Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 359. máls.

Þskj. 459  —  359. mál.Frumvarp til laga

um farþegagjald og gistináttagjald.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að afla tekna til að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun fjölsóttra ferðamannastaða, friðlýstra svæða og þjóðgarða. Jafnframt að afla tekna til þess að tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru landsins.
    

2. gr.
Farþegagjald.

    Greiða skal í ríkissjóð farþegagjald fyrir hvern farþega um borð í flugförum og farþegaskipum, eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum.
    Farþegagjald skal innheimt samkvæmt eftirfarandi gjaldbilum eftir vegalengd þeirrar ferðar sem farin er.

Lengd ferðar Fjárhæð
0–500 km 65 kr.
500–1000 km 130 kr.
1000–2000 km 195 kr.
2000–3000 km 260 kr.
3000–4000 km 325 kr.
4000 km og yfir 390 kr.

    Farþegagjalds skal getið í verði farseðils eða í skriflegri yfirlýsingu sé farsamningur rafrænn.

3. gr.
Gistináttagjald.

    Greiða skal í ríkissjóð gistináttagjald af hverri seldri gistinótt eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum. Ein gistinótt telst vera seldur sólarhringur í gistingu fyrir hvern einstakling.
    Gistináttagjald skal nema 100 kr. fyrir hverja gistinótt á hótelum, sbr. 3. mgr. 8. gr., en 50 kr. fyrir hverja gistinótt á annars konar gististöðum.
    Tilgreina skal gistináttagjald á sölureikningi eða greiðslukvittun og myndar gjaldið stofn til virðisaukaskatts.

4. gr.
Undanþágur.

    Undanþegin gjaldi skv. 2. eða 3. gr. eru börn innan tveggja ára aldurs, áhafnir loftfara og farþegaskipa, þeir sem viðkomu hafa á millilandaflugvelli samkvæmt farseðli eða ígildi hans milli annarra Evrópulanda og Norður-Ameríku og þeir sem ferðast með loftförum eða skipum á vegum herafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins. Undanþegnir gjaldi skv. 2. gr. eru farþegar með ferjum og flóabátum í áætlunarferðum enda komi ferjan í stað þjóðvegasambands og rekstur hennar njóti styrks samkvæmt vegalögum nr. 80/2007.
    Einstaklingar á aldrinum tveggja til tólf ára skulu greiða helming farþegagjalds skv. 2. gr. eða gistináttagjalds skv. 3. gr.
    

5. gr.
Gjaldskyldir aðilar.

    Öllum þeim sem í atvinnuskyni flytja farþega með loftförum eða farþegaskipum innan lands eða frá Íslandi til annarra landa ber skylda til að standa skil á farþegagjaldi skv. 2. gr.
    Öllum þeim sem selja gistingu á gististöðum skv. 3. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, og leyfisskyldir eru skv. 7. gr. sömu laga, ber skylda til að innheimta og standa skil á gistináttagjaldi skv. 3. gr.
    Undanþegnir gjaldskyldu skv. 1. og 2. mgr. eru þeir sem uppfylla skilyrði 3. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
    Gjaldskyldir aðilar skv. 2. mgr., sbr. 3. mgr. 6. gr., skulu ótilkvaddir senda ríkisskattstjóra tilkynningu um gjaldskylda starfsemi áður en starfsemi hefst.
    Ríkisskattstjóri heldur skrá yfir gjaldskylda aðila skv. 2. mgr., sbr. 3. mgr. 6. gr.

6. gr.
Álagning og innheimta farþegagjalds vegna farþega um borð í farþegaskipi.

