Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 200. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 572  —  200. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Frá 2. minni hluta efnahags- og skattanefndar.



    Í frumvarpinu er lagt til:
          Að fjármagnstekjuskattur verði hækkaðir úr 18% í 20%. Fjármagnstekjuskattur var hækkaður úr 10% í 15% 1. janúar 2009 og í 18% 1. janúar 2010. Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum hefur skatturinn því tvöfaldast á aðeins tveimur árum.
          Að tekjuskattur lögaðila verði hækkaðir úr 18% í 20%. Verði frumvarpið að lögum hefur sá skattur hækkað um liðlega 33% á tveimur árum.
          Að hinn nýi auðlegðarskattur verði hækkaður úr 1,25% í 1,5% og eignamörk einstaklinga lækkuð úr 90 millj. kr. í 75 millj. kr. og eignamörk hjóna úr 120 millj. kr. í 100 millj. kr.
          Að erfðafjárskattur verði tvöfaldaður, þ.e. hækki úr 5% í 10% og skattleysismörkin hækkuð úr 1 millj. kr. í 1,5 millj. kr.
          Að kolefnisgjald, sem komið var á með lögum nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta, hækki um nálægt 50% í flestum gjaldflokkum.
          Að barnabætur vegna barna yngri en sjö ára verði skertar af tekjum og að tekjuskerðingarhlutfall vegna eins barns verði hækkað úr 2% í 3%. Ekki er þó gert ráð fyrir breytingu á skerðingarhlutfalli þegar börnin eru fleiri en eitt.
          Að tekjutenging vaxtabóta verði 7% í stað 6% nú og að því til viðbótar verði þannig ákvarðaðar vaxtabætur síðan skertar um 8% hjá öllum bótaþegum.
          Að svokallaðir krónutöluskattar verði hækkaðir um 4%.
    Til viðbótar framangreindu eru lagðar til auknar álögur á áfengi og tóbak og lagt til að bensíngjald, olíugjald og kílómetragjald hækki um 4%. Auk þess er í frumvarpinu gert ráð fyrir gjaldskrárhækkunum ýmissa stofnana og fyrirtækja ríkisins, svo sem hækkun útvarpsgjalds, hækkun vitagjalds og gjalds í framkvæmdasjóð aldraðra.
    Jafnframt er gert ráð fyrir kerfisbreytingu á bifreiðagjaldi og vörugjöldum bifreiða sem á að skila 200 millj. kr. aukalega í ríkissjóð. Þannig hækka álögur á bifreiðaeigendur enn frekar. Þessi kostnaður er orðinn mjög íþyngjandi fyrir mörg heimili. Í nýrri skýrslu Hagstofunnar kemur fram að kostnaður fólks á landsbyggðinni við rekstur bifreiða er þriðjungi hærri en fólks á höfuðborgarsvæðinu. Stefna ríkisstjórnarinnar við kerfisbreytingu á vörugjöldum á bifreiðum mun auka enn frekar þetta misvægi þar sem fólk á landsbyggðinni þarf frekar að eiga vel útbúna bíla en fólk á höfuðborgarsvæðinu.
    Þegar frumvarpið var lagt fram var gert ráð fyrir 4% verðbólgu á næsta ári og átti að hækka gjöldin í samræmi við þá spá. Samkvæmt nýjum forsendum og versnandi horfum í efnahagsmálum er spáð 2,3% verðbólgu. Hins vegar eru ekki gerðar tillögur um að breyta hækkun á gjöldum til samræmis við það. Þannig mun olíu- og kílómetragjald hækka að raunvirði um 1,7% á næsta ári. Almenningur mun borga hærri reikninga vegna þessarar stefnu stjórnvalda um hækkanir á gjöldum og sköttum. Í mörgum þeirra umsagna sem bárust um frumvarpið er bent á að verðlagshækkanir hækki ekki aðeins verð á vörum og þjónustu og minnki þar með ráðstöfunartekjur heimilanna heldur muni þær einnig hækka greiðslubyrði af verðtryggðum lánum og ekki er nú á það bætandi. Lán heimilanna vegna hækkunar á sköttum og gjöldum munu því hækka um 2,4 milljarða kr. líkt og Alþýðusamband Íslands bendir á í sinni umsögn. Það er erfitt fyrir þá sem hafa talað fyrir almennri leiðréttingu á stökkbreyttum skuldum heimilanna að þurfa að horfast í augu við þá ríkisstjórn sem veitist stöðugt að heimilunum með gjaldahækkunum sem þessum.
