Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 256. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Prentað upp.

Þskj. 550  —  256. mál.
Leiðréttur texti.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, með síðari breytingum.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Einar Njálsson, Hönnu S. Gunnsteinsdóttur og Sturlaug Tómasson frá félags- og tryggingamálaráðuneyti, Gerði Árnadóttur og Friðrik Sigurðsson frá Þroskahjálp, Guðmund Magnússon og Lilju Þorgeirsdóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands, Guðmund Ármann og Pétur Sveinbjörnsson frá Sólheimum ses., Dóru S. Bjarnason og Ingólf Ásgeir Jóhannesson frá Rannsóknarsetri um skóla án aðgreiningar, Freyju Haraldsdóttur og Emblu Ágústsdóttur frá NPA-miðstöðinni svf., Guðjón Bragason, Gyðu Hjartardóttur, Halldór Halldórsson, Guðríði Árnadóttur, Tryggva Þórhallsson og Karl Björnsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kristbjörgu Stephensen frá Reykjavíkurborg og Unni V. Ingólfsdóttur frá Mosfellsbæ. Nefndin fékk jafnframt á fund sinn fulltrúa úr verkefnastjórn um yfirfærslu þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga, þau Einar Njálsson, Gerði Árnadóttur, Guðmund Magnússon, Hlyn Hreinsson, Lúðvík Geirsson, Stellu Kristínu Víðisdóttur og Þór G. Þórarinsson auk þess sem Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir úr verkefnastjórninni var á símafundi með nefndinni.
    Umsagnir bárust frá Félagi íslenskra félagsliða, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Rannsóknarstofu um skóla án aðgreiningar, Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Suðurlandi, Þjónustusvæði Suðurlands um þjónustu við fatlaða, Þroskahjálp, Akureyrarbæ, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Félagi náms- og starfsráðgjafa, Flóahreppi, Geðhjálp, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Grímsnes- og Grafningshreppi, Hlutverki – samtökum um vinnu og verkþjálfun, Ísafjarðarbæ, Læknafélagi Íslands, Reykjanesbæ, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík, Tryggingastofnun ríkisins, Þroskaþjálfafélagi Íslands, Öryrkjabandalagi Íslands, Sólheimum ses., Alþýðusambandi Íslands, Blindrafélagi Íslands, Félagi íslenskra sjúkraþjálfara, Hrunamannahreppi, Huldu Steingrímsdóttur, Sjálfsbjörg, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, NPA-miðstöðinni svf., Mosfellsbæ, Vinnumálastofnun, Barnaverndarstofu, Félagi heyrnarlausra, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Iðjuþjálfafélagi Íslands, Svæðisráði um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra og Sveitarfélaginu Álftanesi.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um málefni fatlaðra til að tryggja yfirfærslu á þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga. Frumvarpið byggist að mestu leyti á vinnu verkefnisstjórnar um yfirfærsluna og samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónusta við fatlaða sem undirritað var 23. nóvember 2010. Samhliða frumvarpi þessu er nauðsynlegt að gera breytingar á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og hefur frumvarp þess efnis verið lagt fram (þskj. 354, 301. mál). Þá þarf auk þess að gera breytingar á lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum, lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, og lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum. Tillögur að breytingum á þessum lögum er að finna í frumvarpi fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld sem er til umfjöllunar í efnahags- og skattanefnd (þskj. 380, 313. mál).
    Meginmarkmið yfirfærslunnar er að stuðla að samþættingu félagslegrar þjónustu við íbúa ssveitarfélaganna og stuðla þannig að heildstæðari og um leið bættri þjónustu við einstaklingana sem þurfa á þjónustunni að halda. Helstu breytingar í frumvarpinu eru þær að fatlaðir einstaklingar sækja nú um þjónustu hjá því sveitarfélagi þar sem þeir eiga lögheimili. Þar munu fagteymi meta með samræmdum hætti þjónustuþörf einstaklinga sem þurfa á þjónustu að halda. Sveitarfélög skulu starfrækja teymin en lagt er til að þau sameinist um þau. Landinu á að skipta upp í þjónustusvæði þannig að á hverju þeirra búi að lágmarki 8.000 íbúar en undanþága er veitt vegna landfræðilegrar legu einstakra sveitarfélaga. Búið er að skipuleggja 14 þjónustusvæði.
    Lagt er til að stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélaga á grundvelli laganna verði kæranlegar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu- og húsnæðismála. Svæðisskrifstofur og svæðisráð í málefnum fatlaðra verði lögð niður. Jafnframt verði trúnaðarmenn skipaðir af ráðherra en ekki svæðisráðum líkt og gildandi lög kveða á um. Auk þess er lagt til að Framkvæmdasjóður fatlaðra verði lagður niður og fjármunir hans færist í sérstaka deild hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem sjái um að jafna framlögum til sveitarfélaga í samræmi við kostnað af þjónustu. Skýrt verður kveðið á um bann við því að ráða fólk til starfa sem hlotið hefur refsidóma vegna brota á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga. Þá er lagt til að notendastýrð persónuleg aðstoð verði lögfest sem samstarfsverkefni og hún verði eitt meginform þjónustu við fatlað fólk 2014 en þá skal fara fram sameiginlegt endurmat ríkis og sveitarfélaga á yfirfærslunni auk þess sem þá skal ljúka heildarendurskoðun laganna.

I. Fyrirliggjandi frumvarp og vinna nefndarinnar.
    Nefndin hefur rætt stöðu málaflokks fatlaðs fólks ítarlega á þeim stutta tíma sem hún hefur haft fyrirliggjandi frumvarp til meðferðar. Nefndin telur vert að gagnrýna hversu seint þetta mikilvæga mál kemur til þingsins til þinglegrar meðferðar en ekki síður þá óvissu sem samþykkt frumvarpsins stuttu fyrir yfirfærsluna veldur fötluðum einstaklingum og fjölskyldum þeirra sem og starfsmönnum, sem ekki vita hver afdrif sín verða. Nefndin hefur þrátt fyrir stuttan vinnslutíma lagt áherslu á að slá ekki af gæðakröfum nefndarstarfsins og hefur hún viljað stuðla að vandaðri meðferð málsins með það að leiðarljósi að vandað verði til lagasetningarinnar.
    Yfirfærsla þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga hefur staðið lengi fyrir dyrum og óviðunandi að málið komi svo seint fyrir Alþingi sem raun ber vitni.
    Í skýrslu þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis (þskj. 1501, 705. mál á 138. löggjafarþingi) var að finna þingsályktun sem Alþingi samþykkti með 63 samhljóða atkvæðum hinn 28. september 2010. Þar ályktar Alþingi að brýnt sé að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar. Mikilvægt sé að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk. Í skýrslunni segir m.a.:
    „Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er sett fram gagnrýni á störf og starfshætti Alþingis sem mikilvægt er að bregðast við. Meginniðurstöður þingmannanefndarinnar varðandi Alþingi eru þær að auka þurfi sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu, leggja beri meiri áherslu á eftirlitshlutverk þingsins og auka fagmennsku við undirbúning löggjafar.
    Þingmannanefndin telur brýnt að Alþingi taki starfshætti sína til endurskoðunar, verji og styrki sjálfstæði sitt og marki skýr skil á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Alþingi á ekki vera verkfæri í höndum framkvæmdarvalds og oddvitaræðis.“
    Nefndin telur ljóst að þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við framlagningu frumvarpsins eru ekki í samræmi við þingsályktunina sem allur þingheimur var sammála um og telur nefndin það ámælisvert.
    Nefndin hefur þó lagt áherslu á að ljúka málinu fyrir áramót enda almennur vilji að af yfirfærslunni verði í upphafi nýs árs og miklar væntingar til þess auk þess sem málið varðar hagsmuni stórs hóps. Nefndin hefur við vinnu sína búið að því að hafa áður en frumvarpið var lagt fram kynnt sér skýrslu Ríkisendurskoðunar um þjónustu við fatlaða frá ágúst 2010 og haldið fundi um hana. Þá hafði nefndin áður en frumvarpið kom fram haft frumkvæði að tveimur fundum með nokkurra mánaða millibili með verkefnastjórn um yfirfærslu þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga og fylgst með undirbúningi yfirfærslunnar og þróun mála. Ef þessu frumkvæði nefndarinnar að kynna sér málið á fyrri stigum þess hefði ekki notið við er óvíst að náðst hefði að ljúka afgreiðslu málsins fyrir áramót.
    Eins og fram hefur komið lúta þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu að mestu að því að færa málaflokkinn yfir til sveitarfélaga. Margir umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar hafa gagnrýnt hversu skammt er gengið með frumvarpinu. Bent hefur verið á að stöðnun hafi verið í málaflokknum til margra ára og löngu sé orðið tímabært að innleiða réttarbætur til handa fötluðu fólki og færa löggjöf um málaflokkinn til samtímans.
    Ríkisendurskoðun taldi í skýrslu sinni að skipulagi og stjórnun málaflokksins væri að ýmsu leyti ábótavant og benti á veikleika er lúta m.a. að því að heildarstefnu vantar fyrir málaflokkinn, fjárveitingar taka ekki mið af reglubundnu mati á þjónustuþörf, eftirlit með þjónustu sé ófullnægjandi, ekki er fylgt samræmdum verklagsreglum og ekki er unnt að bera saman á raunhæfan hátt einstaka útgjaldaliði málaflokksins. Þá er að finna í skýrslunni ábendingar í níu liðum til ráðuneytisins um afmarkaða þætti og má finna umfjöllun um þá í áliti þessu þar sem við á og í IX. kafla álitsins. Ljóst er að í fyrirliggjandi frumvarpi er reynt að verða við ábendingum Ríkisendurskoðunar og ráða bót á þeim vanköntum sem stofnunin sér á stjórn málaflokksins og eftirliti með henni. Þá er gert ráð fyrir því í bráðabirgðaákvæði að lagt verði fram frumvarp um réttindagæslu fatlaðs fólks á árinu 2011. Þó er jafnframt sýnt að ekki verður að fullu mætt athugasemdum stofnunarinnar nema með heildarendurskoðun laga um málefni fatlaðra sem samkvæmt frumvarpinu og samkomulaginu er áætlað að ljúki í lok árs 2014.

