Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 388. máls.

Þskj. 546  —  388. mál.



Frumvarp til laga

um heimild til handa fjármálaráðherra til að staðfesta samninga,
sem áritaðir voru í London 8. desember 2010, um ábyrgð á endurgreiðslu
Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til breska og hollenska ríkisins á kostnaði af greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda
í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi og
greiðslu eftirstöðva og vaxta af þeim skuldbindingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




1. gr.

    Fjármálaráðherra er fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að staðfesta með undirritun samninga, sem áritaðir voru í London 8. desember 2010, um ábyrgð á:
     a.      endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til breska og hollenska ríkisins á kostnaði af greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi og
     b.      greiðslu eftirstöðva og vaxta af þeim skuldbindingum.

2. gr.

    Fjármálaráðherra skal semja við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta um framkvæmd samninganna skv. 1. gr., m.a. að því er varðar upplýsingagjöf til Alþingis, fjárhagsleg atriði er tengjast fullnustu samninganna, eftirlit með slitameðferð og fjárhagslega umsýslu í tengslum við úthlutanir úr búi Landsbanka Íslands hf.

3. gr.

    Lög nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf., falla brott.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Ákvæði laga nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir, að undanskilinni 5. gr. þeirra laga, gilda ekki varðandi þá ábyrgð sem lög þessi taka til.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Iðgjöldum sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta innheimtir af fjármálafyrirtækjum í samræmi við lög nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, eftir gildistöku laga þessara verður ekki varið til greiðslu kostnaðar af þeim skuldbindingum sem kveðið er á um í 1. gr.
    Í samræmi við samning skv. 2. gr. skal Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta verja öðrum fjármunum sínum til greiðslu skuldbindinga skv. 1. gr.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1. Inngangur.
    Í kjölfar þess að lögum nr. 1/2010, um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf., var synjað staðfestingar fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um frambúðargildi laganna í samræmi við 26. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, 6. mars sl. Atkvæðagreiðslan fór fram á grundvelli sérstakra laga sem sett voru í þessu skyni, laga nr. 4/2010. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar var að 93,2% þeirra sem atkvæði greiddu voru á móti því að lögin héldu gildi sínu. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 4/2010 réð meiri hluti greiddra atkvæða á landinu öllu niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. Í samræmi við þetta birti dómsmála- og mannréttindaráðuneytið auglýsingu nr. 15/2010 um að lög nr. 1/2010 væru úr gildi fallin 18. sama mánaðar.
    Með ályktun Alþingis frá 5. desember 2008 var ákveðið að ganga til samninga vegna innstæðna í íslenskum viðskiptabönkum á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli hinna svonefndu Brussel-viðmiða frá 14. nóvember 2008. Jafnframt liggur fyrir að breið pólitísk samstaða er um að efnahagslegar og pólitískar ástæður standi til að semja um lausn málsins þrátt fyrir óvissu um lagalega skyldu. Enn fremur hafa stjórnvöld ítrekað lýst yfir vilja til að ljúka málinu með samningum, m.a. í yfirlýsingum til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
    Allt frá því að ljóst var að gengið yrði til þjóðaratkvæðis um lánssamningana sem gerðir voru 5. júní og 19. október 2009 og þeir að öllum líkindum felldir hóf ríkisstjórnin að vinna að því í samvinnu við alla stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi að taka upp samningana. Í því skyni fór fjármálaráðherra ásamt formönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks til fundar við bresk og hollensk stjórnvöld í Haag í janúar 2010. Þar kom m.a. fram að bresk og hollensk stjórnvöld settu nokkur skilyrði fyrir því að endursamið yrði um málið, aðallega að breið pólitísk samstaða næðist um lúkningu samninga á Íslandi, að komist yrði fljótt að ásættanlegri niðurstöðu í málinu, og að síðustu að fjárhæð sem næmi lágmarkstryggingu á innstæðunum yrði greidd að fullu. Auk þess hafa bresk og hollensk stjórnvöld krafist þess að kostnaður þeirra við fjármögnun yrði greiddur. Eftir umfangsmikið samráð milli allra flokka náðist um það samstaða að freista þess að ná samningum með öðrum og kostnaðarminni hætti en áður var gert ráð fyrir.
    Þegar nýrri samninganefnd var komið á fót í byrjun febrúar var ákveðið að leita til sérfræðings í alþjóðlegum lánssamningum, Lee C. Buchheit, lögmanns frá bandarísku lögmannsstofunni Cleary, Gottlieb, Steen & Hamilton í New York, um að vera samningamaður íslenskra stjórnvalda. Aðrir sem sæti áttu í nefndinni voru Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, sem var í forsvari fyrir samninganefndina, Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, og hæstaréttarlögmennirnir Jóhannes Karl Sveinsson og Lárus Blöndal, hinn síðarnefndi tilnefndur sameiginlega af flokkum utan ríkisstjórnar. Með nefndinni hafa starfað sem sérfræðingar Charles Williams, Andrew Speirs og Ari Winarto frá ráðgjafarþjónustunni Hawkpoint í London, Nigel Ward frá lögmannsstofunni Ashurst í London, Kristján Andri Stefánsson lögfræðingur, sendiherra í utanríkisþjónustunni, og Hrafn Steinarsson, hagfræðingur í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Enn fremur hefur nefndin leitað um afmarkaða þætti í starfi sínu til Sturlu Pálssonar, forstöðumanns í Seðlabankanum, Björns Rúnars Guðmundssonar skrifstofustjóra og Tómasar Brynjólfssonar hagfræðings í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og Sesselju Sigurðardóttur, sendiráðsritara í utanríkisráðuneytinu. Þá starfaði á tímabili með nefndinni sem sérstakur ráðgjafi Don Johnston, fyrrverandi aðalframkvæmdastjóri Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar (OECD). Loks hefur nefndin notið liðsinnis Benedikts Jónssonar, sendiherra í London, í störfum sínum.
    Stjórn Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta hefur fylgst náið með framgangi málsins og tók stjórnarformaður tryggingarsjóðsins, Guðrún Þorleifsdóttir, þátt í lokafundi samningsaðila ásamt lögmanni sjóðsins, Eiríki Elísi Þorlákssyni, og áritaði hún samningana f.h. sjóðsins.
    Umboð samninganefndarinnar hefur verið útfært í samvinnu allra flokka og nefndin hefur átt samráð við formenn þeirra og utanríkisráðherra. Nefndin hefur frá því að hún var skipuð unnið þrotlaust að viðfangsefni sínu og ráðfært sig við fjölda aðila innan lands sem utan. Viðræður við fulltrúa breskra og hollenskra stjórnvalda fóru fram í nokkrum snörpum lotum í febrúar og byrjun mars, en eftir að þeim var frestað tímabundið meðan þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram var þeim ekki fram haldið – þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir af Íslands hálfu – fyrr en í júlí og september og lauk nú nýverið. Auk funda hafa átt sér stað orðsendingaskipti og óformlegt samráð af ýmsu tagi.
    Niðurstöður viðræðnanna gera í stórum dráttum ráð fyrir að í stað hefðbundinna lánssamninga verði gerðir endurgreiðslu- og skaðleysissamningar (e. Reimbursement and Indemnity Agreements) með aðild hlutaðeigandi ríkja og Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Endurgreiðslusamningarnir eru um margt með öðru sniði en fyrri lánssamningar vegna uppgjörs lágmarkstryggingar við innstæðueigendur Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Þeir gera ráð fyrir að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta endurgreiði breskum og hollenskum stjórnvöldum þær fjárhæðir sem þau hafa lagt út af því tilefni en fái í staðinn framseldan samsvarandi hluta krafna þeirra í bú bankans og annist um að innheimta þær. Gert er ráð fyrir að tryggingarsjóðurinn nýti fyrst þá fjármuni sem til eru í sjóðnum til endurgreiðslu. Að því búnu verði greiðslur inntar af hendi jöfnum höndum eftir því sem úthlutað er úr búi Landsbankans. Áfallandi vextir verða greiddir ársfjórðungslega fram á mitt ár 2016, þegar búist er við að úthlutun úr búi Landsbankans verði að mestu lokið. Frá þeim tíma skuldbindur ríkið sig til að standa undir eftirstöðvum skuldbindinga Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta með ákveðnum fjárhagslegum fyrirvörum og eftir nánar umsömdum viðmiðunum.
    Höfuðstóll endurgreiðslufjárhæðarinnar er vaxtalaus fram til 1. október 2009 en ber eftir það fasta vexti sem eru ákvarðaðir 3% fyrir höfuðstól skuldbindingarinnar gagnvart Hollandi og 3,3% gagnvart Bretlandi. Hvort hlutfall um sig endurspeglar mismunandi fjármögnunarkostnað ríkjanna. Vegnir meðalvextir eru þá 3,2% og gilda fram til 30. júní 2016 þegar ætlað er að búi Landsbankans hafi að mestu leyti verið skipt og kröfur á hendur því gerðar upp. Vaxtabyrði af endurgreiðslufjárhæðinni verður því mun lægri en orðið hefði að óbreyttum samningum. Sé tekið tillit til hins vaxtalausa tímabils eru jafnaðarvextir á tímabilinu 2009–2016 2,64% í stað 5,55% áður. Jafnframt er ábyrgð ríkisins takmörkuð eins og kostur er og í raun eingöngu bundin við (a) samtímagreiðslur vaxta fram til júní 2016 og (b) þann hluta sem ekki hefur verið innheimtur úr búi bankans að þeim tíma liðnum.
    Meiri vissa er nú en þegar málið kom síðast til kasta Alþingis um endurheimtur úr búi Landsbankans og skilanefnd bankans hefur nú náð fullu valdi á eignum hans í Bretlandi og Hollandi. Skilanefndin telur í skýrslu sinni til kröfuhafafundar 9. nóvember 2010 að úthlutun upp í forgangskröfur muni nema 86%. Gangi það eftir gerir samningurinn ráð fyrir að skuldbindingin verði gerð upp á einu ári, þ.e. eigi síðar en um mitt ár 2017. Raskist þessar áætlanir verulega gera samningarnir hins vegar ráð fyrir að heimilt verði að lengja endurgreiðslutímann um eitt ár fyrir hverja 10 milljarða kr. sem eftirstöðvarnar kunna að fara yfir 45 milljarða kr. Jafnframt er sett þak á árlega endurgreiðslubyrði þannig að hún nemi aldrei hærri fjárhæð en sem nemur hærri tölunni af tveimur eftirtöldum: 5% af heildartekjum ríkisins næstliðið ár eða 1,3% af vergri landsframleiðslu næstliðið ár. Endurgreiðslu eftirstöðvanna skal þó aldrei lokið á lengri tíma en 30 árum frá 2016 að telja.
    Samið hefur verið um að vaxtakjör á eftirstöðvum frá þessu tímabili, þ.e. eftir 30. júní 2016, verði í samræmi við svonefnda CIRR-vexti 1 , annars vegar í sterlingspundum og hins vegar í evrum, án nokkurs vaxtaálags. CIRR-vextir eru lægstu vextir sem stjórnvöldum er heimilt að bjóða útflutningstryggingasjóðum sínum og greinast í þrennt eftir tímalengd þeirra skuldbindinga sem þeir taka til. Í fyrsta lagi vegna skuldbindinga sem ætlað er að vara skemur en í 5 ár, í öðru lagi á bilinu 5 til 8½ ár og í þriðja lagi lengur en það. Með því að fjárhæð eftirstöðvanna ræður því á hversu löngum tíma þær verða gerðar upp ræður hún einnig því hvaða vaxtaviðmiðun verður fyrir valinu. Almennt eru CIRR-vextir hinir hagstæðustu sem finna má í alþjóðlegum lánssamningum, enda er þeim eingöngu ætlað að endurspegla raunkostnað ríkja við fjármögnun. Ljóst er þó að ávallt verður leitað leiða til að greiða upp eftirstöðvarnar á sem hagkvæmastan hátt og stjórnvöldum er heimil greiðsla þeirra hvenær sem er.
    Efnisatriðum hins nýja samkomulags verður nánar lýst hér á eftir, en endurgreiðslusamningarnir eru birtir sem fylgiskjöl með frumvarpinu á ensku og íslensku auk skýringa.
    Samkvæmt þessum samningum falla jafnframt niður lánssamningar af sama tilefni sem undirritaðir voru með fyrirvara um samþykki Alþingis 5. júní og 19. október 2009. Heimild til að ábyrgjast greiðslu þeirra samkvæmt lögum nr. 1/2010 hefur þegar verið felld niður, sbr. auglýsingu nr. 15/2010, en samkvæmt frumvarpi þessu er jafnframt lagt til að brott falli sams konar heimild í lögum nr. 96/2009.
    Á grundvelli hins nýja samkomulags er meginefni frumvarps þessa fólgið í heimild til að staðfesta hina nýju samninga við bresk og hollensk stjórnvöld og áréttað að heimilt verði samkvæmt þeim að skuldbinda ríkissjóð til að mæta eftirstöðvum og vöxtum vegna krafna Hollendinga og Breta vegna greiðslu lágmarkstryggingar á reikningum í útibúum Landsbankans í Hollandi og Bretlandi. Engir samningar verða hins vegar undirritaðir fyrr en samþykki Alþingis liggur fyrir. Samningarnir voru áritaðir með upphafsstöfum samninganefndarmanna landanna í London hinn 8. desember 2010. Áritunin er eingöngu til vitnis um þá niðurstöðu sem fengin er í viðræðum ríkjanna, en fyrir liggur að samningarnir verða ekki undirritaðir nema Alþingi hafi veitt samþykki sitt fyrir því að stjórnvöld takist þær skuldbindingar á herðar.
    
2. Innstæður á Icesave-reikningum og ábyrgð á lágmarkstryggingum.
    Þegar stóru viðskiptabankarnir þrír féllu í byrjun október 2008 voru umtalsverðar fjárhæðir á innlánsreikningum Landsbanka Íslands hf. í útibúum hans í Bretlandi og Hollandi, svokölluðum Icesave-reikningum. Þessir fjármunir voru innlánseigendum ekki tiltækir frá og með 6. október 2008 en daginn eftir, 7. október, tók Fjármálaeftirlitið yfir stjórn Landsbankans á grundvelli neyðarlaganna svonefndu, þ.e. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Stjórnvöld lýstu því þá þegar yfir að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og útibúum þeirra hér á landi yrðu tryggðar að fullu. Við þessar aðstæður reis ágreiningur á milli Íslands annars vegar og Bretlands og Hollands hins vegar um hvort íslenska ríkinu bæri að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi en sú lágmarkstrygging nam þá 20.887 evrum fyrir hvern innstæðueiganda samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EBE um innlánatryggingakerfi, eins og hún var innleidd með lögum nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
    Afstaða breskra og hollenskra stjórnvalda hefur verið skýr um að íslenska ríkinu bæri að standa að baki tryggingarsjóðnum vegna þessara lágmarkstrygginga. Íslensk stjórnvöld hafa á hinn bóginn haldið fram sjónarmiðum um að íslenska ríkinu bæri ekki að ábyrgjast greiðslur til innstæðueigenda, þ.e. ef tryggingarsjóðurinn gæti ekki að fullu staðið skil á þeim sjálfur. Afstaða íslenskra stjórnvalda byggðist einkum á því að slíka skyldu væri ekki hægt að leiða af ákvæðum tilskipunarinnar enda gæti það hæglega raskað samkeppnisstöðu banka eftir því hvar þeir væru staðsettir. Jafnframt að ef slík ábyrgð væri til staðar gæti hún aldrei átt við þegar um almennt kerfishrun allrar fjármálastarfsemi í landinu væri að ræða. Nauðsynlegt væri að fá úr því skorið með lögformlegum hætti fyrir dómstóli eða gerðardómi hvort ríkinu bæri að ábyrgjast greiðslur til innstæðueigenda ef þær færu fram úr því sem tryggingarsjóðurinn gæti staðið undir af inngreiðslum í sjóðinn.
    Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem birt var 12. apríl sl., er tekið undir það sjónarmið að tilskipunin miðist „að sjálfsögðu aðeins við þá aðstöðu að einstaka lánastofnun lendi í fjárhagslegum erfiðleikum, en ekki allsherjarhrun stærstu lánastofnana heillar þjóðar“ 2 . Á hinn bóginn tók nefndin ekki sjálf til þess skýra afstöðu hvaða afleiðingar það ætti að hafa á skyldur ríkisins ef til þess kæmi að tryggingakerfi sem stofnað væri til samkvæmt tilskipuninni gæti ekki staðið við greiðsluskuldbindingar sínar af þessum sökum. Í skýrslunni eru ítarlega reifuð sjónarmið í samtímaheimildum um þetta án þess að því verði fundinn staður að aðildarríki ESB beri ábyrgð á innstæðum. Þá fann nefndin ekki að innleiðingu tilskipunarinnar í íslenskan rétt.
    Afstöðu íslenskra stjórnvalda hefur verið skýrt til haga haldið í öllum viðræðum við stjórnvöld viðkomandi ríkja eftir að bankarnir féllu. Þessari lagatúlkun hefur hins vegar verið hafnað, ekki einungis af þeim ríkjum sem í hlut eiga heldur einnig öllum öðrum aðildarríkjum Evrópusambandsins, framkvæmdastjórn þess og Eftirlitsstofnun EFTA. Afstaða þeirra hefur ekki síst byggst á því að talið hefur verið varhugavert að gefa með einhverjum hætti til kynna að vafi kunni að leika á um það tryggingakerfi sem liggur innlánastarfsemi í Evrópu til grundvallar. Réttaróvissa um þetta gæti því valdið ófyrirséðum afleiðingum í evrópsku bankakerfi.
    Eftirlitsstofnun EFTA hefur allt frá því að gömlu bankarnir féllu fylgst náið með framvindu mála á Íslandi með tilliti til innstæðueigenda og annarra kröfuhafa þeirra. Í desember sl. gerði stofnunin kunnugt um að hún mundi ekki aðhafast vegna annarra kröfuhafa, en fylgdist áfram með úrlausn Icesave-málsins með tilliti til innstæðueigenda í útibúum Landsbankans utan Íslands. Eftir að samningaviðræður höfðu legið í láginni í nokkurn tíma ákvað stjórn stofnunarinnar að hefja meðferð samningsbrotamáls vegna meintrar ófullnægjandi framkvæmdar áðurnefndrar tilskipunar og birti stjórnvöldum formlega tilkynningu þar að lútandi 26. maí sl. Í tilkynningu stofnunarinnar kom fram að niðurstaða hennar væri á því byggð að á stjórnvöldum hvíldi skylda til að ná þeim árangri (e. obligation of result) sem efni tilskipunarinnar miðar að. Að áliti stofnunarinnar hvílir sú skylda á aðilarríkjum að sjá til þess að það tryggingakerfi sem komið er á fót á grundvelli tilskipunarinnar skili innstæðueigendum þeirri lágmarkstryggingu sem hún mælir fyrir um undir hvaða kringumstæðum sem er.
    Jafnframt hefur verið bent á að í mismunandi meðferð innstæðueigenda í útibúum íslenskra banka eftir því hvar þau voru staðsett hafi verið fólgin ólögmæt mismunun og þar með brotið gegn jafnræðisreglu 4. gr. EES-samningsins. Stjórnvöld hafa á móti haldið því fram að mismunandi meðferð þeirra hafi réttlæst af þeim aðstæðum sem við blöstu þegar bankarnir féllu og að önnur og viðurhlutaminni úrræði hefðu ekki dugað til að ná þeim markmiðum sem að var stefnt. Alltaf var þó út frá því gengið að eignir Landsbankans dygðu til að mæta þeim kröfum sem stofnuðust af þessum sökum.
    Með ályktun Alþingis frá 5. desember 2008 var ríkisstjórninni, sem áður segir, falið að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli sameiginlegra viðmiða sem samþykkt voru á milli Íslands, Bretlands og Hollands fyrir tilstilli Evrópusambandsins (ESB) í Brussel 14. nóvember 2008, svonefndra Brussel-viðmiða.
    Eftir að ályktun Alþingis var samþykkt um að veita stjórnvöldum heimild til að leiða m.a. Icesave-málið til lykta, hófst það ferli sem lauk með gerð lánssamninganna frá 5. júní 2009. Frumvarp er veitti fjármálaráðherra heimild til að ábyrgjast efndir samninganna var lagt fyrir Alþingi 30. júní 2008 en því var verulega breytt í meðförum Alþingis áður en það var samþykkt 28. ágúst sama ár og varð að lögum nr. 96/2009. Af breytingunum leiddi að heimild ráðherra var bundin ýmsum fyrirvörum í formi forsendna fyrir veitingu ríkisábyrgðar og efnahagslegra og lagalegra viðmiða. Til þess að ríkisábyrgðin gengi í gildi varð að kynna breskum og hollenskum stjórnvöldum fyrirvarana og þau að fallast á þá, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 96/2009.
    Í kjölfar lagasetningarinnar kom fljótlega fram að bresk og hollensk stjórnvöld voru ekki reiðubúin til að fallast að öllu leyti á fyrirvara Alþingis. Að loknum viðræðum aðila lánssamninganna varð niðurstaðan sú að gerðir voru viðaukasamningar sem undirritaðir voru 19. október 2009 og með þeim hætti reynt að samrýma að mestu leyti efni lánssamninganna og þeirra fyrirvara sem komu fram í 1.–4. gr. laga nr. 96/2009. Til þess að lánssamningarnir tækju gildi, eins og þeim var breytt með viðaukasamningunum, var nauðsynlegt að breyta lögum nr. 96/2009. Í því skyni var 19. október 2009 lagt fyrir Alþingi frumvarp það er að lokum varð að lögum nr. 1/2010, eftir að Alþingi hafði samþykkt það 30. desember 2009 en forseti synjað því staðfestingar 5. janúar 2010. Að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu um frambúðargildi þeirra voru þau lög felld úr gildi með auglýsingu nr. 15/2010.
    Samkvæmt ákvæðum í hinum nýju samningum við bresk og hollensk stjórnvöld falla þessir eldri samningar niður við gildistöku þeirra. Ekki er því ástæða til að rekja frekar ferlið við gerð þeirra eða efni hér, en um það má vísa til almennra athugasemda við frumvörp þau er urðu að lögum nr. 96/2009 og 1/2010, sem og ýmis gögn sem tengjast undirbúningi þeirra á vefsíðunni www.island.is. Jafnframt er ítarlega fjallað um Icesave-innlánsreikningana í 18. kafla áðurnefndrar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

3. Nýja samkomulagið.
3.1. Samningar um endurgreiðslu og skaðleysi breskra og hollenskra stjórnvalda af greiðslu lágmarkstryggingar vegna Icesave (e. Reimbursement and Indemnity Agreements).
3.1.1. Inntak endurgreiðslusamninganna.
    Í megindráttum felst í samningunum að íslenski tryggingarsjóðurinn skuldbindur sig til að endurgreiða breskum og hollenskum stjórnvöldum útgjöld þeirra vegna uppgjörs á lágmarkstryggingu við innstæðueigendur Landsbankans í Bretlandi að fjárhæð allt að 2,350 milljarðar punda annars vegar og í Hollandi 1,329 milljarðar evra hins vegar, sem jafngildir samtals allt að 674 milljörðum kr. miðað við sölugengi 22. apríl 2009, en kröfurnar í bú bankans voru festar við gengi þann dag. Miðað við gengi krónunnar 30. september 2010 nemur sú skuldbinding allt að 624 milljörðum kr. og hefur lækkað vegna styrkingar krónunnar síðastliðin missiri. Nánari grein er gerð fyrir fjárhæðum síðar í athugasemdunum.
    Tryggingarsjóðurinn, sem er sjálfseignarstofnun, ber ábyrgð á endurgreiðslum höfuðstóls umræddrar fjárhæðar innan tiltekinna tímamarka. Gegn þessari skuldbindingu fær tryggingarsjóðurinn samkvæmt sérstökum framsalssamningum (e. Assignment Agreements) framseldar kröfur breska tryggingarsjóðsins og hollenska seðlabankans vegna greiðslu lágmarkstryggingar hvers innstæðueiganda á hendur búi Landsbanka Íslands en að höfuðstólsverðmæti getur einstök krafa í mesta lagi numið lágmarkstryggingunni, 20.887 evrum. Samkvæmt ákvæðum endurgreiðslusamninganna ber tryggingarsjóðnum að nýta þá fjármuni sem hann fær úthlutað upp í kröfur sínar úr búi Landsbanka Íslands hf. til að greiða niður endurgreiðslufjárhæðina. Þessum fjármunum ber að skipta að tiltölu þannig að um 2/3 fjármunanna fari í að greiða breskum stjórnvöldum og 1/3 í að greiða hollenskum stjórnvöldum. Auk þess er hvenær sem er heimilt að greiða fjárhæðina niður án kostnaðar og endurfjármagna hana ef hagstæðari kjör bjóðast annars staðar.

3.1.2. Jafnstöðuákvæði (lat. pari passu).
    Auk þeirra krafna sem breski og hollenski sjóðurinn framselja íslenska tryggingarsjóðnum vegna greiðslu lágmarkstryggingar eiga þeir sjálfir kröfur í bú Landsbankans vegna þeirra innstæðna sem þeir hafa greitt umfram lágmarkið. Allar viðurkenndar innlánskröfur njóta forgangs við úthlutun úr búi Landsbankans skv. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, eins og þeim var breytt með 6. gr. laga nr. 44/2009, en það ákvæði er samhljóða þeirri breytingu á réttindaröð sem gerð var með 6. gr. neyðarlaganna svonefndu, nr. 125/2008.
    Samkvæmt samningum aðila njóta allir sjóðirnir jafnræðis við úthlutun úr búi Landsbankans og fá þannig greitt í jöfnum hlutföllum upp í þessar kröfur. Í samræmi við viðaukasamningana frá 19. október 2009 er þó með sérstökum samningum (e. Pari Passu Agreements) einnig gert ráð fyrir að íslenski tryggingarsjóðurinn geti látið reyna á það hvort kröfur sjóðsins við úthlutun eigna bús Landsbanka Íslands hf. hafi sérstakan forgang umfram kröfur annarra aðila vegna sömu innstæðu. Samkvæmt þessum samningum má úrlausn íslenskra dómstóla um þetta atriði ekki vera í andstöðu við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins ef samningsákvæði um hlutfallslega jafna skiptingu hverrar kröfu eiga að taka breytingum. Verði komist að þeirri niðurstöðu að lagaskilningur um sérstakan forgang krafna íslenska tryggingarsjóðsins sé réttur munu ákvæði endurgreiðslusamninganna um hlutfallslega skiptingu einstakra krafna breytast sjálfkrafa. Jafnframt er gert ráð fyrir að slitastjórn Landsbankans geti ákveðið að veita slíkum kröfum sérstakan forgang og hefur það sömu áhrif og að framan greinir, ef ákvörðun slitastjórnar er ekki skotið til dómstóla.

3.1.3. Um úthlutanir úr búinu til að greiða niður endurgreiðslufjárhæðina.
    Aukin vissa er nú um endurheimtur úr búi Landsbankans. Skilanefnd bankans telur í skýrslu sinni til kröfuhafafundar 9. nóvember 2010 að úthlutun upp í forgangskröfur muni nema 86%. Heildarforgangskröfur nema 1.320 milljörðum kr., en heimtur eru áætlaðar 1.138 milljarðar kr. Forgangskröfur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta í bú Landsbankans voru festar á gengi íslensku krónunnar miðað við 22. apríl 2009 og geta numið allt að 673 milljörðum kr. að höfuðstóli. Við þá fjárhæð bætast áfallnir vextir eins og síðar er vikið að. Gert er ráð fyrir að í hlut tryggingarsjóðsins komi ríflega 51% af forgangskröfum eða sem nemur um 584 milljörðum kr., eins og sést í eftirfarandi töflu:

Áætlað endurheimtuhlutfall
Forgangskröfur miðað við gengi 22. apríl 2009 673
Endurheimtur miðað við gengi 30. september 2010 584
Endurheimtuhlutfall miðað við gengi 30. september 2010 86%

    Framangreindar tölur miðast við hámarksfjárhæðir á framseldum höfuðstólskröfum samkvæmt endurgreiðslusamningunum.
    Samkvæmt vinnugögnum frá Landsbankanum má reikna með því að höfuðstóll framseldra krafna samkvæmt endurgreiðslusamningunum verði nokkru lægri eða 659 milljarðar kr. miðað við 22. apríl 2009.
    Styrking íslensku krónunnar síðastliðin missiri hefur þau áhrif að færri krónur þarf til að standa skil á endurgreiðslunum til Breta og Hollendinga þar sem greiðslur til þeirra eru í pundum og evrum. Miðað við gengi krónunnar 30. september 2010 hefur endurgreiðslufjárhæðin þannig lækkað úr 659 milljörðum kr. í 610 milljarða kr.
    Við mat á heildarkostnaði þykir rétt að byggja á reikniforsendum Seðlabankans um gengisþróun evrunnar á komandi árum og væntri ávöxtun af eignasafni Landsbankans. Gert er ráð fyrir að þeir gjaldmiðlar sem eignir þrotabúsins eru bundnir í muni þróast samhliða evrunni, sem mun veikjast lítillega samkvæmt þeim reikniforsendum. Miðað við þær forsendur um gengisþróun, endurheimtur og útgreiðslur mun höfuðstóll skuldbindingarinnar lækka úr 659 milljörðum kr. í 595 milljarða kr., eða um 64 milljarða kr., miðað við tímabilið frá 22. apríl 2009 og fram á mitt ár 2016. Sömu gengisáhrif verða á endurheimtur sem lækka því úr samtals 632 milljörðum kr. í 570 milljarða kr., miðað við tímabilið frá 22. apríl 2009 og fram á mitt ár 2016, eða um sem nemur rúmlega 61 milljarði kr. samkvæmt sömu forsendum.
    Þróun gjaldmiðla næstu árin getur því haft mikil áhrif á skuldbindingu ríkissjóðs vegna Icesave. Gjaldeyrisáhættan felst ekki einungis í þróun íslensku krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum heldur einnig innbyrðis þróun annarra gjaldmiðla. Það á sérstaklega við um sterlingspundið. Ástæðan er sú að meiri hluti skuldbindingarinnar er í sterlingspundum en hlutfall eigna í búi Landsbankans í sterlingspundum er einungis um þriðjungur, en gott jafnvægi er milli eigna Landsbankans og skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta í evrum talið. Hvort tveggja, þ.e. gengi krónu og sterlingspunds gagnvart öðrum gjaldmiðlum, getur haft áhrif á það hvernig endurheimtur duga til að greiða niður Icesave- skuldbindinguna. Fjallað verður nánar um gjaldeyrisáhættu í kafla 3.2.1.2.
    Eignir þrotabús Landsbankans nema framangreindum 1.138 milljörðum kr. og eru að stærstum hluta vaxtaberandi kröfur. Þar af er hlutur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta 570 milljarðar kr. sem áður segir. Nokkur óvissa er bundin við ávöxtun eigna bús Landsbankans. Skilanefndin hefur ekki gert ráð fyrir eignatekjum í heimtumati sínu, en það má á hinn bóginn telja fullvíst að þær eignatekjur verði allverulegar. Samkvæmt afar varlegu mati má áætla að ávöxtun og vaxtatekjur af eignum búsins, sem falla til umfram rekstrarkostnað skilanefndar og slitastjórnar og renna til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta fram á mitt ár 2016, muni nema samtals 33 milljörðum kr. Er þá m.a. horft til þess að vextir af skuldabréfum sem Nýi Landsbankinn (NBI hf.) gaf út vegna yfirtöku á eignum úr eignasafni gamla bankans muni skila tryggingarsjóðnum um 23 milljarða kr. tekjum. Við mat á heildarkostnaði ríkisins vegna samninganna er horft til framangreindra 570 milljarða kr. og áætlaðra 33 milljarða kr. aukatekna. Endurheimtur úr búi Landsbankans ásamt væntri ávöxtun eignasafnsins nema því samtals 603 milljörðum kr.
    Eins og áður var nefnt er skuldbinding Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta gagnvart breskum og hollenskum stjórnvöldum samtals 595 milljarðar kr. að teknu tilliti til gengisþróunar krónunnar. Samkvæmt því ætti tryggingarsjóðurinn að endurheimta 8 milljarða kr. umfram þá höfuðstólsfjárhæð sem ríkið ábyrgist að greiða breskum og hollenskum stjórnvöldum og gengur sú fjárhæð upp í áfallna vexti. Eftirfarandi töflur sýna umræddar tölur.

Áhrif gengisþróunar á höfuðstól
Forgangskröfur miðað við gengi 22. apríl 2009 659
Áhrif gengisþróunar á höfuðstól skuldbindingarinnar -64
Höfuðstóll með gengisáhrifum 595

Áhrif gengisþróunar og ávöxtunar á endurheimtur
Endurheimtur miðað við gengi 22. apríl 2009 632
Áhrif gengisþróunar á endurheimtur -61
Ávöxtun eignasafns Landsbankans 33
Endurheimtur með gengisáhrifum og ávöxtun 603

Eftirstöðvar 2016
Höfuðstóll með gengisáhrifum 595
Endurheimtur með gengisáhrifum og ávöxtun 603
Eftirstöðvar 2016 -8

    Áætlanir skilanefndar og slitastjórnar Landsbanka Íslands miða við að hefja úthlutun upp í samþykktar forgangskröfur um mitt ár 2011 þegar búið er að leysa úr stærstum hluta ágreiningsmála þeirra er telja til réttinda í búið. Slitastjórn er þó jafnframt heimilt að hraða greiðslum úr búi bankans upp í þessar kröfur án þess að ágreiningur um viðurkenningu krafna, sem gætu staðið þeim jafnfætis í réttindaröð, hafi verið til lykta leiddur, sbr. 6. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, eins og því ákvæði var nýlega breytt með 50. gr. laga nr. 75/2010.
    Áætlanirnar gera ráð fyrir að öllu handbæru fé, sem um næstu áramót getur numið allt að 350 milljörðum kr., auk þeirra fjármuna sem innheimtast fyrri hluta næsta árs, verði þá ráðstafað upp í forgangskröfur en íslenski tryggingarsjóðurinn er talinn eiga um 51% þeirra. Þetta getur svarað til tæplega 400 milljarða, en þar af mundi þá rúmur helmingur ganga til að greiða niður höfuðstól endurgreiðslufjárhæðarinnar. Það mundi þýða að tæplega þriðjungur skuldbindingarinnar yrði greiddur um leið og þessi úthlutun fer fram. Áætlanir skilanefndar/slitastjórnar gera enn fremur ráð fyrir að alls hafi innheimst sem svarar til um helmings eigna fyrir árslok 2013, en þá yrði meginhluti óinnleystra eigna fólginn í skuldabréfi sem gefið er út af nýja bankanum.

3.1.4. Vextir.
    Að frátöldum heimtum úr búi Landsbankans skipta vaxtakjörin á þeirri fjárhæð sem til endurgreiðslu er langmestu máli.
    Endurgreiðslufjárhæðirnar samkvæmt hvorum samningi um sig byrja ekki að bera vexti fyrr en í október 2009 í stað 1. janúar sama ár eins og ráð var fyrir gert í fyrri samningum. Frá þeim tíma og meðan tryggingarsjóðurinn er að greiða höfuðstól endurgreiðslufjárhæðanna niður fram til 30. júní 2016 ber hann um 3,2% vexti á ári (vegið meðaltal milli sterlingspunds og evru) og eru þeir gerðir upp ársfjórðungslega frá og með 1. janúar 2011, eftir að áfallnir vextir og kostnaður fram að því hafa verið gerðir upp í árslok 2010. Höfuðstólar bresku og hollensku endurgreiðslufjárhæðanna bera hvor um sig mismunandi vexti, 3% á þá hollensku og 3,3% á þá bresku. Munur á þessu vaxtahlutfalli endurspeglar mismunandi fjármögnunarkostnað hvors ríkis um sig. Að teknu tilliti til styttingar á vaxtatímabili og með hliðsjón af þróun af áætlaðri niðurgreiðslu höfuðstóls er vegið meðaltal vaxta 2,64%.
    Samkvæmt fyrri samningum var ekki gert ráð fyrir neinu vaxtafríi, heldur að 5,55% vextir reiknuðust allt frá 1. janúar 2009. Ekki var gert ráð fyrir að greiðsla þeirra hæfist fyrr en árið 2016 og yrði að fullu lokið átta árum síðar, á árinu 2024. Fram til 2016 var því ekki gert ráð fyrir neinum beinum greiðslum úr ríkissjóði í fyrri samningunum. Fyrir utan vaxtafríið og mun lægri vexti er sá meginmunur á þessum og nýju samningunum að áfallnir vextir frá 1. október 2009 verða gerðir upp í einu lagi í árslok 2010 og eftir það ársfjórðungslega. Með vaxtafríi og vegnum meðalvöxtum 3,2% er gert ráð fyrir að uppsafnaður vaxtakostnaður geti í árslok 2010 numið um 26 milljörðum kr. í stað 75 milljarða kr., eins og verið hefði samkvæmt fyrri samningi. Á móti þessari fjárhæð koma innstæður í Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta að fjárhæð um 20 milljarðar kr., en miðað er við að fjármálaráðherra leiti eftir heimild í fjáraukalögum til að mæta því er upp á vantar til lúkningar þessari skuldbindingu. Eftir það eru vextir greiddir ársfjórðungslega, eins og áður segir, og lækka að tiltölu eftir því sem endurheimtum úr búi Landsbankans vindur fram.

3.1.5. Staða 2016.
    Samhliða endurgreiðslusamningunum skuldbindur ríkið sig til að greiða eftirstöðvarnar, eins og þær standa 30. júní 2016, eftir að fjármunum úr búi Landsbankans hefur verið varið til að lækka þær eins mikið og eignir hans rísa undir. Frá þeim degi ábyrgjast stjórnvöld að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta greiði það sem upp á vantar að eftirstöðvar endurgreiðslufjárhæðarinnar verði að fullu greiddar. Ábyrgð ríkisins er með þessum hætti takmörkuð eins og kostur er og að frátöldum vaxtagreiðslunum eingöngu bundin við þann hluta sem ekki verður innheimtur úr búi bankans þegar ætla má að úthlutun verði að stærstum hluta lokið. Samkvæmt framangreindu mun tryggingarsjóðurinn endurheimta 8 milljarða kr. umfram höfuðstól endurgreiðslufjárhæðanna og því mun ríkið ekki þurfa að ábyrgjast neinar eftirstöðvar árið 2016.

3.1.6. Vextir á eftirstöðvunum 16. júní 2016.
    Vextir á þá fjárhæð sem eftir stendur 16. júní 2016 verða svokallaðir CIRR-vextir OECD í pundum vegna eftirstöðva endurgreiðslufjárhæðarinnar í Bretlandi og í evrum vegna endurgreiðslufjárhæðarinnar í Hollandi. Í báðum tilvikum yrði viðmiðunardagur vaxtanna 16. júní 2016 og þeir reiknaðir út að teknu tilliti til fjárhæðar eftirstöðvanna og lengdar endurgreiðslutímans.
    CIRR-vextir eru reiknaðir út mánaðarlega af OECD fyrir þrjú mismunandi tímabil. Tímabilin eru skilgreind fyrir skuldbindingar með endurgreiðslutíma sem er styttri en 5 ár, milli 5 og 8½ ár og lengri en 8½ ár og eru vextir mismunandi eftir gjaldmiðlum. Í hverjum mánuði er tekin meðaltalsávöxtunarkrafa af tilteknum ríkisskuldabréfum í myntsvæði viðeigandi gjaldmiðils fyrir þann mánuð sem er að líða. Valin eru ríkisskuldabréf með endurgreiðslutíma sem samsvarar hinum fyrrnefndu tímabilum. Að lokum er hundrað punktum bætt við útreiknaða ávöxtunarkröfu.
    CIRR-vextir endurspegla því lægstu vaxtakjör sem heimilt er að bjóða í svokallaðri útflutningsfjármögnun. Ágóði af útflutningsláni rennur aftur til lögsögu þess ríkis sem veitti lánið þar sem lántakandi greiðir fyrir vöru eða þjónustu í því ríki. Á sama hátt munu þeir fjármunir sem Bretar og Hollendingar lögðu fram vegna lágmarkstryggingar á Icesave-reikningunum eingöngu renna til lögsögu þeirra ríkja. Íslenska samninganefndin taldi því eðlilegt að miða vexti sem eftirstöðvarnar bera við sömu vexti og lán sem þessi ríki veita til útflutnings.

3.1.7. Efnahagslegir fyrirvarar.
    Með ákvæði um skaðleysi er áhersla lögð á að Landsbankinn eða bú hans beri fyrst og fremst ábyrgð á að mæta sjálfur þeim kröfum sem á hann standa, en ábyrgð ríkisins fyrir hönd almennings á eftirstöðvunum komi ekki til fyrr en búi bankans hefur að mestu verið skipt og eignir hans nýttar í þessu skyni. Ýmsar ráðstafanir hafa jafnframt verið gerðar til að tryggja að fjárhagsleg byrði af greiðslu eftirstöðvanna verði ríkissjóði ekki of þungbær, ef áætlanir um endurheimtur úr búi bankans ná ekki að fullu fram að ganga. Í því skyni vegur þyngst að tvenns konar efnahagslegir fyrirvarar eru settir við endurgreiðslu eftirstöðvanna:
          Annars vegar ræður fjárhæð eftirstöðvanna endurgreiðslutímanum. Þannig er miðað við að verði eftirstöðvarnar lægri en sem svarar 45 milljörðum kr. skulu þær gerðar upp í jöfnum ársfjórðungslegum greiðslum á 12 mánuðum frá 1. júlí 2016. Verði eftirstöðvarnar hærri en 45 milljarðar kr. bætist eitt ár við endurgreiðslutímann fyrir hverja 10 milljarða kr.
          Hins vegar má hámark árlegrar endurgreiðslu ekki fara yfir hærri fjárhæðina af tveimur eftirtöldum: 5% af heildartekjum ríkisins næstliðið ár eða 1,3% af vergri landsframleiðslu næstliðið ár.
    Undir þessum kringumstæðum er ríkinu gert kleift að lengja lánstímann sjálfkrafa og greiðsluhámark hvers árs kemur í veg fyrir að gengið verði um of á skuldaþol ríkisins meðan efnahagslífið nær sér á strik. Endurgreiðslutíminn getur þó að hámarki verið framlengdur til ársins 2046 eða í 30 ár.

3.2. Fjárhagslegar skuldbindingar stjórnvalda í tengslum við Icesave.
    Að gefnum fyrrgreindum forsendum um greiðslur upp í forgangskröfur úr búi Landsbankans er áætlað að samtals áfallnar skuldbindingar íslenskra stjórnvalda í júní árið 2016 muni nema um 67 milljörðum kr. Þar af er gert ráð fyrir að 20 milljarðar kr. komi úr Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta og því falli 47 milljarðar kr. á ríkissjóð sem verða að fullu greiddir á tímabilinu frá janúar 2011 til júní 2016. Áætluð heildarskuldbinding skiptist á eftirfarandi hátt:

     a.
     Fjárhæð til greiðslu hinn 1. janúar 2011
 26 milljarðar kr.

     b.
     Samtals vaxtagreiðslur á tímabilinu 2011 til 2016
 50 milljarðar kr.

     c.
     Eftirstöðvar skuldbindingar í júní 2016
 -8 milljarðar kr.

     d.
     Greiðslur frá tryggingarsjóðnum 1. janúar 2011
-20 milljarðar kr.

     e.
     Heildargreiðslur ríkissjóðs vegna samninganna
 47 milljarðar kr.


    Ef stuðst er við sömu forsendur og sömu spár um endurheimtur eigna Landsbankans hefðu heildarskuldbindingar ríkissjóðs samkvæmt fyrri samningi numið 162 milljörðum kr. í júní 2016, en vextir hefðu síðan reiknast á þá fjárhæð út endurgreiðslutímann til 2024. Með nýja samningnum hefur áætlaður kostnaður ríkissjóðs því minnkað um 71%.
    Þar sem fyrirhugað er styttra vaxtatímabil en í fyrri samningi þarf að umreikna vextina og jafna þeim yfir jafnlangt tímabil og í fyrri samningi til að gera þá hæfa til samanburðar. Af þeim útreikningum má sjá að vegið meðaltal vaxta í fyrirliggjandi samningi er 2,64%. Helsti munurinn á fyrirhuguðum samningi og hinum fyrri er dreginn saman í eftirfarandi töflu (allar tölur á verðlagi hvers árs):


Kostnaður ríkissjóðs
Fyrirhugaður samningur Fyrri samningur
Vextir (vegið meðaltal) 2,64% 5,55%
Vextir greiðast frá 30. sept. 2009 1. jan. 2009
Vextir til 1. janúar 2011 (milljarðar kr.) 26 75
Heildargreiðslur á samningstímanum 67 238
Áætlaður heildarkostnaður miðað við júní 2016 (milljarðar kr.) 67 182
Heildarkostnaður ríkissjóðs að frádregnum 20 milljarða kr. eignum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta miðað við júní 2016 (milljarðar kr.) 47 162

    Fyrirhugaður samningur gerir ráð fyrir að stjórnvöld greiði ársfjórðungslega fyrir hönd tryggingarsjóðsins umsamda vexti af höfuðstól skuldbindingar sjóðsins sem falla til þar til 30. júní 2016. Höfuðstóll skuldbindingarinnar verður hins vegar greiddur niður í takt við útgreiðslur úr búi Landsbankans á sama tímabili, þ.e. til miðs árs 2016. Á fyrri hluta samningstímans er fyrirhugaður samningur frábrugðinn eldri samningum í þremur meginatriðum: i) vextir hafa lækkað verulega, ii) vextir eru greiddir jafnt og þétt ársfjórðungslega, en safnast ekki upp, og er fyrsta greiðsla 1. janúar 2011 þegar áfallnir vextir til þess tíma verða greiddir og iii) engir vextir greiðast fyrir tímabilið fram að 30. september 2009. Gert er ráð fyrir að því sem næst allar áætlaðar endurheimtur úr búi Landsbankans hafi verið innleystar og greiddar forgangskröfuhöfum 15. júní 2016, enn fremur að áfallnir vextir séu greiddir ársfjórðungslega í stað þess að þeim sé bætt ofan á höfuðstól skuldbindingarinnar til greiðslu síðar. Eftirstöðvar skuldbindingarinnar 15. júní 2016 verða því lægri en ef vextir hefðu safnast upp og jafnframt mun endurgreiðslutími eftirstöðvanna verða styttri.
    Eftir júní 2016 skulu eftirstöðvarnar greiddar með afborgunum á tímabili sem ræðst af fjárhæð eftirstöðva af höfuðstól. Umsamin kjör á þessu tímabili eru svokallaðir CIRR-vextir OECD í pundum vegna fjárhæðarinnar sem þá stendur eftir í Bretlandi og í evrum vegna eftirstandandi fjárhæðar í Hollandi. Í báðum tilvikum yrði viðmiðunardagur vaxtanna 15. júní 2016 og þeir ákvarðaðir að teknu tilliti til fjárhæðar eftirstöðvanna og lengdar endurgreiðslutímans.

3.2.1. Fjárhagslegir áhrifaþættir.
    Umfang þeirrar fjárhagslegu skuldbindingar sem íslensk stjórnvöld undirgangast gagnvart breskum og hollenskum stjórnvöldum samkvæmt samningsdrögunum er óvissu háð og ræðst af nokkrum meginþáttum. Mikilvægustu þættirnir eru:
     a.      hversu mikið endurheimtist af eigum Landsbankans hf. og hve miklum fjármunum, sem aflað er með sölu þeirra eigna, verður hægt að ráðstafa til að mæta greiðslum upp í kröfur innstæðueigenda,
     b.      tímasetning greiðslna frá búi Landsbankans til kröfuhafa,
     c.      hreyfingar á gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum, einkum sterlingspundi og evru.

3.2.1.1. Ákvörðun hinnar nýju vaxtaprósentu.
    Vaxtaprósenta í fyrri samningunum, sem var 5,55%, var ákveðin með hliðsjón af því að hún væri 1,25% yfir vegnu meðaltali CIRR-vaxta fyrir langtímalán í evrum á þeim tíma sem samningurinn var gerður. Eitt meginmarkmiða nýja samningsins var að tryggja að bresk og hollensk stjórnvöld samþykktu umtalsvert lægri vexti en í fyrri samningi. Ýmsir þættir skiptu máli í þessu samhengi:
     1.      Vextir í evrum höfðu lækkað um u.þ.b. eitt prósentustig í millitíðinni, en vextir í sterlingspundum mun minna.
     2.      Fjárhagsleg staða Íslands hafði batnað töluvert í kjölfar frekari lánveitinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Íslands og annarra tvíhliða lánveitinga, sem og með þeim árangri sem náðst hefur við uppbyggingu bankakerfisins. Það leiddi til þess að talið var skynsamlegt af hálfu samninganefndarinnar að greiða vextina jafnóðum, enda mundi það leiða til hagfelldari vaxtakjara.
     3.      Því var haldið til haga að Bretar og Hollendingar ættu ekki að hagnast á samningnum, en umsamdir vextir í fyrri samningi hafi verið langt umfram fjármögnunarkostnað beggja landa. Bresk stjórnvöld hafa bent á að á fjárlagaárinu 2008/2009, þ.e. þegar greiðslur vegna Icesave-reikninga voru inntar af hendi, sýni opinberar tölur að fjármögnunarkostnaður breska ríkisins hafi numið 3,828%.

3.2.1.2. Gjaldeyrisáhætta vegna Icesave-skuldbindingar.
    Við mat á þeirri gjaldeyrisáhættu sem stafar af skuldbindingum ríkissjóðs vegna Icesave er rétt að horfa til tveggja þátta. Annars vegar er vert að skoða gengisþróun krónunnar gagnvart þeim gjaldmiðlum sem eignir Landsbankans eru bundnar í. Hins vegar er mikilvægt að skoða gengisþróun evru og sterlingspunds gagnvart sömu gjaldmiðlum því að endurheimtur úr búi Landsbankans renna til afborgana af Icesave-skuldbindingunni sem er í evrum og sterlingspundum. Við mat á gjaldeyrisáhættu vegna Icesave er stuðst við reikniforsendur Seðlabanka Íslands um þróun evrunnar og gert er ráð fyrir að aðrir gjaldmiðlar þróist samhliða henni.
    Almennt séð hefur veiking krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum þau áhrif að skuldbindingar ríkissjóðs vegna Icesave hækka í krónum talið. Það stafar annars vegar af því að hluti endurheimta úr búi Landsbankans er í íslenskum krónum og hins vegar af því að vaxtagreiðslur eiga sér stað yfir lengra tímabil í evrum og pundum. Veiking krónunnar hefur því þau áhrif að endurheimtur duga skemur í afborganir og vaxtagreiðslur þar eð þær verða hærri í krónum talið. Árleg veiking krónunnar frá 2011 til og með 2016 sem næmi 3% umfram þá árlegu breytingu sem gert er ráð fyrir í reikniforsendum Seðlabankans mundi hækka skuldbindinguna um 18%, úr 47 milljörðum kr. í 56 milljarða kr. Árleg 3% styrking krónunnar á sama tímabili umfram reikniforsendur Seðlabankans mundi á hinn bóginn lækka skuldbindinguna um 15%, úr 47 milljörðum kr. í 40 milljarða kr.
    Enn fremur er rétt að gera grein fyrir þeirri gjaldeyrisáhættu sem stafar af því að skuldbinding ríkissjóðs vegna Icesave er eingöngu í evrum og sterlingspundum en eignir bús Landsbankans eru í evrum, sterlingspundum, bandaríkjadölum, kanadadölum og öðrum gjaldmiðlum. Minnsta áhættan er tengd þróun evrunnar því að hlutfall eigna Landsbankans í evrum er svipað og hlutfall Icesave-skuldbindingarinnar í evrum. Áhættan stafar því aðallega af því ójafnvægi sem er til staðar milli skulda í sterlingspundum annars vegar og eigna Landsbankans í öðrum gjaldmiðlum hins vegar. Árleg veiking sterlingspunds frá 2011 til og með 2016 sem nemur 3% umfram þá árlegu breytingu sem gert er ráð fyrir í reikniforsendum Seðlabankans lækkar skuldbindinguna um 52%, úr 47 milljörðum kr. í 23 milljarða kr. Árleg 3% styrking sterlingspunds á sama tímabili umfram reikniforsendur Seðlabankans hækkar skuldbindinguna um 62%, úr 47 milljörðum kr. í 77 milljarða kr. Það er því ljóst að þróun sterlingspunds gagnvart öðrum gjaldmiðlum hefur áhrif á skuldbindingu ríkissjóðs vegna Icesave og meiri áhrif en þróun íslensku krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum.
    Hægt er að draga verulega úr gjaldeyrisáhættu vegna misvægis í gjaldmiðlasamsetningu eigna þrotabús Landsbankans og skulda tryggingarsjóðsins. Tryggingarsjóður innstæðueigenda mun samkvæmt samningi við fjármálaráðuneytið, sbr. 2. gr. frumvarpsins, og í samráði við Seðlabanka Íslands, leita leiða til að takmarka þá áhættu. Kostnaður vegna gjaldeyrisvarna ræðst af aðstæðum á markaði hverju sinni og einnig af því hve stórum hluta af gjaldeyrisáhættunni er eytt. Ekki er þó mögulegt að eyða gjaldeyrisáhættunni að fullu vegna óvissu um endanlegar endurheimtur og tímasetningu þeirra.

3.2.1.3. Endurheimtur úr búi Landsbankans.
    Stærsti óvissuþátturinn við mat á skuldbindingum ríkissjóðs vegna Icesave er úthlutun upp í kröfur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta úr búi Landsbanka Íslands hf. Við áætlun á líklegri skuldbindingu er byggt á upplýsingum skilanefndar Landsbankans sem birtar voru á kröfuhafafundi 9. nóvember 2010. Jafnframt er byggt á vinnugögnum frá Landsbanka Íslands um fjárhæð þeirra krafna sem framseldar verða á grundvelli endurgreiðslusamninganna. Þá hefur verið lagt varfærið mat á nettótekjur vegna eigna Landsbanka Íslands til 2016. Eins og áður hefur verið nefnt er gert ráð fyrir að heildarkostnaður ríkissjóðs vegna samningsins verði 47 milljarðar kr. og að engar eftirstöðvar falli á ríkissjóð árið 2016. Útkoman gæti þó ýmist orðið betri eða verri:
     Betri útkoma. Í dæminu hér á eftir er miðað við að heimtur búsins verði betri en áætlað hefur verið. Bættar heimtur mundu lækka kostnað ríkisins, jafnvel þannig að greiðslur úr búinu verði hærri en sem nemur skuldbindingu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta árið 2016. Hér er gert er ráð fyrir að endurheimtur batni sem nemur 30 milljörðum kr. á hlut tryggingarsjóðsins. Ljóst er einnig ef útgreiðslur úr búinu verða fyrr en skilanefndin áætlar í mati sínu frá því í nóvember 2010 lækkar vaxtakostnaður. Í dæminu hér á eftir er gert ráð fyrir að útborgun úr búinu eftir árslok 2011 færist fram um hálft ár og að bú Landsbankans selji skuldabréf NBI árið 2014.
     Verri útkoma. Á hinn bóginn gætu breytingar orkað í andstæða átt ef heimtur verða lakari, þær frestast eða töf verður á útgreiðslum úr búinu. Taka má eftirfarandi dæmi: Aðrar eignir en reiðufé og skuldabréf NBI svara til um 485 milljarða kr., en þar af hlutdeild Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta í þeim 249 milljarðar kr. Ef þær endurheimtast að fjórum fimmtu hlutum af því sem áætlanir gera ráð fyrir verða eftirstöðvar skuldbindingarinnar hærri sem því nemur. Hér er enn fremur reiknað með að útborgun úr búinu seinkaði um tvö ár þannig að hún hæfist ekki að neinu leyti fyrr en á árinu 2013. Í eftirfarandi töflu eru sýnd áhrif þess á skuldina miðað við júní 2016:

  Betri útkoma (ma.kr.) Áætluð útkoma (ma.kr.) Verri útkoma (ma.kr.)
Eftirstöðvar höfuðstóls árið 2016 -32 -8     39
Áfallnir vextir til júní 2016 65 76 94
Samtals 32 67 133
Frádregin greiðsla Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta -20 -20 -20
Heildargreiðsla samtals 12 47 113

3.2.1.4. Sérákvæði vegna áfallinna vaxta á kröfur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá október 2008 til 22. apríl 2009.
    Eins og áður greinir nemur höfuðstóll þeirra krafna sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta fær framseldar í bú Landsbankans um 659 milljörðum kr. miðað við gengi íslensku krónunnar 22. apríl 2009. Jafnframt samdist um það milli aðila að tryggingarsjóðurinn fengi framseldar vaxtakröfur af þeim höfuðstól sem hollensku og bresku tryggingarsjóðirnir lýstu í búið og féllu til frá því að greitt var til innstæðueigenda í löndunum í desember 2008 og janúar 2009. Jafnframt hafði breski tryggingarsjóðurinn fengið framseldar vaxtakröfur frá breskum innstæðueigendum allt frá 9. október 2008. Þær kröfur njóta forgangsréttar við búskiptin til 22. apríl 2009. Hér er um óvissa fjárhæð að ræða en samkvæmt kröfulýsingum sjóðanna var þess krafist að við ættu að bætast dráttarvextir samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Slitastjórn Landsbankans mun hins vegar hafa samþykkt að við höfuðstólinn bættust vextir að sömu vaxtahæð og giltu á hinum svonefndu Icesave-reikningum. Viðbótarfjárhæð vegna vaxta af kröfum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta nemur u.þ.b. 17,8 milljörðum kr. ef miðað er við ákvörðun slitastjórnar Landsbankans. Að óbreyttu bætist sú fjárhæð við kröfur tryggingarsjóðsins í búið en rétt er að geta þess að um hana er nú deilt í dómsmálum sem rekin eru fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Í samningunum er gert ráð fyrir því að ef úthlutun upp í kröfur tryggingarsjóðsins nemur hærra hlutfalli en 86% muni aðilar skipta með sér þeim fjármunum sem þannig eru til komnir. Í meginatriðum er þar kveðið á um að ef endurheimtur nema 87% þá fái viðsemjendur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta 5% af andvirði vaxtakrafnanna; þegar endurheimtur nema 88% bætast önnur 5% við og svo koll af kolli allt þar til um fullar endurheimtur er að ræða en þá er gert ráð fyrir því að viðsemjendur tryggingarsjóðsins hafi fengið vextina að fullu greidda. Rétt er að taka fram að þessi skuldbinding um endurgreiðslu fellur niður ef endurheimtur verða 86% eða minni og hún takmarkast ávallt við þá hlutdeild sem að framan er lýst. Íslenska ríkið ber því ekki sérstaka ábyrgð á greiðslu krafna af þessum toga. Áhrif þessa samningsákvæðis á hina fjárhagslegu niðurstöðu og skuldbindingu ríkissjóðs liggja ekki fyrir fyrr en dómstólar hafa ákveðið vaxtahæð og endanlegar endurheimtur eru ljósar. Ef miðað er við forsendur slitastjórnar um fjárhæð hinna áföllnu vaxta – og aðrar núverandi forsendur varðandi endurheimtu og gengi – leiddi það til að mynda til þess að kostnaður vegna samningsins hækkaði um ríflega tvo milljarða.

3.2.2. Efnahagslegir fyrirvarar.
    Til að mæta óvissu um hversu mikið endurheimtist úr búi Landsbankans og á hvaða tíma greiðslur til kröfuhafa berast úr búinu er bætt við nýjum efnahagslegum fyrirvörum í fyrirliggjandi samningum. Áhrif hinna efnahagslegu fyrirvara eru þau að greiðslubyrði ríkissjóðs mun haldast innan hóflegra marka undir öllum kringumstæðum. Fyrirvararnir eru skilgreindir nánar í kafla 3.1.7 hér að framan. Þeir fela í sér annars vegar sjálfkrafa lengingu endurgreiðslutímans eftir því sem eftirstöðvar eru hærri, og hins vegar þak á árlegar endurgreiðslur sem miðast við hærri fjárhæðina af:
     a.      5% af tekjum ríkissjóðs á næstliðnu ári,
     b.      1,3% af vergri landsframleiðslu næstliðins árs.
    Taflan hér á eftir sýnir samspil endurgreiðslutíma og greiðslubyrði miðað við stighækkandi eftirstöðvar frá 0 í 60 milljarða kr. Heildargreiðslubyrði ásamt árlegum afborgunum og vaxtagreiðslum eru þær fjárhæðir sem falla til á einu ári talið frá júní 2016. Gert er ráð fyrir að gildandi CIRR-vextir verði 4%. Miðað við þessar forsendur yrði endurgreiðslutíminn að hámarki 3 ár.

