Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 377. máls.

Þskj. 487  —  377. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)
1. gr.

    Á eftir 33. gr. laganna koma fjórar nýjar greinar, svohljóðandi:

    a. (33. gr. a.)

Hundar og kettir. Samþykki allra.

    Hunda- og kattahald í fjöleignarhúsi er háð samþykki allra eigenda sem hafa sameiginlegan inngang eða stigagang.
    Þegar svo háttar getur húsfélag eða húsfélagsdeild með samþykki allra veitt annaðhvort almennt leyfi til hunda- og/eða kattahalds eða einstökum eigendum slíkt leyfi vegna tiltekins dýrs. Getur húsfélagið bundið slíkt leyfi skilyrðum.
    Eigandi skal afla samþykkis annarra eigenda og fá leyfi fyrir dýrinu samkvæmt reglum viðkomandi sveitarfélags, þar sem það á við, áður en dýrið kemur í húsið. Skal eigandi láta húsfélagi í té ljósrit af leyfinu.
    Gæta skal jafnræðis við veitingu samþykkis skv. 1. mgr. og er óheimilt að mismuna eigendum sem eiga jafnan rétt í þessu efni.
    Samþykkið er óafturkallanlegt að óbreyttum forsendum en þinglýsingar er þörf til að það haldi gagnvart síðari eigendum í góðri trú.
    Skemmri heimsóknir hunda og katta eru heimilar ef enginn mótmælir en vistun eða dvöl þeirra yfir nótt er óheimil nema fyrir liggi leyfi skv. 1. og 2. mgr.
    Þessar takmarkanir gilda ekki þegar um hjálparhunda er að ræða, sbr. 33. gr. d.

    b. (33. gr. b.)

Samþykkis ekki þörf.

    Þegar hvorki er um sameiginlegan inngang né stigagang að ræða, sbr. 33. gr. a, er samþykkis annarra eigenda ekki þörf fyrir hunda- og kattahaldi í húsinu. Á það til dæmis við þegar sérinngangur er í íbúð frá jarðhæð eða sameiginlegum útitröppum. Gildir það þótt lóð sé sameiginleg og annað sameiginlegt rými sé í húsinu. Þegar sameiginlegur stigagangur er utanáliggjandi og gengið er inn í íbúðir af svölum þarf samþykki þeirra eigenda sem hann tilheyrir.
    Áður en dýr kemur í hús skal eigandi tilkynna húsfélaginu skriflega um dýrahaldið og afhenda því ljósrit af leyfi frá viðkomandi sveitarfélagi þar sem við á.
    Húsfélagið getur með reglum og ákvörðunum á húsfundi, með einföldum meiri hluta, sett hunda- og kattahaldi í slíku húsi skorður, enda séu þær eðlilegar, málefnalegar og á jafnræði reistar.
    Húsfélagið getur með sama hætti lagt bann við dýrahaldi ef það veldur öðrum íbúum verulegum ama, ónæði og truflunum og eigandi dýrsins neitar að gera bót þar á.

    c. (33. gr. c.)

Sameiginlegar reglur.

    Með öllu er óheimilt að halda skráningar- og leyfisskyld dýr í fjöleignarhúsum, sbr. 33. gr. a og 33. gr. b, nema leyfi sveitarfélags fyrir dýrinu, þar sem við á, liggi fyrir.
    Hundar og kettir mega ekki vera í sameign eða á sameiginlegri lóð nema þegar verið er að færa dýrin að og frá séreign. Skulu þau ávallt vera í taumi og í umsjá manns sem hefur fulla stjórn á þeim. Lausaganga hunda í sameign eða á sameiginlegri lóð telst alvarlegt brot, sbr. 4. mgr.
    Það er skilyrði fyrir hunda- og kattahaldi í fjöleignarhúsum að búið sé vel að dýrunum og vel sé hugsað um þau. Jafnframt skal þess gætt í hvívetna að þau valdi öðrum íbúum hússins ekki ama, ónæði eða óþægindum.
    Nú brýtur eigandi dýrs verulega eða ítrekað gegn skyldum sínum og áminningar hafa ekki áhrif, getur húsfélag með ákvörðun skv. D-lið 41. gr. afturkallað samþykki skv. 33. gr. a og bannað dýrahald skv. 33. gr. b og gert honum að fjarlægja dýrið úr húsinu. Ef allt um þrýtur geta gróf eða ítrekuð brot leitt til þess að húsfélagið beiti úrræðum 55. gr. gagnvart eiganda dýrsins.

    d. (33. gr. d.)

