Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 79. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 533  —  79. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um brunavarnir, nr. 75/2000, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta umhverfisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Víði Reynisson og Jón Bjartmarz frá embætti ríkislögreglustjóra, Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóra Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Björn Karlsson frá Brunamálastofnun, Ágústu R. Jónsdóttur, Reyni Sigurðsson og Höllu S. Sigurðardóttur frá Flugmálastjórn, Friðfinn Skaftason frá samgönguráðuneyti, Þórólf Árnason, Björn Óla Hauksson, Hauk Hauksson og Ásgeir Pálsson frá Isavia og Borgar Valgeirsson og Sverri Björn Björnsson frá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.
    Að þessu sinni voru ræddar greinar um stjórn á vettvangi við björgun á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum og um brunavarnir á flugvöllum.
    Nefndin ræddi einnig orðalag 1. gr. frumvarpsins og 1. gr. laga um brunavarnir, nr. 75/ 2000. Leggur meiri hlutinn til breytingar á greininni til samræmis við breytingartillögur í framhaldsnefndaráliti nefndarinnar í 78. máli á þingskjali 492. Telur meiri hlutinn að merking orðsins umhverfi verði gleggri með þeirri breytingu sem lögð er til.
    Við umfjöllun nefndarinnar um björgun á fastklemmdu fólki kom í ljós að ekki væri ágreiningur um að lögfest yrði að björgun á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum með sérhæfðum björgunarbúnaði væri eitt af verkefnum slökkviliðs og er það í samræmi við þá framkvæmd sem þróast hefur síðasta áratug í góðri samvinnu. Ágreiningur er hins vegar um vettvangsstjórn. Nefndin fékk þau skilaboð frá umhverfisráðherra og dómsmálaráðherra að stefnt væri að því að strax eftir áramót færi í gang samráð og vinna milli ráðuneyta með aðkomu viðeigandi stofnana að breytingum á lögum um brunavarnir, nr. 75/2000, og lögreglulögum, nr. 90/1996, með það að markmiði að eyða allri óvissu um hver fer með vettvangsstjórn. Meiri hlutinn leggur því til að a-liður 13. gr. frumvarpsins falli út og 2. mgr. 16. gr. laga um brunavarnir verði ekki breytt að sinni.
    Nefndin hlýddi á rök með og á móti því að brunavarnir á flugvöllum, og þá einkum sérstakt björgunar- og slökkvilið eða viðbúnaðarsveit, falli undir gildissvið laganna. Að mati meiri hlutans er ljóst að í athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum um brunavarnir, nr. 75/2000, var skýrt tekið fram að lögin tækju til starfsemi allra slökkviliða á landinu, þ.m.t. starfsemi slökkviliða flugvalla. Engar athugasemdir komu fram um þetta í nefndaráliti eða umræðum á Alþingi um málið á vorþingi árið 2000.
    Fyrir nefndinni var þeirri athugasemd komið á framfæri að íslensk flugmálayfirvöld þyrftu að hafa eftirlit með því að ákvæði 14. viðauka við Chicago-samninginn frá 1944 væru uppfyllt. Meiri hlutinn hefur fullan skilning á því að uppfylla þarf alþjóðlega samninga og líta eftir framkvæmd í því sambandi. Chicago-samningurinn og eftirlitsskylda Flugmálastjórnar kemur þó ekki í veg fyrir að almenn landslög um brunavarnir gildi á flugvöllum svo fremi þau gangi ekki gegn ákvæðum samningsins. Svo er ekki í þessu tilviki þar sem ákvæði Chicago-samningsins fela í sér lágmarkskröfur sem stjórnvöld hvers aðildarríkis þurfa að uppfylla.