    Tollstjóri skal innheimta farþegagjald vegna farþega sem ferðast frá landinu með farþegaskipum við komu farþegaskips til hafnar miðað við þá vegalengd sem skipið á eftir að sigla til næstu hafnar samkvæmt áætlun skipsins og fjölda farþega.
    Ef farþegaskip í millilandaförum hefur hér viðkomu í fleiri en einni höfn er heimilt að gera upp allt gjaldið í fyrstu höfn og miða gjaldtökuna við áætlun skipsins.
    Ríkisskattstjóri annast álagningu farþegagjalds vegna farþega sem ferðast með farþegaskipum í reglubundnum áætlunarferðum innan lands. Rekstraraðilar farþegaskipa í reglubundnum áætlunarferðum innan lands skulu ótilkvaddir skila skýrslu, á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
    Farþegagjaldi skal skila til ríkissjóðs eigi síðar en 15. dag næsta almanaksmánaðar eftir brottför. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist gjalddagi til næsta virka dags á eftir.

7. gr.
Innheimta farþegagjalds vegna farþega um borð í loftfari.

    Vegna farþega sem ferðast með loftfari innan lands eða frá Íslandi til annarra landa skal farþegagjald innheimt við brottför flugfars.
    Farþegagjald vegna farþega sem ferðast með loftförum sem skráð eru erlendis loftförum sem ekki er flogið á áætlunarleiðum skal greiða rekstraraðilum flugvallar fyrir brottför loftfars.
    Farþegagjald vegna farþega sem ferðast með áætlunarflugi á viðurkenndum áætlunarleiðum skal greiða rekstraraðilum flugvallar eigi síðar en 15. dag næsta almanaksmánaðar eftir brottför.
    Rekstraraðilar flugvalla skulu 10. hvers mánaðar skila innheimtumanni ríkissjóðs greiddum farþegagjöldum vegna mánaðarins á undan ásamt skýrslu yfir fjölda farþega í þeim mánuði.

8. gr.
Álagning gistináttagjalds.

    Þeir sem gjaldskyldir eru skv. 2. mgr. 5. gr. skulu tilkynna ríkisskattstjóra um starfsemi sína.
    Ríkisskattstjóri annast álagningu gistináttagjalds skv. 3. gr. Gjaldskyldir aðilar skulu greiða gistináttagjald fyrir hvert uppgjörstímabil miðað við fjölda seldra gistinátta.
    Hótel skv. 3. gr. telst hver sá gististaður þar sem gestamóttaka er opin allan sólarhringinn, morgunverður er framreiddur og fullbúin snyrting fylgir hverju herbergi. Við skilgreiningu á því hvaða gististaðir teljist til hótela og hverjir til annarra gististaða skal jafnframt litið til skilgreiningar 3. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, og reglugerða settra á grundvelli þeirra.
    Uppgjörstímabil gistináttagjalds skal vera tveir mánuðir, janúar og febrúar, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október og nóvember og desember. Gjalddagi er fimmti dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist hann yfir á næsta virka dag á eftir. Eigi síðar en á gjalddaga skulu gjaldskyldir aðilar, sem hlotið hafa skráningu skv. 5. mgr. 5. gr., ótilkvaddir skila innheimtumanni ríkissjóðs skýrslu yfir fjölda gistinátta á uppgjörstímabilinu og standa skil á greiðslu gjaldsins.
    Skýrslur vegna gistináttagjalds skulu vera á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

9. gr.

Viðurlög.


    Sé farþegagjaldi eða gistináttagjaldi ekki skilað á réttum tíma skal álag vera 1% af þeirri fjárhæð sem vangreidd er fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 10%.
    Sé gjaldi ekki skilað innan mánaðar frá gjalddaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er.
    Heimilt er innheimtumanni að láta lögreglu stöðva atvinnurekstur þess er eigi gerir skil á réttum gjalddaga þar til skil eru gerð, m.a. með því að setja skrifstofur, starfsstöðvar, gistirými og flutningstæki hans undir innsigli.

10. gr.
Ýmis ákvæði.

