er til meginreglunnar um fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða í 30. gr. og því næst eru taldar í sex málsgreinum þær undanþágur sem fjárfestingarsjóðum er heimilt að gera. Í 2. mgr. er vakin sérstök athygli á heimild fjárfestingarsjóða til fjárfestingar allt að 20% af eignum sjóðsins í hlutdeildarskírteinum annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu
    Í 3. mgr. er heimildarákvæði bætt við og áréttað að hámark fjárfestingar í einum útgefanda sé 10% af heildareignum. Í framkvæmd er ekki um breytingu að ræða, aðeins er verið að skýra heimildir fjárfestingarsjóða.
    Litlar breytingar verða á efni 4. mgr. frá gildandi lögum. Í 4. tölul. hennar er bætt við að fjárfestingarsjóði er heimilað að fjárfesta 30% af eignum sjóðsins í innlánum til viðbótar við 35% fjárfestingar í verðbréfum og peningamarkaðsskjölum sama útgefanda. Það er því heimilt að binda allt að 35% af eignum sjóðs í peningamarkaðsskjölum og afleiðum gefnum út af sama aðila en sé það gert má fjárfesting í öðrum útgefendum ekki vera meiri en 20%. Sem dæmi má nefna að ef fjárfest væru 33% eignar sjóðs í A, þá mættu fjárfestingar í öðrum einstökum útgefendum ekki fara yfir 20%. Mögulegt er að fara upp í allt að 40% en þá má fjárfesting í peningamarkaðsskjölum og afleiðum sama útgefanda ekki fara yfir 35% og yrðu þá hin 5% að vera innlán. Samsetningin gæti einnig verið annars konar, t.d. 20% í peningamarkaðsskjölum og afleiðum og 20% í innlánum.
    Áhersla er lögð á að gera ákvæðið skýrara með því að breyta uppsetningu þess Nú eru sérstaklega tiltekin þau ákvæði 35. gr. sem eiga við fjárfestingarsjóði, í stað þess að vísa til þeirra. Lagt er til að heimildir til fjárfestinga í tengdum aðilum verði hærri fyrir fjárfestingarsjóði en verðbréfasjóði og tekið er fram með sambærilegum hætti og kemur fram í 35. gr. að um skyldu rekstrarfélaga til þess að tengja saman aðila fari samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Í 5. mgr. er að finna ótakmarkaða heimild fjárfestingarsjóða til þess að fjárfesta í öðrum fjárfestingarsjóðum en kveðið er á um að fjárfesting í sama fjárfestingarsjóði megi ekki fara yfir 20% af eignum hans. Samsvarandi ákvæði er að finna í gildandi lögum með öðru orðalagi. Í 6. mgr. kemur fram að fjárfestingarsjóði er heimilt að taka lán til skamms tíma en þó er lántakan takmörkuð við það sem svarar til 25% af verðmæti eigna sjóðs og er ekki um að ræða efnisbreytingu frá gildandi lögum.
    Í 7. mgr. er lögð til orðalagsbreyting sem felst í því að í stað „sem á ekki í fórum sínum“ þá er lagt til að orðalagið „hefur ekki ráðstöfunarrétt yfir“ verði notað.

Um 60. gr.


    Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. UCITS-tilskipunarinnar nr. 85/611/EBE er rekstrarfélögum óheimilt að starfrækja aðra sjóði en þá sem lúta opinberu eftirliti. Af orðanna hljóðan má því ætla að rekstrarfélögum sé óheimilt að starfrækja fagfjárfestasjóði þar sem þeir lúta ekki opinberu eftirliti. Þess vegna er lagt til að sérstakur kafli í lögunum muni fjalla sérstaklega um fagfjárfestasjóði. Um er að ræða sjóði um sameiginlega fjárfestingu en þeir veita ekki viðtöku fé frá almenningi og almenningi er m.a. með hliðsjón af neytendaverndarsjónarmiðum óheimilt að fjárfesta í slíkum sjóðum. Hingað til hafa fagfjárfestasjóðir ekki lotið skipulögðu eftirliti og er ljóst að með því er mögulegt að ákveðin áhætta skapast á að fagfjárfestasjóður hagnýti sér þann eftirlitsskort. Með hliðsjón af þessu er lagt til að lögfest verði lágmarkseftirlit með fagfjárfestasjóðum. Kveðið er á um að Fjármálaeftirlitinu verði tilkynnt um stofnun og starfsemi sjóðanna, haldin verði skrá yfir þá og að þeim verði gert skylt að skila skýrslu um sundurliðun fjárfestinga til Fjármálaeftirlitsins.
    Nokkuð misjafnt er hvernig málefnum fagfjárfestasjóða er háttað í öðrum ríkjum. Í ríkjum Evrópusambandsins hafa fagfjárfestasjóðir almennt ekki sérstaka stjórn en lúta engu að síður ákveðnu eftirliti. Þeim ber að upplýsa um fjárfestingarstefnu sína en þurfa yfirleitt aðeins að upplýsa um eignasafn í hálfsársskýrslu og ársreikningi en ekki að kröfu fjárfesta.
    Í ákvæði þessarar greinar eru lagðar til lágmarkskröfur til skráningar og upplýsingagjafar fagfjárfestasjóða en fram til þessa hefur ekki verið gerð krafa um að aðrir rekstraraðilar fagfjárfestasjóða en rekstrarfélög verðbréfasjóða tilkynni um stofnun fagfjárfestasjóða. Af þeim orsökum liggja t.d. ekki fyrir upplýsingar um fjölda fagfjárfestasjóða sem starfræktir eru á Íslandi.
    Lagt er til að í 2. mgr. verði hnykkt á því að rekstrarfélög verðbréfasjóða beri ekki ábyrgð á skuldbindingum einstakra fagfjárfestasjóða og einungis eignir hvers sjóðs standi til fullnustu skuldbindingum viðkomandi sjóðs. Ekki er litið svo á að um efnisbreytingu sé að ræða og hefur framkvæmdin verið í samræmi við framangreint. Eiga því eigendur hlutdeildarskírteina einungis kröfu til hlutdeildar í eignum viðkomandi sjóðs sem þeir eru eigendur í en geta ekki gert tilkall til eigna rekstraraðila fagfjárfestasjóðs eða annara sjóða sem sömu aðilar reka. Rétt þykir þó að taka af allan vafa í þessu efni, m.a. með hliðsjón af því að engar takmarkanir gilda um fjárfestingarheimildir fagfjárfestasjóða og geta þeir því fjármagnað fjárfestingar sínar með lántökum. Ef illa gengur í rekstri slíks sjóðs getur það m.a. leitt til þess að skuldheimtumenn geri tilkall til eigna sjóðsins. Með þeirri breytingu sem er lögð til er tekinn af allur vafi um að í slíkum tilvikum eigi skuldheimtumenn, eins og eigendur hlutdeildarskírteina, einungis kröfu til eigna viðkomandi sjóðs en geti ekki gengið að eignum rekstraraðila fagfjárfestasjóðs eða annarra sjóða sem sömu aðilar reka. Ákvæðið víkur þó ekki til hliðar skaðabótaábyrgð rekstrarfélags hafi það sýnt af sér saknæma háttsemi og öðrum skilyrðum skaðabótaskyldu sé fullnægt.

Um 61. gr.


    Samkvæmt þessari grein er fagfjárfestasjóðum skylt að senda Fjármálaeftirlitinu reglur og fjárfestingarstefnu sjóðsins og telst þetta til hluta af lágmarkseftirliti með sjóðunum. Þessar upplýsingar eru Fjármálaeftirlitinu nauðsynlegar til þess að það geti sinnt eftirlitsskyldu sinni. Þá er fagfjárfestasjóðum jafnframt gert skylt að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það hverjir eru sjóðstjórar sjóðsins. Er þessi krafa nauðsynleg og eðlileg til þess að Fjármálaeftirlitið geti metið hæfi viðkomandi aðila skv. 62. gr. en breytingar á reglum og/eða sjóðstjórum skulu tilkynntar til Fjármálaeftirlitsins.
    Að lokum er í 3. mgr. áskilið að rekstraraðilar fagfjárfestasjóðs skuli veita upplýsingar um eignasafn sjóðs í ársreikningi og hálfsársuppgjöri og að ársreikningur skuli vera fjárfestum aðgengilegur.