    Við umfjöllun nefndarinnar var litið til þess hvernig brunavörnum er háttað á flugvöllum í öðrum norrænum ríkjum. Alls staðar hafa flugmálayfirvöld þar eftirlit með brunavörnum í samræmi við ákvæði alþjóðasamningsins. Þar eru þó gerðar mun ítarlegri kröfur en hér hafa gilt. Þá er málum þar þannig háttað að í reglugerðum flugmálayfirvalda um brunavarnir á flugvöllum er vísað til almennra brunavarnalaga og í almennum reglum um brunavarnir til reglugerða flugmálayfirvalda. Sú meginregla er því ljós að á norrænum flugvöllum gilda almenn brunavarnalög hvers ríkis. Meiri hlutinn áréttar því fyrri niðurstöðu sína um að gildissvið laga um brunavarnir, nr. 75/2000, taki til flugvalla. Slökkvilið hvers sveitarfélags fyrir sig hefur umsjón með brunavarnaeftirliti en yfirumsjón liggur hjá Mannvirkjastofnun. Meiri hlutinn bendir í þessu sambandi á skýrar kæruleiðir skv. IX. kafla laganna en telur rétt að flugmálayfirvöld hafi umsagnarrétt um kröfur skv. 24. gr. Breytingartillögur meiri hlutans um þetta atriði eru lítt breyttar frá þeim breytingartillögum við 2. umræðu sem þá voru kallaðar til 3. umræðu.
    Umsögn um málið frá Isavia fylgdi kostnaðaráætlun þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að breytingartillögur umhverfisnefndar leiði til um 320 millj. kr. kostnaðarauka við rekstur flugvallanna í Keflavík, á Akureyri, á Egilsstöðum, í Reykjavík, á Ísafirði, á Bíldudal, á Gjögri, í Grímsey, í Hornafirði, á Sauðárkróki, í Vestmannaeyjum, á Vopnafirði og á Þórshöfn. Meiri hlutinn tekur ekki undir þessar staðhæfingar, þótt kostnaður kunni vissulega að hljótast af því að verða við eðlilegum kröfum um öryggi flugfarþega, annaðhvort við flugvallarrekstur eða í starfsemi slökkviliðs sveitarfélaganna. Kostnaðaráætlun Isavia er fylgiskjal við nefndarálitið ásamt athugasemdum Brunamálastofnunar um kostnaðarmatið.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      1. gr. orðist svo:
                  1. gr. laganna orðast svo:
                  Markmið laga þessara er að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi með því að tryggja fullnægjandi eldvarnaeftirlit, forvarnir og viðbúnað við eldsvoðum og mengunaróhöppum á landi.
     2.      Við 3. gr. Á eftir orðinu „samgöngumannvirki“ í b-lið komi: þ.m.t. flugvellir.
     3.      Við 6. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Á eftir 2. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Að beiðni slökkviliðsstjóra getur Mannvirkjastofnun gert úttekt á brunavörnum mannvirkja í rekstri þar sem tilteknir starfsmenn eru þjálfaðir í brunavörnum og slökkvistarfi, sbr. 3. mgr. 24. gr.
     4.      Við 13. gr. A-liður falli brott.
     5.      Við 18. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: 3. mgr. orðast svo:
                  Slökkviliðsstjóri getur að höfðu samráði við sveitarstjórn lagt svo fyrir að í mannvirkjum eða á lóðum, sbr. 2. mgr., séu gerðar sérstakar ráðstafanir til brunavarna, t.d. með uppsetningu á sérhæfðum búnaði til viðvörunar- og slökkvistarfs og þjálfun tiltekinna starfsmanna í brunavörnum og slökkvistarfi. Vegna mannvirkja þar sem um er að ræða starfsemi sem af stafar sérstök slysahætta, svo sem á stærri flugvöllum, getur slökkviliðsstjóri krafist skýrslu um viðbragðsstyrk, þ.m.t. mannafla og búnað, frá þeim sem rekur mannvirkið eða eiganda þess. Sé viðbragðsstyrkur ófullnægjandi að mati slökkviliðsstjóra skal hann gera kröfu um úrbætur og grípa til aðgerða skv. VIII. kafla ef henni er ekki sinnt. Þegar viðbragðsstyrkur slíkrar starfsemi er einnig háður eftirliti annars stjórnvalds, svo sem á flugvöllum, skal rökstudd krafa um úrbætur einnig send viðkomandi stjórnvaldi til umsagnar og Mannvirkjastofnun til kynningar. Ráðstafanir skv. 1. og 2. málsl. skulu koma fram í brunavarnaáætlun. Eigandi mannvirkis greiðir kostnað af slíkum ráðstöfunum.
     6.      Við 21. gr. Í stað orðsins „Byggingarstofnun“ komi: Mannvirkjastofnun.