    Að því leyti sem eigi er ákveðið í lögum þessum um álagningu, innheimtu, tilhögun bókhalds, eftirlit, upplýsingaskyldu, viðurlög, kærur og aðra framkvæmd varðandi farþegagjald eða gistináttagjald skulu gilda, eftir því sem við geta átt, ákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

11. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt í reglugerð að setja nánari reglur um framkvæmd laga þessara, svo sem nánari ákvæði um greiðslustaði, greiðslufyrirkomulag, efni skýrslu, og ákvörðun siglingar- og flugvegalengda.

12. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. september 2011.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í fjármálaráðuneytinu í kjölfar tillagana vinnu nefndar um umhverfisgjöld tengd ferðaþjónustu sem fjármálaráðherra skipaði 18. september 2009. Samkvæmt skipunarbréfi nefndarinnar var henni ætlað að kanna grundvöll þess að leggja á umhverfisgjöld tengd ferðaþjónustu sem eiga að renna til uppbyggingar þjóðgarða og annarra fjölsóttra og friðlýstra áningarstaða ferðamanna og til eflingar ferðaþjónustu. Nefndin skilaði skýrslu sinni til fjármálaráðherra 16. mars 2010 þar sem lagt var til að gistináttagjald yrði fyrir valinu en að jafnframt yrði skoðað frekar að taka upp blandaða leið á milli gistináttagjalds og farþegagjalds. Nefndin skoðaði jafnframt kosti og galla við að leggja gjaldið á sem hluta af tryggingargjaldi, að leggja á aðgangsgjald að völdum stöðum eða að leggja farþegagjald eingöngu á flug og farþegaskip. Í skýrslu nefndarinnar segir: „Eftir að hafa vegið og metið framangreinda valkosti gerir nefndin það að tillögu sinni að gistináttagjald verði valið til að ná umræddu markmiði. Jafnframt telur nefndin það heppilegt að taka upp blandaða leið með gistinátta- og farþegagjaldi. Slíkt mundi breikka gjaldstofninn og dreifa gjaldtökunni á sanngjarnan hátt á innlenda og erlenda ferðamenn auk þess sem gjaldið yrði lægra en ella.“ Hins vegar segir nefndin að ákveðnir framkvæmdalegir annmarkar séu á farþegagjaldinu sem þyrfti að leysa áður farið væri út í slíka gjaldtöku. Á nefndin þar við að vegna ákvæða samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er óheimilt að miða gjaldtökuna eingöngu við ferðamenn sem ferðast til og frá landinu. Innanlandsflug þyrfti því jafnframt að vera innifalið. Ef miðað er við að gjaldið yrði ein föst krónutala þá mundi gjaldtakan leggjast mun þyngra á innanlandsferðir. Í fyrsta lagi er þetta vegna þess að hlutfall gjaldsins í verði farmiða yrði mun hærra á ferðir innan lands. Í öðru lagi mundi gjaldið leggjast mun þyngra á hverja ferð ferðamanns innan lands. Þannig þyrfti ferðamaður sem ferðast til útlanda eingöngu að greiða einu sinni, þ.e. við brottför frá landinu, en sá sem ferðast innan lands mundi greiða gjaldið tvisvar, þ.e. við brottför bæði fram og til baka.
    Nokkrir annmarkar eru á gistináttagjaldi. Gjaldskyldir aðilar eru mjög margir sem gæti gert það erfiðara en ella að hafa eftirlit með gjaldinu og talið er að mikið sé um svarta atvinnustarfsemi í greininni. Útgangspunktur nefndarinnar við vinnu sína var að finna hagkvæma leið til innheimtu á þeim grundvelli að þeir njóti sem greiði og í þeim skilningi hentar gistináttagjald nokkuð vel. Hins vegar hentar farþegagjaldið betur til innheimtu þar sem hinir gjaldskyldu aðilar eru fáir sem gerir það að verkum að eftirlit með innheimtunni verður auðveldara og ódýrara.