Um 62. gr.


    Í þessu frumvarpi eru lagðar til auknar kröfur til hæfis þeirra starfsmanna rekstraraðila sem hafa með höndum sjóðastýringu. Í þessari grein er að finna sambærilegt ákvæði við 14. gr. frumvarpsins, sem mælir fyrir um að starfsmenn sem hafi umsjón með sjóðastýringu skuli hafa staðist próf í verðbréfaviðskiptum, sbr. lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Jafnframt er talið rétt að gera þann áskilnað að rekstraraðilar fagfjárfestasjóða uppfylli ákveðin hæfisskilyrði og er þá sérstaklega verið að líta til þeirra tilvika þegar rekstrarfélög eru ekki rekstraraðilar. Fagfjárfestasjóðir sýsla með verulegar fjárhæðir og þrátt fyrir að um sé að ræða fagfjárfestasjóði og því hugsanlega ekki nauðsynlegt frá neytendaréttarlegu sjónarmiði að gera slíkar kröfur, þá má huga að hvort ekki sé rétt frá samfélagslegu sjónarmiði og sjónarmiðum um efnahagslegan stöðugleika að gera slíkar kröfur. Er því lagt til að rekstraraðili eða framkvæmdastjórar rekstraraðila (ef um lögaðila er að ræða) skuli uppfylla hæfisskilyrði laga um fjármálafyrirtæki. Breytingar á stjórnendum sjóðsins og framkvæmdastjóra skulu tafarlaust tilkynntar til Fjármálaeftirlitsins en sú krafa er nauðsynleg til að Fjármálaeftirlitið geti sinnt eftirlitshlutverki sínu.

Um 63. gr.


    Í greininni er kveðið á um skyldu rekstraraðila fagfjárfestasjóðs til að veita Fjármálaeftirlitinu skýrslu um sundurliðun fjárfestinga sjóðsins. Skýrslugjöfin skal vera á því formi sem Fjármálaeftirlitið ákveður og felur því í sér að það getur kallað eftir slíkri skýrslu þegar þörf er talin. Þetta er sambærilegt ákvæði því sem gildir um aðra sjóði.

Um 64. gr.


    Vegna ákvæða um lágmarkseftirlit og skráningu fagfjárfestasjóða eru lagðar til breytingar á 66. gr. gildandi laga til samræmis en í ákvæðinu er fjallað um eftirlit með starfsemi verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóða.

Um 65. gr.


    Efnahags- og viðskiptaráðherra er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd laganna í reglugerð. Lagt til að bæta við ákvæðið heimild ráðherra til þess að kveða á um efri og neðri mörk fjárfestingarstefnu verðbréfasjóða, sbr. 2. mgr. 11. gr. frumvarpsins, og eftirlit með fagfjárfestasjóðum. Að öðru leyti tekur ákvæðið ekki efnislegum breytingum.

Um 66. gr.


