Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 60. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 540  —  60. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum.

Frá iðnaðarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristján Skarphéðinsson og Ingva Má Pálsson frá iðnaðarráðuneytinu, Elínu Smáradóttur og Jakob S. Friðriksson frá Orkuveitu Reykjavíkur, Jón Sveinsson frá Landsvirkjun, Guðna Jóhannesson orkumálastjóra, Lárus Ólafsson og Hauk Eggertsson frá Orkustofnun, Guðlaugu Sigurðardóttur og Guðmund Inga Ásmundsson frá Landsneti, Axel Hall, Yngva Harðarson, Friðrik Má Baldursson, Jón Þór Sturluson og Pál Harðarson hagfræðing. Þá bárust umsagnir frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Íslandsstofu, Landsvirkjun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Norðurþingi, Orkustofnun, Orkuveitu Reykjavíkur, Ríkisendurskoðun, ríkisskattstjóra, Samtökum garðyrkjubænda, Samtökum iðnaðarins, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Seðlabanka Íslands, Vegagerðinni og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til eftirfarandi breytingar. Í fyrsta lagi eru lagðar til nýjar skilgreiningar á hugtökunum flutningskerfi og stórnotandi. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á skilyrðum fyrir veitingu virkjanaleyfis en lagt er til að heimildir virkjana til að tengjast dreifikerfi verði rýmkaðar með því að endurskoða stærðarmörk þannig að virkjunum sem eru 10 MW eða stærri sé heimilt að tengjast flutningskerfinu um dreifiveitu. Í þriðja lagi er lagt til að flutningsfyrirtækið Landsnet skuli vera í beinni meirihlutaeign ríkis og/eða sveitarfélaga frá og með 1. janúar 2015. Í fjórða lagi er lagt til að flutningsfyrirtækinu verði m.a. heimilað að eiga og reka fjarskiptakerfi sem því er nauðsynlegt vegna rekstursins og bjóða út umframflutningsgetu ef það hefur yfir slíkri flutningsgetu að ráða. Í fimmta lagi eru lögð til ný ákvæði um tekjumörk og gjaldskrá bæði flutningsfyrirtækisins og dreifiveitna. Að lokum er í sjötta lagi lagt til að breytt verði ákvæði um beinar tengingar milli notenda og virkjana sem tekur mið af kröfum sem fram koma í 22. gr. tilskipunar 2003/54/EB.
    Nefndin hefur fjallað um málið. Hvað varðar nýja skilgreiningu á hugtakinu flutningskerfi telur nefndin rétt að fram komi að með nýrri hugtakaskilgreiningu verði skil á milli virkjunar og flutningsfyrirtækis við innkomandi rofareit í tengivirki flutningsfyrirtækisins. Vinnslufyrirtækið á því vélaspenni, eldingavara og tengingu við tengivirkið en tengivirkið er hins vegar í eigu flutningsfyrirtækisins. Þar sem virkjunin á tengibúnaðinn úr virkjun í tengivirki ber hún ábyrgð á tengingunni inn í tengivirkið. Þessi breyting er talin nauðsynleg með tilliti til aðstöðu fyrir tengingu við flutningskerfið og mælingu inn á það. Ekki er talið eðlilegt að flutningsfyrirtækið þurfi að nálgast orkuna inn í virkjunina með tilheyrandi kostnaði og ábyrgð.
    Ný skilgreining er lögð fram í frumvarpinu á hugtakinu stórnotandi og felst í henni sú breyting að miðað er við að notkun innan þriggja ára á einum stað sé a.m.k. 80 GWh á ári. Viðmiðið 80 GWh jafngildir um 10 MW og er því um nokkra lækkun að ræða frá núgildandi ákvæði í lögum eða um 4 MW. Nefndin vill árétta að með lækkun á viðmiði stórnotenda er verið að skapa minni stórnotendum, t.d. gagnaverum, möguleika á beinni tengingu við flutningskerfið. Jafnframt þykir nefndinni rétt að taka fram að þessi skil á milli stórnotenda og almennra notenda eru enn til skoðunar hjá raforkulaganefnd og eitt af því sem til skoðunar er hjá nefndinni er að taka upp þrepaskipta gjaldskrá í stað þeirrar tvískiptingar sem er núna.