    Eftir að hafa skoðað framangreindar tillögur nefndarinnar er lagt til að tekin verði upp blönduð leið þar sem gjald verði bæði lagt á gistinætur og farþega en þó þannig að farþegagjaldið taki mið af vegalengd ferðarinnar sem skattlögð er. Með því eru neikvæð áhrif á ferðir með skipum og flugförum innan lands takmörkuð.
    Gjaldtakan hefur verið kynnt Samtökum ferðaþjónustunnar og hefur samtökunum verið gefinn kostur á að koma athugasemdum og tillögum að. Samtök ferðaþjónustunnar áttu jafnframt sæti í framangreindri nefnd og haldinn hefur verið fundur með félagsmönnum samtakanna þar sem sjónarmið þeirra varðandi fyrirhugaða gjaldtöku komu fram. Þeir hagsmunaaðilar sem um ræðir eru ferðamenn, flugfélög, gististaðir og þeir sem flytja farþega með farþegaskipum.
    Reiknað er með að gjaldtakan eins og hún er lögð fram í frumvarpinu geti skilað um 400 millj. kr. miðað við farþegatölur með skemmtiferðaskipum, farþegaskipum og flugförum og fjölda gistinátta á árinu 2009. Þar af er reiknað með að 13 millj. kr. innheimtist vegna innanlandsflugs, 21 millj. kr. vegna skemmtiferðaskipa og Norrænu, um 182 millj. kr. vegna millilandaflugs og um 184 millj. kr. vegna gistinátta. Á vegum ríkisstjórnarinnar hefur farið fram sú stefnumörkun, sbr. markmiðsákvæði laganna, að þær tekjur sem innheimtast samkvæmt lögunum muni útdeilast á fjárlögum að 3/ 5 hlutum til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og 2/ 5 hlutum til ráðstöfunar fyrir þjóðgarða og friðlýst svæði.
    Nefndina skipuðu Ólafur Örn Haraldsson formaður, skipaður af fjármálaráðherra, Helga Haraldsdóttir skrifstofustjóri, skipuð samkvæmt tilnefningu iðnaðarráðherra, Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir skrifstofustjóri, skipuð samkvæmt tilnefningu umhverfisráðherra, Ingibjörg G. Guðjónsdóttir ferðamálafræðingur, skipuð samkvæmt tilnefningu Samtaka ferðaþjónustunnar, Árni Bragason líffræðingur, skipaður samkvæmt tilnefningu samtaka á sviði náttúruverndar, og Guðjón Bragason sviðsstjóri, skipaður samkvæmt tilnefningu Samtaka íslenskra sveitarfélaga. Starfsmaður nefndarinnar var Ögmundur Hrafn Magnússon, lögfræðingur í fjármálaráðuneytinu. Árni Bragason og Guðjón Bragason skiluðu séráherslum fyrir hönd samtaka á sviði náttúruverndar og Sambands íslenskra sveitarfélaga en voru þó í meginatriðum sammála meiri hluta nefndarinnar. Ingibjörg G. Guðjónsdóttir skilaði séráliti fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Með greininni er gerð tillaga að markmiðsákvæði laganna. Samkvæmt greininni er markmið þeirra að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun fjölsóttra ferðamannastaða, friðlýstra svæða og þjóðgarða. Jafnframt að afla tekna til þess að tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru landsins. Ráðstöfun tekna, sem innheimtar verða á grundvelli laganna, mun verða í samræmi við markmiðsákvæðið. Iðnaðarráðherra hefur lagt fram frumvarp, samhliða þessu frumvarpi, um stofnun Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða sem mun fá til ráðstöfunar á fjárlögum 3/ 5 hluta teknanna og í framhaldinu ákvarða hvernig þeim fjármunum verði ráðstafað. Því sem eftir stendur verður ráðstafað af fjárlögum til þjóðgarða og friðlýstra svæða.

Um 2. gr.