Leiðsögu- og hjálparhundar.

    Sé eigandi, eða annar varanlegur íbúi í hans skjóli, blindur eða fatlaður á annan máta þannig að hann þurfi á sérþjálfuðum leiðsögu- eða hjálparhundi að halda er honum heimilt að halda slíkan hund óháð fyrirmælum og takmörkunum laga þessara.
    Slíkur hundur skal vera sérþjálfaður og skráður sem leiðsögu- eða hjálparhundur og fyrir skulu liggja vottorð sérfræðinga um þörf hans og þjálfun. Skulu gögn um það afhent húsfélaginu ásamt fróðleik og leiðbeiningum um slíka hunda, þjálfun þeirra og hvernig beri að umgangast þá.
    Stjórn húsfélagsins skal láta þinglýsa yfirlýsingu um að leiðsögu- eða hjálparhundur sé í húsinu. Einnig skal stjórnin láta þess getið í yfirlýsingu húsfélags í tengslum við sölu íbúða.
    Sé eigandi eða einhver í hans fjölskyldu með ofnæmi fyrir hundum á svo háu stigi að lyf megna ekki að gera sambýlið við leiðsögu- eða hjálparhund bærilegt og læknisfræðileg gögn staðfesta það skal kærunefnd húsamála leita lausna að fengnu áliti ofnæmislækna, leiðsögu- eða hjálparhundaþjálfara og sérfræðinga á öðrum sviðum ef því er að skipta.

2. gr.