    Eina stefnan sem ríkisstjórnin virðist hafa til að auka tekjur ríkissjóðs er að hækka skatta og til þess að reyna að ná fram jöfnuði á að skera niður í stað þess að reyna að fara þriðju leiðina, að auka verðmætasköpun í samfélaginu. Þá þyrfti ekki að ganga eins hart fram gagnvart heimilum og fyrirtækjum og raun ber vitni. Í umsögn Alþýðusambands Íslands er bent á að afleiðingar óbreytts frumvarps verði þær að ráðstöfunartekjur heimilanna skerðist um 1%. 2. minni hluti telur að íslenskt atvinnulíf og íslensk heimili hljóti að hafa einhver þolmörk gagnvart endalausum skattahækkunum ríkisstjórnarinnar.
    Líkt og fram kemur í áliti 2. minni hluta efnahags- og skattanefndar til fjárlaganefndar um tekjugrein fjárlagafrumvarpsins þá stenst tekjuhlið fjárlagafrumvarps ríkisstjórnarinnar fyrir 2011 því miður ekki miðað við þær forsendur sem fólust í fjárlagafrumvarpinu við framlagningu þess (sjá fskj.). Talið er að samdráttur hagvaxtar frá því að frumvarpið var lagt fram geti numið allt að 20 milljörðum kr., sé miðað við nýjustu þjóðhagsspá Hagstofu Íslands. Þessi lækkun hefur veruleg áhrif á afkomu ríkis og sveitarfélaga, en helmingur þeirrar fjárhæðar hefði runnið til þeirra. En hér er miðað við spá Hagstofu Íslands sem er í bjartsýnni kantinum sé miðað við aðra aðila sem hafa spáð fyrir um hagþróun næsta árs. Þannig spáir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins einungis 0,7% hagvexti. Ef sú spá gengur eftir mun efnahagssamdrátturinn ekki verða 20 milljarðar kr. heldur 45–50 milljarðar kr. Þessi dökka spá Evrópusambandsins er rökstudd með þeim hætti að skuldavandi heimilanna muni bitna á innlendri eftirspurn og þannig minnka eftirspurnina í hagkerfinu með tilheyrandi afleiðingum fyrir atvinnlífið og meira atvinnuleysi heldur en ella. Hörð gagnrýni kemur þar fram á úrlausnir um skuldavanda heimilanna þar sem flækjustigið er svo hátt.
    Fram hefur komið hjá Samtökum atvinnulífsins að auknar tekjur vegna skattahækkana á þessu ári séu mun minni er stjórnvöld áætluðu við gerð fjárlaga ársins 2010. Gert var ráð fyrir auknum tekjum upp á 56 milljarða kr. en niðurstaða þessa árs er sú að einungis 29 milljarðar kr. hafa skilað sér. Það vantar því um 27 milljarða kr. í ríkissjóð árið 2010. Í umræðu um skattamál fyrir síðustu áramót vöruðu framsóknarmenn við því að hækka skatta svo mikið sem raun bar vitni. Þeirri gagnrýni var vísað á bug af hálfu stjórnarflokkanna sem verða nú að horfast í augu við veruleikann – þessi efnahagsstefna gengur ekki upp.
    Í tíð vinstri stjórnarinnar hafa miklar breytingar orðið á skattkerfinu. Kerfinu var gjörbreytt á nokkrum dögum í meðförum Alþingis. Það verklag sem var viðhaft þá er einsdæmi á síðari tímum í lagasetningu á svo mikilsverðu sviði sem skattkerfið er. Enda hefur það komið á daginn að mörg mistök voru gerð við lagasetninguna sem hafa verið lagfærð á þessu ári. Mikil gagnrýni umsagnaraðila um þessa stefnu ætti að gefa vísbendingu um að þjóðfélagið sé á rangri braut í þeim efnum. Fyrir utan það að hluti ríkisstjórnarinnar er beinlínis á móti erlendri fjárfestingu hefur aukið flækjustig og tíðar breytingar á skattkerfinu fælt fjárfesta frá því að koma að uppbyggingu íslensks efnahagslífs. Hvað varðar fjárfestingar í íslensku atvinnulífi má benda á umsögn Deloitte um frumvarpið þar sem segir orðrétt: „Fyrirtæki, sem að öðru leyti væru tilbúin til fjárfestinga hérlendis sjá að óstöðugt skattaumhverfi og hækkun skatta, eykur beinan kostnað fyrirtækja og takmarkar fjárfestingargetu þeirra til þátttöku í nýjum verkefnum.“
