Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 591, 139. löggjafarþing 108. mál: gjaldþrotaskipti (fyrningarfrestur).
Lög nr. 142 22. desember 2010.

Lög um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum (fyrningarfrestur).


1. gr.

     Í stað 2. mgr. 165. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Þrotamaðurinn ber ábyrgð á skuldum sínum sem fást ekki greiddar við gjaldþrotaskiptin. Hafi kröfu verið lýst við gjaldþrotaskiptin og ekki fengist greidd við þau er fyrningu slitið gagnvart þrotamanninum og byrjar þá nýr tveggja ára fyrningarfrestur að líða á þeim degi sem skiptunum er lokið. Þótt kröfu hafi ekki verið lýst við skiptin gildir þessi sami fyrningarfrestur um hana, enda fyrnist hún ekki á skemmri tíma.
     Fyrningu krafna sem um ræðir í 2. mgr. verður aðeins slitið á ný með því að kröfuhafi höfði innan fyrningarfrests mál á hendur þrotamanninum og fái þar dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum. Slíka viðurkenningu skal því aðeins veita með dómi að kröfuhafi sýni fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu, svo og að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma, en að gengnum slíkum dómi gilda almennar reglur um fyrningu hennar. Hafi kröfuhafi fengið tryggingarréttindi fyrir kröfu sinni í eign þrotamannsins áður en frestur skv. 2. mgr. var á enda fyrnist krafa hans þó ekki að því leyti sem fullnusta fæst á henni á síðari stigum vegna þeirra tryggingarréttinda.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og taka þau til krafna við gjaldþrotaskipti sem er ólokið. Hafi skiptum á þrotabúi lokið fyrir gildistöku laga þessara fyrnast kröfur, sem þar fengust ekki greiddar og ekki eru fyrndar, á tveimur árum frá gildistöku laganna nema skemmri tími standi eftir af fyrningarfresti. Fyrningu þessara krafna verður aðeins slitið eftir reglum þessara laga.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Lög þessi skulu endurskoðuð innan fjögurra ára frá gildistöku.

Samþykkt á Alþingi 17. desember 2010.