Eftirstöðvar árið 2016 -20 0 20 40 60
Endurgreiðslutími frá og með 2016 (ár) 0 0 1 1 3
Árleg afborgun frá 2016 0 0 20 40 20
Árleg vaxtagreiðsla frá 2016 1 1 2 3 3
Árlegar greiðslur frá 2016 1 1 22 42 23

    Rétt er að taka fram að erfitt er að gera áreiðanlega langtímaspá um vaxtaþróun. Forsendan um 4% vexti er því aðeins dæmi þar sem gert er ráð fyrir hærri vöxtum árið 2016 en núverandi CIRR-vextir segja til um. Á hinn bóginn má telja að niðurstaða er felur í sér að miðað skuli við CIRR-vexti sé ríkissjóði hagfelld og tæplega að vænta að unnt yrði að semja um hagstæðari vaxtakjör.

3.2.3. Skuldabyrði ríkissjóðs.
    Skuldir ríkisins jukust mikið í kjölfar hruns bankakerfisins, en stefnt er að því að þær lækki hratt á næstu árum og verði ekki hærri en um 60% af landsframleiðslu (VLF) til lengri tíma litið. Skuldir ríkisins nema í árslok 2010 um 84,5% af vergri landsframleiðslu samkvæmt áætlunum fjármálaráðuneytisins. Í áætlun um þróun skuldastöðu ríkissjóðs vegna samninga um uppgjör Icesave-skuldbindinga er gengið út frá þeirri forsendu að höfuðstóll skuldarinnar verði að fullu greiddur með eignum úr búinu og að greiðslur ríkissjóðs vegna vaxta verði fjármagnaðar af gjaldeyriseignum ríkissjóðs. Heildarskuldir munu þannig ekki hækka en hins vegar mun handbært fé og kröfur lækka sem hefur áhrif á þróun hreinnar skuldastöðu. Á árunum 2011 til 2016 koma til greiðslu vextir af höfuðstól skuldarinnar. Sá vaxtakostnaður er hæstur árið 2011 og nemur um 17 milljörðum kr. en fer lækkandi og endar í 2 milljörðum kr. árið 2016. Hreinar skuldir ríkisins eru í lok árs 2010 43% af vergri landsframleiðslu, en að viðbættum kostnaði vegna Icesave færi það hlutfall fyrir árið 2010 í 43,4%. Þess skal getið að komi til þess að greiðslur úr þrotabúinu verði umfram kröfur höfuðstóls skuldarinnar koma þær til lækkunar á vaxtagjöldum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


3.2.4. Ríkisreikningur og fjárlög (bókhaldsleg meðferð í reikningshaldi ríkissjóðs).
    Verði frumvarpið að lögum má gera ráð fyrir að færslur í reikningshaldi ríkisins verði með eftirtöldum hætti á næstu árum:
          Árið 2010. Gjaldfærsla á 09-971 Ríkisábyrgðir, viðfangsefni Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, verður að fjárhæð um 6 milljarðar kr. vegna áfallinna vaxta til ársloka 2010. Alls eru vextir vegna 2010 taldir vera 26 milljarðar kr. og verða um 20 milljarðar kr. af þeirri fjárhæð greiddir af innstæðum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta en það sem á vantar, 6 milljarðar kr., verður greitt af ríkissjóði.
          Árin 2011–2015. Árleg tilfærsla til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta nemur áföllnum vöxtum ársins sem ríkissjóður mun inna af hendi til sjóðsins ársfjórðungslega eftir því sem þeir gjaldfalla. Samkvæmt forsendum frumvarpsins munu árlegir vextir fara lækkandi úr 17 milljörðum kr. árið 2011 í 5 milljarða kr. árið 2015. Kostnaður vegna málareksturs og eftirfylgni með framkvæmd samningsins er áætlaður um 3 milljarðar kr. og verður greiddur ársfjórðungslega með jöfnum afborgunum árið 2011. Við lok hvers árs þarf að fá upplýst hvort áætlað endurheimtuhlutfall hafi breyst. Hafi orðið breyting á því felur það í sér breytingu á langtímaskuldbindingu ríkissjóðs sem taka þarf þá tillit til. Slík breyting kemur til hækkunar eða lækkunar á gjaldfærslu ársins eftir því sem við á hverju sinni.
          Árið 2016. Tilfærslur ársins verða tvíþættar. Annars vegar vegna áfallinna ársfjórðungslegra vaxta fram á mitt ár sem eru áætlaðir 2 milljarðar kr. Hins vegar er gert ráð fyrir að endanlegt uppgjör fari fram og raunverulegar eftirstöðvar skuldarinnar teknar út.

3.3. Endurskoðunarákvæði og friðhelgisréttindi.
    Það er grundvallarforsenda samninganna að eignum úr búi Landsbankans verði úthlutað í samræmi við þá forgangsröð innstæðueigenda sem ákveðin var með neyðarlögunum svonefndu, nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Hinir efnahagslegu fyrirvarar, sem áður er vikið að, eru ætlaðir sem vörn ef meiri háttar frávik verða frá samningsforsendunum.
    Sams konar endurskoðunarákvæði er að finna í hinum nýju samningum og í fyrri samningum og gerir það ráð fyrir að viðræður fari fram við viðsemjendur um áhrif þess á efni samninganna ef reglubundin úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þ.e. IV. greinar úttekt, leiðir í ljós að skuldaþoli Íslands hafi hrakað til muna frá því sem sjóðurinn taldi í nóvember 2008.
    Loks eru ákvæði um friðhelgisréttindi íslenska ríkisins með sama hætti og var í viðaukasamningunum frá 19. október 2009. Hið sama á við um réttindi handhafa íslensks ríkisvalds til að kveða á um skipulag nýtingar á náttúruauðlindum og er skipan eignarhalds á þeim tryggt.

3.4. Breytingar frá fyrri samningum.
3.4.1. Vanefndaúrræði, frestir og gjaldfellingarákvæði.
    Vanefndaúrræði, frestir og gjaldfellingarákvæði samkvæmt samningunum eru mun eðlilegri en áður. Heimildir til að gjaldfella eða gera kröfu til að endurgreiðslufjárhæðin verði greidd fyrr eru nú bundnar við eftirtalin tilvik:
     a.      Viðvarandi vanefndir: Vanefndir verða að vera viðvarandi til að heimilt sé að beita vanefndaúrræðum. Ekki er heimilt að grípa til þeirra ef bætt hefur verið úr því tilviki sem orsakaði vanefnd. Samkvæmt fyrri samningum hefði það hins vegar ekki dugað til. Samkvæmt þeim var heimilt að gjaldfella alla skuldina vegna vanefndatilviks sem þegar hafði átt sér stað, jafnvel þótt úr því hefði verið bætt, t.d. ef greiðsla, sem dregist hefði að inna af hendi, hefði þegar verið greidd.
     b.      Frestur vegna vanskila á greiðslum: Nýju samningarnir gera ráð fyrir að 20 virkir dagar megi líða frá því að vanskil verða þar til viðsemjandinn má grípa til vanefndaúrræða. Þessi frestur var einungis 5 dagar samkvæmt fyrri samningum. Verði vanskilin rakin til umsýslu- eða tæknilegra vandkvæða skal fresturinn þó áfram vera 5 dagar.
     c.      Frestur vegna vanefnda á öðrum skuldbindingum: Frestur til að bæta úr vanefndum á öðrum skuldbindingum en greiðslum eru 20 virkir dagar frá að því að viðsemjandinn tilkynnir um vanefnd, en sams konar frestur samkvæmt fyrri samningum var 10 dagar frá því að tilvik átti sér stað.
     d.      Arftaki Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta: Samkvæmt fyrri samningum hefði það talist vanefnd ef tryggingarsjóðnum hefði verið slitið eða hann verið leystur upp eða reynst ófær um að greiða skuldir sínar. Samkvæmt nýju samningunum felur það ekki í sér vanefnd ef annar aðili, arftaki Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, tekur yfir skuldbindingar hans og stjórnvöld ábyrgjast áfram skaðleysi viðsemjanda hans. Fram er komið á Alþingi lagafrumvarp á vegum efnahags- og viðskiptaráðherra um stofnun nýs deildaskipts tryggingarsjóðs sem gerir ráð fyrir að skipta skuldbindingum hans fyrir og eftir gildistöku frumvarps þessa milli tveggja deilda sem bera ekki gagnkvæma skuldarábyrgð.
     e.      Vanskil á öðrum skuldbindingum ríkissjóðs: Samkvæmt fyrri samningum hefðu vanskil á öðrum skuldbindingum ríkissjóðs að fjárhæð 10 milljónir punda eða meira jafngilt vanefndum á skuldbindingum vegna Icesave og heimilað viðsemjendum að grípa til viðeigandi aðgerða. Ákvæði af þessu tagi er í samræmi við vanefndaákvæði í ýmsum öðrum skuldbindingum sem ríkið hefur tekist á hendur, en markið hefur í nýju samningunum verið hækkað í jafnvirði 50 milljóna punda.
     f.      Brot á tilskipun um innstæðutryggingar: Hvers kyns misbrestur af hálfu tryggingarsjóðsins eða stjórnvalda á að uppfylla ákvæði tilskipunar um innstæðutryggingar gagnvart sérhverjum innstæðueiganda í gamla Landsbankanum taldist vanefnd samkvæmt fyrri samningum. Ekkert slíkt ákvæði er í nýju samningunum, enda fráleitt að hollensk eða bresk stjórnvöld geti einhliða talist bær til að ákvarða hvort um slíkar misfellur sé að ræða.
     g.      Einn tryggingarsjóður: Samkvæmt fyrri samningum hefði það talist vanefnd ef tryggingarsjóðurinn hefði ekki verið einn ábyrgur gagnvart innstæðueigendum gamla Landsbankans. Ekkert slíkt ákvæði er í nýju samningunum.

3.4.2. Ákvæði um meðferð kröfuhafa fellur brott.
    Fyrri samningar gerðu kröfu til að stjórnvöld hétu því að grípa ekki til neinna aðgerða sem stríddu gegn alþjóðlegum og evrópskum viðmiðum um uppgjör lánastofnana og hefðu í för með sér mismunun gagnvart kröfuhöfum gamla Landsbankans. Ekkert slíkt ákvæði er í nýju samningunum, enda liggur hvergi fyrir einhlít skilgreining á því hvað geti talist gild skilgreining eða alþjóðleg viðmið í þessum efnum né heldur hvaða aðili væri bær til að setja slík viðmið eða úrskurða á grundvelli þeirra hvenær þau teldust uppfyllt.

3.4.3. Áskilnaður um bestu kjör fellur brott.
    Samkvæmt fyrri samningum bar stjórnvöldum og tryggingarsjóðnum að veita Bretum og Hollendingum sömu kjör og öðrum ef þau næðu hagstæðari samningum við aðra gegn auknum tryggingum eða öðrum skuldbindingum sem væru lánveitanda hagfelldari en samningarnir við Breta og Hollendinga gerðu ráð fyrir. Þetta ákvæði hefur verið endurskoðað og þrengt mikið og undanskilur nú lán sem tekin væru til að endurfjármagna skuldbindingar samkvæmt nýju samningunum, eftir atvikum á hagstæðari kjörum. Einnig eru undanskilin lán sem tekin væru til að fjármagna eða tryggja innstæður í öðrum föllnum íslenskum bönkum ef kröfur vegna þeirra eru til komnar eftir að nýju samningarnir eru undirritaðir.

3.4.4. Lausn deilumála færð til Alþjóðagerðardómstólsins í Haag.
    Nauðsynlegt er og alvanalegt að samið sé um það eftir hvaða lögum skuli dæmt og fyrir hvaða dómstól ef ágreiningur rís um framkvæmd samninga af þessu tagi. Í fyrri samningum var mælt svo fyrir að leyst skyldi úr ágreiningi eftir enskum lögum og fyrir enskum dómstól. Eðlilegt má telja að löggjöf einhvers samningsaðila gildi um samningana og í lánssamningum er það jafnaði löggjöf í heimalandi lánveitandans. Sé hið sama lagt til grundvallar hér sýnist ensk löggjöf í það minnsta mun aðgengilegri en hollensk, bæði vegna tungumálsins og uppruna löggjafarinnar. Ensk fjármálalöggjöf stendur auk þess traustum fótum í aldalangri hefð alþjóða- og innanlandsviðskipta og Íslendingar hafa um áratugaskeið gert samninga sem lúta enskum lögum. Að þessu virtu hefur ekki verið talið varhugavert eða vandkvæðum bundið að láta samningana fara eftir enskum lögum.
    Á hinn bóginn hefur það sætt réttmætri gagnrýni að samningarnir skyldu háðir lögsögu enskra dómstóla þegar til þess er litið að annar viðsemjandanna er breska ríkið eða ríkisstofnun. Jafnvel þótt enska réttarkerfið teljist vera meðal hinna þróuðustu sem völ er á við meðferð ágreiningsmála á fjármálasviði og enskir dómstólar hafi löngu áunnið sér mikið traust á því sviði verður að telja heppilegra að samningarnir væru undir annarri lögsögu en enskra dómstóla. Rík áhersla var því lögð á að fá þessu breytt við gerð þeirra samninga sem nú liggja fyrir.
    Í stað þess að samningarnir heyri undir lögsögu eins samningsríkis hefur náðst samkomulag um að leggja úrlausn ágreinings, sem upp kann að rísa milli ríkjanna, í gerð Alþjóðagerðardómstólsins í Haag (Permanent Court of Arbitration). Þá hefur verið samið svo um að hvor aðili um sig skipi einn mann til gerðar en þeir sammælist um oddamann sem jafnframt skipi forsæti dómsins.
    Alþjóðagerðardómstóllinn í Haag var stofnaður á grundvelli sáttmála um friðsamlega lausn deilumála frá 1899 og 1907 og telst því vera meðal elstu alþjóðlegu stofnana sem komið hefur verið á fót í þessu skyni. Hér er ekki um eiginlegan dómstól að ræða, enda engir fastir dómarar starfandi við hann, heldur miklu fremur hlutlausan vettvang til að leysa úr hvers kyns deilumálum, sem á annað hundrað ríkja eiga aðild að, þar á meðal öll samningsríkin.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samningar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta við Bretland og Holland um að kaupa kröfur þeirra vegna greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi og um ábyrgð ríkisins á að Bretland og Holland verði skaðlaus af því að eftirstöðvar endurgreiðslufjárhæðarinnar verði greiddar þegar úthlutun úr búi bankans verður að mestu lokið um mitt ár 2016 voru áritaðir í London 8. desember 2010. Í þessari grein er lagt til að fjármálaráðherra verði heimilað að undirrita eða láta undirrita samningana fyrir hönd ríkissjóðs, en í því er þá fólgin skuldbinding um að ábyrgjast umsaminn kostnað tryggingarsjóðs af því að taka yfir framangreindar kröfur og síðan það sem upp á vantar að endurgreiðslufjárhæðin verði greidd þegar sjóðurinn hefur látið það sem hann fær úthluta úr búi Landsbankans ganga upp í afborganir af höfuðstól fjárhæðarinnar með áföllnum vöxtum. Samningarnir fylgja athugasemdum við frumvarpið sem fylgiskjal.

Um 2. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um að fjármálaráðherra semji við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta um framkvæmd endurgreiðslu- og skaðleysissamninganna, einkum að því er varðar atriði sem þar eru nánar tilgreind. Tryggingarsjóðurinn verður stærsti kröfuhafinn í bú Landsbanka Íslands. Þess vegna er afar þýðingarmikið að hann gæti hagsmuna sinna varðandi allar ákvarðanir um slit bankans og úthlutun úr búinu. Hér er lagt til að fjármálaráðherra semji við sjóðinn um nánari tilhögun þessa auk skilyrða er varða fjárhag sjóðsins almennt að svo miklu leyti sem það tengist ríkisábyrgðinni. Þessi samningur varðar réttarsambandið á milli íslenska ríkisins og Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, en hefur ekki áhrif á það samningssamband sem tekst á milli tryggingarsjóðsins og íslenska ríkisins annars vegar og breskra og hollenskra stjórnvalda hins vegar. Árituð drög að samningi liggja fyrir og eru birt sem fylgiskjal með athugasemdum við frumvarp þetta.
    Fjármálaráðherra gætir að því að eftirlitshlutverk hans samkvæmt þessu ákvæði skarist hvorki á við hlutverk Ríkisábyrgðasjóðs skv. 5. gr. laga nr. 121/1997 né hlutverk Fjármálaeftirlitsins, en stofnunin skal hafa eftirlit með að starfsemi sjóðsins sé í samræmi við lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, sbr. 15. gr. þeirra laga og ákvæði laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Um 3. gr.


    Samkvæmt hinum nýju samningum falla eldri samningar um lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta niður. Ekki kemur því til þess að reyni á heimildir samkvæmt lögum nr. 96/2009, eins og þeim var breytt með lögum nr. 1/2010. Í þessari grein er því lagt til að lög nr. 96/2009 falli brott, en lög nr. 1/2010 hafa þegar verið numin úr gildi, sbr. auglýsingu nr. 15/2010.

Um 4. gr.


    Gildistökuákvæði 1. mgr. þarfnast ekki skýringa.
    Í 2. mgr. er mælt svo fyrir að ákvæði þessa frumvarps komi að öllu leyti í stað laga nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir, að undanskilinni 5. gr. þeirra laga um eftirlit Ríkisábyrgðasjóðs og afskriftareikninga vegna veittra ríkisábyrgða. Kemur það til af því að lög nr. 121/1997 gera almennt ekki ráð fyrir heimildum af því tagi sem frumvarp þetta tekur til. Eðlilegt er því að ákvæði frumvarps þessa gildi ein um þá ábyrgð að undanskildu því eftirlitshlutverki sem Ríkisábyrgðasjóður fer með samkvæmt áðurnefndri 5. gr. laga nr. 121/1997. Er málsgreinin samhljóða gildistökuákvæðinu í síðari málslið 9. gr. laga nr. 96/2009.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Samkvæmt síðari málsgrein þessa ákvæðis ber tryggingarsjóðnum að verja þeim fjármunum sem til eru í vörslum hans við gildistöku frumvarps þessa, verði það að lögum, til að standa straum af skuldbindingum samkvæmt endurgreiðslu- og skaðleysissamningunum. Gert er ráð fyrir að þeir fjármunir renni til að greiða niður höfuðstól endurgreiðslufjárhæðarinnar um u.þ.b. 20 milljarða kr.
    Samkvæmt fyrri málsgrein ákvæðisins verður hins vegar þeim fjármunum sem innheimtir verða af sjóðnum í formi iðgjalda eftir gildistöku frumvarpsins ekki ráðstafað til skuldbindinga sem eru til komnar vegna Icesave-reikninganna. Er þessi aðskilnaður í samræmi við áform sem birtast í frumvarpi til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta sem efnahags- og viðskiptaráðherra hefur lagt fyrir Alþingi og er til meðferðar. Ákvæðið gildir þó óháð afdrifum þess frumvarps. Enn fremur verður að telja eðlilegt að greiðslur í tryggingarsjóðinn renni til þess að byggja upp sjóð er nýtist við að mæta mögulegum skuldbindingum vegna núverandi innstæðna, fremur en áföllnum eldri skuldbindingum vegna fjármálastofnana sem ekki eru lengur starfandi sem innlánsstofnanir.



Fylgiskjöl:
     1.      Disbursement, Reimbursement and Indemnity Agreement among The Depositors´ and Investors´ Guarantee Fund of Iceland and Iceland and the United Kingdom, óundirritaður, ásamt íslenskri þýðingu.
     2.      Reimbursement and Indemnity Agreement among The Depositors´ and Investors´ Guarantee Fund of Iceland and Iceland and the State of the Netherlands, óundirritaður, ásamt íslenskri þýðingu.
     3.      Skýringar við framangreinda samninga.
     4.      Samningur fjármálaráðherra við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta á Íslandi um umsýslu vegna Icesave-samninganna, óundirritaður.
     5.      Umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis um áhrif á útgjöld ríkissjóðs.
Fylgiskjal I.


DISBURSEMENT, REIMBURSEMENT AND INDEMNITY AGREEMENT
dated                              2010

among

The Depositors' and Investors' Guarantee Fund of Iceland

and

Iceland

and

The Commissioners of Her Majesty's Treasury



    This DISBURSEMENT, REIMBURSEMENT AND INDEMNITY AGREEMENT, dated          , 2010 (this “ Agreement”), among THE DEPOSITORS' AND INVESTORS' GUARANTEE FUND OF ICELAND ( Tryggingarsjóður Innstæðueigenda og Fjárfesta), a private foundation incorporated under the laws of Iceland (the “ Guarantee Fund”), ICELAND (“ Iceland”) and THE COMMISSIONERS OF HER MAJESTY'S TREASURY (the “ HMT Commissioners” and, together with the Guarantee Fund and Iceland collectively, the “ Parties”).

RECITALS


     WHEREAS, the Parties have entered into the Loan Agreement and the Acceptance and Amendment Agreement, which together set out the arrangements initially foreseen by the Parties in relation to the matters described in these Recitals. The Parties now wish to enter into this Agreement to settle those matters, and also to terminate the Loan Agreement and the Acceptance and Amendment Agreement, but conditional upon this Agreement coming into effect.

     WHEREAS, the claims of Landsbanki London Depositors against Landsbanki are guaranteed by the Guarantee Fund according and subject to Act No. 98/1999 which implements Directive 94/19/EC up to .20,887 per Landsbanki London Depositor.

     WHEREAS, the FSCS has paid compensation to the majority of Landsbanki London Depositors in respect of their claims against Landsbanki and the Guarantee Fund under Act No. 98/1999 in return for a transfer by such Landsbanki London Depositors of such claims to the FSCS. The process by which the FSCS will settle (on behalf of the Guarantee Fund) the remaining claims of the Landsbanki London Depositors against the Guarantee Fund under Act No. 98/1999, and the Guarantee Fund will settle its obligations to the FSCS, is detailed in the Settlement Agreement.

     WHEREAS, the HMT Commissioners have prefinanced the payment of compensation by the FSCS in respect of the claims of Landsbanki London Depositors against Landsbanki and the Guarantee Fund under Act No. 98/1999 and related costs. The Parties have agreed that the Guarantee Fund shall reimburse the FSCS for the amounts expended by it in paying compensation to Landsbanki London Depositors (the aggregate of such payments on behalf of the Guarantee Fund as at 24th November 2010 being estimated to be £2,254,417,851.51) and that HMT Commissioners shall put the FSCS in funds to settle (on behalf of the Guarantee Fund) the remaining claims of the Landsbanki London Depositors against the Guarantee Fund (estimated to total £20,969,252.03) under Act No. 98/1999 in accordance with the terms of this Agreement.

     WHEREAS, the Parties confirm that this Agreement has been negotiated in accordance with the “Agreed Guidelines” of 14 November 2008 as agreed between Iceland and the member states of the European Union.

ARTICLE 1 DEFINITIONS


    Section 1.1      Certain Defined Terms. (a) As used herein, the terms defined in Schedule I shall have the meaning set out in that Schedule.

    (b)     For the purpose of the definitions of “Interest Proceeds”, if any part of the Guarantee Fund Estate Proceeds shall be denominated in a currency other than Sterling and shall not have been converted by the Guarantee Fund pursuant to paragraph (a) of Section 4.7, such amount shall be converted into Sterling at such rate as may be reasonably selected by the HMT Commissioners.

    Section 1.2      Other Interpretative Provisions. (a) The meanings of defined terms are equally applicable to the singular and plural forms of the defined terms.

    (b)     The words “hereof,” “herein,” “hereunder” and similar words refer to this Agreement as a whole and not to any particular provision of this Agreement, and any subsection, Section, Article and Schedule references are to this Agreement unless otherwise specified.

    (c)     The term “documents” includes any and all documents, instruments, written agreements, certificates, indentures, notices and other writings, however evidenced (including electronically).

    (d)     The term “including” is not limiting and (except to the extent specifically provided otherwise) shall mean “including without limitation.”

    (e)     Unless otherwise specified, in the computation of periods of time from a specified date to a later specified date, the word “from” shall mean “from and including,” the words “to” and “until” each shall mean “to but excluding,” and the word “through” shall mean “to and including.”

    (f)     The terms “may” and “might” and similar terms used with respect to the taking of an action by any Person shall reflect that such action is optional and not required to be taken by such Person.

    (g)     The term “continuation” of a Mandatory Prepayment Event shall reflect that such Mandatory Prepayment Event has occurred and has not been remedied and not been waived in accordance with Section 10.5.

    (h)     Unless otherwise expressly provided herein: (i) references to agreements (including this Agreement) and other documents shall be deemed to include all subsequent amendments and other modifications thereto, but only to the extent that such amendments and other modifications are not prohibited by any Relevant Document, and (ii) references to any Applicable Law are to be construed as including all statutory and regulatory provisions or rules consolidating, amending, replacing, supplementing, interpreting or implementing such Applicable Law.

ARTICLE II
THE FACILITY


    Section 2.1      The Facility. (a) Subject to the terms of this Agreement, the HMT Commissioners make available to the Guarantee Fund a Sterling facility in a maximum principal amount of £2,350,000,000 or such other amount as the HMT Commissioners and the Guarantee Fund may agree in writing from time to time (the “ Facility Amount”).

    (b)     Disbursements made under the Facility shall be applied (or, pending such application, placed on interest-bearing deposit in order to be subsequently applied) by the Guarantee Fund or on its behalf towards one or more of the following purposes:

              (I)     the repayment (whether by way of set-off or otherwise) of any amounts borrowed by the FSCS from the HMT Commissioners which have been applied by the FSCS (on behalf of the Guarantee Fund) in order to pay compensation in respect of claims of Landsbanki London Depositors under Act No. 98/1999 for up to £16,872.99 per claim, together with compensation accrued on such amounts borrowed from October 1, 2009 at the First Phase Rate as described in paragraph (a)(ii) of Section 4.2;

              (ii)     the settlement by the FSCS (on behalf of the Guarantee Fund) of the claims of Landsbanki London Depositors under Act No. 98/1999 for up to £16,872.99 per depositor (or, where applicable, per joint-account holder); and

              (iii)     payment to the FSCS by way of compensation and funding for certain costs.

    (c)     Notwithstanding paragraph (b) above, the HMT Commissioners shall not be bound to monitor nor be concerned with the use or application of any Disbursement.

    Section 2.2      Operation of the Facility. (a) Without prejudice to the liability of Iceland under this Agreement, the Guarantee Fund shall be the sole borrower under the Facility, shall be the debtor in respect of all Disbursements made under the Facility and shall be primarily liable for all sums (including, without limitation, the Reimbursement Amount and any compensation, costs and expenses arising in connection therewith) which are or may become due to the HMT Commissioners under this Agreement and the other Relevant Documents.

    (b)     The FSCS may, and the Guarantee Fund (with the consent of Iceland) hereby irrevocably authorises the FSCS to, on behalf of the Guarantee Fund, make drawings under the Facility in the form of one or more Disbursements, which the FSCS may request by delivery to the HMT Commissioners of a duly completed Disbursement Request in accordance with the Settlement Agreement.

    (c)     A Disbursement Request must be submitted to the HMT Commissioners by no later than 11:00 am (London time) on the proposed Disbursement Date.

    (d)     The FSCS may, on behalf of the Guarantee Fund, make drawings under the Facility in accordance with this Section 2.2:

              (I)     in order to make any payment necessary or desirable for any of the purposes set out in Section 2.1; and

              (ii)     until (and so that no Disbursement Date falls after) March 30, 2012 and in an aggregate principal amount not exceeding the Facility Amount.

    Section 2.3      Making of a Disbursement. (a) Provided that:

              (I)     this Agreement has come into force in accordance with Article VII; and

              (ii)     no Mandatory Prepayment Event has occurred and been notified to the HMT Commissioners and is unremedied or unwaived, or would (to the knowledge of the HMT Commissioners, who have not waived the same) occur as a result of the proposed Disbursement being made,

    the HMT Commissioners will make each Disbursement available to the FSCS on its Disbursement Date. Each Disbursement shall be made available by credit to an the FSCS Bank Account (or, in the case of a Disbursement to be used for the purpose of repaying any amount borrowed by the FSCS from the HMT Commissioners, by setting off such Disbursement against the amount already borrowed).

    (b)     Only the FSCS may request and receive the proceeds of a Disbursement and the Guarantee Fund will, notwithstanding (and without prejudice to) its obligations as borrower under the Facility, not have any right or claim to request or receive the proceeds of any Disbursement.

    Section 2.4      Confirmation of Disbursements

    (a)     The HMT Commissioners will, as soon as reasonably possible after making any Disbursement, notify the Guarantee Fund and Iceland of:

              (I)     the amount of the Disbursement and its Disbursement Date; and

              (ii)     the amount of the Reimbursement immediately after the making of the Disbursement.

    (b)     Any failure to comply with paragraph (a) above shall not in any way limit the duties or liabilities of the Guarantee Fund and Iceland under this Agreement.

ARTICLE III
REIMBURSEMENT, ETC.


    Section 3.1      Undertaking to reimburse. In consideration of (a) the execution by the FSCS of the the FSCS Deed of Assignment, (b) the payment of compensation by the FSCS to Landsbanki London Depositors in respect of their claims against Landsbanki and the Guarantee Fund under Act No. 98/1999 as referred to in the Recitals, (c) the prefinancing by the HMT Commissioners of the payment of such compensation by the FSCS, and the provision of the Facility, the Guarantee Fund undertakes to reimburse the HMT Commissioners for all Disbursements made by it hereunder by paying the Reimbursement Amount in accordance with the terms of this Agreement.

ARTICLE IV
PAYMENTS OF REIMBURSEMENT, COMPENSATION AND PAY-OUT COSTS


    Section 4.1      Payment of the Reimbursement. (a) This Section 4.1 shall apply from the Second Phase Start Date and onwards.

    (b)     Subject to paragraph (d) below, the Guarantee Fund agrees to pay to the HMT Commissioners the Second Phase Reimbursement Amount in consecutive Quarterly Installments, payable on each Reimbursement Payment Date.

    (c)     The number of and amount of Quarterly Installments shall be calculated as follows:

              (i)     if, as at the day immediately preceding the Second Phase Start Date, the aggregate of the ISK Equivalent of the Second Phase Reimbursement Amount and the ISK Equivalent of the NL Second Phase Reimbursement Amount is equal to or less than ISK 45,000,000,000, (A) the number of Quarterly Installments shall be four, and (B) the amount of each Quarterly Installment shall be the Second Phase Reimbursement Amount divided by four;

              (ii)     if, as at the day immediately preceding the Second Phase Start Date, the aggregate of the ISK Equivalent of the Second Phase Reimbursement Amount and the ISK Equivalent of the NL Second Phase Reimbursement Amount is more than ISK 45,000,000,000, (A) the number of Quarterly Installments shall be the lesser of (I) four plus an additional four for each ISK 10,000,000,000 (or portion thereof) by which that aggregate exceeds ISK 45,000,000,000, and (II) 118, and (B) the amount of each Quarterly Installment shall be the Second Phase Reimbursement Amount divided by the number of Quarterly Installments so determined;

    (d)     (I)     notwithstanding paragraphs (b) and (c) above and subject to paragraph (iii) below, if on any Reimbursement Payment Date the aggregate of (A) the ISK Equivalents on that Reimbursement Payment Date of the Quarterly Installment payable on that Reimbursement Payment Date and the amount of compensation payable on that Reimbursement Payment Date pursuant to paragraph (a) of Section 4.2, and (B) the ISK Equivalents of the NL Quarterly Installment payable on or about that Reimbursement Payment Date and the amount of compensation payable on or about that Reimbursement Payment Date pursuant to paragraph (a) of Section 3.2 of the NL Reimbursement and Indemnity Agreement, exceeds 1.25 per cent. of Relevant Icelandic Total Government Revenue in relation to that Reimbursement Payment Date, then (X) such aggregate shall be reduced by the minimum amount necessary to ensure that such aggregate no longer exceeds 1.25 per cent. of Relevant Icelandic Total Government Revenue in relation to that Reimbursement Payment Date, (Y) the amount of such reduction (expressed in Krónur) shall be attributed to The Netherlands and the HMT Commissioners in accordance with their respective Pro Rata Entitlements, and (Z) the amount of the Quarterly Installment referred to in item (A) above (and, if the Pro Rata Entitlement of the HMT Commissioners exceeds the amount of such Quarterly Installment, the amount of compensation referred to in that item) will be reduced by the Pro Rata Entitlement of the HMT Commissioners of such reduction (converted into Sterling at the rate used to calculate the ISK Equivalents referred to above).

              (ii)     Any amount by which a Quarterly Installment or any amount of compensation is reduced pursuant to paragraph (I) above will remain payable and will be added to the Quarterly Installment due on the next Reimbursement Payment Date (but that Quarterly Installment, thus increased, will be subject to the application of paragraph (I) above and accordingly will (subject always to paragraph (iii) below) only be payable if and to the extent payable pursuant to paragraph (I) above). Any amount by which an amount of compensation is reduced pursuant to paragraph (I) above will be deemed part of the Reimbursement Amount from the Reimbursement Payment Date on which, absent paragraph (I) above, that amount would have been payable in accordance with paragraphs (b) and (c) above, and compensation will accrue on it accordingly.

              (iii)     Paragraphs (I) and (ii) above shall not apply in relation to the Reimbursement Payment Date on which the last Quarterly Installment is due to be paid (as determined in accordance with paragraph (c) above) and the Quarterly Installment due on that Reimbursement Payment Date, any compensation due to be paid on that Reimbursement Payment Date and any amount payable on that Reimbursement Payment Date pursuant to paragraph (ii) above shall be payable on that Reimbursement Payment Date in full.

    Section 4.2      Compensation. (a) (I) The Guarantee Fund shall pay to the HMT Commissioners compensation in respect of the Reimbursement Amount, (A) for the period from October 1, 2009 to the Second Phase Start Date, at the First Phase Rate, and (B) for the period from the Second Phase Start Date onwards, at the Second Phase CIRR.

              (ii)     In respect of the period from October 1, 2009 to the date of the first Disbursement hereunder, the Reimbursement Amount shall for the purposes of calculating such compensation payable be deemed on any date to be an amount equal to the aggregate of all amounts which on that date had been paid out by the FSCS on behalf of the Guarantee Fund in the settlement by the FSCS (on behalf of the Guarantee Fund) of the claims of Landsbanki London Depositors under Act No. 98/1999 for up to £16,872.99 per depositor (or, where applicable, per joint-account holder) aggregated with the amount of any compensation compounded pursuant to paragraph (c)(I) below.

              (iii)     Any such compensation shall continue to accrue, to the fullest extent permitted by Applicable Law, after as well as before any bankruptcy, insolvency, reorganization, liquidation, judicial or out-of-court reorganization proceedings, dissolution, arrangement or winding up or composition or readjustment of debts of the Guarantee Fund.

For the avoidance of doubt, no compensation is payable in respect of any period prior to October 1, 2009.

    (b)     Notwithstanding the foregoing, the Guarantee Fund shall pay to the HMT Commissioners compensation on any Defaulted Amount at the Arrears Rate. Any such compensation shall be compounded on each Payment Date with the amount in respect of which it has accrued.

    (c)     Accrued compensation on the Reimbursement Amount or any other amount shall be payable (i) in the case of compensation accrued to the first Payment Date (compounded with the amount in respect of which it has accrued on each date which would have been a Payment Date if the first Payment Date had been January 1, 2010 rather than January 1, 2011), on the first Payment Date, (ii) on each subsequent Payment Date, and (ii) in the case of any prepayment of any part of the Reimbursement Amount (whether voluntary or mandatory), on the date such part of the Reimbursement Amount is so prepaid (but such compensation shall be payable only to the extent accrued to the date of prepayment on the part of the Reimbursement Amount so prepaid), provided that compensation payable at the Arrears Rate on Defaulted Amounts shall also be payable from time to time on request by the HMT Commissioners.

    (d)     Compensation accruing on the Reimbursement Amount or any other amount shall be computed on the basis of a year of three hundred and sixty five (365) days and actual days elapsed occurring in the period for which payable.

    Section 4.3      Optional Prepayments. (a) The Guarantee Fund may prepay the Reimbursement Amount in whole or in part, provided that the Guarantee Fund (or Iceland on its behalf) shall give the HMT Commissioners notice of such prepayment as provided in Section 4.4 and, upon the date specified in such notice, the amount to be prepaid and any compensation payable thereon in accordance with Section 4.2 shall become due and payable under this Agreement. Amounts prepaid under this Agreement may not be re-claimed.

    (b)     At the same time as making any optional prepayment in accordance with paragraph (a) above, the Guarantee Fund shall make a pro rata optional prepayment of the NL Reimbursement Amount then outstanding under the NL Reimbursement and Indemnity Agreement, such that the same proportion of the Reimbursement Amount and the NL Reimbursement Amount then outstanding is prepaid under this Agreement and under the NL Reimbursement and Indemnity Agreement respectively (subject to any rounding).

    (c)     Any prepayment of any amount of the Reimbursement Amount pursuant to paragraph (a) above shall, subject to paragraph (b) of Section 4.7, reduce the Reimbursement Amount by the amount of the prepayment and shall, if made on or after the Second Phase Start Date, be applied pro rata towards each of the remaining Quarterly Installments.

    Section 4.4      Certain Notices. A notice of prepayment pursuant to paragraph (a) of Section 4.3 above shall be effective only if received by the HMT Commissioners before close of business (London time) on the date which is three (3) Business Days before the date of such prepayment. Each notice of prepayment shall specify the amount to be prepaid and the requested prepayment date (which shall be a Business Day).

    Section 4.5      Mandatory Prepayments and other payments out of Guarantee Fund Estate Proceeds. (a)

(i)          If the Guarantee Fund receives any Guarantee Fund Estate Proceeds, it shall within five (5) Business Days pay to each of the HMT Commissioners and The Netherlands, its Pro Rata Entitlement to that amount (such payment, to the extent to be made to the HMT Commissioners, to be made in the currency required under Section 4.7 and, to the extent to be made to The Netherlands, to be made in the currency required under the NL Reimbursement and Indemnity Agreement), provided that the Guarantee Fund shall not be obliged to make such payment (i) if, to the extent and for as long as the terms under which the payment made to the Guarantee Fund and resulting in receipt by the Guarantee Fund of the relevant amount prohibits the Guarantee Fund from applying that amount towards any payment to any other Person, or (ii) if and to the extent that the Guarantee Fund is required to pay the relevant amount to DNB under the DNB Assignment Agreement, or to the FSCS under the FSCS Deed of Assignment or the Settlement Agreement.

(ii)     Any amount received by the HMT Commissioners out of Guarantee Fund Estate Proceeds (whether pursuant to (x) paragraph (i) above, (y) paragraph 2.5 of the FSCS Deed of Assignment, or (z) paragraph (a)(i)(A) of Section 3.7 of the NL Reimbursement and Indemnity Agreement) shall be applied:

        (A)    at any time before the Recovery Percentage is less than 86, in prepayment of the Reimbursement Amount; or

         (B)     at any time after the Recovery Percentage is less than 86:

        (1)          first, in payment to the HMT Commissioners of such amount as is necessary to ensure that, after such application, the HMT Interest Share Receipts equal the HMT Interest Share at that time; and

        (2)          second, in prepayment of the Reimbursement Amount.

(iii)     Any prepayment of any amount of the Reimbursement Amount pursuant to this paragraph shall, subject to paragraph (b) of Section 4.7, reduce the Reimbursement Amount by the amount of the prepayment and shall, if made on or after the Second Phase Start Date, be applied pro rata towards each of the remaining Quarterly Installments.

    (b)     If any of the following events (each such event a “ Mandatory Prepayment Event”) occurs, then on and at any time during the continuation of that Mandatory Prepayment Event the HMT Commissioners may by notice to the Guarantee Fund, with a copy to Iceland, declare the Reimbursement Amount, any compensation accrued thereon and all other amounts payable by any Reimbursement Party under this Agreement or any other Relevant Document to be immediately due and payable, whereupon such amounts shall be immediately due and payable without presentment, demand, protest or other formalities of any kind, all of which are hereby expressly waived by the Reimbursement Parties:

              (I)     (A) any part of the Reimbursement Amount or compensation or any other amount to be paid by any Reimbursement Party to the HMT Commissioners under this Agreement or any other Relevant Document shall not be paid in full when due, at the place and in the currency in which it is expressed to be payable, unless (1) in the case of a failure to so pay any part of the Reimbursement Amount or any compensation payable on a Payment Date pursuant to Section 4.1 (in the case of any part of the Reimbursement Amount) or paragraph (c)(i) of Section 4.2 (in the case of any compensation), such failure is due solely to administrative or technical error and such amount is paid within five (5) Business Days of the due date for payment, or (2) in any other case, such amount is paid within twenty (20) Business Days of the due date for payment, (B) any payment of Reimbursement Amount or compensation or of any other amount under this Agreement or any other Relevant Document previously made by any Reimbursement Party is avoided, set aside, invalidated or reduced;

              (ii)     any Reimbursement Party shall default or, in the case of a default which is capable of remedy, shall default for not less than a period ending twenty (20) Business Days after the earlier of (A) the day on which the HMT Commissioners gives the relevant Reimbursement Party notice of the default, or (B) the day on which any senior officer of any Reimbursement Party becomes aware or should reasonably have become aware of the default, in the observance or performance of any of its obligations under this Agreement or any other Relevant Document (other than as provided in paragraph (i) above) (and for this purpose a “senior officer” shall be, in the case of the Guarantee Fund, a director of the Guarantee Fund and, in the case of Iceland, a Minister or Permanent Secretary in the Ministry of Finance or the Ministry of Foreign Affairs of Iceland, and the heads or deputy heads of the department or departments within the government of Iceland in charge of administering Iceland's Sovereign Debt (including its debt under this Agreement);

              (iii)     any representation made or deemed made by any Reimbursement Party in this Agreement or any other Relevant Document or any document delivered by any Reimbursement Party in connection with any Relevant Document has been or shall prove to have been false or misleading in any material respect as of the time made or deemed made;

              (iv)     the payment obligations of the Guarantee Fund under this Agreement and the other Relevant Documents shall cease to rank at least pari passu with the present and future claims of all of its other creditors or the payment obligations of Iceland under this Agreement or the other Relevant Documents shall cease to rank at least pari passu with the present and future Sovereign Debt of Iceland, in each case other than claims which are mandatorily preferred by Applicable Law in force on the date of this Agreement;

              (v)     (A) this Agreement or any other Relevant Document shall at any time be suspended, revoked or terminated or for any reason cease to be valid and binding or in full force and effect (other than upon expiration in accordance with the terms thereof or as a result of any act or omission of the HMT Commissioners or the FSCS), (B) performance by the relevant Reimbursement Party of any obligation thereunder shall become unlawful, (c) any Reimbursement Party shall so assert in writing, or (D) the validity or enforceability thereof shall be contested by any Reimbursement Party;

              (vi)     the Guarantee Fund (A) shall be dissolved or liquidated, (B) shall admit in writing its inability to, or be generally unable to, pay its debts as such debts become due, taking into account any support available to it, or (c) suspends (whether voluntarily or involuntarily) making payments on any of its debts, in each case except if prior to the occurrence of such event (1) its obligations under this Agreement and the other Relevant Documents have been assumed by a successor entity on terms approved by the HMT Commissioners (such approval not to be unreasonably withheld or delayed), and (2) Iceland has provided such confirmations and entered into such documents as the HMT Commissioners may reasonably require to ensure that Iceland's obligations under this Agreement and the other Relevant Documents continue in full force and effect as if such successor had been a party to this Agreement and the other Relevant Documents from their inception;

              (vii)     Iceland (or any governmental or ministerial authority thereof) fails to make any payment in respect of any of its Sovereign Debt on its due date (or within any originally applicable grace period set out in the agreement constituting such Sovereign Debt) or any such Sovereign Debt becomes due earlier than its stated date of payment by reason of an event of default (however described), provided that no Mandatory Prepayment Event will occur under this paragraph (vii) unless the aggregate amount of Sovereign Debt in respect of which any amount has not been paid when due or which has become due early exceeds £50,000,000 or its equivalent in other currencies;

              (viii)     (A) any Reimbursement Party shall fail to comply with any Applicable Law to which it is subject, in circumstances where such failure might have a Mandatory Prepayment-Related Material Adverse Effect, or (B) any Applicable Law at any time necessary to enable the Guarantee Fund or Iceland to comply with any of its obligations under any of the Relevant Documents shall be revoked, withdrawn, withheld or otherwise not in full force and effect or shall be modified or amended in a manner that (in the aggregate) has had or would have a Mandatory Prepayment-Related Material Adverse Effect.

    (b)      Notification of Mandatory Prepayment Event. If any Reimbursement Party becomes aware that a Mandatory Prepayment Event has occurred, it shall notify the HMT Commissioners of such occurrence as soon as possible, together with details of the events or circumstances comprising such Mandatory Prepayment Event and of the steps being taken to remedy the same.

    Section 4.6      Pay-out Costs. (a) The Guarantee Fund agrees to reimburse to the HMT Commissioners the amount of any one or more Disbursements (together the “Pay-out Costs Disbursement”) made prior to 31st March, 2010 in respect of Pay-out Costs.

    (b)     The Guarantee Fund agrees to pay to the HMT Commissioners on each Payment Date falling in 2011 an amount equal to the aggregate of (I) one quarter of the Pay-out Costs Disbursement, and (ii) compensation thereon, accrued at the First Phase Rate from October 1, 2009 until the relevant Payment Date.

    Section 4.7      Payments. (a) All payments of any part of the Reimbursement Amount, any compensation and all other amounts to be made by the Guarantee Fund to the HMT Commissioners under this Agreement and the other Relevant Documents shall be received in Sterling, in immediately available funds, without deduction, set-off or counterclaim, in the HMT's Settlement Account not later than 5:00 p.m. (Amsterdam time) on the date on which such payment is due (and each such payment received after such time on such due date to be deemed to have been received on the next Business Day) provided that:

(I)          if the HMT Commissioners receive an amount from the FSCS pursuant to paragraph 2.5 of the FSCS Deed of Assignment, the HMT Commissioners shall, as soon as reasonably possible:

        (A)     pay to The Netherlands its Pro Rata Entitlement to that amount to be applied in accordance with paragraph (a)(ii) of Section 3.5 of the NL Reimbursement and Indemnity Agreement, such payment to be made in the currency received and without making any conversion, with any conversion into euro to be made by The Netherlands pursuant to the NL Reimbursement and Indemnity Agreement;

        (B)     if such payment has been received from the FSCS in a currency other than Sterling, convert the remaining amount of such payment into Sterling at such rate as it may reasonably select and such payment shall from the time of such conversion be applied in accordance with paragraph (a)(ii) of Section 4.5 and to the extent that it is so applied in accordance with paragraph (a)(ii)(A) or paragraph (a)(ii)(B)(2) of Section 4.5 shall satisfy the obligation to repay the Reimbursement Amount up to the Sterling amount obtained by the HMT Commissioners as a result of such conversion; and

(ii)     if the HMT Commissioners receive an amount from The Netherlands pursuant to paragraph (a)(i)(A) of Section 3.7 of the NL Disbursement and Indemnity Agreement, paragraph (i)(B) above shall apply mutatis mutandis.

    (b)     If the Guarantee Fund makes a payment to the HMT Commissioners that is insufficient to discharge all matured payments then due under this Agreement and the other Relevant Documents from the Guarantee Fund to the HMT Commissioners, that payment shall be applied (i) first, towards discharging any costs and expenses of the HMT Commissioners which the Guarantee Fund is required to reimburse pursuant to this Agreement or any other Relevant Document, (ii) second, towards payment of any accrued compensation which is due but unpaid under this Agreement or any other Relevant Document, and (iii) third, towards payment of such part of the Reimbursement Amount as is then due.

    (c)     If any payment under this Agreement is stated to be due on a day that is not a Business Day, or if any period by reference to which any such sum is calculated under this Agreement or any other Relevant Document would end on a day which is not a Business Day, then such date or period shall be extended to the next Business Day and such extension of time shall in such case be included in the computation of payment of compensation (if applicable), provided that, if such extension would cause such payment to be made, or such period to end, in the next following calendar month, such date shall be brought forward to, or such period shall end, on the next preceding Business Day.

ARTICLE V
LOSSES, ETC.


    Section 5.1      Losses. The Guarantee Fund shall pay to the HMT Commissioners, upon the request of the HMT Commissioners, such amount as shall be sufficient to compensate it for any loss, cost or liability that is attributable to (a) the conversion of one currency into another currency pursuant to this Agreement or any other Relevant Document, (b) the occurrence of any Mandatory Prepayment Event or any breach by any Reimbursement Party of any of its obligations under this Agreement or any other Relevant Document, or (c) the preservation, perfection or enforcement of any right, power or privilege of the HMT Commissioners under this Agreement or any other Relevant Document, other than, in each case, any “costs of arbitration” within the meaning of the PCA Rules which an arbitral tribunal in arbitration proceedings as referred to in Section 10.10 has determined are to be borne by the HMT Commissioners.

    Section 5.2      Taxes. All payments of any part of the Reimbursement Amount or compensation and all other amounts payable under this Agreement or any other Relevant Document by any Reimbursement Party to the HMT Commissioners shall be made free and clear of and without reduction or liability for or on account of any Taxes, provided that if any Reimbursement Party shall be required by Applicable Law to deduct any Taxes from such payments, then the sum payable shall be increased as necessary so that after making all required deductions (including deductions applicable to additional sums payable under this Section 5.2) the HMT Commissioners receive an amount equal to the sum they would have received had no such deductions been made.

    Section 5.3      Full and final settlement (a) The HMT Commissioners shall not have (and to the extent that absent this Section 5.3 it would have, it irrevocably renounces) any claim against any Reimbursement Party in relation to the payment of compensation by the FSCS in respect of the claims of Landsbanki London Depositors as referred to in the Recitals, other than the claims of the HMT Commissioners under this Agreement and the other Relevant Documents.

    (b)     No Reimbursement Party shall make (and to the extent that absent this paragraph (b) it would have, it irrevocably renounces) any claim, or initiate any proceedings, including indemnification proceedings against the HMT Commissioners or the FSCS in relation to (i) the payment of compensation by the FSCS in respect of claims of Landsbanki London Depositors as referred to in the Recitals (including any rejections of such claims), or (ii) any claim of a Landsbanki London Depositor in respect of which compensation was not paid by the FSCS (for whatever reason). The FSCS has the benefit of and may enforce the provisions of the preceding sentence.

ARTICLE VI
INDEMNITY


    Section 6.1      Representation, warranty and indemnity. For good and valuable consideration, the receipt and sufficiency of which are hereby acknowledged, Iceland hereby:

    (a)      irrevocably and unconditionally represents, warrants and undertakes to the HMT Commissioners that the Guarantee Fund will ensure the full and punctual payment and performance (whether at stated maturity, upon acceleration or otherwise) of all its obligations under this Agreement and the other Relevant Documents and thus ensure that there will at no time be any Shortfall Amount;

    (b)     undertakes to the HMT Commissioners that, whenever there is any Shortfall Amount, it will, on demand, pay that Shortfall Amount to the HMT Commissioners as if it were the principal obligor; and

    (c)     undertakes to indemnify the HMT Commissioners, on demand, against any cost, loss or liability suffered by the HMT Commissioners if (a) any Shortfall Amount arises, or (b) any obligation of the Guarantee Fund under this Agreement or any other Relevant Document is or becomes illegal, not binding, invalid or unenforceable. The amount of the cost, loss or liability will be equal to the amount which the HMT Commissioners would otherwise have been entitled to recover.

    Section 6.2      Obligations Unconditional. The obligations of Iceland under this Article VI shall be unconditional and absolute and, without limiting the generality of the foregoing, shall not be released, discharged or otherwise affected by:

    (a)     any extension, renewal, settlement, compromise, waiver or release in respect of any obligation(s) of any Reimbursement Party under this Agreement or the other Relevant Documents, by operation of law or otherwise (other than with respect to any such extension, renewal, settlement, compromise, waiver or release agreed in accordance with the terms hereunder as expressly applying to the obligations of Iceland hereunder);

    (b)     any modification, novation, extension, restatement of or supplement to this Agreement or any other Relevant Document (other than with respect to any modification, novation, extension, restatement, amendment of or supplement agreed in accordance with the terms hereof as expressly applying to the obligations of Iceland under this Article VI);

    (c)     any release, impairment, non-perfection or invalidity of any Lien securing any Shortfall;

    (d)     any change in the corporate existence, structure or ownership of the Guarantee Fund or any other Person, or any insolvency, reorganisation or similar proceedings in respect of Landsbanki, the Guarantee Fund or any other Person;

    (e)     the existence of any claim, set-off or other rights that the HMT Commissioners may have at any time against the Guarantee Fund or any other Person, whether in connection herewith or with any unrelated transactions;

    (f)     any invalidity or unenforceability relating to or against any Reimbursement Party for any reason of this Agreement or any other Relevant Document, or any provision of Applicable Law purporting to prohibit the performance by any Reimbursement Party of any of its obligations under this Agreement or any other Relevant Document (other than any such invalidity or unenforceability with respect solely to the obligations of Iceland under this Article VI);

    (g)     any other act or omission to act or delay of any kind by any Reimbursement Party or any other Person or any other circumstance whatsoever that might, but for the provisions of this Section 6.2, constitute a legal or equitable discharge of the obligations of any Reimbursement Party under this Agreement or any other Relevant Document.

    Section 6.3      Discharge Only upon Payment in Full; Reinstatement In Certain Circumstances. The obligations of Iceland under this Article VI constitute continuing obligations which will extend to the ultimate balance of any Shortfall Amount, regardless of any intermediate payment or discharge, whether in whole or in part, and shall remain in full force and effect until all Shortfall Amounts shall have been paid or otherwise performed in full and no other Shortfall Amount can arise. If at any time any payment made under this Agreement or any other Relevant Document is rescinded or must otherwise be restored or returned upon the insolvency, bankruptcy, reorganization or similar event of the Guarantee Fund or any other Person or otherwise, then the obligations of Iceland hereunder with respect to such payment shall be reinstated at such time as though such payment had been due but not made at such time.

    Section 6.4      Waiver. Iceland hereby irrevocably and unconditionally waives, to the fullest extent permitted by Applicable Law, (a) notice of acceptance of this Agreement and notice of any liability to which this Agreement may apply, (b) all notices that may be required by Applicable Law or otherwise to preserve intact any rights of the HMT Commissioners against the Guarantee Fund, including any demand, presentment, protest, proof of notice of non-payment, notice of any failure on the part of the Guarantee Fund to perform and comply with any covenant, agreement, term, condition or provision of any agreement and any other notice to any other Person that may be liable in respect of the obligations of the Guarantee Fund except any of the foregoing as may be expressly required hereunder, (c) any right to the enforcement, assertion or exercise by the HMT Commissioners of any right, power, privilege or remedy conferred upon it under this Agreement, any other Relevant Document or otherwise, and (d) any requirement that the Netherlands exhaust any right, power, privilege or remedy, or mitigate any damages resulting from a default, under this Agreement or any other Relevant Document. This waiver applies irrespective of any Applicable Law or any provision of this Agreement or any other Relevant Document to the contrary.

    Section 6.5      Subrogation. Iceland shall not enforce any payment by way of subrogation, indemnity, contribution or otherwise, or exercise any other right, (or otherwise benefit from any payment or other transfer arising from any such right) which it may have against the Guarantee Fund by reason of the performance by it of its obligations under this Agreement or any other Relevant Document so long as any obligations under this Agreement or any other Relevant Document remain unpaid or unsatisfied (and, if Iceland receives any payment or distribution in relation to such rights, it will promptly turn such payment or distribution over to the HMT Commissioners).

    Section 6.6      Additional security. The representation, warranty, undertaking and indemnity set out in this Article VI is in addition to and is not in any way prejudiced by any other representation, warranty, indemnity, security or other document or instrument now or subsequently held by the HMT Commissioners or any other Person.

ARTICLE VII
CONDITIONS PRECEDENT


    Section 7.1      Conditions Precedent. The effectiveness of this Agreement is subject to the conditions precedent that:

    (a)     the HMT Commissioners shall have received the following documents, each of which shall be in form and substance satisfactory to the HMT Commissioners:

              (i)     Confirmation re. NL Reimbursement and Indemnity Agreement. Confirmation from The Netherlands that all conditions precedent to be satisfied in order for the NL Reimbursement and Indemnity Agreement to become effective (other than receipt of confirmation from the HMT Commissioners that all conditions precedent to be satisfied in order for this Agreement to become effective) have been satisfied;

              (ii)     Authorising Act. A copy of an Act from Iceland, which has come into force and is not, or no longer, capable of being revoked or avoided by any referendum and which provides for the unconditional and unreserved authorization of the indemnity set out in Article VI and for any other authorization necessary to ensure that the obligations of the Reimbursement Parties under this Agreement and the other Relevant Documents are legal, valid, binding and enforceable, together with a certified translation thereof into English;

              (iii)     Other authorizations. A copy of an exemption granted by the Central Bank of Iceland ( Seðlabanki Íslands) to the Guarantee Fund under Rules 370/2010 on Foreign Exchange in respect of the Guarantee Fund's execution and performance of this Agreement and the other Relevant Documents, together with a certified translation thereof into English; and

    (b)     Opinions of Counsel. An opinion of Lex, legal advisers to the Guarantee Fund as to the laws of Iceland and an opinion of the State Attorney of Iceland ( Ríkislögmaður) in respect of, inter alia, the capacity and due authorization of, and valid execution of this Agreement and each other Relevant Document by, each of the Reimbursement Parties;

    (c)     the Guarantee Fund and the FSCS shall have entered into the FSCS Deed of Assignment; and

    (d)     the Guarantee Fund and the FSCS shall have entered into the Settlement Agreement Side Letter.

    Section 7.2      Satisfaction of Conditions Precedent. If the actions referred to in Section 7.1 have not been completed by December 31, 2010:

    (a)     if the non-completion consists of the FSCS not having executed and delivered to the Guarantee Fund the FSCS Deed of Assignment and the Settlement Agreement Side Letter, the Reimbursement Parties may, by notice to the HMT Commissioners, terminate this Agreement; and

    (b)     if the non-completion consists of any other action referred to in Section 7.1, the HMT Commissioners may by notice to the Guarantee Fund, with a copy to Iceland, terminate this Agreement,

whereupon, in each case, this Agreement shall cease to have any effect.

    Section 7.3      Termination of Loan Agreement and Acceptance and Amendment Agreement. On the date on which this Agreement becomes effective, the Loan Agreement and the Acceptance and Amendment Agreement shall terminate, if not previously terminated.

ARTICLE VIII
REPRESENTATIONS AND WARRANTIES


    Section 8.1      Guarantee Fund representations. The Guarantee Fund represents and warrants to the HMT Commissioners as of the date of this Agreement as follows:

(A)     The Guarantee Fund is (a) a private foundation, duly organized, validly existing and, to the extent applicable under the laws of Iceland, in good standing under the laws of Iceland, and (b) has all requisite corporate power necessary to own its assets and carry on its business as now being conducted.

(B)     This Agreement and each other Relevant Document to which it is a party have been duly executed and delivered by it, and constitute legal, valid and binding obligations of it, enforceable against it in accordance with their terms, in each case except as may be limited by equitable principles of general applicability which are specifically referred to in the relevant legal opinion referred to in paragraph (c) of Section 7.1.