    Í forsendum tekjuhliðarinnar er gert ráð fyrir um 5% hækkun launa á almennum vinnumarkaði en ekki er gert ráð fyrir neinum hækkunum á launum til opinberra starfsmanna á útgjaldahliðinni. Þessi aðferð „fegrar“ bæði útgjalda- og tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins. Í raun má velta þeirri spurningu upp hvort að verið sé vísvitandi að gefa ranga mynd af stöðu ríkisfjármála árið 2011.
    Í tilefni af hækkun álaga á eldsneyti og bifreiðar benti Öryrkjabandalag Íslands á að mikilvægt væri að hafa í huga að hreyfihamlaðir hefðu ekki tök á að nýta sér kosti umhverfisvænni bifreiða en þær uppfylltu ekki kröfur um aðgengi, auk þess sem hreyfihamlaðir öryrkjar á bótum almanantrygginga hefðu ekki efni á að kaupa sér nýjar bifreiðar. Bandalagið sér ekki fram á annað en að rekstrarkostnaður bifreiða muni aukast umtalsvert. 2. minni hluti bendir á að í fjárlagafrumvarpinu er lögð til lækkun á uppbót og styrkjum vegna bílakaupa fatlaðra um 15,7%.
    Varað hefur verið við því að ganga of hart fram í hækkunum á sköttum, þær bitni á heimilum og fyrirtækjum og muni jafnvel á endanum leiða til þess að skattstofnarnir minnki, vegna þess að neðanjarðarhagkerfið eflist, menn fara að svíkja undan skatti. Það er augljóst að þær breytingar sem hafa verið gerðar og þær hækkanir sem eru nú lagðar til á álögum á áfengi og tóbak leiða til þess að heimabrugg og smygl eykst. Þetta kemur m.a. fram í umsögn ÁTVR um frumvarpið þar sem segir: „ÁTVR telur að skattlagning á áfengi sé komin að þolmörkum og að hætta sé á að salan á áfengi færist frá ÁTVR í hendur smyglara og bruggara. Þessi þróun virðist þegar hafin í vodka.“ Sambærileg athugasemd barst frá Samtökum ferðaþjónustunnar en samtökin telja þá hækkun sem sé boðuð á áfengisgjaldi, og bættist við samanlagða hækkun upp á 40% frá hruni, muni að mestu skila „öflugri heimilisiðnaði og neðanjarðarsölu á áfengi. Minnkandi velta mun skila sér í minni umsvifum og fækkun starfsfólks á veitingastöðum. SAF telja að lækkun áfengisgjalds muni minnka neðanjarðarstarfsemi, efla opinbera sölu á áfengi og samtímis auka tekjur ríkissjóðs.“
    Til að efla tekjur hins opinbera og fjölga störfum í íslensku samfélagi er nauðsynlegt að í líta til eftirtalinna þátta:
          skattlagningu greiðslna í séreignarlífeyrissparnað,
          aukningu í fiskveiðiheimildum,
          örvun erlendra fjárfestinga í stað þess að bregða fyrir þær fætinum,
          nýtingu orkuauðlinda til atvinnusköpunar,
          eflingu innlendar matvælaframleiðslu,
          lækka stýrivexti Seðlabanka Íslands enn frekar.
    Framvinda efnahagsmála og dökkar horfur í þeim efnum hljóta að vekja upp spurningar hvort stefnan sé rétt. Ljóst er að margt í efnahagsstefnunni byggist á samkomulagi sem var gert við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn á sínum tíma. Mikilvægt er að sú stefna verði endurskoðuð hið fyrsta. 2. minni hluti telur dapurlegt að ríkisstjórnin vegi með þessum hætti að afkomu þeirra hópa í samfélaginu sem mega síst við því, afkomu barnafólks, millitekjufólks en þó sérstaklega lágtekjufólks, öryrkja og aldraðra. 2. minni hluti óttast að síauknar hækkanir á sköttum muni auka fólksflótta frá landinu en það er því miður staðreynd að um 10 manns flytjast burt frá landinu á dag.

