Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 382. máls.

Þskj. 508  —  382. mál.Frumvarp til laga

um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)
1. gr.
Markmið og hlutverk.

    Með stofnun Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða skal stuðlað að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu eða umsjón um land allt. Þá skal með fjármagni úr sjóðnum leitast við að tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru landsins. Einnig er sjóðnum ætlað að fjölga viðkomustöðum ferðafólks til að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði.
    Fjármagni úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða skal varið til:
     1.      Uppbyggingar, viðhalds og verndunar mannvirkja og náttúru á ferðamannastöðum sem eru í eigu opinberra aðila eða á náttúruverndarsvæðum.
     2.      Framkvæmda sem varða öryggi ferðamanna og verndun náttúru á ferðamannastöðum í eigu opinberra aðila jafnt sem einkaaðila.
    Framkvæmdasjóði ferðamannastaða er heimilt að fjármagna undirbúnings- og hönnunarvinnu sem er nauðsynleg vegna framkvæmda skv. 2. mgr. en sjóðnum er ekki heimilt að bera rekstrarkostnað mannvirkja, náttúruverndarsvæða eða annarra ferðamannastaða. Framlög til einkaaðila eru háð því skilyrði að um sé að ræða ferðamannastaði sem eru ávallt opnir almenningi án endurgjalds.

2. gr.
Stjórn.

    Iðnaðarráðherra skipar fjóra fulltrúa í stjórn Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða til tveggja ára í senn. Skulu tveir skipaðir eftir tilnefningu Samtaka ferðaþjónustunnar, einn eftir tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga og einn án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður.
    Stjórn sjóðsins skal árlega gera tillögur til ráðherra um úthlutanir úr sjóðnum. Tillögur stjórnar skulu rúmast innan hlutverks sjóðsins eins og það er skilgreint í 1. gr. Við vinnslu tillagna skal stjórn sjóðsins jöfnum höndum auglýsa eftir umsóknum um framlög og hafa frumkvæði að öflun upplýsinga frá yfirvöldum umhverfismála og öðrum hagsmunaaðilum um þörf á framkvæmdum sem falla undir gildissvið laga þessara.

3. gr.
Tekjur.

    Árlegar tekjur Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða eru:
     1.      Framlag ríkissjóðs sem nánar er ákveðið í fjárlögum.
     2.      Vextir af fé sjóðsins.
     3.      Aðrar tekjur.

4. gr.
Framkvæmd.

    Ráðherra tekur ákvörðun um einstakar úthlutanir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða á grundvelli tillagna stjórnar.
    Að jafnaði skal úthluta úr sjóðnum tvisvar á ári en þó er heimilt að víkja frá því ef brýna þörf ber til. Upplýsingar um úthlutanir úr sjóðnum skal birta opinberlega.

5. gr.
Varsla, reikningshald og endurskoðun.

    Framkvæmdasjóður ferðamannastaða skal vera í vörslu Ferðamálastofu sem annast rekstur sjóðsins, þ.m.t. framkvæmd úthlutana úr sjóðnum, uppgjör, bókhald og gerð ársreikninga.
    Við úthlutanir úr sjóðnum skulu framlög greidd til verkefna eftir framgangi þeirra.
    Reikningsár sjóðsins er almanaksárið og Ríkisendurskoðun annast endurskoðun reikninga hans.

6. gr.
Reglugerð.

    Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um úthlutanir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða í reglugerð.

7. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. september 2011.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Iðnaðarráðherra skal standa fyrir mati á framkvæmd laganna sem ljúka ber fyrir árslok 2013. Hafa skal samráð við umhverfisráðherra og helstu hagsmunasamtök í ferðaþjónustu og umhverfismálum við þá vinnu.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í iðnaðarráðuneytinu að höfðu samráði við fjármálaráðuneyti, umhverfisráðuneyti, Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofu, ferðamálaráð, Umhverfisstofnun og Þjóðgarðinn á Þingvöllum.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frumvarp þetta er nátengt frumvarpi sem fjármálaráðherra hyggst leggja fram um farþegagjald og gistináttagjald á yfirstandandi þingi. Verði það frumvarp að lögum mun frá og með 1. september 2011 verða tekið upp nýtt gjald sem innheimt er af seldum gistinóttum og farþegum með flugvélum og farþegaskipum.
    Frumvarp fjármálaráðherra um farþegagjald og gistináttagjald var samið í kjölfar tillagna nefndar um umhverfisgjöld tengd ferðaþjónustu sem fjármálaráðherra skipaði 18. september 2009. Nefndina skipuðu Ólafur Örn Haraldsson, formaður, skipaður af fjármálaráðherra, Helga Haraldsdóttir skrifstofustjóri, skipuð samkvæmt tilnefningu iðnaðarráðherra, Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir skrifstofustjóri, skipuð samkvæmt tilnefningu umhverfisráðherra, Ingibjörg G. Guðjónsdóttir ferðamálafræðingur, skipuð samkvæmt tilnefningu Samtaka ferðaþjónustunnar, Árni Bragason líffræðingur, skipaður samkvæmt tilnefningu samtaka á sviði náttúruverndar, og Guðjón Bragason sviðsstjóri, skipaður samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Nefndin skilaði skýrslu til fjármálaráðherra 16. mars 2010. Í skýrslunni segir m.a. að nefndin hafi einsett sér að benda á raunhæfar leiðir til þess að ferðamenn, íslenskir sem erlendir, greiði með einhverjum hætti fyrir heimsóknir sínar í náttúru lands og þá þjónustu og aðstöðu sem þar er fyrir hendi. Nefndin reifar í skýrslu sinni helstu mögulegar leiðir til gjaldtöku en leggur til að gistináttagjald verði valið til að ná framangreindum markmiðum.
    Lagt er til að farþegagjald og gistináttagjald renni í ríkissjóð. Sú upphæð sem ráðstafað verður af fjárlögum til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða mun þó endurspegla 3/5 af innheimtu farþegagjaldi og gistináttagjaldi.
    Tilefni þess að ráðist er í innheimtu sérstaks gjalds og stofnun Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða er gríðarleg nauðsyn á úrbótum af ýmsu tagi á fjölsóttum ferðamannastöðum á Íslandi. Ferðamönnum hefur fjölgað allverulega á liðnum árum, bæði innlendum sem erlendum. Árið 2009 voru erlendir ferðamenn rétt um 500 þúsund en að auki komu um 72 þúsund farþegar til landsins með skemmtiferðaskipum. Þetta sama ár ferðuðust um 90% Íslendinga innan lands. Skoðanakannanir sýna að það sem helst dregur ferðamenn til landsins er hin stórbrotna og viðkvæma náttúra landsins. Vegna hins aukna álags sem af fjölgun ferðamanna hlýst er nú svo komið að margir af vinsælustu ferðamannastöðum landsins eru farnir að láta verulega á sjá. Af þeim sökum er mikilvægt að leggja aukna áherslu á verndun náttúru á fjölsóttum ferðamannastöðum ásamt því að byggja upp nýja staði, enda er með því hægt að draga úr álagi á náttúru landsins og dreifa ferðamönnum betur um landið og yfir árið. Við vinnslu frumvarpsins var einnig horft til þess að brýnt er að tryggja betur öryggi ferðamanna á ýmsum vinsælum ferðamannastöðum. Bæta þarf varúðarmerkingar af ýmsum toga og jafnframt setja upp og viðhalda ýmsum varúðarmannvirkjum, svo sem handriðum, pöllum, stígum og öryggisgirðingum.
    Friðlýst svæði á Íslandi eru 102 talsins, en umfang þeirra, eðli og ástand er eins misjafnt og svæðin eru mörg. Meðal þeirra staða sem talið er mjög brýnt að ráðast í umbætur á eru Geysissvæðið, Gullfoss og Friðland að Fjallabaki.
    Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands má gera ráð fyrir að erlendir ferðamenn hafi keypt vöru og þjónustu fyrir um 155 milljarða kr. á árinu 2009. Allar áætlanir benda til þess að ferðamönnum fjölgi áfram á komandi árum og er jafnvel gert ráð fyrir að ferðamönnum fjölgi úr 500 þúsund á ári í eina milljón á næstu tíu árum. Slík fjölgun ferðamanna getur verið mikil lyftistöng fyrir atvinnulíf og efnahag á Íslandi en í henni eru jafnframt fólgnar ýmsar hættur. Mikilvægt er að horfa til framtíðar og hafa í huga að náttúra landsins hefur ákveðin þolmörk gagnvart ágangi ferðamanna, ekki síst á fjölsóttum ferðamannastöðum. Jafnframt er mikilvægt að huga að mikilvægi ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar á Íslandi og reyna þannig með markvissum aðgerðum að koma í veg fyrir að öryggi ferðamanna sé í hættu eða að upplifun þeirra af landinu verði neikvæð sem getur leitt til skaðaðrar ímyndar landsins sem ferðamannastaðar sem aftur getur leitt til fækkunar ferðamanna.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Markmiðið með stofnun Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða er skilgreint í 1. gr. frumvarpsins en þar er lagt til að með fjármagni úr honum skuli stuðlað að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða í opinberri umsjón eða eigu um land allt. Þá segir jafnframt að með fjármagni úr sjóðnum skuli leitast við að tryggja öryggi ferðamanna og verndun náttúru landsins. Loks er sjóðnum ætlað að fjölga viðkomustöðum ferðafólks til að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði.
    Heimildir sjóðsins til fjármögnunar framkvæmda eru raktar í 2. og 3. mgr. 1. gr. Sjóðnum er að meginstefnu til ætlað að kosta framkvæmdir á ferðamannastöðum í opinberri eigu og á friðlýstum svæðum. Á þeim svæðum hefur sjóðurinn víðtækar heimildir til að kosta framkvæmdir er varða uppbyggingu, viðhald, verndun og öryggi ferðamanna. Sjóðnum er einnig heimilt að kosta framkvæmdir á ferðamannastöðum sem eru í einkaeigu og ekki friðlýstir en þær heimildir eru þó mun takmarkaðri. Í þeim tilvikum er einungis heimilt að kosta framkvæmdir sem beinlínis varða öryggi ferðamanna eða náttúruvernd. Sjóðnum er ekki ætlað að vera samkeppnissjóður heldur munu framlög úr honum renna til verkefna á svæðum þar sem brýnt er að ráðast í umbætur. Það verður í höndum stjórnar sjóðsins að gera tillögur að úthlutun úr sjóðnum og lagt er til að stjórnin muni auglýsa eftir umsóknum um framlög úr sjóðnum. Umsjónaraðilar eða eigendur viðkomandi ferðamannastaða geta þannig sótt um framlög á grundvelli fullbúinna hugmynda að framkvæmdum sem samræmast lögum og reglum um viðkomandi svæði.
    Í 1. tölul. 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er lagt til að sjóðurinn hafi víðtækar heimildir til uppbyggingar, viðhalds og verndunar mannvirkja og náttúru á ferðamannastöðum sem eru í eigu opinberra aðila. Hér er bæði átt við svæði sem eru í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Þá hefur sjóðurinn sömu heimildir á ferðamannastöðum sem eru á skilgreindum náttúruverndarsvæðum. Náttúruverndarsvæði eru skilgreind í 8. tölul. 3. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd, og þar eru þau flokkuð í eftirfarandi flokka:
     a.      Friðlýst svæði, þ.e. þjóðgarðar, friðlönd, fólkvangar og náttúruvætti.
     b.      Önnur svæði og náttúrumyndanir sem eru á náttúruminjaskrá.
     c.      Afmörkuð svæði á landi og sjó sem njóta verndar samkvæmt öðrum lögum vegna náttúru eða landslags.
    Sjóðurinn hefur ekki heimildir til að kosta framkvæmdir sem falla undir þennan tölulið þegar um er að ræða ferðamannastaði í einkaeigu nema um sé að ræða viðurkennd náttúruverndarsvæði. Þær framkvæmdir sem falla undir 1. tölul. 2. mgr. 1. gr. geta verið af ýmsu tagi svo framarlega sem þær rúmast innan markmiða laganna. Hér getur m.a. fallið undir uppsetning á hreinlætisaðstöðu, gerð stíga, palla og aðvörunarskilta. Allar framkvæmdir sem rúmast innan markmiða laganna, ekki síst þær sem eru á náttúruverndarsvæðum, kunna að vera háðar frekari skilyrðum samkvæmt lögum nr. 44/1999, um náttúruvernd, eða lögum um verndun einstakra svæða, svo sem lögum nr. 97/2004, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, lögum nr. 85/2005, um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess, lögum nr. 60/2007, um Vatnajökulsþjóðgarð, og fleiri sérlögum. Þá kann í einhverjum tilvikum að vera nauðsynlegt að kanna hvort framkvæmdir rúmast innan gildandi skipulags á viðkomandi svæði.
    Í 2. tölul. 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er lagt til að sjóðurinn hafi heimildir til að fjármagna framkvæmdir sem eru til þess fallnar að tryggja öryggi ferðamanna og verndun náttúrunnar hvort sem er á ferðamannastöðum í eigu opinberra aðila eða einkaaðila. Þessi framlög einskorðast við verkefni sem hafa náttúruverndunargildi eða stuðla að öryggi ferðamanna á svæðum sem eru opin almenningi án endurgjalds.