    13. tölul. A-liðar 41. gr. laganna orðast svo: Um hvort halda megi hunda og/eða ketti í húsinu, sbr. 33. gr. a.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið af nefnd sem félags- og tryggingamálaráðherra skipaði 24. september 2010 til að endurskoða lög um fjöleignarhús, nr. 26/1994. Nefndina skipa Sigurður Helgi Guðjónsson hrl., formaður, Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir hdl. og Sigrún Jana Finnbogadóttir, lögfræðingur í félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Starfsmaður nefndarinnar er María Sæmundsdóttir, sérfræðingur í sama ráðuneyti.
    Viðfangsefni nefndarinnar er tvíþætt. Í fyrsta lagi sem forgangsverkefni að skoða fyrirmæli laga um fjöleignarhús um hundahald með tilliti til leiðsögu- og hjálparhunda og meta hvort þörf sé á að endurskoða önnur lög í því efni. Í öðru lagi er nefndinni falið að endurskoða lögin í heild sinni og semja drög að frumvarpi þar um.
    Frumvarp þetta lýtur að fyrra atriðinu og felur í sér breytingar á lögum um fjöleignarhús hvað snertir hunda- og kattahald almennt og sérstaklega um leiðsögu- og hjálparhunda. Nefndin telur ekki að svo stöddu þörf á að breyta annarri löggjöf. Fyrirmæli um hunda er að finna í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, reglugerð um hollustuhætti, nr. 941/2002, og staðbundnum samþykktum sveitarfélaga sem settar eru með heimild í þeim.
    Hundar og hundamálefni geta þannig heyrt undir og komið til kasta fleiri ráðuneyta en félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis, svo sem umhverfisráðuneytis, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og dómsmála- og mannréttindaráðuneytis. Það er að öllu virtu álit nefndarinnar að þörf sé á sérstökum hundalögum sem hafi að geyma samræmdar almennar reglur um hunda og eigendur þeirra. Það hefur verið gert í ýmsum nágrannalöndum okkar, til dæmis bæði í Danmörku og Noregi. Að undirbúningi slíkrar löggjafar þurfa að koma áðurnefnd ráðuneyti, ýmis stjórnvöld og stofnanir, sem og sveitarfélög auk hagsmunaaðila.
    Nefndin fékk á fund sinn eftirtalda aðila: Drífu Gestsdóttur leiðsöguhundaþjálfara, Kristin Halldór Einarsson og Ólaf Haraldsson frá Blindrafélaginu sem afhentu nefndinni bæklinga, annars vegar ritið „Leiðsöguhundar fyrir blinda og sjónskerta“ og hins vegar „Víðsjá“, 2. árg. 2. tbl. 2010, Unni Steinu Björnsdóttur, sérfræðing í lyflækningum, ofnæmissjúkdómum og ónæmisfræði, Grétar Pétur Geirsson, formann Sjálfsbjargar, Valgerði Júlíusdóttur og Björn Ólafsson frá Hundaræktarfélagi Íslands og Sigmar B. Hauksson, formann Astma- og ofnæmisfélagsins. Þá barst nefndinni álit Félags íslenskra ofnæmislækna um hjálpar- og leiðsöguhunda.
    Auk þess hefur nefndin aflað ýmissa gagna í störfum sínum og haft til hliðsjónar við frumvarpsvinnuna, meðal annars yfirlýsingar frá Blindrafélaginu í tilefni af afstöðu Astma- og ofnæmisfélagsins til réttar leiðsöguhundanotenda, dags. 15. júlí 2010, bæklingsins Ofnæmi fyrir dýrum, eftir Unni Steinu Björnsdóttur og Davíð Gíslason, frá árinu 2002, greina eftir formann nefndarinnar um hunda og ketti í fjölbýli og um ákvæði fjöleignarhúsalaga um dýrahald og skýrslu starfshóps heilbrigðisráðuneytis frá 2009 um notkun leiðsöguhunda. Þá barst nefndinni erindi Einars Gunnars Birgissonar er bar fyrirsögnina „Nokkur orð varðandi hundahald í Reykjavík“.
    Málefni leiðsögu- og hjálparhunda fyrir fatlað fólk í fjöleignarhúsum hafa verið til umræðu síðustu mánuði vegna andstöðu við því að blind kona fái að halda sérþjálfaðan leiðsöguhund. Í lögum um fjöleignarhús er sérstakt ákvæði um ketti og hunda og segir að hald slíkra dýra sé háð samþykki alla eigenda. Þó nægir samþykki eigenda sem hafa sameiginlegan inngang, stigagang eða annað sameiginlegt húsrými. Samkvæmt því getur sérhver eigandi, án þess að færa fram rök eða ástæður, staðið í vegi fyrir hundahaldi í fjöleignarhúsi. Eru leiðsögu- og hjálparhundar í því efni undir sömu sök seldir og gæluhundar. Þetta ákvæði laganna hefur sætt harðri gagnrýni og sú úthýsing leiðsögu- og hjálparhunda sem af því getur leitt fer greinilega mjög í bága við réttarvitund almennings.
