Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 263. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 619  —  263. mál.
Svarfjármálaráðherra við fyrirspurn Kristjáns Þórs Júlíussonar um starfsmannahald og aðkeypta þjónustu hjá ráðuneytinu.

     1.      Hvaða breytingar hafa orðið á starfsmannahaldi í ráðuneytinu frá 1. janúar 2009 til 1. október 2010? Óskað er upplýsinga um stöðugildi, starfsheiti, kynjahlutfall, launakjör og heildarlaunagreiðslur.
    Nokkrar breytingar urðu á starfsmannahaldi ráðuneytisins á tímabilinu 1. janúar 2009 til 1. október 2010. Í eftirfarandi upptalningu er undanskilinn tilflutningur starfsfólks í tengslum við flutning efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins annars vegar og þjóðlendumál hins vegar. Einnig eru undanskildar tímabundnar ráðningar starfsfólks til afleysinga og tilflutningur starfsfólks milli skrifstofa fjármálaráðuneytisins. Í febrúar 2009 setti fjármálaráðherra ráðuneytisstjóra tímabundið og í júní sama ár áttu ráðuneytisstjórar fjármálaráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis sætaskipti. Við þann tilflutning lét settur ráðuneytisstjóri af störfum. Skipaður var skrifstofustjóri á lagasvið fjármálaráðuneytisins í desember. Ráðnir voru ellefu sérfræðingar á tímabilinu. Þrír voru ráðnir á fjárreiðu- og eignaskrifstofu, tveir á fjárlagaskrifstofu, einn var ráðinn á tekju- og skattaskrifstofu, þrír voru ráðnir til yfirstjórnar og einn á rekstrar- og upplýsingasvið. Þá stóðu þrjú ráðuneyti að ráðningu eins sérfræðings til þess að sinna verkefnum þvert á ráðuneytin.
    Í fjármálaráðuneytinu starfa nú 64 starfsmenn í 63,7 stöðugildum. Um er að ræða ráðuneytisstjóra, sex skrifstofustjóra, 45 sérfræðinga, fimm ritara, einn fjölmiðlafulltrúa, fimm afgreiðslufulltrúa og einn bílstjóra. Alls starfa 32 konur og 32 karlar í ráðuneytinu. Launakostnaður með launatengdum gjöldum fyrir umrætt tímabil er samtals 877.737 þús. kr.

     2.      Hvernig hefur ráðuneytið útfært sparnaðartillögu ríkisstjórnarinnar í launagjöldum?
    Laun starfsmanna í ráðuneytinu voru lækkuð í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 18. ágúst 2009 um sparnaðaraðgerðir. Lækkunin nam 3–10% og náði til þeirra starfsmanna sem höfðu heildarlaun yfir 400 þús. kr. á mánuði. Laun þeirra sem mest báru úr býtum lækkaði hlutfallslega meira en þeirra sem lægri laun höfðu. Lækkunin var framkvæmd þannig að mánaðarlaun héldust óbreytt, en föstum yfirvinnutímum og einingum var fækkað. Starfsmönnum var tilkynnt um lækkunina á sérstökum starfsmannafundi. Jafnframt var hverjum starfsmanni afhent bréf, þremur mánuðum áður en ákvörðunin tók gildi, sem innihélt útfærslu á launasamsetningu hlutaðeigandi starfsmanns.

     3.      Hvaða sérfræðiþjónusta var keypt á tímabilinu 1. janúar 2009 til 1. október 2010 og í hvaða tilgangi, greint eftir nöfnum verksala og fjárhæðum?
    Í eftirfarandi töflum eru upplýsingar um sérfræðikostnað fyrir umrætt tímabil, greint eftir nöfnum verksala, fjárhæðum og tilgangi. Í fyrri töflunni er bókfærður kostnaður á aðalskrifstofu ráðuneytisins og í seinni töflunni er bókfærður kostnaður á safnlið ráðuneytisins. Þar er færður kostnaður vegna ýmissa tilfallandi verkefna, þ.m.t. talið samninga um Icesave, málefni banka og sparisjóða, þjóðlendumál og upplýsingatæknimál.
Sérfræðikostnaður aðalskrifstofu fjármálaráðuneytisins.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Sérfræðikostnaður á safnlið fjármálaráðuneytisins, 09-999 Ýmislegt.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
     4.      Kannaði ráðuneytið hvort unnt væri að leysa þessi sérfræðiverkefni innan ríkiskerfisins áður en þjónustan var keypt og ef svo er, til hvaða ríkisaðila var leitað í hverju tilfelli fyrir sig?
    Algengast er að fela sérfræðingum fjármálaráðuneytisins eða stofnana ráðuneytisins sérfræðiverkefni á ábyrgðarsviði fjármálaráðuneytisins. Jafnframt er algengt að fela starfsmönnum verkefni sem ekki er hægt að fella beint undir verksvið ráðuneytisins, t.d. ýmis tilfallandi verkefni. Hins vegar hefur á umræddu tímabili komið upp nokkur fjöldi mála þar sem talin er þörf á utanaðkomandi sérþekkingu og ráðgjöf, m.a. til þess að tryggja samráð og aðkomu hlutlausra aðila. Mest er þessi utanaðkomandi ráðgjöf í tengslum við efnahagshrunið, Icesave-viðræðurnar, uppgjör milli gömlu og nýja bankanna og málefni sparisjóða. Í veigamiklum málum hefur m.a. verið leitað til erlendra aðila til þess að tryggja alþjóðlega sérfræðiþekkingu og reynslu á viðkomandi sviðum. Eðlilegt er að leita til utanaðkomandi sérfræðinga og ráðgjafa við úrlausn slíkra verkefna og það hefur verið metið svo að ekki sé unnt að leysa þau innan ríkiskerfisins.