    Section 8.2      Reimbursement Party representations. Each Reimbursement Party represents and warrants to the HMT Commissioners as of the date of this Agreement that the exemption granted by the Central Bank of Iceland ( Seðlabanki Íslands) to the Guarantee Fund under Rules 370/2010 on Foreign Exchange in respect of the Guarantee Fund's execution and performance of this Agreement and the other Relevant Documents referred to in paragraph (a)(iii) of Section 7.1 is unconditional, irrevocable and in full force and effect and there are no other authorizations, licenses, consents or other approvals or actions required from any Icelandic Governmental Authority in connection with the execution or performance of this Agreement or the other Relevant Documents or to ensure that the obligations of the Reimbursement Parties under this Agreement and the other Relevant Documents are legal, valid, binding and enforceable.

ARTICLE IX
COVENANTS


    Section 9.1      Comparability of treatment. If any Reimbursement Party enters into any Relevant Financing Arrangement and, under that Relevant Financing Arrangement (taken as a whole), the financier party to that Relevant Financing Arrangement enjoys an overall more favorable treatment than the HMT Commissioners under this Agreement and the other Relevant Documents, or has the benefit of any Lien, then the Reimbursement Parties shall grant the HMT Commissioners the same favorable treatment or the benefit of a similar Lien (and the Reimbursement Parties shall enter into any documentation necessary or desirable in order to do so).

    Section 9.2      Equal treatment. If the Guarantee Fund, any Other Guarantee Fund or Iceland makes any Excess Payment, the Guarantee Fund shall pay (or ensure that each relevant Other Guarantee Fund pays) an amount equal to the Excess Payment to each Landsbanki London Depositor, provided that, to the extent that the HMT Commissioners or the FSCS has made any payment to a Landsbanki London Depositor in respect of a claim of that Landsbanki London Depositors under Act No. 98/1999 in excess of .20,887 per claim, the payment under this Section shall be made to the HMT Commissioners or the FSCS, as the case may be.

ARTICLE X
MISCELLANEOUS


    Section 10.1      Change of circumstance. The HMT Commissioners agree that, if at any time the then most recently published Article IV review by the IMF in relation to Iceland states that a significant deterioration has occurred in the sustainability of the debt of Iceland, relative to the assessment of such sustainability by the IMF Fund as of November 19, 2008, then, if Iceland so requests, the HMT Commissioners will meet with Iceland to discuss the situation and consider whether, and if so how, this Agreement and the other Relevant Documents should be amended to reflect the relevant change in circumstances.

    Section 10.2      Other changes. If the Accepted Claims Amount or the Accepted Interest Amount shall at any time change as a result of any decision of the Winding up Board of Landsbanki or of any competent court:

              (i)     any calculation pursuant to this Agreement or the other Relevant Documents which is directly or indirectly based on the Accepted Claims Amount or the Accepted Interest Amount shall be recalculated as if the Accepted Claims Amount or the Accepted Interest Amount had been the as so changed Accepted Claims Amount or the Accepted Interest Amount with effect from the date of this Agreement;

              (ii)     if any amount shall have been paid or allocated on the basis of the previous calculation then such payment or allocation shall be reversed or as the case may be reallocated to the extent required in order to reflect such recalculation.

    Section 10.3      Waiver. No failure on the part of the HMT Commissioners to exercise and no delay in exercising, and no course of dealing with respect to, any right, power or privilege under the Agreement or any other Relevant Document shall impair that right, power or privilege or operate as a waiver or variation thereof, nor shall any single or partial exercise of any right, power or privilege under any Relevant Document preclude any other or further exercise thereof or the exercise of any other right, power or privilege. Any liberty or power which may be exercised or any determination which may be made under this Agreement by the HMT Commissioners (including any act, matter or thing as agreed, specified, determined, decided or notified by the HMT Commissioners to the Guarantee Fund or Iceland) may be exercised or made in the absolute and unfettered discretion of the HMT Commissioners from time to time, which will not be under any obligation to give reasons therefor.

    Section 10.4      Notices. All notices, requests, instructions, directions and other communications provided for herein shall be given or made in writing in English by personally delivered letter or by fax (and may be copied, but not validly served, by e-mail) delivered to the intended recipient as follows:

    (a)     if to the Guarantee Fund, to it at Borgartun 26, 3rd floor, 105 Reykjavik, Iceland, Fax: +354 590 2606, Attn.: Managing Director, with a copy to Iceland, at Ministry of Finance, Arnarhvoli Lindargötu, 150 Reykjavík, Iceland, Fax: +354 5628280, Attn.:Permanent Secretary;

    (b)     if to Iceland, to it at Ministry of Finance, Arnarhvoli Lindargötu, 150 Reykjavík, Iceland, Fax: +354 5628280, Attn.:Permanent Secretary; and

    (c)     in the case of the HMT Commissioners, to them at HM Treasury, 1 Horse Guards Road, London SW1A 2HQ, United Kingdom and +44 (0)20 7270 5764 (attention: Tom Scholar); and

    (d)     in the case of the FSCS, to it at Financial Services Compensation Scheme, 7 th Floor, Lloyds Chamber, 1 Portsoken Street, London E1 8BN, United Kingdom and +44 (0)20 7892 7637 (attention: Mark Neale).

Except as otherwise provided in this Agreement, all such communications shall be deemed to have been duly given, (i) when personally delivered at the address of the Person to be served, at the time when it is so left (or, if left on a day that is not a Business Day, at 8:15am (local time) on the next following Business Day), and (ii) when sent by facsimile transmission, when confirmation of receipt is received from the receiving facsimile machine (or, if sent on a day that is not a Business Day, at 8:15am (local time) on the next following Business Day), provided that, in proving the giving of notice under or in connection with this Agreement, it shall be sufficient to prove that the notice was delivered to the address for service.

    Section 10.5      Amendments, Etc. Except as otherwise expressly provided in this Agreement, any provision of this Agreement and (except as specifically provided therein) any other Relevant Document may be modified, supplemented or waived only in writing executed by the Parties affected by the modification, supplement or waiver.

    Section 10.6      Successors and Assigns. (a) This Agreement shall be binding upon and inure to the benefit of the Parties. No Party may assign, transfer or encumber any of its rights or obligations under this Agreement or any other Relevant Document (any attempt to do so being null and void ab initio).

    (b)     This Agreement is made and entered into for the sole protection and legal benefit of the Parties and no other Person shall be a direct or indirect legal beneficiary of, or have any direct or indirect cause of action or claim in connection with, this Agreement under the Contracts (Rights of Third Parties) Act 1999, provided that the FSCS has the benefit of and may enforce any right accorded to it, or any term or condition expressed to be for its benefit, in this Agreement.

    Section 10.7      Captions. The table of contents and captions and section headings appearing herein are included solely for convenience of reference and are not intended to affect the interpretation of any provision of this Agreement.

    Section 10.8      Counterparts. This Agreement may be executed in any number of counterparts, all of which taken together shall constitute one and the same instrument, and any of the Parties may execute this Agreement by executing any such counterpart. Each counterpart shall be an original copy of this Agreement, but they shall together constitute one and the same instrument.

    Section 10.9      Governing Law. THIS AGREEMENT AND ANY MATTER, CLAIM OR DISPUTE ARISING OUT OF OR IN CONNECTION WITH IT, WHETHER CONTRACTUAL OR NON-CONTRACTUAL, SHALL BE GOVERNED BY, AND CONSTRUED IN ACCORDANCE WITH, THE LAWS OF ENGLAND.

    Section 10.10 Arbitration. (a) ANY DISPUTE, LEGAL ACTION OR PROCEEDING BY OR AGAINST ANY PARTY HERETO WITH RESPECT TO OR ARISING OUT OF THIS AGREEMENT, WHETHER CONTRACTUAL OR NON-CONTRACTUAL AND INCLUDING ANY DISPUTE, LEGAL ACTION OR PROCEEDING REGARDING THE EXISTENCE, VALIDITY, FORMATION OR TERMINATION OF THIS AGREEMENT (A “ DISPUTE”) SHALL BE SETTLED BY FINAL AND BINDING ARBITRATION IN ACCORDANCE WITH THE PCA RULES, WHICH RULES ARE DEEMED INCORPORATED BY REFERENCE INTO THIS CLAUSE EXCEPT TO THE EXTENT THAT THEY RELATE TO THE NATIONALITY OF THE ARBITRATOR.

    (b)    In any arbitral proceedings as referred to in paragraph (a) above:

              (i)     the number of arbitrators shall be three;

              (ii)     if all Parties are party to the arbitral proceedings, each of (A) the Reimbursement Parties jointly (and failing such joint appointment Article 7(2) of the PCA Rules shall apply), and (B) the HMT Commissioners shall appoint one arbitrator and the two arbitrators thus appointed shall choose the third arbitrator who will act as the presiding arbitrator of the arbitral tribunal;

              (iii)     the appointing authority shall be the Secretary-General of the Permanent Court of Arbitration;

              (iv)     the place of arbitration shall be London, England;

              (v)     the language to be used in the arbitral proceedings shall be English;

              (vi)     the IBA Rules on the Taking of Evidence in International Arbitration of 29 May 2010 shall apply;

              (vii)     the arbitral tribunal shall use its best efforts to make a final award within twelve months of the appointment of the third arbitrator who acts as the presiding arbitrator of the arbitral tribunal, and shall conduct the arbitral proceedings accordingly;

              (viii)     the arbitral tribunal shall rule in accordance with the laws of England (and not, for the avoidance of doubt, as amiable compositeur or ex aequo et bono); and

              (ix)     all Parties, the arbitrators and the Secretary-General and the International Bureau of the Permanent Court of Arbitration shall protect the confidentiality of the existence of the arbitral proceedings and of any information received by them in connection with such proceedings.

    Section 10.11      Waiver of Sovereign Immunity. Each of the Reimbursement Parties consents generally to the issue of any process in connection with any Dispute and to the giving of any type of relief or remedy against it, including the making, enforcement or execution against any of its Property or assets (regardless of its or their use or intended use) of any order, judgment or award (including, for the avoidance of doubt, any arbitral award made in arbitral proceedings pursuant to Section 10.10). If any Reimbursement Party or any of its Property or assets is entitled in any jurisdiction to any immunity from service of process or of other documents relating to any Dispute, or to any immunity from jurisdiction, suit, judgment, award, execution, attachment (whether before judgment, in aid of execution or otherwise) or other legal process, this is irrevocably waived to the fullest extent permitted by the law of that jurisdiction. Each of the Reimbursement Parties also irrevocably agrees not to claim any such immunity for themselves or their respective Property or assets. The Parties confirm (i) that this paragraph does not extend to any assets of Iceland which enjoy immunity under the Vienna Convention on Diplomatic Relations, any assets of Iceland located in Iceland which are necessary for the proper functioning of Iceland as a sovereign power, or to any assets of the Central Bank of Iceland ( Seðlabanki Íslands) and (ii) nothing in this Agreement or any other Relevant Document is intended to remove or shall have the effect of removing from Iceland its control of its natural resources and its right to decide on the utilisation and form of ownership thereof.

    Section 10.12      Severability. The illegality or unenforceability in any jurisdiction of any provision hereof or of any document required hereunder shall not in any way affect or impair the legality or enforceability of the remaining provisions of this Agreement or such other document in such jurisdiction or such provision in any other jurisdiction.

[Signatures Follow.]


    IN WITNESS WHEREOF, the Parties have caused this Agreement to be duly executed and delivered as of the day and year first above written.

The Depositors' and Investors' Guarantee Fund of Iceland (Tryggingarsjóður Innstæðueigenda og Fjárfesta)
By: __________________________________
Name: [*]
Title: [*]
Iceland
By: __________________________________
Name: [*]
Title: [*]
The Commissioners of Her Majesty's Treasury
By: __________________________________
Name: [*]
Title: [*]



SCHEDULE I to Reimbursement Agreement

    “ Acceptance and Amendment Agreement” means the Acceptance and Amendment Agreement dated 19 October 2009 between the Parties.

    “ Accepted Claims Amount” means, at any time, the amount of the Assigned Claim (expressed in ISK) which has at that time been accepted by the Winding up Board of Landsbanki (or by a competent court, such court determination to prevail if different from such Winding up Board acceptance and binding upon such Winding up Board) as constituting a valid claim in the winding up of Landsbanki under Article 112 of the Icelandic Act no. 21/1991 on Bankruptcies etc. ( Lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.).

    “ Accepted Interest Amount” means, at any time, the amount of any interest included in the Accepted Claims Amount.

    “ Assigned Claim” means, collectively, the claims against Landsbanki assigned or expressed to be assigned to the Guarantee Fund by FSCS pursuant to the FSCS Deed of Assignment.

    “ Act No. 98/1999” means the Icelandic Act No. 98/1999 on Deposit and Investor- Compensation Scheme ( Lög nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta) as in force on 11 October 2008.

    “ Agreement” has the meaning set forth in the introduction hereto.

    “ Applicable Law” means any applicable statute, law, regulation, ordinance, rule, judgment, rule of common law, order, decree, approval, concession, grant, franchise, license, agreement, directive, guideline, policy, requirement or other governmental restriction or any similar form of decision of, or determination by (or any interpretation or administration of any of the foregoing by), any Governmental Authority, whether in effect as of the date hereof or (unless a contrary indication appears in this Agreement or any other Relevant Document) thereafter.

    “ Arrears Rate” means, at any time of determination, a rate per annum equal to the sum of (a) for the period from the date of this Agreement to the Second Phase Start Date, the First Phase Rate plus 0.3 per cent. per annum, and (b) for the period from the Second Phase Start Date onwards, the Second Phase CIRR plus 0.5 per cent. per annum.

    “ Business Day” means a day (other than Saturday or Sunday) on which commercial banks are not authorized or required to close in Reykjavik (Iceland) or London (England).

    “ Commencement Date” means 5 June 2009.

    “ Defaulted Amount” means each amount which has fallen due for payment by a Reimbursement Party but remains unpaid in breach of the terms of this Agreement.

    “ Directive 94/19/EC” means Directive 94/19/EC of the European Parliament and of the Council of 30 May 1994 on deposit-guarantee schemes as in force on 11 October 2008 (subject to any contrary indication).

    “ Disbursement” means a disbursement made or to be made under this Agreement.

    “ Disbursement Date” means the date on which a Disbursement is or is to be made.

    “ Disbursement Request” means a notice substantially in the form of Schedule II.

    “ DNB” means “DNB” as defined in the NL Reimbursement and Indemnity Agreement.

     “ DNB Assignment Agreement” means the “DNB Assignment Agreement” as defined in the NL Reimbursement and Indemnity Agreement.

    “ euro” or “ .” means the lawful currency for the time being of the Member States of the European Union that adopt or have adopted the euro as their lawful currency in accordance with legislation of the European Community relating to Economic and Monetary Union.

    “ Excess Payment” means any payment in excess of an amount of .20,887 in respect of any claim or claims of a Landsbanki Depositor (not including, for the avoidance of doubt, any former Landsbanki Depositor who became a depositor of NBI hf.) other than a Landsbanki London Depositor.

    “ Facility” means the term facility described in paragraph (a) of Section 2.1.

    “ Facility Amount” has the meaning ascribed thereto in paragraph (a) of Section 2.1.

     “ First Phase Rate” means 3.3 per cent. per annum.

     “ FSCS” means the Financial Services Compensation Scheme Limited.

    “ FSCS Bank Account” means one or more bank accounts maintained by the HMT Commissioners in their books for the FSCS.

    “ FSCS Deed of Assignment” means the deed of assignment of claims to be entered into between the Guarantee Fund and the FSCS in the form agreed between the Parties before the date of this Agreement.

    “ Governmental Authority” means any nation or government, any state or municipality, any multi-lateral or similar organization or any other agency, instrumentality or political subdivision thereof and any entity exercising executive, legislative, judicial, monetary, regulatory or administrative functions of or pertaining to government.

    “ Guarantee Fund” has the meaning set forth in the introduction hereto.

    “ Guarantee Fund Estate Proceeds” means (i) any or all amounts as the context requires received by the Guarantee Fund in respect of the claims of or formerly of Landsbanki Depositors or otherwise in respect of the insolvency of Landsbanki, and (ii) any or all amounts as the context requires received by DNB which is payable by DNB to The Netherlands pursuant to paragraph 2.4 of the DNB Assignment Agreement, and (iii) any or all amounts as the context requires received by the FSCS which is payable by the FSCS to the HMT Commissioners pursuant to paragraph 2.5 of the FSCS Deed of Assignment.

    “ HMT Commissioners” has the meaning set forth in the introduction hereto.

    “ HMT Interest Share Receipts” means, at any time, the aggregate of all amounts applied in accordance with paragraph (a)(ii)(B)(1) of Section 4.5 at or prior to that time.

    “ HMT Interest Share” means, at any time, a fraction of the Interest Proceeds at that time, calculated by multiplying those Interest Proceeds by a fraction dependent on the Recovery Percentage at that time and determined in accordance with the following table:

Recovery Percentage HMT Interest Share
86 or less Zero
≥86 . 87 0.05
≥87 . 88 0.10
≥88 . 89 0.15
≥90 . 91 0.20
≥91 . 92 0.25
≥92 . 93 0.35
≥93 . 94 0.45
≥94 . 95 0.55
≥95 . 96 0.65
≥96 . 97 0.75
≥97 . 98 0.85
≥98 . 99 0.95
≥99 . 100 1

    “ HMT's Settlement Account” means one or more bank accounts maintained by the HMT Commissioners from time to time as notified by the HMT Commissioners to the Guarantee Fund.

     “ Iceland” has the meaning set forth in the introduction hereto.

    “ Interest Proceeds” means, at any time, an amount (expressed in Sterling) equal to a fraction of the Guarantee Fund Estate Proceeds at that time, calculated by multiplying the amount of those Guarantee Fund Estate Proceeds by a fraction the numerator of which is equal to the Accepted Interest Amount and the denominator of which is equal to the Accepted Claims Amount, in each case at that time.

    “ ISK Equivalent” means, in relation to any amount in euro or Sterling and as at any day, the equivalent of such amount in Krónur calculated at the average of the published daily rates of exchange as published by the Central Bank of Iceland ( Seðlabanki Íslands) (or, to the extent that no such rates of exchange are published by the Central Bank of Iceland, the published daily rates of exchange derived from a source reasonably agreed between Iceland and the HMT Commissioners or, if Iceland and the HMT Commissioners fail to agree such rate prior to the date for which the relevant ISK Equivalent is to be determined, as determined by arbitration in accordance with Section 10.10) for the period of one month ending on the day immediately preceding that day.

    “ Krónur” or “ ISK” means the lawful currency for the time being of Iceland.

    “ Landsbanki” means Landsbanki Íslands hf., a financial undertaking incorporated under the laws of Iceland.

    “ Landsbanki Depositor” means each Person who has deposited any funds, or otherwise has any credit balance, with Landsbanki and whose corresponding claim against Landsbanki is guaranteed by the Guarantee Fund according and subject to Act No. 98/1999 (including, for the avoidance of doubt, each Landsbanki London Depositor).

    “ Landsbanki London” means the London branch of Landsbanki.

    “ Landsbanki London Depositor” means (i) each depositor with Landsbanki London's “Icesave” product; (ii) any person who has submitted an application to open an account with Landsbanki London's “Icesave” product and has transferred money to Barclays as UK clearing bank for Landsbanki London but for whom no “Icesave” account has been opened, so that the money transferred continues to be held by Barclays; and (iii) any other person who has deposited any funds, or otherwise has any credit balance, with Landsbanki London, provided that, in this final case, the corresponding claim against Landsbanki is eligible for compensation under the rules of the FSCS.

    “ Lien” means any mortgage, lien, pledge, fiduciary transfer, charge, encumbrance or other security interest.

    “ Loan Agreement” means the Loan Agreement dated 5 June 2009 between the Parties.

    “ Mandatory Prepayment Event” means any event or circumstance specified as such in paragraph (b) of Section 4.5.

    “ Mandatory Prepayment-Related Material Adverse Effect” means any effect which impairs the ability of any Reimbursement Party to perform its payment or other material obligations under this Agreement or any other Relevant Document.

    “ NL Quarterly Installment” means a “Quarterly Installment” as defined in the NL Reimbursement and Indemnity Agreement.

    “ NL Reimbursement and Indemnity Agreement” means the Reimbursement and Indemnity Agreement entered or to be entered into on or about the date of this Agreement between the Guarantee Fund, Iceland and The Netherlands.

    “ NL Reimbursement Amount” means, from time to time, the “Reimbursement Amount” as defined in the NL Reimbursement and Indemnity Agreement.

    “ NL Second Phase Reimbursement Amount” means the “Second Phase Reimbursement Amount” as defined in the NL Reimbursement and Indemnity Agreement.

    “ Other Guarantee Fund” means any deposit-guarantee scheme introduced and officially recognized in Iceland for the purpose of Directive 94/19/EC (including any modification or re-enactment thereof or any substitution therefor), other than the Guarantee Fund.

    “ Parties” has the meaning set forth in the introduction hereto.

    “ Payment Date” means January 1, 2011 and each April 1, July 1, September 1 and January 1 falling after January 1, 2011.

    “ Pay-out Costs” means the costs incurred by the FSCS in paying compensation to Landsbanki London Depositors in respect of their claims against Landsbanki and the Guarantee Fund under Act No. 98/1999 as referred to in the Recitals, which is an amount of £10,000,000 (ten million pounds Sterling).

    “ PCA Rules” means Permanent Court of Arbitration Optional Rules for Arbitrating Disputes between Two Parties of Which Only One Is a State, as in effect on the date hereof.

    “ Person” means any individual, corporation, company, voluntary association, partnership, limited liability company, joint venture, trust, unincorporated organization, Governmental Authority or other entity of whatever nature.

    “ Pro Rata Entitlement” means, as at any time, a fraction calculated by dividing (a) (i) in the case of The Netherlands, an amount of £1,134,680,211.10 (being the Sterling equivalent of the amount of the NL Reimbursement Amount as at the date of the NL Reimbursement and Indemnity Agreement converted into Sterling at a rate of .1.1653 to £1.00), or (ii) in the case of the HMT Commissioners, the aggregate amount of all Disbursements made up to that time (which the Parties believe to have been GBP 2,254,417,851.51 as at November 24, 2010), by (b) the aggregate of the amounts referred to in item (a) above.

     “ Property” of any Person means any property, rights or revenues, or interest therein, of such Person.

    “ Quarterly Installments” means the quarterly installments in which the Second Phase Reimbursement Amount must be paid, the amount and number of which are determined in accordance with Section 4.1 (subject to the other provisions of this Agreement).

    “ Recovery Percentage” means, at any time, such fraction, expressed as a percentage, of the Accepted Claims Amount as under Icelandic Act no. 21/1991 on Bankruptcies etc. ( Lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.) (or otherwise under the laws of Iceland) has been or is deemed to have been paid by the Winding up Board of Landsbanki in payment of the Accepted Claims Amount at that time.

    obtained by dividing the HMT Reimbursement Proceeds at that time by the aggregate amount of the Reimbursement Amount as at the date of this Agreement.

    “ Reimbursement Amount” means, at any time (whether before or after the Reimbursement Amount is required to be paid by the Guarantee Fund to the HMT Commissioners), the aggregate amount of the Disbursements, or the amount outstanding for the time being of that amount.

    “ Reimbursement Parties” means, collectively, the Guarantee Fund and Iceland.

    “ Reimbursement Payment Date” means each Payment Date falling after the Second Phase Start Date.

    “ Relevant Documents” means, collectively, this Agreement, the Settlement Agreement, the Settlement Agreement Side Letter, the FSCS Deed of Assignment and any other agreement or document designated as a Relevant Document by the Parties.

    “ Relevant Financing Arrangement” means any agreement, arrangement or treaty entered into by any Reimbursement party with any financier (including any Sovereign, international organization, private entity or other Person) for the purpose of financing claims of any depositors of an Icelandic bank where such claims arose prior to the date of this Agreement, but excluding (a) the NL Reimbursement and Indemnity Agreement, and (b) any agreement, arrangement or treaty entered into for the purpose of financing or refinancing (i) any part of the Reimbursement Amount or compensation or any other amount payable by any Reimbursement Party to the HMT Commissioners under this Agreement or any other Relevant Document (or any successor agreement or document), or (ii) any amount payable by any Reimbursement Party under the NL Reimbursement and Indemnity Agreement or any other “Relevant Documents” as defined in the NL Reimbursement and Indemnity Agreement (or any successor agreement or document).

    “ Relevant Icelandic Total Government Revenue” means, in relation to any Reimbursement Payment Day falling in a given period starting on July 1 of any year and ending on June 30 of the immediately following year (a “Relevant Period”), (a) Iceland's “Total Central Government Revenue” for the calendar year immediately preceding that Relevant Period as published by the Statistical Bureau of Iceland ( Hagstofa Íslands), or (b) if such Total Central Government Revenue (i) has not yet been published, or (ii) is less than 26 per cent. of the then most recent estimate of the gross domestic product of Iceland for the calendar year immediately preceding that Relevant Period as published by the International Monetary Fund in its most recent World Economic Outlook (the “ Relevant Icelandic GDP”), an amount equal to 26 per cent. of the Relevant Icelandic GDP (or, if there is a material change in the component elements or any of such Total Central Government Revenue or gross domestic product or any such figure for such Total Central Government Revenue or Relevant Icelandic GDP is not published by the relevant organization, a comparable figure (or comparable figures) for such revenue Total Central Government Revenue or Relevant Icelandic GDP reasonably agreed between Iceland and the HMT Commissioners or, if Iceland and the HMT Commissioners fail to agree such figure (or figures) prior to that Reimbursement Payment Day, as determined by arbitration in accordance with Section 10.10).

    “ Second Phase CIRR” means the Commercial Interest Reference Rate for Sterling as applicable on 15 June 2016 and as published by the Organisation for Economic Co-operation and Development (or, if no such rate is published by that organization, a comparable rate reasonably agreed between Iceland and the HMT Commissioners or, if Iceland and the HMT Commissioners fail to agree such comparable rate before the Second Phase Start Date, as determined by arbitration in accordance with Section 10.10) for a loan with a duration longer than the scheduled payment period for the Second Phase Reimbursement Amount (or (a) if there is more than one such rate for loans with a duration longer than the scheduled payment period for the Second Phase Reimbursement Amount, such rate for a loan with the shortest duration which is longer than such scheduled payment period, and (b) if there is no such rate for a loan with a duration longer than the scheduled payment period for the Second Phase Reimbursement Amount, such rate for a loan with a duration closest to such scheduled payment period) and, for this purpose, the “ scheduled payment period for the Second Phase Reimbursement Amount” shall be the period from the Second Phase Start Date through the Reimbursement Payment Date on which the last Quarterly Installment is due to be paid (as determined in accordance with paragraphs (b) and (c) of Section 4.1).

    “ Second Phase Reimbursement Amount” means the Reimbursement Amount as at the end of the day immediately preceding the Second Phase Start Date (excluding, however, any part of the Reimbursement Amount which has fallen due for payment before, but remains unpaid in breach of the terms of this Agreement on, the Second Phase Start Date).

    “ Second Phase Start Date” means July 1, 2016.

    “ Settlement Agreement” means the settlement agreement dated June 5, 2009 entered into between the FSCS and the Guarantee Fund as amended by an Amendment Agreement dated October 19, 2009.

    “ Settlement Agreement Side Letter” means the side letter to the Settlement Agreement to be entered into between the FSCS and the Guarantee Fund, confirming certain matters in relation to the Settlement Agreement and in the form agreed between the Parties before the date of this Agreement.

    “ Shortfall Amount” means, from time to time, (a) any amount expressed to be payable by the Guarantee Fund to the HMT Commissioners under this Agreement or any other Relevant Document which has not been paid, and remains unpaid, in full when due, at the place and in the currency in which it is expressed to be payable, and (b) if any obligation of the Guarantee Fund under this Agreement or the other Relevant Documents is or becomes unenforceable, invalid or illegal, an amount equal to the aggregate of the amounts which the HMT Commissioners would otherwise have been entitled to recover from the Guarantee Fund if that obligation had been or had continued to be enforceable, valid and legal.

    “ Sovereign” means any nation or government having sovereign authority.

    “ Sovereign Debt” means any present or future borrowing, debt or other obligation, whether actual or contingent, which is (a) payable to non-residents of Iceland or, if in the form of bonds, notes, debentures, loan stock or other securities, at least 25 per cent. in aggregate principal amount of which is or was initially offered to non-residents of Iceland, or (b) denominated in a currency other than Krónur or, if denominated in Krónur, under the terms of which payment of principal, premium (if any) or interest can be or is required to be made in or by reference to any other currency, including, for the avoidance of doubt, (i) any borrowing, debt or other obligation owing to the International Monetary Fund, and (ii) any borrowing, debt or other obligation owing under the NL Reimbursement and Indemnity Agreement.

    “ Sterling” or “£” means the lawful means the lawful currency for the time being of the United Kingdom of Great Britain and Northern Ireland.

     “ Taxes” means all present and future income, stamp, registration and other taxes and levies, imposts, deductions, charges and withholdings whatsoever, and all interest, penalties or similar amounts with respect thereto or with respect to the non-payment thereof, now or hereafter imposed, assessed, levied or collected by any authority, on or in respect of this Agreement or any other Relevant Document, any payment under this Agreement or any other Relevant Document or the recording, registration, notarization or other formalization of any thereof.

    “ The Netherlands” means the State of the Netherlands.
SCHEDULE II
to the Disbursement, Reimbursement and Indemnity Agreement

Form of Disbursement Request

From:     Financial Services Compensation Scheme Limited

To:          The Commissioners of Her Majesty's Treasury

Dated:     [Date]
Dear Sirs/Madams,

Disbursement, Reimbursement and Indemnity Agreement [*] 2010 (the “Agreement”)

(a)         We refer to the Agreement. Terms defined in the Agreement have the same meaning in this Disbursement Request.

(b)         This is a Disbursement Request.

(c)         We wish to request a Disbursement, on behalf of the Guarantee Fund, on the following terms:

        Disbursement Date:     [date] Amount (in Sterling):     [amount]

(d)         The Disbursement should be credited to [specify the FSCS Bank Account].

(e)         [Immediately upon the proceeds of the Disbursement being credited to the above account, please transfer an equivalent sum from that account to [specify account from which Landsbanki London Depositors will be paid compensation].

Yours faithfully,

Financial Services Compensation Scheme Limited

Name:

Title:

Name:

Title:     


Icesave UK Disbursement, Reimbursement and Indemnity Agreement 506170772
Drög að þýðingu – enski textinn gildir.

Útgreiðslu-, endurgreiðslu- og skaðleysissamningur

dags. [*], 2010

milli

Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

og

Íslands

og

umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins



     ÚTGREIÐSLU-, ENDURGREIÐSLU- OG SKAÐLEYSISSAMNINGUR þessi dags. [**], 2010 („ samningur þessi“), á milli TRYGGINGARSJÓÐS INNSTÆÐUEIGENDA OG FJÁRFESTA, sjálfseignarstofnunar sem er stofnuð á grundvelli íslenskra laga („ Tryggingarsjóður“), ÍSLANDS („ Ísland“) og UMBOÐSMANNA BRESKA FJÁRMÁLARÁÐUNEYTISINS ( umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins). Sameiginlega verður vísað til umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins, Tryggingarsjóðs og Íslands sem „ samningsaðila“).

FORSENDUR SAMNINGSINS


    Samningsaðilar hafa gert með sér lánssamning og viðaukasamning, sem saman kveða á um það samkomulag sem samningsaðilar gerðu með sér í upphafi um þau málefni sem lýst er í forsendum þessum. Samningsaðilar vilja nú gera með sér samning þennan í þeim tilgangi að ná sátt um umrædd atriði, og einnig til þess að fella lánssamninginn og viðaukasamninginn úr gildi, enda öðlist samningur þessi gildi.

    Tryggingarsjóður ábyrgist kröfur innstæðueigenda hjá Landsbankanum í London á hendur Landsbankanum skv. lögum nr. 98/1999, en með þeim var innleidd tilskipun 94/19/EB, sem nemur allt að 20.887 evrum fyrir hvern innstæðueiganda.

    Breski tryggingarsjóðurinn (FSCS), hefur greitt út tryggingar til innstæðueigenda hjá Landsbankanum í London vegna krafna þeirra á hendur Landsbankanum og Tryggingarsjóði á grundvelli laga nr. 98/1999 og í staðinn hafa þessir innstæðueigendur Landsbankans í London framselt FSCS umræddar kröfur. Ferlið sem FSCS (f.h. Tryggingarsjóðsins) mun viðhafa við uppgjör útistandandi krafna innstæðueigenda í Landsbankanum London á hendur Tryggingarsjóðnum skv. lögum nr. 98/1999, og ferlið sem Tryggingarsjóður mun viðhafa við uppgjör á skuldbindingum sínum gagnvart FSCS er lýst í smáatriðum í uppgjörssamningnum.

    Umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins hafa forfjármagnað útgreiðslur úr FSCS á tryggingum vegna krafna innstæðueigenda hjá Landsbankanum í London á hendur Landsbankanum og Tryggingarsjóði skv. lögum nr. 98/1999 og tilheyrandi kostnað. Samningsaðilar hafa orðið ásáttir um að Tryggingarsjóður endurgreiði FSCS þær fjárhæðir sem hann hefur lagt út fyrir vegna útgreiðslu á tryggingum til innstæðueigenda í Landsbankanum í London (samtals er áætlað að útgreiðslur af hálfu Tryggingarsjóðs nemi 2.254.417.851,51 sterlingspundum þann 24. nóvember 2010) og að umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins skuli sjá FSCS fyrir fjármunum (f.h. Tryggingarsjóðsins) til uppgjörs á útistandandi kröfum innstæðueigenda í Landsbankanum London á hendur Tryggingarsjóðnum (samtals áætlað að nemi 20.969.252,03 sterlingspundum) skv. l. nr. 98/1999 í samræmi við skilmála samnings þessa.

    Samningsaðilar staðfesta að samið hafi verið um samning þennan í samræmi við „hin umsömdu viðmið“ frá 14. nóvember 2008, sem Ísland og aðildarríki Evrópusambandsins stóðu að.

I. GR.
SKILGREININGAR


    Grein 1.1 Skilgreiningar tiltekinna hugtaka. a) Þau hugtök sem skilgreind eru í fylgiskjali 1 skulu í samningi þessum hafa þá merkingu sem þar er gefin.

b)          Að því er varðar skilgreiningar á „vaxtafjármunum“ skal, ef eitthvað af hlutdeild Tryggingarsjóðs í búinu er í öðrum gjaldmiðli en sterlingspundum og hafi hann ekki verið umreiknaðir af Tryggingarsjóði skv. a-lið 7. mgr. 4. gr., umreikna þá fjárhæð í sterlingspund á því gengi sem umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins velja með sanngjörnum hætti.

    Grein 1.2 Önnur túlkunarákvæði. (a) Merking skilgreindra hugtaka gildir óháð því hvort þau eru notuð í eintölu eða fleirtölu.

    (b)     Þegar orðalagið „í samningi þessum“, „samnings þessa“ eða sambærilegt orðalag er notað er verið að vísa til samnings þessa í heild sinni en ekki tiltekinna ákvæða hans. Tilvísanir í kafla, greinar, málsgreinar eða fylgiskjöl eru tilvísanir í kafla, greinar, málsgreinar eða fylgiskjöl samnings þessa nema annað sé tekið fram.

    (c)     Tilvísanir í „skjöl“ eru tilvísanir í skjöl, gerninga, skriflega samninga, vottorð, skuldbindingar, tilkynningar og önnur skrifleg gögn af hvaða tagi sem er, á hvaða formi sem þau eru (þ.á m. á rafrænu formi).

    (d)     Orðalagið „þar á meðal/þar með talið“ [e. including] er ekki takmarkandi (nema að því marki sem það er sérstaklega tekið fram) og merkir „þar á meðal án takmarkana“ [e. including without limitation].

    (e)     Að því er varðar tilvísanir í ákveðin tímabil sem ná frá tilgreindri dagsetningu til síðari tilgreindrar dagsetningar skal orðið „frá“ merkja „frá og með“, orðið „til“ og orðasambandið „fram að“ skulu merkja „til [umrædds dags] að síðasttöldum degi undanskildum“, og orðasambandið „til og með“ merkir „til [umrædds dags] að síðasttöldum degi meðtöldum“, nema annað sé sérstaklega tekið fram.

    (f)     Orðin „getur“ [e. may] og „kann“ [e. might] og sambærileg orð sem notuð eru í tengslum við ráðstöfun einhvers aðila gefa til kynna að umrædd ráðstöfun sé valfrjáls og að viðkomandi sé ekki skylt að grípa til umræddrar ráðstöfunar.

    (g)     Orðið „viðvarandi“ tilvik sem leiðir til uppgreiðsluskyldu gefur til kynna að slíkt tilvik sem leiðir til uppgreiðsluskyldu hafi átt sér stað og að ekki hafi verið bætt úr því eða fallið frá því í samræmi við 5. mgr. 10. gr.

    (h)     Nema annað sé sérstaklega tekið fram skulu (i) tilvísanir í samninga (þ.á m. samning þennan) og önnur skjöl einnig taka til allra síðari breytinga á slíkum skjölum og samningum, en þó aðeins að því marki sem slíkar breytingar eru ekki óheimilar skv. viðkomandi skjölum, og (ii) tilvísanir í lög sem gilda túlkaðar þannig að þær taki til allra ákvæða laga, reglugerða eða reglna sem hafa þann tilgang að styrkja, breyta, koma í stað, bæta við, túlka eða innleiða umrædd lög sem gilda.

II. GR.
LÁNIÐ


    Grein 2.1 Lánið. (a) Skv. skilmálum samnings þessa veita umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins Tryggingarsjóði lán í sterlingspundum með höfuðstól að hámarki 2.235.000.000 sterlingspund eða að annarri þeirri fjárhæð sem umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins og Tryggingarsjóður kunna að koma sér skriflega saman um á hverjum tíma („ lánsfjárhæðin“).

    (b)     Útgreiðslur af láninu skulu nýttar af Tryggingarsjóði, eða öðrum fyrir hans hönd, (eða, þar til það verður gert, settar á innlánsreikning, sem ber vexti, til að nýta síðar) í eftirfarandi tilgangi:

              (i)     til að endurgreiða (hvort sem er með skuldajöfnun eða öðrum hætti) fjárhæðir sem FSCS hefur fengið að láni frá umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins (fyrir hönd Tryggingarsjóðs) til að greiða út tryggingu vegna krafna innstæðueigenda hjá Landsbankanum í London skv. lögum nr. 98/1999, að fjárhæð allt að 16.872,99 sterlingspund á hverja kröfu ásamt áföllnum vöxtum á þær fjárhæðir sem fengnar hafa verið að láni frá 1. október 2009 á vaxtastigi fyrra tímabils eins og lýst er í ii-lið a-liðar í 2. mgr. 4. gr.

              (ii)     til uppgjörs FSCS (fyrir hönd Tryggingarsjóðs) á kröfum innstæðueigenda hjá Landsbankanum í London skv. lögum nr. 98/1999, að fjárhæð allt að 16.872,99 sterlingspund á hvern innstæðueiganda (eða, ef við á, sameiginlegra reikningshafa), og

              (iii)     til að bæta FSCS upp og fjármagna tiltekinn kostnað.

    (c)     Þrátt fyrir b-lið að ofan skal umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins ekki vera skylt að hafa eftirlit með eða hafa afskipti af notkun eða nýtingu (e. use or application) útgreiðslna.

    Grein 2.2 Framkvæmd lánsins. a) Með fyrirvara um ábyrgð Íslands skv. samningi þessum verður Tryggingarsjóður eini lántakinn skv. lánssamningnum, hann verður greiðandi að því er varðar allar útgreiðslur sem inntar verða af hendi skv. lánssamningnum og verður aðalskuldari að öllum fjárhæðum (að meðtalinni, og án útilokunar á öðru, endurgreiðslufjárhæðinni og öllum bótum, kostnaði og útgjöldum í tengslum við hana) sem ber að greiða eða munu koma til greiðslu til umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins skv. samningi þessum og öðrum viðeigandi skjölum.

    (b)     FSCS getur, og Tryggingarsjóðurinn (með samþykki Íslands) veitir FSCS óafturkallanlega heimild til að draga á lánssamninginn fyrir hönd Tryggingarsjóðsins í formi útgreiðslna sem FSCS getur farið fram á með því að afhenda umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins rétt útfyllta útgreiðslubeiðni skv. uppgjörssamningnum.

    (c)     Afhenda verður umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins útgreiðslubeiðni fyrir kl. 11 fyrir hádegi (að London tíma) á umbeðnum útgreiðsludegi.

    (d)     FSCS getur fyrir hönd Tryggingarsjóðsins, dregið á lánssamninginn skv. þessari 2. mgr. 2. gr.:

              (i)     Til að greiða það sem nauðsynlegt er eða æskilegt í þeim tilgangi sem tilgreint er í 1. mgr. 2. gr.; og

              (ii)     Til (og til að útgreiðsludagur verði ekki síðar) 30. mars 2012 og að samanlagðri höfuðstólsfjárhæð sem verði ekki hærri en lánsfjárhæðin.

    Grein 2.3 Framkvæmd útgreiðslu. (a) að því tilskildu:

              (i)     að samningur þessi hafi tekið gildi í samræmi við VII. gr., og

              (ii)     að ekkert atvik sem skapar uppgreiðsluskyldu hafi orðið og verið tilkynnt um til umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins sem ekki hefur verið leiðrétt eða undanþága veitt fyrir, eða myndi (að áliti umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins og án samþykkis þeirra) leiða af umbeðinni útgreiðslu, kæmi til hennar.

    Munu umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins sjá til þess að hver útgreiðsla verði FSCS tiltæk á útgreiðsludegi hennar. FSCS fær aðgang að hverri útgreiðslu með því að greitt verður inn á bankareikning FSCS (eða ef ráðstafa á útgreiðslu til endurgreiðslu á því sem FSCS hefur fengið að láni hjá umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins, með því að skuldajafna útgreiðslunni á móti fjárhæðinni sem þegar hefur verið fengin að láni.

    (b)     Eingöngu FSCS getur og farið fram á og tekið við andvirði útgreiðslu og Tryggingarsjóðurinn, þrátt fyrir skuldbindingar sínar sem lántaki skv. lánssamningnum (og án þess að það hafi áhrif á þær) á hvorki rétt á né getur gert kröfu til þess að geta farið fram á eða tekið við andvirði nokkurrar útgreiðslu.

    Grein 2.4 Staðfesting útgreiðslna.

    (a)     Umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins skulu, eins fljótt og auðið er eftir útgreiðslu, tilkynna Tryggingarsjóðnum og Íslandi um

              (i)     fjárhæð útgreiðslunnar og útgreiðsludag hennar; og

              (ii)     fjárhæð endurgreiðslunnar um leið og útgreiðslan hefur farið fram.

    (b)     Misbrestur á að fara eftir a-lið að ofan takmarkar á engan hátt skyldur og ábyrgð Tryggingarsjóðsins og Íslands skv. samningi þessum.

III. GR.
ENDURGREIÐSLA O.FL.


    Grein 3.1 Endurgreiðsluskuldbinding. Á grundvelli (a) undirritunar FSCS á framsalssamningi FSCS, (b) útgreiðslna FSCS á tryggingum til innstæðueigenda hjá Landsbankanum í London vegna krafna þeirra á hendur Landsbankanum og Tryggingarsjóði skv. lögum nr. 98/1999 eins og um getur í forsendum samnings þessa, (c) forfjármögnunar umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins á útgreiðslum FSCS á tryggingum og lánafyrirgreiðslunnar, skuldbindur Tryggingarsjóður sig til að endurgreiða umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins allar útgreiðslur sem þeir inna af hendi skv. samningi þessum með því greiða endurgreiðslufjárhæðina í samræmi við skilmála samnings þessa.

IV. GR.
FYRIRKOMULAG ENDURGREIÐSLU, VEXTIR OG ÚTGREIÐSLUKOSTNAÐUR

    Grein 4.1 Fyrirkomulag endurgreiðslu. (a) Þessi 1. mgr. 4. gr. gildir frá upphafsdegi seinna tímabils.

    (b)     Með fyrirvara um d-lið að neðan samþykkir Tryggingarsjóður að greiða umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins endurgreiðslufjárhæð seinna tímabils með samfelldum ársfjórðungslegum afborgunum, sem skulu greiðast á hverjum greiðsludegi endurgreiðslu.

    (c)     Fjöldi og fjárhæð ársfjórðungslegra afborgana skal reiknaður sem hér segir:

              (i)     ef, miðað við daginn næst á undan upphafsdegi seinna tímabils, samanlögð jafnvirðisfjárhæð (í íslenskum krónum) endurgreiðslu seinna tímabils og jafnvirðisfjárhæð (í íslenskum krónum) endurgreiðslu seinna tímabils til Hollands nemur 45.000.000.000 kr. eða lægri fjárhæð, (A) þá skulu ársfjórðungslegar afborganir vera fjórar að tölu, og (B) fjárhæð hverrar ársfjórðungslegrar afborgunar skal vera endurgreiðslufjárhæð seinna tímabils deilt með fjórum,

              (ii)     ef, miðað við daginn næst á undan upphafsdegi seinna tímabils, samanlögð jafnvirðisfjárhæð (í íslenskum krónum) endurgreiðslu seinna tímabils og jafnvirðisfjárhæð (í íslenskum krónum) endurgreiðslu seinna tímabils til Hollands, er hærri en 45.000.000.000 kr., (A) þá skal fjöldi ársfjórðungslegra afborgana vera, eftir því hvort er lægri tala, (I) fjórar að viðbættum öðrum fjórum fyrir hverja 10.000.000.000 króna (eða hluta þeirrar fjárhæðar) sem sú samtala er umfram 45.000.000.000 kr., og (II) 118, og (B) þá skal fjárhæð hverrar ársfjórðungslegrar afborgunar vera endurgreiðslufjárhæð seinna tímabils deilt með þeim fjölda ársfjórðungslegra afborgana sem þannig fæst,

    (d)     (i)     án tillits til b- og c-liðar að ofan og háð skilyrðum iii-liðar að neðan, ef á tilteknum greiðsludegi endurgreiðslu samtala (A) jafnvirðisfjárhæðar (í íslenskum krónum) á greiðsludegi endurgreiðslu viðkomandi ársfjórðungslegrar afborgunar ásamt vaxtafjárhæð sem gjaldkræf er á sama greiðsludegi endurgreiðslu skv. a-lið 2. mgr. 4. gr. og (B) jafnvirðisfjárhæðar (í íslenskum krónum) gjaldkræfrar ársfjórðungslegrar afborgunar til Hollands á eða í kringum greiðsludag endurgreiðslu ásamt vaxtafjárhæð sem gjaldkræf er á eða í kringum greiðsludag endurgreiðslu skv. a-lið 2. mgr. 3. gr. hollenska endurgreiðslu- og skaðleysissamningsins, nemur meira en 1,25 af hundraði af viðeigandi heildartekjum íslenska ríkisins miðað við viðkomandi greiðsludag endurgreiðslu, þá (X) skal sú samtala lækkuð um þá lágmarksfjárhæð sem þarf til að tryggt sé að samtalan fari niður fyrir 1,25 af hundraði af viðeigandi heildartekjum íslenska ríkisins miðað við greiðsludag endurgreiðslunnar, (Y) fjárhæð slíkrar lækkunar (sett fram í krónum) skal skipt á milli Hollands og umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins í samræmi við hlutfallslegan rétt hvors aðila til endurgreiðslunnar, og (Z) fjárhæð ársfjórðungslegrar afborgunar sem vísað er til í (A) að ofan (og nemi hlutfallslegur réttur umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins til endurgreiðslu hærri fjárhæð en ársfjórðungslegu afborguninni, þá skal vaxtafjárhæðin sem vísað er til í (A)) lækka um það sem nemur hlutfallslegum rétti umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins í slíkri lækkun (umbreytt í sterlingspund á því gengi sem notað er við útreikning jafnvirðisfjárhæðar (í íslenskum krónum) sem vísað er til að ofan).

              (ii)     Hver sú fjárhæð sem ársfjórðungsleg afborgun eða vaxtafjárhæð lækkar um, í samræmi við i-lið hér að framan, er áfram gjaldkræf og bætist við ársfjórðungslegu afborgunina sem kemur til greiðslu á næsta greiðsludegi endurgreiðslu (en sú ársfjórðungslega afborgun, sem þannig hefur hækkað, heyrir undir beitingu i-liðar hér að ofan og kemur því (þó ætíð með fyrirvara um iii-lið hér að neðan) einungis og að því marki til greiðslu sem segir í i-lið hér að ofan. Hver sú fjárhæð sem vaxtafjárhæð lækkar um, í samræmi við i-lið hér að framan, telst hluti af endurgreiðslufjárhæðinni frá þeim greiðsludegi endurgreiðslu þegar (ef ekki væri fyrir i-lið hér að ofan) sú upphæð hefði komið til greiðslu í samræmi við b- og c-lið hér að ofan, og falla vextir á hana í samræmi við það.

              (iii)     Ákvæði i- og ii-liðar hér að ofan gilda ekki í tengslum við þann greiðsludag endurgreiðslu þegar síðasta ársfjórðungslega afborgun kemur til greiðslu (eins og ákvarðað er í samræmi við c-lið hér að ofan) og sú ársfjórðungslega afborgun sem kemur til greiðslu á þeim greiðsludegi endurgreiðslu, hverjir þeir vextir, sem koma til greiðslu á þeim greiðsludegi endurgreiðslu, og hver sú fjárhæð sem kemur til greiðslu á þeim greiðsludegi endurgreiðslu í samræmi við ii-lið hér að ofan, skulu koma til greiðslu að fullu á þeim greiðsludegi endurgreiðslu.

    Grein 4.2 Vextir. (a) (i) Tryggingarsjóður skal greiða umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins vexti af endurgreiðslufjárhæðinni, (A) skv. vaxtastigi fyrra tímabils fyrir tímabilið frá 1. október 2009 til upphafsdags seinna tímabils, og (B) skv. viðmiðunarvöxtum seinna tímabils fyrir tímabilið frá og með upphafsdegi seinna tímabils.

              (ii)     að því er varðar tímabilið frá 1. október 2009 til fyrstu útgreiðslu skv. samningi þessum, þá skal endurgreiðslufjárhæðin til útreiknings vaxta sem ber að greiða teljast á hverjum tíma vera samanlögð fjárhæð alls þess sem FSCS hefur greitt út fyrir hönd Tryggingarsjóðsins við uppgjör FSCS á kröfum innstæðueigenda hjá Landbankanum í London skv. lögum nr. 98/1999, allt að fjárhæð 16.872,99 sterlingspund á innstæðueiganda (eða, þar sem það á við, til sameiginlegra reikningshafa) að viðbættum vöxtum sem bæst hafa við skv. i-lið c-liðar hér að neðan.

              (iii)     Slíkir vextir skulu halda áfram að leggjast á að því marki sem gildandi lög heimila bæði fyrir og eftir gjaldþrot, ógjaldfærni, endurskipulagningu, skipti, endurskipulagningu innan eða utan réttar, slit, samkomulag, nauðasamning eða aðlögun skulda Tryggingarsjóðs.

Til að fyrirbyggja vafa skal tekið fram að ekki þarf að greiða vexti vegna tímabila fyrir 1. október 2009.

    (b)     Þrátt fyrir framangreint skal Tryggingarsjóður greiða umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins dráttarvexti á sérhverja fjárhæð í vanskilum. Slíkir vextir skulu leggjast við fjárhæðina, sem þeir hafa fallið á, á hverjum greiðsludegi.

    (c)     Greiða skal vexti sem fallið hafa á endurgreiðslufjárhæðina eða aðrar fjárhæðir (i) á fyrsta greiðsludegi ef um er að ræða vexti sem áfallnir eru fyrir fyrsta greiðsludag (og leggjast þeir við fjárhæðina, sem þeir hafa fallið á, á hverjum degi sem hefði verið greiðsludagur ef fyrsti greiðsludagur hefði verið 1. janúar 2010 í stað 1. janúar 2011, (ii) á hverjum greiðsludegi eftir það, og (iii) þegar um er að ræða innborgun inn á einhvern hluta endurgreiðslufjárhæðarinnar (hvort sem hún er valfrjáls eða skylt er að greiða hana) á þeim degi sem slík innborgun á sér stað (einungis skal greiða vexti sem fallið hafa á þann hluta endurgreiðslufjárhæðarinnar sem er greidd fyrirfram fram að innborgunardegi), með þeim fyrirvara að einnig skuli greiða hverju sinni dráttarvexti, sem fallið hafa á fjárhæðir í vanskilum þegar umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins óska eftir því.

    (d)     Vextir sem falla á endurgreiðslufjárhæðina eða aðrar fjárhæðir skulu reiknaðir á grundvelli raunverulegs fjölda liðinna daga á vaxtatímabilinu miðað við að árið sé þrjú hundruð sextíu og fimm (365) dagar.

    Grein 4.3 Valfrjálsar innborganir. (a) Tryggingarsjóði er heimilt að greiða endurgreiðslufjárhæðina fyrirfram, að fullu eða að hluta, enda tilkynni hann (eða Ísland fyrir hans hönd) umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins með fyrirvara um slíka innborgun í samræmi við 4. mgr. 4. gr. og skal sú fjárhæð sem greiða á fyrirfram og þeir vextir sem fallið hafa á hana skv. 2. mgr. 3. gr. falla í gjalddaga skv. samningi þessum á þeim degi sem tilgreindur er í tilkynningunni. Fjárhæðir sem greiddar eru fyrirfram skv. samningi þessum verða ekki endurheimtar.

    (b)     Á sama tíma og Tryggingarsjóður greiðir hvers konar valfrjálsa innborgun skv. a-lið að ofan skal hann greiða valfrjálsa hlutfallslega innborgun inn á endurgreiðslufjárhæðina sem eftir stendur skv. endurgreiðslu- og skaðleysissamningnum við Holland þannig að sama hlutfall sé greitt af endurgreiðslufjárhæðinni sem eftir stendur skv. þessum samningi og skv. endurgreiðslu- og skaðleysissamningnum við Holland (með fyrirvara um námundun).

    (c)     Hvers konar innborgun inn á endurgreiðslufjárhæðina skv. a-lið hér að ofan lækkar, með fyrirvara um b-lið 7. mgr. 4. gr., endurgreiðslufjárhæðina sem nemur fjárhæð innborgunarinnar og skal, ef hún er innt af hendi á upphafsdegi seinna tímabils eða síðar, nýtt til að greiða hlutfallslega niður hverja ársfjórðungslega afborgun sem eftir stendur.

    Grein 4.4 Tilkynningar. Tilkynning um innborgun skv. a-lið 3. mgr. 4. gr. að framan er einungis gild ef hún berst umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins fyrir lok vinnudags (að staðartíma í London) þremur (3) virkum dögum fyrir dagsetningu slíkrar innborgunar. Í tilkynningu um innborgun skal tilgreina þá fjárhæð sem greiða á fyrirfram og umbeðinn greiðsludag innborgunar (sem skal vera virkur dagur).

    Grein 4.5 Skyldubundnar innborganir og aðrar greiðslur með hlutdeild Tryggingarsjóðs úr búinu.

              (i)     Fái Tryggingarsjóður einhverjar greiðslur upp í hlutdeild sína úr búinu skal hann innan fimm (5) virkra daga greiða hvorum um sig, umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins og Hollandi, skv. hlutfallslegum rétti þeirra til greiðslunnar (að því er varðar umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins skal slík greiðsla vera í þeirri mynt sem krafa er gerð um skv. 7. mgr. 4. gr. og að því leyti sem greiðslan á að renna til Hollands, skal hún vera í þeirri mynt sem kveðið er á um í endurgreiðslu- og skaðleysissamningnum við Holland) með þeim fyrirvara að Tryggingarsjóðurinn skuli ekki vera skuldbundinn til að inna slíka greiðslu af hendi (i) ef, að því leyti og svo lengi sem skilmálar þeir sem greiðslan til Tryggingarsjóðs er bundin og sem leiða til móttöku Tryggingarsjóðs á fjárhæðinni sem um er að ræða, meina Tryggingarsjóði að ráðstafa fjárhæðinni til annarra aðila, eða (ii) ef og að því leyti sem Tryggingarsjóður skal greiða fjárhæðina til DNB (Seðlabanka Hollands) skv. framsalssamningi DNB eða til FSCS skv. framsalssamningi FSCS eða uppgjörssamningnum.

              (ii)     Allar fjárhæðir sem umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins móttaka af hlutdeild Tryggingarsjóðs úr búinu (hvort sem er (x) skv. i. lið hér að framan, (y) 5. mgr. 2. gr. framsalssamnings FSCS, eða (z) a-lið i. liðar A í 7. mgr. 3. gr. endurgreiðslu- og skaðleysissamningsins við Holland) skulu notaðar:

                (A)    til innborgunar á endurgreiðslufjárhæðina áður en endurheimtuhlutfallið verður lægra en 86%, eða

                   (B)    eftir að endurheimtuhlutfallið verður lægra en 86%:

                            (1)     í fyrsta lagi til að greiða umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins þær fjárhæðir sem nauðsynlegar eru til að tryggja að eftir slíka greiðslu séu heildarheimtur á vaxtahluta breska fjármálaráðuneytisins í samræmi við vaxtahlutfall breska fjármálaráðuneytisins á þeim tíma, og

                            (2)     í öðru lagi til innborgunar á endurgreiðslufjárhæðina.

              (iii)     Hvers konar innborgun inn á endurgreiðslufjárhæðina skv. þessari málsgrein lækkar, með fyrirvara um b-lið 7. mgr. 4. gr., endurgreiðslufjárhæðina sem nemur fjárhæð innborgunarinnar og skal, ef hún er innt af hendi á upphafsdegi seinna tímabils eða síðar, nýtt til að greiða hlutfallslega niður hverja ársfjórðungslega afborgun sem eftir stendur.