    Frumvarp til laga um breytingar á lagaákvæðum um viðurlög við brotum á fjármálamarkaði var samið með hliðsjón af niðurstöðum nefndar forsætisráðherra um viðurlög við efnahagsbrotum. Með samþykki frumvarpsins, er varð að lögum nr. 55/2007, um breytingar á lagaákvæðum um viðurlög við brotum á fjármálamarkaði, voru settir viðamiklir viðurlagakaflar í lagabálka þá er eiga við um fjármálamarkað, þ.m.t. lög um verðbréfaviðskipti, lög um rafræna eignarskráningu verðbréfa, lög um fjármálafyrirtæki, lög um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði o.fl. Í umfjöllun um viðurlagaákvæði V. kafla þessa frumvarps verður að mestu stuðst við þær athugasemdir er fylgdu frumvarpi til umræddra laga enda eru ekki gerðar tillögur um miklar breytingar á þessum ákvæðum.
    Fjallað er um stjórnvaldssektir í 76. gr. frumvarpsins en samsvarandi ákvæði er að finna í 68. gr. gildandi laga. Rétt er að vísa til athugasemda við 14. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 55/2007. Þar segir m.a. lagt sé til að ákvæði um stjórnvaldssektir verði sett í 68. gr. laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Áður en þessi lög voru samþykkt lágu aðeins refsiviðurlög við brotum á lögunum. Í 1. mgr. ákvæðisins er mælt fyrir um heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja stjórnvaldssektir á einstaklinga og/eða fyrirtæki við nánar tilteknar aðstæður. Í ákvæðinu er að finna upptalningu á þeim brotum sem lagt er til að geti varðað stjórnvaldssektum og eru þau talin í 40 töluliðum. Upptalningin skýrir sig sjálf og þarfnast ekki nánari skýringa en við samningu þessa frumvarps var bætt við nokkrum slíkum sektarákvæðum vegna brota á boð- og bannákvæðum sem fram koma í lagatextanum.
    Lagt er til að bæta við nýrri 3. mgr. þar sem Fjármálaeftirlitinu er veitt heimild til þess að beita verðbréfasjóð, fjárfestingarsjóð eða fagfjárfestasjóð stjórnvaldssektum ef sjóður verður uppvís að því að brjóta ítrekað eða gróflega gegn þeirri fjárfestingarstefnu sem sjóðurinn hefur sett sér og kynnt fyrir sínum fjárfestum. Talið er nauðsynlegt að veita Fjármálaeftirlitinu þetta úrræði þar sem mörg tilvik hafa komið upp þar sem sjóðir hafa brotið eigin reglur um fjárfestingar og verður að telja að það sé í þágu hagsmuna fjárfesta viðkomandi sjóðs að eftirlit sé haft með fjárfestingum þeirra og að mögulegt sé að sekta þá fylgi þeir ekki fjárfestingarstefnu sinni. Hins vegar er litið svo á að ákvæðið sé að ákveðnu leyti matskennt og taki því ekki til þeirra tilvika þegar um er að ræða svokallað „passívt brot“, þ.e. þegar fjárfestingar sjóða fara út fyrir fjárfestingarheimildir vegna utanaðkomandi aðstæðna sem ekki verður ráðið við, t.d. markaðsaðstæðna, en ekki vegna fjárfestinga. Hafi verðbréfasjóður farið fram úr heimildum fjárfestingarstefnu vegna utanaðkomandi aðstæðna er það á ábyrgð rekstrarfélaganna að sýna fram á með fullnægjandi hætti hvaða aðstæður það voru sem urðu þess valdandi.
    Í athugasemdum með fyrrnefndu frumvarpi er varð að lögum 55/2007 segir um 2. mgr. sem er reyndar 3. mgr. 68. gr. í gildandi lögum og verður 4. mgr. ef frumvarp þetta verður að lögum: „Í 2. [4.] mgr. er kveðið á um álagningu stjórnvaldssekta. Í málsgreininni er lagt til að sektir sem lagðar eru á einstaklinga geti numið frá 10 þúsund krónum til 20 milljóna króna, en að sektir sem lagðar eru á lögaðila verði hærri og geti numið frá 50 þúsund krónum til 50 milljóna króna. Þegar fjallað er um sektarfjárhæðirnar er rétt að hafa í huga að hámarkssektum samkvæmt ákvæðinu verður ekki beitt nema sem viðurlögum við allra alvarlegustu brotunum sem Fjármálaeftirlitið leggur stjórnvaldssektir við.
    Í 3. málsl. 2. [4.] mgr. koma fram þau atriði sem hafa skal til hliðsjónar við ákvörðun sekta. Upptalning ákvæðisins er ekki tæmandi, en þar kemur fram að tekið skuli tillit til alvarleika brots, hvað brot hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort að um er að ræða ítrekað brot. Í 4. málsl. er kveðið á um að stjórn Fjármálaeftirlitsins skuli taka ákvarðanir um stjórnvaldssektir og að sektirnar séu aðfararhæfar. Þá er í 5. málsl. kveðið á um að sektir skuli renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna, en eðlilegt þykir að innheimtukostnaður, sem oft getur verið allnokkur og stofnunin ber kostnað af, renni til hennar. Loks er lagt til í 6. og 7. málsl. 2. [4.] mgr. að mælt verði fyrir um greiðslu dráttarvaxta af fjárhæð stjórnvaldssekta sem Fjármálaeftirlitið leggur á. Er lagt til að dráttarvextir byrji að reiknast eftir mánuð frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins og að um ákvörðun og útreikning þeirra fari eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Í 3. [5.] mgr. er kveðið á um að stjórnvaldssektum verði beitt hvort sem lögbrot er framið af ásetningi eða gáleysi. Það er þó ljóst að alvarleiki brots ræður miklu við ákvörðun um fjárhæð stjórnvaldssektar og að stjórnvaldssektir fyrir gáleysisbrot verða almennt lægri en fyrir ásetningsbrot.“