II. Málefni fatlaðs fólks.
    Mikilvægt er að tryggja að í löggjöf sem fjallar um málefni fatlaðs fólks og réttindi þess sé tekið mið af réttarbótum í löggjöf nágrannaríkja, að mannréttindi séu tryggð, að samráð sé haft við fatlað fólk og að löggjöf sé til samræmis við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
    Slíkt er ekki að fullu tryggt í gildandi lögum. Í 1. gr. frumvarpsins nú er þó kveðið á um að við framkvæmd laganna skuli tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum fyrrgreindum samningi Sameinuðu þjóðanna. Þá er kveðið á um að stjórnvöld skuli tryggja heildarsamtökum fatlaðs fólks og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðs fólks. Fagnar nefndin þessu sem og því að til standi að lögleiða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í umsögnum gesta kom fram gagnrýni á orðanotkun um fatlaða einstaklinga í frumvarpinu. Nefndin tekur undir þá gagnrýni og telur löngu tímabært að orðfæri laga sem fjalla um réttindi fatlaðs fólks og þjónustu við það sé fært til samtímans og sé í samræmi við markmið samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem er að stuðla að því að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra jafnframt því að vernda og tryggja slík réttindi og frelsi, og að auka virðingu fyrir mannlegri reisn þeirra og fjölbreytni. Nefndin leggur því til þá breytingu að í stað þess að nota orðin fatlaðir og fatlaður verði vísað til fatlaðs fólks og fatlaðra einstaklinga. Til samræmis við efni frumvarpsins er jafnframt lagt til að heiti laganna verði lög um málefni fatlaðs fólks.
    Þá áréttar nefndin að sú skylda sem lögð er á stjórnvöld í 1. gr. frumvarpsins um að tryggja heildarsamtökum fatlaðs fólks og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðs fólks á við um alla þá þætti sem frumvarpið og lög um málefni fatlaðs fólks kveða á um. Til að brýna mikilvægi þessa samráðs leggur nefndin til að samráðsákvæði verði bætt við 2. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um stefnumótun og gerð þjónustu- og gæðaviðmiða. Nefndin bendir þó jafnframt á að samráðsskyldan er þar með ekki tæmandi talin og á hún í samræmi við 1. gr. frumvarpsins ávallt við þegar mótuð er stefna eða ákvarðanir teknar er varða málefni fatlaðs fólks.

Stefnumótun.
    Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um að velferðarráðherra fari með yfirstjórn málefna fatlaðs fólks og beri ábyrgð á stefnumótun í málaflokknum. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er gerð athugasemd við að ekki liggi fyrir formleg samþykkt heildarstefna fyrir málaflokkinn. Bent er á að samkvæmt gildandi lögum sé lögð skylda á félagsmálaráðuneytið að móta slíka stefnu. Ríkisendurskoðun leggur í skýrslunni áherslu á að samþykkt verði formlega heildarstefna um þjónustu við fatlað fólk þar sem fram komi skýr forgangsröðun, markviss aðgerðaáætlun og skilgreindir árangursmælikvarðar. Þá þurfi ráðuneytið að fylgja þeirri stefnu eftir gagnvart veitendum þjónustunnar.
    Nefndin telur að betur hefði farið á því að skýr stefna lægi fyrir í málaflokknum áður en þjónustan var færð yfir og að ekki verði unnt með nægilega skýrum hætti að meta árangur af færslunni ef slík stefna liggur ekki fyrir. Án slíkrar stefnumörkunar er hætta á að sú þjónusta sem veitt er og þeir annmarkar sem finna má á henni verði lögfest sem stefna í málaflokknum en ekki að þjónustan taki mið af stefnunni. Þá muni eftirlit ráðuneytisins takmarkast þar sem ekki verði unnt að vísa til ákveðinnar opinberrar stefnu og fylgja henni eftir. Nefndin áréttar því mikilvægi þess að sem fyrst liggi fyrir opinber stefna í málefnum fatlaðs fólks.
    Nefndin bendir þó á að ákveðin stefna kemur fram í frumvarpinu. Markmið frumvarpsins er m.a. að stuðla að heildstæðari og um leið bættri þjónustu við einstaklinga sem þurfa á þjónustunni að halda í daglegu lífi og færa þjónustu nær notendum hennar. Í 33. gr. kemur enn fremur fram að stefnt er að því að gera notendastýrða persónulega aðstoð eitt meginform þjónustu við fatlað fólk. Athugasemdum Ríkisendurskoðunar er þó ekki mætt enda stefnan ekki opinber, ekki kemur fram skýr forgangsröðun, markviss áætlun aðgerða og árangursmælikvarðar eru ekki skilgreindir. Í verkefnastjórn um yfirfærsluna eiga sæti fulltrúar hagsmunasamtaka fatlaðs fólks og Sambands íslenskra sveitarfélaga, þessir aðilar hafa því unnið með félags- og tryggingamálaráðuneyti að þeirri stefnumótun sem felst í frumvarpinu. Nefndin telur mikilvægt að halda þeirri vinnu markvisst áfram og ljúka henni sem fyrst.
    Leggur nefndin því til þá breytingu að í bráðabirgðaákvæði verði kveðið á um að ráðherra skuli eigi síðar en 1. október 2011 leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks þar sem sett verði fram stefna í málaflokknum, skýr forgangsröðun verkefna, markviss aðgerðaáætlun og skilgreindir árangursmælikvarðar. Meðal þeirra aðgerða sem nefndin telur að þurfi að tímasetja í tillögunni eru aðgerðir vegna lögfestingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, aðgengismála, biðlista eftir þjónustu, atvinnumála fatlaðs fólks og samræmds mats á þjónustu. Um tillöguna verður fjallað ítarlega í félags- og tryggingamálanefnd. Þá hyggst nefndin á sama tíma kalla fyrir samráðsnefnd um málefni fatlaðra, sbr. b-lið 34. gr. frumvarpsins, og ræða stefnumörkun og framkvæmd yfirfærslunnar. Nefndin áréttar mikilvægi þess að ráðherra leiti sem víðast samráðs um stefnumörkun í málaflokknum, ekki eingöngu til lögbundinna samráðsaðila heldur jafnframt til fræðasamfélagsins og fagfólks. Nefndin telur ákaflega mikilvægt að fagleg og fræðileg sjónarmið séu höfð að leiðarljósi við mótun stefnunnar.

III. Eftirlit og réttindagæsla.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að eftirlit með þjónustu við fatlað fólk sé óviðunandi. Bent er á að þetta sé einkum alvarlegt vegna þess að oft er um að ræða einstaklinga sem eru ófærir um að standa vörð um réttindi sín vegna fötlunar sinnar. Ríkisendurskoðun telur að taka verði eftirlitshlutverk svæðisráða og trúnaðarmanna til gagngerrar endurskoðunar. Talið er að eftirlitshlutverki svæðisráða sé mjög ábótavant og víða séu ráðin óvirk. Hið sama eigi við um trúnaðarmenn.