    (b)     Ef eitthvert eftirfarandi atvika (sem hvert um sig kallast „ tilvik sem leiðir til uppgreiðsluskyldu“) á sér stað þá geta umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins hvenær sem er á meðan atvikið er viðvarandi, með tilkynningu til Tryggingarsjóðs og afriti til íslenska ríkisins, lýst því yfir að endurgreiðslufjárhæðin, ásamt áföllnum vöxtum og öðrum fjárhæðum sem endurgreiðsluaðila ber að standa skil á skv. samningi þessum eða öðrum viðeigandi skjölum, sé þegar í stað fallin í gjalddaga, og skulu þá fjárhæðirnar þegar í stað falla í gjalddaga án framvísunar, kröfu, andmæla eða annarra formsatriða af hvaða tagi sem er, sem endurgreiðsluaðilar afsala sér hér með sérstaklega:

              (i)     (A) einhver hluti endurgreiðslufjárhæðarinnar eða vaxta eða annarra fjárhæða sem endurgreiðsluaðila ber að greiða umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins skv. samningi þessum eða öðrum viðeigandi skjölum er ekki greiddur að fullu á gjalddaga, á þeim stað og í þeim gjaldmiðli sem greiða ber, nema (1), að því er varðar vanskil á einhverjum hluta endurgreiðslufjárhæðarinnar eða vöxtum sem greiða ber á greiðsludegi skv. 1. mgr. 4. gr. (að því er varðar einhvern hluta endurgreiðslufjárhæðarinnar) eða i-lið c- liðar í 2. mgr. 4. gr. (að því er varðar vexti), slík vanskil megi að öllu leyti rekja til stjórnsýslulegrar eða tæknilegrar yfirsjónar og að fjárhæðin greiðist eigi síðar en fimm (5) virkum dögum eftir gjalddaga, eða (2) að því er varðar öll önnur tilvik, fjárhæðin greiðist eigi síðar en tuttugu (20) virkum dögum eftir gjalddaga, (B) einhverri greiðslu endurgreiðslufjárhæðarinnar, vaxta eða annarra fjárhæða skv. samningi þessum eða öðrum viðeigandi skjölum sem áður hefur verið reidd af hendi af endurgreiðsluaðila er rift, vikið til hliðar, hún ógilt eða lækkuð,

              (ii)     endurgreiðsluaðili er í vanskilum eða, í tilviki vanskila sem unnt er að bæta úr, er í vanskilum sem vara í a.m.k. tuttugu (20) virka daga frá (A) þeim degi sem umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins tilkynna viðkomandi endurgreiðsluaðila um vanskilin, eða (B) þeim degi sem yfirmanni hjá endurgreiðsluaðila verður kunnugt um vanskilin eða ætti að hafa orðið kunnugt um vanskilin við framfylgd og framkvæmd skuldbindinga hans skv. samningi þessum eða einhverju öðru viðkomandi skjali (að öðru leyti en kveðið er á um í i-lið hér að ofan), hvort sem fyrr verður (í þessu sambandi skal hugtakið „yfirmaður“ merkja, að því er varðar Tryggingarsjóð, stjórnanda hjá Tryggingarsjóði og, að því er varðar íslenska ríkið, ráðherra eða ráðuneytisstjóra í íslenska fjármála- eða utanríkisráðuneytinu, og yfirmenn eða aðstoðarmenn yfirmanna þeirrar deildar eða deilda hjá íslenska ríkinu sem hafa umsjón með ríkisskuldum íslenska ríkisins (þ.á.m. skuldum þess skv. samningi þessum),

              (iii)     hvers konar yfirlýsing, sem er sett fram eða talin er hafa verið sett fram af hálfu endurgreiðsluaðila í samningi þessum eða öðru viðkomandi skjali eða í skjali sem endurgreiðsluaðili hefur afhent í tengslum við viðkomandi skjal, er eða reynist hafa verið röng eða villandi í veigamiklum atriðum þegar hún var sett fram eða talin hafa verið sett fram,

              (iv)     greiðsluskuldbindingar Tryggingarsjóðs skv. samningi þessum og öðrum viðkomandi skjölum verða ekki lengur a.m.k. jafnréttháar núverandi og síðari kröfum allra annarra kröfuhafa hans eða greiðsluskuldbindingar íslenska ríkisins skv. samningi þessum og öðrum viðeigandi skjölum verða ekki lengur jafnréttháar núverandi og síðari ríkisskuldum Íslands, í báðum tilvikum öðrum en kröfum sem hafa forgang skv. gildandi lögum á þeim degi sem samningur þessi er gerður,

              (v)     (A) samningur þessi og önnur viðkomandi skjöl falla úr gildi, eru afturkölluð eða þeim rift eða teljast ekki lengur vera gild, skuldbindandi eða hafa nokkur réttaráhrif af hvaða ástæðu sem er (þó ekki vegna þess að gildistími skv. viðkomandi samningi er liðinn eða vegna athafna eða athafnaleysis umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins eða FSCS), (B) efndir endurgreiðsluaðila á skuldbindingum sínum skv. viðkomandi samningi teljast ólögmætar, (C) endurgreiðsluaðili staðfestir það skriflega, eða (D) endurgreiðsluaðili vefengir lögmæti eða fullnustuhæfi samnings þessa eða annarra viðkomandi skjala,

              (vi)     Tryggingarsjóði (A) er slitið eða hann leystur upp, (B) sjóðurinn staðfestir skriflega að hann geti ekki eða sé almennt ófær um að greiða skuldir sínar þegar þær falla í gjalddaga, að teknu tilliti til hvers konar stuðnings sem hann á kost á, eða (C) sjóðurinn frestar því (hvort heldur er viljandi eða óviljandi) að greiða af skuldum sínum, nema áður hafi, í sérhverju þessara tilvika (1) annar aðili, arftaki, tekið yfir skuldbindingar sjóðsins skv. samningi þessum og öðrum viðeigandi skjölum skv. skilmálum sem umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins hafa samþykkt (sem skal ekki að ástæðulausu synja um eða draga slíkt samþykki), og (2) Ísland gefið þær staðfestingar og gert þá samninga sem umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins kunnu með sanngirni að fara fram á til að tryggja að skuldbindingar Íslands skv. samningi þessum og öðrum viðkomandi skjölum haldist í fullu gildi eins og arftakinn hefði verið aðili að samningi þessum og öðrum viðkomandi skjölum frá upphafi,

              (vii)     Ísland (eða stjórnvald eða ráðuneyti á Íslandi) stendur ekki við hvers konar greiðslu á ríkisskuldum á gjalddaga (eða innan þess gjaldfrests sem er upphaflega veittur í samningi um slíkar ríkisskuldir) eða hvers konar ríkisskuldir koma fyrr til greiðslu en á tilgreindum gjalddaga vegna vanefnda (af hvaða toga sem er), þó með þeim fyrirvara að ekki kemur til tilviks sem leiðir til uppgreiðsluskyldu skv. þessum vii. lið nema heildarfjárhæð ríkisskuldarinnar, sem ekki hefur verið greidd af á gjalddaga eða sem hefur komið fyrr til greiðslu, sé hærri en 50.000.000 sterlingspund eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í öðrum gjaldmiðlum,

              (viii)     (A) endurgreiðsluaðili fer ekki að gildandi lögum sem hann heyrir undir við aðstæður þar sem slík vanræksla gæti haft veruleg neikvæð áhrif sem tengjast uppgreiðsluskyldu, eða (B) þau gildandi lög sem eru nauðsynleg forsenda þess að Tryggingarsjóður eða Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar skv. samningi þessum eða öðrum viðkomandi skjölum eru afturkölluð, felld úr gildi, óvirk eða eru af öðrum orsökum ekki í fullu gildi eða þeim breytt á þann hátt að það hefur eða gæti haft (samanlagt) veruleg neikvæð áhrif sem tengjast uppgreiðsluskyldu.

    (b)      Tilkynning um tilvik sem leiðir til uppgreiðsluskyldu. Ef endurgreiðsluaðili verður var við að tilvik sem leiðir til uppgreiðsluskyldu hafi orðið skal hann tilkynna umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytinu um slíkan atburð eins fljótt og auðið er og greina þar frá þeim atvikum eða aðstæðum sem teljast vera tilvik sem leiðir til uppgreiðsluskyldu og hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til að ráða bót þar á.

    Grein 4.6 Útgreiðslukostnaður. (a) Tryggingarsjóður samþykkir að endurgreiða umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins fjárhæð útgreiðslukostnaðar vegna einnar eða fleiri útgreiðslna (sem saman nefnast greiðsla vegna útgreiðslukostnaðar) sem inntar voru af hendi fyrir 31. mars 2010.

    (b)     Tryggingarsjóður samþykkir að greiða umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins á sérhverjum greiðsludegi á árinu 2011 fjárhæð sem jafngildir samtölu (i) fjórðungs útgreiðslukostnaðar og (ii) uppsafnaðra vaxta af þeirri fjárhæð á vaxtastigi fyrra tímabils frá 1. október 2009 til viðkomandi greiðsludags.

    Grein 4.7 Greiðslur. (a) Allt sem greitt er af endurgreiðslufjárhæðinni, vaxtagreiðslur og annað það sem Tryggingarsjóður greiðir umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins skv. samningi þessum skal greitt með reiðufé í sterlingspundum án frádráttar, skuldajöfnunar eða gagnkröfu inn á uppgjörsreikning breska fjármálaráðuneytisins eigi síðar en kl. 17:00 að staðartíma í London á gjalddaga viðkomandi greiðslu (en hver greiðsla sem berst eftir þann tíma á gjalddaga greiðslunnar telst hafa verið reidd af hendi næsta virka dag), að því tilskildu að:

              (i)     berist umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins fjárhæð frá FSCS samkvæmt 5. mgr. 2. gr. framsalssamnings FSCS skulu umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins eins fljótt og sanngjarnt getur talist:

                (A)     greiða Hollandi þann hluta fjárhæðarinnar sem það á hlutfallslegan rétt til í samræmi við ii. lið a-liðar 5. mgr. 3. gr. endurgreiðslu- og skaðleysissamningsins við Holland og skal slík greiðsla vera í þeirri mynt sem hún er móttekin án myntbreytinga en skipti yfir í evrur skal Holland annast skv. endurgreiðslu- og skaðleysissamningnum við Holland,

                (B)     ef slík greiðsla berst frá FSCS í annarri mynt en sterlingspundum, umreikna það sem eftir stendur af fjárhæðinni í sterlingspund á gengi að sanngjörnu vali FSCS og skal slík greiðsla eftir umreikning fara fram skv. a-lið ii. liðar 5. mgr. 4. gr. og að því marki sem hún fer fram skv. A í a-lið ii. liðar eða 2. undirlið B í a-lið ii. liðar 5. mgr. 4. gr., fullnægja skuldbindingunum sem ber að fullnægja með skuldbindingunni um endurgreiðslu endurgreiðslufjárhæðarinnar svo jafngildi fjárhæðinni í sterlingspundum sem umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins fá í sinn hlut eftir þennan umreikning, og

              (ii)     berist umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins fjárhæð frá Hollandi skv. a-lið i. liðar A í 7. mgr. 3. gr. endurgreiðslu- og skaðleysissamningsins við Holland skal ii-liður B hér að framan gilda að breyttu breytanda.

    (b)     Ef greiðsla frá Tryggingarsjóði til umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins nægir ekki til að unnt sé að mæta öllum greiðslum sem eru á þeim tíma fallnar í gjalddaga og gjaldkræfar skv. samningi þessum og öðrum viðkomandi skjölum, af hálfu Tryggingarsjóðs til umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins rennur sú greiðsla (i) í fyrsta lagi til greiðslu kostnaðar og útgjalda sem umboðsmennirnir hafa stofnað til og Tryggingarsjóði ber að endurgreiða skv. samningi þessum eða öðrum viðeigandi skjölum, (ii) í öðru lagi til greiðslu áfallinna vaxta sem eru komnir á gjalddaga skv. samningi þessum eða öðrum viðkomandi skjölum en eru ógreiddir, og (iii) í þriðja lagi til greiðslu á þeim hluta endurgreiðslufjárhæðarinnar sem kominn er á gjalddaga.

    (c)     Ef greiðslu skv. samningi þessum ber að greiða á degi sem er ekki virkur dagur, eða ef tímabil sem útreikningur þeirrar fjárhæðar, sem greiða ber, skal miðast við skv. samningi þessum eða öðrum viðkomandi skjölum endar ekki á virkum degi, þá skal sú dagsetning færð fram eða viðkomandi tímabil lengt fram að næsta virka degi og við útreikning vaxtagreiðslna (ef við á) skal tekið mið af slíkri framlengingu, með þeim fyrirvara að ef slík framlenging færir greiðsludaginn eða lok viðkomandi tímabils fram yfir næstu mánaðamót skal viðkomandi greiðsludagur eða síðasti dagur viðkomandi tímabils færður aftur til síðasta virka dags á undan.

V. GR.
TAP O.FL.


    Grein 5.1 Tap. Að kröfu umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins skal Tryggingarsjóður greiða umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins bætur vegna taps, kostnaðar eða bótaskyldu sem þeir hafa orðið fyrir af ástæðum er varða (a) umreikning úr einni mynt yfir í aðra skv. samningi þessum eða öðrum viðkomandi skjölum, (b) tilvik sem leiðir til uppgreiðsluskyldu eða vanefnd af hálfu endurgreiðsluaðila á einhverjum af skuldbindingum sínum skv. samningi þessum eða öðrum viðkomandi skjölum, eða (c) verndun, staðfestingu eða framfylgd réttinda, heimilda eða sérstakra réttinda umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins skv. samningi þessum eða öðrum viðkomandi skjölum að undanskildum, í hverju tilviki, kostnaði við gerðardóm, í skilningi reglna Alþjóðagerðardómsins, sem gerðardómur við gerðardómsmeðferð hefur ákvarðað, sbr. 10. mgr. 10. gr., að skuli borinn af umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins.

    Grein 5.2 Skattar. Allt sem greitt er af endurgreiðslufjárhæðinni, vaxtagreiðslur eða annað sem endurgreiðsluaðila ber að greiða umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins skv. samningi þessum eða öðrum viðkomandi skjölum skal innt af hendi án frádráttar eða ábyrgðar vegna skatta, með þeim fyrirvara að beri endurgreiðsluaðila, skv. lögum sem gilda, að draga skatta frá ofangreindum greiðslum hækkar fjárhæð greiðslunnar sem honum ber að greiða þannig að fjárhæðin verður, að frádrætti loknum (að meðtöldum frádrætti vegna þess sem bætt er við greiðslu skv. þessari 2. mgr. 5. gr.), jafnhá fjárhæðinni sem umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins hefðu fengið greitt hefði ekkert verið dregið frá.

    Grein 5.3 Fullt og endanlegt uppgjör. (a) Umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins skulu ekki eiga neina kröfu (og afsala sér óafturkallanlega kröfum sem þeir hefðu átt ef þessarar 3. mgr. 5. gr. nyti ekki við) á hendur endurgreiðsluaðila í tengslum við útgreiðslur FSCS á tryggingum vegna krafna innstæðueigenda hjá Landsbankanum í London, eins og um getur í forsendum samnings þessa, aðrar en kröfur umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins skv. samningi þessum og öðrum viðeigandi skjölum.

    (b)     Hvorugur endurgreiðsluaðila skal gera neina kröfu (og afsalar sér óafturkallanlega kröfum sem hann hefði átt ef þessa b-liðar nyti ekki við) eða hefja málsókn, þ.m.t. skaðabótamál gegn umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins eða FSCS í tengslum við (i) útgreiðslur FSCS á tryggingum vegna krafna innstæðueigenda hjá Landsbankanum í London, eins og um getur í forsendum samnings þessa (þ.m.t. synjanir slíkra krafna), eða (ii) hvers konar kröfu innstæðueiganda hjá Landsbankanum í London sem FSCS hefur ekki greitt út tryggingu fyrir (hver sem ástæða þess kann að hafa verið). Undanfarandi málsliður er í þágu FSCS og er honum heimilt að sækja rétt sinn skv. honum.

VI. GR.
SKAÐLEYSI


    Grein 6.1 Sérstakar yfirlýsingar og skaðleysi. Á grundvelli gagnkvæmni og gegn endurgjaldi sem viðurkennt er að sé móttekið og fullnægjandi, staðfestist hér með eftirfarandi:

    (a)     Ísland lýsir því yfir og undirgengst þá skuldbindingu gagnvart umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins, skilyrðislaust og með óafturkallanlegum hætti, að Tryggingarsjóður muni tryggja fulla greiðslu og efndir á réttum tíma (hvort heldur er á tilgreindum gjalddaga eða við gjaldfellingu eða aðrar aðstæður) á öllum skuldbindingum sínum skv. samningi þessum og öðrum viðkomandi skjölum og tryggja þannig að aldrei verði um neina vangreidda fjárhæð að ræða,

    (b)     Ísland lýsir því yfir við umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins að komi til þess að eitthvað sé vangreitt muni Ísland, að kröfu, greiða hina vangreiddu fjárhæð til þeirra eins og það væri aðalskuldari, og

    (c)     Ísland skuldbindur sig óafturkallanlega og skilyrðislaust til þess að halda umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins skaðlausum, að kröfu, af öllum kostnaði, tapi eða ábyrgð sem kann að falla á það ef (a) einhver fjárhæð reynist vangreidd, eða (b) einhver skuldbinding Tryggingarsjóðs skv. einhverju viðkomandi skjali er eða reynist ólögmæt, óbindandi, ógild eða óframfylgjanleg. Fjárhæðin, sem kostnaðurinn, tapið eða skaðinn nemur, skal vera jafnhá þeirri fjárhæð sem umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins hefðu ella átt rétt á að endurheimta.

    Grein 6.2 Skilyrðislausar skuldbindingar. Skuldbindingar Íslands skv. þessari VI. gr. eru skilyrðislausar og ófrávíkjanlegar, og án þess að það takmarki almennt gildi framangreinds getur ekkert af eftirfarandi falið í sér lausn undan skuldbindingum eða talist efnd á þeim eða með neinum hætti haft áhrif á þær:

    (a)     hvers kyns framlenging, endurnýjun, uppgjör, málamiðlun, undanþága eða lausn að því er varðar einhverja skuldbindingu eða skuldbindingar endurgreiðsluaðila skv. þessum samningi eða öðrum viðkomandi skjölum í krafti laga eða á annan hátt (nema aðilar samþykki með ótvíræðum hætti að slík framlenging, endurnýjun, uppgjör, málamiðlun, undanþága eða lausn eigi við um skuldbindingar Íslands skv. samningi þessum),

    (b)     hvers kyns breyting, skuldskeyting, framlenging, endurgerð eða viðbót við þennan samning eða annað viðkomandi skjal (nema aðilar samþykki með ótvíræðum hætti að slík breyting, skuldskeyting, framlenging, endurgerð eða viðbót eigi við um skuldbindingar Íslands skv. þessari VI. gr.),

    (c)     hvers kyns lausn, skerðing, ófullnustuhæfi eða gildisleysi veðs sem tryggir einhverja vangreidda fjárhæð,

    (d)     hvers kyns breyting á skráningu, skipulagi eða eignarhaldi á Tryggingarsjóði eða öðrum aðila eða hvers kyns aðgerðir vegna ógjaldfærni, endurskipulagningar eða sambærilegar aðgerðir varðandi Landsbankann, Tryggingarsjóð eða annan aðila,

    (e)     tilvist hvers kyns kröfu, skuldajöfnunarréttar eða annarra réttinda sem fjármálaráðuneyti Bretlands kann að eiga hverju sinni á hendur Tryggingarsjóði eða öðrum aðila, hvort heldur í tengslum við samning þennan eða önnur óskyld viðskipti,

    (f)     ef einhverjar skuldbindingar reynast ógildar eða óframfylgjanlegar í tengslum við eða gagnvart einhverjum endurgreiðsluaðila vegna samnings þessa eða annars viðkomandi skjals eða einhvers ákvæðis gildandi laga sem talið er koma í veg fyrir efndir af hálfu endurgreiðsluaðila á einhverjum skuldbindingum sínum skv. samningi þessum eða öðru viðkomandi skjali (nema að því leyti sem það eru skuldbindingar Íslands einar skv. þessari VI. gr. sem reynast ógildar eða óframfylgjanlegar),

    (g)     annað athæfi eða athafnaleysi eða töf af hvaða toga sem er af hálfu endurgreiðsluaðila eða annars aðila eða aðrar aðstæður af hvaða toga sem er sem kynnu, ef ekki nyti við ákvæða þessarar 2. mgr. 6. gr., að teljast efnd á skyldum endurgreiðsluaðila skv. samningi þessum eða öðrum viðkomandi skjölum að lögum eða eðli máls

    Grein 6.3 Lausn undan kröfum fæst þegar greitt er að fullu; endurnýjun skuldbindinga við tilteknar aðstæður. Skuldbindingar Íslands skv. þessari VI. gr., halda gildi sínu allt þar til allar eftirstöðvar vangreiddra fjárhæða hafa verið gerðar upp, hvað sem líður milligreiðslum eða efndum, hvort heldur er að fullu eða að hluta, og skulu þær gilda að fullu þar til allar vangreiddar fjárhæðir hafa verið greiddar eða efndar með öðrum hætti í heild og ekki geti framar orðið um neina vangreidda fjárhæð að ræða. Ef einhverri greiðslu skv. samningi þessum eða öðru viðkomandi skjali er rift eða hana þarf að endurgreiða eða skila henni við ógjaldfærni, gjaldþrot, endurskipulagningu eða við aðrar aðstæður sem varða Tryggingarsjóð eða annan aðila, eða af öðrum sökum, þá skulu skuldbindingar Íslands skv. samningi þessum, að því er varðar þá greiðslu, teljast endurnýjaðar á þeim tíma eins og viðkomandi greiðsla hefði verið gjaldfallin en ekki greidd.

    Grein 6.4 Eftirgjöf (e. Waiver). Ísland afsalar sér óafturkallanlega og skilyrðislaust, að því marki sem þau lög sem gilda leyfa, rétti sínum til (a) tilkynningar um samþykki samnings þessa og tilkynningar um hvers kyns ábyrgð sem samningur þessi kann að eiga við um; (b) allra tilkynninga sem krafist kann að vera skv. lögum sem gilda eða í því skyni að viðhalda óskertum öllum réttindum umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins gagnvart Tryggingarsjóði, þ.m.t. krafna, framlagningar, andmæla, sönnunar um að send hafi verið tilkynning um greiðslufall, tilkynninga um vanrækslu af hálfu Tryggingarsjóðs að efna og virða nokkra skuldbindingu, samning, skilmála, skilyrði eða ákvæði einhvers samnings og allra annarra tilkynninga til einhvers aðila sem kann að vera ábyrgur að því er varðar skuldbindingar Tryggingarsjóðs, nema að því marki sem einhvers af framangreindu sé berum orðum krafist skv. samningi þessum, (c) beitingar á réttindum til framfylgdar, staðfestingar eða nýtingar af hálfu umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins á einhverjum rétti, heimildum, sérstökum réttindum eða úrræðum sem þeim ber skv. þessum samningi, öðrum viðkomandi skjölum eða með öðrum hætti, og (d) hvers kyns skyldu þess efnis að umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins neyti með tæmandi hætti allra réttinda, heimilda, sérstakra réttinda eða úrræða eða lágmarki allan skaða sem leiðir af vanefnd skv. einhverju viðkomandi skjali. Þessi eftirgjöf gildir án tillits til laga sem gilda eða ákvæða samnings þessa eða annarra viðkomandi skjala sem kunna að kveða á um annað.

    Grein 6.5 Kröfuhafaskipti. Íslandi er óheimilt að fullnusta greiðsluskyldu sína með framsali kröfu, skaðleysisyfirlýsingu, endurkröfu eða á annan hátt, eða nýta sér önnur réttindi (eða færa sér í nyt greiðslu eða annað framsal sem leiðir af slíkum réttindum) sem það kann að eiga gagnvart Tryggingarsjóði í tengslum við efndir hans á skuldbindingum sínum skv. samningi þessum eða öðrum viðkomandi skjölum svo lengi sem skuldbindingar skv. samningnum eða öðrum viðkomandi skjölum eru ógreiddar eða óefndar (og fái Ísland greiðslu eða úthlutun í tengslum við slíkan rétt skal það þegar í stað afhenda umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins greiðslu eða úthlutun).

    Grein 6.6 Viðbótartrygging. Sérstakar yfirlýsingar, skuldbindingar og skaðleysi, sem kveðið er á um í þessari VI. gr., koma til viðbótar við og takmarkast ekki á nokkurn hátt af öðrum sérstökum yfirlýsingum, skaðleysisyfirlýsingum, tryggingum eða öðrum skjölum eða gerningum, sem umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins eða annar aðili hefur nú í höndum eða fær síðar í hendur.

VII. GR.
GILDISTÖKUSKILYRÐI


    Grein 7.1 Gildistökuskilyrði. Gildistaka samnings þessa er háð eftirfarandi skilyrðum:

    (a)     að umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins hafi borist eftirfarandi skjöl sem öll skulu vera að efni og formi sem þeir telja fullnægjandi:

              (i)      Staðfesting varðandi endurgreiðslu- og skaðleysissamning við Holland. Staðfesting frá Hollandi um að öllum skilyrðum fyrir gildistöku endurgreiðslu- og skaðleysissamnings Hollands (að undanskilinni móttöku staðfestingar frá umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins um að öllum skilyrðum sé fullnægt fyrir gildistöku þessa samnings) sé fullnægt.

              (ii)      Lög um ríkisábyrgð. Afrit af íslenskum lögum sem tekið hafa gildi og verða ekki felld niður eða sniðgengin með þjóðaratkvæðagreiðslu og kveða á um skilyrðislausa og skýlausa heimild fyrir þeirri skaðleysisskuldbindingu sem tilgreind er í VI. gr. og um að allar aðrar heimildir sem nauðsynlegar teljast til þess að tryggja að skuldbindingar endurgreiðsluaðila skv. samningi þessum og öðrum viðkomandi skjölum séu löglegar, gildar, bindandi og aðfararhæfar, ásamt löggiltri enskri þýðingu laganna, og

              (iii)     Aðrar heimildir. Afrit af undanþágu sem Seðlabanki Íslands veitti Tryggingarsjóði skv. reglum 370/2010 um gjaldeyrisviðskipti til þess að hann geti undirritað og uppfyllt samning þennan og önnur viðkomandi skjöl, ásamt löggiltri enskri þýðingu, og

    (b)      Lögfræðiálit. Álit frá Lex lögfræðistofu, lögfræðilegum ráðgjöfum Tryggingarsjóðs, og álit Ríkislögmanns, m.a. um stöðu og heimildir hvers endurgreiðsluaðila og skuldbindandi undirritun samnings þessa og allra annarra viðkomandi skjala af þeirra hálfu.

    (c)     Tryggingarsjóður og FSCS skulu hafa gengið frá framsalssamningi FSCS.

    (d)     Tryggingarsjóður og FSCS skulu hafa gengið frá hliðarsamningi við uppgjörssamninginn (e. Settlement Agreement Side Letter).

    Grein 7.2 Efndir gildistökuskilyrða. Ef ráðstöfunum skv. 1. mgr. 7. gr. er ekki lokið fyrir 31. desember 2010:

    (a)     ef það sem ólokið er felst í því að FSCS hefur ekki undirritað og afhent Tryggingarsjóði framsalssamning FSCS og hliðarsamninginn við uppgjörssamninginn geta endurgreiðsluaðilar rift samningi þessum með tilkynningu til umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins, og

    (b)     ef það sem ólokið er felst í því að ekki hefur verið gengið frá öðrum ráðstöfunum sem um getur í 1. mgr. 7. gr. geta umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins rift samningi þessum með tilkynningu til Tryggingarsjóðs og afriti til Íslands,

með þeim áhrifum, í báðum tilvikum, að samningur þessi telst niður fallinn.

    Grein 7.3 Lok lánssamnings og viðaukasamnings. Þann dag sem samningur þessi tekur gildi falla lánsamningurinn og viðaukasamningurinn út gildi, hafi þeir ekki áður fallið úr gildi.

VIII. GR.
SÉRSTAKAR YFIRLÝSINGAR (e. Representations and Warranties)


    Grein 8.1 Sérstakar yfirlýsingar Tryggingarsjóðs. Tryggingarsjóður lýsir yfir og ábyrgist eftirfarandi gagnvart fjármálaráðuneyti Bretlands á þeim degi sem samningur þessi er gerður:

(A)          Tryggingarsjóður innstæðueigenda er (a) sjálfseignarstofnun, sem er stofnuð og skráð að íslenskum lögum og með lögmæltu skipulagi og er, að því er varðar íslensk lög sem um starfsemi hans gilda, í góðum skilum og (b) hefur allar nauðsynlegar heimildir sem félag til að fara með eignir sínar og til að starfa með þeim hætti sem hann gerir nú.

(B)          Samningur þessi, sem og sérhvert viðkomandi skjal annað, sem sjóðurinn er aðili að, hafa verið afhent og eru undirrituð með tilskildum hætti, teljast lögmæt, gild og fela í sér bindandi skuldbindingu, og verður í hverju tilviki framfylgt skv. skilmálum sínum, nema að því marki sem almenn sanngirnissjónarmið, sem að jafnaði ber að líta til og er sérstaklega vísað til í lögfræðiáliti því sem um getur í c-lið 1. mgr. 7. gr., setja því skorður.

    Grein 8.2 Sérstakar yfirlýsingar endurgreiðsluaðila. Endurgreiðsluaðilar lýsa yfir og ábyrgjast gagnvart umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins frá dagsetningu samnings þessa að undanþágan sem Seðlabanki Íslands veitti Tryggingarsjóði samkvæmt. reglum nr. 370/2010 um gjaldeyrisviðskipti til þess að hann geti undirritað og uppfyllt samning þennan og önnur viðkomandi skjöl sem um getur í iii. lið a-liðar 1. mgr. 7. gr. sé skilyrðislaus, óafturkallanleg og í fullu gildi og að ekki sé krafist frekari ábyrgðar, leyfis, samþykkis eða annarrar heimildar eða aðgerðar frá íslenskum stjórnvaldsstofnunum í tengslum við undirritun eða uppfyllingu samnings þessa eða annarra viðkomandi skjala eða til að tryggja að skuldbindingar endurgreiðsluaðila samkvæmt samningi þessum og öðrum viðkomandi skjölum séu löglegar, gildandi, bindandi og aðfararhæfar.

IX. GR.
SÉRSTAKAR SKULDBINDINGAR


    Grein 9.1 Sambærileg meðferð. Grípi endurgreiðsluaðili til ráðstöfunar sem telst „viðkomandi fjármögnunarráðstöfun“ og sá fjármögnunaraðili nýtur þegar á heildina er litið hagstæðari meðferðar en umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins skv. samningi þessum eða öðrum viðkomandi skjölum, eða nýtur veðtryggingar, munu endurgreiðsluaðilar láta umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins njóta sömu hagstæðu meðferðar eða sambærilegs veðréttar (og munu endurgreiðsluaðilar láta skjalfesta það á nauðsynlegan eða æskilegan hátt).

    Grein 9.2 Jöfn meðferð. Ef Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, annar tryggingarsjóður eða Ísland greiðir umframgreiðslu skal Tryggingarsjóður greiða (eða sjá til þess að annar viðkomandi tryggingarsjóður greiði) fjárhæð sem er jafnhá umframgreiðslunni til hvers og eins af innstæðueigendum hjá Landsbankanum í London, með þeim fyrirvara að hafi umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins eða FSCS greitt innstæðueiganda hjá Landsbankanum í London skv. lögum nr. 98/1999 fjárhæð sem er umfram 20.887 evrur á kröfu muni greiðslan skv. þessari grein renna til umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins eða FSCS, eftir því sem við á.

X. GR.
ÖNNUR ÁKVÆÐI


    Grein 10.1 Breyting á aðstæðum. Komi til þess á einhverjum tíma að í nýjustu IV. greinar úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á stöðu Íslands segi að skuldaþoli landsins hafi hrakað til muna miðað við slíkt mat hans frá 19. nóvember 2008, samþykkja umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins, óski Ísland þess, að eiga fundi með fulltrúum Íslands til að ræða stöðuna og íhuga hvort, og þá hvernig, skuli breyta samningi þessum og öðrum viðkomandi skjölum þannig að þau endurspegli þá breytingu á aðstæðum sem um ræðir.

    Grein 10.2 Aðrar breytingar. Ef breytingar verða á samþykktri kröfufjárhæð eða samþykktri vaxtafjárhæð vegna ákvörðunar slitastjórnar Landsbankans eða lögbærs dómstóls:

              (i)     skulu allir útreikningar samkvæmt. samningi þessum eða öðrum viðkomandi skjölum sem eru beint eða óbeint byggðir á samþykktri kröfufjárhæð eða samþykktri vaxtafjárhæð endurútreiknaðir eins og samþykkta kröfufjárhæðin eða samþykkta vaxtafjárhæðin hafi verið breytta samþykkta kröfufjárhæðin eða samþykkta vaxtafjárhæðin og verið í gildi frá dagsetningu samnings þessa,

              (ii)     skal, ef einhver fjárhæð hefur verið greidd eða henni úthlutað á grundvelli fyrri útreiknings, slík greiðsla eða úthlutun ganga til baka eða henni endurúthlutað eftir því sem við á að því marki sem nauðsynlegt er til að endurspegla endurútreikninginn.

    Grein 10.3 Eftirgjöf (e. waiver). Nú lætur fjármálaráðuneyti Bretlands hjá líða að nýta einhvern rétt, heimild eða sérstök réttindi skv. samningi þessum eða öðru viðkomandi skjali eða tafir verða á slíkri beitingu eða tiltekin hefð skapast í samskiptum samningsaðila og skal það þá ekki skerða þann rétt, þá heimild eða þau sérstöku réttindi eða fela í sér eftirgjöf eða frávik frá þeim, og engin einstök nýting réttar, heimildar eða sérréttinda skv. neinu viðkomandi skjali, eða nýting þeirra að hluta til, skal koma í veg fyrir aðra eða frekari nýtingu þeirra eða nýtingu neins annars réttar, heimildar eða sérstakra réttinda. Hver þau réttindi eða heimild sem breska fjármálaráðuneytið kann að beita, eða ákvörðun sem það kann að taka skv. samningi þessum (þ.m.t. hvers kyns ráðstöfun, mál eða atriði sem ráðuneytið samþykkir, tilgreinir, ákvarðar, ákveður eða tilkynnir Tryggingarsjóði eða íslenska ríkinu) er breska fjármálaráðuneytinu heimilt að beita eða grípa til alfarið og hindrunarlaust eftir eigin mati á hverjum tíma, án þess að krafist verði rökstuðnings.

    Grein 10.4 Tilkynningar. Allar tilkynningar, beiðnir, fyrirmæli, leiðbeiningar og önnur samskipti sem kveðið er á um í samningi þessum skulu eiga sér stað með skriflegum hætti á ensku með boðsendu bréfi eða símbréfi (sem heimilt er að afrita og senda með tölvupósti, en telst þá ekki gild afhending) til eftirfarandi:

    (a)     sé viðtakandi Tryggingarsjóður innstæðueiganda og fjárfesta, þá til sjóðsins að Borgartúni 26, 3. hæð, 105 Reykjavík, Íslandi, bréfasími +354 590 2606, b.t. framkvæmdastjóra, með afriti til íslenska ríkisins, fjármálaráðuneytinu, Arnarhvoli við Lindargötu, 150 Reykjavík, Íslandi, bréfasími: +354 562 8280, b.t. ráðuneytisstjóra,

    (b)     sé viðtakandi Ísland, þá til ríkisins, fjármálaráðuneytinu, Arnarhvoli við Lindargötu, 150 Reykjavík, bréfasími: +354 562 8280, b.t. ráðuneytisstjóra, og

    (c)     séu viðtakendur umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins, þá til HMT Commissioners, HM Treasury, 1 Horse Guards Road, London SW1A 2HQ, United Kingdom og +44 (0)20 7270 5764 (attention: Tom Scholar), og

    (d)     sé FSCS (breski tryggingarsjóðurinn) viðtakandi, til Financial Services Compensation Scheme, 7 th Floor, Lloyds Chamber, 1 Portsoken Street, London E1 8BN, United Kingdom og +44 (0)20 7892 7637 (attention: Mark Neale).

Ef ekki er kveðið á um annað í samningi þessum skulu allar slíkar orðsendingar teljast réttilega afhentar, (i) séu þær boðsendar á heimilisfang samningsaðilans sem þær eru ætlaðar, á þeim tíma þegar þær eru skildar eftir (eða, séu þær skildar eftir á degi sem er ekki virkur dagur, þá kl. 8.15 f.h. (að staðartíma) næsta virka dag), og (ii) séu þær sendar með bréfasíma, þegar staðfesting á móttöku berst frá bréfasímanum sem tekur við þeim (eða, séu þær sendar á degi sem er ekki virkur dagur, þá kl. 8.15 f.h. (að staðartíma) næsta virka dag), enda sé fullnægjandi, þegar færa skal sönnur á að tilkynning hafi verið send skv. samningi þessum eða í tengslum við hann, að sýna fram á að tilkynningin hafi verið afhent á heimilisfangið.

    Grein 10.5 Breytingar o.fl. Ef ekki er sérstaklega kveðið á um annað í samningi þessum er aðeins heimilt að breyta, auka við eða falla frá ákvæði hans og annarra viðkomandi skjala (nema að því leyti sem þau kveða sérstaklega á um annað) með skriflegu samkomulagi milli þeirra samningsaðila sem slík breyting, viðbót eða eftirgjöf hefur áhrif á.

    Grein 10.6 Arftakar og framsalshafar. (a) Samningur þessi er bindandi fyrir samningsaðila og gerður í þágu þeirra. Engum samningsaðila er heimilt að framselja, yfirfæra eða binda neinum kvöðum réttindi sín eða skuldbindingar skv. samningi þessum eða öðrum viðkomandi skjölum (ráðstafanir í þá átt teljast ógildar frá upphafi).

    (b)     Samningur þessi er eingöngu gerður til verndar aðilum og í lagalega þágu þeirra og enginn annar aðili skal teljast beinn eða óbeinn rétthafi skv. samningi þessum eða hafa beint eða óbeint tilefni til málsóknar eða kröfugerðar í tengslum við hann skv. breskum lögum um samningsréttindi þriðju aðila frá 1999 (e. Contracts (Rights of Third Parties) Act 1999) að því tilskildu að FSCS njóti hags af og geti framfylgt hvers kyns réttindum sem honum eru veitt, eða ákvæðum eða skilmálum sem kveðið er á um að séu í hans þágu, skv. samningi þessum.

    Grein 10.7 Fyrirsagnir. Efnisyfirlit, fyrirsagnir og kaflaheiti samnings þessa eru einvörðungu til hægðarauka við tilvísanir og er ekki ætlað að hafa áhrif á túlkun nokkurs ákvæðis hans.

    Grein 10.8 Samhljóða eintök. Samning þennan má gera í eins mörgum samhljóða eintökum og verða vill, en þau mynda öll saman einn og sama gerninginn, og getur hver samningsaðili staðfest samning þennan með því að undirrita eitthvert slíkra eintaka. Hvert samhljóða eintak skal teljast frumrit af samningi þessum en saman skulu þau mynda þau einn og sama gerninginn.

    Grein 10.9 Lög sem gilda. SAMNINGUR ÞESSI OG MÁL, KRÖFUR EÐA ÁGREININGUR SEM RÍS VEGNA HANS EÐA Í TENGSLUM VIÐ HANN, HVORT HELDUR ER INNAN EÐA UTAN SAMNINGA (e. CONTRACTUAL OR NON-CONTRACTUAL), SKULU LÚTA ENSKUM LÖGUM OG TÚLKAST SKV. ÞEIM.

    Grein 10.10 Gerðardómur. (a) LEITA SKAL ÚRSKURÐAR GERÐARDÓMS VEGNA HVERS KYNS ÁGREININGS, MÁLSHÖFÐUNAR EÐA MÁLAREKSTURS AF HÁLFU EÐA GEGN EINHVERJUM SAMNINGSAÐILA VARÐANDI SAMNING ÞENNAN EÐA VEGNA HANS, HVORT HELDUR ER INNAN EÐA UTAN SAMNINGA, Þ.M.T. ÁGREININGUR, MÁLSHÖFÐUN EÐA MÁLAREKSTUR VARÐANDI TILVIST, GILDI, GERÐ EÐA UPPSÖGN ÞESSA SAMNINGS („ÁGREININGUR“), OG SKAL HANN VERA ENDANLEGUR OG BINDANDI Í SAMRÆMI VIÐ REGLUR ALÞJÓÐAGERÐARDÓMSINS SEM TELJAST FELLDAR INN Í ÞETTA ÁKVÆÐI MEÐ TILVÍSUN, ÞÓ EKKI AÐ ÞVÍ MARKI SEM ÞÆR VARÐA RÍKISFANG GERÐARDÓMSMANNA.

    (b)     Við gerðardómsmeðferð, sbr. a-lið hér að framan:

              (i)     skulu gerðardómsmenn vera þrír,

              (ii)     ef allir samningsaðilar eru aðilar að gerðardómsmeðferðinni, skulu (A) endurgreiðsluaðilar sameiginlega tilnefna einn gerðardómara (tilnefni endurgreiðsluaðilarnir ekki sameiginlega gerðardómara þá skal með fara skv. 2. mgr. 7. gr. reglna Alþjóðagerðardómsins), og (B) fjármálaráðuneyti Bretlands tilnefna einn gerðardómara og hinir tveir tilnefndu skulu velja þriðja dómarann sem skal vera forseti gerðardómsins,

              (iii)     aðalframkvæmdastjóri Alþjóðagerðardómsins skal annast tilnefningar,

              (iv)     gerðardómsmeðferðin skal fara fram í London, Englandi,

              (v)     þingmálið skal vera enska,

              (vi)     reglur Alþjóðasamtaka lögmannafélaga (IBA) um öflun sönnunargagna við alþjóðlega gerðardóma frá 29. maí 2010 skulu gilda,

              (vii)     gerðardómurinn skal gera það sem í hans valdi er til að komast að endanlegri niðurstöðu innan tólf mánaða frá tilnefningu þriðja gerðardómarans sem er í forsæti gerðardómsins, og skal stýra málsmeðferðinni í samræmi við það,

              (viii)     gerðardómurinn skal kveða upp úrskurð sinn í samræmi við ensk lög (en ekki, til að fyrirbyggja vafa, sem amiable compositeur 1 eða ex æquo et bono 2 ), og

              (ix)     allir samningsaðilar, gerðardómsmenn, aðalframkvæmdastjórinn og alþjóðaskrifstofa Alþjóðagerðardómsins skulu virða trúnaðarkvaðir um að yfir standi gerðardómsmeðferð og hverjar þær upplýsingar sem þeim berast í tengslum við slíka málsmeðferð.

    Grein 10.11 Fallið frá friðhelgisréttindum (e. Waiver of Sovereign Immunity). Hver endurgreiðsluaðili fellst almennt á hvers konar stefnubirtingu í tengslum við ágreining sem upp kann að koma og að veittar séu hvers kyns úrbætur eða úrræði í því tilliti, þ.m.t. með aðför eða fullnustu í hvaða eignum hans sem er (óháð notum þeirra eða ætluðum notum) skv. hvers kyns úrskurði eða dómi (þ.m.t. til að taka af allan vafa, úrskurður gerðardóms skv. 9. mgr. 9. gr.). Njóti einhver endurgreiðsluaðili eða eignir hans friðhelgi, í hvaða lögsögu sem er, gagnvart birtingu stefnu eða annarra gagna er varða hvers konar ágreining, eða friðhelgi frá lögsögu, málshöfðun, dómsuppkvaðningu, fullnustu, fjárnámi (hvort heldur er án undanfarandi dóms, til stuðnings við fullnustu eða á annan hátt) eða öðrum lagalegum úrræðum, er hér með fallið frá þeim rétti með óafturkræfum hætti að því ýtrasta marki sem heimilt er skv. lögum viðkomandi lögsögu. Hver endurgreiðsluaðili samþykkir einnig með óafturkræfum hætti að byggja ekki á slíkri friðhelgi til varnar sjálfum sér eða eignum sínum. Samningsaðilar staðfesta (i) að málsgrein þessi nær ekki til eigna íslenska ríkisins sem njóta friðhelgi skv. Vínarsamningnum um stjórnmálasamband, eigna íslenska ríkisins á Íslandi sem nauðsynlegar eru til þess að Ísland geti komið fram sem fullvalda ríki eða eigna Seðlabanka Íslands og (ii) engu í samningi þessum eða öðrum viðkomandi skjölum er ætlað, eða mun leiða til þess, að taka stjórn af Íslandi á náttúruauðlindum sínum eða réttinum til að kveða á um nýtingu þeirra eða skipan eignarhalds á þeim.

    Grein 10.12 Sjálfstæði einstakra ákvæða. Reynist eitthvert ákvæði samnings þessa eða skjals sem krafist er skv. honum ólögmætt eða óvirkt í einhverri lögsögu skal það ekki á neinn hátt hafa áhrif á eða skerða lögmæti eða virkni eftirstandandi ákvæða samnings þessa eða slíks annars skjals í viðkomandi lögsögu eða slíks ákvæðis í neinni annarri lögsögu.

[Undirskriftir fylgja]


ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa samningsaðilar beitt sér fyrir undirritun samnings þessa með tilskildum hætti á þeim degi og ári sem í upphafi greinir.

    Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta
    Fulltrúi:
    Nafn: [*] Starfsheiti: [*]

    Ísland
    Fulltrúi:
    Nafn: [*] Starfsheiti: [*]

    Hollenska ríkið
    Fulltrúi:
    Nafn: [*]
    Starfsheiti: [*]


FYLGISKJAL I
með endurgreiðslusamningi

    „ Viðaukasamningur“: viðaukasamningur milli samningsaðila sem dagsettur er 19. október 2009.

    „ Samþykkt kröfufjárhæð“ merkir á hverjum tíma fjárhæð framseldrar kröfu (í íslenskum krónum) sem hefur verið samþykkt af slitastjórn Landsbankans (eða lögbærum dómstólum, og er slík ákvörðun dómstóls rétthærri og bindandi ef hún er önnur en slitastjórnar) sem lögmæt krafa í bú Landsbankans skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

    „ Samþykkt vaxtafjárhæð“: fjárhæð vaxta sem eru hluti af samþykktri kröfufjárhæð á hverjum tíma.

    „ Framseld krafa“: sameiginlega, kröfur gagnvart Landsbankanum sem framseldar hafa verið, eða búist er við að verði framseldar, til Tryggingarsjóðs af FSCS skv. framsalssamningi FSCS.

    „ Lög nr. 98/1999“: íslensk lög nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, miðað við 11. október 2008.

    „ Samningur“: hefur þá merkingu sem gefin er í innganginum að samningi þessum.

    „ Lög sem gilda“: hvers kyns gildandi sett lög og önnur lög, reglugerðir, bráðabirgðalög, reglur, dómar, fordæmisréttur, fyrirmæli, úrskurðir, samþykki, heimildir, sérleyfi, umboð, leyfi, samningar, tilskipanir, leiðbeiningar, stefnumarkanir, skilyrði eða aðrar takmarkanir stjórnvalda eða sambærilegar ákvarðanir eða úrskurðir af hálfu stjórnvalds (eða hvers kyns túlkun eða framkvæmd þeirra), hvort heldur sem slík lög eru í gildi á dagsetningu samnings þessa (nema hið gagnstæða leiði af samningi þessum eða öðru viðkomandi skjali) eða taka gildi síðar.

    „ Dráttarvextir“: ársvextir á viðkomandi ákvörðunartíma sem nema samtölu (a) vaxtastigs fyrra tímabils að viðbættum 0,30 prósentustigum á tímabilinu frá dagsetningu þessa samnings til upphafsdags seinna tímabils, og (b) ársvextir sem nema viðmiðunarvöxtum seinna tímabils að viðbættum 0,50 prósentustigum á tímabilinu frá og með upphafsdegi seinna tímabils.

    „ Virkur dagur“: hver sá dagur (annar en laugardagur eða sunnudagur) þegar viðskiptabönkum er ekki heimilt eða skylt að loka í Reykjavík (á Íslandi) eða í London (Englandi).

    „ Upphafsdagur“: 5. júní 2009.

    „ Fjárhæð í vanskilum“: hver sú fjárhæð sem gjaldfallin er hjá endurgreiðsluaðila en er áfram ógreidd, andstætt skilmálum samnings þessa.

    „ Tilskipun 94/19/EB“: tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EB frá 30. maí 1994 um innlánatryggingakerfi, miðað við 11. október 2008 (nema annað sé tekið fram).

    „ Útgreiðsla“: útgreiðsla sem er innt af hendi eða skal inna af hendi skv. samningi þessum.

    „ Útgreiðsludagur“: dagurinn þegar útgreiðsla fer fram eða skal fara fram.

    „ Útgreiðslubeiðni“: tilkynning, í megindráttum með því sniði sem fram kemur á eyðublaðinu í fylgiskjali II.

    „ DNB“: „DNB“ eins og hann er skilgreindur í endurgreiðslu- og skaðleysissamningnum við Holland.

    „ Framsalssamningur DNB“: „Framsalssamningur DNB“ eins og hann er skilgreindur í endurgreiðslu- og skaðleysissamningnum við Holland.

    „ evra“ eða „ .“: núverandi lögeyrir í aðildarríkjum Evrópusambandsins, sem taka upp eða hafa tekið upp evruna sem löglegan gjaldmiðil sinn skv. lögum Evrópubandalagsins um efnahags- og myntbandalag.

    „ Umframgreiðsla“: greiðsla umfram 20.887 evrur vegna kröfu eða krafna innstæðueiganda hjá Landsbankanum (að frátöldum, til að taka af allan vafa, fyrrum innstæðueiganda hjá Landsbankanum sem varð innstæðueigandi hjá NBI), annars en innstæðueiganda hjá Landsbankanum í London.

    „ Lán“: lánið eins og því er lýst í a-lið 1. mgr. 2. gr.

    „ Fjárhæð láns“ hefur þá merkingu sem tilgreind er í a-lið 1. mgr. 2. gr.

    „ Vaxtastig fyrra tímabils“: 3,3 prósent á ári.

    „ FSCS“: Financial Services Compensation Scheme Limited (FSCS).

    „ Bankareikningur FSCS“: einn eða fleiri bankareikningar FSCS hjá umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins.

    „ Framsalssamningur FSCS“: samningur um framsal krafna, sem Tryggingarsjóður og FSCS munu gera á því formi sem samningsaðilar stóðu að fyrir dagsetningu þessa samnings.

    „ Stjórnvald“: hver sú þjóð eða ríkisstjórn, ríki eða sveitarfélag, hvers kyns fjölþjóðastofnun eða sambærileg stofnun eða hvers kyns önnur stjórnardeild, stjórnarstofnun eða pólitíska undirdeild slíkra stofnana og hver sá aðili annar sem fer með framkvæmdavald, löggjafarvald, dómsvald, peningavald, eftirlitshlutverk eða stjórnsýsluhlutverk á vegum stjórnvalda.

    „ Tryggingarsjóður“: hefur þá merkingu sem gefin er í innganginum að samningi þessum.

    „ Hlutdeild Tryggingarsjóðs úr búinu“: (i) sérhver fjárhæð eftir því sem við á sem Tryggingarsjóður hefur tekið á móti að því er varðar kröfur innstæðueigenda eða fyrrum innstæðueigenda Landsbankans eða á annan hátt í tengslum við ógjaldfærni Landsbankans, og (ii) sérhver fjárhæð eftir því sem við á sem Seðlabanki Hollands hefur móttekið og sem Seðlabanka Hollands ber að greiða til hollenska ríkisins í samræmi við 4. mgr. 2. gr. framsalssamnings Seðlabanka Hollands, og (iii) sérhver fjárhæð eftir því sem við á sem FSCS hefur móttekið og FSCS ber að greiða til umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins í samræmi við 5. mgr. 2. gr. framsalssamnings FSCS.

    „ Umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins“: hefur þá merkingu sem gefin er í innganginum að samningi þessum.

    „ Heildarheimtur á vaxtahluta breska fjármálaráðuneytisins“: samtala allra fjárhæða á hverjum tíma sem eru tilkomnar í samræmi við 1. undirlið B í ii. lið a-liðar 5. mgr. 4. gr. eða fyrir þann tíma.

    „ Vaxtahluti breska fjármálaráðuneytisins“: hlutfall vaxtafjármuna á hverjum tíma sem er reiknað með því að margfalda vaxtafjármunina með hlutfalli sem ræðst af endurheimtuhlutfallinu á þeim tíma og er ákvarðað í samræmi við eftirfarandi töflu:

Endurheimtuhlutfall Vaxtahluti br. fjármálar.
86 eða lægra Núll
≥86 . 87 0.05
≥87 . 88 0.10
≥88 . 89 0.15
≥90 . 91 0.20
≥91 . 92 0.25
≥92 . 93 0.35
≥93 . 94 0.45
≥94 . 95 0.55
≥95 . 96 0.65
≥96 . 97 0.75
≥97 . 98 0.85
≥98 . 99 0.95
≥99 . 100 1

    „ Uppgjörsreikningur breska fjármálaráðuneytisins“ einn eða fleiri bankareikningar umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins sem þeir tilkynna Tryggingarsjóði um á hverjum tíma.

    „ Ísland“: hefur þá merkingu sem gefin er í innganginum að samningi þessum.

    „ Vaxtafjármunir“: merkir á hverjum tíma fjárhæð (í sterlingspundum) sem jafngildir hluta af hlutdeild Tryggingarsjóðs úr búinu á þeim tíma, sem reiknuð er með því að margfalda upphæð hlutdeildar Tryggingarsjóðs á hverjum tíma með hlutfalli þar sem teljarinn er samþykkta vaxtafjárhæðin og nefnarinn er samþykkta kröfufjárhæðin í hvoru tilviki á þeim tíma.

    „ Jafnvirðisfjárhæð (í íslenskum krónum)“: merkir, að því er varðar fjárhæð í evrum eða sterlingspundum á útreikningsdegi, jafngildi slíkrar upphæðar í krónum, reiknað á meðalgengi eins og það er birt af Seðlabanka Íslands (eða birti Seðlabanki Íslands ekki slíka gengisskráningu, daggengi frá aðila sem íslenska ríkið og umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins koma sér saman um á sanngjarnan hátt, eða ef íslenska ríkið og umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins koma sér ekki saman um slíkt gengi fyrir þá dagsetningu þegar ákvarða skal viðkomandi jafngildi ISK, eða eins og það er ákvarðað með gerðardómi skv. 10. mgr. 10. gr.) fyrir tímabilið einn mánuð sem lýkur á deginum fyrir viðkomandi dag.

    „ Króna“ eða „ ISK“: núverandi lögeyrir á Íslandi.

    „ Landsbanki“: Landsbanki Íslands hf., fjármálafyrirtæki sem stofnað er skv. íslenskum lögum.

    „ Innstæðueigandi hjá Landsbankanum“: aðili sem lagt hefur fjármuni inn á innlánsreikning eða á með öðrum hætti innstæðu hjá Landsbankanum og á samsvarandi kröfu á hendur Landsbankanum sem Tryggingarsjóður hefur ábyrgst skv. lögum nr. 98/1999 (þ.m.t., til að taka af allan vafa, sérhver innstæðueigandi hjá Landsbankanum í London).

    „ Landsbankinn í London“: útibú Landsbankans í London.

    „ Innstæðueigandi hjá Landsbankanum í London“: i) sérhver innstæðueigandi „Icesave- reiknings“ hjá Landsbankanum í London, ii) sérhver aðili, sem lagði inn umsókn um að opna „Icesave-reikning“ hjá Landsbankanum í London og millifærði peningana til Barclays-banka sem greiðslujöfnunarbanka (e. clearing bank) Landsbankans í London í Bretlandi, en ekki hefur verið opnaður „Icesave-reikningur“ fyrir, þannig að millifærðir peningar eru enn hjá Barclays-banka og iii) sérhver annar aðili sem hefur lagt inn fjármuni, eða á með öðrum hætti innstæðu hjá Landsbankanum í London, að því tilskildu, í þessu síðasta tilviki, að samsvarandi krafa á hendur Landsbankanum sé hæf skv. reglum FSCS um útgreiðslu tryggingar.

    „ Veð“: hver kyns veðsetning, ábyrgð, varsla þriðja aðila, kvöð eða önnur trygging.

    „ Lánssamningur“: lánssamningur dagsettur 5. júní 2009 milli samningsaðila.

    „ Tilvik sem leiðir til uppgreiðsluskyldu“: atburður eða kringumstæður sem skilgreindar eru sem slíkar í b-lið 5. mgr. 4. gr.

    „ Veruleg neikvæð áhrif sem tengjast uppgreiðsluskyldu“: hvers kyns áhrif sem skerða getu einhvers endurgreiðsluaðila til þess að efna greiðsluskyldu sína eða aðrar skyldur sem þýðingu hafa skv. samningi þessum eða öðru viðkomandi skjali.

    „ Ársfjórðungsleg afborgun til Hollands“: „ársfjórðungsleg afborgun“ eins og það hugtak er skilgreint í endurgreiðslu- og skaðleysissamningnum við Holland.

    „ Endurgreiðslu- og skaðleysissamningur við Holland“: endurgreiðslu- og skaðleysissamningurinn, sem gerður hefur verið eða gerður verður á sama degi eða um svipað leyti og samningur þessi, milli Tryggingarsjóðs, Íslands og hollenska ríkisins.

    „ Endurgreiðslufjárhæð til Hollands“: „endurgreiðslufjárhæð“ eins og það hugtak er skilgreint í hollenska endurgreiðslu- og skaðleysissamningnum.

    „ Endurgreiðslufjárhæð til Hollands á seinna tímabili“: „endurgreiðslufjárhæð á seinna tímabili“ eins og það hugtak er skilgreint í endurgreiðslu- og skaðleysissamningnum við Holland.

    „ Annar tryggingarsjóður“: hvers konar innlánatryggingakerfi sem komið er á fót og er opinberlega viðurkennt á Íslandi skv. tilskipun 94/19/EB (þ.m.t. skv. hvers konar breytingu á henni, endurútgáfu hennar eða tilskipun sem kemur í hennar stað), annað en Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta.

    „ Samningsaðilar“: hefur þá merkingu sem gefin er í innganginum að samningi þessum.

    „ Greiðsludagur“: 1. janúar 2011 og sérhver 1. apríl, 1. júlí, 1. september og 1. janúar eftir 1. janúar 2011.

    „ Útgreiðslukostnaður“: kostnaður sem FSCS stofnar til við útgreiðslu trygginga til innstæðueigenda Landsbankans í London að því er varðar kröfur þeirra á hendur Landsbankanum eða Tryggingarsjóði skv. lögum nr. 89/1999 eins og um getur í forsendum þessa samnings og er að upphæð 10.000.000 (tíu milljón) sterlingspund.

    „ Reglur Alþjóðagerðardómsins“: reglur Alþjóðagerðardómsins um gerðardóm í deilumálum milli tveggja aðila þar sem aðeins annar deiluaðilinn er ríki og taka gildi frá og með dagsetningu samnings þessa.

    „ Aðili“: einstaklingur, lögaðili, félag, frjáls samtök, sameignarfélag, hlutafélag, samrekstur, sjóður, óskráð stofnun, stjórnvald eða önnur persóna af hvaða toga sem er.

    „ Hlutfallslegur réttur“: á hverjum tíma, sá hluti sem reiknaður er með því að deila í (a) (i) í tilviki hollenska ríkisins, að fjárhæð £[1.134.680.211,10] sem samsvarar upphæð endurgreiðslufjárhæðarinnar til Hollands í sterlingspundum á dagsetningu endurgreiðslu- og skaðleysissamningsins við Holland, umreiknuð í sterlingspund á genginu .[1,1653] á móti £[1,00]), eða (ii) í tilviki umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins heildarupphæð allra útgreiðslna sem inntar hafa verið af hendi fram að þeim tíma sem samningsaðilarnir meta að hafi numið 2.254.417.417.851,51 sterlingspundum þann 24. nóvember 2010, með (b) samanlögðum fjárhæðum sem um getur í a-lið hér að ofan.

    „ Eign“ einhvers aðila: hvers kyns eign, réttindi eða tekjur, eða hlutdeild slíks aðila í þeim.

    „ Ársfjórðungslegar afborganir“: ársfjórðungslegar afborganir sem endurgreiðsla seinna tímabils skal innt af hendi með, en fjárhæð þeirra og fjöldi er ákvarðast í samræmi við 1. mgr. 4. gr. (með fyrirvara um önnur ákvæði þessa samnings).

    „ Endurheimtuhlutfall“: merkir á hverjum tíma hluta, settan fram sem hundraðshluta, af samþykktu kröfufjárhæðinni skv. lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. (eða skv. íslenskum lögum) sem hefur verið greiddur, eða telst greiddur, af slitastjórn Landsbankans, til greiðslu á samþykktu kröfufjárhæðinni á þeim tíma.

    Fengið með því að deila endurgreiðslufjárhæð breska fjármálaráðuneytisins sem greidd hefur verið á þeim tíma með samtölu endurgreiðslufjárhæðarinnar þann dag sem samningur þessi er dagsettur.

    „ Endurgreiðslufjárhæð“: merkir á hverjum tíma (hvort sem um er að ræða tímabil áður en farið er fram á greiðslu endurgreiðslufjárhæðarinnar af hendi Tryggingarsjóðs til breska fjármálaráðuneytisins eða eftir að það er gert) samanlagðar útgreiðslufjárhæðir eða þá fjárhæð sem í bili á eftir að greiða út.

    „ Endurgreiðsluaðilar“: sameiginlega, Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta og Ísland.

    „ Greiðsludagur endurgreiðslu“: sérhver greiðsludagur eftir upphafsdag seinna tímabils.

    „ Viðkomandi skjöl“: vísar allt í senn til þessa samnings, uppgjörssamningsins, hliðarsamningsins við uppgjörssamninginn, framsalssamning FSCS og sérhvers annars samnings eða skjals sem samningsaðilar tilgreina sem viðkomandi skjal.