    Það er því brýn þörf á að endurskoða ákvæði laganna um dýrahald bæði vegna leiðsögu- og hjálparhunda og eins af öðrum ástæðum. Málamiðlana er þörf en það er hins vegar vandasamt verk og mikilvægt að hrapa ekki að neinu í því efni. Réttarbót fyrir einn getur orðið réttarspjöll fyrir annan. Skoða verður málið heildstætt og setja almennar reglur sem taka mið af þeim mörgu og ólíku sjónarmiðum sem reynir á í sambýli og samskiptum manna og dýra.
    Með frumvarpi þessu er brugðist við þessari stöðu og er tekið almennt á hundahaldi í fjöleignarhúsum, sérstaklega er slegin skjaldborg um leiðsögu- og hjálparhunda og forgangsrétt þeirra sem þurfa á slíkum „hjálpartækjum“ að halda. Er fortakslaust neitunarvald annarra eigenda afnumið og réttur fatlaðs fólks settur í forgang.
    Rétt er að geta þess að leiðsögu- og hjálparhundar voru engir til hér á landi þegar lög um fjöleignarhús voru sett árið 1994 og þá bar ekki á góma við samningu og setningu laganna.
    Þegar frumvarp til laga um fjöleignarhús var lagt fyrir Alþingi árið 1994 lögðu Samtök gegn astma- og ofnæmi mikla áherslu á að banna eða takmarka hald hunda og katta í fjölbýlishúsum. Á það féllst félagsmálanefnd þingsins og skotið var inn í frumvarpið ákvæði um að hunda- og kattahald í fjölbýli sé háð samþykki allra eigenda ef um sameiginlegan inngang, stigagang eða annað sameiginlegt húsrými sé að ræða. Ella er samþykkis meðeigenda ekki þörf. Hér vegast á mótstæð sjónarmið eða hagsmunir. Annars vegar þeirra sem vilja halda hunda og ketti sem gæludýr og telja það fólgið í mannréttindum og eignarráðum og hins vegar þeirra sem hafa ofnæmi fyrir slíkum dýrum. Voru hagsmunir hinna síðarnefndu látnir vega þyngra og ráða lagareglunni.
    Tilgangur löggjafans kemur fram í nefndaráliti félagsmálanefndar sem er svohljóðandi: „Tillagan byggist fyrst og fremst á að nokkuð er um að börn og fullorðnir hafi ofnæmi fyrir þessum dýrum. Getur slíkt ofnæmi haft það alvarleg áhrif að fólk geti jafnvel þurft að flytja úr eigin íbúðarhúsnæði gangi ekki að fá skilning sameigenda á þessu vandamáli. Er breytingunum ætlað að koma í veg fyrir slíkar aðstæður.“ Ákvæði í þessa veru var sem sagt ekki í upphaflega frumvarpinu en á því var byggt að hunda- og kattahald væri í flestum tilvikum háð meirihlutaákvörðun.
    Ekki er ætlunin að rýmka svo nokkru nemi reglur og skilyrði fyrir hunda- og kattahaldi með þessu frumvarpi. Í öllum meginatriðum eru fyrirmæli og reglur frumvarpsins í samræmi við gildandi reglur eins og þær hafa verið skýrðar og túlkaðar. Óhjákvæmilegt er að móta fyrst skýrar reglur um hunda almennt í fjöleignarhúsum til að unnt sé að setja sérreglur um leiðsögu- og hjálparhunda. Sérstaða slíkra hunda er almennt viðurkennd. Til að mynda er heimilt að vera með slíka hunda á ýmsum stöðum þar sem gæluhundar og aðrir hundar eru bannaðir. Í hundasamþykktum sumra sveitarfélaga, til dæmis Reykjavíkurborgar, er heimilt að veita undanþágu varðandi dvöl og umferð um bannsvæði þegar leiðsögu- og hjálparhundar eiga í hlut. Í 19. gr. reglugerðar um hollustuhætti, nr. 941/2002, er sérstaða hjálparhunda staðfest. Þar segir að fötluðu fólki sé heimilt að hafa með sér hjálparhunda á ýmsa staði og stofnanir þar sem gæluhundar eru óvelkomnir. Í ákvæðinu er það skilyrði sett að fötluðu fólki sé „ótvíræð nauðsyn að hjálparhundi“ og að hundurinn skuli vera merktur og leyfi sveitarfélags liggi fyrir.