i. Réttindagæsla.
    Í frumvarpinu er lagt til að svæðisráð verði lögð niður en trúnaðarmenn starfi undir ráðherra sem ákveði fjölda þeirra. Í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytis kemur fram að það eru nú starfandi nokkrir trúnaðarmenn sem jafngilda einu og hálfu stöðugildi. Þá segir að kostnaður vegna trúnaðarmanna sé áætlaður um 12 millj. kr. og er ekki gert ráð fyrir breytingu á kostnaði vegna þeirra. Ljóst er því af kostnaðargreiningu frumvarpsins að ekki er gert ráð fyrir fleiri trúnaðarmönnum. Nefndin gerir veigamiklar athugasemdir við þetta og telur ljóst að ekki verði unnt að tryggja réttindagæslu fatlaðs fólks nema trúnaðarmönnum verði fjölgað og tryggt verði að skipaðir verði nægilega margir trúnaðarmenn til að tryggja aðgengi alls fatlaðs fólks að trúnaðarmanni. Leggur nefndin því áherslu á að vegalengdir og landfræðilegar aðstæður hamli ekki aðgengi að trúnaðarmönnum. Trúnaðarmenn þurfa jafnframt að vera nægilega margir til að tryggja reglubundið eftirlit og heimsóknir til fatlaðra einstaklinga. Leggur nefndin ríka áherslu á að trúnaðarmenn verði skipaðir hið allra fyrsta og núverandi trúnaðarmenn haldi störfum þar til ráðherra hefur skipað trúnaðarmenn í samræmi við frumvarpið. Skv. a-lið 26. gr. er sett það skilyrði að trúnaðarmenn hafi þekkingu og reynslu af málefnum fatlaðs fólk. Nefndin telur mikilvægt að leitast sé við að ráða fagfólk í störf trúnaðarmanna. Nefndin telur auk þess að tryggja þurfi að trúnaðarmenn geti leitað leiðbeininga, upplýsinga og aðstoðar hjá ráðuneyti og áréttar mikilvægi þess að samræmingaraðili verði til staðar í ráðuneytinu sem svari fyrirspurnum trúnaðarmanna og sé þeim til aðstoðar.
    Þá telur nefndin starfssvið trúnaðarmanna samkvæmt frumvarpinu of þröngt enda tiltekið að trúnaðarmenn séu skipaðir til að treysta réttindi fatlaðra einstaklinga á heimilum fyrir fatlað fólk á ákveðnum afmörkuðum sviðum. Mikilvægt er að allt fatlað fólk hafi sama aðgang að trúnaðarmanni og hvort sem mál varðar einkalíf, vinnu, heimilisaðstæður eða annað. Nefndin leggur til breytingu á ákvæðinu þannig að ekki er vísað sérstaklega til heimila og auk þess falli vísan til einkalífs og meðferðar fjármuna brott. Þessir þættir falla að sjálfsögðu undir þau svið sem trúnaðarmönnum er ætlað að aðstoða fatlað fólk með og treysta réttindi þeirra á en afmarkast þó ekki við þau.
    Að auki telur nefndin rétt að benda á að sú skylda trúnaðarmanna að veita fötluðum einstaklingi nægilegan stuðning og kanna mál tafarlaust getur einnig falið í sér sáttaumleitanir og málamiðlun. Ekki er víst að öll mál sem koma inn á borð trúnaðarmanns séu grundvöllur kæru en skylda trúnaðarmanns til að aðstoða er til staðar engu síður.
    Í g-lið 34. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ráðherra skuli leggja fram frumvarp til laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk eigi síðar en í lok árs 2011. Nefndin hefur kynnt sér málið og m.a. fengið drög að frumvarpi um réttindagæslu til skoðunar. Ljóst er að hér er um mikla réttarbót að ræða sem tryggir fötluðu fólki réttindi samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en trúnaðarmenn hafa ekki þá stöðu sem þyrfti samkvæmt samningnum. Nefndin telur að frumvarpsvinnan sé mjög langt komin og mikilvægt sé að flýta framlagningu frumvarps eins og kostur er. Leggur nefndin því til þá breytingu á b-lið 34. gr. að ráðherra verði gert að leggja frumvarpið fram eigi síðar en 1. mars 2011. Einsýnt er að kostnaðarauki verður af nýju réttindagæslukerfi fyrir fatlað fólk. Nefndin áréttar að tryggja þarf nægilegt fjármagn í verkefnið enda hér um mikilvæga réttarbót að ræða sem tryggja á verndun mannréttinda.
    Ekki verður rætt um réttindagæslu fyrir fatlað fólk án þess að minnast á samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Vinna stendur nú þegar yfir að undirbúningi fyrir fullgildingu samningsins og er stefnt að því að leggja fyrir Alþingi að samningurinn verði lögfestur í heild sinni. Sameinuðu þjóðirnar samþykktu samninginn 13. desember 2006 og opnað var fyrir undirskriftir að honum 30. mars 2007 og skrifaði þáverandi félagsmálaráðherra undir samninginn þann dag fyrir Íslands hönd. Nefndin fagnar því að til standi að lögfesta samninginn.

ii. Eftirlit.
    Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ráðherra fari með eftirlit með framkvæmd laganna, þar á meðal að þjónusta, starfsemi og rekstur sveitarfélaga og annarra aðila samkvæmt lögum þessum sé í samræmi við markmið laganna, reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim og að réttindi fatlaðs fólks séu virt. Ljóst er því að ráðherra fer með ytra eftirlit með framkvæmd þjónustu við fatlað fólk en sveitarfélög innra eftirlit. Í athugasemdum við greinina má sjá að gert er ráð fyrir að sérfræðingi ráðuneytis verði falið að annast eftirlit fyrir hönd ráðherra. Sérfræðingurinn á jafnframt að starfa með trúnaðarmönnum. Í athugasemdum við frumvarpið er þó jafnframt kveðið á um að stefnt sé að því að setja á laggirnar almenna eftirlitsstofnun sem hafi það hlutverk að sinna gæðaeftirliti með félagslegri þjónustu. Fagnar nefndin slíkum áformum enda mikilvægt að eftirlit sé sterkt, virkt og skilvirkt. Verður þetta enn brýnna þegar horft er til þess að eftirlit slíkrar stofnunar snýr að hópum sem eiga oftar en ekki undir högg að sækja, svo sem börnum, öldruðum, fötluðu fólki og fólki sem nýtur þjónustu vegna bágra félagslegra aðstæðna. Pottur hefur víða verið brotinn í eftirliti og mikilvægt að tryggja að eftirlit með þjónustu sé hjá óháðum aðila. Nefndin beinir þeim eindregnu tilmælum til nýs velferðarráðherra að koma eftirlitsþættinum í fastar skorður eða koma á fót eftirlitsstofnun sem allra fyrst.

IV. Þjónusta við fatlað fólk.
    Megintilgangur frumvarpsins er að lögfesta hvernig fara skuli með þjónustu við fatlað fólk. Tryggt á að vera að fatlaðir einstaklingar geti ráðið búsetu sinni þar sem sérdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fari með 80% fjármagns og greiði til sveitarfélaga í samræmi við kostnað af þjónustu sem veita þarf. Mikilvægt er að tryggja að réttur fatlaðra einstaklinga til að flytja milli sveitarfélaga og ráða dvalarstað sínum sé virtur. Nefndin ræddi þetta málefni talsvert. Ljóst er að þjónustuþörf einstaklinga er mismikil. Tryggja þarf að jöfnunarkerfið virki sem skyldi til að ekki verði um vistarbönd fatlaðra einstaklinga að ræða. Telur nefndin ljóst að grunnhugmynd jöfnunarkerfisins sé að fjármagn fylgi einstaklingnum til þess sveitarfélags sem veitir honum þjónustu. Á fundum nefndarinnar með verkefnastjórn þeirri sem vann að yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga kom einnig skýrt fram að fatlaður einstaklingur getur ákveðið að flytja til annars sveitarfélags og það sveitarfélag fær þá greiðslu úr jöfnunarsjóði. Þessi hugmynd er í samræmi við ábendingar hagsmunasamtaka fatlaðs fólks. Er því lagt til að það komi skýrt fram í lagatextanum að fatlaður einstaklingur á rétt á þjónustu þar sem hann kýs að búa. Það þarf þó að liggja fyrir að slík þjónusta getur kallað á fjárfestingar og mannaráðningar og því getur orðið eðlileg töf á því að þjónustan verði til staðar á minni stöðum en halda þarf slíkri töf í lágmarki. Einnig þarf að liggja fyrir að bæta þarf smærri sveitarfélögum brottflutninginn vegna uppsagnartíma o.fl.

i. Samræmd og sambærileg þjónusta.
    Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um eftirlit ráðherra með framkvæmd laganna og segir þar m.a. að markmið eftirlitsins sé m.a. að safna og miðla upplýsingum til að tryggja samræmda þjónustu við fatlað fólk. Einnig að ráðherra skuli gera tillögur til sveitarfélaga um úrbætur á þjónustu þar sem þess er þörf og stuðla að samræmingu hennar. Þeim sjónarmiðum var komið á framfæri við nefndina að þar sem fatlað fólk er afar fjölbreytilegur hópur sé nánast ógerlegt að tryggja öllum samræmda þjónustu. Þannig skipti meira máli að tryggja sambærilega þjónustu í ljósi ólíkra þarfa einstaklinga. Mikilvægt er að horft sé bæði til þjónustuþarfa einstaklings sem og óska hans enda með beinum hætti gert ráð fyrir því í 4. gr. frumvarpsins. Telur nefndin því betur fara á því að tala um sambærilega þjónustu í ljósi ólíkra þarfa og leggur til breytingu hvað þetta varðar. Afar mismunandi þjónustuþörf fatlaðs fólks og frelsi þeirra til að velja sér þjónustu og búsetu verður líka að mæta með fjölbreyttu framboði þjónustu sem tekur mið af mismunandi hugmyndafræði um slíka þjónustu og margvíslegri fötlun. Eitt úrræði hentar einum og annað öðrum og hugmyndafræði kemur og fer. Þess vegna leggur nefndin áherslu á að fjölbreytt þjónustuúrræði, eins og t.d. samfélagið að Sólheimum, verði tryggð í anda þess að fatlaðir einstaklingar geti valið sér búsetu og úrræði.
    Gæta þarf þó að ákveðnu samræmi í þjónustu að því leyti að eitt sveitarfélag bjóði ekki upp á lakari þjónustu en annað og er leiðbeinandi reglum ráðherra ætlað að tryggja ákveðin lágmarksviðmið hvað þetta varðar. Þá er í 2. gr. kveðið á um að ráðherra skuli hafa umsjón með gerð þjónustu og gæðaviðmiða í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Fékk nefndin þær upplýsingar að slík viðmið lægju ekki fyrir en vinna að þeim væri við það að hefjast. Nefndin áréttar mikilvægi þess að viðmið af þessu tagi séu til staðar og beinir þeim eindregnu tilmælum til ráðherra að hann hefji þegar vinnu að gerð þeirra. Þá telur nefndin vert að árétta að samráð verði haft við hagsmunaaðila og bendir á skyldu til þess skv. 1. gr. frumvarpsins. Jafnframt telur nefndin mikilvægt við setningu viðmiða af þessu tagi að leitað sé til fagmanna og fræðasamfélagsins.