    Með greininni er lagt til að greiða skuli í ríkissjóð farþegagjald fyrir hvern farþega um borð í flugförum og farþegaskipum. Í greininni er lögð til fjárhæð gjaldsins. Málefnalegt þykir að fjárhæðin verði hærri eftir því sem ferð er lengri. Hlutfall gjaldsins verður því ekki hlutfallslega hærra í styttri ferðum en lengri þar sem styttri ferðir eru alla jafna ódýrari.

Um 3. gr.


    Í greininni er kveðið á um að greiða skuli gistináttagjald af hverri seldri gistinótt. Ein gistinótt er skilgreind sem einn seldur sólarhringur í gistingu fyrir hvern einstakling. Skilgreining laganna á hugtakinu gistinótt er því sú sama og í hagtölum.
    Með greininni er jafnframt kveðið á um fjárhæð gistináttagjaldsins, sem skal nema 100 kr. fyrir hverja gistinótt á hótelum en 50 kr. vegna gistingar á annars konar gististöðum.
    

Um 4. gr.


    Með greininni er kveðið á um undanþágur frá greiðslu gjaldanna en þeir sem eru undanþegnir eru börn innan tveggja ára aldurs, áhafnir loftfara og farþegaskipa, þeir sem einungis hafa viðkomu á millilandaflugvelli og þeir sem ferðast með loftförum eða skipum á vegum herafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins. Jafnframt er kveðið á um að farþegar á aldrinum tveggja til tólf ára greiði helming gjaldsins. Við aldurstilgreiningu er gert ráð fyrir að barn sé annaðhvort undir tveggja ára eða tólf ára aldri þegar ferðin er farin.
    Í greininni er jafnframt lagt til að farþegar með ferjum og flóabátum verði undanþegnir gjaldinu enda njóti rekstur ferjunnar styrks samkvæmt vegalögum og ferjan komi stað þjóðvegasambands.

Um 5. gr.


    Með greininni er lagt til að gjaldskyldir aðilar verði annars vegar þeir sem flytja farþega með loftförum eða farþegaskipum innan lands eða frá Íslandi til annarra landa en hins vegar allir þeir sem selja gistingu á gististöðum skv. 3. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, og leyfisskyldir eru skv. 7. gr. sömu laga. Í 3. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, eru gististaðir bæði flokkaðir og skilgreindir.
    Samkvæmt athugasemdum um 3. gr. frumvarps þess sem varð að fyrrgreindum lögum er með gistingu átt við hvers kyns gistingu, hvort sem er í sérstöku húsnæði sem hannað er til slíkrar starfsemi, svo sem á hóteli, gistiheimili og gistiskálum, eða á einkaheimilum, sem afmarkast við lögheimili leyfishafa eins og það er skilgreint í lögum. Jafnframt fellur hér undir útleiga íbúða, sumarhúsa og annars konar húsnæðis þar sem gisting er boðin gegn endurgjaldi. Samkvæmt þessu fellur sala á tjaldsvæði ekki undir skilgreiningu laganna.
    Með greininni er jafnframt lagt til að þeir sem selja gistingu eða ferðir undir ákveðinni fjárhæð á ári, sbr. 3. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, verði undanþegnir gjaldskyldu skv. 1. mgr. Er þetta lagt til til að auðvelda eftirlit og fækka smáum eftirlitsskyldum aðilum.
    Með greininni er jafnframt lagt til að gjaldskyldir aðilar verði skráningarskyldir. Er ákvæðið samhljóða 3. mgr. 6. gr. laga nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta.

    Um 6. gr.


