Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 405. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 656  —  405. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögreglulögum, nr. 90/1996.

Flm.: Róbert Marshall, Árni Þór Sigurðsson, Birgir Ármannsson, Valgerður Bjarnadóttir, Vigdís Hauksdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Sigurður Kári Kristjánsson, Þráinn Bertelsson.

1. gr.

    4. mgr. 38. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 49/2000, orðast svo:
    Nám við grunnámsdeild Lögregluskóla ríkisins skiptist í bóknám og starfsnám. Heildarlengd námsins skal vera að lágmarki tólf mánuðir og þar af skulu a.m.k. fjórir mánuðir vera starfsnám hjá lögreglunni. Lögregluskóli ríkisins greiðir lögreglunemum mánaðarlaun í starfsnámi þeirra en viðkomandi lögreglustjóri vaktaálag og annan kostnað sem til fellur. Bóknámið er ólaunað.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Á 138. löggjafarþingi var lagt fram frumvarp um nokkrar skipulagsbreytingar í lögreglu (586. mál, þskj. 977). Var því vísað til allsherjarnefndar sem m.a. kallaði eftir umsögnum um það. Frumvarpið var hins vegar ekki afgreitt frá þinginu.
    Á meðal þess sem lagt var til í umræddu frumvarpi voru breytingar á 38. gr. lögreglulaga sem fjallar um inntöku nýnema og námstilhögun í Lögregluskóla ríkisins. Nefndin telur rétt að flytja tillögu um breytingu á þessu ákvæði sérstaklega þar sem slík breyting er forsenda þess að unnt verði að taka inn nýnema á næsta ári. Ákvæðinu hefur verið breytt nokkuð frá því sem lagt var til í því frumvarpi sem vísað er til hér að framan og lýsingin á fyrirkomulagi námsins gerð opnari og almennari.
    Lagt er til að breyting verði gerð á fyrirkomulagi launagreiðslna til lögreglunema sem stunda nám við grunnnámsdeild Lögregluskóla ríkisins frá því sem verið hefur frá setningu lögreglulaga. Námið á fyrstu önninni í skólanum er ólaunað en hefur verið lánshæft samkvæmt reglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN). Samkvæmt gildandi lögum skal ríkislögreglustjóri sjá þeim nemum sem standast próf á fyrstu námsönninni í skólanum fyrir launaðri starfsþjálfun hjá lögreglunni. Skólinn hefur skipulagt starfsþjálfunina með samkomulagi við lögregluembætti sem hafa tekið nemendur í starfsþjálfun og greitt þeim laun samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Landssambands lögreglumanna (LL). Fjárveiting hefur hins vegar aldrei verið veitt sérstaklega á fjárlögum til að standa straum af launakostnaði vegna starfsþjálfunar lögreglunema. Á lokaönn námsins hafa lögreglunemarnir fengið laun sem Lögregluskóli ríkisins greiðir.
    Rekstur lögregluembætta er erfiður og fyrrgreint fyrirkomulag gengur ekki lengur vegna fjárskorts auk þess sem ávallt hefur verið sá faglegi galli á fyrirkomulaginu að fremur hefur verið litið á starfsþjálfunarnema sem afleysingamenn en nemendur sem á hinn bóginn hefur leitt til þess að Lögregluskóli ríkisins hefur átt erfitt með að fylgja eftir námskrá starfsþjálfunarannarinnar. Eðlilegt má telja að lögreglunemar fjármagni sitt nám með námslánum eins og aðrir nemar að undanskildum þeim tíma þegar þeir eru í starfsnámi.
    Undanfarin ár hefur nám við Lögregluskóla ríkisins þróast mikið. Í grófum dráttum má segja að smám saman hafi verið horfið frá fyrirkomulagi þar sem fastráðnir lögreglumenn voru sendir í lögregluskólann á fullum launum (og eftir atvikum dagpeningum) til þess eins að uppfylla þarfir lögreglunnar sem vinnuveitanda til að efla starfsmenn sína til daglegra lögreglustarfa. Þess í stað hefur skólinn í vaxandi mæli tekið mið af skólastarfi almennt þótt enn sé mjög tekið mið af þörfum lögreglunnar við námið. Um leið hafa gæði námsins farið vaxandi undanfarin ár. Hefur enda ásóknin í skólann verið mikil þrátt fyrir að dregið hafi verið úr greiðslum fyrir nemendur. Þess verður vart að nokkur hluti nemenda sækir sér menntun í skólann án þess að hyggja á starf í lögreglu eftir útskrift og má hafa það til marks um að menntun í skólanum þykir hafa nokkurt almennt gildi og nýtast víða í atvinnulífinu.
    Rétt þykir að stefna að því að skólinn sé í stöðugum rekstri og útskrifi nógu marga lögreglumenn á hverju ári til að uppfylla þarfir lögreglunnar til lengri tíma. Reynslan sýnir að þörf lögreglunnar fyrir nýja lögreglumenn sveiflast mjög á milli ára og varasamt er að afleggja skólahald um lengri eða skemmri tíma vegna sveiflna.
    Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið og með tilliti til hagræðingar og betri nýtingar fjármuna er talið rétt og eðlilegt að breyta núverandi fyrirkomulagi varðandi launagreiðslur vegna grunnnámsnema við Lögregluskóla ríkisins. Áfram er reiknað með að skólinn sjái nemendum fyrir starfsþjálfun í lögreglunni í a.m.k. fjóra mánuði og greiði þá mánaðarlaun þeirra. Hins vegar verði hætt að greiða lögreglunemum laun á meðan þeir stunda bóknám, en gert er ráð fyrir að það verði lánshæft nám samkvæmt reglum LÍN eins og bóknámið á fyrstu námsönn er nú. Til aukins sveigjanleika er skipulag námsins í þrjár annir fellt út úr lagatextanum.
    Mikilvægt er að lögregluskólinn geti sem allra fyrst tekið inn nýnema á grundvelli nýrra reglna um fyrirkomulag námsins, en ekki eru fjárhagslegar forsendur til þess að taka nemendur inn í launað nám. Er því nauðsynlegt að breytingarnar taki þegar gildi.