Alþingi, 14. des. 2010.



Mörður Árnason,


form., frsm.


Ólína Þorvarðardóttir.


Álfheiður Ingadóttir.



Vigdís Hauksdóttir,


með fyrirvara.


Ólafur Þór Gunnarsson.


Skúli Helgason.





Fylgiskjal I.


Umsögn frá Isavia.
(6. desember 2010.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Athugasemdir Brunamálastofnunar við kostnaðarmat Isavia
vegna slökkvistarfs á flugvöllum.

(9. desember 2010.)


Bakgrunnur.
    ISAVIA hf hefur skilað inn umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum um brunavarnir, dagsettri 6. desember 2010. Í umsögninni er því haldið fram að kostnaðarauki vegna þeirrar lagabreytingar sem umhverfisnefnd leggur til í sambandi við viðbúnað á flugvöllum verði rúmlega 320 milljónir króna, sem byggist á kröfum sem gerðar hafi verið af brunamálayfirvöldum.
    Greinilegt er að mikill misskilningur varðandi kröfur brunamálayfirvalda um viðbúnað á flugvöllum hefur verið uppi við þá útreikninga sem fylgja ofangreindri umsögn Isavia hf. Hinsvegar er mjög mikilvægt að athuga að kröfur Alþjóða flugmálastofnunarinnar í þessum efnum hafa verið að aukast verulega undanfarin ár og að Flugöryggisstofnun Evrópu er að undirbúa reglugerð þar sem auknar kröfur verða settar. Ljóst er að útreikningar Isavia gilda mun frekar um þær kröfur sem vitað er að munu verða settar fram í evrópskri reglugerð innan skamms, en ekki þeim kröfum sem settar hafa verið fram af slökkviliðsstjóra höfuðborgarsvæðisins.

Kröfur á Norðurlöndum.
    Í Svíþjóð, Noregi og Danmörku eru í gildi sérstakar reglugerðir um viðbúnaðarþjónustu á flugvöllum [1, 2 3], gefnar út af viðkomandi flugmálayfirvöldum, en þar er kveðið mun skýrar á um kröfur en gert er í Viðauka 14 við Chicago samninginn. Viðbúnaðurinn sem krafist er fer eftir viðbúnaðarflokki flugvallarins en það er fyrst við flokkunina CAT V og hærri flokkun sem almennt er gerð krafa um reykköfun og þá að hún uppfylli reglur viðkomandi lands. Almennt er vísað í og horft til menntunar slökkviliðsmanna í viðkomandi landi með viðbótarnámi sem snertir flugvelli. Einnig er rætt um að allur búnaður eigi að vera viðurkenndur af brunamálayfirvöldum viðkomandi lands. Á Norðurlöndum er gerð lágmarkskrafa um fjóra slökkviliðsmenn á vakt vegna reykköfunar á CAT V flugvelli (Reykjavíkurflugvöllur er CAT V).
    
Kröfur settar fram af slökkviliðsstjóra höfuðborgarsvæðisins.
    Flugmálayfirvöld hafa oft lýst því yfir að viðbúnaður á íslenskum flugvöllum eigi að vera í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru á Norðurlöndum Einu kröfurnar sem íslensk brunamálayfirvöld hafa sett fram varðandi viðbúnað á flugvöllum eru vegna viðbúnaðar á Reykjavíkurflugvelli, sem er CAT V flugvöllur.

    Þess vegna vill undirritaður að eftirfarandi komi fram:
     1.      Engar kröfur af hendi slökkviliðsstjóra eða brunamálayfirvalda hafa verið gerðar um viðbúnað varðandi flugvöllum sem eru í CAT III og CAT IV, en kostnaðaráætlun Isavia hf gerir ráð fyrir kostnaðarauka upp á 50.796.000 kr vegna þessa.
     2.      Engar auknar kröfur af hendi slökkviliðsstjóra Sandgerðis, Reykjanesbæjar eða brunamálayfirvalda hafa verið gerðar varðandi viðbúnað á Keflavíkurflugvelli en kostnaðaráætlun Isavia hf gerir ráð fyrir kostnaðarauka upp á 102.816.000 kr vegna þessa.
     3.      Viðbúnaður á Reykjavíkurflugvelli er nú þannig að þar eru 3 menn á vakt, þeir eru menntaðir slökkviliðsmenn og sinna reykköfun samkvæmt íslenskum reglum. Deila íslenskra aðila er um það hvort þar ættu að vera 3 eða 4 á vakt, en minnstu kröfur á Norðurlöndum gera ráð fyrir fjórum á vakt. Fram til ársins 2009 voru þó fjórir á vakt á Reykjavíkurflugvelli. Því er ekki eðlilegt að reikna með kostnaðarauka þar vegna krafna slökkviliðsstjóra, þó svo að viðbúnaður hafi minnkað frá því sem var á árunum fyrir 2009.
     4.      Ísafjarðarflugvöllur er sagður vera í CAT V í töflu Isavia hf, en á bls. 73 í Tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2007–2010 (lögð fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007) segir að sá flugvöllur sé í CAT IV og að það séu einungis flugvellirnir í Keflavík, Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum sem séu CAT V. Því er spurning hvort Ísafjarðarflugvöllur sé CAT V flugvöllur og ef svo, hvort þörf sé á því og hvort etv sé hægt að flytja þann flugvöll aftur í CAT IV. Kostnaðaraukinn er sagður vera 30.600.000 kr en ekki er ljóst hvort allur sá tilkostnaður sé þarfur eða raunsær.