    Lagt er til að tollstjóri innheimti farþegagjald af farþegaskipum í millalandasiglingum. Vegna farþegaskipa í millilandasiglingum, skemmtiferðaskipa og Norrænu er lagt til að tollstjóri innheimti gjöldin við komu skipsins með öðrum gjöldum sem innheimta ber á þeim tímapunkti en almennt greiða slík skip ekki nein gjöld við brottför. Skemmtiferðaskip sem koma til landsins sigla gjarnan til tveggja eða þriggja hafna í hverri komu. Styttri leggir ferðarinnar, t.d. ferð skemmtiferðaskips frá Reykjavík til Akureyrar, er jafnframt gjaldskyld sem ein ferð. Hér er lagt til að öll farþegagjöld, þ.e. bæði vegna styttri ferða innan lands og lengri ferða úr landi, verði greidd í einu við komu í fyrstu höfn. Við útreikning verði þá farið eftir áætlun skipsins. Tollstjóri getur síðan gert ferðina upp eftir á og endurgreitt gjöld ef ofgreitt er og innheimt það sem upp á vantar ef vangreitt er. Gert er ráð fyrir að ráðherra kveði nánar á um það í reglugerð hvernig meta skuli siglingarvegalengdir ef skipstjóri telur sér ófært að gefa vegalengd upp.
    Lagt er til að ríkisskattstjóri sjái um eftirlit með gjaldinu vegna farþega í áætlunarferðum farþegaskipa.
    Gert er ráð fyrir að farþegagjaldi sé skilað eigi síðar en 15. dag næsta almanaksmánaðar eftir brottför.

Um 7. gr.


    Með greininni er nánar kveðið á um fyrirkomulag innheimtu gjaldsins í tilfelli farþega sem ferðast innan lands eða til og frá Íslandi með flugförum. Greinin er sambærileg 8. og 9. gr. laga, nr. 31/1987, um flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála, fyrir utan að gert er ráð fyrir að rekstraraðilar flugvalla innheimti gjaldið í stað flugmálastjórnar. Rekstraraðilar flugvalla koma til með að innheimta farþegagjald á sama tíma og önnur gjöld.

Um 8. gr.


    Hér er lagt til að ríkisskattstjóri annist eftirlit með skilum á gistináttagjaldi. Jafnframt eru lögð til uppgjörstímabil og er þar notast við sömu tímabil og gilda um virðisaukaskatt til þess að samræmi sé þar á milli. Gert er ráð fyrir að gistináttagjaldi sé skilað samtímis virðisaukaskatti. Farþegaflutningar eru ekki virðisaukaskattsskyldir og er því ekki notast við sömu uppgjörstímabil þegar farþegagjaldi er skilað. Vegna farþegagjalds er miðað við þá gjaldfresti sem rekstraraðilum eru veittir við skil á flugvallargjaldi og varaflugvallargjaldi.

Um 9. gr.


    Í greininni er kveðið á um þau úrræði sem innheimtumanni er heimilt að grípa til ef gjaldinu er ekki skilað á réttum tíma. Greinin er í meginatriðum samhljóða 2. mgr. 27. gr. og 1. og 3. mgr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Um 10. gr.


    Með greininni er lögð til reglugerðarheimild fyrir ráðherra.

