Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 78. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Prentað upp.

Þskj. 492  —  78. mál.
Leiðrétt orðalag.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um mannvirki.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju eftir 2. umræðu og fengið á sinn fund Björn Karlsson frá Brunamálastofnun, Tryggva Axelsson og Helgu S. Sigurðardóttur frá Neytendastofu og Jóhannes Gunnarsson frá Neytendasamtökunum. Að þessu sinni voru ræddar greinar um markmið laganna, um gildissvið þeirra og um markaðseftirlit með rafföngum.
    Nefndin ræddi orðalag a-liðar 1. gr. frumvarpsins, en henni höfðu borist athugasemdir vegna þeirra breytinga sem samþykktar voru við 2. umræðu. Nefndin telur að merking orðsins umhverfi verði gleggri með þeirri breytingu sem nú er lögð til á liðnum og vísar í skilgreiningar á orðinu í k-lið 3. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, og 4. tölul. 2. gr. laga um umhverfismat áætlana, nr. 105/2006.
    Nefndin ræddi um athugasemdir sem borist höfðu við að möstur eru nú með í upptalningu í 2. gr. frumvarpsins. Í 36. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, er skýrt tekið fram að byggingarleyfi þurfi fyrir fjarskiptamöstrum, tengivirkjum og móttökudiskum. Ákvæði þetta hafði af misgáningi ekki skilað sér í frumvarp til laga um mannvirki og leggur nefndin því til breytingar á 2. og 9. gr. frumvarpsins hvað það varðar.
    Nefndin hlýddi á rök með og á móti því að breyta skipan markaðseftirlits með rafföngum með því að flytja slíkt eftirlit alfarið frá Neytendastofu til Mannvirkjastofnunar eins og gert var ráð fyrir í tillögum nefndarinnar fyrir 2. umræðu, sem kallaðar voru til 3. umræðu, sbr. 6. tölul. í 56. lið í þingskjali 350. Eftir umræður og íhugun komst nefndin að því að skynugast væri að halda að sinni óbreyttri skipan í þessum efnum, meðal annars vegna þess að breytingar gætu dregið um of þrótt úr starfsemi Neytendastofu. Nefndin telur að þessi mál þurfi að íhuga betur við endurskoðun á stjórnsýslu neytendamála og lýsir sig reiðubúna til samstarfs um úrbætur á þessu sviði við hlutaðeigandi ráðherra og þingnefndir. Nefndin fellur því frá áðurnefndum breytingartillögum sínum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     1.      A-liður. 1. gr. orðist svo: Að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi með því að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi mannvirkja og heilnæmi sé fullnægt.
     2.      3. málsl. 1. mgr. 2. gr. orðist svo: Lögin gilda einnig um gróður á lóðum, frágang og útlit lóða, girðingar í þéttbýli, skilti, möstur, þ.m.t. fjarskiptamöstur, móttökudiska og tengivirki, gáma og leik- og íþróttasvæði.
     3.      4. málsl. 1. mgr. 9. gr. orðist svo: Um byggingarleyfi vegna bygginga tengdra fráveitumannvirkjum og dreifi- og flutningskerfum hitaveitna, vatnsveitna, rafveitna og fjarskipta, þ.m.t. fjarskiptamöstrum, tengivirkjum og móttökudiskum, fer skv. 1. og 2. málsl.
     4.      1. mgr. 64. gr. orðist svo:
                   Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2011.

    Ólína Þorvarðardóttir og Kristján Þór Júlíusson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 13. des. 2010.



Mörður Árnason,


form., frsm.


Birgir Ármannsson,


með fyrirvara.


Lilja Rafney Magnúsdóttir,


með fyrirvara.



Vigdís Hauksdóttir,


með fyrirvara.


Árni Þór Sigurðsson,


með fyrirvara.


Skúli Helgason.



Birgitta Jónsdóttir.