ii. Mat á þjónustuþörf.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er bent á mikilvægi þess að haft sé eftirlit með því að nýtt kerfi til að meta þjónustuþörf einstaklinga uppfylli þær kröfur sem til þess eru gerðar, m.a. um að matið sé í raun sambærilegt á landsvísu svo að fatlað fólk njóti jafnræðis. Þá bendir Ríkisendurskoðun á að tryggja verði þjónustan verði fagleg og samræmd um allt land.
    Þeim sjónarmiðum var hreyft fyrir nefndinni að ekki sé tryggt í texta frumvarpsins að mat sé samræmt. Í 4. gr. er kveðið á um að sveitarfélög starfræki teymi fagfólks sem meti heildstætt þörf hins fatlaða einstaklings fyrir þjónustu og hvernig koma megi til móts við óskir hans en ekki sérstaklega tiltekið að mat skuli vera samræmt. Í athugasemdum við greinina er þó minnst á mikilvægi þess að þjónustusvæði geti sameinast um matsteymi, m.a. svo að „ákveðin samræming sé í mati á þjónustuþörfum milli þjónustusvæða“. Í 12. gr. samkomulags ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustu við fatlaða er kveðið á um stýrihóp sem hefur umsjón með framkvæmd tilfærslunnar. Eitt af verkefnum hans er að hafa umsjón með samræmdu mati á þjónustuþörf fatlaðs fólks á landsvísu.
    Nefndin telur með hliðsjón af framansögðu að mat á þjónustuþörf verði samræmt enda liggi fyrir samkomulag ríkis og sveitarfélaga þess efnis. Þá sé ljóst af ákvæðum um eftirlitshlutverk ráðherra að þjónusta eigi að vera samræmd. Þetta komi þó engan veginn í veg fyrir að þjónusta taki mið af gjörólíkum þörfum fatlaðra einstaklinga enda í reynd gert ráð fyrir því að þörf hvers einstaklings sé metin og honum veitt þjónusta í samræmi við matið, þarfir og óskir, sbr. 4. gr. frumvarpsins. Nefndin beinir því til ráðherra að í framkvæmdaáætlun sem fylgi stefnumótunartillögu verði tekið sérstaklega á þessu atriði og farið verði í markvissar aðgerðir til að innleiða samræmt mat á landsvísu.
    Í frumvarpinu og samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustu við fatlaða kemur ekki fram hvaða tiltekna matsaðferð verði notuð til að meta þjónustuþörf einstaklinga. Ljóst er þó að í fyrstu verður notuð útfærsla á svokölluðu SIS-matskerfi (e. Supports Intensity Scale). Matskerfið byggist á mati á þjónustuþörf en nýtist jafnframt við samræmda kostnaðargreiningu á þjónustu við fatlaða einstaklinga.
    Matskerfið var upphaflega þróað til að meta þroskahamlaða einstaklinga og hafa því verið efasemdir hjá öðrum hópum fatlaðs fólks um að matskerfið nýtist nægilega til að meta þörf einstaklinga með annars konar fötlun. Samkomulag hefur þó náðst um að nota SIS-matið við yfirfærsluna en mikilvægt þótti að festa það ekki í lagatexta til að tryggja sveigjanleika og möguleika á því að taka upp aðrar matsaðferðir.

iii. Notendastýrð persónuleg aðstoð.
    Hinn 8. júní 2010 samþykkti Alþingi þingsályktun þar sem félags- og tryggingamálaráðherra var falið að koma á fót notendastýrðri persónulegri aðstoð við fatlað fólk (þskj. 1241, 354. mál 138. löggjafarþings). Var ráðherra gert að leggja fram nauðsynlegar lagabreytingar á yfirstandandi þingi. Hugmyndafræðin á bak við notendastýrða persónulega aðstoð á sér ríka stoð í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en þar segir í 19. gr.: „Ríkin, sem eru aðilar að samningi þessum, viðurkenna jafnan rétt alls fatlaðs fólks til að lifa í samfélaginu og rétt þess til að eiga valkosti til jafns við aðra og skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólki megi njóta þessa réttar til fulls og stuðla að fullri þátttöku þess í samfélaginu án aðgreiningar ...“ . Mikilvægt er að fatlað fólk hafi valkosti við þjónustu og geti valið sér notendastýrða persónulega aðstoð kjósi það svo. Þó verður jafnframt að tryggja að í boði verða aðrar þjónustuleiðir fyrir fatlaða einstaklinga enda skýr áhersla á val einstaklings.
    Notendastýrðri persónulegri aðstoð er m.a. ætlað að tryggja fötluðum einstaklingum réttinn til sjálfstæðs lífs þar sem þeir geti sjálfir ráðið sér aðstoðarfólk og stjórnað sínu lífi þrátt fyrir þörfina á aðstoð annarra. Í viðauka 9 við samkomulag ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustu við fatlaða er farið yfir samstarfsverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð sem auki sjálfstæði og lífsgæði fatlaðs fólk til mikilla muna. Það skipti miklu máli að eiga kost á slíkri þjónustu og því muni notendastýrð persónuleg aðstoð augljóslega verða einn af hornsteinum í þjónustu við fatlað fólk. Þar kemur einnig fram að sveitarfélögin hafi fullan hug á að taka upp notendastýrða persónulega aðstoð og telja mikilvægt að unnið verði skipulega að því markmiði í samráði við hagsmunaaðila.
    Um verkefnið sjálft segir að því verði stjórnað af sameiginlegri verkefnisstjórn ríkis, sveitarfélaga og fulltrúa notenda og unnið verði í nánu samstarfi við miðstöð um notendastýrða persónulega aðstoð. Þá kemur þar fram að sveitarfélög muni bjóða upp á þjónustu við fleiri einstaklinga til að draga úr biðlistum í samræmi við samkomulag ríkis og sveitarfélaga en þeim verði þó ekki skylt að taka ákvarðanir um aukningu kostnaðar umfram það sem forsendur tekjutilfærslu gera ráð fyrir. Í lýsingu verkefnisins kemur enn fremur fram að faglegt og fjárhagslegt mat á því verði hluti heildarmats á tilfærslu þjónustu við fatlað fólk 2014 og að verkefnið verði lögfest sem ákvæði til bráðabirgða í lögum um málefni fatlaðra. Bent er á að ólíklegt sé að lögfesting ein og sér skili ávinningi fyrr en mótaður hefur verið rammi um fyrirkomulag þjónustunnar og reynsla hefur fengist af framkvæmd hennar.
    Gerð er tillaga að ramma um notendastýrða persónulega aðstoð í viðaukanum og kemur þar m.a. fram að sveitarfélög skuli setja sér reglur og gera áætlanir um veitingu þjónustunnar. Þau skuli vinna að því að einstaklingar í ólíkum þjónustuformum geti fengið notendastýrða persónulega aðstoð og þau skuli leitast við að samþætta þjónustu sem nú er veitt af sveitarfélögum. Notendastýrð persónuleg aðstoð verði skipulögð á forsendum notandans og undir verkstjórn hans, hann velur sína starfsmenn sjálfur óháð því hver fer með formlegt vinnuveitendahlutverk, enda uppfylli starfsmaður settar kröfur. Þá er kveðið á um að skilgreina þurfi hvernig farið skuli með eftirlit og að tryggt verði að fötluðu fólki sem þarfnast aðstoðar við ákvarðanatöku fái aðstoð til þess, t.d. með skipan persónulegs talsmanns.
    Í 33. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði um notendastýrða persónulega aðstoð. Er þetta í fyrsta sinn sem kveðið er á um slíka þjónustu í lögum og fagnar nefndin því eindregið. Ákvæðið ber þess þó nokkur merki að um tilraunaverkefni sé að ræða en þjónusta af þessu tagi hefur verið tilraunaverkefni hér á landi til fjölda ára. Hún hefur verið innleidd sem þjónustuleið í mörgum nágrannalanda okkar. Nefndinni þykir fullljóst með vísan til viðauka 9 við samkomulag ríkis og sveitarfélaga að ætlunin með 33. gr. er að innleiða notendastýrða persónulega aðstoð sem þjónustuleið. Ekki er um eiginlega tilraun að ræða heldur er þetta samstarfsverkefni enda margir óvissuþættir sem þarf að ráða fram úr og tryggja að úr verði raunhæf þjónustuleið þar sem réttur fatlaðs einstaklings er tryggður og skýrar reglur mótaðar, m.a. um eftirlit, ábyrgð sveitarfélaga, miðstöðvar og notenda og vinnuveitenda- og verkstjórnarábyrgð. Þá er verkefnið þess eðlis að ekki er unnt að bjóða öllum fötluðum einstaklingum notendastýrða persónulega aðstoð í byrjun innleiðingartímans. Jafnframt þarf að tryggja þjónustuleiðinni fjármagn. Nefndin telur þó að það orðalag ákvæðisins að markmið verkefnisins sé „að prófa leiðir til að taka upp notendastýrða persónulega aðstoða“ geti orðið tilefni misskilnings og sé ekki að fullu í samræmi við verkefnið. Leggur nefndin því til að í stað þess verði markmiðið að þróa leiðir til að taka upp notendastýrða persónulega aðstoð.
    Í 5. mgr. 33. gr. frumvarpsins er kveðið á um að í árslok 2014 skuli ráðherra leggja fram frumvarp til laga þar sem lagt verður til að lögfest verði að persónuleg notendastýrð aðstoð verði eitt meginform þjónustu við fatlað fólk og skal efni frumvarpsins m.a. taka mið af reynslu af framkvæmd samstarfsverkefnisins. Er þetta í samræmi við samkomulag ríkis og sveitarfélaga og viðauka 9 við það. Leggur nefndin því ekki til breytingu hvað þetta varðar en áréttar að reynist unnt að lögfesta slíkar reglur fyrr verði það gert.