Um 11. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um farþegagjald og gistináttagjald.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að tekið verði upp annars vegar farþegagjald og hins vegar gistináttagjald sem lagt verði á bæði innlenda og erlenda ferðamenn. Þessi áform byggjast á vinnu og tillögum nefndar um umhverfisgjöld tengd ferðaþjónustu. Tekjum af gjaldinu er ætlað að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun fjölsóttra ferðamannastaða, friðlýstra svæða og þjóðgarða.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að farþegagjald verði lagt á hvern farþega um borð í flugförum og farþegaskipum. Gjaldið verði mishátt eftir því hversu langa vegalengd farið fer. Gert er ráð fyrir að rekstraraðilar flugvalla innheimti gjaldið vegna flugfara, tollstjóri innheimti það vegna farþegaskipa í millilandaferðum og að ríkisskattstjóri sjái um álagningu gjaldsins vegna farþegaskipa í reglubundnum áætlunarferðum innan lands.
    Gert er ráð fyrir að gistináttagjald verði lagt á hverja selda gistinótt fyrir hvern einstakling. Miðað er við að innheimta og álagning gjaldsins verði með sama hætti og í virðisaukaskatti.
    Áætlað er að samtals muni gjöldin tvö koma til með að afla ríkissjóði 400 m.kr. á ársgrundvelli og er þá miðað við fjölda farþega með skemmtiferðaskipum, farþegaskipum og flugförum og fjölda gistinátta á árinu 2009. Þótt ekki sé beinlínis um að ræða mörkun teknanna í frumvarpinu er gert ráð fyrir, í samræmi við stefnumörkun stjórnvalda um þessi málefni, að veitt verði framlag í fjárlögum sem svari til 3/5 hluta teknanna, eða 240 m.kr., til nýs Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, en tillögur um að honum verði komið á fót eru lagðar fram í öðru lagafrumvarpi. Þá verði veitt framlög í fjárlögum sem svari til 2/5 hluta teknanna, eða 160 m.kr. til þjóðgarða og friðlýstra svæða sem heyra undir umhverfisráðuneytið og forsætisráðuneytið.
    Vegna álagningar farþegagjalds má gera ráð fyrir einhverjum auknum kostnaði hjá tollstjóra vegna aðlögunar á tölvukerfum, auk auglýsinga- og kynningarefnis. Áætlað hefur verið að einskiptis stofnkostnaður vegna þessa gæti verið allt að 4 m.kr. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir að innheimta gjaldsins hafi í för með sér aukinn kostnað fyrir embættið. Gert er ráð fyrir að ríkisskattstjóri annist álagningu gistináttagjalds og farþegagjalds vegna farþegaskipa í reglubundum áætlunarferðum innan lands. Álagning og innheimta gistináttagjalds verður með svipuðum hætti og á við um eftirlit með virðisaukaskatti. Farþegaskip eru hins vegar ekki virðisaukaskattsskyld og gæti það leitt til einhvers aukins kostnaðar vegna innheimtu. Ekki hefur verið lagt mat á hvað það gæti orðið mikið en það ætti þó að geta rúmast innan núverandi fjárheimilda. Áætlað hefur verið að einskiptis stofnkostnaður hjá ríkisskattstjóra vegna breytinga á tölvukerfum, útgáfu skýrslu og leiðbeiningar- og kynningarefnis geti orðið allt að 10 m.kr. Gert er ráð fyrir að ríkisskattstjóri gæti þurft að bæta við sem samsvarar einu stöðugildi vegna eftirlits og annarrar umsýslu með gjaldinu. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að eftirlitsdeild virðisaukaskatts annist eftirlit með gjaldinu. Reiknað er með að rekstraraðilar flugvalla innheimti farþegagjald vegna flugfara samhliða öðrum gjöldum sem innheimt eru á flugvöllunum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er þannig gert ráð fyrir að þessari auknu tekjuöflum verði allri ráðstafað til aukinna útgjalda á sviði ferðamála og þjóðgarða og að afkoma ríkissjóðs verði óbreytt að því leyti. Þá falli til einskiptis stofnkostnaður vegna innleiðingar gjaldtökunnar geti orðið allt að 14 m.kr. og að árlegur rekstrarkostnaður ríkisskattstjóra geti aukist sem samsvarar einu stöðugildi sérfræðings. Ekki hefur verið gert ráð fyrir þessum auknu útgjöldum í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár. Gert er ráð fyrir að innheimta gjaldanna hefjist 1. september 2011 en fyrirhugað er að fyrsta árið sem þessi gjöld verða innheimt verði veitt framlag í fjárlögum sem svarar til 14 m.kr. af tekjunum til að mæta tímabundnum stofnkostnaði viðkomandi innheimtuaðila þannig að útgjöldin vegna lagasetningarinnar verði ekki umfram tekjurnar.