Um 67. gr.


    Ákvæðið tekur ekki efnislegum breytingum frá gildandi lögum. Í greininni er mælt fyrir um heimildir til handa Fjármálaeftirlitinu til að ljúka málum með sátt en litið var svo á við setningu viðurlagakaflans að lögfesting heimildar til að ljúka málum með sátt mundi stuðla að frekara gagnsæi og styrkja núgildandi heimildir. Í athugasemdum við 15. gr. laga nr. 55/2007 segir: „Í tillögu þeirri sem gerð er að sáttaákvæði í frumvarpinu er ekki aðeins gert ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að bjóða málsaðilum að ljúka málum með sátt um hæfilega sektargreiðslu, heldur er ætlunin að Fjármálaeftirlitið geti beitt öllum þeim úrræðum sem það hefur lögum samkvæmt þegar málum er lokið með sátt. Til að unnt sé að ljúka máli með sátt verður samþykki málsaðila að liggja fyrir. Sáttir eru því ekki einhliða ákvarðanir stjórnvalds, heldur koma málsaðilar einnig að þeim. Því er lagt til að kveðið verði skýrt á um að þær séu bindandi fyrir aðila þegar hann hefur samþykkt sáttina og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Fjármálaeftirlitinu er ekki heimilt að ljúka máli með sátt ef um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við. Loks er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið skuli setja nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.“

Um 68. gr.


    Ákvæðið, sem tekur ekki efnislegum breytingum frá 70. gr. gildandi laga, lögfestir ákvæði er kveður á um rétt einstaklings til að fella ekki á sig sök við rannsókn á stjórnsýslustigi. Í athugasemdum við 16. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 55/2007 segir um þetta ákvæði: „Á meðan slíkt almennt ákvæði er ekki í stjórnsýslulögum þykir æskilegt að inntak réttarins verði lögfest í lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, þar sem stjórnsýsluviðurlög, sem talist geta viðurlög við „refsiverðu broti“ í skilningi 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, liggja við brotum á lögunum, sbr. umfjöllun í almennum athugasemdum.
    Ákvæðið á aðeins við ef til staðar er „rökstuddur grunur“ um að viðkomandi hafi framið refsivert brot. Þykir eðlilegt að miða við að grunur yfirvalda sé svo sterkur að ástæða væri til að veita honum réttarstöðu grunaðs manns samkvæmt reglum opinbers réttarfars. Þannig verði að vera til staðar aðstæður eða sönnunargögn sem bendi til sektar viðkomandi og rannsókn að beinast að honum sérstaklega en ekki stærri hópi manna. Ef til staðar er rökstuddur grunur um að viðkomandi hafi framið refsivert brot er honum aðeins skylt að veita upplýsingar ef unnt er að útiloka að þær geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um sekt hans. Væri honum því til dæmis skylt að veita upplýsingar um nafn sitt og heimilisfang.“

Um 69. gr.


    Í ákvæðinu, sem er sambærilegt 70. gr. a gildandi laga, er mælt fyrir um að heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir falli niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk. Er það sami fyrningarfrestur og gilda mun um refsiábyrgð einstaklinga og lögaðila vegna brota á lögunum. Ákvæðið þarfnast að öðru leyti ekki skýringa og er vísað til umfjöllunar um 70. gr. a í frumvarpi til laga nr. 55/2007.