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á stærðarmörkum varðandi skilyrði fyrir veitingu virkjunarleyfis. Hjá umsagnaraðilum komu fram þær athugasemdir að ekki verði notast við stærðarmörk (10 MW í stað 7 MW) varðandi hvernig virkjun tengist flutningskerfinu (beint eða gegnum dreifiveitu). Nefndin bendir á að stærðarmörk varðandi tengiskyldu virkjana voru sett inn með lögum nr. 89/2004. Það 10 MW viðmið sem lagt er til í frumvarpinu ber að skoðast í samhengi við nýja skilgreiningu á hugtakinu stórnotandi (10 MW). Nefndin vill beina þessari athugasemd til raforkulaganefndar til frekari skoðunar.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar er lúta að eignarhaldi flutningsfyrirtækja, þ.e. að flutningsfyrirtækið sem annast flutning raforku og kerfisstjórn skuli vera í beinni eigu íslenska ríkisins og/eða sveitarfélaga í stað meirihlutaeigu ríkis, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja sem alfarið eru í eigu þessara aðila. Með ákvæði til bráðabirgða I við frumvarpið er nefnd falið að gera tillögu um kaup ríkis eða sveitarfélaga á hlut orkufyrirtækja í flutningsfyrirtækinu. Nefndin vill leggja á það ríka áherslu að við þá vinnu verði tryggt að hagsmunum félagsins sem á í hlut verði ekki raskað og að slík sala fari ekki fram nema að uppfylltum þeim skuldbindingum sem orkufyrirtækin hafa stofnað til.
    Í 3. gr. frumvarpsins er fjallað um hvaða starfsemi flutningsfyrirtækið má stunda en með ákvæðinu eru flutningsfyrirtækinu veittar rýmri heimildir til að stunda aðra starfsemi en sérleyfisstarfsemi. Fyrir nefndinni var þeim sjónarmiðum hreyft að orðalag ákvæðisins væri ekki nægjanlega skýrt. Nefndin vill benda á að um er að ræða sambærilegar heimildir og hjá flutningsfyrirtækjum í nágrannalöndum. Einnig vill nefndin árétta að það skilyrði sem fram kemur í ákvæðinu um að samkeppni verði ekki raskað er sett fram til að undirstrika að með þessari útvíkkun á leyfilegri starfsemi Landsnets sé ekki verið að ganga inn á svið annarra aðila á hugsanlegum samkeppnismarkaði. Landsnet er bundið af samkeppnislögum og hafa samkeppnisyfirvöld eftirlit með því að Landsnet starfi að öllu leyti innan ramma samkeppnislaga. Er það áréttað í ákvæðinu með því að heimila Landsneti að eiga og reka fjarskiptakerfi sem því er nauðsynlegt vegna grunnreksturs fyrirtækisins, og bjóða út umframflutningsgetu, ef það hefur yfir henni að ráða, og selja út sérfræðiþekkingu, ef eftir því er leitað, sé ekki verið að raska stöðu á samkeppnismarkaði. Það er í höndum samkeppnisyfirvalda að hafa eftirlit með því. Nýting á framleiðsluþáttum til annarrar starfsemi að settum þessum skilyrðum er augljóslega þjóðhagslega hagkvæm. Jafnframt vill nefndin minna á að krafa er einnig gerð um bókhaldslegan aðskilnað.
    Í 9. gr. frumvarpsins er fjallað um tekjumörk dreifiveitna en markmiðið með setningu tekjumarka er að hvetja til hagræðingar. Heimilt er að hafa sérstaka gjaldskrá fyrir dreifingu á dreifbýlissvæðum en dreifbýli hefur verið skilgreint út frá íbúafjölda. Nokkrir umsagnaraðilar lögðu til almenna breytingu á 17. gr. raforkulaga varðandi skilgreiningu á hugtakinu dreifbýlissvæði. Nefndin vill benda á í þessu sambandi að sú skilgreining er utan við efni frumvarpsins en leggur hins vegar áherslu á að raforkulaganefnd taki þetta álitaefni til sérstakrar skoðunar og horfi til þeirra sjónarmiða sem garðyrkjubændur hafa lagt ríka áherslu á, þ.e. að í stað dreifbýlissvæða verði talað um svæði þar sem kostnaður er sannanlega hærri en hann er í þéttbýli.
    Með hliðsjón af þeim fjölmörgu umsögnum sem bárust iðnaðarnefnd leggur nefndin til, að höfðu samráði við iðnaðarráðuneytið, að eftirfarandi breytingartillögur verði gerðar við frumvarpið. Lagt er til að við 4. gr. frumvarpsins bætist nýtt heimildarákvæði um bætur til dreifiveitna vegna skerðingar á raforkuafhendingu í þeim tilvikum þegar um langvarandi skerðingu er að ræða, þó þannig að skerðing af völdum fárviðris eða náttúruhamfara verði undanskilin. Kveða á nánar um fjárhæð slíkra bóta og bótaskyld tilvik í reglugerð. Þær bætur sem um ræðir eru hefðbundnar skaðabætur. Með langvarandi skerðingu er átt við skerðingu sem nemur meira en 12 klukkustundum. Nefndin vill árétta að ekki er um að ræða samsvarandi rétt til handa stórnotendum vegna langvarandi skerðingar á raforkuafhendingu, en um rétt þeirra í þessu sambandi er kveðið á í tvíhliða samningum við flutningsfyrirtækið og í skilmálum flutningsfyrirtækisins.