    „ Viðkomandi fjármögnunarráðstöfun“: hver sá samningur, ráðstöfun eða milliríkjasamningur sem einhver endurgreiðsluaðili stendur að með einhverjum fjármögnunaraðila (þ.m.t. sjálfstæðri alþjóðastofnun, einkaaðila eða öðrum aðila) í því skyni að fjármagna kröfur einhverra innstæðueigenda í íslenskum banka, enda hafi slíkar kröfur myndast fyrir dagsetningu samnings þessa, en að frátöldum (a) endurgreiðslu- og skaðleysissamningnum við Holland, og (b) hvers kyns samningi, ráðstöfun eða milliríkjasamningi sem gerður er í því skyni að fjármagna eða endurfjármagna (i) einhvern hluta endurgreiðslufjárhæðarinnar eða trygginga eða annarra fjárhæða sem einhverjum endurgreiðsluaðila ber að greiða til breska fjármálaráðuneytisins skv. samningi þessum eða einhverju viðkomandi skjali (eða samningi eða skjali sem kemur í þeirra stað), eða (ii) fjárhæð sem til greiðslu kemur að hálfu endurgreiðsluaðila skv. endurgreiðslu- og skaðleysissamningnum við Holland eða „viðkomandi skjölum“ eins og þau eru skilgreind í endurgreiðslu- og skaðleysissamningnum við Holland (eða samningi eða skjali sem kemur í þeirra stað).

    „ Viðkomandi heildartekjur ríkisins“ að því er varðar greiðsludag endurgreiðslu á tilteknu tímabili sem hefst 1. júlí ár hvert og lýkur 30. júní næsta ár á eftir („viðkomandi tímabil“), (a) „heildartekjur íslenska ríkisins“ fyrir almanaksár það sem næst fer á undan þessu viðkomandi tímabili skv. birtum upplýsingum Hagstofu Íslands, eða (b) ef heildartekjur íslenska ríkisins i) hafa ekki verið birtar eða ii) eru innan við 26 af hundraði 3 af nýjasta mati á vergri landsframleiðslu á Íslandi fyrir almanaksár það sem næst fer á undan þessu viðkomandi tímabili skv. nýjustu skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um efnahagshorfur í heiminum (World Economic Outlook) („ viðkomandi verg landsframleiðsla á Íslandi“), fjárhæð sem samsvarar 26 af hundraði af viðkomandi vergri landsframleiðslu á Íslandi (eða, ef veruleg breyting verður á meginþáttum í heildartekjum íslenska ríkisins eða vergri landsframleiðslu eða slík tala er ekki birt af viðkomandi stofnun, sambærilegri tölu (eða sambærilegum tölum) fyrir heildartekjur íslenska ríkisins eða viðkomandi verga landsframleiðslu á Íslandi sem Ísland og breska fjármálaráðuneytið koma sér saman um á sanngjarnan hátt eða, ef Ísland og breska fjármálaráðuneytið komast ekki að samkomulagi um þessa tölu (tölur) fyrir greiðsludag endurgreiðslunnar, sem er ákvörðuð með gerðardómi í samræmi við 10. mgr. 10. gr.).

    „ Viðmiðunarvextir seinna tímabils“: viðmiðunarvextir sterlingspunds eins og þeir gilda 15. júní 2016 og eru birtir hjá OECD (CIRR, Commercial Interest Reference Rate fyrir sterlingspund) (eða sambærilegir vextir sem Ísland og breska fjármálaráðuneytið komast að sanngjörnu samkomulagi um ef OECD birtir ekki vextina, eða ef Ísland og breska fjármálaráðuneytið komast ekki að samkomulagi um sambærilega vexti fyrir upphafsdag seinna tímabils eins og ákvarðað verður með gerðardómi, sbr. 10. mgr. 10. gr.) fyrir lán til lengri lánstíma en áætlað greiðslutímabil vegna endurgreiðslufjárhæðar seinna tímabils (eða (a) vextir fyrir lán sem er með skemmstan lánstíma sem er lengri en áætlað greiðslutímabil ef vextir eru mismunandi fyrir lán með lengri lánstíma en áætlað greiðslutímabil fyrir endurgreiðslufjárhæð seinna tímabils og b) vextir fyrir lán með lánstíma sem fer næst því að vera áætlað greiðslutímabil ef ekki eru fáanlegir vextir fyrir lán með lengri lánstíma en áætlaða greiðslutímabilið fyrir endurgreiðslufjárhæð seinna tímabils, og skal „ áætlaða greiðslutímabilið fyrir endurgreiðslufjárhæð seinna tímabils“ vera tímabilið frá upphafsdegi seinna tímabils og fram yfir greiðsludag endurgreiðslu þegar síðasta ársfjórðungslega afborgunin kemur á gjalddaga (eins og ákvarðað er í samræmi við b- og c-lið 1. mgr. 4. gr.).

    „ Endurgreiðslufjárhæð seinna tímabils“: endurgreiðslufjárhæð eins og hún stendur í dagslok þess dags sem kemur næst á undan upphafsdegi seinna tímabils (þó að undanskildum hverjum þeim hluta endurgreiðslufjárhæðarinnar sem er hefur áður gjaldfallið en er enn ógreiddur í trássi við skilmála þessa samnings við upphafsdag seinna tímabils).

    „ Upphafsdagur seinna tímabils“: 1. júlí 2016.

    „ Uppgjörssamningur“: uppgjörssamningurinn frá 5. júní 2009 á milli FSCS og Tryggingarsjóðs eins og honum var breytt með samningi dagsettum 19. október 2009.

    „ Hliðarsamningur uppgjörssamningsins“: samningur sem gera skal til hliðar við uppgjörssamninginn milli FSCS og Tryggingarsjóðs sem staðfestir tiltekin atriði í tengslum við uppgjörssamninginn, með þeim hætti sem aðilar hafa orðið ásáttir um fyrir dagsetningu þessa samnings.

    „ Vangreidd fjárhæð“: merkir hverju sinni (a) tilgreinda fjárhæð sem til greiðslu kemur af hálfu Tryggingarsjóðs til umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins skv. þessum endurgreiðslusamningi eða öðru viðkomandi skjali, sem ekki hefur verið greidd og er áfram ógreidd að fullu á gjalddaga á þeim stað og í þeim gjaldmiðli sem greiða ber, og (b) ef einhver skuldbinding Tryggingarsjóðs skv. þessum endurgreiðslusamningi eða öðrum viðkomandi skjölum reynist óaðfararhæf, ógild eða ólögmæt, þá fjárhæð sem jafngildir samanlögðum fjárhæðum sem umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins bæri ella úr hendi Tryggingarsjóðs ef skuldbindingin hefði verið eða hefði áfram haldist aðfararhæf, gild og lögmæt.

    „ Fullveldi“: fullvalda þjóð eða ríkisstjórn fullvalda þjóðar.

    „ Ríkisskuldir“: hvers konar lán, skuldir eða aðrar skuldbindingar sem þegar hefur verið stofnað til eða kann að verða stofnað til í framtíðinni, sem: a) skal greiða aðilum búsettum utan Íslands eða, ef um er að ræða skuldabréf, skuldaskjal, skuldaviðurkenningar, verðbréfainneign eða önnur verðbréf, þar sem a.m.k. 25 hundraðshlutar af heildarhöfuðstól eru boðin eða voru upphaflega boðin aðilum búsettum utan Íslands, eða b) eru tilgreindar í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum eða, ef þær eru tilgreindar í íslenskum krónum, eru skv. skilmálum þar sem greiðsla höfuðstóls, aukaframlags (e. premium) (ef um það er að ræða) eða vaxta getur verið eða skal vera í öðrum gjaldmiðli eða miðast við annan gjaldmiðil, þ.m.t., til að taka af allan vafa: (i) hvers konar lántökur, skuldir eða aðrar skuldbindingar gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og (ii) hvers konar lántökur, skuldir eða aðrar skuldbindingar skv. endurgreiðslu- og skaðleysissamningnum við Holland.

    „ Sterlingspund“ eða „ £“: núverandi lögeyrir í Hinu sameinaða konungsríki Stóra-Bretlands og Norður-Írlands.

    „ Skattar“: allir núgildandi og síðari tekjuskattar, stimpilgjöld, skráningargjöld og aðrir skattar, álagningar og álögur, staðgreiðsluskattar og gjöld, hvaða nafni sem nefnast, og allir vextir, dráttarvextir og annað sem við kann að bætast eða á að leggjast vegna vangreiðslu þeirra, hvort sem slíkir skattar eru nú eða síðar reiknaðir, lagðir á eða innheimtir af hvaða stjórnvaldi sem er í tengslum við samning þennan eða önnur viðkomandi skjöl, greiðslur skv. samningi þessum eða öðru viðkomandi skjali eða vegna þinglýsingar, lögbókunar eða annarrar opinberrar skráningar þeirra.

    „ Holland“: hollenska ríkið.
FYLGISKJAL II
með útgreiðslu-, endurgreiðslu- og skaðleysissamningnum

Eyðublað fyrir útgreiðslubeiðni

Frá:        Financial Services Compensation Scheme Limited (FSCS, („Breski Tryggingarsjóðurinn“))

Til:         The Commissioners of Her Majesty's Treasury (Umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins)

Dags.:     [Dagsetning]

Ágæti viðtakandi,

Útgreiðslu-, endurgreiðslu- og skaðleysissamningur [*] 2010
(samningurinn)


a)         Vísað er til ofangreinds samnings. Hugtök sem skilgreind eru í samningnum hafa sömu merkingu í útgreiðslubeiðni þessari.

b)         Þetta er beiðni um útgreiðslu.

c)         Óskað er eftir útgreiðslu f.h. Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta með eftirfarandi skilmálum:

         Útgreiðsludagur:     [dags.]
         Fjárhæð (í sterlingspundum):     [fjárhæð]

d)         Útgreiðslan verði lögð inn á [tilgreindur bankareikningur FSCS (breska tryggingarsjóðsins)]

e)         Um leið og andvirði útgreiðslunnar hefur verið lagt inn á ofangreindan reikning, biðjum við yður um að millifæra samsvarandi fjárhæð af reikningnum yfir á [tilgreinið þann bankareikning sem innstæðueigendum hjá Landsbankanum í London verður greidd tryggingin út af].

Virðingarfyllst,

Financial Services Compensation Scheme Limited (FSCS)

Nafn:     

Titill:     

Nafn:     

Titill:

Icesave Útgreiðslu-, endurgreiðslu- og skaðleysissamningur Bretlands 506170772 Fylgiskjal II.



REIMBURSEMENT AND INDEMNITY AGREEMENT

dated [*], 2010

among

The Depositors' and Investors' Guarantee Fund of Iceland

and

Iceland

and

The State of The Netherlands


    This REIMBURSEMENT AND INDEMNITY AGREEMENT, dated [**], 2010 (this “ Agreement”), among THE DEPOSITORS' AND INVESTORS' GUARANTEE FUND OF ICELAND ( Tryggingarsjóður Innstæðueigenda og Fjárfesta), a private foundation incorporated under the laws of Iceland (the “ Guarantee Fund”), ICELAND (“ Iceland”) and THE STATE OF THE NETHERLANDS (“ The Netherlands” and, together with the Guarantee Fund and Iceland collectively, the “ Parties”).

RECITALS


     WHEREAS, the Parties have entered into the Loan Agreement and the Acceptance and Amendment Agreement, which together set out the arrangements initially foreseen by the Parties in relation to the matters described in these Recitals. The Parties now wish to enter into this Agreement to settle those matters, and also to terminate the Loan Agreement and the Acceptance and Amendment Agreement, but conditional upon this Agreement coming into effect.

     WHEREAS, the claims of Landsbanki Amsterdam Depositors against Landsbanki are guaranteed by the Guarantee Fund according and subject to Act No. 98/1999 which implements Directive 94/19/EC up to EUR 20,887 per Landsbanki Amsterdam Depositor.

     WHEREAS, DNB has paid compensation to Landsbanki Amsterdam Depositors in respect of their claims against Landsbanki and the Guarantee Fund under Act No. 98/1999 in return for an assignment by such Landsbanki Amsterdam Depositors of such claims to DNB. DNB has accepted the majority of the applications for compensation and has completed making such compensation payments on 2 June 2009. DNB has refused the applications of a minority of Landsbanki Amsterdam Depositors for payment of compensation. Certain of these Landsbanki Amsterdam Depositors have opposed such refusal by DNB. DNB's refusal is subject to judicial review and it is uncertain on the date of this Agreement to what extent DNB may be ordered by a court to pay compensation in respect of these claims.

     WHEREAS, The Netherlands has prefinanced the payment of compensation by DNB in respect of the claims of Landsbanki Amsterdam Depositors against Landsbanki and the Guarantee Fund under Act No. 98/1999 and related costs. The Parties have agreed that the Guarantee Fund shall reimburse The Netherlands for its prefinancing in accordance with the terms of this Agreement. In addition, in this Agreement, the Parties determine the amount for which the Guarantee Fund shall reimburse The Netherlands.

     WHEREAS, the Parties confirm that this Agreement has been negotiated in accordance with the “Agreed Guidelines” of 14 November 2008 as agreed between Iceland and the member states of the European Union.

ARTICLE I
DEFINITIONS


    Section 1.1      Certain Defined Terms. (a) As used herein, the terms defined in Schedule I shall have the meaning set out in that Schedule.

    (b)     For the purpose of the definitions of “Interest Proceeds”, if any part of the Guarantee Fund Estate Proceeds shall be denominated in a currency other than euro and shall not have been converted by the Guarantee Fund pursuant to paragraph (a) of Section 3.7, such amount shall be converted into euro at such rate as may be reasonably selected by The Netherlands.

    Section 1.2      Other Interpretative Provisions. (a) The meanings of defined terms are equally applicable to the singular and plural forms of the defined terms.

    (b)     The words “hereof,” “herein,” “hereunder” and similar words refer to this Agreement as a whole and not to any particular provision of this Agreement, and any subsection, Section, Article and Schedule references are to this Agreement unless otherwise specified.

    (c)     The term “documents” includes any and all documents, instruments, written agreements, certificates, indentures, notices and other writings, however evidenced (including electronically).

    (d)     The term “including” is not limiting and (except to the extent specifically provided otherwise) shall mean “including without limitation.”

    (e)     Unless otherwise specified, in the computation of periods of time from a specified date to a later specified date, the word “from” shall mean “from and including,” the words “to” and “until” each shall mean “to but excluding,” and the word “through” shall mean “to and including.”

    (f)     The terms “may” and “might” and similar terms used with respect to the taking of an action by any Person shall reflect that such action is optional and not required to be taken by such Person.

    (g)     The term “continuation” of a Mandatory Prepayment Event shall reflect that such Mandatory Prepayment Event has occurred and has not been remedied and not been waived in accordance with Section 9.5.

    (h)     Unless otherwise expressly provided herein: (i) references to agreements (including this Agreement) and other documents shall be deemed to include all subsequent amendments and other modifications thereto, but only to the extent that such amendments and other modifications are not prohibited by any Relevant Document, and (ii) references to any Applicable Law are to be construed as including all statutory and regulatory provisions or rules consolidating, amending, replacing, supplementing, interpreting or implementing such Applicable Law.

ARTICLE II
REIMBURSEMENT, ETC.


    Section 2.1      Undertaking to reimburse. In consideration of (a) the execution by DNB of the DNB Assignment Agreement, (b) the payment of compensation by DNB to Landsbanki Amsterdam Depositors in respect of their claims against Landsbanki and the Guarantee Fund under Act No. 98/1999 as referred to in the Recitals, and (c) the prefinancing by The Netherlands of the payment of such compensation by DNB, the Guarantee Fund undertakes to reimburse The Netherlands for that prefinancing and to therefore pay to The Netherlands the Reimbursement Amount in accordance with the terms of this Agreement.

    Section 2.2      Reimbursement Amount. The Parties agree, for all purposes under this Agreement and the other Relevant Documents, that the Reimbursement Amount as at the date of this Agreement shall be an amount of EUR 1,322,242,850 (one billion three hundred twenty two million two hundred forty two thousand eight hundred and fifty euro) and that the Reimbursement Amount may reduce from time to time in accordance with the terms of this Agreement.

ARTICLE III
PAYMENTS OF REIMBURSEMENT, COMPENSATION AND PAY-OUT COSTS


    Section 3.1      Payment of the Reimbursement. (a) This Section 3.1 shall apply from the Second Phase Start Date and onwards.

    (b)     Subject to paragraph (d) below, the Guarantee Fund agrees to pay to The Netherlands the Second Phase Reimbursement Amount in consecutive Quarterly Installments, payable on each Reimbursement Payment Date.

    (c)     The number of and amount of Quarterly Installments shall be calculated as follows:

              (i)     if, as at the day immediately preceding the Second Phase Start Date, the aggregate of the ISK Equivalent of the Second Phase Reimbursement Amount and the ISK Equivalent of the UK Second Phase Reimbursement Amount is equal to or less than ISK 45,000,000,000, (A) the number of Quarterly Installments shall be four, and (B) the amount of each Quarterly Installment shall be the Second Phase Reimbursement Amount divided by four;

              (ii)     if, as at the day immediately preceding the Second Phase Start Date, the aggregate of the ISK Equivalent of the Second Phase Reimbursement Amount and the ISK Equivalent of the UK Second Phase Reimbursement Amount is more than ISK 45,000,000,000, (A) the number of Quarterly Installments shall be the lesser of (I) four plus an additional four for each ISK 10,000,000,000 (or portion thereof) by which that aggregate exceeds ISK 45,000,000,000, and (II) 118, and (B) the amount of each Quarterly Installment shall be the Second Phase Reimbursement Amount divided by the number of Quarterly Installments so determined;

    (d)     (i)     notwithstanding paragraphs (b) and (c) above and subject to paragraph (iii) below, if on any Reimbursement Payment Date the aggregate of (A) the ISK Equivalents on that Reimbursement Payment Date of the Quarterly Installment payable on that Reimbursement Payment Date and the amount of compensation payable on that Reimbursement Payment Date pursuant to paragraph (a) of Section 3.2, and (B) the ISK Equivalents of the UK Quarterly Installment payable on or about that Reimbursement Payment Date and the amount of compensation payable on or about that Reimbursement Payment Date pursuant to paragraph (a) of Section 4.2 of the UK Disbursement, Reimbursement and Indemnity Agreement, exceeds 1.25 per cent. of Relevant Icelandic Total Government Revenue in relation to that Reimbursement Payment Date, then (X) such aggregate shall be reduced by the minimum amount necessary to ensure that such aggregate no longer exceeds 1.25 per cent. of Relevant Icelandic Total Government Revenue in relation to that Reimbursement Payment Date, (Y) the amount of such reduction (expressed in Krónur) shall be attributed to The Netherlands and the HMT Commissioners in accordance with their respective Pro Rata Entitlements, and (Z) the amount of the Quarterly Installment referred to in item (A) above (and, if the Pro Rata Entitlement of The Netherlands exceeds the amount of such Quarterly Installment, the amount of compensation referred to in that item) will be reduced by the Pro Rata Entitlement of The Netherlands of such reduction (converted into euro at the rate used to calculate the ISK Equivalents referred to above).

              (ii)     Any amount by which a Quarterly Installment or any amount of compensation is reduced pursuant to paragraph (i) above will remain payable and will be added to the Quarterly Installment due on the next Reimbursement Payment Date (but that Quarterly Installment, thus increased, will be subject to the application of paragraph (i) above and accordingly will (subject always to paragraph (iii) below) only be payable if and to the extent payable pursuant to paragraph (i) above). Any amount by which an amount of compensation is reduced pursuant to paragraph (i) above will be deemed part of the Reimbursement Amount from the Reimbursement Payment Date on which, absent paragraph (i) above, that amount would have been payable in accordance with paragraphs (b) and (c) above, and compensation will accrue on it accordingly.

              (iii)     Paragraphs (i) and (ii) above shall not apply in relation to the Reimbursement Payment Date on which the last Quarterly Installment is due to be paid (as determined in accordance with paragraph (c) above) and the Quarterly Installment due on that Reimbursement Payment Date, any compensation due to be paid on that Reimbursement Payment Date and any amount payable on that Reimbursement Payment Date pursuant to paragraph (ii) above shall be payable on that Reimbursement Payment Date in full.

    Section 3.2      Compensation. (a) The Guarantee Fund shall pay to The Netherlands compensation in respect of the Reimbursement Amount, (i) for the period from October 1, 2009 to the Second Phase Start Date, at the First Phase Rate, and (ii) for the period from the Second Phase Start Date onwards, at the Second Phase CIRR. Any such compensation shall continue to accrue, to the fullest extent permitted by Applicable Law, after as well as before any bankruptcy, insolvency, reorganization, liquidation, judicial or out-of-court reorganization proceedings, dissolution, arrangement or winding up or composition or readjustment of debts of the Guarantee Fund. For the avoidance of doubt, no compensation is payable in respect of any period prior to October 1, 2009.

    (b)     Notwithstanding the foregoing, the Guarantee Fund shall pay to The Netherlands compensation on any Defaulted Amount at the Arrears Rate. Any such compensation shall be compounded on each Payment Date with the amount in respect of which it has accrued.

    (c)     Accrued compensation on the Reimbursement Amount or any other amount shall be payable (i) in the case of compensation accrued to the first Payment Date (compounded with the amount in respect of which it has accrued on each date which would have been a Payment Date if the first Payment Date had been January 1, 2010 rather than January 1, 2011), on the first Payment Date, (ii) on each subsequent Payment Date, and (ii) in the case of any prepayment of any part of the Reimbursement Amount (whether voluntary or mandatory), on the date such part of the Reimbursement Amount is so prepaid (but such compensation shall be payable only to the extent accrued to the date of prepayment on the part of the Reimbursement Amount so prepaid), provided that compensation payable at the Arrears Rate on Defaulted Amounts shall also be payable from time to time on request by The Netherlands.

    (d)     Compensation accruing on the Reimbursement Amount or any other amount shall be computed on the basis of a year of three hundred and sixty five (365) days and actual days elapsed occurring in the period for which payable.

    Section 3.3      Optional Prepayments. (a) The Guarantee Fund may prepay the Reimbursement Amount in whole or in part, provided that the Guarantee Fund (or Iceland on its behalf) shall give The Netherlands notice of such prepayment as provided in Section 3.4 and, upon the date specified in such notice, the amount to be prepaid and any compensation payable thereon in accordance with Section 3.2 shall become due and payable under this Agreement. Amounts prepaid under this Agreement may not be re-claimed.

    (b)     At the same time as making any optional prepayment in accordance with paragraph (a) above, the Guarantee Fund shall make a pro rata optional prepayment of the UK Reimbursement Amount then outstanding under the UK Disbursement, Reimbursement and Indemnity Agreement, such that the same proportion of the Reimbursement Amount and the UK Reimbursement Amount then outstanding is prepaid under this Agreement and under the UK Disbursement, Reimbursement and Indemnity Agreement respectively (subject to any rounding).

    (c)     Any prepayment of any amount of the Reimbursement Amount pursuant to paragraph (a) above shall, subject to paragraph (b) of Section 3.7, reduce the Reimbursement Amount by the amount of the prepayment and shall, if made on or after the Second Phase Start Date, be applied pro rata towards each of the remaining Quarterly Installments.

    Section 3.4      Certain Notices. A notice of prepayment pursuant to paragraph (a) of Section 3.3 above shall be effective only if received by The Netherlands before close of business (Amsterdam time) on the date which is three (3) Business Days before the date of such prepayment. Each notice of prepayment shall specify the amount to be prepaid and the requested prepayment date (which shall be a Business Day).

    Section 3.5      Mandatory Prepayments and other payments out of Guarantee Fund Estate Proceeds. (a)

              (i)     If the Guarantee Fund receives any Guarantee Fund Estate Proceeds, it shall within five (5) Business Days pay to each of The Netherlands and the HMT Commissioners its Pro Rata Entitlement to that amount (such payment, to the extent to be made to The Netherlands, to be made in the currency required under Section 3.7 and, to the extent to be made to the HMT Commissioners, to be made in the currency required under the UK Disbursement, Reimbursement and Indemnity Agreement), provided that the Guarantee Fund shall not be obliged to make such payment (i) if, to the extent and for as long as the terms under which the payment made to the Guarantee Fund and resulting in receipt by the Guarantee Fund of the relevant amount prohibits the Guarantee Fund from applying that amount towards any payment to any other Person, or (ii) if and to the extent that the Guarantee Fund is required to pay the relevant amount to DNB under the DNB Assignment Agreement, or to the FSCS under the FSCS Deed of Assignment or the UK Settlement Agreement.

              (ii)     Any amount received by The Netherlands out of Guarantee Fund Estate Proceeds (whether pursuant to (x) paragraph (i) above, (y) paragraph 2.4 of the DNB Assignment Agreement, or (z) paragraph (a)(i)(A) of Section 4.7 of the UK Disbursement, Reimbursement and Indemnity Agreement) shall be applied:

                 (A)          at any time before the Recovery Percentage is less than 86, in prepayment of the Reimbursement Amount; or

                 (B)          at any time after the Recovery Percentage is less than 86:

                (1)          first, in payment to The Netherlands of such amount as is necessary to ensure that, after such application, the NL Interest Share Receipts equal the NL Interest Share at that time; and

                 (2)          second, in prepayment of the Reimbursement Amount.

              (iii)     Any prepayment of any amount of the Reimbursement Amount pursuant to this paragraph shall, subject to paragraph (b) of Section 3.7, reduce the Reimbursement Amount by the amount of the prepayment and shall, if made on or after the Second Phase Start Date, be applied pro rata towards each of the remaining Quarterly Installments.

    (b)     If any of the following events (each such event a “ Mandatory Prepayment Event”) occurs, then on and at any time during the continuation of that Mandatory Prepayment Event The Netherlands may by notice to the Guarantee Fund, with a copy to Iceland, declare the Reimbursement Amount, any compensation accrued thereon and all other amounts payable by any Reimbursement Party under this Agreement or any other Relevant Document to be immediately due and payable, whereupon such amounts shall be immediately due and payable without presentment, demand, protest or other formalities of any kind, all of which are hereby expressly waived by the Reimbursement Parties:

              (i)     (A)     any part of the Reimbursement Amount or compensation or any other amount to be paid by any Reimbursement Party to The Netherlands under this Agreement or any other Relevant Document shall not be paid in full when due, at the place and in the currency in which it is expressed to be payable, unless (1) in the case of a failure to so pay any part of the Reimbursement Amount or any compensation payable on a Payment Date pursuant to Section 3.1 (in the case of any part of the Reimbursement Amount) or paragraph (c)(i) of Section 3.2 (in the case of any compensation), such failure is due solely to administrative or technical error and such amount is paid within five (5) Business Days of the due date for payment, or (2) in any other case, such amount is paid within twenty (20) Business Days of the due date for payment, (B) any payment of Reimbursement Amount or compensation or of any other amount under this Agreement or any other Relevant Document previously made by any Reimbursement Party is avoided, set aside, invalidated or reduced;

              (ii)     any Reimbursement Party shall default or, in the case of a default which is capable of remedy, shall default for not less than a period ending twenty (20) Business Days after the earlier of (A) the day on which The Netherlands gives the relevant Reimbursement Party notice of the default, or (B) the day on which any senior officer of any Reimbursement Party becomes aware or should reasonably have become aware of the default, in the observance or performance of any of its obligations under this Agreement or any other Relevant Document (other than as provided in paragraph (i) above) (and for this purpose a “senior officer” shall be, in the case of the Guarantee Fund, a director of the Guarantee Fund and, in the case of Iceland, a Minister or Permanent Secretary in the Ministry of Finance or the Ministry of Foreign Affairs of Iceland, and the heads or deputy heads of the department or departments within the government of Iceland in charge of administering Iceland's Sovereign Debt (including its debt under this Agreement);

              (iii)     any representation made or deemed made by any Reimbursement Party in this Agreement or any other Relevant Document or any document delivered by any Reimbursement Party in connection with any Relevant Document has been or shall prove to have been false or misleading in any material respect as of the time made or deemed made;

              (iv)     the payment obligations of the Guarantee Fund under this Agreement and the other Relevant Documents shall cease to rank at least pari passu with the present and future claims of all of its other creditors or the payment obligations of Iceland under this Agreement or the other Relevant Documents shall cease to rank at least pari passu with the present and future Sovereign Debt of Iceland, in each case other than claims which are mandatorily preferred by Applicable Law in force on the date of this Agreement;

              (v)     (A) this Agreement or any other Relevant Document shall at any time be suspended, revoked or terminated or for any reason cease to be valid and binding or in full force and effect (other than upon expiration in accordance with the terms thereof or as a result of any act or omission of The Netherlands or DNB), (B) performance by the relevant Reimbursement Party of any obligation thereunder shall become unlawful, (C) any Reimbursement Party shall so assert in writing, or (D) the validity or enforceability thereof shall be contested by any Reimbursement Party;

              (vi)     the Guarantee Fund (A) shall be dissolved or liquidated, (B) shall admit in writing its inability to, or be generally unable to, pay its debts as such debts become due, taking into account any support available to it, or (C) suspends (whether voluntarily or involuntarily) making payments on any of its debts, in each case except if prior to the occurrence of such event (1) its obligations under this Agreement and the other Relevant Documents have been assumed by a successor entity on terms approved by The Netherlands (such approval not to be unreasonably withheld or delayed), and (2) Iceland has provided such confirmations and entered into such documents as The Netherlands may reasonably require to ensure that Iceland's obligations under this Agreement and the other Relevant Documents continue in full force and effect as if such successor had been a party to this Agreement and the other Relevant Documents from their inception;

              (vii)     Iceland (or any governmental or ministerial authority thereof) fails to make any payment in respect of any of its Sovereign Debt on its due date (or within any originally applicable grace period set out in the agreement constituting such Sovereign Debt) or any such Sovereign Debt becomes due earlier than its stated date of payment by reason of an event of default (however described), provided that no Mandatory Prepayment Event will occur under this paragraph (vii) unless the aggregate amount of Sovereign Debt in respect of which any amount has not been paid when due or which has become due early exceeds GBP 50,000,000 or its equivalent in other currencies;

              (viii)     (A) any Reimbursement Party shall fail to comply with any Applicable Law to which it is subject, in circumstances where such failure might have a Mandatory Prepayment-Related Material Adverse Effect, or (B) any Applicable Law at any time necessary to enable the Guarantee Fund or Iceland to comply with any of its obligations under any of the Relevant Documents shall be revoked, withdrawn, withheld or otherwise not in full force and effect or shall be modified or amended in a manner that (in the aggregate) has had or would have a Mandatory Prepayment-Related Material Adverse Effect.

    (c)      Notification of Mandatory Prepayment Event. If any Reimbursement Party becomes aware that a Mandatory Prepayment Event has occurred, it shall notify The Netherlands of such occurrence as soon as possible, together with details of the events or circumstances comprising such Mandatory Prepayment Event and of the steps being taken to remedy the same.

    Section 3.6      Pay-out Costs. (a) The Guarantee Fund agrees to pay to The Netherlands the amount of its Pay-out Costs, which the Parties agree, for all purposes under this Agreement and the other Relevant Documents, to be an amount of EUR 7,000,000 (seven million euro).

    (b)     The Guarantee Fund agrees to pay to The Netherlands on each Payment Date falling in 2011 an amount equal to the aggregate of (i) one quarter of the Pay-out Costs, and (ii) compensation on the amount so paid, accrued at the First Phase Rate from October 1, 2009 until the relevant Payment Date.

    Section 3.7      Payments. (a) All payments of any part of the Reimbursement Amount, any compensation and all other amounts to be made by the Guarantee Fund to The Netherlands under this Agreement and the other Relevant Documents shall be received in euro, in immediately available funds, without deduction, set-off or counterclaim, in the NL Settlement Account not later than 5:00 p.m. (Amsterdam time) on the date on which such payment is due (and each such payment received after such time on such due date to be deemed to have been received on the next Business Day), provided that:

              (i)     if The Netherlands receives an amount from DNB pursuant to paragraph 2.4 of the DNB Assignment Agreement, The Netherlands shall, as soon as reasonably possible:

                 (A)          pay to the HMT Commissioners their Pro Rata Entitlement to that amount to be applied in accordance with paragraph (a)(ii) of Section 4.5 of the UK Disbursement, Reimbursement and Indemnity Agreement, such payment to be made in the currency received and without making any conversion, with any conversion into Sterling to be made by the HMT Commissioners pursuant to the UK Disbursement, Reimbursement and Indemnity Agreement; and

                 (B)          if any such payment from DNB is received in a currency other than euro, convert the remaining amount of such payment into euro at such rate as The Netherlands may reasonably select and such payment shall from the time of such conversion be applied in accordance with paragraph (a)(ii) of Section 3.5 and to the extent that it is so applied in accordance with paragraph (a)(ii)(A) or paragraph (a)(ii)(B)(2) of Section 3.5 shall satisfy the obligation to repay the Reimbursement Amount up to the euro amount obtained by The Netherlands as a result of such conversion; and

              (ii)     if The Netherlands receives an amount from the HMT Commissioners pursuant to paragraph (a)(i)(A) of Section 4.7 of the UK Disbursement, Reimbursement and Indemnity Agreement, paragraph (i)(B) above shall apply mutatis mutandis.

    (b)     If the Guarantee Fund makes a payment to The Netherlands that is insufficient to discharge all matured payments then due under this Agreement and the other Relevant Documents from the Guarantee Fund to The Netherlands, that payment shall be applied (i) first, towards discharging any costs and expenses of The Netherlands which the Guarantee Fund is required to reimburse pursuant to this Agreement or any other Relevant Document, (ii) second, towards payment of any accrued compensation which is due but unpaid under this Agreement or any other Relevant Document, and (iii) third, towards payment of such part of the Reimbursement Amount as is then due.

    (c)     If any payment under this Agreement is stated to be due on a day that is not a Business Day, or if any period by reference to which any such sum is calculated under this Agreement or any other Relevant Document would end on a day which is not a Business Day, then such date or period shall be extended to the next Business Day and such extension of time shall in such case be included in the computation of payment of compensation (if applicable), provided that, if such extension would cause such payment to be made, or such period to end, in the next following calendar month, such date shall be brought forward to, or such period shall end, on the next preceding Business Day.

ARTICLE IV
LOSSES, ETC.


    Section 4.1      Losses. The Guarantee Fund shall pay to The Netherlands, upon the request of The Netherlands, such amount as shall be sufficient to compensate it for any loss, cost or liability that is attributable to (a) the conversion of one currency into another currency pursuant to this Agreement or any other Relevant Document, (b) the occurrence of any Mandatory Prepayment Event or any breach by any Reimbursement Party of any of its obligations under this Agreement or any other Relevant Document, or (c) the preservation, perfection or enforcement of any right, power or privilege of The Netherlands under this Agreement or any other Relevant Document, other than, in each case, any “costs of arbitration” within the meaning of the PCA Rules which an arbitral tribunal in arbitration proceedings as referred to in Section 9.10 has determined are to be borne by The Netherlands.

    Section 4.2      Taxes. All payments of any part of the Reimbursement Amount or compensation and all other amounts payable under this Agreement or any other Relevant Document by any Reimbursement Party to The Netherlands shall be made free and clear of and without reduction or liability for or on account of any Taxes, provided that if any Reimbursement Party shall be required by Applicable Law to deduct any Taxes from such payments, then the sum payable shall be increased as necessary so that after making all required deductions (including deductions applicable to additional sums payable under this Section 4.2) The Netherlands receives an amount equal to the sum it would have received had no such deductions been made.

    Section 4.3      Full and final settlement (a) The Netherlands shall not have (and to the extent that absent this Section 4.3 it would have, it irrevocably renounces) any claim against any Reimbursement Party in relation to the payment of compensation by DNB in respect of the claims of Landsbanki Amsterdam Depositors as referred to in the Recitals, other than the claims of The Netherlands under this Agreement and the other Relevant Documents.

    (b)     No Reimbursement Party shall make (and to the extent that absent this paragraph (b) it would have, it irrevocably renounces) any claim, or initiate any proceedings, including indemnification proceedings against The Netherlands or DNB in relation to (i) the payment of compensation by DNB in respect of claims of Landsbanki Amsterdam Depositors as referred to in the Recitals (including any rejections of such claims), or (ii) any claim of a Landsbanki Amsterdam Depositor in respect of which compensation was not paid by DNB (for whatever reason). DNB has the benefit of and may enforce the provisions of the preceding sentence.

ARTICLE V
INDEMNITY


    Section 5.1      Representation, warranty and indemnity. For good and valuable consideration, the receipt and sufficiency of which are hereby acknowledged, Iceland hereby:

    (a)     irrevocably and unconditionally represents, warrants and undertakes to The Netherlands that the Guarantee Fund will ensure the full and punctual payment and performance (whether at stated maturity, upon acceleration or otherwise) of all its obligations under this Agreement and the other Relevant Documents and thus ensure that there will at no time be any Shortfall Amount;

    (b)     undertakes to The Netherlands that, whenever there is any Shortfall Amount, it will, on demand, pay that Shortfall Amount to The Netherlands as if it were the principal obligor; and

    (c)     undertakes to indemnify The Netherlands, on demand, against any cost, loss or liability suffered by The Netherlands if (a) any Shortfall Amount arises, or (b) any obligation of the Guarantee Fund under this Agreement or any other Relevant Document is or becomes illegal, not binding, invalid or unenforceable. The amount of the cost, loss or liability will be equal to the amount which The Netherlands would otherwise have been entitled to recover.

    Section 5.2      Obligations Unconditional. The obligations of Iceland under this Article V shall be unconditional and absolute and, without limiting the generality of the foregoing, shall not be released, discharged or otherwise affected by:

    (a)     any extension, renewal, settlement, compromise, waiver or release in respect of any obligation(s) of any Reimbursement Party under this Agreement or the other Relevant Documents, by operation of law or otherwise (other than with respect to any such extension, renewal, settlement, compromise, waiver or release agreed in accordance with the terms hereunder as expressly applying to the obligations of Iceland hereunder);

    (b)     any modification, novation, extension, restatement of or supplement to this Agreement or any other Relevant Document (other than with respect to any modification, novation, extension, restatement, amendment of or supplement agreed in accordance with the terms hereof as expressly applying to the obligations of Iceland under this Article V);

    (c)     any release, impairment, non-perfection or invalidity of any Lien securing any Shortfall;

    (d)     any change in the corporate existence, structure or ownership of the Guarantee Fund or any other Person, or any insolvency, reorganisation or similar proceedings in respect of Landsbanki, the Guarantee Fund or any other Person;

    (e)     the existence of any claim, set-off or other rights that The Netherlands may have at any time against the Guarantee Fund or any other Person, whether in connection herewith or with any unrelated transactions;

    (f)     any invalidity or unenforceability relating to or against any Reimbursement Party for any reason of this Agreement or any other Relevant Document, or any provision of Applicable Law purporting to prohibit the performance by any Reimbursement Party of any of its obligations under this Agreement or any other Relevant Document (other than any such invalidity or unenforceability with respect solely to the obligations of Iceland under this Article V);

    (g)     any other act or omission to act or delay of any kind by any Reimbursement Party or any other Person or any other circumstance whatsoever that might, but for the provisions of this Section 5.2, constitute a legal or equitable discharge of the obligations of any Reimbursement Party under this Agreement or any other Relevant Document.

    Section 5.3      Discharge Only upon Payment in Full; Reinstatement In Certain Circumstances. The obligations of Iceland under this Article V constitute continuing obligations which will extend to the ultimate balance of any Shortfall Amount, regardless of any intermediate payment or discharge, whether in whole or in part, and shall remain in full force and effect until all Shortfall Amounts shall have been paid or otherwise performed in full and no other Shortfall Amount can arise. If at any time any payment made under this Agreement or any other Relevant Document is rescinded or must otherwise be restored or returned upon the insolvency, bankruptcy, reorganization or similar event of the Guarantee Fund or any other Person or otherwise, then the obligations of Iceland hereunder with respect to such payment shall be reinstated at such time as though such payment had been due but not made at such time.

    Section 5.4      Waiver. Iceland hereby irrevocably and unconditionally waives, to the fullest extent permitted by Applicable Law, (a) notice of acceptance of this Agreement and notice of any liability to which this Agreement may apply, (b) all notices that may be required by Applicable Law or otherwise to preserve intact any rights of The Netherlands against the Guarantee Fund, including any demand, presentment, protest, proof of notice of non- payment, notice of any failure on the part of the Guarantee Fund to perform and comply with any covenant, agreement, term, condition or provision of any agreement and any other notice to any other Person that may be liable in respect of the obligations of the Guarantee Fund except any of the foregoing as may be expressly required hereunder, (c) any right to the enforcement, assertion or exercise by The Netherlands of any right, power, privilege or remedy conferred upon it under this Agreement, any other Relevant Document or otherwise, and (d) any requirement that the Netherlands exhaust any right, power, privilege or remedy, or mitigate any damages resulting from a default, under this Agreement or any other Relevant Document. This waiver applies irrespective of any Applicable Law or any provision of this Agreement or any other Relevant Document to the contrary.

    Section 5.5      Subrogation. Iceland shall not enforce any payment by way of subrogation, indemnity, contribution or otherwise, or exercise any other right, (or otherwise benefit from any payment or other transfer arising from any such right) which it may have against the Guarantee Fund by reason of the performance by it of its obligations under this Agreement or any other Relevant Document so long as any obligations under this Agreement or any other Relevant Document remain unpaid or unsatisfied (and, if Iceland receives any payment or distribution in relation to such rights, it will promptly turn such payment or distribution over to The Netherlands).

    Section 5.6      Additional security. The representation, warranty, undertaking and indemnity set out in this Article V is in addition to and is not in any way prejudiced by any other representation, warranty, indemnity, security or other document or instrument now or subsequently held by The Netherlands or any other Person.

ARTICLE VI
CONDITIONS PRECEDENT


    Section 6.1      Conditions Precedent. The effectiveness of this Agreement is subject to the conditions precedent that:

    (a)     The Netherlands shall have received the following documents, each of which shall be in form and substance satisfactory to The Netherlands:

              (i)     Confirmation re. UK Disbursement, Reimbursement and Indemnity Agreement. Confirmation from the HMT Commissioners that all conditions precedent to be satisfied in order for the UK Disbursement, Reimbursement and Indemnity Agreement to become effective (other than receipt of confirmation from The Netherlands that all conditions precedent to be satisfied in order for this Agreement to become effective) have been satisfied;

              (ii)     Authorising Act. A copy of an Act from Iceland, which has come into force and is not, or no longer, capable of being revoked or avoided by any referendum and which provides for the unconditional and unreserved authorization of the indemnity set out in Article V and for any other authorization necessary to ensure that the obligations of the Reimbursement Parties under this Agreement and the other Relevant Documents are legal, valid, binding and enforceable, together with a certified translation thereof into English;

              (iii)     Other authorizations. A copy of an exemption granted by the Central Bank of Iceland ( Seðlabanki Íslands) to the Guarantee Fund under Rules 370/2010 on Foreign Exchange in respect of the Guarantee Fund's execution and performance of this Agreement and the other Relevant Documents, together with a certified translation thereof into English; and

              (iv)     Opinions of Counsel. An opinion of Lex, legal advisers to the Guarantee Fund as to the laws of Iceland and an opinion of the State Attorney of Iceland ( Ríkislögmaður) in respect of, inter alia, the capacity and due authorization of, and valid execution of this Agreement and each other Relevant Document by, each of the Reimbursement Parties; and

    (b)     the Guarantee Fund and DNB shall have entered into the DNB Assignment Agreement and the DNB Pari Passu Agreement.

    Section 6.2      DNB Assignment Agreement and DNB Pari Passu Agreement. (a) The DNB Assignment Agreement shall provide that:

              (i)     DNB shall assign to the Guarantee Fund, in consideration of the Guarantee Fund's undertaking to reimburse The Netherlands as set out in Section 2.1, the claims (or parts thereof) of the Landsbanki Amsterdam Depositors against Landsbanki assigned to DNB in connection with its payment of compensation in respect of those claims, all as detailed in the DNB Assignment Agreement;

              (ii)     DNB agrees that it shall not have (and to the extent that absent such agreement it would have, it irrevocably renounces) any claim against the Guarantee Fund or Iceland in relation to the payment of compensation by DNB in respect of the claims of Landsbanki Amsterdam Depositors as referred to in the Recitals and that both Reimbursement Parties shall have the benefit of and may enforce this agreement by DNB;

              (iii)     it shall be governed by, and construed in accordance with, the laws of The Netherlands and the laws of Iceland as set out in it; and

              (iv)     it will take effect simultaneously with this Agreement.

    (b)     The DNB Pari Passu Agreement shall provide that:

              (i)     to the extent that, following the assignment referred to in paragraph (a) above, DNB retains any part of any claim (due to the fact that such claim exceeds the amount assigned to the Guarantee Fund), then the part of the claim which has been assigned to the Guarantee Fund shall, to the fullest extent permitted by Applicable Law, rank pari passu in all respects with the part of that claim retained by DNB;

              (ii)     in the event that, for any reason whatsoever (including any preferential status accorded to the Guarantee Fund under any Applicable Law of Iceland), following the assignment of a part of any given claim to the Guarantee Fund, either the Guarantee Fund or DNB experiences a greater pro rata level of recovery in respect of such claim, than that experienced by the other, the Guarantee Fund or DNB (as appropriate) shall, as soon as practicable, unless paragraph (iii) below applies, make such balancing payment to DNB or the Guarantee Fund, as the case may be, as is necessary to ensure that each of the Guarantee Fund's and DNB's pro rata level of recovery in respect of such claim is the same as the other's;

              (iii)     if (A) a court of Iceland gives a final and non-appealable order or judgment which (I) determines that all or part of any claim assigned to the Guarantee Fund, or the rights retained by DNB, as the case may be, shall be entitled to receive distributions in the Landsbanki estate on a preferential basis relative to other claims originating from the same deposits, and (II) is not in conflict with an advisory opinion obtained from the Court of the European Free Trade Area on that preferential status, or (B) the Winding-up Board of Landsbanki determines that all or part of any claim assigned to the Guarantee Fund, or the rights retained by DNB, as the case may be, shall be entitled to receive distributions in the Landsbanki estate on a preferential basis relative to the other claims originating from the same deposits but such ruling is not challenged in a court of Iceland by any depositor or creditor and such failure to challenge is not the result of a change of Applicable Law made after the Commencement Date which renders such a challenge more difficult or impossible, then, unless that preferential status results from any revocation, withdrawal, withholding or other ceasing to be in full force and effect, or any modification or amendment of any Applicable Law effected or made after the Commencement Date, the obligation described in paragraph (ii) above for the Guarantee Fund or DNB, as the case may be, to make balancing payments shall not apply;

              (iv)     it shall be governed by, and construed in accordance with, the laws of England; and

              (v)     it will take effect simultaneously with this Agreement.

    Section 6.3      Satisfaction of Conditions Precedent. If the actions referred to in Section 6.1 have not been completed by December 31, 2010:

    (a)     if the non-completion consists of DNB not having executed and delivered to the Guarantee Fund the DNB Assignment Agreement and the DNB Pari Passu Agreement, the Reimbursement Parties may, by notice to The Netherlands, terminate this Agreement; and

    (b)     if the non-completion consists of any other action referred to in Section 6.1, The Netherlands may by notice to the Guarantee Fund, with a copy to Iceland, terminate this Agreement,

whereupon, in each case, this Agreement shall cease to have any effect.

    Section 6.4      Termination of Loan Agreement and Acceptance and Amendment Agreement. On the date on which this Agreement becomes effective, the Loan Agreement and the Acceptance and Amendment Agreement shall terminate, if not previously terminated.

ARTICLE VII
REPRESENTATIONS AND WARRANTIES


    Section 7.1      Guarantee Fund representations. The Guarantee Fund represents and warrants to The Netherlands as of the date of this Agreement as follows:

    (a)     The Guarantee Fund is (a) a private foundation, duly organized, validly existing and, to the extent applicable under the laws of Iceland, in good standing under the laws of Iceland, and (b) has all requisite corporate power necessary to own its assets and carry on its business as now being conducted.

    (b)     This Agreement and each other Relevant Document to which it is a party have been duly executed and delivered by it, and constitute legal, valid and binding obligations of it, enforceable against it in accordance with their terms, in each case except as may be limited by equitable principles of general applicability which are specifically referred to in the relevant legal opinion referred to in paragraph (a)(iv) of Section 6.1.

    Section 7.2      Reimbursement Party representations. Each Reimbursement Party represents and warrants to The Netherlands as of the date of this Agreement that the exemption granted by the Central Bank of Iceland ( Seðlabanki Íslands) to the Guarantee Fund under Rules 370/2010 on Foreign Exchange in respect of the Guarantee Fund's execution and performance of this Agreement and the other Relevant Documents referred to in paragraph (a)(iii) of Section 6.1 is unconditional, irrevocable and in full force and effect and there are no other authorizations, licenses, consents or other approvals or actions required from any Icelandic Governmental Authority in connection with the execution or performance of this Agreement or the other Relevant Documents or to ensure that the obligations of the Reimbursement Parties under this Agreement and the other Relevant Documents are legal, valid, binding and enforceable.

ARTICLE VIII
COVENANTS


    Section 8.1      Comparability of treatment. If any Reimbursement Party enters into any Relevant Financing Arrangement and, under that Relevant Financing Arrangement (taken as a whole), the financier party to that Relevant Financing Arrangement enjoys an overall more favorable treatment than The Netherlands under this Agreement and the other Relevant Documents, or has the benefit of any Lien, then the Reimbursement Parties shall grant The Netherlands the same favorable treatment or the benefit of a similar Lien (and the Reimbursement Parties shall enter into any documentation necessary or desirable in order to do so).

    Section 8.2      Equal treatment. If the Guarantee Fund, any Other Guarantee Fund or Iceland makes any Excess Payment, the Guarantee Fund shall pay (or ensure that each relevant Other Guarantee Fund pays) an amount equal to the Excess Payment to each Landsbanki Amsterdam Depositor, provided that, to the extent that The Netherlands or DNB has made any payment to a Landsbanki Amsterdam Depositor in respect of a claim of that Landsbanki Amsterdam Depositors under Act No. 98/1999 in excess of EUR 20,887 per claim, the payment under this Section shall be made to The Netherlands or DNB, as the case may be.

ARTICLE IX
MISCELLANEOUS


    Section 9.1      Change of circumstance. The Netherlands agrees that, if at any time the then most recently published Article IV review by the IMF in relation to Iceland states that a significant deterioration has occurred in the sustainability of the debt of Iceland, relative to the assessment of such sustainability by the IMF Fund as of November 19, 2008, then, if Iceland so requests, The Netherlands will meet with Iceland to discuss the situation and consider whether, and if so how, this Agreement and the other Relevant Documents should be amended to reflect the relevant change in circumstances.

    Section 9.2      Other changes. If the Accepted Claims Amount or the Accepted Interest Amount shall at any time change as a result of any decision of the Winding up Board of Landsbanki or of any competent court:

              (i)     any calculation pursuant to this Agreement or the other Relevant Documents which is directly or indirectly based on the Accepted Claims Amount or the Accepted Interest Amount shall be recalculated as if the Accepted Claims Amount or the Accepted Interest Amount had been the as so changed Accepted Claims Amount or the Accepted Interest Amount with effect from the date of this Agreement;

              (ii)     if any amount shall have been paid or allocated on the basis of the previous calculation then such payment or allocation shall be reversed or as the case may be reallocated to the extent required in order to reflect such recalculation.

    Section 9.3      Waiver. No failure on the part of The Netherlands to exercise and no delay in exercising, and no course of dealing with respect to, any right, power or privilege under the Agreement or any other Relevant Document shall impair that right, power or privilege or operate as a waiver or variation thereof, nor shall any single or partial exercise of any right, power or privilege under any Relevant Document preclude any other or further exercise thereof or the exercise of any other right, power or privilege. Any liberty or power which may be exercised or any determination which may be made under this Agreement by The Netherlands (including any act, matter or thing as agreed, specified, determined, decided or notified by The Netherlands to the Guarantee Fund or Iceland) may be exercised or made in the absolute and unfettered discretion of The Netherlands from time to time, which will not be under any obligation to give reasons therefor.

    Section 9.4      Notices. All notices, requests, instructions, directions and other communications provided for herein shall be given or made in writing in English by personally delivered letter or by fax (and may be copied, but not validly served, by e-mail) delivered to the intended recipient as follows:

    (a)     if to the Guarantee Fund, to it at Borgartun 26, 3rd floor, 105 Reykjavik, Iceland, Fax: +354 590 2606, Attn.: Managing Director, with a copy to Iceland, at Ministry of Finance, Arnarhvoli Lindargötu, 150 Reykjavík, Iceland, Fax: +354 5628280, Attn.:Permanent Secretary;

    (b)     if to Iceland, to it at Ministry of Finance, Arnarhvoli Lindargötu, 150 Reykjavík, Iceland, Fax: +354 5628280, Attn.:Permanent Secretary; and

    (c)     if to The Netherlands, to it at Ministerie van Financiën, Korte Voorhout 7, 2511 CW The Hague, The Netherlands, P.O. Box 20201, 2500 EE The Hague, The Netherlands, Fax: +31 70 342 79 03, Attn.:Treasurer-General ( Thesaurier-generaal).

Except as otherwise provided in this Agreement, all such communications shall be deemed to have been duly given, (i) when personally delivered at the address of the Person to be served, at the time when it is so left (or, if left on a day that is not a Business Day, at 8:15am (local time) on the next following Business Day), and (ii) when sent by facsimile transmission, when confirmation of receipt is received from the receiving facsimile machine (or, if sent on a day that is not a Business Day, at 8:15am (local time) on the next following Business Day), provided that, in proving the giving of notice under or in connection with this Agreement, it shall be sufficient to prove that the notice was delivered to the address for service.

    Section 9.5      Amendments, Etc. Except as otherwise expressly provided in this Agreement, any provision of this Agreement and (except as specifically provided therein) any other Relevant Document may be modified, supplemented or waived only in writing executed by the Parties affected by the modification, supplement or waiver.

    Section 9.6      Successors and Assigns. (a) This Agreement shall be binding upon and inure to the benefit of the Parties. No Party may assign, transfer or encumber any of its rights or obligations under this Agreement or any other Relevant Document (any attempt to do so being null and void ab initio).

    (b)     This Agreement is made and entered into for the sole protection and legal benefit of the Parties and no other Person shall be a direct or indirect legal beneficiary of, or have any direct or indirect cause of action or claim in connection with, this Agreement under the Contracts (Rights of Third Parties) Act 1999, provided that DNB has the benefit of and may enforce any right accorded to it, or any term or condition expressed to be for its benefit, in this Agreement.

    Section 9.7      Captions. The table of contents and captions and section headings appearing herein are included solely for convenience of reference and are not intended to affect the interpretation of any provision of this Agreement.

    Section 9.8      Counterparts. This Agreement may be executed in any number of counterparts, all of which taken together shall constitute one and the same instrument, and any of the Parties may execute this Agreement by executing any such counterpart. Each counterpart shall be an original copy of this Agreement, but they shall together constitute one and the same instrument.

    Section 9.9      Governing Law. THIS AGREEMENT AND ANY MATTER, CLAIM OR DISPUTE ARISING OUT OF OR IN CONNECTION WITH IT, WHETHER CONTRACTUAL OR NON-CONTRACTUAL, SHALL BE GOVERNED BY, AND CONSTRUED IN ACCORDANCE WITH, THE LAWS OF ENGLAND.

    Section 9.10      Arbitration. (a) ANY DISPUTE, LEGAL ACTION OR PROCEEDING BY OR AGAINST ANY PARTY HERETO WITH RESPECT TO OR ARISING OUT OF THIS AGREEMENT, WHETHER CONTRACTUAL OR NON-CONTRACTUAL AND INCLUDING ANY DISPUTE, LEGAL ACTION OR PROCEEDING REGARDING THE EXISTENCE, VALIDITY, FORMATION OR TERMINATION OF THIS AGREEMENT (A “ DISPUTE”) SHALL BE SETTLED BY FINAL AND BINDING ARBITRATION IN ACCORDANCE WITH THE PCA RULES WHICH RULES ARE DEEMED INCORPORATED BY REFERENCE INTO THIS CLAUSE EXCEPT TO THE EXTENT THAT THEY RELATE TO THE NATIONALITY OF THE ARBITRATOR.

    (b)     In any arbitral proceedings as referred to in paragraph (a) above:

              (i)     the number of arbitrators shall be three;

              (ii)     if all Parties are party to the arbitral proceedings, each of (A) the Reimbursement Parties jointly (and failing such joint appointment Article 7(2) of the PCA Rules shall apply), and (B) The Netherlands shall appoint one arbitrator and the two arbitrators thus appointed shall choose the third arbitrator who will act as the presiding arbitrator of the arbitral tribunal;

              (iii)     the appointing authority shall be the Secretary-General of the Permanent Court of Arbitration;

              (iv)     the place of arbitration shall be London, England;

              (v)     the language to be used in the arbitral proceedings shall be English;

              (vi)     the IBA Rules on the Taking of Evidence in International Arbitration of 29 May 2010 shall apply;

              (vii)     the arbitral tribunal shall use its best efforts to make a final award within twelve months of the appointment of the third arbitrator who acts as the presiding arbitrator of the arbitral tribunal, and shall conduct the arbitral proceedings accordingly;

              (viii)     the arbitral tribunal shall rule in accordance with the laws of England (and not, for the avoidance of doubt, as amiable compositeur or ex aequo et bono); and

              (ix)     all Parties, the arbitrators and the Secretary-General and the International Bureau of the Permanent Court of Arbitration shall protect the confidentiality of the existence of the arbitral proceedings and of any information received by them in connection with such proceedings.

    Section 9.11      Waiver of Sovereign Immunity. Each of the Reimbursement Parties consents generally to the issue of any process in connection with any Dispute and to the giving of any type of relief or remedy against it, including the making, enforcement or execution against any of its Property or assets (regardless of its or their use or intended use) of any order, judgment or award (including, for the avoidance of doubt, any arbitral award made in arbitral proceedings pursuant to Section 9.10). If any Reimbursement Party or any of its Property or assets is entitled in any jurisdiction to any immunity from service of process or of other documents relating to any Dispute, or to any immunity from jurisdiction, suit, judgment, award, execution, attachment (whether before judgment, in aid of execution or otherwise) or other legal process, this is irrevocably waived to the fullest extent permitted by the law of that jurisdiction. Each of the Reimbursement Parties also irrevocably agrees not to claim any such immunity for themselves or their respective Property or assets. The Parties confirm: (i) that this paragraph does not extend to any assets of Iceland which enjoy immunity under the Vienna Convention on Diplomatic Relations, any assets of Iceland located in Iceland which are necessary for the proper functioning of Iceland as a sovereign power, or to any assets of the Central Bank of Iceland (Seðlabanki Íslands), and (ii) nothing in this agreement or any other relevant document is intended to remove or shall have the effect of removing from Iceland its control of its natural resources and its right to decide on the utalisation and form of ownership thereof.

    Section 9.12      Severability. The illegality or unenforceability in any jurisdiction of any provision hereof or of any document required hereunder shall not in any way affect or impair the legality or enforceability of the remaining provisions of this Agreement or such other document in such jurisdiction or such provision in any other jurisdiction.

[Signatures Follow.]



    IN WITNESS WHEREOF, the Parties have caused this Agreement to be duly executed and delivered as of the day and year first above written.

The Depositors' and Investors' Guarantee Fund of Iceland (Tryggingarsjóður Innstæðueigenda og Fjárfesta)
By: ________________________________
Name: [*]
Title: [*]
Iceland
By: ________________________________
Name: [*]
Title: [*]
The State of the Netherlands
By: ________________________________
Name: [*]
Title: [*]

SCHEDULE I
to Reimbursement Agreement

    “ Acceptance and Amendment Agreement” means the Acceptance and Amendment Agreement dated 19 October 2009 between the Parties.

    “ Accepted Claims Amount” means, at any time, the amount of the Assigned Claim (expressed in ISK) which has at that time been accepted by the Winding up Board of Landsbanki (or by a competent court, such court determination to prevail if different from such Winding up Board acceptance and binding upon such Winding up Board) as constituting a valid claim in the winding up of Landsbanki under Article 112 of the Icelandic Act no. 21/1991 on Bankruptcies etc. ( Lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.).