Um 70. gr.


    Í greininni er lagt til að kveðið verði á um refsingar vegna saknæmrar háttsemi í tengslum við nánar tilgreind ákvæði laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Ákvæðið er sambærilegt við 70. gr. b gildandi laga. Um nánari skýringar á ákvæðinu er vísað til athugasemda við 17. gr. frumvarps til laga nr. 55/2007. Við samningu þessa frumvarps var ákveðið að leggja til að bæta nokkrum ákvæðum við sem tilgreina brot gegn boð- eða bannákvæðum lagatextans.

Um 71. gr.


    Greinin tekur ekki breytingum frá 70. gr. c gildandi laga. Í 1. mgr. er kveðið á um að brot gegn lögunum varði refsingu hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi. Í 2. mgr. er kveðið á um að heimilt sé að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laganna er varða refsingu. Í 3. mgr. er mælt fyrir um að tilraun til brots eða hlutdeild í brotum á ákvæðum laganna sé refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.

Um 72. gr.


    Í greininni, sem lagt er til að verði óbreytt frá 70. gr. d gildandi laga, er að finna ákvæði um verklag við rannsókn mála þar sem meint brot varða bæði stjórnvaldssektum og refsiviðurlögum og um samskipti milli Fjármálaeftirlitsins og lögreglu og ákæruvalds. Í athugasemdum við 17. gr. frumvarps til laga nr. 55/2007 segir um þetta ákvæði: „Í 1. og 2. mgr. er kveðið á um hvernig skuli fara með brot gegn lögum um fjármálafyrirtæki sem bæði geta varðað stjórnvaldssektum og refsingu. Í 1. mgr. er kveðið á um að brot gegn lögunum sæti aðeins opinberri rannsókn að undangenginni kæru Fjármálaeftirlits til lögreglu. Í 2. mgr. er síðan mælt fyrir um að ef meint brot varði bæði stjórnvaldssektum og refsingu meti Fjármálaeftirlitið hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Þykir eðlilegt að það falli í hlut stjórnvalds að meta hvort ljúka beri máli með stjórnsýsluviðurlögum eða kæra það til lögreglu. Í málsgreininni er síðan að finna viðmið um það hvenær Fjármálaeftirlitinu ber að kæra mál til lögreglu. Lagt er til að stofnuninni beri að kæra öll meiri háttar brot á lögunum sem varða refsingum til lögreglu. Brot teljast meiri háttar í skilningi ákvæðisins ef þau lúta að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brots. Þá mun verða höfð hliðsjón af heimildum Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir við afmörkun á því hvaða brot teljist meiri háttar. Lögregla mun síðan rannsaka þau mál sem Fjármálaeftirlitið vísar til hennar og eftir atvikum gefa út ákæru vegna þeirra.
    Í ákvæðinu er einnig kveðið á um að Fjármálaeftirlitið geti á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli vegna brota á lögunum til opinberrar rannsóknar.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að kæra mál til lögreglu teljist ekki til stjórnsýsluákvörðunar og því gildi ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga ekki um slíkar ákvarðanir stofnunarinnar. Í málsgreininni er jafnframt kveðið á um að með kæru Fjármálaeftirlitsins skuli fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við.
    Í 4. mgr. er að finna heimild fyrir Fjármálaeftirlitið til að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast brotum sem bæði geta varðað stjórnvaldssektum og refsiábyrgð. Þá er í málsgreininni heimild fyrir stofnunina til að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn þeirra brota sem bæði geta varðað stjórnvaldssektum og refsingu.
    Í 5. mgr. greinarinnar er kveðið á um að lögreglu og ákæruvaldi sé heimilt að afhenda Fjármálaeftirlitinu upplýsingar og gögn sem aflað hefur verið og tengjast brotum sem bæði geta varðað stjórnvaldssektum og refsiábyrgð. Þá er gert ráð fyrir að lögreglu sé heimilt að taka þátt í aðgerðum Fjármálaeftirlitsins sem varða rannsókn brota sem bæði geta varðað stjórnvaldssektum og refsingu.
    Í lokamálsgrein ákvæðisins er kveðið á um heimild ákæranda til að senda eða endursenda mál til Fjármálaeftirlitsins til meðferðar og ákvörðunar í þeim tilvikum þar sem ekki eru talin efni til málshöfðunar og ætluð refsiverð háttsemi varðar jafnframt stjórnsýsluviðurlögum. Á ákvæðið við hvort sem lögregla eða ákæruvald hafa tekið mál upp að eigin frumkvæði eða fengið það sent frá eftirlitsaðilanum.“