    Þau verkefni sem geta fallið undir þennan tölulið eru verulega takmarkaðri og ber að túlka mun þrengra en þau sem falla undir 1. tölul. 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Verkefnin einskorðast við hvers konar ráðstafanir sem eingöngu miða að því að tryggja öryggi ferðamanna eða stuðla að verndun náttúru. Þegar um er að ræða framkvæmdir sem falla undir 2. tölul. þá skiptir eignarhald á ferðamannastaðnum ekki máli. Þannig er samkvæmt ákvæðinu heimilt að kosta öryggisráðstafanir í þágu ferðamanna á landi sem er einkaeigu og ekki telst náttúruverndarsvæði samkvæmt náttúruverndarlögum, enda óski landeigandi eftir því eða slíkt sé gert í samráði við hann. Öryggisráðstafanir í þágu ferðamanna geta m.a. verið ýmsar merkingar sem eru til þess fallnar að tryggja öryggi ferðamanna sem og kostnaður við uppsetningu öryggisbúnaðar, svo sem handriða. Undir þennan lið getur einnig fallið stígagerð og uppsetning palla þegar skýrt er að um er að ræða öryggisráðstafanir. Framkvæmdir sem stuðla að verndun náttúru geta t.d. falist í því að girða af viðkvæm svæði, setja upp útsýnispalla sem draga úr ágangi á náttúru, að beina umferð gangandi vegfarenda þannig að náttúra raskist ekki með stígagerð o.s.frv. Ýmsar framkvæmdir eru þess eðlis að þær geta hvort tveggja í senn verndað náttúru og stuðlað að öryggi ferðamanna.
    Framlögum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða er ekki ætlað að styrkja atvinnuuppbyggingu einkaaðila í ferðaþjónustu enda einskorðast framlög til þeirra við framangreind öryggis- og/eða verndunarverkefni. Þannig er ekki gert ráð fyrir að framlög til framkvæmda á landsvæðum í einkaeigu teljist landeiganda til tekna og ekki er gert ráð fyrir að í starfsemi sjóðsins felist ríkisaðstoð skv. 61.–64. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Engu síður er áformað að tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um starfsemi Framkvæmdasjóðsins.
    Í 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins segir að Framkvæmdasjóði ferðamannastaða sé heimilt að fjármagna þá undirbúnings- og hönnunarvinnu sem nauðsynleg er vegna framkvæmda sem falla undir 1. og 2. tölul. 2. mgr. en sjóðnum sé ekki heimilt að bera rekstrarkostnað mannvirkja, náttúruverndarsvæða eða annarra ferðamannastaða. Afar mikilvægt er að vandað sé til uppbyggingar af því tagi sem sjóðurinn á að fjármagna. Þannig þurfa framkvæmdir að vera gerðar með hagsmuni náttúruverndar í huga og taka mið af þörfum ferðamanna. En það þarf einnig meira að koma til. Góð hönnun á aðstöðu og mannvirkjum getur haft mikið aðdráttarafl bæði vegna þeirrar þjónustu sem í boði er og fegurðargildis. Með góðri hönnun er átt við marga þætti en í henni getur m.a. falist sjálfbærni, vinnusparnaður og minni þörf fyrir viðhald en einnig það að með góðri hönnun er hægt að gera mannvirki á ferðamannastöðum þannig úr garði að upplifun af náttúrufegurð verði meiri og jákvæðari. Þá er með góðri hönnun hægt með árangursríkum hætti að tvinna sögu og menningu landsins saman við náttúru landsins í mannvirkjagerð og nálgun við ferðamann.
    Á undanförnum árum hefur þeirri skoðun vaxið fylgi að góð hönnun hafi mikið hagrænt gildi og það er meðal annars á grundvelli slíkra sjónarmiða sem lagt er til að sjóðurinn geti fjármagnað undirbúning og hönnun mannvirkja á ferðamannastöðum. Brýnt er að við úthlutanir úr sjóðnum verði þessi sjónarmið höfð í huga og telja verður að þannig skapist meiri verðmæti þegar litið er til lengri tíma. Þannig er ekki miðað við að sjóðurinn fjármagni verkefni sem felast í uppsetningu fjöldaframleiddra skyndilausna nema í undantekningartilvikum. Í uppbyggingu sem þessari eru fólgin tækifæri fyrir hönnuði, arkitekta, verkfræðinga og ýmsa iðnaðarmenn.
    Þar sem um er að ræða gjaldtöku af ferðamönnum er lagt til að sjóðurinn starfi á ábyrgð iðnaðarráðherra, en að rekstur og umsýsla sjóðsins verði hjá Ferðamálastofu enda lýtur starfsemi sjóðsins að tilgangi og hlutverki hennar samkvæmt lögum nr. 73/2005, um skipan ferðamála. Ferðamálastofa fer m.a. með málefni sem stuðla að þróun ferðamála sem atvinnugreinar og mikilvægs þáttar í íslensku atvinnu- og mannlífi, m.a. með þjóðhagslega hagkvæmni og umhverfisvernd að leiðarljósi. Umhverfismál eru eitt af hlutverkum Ferðamálastofu, þar á meðal samræming umhverfis- og fræðslumála og umsjón með uppbyggingu og þróun ferðamannasvæða. Ferðamálastofa sinnir styrkveitingum til þeirra sem vinna að úrbótum í umhverfismálum á ferðamannastöðum. Einnig hefur Ferðamálastofa haft forgöngu um og umsjón með úrbótum á fjölsóttum ferðamannastöðum, oft í samvinnu við aðra, svo sem sveitarfélög á viðkomandi svæði, Vegagerðina og Umhverfisstofnun.