    “ Accepted Interest Amount” means, at any time, the amount of any interest included in the Accepted Claims Amount.

    “ Assigned Claim” means, collectively, the claims against Landsbanki assigned or expressed to be assigned to the Guarantee Fund by DNB pursuant to the DNB Assignment Agreement.

    “ Act No. 98/1999” means the Icelandic Act No. 98/1999 on Deposit and Investor- Compensation Scheme (Lög nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta) as in force on 11 October 2008.

    “ Agreement” has the meaning set forth in the introduction hereto.

    “ Applicable Law” means any applicable statute, law, regulation, ordinance, rule, judgment, rule of common law, order, decree, approval, concession, grant, franchise, license, agreement, directive, guideline, policy, requirement or other governmental restriction or any similar form of decision of, or determination by (or any interpretation or administration of any of the foregoing by), any Governmental Authority, whether in effect as of the date hereof or (unless a contrary indication appears in this Agreement or any other Relevant Document) thereafter.

    “ Arrears Rate” means, at any time of determination, a rate per annum equal to the sum of (a) for the period from the date of this Agreement to the Second Phase Start Date, the First Phase Rate plus 0.3 per cent. per annum, and (b) for the period from the Second Phase Start Date onwards, the Second Phase CIRR plus 0.5 per cent. per annum.

    “ Business Day” means a day (other than Saturday or Sunday) on which commercial banks are not authorized or required to close in Reykjavik (Iceland) or Amsterdam (The Netherlands).

    “ Commencement Date” means 5 June 2009.

    “ Defaulted Amount” means each amount which has fallen due for payment by a Reimbursement Party but remains unpaid in breach of the terms of this Agreement.

    “ Directive 94/19/EC” means Directive 94/19/EC of the European Parliament and of the Council of 30 May 1994 on deposit-guarantee schemes as in force on 11 October 2008 (subject to any contrary indication).

    “ DNB” means the Central Bank of The Netherlands ( De Nederlandsche Bank N.V.).

    “ DNB Assignment Agreement” means the Assignment Agreement to be entered into between the Guarantee Fund and DNB in the form agreed between the Parties before the date of this Agreement and which complies with Section 6.2.

    “ DNB Pari Passu Agreement” means the Pari Passu Agreement to be entered into between the Guarantee Fund and DNB in the form agreed between the Parties before the date of this Agreement and which complies with Section 6.2.

    “ euro” or “ EUR” means the lawful currency for the time being of the Member States of the European Union that adopt or have adopted the euro as their lawful currency in accordance with legislation of the European Community relating to Economic and Monetary Union.

    “ Excess Payment” means any payment in excess of an amount of EUR 20,887 in respect of any claim or claims of a Landsbanki Depositor (not including, for the avoidance of doubt, any former Landsbanki Depositor who became a depositor of NBI hf.) other than a Landsbanki Amsterdam Depositor.

    “ First Phase Rate” means 3.0 per cent. per annum.

    “ FSCS” means the “FSCS” as defined in the UK Disbursement, Reimbursement and Indemnity Agreement.

    “ FSCS Deed of Assignment” means the “FSCS Deed of Assignment” as defined in the UK Disbursement, Reimbursement and Indemnity Agreement.

    “ Governmental Authority” means any nation or government, any state or municipality, any multi-lateral or similar organization or any other agency, instrumentality or political subdivision thereof and any entity exercising executive, legislative, judicial, monetary, regulatory or administrative functions of or pertaining to government.

    “ Guarantee Fund” has the meaning set forth in the introduction hereto.

    “ Guarantee Fund Estate Proceeds” means (i) any or all amounts as the context requires received by the Guarantee Fund in respect of the claims of or formerly of Landsbanki Depositors or otherwise in respect of the insolvency of Landsbanki, and (ii) any or all amounts as the context requires received by DNB which is payable by DNB to The Nether lands pursuant to paragraph 2.4 of the DNB Assignment Agreement, and (iii) any or all amounts as the context requires received by the FSCS which is payable by the FSCS to the HMT Commissioners pursuant to paragraph 2.5 of the FSCS Deed of Assignment.

    “ HMT Commissioners” means the Commissioners of Her Majesty's Treasury of the United Kingdom of Great Britain and Northern Ireland.

    “ Iceland” has the meaning set forth in the introduction hereto.

    “ Interest Proceeds” means, at any time, an amount (expressed in euro) equal to a fraction of the Guarantee Fund Estate Proceeds at that time, calculated by multiplying the amount of those Guarantee Fund Estate Proceeds by a fraction the numerator of which is equal to the Accepted Interest Amount and the denominator of which is equal to the Accepted Claims Amount, in each case at that time.

    “ ISK Equivalent” means, in relation to any amount in euro or Sterling and as at any day, the equivalent of such amount in Krónur calculated at the average of the published daily rates of exchange as published by the Central Bank of Iceland ( Seðlabanki Íslands) (or, to the extent that no such rates of exchange are published by the Central Bank of Iceland, the published daily rates of exchange derived from a source reasonably agreed between Iceland and The Netherlands or, if Iceland and The Netherlands fail to agree such rate prior to the date for which the relevant ISK Equivalent is to be determined, as determined by arbitration in accordance with Section 9.10) for the period of one month ending on the day immediately preceding that day.

    “ Krónur” or “ ISK” means the lawful currency for the time being of Iceland.

    “ Landsbanki” means Landsbanki Íslands hf., a financial undertaking incorporated under the laws of Iceland.

    “ Landsbanki Amsterdam” means the Amsterdam branch of Landsbanki.

    “ Landsbanki Amsterdam Depositor” means each Person who has deposited any funds, or otherwise has any credit balance, with Landsbanki Amsterdam and whose corresponding claim against Landsbanki is guaranteed by the Guarantee Fund according and subject to Act No. 98/1999.

    “ Landsbanki Depositor” means each Person who has deposited any funds, or otherwise has any credit balance, with Landsbanki and whose corresponding claim against Landsbanki is guaranteed by the Guarantee Fund according and subject to Act No. 98/1999 (including, for the avoidance of doubt, each Landsbanki Amsterdam Depositor).

    “ Lien” means any mortgage, lien, pledge, fiduciary transfer, charge, encumbrance or other security interest.

    “ Loan Agreement” means the Loan Agreement dated 5 June 2009 between the Parties.

    “ Mandatory Prepayment Event” means any event or circumstance specified as such in paragraph (b) of Section 3.5.

    “ Mandatory Prepayment-Related Material Adverse Effect” means any effect which impairs the ability of any Reimbursement Party to perform its payment or other material obligations under this Agreement or any other Relevant Document.

    “ NL Interest Share Receipts” means, at any time, the aggregate of all amounts applied in accordance with paragraph (a)(ii)(B)(1) of Section 3.5 at or prior to that time.

    “ NL Interest Share” means, at any time, a fraction of the Interest Proceeds at that time, calculated by multiplying those Interest Proceeds by a fraction dependent on the Recovery Percentage at that time and determined in accordance with the following table:

Recovery Percentage NL Interest Share
86 or less Zero
≥86 . 87 0.05
≥87 . 88 0.10
≥88 . 89 0.15
≥90 . 91 0.20
≥91 . 92 0.25
≥92 . 93 0.35
≥93 . 94 0.45
≥94 . 95 0.55
≥95 . 96 0.65
≥96 . 97 0.75
≥97 . 98 0.85
≥98 . 99 0.95
≥99 . 100 1

    “ NL Settlement Account” means account nr. 600113019 (BIC: MIFINL2G; IBAN: NL10FLOR0600113019) with DNB in the name of The Netherlands.

    “ Other Guarantee Fund” means any deposit-guarantee scheme introduced and officially recognized in Iceland for the purpose of Directive 94/19/EC (including any modification or re-enactment thereof or any substitution therefor), other than the Guarantee Fund.

    “ Parties” has the meaning set forth in the introduction hereto.

    “ Payment Date” means January 1, 2011 and each April 1, July 1, September 1 and January 1 falling after January 1, 2011.

    “ Pay-out Costs” means the costs incurred by The Netherlands in paying compensation to Landsbanki Amsterdam Depositors in respect of their claims against Landsbanki and the Guarantee Fund under Act No. 98/1999 as referred to in the Recitals, which is an amount of EUR 7,000,000 (seven million euro).

    “ PCA Rules” means Permanent Court of Arbitration Optional Rules for Arbitrating Disputes between Two Parties of Which Only One Is a State, as in effect on the date hereof.

    “ Person” means any individual, corporation, company, voluntary association, partnership, limited liability company, joint venture, trust, unincorporated organization, Governmental Authority or other entity of whatever nature.

    “ Pro Rata Entitlement” means, as at any time, a fraction calculated by dividing (a) (i) in the case of The Netherlands, an amount of GBP 1,134,680,211.10 (being the Sterling equivalent of the amount of the Reimbursement Amount as at the date of this Agreement converted into Sterling at a rate of EUR 1,1653 to GBP 1,00), or (ii) in the case of the HMT Commissioners, the aggregate of all “Disbursements” as defined in the UK Disbursement, Reimbursement and Indemnity Agreement made up to that time under the UK Disbursement, Reimbursement and Indemnity Agreement (which the Parties believe to have been GBP 2,254,417,851.51 as at November 24, 2010), by (b) the aggregate of the amounts referred to in item (a) above.

    “ Property” of any Person means any property, rights or revenues, or interest therein, of such Person.

    “ Quarterly Installments” means the quarterly installments in which the Second Phase Reimbursement Amount must be paid, the amount and number of which are determined in accordance with Section 3.1 (subject to the other provisions of this Agreement).

    “ Recovery Percentage” means, at any time, such fraction, expressed as a percentage, of the Accepted Claims Amount as under Icelandic Act no. 21/1991 on Bankruptcies etc. ( Lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.) (or otherwise under the laws of Iceland) has been or is deemed to have been paid by the Winding up Board of Landsbanki in payment of the Accepted Claims Amount at that time.

    “ Reimbursement Amount” means the amount to be reimbursed by the Guarantee Fund to The Netherlands pursuant to this Agreement (or the outstanding amount thereof from time to time) which at the date of this Agreement is an amount of EUR 1,322,242,850 (one billion three hundred twenty two million two hundred forty two thousand eight hundred and fifty euro) and which may reduce pursuant to the terms of this Agreement.

    “ Reimbursement Parties” means, collectively, the Guarantee Fund and Iceland.

    “ Reimbursement Payment Date” means each Payment Date falling after the Second Phase Start Date.

    “ Relevant Documents” means, collectively, this Agreement, the DNB Assignment Agreement, the DNB Pari Passu Agreement and any other agreement or document designated as a Relevant Document by the Parties.

    “ Relevant Financing Arrangement” means any agreement, arrangement or treaty entered into by any Reimbursement party with any financier (including any Sovereign, international organization, private entity or other Person) for the purpose of financing claims of any depositors of an Icelandic bank where such claims arose prior to the date of this Agreement, but excluding (a) the UK Disbursement, Reimbursement and Indemnity Agreement, and (b) any agreement, arrangement or treaty entered into for the purpose of financing or refinancing (i) any part of the Reimbursement Amount or compensation or any other amount payable by any Reimbursement Party to The Netherlands under this Agreement or any other Relevant Document (or any successor agreement or document), or (ii) any amount payable by any Reimbursement Party under the UK Disbursement, Reimbursement and Indemnity Agreement or any other “Relevant Documents” as defined in the UK Disbursement, Reimbursement and Indemnity Agreement (or any successor agreement or document).

    “ Relevant Icelandic Total Government Revenue” means, in relation to any Reimbursement Payment Day falling in a given period starting on July 1 of any year and ending on June 30 of the immediately following year (a “ Relevant Period”), (a) Iceland's “Total Central Government Revenue” for the calendar year immediately preceding that Relevant Period as published by the Statistical Bureau of Iceland ( Hagstofa Íslands), or (b) if such Total Central Government Revenue (i) has not yet been published, or (ii) is less than 26 per cent. of the then most recent estimate of the gross domestic product of Iceland for the calendar year immediately preceding that Relevant Period as published by the International Monetary Fund in its most recent World Economic Outlook (the “ Relevant Icelandic GDP”), an amount equal to 26 per cent. of the Relevant Icelandic GDP (or, if there is a material change in the component elements or any of such Total Central Government Revenue or gross domestic product or any such figure for such Total Central Government Revenue or Relevant Icelandic GDP is not published by the relevant organization, a comparable figure (or comparable figures) for such revenue Total Central Government Revenue or Relevant Icelandic GDP reasonably agreed between Iceland and the Netherlands or, if Iceland and The Netherlands fail to agree such figure (or figures) prior to that Reimbursement Payment Day, as determined by arbitration in accordance with Section 9.10).

    “ Second Phase CIRR” means the Commercial Interest Reference Rate for euro as applicable on 15 June 2016 and as published by the Organisation for Economic Co-operation and Development (or, if no such rate is published by that organization, a comparable rate reasonably agreed between Iceland and the Netherlands or, if Iceland and The Netherlands fail to agree such comparable rate before the Second Phase Start Date, as determined by arbitration in accordance with Section 9.10) for a loan with a duration longer than the scheduled payment period for the Second Phase Reimbursement Amount (or (a) if there is more than one such rate for loans with a duration longer than the scheduled payment period for the Second Phase Reimbursement Amount, such rate for a loan with the shortest duration which is longer than such scheduled payment period, and (b) if there is no such rate for a loan with a duration longer than the scheduled payment period for the Second Phase Reimbursement Amount, such rate for a loan with a duration closest to such scheduled payment period) and, for this purpose, the “ scheduled payment period for the Second Phase Reimbursement Amount” shall be the period from the Second Phase Start Date through the Reimbursement Payment Date on which the last Quarterly Installment is due to be paid (as determined in accordance with paragraphs (b) and (c) of Section 3.1).

    “ Second Phase Reimbursement Amount” means the Reimbursement Amount as at the end of the day immediately preceding the Second Phase Start Date (excluding, however, any part of the Reimbursement Amount which has fallen due for payment before, but remains unpaid in breach of the terms of this Agreement on, the Second Phase Start Date).

    “ Second Phase Start Date” means July 1, 2016.

    “ Shortfall Amount” means, from time to time, (a) any amount expressed to be payable by the Guarantee Fund to The Netherlands under this Agreement or any other Relevant Document which has not been paid, and remains unpaid, in full when due, at the place and in the currency in which it is expressed to be payable, and (b) if any obligation of the Guarantee Fund under this Agreement or the other Relevant Documents is or becomes unenforceable, invalid or illegal, an amount equal to the aggregate of the amounts which The Netherlands would otherwise have been entitled to recover from the Guarantee Fund if that obligation had been or had continued to be enforceable, valid and legal.

    “ Sovereign” means any nation or government having sovereign authority.

    “ Sovereign Debt” means any present or future borrowing, debt or other obligation, whether actual or contingent, which is (a) payable to non-residents of Iceland or, if in the form of bonds, notes, debentures, loan stock or other securities, at least 25 per cent. in aggregate principal amount of which is or was initially offered to non-residents of Iceland, or (b) denominated in a currency other than Krónur or, if denominated in Krónur, under the terms of which payment of principal, premium (if any) or interest can be or is required to be made in or by reference to any other currency, including, for the avoidance of doubt, (i) any borrowing, debt or other obligation owing to the International Monetary Fund, and (ii) any borrowing, debt or other obligation owing under the UK Disbursement, Reimbursement and Indemnity Agreement.

    “ Sterling” or “ GBP” means the lawful means the lawful currency for the time being of the United Kingdom of Great Britain and Northern Ireland.

    “ UK Disbursement, Reimbursement and Indemnity Agreement” means the Reimbursement Agreement entered or to be entered into on or about the date of this Agreement between the Guarantee Fund, Iceland and the HMT Commissioners.

    “ UK Quarterly Installment” means a “Quarterly Installment” as defined in the UK Disbursement, Reimbursement and Indemnity Agreement.

    “ UK Reimbursement Amount” means, from time to time, the “Reimbursement Amount” as defined in the UK Disbursement, Reimbursement and Indemnity Agreement.

    “ UK Second Phase Reimbursement Amount” means the “Second Phase Reimbursement Amount” as defined in the UK Disbursement, Reimbursement and Indemnity Agreement.

    “ UK Settlement Agreement” means the “Settlement Agreement” as defined in the UK Disbursement, Reimbursement and Indemnity Agreement.

    “ Taxes” means all present and future income, stamp, registration and other taxes and levies, imposts, deductions, charges and withholdings whatsoever, and all interest, penalties or similar amounts with respect thereto or with respect to the non-payment thereof, now or hereafter imposed, assessed, levied or collected by any authority, on or in respect of this Agreement or any other Relevant Document, any payment under this Agreement or any other Relevant Document or the recording, registration, notarization or other formalization of any thereof.

    “ The Netherlands” has the meaning set forth in the introduction hereto.
Drög að þýðingu – enski textinn gildir.

ENDURGREIÐSLU- OG SKAÐLEYSISSAMNINGUR dags. [*], 2010

milli

Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta á Íslandi

og

Íslands

og

hollenska ríkisins



     ENDURGREIÐSLU- OG SKAÐLEYSISSAMNINGUR þessi, dags. [**], 2010 („ samningur þessi“), á milli TRYGGINGARSJÓÐS INNSTÆÐUEIGENDA OG FJÁRFESTA, sjálfseignarstofnunar sem er stofnuð á grundvelli íslenskra laga („ Tryggingarsjóður“), ÍSLANDS („ Ísland“) og HOLLENSKA RÍKISINS („ Holland“, sameiginlega verður vísað til Hollands, Tryggingarsjóðs og Íslands sem „ samningsaðila“).

FORSENDUR SAMNINGSINS


    Samningsaðilar hafa gert með sér lánssamning og viðaukasamning, sem saman kveða á um það samkomulag sem samningsaðilar gerðu með sér í upphafi um þau málefni sem lýst er í forsendum þessum. Samningsaðilar vilja nú gera með sér samning þennan í þeim tilgangi að ná sátt um umrædd atriði, og einnig til þess að fella lánssamninginn og viðaukasamninginn úr gildi, enda öðlist samningur þessi gildi.

    Tryggingarsjóður ábyrgist kröfur innstæðueigenda hjá Landsbankanum í Amsterdam á hendur Landsbankanum samkvæmt lögum nr. 98/1999, en með þeim var innleidd tilskipun 94/19/EB, sem nemur allt að 20.887 evrum fyrir hvern innstæðueiganda.

    Seðlabanki Hollands hefur greitt út tryggingar til innstæðueigenda hjá Landsbankanum í Amsterdam vegna krafna þeirra á hendur Landsbankanum og Tryggingarsjóði á grundvelli laga nr. 98/1999 og í staðinn hafa þessir innstæðueigendur Landsbankans í Amsterdam framselt Seðlabanka Hollands umræddar kröfur. Seðlabanki Hollands hefur samþykkt meirihluta umsókna um útgreiðslu tryggingar og lauk við að greiða þær út 2. júní 2009. Seðlabanki Hollands hefur synjað umsóknum um útgreiðslu tryggingar frá minnihluta innstæðueigenda hjá Landsbankanum í Amsterdam. Hluti innstæðueigenda hjá Landsbankanum í Amsterdam hefur andmælt synjun Seðlabanka Hollands. Synjun Seðlabanka Hollands má bera undir dómstóla og á þeim degi sem samningur þessi er gerður er óvíst að hvaða marki Seðlabanki Hollands gæti þurft að hlíta niðurstöðu dómstóla um greiðslu trygginga vegna þessara krafna.

    Holland hefur forfjármagnað útgreiðslur Seðlabanka Hollands á tryggingum vegna krafna innstæðueigenda hjá Landsbankanum í Amsterdam á hendur Landsbankanum og Tryggingarsjóði skv. lögum nr. 98/1999 og tilheyrandi kostnað. Samningsaðilar hafa orðið ásáttir um að Tryggingarsjóður endurgreiði Hollandi þá forfjármögnun í samræmi við ákvæði samnings þessa. Ennfremur munu samningsaðilar ákvarða þá fjárhæð sem Tryggingarsjóður endurgreiðir Hollandi í samningi þessum.

    Samningsaðilar staðfesta að samið hafi verið um samning þennan í samræmi við „hin umsömdu viðmið“ frá 14. nóvember 2008, sem Ísland og aðildarríki Evrópusambandsins stóðu að.

I. GR.
SKILGREININGAR


    Grein 1.1 Skilgreiningar tiltekinna hugtaka. a) Þau hugtök sem skilgreind eru í fylgiskjali 1 skulu í samningi þessum hafa þá merkingu sem þar er gefin.

    b)     Að því er varðar skilgreiningar á „vaxtafjármunum“ skal, ef eitthvað af hlutdeild Tryggingarsjóðs úr búinu er í öðrum gjaldmiðli en evrum og hafi hann ekki verið umreiknaður af Tryggingarsjóði skv. a-lið 7. mgr. 4. gr., umreikna þá fjárhæð í evrur á því gengi sem hollenska ríkið velur með sanngjörnum hætti.

    Grein 1.2 Önnur túlkunarákvæði. (a) Merking skilgreindra hugtaka gildir óháð því hvort þau eru notuð í eintölu eða fleirtölu.

    (b)     Þegar orðalagið „í samningi þessum“, „samnings þessa“ eða sambærilegt orðalag er notað er verið að vísa til samnings þessa í heild sinni en ekki tiltekinna ákvæða hans.

    (c)     Tilvísanir í „skjöl“ eru tilvísanir í skjöl, gerninga, skriflega samninga, vottorð, skuldbindingar, tilkynningar og önnur skrifleg gögn af hvaða tagi sem er, á hvaða formi sem þau eru (þ.á m. á rafrænu formi).

    (d)     Orðalagið „þar á meðal/þar með talið“ [e. including] er ekki takmarkandi (nema að því marki sem það er sérstaklega tekið fram) og merkir „þar á meðal án takmarkana“ [e. including without limitation].

    (e)     Að því er varðar tilvísanir í ákveðin tímabil sem ná frá tilgreindri dagsetningu til síðari tilgreindrar dagsetningar skal orðið „frá“ merkja „frá og með“, orðið „til“ og orðasambandið „fram að“ skulu merkja „til [umrædds dags] að síðasttöldum degi undanskildum“, og orðasambandið „til og með“ merkir „til [umrædds dags] að síðasttöldum degi meðtöldum“, nema annað sé sérstaklega tekið fram.

    (f)     Orðin „getur“ [e. may] og „kann“ [e. might] og sambærileg orð sem notuð eru í tengslum við ráðstöfun einhvers aðila gefa til kynna að umrædd ráðstöfun sé valfrjáls og að viðkomandi sé ekki skylt að grípa til umræddrar ráðstöfunar.

    (g)     Orðið „viðvarandi“ tilvik sem leiðir til uppgreiðsluskyldu gefur til kynna að slíkt tilvik sem leiðir til uppgreiðsluskyldu hafi átt sér stað og að ekki hafi verið bætt úr því eða fallið frá því í samræmi við 5. mgr. 9. gr.

    (h)     Nema annað sé sérstaklega tekið fram: (i) tilvísanir í samninga (þ.á m. samning þennan) og önnur skjöl skulu einnig taka til allra síðari breytinga á slíkum skjölum og samningum, en þó aðeins að því marki sem slíkar breytingar eru ekki óheimilar skv. viðkomandi skjölum, og (ii) túlka skal tilvísanir í lög sem gilda þannig að þær taki til allra ákvæða laga, reglugerða eða reglna sem hafa þann tilgang að styrkja, breyta, koma í stað, bæta við, túlka eða innleiða umrædd lög sem gilda.

II. GR.
ENDURGREIÐSLA O.FL.


    Grein 2.1 Endurgreiðsluskuldbinding. Á grundvelli (a) undirritunar Seðlabanka Hollands á framsalssamningi bankans, (b) útgreiðslna Seðlabanka Hollands á tryggingum til innstæðueigenda hjá Landsbankanum í Amsterdam vegna krafna þeirra á hendur Landsbankanum og Tryggingarsjóði samkvæmt lögum nr. 98/1999 eins og um getur í forsendum samningsins, og (c) forfjármögnunar Hollands á útgreiðslum Seðlabanka Hollands, skuldbindur Tryggingarsjóður sig til að endurgreiða Hollandi þá forfjármögnun og greiða Hollandi í þeim tilgangi endurgreiðslufjárhæðina í samræmi við skilmála samnings þessa.

    Grein 2.2 Endurgreiðslufjárhæð. Samningsaðilar eru ásáttir um, í öllum skilningi að því er varðar samning þennan og önnur viðkomandi skjöl, að á dagsetningu samnings þessa skuli endurgreiðslufjárhæðin nema 1.322.242.850 evrum (einum milljarði þrjú hundruð tuttugu og tveimur milljónum tvö hundruð fjörtíu og tvö þúsund átta hundruð og fimmtíu evrum) og að endurgreiðslufjárhæðin kunni að lækka hverju sinni í samræmi við skilmála samnings þessa.

III. GR.
FYRIRKOMULAG ENDURGREIÐSLU, VEXTIR OG ÚTGREIÐSLUKOSTNAÐUR


    Grein 3.1 Fyrirkomulag endurgreiðslu. (a) Þessi 1. mgr. 3. gr. gildir frá upphafsdegi seinna tímabils.

    (b)     Með fyrirvara um d-lið að neðan samþykkir Tryggingarsjóður að greiða Hollandi endurgreiðslufjárhæð seinna tímabils með samfelldum ársfjórðungslegum afborgunum, sem skulu greiðast á hverjum greiðsludegi endurgreiðslu.

    (c)     Fjöldi og fjárhæð ársfjórðungslegra afborgana skal reiknaður sem hér segir:

              (i)     ef, miðað við daginn næst á undan upphafsdegi seinna tímabils, samanlögð jafnvirðisfjárhæð (í íslenskum krónum) endurgreiðslu seinna tímabils og jafnvirðisfjárhæð (í íslenskum krónum) endurgreiðslu seinna tímabils til Bretlands nemur 45.000.000.000 kr. eða lægri fjárhæð, (A) þá skulu ársfjórðungslegar afborganir vera fjórar að tölu, og (B) fjárhæð hverrar ársfjórðungslegrar afborgunar skal vera endurgreiðslufjárhæð seinna tímabils deilt með fjórum,

              (ii)     ef, miðað við daginn næst á undan upphafsdegi seinna tímabils, samanlögð jafnvirðisfjárhæð (í íslenskum krónum) endurgreiðslu seinna tímabils og jafnvirðisfjárhæð (í íslenskum krónum) endurgreiðslu seinna tímabils til Bretlands, er hærri en 45.000.000.000 kr., (A) þá skal fjöldi ársfjórðungslegra afborgana vera, eftir því hvort er lægri tala, (I) fjórar að viðbættum öðrum fjórum fyrir hverja 10.000.000.000 króna (eða hluta þeirrar fjárhæðar) sem sú samtala er umfram kr. 45.000.000.000, og (II) 118, og (B) þá skal fjárhæð hverrar ársfjórðungslegrar afborgunar vera endurgreiðslufjárhæð seinna tímabils deilt með þeim fjölda ársfjórðungslegra afborgana sem þannig fæst,

         (d)     (i)     án tillits til b- og c-liðar að ofan og háð skilyrðum iii-liðar að neðan, ef á tilteknum greiðsludegi endurgreiðslu samtala (A) jafnvirðisfjárhæðar (í íslenskum krónum) á greiðsludegi endurgreiðslu viðkomandi ársfjórðungslegrar afborgunar ásamt vaxtafjárhæð sem gjaldkræf er á sama greiðsludegi endurgreiðslu samkvæmt a-lið 2. mgr. 3. gr. og (B) jafnvirðisfjárhæðar (í íslenskum krónum) gjaldkræfrar ársfjórðungslegrar afborgunar til Bretlands á eða í kringum greiðsludag endurgreiðslu ásamt vaxtafjárhæð sem gjaldkræf er á eða í kringum greiðsludag endurgreiðslu samkvæmt a-lið 2. mgr. 4. gr. breska útgreiðslu-, endurgreiðslu- og skaðleysissamningsins, nemur meira en 1,25 af hundraði af viðeigandi heildartekjum íslenska ríkisins miðað við viðkomandi greiðsludag endurgreiðslu, þá (X) skal sú samtala lækkuð um þá lágmarksfjárhæð sem þarf til að tryggt sé að samtalan fari niður fyrir 1,25 af hundraði af viðeigandi heildartekjum íslenska ríkisins miðað við greiðsludag endurgreiðslu, (Y) fjárhæð slíkrar lækkunar (sett fram í krónum) skal skipt á milli Hollands og umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins í samræmi við hlutfallslegan rétt hvors aðila til endurgreiðslunnar, og (Z) fjárhæð ársfjórðungslegu afborgunarinnar sem vísað er í undir (A) að ofan (og nemi hlutfallslegur réttur umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins til endurgreiðslu hærri fjárhæð en ársfjórðungslegu afborguninni, þá skal vaxtafjárhæðin sem vísað er til í (A)) lækka um það sem nemur hlutfallslegum rétti Hollands í slíkri lækkun (umbreytt í evrur á því gengi sem notað er við útreikning jafnvirðisfjárhæðar (í íslenskum krónum) sem vísað er til að ofan).

              (ii)     Hver sú fjárhæð sem ársfjórðungsleg afborgun eða vaxtafjárhæð lækkar um, í samræmi við i-lið hér að framan, er áfram gjaldkræf og bætist við ársfjórðungslegu afborgunina sem kemur til greiðslu á næsta greiðsludegi endurgreiðslu (en sú ársfjórðungslega afborgun, sem þannig hefur hækkað, heyrir undir beitingu i-liðar hér að ofan og kemur því (þó ætíð með fyrirvara um iii-lið hér að neðan) einungis og að því marki til greiðslu sem segir í i-lið hér að ofan. Hver sú fjárhæð sem vaxtafjárhæð lækkar um, í samræmi við i-lið hér að framan, telst hluti af endurgreiðslufjárhæðinni frá þeim greiðsludegi endurgreiðslu þegar (ef ekki væri fyrir i-lið hér að ofan) sú upphæð hefði komið til greiðslu í samræmi við b- og c-lið hér að ofan, og falla vextir á hana í samræmi við það.

              (iii)     Ákvæði i- og ii-liðar hér að ofan gilda ekki í tengslum við þann greiðsludag endurgreiðslu þegar síðasta ársfjórðungslega afborgun kemur til greiðslu (eins og ákvarðað er í samræmi við c-lið hér að ofan) eða sú ársfjórðungslega afborgun sem kemur til greiðslu á þeim greiðsludegi endurgreiðslu, hverjir þeir vextir, sem koma til greiðslu á þeim greiðsludegi endurgreiðslu, og hver sú fjárhæð sem kemur til greiðslu á þeim greiðsludegi endurgreiðslu í samræmi við ii-lið hér að ofan, skulu koma til greiðslu að fullu á þeim greiðsludegi endurgreiðslu.

    Grein 3.2 Vextir. (a) Tryggingarsjóður skal greiða Hollandi vexti af endurgreiðslufjárhæðinni, (i) skv. vaxtastigi fyrra tímabils fyrir tímabilið frá 1. október 2009 til upphafsdags seinna tímabils, og (ii) skv. viðmiðunarvöxtum seinna tímabils fyrir tímabilið frá og með upphafsdegi seinna tímabils. Slíkir vextir skulu halda áfram að leggjast á að því marki sem lög sem gilda heimila bæði fyrir og eftir gjaldþrot, ógjaldfærni, endurskipulagningu, skipti, endurskipulagningu innan eða utan réttar, slit, samkomulag, nauðasamning eða aðlögun skulda Tryggingarsjóðs. Til að fyrirbyggja vafa skal tekið fram að ekki þarf að greiða vexti vegna tímabila fyrir 1. október 2009.

    (b)     Þrátt fyrir framangreint skal Tryggingarsjóður greiða hollenska ríkinu dráttarvexti á sérhverja fjárhæð í vanskilum. Slíkir vextir skulu leggjast við fjárhæðina, sem þeir hafa fallið á, á hverjum greiðsludegi.

    (c)     Greiða skal vexti sem fallið hafa á endurgreiðslufjárhæðina eða aðrar fjárhæðir (i) á fyrsta greiðsludegi ef um er að ræða vexti sem áfallnir eru fyrir fyrsta greiðsludag (og leggjast þeir við fjárhæðina, sem þeir hafa fallið á, á hverjum degi sem hefði verið greiðsludagur ef fyrsti greiðsludagur hefði verið 1. janúar 2010 í stað 1. janúar 2011, (ii) á hverjum greiðsludegi eftir það, og (iii) þegar um er að ræða innborgun inn á einhvern hluta endurgreiðslufjárhæðarinnar (hvort sem hún er valfrjáls eða skylt er að greiða hana) á þeim degi sem slík innborgun á sér stað (einungis skal greiða vexti sem fallið hafa á þann hluta endurgreiðslufjárhæðarinnar sem er greidd fyrirfram fram að innborgunardegi), með þeim fyrirvara að einnig skuli greiða hverju sinni dráttarvexti, sem fallið hafa á fjárhæðir í vanskilum, þegar hollenska ríkið óskar eftir því.

    (d)     Vextir sem falla á endurgreiðslufjárhæðina eða aðrar fjárhæðir skulu reiknaðir á grundvelli raunverulegs fjölda liðinna daga á vaxtatímabilinu miðað við að árið sé þrjú hundruð sextíu og fimm (365) dagar.

    Grein 3.3 Valfrjálsar innborganir. (a) Tryggingarsjóði er heimilt að greiða endurgreiðslufjárhæðina fyrirfram, að fullu eða að hluta, enda tilkynni hann (eða Ísland fyrir hans hönd) hollenska ríkinu með fyrirvara um slíka innborgun í samræmi við 4. mgr. 3. gr. og skal sú fjárhæð sem greiða á fyrirfram og þeir vextir sem fallið hafa á hana skv. 2. mgr. 3. gr. falla í gjalddaga skv. samningi þessum á þeim degi sem tilgreindur er í tilkynningunni. Fjárhæðir sem greiddar eru fyrirfram skv. samningi þessum verða ekki endurheimtar.

    (b)     Á sama tíma og Tryggingarsjóður greiðir hvers konar valfrjálsa innborgun skv. a-lið að ofan skal hann greiða valfrjálsa hlutfallslega innborgun inn á endurgreiðslufjárhæðina sem eftir stendur samkvæmt útgreiðslu-, endurgreiðslu- og skaðleysissamningnum við Bretland þannig að sama hlutfall sé greitt af endurgreiðslufjárhæðinni sem eftir stendur skv. þessum samningi og skv. útgreiðslu-, endurgreiðslu- og skaðleysissamningnum við Bretland (með fyrirvara um námundun).

    (c)     Hvers konar innborgun inn á endurgreiðslufjárhæðina skv. a-lið hér að ofan lækkar, með fyrirvara um b-lið 7. mgr. 3. gr., endurgreiðslufjárhæðina sem nemur fjárhæð innborgunarinnar og skal, ef hún er innt af hendi á upphafsdegi seinna tímabils eða síðar, nýtt til að greiða hlutfallslega niður hverja ársfjórðungslega afborgun sem eftir stendur.

    Grein 3.4 Tilkynningar. (a) Tilkynning um innborgun skv. a-lið 3. mgr. 3. gr. að framan er einungis gild ef hún berst hollenska ríkinu fyrir lok vinnudags (að staðartíma í Amsterdam) þremur (3) virkum dögum fyrir dagsetningu slíkrar innborgunar. Í tilkynningu um innborgun skal tilgreina þá fjárhæð sem greiða á fyrirfram og umbeðinn greiðsludag innborgunar (sem skal vera virkur dagur).

    Grein 3.5 Skyldubundnar innborganir og aðrar greiðslur með hlutdeild Tryggingarsjóðs úr búinu. (a)

              (i)     Fái Tryggingarsjóður einhverjar greiðslur upp í hlutdeild sína úr búinu, skal hann innan fimm (5) virkra daga greiða hvoru um sig, Hollandi og umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins samkvæmt hlutfallslegum rétti þeirra til greiðslunnar (að því er varðar Holland skal slík greiðsla vera í þeirri mynt sem krafa er gerð um skv. 7. mgr. 3. gr. og að því leyti sem greiðslan á að renna til umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins, skal hún vera í þeirri mynt sem kveðið er á um í útgreiðslu-, endurgreiðslu- og skaðleysissamningnum við Bretland), með þeim fyrirvara að Tryggingarsjóðurinn skuli ekki vera skuldbundinn til að inna slíka greiðslu af hendi (i) ef, að því leyti og svo lengi sem skilmálar þeir sem greiðslan til Tryggingarsjóðs er bundin og sem leiða til móttöku Tryggingarsjóðs á fjárhæðinni sem um er að ræða, meina Tryggingarsjóði að ráðstafa fjárhæðinni til annarra aðila, eða (ii) ef og að því leyti sem Tryggingarsjóður skal greiða fjárhæðina til DNB (Seðlabanka Hollands) samkvæmt framsalssamningi DNB eða til FSCS samkvæmt framsalssamningi FSCS eða uppgjörssamningnum við Bretland.

              (ii)     Allar fjárhæðir sem hollenska ríkið móttekur af hlutdeild Tryggingarsjóðs úr búinu (hvort sem er (x) skv. i-lið hér að framan, (y) 4. mgr. 2. gr. framsalssamnings FSCS, eða (z) a-lið i-liðar A í 7. mgr. 4. gr. útgreiðslu-, endurgreiðslu- og skaðleysissamningsins við Bretland) skulu notaðar:

                A)     til innborgunar á endurgreiðslufjárhæðina áður en endurheimtuhlutfallið verður lægra en 86%, eða

                B)     eftir að endurheimtuhlutfallið verður lægra en 86%:

                 1)     í fyrsta lagi til að greiða umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins þær fjárhæðir sem nauðsynlegar eru til að tryggja að eftir slíka greiðslu séu heildarheimtur á vaxtahluta hollenska ríkisins í samræmi við vaxtahlutfall hollenska ríkisins á þeim tíma, og

                 2)     í öðru lagi til innborgunar á endurgreiðslufjárhæðina.

              iii)     Hvers konar innborgun inn á endurgreiðslufjárhæðina skv. þessari málsgrein lækkar, með fyrirvara um b-lið 7. mgr. 3. gr., endurgreiðslufjárhæðina sem nemur fjárhæð innborgunarinnar og skal, ef hún er innt af hendi á upphafsdegi seinna tímabils eða síðar, nýtt til að greiða hlutfallslega niður hverja ársfjórðungslega afborgun sem eftir stendur.

    (b)     Ef eitthvert eftirfarandi atvika (sem hvert um sig kallast „ tilvik sem leiðir til uppgreiðsluskyldu“) á sér stað þá getur hollenska ríkið hvenær sem er á meðan atvikið er viðvarandi, með tilkynningu til Tryggingarsjóðs og afriti til íslenska ríkisins, lýst því yfir að endurgreiðslufjárhæðin, ásamt áföllnum vöxtum og öðrum fjárhæðum sem endurgreiðsluaðila ber að standa skil á skv. samningi þessum eða öðrum viðeigandi skjölum, sé þegar í stað fallin í gjalddaga, og skulu þá fjárhæðirnar þegar í stað falla í gjalddaga án framvísunar, kröfu, andmæla eða annarra formsatriða af hvaða tagi sem er, sem endurgreiðsluaðilar afsala sér hér með sérstaklega:

              (i)     (A) einhver hluti endurgreiðslufjárhæðarinnar eða vaxta eða annarra fjárhæða sem endurgreiðsluaðila ber að greiða hollenska ríkinu skv. samningi þessum eða öðrum viðeigandi skjölum er ekki greiddur að fullu á gjalddaga, á þeim stað og í þeim gjaldmiðli sem greiða ber, nema (1), að því er varðar vanskil á einhverjum hluta endurgreiðslufjárhæðarinnar eða vöxtum sem greiða ber á greiðsludegi skv. 1. mgr. 3. gr. (að því er varðar einhvern hluta endurgreiðslufjárhæðarinnar) eða i-lið c-liðar í 2. mgr. 3. gr. (að því er varðar vexti), slík vanskil megi að öllu leyti rekja til stjórnsýslulegrar eða tæknilegrar yfirsjónar og að fjárhæðin greiðist eigi síðar en fimm (5) virkum dögum eftir gjalddaga, eða (2). að því er varðar öll önnur tilvik, fjárhæðin greiðist eigi síðar en tuttugu (20) virkum dögum eftir gjalddaga, (B) einhverri greiðslu endurgreiðslufjárhæðarinnar, vaxta eða annarra fjárhæða skv. samningi þessum eða öðrum viðeigandi skjölum sem áður hefur verið reidd af hendi af endurgreiðsluaðila er rift, vikið til hliðar, hún ógilt eða lækkuð,

              (ii)     endurgreiðsluaðili er í vanskilum eða, í tilviki vanskila sem unnt er að bæta úr, er í vanskilum sem vara í a.m.k. tuttugu (20) virka daga frá (A) þeim degi sem hollenska ríkið tilkynnir viðkomandi endurgreiðsluaðila um vanskilin, eða (B) þeim degi sem yfirmanni hjá endurgreiðsluaðila verður kunnugt um vanskilin eða ætti að hafa orðið kunnugt um vanskilin við framfylgd og framkvæmd skuldbindinga hans skv. samningi þessum eða einhverju öðru viðkomandi skjali (að öðru leyti en kveðið er á um í i-lið að ofan), hvort sem fyrr verður (í þessu sambandi skal hugtakið „yfirmaður“ merkja, að því er varðar Tryggingarsjóð, stjórnanda hjá Tryggingarsjóði og, að því er varðar íslenska ríkið, ráðherra eða ráðuneytisstjóra í íslenska fjármála- eða utanríkisráðuneytinu, og yfirmenn eða aðstoðarmenn yfirmanna þeirrar deildar eða deilda hjá íslenska ríkinu sem hafa umsjón með ríkisskuldum íslenska ríkisins (þ.á.m. skuldum þess skv. samningi þessum),

              (iii)     hvers konar yfirlýsing, sem er sett fram eða talin er hafa verið sett fram af hálfu endurgreiðsluaðila í samningi þessum eða öðru viðkomandi skjali eða í skjali sem endurgreiðsluaðili hefur afhent í tengslum við viðkomandi skjal, er eða reynist hafa verið röng eða villandi í veigamiklum atriðum þegar hún var sett fram eða talin hafa verið sett fram,

              (iv)     greiðsluskuldbindingar Tryggingarsjóðs skv. samningi þessum og öðrum viðkomandi skjölum verða ekki lengur a.m.k. jafnréttháar núverandi og síðari kröfum allra annarra kröfuhafa hans eða greiðsluskuldbindingar íslenska ríkisins skv. samningi þessum og öðrum viðeigandi skjölum verða ekki lengur jafnréttháar núverandi og síðari ríkisskuldum Íslands, í báðum tilvikum öðrum en kröfum sem hafa forgang skv. gildandi lögum á þeim degi sem samningur þessi er gerður,

              (v)     (A) samningur þessi og önnur viðkomandi skjöl falla úr gildi, eru afturkölluð eða þeim rift eða teljast ekki lengur vera gild, skuldbindandi eða hafa nokkur réttaráhrif af hvaða ástæðu sem er (þó ekki vegna þess að gildistími samkvæmt viðkomandi samningi er liðinn eða vegna athafna eða athafnaleysis Hollands eða Seðlabanka Hollands), (B) efndir endurgreiðsluaðila á skuldbindingum sínum samkvæmt viðkomandi samningi teljast ólögmætar, (C) endurgreiðsluaðili staðfestir það skriflega, eða (D) endurgreiðsluaðili vefengir lögmæti eða fullnustuhæfi samnings þessa eða annarra viðkomandi skjala,

              (vi)     Tryggingarsjóði (A) er slitið eða hann leystur upp, (B) sjóðurinn staðfestir skriflega að hann geti ekki eða sé almennt ófær um að greiða skuldir sínar þegar þær falla í gjalddaga, að teknu tilliti til hvers konar stuðnings sem hann á kost á, eða (C) sjóðurinn frestar því (hvort heldur er viljandi eða óviljandi) að greiða af skuldum sínum, nema áður hafi, í sérhverju þessara tilvika, (1) annar aðili, arftaki, tekið yfir skuldbindingar sjóðsins skv. samningi þessum og öðrum viðeigandi skjölum skv. skilmálum sem Holland hefur samþykkt (sem skal ekki að ástæðulausu synja um eða draga slíkt samþykki), og (2) Ísland gefið þær staðfestingar og gert þá samninga sem Holland kann með sanngirni að fara fram á til að tryggja að skuldbindingar Íslands skv. samningi þessum og öðrum viðkomandi skjölum haldist í fullu gildi eins og arftakinn hefði verið aðili að samningi þessum og öðrum viðkomandi skjölum frá upphafi,

              (vii)     Ísland (eða stjórnvald eða ráðuneyti á Íslandi) stendur ekki við hvers konar greiðslu á ríkisskuldum á gjalddaga (eða innan þess gjaldfrests sem er upphaflega veittur í samningi um slíkar ríkisskuldir) eða hvers konar ríkisskuldir koma fyrr til greiðslu en á tilgreindum gjalddaga vegna vanefnda (af hvaða toga sem er), þó með þeim fyrirvara að ekki komi til tilviks sem leiðir til uppgreiðsluskyldu skv. þessum vii-lið nema heildarfjárhæð ríkisskuldarinnar, sem ekki hefur verið greidd af á gjalddaga eða sem hefur komið fyrr til greiðslu, sé hærri en 50.000.000 sterlingspund eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í öðrum gjaldmiðlum,

              (viii)     (A) endurgreiðsluaðili fer ekki að gildandi lögum sem hann heyrir undir við aðstæður þar sem slík vanræksla gæti haft veruleg neikvæð áhrif sem tengjast uppgreiðsluskyldu, eða (B) þau gildandi lög sem eru nauðsynleg forsenda þess að Tryggingarsjóður eða Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar skv. samningi þessum eða öðrum viðkomandi skjölum eru afturkölluð, felld úr gildi, óvirk eða eru af öðrum orsökum ekki í fullu gildi eða þeim breytt á þann hátt að það hefur eða gæti haft (samanlagt) veruleg neikvæð áhrif sem tengjast uppgreiðsluskyldu.

    (c)      Tilkynning um tilvik sem leiðir til uppgreiðsluskyldu. Ef endurgreiðsluaðili verður var við að tilvik sem leiðir til uppgreiðsluskyldu hafi orðið skal hann tilkynna Hollandi um slíkan atburð eins fljótt og auðið er og greina þar frá þeim atvikum eða aðstæðum sem teljast vera tilvik sem leiðir til uppgreiðsluskyldu og hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til að ráða bót þar á.

    Grein 3.6 Útgreiðslukostnaður. (a) Tryggingarsjóður samþykkir að greiða hollenska ríkinu fjárhæð útgreiðslukostnaðar þess, sem samningsaðilar eru ásáttir um að nemi 7.000.000 evrum (sjö milljónum evra) í öllum skilningi að því er varðar samning þennan og öll viðkomandi skjöl.

    (b)     Tryggingarsjóður samþykkir að greiða hollenska ríkinu á sérhverjum greiðsludegi á árinu 2011 fjárhæð sem jafngildir samtölu (i) fjórðungs útgreiðslukostnaðar og (ii) uppsafnaðra vaxta af þeirri fjárhæð á vaxtastigi fyrra tímabils frá 1. október 2009 til viðkomandi greiðsludags.

    Grein 3.7 Greiðslur. (a) Allt sem greitt er af endurgreiðslufjárhæðinni, vaxtagreiðslur og annað það sem Tryggingarsjóður greiðir Hollandi samkvæmt samningi þessum eða öðrum viðkomandi skjölum skal greitt með reiðufé í evrum án frádráttar, skuldajöfnunar eða gagnkröfu inn á uppgjörsreikning hollenska ríkisins eigi síðar en kl. 17:00 að staðartíma í Amsterdam á gjalddaga viðkomandi greiðslu (en hver greiðsla sem berst eftir þann tíma á gjalddaga greiðslunnar telst hafa verið reidd af hendi næsta virka dag), að því tilskildu að

              (i)     berist hollenska ríkinu fjárhæð frá Seðlabanka Hollands samkvæmt 4. mgr. 2. gr. framsalssamnings DNB skal hollenska ríkið eins fljótt og sanngjarnt getur talist:

                 (A) greiða umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins þann hluta fjárhæðarinnar sem þeir eiga hlutfallslegan rétt til í samræmi við ii-lið a-liðar 5. mgr. 4. gr. útgreiðslu-, endurgreiðslu- og skaðleysissamningsins við Bretland og skal slík greiðsla vera í þeirri mynt sem hún er móttekin án myntbreytinga en skipti yfir í sterlingspund skulu umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins annast samkvæmt útgreiðslu-, endurgreiðslu- og skaðleysissamningnum við Bretland, og

                 (B) ef slík greiðsla berst frá Seðlabanka Hollands í annarri mynt en evrum, umreikna það sem eftir stendur af fjárhæðinni í evrur á gengi að sanngjörnu vali hollenska ríkisins og skal slík greiðsla eftir umreikning fara fram skv. a-lið ii-liðar 5. mgr. 4. gr. og að því marki sem hún fer fram samkvæmt A í a-lið ii-liðar eða 2. undirlið B í a-lið ii-liðar 5. mgr. 3. gr., fullnægja skuldbindingunum svo jafngildi fjárhæðinni í evrum sem hollenska ríkið fær sinn hlut eftir þennan umreikning og

              (ii)     berist hollenska ríkinu fjárhæð frá umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins skv. a-lið i-liðar A í 7. mgr. 4. gr. útgreiðslu-, endurgreiðslu- og skaðleysissamningsins við Bretland skal i-liður B-liðar hér að framan gilda að breyttu breytanda.

    (b)     Ef greiðsla frá Tryggingarsjóði til Hollands nægir ekki til að unnt sé að mæta öllum greiðslum, sem eru á þeim tíma fallnar í gjalddaga og gjaldkræfar skv. samningi þessum og öðrum viðkomandi skjölum, af hálfu Tryggingarsjóðs til Hollands rennur sú greiðsla (i) í fyrsta lagi til greiðslu kostnaðar og útgjalda sem Holland hefur stofnað til og Tryggingarsjóði ber að endurgreiða skv. samningi þessum eða öðrum viðeigandi skjölum, (ii) í öðru lagi til greiðslu áfallinna vaxta sem eru komnir á gjalddaga skv. samningi þessum eða öðrum viðkomandi skjölum en eru ógreiddir, og (iii) í þriðja lagi til greiðslu á þeim hluta endurgreiðslufjárhæðarinnar sem kominn er á gjalddaga.

    (c)     Ef greiðslu samkvæmt samningi þessum ber að greiða á degi sem er ekki virkur dagur, eða ef tímabil sem útreikningur þeirrar fjárhæðar, sem greiða ber, skal miðast við samkvæmt samningi þessum eða öðrum viðkomandi skjölum endar ekki á virkum degi, þá skal sú dagsetning færð fram eða viðkomandi tímabil lengt fram að næsta virka degi og við útreikning vaxtagreiðslna (ef við á) skal tekið mið af slíkri framlengingu, með þeim fyrirvara að ef slík framlenging færir greiðsludaginn eða lok viðkomandi tímabils fram yfir næstu mánaðamót skal viðkomandi greiðsludagur eða síðasti dagur viðkomandi tímabils færður aftur til síðasta virka dags á undan.

IV. GR.
TAP O.FL.


    Grein 4.1 Tap. Að kröfu hollenska ríkisins skal Tryggingarsjóður greiða hollenska ríkinu bætur vegna taps, kostnaðar eða bótaskyldu sem Holland hefur orðið fyrir af ástæðum er varða (a) umreikning úr einni mynt yfir í aðra skv. samningi þessum eða öðrum viðkomandi skjölum, (b) tilvik sem leiðir til uppgreiðsluskyldu eða vanefnd af hálfu endurgreiðsluaðila á einhverjum af skuldbindingum sínum skv. samningi þessum eða öðrum viðkomandi skjölum, eða (c) verndun, staðfestingu eða framfylgd réttinda, heimilda eða sérstakra réttinda Hollands skv. samningi þessum eða öðrum viðkomandi að undanskildum, í hverju tilviki, kostnaði við gerðardóm, í skilningi reglna Alþjóðagerðardómsins, sem gerðardómur við gerðardómsmeðferð hefur ákvarðað, sbr. 10. mgr. 9. gr., að skuli borinn af hollenska ríkinu.

    Grein 4.2 Skattar. Allt sem greitt er af endurgreiðslufjárhæðinni, vaxtagreiðslur eða annað sem endurgreiðsluaðila ber að greiða Hollandi skv. samningi þessum eða öðrum viðkomandi skjölum skal innt af hendi án frádráttar eða ábyrgðar vegna skatta, með þeim fyrirvara að beri endurgreiðsluaðila, skv. lögum sem gilda, að draga skatta frá ofangreindum greiðslum hækkar fjárhæð greiðslunnar sem honum ber að greiða þannig að fjárhæðin verður, að frádrætti loknum (að meðtöldum frádrætti vegna þess sem bætt er við greiðslu skv. þessari 2. mgr. 4. gr.), jafnhá fjárhæðinni sem Holland hefði fengið greitt hefði ekkert verið dregið frá.

    Grein 4.3 Fullt og endanlegt uppgjör. (a) Holland skal ekki eiga neina kröfu (og afsalar sér óafturkallanlega kröfum sem það hefði átt ef þessarar 3. mgr. 4. gr. nyti ekki við) á hendur endurgreiðsluaðila í tengslum við útgreiðslur Seðlabanka Hollands á tryggingum vegna krafna innstæðueigenda hjá Landsbankanum í Amsterdam, eins og um getur í forsendum samningsins, aðrar en kröfur Hollands skv. samningi þessum og öðrum viðeigandi skjölum.

    (b)     Hvorugur endurgreiðsluaðila skal gera neina kröfu (og afsalar sér óafturkallanlega kröfum sem hann hefði átt ef þessa b-liðar nyti ekki við) eða hefja málsókn, þ.m.t. skaðabótamál gegn hollenska ríkinu eða Seðlabanka Hollands í tengslum við (i) útgreiðslur Seðlabanka Hollands á tryggingum vegna krafna innstæðueigenda hjá Landsbankanum í Amsterdam, eins og um getur í forsendum samnings þessa (þ.m.t. synjanir slíkra krafna), eða (ii) hvers konar kröfu innstæðueiganda hjá Landsbankanum í Amsterdam sem Seðlabanki Hollands hefur ekki greitt út tryggingu fyrir (hver sem ástæða þess kann að hafa verið). Undanfarandi málsliður er í þágu Seðlabanka Hollands og er bankanum heimilt að sækja rétt sinn samkvæmt honum.

V. GR.
SKAÐLEYSI


    Grein 5.1 Sérstakar yfirlýsingar og skaðleysi. Á grundvelli gagnkvæmni og gegn endurgjaldi sem viðurkennt er að sé móttekið og fullnægjandi, staðfestist hér með eftirfarandi:

    (a)     Ísland lýsir því yfir og undirgengst þá skuldbindingu gagnvart Hollandi skilyrðislaust og með óafturkallanlegum hætti að Tryggingarsjóður muni tryggja fulla greiðslu og efndir á réttum tíma (hvort heldur er á tilgreindum gjalddaga eða við gjaldfellingu eða aðrar aðstæður) á öllum skuldbindingum sínum samkvæmt samningi þessum og öðrum viðkomandi skjölum og tryggja þannig að aldrei verði um neina vangreidda fjárhæð að ræða,

    (b)     Ísland lýsir því yfir við Holland að komi til þess að eitthvað sé vangreitt muni Ísland, að kröfu, greiða hina vangreiddu fjárhæð til Hollands eins og það væri aðalskuldari, og

    (c)     Ísland skuldbindur sig óafturkallanlega og skilyrðislaust til þess að halda hollenska ríkinu skaðlausu, að kröfu, af öllum kostnaði, tapi eða ábyrgð sem kann að falla á það ef (a) einhver fjárhæð reynist vangreidd, eða (b) einhver skuldbinding Tryggingarsjóðs samkvæmt samningi þessum eða öðrum viðkomandi skjölum er eða reynist ólögmæt, óbindandi, ógild eða óframfylgjanleg. Fjárhæðin, sem kostnaðurinn, tapið eða skaðinn nemur, skal vera jafnhá þeirri fjárhæð sem hollenska ríkið hefði ella átt rétt á að endurheimta.

    Grein 5.2 Skilyrðislausar skuldbindingar. Skuldbindingar Íslands skv. þessari V. gr. eru skilyrðislausar og ófrávíkjanlegar, og án þess að það takmarki almennt gildi framangreinds getur ekkert af eftirfarandi falið í sér lausn undan skuldbindingum eða talist efnd á þeim eða með neinum hætti haft áhrif á þær:

    (a)     hvers kyns framlenging, endurnýjun, uppgjör, málamiðlun, undanþága eða lausn að því er varðar einhverja skuldbindingu eða skuldbindingar endurgreiðsluaðila samkvæmt samningi þessum eða öðrum viðkomandi skjölum í krafti laga eða á annan hátt (nema aðilar samþykki með ótvíræðum hætti að slík framlenging, endurnýjun, uppgjör, málamiðlun, undanþága eða lausn eigi við um skuldbindingar Íslands samkvæmt samningi þessum),

    (b)     hvers kyns breyting, skuldskeyting, framlenging, endurgerð eða viðbót við þennan samning eða annað viðkomandi skjal (nema aðilar samþykki með ótvíræðum hætti að slík breyting, skuldskeyting, framlenging, endurgerð eða viðbót eigi við um skuldbindingar Íslands skv. þessari V. gr.),

    (c)     hvers kyns lausn, skerðing, ófullnustuhæfi eða gildisleysi veðs sem tryggir einhverja vangreidda fjárhæð,

    (d)     hvers kyns breyting á skráningu, skipulagi eða eignarhaldi á Tryggingarsjóði eða öðrum aðila eða hvers kyns aðgerðir vegna ógjaldfærni, endurskipulagningar eða sambærilegar aðgerðir varðandi Landsbankann, Tryggingarsjóð eða annan aðila,

    (e)     tilvist hvers kyns kröfu, skuldajöfnunarréttar eða annarra réttinda sem Holland kann að eiga hverju sinni á hendur Tryggingarsjóði eða öðrum aðila, hvort heldur í tengslum við samning þennan eða önnur óskyld viðskipti,

    (f)     ef einhverjar skuldbindingar reynast ógildar eða óframfylgjanlegar í tengslum við eða gagnvart einhverjum endurgreiðsluaðila vegna samnings þessa eða annars viðkomandi skjals eða einhvers ákvæðis gildandi laga sem talið er koma í veg fyrir efndir af hálfu endurgreiðsluaðila á einhverjum skuldbindingum sínum samkvæmt samningi þessum eða öðru viðkomandi skjali (nema að því leyti sem það eru skuldbindingar Íslands einar samkvæmt þessari V. gr. sem reynast ógildar eða óframfylgjanlegar),

    (g)     annað athæfi eða athafnaleysi eða töf af hvaða toga sem er af hálfu endurgreiðsluaðila eða annars aðila eða aðrar aðstæður af hvaða toga sem er sem kynnu, ef ekki nyti við ákvæða þessarar 2. mgr. 5. gr., að teljast efnd á skyldum endurgreiðsluaðila samkvæmt samningi þessum eða viðkomandi skjali að lögum eða eðli máls.

    Grein 5.3 Lausn undan kröfum fæst þegar greitt er að fullu; endurnýjun skuldbindinga við tilteknar aðstæður. Skuldbindingar Íslands skv. þessari V. gr. halda gildi sínu allt þar til allar eftirstöðvar vangreiddra fjárhæða hafa verið gerðar upp, hvað sem líður milligreiðslum eða efndum, hvort heldur er að fullu eða að hluta, og skulu þær gilda að fullu þar til allar vangreiddar fjárhæðir hafa verið greiddar eða efndar með öðrum hætti í heild og ekki geti framar orðið um neina vangreidda fjárhæð að ræða. Ef einhverri greiðslu samkvæmt samningi þessum eða öðru viðkomandi skjali er rift eða hana þarf að endurgreiða eða skila henni við ógjaldfærni, gjaldþrot, endurskipulagningu eða við aðrar aðstæður sem varða Tryggingarsjóð eða annan aðila, eða af öðrum sökum, þá skulu skuldbindingar Íslands samkvæmt samningi þessum, að því er varðar þá greiðslu, teljast endurnýjaðar á þeim tíma eins og viðkomandi greiðsla hefði verið gjaldfallin en ekki greidd.

