Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 400. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 635  —  400. mál.




Beiðni um skýrslu



frá félags- og tryggingamálaráðherra um stöðu skuldara á Norðurlöndum.

Frá Róbert Marshall, Ólafi Þór Gunnarssyni, Þór Saari, Birgi Ármannssyni,
Vigdísi Hauksdóttur, Þráni Bertelssyni, Valgerði Bjarnadóttur,
Árna Þór Sigurðssyni, Atla Gíslasyni og Sigurði Kára Kristjánssyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að félags- og tryggingamálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um stöðu skuldara á Norðurlöndum og úrræði sem þeim standa til boða. Meðal þess sem fjallað verði um í skýrslunni eru eftirtalin atriði:
     a.      Tegundir úrræða sem eru í boði fyrir þá sem lenda í greiðsluerfiðleikum, sundurliðað eftir því hvort þau eru tímabundin eða ekki, og hversu lengi þau úrræði hafa verið í boði og hvernig þau hafa reynst.
     b.      Hverjir hafa nýtt sér úrræði vegna greiðsluerfiðleika, sundurliðað eftir fjölda og hvort um er að ræða einstaklinga eða einstaklinga í rekstri með ótakmarkaða ábyrgð, sundurliðað m.a. eftir aldri, félagslegum aðstæðum og fjölskyldustærð.
     c.      Skilyrði fyrir nýtingu úrræðanna, svo sem skilyrði um lögheimili og búsetu, ríkisborgararétt eða að skuldir séu ekki tengdar atvinnurekstri.
     d.      Hvort sambærileg embætti við umboðsmann skuldara eru starfrækt og ef svo er, hversu lengi þau hafa verið starfrækt. Hver eru verkefni embættanna, málafjöldi og afgreiðslutími?
     e.      Helstu ástæður þess að menn leita úrræðanna, t.d. félagslegar aðstæður, veikindi, atvinnumissir, efnahagslegar aðstæður í landinu.
     f.      Upplýsingar um þær reglur sem gilda um upphaf, lögvernd, innheimtuvernd og lok krafna.
     g.      Upplýsingar um reglur um verðtryggingu lána, hversu algeng þau eru og hvaða vexti lán bera.

Greinargerð.


    Flutningsmenn þessarar skýrslubeiðni telja nauðsynlegt að gerð verði úttekt á stöðu skuldara á Norðurlöndum til þess að unnt verði m.a. að bera saman og greina hvort og þá hvaða munur er á henni. Meðal þess sem gerð verði ítarleg grein fyrir í skýrslunni er hvaða úrræði eru í boði fyrir einstaklinga í greiðsluerfiðleikum, sem og einstaklinga sem bera ótakmarkaða ábyrgð á atvinnurekstri, hversu lengi þau hafa verið í boði og hvernig þau hafa reynst. Flutningsmenn telja einnig mikilvægt að fram komi upplýsingar um hversu hátt hlutfall þeirra sem leita úrræðanna fær lyktir sinna mála eða hvort þeir þurfa að nýta sér frekari úrræði.
    Flutningsmenn telja nauðsynlegt að fram komi hver eru almenn skilyrði fyrir úrræðunum, t.d. varðandi lögheimili, búsetu og ríkisborgararétt, einnig hversu langt umsóknarferlið er og hversu lengi úrræðin vara. Þá sé rétt að skoða hver framfærsluviðmið eru.
    Þá er þess óskað að skoðað verði hvort embætti sambærileg við umboðsmann skuldara eru starfrækt, hver reynslan af slíkum embættum hefur verið, hvaða verkefnum þau sinna og hvaða vald- og eða eftirlitsheimildir þau hafa.
    Flutningsmenn telja brýnt að skoðað verði hvernig kröfur stofnast, hvernig lögvernd er háttað, hvort takmörk eru á innheimtukostnaði og hvernig kröfum lýkur. Í því sambandi verði m.a. skoðað hvernig fyrningu kröfuréttinda er háttað og fullnustugerðum. Þá telja flutningsmenn rétt að í skýrslunni komi einnig fram upplýsingar um það hvort skuldarar hafa heimild til að láta fasteign sína af hendi sem fullnustu þeirra veðkrafna sem á henni hvíla, hvernig slíku ferli er háttað og hverjar eru afleiðingar þess.
    Auk framangreinds er þess m.a. óskað að skoðaðar verði reglur um verðtryggingu lána, hversu algeng þau eru og hvaða vexti lán bera.