IV. Helstu áhrif verði frumvarpið að lögum.
    Verði frumvarpið að lögum mun Framkvæmdasjóður ferðamannastaða verða til og mun hann fá framlög af fjárlögum til að sinna sínu hlutverki. Áformað er að sjóðurinn fái framlög sem svara til 3/5 af gjaldi samkvæmt lögum um farþegagjald og gistináttagjald. Þessum fjármunum verður varið til brýnna uppbyggingarverkefna á ferðamannastöðum og á sviði náttúruverndar og öryggis ferðamanna. Hvað áhrifin af lagabreytingunni varðar má reikna með því að þau verði víðtækust hvað það snertir að umtalsvert meira fjármagni en nú er verður varið til verkefna sem stuðla að uppbyggingu ferðaþjónustu og verndun íslenskrar náttúru á náttúruverndarsvæðum og ýmsum öðrum ferðamannastöðum. Þá verður einnig varið meira fjármagni en nú er til mannvirkja sem stuðla að öryggi ferðamanna. Hvort tveggja hefur þau áhrif að skapa atvinnu, hjá þeim hönnuðum og iðnaðarmönnum sem vinna munu þá undirbúnings- og framkvæmdavinnu sem nauðsynleg er.
    Takist að ná fram markmiðum laganna má reikna með því að náttúra Íslands á ferðamannastöðum haldist óspillt og að öryggi ferðamanna verði betur tryggt á Íslandi en nú er. Nái þetta fram að ganga eru vonir bundnar við að ímynd Íslands sem óspillts og öruggs ferðamannastaðar viðhaldist.
    Hvað stjórnsýsluna varðar má nefna þau áhrif að Ferðamálastofa fær í frumvarpinu nýtt hlutverk, þ.e. vörslu Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Jafnframt fær iðnaðarráðherra það hlutverk að ákvarða úthlutanir úr sjóðnum.
    Frumvarpið er nátengt frumvarpi fjármálaráðherra um farþegagjald og gistináttagjald. Um áhrif af þeirri gjaldtöku verður ekki fjallað hér en verði það frumvarp að lögum verður nýtt gjald lagt á þá ferðaþjónustuaðila í landinu sem selja gistingu og farþegaflutninga.