iv. Þjónustusamningar og starfsleyfi.
    Í 7. gr. frumvarpsins er kveðið á um að sveitarfélög veiti starfsleyfi til handa félagasamtökum, sjálfseignarstofnunum eða öðrum einkaaðilum sem vilja hefja eða taka við rekstri þjónustustofnunar eða húsnæðisúrræðis. Nefndin telur mikilvægt að ákveðin skilyrði séu sett fyrir veitingu starfsleyfa og leggur til breytingu þess efnis auk þess sem lagt er til að ráðherra kveði nánar á um skilyrðin í reglugerð. Áréttar nefndin að skilyrðin verði í samræmi við stefnu í málaflokknum og að m.a. verði fagleg sjónarmið höfð að leiðarljósi. Þó telur nefndin jafnframt rétt að árétta að skilyrðin skuli vera með því móti að fjölbreytileiki þjónustu verði tryggður auk þess sem tryggt verði að sú þjónusta sem þegar er í boði verði það áfram.
    Þeim sjónarmiðum var komið á framfæri við nefndina að það væri ákveðinn tvíverknaður í því að kveða bæði á um starfsleyfi og þjónustusamning við rekstrar- eða þjónustuaðila. Nefndin kynnti sér framkvæmd sem ráðuneytið hefur viðhaft á þessu sviði en þar er algengt að þjónustusamningar innihaldi jafnframt ákvæði um starfsleyfi og skilyrði þeirra. Telur nefndin ekkert því til fyrirstöðu að sveitarfélögin noti slíkt vinnulag. Þá var þeim sjónarmiðum komið á framfæri við nefndina að kveða þyrfti á um það í ákvæðinu að samningur við starfsleyfishafa geti verið tímabundinn og uppsegjanlegur. Nefndin áréttar að almennar reglur samningaréttar gilda og ekki þurfi að taka þessi atriði fram sérstaklega í lagatexta. Sveitarfélög geti sett ákvæði þess efnis í samninga sem gerðir eru.

v. Leiðbeinandi reglur um framkvæmd þjónustunnar.
    Í 14., 16., 24. og 32. gr. er kveðið á um heimild til handa ráðherra að gefa út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélögin um framkvæmd þjónustu. Nefndinni voru kynnt sjónarmið þess efnis að ekki væri nægilegt að kveða einungis á um leiðbeinandi reglur ráðherra og eftirláta sveitarfélögunum að setja sínar eigin reglur um hana heldur þyrftu reglurnar að vera skuldbindandi fyrir sveitarfélögin. Þá voru nefndinni kynnt andstæð sjónarmið þess efnis að gengið væri fulllangt í reglusetningu sem gæti t.d. hamlað þróun í málaflokknum.
    Nefndin áréttar að sveitarfélögin hafa stjórnarskrárbundinn sjálfsákvörðunarrétt sem ber að virða. Ekki er því vilji til eða efni að setja sveitarfélögunum bindandi reglur. Þá er hætt við að setning slíkra bindandi reglna yrði til þess að sveitarfélög gerðu ekki betur en þær kvæðu á um. Mikilvægt er að tryggja að sveitarfélögin hafi svigrúm til að þróa þjónustu en þeim séu þó sett ákveðin lágmarksviðmið eða lágmarkskröfur. Þá er sú leið sem farin er í frumvarpinu þekkt í framkvæmd enda hefur félags- og tryggingamálaráðuneytið gefið út leiðbeinandi reglur um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, sbr. 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Nefndin leggur þó til breytingu á 16. gr. frumvarpsins til að samræma orðalag hennar við önnur ákvæði frumvarpsins um leiðbeinandi reglur.

vi. Dagvistun fatlaðra ungmenna.
    Á fundunum nefndarinnar var þeim sjónarmiðum komið á framfæri að mikilvægt væri að tryggja ungmennum með fötlun áfram lengda viðveru og dagvistun og vísað þar m.a. til frístundaheimila. Nefndin áréttar að sú þjónusta sem er í boði fyrir tilfærsluna verður áfram í boði eftir hana. Þá er tekið sérstaklega á þessu atriði í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustu við fatlaða þar sem segir í 4. mgr. 5. gr. að framlög ríkisins til sveitarfélaga vegna lengdrar viðveru grunn- og framhaldsskólanema eru hluti af fjárhagsramma samningsins og munu sveitarfélög sinna þessu verkefni með sambærilegum hætti og á undanförnum árum. Nefndin leggur áherslu á að þessu verkefni verði sinnt eftir sem áður enda skiptir lengd viðvera miklu fyrir möguleika viðkomandi einstaklinga til þátttöku í frístundastarfi og varðar möguleika foreldra fatlaðra barna og ungmenna til þátttöku á vinnumarkaði.

vii. Verkefni svæðisskrifstofa.
    Í 12. gr. gildandi laga er kveðið á um viðfangsefni svæðisskrifstofa í málefnum fatlaðra. Í fyrirliggjandi frumvarpi er gert ráð fyrir því að svæðisskrifstofur verði lagðar niður og að 12. gr. falli brott úr lögunum. Nefndin ræddi sérstaklega verkefni svæðisskrifstofa og hvort tryggt væri að þeim yrði áfram sinnt enda bárust nefndinni athugasemdir þess efnis að tryggja þyrfti að mati á umönnunarþörf fatlaðra barna samkvæmt lögum um almannatryggingar yrði áfram sinnt og að fatlað fólk fengi sálfræðiþjónustu og félagsráðgjöf. Nefndin áréttar að við yfirfærsluna á núverandi þjónusta að halda áfram og ekki eigi að minnka hana. Nefndin óskaði þó eftir upplýsingum um mat á umönnunarþörf fatlaðra barna og hvernig tryggt yrði að því verkefni yrði sinnt. Þeim upplýsingum var komið á framfæri að fagteymi sveitarfélaganna skv. 3. mgr. 4. gr. frumvarpsins yrði falið að meta umönnunarþörf. Það mun tryggja að matið verði unnið með faglegum hætti auk þess sem þeir foreldrar sem fá umönnunarbætur samkvæmt slíku mati þurfa oft aðra félagslega þjónustu og umönnunarmat tengist eðlilega þjónustumati fyrir fatlað barn. Með þessu fyrirkomulagi verður því sköpuð samfella í þjónustunni, tryggt að þjónustuþörfin verði metin heildstætt og allar upplýsingar sem þurfi til matsins liggi fyrir. Í ljósi þess leggur nefndin til þá breytingu á 4. gr. frumvarpsins að sveitarfélög geti falið fagteymum það verkefni að annast mat á umönnunarþörf fatlaðra barna.

viii. Ferðaþjónusta fatlaðs fólks.
    Nefndin ræddi sérstaklega ferðaþjónustu fatlaðs fólks, sbr. 35. gr. laganna og 24. gr. frumvarpsins. Í frumvarpinu er lögð til gjaldtökuheimild til handa sveitarfélögum fyrir ferðaþjónustuna en slík heimild er ekki til staðar í gildandi lögum. Sveitarfélög hafa þó innheimt gjald af notendum þjónustunnar en slíkt gjald hefur verið mjög misjafnt milli sveitarfélaga. Telur nefndin mikilvægt að samræmi sé í gjaldtöku þannig að fatlaður einstaklingur greiði ekki meira en aðrir fyrir ferðaþjónustu og leggur til breytingu þess efnis að nýti sveitarfélag gjaldtökuheimild verði gjaldið miðað við gjald fyrir almenningssamgöngur á viðkomandi svæði.
    Þeim sjónarmiðum var komið á framfæri við nefndina að víða væri pottur brotinn í ferðaþjónustunni og til að mynda væru dæmi þess að notendur gætu ekki nýtt sér hana til að ferðast á milli sveitarfélaga. Kveðið er á um leiðbeinandi reglur ráðherra um rekstur ferðaþjónustu fatlaðra auk þess sem sveitarfélög geta sett sér reglur um þjónustuna. Þá hefur nefndinni verið kynnt að samkomulag hafi náðst hjá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu þannig að ferðaþjónusta sveitarfélaga aki notendum þjónustunnar til annarra sveitarfélaga á svæðinu. Jafnframt séu í gangi viðræður hjá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu um sameiginlega ferðaþjónustu eða breyttar útfærslur þar sem m.a. verði reynt að auka aðgengi að almenningssamgöngum. Telur nefndin þetta mikilvægt skref og telur vert að fleiri sveitarfélög skoði slíkt samstarf þar sem aðstæður leyfa.