    Hjálpartæki er skilgreint í 2. mgr. 26. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008. Þar segir að hjálpartæki sé tæki sem ætlað er að draga úr fötlun, aðstoða fatlaða við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Hjálpartækið þurfi auk þess að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs. Þá hefur verið sett reglugerð um styrki vegna hjálpartækja, nr. 1138/2008. Auk þess hefur verið sett reglugerð um úthlutun á hjálpartækjum á vegum Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, nr. 233/2010, þar sem leiðsöguhundar eru taldir upp í viðauka. Þeir aðstoði við rötun og umferli, sé úthlutað til einstaklinga sem taldir eru að undangengnu mati geta nýtt sér hund til aukins sjálfstæðis við umferli. Úthlutun sé fylgt eftir með þjálfun hjá sérþjálfuðum hundaþjálfurum og umferliskennurum. Úthlutun fylgi mat á aðstæðum einstaklinga og mat á pörun einstaklings og hunds.
    Hugtakið hjálparhundur í þessum lögum tekur mið af framangreindu. Hundar til hjálpar blindum eru nefndir leiðsöguhundar. Það eru gerðar mjög ríkar kröfur til leiðsöguhunda og þeirra sem þeir þjóna. Leiðsöguhundarnir eru sérvaldir og fá mikla og langa þjálfun. Mun hver hundur kosta nálægt 6 millj. kr. Sá sem fær leiðsöguhund er einnig vandlega valinn og þjálfaður og mjög vel er vandað til samvals eða pörunar hins blinda og hundsins. Hérlendir leiðsöguhundar eru eign Blindrafélagsins sem hefur eftirlit með þeim og rétt til að grípa inn í ef vandamál verða í samskiptum hins blinda og hundsins og gagnvart öðrum. Nú munu vera fimm leiðsöguhundar hér á landi og eru þeir allir innfluttir frá Noregi. Ef hlutfallslega sami fjöldi leiðsöguhunda væri hér og í Noregi mundu þeir vera um 20 talsins. Tekið skal fram að leiðsöguhundar eru undantekningarlaust gerðir ófrjóir.
    Fatlað fólk getur eins og aðrir haft gagn og gaman af hundum. Hundar geta jafnframt hjálpað fólki á margan hátt, til dæmis hreyfihömluðum, heyrnarlausum og flogaveikum. Eins munu hundar hafa góð og almennt heilsubætandi áhrif á andlega fatlað fólk, einhverfa og aldraða. Yfirleitt er ekki um að tefla sérþjálfaða hjálparhunda heldur gæluhunda. Þó munu vera til örfáir hjálparhundar fyrir hreyfihamlaða sem hafa hlotið einhverja þjálfun í því skyni. Ekki er hægt að einskorða hjálparhunda við leiðsöguhunda í þessum lögum. Í útlöndum eru hjálparhundar fyrir fatlað fólk af margvíslegum toga. Líklegt er að hjálparhundum fyrir aðra en blinda muni fjölga á næstu árum. Þegar um aðra hjálparhunda en leiðsöguhunda er að ræða að verður að gera sambærilegar kröfur og til leiðsöguhunda fyrir blinda og lýst er áður. Gæluhundar þótt þægir séu og þjálfaðir geta ekki talist hjálparhundar í þessum lögum. Sömuleiðis falla ýmsir þarfahundar, til dæmis löggæsluhundar, fíkniefnahundar, björgunarhundar og leitarhundar, utan hugtaksins „hjálparhundur“ samkvæmt lögum þessum.
    Fyrirmælin um hjálparhunda eru eins og áður segir nýmæli. Sjálfsagðir hagsmunir þeirra sem þurfa hjálparhund eru látnir vega þyngra en órökstutt neitunarvald annarra eigenda. Það byggist á því að slíkir hundar eru ekki gæludýr heldur eðlileg og sjálfsögð hjálpartæki fyrir fatlað fólk. Það er aðeins ef hjálparhundur veldur ofnæmi að vandamál skapast, en slíkt mun örugglega verða afar fátítt. Í fyrsta lagi eru leiðsögu- og hjálparhundar mjög fáir og í öðru lagi er hundaofnæmi tiltölulega fátítt. Um 6% manna eru með dýraofnæmi og samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum er ekki nema lítill hluti þeirra með svo svæsið ofnæmi að lyf megni ekki að vinna á einkennum. Það er því mjög ólíklegt að til þess komi að andspænis standi í fjöleignarhúsi leiðsögu- eða hjálparhundur og íbúi með ofnæmi á háu stigi. Ef það gerist þá er í frumvarpinu lagt til úrræði til lausnar sem felur í sér að sértækra lausna er leitað með fulltingi sérfræðinga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