Athugasemdir við einstakar greinar.

Um 1. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að stofnaður verði sérstakur sjóður sem beri heitið Framkvæmdasjóður ferðamannastaða. Markmiðið með stofnun sjóðsins er rakið í ákvæðinu en með fjármagni úr honum skal stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu eða umsjón. Einnig skal með fjármagni úr sjóðnum leitast við að tryggja öryggi ferðamanna og verndun náttúru Íslands. Þá er með sjóðnum stefnt að frekari fjölgun ferðamannastaða í þeim tilgangi að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði og dreifa ferðamönnum betur yfir landið.
    Í 2. og 3. mgr. eru nánar raktar þær heimildir sem sjóðurinn hefur til að kosta framkvæmdir og einnig hvaða takmarkanir gilda um verksvið sjóðsins. Í fyrsta lagi skal skv. 1. tölul. 2. mgr. verja fjármagni úr sjóðnum til uppbyggingar, viðhalds og verndunar mannvirkja og náttúru á ferðamannastöðum í eigu opinberra aðila eða á náttúruverndarsvæðum. Um er að ræða rúma heimild til fjármögnunar framkvæmda á náttúruverndarsvæðum, hvort sem þau eru í opinberri eigu eða einkaeigu, og öðrum svæðum sem eru í eigum ríkis og sveitarfélaga. Framkvæmdirnar verða að rúmast innan markmiða frumvarpsins eins og það er skýrt í 1. mgr. Í öðru lagi skal skv. 2. tölul. 2. mgr. kosta framkvæmdir sem varða öryggi ferðamanna og verndun náttúru landsins á ferðamannastöðum óháð eignarhaldi. Í þessu felst að sjóðnum er heimilt að styrkja framkvæmdir á landi í einkaeigu, sem ekki er náttúruverndarsvæði, svo framarlega sem um er að ræða verkefni sem annaðhvort stuðla að öryggi ferðamanna eða verndun náttúru eða hvoru tveggja. Framkvæmdir á landi í eigu einkaaðila skulu þó alltaf háðar því skilyrði að um sé að ræða ferðamannastaði sem ávallt eru opnir almenningi án endurgjalds. Framlögum úr sjóðnum er ekki ætlað að styrkja atvinnuuppbyggingu einkaaðila í ferðaþjónustu og því einskorðast framlög til þeirra aðila við framangreind öryggis- eða verndunarverkefni.
    Í 3. mgr. er nánar rakið hvaða skilyrði framlög úr sjóðnum verða að uppfylla. Sérstaklega er tekið fram að sjóðurinn geti kostað undirbúnings- og hönnunarvinnu sem nauðsynleg er vegna þeirra framkvæmda sem sjóðurinn kostar. Þá er skýrt kveðið á um það að sjóðnum sé ekki heimilt að kosta rekstur mannvirkja eða náttúruverndarsvæða eða annarra ferðamannastaða. Fjármagn úr sjóðnum verður því ekki nýtt til að standa undir launakostnaði starfsmanna á náttúruverndarsvæðum eða öðrum ferðamannastöðum. Loks er tekið fram að framlög til einkaaðila séu alltaf háð því skilyrði að viðkomandi ferðamannastaður sé ávallt opinn almenningi og án endurgjalds.
    Með náttúruverndarsvæðum er átt við svæði þannig skilgreind samkvæmt náttúruverndarlögum, nr. 44/1999. Nánari umfjöllun um heimildir sjóðsins er að finna í almennum athugasemdum hér að framan.