V.     Kærufrestur.
    Í frumvarpinu er lagt til að stjórnvaldsákvarðanir, þ.e. ákvarðanir um réttindi og skyldur fatlaðs fólks í tengslum við veitingu þjónustu sem teknar eru á grundvelli laganna, verði unnt að kæra til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Kærufrestur er fjórar vikur til samræmis við kærufrest til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, og lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál. Skv. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1997, er almennur kærufrestur þrír mánuðir. Kærufrestur samkvæmt frumvarpinu er því mun styttri. Skýrist það m.a. af því að lög um félagsþjónustu sveitarfélaga voru sett fyrir gildistöku stjórnsýslulaga. Nefndin áréttar mikilvægi þess að kærufrestir séu nægilega rúmir til að gefa einstaklingum færi á að kynna sér rétt sinn og taka upplýsta ákvörðun um kæru. Bent hefur verið á að oft þarf að afla sérfræðiálits til stuðnings kæru og nokkurra vikna bið getur verið eftir tíma hjá sérfræðingi. Þá er trúnaðarmönnum ætlað að aðstoða fatlaða einstaklinga við kærur og mikilvægt er að veita þeim tíma til að setja sig inn í mál viðkomandi og leiðbeina til samræmis við það. Í einstökum tilvikum getur styttri kærufrestur verið réttlætanlegur, t.d. með vísan til þeirra hagsmuna sem í húfi eru, en líkt og fram kemur í athugasemdum við 27. gr. stjórnsýslulaga er æskilegt að ekki séu settir styttri kærufrestir í lög en hinn almenni þriggja mánaða frestur nema brýn þörf verði talin á. Nefndin leggur til þá breytingu að kærufrestur verði þrír mánuðir líkt og mælt er fyrir um í stjórnsýslulögum.
    Þjónusta við fatlað fólk verður eftir tilfærsluna nátengd félagsþjónustu og líklegt að fatlað fólk fái þjónustu á grundvelli bæði laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og laga um málefni fatlaðra. Upp getur því komið sú staða að einstaklingur kæri stjórnvaldsákvörðun eða ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli beggja laga. Mikilvægt er því að samræma kærufresti. Til að tryggja lagasamræmi, skýrleika og réttaröryggi er jafnframt lögð til breyting á kærufresti samkvæmt lögum um húsnæðismál þannig að allar kærur til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála lúti sömu reglum og sama fresti og það sé engum vafa undirorpið. Þá telur nefndin vert að hið nýja velferðarráðuneyti fari með markvissum hætti yfir kærufresti í þeim lögum sem heyra undir ráðuneytið og samræmi þá stjórnsýslulögum nema sérstök brýn sjónarmið mæli gegn því.

VI. Húsnæðismál.
i. Húsaleiga.
    Nefndin ræddi nokkuð húsnæðismál og leiguverð húsnæðis fyrir fatlað fólk. Í 9. gr. frumvarpsins er reglugerðarheimild til handa ráðherra til að setja nánari reglur um húsnæðisúrræði í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, þar á meðal hvernig ákveða skuli fjárhæð húsaleigu í húsnæðisúrræðum og breytingar á þeirri fjárhæð. Varð nefndin vör við nokkra óvissu meðal hagsmunasamtaka fatlaðs fólks og ugg um að leiguverð færi hækkandi eftir að sveitarfélög tækju að sér að veita þjónustuna.
    Í 12. gr. samkomulags ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustu við fatlaða er kveðið á um að eitt af verkefnum stýrihóps sem hefur umsjón með framkvæmd tilfærslunnar sé að vinna greiningu og tillögur í því skyni að auka gagnsæi húsnæðiskostnaðar og tryggja jafnræði í húsaleigugreiðslum fatlaðra einstaklinga og leggja fram áfangaskipta áætlun um framkvæmd.
    Fram komu upplýsingar þess efnis á fundi nefndarinnar að vinna að gerð reglugerðar um húsnæðisúrræði væri langt komin en gert væri ráð fyrir því að leiguverð héldist hið sama við yfirfærsluna. Þá verði hún hækkuð í áföngum en á móti komi almennar og sérstakar húsaleigubætur. Verður húsaleiguverði ætlað að endurspegla raunkostnað en svo komi til almennar niðurgreiðslur til að greiða niður leiguverð til ákveðinna hópa, m.a. er litið til þess að sömu reglur gildi um fatlaða einstaklinga og aðra öryrkja.
    Nefndin telur vert að árétta að þrátt fyrir að einungis sé kveðið á um samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga í ákvæðinu sjálfu á 1. gr. frumvarpsins við og því ljóst að stjórnvöld skuli tryggja heildarsamtökum fatlaðs fólks og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun. Þar sem stýrihópnum er ætlað verkefni við greiningu og tillögugerð um húsaleigu telur nefndin rétt að benda á að í honum sitja tveir fulltrúar hagsmunasamtaka fatlaðs fólks. Nefndin leggur ekki til breytingar á ákvæðinu enda sé með vísan til framangreinds stjórnvöldum skylt að setja reglur um húsnæði að viðhöfðu samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks og aðildarfélög þeirra.

ii. Framkvæmdasjóður fatlaðra.
    Gert er ráð fyrir að Framkvæmdasjóður fatlaðra verði lagður niður og fjármunir sem í sjóðnum eru renni til sérstakrar deildar í Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Ljóst er að einhver af þeim verkefnum sem sjóðurinn hefur samkvæmt gildandi lögum falla niður við yfirfærsluna. Meðal þeirra eru verkefni sem stuðla að bættu aðgengi opinberra bygginga. Mikilvægt er að setja skýra stefnu í aðgengismálum og tryggja aðgengi fyrir alla, ekki einungis að byggingum heldur að samfélaginu í heild. Setja þarf fram markmið hvernig og hvenær unnt verði að tryggja slíkt. Telur nefndin því eðlilegt að tekið verði á aðgengismálum í framkvæmdaáætlun ráðherra og að unnið verði markvisst að því að bæta aðgengi bæði að opinberum byggingum sem og samfélaginu í heild.

VII. Atvinnumál.
    Í frumvarpinu er áfram gert ráð fyrir að atvinnumál fatlaðs fólks verði að meginefni til verkefni ríkisins og m.a. lögð til sú breyting að vinnumarkaðsaðgerðir fyrir fatlað fólk færist yfir til Vinnumálastofnunar og um þau gildi lög um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006. Þó er gert ráð fyrir að sveitarfélögin sinni þessari þjónustu á árinu 2011. Nefndinni voru kynnt ýmist sjónarmið um atvinnumál fatlaðs fólks. Meðal annars var ítrekað mikilvægi þess að færa nú þegar þessi málefni til Vinnumálastofnunar og að fatlað fólk væri ekki aðgreint að þessu leyti frá öðrum hópum samfélagsins. Þá var bent á að betra væri að hafa verkefnið hjá sveitarfélögum, samþætta það við aðrar félagsþjónustu og tryggja fötluðum einstaklingum nærþjónustu hvað vinnumál varðar. Ljóst er að ekki eru allir sammála um hvernig atvinnumálum fatlaðs fólks sé best komið fyrir. Jafnframt benti Vinnumálastofnun á í umsögn sinni að eðlilegt væri að stofnunin tæki yfir Atvinnu með stuðningi strax um áramót í stað þess að gera þjónustusamninga við viðkomandi einingar. Nefndin telur mikilvægt í þessu tilviki að unnið verði að því að koma þessum málum í fast horf í nánu samráði við notendur þjónustunnar. Bendir nefndin í þessu sambandi á að í 12. gr. samkomulags ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustu við fatlaða er stýrihópi um framkvæmd tilfærslunnar m.a. falið að vinna að framtíðarfyrirkomulagi atvinnumála fatlaðs fólks. Í stýrihópnum eiga hagsmunasamtök fatlaðs fólks tvo fulltrúa. Þá er ljóst að ekki er unnt að færa Atvinnu með stuðningi að fullu yfir til Vinnumálastofnunar að sinni enda þurfi þá að taka upp fjárhagslegan grundvöll yfirfærslunnar og semja upp á nýtt. Ekki er unnt að ljúka þeirri vinni á þeim stutta tíma sem er til áramóta og því verður að styðjast við þjónustusamninga þar til stýrihópurinn lýkur vinnu sinni að tillögum að framtíðarfyrirkomulagi atvinnumála fatlaðs fólks. Þeirri vinnu verður lokið á næsta ári enda tekur nýtt fyrirkomulag í atvinnumálum gildi 1. janúar 2012, sbr. a-lið 34. gr. frumvarpsins. Þar sem vinnunni hefur verið komið í farveg leggur nefndin ekki til breytingar en áréttar mikilvægi þess að réttindi fatlaðs fólks séu höfð í forgrunni, að því standi sambærileg úrræði til boða og öðrum og að unnið sé að málefnum er snerta hagsmuni og réttindi fatlaðs fólks í nánu samstarfi við hagsmunasamtök þess.