    Mjög líklegt er að auka verði viðbúnað við Egilsstaðaflugvöll þó svo að brunamálayfirvöld hafi ekki sett fram neina kröfu um slíkt. Slökkvistöð sveitarfélagsins er til húsa við flugvöllinn og samstarfssamningur um tæki er í gildi. Tveir flugvallarstarfsmenn eru á vakt þegar flugvöllurinn er opinn, en þeir eru ekki menntaðir slökkviliðsmenn. Því gæti fylgt einhver kostnaður við að þjálfa þessa menn og sjá til þess að þeir uppfylli kröfur um reykköfun. Mögulegt er að það þyrfti að ráða fleiri menn á vakt. Því er raunsætt að aukinn kostnaður við Egilsstaðaflugvöll gæti orðið þó nokkur, en það er aðallega vegna þess að viðbúnaður þar hefur hingað til verið mjög knappur og uppfyllir alls ekki þær kröfur sem Flugöryggisstofnun Evrópu mun setja innan skamms.
    Á Akureyrarflugvelli eru 2 slökkviliðsmenn á vakt, en mögulegt er að auka verði við þá vakt, ef tekið er tillit til þeirra krafna sem munu gerðar í væntanlegri reglugerð Flugöryggisstofnunar Evrópu.

Nýjar kröfur Flugmálastjórnar Íslands.
    Í gærkvöldi fékk undirritaður í hendur drög að nýjum reglum Flugmálastjórnar um viðbúnað á flugvöllum, en stofnunin hefur upplýst um að drögin miði að einhverju leyti við væntanlega Evrópska reglugerð sem sett verður innan skamms og íslenskir flugvellir verði að uppfylla. Drög þessi voru send samgönguráðuneyti 1. júlí síðastliðinn. Taflan neðan sýnir þær kröfur um mannafla og bifreiðar sem flugvellir með mismunandi CAT flokkun verði að uppfylla samkvæmt nýjum drögum Flugmálastofnunar. Isavia setur stuðulinn 1,2 vegna orlofs og veikinda.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Taflan fyrir neðan sýnir svo flokkun (CAT) stærri flugvalla á Íslandi og þær auknu kröfur um mönnun sem Flugmálastjórn mun setja samkvæmt drögum að nýrri reglugerð. Einnig sýnir taflan þá aukningu í mannskap sem Isavia hf er að gera ráð fyrir í kostnaðarmati sínu. Ljóst er af þessu að Isavia hf er í raun að reikna með auknum kostnaði vegna aukinna krafna Flugmálastjórnar en ekki vegna krafna slökkviliðsstjóra höfuðborgarsvæðisins.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins hefur gert kröfu um að á Reykjavíkurflugvelli verði 4 menn á vakt, en í kostnaðarmati sínu gerir Isavia hf ráð fyrir 5,36 mönnum. Undirritaður gerir sér ekki grein fyrir því af hverju Isavia vill fjölga slökkviliðsmönnum á Keflavíkurflugvelli um 3, en engin krafa um slíkt hefur verið sett fram af brunamálayfirvöldum.

Niðurstaða.
    Undirritaður telur að þá kostnaðaraukningu vegna viðbúnaðar á flugvöllum sem Isavia hf lagði fram 6. desember sé ekki hægt að rekja til krafna slökkviliðsstjóra höfuðborgarsvæðisins nema að mjög litlu leyti. Áætluð kostnaðaraukning Isavia hf byggir augljóslega á þeim kröfum sem íslenskir flugvellir verða að uppfylla von bráðar vegna almennt aukinna krafna alþjóðlegra og evrópskra aðila og settar hafa verið fram í drögum að nýrri reglugerð Flugmálastjórnar Íslands.

Virðingarfyllst,
Björn Karlsson,
brunamálastjóri.


Tilvitnanir.
[1]    Luftfarsvärkets författarsamling: LFS 1991:22, Bestämmelser för Civil Luftart – Flygplatser, BCL-F3.4 (Svíþjóð).
[2]    Statens Luftfartsvæsen, Bestemmelser för Civil Luftfart, BL 3-9, Bestemmelser om brand- og redningstjeneste (Danmörk).
[3]    FOR 2006-05-12, Forskrift om brann- og redningstjeneste (BSL E 4-4) og Veiledning til BSL E 4-4 (Noregur).
[4]    Lagen om skydd mot olyckor, 2003:778, Riksdagen (Svíþjóð, áður kölluðust þessi lög Lagen om Räddningstjänst 1986:1102)