Um 2. gr.


    Í ákvæðinu er fjallað um skipun stjórnar Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Stjórnin skal skipuð af iðnaðarráðherra og í hana skal skipa fjóra fulltrúa til tveggja ára í senn. Tveir skulu tilnefndir af Samtökum ferðaþjónustunnar, einn af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn skipar iðnaðarráðherra án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður.
    Meginverkefni stjórnar sjóðsins er gerð tillagna til iðnaðarráðherra um úthlutanir úr sjóðnum. Við vinnslu tillagnanna er nauðsynlegt að stjórnin afli upplýsinga um þörf á framkvæmdum jafnhliða því að auglýsa eftir umsóknum um framlög. Í auglýsingum um framlög skal greinilega koma fram hvers konar verkefni er ætlunin að styrkja og hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt svo að til framlaga geti komið.
    Stjórninni er ætlað að setja saman heildstæðar tillögur sem geta orðið grundvöllur ákvörðunar ráðherra um úthlutunar tvisvar á ári. Tillögunum skal fylgja greinargerð þar sem gerð er grein fyrir uppruna hverrar tillögu og kostnaðaráætlun verkefna.
    Framkvæmd úthlutana, rekstur sjóðsins og uppgjör verður í höndum Ferðamálastofu eins og nánar er rakið í skýringum við 5. gr.

Um 3. gr.


    Lagt er til að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða fái árlega framlag af fjárlögum. Miðað skal við að framlagið endurspegli um 60% þeirra tekna sem ríkissjóður hefur af farþegagjaldi og gistináttagjaldi.

Um 4. gr.


    Lagt er til að iðnaðarráðherra beri ábyrgð á rekstri Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og taki ákvarðanir um einstakar úthlutanir úr sjóðnum. Í ákvæðinu er lagt til að úthlutað verði úr sjóðnum að jafnaði tvisvar á ári en þó er talið skynsamlegt að heimila úthlutanir oftar ef brýna þörf ber til. Lagt er til að upplýsingar um úthlutanir verði birtar opinberlega. Birting á vef iðnaðarráðuneytis og/eða Ferðamálastofu mundi teljast nægileg birting.

Um 5. gr.


    Áformað er að rekstur Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða verði í höndum Ferðamálastofu. Í því felst m.a. að Ferðamálastofa framkvæmir allar úthlutanir úr sjóðnum í samræmi við ákvarðanir ráðherra. Í því felst jafnframt að sjá um samningagerð vegna úthlutana þegar það á við. Þá heldur stofnunin bókhald yfir rekstur sjóðsins og framlög úr honum og gerir ársreikninga.
    Við greiðslu framlaga úr sjóðnum skal ávallt miða við að greiðslur til verkefna miðist við framvindu. Í þessu felst að greiðsludreifing til verkefna getur verið mismunandi eftir eðli þeirra og tímalengd.
    Tekið er fram að reikningsár sjóðsins skuli vera almanaksárið og að Ríkisendurskoðun annist endurskoðun reikninga.