Um 73. gr.


    Í ákvæðinu er kveðið á um innleiðingu evrópugerða um verðbréfasjóði og þarfnast hún ekki skýringa.

Um 74. gr.


    Í greininni er kveðið á um gildistöku laganna 1. janúar 2011, verði frumvarp þetta að lögum, og þarfnast ákvæðið ekki nánari skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða I.


    Í ákvæðinu er lagt til að veita rekstraraðilum starfandi fagfjárfestasjóða frest til að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um stofnun fagfjárfestasjóða, sbr. 60. gr. frumvarpsins. Þykir fullnægjandi að miða við að fresturinn verði sex mánuðir frá gildistöku laganna.

Um ákvæði til bráðabirgða II.


    Í ákvæðinu er mælt fyrir um að skýrsluskil fagfjárfestasjóða skuli hefjast 31. desember 2011. Eðlilegt þykir að veita allt að árs fyrirvara á skýrsluskilum þar sem oftast er miðað við almanaksár.

Um ákvæði til bráðabirgða III.


    Í ákvæðinu er starfandi sjóðstjórum veittur tveggja ára frestur frá gildistöku laganna til þess að afla sér þeirrar menntunar sem krafa er gerð um í 14. gr. frumvarpsins. Telja verður eðlilegt að veita nokkuð rúman tímafrest þar sem námskeið í verðbréfaviðskiptum geta fallið niður ef aðsókn er lítil en tveggja ára frestur ætti að vera nægilega rúmur til þess að koma í veg fyrir að það ástand komi upp að sjóðstjóri „brenni inni“ og geti ekki aflað sér umræddrar menntunar innan þess frests sem kveðið er á um.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um verðbréfasjóði,
fjárfestingasjóði og fagfjárfestasjóði.

    Með frumvarpinu er lagðar til breytingar sem eiga að skýra og afmarka nánar það regluverk sem gildir um starfsemi sjóða um sameiginlega fjárfestingu auk þess sem það innleiðir ákvæði tilskipunar 2007/16/EB um breytingar á tilskipun um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (UCITS). Helstu breytingar sem felast í frumvarpinu eru meðal annars þær að gert er ráð fyrir að skilyrði fyrir afturköllun á staðfestingu verðbréfa- og fjárfestingarsjóðs verði rýmkaðar auk þess sem ráðherra verði veitt heimild til að kveða í reglugerð á um afmörkun fjárfestingarstefnu verðbréfasjóðs sem og upplýsingagjafar til viðskiptavina um hana. Gert er ráð fyrir auknum kröfum um hæfi framkvæmdastjóra rekstrarfélaga, sjóðstjóra sjóða og stjórnarmanna rekstrarfélaga. Þá eru heimildir um fjárfestingar í fjármálagerningum tengdra aðila þrengdar, auknar kröfur gerðar um upplýsingagjöf sjóðanna auk þess sem fjárfestingarheimildir fjárfestingarsjóða eru þrengdar.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins verði auknar. Hugsanlega munu því eftirlitsverkefni stofnunarinnar aukast sem kann að hafa í för með sér aukinn rekstrarkostnað. Ekki liggja þó fyrir áætlanir um aukið umfang vegna slíkra verkefna á þessu stigi. Þar sem rekstur Fjármálaeftirlitsins er fjármagnaður með eftirlitsgjöldum sem lögð eru á eftirlitsskylda aðila verður ekki séð að frumvarpið muni hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.