    Grein 5.4 Eftirgjöf (e. waiver). Ísland afsalar sér óafturkallanlega og skilyrðislaust, að því marki sem þau lög sem gilda leyfa, rétti sínum til (a) tilkynningar um samþykki samnings þessa og tilkynningar um hvers kyns ábyrgð sem samningur þessi kann að eiga við um; (b) allra tilkynninga sem krafist kann að vera samkvæmt lögum sem gilda eða í því skyni að viðhalda óskertum öllum réttindum Hollands gagnvart Tryggingarsjóði, þ.m.t. krafna, framlagningar, andmæla, sönnunar um að send hafi verið tilkynning um greiðslufall, tilkynninga um vanrækslu af hálfu Tryggingarsjóðs að efna og virða nokkra skuldbindingu, samning, skilmála, skilyrði eða ákvæði einhvers samnings og allra annarra tilkynninga til einhvers aðila sem kann að vera ábyrgur að því er varðar skuldbindingar Tryggingarsjóðs, nema að því marki sem einhvers af framangreindu sé berum orðum krafist samkvæmt samningi þessum, (c) beitingar á réttindum til framfylgdar, staðfestingar eða nýtingar af hálfu Hollands á einhverjum rétti, heimildum, sérstökum réttindum eða úrræðum sem Hollandi ber samkvæmt þessum samningi, öðrum viðkomandi skjölum eða með öðrum hætti, og (d) hvers kyns skyldu þess efnis að Holland neyti með tæmandi hætti allra réttinda, heimilda, sérstakra réttinda eða úrræða eða lágmarki allan skaða sem leiðir af vanefnd samkvæmt einhverju viðkomandi skjali. Þessi eftirgjöf gildir án tillits til laga sem gilda eða ákvæða samnings þessa eða annarra viðkomandi skjala sem kunna að kveða á um annað.

    Grein 5.5 Kröfuhafaskipti. Íslandi er óheimilt að fullnusta greiðsluskyldu sína með framsali kröfu, skaðleysisyfirlýsingu, endurkröfu eða á annan hátt, eða nýta sér önnur réttindi (eða færa sér í nyt greiðslu eða annað framsal sem leiðir af slíkum réttindum) sem það kann að eiga gagnvart Tryggingarsjóði í tengslum við efndir hans á skuldbindingum sínum samkvæmt samningi þessum eða öðrum viðkomandi skjölum svo lengi sem skuldbindingar samkvæmt samningi þessum eða öðrum viðkomandi skjölum eru ógreiddar eða óefndar (og fái Ísland greiðslu eða úthlutun í tengslum við slíkan rétt skal það þegar í stað afhenda Hollandi slíka greiðslu eða úthlutun).

         Grein 5.6 Viðbótartrygging. Sérstakar yfirlýsingar, skuldbindingar og skaðleysi, sem kveðið er á um í þessari grein (V. gr) koma til viðbótar við og takmarkast ekki á nokkurn hátt af öðrum sérstökum yfirlýsingum, skaðleysisyfirlýsingum, tryggingum eða öðrum skjölum eða gerningum, sem hollenska ríkið eða annar aðili hefur nú í höndum eða fær síðar í hendur.

VI. GR.
GILDISTÖKUSKILYRÐI


    Grein 6.1 Gildistökuskilyrði. Gildistaka samnings þessa er háð eftirfarandi skilyrðum:

    (a)     að Hollandi hafi borist eftirfarandi skjöl sem öll skulu vera að efni og formi sem Holland telur fullnægjandi:

              (i)      Staðfesting varðandi útgreiðslu-, endurgreiðslu- og skaðleysissamnings Bretlands. Staðfesting frá umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins um að öllum skilyrðum fyrir gildistöku útgreiðslu-, endurgreiðslu- og skaðleysissamnings Bretlands (að undanskilinni móttöku staðfestingar frá Hollandi um að öllum skilyrðum sé fullnægt fyrir gildistöku þessa samnings) sé fullnægt,

              (ii)      Lög um ríkisábyrgð. Afrit af íslenskum lögum, sem tekið hafa gildi og verða ekki felld niður eða sniðgengin með þjóðaratkvæðagreiðslu og kveða á um skilyrðislausa og skýlausa heimild fyrir þeirri skaðleysisskuldbindingu sem tilgreind er í V. gr. og um að allar aðrar heimildir sem nauðsynlegar teljast til þess að tryggja að skuldbindingar endurgreiðsluaðila samkvæmt samningi þessum og öðrum viðkomandi skjölum séu löglegar, gildar, bindandi og aðfararhæfar, ásamt löggiltri enskri þýðingu laganna, og

              (iii)      Aðrar heimildir. Afrit af undanþágu sem Seðlabanki Íslands veitti Tryggingarsjóði samkvæmt reglum 370/2010 um gjaldeyrisviðskipti til þess að hann geti undirritað og uppfyllt samning þennan og önnur viðkomandi skjöl, ásamt löggiltri enskri þýðingu, og

              (iv)      Lögfræðiálit. Álit frá Lex lögfræðistofu, lögfræðilegum ráðgjöfum Tryggingarsjóðs, og álit Ríkislögmanns, m.a. um stöðu og heimildir hvers endurgreiðsluaðila og skuldbindandi undirritun samnings þessa og allra annarra viðkomandi skjala af þeirra hálfu.

    (b)     Tryggingarsjóður og Seðlabanki Hollands skulu hafa gengið frá framsalssamningi DNB og Pari Passu-samningi DNB.

    Grein 6.2 Framsalssamningur DNB og Pari Passu-samningur DNB. (a) Framsalssamningur DNB skal kveða á um að:

              (i)     á grundvelli skuldbindingar Tryggingarsjóðs um að endurgreiða Hollandi eins og mælt er fyrir um í 1. mgr. 2. gr. skuli Seðlabanki Hollands framselja sjóðnum allar kröfur (eða hluta krafna) innstæðueigenda hjá Landsbankanum í Amsterdam á hendur Landsbankanum sem þeir höfðu áður framselt Seðlabanka Hollands í tengslum við útgreiðslu hans á tryggingum vegna þeirra krafna, að fjárhæð allt að 20.887 evrum í hverju tilviki eins og tilgreint er ítarlega í framsalssamningi Seðlabanka Hollands.

              (ii)     Seðlabanki Hollands samþykki að hann skuli ekki eiga neina kröfu (og afsalar sér óafturkallanlega kröfum sem hann kynni að eiga ef þessa samkomulags nyti ekki) á hendur Tryggingarsjóði eða Íslandi í tengslum við útgreiðslur Seðlabanka Hollands á tryggingum vegna krafna innstæðueigenda hjá Landsbankanum í Amsterdam, eins og um getur í forsendum samningsins, og að báðir endurgreiðsluaðilar njóti hags af og sé heimilt að sækja rétt sinn samkvæmt samkomulagi þessu.

              (iii)     að samningurinn skuli lúta hollenskum og íslenskum lögum og túlkast samkvæmt þeim eftir því sem kveðið er á um í samningnum, og

              (iv)     að samningurinn gangi í gildi samtímis samningi þessum.

    (b)     Pari Passu-samningur DNB skal kveða á um að:

              (i)     að því marki sem Seðlabanki Hollands heldur eftir hluta einhverrar kröfu í kjölfar framsals skv. a-lið hér að framan (vegna þess að heildarfjárhæð kröfunnar er hærri en fjárhæðin sem framseld er Tryggingarsjóði) þá skal sá hluti kröfunnar sem var framseldur Tryggingarsjóði vera að öllu leyti jafnrétthár þeim hluta kröfunnar sem Seðlabanki Hollands hélt eftir að því marki sem lög heimila.

              (ii)     ef það gerist, af einhverri ástæðu (þ.á m. vegna þess að Tryggingarsjóði sé veitt forgangsstaða samkvæmt íslenskum lögum) eftir framsal kröfu til Tryggingarsjóðs að sjóðurinn eða Seðlabanki Hollands endurheimti hlutfallslega stærri hluta slíkrar kröfu en hinn aðilinn, þá skal Tryggingarsjóður eða Seðlabanki Hollands (eftir því sem við á) um leið og það er gerlegt, nema iii-liður að neðan eigi við, greiða Seðlabanka Hollands eða Tryggingarsjóði mismuninn eftir því hvor á í hlut, og skal sú greiðsla nema þeirri fjárhæð sem nauðsynleg er til þess að endurheimtur Tryggingarsjóðs og Seðlabanka Hollands vegna slíkrar kröfu verði hlutfallslega þær sömu.

              (iii)     ef (A) íslenskur dómstóll kveður upp endanlegan og óáfrýjanlegan úrskurð eða dóm um að (I) krafa eða einhver hluti kröfu sem framseld hefur verið Tryggingarsjóði eða réttindi sem Seðlabanki Hollands heldur eftir, eftir því sem við á, skuli njóta forgangs við úthlutun úr búi Landsbankans umfram aðrar kröfur sem eiga rót í sömu innstæðum, og (II) sem ekki er í andstöðu við ráðgefandi álit EFTA dómstólsins að því er forgang þennan varðar, eða (B) slitastjórn Landsbankans ákveður að krafa eða einhver hluti kröfu sem framseld hefur verið Tryggingarsjóði eða réttindi sem Seðlabanki Hollands heldur eftir, eftir því sem við á, skuli njóta forgangs við úthlutun úr búi Landsbankans umfram aðrar kröfur sem eiga rót í sömu innstæðum og slík ákvörðun er ekki borin undir íslenskan dómstól af neinum innstæðueiganda og aðgerðarleysi í því efni stafar ekki af því að það sé erfitt eða ómögulegt að bera slíka ákvörðun undir dómstóla vegna breytinga á gildandi lögum eftir upphafsdag, þá gilda ákvæði ii-liðar að framan um skyldu Tryggingarsjóðs eða Seðlabanka Hollands, eftir atvikum, ekki nema forgangurinn stafi af afturköllun, stöðvun eða annarri ógildingu eða breytingu á gildandi lögum sem öðlast gildi eða er gerð eftir upphafsdag.

              (iv)     að samningurinn skuli lúta enskum lögum og túlkast samkvæmt þeim, og

              (v)     að samningurinn gangi í gildi samtímis samningi þessum.

    Grein 6.3 Efndir gildistökuskilyrða. Ef ráðstöfunum skv. 1. mgr. 6. gr. er ekki lokið fyrir 31. desember 2010:

    (a)     ef það sem ólokið er felst í því að Seðlabanki Hollands hefur ekki undirritað og afhent Tryggingarsjóði framsalssamning DNB og Pari Passu-samning DNB, geta endurgreiðsluaðilar rift samningi þessum með tilkynningu til Hollands, og

    (b)     ef það sem ólokið er felst í því að ekki hefur verið gengið frá öðrum ráðstöfunum sem um getur í 1. mgr. 6. gr. getur Holland rift samningi þessum með tilkynningu til Tryggingarsjóðs og afriti til Íslands,

    (c)     með þeim áhrifum, í báðum tilvikum, að samningur þessi telst niður fallinn.

    Grein 6.4 Lok lánssamnings og viðaukasamnings. Þann dag sem samningur þessi tekur gildi falla lánssamningurinn og viðaukasamningurinn úr gildi, hafi þeir ekki áður fallið úr gildi.

VII. GR.
SÉRSTAKAR YFIRLÝSINGAR (e. Representations and Warranties)


    Grein 7.1 Sérstakar yfirlýsingar Tryggingarsjóðs. Tryggingarsjóður lýsir yfir og ábyrgist eftirfarandi gagnvart Hollandi á þeim degi sem samningur þessi er gerður:

    a)     Tryggingarsjóður er (a) sjálfseignarstofnun, sem er stofnuð og skráð að íslenskum lögum og með lögmæltu skipulagi og er að því er varðar íslensk lög sem um starfsemi hans gilda, í góðum skilum og (b) hefur allar nauðsynlegar heimildir sem félag til að fara með eignir sínar og til að starfa með þeim hætti sem hann gerir nú.

    b)     Samningur þessi, sem og sérhvert viðkomandi skjal annað sem sjóðurinn er aðili að, hafa verið afhent og eru undirrituð með tilskildum hætti, teljast lögmæt, gild og fela í sér bindandi skuldbindingu, og verður í hverju tilviki framfylgt samkvæmt skilmálum sínum, nema að því marki sem almenn sanngirnissjónarmið, sem að jafnaði ber að líta til og er sérstaklega vísað til í lögfræðiáliti því sem um getur í iii-lið a-liðar 1. mgr. 6. gr., setja því skorður.

    Grein 7.2 Sérstakar yfirlýsingar endurgreiðsluaðila. Endurgreiðsluaðilar lýsa yfir og ábyrgjast gagnvart hollenska ríkinu frá dagsetningu samnings þessa að undanþágan sem Seðlabanki Íslands veitti Tryggingarsjóði samkvæmt reglum nr. 370/2010 um gjaldeyrisviðskipti til þess að hann geti undirritað og uppfyllt samning þennan og önnur viðkomandi skjöl, sem um getur í iii-lið a-liðar 1. mgr. 6. gr. sé skilyrðislaus, óafturkallanleg og í fullu gildi og að ekki sé krafist frekari ábyrgðar, leyfis, samþykkis eða annarrar heimildar eða aðgerðar frá íslenskum stjórnvaldsstofnunum í tengslum við undirritun eða uppfyllingu samnings þessa eða annarra viðkomandi skjala eða til að tryggja að skuldbindingar endurgreiðsluaðila samkvæmt samningi þessum og öðrum viðkomandi skjölum séu löglegar, gildandi, bindandi og aðfararhæfar.

VIII. GR.
SÉRSTAKAR SKULDBINDINGAR


    Grein 8.1 Sambærileg meðferð. Grípi endurgreiðsluaðili til ráðstöfunar sem telst „viðkomandi fjármögnunarráðstöfun“ og sá fjármögnunaraðili nýtur þegar á heildina er litið hagstæðari meðferðar en Holland skv. samningi þessum eða öðrum viðkomandi skjölum, eða nýtur veðtryggingar, munu endurgreiðsluaðilar láta Holland njóta sömu hagstæðu meðferðar eða sambærilegs veðréttar (og munu endurgreiðsluaðilar láta skjalfesta það á nauðsynlegan eða æskilegan hátt).

    Grein 8.2 Jöfn meðferð. Ef Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, annar tryggingarsjóður eða Ísland greiðir umframgreiðslu skal Tryggingarsjóður greiða (eða sjá til þess að annar viðkomandi tryggingarsjóður greiði) fjárhæð sem er jafnhá umframgreiðslunni til hvers og eins af innstæðueigendum hjá Landsbankanum í Amsterdam, með þeim fyrirvara að hafi Holland eða Seðlabanki Hollands greitt innstæðueiganda hjá Landsbankanum í Amsterdam skv. lögum nr. 98/1999 fjárhæð sem er umfram 20.887 evrur á kröfu muni greiðslan skv. þessari málsgrein renna til Hollands eða Seðlabanka Hollands, eftir því sem við á.

IX. GR.
ÖNNUR ÁKVÆÐI


    Grein 9.1 Breyting á aðstæðum. Komi til þess á einhverjum tíma að í nýjustu IV. greinar úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á stöðu Íslands segi að skuldaþoli landsins hafi hrakað til muna miðað við slíkt mat hans frá 19. nóvember 2008 samþykkir hollenska ríkið, óski Ísland þess, að eiga fundi með fulltrúum Íslands til að ræða stöðuna og íhuga hvort, og þá hvernig, skuli breyta samningi þessum og öðrum viðkomandi skjölum þannig að þau endurspegli þá breytingu á aðstæðum sem um ræðir.

    Grein 9.2 Aðrar breytingar. Ef breytingar verða á samþykktri kröfufjárhæð eða samþykktri vaxtafjárhæð vegna ákvörðunar slitastjórnar Landsbankans eða lögbærs dómstóls:

              (i)     skulu allir útreikningar samkvæmt samningi þessum eða öðrum viðkomandi skjölum sem eru beint eða óbeint byggðir á samþykktri kröfufjárhæð eða samþykktri vaxtafjárhæð endurútreiknaðir eins og samþykkta kröfufjárhæðin eða samþykkta vaxtafjárhæðin hafi verið breytta samþykkta kröfufjárhæðin eða samþykkta vaxtafjárhæðin og verið í gildi frá dagsetningu samnings þessa,

              (ii)     skal, ef einhver fjárhæð hefur verið greidd eða henni úthlutað á grundvelli fyrri útreiknings, slík greiðsla eða úthlutun ganga til baka eða henni endurúthlutað eftir því sem við á að því marki sem nauðsynlegt er til að endurspegla endurútreikninginn.

    Grein 9.3 Eftirgjöf (e. waiver). Nú lætur hollenska ríkið hjá líða að nýta einhvern rétt, heimild eða sérstök réttindi samkvæmt samningi þessum eða öðru viðkomandi skjali eða tafir verði á slíkri beitingu eða tiltekin hefð skapast í samskiptum samningsaðila og skal það þá ekki skerða þann rétt, þá heimild eða þau sérstöku réttindi eða fela í sér eftirgjöf eða frávik frá þeim, og engin einstök nýting réttar, heimildar eða sérréttinda samkvæmt neinu viðkomandi skjali, eða nýting þeirra að hluta til, skal koma í veg fyrir aðra eða frekari nýtingu þeirra eða nýtingu neins annars réttar, heimildar eða sérstakra réttinda. Hver þau réttindi eða heimild sem hollenska ríkið kann að beita, eða ákvörðun sem hollenska ríkið kann að taka samkvæmt samningi þessum (þ.m.t. hvers kyns ráðstöfun, mál eða atriði sem hollenska ríkið samþykkir, tilgreinir, ákvarðar, ákveður eða tilkynnir Tryggingarsjóði eða íslenska ríkinu) er hollenska ríkinu heimilt að beita eða grípa til alfarið og hindrunarlaust eftir eigin mati á hverjum tíma, án þess að krafist verði rökstuðnings.

    Grein 9.4 Tilkynningar. Allar tilkynningar, beiðnir, fyrirmæli, leiðbeiningar og önnur samskipti sem kveðið er á um í samningi þessum skulu eiga sér stað með skriflegum hætti á ensku með boðsendu bréfi eða símbréfi (sem heimilt er að afrita og senda með tölvupósti, en telst þá ekki gild afhending) til eftirfarandi:

    (a)     sé viðtakandi Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, þá til sjóðsins að Borgartúni 26, 3. hæð, 105 Reykjavík, Íslandi, bréfasími: +354 590 2606, b.t. framkvæmdastjóra, með afriti til íslenska ríkisins, fjármálaráðuneytinu, Arnarhvoli við Lindargötu, 150 Reykjavík, Íslandi, bréfasími: +354 562 8280, b.t. ráðuneytisstjóra,

    (b)     sé viðtakandi Ísland, þá til ríkisins, fjármálaráðuneytinu, Arnarhvoli við Lindargötu, 150 Reykjavík, bréfasími: +354 562 8280, b.t. ráðuneytisstjóra; og

    (c)     sé viðtakandinn hollenska ríkið, þá til Ministerie van Financiën (hollenska fjármálaráðuneytið), Korte Voorhout 7, 2511 CW The Hague, The Netherlands, pósthólf: P.O. Box 20201, 2500 EE The Hague, The Netherlands, bréfasími: +31 70 342 79 03, Attn.: Thesaurier-generaal.

Ef ekki er kveðið á um annað í samningi þessum skulu allar slíkar orðsendingar teljast réttilega afhentar, (i) séu þær boðsendar á heimilisfang samningsaðilans sem þær eru ætlaðar, á þeim tíma þegar þær eru skildar eftir (eða, séu þær skildar eftir á degi sem er ekki virkur dagur, þá kl. 8.15 f.h. (að staðartíma) næsta virka dag), og (ii) séu þær sendar með bréfasíma, þegar staðfesting á móttöku berst frá bréfasímanum sem tekur við þeim (eða, séu þær sendar á degi sem er ekki virkur dagur, þá kl. 8.15 f.h. (að staðartíma) næsta virka dag), enda sé fullnægjandi, þegar færa skal sönnur á að tilkynning hafi verið send samkvæmt samningi þessum eða í tengslum við hann, að sýna fram á að tilkynningin hafi verið afhent á heimilisfangið.

    Grein 9.5 Breytingar o.fl. Ef ekki er sérstaklega kveðið á um annað í samningi þessum er aðeins heimilt að breyta, auka við eða falla frá ákvæði hans og annarra viðkomandi skjala (nema að því leyti sem þau kveða sérstaklega á um annað) með skriflegu samkomulagi milli þeirra samningsaðila sem slík breyting, viðbót eða eftirgjöf hefur áhrif á.

    Grein 9.6 Framsal réttinda og skuldbindinga. a) Samningur þessi er bindandi fyrir samningsaðila og gerður í þágu þeirra. Engum samningsaðila er heimilt að framselja, yfirfæra eða binda neinum kvöðum réttindi sín eða skuldbindingar samkvæmt samningi þessum eða öðrum viðkomandi skjölum (ráðstafanir í þá átt teljast ógildar frá upphafi).

    (b)     Samningur þessi fjallar eingöngu um réttarsamband samningsaðilanna og enginn annar aðili skal teljast beinn eða óbeinn rétthafi samkvæmt samningi þessum eða hafa beint eða óbeint tilefni til málsóknar eða kröfugerðar í tengslum við hann samkvæmt breskum lögum um samningsréttindi þriðju aðila frá 1999 (e. Contracts (Rights of Third Parties) Act 1999), að því tilskildu að Seðlabanki Hollands njóti hags af og geti framfylgt hvers kyns réttindum sem honum eru veitt, eða ákvæðum eða skilmálum sem kveðið er á um að séu í hans þágu, samkvæmt samningi þessum.

    Grein 9.7 Fyrirsagnir. Efnisyfirlit, fyrirsagnir og kaflaheiti samnings þessa eru einvörðungu til hægðarauka við tilvísanir og er ekki ætlað að hafa áhrif á túlkun nokkurs ákvæðis hans.

    Grein 9.8 Samhljóða eintök. Samning þennan má gera í eins mörgum samhljóða eintökum og verða vill, en þau mynda öll saman einn og sama gerninginn, og getur hver samningsaðili staðfest samning þennan með því að undirrita eitthvert slíkra eintaka. Hvert samhljóða eintak skal teljast frumrit af samningi þessum en saman skulu þau mynda einn og sama gerninginn.

    Grein 9.9 Lög sem gilda. SAMNINGUR ÞESSI OG MÁL, KRÖFUR EÐA ÁGREININGUR SEM RÍS VEGNA HANS EÐA Í TENGSLUM VIÐ HANN, HVORT HELDUR ER INNAN EÐA UTAN SAMNINGA (e. CONTRACTUAL OR NON-CONTRACTUAL), SKULU LÚTA ENSKUM LÖGUM OG TÚLKAST SAMKVÆMT ÞEIM.

    Grein 9.10 Gerðardómur. (a) LEITA SKAL ÚRSKURÐAR GERÐARDÓMS VEGNA HVERS KYNS ÁGREININGS, MÁLSHÖFÐUNAR EÐA MÁLAREKSTURS AF HÁLFU EÐA GEGN EINHVERJUM SAMNINGSAÐILA VARÐANDI SAMNING ÞENNAN EÐA VEGNA HANS, HVORT HELDUR ER INNAN EÐA UTAN SAMNINGA, Þ.M.T. ÁGREININGUR, MÁLSHÖFÐUN EÐA MÁLAREKSTUR VARÐANDI TILVIST, GILDI, GERÐ EÐA UPPSÖGN ÞESSA SAMNINGSINS („ÁGREININGUR“), OG SKAL HANN VERA ENDANLEGUR OG BINDANDI Í SAMRÆMI VIÐ REGLUR ALÞJÓÐAGERÐARDÓMSINS SEM TELJAST FELLDAR INN Í ÞETTA ÁKVÆÐI MEÐ TILVÍSUN, ÞÓ EKKI AÐ ÞVÍ MARKI SEM ÞÆR VARÐA RÍKISFANG GERÐARDÓMSMANNA.

    (b)     Við gerðardómsmeðferð, sbr. a-lið hér að framan:

              (i)     skulu gerðardómsmenn vera þrír,

              (ii)     ef allir samningsaðilar eru aðilar að gerðardómsmeðferðinni skulu (A) endurgreiðsluaðilar sameiginlega tilnefna einn gerðardómara (tilnefni endurgreiðsluaðilarnir ekki sameiginlega gerðardómara þá skal með fara samkvæmt 2. mgr. 7. gr. reglna Alþjóðagerðardómsins), og (B) Holland einn gerðardómara og hinir tveir tilnefndu skulu velja þriðja dómarann sem skal vera forseti gerðardómsins,

              (iii)     aðalframkvæmdastjóri Alþjóðagerðardómsins skal annast tilnefningar,

              (iv)     gerðardómsmeðferðin skal fara fram í London, Englandi,

              (v)     þingmálið skal vera enska,

              (vi)     reglur Alþjóðasamtaka lögmannafélaga (IBA) um öflun sönnunargagna við alþjóðlega gerðardóma frá 29. maí 2010 skulu gilda,

              (vii)     gerðardómurinn skal gera það sem í hans valdi stendur til að komast að endanlegri niðurstöðu innan tólf mánaða frá tilnefningu þriðja gerðardómarans sem er í forsæti gerðardómsins, og skal stýra málsmeðferðinni í samræmi við það,

              (viii)     gerðardómurinn skal kveða upp úrskurð sinn í samræmi við ensk lög (en ekki, til að fyrirbyggja vafa, sem amiable compositeur 1 eða ex aequo et bono 2 ), og

              (ix)     allir samningsaðilar, gerðardómsmenn, aðalframkvæmdastjórinn og alþjóðaskrifstofa Alþjóðagerðardómsins skulu virða trúnaðarkvaðir um að yfir standi gerðardómsmeðferð og hverjar þær upplýsingar sem þeim berast í tengslum við slíka málsmeðferð.

    Grein 9.11 Fallið frá friðhelgisréttindum (e. Waiver of Sovereign Immunity). Hver endurgreiðsluaðili fellst almennt á hvers konar stefnubirtingu í tengslum við ágreining sem upp kann að koma og að veittar séu hvers kyns úrbætur eða úrræði í því tilliti, þ.m.t. með aðför eða fullnustu í hvaða eignum hans sem er (óháð notum þeirra eða ætluðum notum) samkvæmt hvers kyns úrskurði eða dómi (þ.m.t. til að taka af allan vafa, úrskurður gerðardóms skv. 9. mgr. 9. gr.). Njóti einhver endurgreiðsluaðili eða eignir hans friðhelgi, í hvaða lögsögu sem er, gagnvart birtingu stefnu eða annarra gagna er varða hvers konar ágreining, eða friðhelgi frá lögsögu, málshöfðun, dómsuppkvaðningu, fullnustu, fjárnámi (hvort heldur er án undanfarandi dóms, til stuðnings við fullnustu eða á annan hátt) eða öðrum lagalegum úrræðum, er hér með fallið frá þeim rétti með óafturkræfum hætti að því ýtrasta marki sem heimilt er samkvæmt lögum viðkomandi lögsögu. Hver endurgreiðsluaðili samþykkir einnig með óafturkræfum hætti að byggja ekki á slíkri friðhelgi til varnar sjálfum sér eða eignum sínum. Samningsaðilar staðfesta að málsgrein þessi nær ekki til eigna íslenska ríkisins sem njóta friðhelgi samkvæmt Vínarsamningnum um stjórnmálasamband, eigna íslenska ríkisins á Íslandi sem nauðsynlegar eru til þess að Ísland geti komið fram sem fullvalda ríki eða eigna Seðlabanka Íslands og (ii) engu í samningi þessum eða öðrum viðkomandi skjölum er ætlað, eða mun leiða til þess, að taka stjórn af Íslandi á náttúruauðlindum sínum eða réttinum til að kveða á um nýtingu þeirra eða skipan eignarhalds á þeim.

    Grein 9.12 Sjálfstæði einstakra ákvæða. Reynist eitthvert ákvæði samnings þessa eða skjals sem krafist er samkvæmt honum ólögmætt eða óvirkt í einhverri lögsögu skal það ekki á neinn hátt hafa áhrif á eða skerða lögmæti eða virkni eftirstandandi ákvæða samnings þessa eða slíks annars skjals í viðkomandi lögsögu eða slíks ákvæðis í neinni annarri lögsögu.

[Undirskriftir fylgja.]


    ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa samningsaðilar beitt sér fyrir undirritun samnings þessa með tilskildum hætti á þeim degi og ári sem í upphafi greinir.

    Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta

    Fulltrúi:

    Nafn: [*] Starfsheiti: [*]


    Ísland

    Fulltrúi:

    Nafn: [*] Starfsheiti: [*]


    Hollenska ríkið

    Fulltrúi:

    Nafn: [*]

    Starfsheiti: [*]
Fylgiskjal I
með endurgreiðslusamningi

    „ Viðaukasamningur“: viðaukasamningur milli samningsaðila sem dagsettur er 19. október 2009.

    „ Samþykkt kröfufjárhæð“ merkir á hverjum tíma fjárhæð framseldrar kröfu (í íslenskum krónum) sem hefur verið samþykkt af slitastjórn Landsbankans (eða lögbærum dómstólum og er slík ákvörðun dómstóls rétthærri og bindandi ef hún er önnur en slitastjórnar) sem lögmæt krafa í bú Landsbankans skv. 112 gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. ( Lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.)

    „ Samþykkt vaxtafjárhæð“ fjárhæð vaxta sem eru hluti af samþykktri kröfufjárhæð á hverjum tíma.

    „ Framseld krafa“ sameiginlega, kröfur gagnvart Landsbankanum sem framseldar hafa verið, eða búist er við að verði framseldar, til Tryggingarsjóðs af FSCS samkvæmt framsalssamningi FSCS.

    „ Lög nr. 98/1999“: íslensk lög nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, miðað við 11. október 2008.

    „ Samningur“: hefur þá merkingu sem gefin er í innganginum að samningi þessum.

    „ Lög sem gilda“: hvers kyns gildandi sett lög og önnur lög, reglugerðir, bráðabirgðalög, reglur, dómar, fordæmisréttur, fyrirmæli, úrskurðir, samþykki, heimildir, sérleyfi, umboð, leyfi, samningar, tilskipanir, leiðbeiningar, stefnumarkanir, skilyrði eða aðrar takmarkanir stjórnvalda eða sambærilegar ákvarðanir eða úrskurðir af hálfu stjórnvalds (eða hvers kyns túlkun eða framkvæmd þeirra), hvort heldur sem slík lög eru í gildi á dagsetningu samnings þessa (nema hið gagnstæða leiði af samningi þessum eða öðru viðkomandi skjali) eða taka gildi síðar.

    „ Dráttarvextir“: ársvextir á viðkomandi ákvörðunartíma sem nema samtölu (a) vaxtastigs fyrra tímabils að viðbættum 0,30 prósentustigum á tímabilinu frá dagsetningu þessa samnings til upphafsdags seinna tímabils, og (b) ársvextir sem nema viðmiðunarvöxtum seinna tímabils að viðbættum 0,50 prósentustigum á tímabilinu frá og með upphafsdegi seinna tímabils.

    „ Virkur dagur“: hver sá dagur (annar en laugardagur eða sunnudagur) þegar viðskiptabönkum er ekki heimilt eða skylt að loka í Reykjavík (á Íslandi) eða í Amsterdam (í Hollandi).

    „ Upphafsdagur“: 5. júní 2009.

    „ Fjárhæð í vanskilum“: hver sú fjárhæð sem gjaldfallin er hjá endurgreiðsluaðila en er áfram ógreidd, andstætt skilmálum samnings þessa.

    „ Tilskipun 94/19/EB“: tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EB frá 30. maí 1994 um innlánatryggingakerfi, miðað við 11. október 2008 (nema annað sé tekið fram).

    „ DNB“: Seðlabanki Hollands (De Nederlandsche Bank N.V.).

    „ Framsalssamningur DNB“: framsalssamningur sem Tryggingarsjóður og Seðlabanki Hollands munu gera á því formi sem samningsaðilar stóðu að fyrir dagsetningu þessa samnings og sem samrýmist 2. mgr. 6. gr.

    „ Pari Passu-samningur DNB“: Pari Passu-samningur sem Tryggingarsjóður og Seðlabanki Hollands munu gera á því formi sem samningsaðilar stóðu að fyrir dagsetningu þessa samnings og sem samrýmist 2. mgr. 6. gr.

    „ Evra“ eða „ EUR“: núverandi lögeyrir í aðildarríkjum Evrópusambandsins, sem taka upp eða hafa tekið upp evruna sem löglegan gjaldmiðil sinn skv. lögum Evrópubandalagsins um efnahags- og myntbandalag.

    „ Umframgreiðsla“: greiðsla umfram 20.887 evrur vegna kröfu eða krafna innstæðueiganda hjá Landsbankanum (að frátöldum, til að taka af allan vafa, fyrrum innstæðueiganda hjá Landsbankanum sem varð innstæðueigandi hjá NBI), annars en innstæðueiganda hjá Landsbankanum í Amsterdam.

    „ Vaxtastig fyrra tímabils“: 3,0 prósent á ári.

    „ FSCS“: „FSCS“ eins og það hugtak er skilgreint í breska útgreiðslu-, endurgreiðslu- og skaðleysissamningnum.

    „ Framsalssamningur FSCS“: „Framsalssamningur FSCS“ eins og það hugtak er skilgreint í breska útgreiðslu-, endurgreiðslu- og skaðleysissamningnum.

    „ Stjórnvald“: hver sú þjóð eða ríkisstjórn, ríki eða sveitarfélag, hvers kyns fjölþjóðastofnun eða sambærileg stofnun eða hvers kyns önnur stjórnardeild, stjórnarstofnun eða pólitíska undirdeild slíkra stofnana og hver sá aðili annar sem fer með framkvæmdavald, löggjafarvald, dómsvald, peningavald, eftirlitshlutverk eða stjórnsýsluhlutverk á vegum stjórnvalda.

    „ Tryggingarsjóður“: hefur þá merkingu sem gefin er í innganginum að samningi þessum.

    „ Hlutdeild Tryggingarsjóðs úr búinu“: (i) sérhver fjárhæð eftir því sem við á sem Tryggingarsjóður hefur tekið á móti að því er varðar kröfur innstæðueigenda Landsbankans – hvort sem krafan er enn á þeirra hendi eða ekki – eða á annan hátt í tengslum við greiðsluþrot Landsbankans, og (ii) sérhver fjárhæð eftir því sem við á sem Seðlabanki Hollands hefur móttekið og sem Seðlabanka Hollands ber að greiða hollenska ríkinu í samræmi við 4. mgr. 2. gr. framsalssamnings Seðlabanka Hollands, og (iii) sérhver fjárhæð eftir því sem við á sem FSCS hefur móttekið og FSCS ber að greiða til umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins í samræmi við 5. mgr. 2. gr. framsalssamnings FSCS.

    „ Umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins“: umboðsmenn fjármálaráðuneytis Hins sameinaða konungsríkis Stóra-Bretlands og Norður-Írlands.

    „ Ísland“: hefur þá merkingu sem gefin er í innganginum að samningi þessum.

    „ Vaxtafjármunir“ merkir á hverjum tíma fjárhæð (í evrum) sem jafngildir hluta af hlutdeild Tryggingarsjóðs úr búinu á þeim tíma, sem reiknuð er með því að margfalda upphæð hlutdeildar Tryggingarsjóðs á hverjum tíma með hlutfalli þar sem teljarinn er samþykkta vaxtafjárhæðin og nefnarinn er samþykkta kröfufjárhæðin í hvoru tilviki á þeim tíma.

    „ Jafnvirðisfjárhæð (í íslenskum krónum)“: að því er varðar fjárhæð í evrum eða sterlingspundum á útreikningsdegi, jafngildi slíkrar upphæðar í krónum, reiknað á meðalgengi eins og það er birt af Seðlabanka Íslands (eða birti Seðlabanki Íslands ekki slíka gengisskráningu, daggengi frá aðila sem íslenska ríkið og hollenska ríkið koma sér saman um á sanngjarnan hátt, eða ef íslenska ríkið og hollenska ríkið koma sér ekki saman um slíkt gengi fyrir þá dagsetningu þegar ákvarða skal viðkomandi jafngildi ISK, eða eins og það er ákvarðað með gerðardómi skv. 10. mgr. 9. gr.) fyrir tímabilið einn mánuð sem lýkur á deginum fyrir viðkomandi dag.

    „ Króna“ eða „ ISK“: núverandi lögeyrir á Íslandi.

    „ Landsbanki“: Landsbanki Íslands hf., fjármálafyrirtæki sem stofnað er samkvæmt íslenskum lögum.

    „ Landsbankinn í Amsterdam“: útibú Landsbankans í Amsterdam.

    „ Innstæðueigandi hjá Landsbankanum í Amsterdam“: aðili sem lagt hefur fjármuni inn á innlánsreikning eða á með öðrum hætti innstæðu hjá Landsbankanum í Amsterdam og á samsvarandi kröfu á hendur Landsbankanum sem Tryggingarsjóður hefur ábyrgst samkvæmt lögum nr. 98/1999.

    „ Innstæðueigandi hjá Landsbankanum“: aðili sem lagt hefur fjármuni inn á innlánsreikning eða á með öðrum hætti innstæðu hjá Landsbankanum og á samsvarandi kröfu á hendur Landsbankanum sem Tryggingarsjóður hefur ábyrgst samkvæmt lögum nr. 98/1999 (þ.m.t., til að taka af allan vafa, sérhver innstæðueigandi hjá Landsbankanum í Amsterdam).

    „ Veð“: hver kyns veðsetning, ábyrgð, varsla þriðja aðila, kvöð eða önnur trygging.

    „ Lánssamningur“: lánssamningur dagsettur 5. júní 2009 milli samningsaðila.

    „ Tilvik sem leiðir til uppgreiðsluskyldu“: atburður eða kringumstæður sem skilgreindar eru sem slíkar í b-lið 5. mgr. 3. gr.

    „ Veruleg neikvæð áhrif sem tengjast uppgreiðsluskyldu“: hvers kyns áhrif sem skerða getu einhvers endurgreiðsluaðila til þess að efna greiðsluskyldu sína eða aðrar skyldur sem þýðingu hafa samkvæmt samningi þessum eða öðru viðkomandi skjali.

    „ Heildarheimtur á vaxtahluta hollenska ríkisins“: samtala allra fjárhæða á hverjum tíma sem eru tilkomnar í samræmi við 1. undirlið B í ii-lið a-liðar 5. mgr. 3. gr. eða fyrir þann tíma.

    „ Vaxtahluti hollenska ríkisins“: hlutfall vaxtafjármuna á hverjum tíma sem er reiknað með því að margfalda vaxtafjármunina með hlutfalli sem ræðst af endurheimtuhlutfallinu á þeim tíma og er ákvarðað í samræmi við eftirfarandi töflu:

Endurheimtuhlutfall Vaxtahluti hollenska ríkisins
86 eða minna Núll
≥86 . 87 0.05
≥87 . 88 0.10
≥88 . 89 0.15
≥90 . 91 0.20
≥91 . 92 0.25
≥92 . 93 0.35
≥93 . 94 0.45
≥94 . 95 0.55
≥95 . 96 0.65
≥96 . 97 0.75
≥97 . 98 0.85
≥98 . 99 0.95
≥99 . 100 1

    „ Uppgjörsreikningur hollenska ríkisins“: reikningur nr. 600113019 (BIC: MIFINL2G; IBAN: NL10FLOR0600113019) hjá Seðlabanka Hollands í nafni hollenska ríkisins.

    „ Annar tryggingarsjóður“: hvers konar innlánatryggingakerfi sem komið er á fót og er opinberlega viðurkennt á Íslandi samkvæmt tilskipun 94/19/EB (þ.m.t. samkvæmt hvers konar breytingu á henni, endurútgáfu hennar eða tilskipun sem kemur í hennar stað), annað en Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta.

    „ Samningsaðilar“: hefur þá merkingu sem gefin er í innganginum að samningi þessum.

    „ Greiðsludagur“: 1. janúar 2011 og sérhvern 1. apríl, 1. júlí, 1. september og 1. janúar eftir 1. janúar 2011.

    „ Útgreiðslukostnaður“: kostnaður sem hollenska ríkið stofnar til við útgreiðslu trygginga til innstæðueigenda Landsbankans í Amsterdam að því er varðar kröfur þeirra á hendur Landsbankanum eða Tryggingarsjóði samkvæmt lögum nr. 89/1999 eins og um getur í forsendum þessa samnings og er að upphæð 7.000.000 (sjö milljón) evrur.

    „ Reglur Alþjóðagerðardómsins“: reglur Alþjóðagerðardómsins um gerðardóm í deilumálum milli tveggja aðila þar sem aðeins annar deiluaðilinn er ríki og taka gildi frá og með dagsetningu samnings þessa.

    „ Aðili“: einstaklingur, lögaðili, félag, frjáls samtök, sameignarfélag, hlutafélag, samrekstur, sjóður, óskráð stofnun, stjórnvald eða önnur persóna af hvaða toga sem er.

    „ Hlutfallslegur réttur“: á hverjum tíma, sá hluti sem reiknaður er með því að deila í (a) (i) í tilviki hollenska ríkisins, að fjárhæð 1.134.680.211,10 í sterlingspundum [**] (sem samsvarar fjárhæð endurgreiðslufjárhæðarinnar í sterlingspundum á dagsetningu samnings þessa umreiknuð í sterlingspund á genginu [1,1653 ] evrur á móti [1,00] sterlingspundum), eða (ii) í tilviki umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins heildarupphæð allra útgreiðslna eins og þær eru skilgreindar í útgreiðslu-, endurgreiðslu- og skaðleysissamningi við Bretland sem inntar hafa verið af hendi fram að þeim tíma skv. útgreiðslu-, endurgreiðslu- og skaðleysissamningi við Bretland (sem samningsaðilarnir meta að hafi numið 2.254.417.417.851,51 sterlingspundum þann 24. nóvember 2010) , með (b) samanlögðum fjárhæðum sem um getur í lið (a) að ofan.

    „ Eign“ einhvers aðila: hvers kyns eign, réttindi eða tekjur, eða hlutdeild slíks aðila í þeim.

    „ Ársfjórðungslegar afborganir“ ársfjórðungslegar afborganir sem greiða skal með endurgreiðslufjárhæð seinna tímabils en fjárhæð þeirra og fjöldi er ákvarðaður í samræmi við 1. mgr. 3. gr. (með fyrirvara um önnur ákvæði þessa samnings).

    „ Endurheimtuhlutfall“: merkir á hverjum tíma hluta, settan fram sem hundraðshluta, af samþykktu kröfufjárhæðinni samkvæmt lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. (eða samkvæmt íslenskum lögum) sem hefur verið greiddur, eða telst greiddur, af slitastjórn Landsbankans, til greiðslu á samþykktu kröfufjárhæðinni á þeim tíma.

    „ Endurgreiðslufjárhæð“: sú fjárhæð sem til endurgreiðslu kemur af hálfu Tryggingarsjóðs til Hollands samkvæmt samningi þessum (eða útistandandi hluti hennar hverju sinni) sem á samningsdegi samnings þessa svarar til EUR 1.322.242.850 (einn milljarður þrjú hundruð tuttugu og tvær milljónir tvö hundruð fjörtíu og tvö þúsund átta hundruð og fimmtíu evrur) og sem kann að lækka samkvæmt ákvæðum samnings þessa.

    „ Endurgreiðsluaðilar“: sameiginlega, Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta og Ísland.

    „ Greiðsludagur endurgreiðslu“ sérhver greiðsludagur eftir upphafsdag seinna tímabils.

    „ Viðkomandi skjöl“: sameiginlega, þessi samningur, framsalssamningur DNB, Pari Passu- samningur DNB og sérhver annar samningur eða skjal sem samningsaðilar tilgreina sem viðkomandi skjal.

    „ Viðkomandi fjármögnunarráðstöfun“: hver sá samningur, ráðstöfun eða milliríkjasamningur sem einhver endurgreiðsluaðili stendur að með einhverjum fjármögnunaraðila (þ.m.t. sjálfstæðri alþjóðastofnun, einkaaðila eða öðrum aðila) í því skyni að fjármagna kröfur einhverra innstæðueigenda í íslenskum banka, enda hafi slíkar kröfur myndast fyrir dagsetningu samnings þessa, en að frátöldum (a) breska útgreiðslu- endurgreiðslu- og skaðleysissamningnum og (b) hvers kyns samningi, ráðstöfun eða milliríkjasamningi sem gerður er í því skyni að fjármagna eða endurfjármagna (i) einhvern hluta endurgreiðslufjárhæðarinnar eða trygginga eða annarra fjárhæða sem einhverjum endurgreiðsluaðila ber að greiða til Hollands skv. samningi þessum eða einhverju viðkomandi skjali (eða samningi eða skjali sem kemur í þeirra stað), eða (ii) fjárhæð sem til greiðslu kemur að hálfu endurgreiðsluaðila samkvæmt breska útgreiðslu- endurgreiðslu- og skaðleysissamningnum eða „viðkomandi skjölum“ eins og þau eru skilgreind í breska útgreiðslu- endurgreiðslu- og skaðleysissamningnum (eða samningi eða skjali sem kemur í þeirra stað).

    „ Viðkomandi heildartekjur ríkisins“ að því er varðar greiðsludag endurgreiðslu sem verður á tilteknu tímabili sem hefst 1. júlí ár hvert og lýkur 30. júní næsta ár á eftir („viðkomandi tímabil“) a) „heildartekjur íslenska ríkisins“ fyrir almanaksár það sem næst fer á undan þessu viðkomandi tímabili samkvæmt birtum upplýsingum Hagstofu Íslands eða b) ef heildartekjur íslenskra ríkisins i) hafa ekki verið birtar eða ii) eru innan við 26 af hundraði af nýjasta mati á vergri landsframleiðslu á Íslandi fyrir almanaksár það sem næst fer á undan þessu viðkomandi tímabili samkvæmt nýjustu skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um efnahagshorfur í heiminum (World Economic Outlook) („viðkomandi verg landsframleiðsla á Íslandi“), fjárhæð sem samsvarar 26 af hundraði af viðkomandi vergri landsframleiðslu á Íslandi (eða, ef veruleg breyting verður á meginþáttum í heildartekjum íslenska ríkisins eða vergri landsframleiðslu eða slík tala er ekki birt af viðkomandi stofnun, sambærilegri tölu (eða sambærilegum tölum), fyrir heildartekjur ríkisins eða viðkomandi verga landsframleiðslu á Íslandi sem Ísland og Holland koma sér saman um á sanngjarnan hátt eða, ef Ísland og Holland komast ekki að samkomulagi um þessa tölu (tölur) fyrir greiðsludag endurgreiðslunnar, sem er ákvörðuð með gerðardómi í samræmi við 10. mgr. 9. gr.).

    „ Viðmiðunarvextir seinna tímabils“: viðmiðunarvextir evru eins og þeir gilda 15. júní 2016 og eru birtir hjá OECD (CIRR, Commercial Interest Reference Rate fyrir evru) (eða sambærilegir vextir sem Ísland og Holland komast að sanngjörnu samkomulagi um ef OECD birtir ekki vextina, eða ef Ísland og Holland komast ekki að samkomulagi um sambærilega vexti fyrir upphafsdag seinna tímabils eins og ákvarðað verður með gerðardómi í samræmi við 10. mgr. 9. gr.) fyrir lán til lengri lánstíma en áætlað greiðslutímabil vegna endurgreiðslufjárhæðar seinna tímabils eða a) vextir fyrir lán sem er með skemmstan lánstíma sem er lengri en áætlað greiðslutímabil ef vextir eru mismunandi fyrir lán með lengri lánstíma en áætlað greiðslutímabil fyrir endurgreiðslufjárhæð seinna tímabils og b) vextir fyrir lán með lánstíma sem fer næst því að vera áætlað greiðslutímabil ef ekki eru fáanlegir vextir fyrir lán með lengri lánstíma en áætlaða greiðslutímabilið fyrir endurgreiðslufjárhæð seinna tímabils og skal „ áætlaða greiðslutímabilið fyrir endurgreiðslufjárhæð seinna tímabils“ vera tímabilið frá upphafsdegi seinna tímabils og fram yfir greiðsludag endurgreiðslu þegar síðasta ársfjórðungslega afborgunin kemur á gjalddaga (eins og ákvarðað er í samræmi við b- og c-lið 1. mgr. 3. gr.

    „ Endurgreiðslufjárhæð seinna tímabils“: endurgreiðslufjárhæð eins og hún stendur í dagslok þess dags sem kemur næst á undan upphafsdegi seinna tímabils (að undanskilinni þó hverjum hluta endurgreiðslufjárhæðarinnar sem er áður gjaldfallinn en er enn ógreidd í trássi við skilmála þessa samnings við upphafsdag seinna tímabils.

    „ Upphafsdagur seinna tímabils“: 1. júlí 2016.

    „ Vangreidd fjárhæð“: merkir hverju sinni (a) tilgreinda fjárhæð sem til greiðslu kemur af hálfu Tryggingarsjóðs til Hollands samkvæmt þessum endurgreiðslusamningi eða öðru viðkomandi skjali, sem ekki hefur verið greidd og er áfram ógreidd að fullu á gjalddaga á þeim stað og í þeim gjaldmiðli sem greiða ber, og (b) ef einhver skuldbinding Tryggingarsjóðs samkvæmt þessum endurgreiðslusamningi eða öðrum viðkomandi skjölum reynist óaðfararhæf, ógild eða ólögmæt, þá fjárhæð sem jafngildir samanlögðum fjárhæðum sem Hollandi bæri ella úr hendi Tryggingarsjóðs ef skuldbindingin hefði verið eða hefði áfram haldist aðfararhæf, gild og lögmæt.

    „ Fullveldi“: fullvalda þjóð eða ríkisstjórn fullvalda þjóðar.

    „ Ríkisskuldir“: hvers konar lán, skuldir eða aðrar skuldbindingar sem þegar hefur verið stofnað til eða kann að verða stofnað til í framtíðinni, sem: a) skal greiða aðilum búsettum utan Íslands eða, ef um er að ræða skuldabréf, skuldaskjal, skuldaviðurkenningar, verðbréfainneign eða önnur verðbréf, þar sem a.m.k. 25 hundraðshlutar af heildarhöfuðstól eru boðin eða voru upphaflega boðin aðilum búsettum utan Íslands, eða b) eru tilgreindar í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum eða, ef þær eru tilgreindar í íslenskum krónum, eru samkvæmt skilmálum þar sem greiðsla höfuðstóls, aukaframlags (e. premium) (ef um það er að ræða) eða vaxta getur verið eða skal vera í öðrum gjaldmiðli eða miðast við annan gjaldmiðil, þ.m.t., til að taka af allan vafa: i. hvers konar lántökur, skuldir eða aðrar skuldbindingar gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og ii. hvers konar lántökur, skuldir eða aðrar skuldbindingar samkvæmt útgreiðslu-, endurgreiðslu- og skaðleysissamningnum við Bretland.

    „ Sterlingspund“ eða „ GBP“: núverandi lögeyrir í Hinu sameinaða konungsríki Stóra-Bretlands og Norður-Írlands.

    „ Útgreiðslu-, endurgreiðslu- og skaðleysissamningur við Bretland“: endurgreiðslusamningurinn, sem gerður hefur verið eða gerður verður á sama degi eða um svipað leyti og samningur þessi, milli Tryggingarsjóðs, Íslands og umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins.

    „ Ársfjórðungsleg afborgun til Bretlands“: „ársfjórðungsleg afborgun“ eins og það hugtak er skilgreint í breska útgreiðslu-, endurgreiðslu- og skaðleysissamningnum.

    „ Endurgreiðslufjárhæð til Bretlands“ merkir hverju sinni „endurgreiðslufjárhæð“ eins og það hugtak er skilgreint í breska útgreiðslu-, endurgreiðslu- og skaðleysissamningnum.

    „ Endurgreiðslufjárhæð til Bretlands á seinna tímabili“: „endurgreiðslufjárhæð á seinna tímabili“ eins og það hugtak er skilgreint í breska útgreiðslu-, endurgreiðslu- og skaðleysissamningnum.

    „ Uppgjörssamningur við Bretland“: „uppgjörssamningur“ eins og það hugtak er skilgreint í breska útgreiðslu-, endurgreiðslu- og skaðleysissamningnum.

    „ Skattar“: allir núgildandi og síðari tekjuskattar, stimpilgjöld, skráningargjöld og aðrir skattar, álagningar og álögur, staðgreiðsluskattar og gjöld, hvaða nafni sem nefnast, og allir vextir, dráttarvextir og annað sem við kann að bætast eða á að leggjast vegna vangreiðslu þeirra, hvort sem slíkir skattar eru nú eða síðar reiknaðir, lagðir á eða innheimtir af hvaða stjórnvaldi sem er í tengslum við samning þennan eða önnur viðkomandi skjöl, greiðslur samkvæmt samningi þessum eða öðru viðkomandi skjali eða vegna þinglýsingar, lögbókunar eða annarrar opinberrar skráningar þeirra.

    „ Holland“: hefur þá merkingu sem gefin er í innganginum að samningi þessum.
Fylgiskjal III.


Skýringar við samninga Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta og
íslenska ríkisins annars vegar og Hollands og Bretlands hins vegar.


    Hér á eftir verður farið yfir helstu atriði þeirra samningsdraga sem árituð hafa verið um uppgjör lágmarkstryggingar vegna innstæðna á svokölluðum Icesave-reikningum í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi.
    Fyrir liggja drög að útgreiðslu-, endurgreiðslu- og skaðleysissamningum gagnvart Bretlandi og endurgreiðslu- og skaðleysissamningum gagnvart Hollandi sem koma að öllu leyti í stað lánssamninganna frá 5. júní 2009 og viðaukasamninganna frá 19. október s.á. Drög að samningunum hafa verið árituð með upphafsstöfum samningamanna ríkjanna þriggja auk stjórnarformanns tryggingarsjóðsins til vitnis um niðurstöðu samningaviðræðnanna. Samningarnir verða hins vegar ekki staðfestir með undirritun fyrr en samþykki Alþingis liggur fyrir.
    Samningarnir eru að mörgu leyti með öðru sniði en fyrri lánssamningar. Þeir gera ráð fyrir eftirfarandi fyrirkomulagi:
     1.      Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) ábyrgist breskum og hollenskum stjórnvöldum þær fjárhæðir sem þau hafa lagt út vegna uppgjörs lágmarkstryggingar við innstæðueigendur Landsbankans í Bretlandi og Hollandi.
     2.      TIF fær framseldar framangreindar kröfur Breta og Hollendinga í bú bankans og annast um að innheimta þær. Gert er ráð fyrir að tryggingarsjóðurinn endurgreiði fjárhæðina jöfnum höndum eftir því sem úthlutað er úr búinu.
     3.      Fram til júnímánaðar árið 2016 verða greiddir vextir af þeim höfuðstól sem útborganir úr búi Landsbankans hafa ekki gert upp á hverjum tíma. Ekki verður greitt upp í höfuðstól með öðru en því sem fæst greitt við slitameðferð Landsbanka Íslands.
     4.      Gert er ráð fyrir því að í júní 2016 verði búið að úthluta stærstum hluta af eignum bús Landsbanka Íslands til kröfuhafa. Við það tímamark skuldbinda TIF og íslenska ríkið sig til að standa undir eftirstöðvum með ákveðnum fyrirvörum og eftir nánar umsömdum viðmiðunum.
    Umsamin kjör taka mið af eðli þess máls sem um ræðir. Fyrirvarar og ýmis varúðarákvæði stefna að því að sá hluti skuldbindingarinnar, sem fjármagna kann að þurfa úr ríkissjóði, verði ávallt innan hóflegra marka.
    Hér á eftir verður leitast við að skýra meginefni samninganna lið fyrir lið. Staldrað verður stutt við þau atriði sem teljast hefðbundin eða skýra sig sjálf, en lengra máli varið í aðalatriði málsins og þau ákvæði sem torskildari má telja.

Aðilar að samningunum
    Aðild að samningunum eiga Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta og íslenska ríkið annars vegar og breska og hollenska ríkið hins vegar. Í texta samninganna er oft vísað til hinna fyrrnefndu sem endurgreiðsluaðila (e. Reimbursement Parties).

Tilefni samninganna – Recitals
    Í inngangskafla er vikið að tilefni og tilgangi samninganna.
    Í upphafi inngangs að samningunum er áréttað að þegar þeir taki gildi komi þeir í stað áður gerðra lánssamninga og viðaukasamninga um sama úrlausnarefni.
    Síðan segir efnislega að íslenski tryggingarsjóðurinn ábyrgist kröfur innstæðueigenda í útibúum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi gagnvart Landsbankanum í samræmi við lög nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, sem leiddu tilskipun 94/19/EB í íslenskan rétt. Ábyrgð sjóðsins takmarkist við 20.887 evrur vegna hvers innstæðueiganda.
    Hollenski seðlabankinn hefur þegar greitt trygginguna til flestallra almennra innstæðueigenda gegn því að þeir framselji bankanum kröfur sínar. Fram kemur í samningnum við Holland að Seðlabanki Hollands hafi samþykkt að taka yfir kröfur langflestra innstæðueigenda en nokkrum hafi þó verið hafnað að hluta eða öllu leyti. Sum þeirra mála verði leidd til lykta fyrir hollenskum dómstólum. Að svo stöddu sé því óljóst að hve miklu leyti hollensk stjórnvöld kunni að verða dæmd til að greiða jafnframt þessum aðilum trygginguna. Er þar um að ræða félög sem voru með vörslureikninga hjá útibúi Landsbankans í Amsterdam en þau gæta hagsmuna allra þeirra sem þau voru vörsluaðilar fyrir.
    Breski sjóðurinn hefur á sama hátt þegar greitt trygginguna til meiri hluta almennra innstæðueigenda og hafa þeir framselt breska sjóðnum kröfur sínar. Þó hefur ekki nær öllum verið greitt eins og í Hollandi. Sérstakur samningur hefur því verið gerður milli breska og íslenska sjóðsins vegna uppgjörs á kröfum innstæðueigenda sem enn hafa ekki verið greiddar út. Samkvæmt honum mun íslenski sjóðurinn greiða breska sjóðnum fjárhæð þannig að hann geti greitt þeim innstæðueigendum sem enn hafa ekki fengið greidda lágmarkstryggingu innstæðna sinna, þó að ákveðinni hámarksfjárhæð.
    Báðir samningarnir byggjast á því að Bretar annars vegar og Hollendingar hins vegar hafi greitt út eða muni greiða út lágmarkstryggingu að hámarki 20.887 evrur vegna hvers almenns innstæðueiganda fyrir hönd íslenska sjóðsins. Með samningunum tekur íslenski tryggingarsjóðurinn yfir þessar skuldbindingar og fær á móti á ákveðnu tímamarki framseldar til sín samsvarandi kröfur breskra og hollenskra sparifjáreigenda í bú Landsbankans. Um það verða gerðir sérstakir framsalssamningar (e. Assignment Agreements) milli íslenska tryggingarsjóðsins og hollenska seðlabankans (DNB) annars vegar og breska tryggingarsjóðsins (FSCS) hins vegar. Íslenski sjóðurinn mun því fá að hámarki kröfu að fjárhæð 20.887 evrur fyrir hvern innstæðueiganda, auk vaxta fram til 22. apríl 2009, 1 úr búi Landsbankans.
    Innstæður umfram 20.887 evrur eru einnig kröfur í bú Landsbankans (svokallaðar „top- up“ kröfur). Bretar greiddu almennum innstæðueigendum allar þessar innstæður að fullu og Hollendingar upp að 100 þúsund evrum og hafa krafist þess að þær kröfur njóti forgangsréttar við skiptin. Samningar þessir ná ekki til þessara umframgreiðslna Breta og Hollendinga, heldur bera þarlendir tryggingarsjóðir kostnað vegna þeirra umfram það sem endurheimtist úr búi Landsbankans. Vegna þeirra eiga þeir kröfu eins og aðrir forgangskröfuhafar í bú Landsbankans og bera sjálfir áhættuna af því að kröfur þeirra fáist að fullu greiddar þaðan. Þarna er um umtalsverðar fjárhæðir að ræða, sbr. eftirfarandi töflu:

Heildarfjárhæð
innstæðna
Innstæður undir
20.887 evrum 2
Fjöldi
innstæðueigenda
Holland 1,674,285,671 . 1.329.242.850 . 114,136
Bretland 4,526,988,847 £ 2,350,000,000 £ 229,170

Pari Passu – Jafnræði aðila
    Samkvæmt sérstökum samningum milli Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta annars vegar og breskra og hollenskra stjórnvalda hins vegar njóta aðilar hans jafnræðis þegar kemur að skiptingu úthlutunar úr búi Landsbankans. Þeir fá því allir greitt í jöfnum hlutföllum upp í þessar kröfur. Þar er þó einnig gert ráð fyrir að íslenski tryggingarsjóðurinn geti látið reyna á hvort kröfur sjóðsins vegna greiðslu lágmarkstryggingar hafi sérstakan forgang umfram kröfur Bretlands og Hollands vegna umframgreiðslna. Komist íslenskur dómstóll að þeirri niðurstöðu að svo sé og dómur hans er ekki í andstöðu við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins á því, hvaða úrlausn málið eigi að fá, tekur ákvæði þessara samninga um hlutfallslega jafna skiptingu hverrar kröfu sjálfkrafa breytingum í samræmi við þá niðurstöðu. Sama á við ef slitastjórn tekur ákvörðun um að veita kröfum íslenska tryggingarsjóðsins sérstakan forgang og ákvörðun hennar þar að lútandi er ekki skotið til dómstóla.