VIII. Stjórnsýsluhlutverkið framselt til þjónustuaðila.
    Nefndinni voru kynnt sjónarmið þess efnis að óeðlilegt væri að taka fram í samningi við þjónustu- eða rekstraraðila að stjórnsýslulög og meginreglur stjórnsýsluréttar gildi um þá stjórnsýslu sem aðilinn annast á grundvelli samnings, sbr. b-lið 7. gr. frumvarpsins. Byggðist rökstuðningur á því að þjónustu- eða rekstraraðili annaðist að meginstefnu til þjónustu en ekki stjórnsýslu.
    Nefndin áréttar að framkvæmd þjónustu samkvæmt samningi er þjónustustarfsemi og stjórnsýslulög eiga ekki við um slíka starfsemi. Þó getur verið að með samningi sé þjónustuaðila falin stjórnsýsla eða að óskýr skil séu milli þess að veita þjónustuna og taka ákvörðun um hana, sem er stjórnvaldsákvörðun. Af athugasemdum við 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/ 1993, segir að það „getur verið álitamál hvort ákvarðanir sem tengjast opinberri þjónustu falli undir lögin. Í því efni verður að líta til þess hvort ákvörðunin lýtur fyrst og fremst að útfærslu og framkvæmd þjónustunnar […] eða hvort ákvörðun er fremur lagalegs eðlis. […] Þannig verður að líta til þess hvers eðlis ákvörðun er, en ekki eingöngu til þess hver tekur hana og hvers efnis hún er.“ Mikilvægt er að tryggja að réttur fatlaðs einstaklings til að kæra ákvörðun sé tryggður hverjum svo sem er falið ákvörðunarvald. Nefndin gerir því ekki breytingar á ákvæðinu og áréttar jafnframt að það er úrskurðarnefndar um félagsþjónustu og húsnæðismál að úrskurða hvort um stjórnvaldsákvörðun hafi verið að ræða.
    Þá voru nefndinni kynnt sjónarmið þess efnis að sveitarfélög færu með mjög víðtækt hlutverk samkvæmt frumvarpinu þar sem þau sæju um framkvæmd þjónustunnar, framseldu framkvæmdina með samningi og hefðu eftirlit. Nefndin telur slíkt ekki ósamræmanlegt stjórnsýslulögum enda er tryggt að eftirlit er jafnframt hjá ráðherra. Þá sé eðlilegt að verkkaupi hafi eftirlit með þeim aðila sem hann kaupir þjónustu af og með því að þjónusta sé í samræmi við samning. Þetta sé ekki hvað síst mikilvægt þegar þjónustan er veitt á sviði velferðarmála.

IX. Skýrsla Ríkisendurskoðunar um þjónustu við fatlaða.
    Ríkisendurskoðun taldi í skýrslu sinni að skipulagi og stjórn málaflokksins væri að ýmsu leyti ábótavant og benti á eftirfarandi veikleika:
     1.      Ekki liggur fyrir formlega samþykkt heildarstefna fyrir málaflokkinn þar sem aðgerðir eru tímasettar og árangursmælikvarðar skilgreindir.
     2.      Fjárveitingar til þjónustunnar taka ekki mið af reglubundnu mati á þjónustuþörf eins og lög gera ráð fyrir.
     3.      Eftirlit með starfsemi þjónustuaðila er ófullnægjandi og ekki hægt að fullyrða að jafnræði ríki meðal þjónustuþega. Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur ekki kallað eftir samræmdum upplýsingum um starfsemi þjónustuaðila frá árinu 2004.
     4.      Meginþættir í faglegri starfsemi þjónustuaðila fylgja ekki samræmdum verklagsreglum og því er ekki hægt að fullyrða að þjónustan sé jöfn að gæðum hjá þeim öllum. Þá liggur ekki fyrir með hvaða hætti þjónustusamningar einstakra sveitarfélaga við ríkið hafa verið uppfylltir.
     5.      Kostnaður er ekki bókfærður með sambærilegum hætti hjá öllum þjónustuaðilum sem m.a. hamlar raunhæfum samanburði á einstökum útgjaldaliðum málaflokksins.
    Þá kom stofnunin með ábendingar til félags- og tryggingamálaráðuneytisins í níu liðum vegna yfirfærslunnar og telur nefndin mikilvægt að fara yfir hvernig athugasemdum og ábendingum stofnunarinnar er mætt í fyrirliggjandi frumvarpi sem og breytingartillögum nefndarinnar.
    1. Ljúka þarf stefnumótun fyrir málaflokkinn.
    Ríkisendurskoðun leggur áherslu á að samþykkt verði formlega heildarstefna um þjónustu við fatlað fólk þar sem fram komi skýr forgangsröðun, markviss aðgerðaáætlun og skilgreindir árangursmælikvarðar. Líkt og fram hefur komið hefur slík formleg stefna ekki verið samþykkt þótt fyrirliggjandi frumvarp endurspegli ákveðna stefnu. Nefndin leggur til breytingartillögu þess efnis að ráðherra skuli eigi síðar en 1. október 2011 leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks þar sem m.a. komi fram stefna í málaflokknum. Áréttar nefndin þó mikilvægi þess að hafin verði vinna við þessa stefnumótun hið fyrsta og hún verði unnin í markvissum skrefum fram að því að frumvarp að nýjum lög um málefni fatlaðs fólks kemur fram 2014.
     2. Þjónustumat verður að vera samræmt.
    Ekki er kveðið á um matsaðferð í lagatextanum en þó hefur náðst samkomulag um að nota SIS-mat við yfirfærsluna og því tryggt að um samræmt mat verður að ræða. Vegna mismunandi skoðana og andstöðu vissra hópa notenda þjónustunnar þótti mikilvægt að festa matsaðferðina ekki í lagatexta, tryggir það ákveðinn sveigjanleika og möguleika á því að taka síðar upp aðrar matsaðferðir. Skv. 2. gr. frumvarpsins hefur ráðherra eftirlitshlutverki að gegna sem m.a. er ætlað að tryggja samræmi. Þá er í 12. gr. samkomulags ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustu við fatlaða kveðið á um stýrihóp sem hafi umsjón með framkvæmd tilfærslunnar. Eitt af verkefnum hans verður að hafa umsjón með samræmdu mati á þjónustuþörf fatlaðra einstaklinga á landsvísu.
     3. Rekstrarupplýsingar þurfa að vera aðgengilegar.
    Í 2. gr. frumvarpsins er ráðherra veitt heimild til reglugerðarsetningar þar sem m.a. verði kveðið á um framkvæmd eftirlits og upplýsingaskyldu sveitarfélaga. Nefndin telur því að þar verði unnt og skuli setja reglur sem tryggja að rekstrarupplýsingar séu aðgengilegar og séu með samræmdum hætti.
    Í 7. gr. er ákvæði sambærilegt 53. gr. gildandi laga þar sem gert er ráð fyrir að þjónustu- og rekstraraðili, sem gerður hefur verið þjónustusamningur við á grundvelli ákvæðis þessa, skili til hlutaðeigandi sveitarfélags eða sveitarfélaga, sem eru viðsemjendur þjónustu- og rekstraraðila, ásamt velferðarráðuneyti og Ríkisendurskoðun, árlega ársreikningi undirrituðum af löggiltum endurskoðanda ásamt skýrslu um starfsemi liðins árs.
     4. Gera verður Grósku að virku stjórntæki.
    Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að upplýsingakerfið Gróska gefi góða yfirsýn um málaflokkinn og verði það stjórntæki sem því er ætlað að vera. Ekki er tekið sérstaklega á þessu atriði í frumvarpinu eða samkomulaginu enda sveitarfélögin sem bera ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustunnar. Á fundum nefndarinnar hefur komið fram að sveitarfélög nýta mörg hver sín eigin upplýsingakerfi sem þau hafa þróað og þar sem unnt er að halda heildstætt utan um upplýsingar. Munu þau gera það áfram eftir yfirfærsluna. Nefndin telur mikilvægara að upplýsingaöflun sé til staðar en að ákveðið kerfi sé notað. Þá áréttar nefndin að í reglugerð ráðherra þar sem kveðið verði á um upplýsingaskyldu sveitarfélaga verður unnt að tryggja samræmda upplýsingagjöf til ráðuneytisins.
     5. Tryggja þarf samræmi þjónustunnar.
    Líkt og þegar hefur komið fram telur nefndin mikilvægt að þjónusta sem veitt er sé sambærileg í ljósi ólíkra þarfa einstaklinga. Gæta þarf þó að ákveðnu samræmi í þjónustu að því leyti að eitt sveitarfélag bjóði ekki upp á lakari þjónustu en annað og er leiðbeinandi reglum ráðherra ætlað að tryggja ákveðin lágmarksviðmið hvað þetta varðar. Þá er í 2. gr. kveðið á um að ráðherra skuli hafa umsjón með gerð þjónustu- og gæðaviðmiða í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Áréttar nefndin mikilvægi þess að slík viðmið verði sett hið fyrsta.
     6. Endurskoða verður starfsemi svæðisráða og trúnaðarmanna.
    Þegar hefur verið farið yfir athugasemdir Ríkisendurskoðunar hvað þetta varðar og telur stofnunin að svæðisráðin séu víða óvirk og hið sama megi segja um trúnaðarmenn sem starfa á vegum svæðisráðanna. Með fyrirliggjandi frumvarpi eru svæðisráðin lögð niður. Trúnaðarmenn munu heyra undir ráðherra og er í frumvarpinu kveðið á um að hann ákveði fjölda þeirra. Nefndin telur mikilvægt að þar til ný löggjöf um réttindagæslu fyrir fatlað fólk verði sett sé trúnaðarmannakerfið styrkt. Nefndin leggur til breytingu sem miðar að því að víkka hlutverk trúnaðarmanna auk þess sem því er eindregið beint til ráðherra að trúnaðarmenn verði nægilega margir til að sinna lögbundnum skyldum sínum og tryggja rétt fatlaðs fólks.
    Nefndin leggur auk þess til breytingu sem miðar að því að flýta framlagningu frumvarps um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Þá eru gerðar í frumvarpinu breytingar á eftirliti með þjónustu við fatlað fólk þar sem innra eftirlit verður í höndum sveitarfélaga en ytra eftirlit hjá ráðuneyti. Nefndin ítrekar þó mikilvægi þess að flýta því eins og kostur er að koma á fót eftirlitsstofnun með velferðarþjónustu.
     7. Móta verður reglur um hámarksbiðtíma.
    Ekki er gert ráð fyrir reglum um biðtíma í frumvarpinu enda taka sveitarfélögin við þjónustunni með þeim biðlistum sem eru til staðar. Þó segir í athugasemdum við frumvarpið að gert sé ráð fyrir því í frumvarpi til fjárlaga að ríkissjóður leggi til framlög sem ætlað er að nýta í þróun á notendastýrðri persónulegri aðstoð til að eyða biðlista eftir þjónustu við fatlað fólk. Nefndin telur ljóst að stefnt er að því að eyða biðlistum. Mikilvægt er þó að sett séu skýr viðmið og markmið um hvernig ná eigi slíku fram og telur nefndin slíkt eiga heima í framkvæmdaáætlun þeirri sem fylgja skuli þingsályktunartillögu um stefnumótun í málaflokknum.
     8. Fjárveitingar byggist á reglulegu mati á þjónustuþörf.
    Byggt er á samræmdu mati við mat á þjónustuþörf sem nýtist jafnframt við samræmda kostnaðargreiningu á þjónustu við fatlaða einstaklinga. Gert er ráð fyrir sérstakri deild í Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem tryggja skal að tekjuaukning einstakra sveitarfélaga endurspegli kostnaðarmun vegna mismunandi fjölda fatlaðra íbúa og ólíkra þjónustuþarfa þeirra. Í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustu við fatlaða er í 12. gr. um stýrihópinn tiltekið að skuli m.a. vinna að útfærslu jöfnunaraðgerða og hafa umsjón með samræmdu mati á þjónustuþörf fatlaðs fólks á landsvísu.
     9. Tryggja þarf að unnt sé að meta mögulegan ávinning af flutningi málaflokksins.
    Ríkisendurskoðun bendir á að til að unnt verði að meta faglegan og fjárhagslegan ávinning flutningsins að þremur árum liðnum þurfi að skilgreina mælikvarða og liggja þarf fyrir mat á núverandi stöðu. Nefndin telur að verkefnahópur um yfirfærsluna hafi þegar kortlagt stöðu málaflokksins fyrir yfirfærslu. Þá er kveðið á um það í b-lið 34. gr. frumvarpsins að ráðherra skipi samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks sem ætlað er að vera ráðherra og sveitarfélögum til ráðgjafar um málefni fatlaðs fólks. Einnig er lagt til að nefndin hafi umsjón með framkvæmd á yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk ásamt því að gera tillögur um breytingar á tilhögun yfirfærslunnar, eftir því sem ástæða þykir til. Er þetta í samræmi við 12. gr. samkomulagsins þar sem stýrihóp um tilfærsluna er falið sama verkefni. Gert er ráð fyrir að nefndin starfi fram til þess að mati á yfirfærslu málaflokksins verður lokið eða til loka árs 2014. Ljóst er að samráðsnefndin eða stýrihópurinn mun vera í stöðu til að meta ávinning af flutningi málaflokksins og er stýrihópnum falið skv. 12. gr. samkomulagsins að leggja reglubundið mat á framkvæmd og árangur tilfærslunnar. Þá er í breytingartillögu nefndarinnar um þingsályktun ráðherra um framkvæmdaáætlun kveðið á um að þar skuli koma fram stefna í málaflokknum, skýr forgangsröðun verkefna, markviss aðgerðaáætlun og skilgreindir árangursmælikvarðar. Nefndin telur því að þessari ábendingu Ríkisendurskoðunar hafi verið mætt en áréttar mikilvægi þess að samráðsnefndin/stýrihópurinn verði skipuð sem fyrst.