Alþingi, 16. des. 2010.



Birkir Jón Jónsson.





Fylgiskjal.



Álit



um 1. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 2011, sbr. sundurliðun 1, og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.

Frá 2. minni hluta efnahags- og skattanefndar.



    Tekjuhlið fjárlagafrumvarps ársins 2010 stenst því miður ekki miðað við þær forsendur sem frumvarpið fól í sér við framlagningu þess. Hagstofa Íslands, OECD, Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa öll bent á verri efnahagshorfur á árinu 2011 sem helgast af rangri stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Hagstofan hefur lækkað spá sína um hagvöxt á næsta ári úr 3,2% í 1,9%. Slíkur samdráttur mun þýða hátt í 20 milljarða minni umsvif í efnahagskerfinu. Um helmingur þessarar upphæðar hefði átt að renna í formi tekna til ríkis og sveitarfélaga. Efnahags- og skattanefnd hefur langt í frá lokið sinni yfirferð yfir tekjuforsendur fjárlagaársins enda er umræðu um fyrri bandorm ríkisstjórnarinnar ekki lokið (þskj. 217, 200. mál) og seinni bandormurinn hefur ekki verið ræddur við 1. umræðu í þinginu. Þetta vinnufyrirkomulag er gagnrýnisvert – enda á efnahags- og skattanefnd að gegna veigamiklu hlutverki við ákvörðun fjárlaga ársins 2011.
    Í nýlegri spá framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er athygli vakin á því að landsframleiðslan hafi dregist saman um 6,8% á árinu 2009 og að hún muni dragast saman um 3,5% á þessu ári. Ekki séu uppi skýr teikn um hvort efnahagsbatinn sé hafinn en í opinberri umræðu hefur því verið haldið fram að viðsnúningur hafi orðið á öðrum helmingi þessa árs. Sérstökum áhyggjum valdi mikil skuldsetning einkageirans sem komið hefur fram í miklum samdrætti einkaneyslu, fjárfestingu og atvinnuleysi. Vegna umfangs skuldavandans og flækjustigs við úrlausn hans búist framkvæmdastjórnin við því að efnahagsbatinn verði mun hægari en Hagstofan gerir ráð fyrir. Því má svo við bæta að síbreytilegt skattaumhverfi með hækkandi sköttum hefur að mati framkvæmdastjórnarinnar haft verulega neikvæð áhrif á fjárfestingu sem mikil þörf er á við núverandi aðstæður.
    Eftir yfirferð með nokkrum hagsmunaaðilum hefur komið í ljós að niðurskurður og skattahækkanir eru mun meiri en upphafleg kynning ríkisstjórnarinnar gaf í skyn. Áætlaðar skattahækkanir með fyrri bandormi gera ráð fyrir 10,3 milljörðum í auknar skatttekjur, þar af er gert ráð fyrir að skattlagning af úttekt séreignarlífeyrissparnaðar muni skila ríkissjóði 3 milljörðum króna aukalega vegna rýmri heimilda almennings til útgreiðslu séreignarsparnaðar. Sá rökstuðningur ríkisstjórnarinnar um að ekki megi skattleggja inngreiðslur af séreignarsparnaði, sem þýði í raun „lántöku inn í framtíðina“, fellur með þessari aðgerð þar sem almenningur er í dag að greiða fyrir áætlaðan tíma skatta af sínum sparnaði. Rétt er að benda á að hér er ekkert um neitt sérstakt góðverk ríkisstjórnarinnar að ræða þar sem almenningur gengur nú hratt á sinn sparnað. Því miður hafa mörg heimili nú þegar klárað allan sinn séreignarsparnað til að ná endum saman. Hver verður staða þeirra heimila á næsta ári?
    Ofan á þessar skattahækkanir verða bótaflokkar almannatryggingakerfisins ekki uppfærðir í samræmi við verðlag. Einnig verða barna-, vaxta- og húsaleigubætur skertar. Auk þess verða skattleysismörkin ekki uppfærð skv. samkomulagi sem ríkisstjórnin gerði við launafólk og spara það útgjöld ríkissjóðs um 8 milljarða króna. Þessi frysting veldur því að lágtekjufólk mun verða fyrir enn frekari kjaraskerðingu en ella. Þessi niðurskurður ásamt skattahækkunum vegur á milli 24–25 milljörðum kr.. Að auki hækka skuldir heimilanna með gjalda- og skattahækkunum um 2,4 milljarða kr. Helmingur heimila hefur átt erfitt með að ná endum saman sl. 12 mánuði skv. könnun Hagstofunnar. Hver verður staða heimilanna á árinu 2011 ef enn á að hækka skatta, gjöld og skerða bætur um leið?