    Í almennum athugasemdum hér að framan er gerð ítarleg grein fyrir þeim aðstæðum sem kalla á þær breytingar á lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994, sem felast í frumvarpinu og meginatriðum breytinganna lýst. Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins eru því stuttorðar og vísast að mestu til almennra athugasemda um nánari skýringar.

Um 1. gr.

    Um a-lið (33. gr. a).
    Í greininni er sú meginregla staðfest að hunda- og kattahald í fjöleignarhúsi sé háð samþykki allra eigenda sem hafa sameiginlegan inngang og/eða stigagang. Í 2.–5. mgr. er að finna nánari útfærslu á þessari meginreglu. Eru þessar reglur í samræmi við gildandi rétt eins og reglur fjöleignarhúsalaganna hafa verið túlkaðar og framkvæmdar.
     Um b-lið (33. gr. b).
    Greinin hefur að geyma þá reglu að ekki þurfi samþykki annarra eigenda í fjöleignarhúsi eða stigagangi fyrir hunda- og kattahaldi þegar hvorki er um sameiginlegan stigagang né inngang að ræða. Þessi regla er einnig efnislega í samræmi við gildandi rétt og túlkun og framkvæmd laganna. Þar eru einnig sett nánari fyrirmæli um atriði eins og skyldu til að afla leyfis sveitarfélags, heimildir húsfélags til að setja reglur um hald hunda og katta í húsinu og til að banna það ef ónæði er af því og eigandi lætur ekki segjast við fortölur.
     Um c-lið (33. gr. c).
    Í greininni eru sameiginlegar reglur sem eiga bæði við um hunda- og kattahald þegar samþykki allra liggur fyrir, sbr. 33. gr. a, og þegar það er frjálst skv. 33. gr. b. Þar eru hunda- og kattahaldi settar ýmsar skorður af tilliti til þeirra sem í húsinu búa. Í 4. mgr. eru úrræði við brotum eiganda dýrs á skyldum sínum gagnvart sambýlisfólki sínu.
     Um d-lið (33. gr. d).
    Í greininni eru fyrirmæli um leiðsögu- og hjálparhunda í fjöleignarhúsum. Er um nýmæli að ræða. Samkvæmt 1. mgr. er fötluðu fólki heimilt að halda leiðsögu- eða hjálparhund í íbúð sinni án þess að þurfa til þess leyfi eða samþykki frá öðrum eigendum og gilda þá ekki takmarkanir sem hundahaldi eru settar í 33. gr. a – 33. gr. c. Hugtökin hjálparhundur og leiðsöguhundur eru skilgreind í almennum athugasemdum og vísast þangað. Samkvæmt 3. mgr. skal þinglýsa yfirlýsingu um það að leiðsögu- eða hjálparhundur sé í húsinu og vekja athygli á því í yfirlýsingu húsfélags við sölu. Í 4. mgr. eru fyrirmæli um það hvernig með skuli fara þegar leiðsögu- eða hjálparhundur veldur ofnæmi annars íbúa. Vísast til þess sem segir í almennum athugasemdum. Ef að líkum lætur eru litlar líkur á slíkum árekstri en komi slíkt upp er hér vörðuð leið til lausnar.

Um 2. og 3. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er að lagt til að fötluðum einstaklingum sem búsettir eru í fjölbýlishúsum sé heimilt að halda leiðsögu- eða hjálparhund án þess að fá leyfi eða samþykki frá öðrum eigendum hússins. Frumvarpinu er ætlað að bregðast við þeirri umræðu sem verið hefur staðið sl. missiri um leiðsögu- og hjálparhunda og sambýli þeirra við aðra í fjöleignarhúsum, en hér er um stórt hagsmunamál að ræða fyrir þá einstaklinga sem þurfa á slíkum hundi að halda. Áfram gildir þó að sú almenna regla að hunda- og kattahald í fjöleignarhúsi sé háð samþykki allra eigenda sem hafa sameiginlegan inngang og/eða stigagang. Einnig gildir áfram að óheimilt er að halda skráninga og leyfisskyld dýr í fjöleignarhúsum nema með samþykki sveitarfélags. Þá er í frumvarpinu kveðið á um að ekki þurfi samþykki annarra íbúa fjöleignarhúss við kattar eða hundahaldi þegar hvorki er um sameiginlegan inngang né stigagang að ræða,
    Í frumvarpinu er kveðið á um að komi til deilumála vegna ofnæmis sem geri sambýlið við hundinn óbærilegt fyrir íbúa hússins sé slíkum málum vísað til kæru-nefndar húsamála. Ekki er gert ráð fyrir að fjöldi kærumála muni hafa áhrif á kostnað við nefndina.
    Lögfesting frumvarpsins mun því ekki hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.