Um 6. gr.


    Ákvæðið fjallar um heimild ráðherra til að setja nánari reglur um starfsemi Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða í reglugerð. Heimildin einskorðast við nánari reglur um úthlutanir úr sjóðnum. Er hér einkum átt við nánari reglur er varða framkvæmd úthlutana.

Um 7. gr.


    Ákvæðið fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Vegna þess nýja fyrirkomulags sem felst í Framkvæmdasjóði ferðamannastaða er lagt til að endurskoða beri lög um starfsemi hans og framkvæmd þeirra áður en langur tími líður. Miðað er við að iðnaðarráðherra standi fyrir slíkri endurskoðun og að henni verði lokið áður en þrjú ár hafa liðið frá gildistöku laga um sjóðinn.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.

    Í frumvarpinu er lagt til að stofnaður verði Framkvæmdasjóður ferðamannastaða með það að markmiði að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu eða umsjón um land allt auk þess að tryggja öryggi ferðamanna og verndun náttúru landsins. Gert er ráð fyrir að iðnaðarráðherra skipi fjóra fulltrúa í stjórn sjóðsins, þar af einn án tilnefningar, sem geri tillögu til ráðherra um úthlutanir úr sjóðnum. Úthlutanir eiga að samrýmast hlutverki sjóðsins en að öðru leyti er ekki afmarkað nánar í frumvarpinu hvers konar verkefni heimilt verði að styrkja og verður að telja að gert sé ráð fyrir að sú heimild verði talsvert víðfeðm. Frumvarpið gerir ráð fyrir að iðnaðarráðherra taki ákvarðanir um einstakar úthlutanir úr sjóðnum á grundvelli tillagna stjórnar fremur en að sjálfstæð stjórn fari með það ákvörðunarvald innan marka tiltekinnar stefnu eða markmiða eins og algengt er með sjóði af þessari stærðargráðu.
    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi fjármálaráðherra um innheimtu á nýju farþegagjaldi og gistináttagjaldi, sem ætlað er að afla aukinna tekna til að standa undir framlögum til sjóðsins og þjóðgarða og friðlýstra svæða en áætlað er að tekjurnar geti orðið um 400 m.kr. á ársgrundvelli. Gert er ráð fyrir að innheimta gjaldanna hefjist 1. september 2011. Þótt ekki sé beinlínis um að ræða mörkun teknanna í því frumvarpi er gert ráð fyrir, í samræmi við stefnumörkun stjórnvalda um þessi málefni, að veitt verði framlag í fjárlögum sem svari til 3/5 hluta teknanna, eða 240 m.kr. á ársgrundvelli, til nýs Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Þessi áform mundu leiða til mjög umtalsverðrar aukningar á útgjöldum í tengslum við framkvæmdir og önnur verkefni í þessum málaflokki. Þar sem ætlunin er að þessi útgjöld verði fjármögnuð með tekjum af farþegagjaldi og gistináttagjaldi munu þessar lagabreytingar þó ekki hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að Ferðamálastofu verði falið að annast um umsýslu með sjóðnum, svo sem útgreiðslur og aðra framkvæmd styrkja, bókhald og gerð ársreikninga. Nokkur viðbótarkostnaður kann að falla til vegna þessara verkefna en reiknað er með að hann rúmist að mestu innan fjárhagsramma Ferðamálastofu en verði annars fjármagnaður af fjárheimildum sjóðsins. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2011 er ekki gert ráð fyrir þessum auknu útgjöldum eða tekjum en þar er settur bindandi útgjaldarammi á nafnvirði fyrir ríkið í heild á árinu 2011.