Uppbygging samninganna
    
Uppbygging samninganna er alveg sambærileg að öðru leyti en því að í samningnum við Bretland er í 2. gr. mælt fyrir um fjárhæð þá sem frátekin er til að mæta kröfum þeirra sem enn hefur ekki verið greidd út lágmarkstryggingin.
    Til glöggvunar fer hér á eftir yfirlit um efni og greinaskipan í hvorum samningi um sig:

Efni Bretland Holland
Skilgreiningar 1. gr. 1. gr.
Lánalína 2. gr. x
Endurgreiðsla o.fl. 3. gr. 2. gr.
Fyrirkomulag endurgreiðslu,
vaxta og umsýslukostnaðar

4. gr.

3. gr.
Tap o.fl. 5. gr. 4. gr.
Skaðleysi 6. gr. 5. gr.
Gildistökuskilyrði 7. gr. 6. gr.
Sérstakar yfirlýsingar 8. gr. 7. gr.
Sérstakar skuldbindingar 9. gr. 8. gr.
Önnur ákvæði 10. gr. 9. gr.

1. gr. Skilgreiningar – Definitions
    Í þessari grein eru skýrð og skilgreind ýmis hugtök sem notuð eru í texta samningsins. Skilgreiningarnar eru settar fram í tveimur hlutum. Annars vegar eru ýmis sérgreind hugtök skýrð í sérstöku yfirliti (Schedule I) sem fylgir samningunum. Hins vegar er í greininni sjálfri skilgreint hvað ýmis almenn hugtök í ensku máli eiga að merkja í texta samningsins.

2. gr. Lánalína (í samningnum við Bretland eingöngu)
    Með því að bresk stjórnvöld hafa ekki gert upp allar kröfur um lágmarkstryggingu innstæðna á Icesave-reikningum í Bretlandi er gert ráð fyrir að tryggingarsjóðurinn geti dregið á lánalínu sem komið er á skv. 2. gr. til að greiða þær.

3. gr./2. gr. Endurgreiðslan – Reimbursement
    Í þessari grein er kveðið á um andlag samninganna, þ.e. að endurgreiða stjórnvöldum í Bretlandi og Hollandi þann kostnað sem þau hafa orðið fyrir við fjármögnun og umsýslu á greiðslu innstæðutryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbankans þar. Endurgreiðslufjárhæðin er í tilviki Hollands 1.322.242.850 evrur og til Bretlands að hámarki 2.350.000.000 pund. Fjárhæðin getur lækkað eftir því sem nánar er kveðið á um í samningunum.

4. gr./3. gr. Afborganir af endurgreiðslufjárhæðinni og kostnaði við fjármögnun hennar – Payments of Reimbursement, Compensation and Pay-out Costs
    Í þessu ákvæði er fjallað um tilhögun endurgreiðslu höfuðstóls annars vegar (4.1./3.1.) og hins vegar þess kostnaðar (vaxta) sem fallist er á að greiða Bretum og Hollendingum fyrir að hafa fjármagnað greiðslu lágmarkstryggingarinnar til innstæðueigenda í Bretlandi og Hollandi (4.2./3.2.).
    Til að tryggja að endurgreiðslan verði ekki of þungbær hefur verið samið um tvenns konar fyrirvara á henni. Annars vegar má hámark árlegrar endurgreiðslu ekki fara yfir 5% af heildartekjum ríkisins næstliðið ár eða 1,3% af vergri landsframleiðslu á sama tímabili, eftir því hvor talan er hærri. Hins vegar er tryggt að eitt ár bætist við endurgreiðslutímann fyrir hverja 10 ma.kr. sem eftirstöðvarnar, sem standa þarf skil á miðað við lok júní 2016, kunna að fara yfir 45 ma.kr., en þær skulu annars greiddar upp á einu ári. Þessir fyrirvarar birtast í b- og d-liðum hluta 4.1./3.1.

Hluti 4.1./3.1. Tilhögun endurgreiðslu [eftirstöðva endurgreiðslufjárhæðarinnar] – Payment of the Reimbursement
    Þessi hluti fjallar um tilhögun endurgreiðslu eftirstöðva endurgreiðslufjárhæðarinnar eins og hún stendur 1. júlí 2016 (e. Second Phase Start Date). (a-liður)
    Með fyrirvara um hámark árlegrar endurgreiðslu skv. d-lið tekst TIF á hendur að greiða eftirstöðvarnar ársfjórðungslega á eftirtöldum gjalddögum: 1. janúar, 1. apríl, 1. júlí og 1. september. (b-liður)
    Samkvæmt c-lið er fjöldi gjalddaga og fjárhæð afborgana ákveðin sem hér segir:
(i)        Ef fjárhæð eftirstöðvanna 30. júní 2016 er 45 ma.kr. eða lægri, skal hún greidd á framangreindum fjórum gjalddögum og skiptist jafnt á milli þeirra.
(ii)    Ef fjárhæð eftirstöðvanna 30. júní 2016 er hærri en 45 ma.kr., bætast við fjórir gjalddagar (1 ár) fyrir hverja 10 ma.kr. sem eftirstöðvarnar fara yfir 45 ma.kr. Þó geta þeir aldrei orðið fleiri en 118 eða 30 ár. Fjárhæð eftirstöðvanna skiptist jafnt niður á þann fjölda gjalddaga sem þannig er ákveðinn.
    Samkvæmt d-lið (i) geta afborganir og vaxtagreiðslur skv. b- og c-lið þó að hámarki aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemur 5% af heildartekjum ríkissjóðs á næstliðnu ári eða 1,3% af vergri landsframleiðslu á sama tímabili eftir því hvor fjárhæðin er hærri. Lækki afborgun samkvæmt þessu leggst sú fjárhæð við næstu afborgun skv. d-lið (ii) og safnar vöxtum þar til hún er greidd. Þak skv. d-lið (i) á þó einnig við um allar síðari afborganir, nema hina síðustu. Samkvæmt d-lið (iii) er öll eftirstandandi fjárhæð með vöxtum kræf á síðasta gjalddaga skv. c-lið hluta 3.1.

Hluti 4.2./3.2. Vextir – Compensation
    Í þessum hluta er fjallað um þá vexti sem tryggingarsjóðurinn greiðir af fjármögnun endurgreiðslufjárhæðarinnar. Samkvæmt a-lið eru vaxtatímabilin tvö. Annars vegar frá 1. október 2009 til 1. júlí 2016 sem svarar til 3% á ári gagnvart Hollandi og 3,3% á ári gagnvart Bretlandi og hins vegar frá þeim degi og þar til fjárhæðin er að fullu greidd á CIRR-vöxtum, en þeir eru misháir eftir því á hversu löngum tíma eftirstöðvarnar verða greiddar. Til að taka af allan vafa er í a-lið skýrt tekið fram að engir vextir verða greiddir fyrir tímabilið fram að 1. október 2009.
    Vextirnir eru skv. c-lið kræfir á sömu gjalddögum og afborganir af endurgreiðslufjárhæðinni, en verði dráttur á greiðslum leggst á hana 0,3% álag á fyrra vaxtatímabilinu og 0,5% á hinu síðara þar til greiðslan hefur verið innt af hendi, skv. b-lið.

Hluti 4.3./3.3. Valfrjáls innborgun – Optional Prepayments
    Tryggingarsjóðnum er skv. a-lið heimilt að greiða inn á endurgreiðslufjárhæðina hvenær sem er á gildistíma samningsins með tilkynningu þar um í samræmi við ákvæði samningsins. Slíkar endurgreiðslur eru óafturkræfar.
    Nýti sjóðurinn þessa heimild ber honum skv. b-lið skylda til að greiða samsvarandi fjárhæð (hlutfallslega) til beggja samningsaðila, þ.e. bæði til Bretlands og Hollands.
    Fyrirframgreiðslur skulu skv. c-lið renna til að greiða niður höfuðstól endurgreiðslufjárhæðarinnar. Ef þær koma til eftir 1. júlí 2016 skulu þær dreifast jafnt til að greiða niður allar eftirstandandi afborganir.
    Í öllum tilfellum eru þessar sérstöku endurgreiðslur tryggingarsjóði og/eða íslenska ríkinu að kostnaðarlausu. Þannig er hægt að greiða lánið upp hvenær sem er ef hagstæðari fjármögnun fæst.

Hluti 4.4./3.4. Tilkynningar – Certain Notices
    Tilkynna ber breskum og hollenskum stjórnvöldum um valkvæða fyrirframgreiðslu skv. hluta 3.3. fyrir lok vinnudags þremur virkum dögum áður en greiðslan á að fara fram. Tiltaka skal fjárhæð fyrirframgreiðslunnar og hvaða dag hún fer fram.

Hluti 4.5./3.5. Skyldubundin innborgun með fjármunum úr hlutdeild Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta – Mandatory Prepayment and other payments out of Guarantee Fund Estate Proceeds
    Þessi hluti kveður á um tilhögun endurgreiðslna úr búi Landsbankans. Samkvæmt a-lið (i) þessa ákvæðis skuldbindur tryggingarsjóðurinn sig til þess að láta allar greiðslur úr búi bankans sem varða innstæðutryggingarnar renna til lækkunar endurgreiðslufjárhæðarinnar innan fimm virkra daga frá móttöku þeirra. Greiðslurnar skulu renna hlutfallslega til Bretlands og Hollands samkvæmt fyrirkomulagi sem er útlistað nánar í ákvæðinu. Greiðslur sem berast eftir 1. júlí 2016 skulu ganga til jafnrar lækkunar allra eftirstandandi afborgana.
    Tvær undanþágur eru frá þessari greiðsluskyldu:
          Ef greiðsla til tryggingarsjóðsins úr þrotabúinu er háð því skilyrði að hún sé ekki greidd til þriðja aðila (svo lengi sem slíkt skilyrði er fyrir hendi).
          Ef tryggingarsjóðnum ber skylda til þess að greiða viðkomandi fjárhæð annaðhvort til breskra eða hollenskra stjórnvalda samkvæmt framsalssamningi við hvor þeirra um sig.
    Í a-lið (ii) er að finna sérákvæði um skiptingu áfallinna vaxta á kröfur TIF frá október 2008 til 22. apríl 2009. Ef úthlutun upp í kröfur TIF nemur hærra hlutfalli en 86% munu aðilar skipta með sér þeim fjármunum sem þannig eru til komnir. Í meginatriðum er þar kveðið á um að ef endurheimtur nema 87% þá fái viðsemjendur TIF 5% af andvirði vaxtakrafnanna, þegar endurheimtur nema 88% bætast önnur 5% við og svo koll af kolli allt þar til um fullar endurheimtur er að ræða en þá er gert ráð fyrir að viðsemjendurnir hafi fengið vextina að fullu greidda. Verði endurheimtur 86% eða minni fellur þessi skuldbinding niður.
    Í b-lið ákvæðisins eru tilgreind þau tilvik sem heimila Bretlandi og Hollandi að gjaldfella án frekari fyrirvara alla endurgreiðslufjárhæðina, áunna vexti og aðrar greiðsluskuldbindingar samkvæmt samningunum. Tilvikin sem leitt geta til uppgreiðsluskyldu eru eftirtalin:
(i)    a) Ef greiðslur fara ekki fram á þeim tíma, stað og gjaldmiðli sem samningarnir gera ráð fyrir. Frestur til að beita þessu úrræði eru 5 dagar frá því vanefnd á sér stað, ef ástæður hennar eru tæknilegs eðlis, en 20 dagar ef vanefnd stafar af öðrum orsökum.
    b) Ef á annan hátt er komist hjá greiðslum, þær ógiltar eða lækkaðar.
(ii)    Ef vanskil hafa orðið. Ef hægt er bæta úr þeim má þó fyrst grípa til þeirra úrræða sem b-liður greinir þegar vanskil hafa varað í meira en 20 daga frá því að Bretland eða Holland tilkynnir um vanefnd eða tryggingarsjóðnum eða tilteknum fulltrúum íslenskra stjórnvalda var kunnugt um hana eða mátt vera það.
(iii)    Ef yfirlýsingar sem tryggingarsjóðurinn eða stjórnvöld hafa gefið eða eru talin hafa gefið í sambandi við samningana reynast rangar eða villandi þegar yfirlýsingin var gefin eða er talin hafa verið gefin.
(iv)    Ef kröfur samkvæmt samningunum hætta að njóta a.m.k. sömu rétthæðar og aðrar kröfur sem eru til eða kunna að stofnast á hendur tryggingarsjóðnum eða stjórnvöldum, að undanþegnum kröfum sem eru rétthærri samkvæmt þeim lögum sem þegar eru í gildi við undirritun samningsins.
(v)    Ef einhverjum ákvæðum samninganna er frestað, þau eru ógilt eða rift eða ef einhver ákvæði hætta að teljast í gildi og skuldbindandi fyrir aðilana. Einnig ef einhver skuldbinding tryggingarsjóðsins eða stjórnvalda reynist ólögleg.
(vi)    Ef tryggingarsjóðurinn er leystur upp eða hann getur ekki greitt skuldir sínar þegar þær falla á gjalddaga, að teknu tilliti til allra mögulegra úrræða, eða hættir að greiða þær vegna fyrirsjáanlegra fjárhagserfiðleika. Þetta á þó ekki við ef annar aðili hefur tekið yfir skuldbindingar sjóðsins áður en til slíks kemur með skilmálum sem Bretland eða Holland fallast á og Ísland hefur staðfest að það standi að fullu við allar skuldbindingar sínar samkvæmt samningunum.
(vii)    Vanefni stjórnvöld greiðslu annarrar skuldar að fjárhæð yfir £ 50.000.000 eða jafngildi þeirrar upphæðar í öðrum gjaldmiðlum.
(viii)    a) Fari tryggingarsjóðurinn eða stjórnvöld ekki að lögum eða reglum með þeim afleiðingum að geta þeirra til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt samkomulaginu skerðist verulega. b) Einnig ef einhver lög sem gera tryggingarsjóðnum eða Íslandi kleift að standa við skuldbindingar sínar eru afturkölluð eða falla úr gildi, eða gerðar verða á þeim breytingar sem hafa verulega neikvæð áhrif á getu Íslands eða tryggingarsjóðsins til að greiða samkvæmt samkomulaginu eða uppfylla aðrar skyldur sínar.
    Samkvæmt c-lið þessa hluta skulu tryggingarsjóðurinn og stjórnvöld tilkynna Bretlandi og Hollandi eins fljótt og hægt er ef þau verða þess áskynja að eitthvert framangreindra tilvika skv. b-lið eigi við og gera grein fyrir til hvaða ráðstafana hafi verið gripið til að bæta úr vanefndinni.

Hluti 4.6./3.6. Umsýslukostnaður – Pay-out Costs
    Í þessum hluta er fjallað um þann kostnað sem fallist hefur verið á að greiða breskum og hollenskum stjórnvöldum fyrir umsýslu með kröfur innstæðueigenda Landsbankans. Í tilviki Hollands nemur hann 7 milljónum evra og í tilviki Bretlands 10 milljónum punda. Í síðara tilvikinu er fjárhæðin tilgreind í framsalssamningnum við breska tryggingarsjóðinn (FSCS).

Hluti 4.7./3.7. Greiðslur – Payments
    Samkvæmt þessu ákvæði skulu afborganir af endurgreiðslufjárhæðinni, vaxtagreiðslur og hvers kyns greiðslur aðrar vera í breskum pundum samkvæmt breska samningnum og evrum samkvæmt hollenska samningnum. Allar greiðslur skulu fara fram án frádráttar, skattlagningar og skuldajöfnunar af nokkru tagi.
    Reynist einhver greiðsla ófullnægjandi (lægri en samningurinn kveður á um) rennur hún fyrst til greiðslu kostnaðar og annarra útgjalda sem tryggingarsjóðurinn eða stjórnvöld eiga að bera samkvæmt ákvæðum samningsins, síðan upp í áfallna vexti og loks inn á höfuðstólinn.

5. gr./4. gr. Tap o.fl. – Losses etc.
    Samkvæmt 1. mgr. þessa ákvæðis skal tryggingarsjóðurinn bæta breskum og hollenskum stjórnvöldum allan þann kostnað sem þau kunna að verða fyrir a) við að umreikna greiðslur í annan gjaldmiðil, b) vegna atvika sem leitt geta til gjaldfellingar allrar endurgreiðslufjárhæðarinnar (skv. 4.5./3.5) eða c) við að framfylgja og gæta réttinda sinna samkvæmt samningunum, annan en þann sem Alþjóðagerðardómstóllinn kann að mæla fyrir um að skuli borinn af Bretum eða Hollendingum.
    Skv. 2. mgr. skulu allar greiðslur samkvæmt samningunum vera gerðar án nokkurs frádráttar eða ábyrgðar vegna skatta, en geri viðeigandi löggjöf ráð fyrir greiðslu skatta af greiðslum munu þær verða hækkaðar sem samsvarar slíkum upphæðum þannig að bresk og hollensk stjórnvöld verði skaðlaus af slíku.
    Samningarnir fela í sér fullt uppgjör á milli samningsaðila skv. 3. mgr. Bretland og Holland eiga því ekki kröfu á frekari greiðslum af hálfu tryggingarsjóðsins og stjórnvalda vegna uppgjörs á innstæðum í þarlendum útibúum Landsbankans en kveðið er á um í samningunum. Jafnframt munu tryggingarsjóðurinn og íslenska ríkið ekki gera kröfur eða hefja málaferli gegn Bretlandi og Hollandi eða þarlendum tryggingarsjóðum vegna (i) útgreiðslna til innstæðueigenda eða (ii) krafna innstæðueigenda sem tryggingarsjóðirnir fallast ekki á og hafa því ekki greitt.

6. gr./5. gr. Skaðleysi – Indemnity

Hluti 6.1./5.1. – Sérstakar yfirlýsingar og skaðleysi – Representation, warranty and indemnity
    Samkvæmt a-lið ábyrgjast stjórnvöld að tryggingarsjóðurinn standi skilvíslega skil á öllum greiðslum, uppfylli allar skuldbindingar samkvæmt endurgreiðslusamningum og sjá til þess að ekkert vanti þar upp á, þ.e.a.s. að eftirstöðvar (e. shortfall) verði engar.
    Samkvæmt b-lið ábyrgjast stjórnvöld að greiða eftirstöðvarnar, verði þær einhverjar, með áföllnum kostnaði sem væri ríkið aðalskuldari þeirra og skuldbinda sig samkvæmt c-lið til að halda breskum og hollenskum stjórnvöldum skaðlausum, ef greiðslufall verður hjá tryggingarsjóðnum eða einhver greiðsla reynist ófullnægjandi.

Hluti 6.2./5.2. Óskilyrtar skuldbindingar – Obligations unconditional
    Hér eru tiltekin nokkur atriði sem geta ekki haft áhrif á ábyrgð íslenska ríkisins og það afsalar sér að bera fyrir sig til að losna undan skuldbindingum samkvæmt samningnum, svo sem umboðsleysi tryggingarsjóðsins, endurskipulagning hans og/eða Landsbankans, breytingar á samningsskjölunum o.fl.

Hluti 6.3./5.3. Lausn undan skuldbindingum samkvæmt samningnum – Discharge only upon Payment in Full
    Ábyrgð ríkisins er samfelld út endurgreiðslutímann og fellur fyrst úr gildi þegar endurgreiðslufjárhæðin hefur verið greidd að fullu. Ef einhver greiðsla samkvæmt samningnum er ófullnægjandi telst hún ekki greidd heldur gjaldfallin.

Hluti 6.4./5.4. Eftirgjöf – Waiver
    Samkvæmt þessu ákvæði afsalar ríkið sér rétti til tilkynninga af ýmsu tagi.

Hluti 6.5./5.5. Aðilaskipti – Subrogation
    Samkvæmt þessu ákvæði getur ríkið ekki uppfyllt skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum með framsali á annars konar réttindum eða kröfum sem það kann að eiga á hendur tryggingarsjóðnum. Allar greiðslur skulu m.ö.o. vera í beinhörðum peningum.

Hluti 6.6./5.6. Viðbótartrygging – Additional security
    Hér er áréttað að yfirlýsingar og skaðleysi samkvæmt þessari grein koma til viðbótar og takmarka ekki á nokkurn hátt rétt hollenskra og breskra stjórnvalda sem leiddur er af öðrum yfirlýsingum, skjölum eða gerningum.

7. gr./6. gr. Gildistökuskilyrði – Conditions Precedent
    Í þessari grein er kveðið á um þau skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt til þess að samningarnir öðlist gildi.

Hluti 7.1./6.1. Gildistökuskilyrði – Conditions Precedent
    Samkvæmt þessum hluta taka samningarnir gildi þegar eftirtalin skilyrði eru uppfyllt:
a)    Þegar Bretlandi og Hollandi hafa borist eftirtalin skjöl í því formi og efni sem þau telja fullnægjandi:
    i)    Staðfestingar frá hvorum hinna viðsemjendanna um sig (Hollandi í tilviki Bretlands og Bretlandi í tilviki Hollands) um að öll skilyrði fyrir gildistöku beggja samninga séu uppfyllt (önnur en viðtaka viðkomandi staðfestinga).
    ii)    Afrit af lögum er hafa viðvarandi gildi og heimila stjórnvöldum að takast þær skuldbindingar á herðar sem samningarnir kveða á um. Löggilt þýðing á ensku skal fylgja.
    iii)    Afrit af undanþágu er Seðlabankinn hefur veitt tryggingarsjóðnum frá reglum um gjaldeyrishöft til að sjóðurinn geti uppfyllt skuldbindingar sínar samkvæmt samningunum.
b)    Álit ríkislögmanns vegna íslenska ríkisins og Lögmannsstofunnar LEX vegna Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta er staðfesta m.a. að þeir sem undirrita samningana hafi til þess heimild og umboð, um framfylgni samninganna o.fl.
c)    Þegar tryggingarsjóðurinn hefur gert framsalssamning og jafnstöðusamning (Pari Passu) við Seðlabanka Hollands (DNB) annars vegar og framsalssamning og uppgjörssamning við Tryggingarsjóð Bretlands (FSCS) hins vegar.

Hluti 6.2. Framsalssamningur og jafnstöðusamningur – DNB Assignment Agreement and DNB Pari Passu Agreement
    Í a-lið þessa hluta er nánar kveðið á um efni framsalssamnings Seðlabanka Hollands og Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, en hollenski seðlabankinn skal framselja tryggingarsjóðnum allar kröfur innstæðueigenda í þeim útibúum Landsbankans sem hann fékk framseldar frá innstæðueigendum við útgreiðslur, í hverju tilfelli allt að 20.887 evrum. Sams konar ákvæði er í framsalssamningnum við breska tryggingarsjóðinn.
    Í b-lið er fjallað um efni jafnstöðusamningsins við Holland (nefndur Pari Passu Agreement við Holland og Settlement Agreement (uppgjörssamningur) við Bretland). Samkvæmt liðum (i) og (ii) skulu þær kröfur sem framseldar eru til íslenska tryggingarsjóðsins vegna greiðslu lágmarkstryggingar vera jafnstæðar þeim kröfum sem erlendu tryggingarsjóðirnir halda eftir vegna greiðslna þeirra umfram 20.887 evrur, að svo miklu leyti sem lög heimila. Verði vart við ójafnvægi við endurgreiðslur skuli því jafna það út hlutfallslega. Sams konar ákvæði er í uppgjörssamningnum við Bretland.
    Í lið (iii) er hins vegar að finna fyrirvara vegna óvissu um það hvort íslenski tryggingarsjóðurinn njóti samkvæmt íslenskum lögum sérstaks forgangs (e. super priority) fram yfir þá erlendu vegna þess að greiðslur hans snúa að því lágmarki sem lögin um innstæðutryggingar kveða á um. Vegna þessa er kveðið á um að komist íslenskur dómstóll að þeirri endanlegu niðurstöðu að tryggingarsjóðurinn njóti slíks forgangs varðandi greiðslur úr þrotabúi Landsbankans, og slík niðurstaða er ekki í andstöðu við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins, eða ákveði skilanefnd Landsbankans að kröfur tryggingarsjóðanna njóti sérstöðu við útgreiðslur úr þrotabúinu og ákvörðun um það er ekki skotið til dómstóla, þá skuli skylda til þess að jafna greiðslurnar á milli sjóðanna ekki gilda. Sams konar ákvæði er í uppgjörssamningnum við Bretland.

Hluti 7.2./6.3. Efndir gildistökuskilyrða – Satisfaction of Conditions Precedent
    Þetta ákvæði gerir í orði kveðnu ráð fyrir að samningsaðilar geti rift samningunum ef framangreind skilyrði fyrir gildistöku þeirra hafa ekki verið uppfyllt fyrir 31. desember 2010. Þó hefur það ekki áhrif samkvæmt efni sínu fyrr en samningarnir hafa verið undirritaðir. Þangað til er ákvæðið fyrst og fremst til marks um það stefnumið samningsaðila að ljúka málinu sem fyrst á þeim grundvelli sem samningarnir mæla að öðru leyti fyrir um.

Hluti 7.3./6.4. Niðurfelling lánssamninga og viðaukasamninga – Termination of Loan Agreement and Acceptance and Amendment Agreement
    Hér er áréttað að lánssamningarnir frá 5. júní 2009 og viðbótarsamningar frá 19. október s.á. falla niður við gildistöku þessara samninga.

8. gr./7. gr. Umboð og heimildir – Representations and Warranties
    Í báðum samningunum er að finna útskýringu á eðli íslenska tryggingarsjóðsins og fullyrt að hann geti borið réttindi og skyldur sem lögaðili. Samningarnir séu framkvæmdir á réttan hátt, löglegir, bindandi og gildir, að teknu tilliti til hugsanlegra takmarkana í lögum um gjaldþrot eða annarri sambærilegri löggjöf.

9. gr./8. gr. Sérstakar skuldbindingar – Covenants

Hluti 9.1./8.1. Sambærileg meðferð – Comparability of Treatment
    Þetta ákvæði tryggir lánveitendum sama rétt og hugsanlegir framtíðarlánveitendur fá vegna greiðslna krafna tengdra innstæðum sem urðu til fyrir gildistöku samninganna reynist þau kjör hagstæðari. Þetta þýðir að gangi tryggingarsjóðurinn eða íslenska ríkið til samninga við aðra aðila en Breta og Hollendinga vegna greiðslna til innstæðueigenda, og þeir samningar eru hagstæðari lánveitanda en þessir samningar, þá skulu sjóðurinn og stjórnvöld veita Bretum og Hollendingum sömu skilmála. Tekið er fram að þetta eigi ekki við um hugsanlega samninga til endurfjármögnunar þessara samninga.

Hluti 9.2./8.2. Jöfn meðferð – Equal treatment
    Komi til þess að öðrum innstæðueigendum gamla Landsbankans sé greitt meira en sem nemur 20.887 evrum þá skal tryggingarsjóðurinn greiða breskum eða hollenskum innstæðueigendum samsvarandi greiðslu, en hafi erlendu tryggingarsjóðirnir greitt viðkomandi innstæðueigendum umframgreiðslurnar þá skulu greiðslur tryggingarsjóðsins renna til þeirra.

10. gr./9. gr. Ýmis ákvæði – Miscellaneous

Hluti 10.1./9.1. Breyting á aðstæðum – Change of circumstance
    Í þessum hluta er að finna endurskoðunarákvæði samninganna. Þar segir að lánveitendur samþykki að eiga viðræður til að meta þörf á endurskoðun samninganna ef greiðsluþol íslenska ríkisins versnar til muna að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því sem var í nóvember 2008.

Hluti 10.2./9.2. Aðrar breytingar – Other changes
    Hér er mælt fyrir um hvernig með skuli fara ef breyting verður á samþykktri kröfufjárhæð eða samþykktri vaxtafjárhæð vegna ákvörðunar slitastjórnar Landsbankans eða dómstóls.

Hluti 10.3./9.3. Eftirgjöf – Waiver
    Í þessum hluta er áréttað að þó svo að Bretland og Holland nýti sér ekki einhvern rétt sem þau eiga samkvæmt lögum eða samningunum, þá sé ekki litið svo á að þau hafi með því afsalað sér þeim rétti.

Hluti 10.4./9.4. Tilkynningar – Notices
    Hér er að finna ákvæði um fyrirkomulag tilkynninga og staðlaðar reglur um það hvenær þær teljast komnar til vitundar móttakanda.

Hluti 10.5./9.5. Breytingar – Amendments
    Allar breytingar á samningunum verður að gera með skriflegu samkomulagi allra aðila.

Hluti 10.6./9.6. Framsal réttinda og skuldbindinga – Successors and Assigns
    Samningsaðilum er ekki heimilt að framselja réttindi eða skyldur samkvæmt samningunum og enginn sem ekki er aðili að samningunum getur byggt rétt á þeim, fyrir utan hollenska og breska tryggingarsjóðinn í þeim tilvikum þegar það er sérstaklega tekið fram.

Hluti 10.7./9.7. Fyrirsagnir – Captions
    Hér er áréttað að efnisyfirlit, fyrirsagnir og heiti greina séu eingöngu til hægðarauka og ekki hluti af efni samninganna eða ætlað að hafa áhrif á það.

Hluti 10.8./9.8. Samhljóða eintök – Counterparts
    Hér kemur fram að samninginn megi gera í eins mörgum samhljóða eintökum og þörf er á en áréttað að öll myndi þau hluta af sama gerningnum.

Hluti 10.9./9.9. Lög sem gilda – Governing law
    Samkvæmt þessu ákvæði ber að leysa úr ágreiningi um framkvæmd samningsins á grundvelli breskra laga.

Hluti 10.10./9.10. Gerðardómur – Arbitration
    Samkvæmt a-lið þessa ákvæðis ber að leggja hvers kyns ágreining, málshöfðun eða málaferli er varða túlkun og efni samninganna í gerð Alþjóðagerðardómstólsins í Haag (e. Permanent Court of Arbitration – PCA). Samkvæmt b-lið skulu gerðardómsmenn vera þrír. Ef allir samningsaðilar eiga aðild að deilumálinu skulu TIF og stjórnvöld tilnefna einn þeirra sameiginlega og Holland eða Bretland einn. Þessir tveir sammælast síðan um þriðja mann og skal hann sitja í forsæti dómsins. Alþjóðagerðardómstóllinn hlutast til um þessar tilnefningar. Gerðardómurinn skal kappkosta að leysa úr þeim málum sem undir hann eru borin innan tólf mánaða.

Hluti 10.11./9.11. Fallið frá friðhelgisréttindum
    Íslenska ríkið nýtur að þjóðarétti friðhelgisréttinda í lögsögu annarra ríkja. Þessi friðhelgisréttindi stæðu í vegi fyrir lagalegri úrlausn deilumála vegna samningsins ef ekkert væri að gert. Það er föst venja í lánasamningum milli ríkja að víkja slíkum friðhelgisréttindum til hliðar. Slík ákvæði hafa eðli málsins samkvæmt eingöngu gildi þar sem friðhelgi er til staðar, þ.e. í lögsögu erlendra ríkja. Án slíks fráfalls væri ekki hægt að stefna máli, né reka það, fyrir umsömdum dómstól.
    Í þessum hluta falla tryggingarsjóðurinn og stjórnvöld frá hugsanlegum friðhelgisrétti í lögsögu annarra ríkja. Slíkt fráfall réttinda á einnig við um eignir tryggingarsjóðsins og íslenska ríkisins erlendis. Sú undanþága er þó gerð að þetta hefur engin áhrif á eignir sem njóta friðhelgi samkvæmt Vínarsamningnum um stjórnmálasamband, eignir á Íslandi sem nauðsynlegar eru fyrir Ísland sem fullvalda ríki eða eignir Seðlabanka Íslands. Ákvæði þetta hefur sömuleiðis engin áhrif að innanlandsrétti. Sömuleiðis er kveðið á um sérstaka undanþágu vegna réttinda sem tengjast náttúruauðlindum á Íslandi.

Hluti 10.12./9.12. Sjálfstæði einstakra ákvæða – Severability
    Hér er mælt fyrir um að ef eitthvert ákvæði lánssamninganna reynist ólöglegt, ógilt, óskuldbindandi eða óframkvæmanlegt samkvæmt lögum, skal það ekki hafa nein áhrif á skuldbindingargildi annarra ákvæða samninganna.



Fylgiskjal IV.


SAMNINGUR
um umsýslu vegna Icesave-samninganna.


Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta hér eftir nefndur „TIF“ og fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, gera með sér eftirfarandi samning:

1.     Forsendur

1.1.         Samningurinn er gerður vegna greiðslna hollenskra og breskra stjórnvalda til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Amsterdam og London og samninga við áðurnefnd stjórnvöld, m.a. um endurgreiðslu og skaðleysi, sem TIF og íslenska ríkið ráðgera að staðfesta, fáist til þess lagaheimild. Í samningunum felst í meginatriðum að greitt verði til innstæðueigenda sem nemur lágmarksfjárhæð samkvæmt lögum 98/1999 (allt að EUR 20.887 fyrir hvern innstæðueigenda) auk nánar tilgreindra vaxta. Allt að frátöldu því sem greitt verður úr búi Landsbanka Íslands hf. samkvæmt nánari ákvæðum samninganna. Íslenska ríkið mun ábyrgjast efndir TIF að fullu. 1

1.2.         Með samningi þessum er ætlunin að skipta verkum og ábyrgð um framkvæmd samninganna að því er varðar fjárhagsleg atriði er tengjast fullnustu samninganna, eftirliti með slitameðferð og fjárhagslega umsýslu í tengslum við úthlutanir úr búi Landsbanka Íslands hf. og upplýsingagjöf til Alþingis.

1.3.         Drög að lagafrumvarpi „um heimild til handa fjármálaráðherra til að staðfesta samninga áritaða um ábyrgð á (a) endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til breska og hollenska ríkisins á kostnaði af greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi og (b) á greiðslu eftirstöðva og vaxta af þeim skuldbindingum“ kveða á um samning þessa efnis milli TIF og íslenska ríkisins.

1.4.         Samningurinn verður endanlega staðfestur af aðilum hans þegar og ef frumvarp samkvæmt gr. 1.3. hér að framan öðlast lagagildi og samhliða staðfestingu þeirra samninga sem kveðið er á um í 1. gr. frumvarpsdraganna.

2.     Greiðslur samkvæmt endurgreiðslu- og skaðleysissamningi

2.1.         Samkvæmt þeim samningum sem greinir í 1. gr. ábyrgist íslenska ríkið skuldbindingar TIF að fullu og öllu leyti. Íslenska ríkið ber þannig ábyrgð á endurgreiðslu þeirra fjárhæða sem samningarnir taka til að því marki sem eigið fé innstæðudeildar TIF hrekkur ekki til að standa undir skuldbindingunum. Við mat á eigin fé og útreikningi þess skal miðað við ákvörðun stjórnar TIF sem skal taka mið af endurskoðuðu ársuppgjöri við áramótin 2010 og 2011 eða öðru uppgjöri sem aðilar koma sér saman um. TIF skal greiða þá fjárhæð sem um ræðir samkvæmt nánari tilvísun ráðuneytisins. Uppgjör samkvæmt þessu skal fara fram eigi síðar en þann 31. janúar 2011.

2.2.         Í samræmi við ákvarðanir aðgerðaráðsins, sbr. gr. 4.3, skal fjármálaráðuneytið í framhaldinu endurgreiða TIF fé að því marki sem þarf til að mæta þeim kostnaði sem TIF hefur orðið fyrir í kjölfar hruns íslenskra banka og sparisjóða frá árinu 2008, kostnaði sem TIF verður fyrirsjáanlega fyrir í framtíðinni af sömu ástæðu vegna umsýslu samnings þessa og öðrum kostnaði sem til kann að falla vegna sömu mála. TIF ber ekki með öðrum eignum sínum eða fjármunum að neinu leyti ábyrgð á endurgreiðslu samkvæmt þeim samningum sem greinir í 1. gr. Til viðbótar þeim fjármunum sem um ræðir í gr. 2.1 ver TIF þeim fjármunum sem úthlutað verður til TIF úr búi Landsbanka Íslands til greiðslna inn á höfuðstól í samkvæmt samningunum. Vaxtaafborganir sem inna á af hendi til viðsemjenda greiðir ríkissjóður, fyrir milligöngu TIF.

2.3.         Nemi úthlutanir úr búi Landsbanka Íslands hf. til TIF samanlagt hærri fjárhæð en a) greiðslu skv. gr. 2.1. og b) skuldbindingu um endurgreiðslu höfuðstóls skal TIF greiða fjármálaráðuneytinu það sem umfram er til að bæta þann kostnað sem fjármálaráðuneytið og ríkissjóður verða fyrir vegna greiðslu vaxta og annars kostnaðar af þeim samningum sem um ræðir í 1. gr.

2.4.         Í samningunum er gert ráð fyrir að fyrsta endurgreiðslutímabili ljúki á miðju ári 2016. Munu þá eftirstöðvar verða gerðar upp innan árs, þ.e. ef sú fjárhæð verður á þeim tíma lægri en sem nemur 45 milljörðum íslenskra króna í heild sinni. Íslenskra ríkið mun þá inna eftirstöðvagreiðsluna af hendi til viðsemjenda gegn framsali af hendi TIF á þeim kröfum sem enn kunna að vera fyrir hendi í bú Landsbanka Íslands hf. vegna innstæðna, nema um annað fyrirkomulag verði þá samið.

2.5.         Ef eftirstöðvar skuldar samkvæmt samningunum nema hærri fjárhæð en 45 milljörðum kr. árið 2016 er gert ráð fyrir því að annað endurgreiðslutímabil hefjist og verði þá eftirstöðvar höfuðstóls og vextir af honum greiddar á lengra tímabili en einu ári, allt í hlutfalli við eftirstöðvafjárhæð. TIF mun við það tímamark (í júní 2016) framselja íslenska ríkinu allar kröfur sínar á hendur búi Landsbanka Íslands hf. auk annarra eigna sem fjármálaráðuneytið hefur lagt TIF til, sbr. gr. 2.1 og mun íslenska ríkið þá eftirleiðis standa skil á afborgunum höfuðstóls og vaxta allt þar til skuldin er að fullu greidd.

2.6.         Frágangur mála samkvæmt gr. 2.1.–2.5 breytir ekki formlegri samningsaðild eða ábyrgð gagnvart hollenskum og breskum stjórnvöldum.

3.     Umsýsluhlutverk tif á samningstímanum

3.1         TIF mun annast samskipti við viðsemjendur vegna greiðslna samkvæmt endurgreiðslu- og skaðleysissamningi og annarra þeirra fylgisamninga sem tilgreindir eru í neðanmálsgrein nr. 1. hér að framan. Í því felst að TIF mun annast:

            (a)    að sannreyna þær upphæðir sem til greiðslu eiga að koma samkvæmt samningunum. Er hér átti við upphaflegan höfuðstól eins og hann er ákvarðaður samkvæmt samningnunum. Aðilar eru sammála um að leggja til grundvallar að meginstefnu til þær fjárhæðir og upplýsingar sem fengnar hafa verið hjá slitastjórn Landsbanka Íslands hf. en TIF skal ávallt vera heimilt að framkvæma eigin útreikninga og bera saman við gögn slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. og viðsemjenda,

            (b)    útreikning vaxtaafborgana sem til greiðslu koma á tímabilinu frá gildistöku samninganna til og með júní 2016 svo og milligöngu um greiðslu þeirra. TIF mun með hæfilegum fyrirvara, svo tímanlega að ekki verði um vanskil að ræða af greiðsluskuldbindingum samkvæmt samningunum, tilkynna fjármálaráðuneytinu um greiðslur sem inna þarf að hendi vegna vaxtaafborgana,

            (c)    greiðslu til viðsemjenda á þeim fjármunum sem úthlutað verður úr búi Landsbanka Íslands og til þeirra eiga að renna samkvæmt ákvæðum samninganna.

4.     Hagsmunagæsla

4.1.         Aðilum samnings þessa er ljóst að á miklu ríður að skipti á búi Landsbanka Íslands verði með eins hagstæðri niðurstöðu og framast er unnt. Gífurlegir hagsmunir eru af því að við slita- og skiptameðferð náist hámarksverð fyrir eignir og kostnaði verði haldið í skefjum. Þá eru aðilar sammála um að stuðla verði að því að slita- og skiptameðferðinni verði hraðað eftir því sem unnt er og greiðslur upp í kröfur verði inntar af hendi strax og forsendur til þess skapast. Jafnframt skal hagsmuna TIF og íslenska ríkisins gætt til hins ýtrasta, m.a. með því að láta reyna á svokallaðan „ofurforgang“ (e. Super-Priority) til samræmis við ákvæði þeirra samninga sem fyrir liggja þegar það verður tímabært.

4.2.         Í því skyni að tryggja að markmið samkvæmt gr. 4.1. náist munu aðilar skipa sérstakt aðgerðaráð sem skipað skal þremur mönnum og annast þau verkefni sem því verða falin samkvæmt þessum samningi og síðari ákvörðunum. Skipar TIF einn mann en fjármálaráðherra tvo.

4.3.         Aðgerðaráðið skal í upphafi starfs síns gera áætlun um þá upphæð sem fjármálaráðuneytið skal leggja TIF til og fjallað er um í gr. 2.2. Einnig skal það árlega útbúa og samþykkja sérstaklega rekstraráætlun fyrir næstkomandi ár eða annað það tímabil sem aðilar eru sammála um. Aðgerðaráð eða aðilar sem ráðið tilnefnir til þess skal annast samskipti við slita- og skilanefndir Landsbanka Íslands hf., hagsmunagæslu gagnvart öðrum kröfuhöfum, rekstur dómsmála eftir því sem þörf krefur, auk annars þess sem tilheyrir almennri hagsmunagæslu. Telji aðgerðaráðið þörf á getur það leitað til sérfræðinga og ráðgjafa á þeim sviðum sem nauðsyn krefur til að fylgja eftir einstökum málum svo og aðstoða við stefnumótun og áætlanagerð.

5.     Upplýsingagjöf

5.1.         Mikilvægt er að tryggja með öllum tiltækum ráðum að fjármálaráðuneytinu og Alþingi verð gerð regluleg grein fyrir málefnum Landsbanka Íslands hf. og allar áætlanir um þróun þeirra fjárhagsskuldbindinga sem um ræðir verði tiltækar.

5.2.         Aðgerðaráð mun árlega gefa Alþingi skýrslu um starfsemi sína, veita upplýsingar um framgang mála og ítarlegt yfirlit um spár varðandi endurheimtur eigna og úthlutun úr búi Landsbankans.

6.     Önnur atriði

Þessi samningur er áritaður til bráðabirgða af TIF og jármálaráðherra og verður lagður fram sem fylgiskjal við þinglega meðferð lagafrumvarps þess sem getið er í 1. gr. þessa samnings. Áritunin staðfestir að aðilar hafa náð samkomulagi um efnisinnihald samningsins og munu undirrita hann þegar og ef lög taka gildi sem heimila fjármálaráðherra að staðfesta samningana.

7.     Gildistaka

Ef lög taka gildi sem heimila fjármálaráðherra að undirrita samningana sem getið er um í 1. gr. þá gildir samningur þessi til 31. desember 2016. Gildistímann má þó framlengja ef aðilar eru sammála um að ástæða sé til út frá hagsmunum TIF og íslenska ríkisins.



Reykjavík, ____________________,



___________________________     ___________________________

f.h. íslenska ríkisins     f.h. TIF


Vottar að undirritun og réttri dagsetningu:


Fylgiskjal V.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um heimild til handa fjármálaráðherra til að staðfesta samninga, sem áritaðir voru í London 8. desember 2010, um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til breska og hollenska ríkisins á kostnaði af greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi og greiðslu eftirstöðva og vaxta af þeim skuldbindingum.

    Með frumvarpi þessu er leitað eftir heimild Alþingis til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að staðfesta samninga sem áritaðir voru af fulltrúum Íslands, Bretlands og Hollands í London 8. desember 2010. Samkomulagið gerir ráð fyrir að ríkissjóður ábyrgist annars vegar endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) til breska og hollenska ríkisins á þeim fjárhæðum sem þau hafa lagt út vegna uppgjörs lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi og hins vegar greiðslu eftirstöðva og vaxta af þeim skuldbindingum. Í því felst að TIF fær framseldar kröfur Breta og Hollendinga í bú bankans og annast um að innheimta þær. Gert er ráð fyrir að tryggingarsjóðurinn endurgreiði kröfurnar jöfnum höndum eftir því sem úthlutað er úr búinu. Fram til júnímánaðar 2016 verða greiddir vextir af þeim höfuðstól sem er umfram útborganir úr búi Landsbankans á hverjum tíma. Ekki verður greitt upp í höfuðstól með öðru en því sem fæst greitt við slitameðferð bankans. Gert er ráð fyrir því að í júní 2016 verði búið að úthluta stærstum hluta af eignum bús Landsbankans til kröfuhafa. Frá þeim tíma skuldbinda TIF og íslenska ríkið sig til að standa undir eftirstöðvum krafna með ákveðnum fyrirvörum og eftir nánar umsömdum viðmiðum. Ekki er því um að ræða hefðbundna lánssamninga heldur endurgreiðslu- og skaðleysissamninga með aðild hlutaðeigandi ríkja og TIF.
    Í samningunum er gert ráð fyrir föstum vöxtum af kröfum umfram endurheimtur fram á mitt ár 2016. Vextirnir eru 3% á hollenska hluta skuldbindinganna en 3,3% á breska hlutanum. Meðalvextir eru því 3,2% þar sem breski hlutinn vegur 2/3 heildarskuldbindingarinnar. Samið hefur verið um að engir vextir skuli reiknast á skuldbindingarnar fyrr en eftir 1. október 2009 og að áfallnir vextir fyrir árin 2009 og 2010 verði greiddir í ársbyrjun 2011. Vextir verði síðan greiddir ársfjórðungslega til miðs árs 2016. Þá er kveðið á um það í samningnum að vextir á þær eftirstöðvar sem kunna að vera ógreiddar um mitt ár 2016 verði svonefndir CIRR-vextir, eða útflutningslánavextir sem reiknaðir eru og birtir af OECD, án nokkurs vaxtaálags. Lágmarkstrygging við innstæðueigendur Landsbankans í Bretlandi er metin á 2,350 milljarða punda og á 1,329 milljarða evra í Hollandi. Það jafngildir samtals 674 milljörðum króna miðað við sölugengi gjaldmiðlanna 22. apríl 2009 en kröfurnar í bú bankans voru miðaðar við gengi þann dag. Miðað við gengi krónunnar 30. september 2010 nemur sú skuldbinding allt að 624 milljörðum króna og hefur lækkað vegna styrkingar krónunnar síðastliðin missiri. Skilanefnd bankans telur í skýrslu sinni til kröfuhafafundar 9. nóvember 2010 að úthlutun upp í forgangskröfur muni nema 86%. Heildarforgangskröfur nema 1.320 milljörðum króna, en heimtur eru áætlaðar 1.138 milljarðar. Forgangskröfur TIF í bú Landsbankans á gengi íslensku krónunnar miðað við 22. apríl 2009 eru áætlaðar geta numið allt að 673 milljörðum króna að höfuðstól. Við þá fjárhæð bætast áfallnir vextir. Gert er ráð fyrir að í hlut TIF komi ríflega 51% af forgangskröfum eða sem nemur um 584 milljörðum króna miðað við gengi 30. september 2010. Mat sem gert hefur verið á vegum samninganefndarinnar á kostnaði sem fellur á ríkissjóð miðað við framangreindar forsendur er 47 milljarðar króna, eða rúm 3% af landsframleiðslu. Er þá tekið tillit til þess að búið væri að ráðstafa um 20 milljörðum króna af núverandi eigum TIF upp í skuldbindingarnar. Framangreind niðurstaða felur í sér að gangi endurheimtur eftir með þessum hætti og gengisþróun verður eins og spáð er í forsendum Seðlabankans verði það eingöngu vaxtakostnaður sem falli á ríkissjóð. Til greiðslu í byrjun næsta árs kæmu uppsafnaðir vextir áranna 2009–2010, alls 26 milljarðar króna, þar af 6,1 milljarður króna úr ríkissjóði. Vaxtagreiðslur vegna ársins 2011 eru áætlaðar um 17 milljarðar króna og færu hratt lækkandi árin þar á eftir og verði 5 milljarðar króna árið 2015. Áætlanir gera ráð fyrir að greiðslum verði að fullu lokið 2016 og að vaxtagreiðslur það ár verði 2 milljarðar króna.
    Samkomulagið gerir ráð fyrir að þak sé sett á árlegar greiðslur úr ríkissjóði eftir 2016 og er miðað við 5% af tekjum ríkisins á næstliðnu ári. Komi til þess að sú fjárhæð, sem það hlutfall ríkistekna jafngildir, verði lægri en 1,3% af landsframleiðslu skal hámark endurgreiðslna miðast við það hlutfall landsframleiðslunnar Það jafngildir nú rúmlega 20 milljörðum króna. Jafnframt er gert ráð fyrir því að ef höfuðstóll eftirstöðva af skuldbindingu TIF verður hærri en sem nemur 45 milljörðum króna greiðast þær að fullu innan 12 mánaða, þ.e. síðari hluta árs 2016 og fyrri hluta árs 2017. Fari svo að skuldbindingin verði hærri, lengist endurgreiðslutíminn um eitt ár fyrir hverja 10 milljarða króna, þó þannig að sú fjárhæð sem eftir stæði yrði greidd í lok 30 ára endurgreiðslutíma frá 2016 að telja.
    Stærstu áhættuþættir fyrir ríkissjóð vegna samkomulagsins eru annars vegar hversu mikið TIF mun fá úthlutað upp í sínar kröfur úr búi Landsbanka Íslands hf. og hins vegar gengisáhætta. Við áætlun á líklegri skuldbindingu hefur samninganefndin byggt á upplýsingum skilanefndar Landsbankans. Jafnframt er byggt á vinnugögnum frá Landsbanka Íslands um fjárhæð þeirra krafna sem framseldar verða á grundvelli endurgreiðslusamninganna. Þá hefur verið lagt varfærið mat á nettótekjur vegna eigna Landsbanka Íslands til 2016. Eins og áður hefur verið nefnt er gert ráð fyrir að heildarkostnaður ríkissjóðs vegna samninganna verði 47 milljarðar króna og að engar eftirstöðvar falli á ríkissjóð árið 2016. Þessi niðurstaða byggist á mati og gæti útkoman orðið betri eða verri eftir því hvernig helstu forsendur þróast. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu gæti skuldbinding ríkissjóðs sveiflast frá því að lækka í allt að 12 milljarða króna og í að hækka í allt að 113 milljarða króna þegar reiknað er með mismunandi forsendum um endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans.
    Veiking krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum mundi hafa þau áhrif að skuldbindingar ríkissjóðs hækka í krónum talið. Það stafar annars vegar af því að hluti endurheimta úr búi Landsbankans er í íslenskum krónum og hins vegar af því að vaxtagreiðslur eiga sér stað yfir nokkurra ára tímabil í evrum og pundum. Veiking krónunnar hefur því þau áhrif að endurheimtur duga skemur í afborganir og vaxtagreiðslur þar eð þær verða hærri í krónum talið. Gengisspá Seðlabankans sem lögð er til grundvallar miðast við að gengi krónunnar styrkist nokkuð gagnvart evru og pundi til næsta árs, eða um 6–7%, en styrkist síðan aðeins lítillega eða haldist óbreytt til ársins 2016. Árleg veiking krónunnar frá 2011 til og með 2016 sem næmi 3% umfram þá árlegu breytingu sem gert er ráð fyrir í reikniforsendum Seðlabankans mundi hækka skuldbindinguna um 18% eða úr 47 milljörðum króna í 56 milljarða króna. Árleg 3% styrking krónunnar á sama tímabili umfram reikniforsendur Seðlabankans mundi á hinn bóginn lækka skuldbindinguna um 15% eða úr 47 milljörðum króna í 40 milljarða króna. Auk þessa er gjaldeyrisáhætta sem stafar af því að skuldbinding ríkissjóðs er eingöngu í evrum og sterlingspundum en eignir bús Landsbankans eru í evrum, sterlingspundum, bandaríkjadölum, kanadadölum og öðrum gjaldmiðlum. Minnsta áhættan er tengd þróun evrunnar því hlutfall eigna Landsbankans í evrum er svipað og hlutfall skuldbindingarinnar í evrum. Áhættan stafar því aðallega af því ójafnvægi sem er til staðar milli skulda í sterlingspundum annars vegar og eigna Landsbankans í öðrum gjaldmiðlum hins vegar. Árleg veiking sterlingspunds frá 2011 til og með 2016 sem nemur 3% umfram þá árlegu breytingu sem gert er ráð fyrir í reikniforsendum Seðlabankans lækkar skuldbindinguna um 52% eða úr 47 milljörðum króna í 23 milljarða króna. Árleg 3% styrking sterlingspunds á sama tímabili umfram reikniforsendur Seðlabankans hækkar skuldbindinguna um 62% eða úr 47 milljörðum króna í 77 milljarða króna. Það er því ljóst að þróun sterlingspunds gagnvart öðrum gjaldmiðlum hefur áhrif á skuldbindingu ríkissjóðs og meiri áhrif en þróun íslensku krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum.
    Úrlausn ágreiningsmála er upp kunna að koma vegna samningsins heyra undir regluverk Alþjóðagerðardómstólsins í Haag. Færi svo að máli vegna samninganna yrði vísað til hans mundu aðilar tilnefna hvor sinn fulltrúann og fulltrúarnir síðan koma sér saman um oddamann. Þannig er tryggt að í málum er varða Ísland sitji ávallt aðili í gerðardóminum sem tilnefndur er af Íslandi. Í samningsdrögunum er auk þess ákvæði um samráð aðila gefi efnahagsleg staða á Íslandi tilefni til. Skýrt er tekið fram að ákvæði um takmörkun friðhelgisréttinda hafi engin áhrif á eignir ríkisins sem njóta friðhelgi samkvæmt Vínarsamningnum um stjórnmálasamband, þær eignir á Íslandi sem nauðsynlegar eru fyrir Ísland sem fullvalda ríki, eigur Seðlabanka Íslands eða náttúruauðlindir landsins.
    Hér hafa verið dregin saman helstu atriði samninganna og mat samninganefndarinnar á þeim. Fjárlagaskrifstofa hefur ekki lagt sjálfstætt mat á þetta umfangsmikla mál né framkvæmt sérstaka útreikninga á líklegum áhrifum samninganna á skuldbindingar og útgjöld ríkissjóðs á næstu árum. Ef miðað er við það mat sem fram kemur í greinargerð frumvarpsins má gera ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs á næsta ári vegna framlaga til TIF verði samtals 26,1 milljarður króna, þ.e. 6,1 milljarður króna vegna gjaldfallinna vaxta áranna 2009–2010 og 17 milljarðar króna vegna vaxta á árinu 2011. Þessu til viðbótar er 3 milljarða króna greiðsla á næsta ári vegna útlagðs kostnaðar Breta og Hollendinga við útgreiðslur til innstæðueigenda á sínum tíma en samið var um tiltekna hlutdeild í honum.
    Ekki hefur verið gert ráð fyrir áhrifum af þessum samningi í fjárreiðum ríkisins í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011 enda hefur Alþingi á þessu stigi ekki fjallað um og afgreitt frumvarp til laga um staðfestingu samninganna sem hér eru til umfjöllunar. Kann því að reynast nauðsynlegt að leita eftir nauðsynlegum fjárheimildum frá Alþingi vegna málsins í tengslum við afgreiðslu þessa frumvarps.
Neðanmálsgrein: 1
    1     CIRR-vextir (Commercial Interest Reference Rate) eru reiknaðir og birtir af OECD.
Neðanmálsgrein: 2
    2     Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis, 7. bindi, kafli 21.4.9, bls. 283.
Neðanmálsgrein: 3
    1 Samningar sem mæla fyrir um að úrlausn ágreiningsmála sé lögð í gerð gera stundum ráð fyrir að gerðardómsmenn skuli leggja til grundvallar úrlausn sinni þær meginreglur laga sem þeir telja sjálfir eiga best við, án þess að þær tilheyri endilega réttarkerfi neins sérstaks ríkis.
Neðanmálsgrein: 4
    2 Vísar til þess er sanngjarnast þykir og réttlátast án tillits til þess hvort lagalega rétt túlkun leiði til sömu niðurstöðu.
Neðanmálsgrein: 5
    3 Aths. í drögum: þetta er 20 sinnum 1,3%, í textanum er síðan ákvarðað árlegt 5% þak miðað við þessa tölu, sem er 1,3% af vergri landsframleiðslu.
Neðanmálsgrein: 6
    1 Samningar sem mæla fyrir um að úrlausn ágreiningsmála sé lögð í gerð gera stundum ráð fyrir að gerðardómsmenn skuli leggja til grundvallar úrlausn sinni þær meginreglur laga sem þeir telja sjálfir eiga best við, án þess að þær tilheyri endilega réttarkerfi neins sérstaks ríkis.
Neðanmálsgrein: 7
    2 Vísar til þess er sanngjarnast þykir og réttlátast án tillits til þess hvort lagalega rétt túlkun leiði til sömu niðurstöðu.
Neðanmálsgrein: 8
    1 Samkvæmt lögum nr. 44/2009, sem fjalla um breytingar á ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki, er varða slitameðferð, njóta vaxtakröfur forgangsréttar til þess dags. Fjárhæð vaxtakröfunnar hefur ekki enn verið ákvörðuð endanlega við slitameðferðina á búi Landsbankans.
Neðanmálsgrein: 9
    2 Áætlaðar fjárhæðir (hámark).
Neðanmálsgrein: 10
    1 Hér eftir verður rætt um „samningana“, en nánar tiltekið er um að ræða endurgreiðslu- og skaðleysissamning (e. Reimbursement and Indemnity Agreements) með aðild hlutaðeigandi ríkja og Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF). Samhliða endurgreiðslu- og skaðleysissamningunum gerir TIF sérstakan jafnstöðusamning (e. Pari Passu Agreement); uppgjörssamning (e. Settlement Agreement) og áritar sérstaka bókun varðandi gjaldeyrismálefni (e. Currency Side Letter). Verður vikið að hinum síðarnefndu samningum eftir því sem tilefni er til.