    Nefndin leggur einnig til að gerðar verði nokkrar breytingar á 6. gr. frumvarpsins varðandi tekjumörk flutningsfyrirtækisins. Þannig er lagt til að fellt verði brott að tekjumörk vegna stórnotenda skuli vera í bandaríkjadölum í 2. mgr. 6. gr. Sú breyting er lögð til þar sem ekki eru öll viðmið tekjumarka í bandaríkjadölum, þótt meiri hluti þeirra sé það. Hluti tekjumarka á sér innlendan uppruna, þ.e. rekstrarkostnaður fyrirtækja, og er hann færður í íslenskum krónum. Hins vegar þykir nefndinni rétt að taka það fram að í frumvarpinu er kveðið á um að eignastofn vegna tekjumarka skuli vera í bandaríkjadölum og er það í samræmi við gjaldskrá flutningsfyrirtækisins fyrir stórnotendur. Nefndin leggur jafnframt til þær breytingar á 6. gr. frumvarpsins að við mat á vegnum fjármagnskostnaði (WACC) skuli taka tillit til áhættuálags í tilfelli stórnotenda, þ.e. við setningu tekjumarka vegna flutnings til stórnotenda. Nefndinni voru kynnt sjónarmið þess efnis að þar sem stórnotendur eru tiltölulega fáir er meiri áhætta fólgin í viðskiptum við þá fyrir flutningsfyrirtækið en af öðrum viðskiptavinum flutningsfyrirtækisins, að því leyti hvaða áhrif það hefur fyrir tekjustreymi flutningsfyrirtækisins ef einn þeirra hættir rekstri eða dregur verulega úr raforkunotkun. Með því að taka sérstakt áhættuálag inn í veginn fjármagnskostnað, sem er grundvöllur fyrir mati á arðsemi flutningsfyrirtækisins, er flutningsfyrirtækinu gert kleift að vera fyrir fram undirbúið ef til þess kemur að einn eða fleiri stórnotendur hætta rekstri. Nefndin vill í þessu sambandi leggja ríka áherslu á að við mat á áhættuálagi verði gætt meðalhófs og hagfræðileg viðmið höfð að leiðarljósi svo að fjármagnskostnaður verði ekki óraunhæfur. Nefndin bendir á að mikilvægt er að sett verði sem fyrst reglugerð sem kveður nánar á um hvernig taka beri tillit til áhættuálags við mat á vegnum fjármagnskostnaði stórnotenda. Sú vinna er þegar hafin á vegum iðnaðarráðuneytisins. Til samræmis við greinina í heild sinni leggur nefndin til að í 2. tölul. 3. mgr. 6. gr. frumvarpsins verði miðað við EBIT að frádregnum sköttum í stað EBIT fyrir skatta. Þá leggur nefndin til að kveðið verði skýrt á um það að eignir í eignastofni flutningsfyrirtækisins, sem eru í bandaríkjadölum, skuli metnar miðað við gengi bandaríkjadals frá 31. júlí 2007. Er sú dagsetning til samræmis við að frá og með þeim tíma færði flutningsfyrirtækið gjaldskrá fyrir stórnotendur yfir í bandaríkjadal. Að lokum leggur nefndin til að fellt verði brott það ákvæði að áreiðanleiki afhendingar í 7. mgr. 6. gr. verði eitt af þeim atriðum sem miða skal við setningu tekjumarka. Telur nefndin rétt að árétta að slíkt viðmið gæti í raun haft öfug áhrif þar sem það hefur neikvæð áhrif á gjaldskrá þess aðila sem uppfyllir ekki kröfu um áreiðanleika afhendingar, eða býr við slæm skilyrði, og getur þannig hamlað möguleikum hans til úrbóta, þvert á það sem æskilegt er. Þá er einnig lagt til að Orkustofnun hafi rýmri tímamörk til að setja tekjumörk fyrir flutningsfyrirtækið, þ.e. 15. september ár hvert í stað 1. september. Einnig er í breytingartillögum að finna, að hluta til, samsvarandi breytingar á ákvæðum 9. gr. frumvarpsins varðandi tekjumörk dreifiveitna auk annarra minni háttar breytinga.
    Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að Landsnet verði að fullu í eigu ríkisins eigi síðar en 1. janúar 2015. Í því sambandi vill nefndin árétta mikilvægi þess að ríkið sem eigandi flutningsfyrirtækisins marki eigendastefnu gagnvart fyrirtækinu þar sem m.a. verði kveðið á um að allrar hagkvæmni verði gætt varðandi fjárfestingar og rekstur fyrirtækisins og arðgreiðslum stillt í hóf. Sett verði markmið um lækkun á gjaldskrá gagnvart almenningi og fyrirtækjum án þess þó að það komi niður á öryggi flutningskerfisins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:     1.      Við 4. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Við 3. mgr. 9. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo: Greiða þeim dreifiveitum bætur sem verða fyrir langvarandi skerðingu á raforkuafhendingu. Kveðið skal á um fjárhæð bóta og bótaskyld tilvik í reglugerð.
     2.      Við 5. gr. Í stað orðanna „notandinn flutningskerfinu eða dreifikerfi“ komi: notandi flutningskerfinu beint eða um dreifiveitu.
     3.      Við 6. gr.
              a.      Orðin „og skulu hin síðarnefndu ákvörðuð í bandaríkjadölum“ í 2. mgr. falli brott.
              b.      Í stað orðanna „fjármunatekjur, fjármagnsgjöld og skatta (EBIT)“ í 2. málsl. 2. tölul. 3. mgr. komi: fjármunatekjur og fjármagnsgjöld en að frádregnum sköttum (EBIT að frádregnum sköttum).
              c.      Á eftir 2. málsl. 2. tölul. 3. mgr. komi tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Við mat á vegnum fjármagnskostnaði skal taka tillit til áhættuálags fyrir stórnotendur. Kveða skal nánar á um það í reglugerð.
              d.      Í stað 5. málsl. 2. tölul. 3. mgr. komi þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Eignastofn vegna tekjumarka fyrir stóriðju skal vera í bandaríkjadölum. Eignir sem voru í eignagrunni 31. júlí 2007 skulu metnar miðað við virði og gengi þann dag. Þegar eignastofn vegna tekjumarka fyrir stóriðju er færður í krónur við uppgjör tekjumarka skal miðað við meðalgengi bandaríkjadals fyrir uppgjörsárið.
              e.      Fyrri málsgrein 4. tölul. 3. mgr. orðist svo: Sköttum; og síðari málsgrein sama töluliðar verði 4. mgr. greinarinnar.
              f.      Í stað dagsetningarinnar „1. september“ í 4. mgr., sem verði 5. mgr., komi: 15. september.
              g.      Orðin „áreiðanleika afhendingar“ í 7. mgr., sem verði 8. mgr., falli brott og í stað tilvísunarinnar „skv. 2. og 4. tölul. 3. mgr.“ í sömu málsgrein komi: skv. 2. tölul. 3. mgr. og 4. mgr.
     4.      Við 8. gr. Orðin „að því gefnu að samkomulag náist þar að lútandi á milli flutningsfyrirtækisins og viðkomandi dreifiveitu“ falli brott.
     5.      Á eftir 8. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Við 3. mgr. 16. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo: Greiða þeim notendum bætur sem verða fyrir langvarandi skerðingu á raforkuafhendingu. Kveðið skal á um fjárhæð bóta og bótaskyld tilvik í reglugerð.
     6.      Við 9. gr.
              a.      Í stað orðanna „fjármunatekjur, fjármagnsgjöld og skatta (EBIT)“ í 2. málsl. 2. tölul. 3. mgr. komi: fjármunatekjur og fjármagnsgjöld en að frádregnum sköttum (EBIT að frádregnum sköttum).
              b.      Fyrri málsgrein 4. tölul. 3. mgr. orðist svo: Sköttum; og síðari málsgrein sama töluliðar verði 4. mgr. greinarinnar.
              c.      Í stað dagsetningarinnar „1. september“ í 4. mgr., sem verði 5. mgr., komi: 15. september.
              d.      Orðin „og áreiðanleika afhendingar“ í 7. mgr., sem verði 8. mgr., falli brott og í stað tilvísunarinnar „skv. 2. og 4. tölul. 3. mgr.“ í sömu málsgrein komi: skv. 2. tölul. 3. mgr. og 4. mgr.
     7.      Við ákvæði til bráðabirgða II. Í stað ártalsins „2009“ komi: 2010.

Alþingi, 15. des. 2010.Kristján L. Möller,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Lilja Mósesdóttir.


Magnús Orri Schram.


Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson.


Tryggvi Þór Herbertsson,

með fyrirvara.


Jón Gunnarsson,


með fyrirvara.

Margrét Tryggvadóttir,


með fyrirvara.

Sigmundur Ernir Rúnarsson.