Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 525  —  1. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2011.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.



Um vinnubrögð.
    Við lok 2. umræðu um fjárlagafrumvarpið boðaði meiri hlutinn breytingu á þremur liðum milli 2. og 3. umræðu. Kvöldið fyrir 3. umræðu lagði meiri hlutinn fram meira en 50 breytingartillögur á gjaldahlið frumvarpsins. Stærsti hluti tillagnanna er óræddur í nefndinni og lítil sem engin gögn liggja fyrir um tilurð þeirra. Stærsti útgjaldaliðurinn er um 7,9 milljarða kr. hækkun vaxtabóta. Um leið og 2. minni hluti fagnar þeim breytingum átelur hann ríkisstjórnina fyrir að skýra ekki hvernig fjármagna eigi þau útgjöld en samkvæmt breytingartillögum meiri hlutans munu lífeyrissjóðir og fjármálafyrirtæki, auk hugsanlega fleiri stofnana, fjármagna vaxtaniðurgreiðslurnar samkvæmt nánara samkomulagi.

Vegaframkvæmdir.
    Milli 2. og 3. umræðu um frumvarpið boðaði ríkisstjórnin að farið yrði í vegaframkvæmdir fyrir allt að 6 milljarða kr. Í framhaldi af því að upp úr viðræðum við lífeyrissjóðina um fjármögnun einstakra framkvæmda slitnaði var ákveðið að stofna hlutafélög um framkvæmdirnar á grundvelli laga nr. 97/2010. 2. minni hluti lýsir sig fylgjandi því að ráðist verði í þau verkefni sem boðuð hafa verið en gagnrýnir stofnun hlutafélaganna þar sem gera má ráð fyrir að framkvæmdin verði hvort sem er öll á hendi ríkisins og telur 2. minni hluti að kostnaður við verkefnið ætti að bókast beint hjá A-hluta ríkissjóðs.
    Annar minni hluti gagnrýnir að fjármagna eigi verkefnin með vegtollum á þá einstaklinga sem um vegina fara. Telur 2. minni hluti að byrðar af samgönguverkefnum eigi að leggjast jafnt á alla landsmenn en sátt hefur ríkt um það að vegaframkvæmdir séu fjármagnaðar með olíu- og bensíngjaldi. Gagnrýnir 2. minni hluti jafnframt að sá skattstofn skuli ekki renna óskiptur til samgöngubóta. 2. minni hluti fagnar sérstaklega að ráðast eigi í gerð Vaðlaheiðarganga. Samstaða hefur ríkt frá upphafi verkefnisins um að gjöld verði lögð á þá sem fara um göngin en 2. minni hluti leggur mikla áherslu á að þeirri gjaldtöku verði stillt verulega í hóf.

Breytingartillögur.
Aðalskrifstofur ráðuneyta.
    Annar minni hluti leggur til að hagræðingarkrafa á aðalskrifstofur ráðuneyta verði aukin í 9% frá fjárlögum 2010, eins og lagt var upp með við fjárlagagerðina. Gera má ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs lækki um 144 milljónir kr. vegna þessa.

Ófyrirséð útgjöld.
    
Lagt er til að liðurinn verði lækkaður um 2 milljarða kr.

Heilbrigðisstofnanir.
    Lagt er til að dregið verði úr hagræðingarkröfu í 4,7% eða um 620 millj. kr.
    Annar minni hluti leggur til að farið verði gaumgæfilega ofan í boðaðar breytingartillögur ríkisstjórnarinnar og kannað til hlítar hvaða áhrif þær kunna að hafa á íbúa landsbyggðarinnar. Þá verði einnig gerð nákvæm kostnaðargreining á heilbrigðisþjónustunni og kannað hvar drepa megi niður fæti í heilbrigðiskerfi landsins. 2. minni hluti lýsir sig andvígan þeirri stefnu sem boðuð var í frumvarpinu og ekki hefur verið horfið frá í nýjum tillögum ríkisstjórnarinnar. Bent er á að þrátt fyrir að niðurskurðurinn sé minni en áður var boðað er skerðingin gríðarleg gagnvart einstökum heilbrigðisstofnunum úti á landi, t.d. Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Meiri hlutinn hvikar hvergi frá boðaðri byltingu í heilbrigðiskerfi landsmanna og blasir við að útfærslunni eigi að ná fram á þremur árum í stað eins.

Skattlagning séreignarsparnaðar.
    Annar minni hluti leggur til að sóttir verði um 40 milljarðar kr. í fyrirframskattlagningu á séreignarsparnaði. 2. minni hluti leggur áherslu á að stærsti hluti þess fjármagns verði nýttur sem hluti af gjaldeyrisvaraforða og til að sporna við frekari lántökum ríkissjóðs. Jafnframt telur 2. minni hluti að aukning aflaheimilda og atvinnuuppbygging í orkufrekum iðnaði muni leiða til aukins hagvaxtar sem síðar muni skila sér í auknum tekjum ríkissjóðs.

Persónuafsláttur.
    Annar minni hluti leggur til að fallið verði frá hugmyndum um að bótaflokkar almannatryggingakerfisins verði ekki uppfærðir í samræmi við verðlag. Hætt verði við skerðingu barnabóta, auk þess sem staðið verði við gefin loforð um að persónuafsláttur hækki í samræmi við verðlag og að til framkvæmda komi boðaður áfangi um að hækka persónuafslátt um 3.000 kr. auk 1.000 kr. verðbóta hans. Gera má ráð fyrir að hækkun persónuafsláttarins lækki tekjur ríkissjóðs um 8 milljarða kr.

Smærri samgönguverkefni.
    Annar minni hluti leggur til að útgjöld til smærri samgönguverkefna verði aukin um 500 millj. kr. Jafnframt verði settar 1.000 millj. kr. í að fækka einbreiðum brúm. Þessi fjárveiting mun skapa vinnu víða um land hjá smærri verktökum en þeir hafa orðið illa úti í efnahagshruninu.

Löggæsla.
    Við efnahagshrunið jókst álag á lögreglu víðs vegar um landið. Er nú svo komið að erfitt hefur reynst að manna vaktir og halda uppi lágmarksþjónustu til að tryggja öryggi þegnanna. 2. minni hluti telur brýnt að staðinn verði vörður um þessa grunnþjónustu. Því leggur 2. minni hluti til að fjárveitingar til löggæslu verði hækkaðar um 500 millj. kr. og þær skiptist hlutfallslega á milli viðkomandi stofnana.

LÍN.
    Annar minni hluti telur mikilvægt að settir verði fjármunir í LÍN til að styrkja framfærslugrunn námsmanna. Ótækt er að ætla námsmönnum að lifa við krappari kjör en sem nemur atvinnuleysisbótum.

Hagsmunasamtök heimilanna.
    Annar minni hluti leggur til að fjárframlag til samtakanna verði hækkað um 7,5 millj. kr. og verði alls 10 millj. kr.

Barnabætur.
    Annar minni hluti leggur til að barnabætur verði hækkaðar um 2 milljarða kr. Þær verði fjármagnaðar af liðnum óvænt útgjöld sem breytist samsvarandi.

Alþingi, 14. des. 2010.



Höskuldur Þórhallsson.