    Stórfelldar skattahækkanir og blóðugur niðurskurður er ekki leiðin út úr kreppunni. Ríkisstjórnin heldur enn áfram á þeirri leið án þess að huga að því að breikka skattstofna. Ef fram heldur sem horfir mun kreppan dýpka til muna og stefnubreytingar er þörf. T.d. hefur ríkisstjórn Írlands gefið út að á næsta ári verður að taka erfiðar ákvarðanir í efnahagsmálum, þó kemur ekki til greina að hækka skatta á atvinnulífið. Í því atvinnuleysi sem ríkir í dag er ekki hægt að auka álögur á íslenskt atvinnulíf. Rúmlega 13.000 Íslendingar eru án atvinnu auk þess sem 10 Íslendingar flytja úr landi á hverjum degi. Frá hruni hafa 22.000 störf glatast í íslensku samfélagi. Meðfylgjandi álitinu er minnisblað frá Samtökum atvinnulífsins sem sýnir í raun hvað stjórnvöld áætluðu að hærri skattar myndu skila sér í auknum tekjum ríkissjóðs – en í raun hafa áætlaðar tekjur ekki skilað sér.
    Í þessu ljósi er nauðsynlegt að skoða eftirtalda þætti til að auka tekjur ríkis, sveitarfélaga ásamt því að fjölga störfum í samfélaginu:
          Að inngreiðslur séreignarlífeyrissjóða verði skattlagðar.
          Að auka fiskveiðiheimildir.
          Að örva erlenda fjárfestingu í stað andúðar.
          Nýta orkuauðlindirnar til atvinnusköpunar.
          Að efla innlenda matvælaframleiðslu.
    Með hærri sköttum og gjöldum munu lán heimilanna hækka enn frekar. Skuldavandi heimilanna er orðinn að alvarlegum greiðsluvanda sem hamlar innlendri eftirspurn. Það mun leiða til minni hagvaxtar og tekna ríkissjóðs og sveitarfélaga. Þannig hefur skuldavandi heimilanna þau áhrif á kreppuna að hún dýpkar og lengist til mun en ella þyrfti. Lækkun vaxtabóta, barnabóta, húsaleigubóta ásamt bóta í almannatryggingakerfinu mun leiða til enn minni eftirspurnar í hagkerfinu og enn meiri vanda þeirra heimila sem hvað lakast standa í dag.
    Það sem sérstaka athygli vekur eru ólíkar forsendur um tekjuþróun næsta árs. Í tekjuhlið kemur fram að gert er ráð fyrir hækkun launa um rúm 5% sem eykur tekjur ríkissjóðs verulega. Í útgjöldum er hins vegar gert ráð fyrir að launhækkanir opinberra starfsmanna verði engar. Hér er um að ræða ótrúverðuga spá og sýnir enn og aftur fram á óraunsæi í áætlanagerð ríkisstjórnarinnar.
    Neðanjarðarkerfið blómstrar um þessar mundir. Með hækkandi sköttum og frekari tekjutengingum eykst enn frekar hvatinn til að stunda svarta vinnu, slíkt færist verulega í aukana sem færir ríkissjóði engar tekjur. Enn á að hækka álögur á áfengi og tóbak sem hefur nú þegar sýnt að leiði til minni eftirspurnar eftir þeirri vöru á ÁTVR. Meira smygl og umfangsmikil bruggframleiðsla veldur því að umsvif ÁTVR minnka verulega og tekjur ríkissjóðs samsvarandi. Í framhaldinu þarf væntanlega að fækka útsölustöðum ÁTVR. Hér er um glórulausa stefnu að ræða sem mun verða ríkulegur áburður á neðanjarðarhagkerfið og vafalaust leiða til aukinnar notkunnar á ólöglegum vímuefnagjöfum sem nú þegar eru orðnir ódýrari í innkaupum. Fram hefur komið að afskipti lögreglunnar af landaframleiðslu hafi nær fjórfaldast í ár miðað við árið 2009. Þetta er skýr vísbending þess að stefna stjórnvalda er glórulaus.
    Búið er að hækka skatta á almenning án þess að gripið sé til aðgerða til að leiðrétta skuldir þeirra. Stökkbreyttar skuldir er ekki sök hins venjulega Íslendings – þvert á móti. Þeir aðilar sem buðu almenningi erlend lán, stóru bankarnir þrír, tóku á sama tíma stöðu gegn íslensku krónunni um leið og gengistryggðu lánin voru veitt. Er réttlætið það að heimilin verði að greiða allan þann reikning?
    Síðan er vandséð hvernig hægt er að skila inn umsögn um tekjuhliðina í ljósi þess að seinni bandormurinn er ekki kominn fram. Ekki er heldur búið að klára umfjöllun um bandorm hinn fyrri.

Alþingi, 2. des. 2010.

Birkir Jón Jónsson.


Fskj.

Samtök atvinnulífsins:

Áætlun um skatttekjur ríkissjóðs árið 2010 samkvæmt fjárlögum 2010
og fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011.

(19. nóvember 2010.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.