X.     Heildarendurskoðun laga um málefni fatlaðs fólks.
    Í h-lið 34. gr. frumvarpsins er kveðið á um að endurskoða skuli lögin í heild sinni fyrir árslok 2014. Í athugasemdum við frumvarpið segir: „Ástæða þess að ekki var ráðist í heildarendurskoðun á lögunum samhliða yfirfærslu málaflokksins nú er sú að talið var mjög erfitt að ráðast í stórfelldar breytingar á innihaldi og framkvæmd þjónustunnar á sama tíma og leitast var við að ná með heildstæðum hætti yfir þau verkefni sem flytjast ættu til sveitarfélaga.“ Þá er áhersla lögð á að ákveðin reynsla verði komin á þjónustu sveitarfélaganna við fatlað fólk sem og notendastýrða persónulega aðstoð áður en lagarammi er festur um þjónustuna.
    Hagsmunasamtök fatlaðs fólks og notendur þeirrar þjónustu sem kveðið er á um í fyrirliggjandi frumvarpi hafa gert athugasemdir við tímasetningu heildarendurskoðunar og talið mikilvægt að flýta henni eins og kostur er. Hefur nefndin fullan skilning á þeim sjónarmiðum enda mikil stöðnun verið undanfarin ár í málaflokknum sem og í þjónustu við fatlað fólk. Nefndin áréttar þó að fyrir liggur samkomulag ríkis og sveitarfélaga um yfirfærslu þjónustunnar þar sem m.a. er kveðið á um faglegt og fjárhagslegt endurmat hennar. Líkt og fram kom á fundum nefndarinnar eru einungis þrjú reikningsár til 2014 og var þeim sjónarmiðum komið á framfæri við nefndina að vegna þessa væri erfitt að kveða á um styttri tíma til að gera slíkt mat.
    Nefndin telur að leiðin að endurskoðun hafi þó verið vörðuð. Breytingartillögur nefndarinnar tryggja að árin fram að því að endurskoðun ljúki verði notuð, m.a. til að tryggja réttindagæslu fyrir fatlað fólk enda leggur nefndin til að frumvarp þess efnis verði lagt fram eigi síðar en 1. mars 2011. Þá leggur nefndin til breytingu sem miðar að því að tryggja að sett verði opinber og skýr stefnu í málaflokknum með tillögu um að ráðherra leggi fram framkvæmdaáætlun 1. október 2011 þar sem fram komi stefna í málaflokknum, skýr forgangsröðun verkefna, markviss aðgerðaáætlun og skilgreindir árangursmælikvarðar. Meðal þeirra aðgerða sem nefndin telur að þurfi að tímasetja í tillögunni eru aðgerðir vegna lögfestingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, aðgengismála, biðlista eftir þjónustu, atvinnumála fatlaðs fólks og samræmds mats á þjónustu. Að auki hefur nefndin brýnt mikilvægi þess að eftirlitsstofnun með velferðarþjónustu verði komið á fót. Ljóst er að samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks mun starfa fram að heildarendurskoðun og hafa m.a. umsjón með framkvæmd á yfirfærslunni og gera tillögur um breytingar eftir því sem ástæða er til. Málaflokkurinn er því ekki skilinn eftir í tómarúmi heldur tiltekin næstu skref í átt að heildarendurskoðun hans. Nefndin ítrekar mikilvægi þess að þegar verði hafin vinna sem nýtast mun við heildarendurskoðun og beinir því til ráðherra að stuðla að því að vinna slíkrar endurskoðunar liggi fyrir í formi frumvarps 1. október 2014. Nefndin mun fylgja vinnunni eftir og halda fundi með samráðsnefndinni og ráðuneytinu, fara yfir stöðu mála og kalla eftir frekari gestum og upplýsingum telji hún þess þörf.
    Nefndin leggur að auki til breytingu sem miðar að því að tryggja að meðferð upplýsinga sé í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, og að upplýsingar um þjónustu við fatlað fólk sem til eru á svæðisskrifstofum flytjist án vandkvæða til nýrra framkvæmdaraðila þjónustunnar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir í áliti þessu og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Ásmundur Einar Daðason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 14. des. 2010.Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form., frsm.


Ólafur Þór Gunnarsson.


Pétur H. Blöndal.Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Guðmundur Steingrímsson.


Unnur Brá Konráðsdóttir.Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.